138. löggjafarþing — 23. fundur
 11. nóvember 2009.
framlög til menningarmála.
fsp. ÞKG, 134. mál. — Þskj. 147.

[15:20]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það vill svo til að ég hef vitneskju um að á síðasta ári var unnin skýrsla fyrir ráðuneytið varðandi framlög til menningarmála. Oft og tíðum hefur verið mikil umræða meðal listamanna, menningarunnenda og hér inni hvort framlög til menningarmála séu nægileg, hvort eigi að auka við þau eða skera niður. Ég veit að þessi skýrsla var gerð. Hún var kynnt fyrir mér á sínum tíma þegar ég var ráðherra en þá var stutt eftir af þeirri ráðherratíð þannig að ekki náðist að vinna frekar úr henni. Ég tel mikilvægt að við fáum fram þær upplýsingar sem liggja fyrir í skýrslunni varðandi alla frekari umræðu um menningarmál. Menn hafa verið að draga hér inn fjárlagafrumvarpið og umræðu tengda því og þá er mikilvægt að menn átti sig á þeirri þróun sem hefur verið á framlögum til menningarmála.

Við sjáum nú þegar strax ákveðnar áherslur af hálfu mennta- og menningarmálaráðherra varðandi kvikmyndamálin. Hún hefur komið fram með sínar útskýringar og við munum fara yfir það síðar í vetur í þinginu.

Ég tel mikilvægt að þetta verði dregið fram til að við áttum okkur á heildarútgjöldum til menningarmála. Mín sannfæring og tilfinning er að við höfum bætt í. Það má alltaf deila um hvort það megi vera meira en fyrst og fremst tel ég að við sjáum menningarlíf okkar blómstra nú sem aldrei fyrr, hvort sem er litið til bókmennta eða ritlistar, af því að hér eru frómir rithöfundar innan dyra og gagnrýnendur líka. Hér rétta margir upp hönd en sá sem ég er með í huga stendur í næsta herbergi. Við sjáum líka kvikmyndagerðina, það er engin tilviljun að innlend dagskrárgerð og sjónvarpsþættir blómstra nú sem aldrei fyrr. Þetta eru góðir þættir, allir hafa sínar skoðanir á Hamrinum , hvað þá Fangavaktinni o.s.frv.

Ég held að með því að hlúa að menningarmálum sjáum við samfélagið okkar styrkjast. Á erfiðum tímum eins og við höfum upplifað núna sl. ár skiptir miklu máli að hugað sé að þessum þáttum. Það er ósköp auðvelt að gagnrýna hvar er skorið niður og hvar bætt í en ég tel mikilvægt að við sem höfum metnað fyrir hönd menningar okkar og lista áttum okkur á því hvernig staða þessara mála er í ríkisfjármálunum og hvernig hún muni líta út því við viljum að þessi gróska haldi áfram. Við viljum að það verði haldið áfram í þeirri sókn sem við höfum staðið fyrir á sviði menningarmála á mörgum sviðum og margir eiga þakkir skildar hvað það varðar.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hver er niðurstaða skýrslu sem gerð var á síðasta ári fyrir ráðuneytið um þróun framlaga til menningarmála? Ég vona að í kjölfarið getum við síðan átt vitræna umræðu um hvernig við getum staðið vörð um okkar menningu.



[15:23]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn. Það er rétt að menntamálaráðuneytið lét vinna skýrslu á síðasta ári um þróun útgjalda hins opinbera til menningarmála á árabilinu 1998–2007. Í skýrslunni var notuð sú sundurliðun og skilgreining á menningarútgjöldum sem Hagstofa Íslands beitir enda er sú aðferðafræði sú sama og beitt er í alþjóðlegri hagskýrslugerð.

Helstu niðurstöður hennar eru að mikil raunaukning varð í framlögum hins opinbera til menningarmála á þessum árum þegar framlögin eru metin á föstu verði. Framlög ríkisins jukust um tæplega 100% og einstakir liðir um allt að 230% en örðugt er að meta með góðu móti samsvarandi aukningu hjá sveitarfélögum á tímabilinu vegna breyttra reikningsskilareglna sem voru teknar upp árið 2002. Raunaukningin milli 1998 og 2001 var þó 28% og aukningin frá 2002–2007 nam um 41%. Ef við tökum tölurnar eins og þær liggja fyrir frá 1998–2007 var aukning sveitarfélaganna 85%.

