138. löggjafarþing — 22. fundur
 10. nóvember 2009.
innflutningur dýra, 1. umræða.
stjfrv., 166. mál. — Þskj. 185.

[15:15]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 185, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990 um innflutning á dýrum, með síðari breytingum. Með frumvarpi þessu eru áformaðar breytingar á lögum um innflutning á dýrum í því skyni að auðvelda og hraða erfðaframförum í svínarækt.

Tildrög frumvarpsins eru að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skipaði sérfræðinganefnd árið 2008 til þess að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt, m.a. með tilliti til hugsanlegs innflutnings á erfðaefni, með það að leiðarljósi að búgreinin verði sem best arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar og matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu nægilega tryggð.

Nefndin hefur gert að tillögu sinni að heimilað verði að flytja frosið svínasæði beint inn á bú hér á landi að uppfylltum nánar tilteknum kröfum um heilbrigði í útflutningslandi, útflutningsstöð og í því búi sem nýtir sæðið. Þá er einnig gert ráð fyrir einangrunartíma hér á landi svo ganga megi úr skugga um að viðsjárverðar breytingar hafi ekki orðið á svínum í útflutningslandi, þ.e. þaðan sem sæðið er fengið. Með frumvarpi þessu er farið að tillögu nefndarinnar.

Þá felur frumvarpið í sér að ákvörðunarvald um hvort heimila skuli innflutning er lagt til Matvælastofnunar en þá ákvörðun má síðan bera undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til úrskurðar.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu og fylgiskjals með því sem hefur m.a. að geyma kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins.

Ég legg auk þess til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.

Varðandi umsögn fjármálaráðuneytisins um kostnað, verði frumvarpið óbreytt að lögum, verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er ljóst að þarna eru miklir hagsmunir í húfi fyrir svínabændur okkar og svínakjötsframleiðslu hér á landi og þess vegna er talið mikilvægt að þetta frumvarp sé flutt.



[15:17]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að þetta frumvarp láti í sjálfu sér ekki mjög mikið yfir sér er engin spurning um að það getur haft talsverð áhrif og þetta mál varðar mjög mikla hagsmuni sem geta verið og eru hagsmunir svínaræktenda í landinu. Við skulum ekki gleyma því að svínaræktendur eru mjög mikilvægir framleiðendur á kjöti hér á landi og svínakjötsframleiðsla hefur jafnan farið vaxandi ár frá ári nú síðustu árin. Í athugasemdum við þetta frumvarp er vakin athygli á því að svín hafi verið hér haldin frá landnámstíð fram til ársins 1600, að því er talið er, og ég vil enn og aftur vekja athygli á þeim ágætu athugasemdum sem fylgja bæði þessu frumvarpi og því sem við ræddum áðan þar sem sagan er rakin ítarlega og varpað er ljósi á ýmsa hluti sem ég held að blasi kannski ekki við hverjum sem er við fyrstu sýn.

Það mál sem hér um ræðir á sér talsvert langan aðdraganda. Eins og menn þekkja kannski er það svo að til þess að geta stundað eðlilega og nauðsynlega kynbótastarfsemi í svínarækt í landinu eru flutt hingað til lands lifandi dýr sem eru, að ég hygg, frá Noregi. Þau hafa verið flutt í einangrunarstöðina í Hrísey og geymd þar um nokkurn tíma til þess að tryggja eðlilegar búfjárvarnir og koma í veg fyrir sjúkdómahættu. Að því búnu eru svínin flutt til viðkomandi búa og svínabændur hafa vakið athygli á því að þetta fyrirkomulag sé þeim mjög dýrt. Þeir hafa talið að hægt væri, án þess að valda neinni smithættu, að koma að þessum málum með öðrum og hagfelldari hætti. Þess vegna ræddu svínabændur það við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og mig sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Enn fremur komu þeir að máli við þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með ósk um að gerðar yrðu breytingar á lögum um innflutning dýra til þess að auðvelda innflutning á erfðaefni til landsins svo draga mætti úr kostnaði án þess að það ylli neinni sjúkdómahættu.

Þeirra upphaflega ósk var sú að heimilað yrði að flytja inn ófrosið sæði beint á býli. Valin yrðu út býli sem nytu trausts í þeim efnum þannig að alls öryggis væri gætt og auðvitað yrðu líka valdir þeir aðilar frá Noregi, sem um væri að ræða, af kostgæfni til að tryggja allt þetta og um leið að reyna að draga úr kostnaði.

