138. löggjafarþing — 22. fundur
 10. nóvember 2009.
sveitarstjórnarlög, 1. umræða.
frv. ÞSa o.fl., 15. mál (fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa). — Þskj. 15.

[20:09]
Flm. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Um er að ræða breytingu á 12. gr. laga nr. 45/1998 og fjallar greinin um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Flytjendur þessa máls eru þingmenn Hreyfingarinnar auk hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar úr Framsóknarflokki.

Sveitarstjórnir og það lýðræðisfyrirkomulag sem þær búa við hefur ekki verið mikið til umræðu hér á landi og hefur hingað til ekki þótt ástæða til að velta mikið vöngum yfir því með hvaða hætti lýðræði á sveitarstjórnarstiginu fer fram. Kosið er til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti, oftar en ekki listakosningu en þó tíðkast enn, a.m.k. að einhverju leyti, að einstaklingar séu kosnir. Fjöldi sveitarstjórnarmanna og aðkoma almennings að málefnum sveitarfélaga sinna hefur heldur ekki verið mikið til umræðu. Fámennið víða á eflaust sinn þátt í því en aðgengi íbúa að kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum er án efa mjög víða ágætt.

Undanfarin ár hefur þó orðið eðlisbreyting á þessum málum þar sem verkefni sveitarfélaga hafa stóraukist, sérstaklega með yfirtöku þeirra á grunnskólastiginu og miðað við umræðuna má gera ráð fyrir að sveitarstjórnarstigið muni taka að sér enn fleiri verkefni á næstu árum. Í því efni hefur verið rætt um heilsugæsluna, málefni fatlaðra og jafnvel framhaldsskóla. Eins hefur töluvert verið um sameiningar sveitarfélaga undanfarin ár og uppi eru hugmyndir um enn stórfelldari sameiningar, jafnvel með lögum, en hingað til hafa slíkar sameiningar verið mál íbúanna á staðnum. Eins hafa einstök sveitarfélög stækkað gríðarlega undanfarin ár hvað íbúatölu varðar án þess að fjölgun hafi orðið á fulltrúum almennings í þeim sveitarstjórnum. Þetta stafar af þeirri séríslensku reglu, takið eftir því, að kveðið er skýrt á um hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna í þeirri grein núverandi sveitarstjórnarlaga sem fjallar um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þetta hefur m.a. leitt til þess að borgarfulltrúum í Reykjavík hefur ekki fjölgað um einn einasta frá árinu 1908, í 101 ár. Mér telst til að þetta sé einsdæmi í Evrópu því að yfirleitt er rætt um að vera þurfi lágmarksfjöldi sveitarstjórnarmanna miðað við ákveðinn íbúafjölda en ekki hámarksfjöldi. Því er mælst til þess að eftirfarandi breyting verði gerð á 12. gr. sveitarstjórnarlaga og hún hljóði svo, með leyfi forseta:

„a. 1. mgr. orðast svo:

Í sveitarstjórn skal fjöldi sveitarstjórnarmanna standa á oddatölu og vera að lágmarki sá sem hér greinir:

a. þar sem íbúar eru innan við 1.000: 7 aðalmenn,

b. þar sem íbúar eru 1.000–4.999: 11 aðalmenn,

c. þar sem íbúar eru 5.000–24.999: 17 aðalmenn,

d. þar sem íbúar eru 25.000–49.999: 31 aðalmaður,

e. þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 47 aðalmenn,

f. þar sem íbúar eru 100.000–199.999: 61 aðalmaður,

g. þar sem íbúar eru 200.000–399.999: 71 aðalmaður.

b. Í stað orðanna „í átta ár“ í 2. mgr. kemur: í tvö ár.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð frumvarpsins segir svo, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarps þessa er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 12. gr. sveitarstjórnarlaga um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum (sjá fylgiskjal). Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu (sjá vef Evrópuráðsins: www.coe.int).

Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. Hundrað og einu ári síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.

Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 7% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík því að vera 43–61 hið minnsta.

Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálans um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka. Þessi skerðing er alvarlegt mannréttindabrot. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft, þar sem meginmarkmiðið er ekki að torvelda heldur auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélagsins til framtíðar.

Nærri útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnunarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).

Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarstjórnum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á „starfhæfum meiri hluta“, sem veldur því að 8–9 borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.

Fjöldi aðalmanna í þessari tillögu er fenginn með því að miða við helmingsmun á ákvæðum í sænskum og norskum sveitarstjórnarlögum,“ samanber myndina á bls. 2 í frumvarpinu.

