138. löggjafarþing — 22. fundur
 10. nóvember 2009.
fyrirhugaðar skattahækkanir.

[13:41]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að búið er að leka miklum og merkilegum upplýsingum um verulegar skattahækkanir. Þess vegna er nauðsynlegt að fá að draga það fram hvaða viðhorf hæstv. iðnaðarráðherra hefur til þeirra skattahækkana sem boðaðar eru. Það er mikilvægt að fá hér skýrt fram hvort hún hafi vitað af þeim. Er hún búin að samþykkja að orkuskatturinn verði 20 aurar á kílóvattstund eða er sú samsetning sem við heyrum núna í fjölmiðlum fantasíumatseðill iðnaðarráðherra eins og hún talaði um að ætti að setja fram þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt? Er þetta fantasíumatseðill iðnaðarráðherra í þessu máli?

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem tók á sunnudaginn á móti kröfugerð Suðurnesjamanna sem vilja atvinnu, vilja skýr svör frá ríkisstjórninni: Er þetta svarið, eru þetta skilaboð ríkisstjórnarinnar til Suðurnesjamanna? 1.600 manns eru atvinnulausir á Suðurnesjum. Eru þetta skilaboðin til fjölskyldnanna, til fyrirtækjanna? Þessar skattahækkanir fara beint út í verðlagið og níðast þá um leið á buddum fjölskyldnanna í landinu. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem er líka byggðaráðherra: Er þetta svarið til landsbyggðarinnar? Það er verið að níðast á sjávarútveginum, það er verið að níðast á landbúnaðinum með þessum leiðum, hvað þá ferðaþjónustunni. Þið vitið að hækkun á kolefnisgjaldinu mun til að mynda fara beint út í eldsneyti, m.a. á flugvélar sem þar af leiðandi hefur hækkanir í för með sér á farmiðum o.fl. Það þýðir ekki að setja einhverja fimmkalla í markaðssetningu á ferðaþjónustunni ef menn ætla síðan að koma í veg fyrir að ferðamenn geti ferðast um landið.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra: Er þetta svar iðnaðarráðherra til Suðurnesjamanna? Er þetta svarið til atvinnulausra í landinu? Er þetta fantasíumatseðill hæstv. iðnaðarráðherra?



[13:43]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fantasíukenndu spurningu sem fór ansi víða og væri áhugavert að ræða hana í nánari smáatriðum, ýmsa þætti sem hv. þingmaður kom inn á. Á föstudaginn var kom fram í máli forsætisráðherra að fjármálaráðuneytið býst við því að komin sé upp ný staða vegna minni samdráttar, minna atvinnuleysis, lægra framlags ríkisins til nýju bankanna og minni vaxtagjalda. Reiknað er með að aðlögunarþörf ríkissjóðs minnki um eina 20 milljarða kr. á næsta ári og verði þar af leiðandi, hvað skattana varðar, 52 milljarðar kr. í stað 72 milljarða kr. Þetta eru jákvæðar fréttir og þær þýða að ríkið getur dregið verulega úr nauðsynlegum skattahækkunum sem þessu nemur og það skiptir svo sannarlega máli fyrir heimili og atvinnulíf. Við búum við þann ískalda raunveruleika að við ætlum að loka fjárlagagatinu hratt og því hefur þessi ríkisstjórn lýst oftar en einu sinni — og þá þarf því miður að grípa til skattahækkana. Við erum að reyna að gera það eins mildilega og hægt er með því að koma með skatta sem eru lágir víða í stað þess að íþyngja einstaka atvinnugreinum eða einstaka hópum og stéttum.

Það er verið að vinna þessar skattahugmyndir og enn er ekkert ákveðið. Eins og hv. þingmaður kom inn á var einhver leki í fjölmiðlum (Gripið fram í.) og ég veit ekki einu sinni hvort 20 aurar verði áfram á orkuna en það er ljóst að hækkanir á sköttum verða minni en til stóð. (Gripið fram í: Ert þú með í ráðum?) Hv. þingmaður vill vita hvort ég sé með í ráðum. Að sjálfsögðu er ég það, að sjálfsögðu.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þú vissir ekki …) Það er þannig, eins og fram kom, að menn hafa reynt að snúa út úr máli mínu. Þegar ég fjallaði um orkuskattinn á sínum tíma hafði ég ekki séð þessa einu setningu í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu þar sem stóð að það kæmi til greina að setja krónu á hverja kílóvattstund. Það var fantasían sem ég var að tala um vegna þess að það var aldrei inni í myndinni og hefði aldrei getað orðið veruleiki. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) Hv. þingmenn geta leikið sér að orðum, en ég held að þeir ættu frekar að einhenda sér í það að koma með okkur í þessa vinnu og taka til eftir sjálfa sig sem ekki veitir af. (Gripið fram í: Heyr, heyr, heyr.)



[13:46]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég skil hæstv. iðnaðarráðherra þannig að hún hafi loksins fengið að vera með í ráðum. Hún segir: 47% skattur er bara hóflegur skattur á fjölskyldurnar í landinu. En það er ágætt að fá það á hreint að iðnaðarráðherra var með í ráðum núna og það er nýbreytni.

Það sem ég vil sérstaklega draga fram er að iðnaðarráðherra er líka ferðamálaráðherra. Hún leggur þessar álögur á landsbyggðina og á ferðaþjónustuna og fyrir hennar tilstuðlan eru þessar leiðir farnar. Ég vara sérstaklega við því að þessar skattahækkanir munu stuðla að því að við munum ekki komast fyrr út úr atvinnuleysinu, við munum ekki fara að byggja hér upp fyrr eins og til stóð og ég bendi sérstaklega á það að við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögur um hvernig hægt er að leysa þetta. Við segjum: Við getum farið aðrar leiðir en skattahækkunarleiðir. Þess vegna segi ég: Þetta er alger uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Þetta er uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarinnar í stað þess að skoða þær leiðir sem við sjálfstæðismenn höfum margoft rætt hér við litlar undirtektir ríkisstjórnarinnar.



[13:47]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur spyr ég um tilgang þessarar fyrirspurnar: Ætlar hv. þingmaður að reyna að draga það fram hvort ég sé með í ráðum eða ekki þegar verið er að taka ákvarðanir eður ei eða er hún að ræða málin efnislega? Auðvitað eru allir fagráðherrar með í ráðum þegar (Gripið fram í: Þú varst …) kemur að þeirra málaflokki. (Gripið fram í: Til hamingju með það.) Ég skýrði áðan, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður leyfir mér að klára, að það sem ég gagnrýndi á sínum tíma var það sem fram kom í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu. Það var frumhlaup sem var í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu og það hefur verið viðurkennt af fleiri ráðherrum en mér.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að umræðu um ferðaþjónustuna og landsbyggðina erum við að leggja í gríðarlegar fjárfestingar þegar kemur að nýfjárfestingu hér á landi (Gripið fram í.) og við erum líka að leggja í gríðarlegar nýfjárfestingar á næstunni hvað varðar uppbyggingu á ferðamannastöðum. Vinna hefur verið í gangi að undanförnu sem er bæði þverpólitísk og þverfagleg þegar kemur að ferðaþjónustunni, þá í því hvernig við getum aflað tekna til að fara í stórfellda uppbyggingu á ferðamannastöðum, áætlanagerð sem er nauðsynleg vegna þess gríðarlega fjölda ferðamanna sem er farinn að koma hingað til lands. Þetta er gert í sátt við ferðaþjónustuna, virðulegi forseti. (Gripið fram í.)