Þetta eru hins vegar auðvitað mjög viðkvæm mál eins og við þekkjum öll, við þekkjum umræðuna sem hefur verið um innflutning á nýjum stofnum, t.d. nýju kúakyni sem hefur verið oft til umræðu bæði hér í þinginu og utan þingsins. Við þekkjum að innflutningur af þessu tagi er afar viðkvæmt mál og ég tek undir að það þarf að fara af mjög mikilli gætni með þessa hluti. Þrátt fyrir að mér væri kunnugt um að í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á sínum tíma væri mikill vilji til þess að bregðast jákvætt við þessari ábendingu svínaræktenda á þeim tíma varð það niðurstaða mín sem ráðherra að reyna að vinna þetta mál eins faglega og hægt væri. Þess vegna ákvað ég að setja á laggirnar nefnd sem skipuð var, eins og hér kemur fram, þremur mönnum, þeim Halldóri Runólfssyni yfirdýralækni, Vilhjálmi Svanssyni, dýralækni og sérfræðingi í veirufræði á Keldum, og Þorsteini Ólafssyni, dýralækni hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sem nú er sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, en allir þessir menn eru mjög fróðir á þessu sviði. Þeir fóru, eins og fram kemur í þessum athugasemdum, í ferð til Noregs til þess að kynna sér aðstæður og skoðuðu öll tiltæk gögn. Niðurstaða þeirra var sú, eins og fram kemur í þessum athugasemdum, að hægt væri að fara tvær leiðir sem eru tilgreindar hér í athugasemdunum og seinni leiðin er í raun og veru stofninn að því frumvarpi sem við ræðum hér.

Ég tel að það sé engin spurning um að þetta er a.m.k. skref í þá átt sem svínabændur lögðu til að farin væri. Hér er greinilega verið að reyna að feta mjög varfærna slóð og ég geri ekki athugasemdir við það nema síður sé. Hins vegar er það alveg ljóst mál að miðað við þær upphaflegu óskir sem komu fram frá svínabændum sem ég nefndi hér áðan er ekki verið að ganga alveg til móts við þau sjónarmið sem þá voru uppi. Þessi mál voru líka rædd á þeim forsendum hvort skynsamlegt væri að flytja inn frosið svínasæði eða djúpfryst svínasæði, eins og hérna er gert ráð fyrir. Mig rekur minni til þess að svínabændur á þeim tíma höfðu nokkrar áhyggjur af því að sú leið gæti verið bæði torsótt og nokkuð dýr fyrir bændur. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort kostnaður við þetta hafi verið metinn, ekki frá sjónarhóli ríkisins heldur fyrir bændur, hvort þetta muni leiða til þess að kostnaður við svínarækt muni minnka eða hvernig hann muni þróast að öðru leyti. Við þurfum líka að hafa tiltækar upplýsingar um hvernig að þessu máli verður staðið að öðru leyti, hvernig að því verður staðið gagnvart samskiptum okkar við Norðmenn. Í athugasemdunum er greinilega verið að tala um innflutning frá tiltekinni einangrunarsæðingarstöð í Noregi, Norsvin í Hamri, sem er sérstaklega nefnd hér í athugasemdunum. Við þurfum því að hafa nákvæmar upplýsingar um hvernig að þessu máli verður staðið og þær munum við væntanlega fá í meðhöndlun sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þegar að því kemur.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta. Við vitum að það skiptir mjög miklu máli í því erfiða rekstrarumhverfi sem núna er í kjötframleiðslu í landinu að við leitum allra leiða til að reyna að lækka kostnað. Ef það er þannig, eins og svínabændur nefndu, og ég hygg að þeir hafi gert það með fullgildum rökum, að hægt sé að lækka kostnað í svínarækt með því að geta stundað skipulagðari kynbótastarfsemi og gera þetta með ódýrari hætti, skiptir það mjög miklu máli.