Frekari samanburður við nágrannalöndin leiðir í ljós íbúafjölda og meðaltal fjölda sveitarstjórnarmanna annars staðar á Norðurlöndunum eins og sjá má í töflunni á bls. 2. Þá eru að meðaltali 28,2 sveitarstjórnarmenn í sveitarstjórnum í Finnlandi, 25,7 í sveitarstjórnum í Danmörku, 30 í sveitarstjórnum í Noregi, 44 sveitarstjórnarmenn að meðaltali í sveitarstjórnum í Svíþjóð en einungis 6,6 sveitarstjórnarmenn að meðaltali í sveitarstjórnum á Íslandi miðað við íbúafjölda. Taflan á bls. 3 leiðir svo enn frekar í ljós hvernig staðan er í nokkrum einstökum sveitarfélögum á Norðurlöndunum hvað varðar fjölda sveitarstjórnarmanna. Eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi hvað varðar þátttöku og möguleika almennings til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórlega auknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála.

Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferlið við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum. Sveitarfélögin hafa öll sömu stöðu og sömu skyldum að gegna samkvæmt lögum þrátt fyrir að vera ólík og misjöfn að landfræðilegri stærð og íbúafjölda. Hlutverk sveitarfélaga hefur tekið breytingum síðustu ár og verkefnin aukist umtalsvert og þörfin fyrir öflugar sveitarstjórnir og aðkomu fleiri að þeim hefur því farið vaxandi.“

Herra forseti. Þessi breyting er mikilvæg frá því sjónarmiði að lýðræði sé að miklu leyti valddreifing og þegar það er haft í huga liggur beint við að fjölga í sveitarstjórnum þegar þau sameinast öðrum til að gefa íbúum hinna mismunandi sameinuðu eininga færi á að hafa bein áhrif á starfsemi sveitarfélagsins. Þetta er mikilvægt, ekki síst þegar höfð er í huga þörfin á sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ein helsta fyrirstaðan við sameiningar þar er að Reykjavík mundi ná yfirburðum en með fjölgun borgarfulltrúa yrði pláss fyrir alla. Þannig gætu einnig félagasamtök og grasrótarhópar tekið beinan þátt í störfum sveitarfélaganna og hugtakið þátttökulýðræði yrði fyrir alvöru virkt. Breytingartillögur þessar snúa því fyrst og fremst um valddreifingu og aukið lýðræði, möguleika almennings til að hafa meiri áhrif á umhverfi sitt og að byggja sér líf og umhverfi sem hann er sáttari við. Réttmætara og eðlilegra getur það ekki orðið.

Vonandi fær frumvarpið góðar viðtökur í allsherjarnefnd, en þangað mun það fara, og meðal allra annarra þingmanna sem skilja mikilvægi þess þegar þeir hafa kynnt sér málið.



[20:18]
Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi Hreyfingarinnar þar sem bent er á mikilvægan lýðræðishalla sem farið hefur fram hjá mörgum í allt of langan tíma. Fjöldi kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu virðist vera í litlu samræmi við íbúafjölda. Frumvarpið var rætt meðal kjörinna fulltrúa Vinstri grænna, bæði á sveitarstjórnarstiginu og hér á Alþingi. Okkur fannst nokkuð hratt farið í fjölgun sveitarstjórnarmanna í þessu frumvarpi þar sem við efumst um að stjórnsýslan á sveitarstjórnarstiginu ráði við svo mikla fjölgun á einu bretti. Því langar mig til þess að spyrja hv. þm. Þór Saari hvort hann geti sætt sig við að farið verði í þessa breytingu í nokkrum áföngum, t.d. í tvennum til fernum kosningum?



[20:20]
Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er þetta mikil breyting. Samkvæmt því sem fram kemur hér, að borgarfulltrúum í Reykjavík yrði fjölgað í 61, sé ég fyrir mér að KR-ingar ættu fulltrúa í borgarstjórn, Fylkismenn ættu fulltrúa í borgarstjórn og alls konar fólk ætti fulltrúa í borgarstjórn sem er mjög mikilvægt. Vissulega er þó það sjónarmið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir viðraði þess virði að skoða og að sjálfsögðu má gera ráð fyrir að það verði skoðað að taka þetta í áföngum, sérstaklega þegar komið er upp í svona háa tölu eins og 47 eða 61 aðalmann. Ég mundi ekki setja mig á móti því svo lengi sem aukningin til að byrja með yrði umtalsverð þannig að það sæist greinilega að verið væri að taka stórt skref í lýðræðisátt.