Ef útgjöld hins opinbera á föstu verði frá árinu 2002 eru tekin sést að aukningin hefur numið alls 52%. Þessi aukning er eins og áður hefur verið sagt langt umfram vöxt vergrar landsframleiðslu eða mannfjöldaaukningu á þessum tíma. Hjá ríkinu hafa útgjöld á mann aukist um 76,5% milli 1998 og 2007, sem skiptist þannig að raunútgjöld á mann jukust um 17% á árunum 1998–2002 og 35% frá 2003–2007. Útgjöld sveitarfélaga á mann jukust um 31% frá 2002–2007. Því má segja að útgjöld hins opinbera til menningarmála hafi aukist verulega í raun á síðustu 10 árum sem þessi athugun nær til, hvort sem metið er á grundvelli heildarútgjalda á föstu verði eða sem útgjöld á mann á föstu verðlagi. Vona ég nú að allar þessar prósentutölur hafi komist til skila.

Útgjöld til menningarmála skiptast í meginatriðum hjá ríki og sveitarfélögum í fjóra flokka, þ.e. söfn, sem eru langstærsti undirflokkurinn og reyndar skilst mér að við eigum a.m.k. Evrópumet ef ekki heimsmet í söfnum á hvern íbúa, listir, aðra menningarstarfsemi og styrki til menningarmála og safnlið sem er ósundurliðaður. Allmikið samræmi er í hlutfallsskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga sem verður að teljast jákvætt þar sem þá eru meiri líkur á samnýtingu og minni hætta á of mikilli dreifingu framlaga á marga málaflokka.

Ef við lítum á útgjöld til menningarmála og metum þau sem hlutfall af vergri landsframleiðslu kemur í ljós að hlutfallið hefur verið a.m.k. 0,93% að jafnaði seinustu þrjú ár. Ekki eru verulegar sveiflur í þessu hlutfalli frá árinu 2003. Hlutfallsleg skipting útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga er næsta jöfn á seinustu árum, þótt greina megi að sveitarfélögin hafi frekar verið að sækja á í þeim samanburði.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að þetta sé skýr vottur þess að bæði ríki og sveitarfélög hafi haft þá stefnumörkun uppi að auka veg menningar og lista þannig að við sjáum skýra raunaukningu til málaflokksins, svo ég reyni að draga þetta saman, hvort sem við lítum á það hjá ríki eða sveitarfélögum eða berum það saman við mannfjöldaaukningu. Eigi að síður hefur hlutfallið á fjárlögum ekki aukist miðað við aðra málaflokka. Það er kannski umhugsunarefni því útgjöld hafa auðvitað almennt vaxið og hlutfallið hefur verið u.þ.b. 0,93% að jafnaði síðustu þrjú ár. Þá liggur þetta fyrir.

Ég vil að lokum segja að það er hárrétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að menningarlíf blómstrar. Eitt af því sem mér skilst frá þeim sem þekkja best til í menningarlífinu, án þess að ég hafi um það skýrar tölur, er að aðsókn hafi aukist á ýmsa menningarviðburði eftir efnahagshrunið og má þar nefna bæði leikhús og tónleika og annað slíkt. Þjóðin sækir í menningu. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt því við þurfum ekki bara líkamlegt fóður, við þurfum sálarfóður og þess vegna skiptir máli að standa vörð um menningu. Oft og tíðum þegar rætt er um niðurskurð er litið á menningu sem eitthvað sem megi sleppa og sé ekki hluti af grunnþjónustunni. Ég held hins vegar að æ fleiri komist á þá skoðun að menning sé ein af grunnstoðum hvers samfélags. Það hlýtur því að skipta ótrúlega miklu máli hvort sem við byggjum upp smærri eða stærri samfélög að menning sé hluti af samfélaginu. Við sjáum það t.d. í hinum smærri samfélögum um allt land. Þau leggja gríðarlega áherslu á að byggja upp menningarlíf, hreinlega til þess að geta staðið undir nafni sem virkt samfélag. Ég held að þetta skipti líka miklu máli þegar við horfum á Ísland sem heild, menningin skiptir gríðarlegu máli fyrir okkar samfélagsvitund.