Auðvitað er enginn að tala um að gera það á kostnað þeirra sjúkdómavarna sem við viljum hafa í heiðri þegar kemur að landbúnaði okkar. Þarna geta verið heilmiklir hagsmunir á ferðinni sem við þurfum því að fara mjög rækilega yfir í nefndinni þegar að þessu kemur, þó að ég sé ekki að boða að það verði óþarfa tafir í þessum efnum, en þetta er mál af því tagi sem við þurfum að skilja sem allra best til þess að geta metið hvort sú leið sem sérfræðingarnir þrír hafa lagt til sé sú eina rétta, sem vel má vera. Við þurfum a.m.k. að reyna að leggja okkar sjálfstæða mat á það eftir föngum í nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið fram. Ég tel mjög mikilvægt að hreyfa við þessu. Það voru mikil og gild rök sem svínabændur fluttu á sínum tíma með því að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði, þ.e. innflutning á lífdýrunum. Ég er sannfærður um að það var rétt mat á þeim tíma og er þess enn fullviss. Það má ekki fara í þessar breytingar nema að mjög vel yfirlögðu ráði og þá með því að leita til okkar færustu sérfræðinga sem ég hygg að hér hafi verið gert með þessum hætti. Þetta frumvarp er afraksturinn af því starfi.



[15:26]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veit hefur núverandi utanríkisráðherra um langan aldur verið áhugamaður um þá breytingu sem hér er loksins að sjá dagsins ljós. Ég tel að bæði núverandi ráðherra og fyrrverandi ráðherra hafi vandað þetta mál með þeim hætti og svo vel að það verði mjög erfitt og umhendis fyrir þingið að ætla að ganga gegn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég dreg að vísu ekki dul á það að ég veit að í nefndinni sitja margir sérfræðingar en ég dreg í efa að þeir hafi þekkingu og reynslu umfram þá þrjá sérfræðinga sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kvaddi til þess að meta þetta í ráðherratíð sinni.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi breyting geti, ef vel er á málum haldið og ég treysti svínabændum til þess, leitt til þess að framleiðni og samkeppnishæfni í þessari grein aukist verulega. Ég er ekki hræddur við frosið útlenskt svínasæði. Ég tel að sú tækni sem við búum yfir núna sé þess eðlis að það sé alveg nánast í gadda slegið að það eru ekki möguleikar á því að við munum fara yfir einhver mörk varðandi smitsjúkdóma eða dýraheilbrigði sem gætu verið óæskileg. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hér er um prinsippmál að ræða og ber fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra sem hafa fullan vara á sér gagnvart þessu, og vísa til yfirlýsinga sem frá mér komu þegar menn ræddu hér um innflutning á norsku kúakyni. Það sér á að núverandi utanríkisráðherra er alinn upp með góðum Mýramönnum, jafnvel framsóknarmönnum, í sveitinni, en ég tel samt sem áður að þetta sé heillaspor. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir dirfskuna sem hann sýnir með þessu og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir frumkvæðið sem hann á að þessu máli. (Gripið fram í.)



[15:28]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra hefur nú slegist í hópinn í því skjallbandalagi sem ég stofnaði til við hæstv. ráðherra í umræðum um fyrra mál. Ég hafði satt að segja búist við því að hæstv. utanríkisráðherra mundi taka til máls þegar við ræddum um lax- og silungsveiði. En annaðhvort er hæstv. ráðherra orðinn svona sporlatur að hann hafði sig ekki í það að taka til máls fyrr en við þetta mál eða þá að þetta er til marks um það, sem ég hygg frekar að sé skýringin, að hans áhugasvið er jafnvel enn þá víðtækara en hv. þingheimi hafði verið ljóst fram að þessu. Mér er hins vegar kunnugt um að hæstv. ráðherra var áhugasamur um þetta mál líkt og ég.

Til þess að taka af öll tvímæli dettur mér ekki í hug að það frumvarp sem hér er verið að leggja fram fari á nokkurn hátt yfir varfærnismörk varðandi smitsjúkdóma. Ég var með almennar hugleiðingar í þessu sambandi. Það sem ég var frekar að velta fyrir mér var einfaldlega sú staðreynd að á sínum tíma hófu svínabændur þetta mál með hugmyndum eða tillögum um að gengið yrði enn þá lengra, að heimilað yrði að flytja inn ófrosið svínasæði til þess einmitt ná því sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. aukinni framleiðni og að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Ég var einfaldlega að velta því fyrir mér hvort það yrði þá eitthvað frekar en það sem hér er verið að tala um.

Það er alveg rétt, þetta eru þeir sérfræðingar sem við völdum á sínum tíma til þessa starfa og gerðum það vegna þess að við höfum á þeim fullt traust, að sjálfsögðu. En það er hlutskipti nefndar eins og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fara yfir aðskiljanlega hluti, við verðum að hafa skoðun á mjög mörgum hlutum, hvort sem það er innflutningur á svínasæði eða furður íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Munum við þá auðvitað leita okkur sérfræðilegrar ráðgjafar og heyra sjónarmið m.a. svínabænda. Ég tel að nefndin muni gera það mjög vel undir ágætri verkstjórn hv. þm. Atla Gíslasonar.