Ég á erfitt með að sjá að sveitarfélög með innan við þúsund íbúa hafi færri en sjö aðalmenn. Mér finnst valdið vera komið á allt of fárra hendur ef þeir eru færri en sjö. Þá eru kannski fjórir í meiri hluta og fjórir sem ráða öllu í heilu sveitarfélagi er ekki sérlega há tala. Vissulega er ég þó meira en tilbúinn til þess að setjast niður með þingmönnum Vinstri grænna og allra sem það vilja til þess að fara yfir þessar tölur og reyna að finna út sameiginlegan flöt á að þoka þessu mikilvæga máli áfram.



[20:22]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Framkomið frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum er um margt athyglisvert. Hér er gert ráð fyrir að leiðrétta þann lýðræðishalla sem sannarlega er víða á sveitarstjórnarstiginu og mér þykir að hér sé ágætismál á ferðinni en nokkuð bratt farið. Til að mynda er gert ráð fyrir að fjöldi borgarfulltrúa í Reykjavík verði fjórfaldaður á einu bretti. Í sveitarfélögum eins og Kópavogi og Hafnarfirði er gert ráð fyrir að þrefalda fulltrúafjöldann, eða því sem næst, og fleira mætti telja.

Á hinn bóginn er löngu tímabært að taka á þeim vanda sem er t.d. í Reykjavík þar sem fleiri atkvæði þarf til að kjósa fulltrúa í borgarstjórn en þingmann á Alþingi. Hér finnst mér hins vegar vanta allar vangaveltur um kostnað sem þessu fylgir en vafalítið verður það rætt í nefnd. Ætla má að kostnaðarauki sveitarfélaganna verði verulegur og beinist þá ekki eingöngu að fjölgun kjörinna fulltrúa heldur einnig að fjölgun nefndarmanna í einhverjum tilvikum og vafalítið að einhverju leyti að uppbyggingu aðstöðu fyrir þessa fulltrúa. Sem dæmi má nefna að sá salur sem borgarstjórn Reykjavíkur notast við núna rúmar tæplega 61 fulltrúa með góðu móti, alla vega ekki án verulegra breytinga á húsnæðinu.

Til þess að það fari nú ekki á milli mála tel ég hins vegar að slík atriði megi ekki þvælast fyrir okkur þegar við ræðum um að efla og auka lýðræðið en það gæti þýtt að við færum ekki eins bratt í hlutina. Hv. þm. Þór Saari hefur raunar nú þegar komið inn á að það gæti komið til greina að fara rólegar í sakirnar en hér er talað um. Ég tel að vel megi vinna með það frumvarp sem hér liggur fyrir en að umfang fjölgunarinnar og kostnaðarauka verði að athuga vandlega.



[20:25]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Í kvöld mælir Hreyfingin fyrir máli sem lýtur að lýðræðisumbótum og nái það fram að ganga mun það auka verulega möguleika fólks til þess að hafa bein áhrif á nærsamfélag sitt. Í dag er kveðið á um ákveðinn hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna en í löndunum í kringum okkur er kveðið á um lágmarksfjölda. Lýðræðið hér á landi er því lágmarkað en ekki hámarkað.

Fyrir 200 árum var gerð bylting á Íslandi. Hingað komu sápukaupmenn og í för með þeim var Jørgen nokkur Jørgensen sem við höfum kallað Jörund hundadagakonung. Jörundur og félagar hans byltu Íslandi með því að hengja upp tvær tilkynningar. Sú fyrri var í 11 liðum sem kváðu meðal annars á um að allur danskur myndugleiki skyldi vera upphafinn á Íslandi og að Danir héldu sig innan dyra. Sú seinni var aðeins lengri og tjáði íbúum þessa lands að Ísland væri laust og liðugt frá Danmerkur ríkisráðum og að títtnefndur Jörundur væri forsvarsmaður landsins þar til regluleg landstjórn er ákvörðuð, eins og það er orðað í tilkynningunni. Þetta gekk upp, reyndar bara í tvo mánuði, vegna þess að Íslendingar voru ekki vanir því að geta haft áhrif á stjórnun landsins og umhverfisins. Þegar Danir náðu aftur völdum hreyfðu íslenskir borgarar heldur hvorki legg né lið til að halda nýfengnu frelsi.