[15:28]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir niðurlagið í ræðu hæstv. menntamálaráðherra hér áðan. Ég get tekið undir hvert einasta orð sem þar var sagt. Mig langar þó aðeins að velta upp einu sem varðar framlög til menntamála og það snýr að menningarráðunum sem eru tiltöluleg nýjung, þ.e. menningarráðin úthluta til sjálfsprottinna menningarverkefna og taka að hluta til yfir menningarframlög sveitarfélaganna. Hver verða afdrif menningarráðanna núna á næstu árum? Hefur menntamálaráðuneytið í hyggju að endurskoða þau og þá á hvern hátt?

Spurning númer tvö lýtur að því hvort núna þegar þrengir að sé ekki þarft að skerpa aðeins á heildarstefnumótun fyrir menningarráðin í byggðarlögunum. Við vitum að það er brýnt þegar þarf að skera niður fé að styðja vel við það sem búið er að koma á laggir þannig að það eigi sér lífsvon áfram og velja (Forseti hringir.) þeim mun betur nýrri verkefni. Í því samhengi langar mig (Forseti hringir.) að spyrja nánar út í þetta.



[15:29]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. fyrirspyrjanda Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurn hennar.

Mig langar að beina til hæstv. menntamálaráðherra annars vegar því sem reyndar hefur komið fram að mjög hart var gengið fram gegn Kvikmyndamiðstöð Íslands, þ.e. hún fékk 30,6% niðurskurð þegar aðrir fengu mun minna. Það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum að hæstv. ráðherra hyggist bregðast við þessu. Mun það þá gerast í ráðuneytinu eða verður það í höndum fjárlaganefndar að koma að því?

Eins vil ég lýsa yfir vonbrigðum með hæstv. menntamálaráðherra, sem ég er nú yfirleitt mjög ánægður með, og hvað hún skar ofboðslega mikið niður í safnliðunum. Það er mjög erfitt fyrir okkur í fjárlaganefndinni núna að vinna úr því verki.

Einnig langar mig að beina til hæstv. menntamálaráðherra, af því menningarsamningarnir t.d. gagnvart Vesturlandi eru mjög lágir miðað við marga aðra, hvort hún hyggist gera eitthvað í því.

Ég vil enda þetta á því að beina til hennar fyrirspurn um mál sem mér er hugleikið: Mun bygging tónlistarhússins ekki drepa niður allt menningarstarf í landinu?



[15:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu um stefnumörkun í því hvernig við skiptum fé til menningarmála. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum mið af því sem fram kemur í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður nefndi áðan en auk þess tel ég mikilvægt að hugað sé að því að styrkja menningarsamningana sem gerðir eru við landshlutasamtökin. Við höfum orðið vör við þau gífurlega góðu áhrif sem þeir hafa haft á svæðin. Ég mun leggja áherslu á það að hlutverk þeirra verði útvíkkað og starf þeirra styrkt í framtíðinni.



[15:32]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin varðandi framlög til menningarmála. Það er ljóst að við höfum staðið frammi fyrir mikilli raunaukningu til menningarmála. Ég held að menn geti fagnað því þó að það séu ákveðnir aðilar sem líka muni ekkert endilega fagna því neitt sérstaklega en þetta verður á endanum alltaf spurning um forgangsröðum. Við höfum greinilega á síðustu árum forgangsraðað í þágu velferðarinnar en ekki síður menningarmála.