[15:30]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel rétt að upplýsa skjallbandalag landbúnaðarins sem er í þessum sal að núverandi utanríkisráðherra er afkvæmi gullmedalíuhafa í kynbótafræðum á sviði hænsnaræktar. Ég er sem sagt á milli tektar og tvítugs alinn upp í hænsnahúsi, ef svo má segja, og ég hef auðvitað séð það á eigin skinni og kannski á það part í því að ég komst að lokum til manns fyrir atbeina foreldra minna að kynbætur á því sviði og innflutningur á erfðaefni með þeim hætti sem hér er lagður til olli gerbyltingu á sviði hænsnaræktar. Hann hefur algerlega gerbylt afkomu þeirrar greinar landbúnaðarins. En svo þarf hv. þingmaður ekki að undrast það að ég komi og hafi skoðanir á þessu því að ég held að við höfum átt óformleg orðaskipti um þetta áður.

Við erum alla daga að tala um efnahag og hagvöxt og stundum kalla menn það nú hin döpru vísindi. Ég nam hins vegar, eins og hv. þingmaður, veit á sínum tíma æxlunarfræði. Það kalla menn hin glöðu vísindi þannig að það er vel við hæfi að ég komi og blandi mér í þetta því að þetta er auðvitað æxlunartengt.



[15:31]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skýrir náttúrlega hversu hæstv. utanríkisráðherra er stundum glaðbeittur, hann nam hin glöðu vísindi í því ágæta landi Bretlandi. En ég var út af fyrir sig ekkert að furða mig á því að hann tæki til máls um þetta mál, ég fagna því þvert á móti að hann skyldi gera það. Ég var aðeins að velta því fyrir mér hvað hefði valdið því að hann gat staðist þá freistingu hér áðan að ræða um lax- og silungsveiði. Það held ég satt að segja að sé í fyrsta skipti í 18 ára þingsögu hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) að hann hafi staðist þessa freistingu og sýnir náttúrlega hvað hann er farinn að láta mikið á móti sér í því ríkisstjórnarsamstarfi sem hann er í núna.

Að öðru leyti vil ég segja að allt sem hæstv. ráðherra sagði um þetta mál, sem er auðvitað alvarlegt mál og mjög mikilvægt, eins og ég reyndi að undirstrika áðan, er rétt. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en það er hins vegar þýðingarmikið. Það er á vissan hátt prinsippmál. Ég tel að það hafi verið mjög vel undirbúið. Við hæstv. ráðherra erum algerlega sammála um að hluti af framförum í íslenskum landbúnaði stafar af kynbótum og þar hefur verið staðið býsna vel að mjög mörgum málum. Við sjáum bara þær framfarir sem orðið hafa í búfjárrækt. Það mætti nefna fjölmargt í því sambandi. Ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að telja eitthvað upp þarna og gleyma því sem gæti skipt máli í þeirri upptalningu. Ég vil einfaldlega segja að við höfum náð framförum í landbúnaði með kynbótum með því að standa að þeim með skynsamlegum hætti.

Svínaræktin er mjög gott dæmi um þegar menn hafa náð meiri kjötframleiðslu miðað við fóðureiningu en áður var og það byggir á þessum kynbótum. Fyrir svínabændum vakir auðvitað fyrst og fremst að auka þessar framfarir enn frekar með því að heimila þennan innflutning til að geta kynbætt stofninn og ná þannig meiri afrakstri út úr búum sínum til hagsbóta fyrir alla, þar með talið neytendur. Þetta er stórmál, það skiptir máli en þetta er líka mjög áhugavert og nauðsynlegt að menn velti því fyrir sér til að mynda í nefndinni með þeim sérfræðingum sem við getum kallað til á okkar fund til að komast til botns í þessu og skilja þetta mál til hlítar.



[15:33]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð umræða, bæði lærð og skemmtileg. Þetta er það sem við fjöllum um, heimild til að flytja inn undir sérstökum skilyrðum djúpfryst svínasæði til kynbóta og til að styrkja samkeppnishæfni svínastofnsins hér á landi.

Ég vil einnig minna á að ég hef skipað starfshóp sem á að kanna hvort ekki sé hægt að auka hagkvæmni stofnsins enn frekar með að íslenskt kornfóður verði notað í auknum mæli til svínakjötsframleiðslu hér á landi. Að mörgu er að hyggja en það er eitt sem ég vildi vekja athygli á í þessum ágætu tillögum okkar. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson vísaði til forvinnu sinnar í þessu máli en ég veit ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra tók eftir því sem stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nefndin gerir tvær tillögur um mögulegar aðferðir við innflutning á svínasæði.