Nú 200 árum síðar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944 og margt hefur færst í átt til virkara og víðtækara lýðræðis. Þó er margur akurinn óplægður enn. Herra forseti. Ég er nýkomin úr minni fyrstu kjördæmaferð með þingmönnum Suðurlands. Það er mikill munur að kynnast sveitarstjórnarmönnum á landsbyggðinni þar sem lýðræðishallinn er mun minni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Í sveitarstjórnum á landsbyggðinni eru í flestum tilfellum mun færri atkvæði á bak við hvern sveitarstjórnarmann en á höfuðborgarsvæðinu. Mér virðast sveitarstjórnir í minni samfélögum endurspegla þau samfélög sem þær eru sprottnar úr og eiga að þjóna mun betur. Fólkið þar er mun raunverulegra og minna „fótósjoppað“ en frambjóðendur í stærri byggðarlögum þar sem baráttan um örfá sæti er mun harðari og kostnaðarsamari fyrir frambjóðendur.

Við sameiningu sveitarfélaga er veruleg hætta á að íbúar minni sveitarfélaga glati bæði rödd sinni og áhrifum vegna þess hve sveitarstjórnarmenn eru fáir. Nærtækt dæmi um þetta er sameining Reykjavíkur og Kjalarness, eða ættum við kannski að segja yfirtaka Reykjavíkur á Kjalarnesi? Við þá sameiningu misstu íbúar Kjalarness öll áhrif sín. Kjalarnes er ekki venjulegt hverfi í Reykjavík, það hefur mikla sérstöðu og þarfir íbúanna eru að mörgu leyti aðrar en annarra Reykvíkinga. Þeir hafa hins vegar enga rödd í stjórn borgarinnar eða raunveruleg áhrif.

Mér finnst það spennandi hugmynd, herra forseti, að gefa fólki frekara tækifæri til þess að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Ég held að okkur sé hollt að heyra fleiri raddir frá fleiri aðilum en bara hefðbundnum stjórnmálaflokkum. Mér þætti bæði gaman og viðeigandi að íbúasamtök, t.d. Breiðhyltinga eða Árbæinga, gætu tekið sig saman og boðið fram til borgarstjórnar eða ýmis hagsmunasamtök sem vilja gera bragarbót í málefnum sínum, t.d. samtök um bíllausan lífstíl eða félag hundaeigenda, sem hefur reyndar enn ekki verið stofnað mér vitanlega en væri örugglega ágætisfélag sem gæti haft góð áhrif á sveitarfélagið sitt.

Í því bæjarfélagi sem ég bý í hafa sömu flokkarnir verið einráðir í næstum 20 ár og sá stærri haft öll tögl og hagldir, lengst af undir stjórn manns sem nýlega sagði af sér vegna ásakana um spillingu. Í allan þann tíma hefur minni hlutinn verið nánast áhrifalaus. Bæjarfulltrúar eru 11 og það hefur verið viðtekin venja að fimm þeirra séu hunsaðir. Það eru því einungis sex bæjarfulltrúar í þessu tæplega 30.000 manna bæjarfélagi sem ráða nánast öllu. Það er því einn sem hefur völd á hverja 5.000 íbúa. Þetta látum við viðgangast, einungis vegna þess að það er hefð fyrir því, rétt eins og Jörundi tókst að hertaka heilt land með litlu meira en tveimur tilkynningum og Dönum tókst að ná því aftur án nokkurrar andstöðu Íslendinga.



[20:30]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmönnum Hreyfingarinnar að hafa hreyft við þessu máli og að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum er fyrst og fremst varðar fjölda sveitarstjórnarmanna í mismunandi stórum sveitarfélögum. Ég þáði það að vera meðflutningsmaður á frumvarpinu með þingmönnum Hreyfingarinnar þar sem mér fannst áhugavert að opna á þá umræðu sem þau hafa komið inn á, hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. Ekki er þar með sagt að ég mundi skrifa nákvæmlega upp á tæknilega útfærslu á því hversu margir aðalmenn eigi að vera á bak við hvern tug þúsunda eða hundrað þúsund íbúa, það er kannski útfærsla tæknilegs eðlis sem væri eðlilegt að færi fram í viðeigandi þingnefnd. Það er hins vegar sláandi að velta því fyrir sér, eins kom fram í greinargerðinni og ágætri yfirferð hv. þm. Þórs Saaris, að fyrir 100 árum voru bæjarfulltrúar í Reykjavík jafnmargir og þeir eru í dag þrátt fyrir að íbúafjöldinn hafi fimmtánfaldast. Það segir okkur að menn hafa ekki hugsað til hlítar hvaða þróun hefur átt sér stað á sveitarstjórnarstiginu hvað varðar fulltrúa í bæjum eða sveitum eða borg.