Það er stundum dálítið hættulegt að standa hérna uppi og koma aftur og aftur upp í pontu og vera óskaplega ánægður með það sem kemur frá hæstv. menntamálaráðherra og vera bara í rauninni alltaf sammála, en í þessum málum er það mjög ánægjulegt og ég vil þakka fyrir þessi viðbrögð og þann skilning sem menntamálaráðherra hefur sýnt á þeim málefnum sem hafa verið lögð fyrir hana í dag. Hins vegar er fjárlagagerðin stóra málið sem við stöndum frammi fyrir núna og hvernig við munum þurfa að forgangsraða innan fjárlagagerðarinnar og þá munu þær upplýsingar sem liggja fyrir núna skipta máli, hvert við ætlum að beina fjármununum, í hvaða farveg við ætlum að gera það.

Ég vil undirstrika það aftur og draga inn í þessa umræðu þá stórhættulegu skattaumræðu sem hefur verið sett af stað og sumir vilja banna. Ég er hrædd um og það mun væntanlega gerast og ég spái því að eins og fyrirtækin munu hafa minna umleikis og líka heimilin fyrir börnin okkar í íþróttum, muni það sama hugsanlega gilda um menningarmálin. Ég velti því fyrir mér hvaða möguleika sér menntamálaráðherra í því hvernig við eigum að bregðast við innan menningargeirans varðandi kvikmyndirnar, varðandi bókmenntasjóð, varðandi bara allan þann heim sem menningarmálin snúa að, hvernig munum við standa frammi fyrir því að það verður ekki eingöngu ríkissjóður sem muni skerða framlög sín til menningarmála, heldur ekki síður fyrirtækin? Hvernig á að taka á því og á ekki að gera það í samvinnu við til að mynda listamenn?



[15:34]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og öðrum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það liggur auðvitað fyrir og kannski fann íþróttahreyfingin fyrir því fyrst, en líka menningarlífið auðvitað að strax við hrunið drógu fyrirtæki sig út að stóru leyti sem stuðningsaðilar. Það er auðvitað verulegt áhyggjuefni því að þau hafa komið inn með ýmsa fjármuni á undanförnum árum. Það er áhyggjuefni að því leyti til að við þurfum að velta fyrir okkur hvernig þeim verður bætt þetta upp, listamönnum, íþróttafélögum og öðrum. Ég nefni sérstaklega íþróttahreyfinguna, af því að þar hefur þetta í raun og veru verið þriðjungur frá fyrirtækjum, þriðjungur frá opinberum aðilum og svo þriðjungur frá heimilunum í landinu sem líka eru minna aflögufær. Vissulega er það umræða sem þarf að taka.

Hvað varðar menningarsamningana sem tveir hv. þingmenn nefndu hér, menningarráðin og menningarsamningana, þá er frá hálfu menntamálaráðherra og ráðuneytis mikill vilji til að viðhalda þeim. Til stendur að endurnýja þá samninga. Það þarf auðvitað að skoða hlutfallslega skiptingu milli svæða og hvort ástæða er til að gera einhverja breytingu á henni en við leggjum til 5% niðurskurð þar, sem er með því minnsta sem við leggjum til af því að við teljum þetta mikilvægt. Hins vegar hafa aðrir aðilar komið að þessu, sveitarfélög, iðnaðarráðuneyti, og það þarf auðvitað að skoða hver heildarniðurstaðan verður þegar þessi framlög eru öll komin saman.

Það hefur verið ánægja með þessar úthlutanir að því leytinu til að þær eru nær fólkinu á svæðinu, menningarráðin eru skipuð fulltrúum svæðanna sem hafa meiri tengsl og mjög margt áhugavert, mörg áhugaverð verkefni hafa komið út úr þessu.

Svo verð ég bara að segja að lokum um tónlistarhúsið. Ég er alveg sannfærð um að það á ekki eftir að drepa menningarlífið. Ég er viss um að það á eftir að verða sproti eins og annað og ég hugsa að eftir einhver ár eigum við eftir, mörg hver alla vega, að verða sáttari við það en við erum í dag. Þó að vissulega sé þetta stór framkvæmd held ég líka að hún eigi eftir að verða íslensku tónlistarlífi og menningarlífi til mikils sóma. Ég hugsa að við eigum eftir að verða ánægð þegar við sjáum þetta hús risið, og ég er alveg handviss um að meira að segja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson verður það jafnvel líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)