Tillaga nr. 1 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á fersku svínasæði frá Norsvin í Noregi sem fari eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi (einangrunarstöð) sem rekið verði af Svínaræktarfélagi Íslands, eða öðrum þar til bærum aðila. Sú tillaga felur í sér að ekki þarf að breyta lögum enda yrði framkvæmdin, rétt eins og nú, innan heimilda 13. gr. laga um innflutning dýra.

Tillaga nr. 2 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á frosnu svínasæði frá Norsvin í Noregi, sem geti farið beint inn á svínabú hér á landi …“

Ég vek athygli á að þarna er þetta algerlega bundið við Noreg og ég var spurður að því í meðhöndlun frumvarpsins hvers vegna ekki væri leyfður innflutningur á sæði frá öðrum löndum. Þá varð ég bara að svara því einu sem mér fundust vera nægileg rök fyrir, að Noregur er ekki í Evrópusambandinu.



[15:35]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt ekki að mín lítilfjörlega ræða hér áðan mundi vekja upp svona stórpólitísk mál í umræðunni eins og mér heyrist að sé að gerast hérna. Það er skaði að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera til andsvara en hann getur auðvitað kvatt sér hljóðs t.d. með því að fara á mælendaskrá. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra láti það eftir sér þó að hann sé farin að standast ýmsar freistingar, eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag.

Að öðru leyti vil ég segja að ég tek undir og ítreka að þetta mál, sem lætur kannski ekki mjög mikið yfir sér við fyrstu sýn, er þýðingarmikið. Það er mikið hagsmunamál fyrir svínaræktendur að vel takist til í þessu og ég held þess vegna að við eigum að kosta kapps um að vinna þetta hratt og örugglega þannig að hægt sé að fara að nýta þær heimildir sem á að opna á þótt mér sé ljóst að ekki er gengið eins langt og svínabændur lögðu til á sínum tíma. Nú veit ég ekki hvert er sjónarmið svínaræktenda á þessu stigi, í dag, hvort þeir telja að hér sé nægilega langt gengið. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að hann hafi átt einhver samtöl við svínaræktendur áður en frumvarpið var lagt fram og væri gott að heyra upplýsingar frá hæstv. ráðherra um það hver séu viðbrögð svínaræktenda við þessu frumvarpi. Það er skref í þá átt sem svínaræktendur lögðu til en það er alls ekki jafnlangt gengið og þeir lögðu til á sínum tíma við þingnefndina, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Hér er um að ræða heilmikið mál sem hefur verið vel undirbúið, eins og margoft hefur komið fram.



[15:37]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að hafa það skýrt, Félag svínabænda er mjög sátt við þessa tilhögun og mér finnst líka fagnaðarefni að þetta verði gert á félagslegum grunni hvað þá varðar sem ræktendur. Það verður að sjálfsögðu að fara þarna að með mikilli varúð því að vissulega er verið að taka nokkra áhættu. En með því að gera það með þeim hætti, að bestu manna yfirsýn, að lágmarka sjúkdómahættuna, er þetta lagt til.

Varðandi síðan innlegg hæstv. utanríkisráðherra get ég staðfest að innlegg hans á sviði landbúnaðar hefur nýst vel og ég þakka fyrir og get rifjað upp í bæði stuttu og löngu máli góðan stuðning hans við mörg góð landbúnaðarmál og er líka gott að heyra hann leggja þessu máli lið. (EKG: Á það við flokkinn hans?) Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson grípur fram í, flokkur hæstv. utanríkisráðherra er ágætur, en ég var fyrst og fremst að tala um hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem leggur oft, og það ég man best, mjög gott til landbúnaðarmála, svo því sé rækilega haldið til haga. (Gripið fram í.)



[15:39]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að koma upp og skemma stemninguna hjá hæstv. ráðherrum og fyrrverandi hæstv. ráðherrum sem hér hafa verið í ágætis samtali, að hluta til um efni frumvarpsins. Ég ætla jafnframt að taka undir það sem hv. þm. Einar Guðfinnsson sagði um greinargerðirnar með þessum frumvörpum. Þær eru ítarlegar, skemmtilegar og fróðlegar. Eins og fram kom hefst greinargerðin á því að svín hafi verið haldin hér allt frá landnámstíð, eins og við þekkjum á fjölmörgum örnefnum víðs vegar um land.