Ég átti þess kost fyrir nokkrum árum að fara með hópi sveitarstjórnarmanna í ferð til Norðurlanda þar sem við kynntum okkur fyrst og fremst skipulagsmál en í leiðinni ræddum við auðvitað sveitarstjórnarmál við þá aðila sem við hittum í þremur löndum. Það kom mér nokkuð á óvart þó að ég hefði þá verið í sveitarstjórn í 12 eða 14 ár með hvaða hætti sveitarstjórnarstigið virkaði á Norðurlöndum og þessi gríðarlegi fjöldi sveitarstjórnarmanna. Hugsun mín var fyrst og sem ég hef heyrt hjá mörgum þingmönnum eða almenningi og þau viðbrögð sem þetta frumvarp fékk þegar það birtist fyrst almenningi að menn veltu því fyrir sér að hér væri galin hugmynd um að auka kostnað á sveitarstjórnarstiginu og fjölga pólitískum smákóngum á sveitarstjórnarstiginu hingað og þangað. Það er svo langt í frá. Í þeim sveitarfélögum á Norðurlöndunum þar sem við ræddum við menn kom það einmitt í ljós að sveitarstjórnarmenn voru alls ekki „sveitarstjórnarkommisserar“ í sínu byggðarlagi, langt í frá. Þeir voru kjörnir fulltrúar sem komu fyrst og fremst að stefnumótun en voru hvergi í hinum daglega rekstri. Hinum daglega rekstri var stjórnað af þar til kjörnum yfirmanni, oddvita, eða „ordfører“ eins og það heitir gjarnan á Norðurlöndunum, og síðan af ráðnum framkvæmdastjóra og embættismönnum viðkomandi sviðs. Aftur á móti voru hinir kjörnu fulltrúar þátttakendur í stefnumótuninni og þeir voru líka þátttakendur í nefndum. Þeir voru hins vegar ekki í fullu starfi sem kjörnir fulltrúar að vasast í daglegum rekstri. Að því leytinu fannst mér áhugavert að taka þátt í framlagningu á þessu frumvarpi og gera tilraun til þess á tímum sem við þurfum virkilega að ræða það að skapa nýtt Ísland og öðruvísi samfélag að á sveitarstjórnarstiginu væri áhugavert að reyna að taka pólitíkina út úr daglegum rekstri og láta sveitarstjórnarfulltrúana sjá um stefnumótun fyrst og fremst.



[20:34]
Flm. (Þór Saari) (Hr):

Herra forseti. Ég þakka þær viðtökur sem málið hefur fengið þó að ekki hafi verið margir í þingsalnum. Það kemur auðvitað mörgum á óvart að það skuli þurfa að ræða lýðræðið í sveitarstjórnum en ekki hefur verið hefð fyrir því.

Mig langaði að tæpa á tveimur atriðum frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Annars vegar um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og það er minn draumur, hafandi búið í Reykjavík og búandi núna úti á Álftanesi, að þessi sveitarfélög sameinist, alla vega að stórum hluta. Það væri skipulagslega séð fráleitt að gera það ekki, við sjáum bara hvernig málin eru í dag og með fleira fólki í þeirri sveitarstjórn sem þar yrði í kjölfarið gæfist fólki í öllum þessum nágrannasveitarfélögum einmitt færi á að taka beinan þátt í stjórnun þess sveitarfélags.

Hitt var mál sem sneri að kostnaði. Ég held að það sé rangt að gera því skóna að kostnaður við borgarstjórn Reykjavíkur mundi margfaldast í hlutfalli við fjölda borgarfulltrúa, ég held að hann mundi ekki gera það. Vissulega mundi einhver kostnaður hljótast af og einhver húsnæðiskostnaður að auki líka en við megum ekki láta einhvern ákveðinn skort á fermetrum ráða því hversu mikið lýðræði við höfum, lýðræðið er dýrmætara en það. Ég sé ekki betur af því sem ég sé af sal borgarstjórnar Reykjavíkur en að þar rúmist vel fleiri en þeir 15 sem þar sitja og svona reyna að dreifa úr sér yfir allt gólfið eins og þeir mögulega geta.

Ég fagna þessari umræðu og eftir því sem mér hefur verið tjáð á meðan á umræðunni stendur fer þetta mál til samgöngunefndar en ekki til allsherjarnefndar og við munum bara reyna að fylgja því eftir þar inni með öllum tiltækum ráðum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.