Hér eru, eins og jafnframt hefur komið fram, gríðarlegar hagsmunir í húfi, ekki síst svínabænda en auðvitað líka neytenda, um það hvernig til tekst. Hér er um það „grundvallarprinsipp“ að ræða hvort við getum sleppt því að fara í gegnum sóttvarnastöð og farið að flytja svínasæði til kynbóta beint inn á bú. Um það hefur verið fjallað í þó nokkur ár og ég held að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd munum þurfa að fjalla um og taka til skoðunar álit dýralæknaráðs, eins þeirrar sérfræðinganefndar sem fjallaði þar um og auðvitað álit og skoðun svínabænda. Mig langar aðeins að vitna í greinargerðina, frú forseti:

Sérfræðinganefndin taldi að ekki sé ásættanleg áhætta að heimila innflutning á fersku svínasæði frá einangrunarstöð í Noregi beint til kynbóta á býlum hér á landi.

Ég tek undir það að þá væri fullóvarlega farið.

Það eru tvær tillögur sem nefndar eru í greinargerðinni og væri svo sem gaman að heyra það frá ráðherranum, ef ekki hæstv. ráðherra þá í nefndinni, annars vegar um áhættumat á þessum tveimur tillögum og eins kostnaðarmat á þeim tveimur, hver munurinn er. Eins væri áhugavert að fjalla um hvort það sé í raun og veru túlkað þannig að með því að tilgreina Norsvin í Noregi sem aðilann sem menn ætla að kaupa erfðaefnið frá, sé í raun og veru verið að lögbinda það sem eina aðilann í greininni. Ég veit til þess að það hefur verið skoðað ákaflega vel og ekki er hægt að sækja erfðaefni hvert sem er. Við vitum líka, og það kom reyndar aðeins fram í ræðu hv. þm. Einars Guðfinnssonar, um nauðsyn þess fyrir svínabændur að fá inn nýtt erfðaefni. Það er nokkuð flókin aðferðafræði og krefst þess að það séu verulega mörg dýr á bak við erfðaframfarir. Og það sem meira er, það þarf að rækta upp sérstaka hreina stofna af mismunandi kynjum og blanda þeim síðan saman til að fá nægilega góðar afurðir að magni til en ekki síður að gæðum, eins hvað varðar heilbrigðisástand. Ég tel að það sé mjög mikilvægt verkefni, sem hlýtur að vera sameiginlegt verkefni svínabænda og þá líka yfirvalda, að viðhalda þeirri sérstöðu sem íslensk matvæli hafa hvað varðar hreinleika, heilbrigði og hollustu og að þessi aðgerð rýri á engan hátt þá möguleika sem þar eru.

Þetta eru til þess að gera mjög einföld mál til umfjöllunar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tek undir það að við getum án efa lokið störfum fljótlega þar og fjallað um þetta. Það eru ekki það margir aðilar í raun sem hafa beina hagsmuni af þessu þó að hugsanlega leynist einhverjir sem hafa eitthvað við þetta að athuga og við þyrftum að heyra í.

Ég ítreka í lokaorðum mínum að það væri gaman að fá annars vegar fram áhættumat og hins vegar kostnaðarmat á þessum tveimur tillögum sem tilgreindar eru í greinargerðinni þar sem önnur þeirra virðist hafa verið valin sem tillaga í frumvarp þetta.



[15:44]
Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um að veita heimild til innflutnings á djúpfrystu svínasæði að uppfylltum skilyrðum. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Hér skiptir auðvitað mestu máli að einangrunarstöðin í Hrísey hefur verið lögð niður og svínarækt og kynbætur eru í nokkru uppnámi. Svínabændur, forvígismenn þeirra og félagsmenn, leggja þunga áherslu á að þetta mál verði afgreitt sem lög frá Alþingi sem allra fyrst og ég mun sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar beita mér fyrir því og vænti góðs samstarfs við aðra nefndarmenn, að þetta mál verði helst klárað fyrir þinghlé um jól.

Aðalatriðið í mínum augum er að dýra-, heilbrigðis- og matvælaöryggi sé tryggt og það á að vera svo samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Við megum í þessum efnum og svo mörgum öðrum sem varða búfjárstofna á Íslandi, ekki taka neina áhættu. Reynslan sýnir það, sagan sýnir það einnig í svínaræktinni

Ég vænti þess að þetta frumvarp geti orðið sem fyrst að lögum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn.