138. löggjafarþing — 23. fundur
 11. nóvember 2009.
sendiherra Bandaríkjanna.
fsp. GÞÞ, 160. mál. — Þskj. 177.

[18:13]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í mál sem er í rauninni angi af stærra máli og veldur mér nokkrum áhyggjum en það eru samskipti Íslands við Bandaríkin. Það er skoðun mín að við höfum ekki sinnt þeim sem skyldi á undanförnum árum, í það minnsta áratug, kannski áratugum. Því miður hefur áherslan öll verið á vini okkar í Evrópu. Þótt það sé mjög nauðsynlegt höfum við gleymt því að þessi gamla vinaþjóð okkar, sem var nú fyrst til þess að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði okkar, hefur oftar en ekki reynst okkur vel og í ofanálag er hún eina stórveldið í heiminum, í það minnsta langöflugasta ríkið.

Við höfum flest tekið eftir því að hér hefur ekki verið sendiherra á landinu mjög lengi. Þrátt fyrir að við vitum að það getur tekið langan tíma að hafa sendiherraskipti vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það geti eitthvað tengst þeirri óheppilegu uppákomu sem var mjög í umræðunni hér á vormánuðum þegar Carol von Voorst sendiherra, sem er nú mikill Íslandsvinur og sinnti sínu starfi með sóma, var tilkynnt bréflega að hún ætti að fá fálkaorðuna. Hún var búin að fá leyfi bandarískra yfirvalda til að taka á móti henni. Ástæðan fyrir því að hún þurfti að fá leyfi bandarískra yfirvalda er að almenna reglan í Bandaríkjunum er sú að borgarar fá ekki orður, einungis hermenn, þannig að það þurfti að veita sérstakt leyfi til þess að hún gæti tekið við þessari orðu. Síðan var orðuveitingin afturkölluð á hlaðinu á Bessastöðum, eins og menn þekkja. Eiður Guðnason, sendiherra og fyrrverandi ráðherra, talaði um að hér væri um ótrúlegan dónaskap að ræða. Það væri ágætt að heyra hver afskipti hæstv. utanríkisráðherra voru af þessu máli. Ég hef ekki séð það staðfest að viðkomandi einstaklingur hafi fengið formlega afsökunarbeiðni. Hvað sem því líður vona ég nú að þetta hafi engin áhrif og margir viðmælendur sem tjáðu sig um þetta á sínum tíma voru nú bjartsýnir að svo væri. Því er ekki að neita að þetta er afskaplega pínlegt mál í besta falli, alveg sama hver á í hlut.

Við vitum að það getur tekið langan tíma að skipta um sendiherra, það eru ekki bara við sem erum ekki með sendiherra Bandaríkjanna, það er líka Aserbaídsjan, Hvíta-Rússland, Portúgal og Singapúr og fleiri lönd.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nýr sendiherra Bandaríkjanna hefur tekið til starfa hér á landi.

Ef ekki, telur ráðherrann að geti verið vegna uppákoma í tengslum við veitingu fálkaorðu?

Að lokum, hvaða þýðingu hefur það ef Bandaríkin (Forseti hringir.) hafa ekki starfandi sendiherra hér?



[18:17]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að samskipti okkar og Bandaríkjanna hafa verið með hvað mestum blóma núna síðasta árið, a.m.k. síðan 2006 þegar ákveðin uppstytta varð hér í samskiptum okkar og Bandaríkjanna vegna þess dæmalausa klúðurs í samskiptum Bandaríkjanna og Íslands sem Sjálfstæðisflokkurinn bar fyrst og fremst ábyrgð á. Það er ekki síst vegna þess að forseti Íslands er vel kynntur í Bandaríkjunum og hefur mikil tengsl. Ég get sagt hv. þingmanni að þau tengsl hafa nýst Íslandi vel. Að því er orðuveitingar forseta Íslands varðar get ég líka upplýst hv. þingmann um að þau eru með engum hætti á borði utanríkisráðherra.

Hv. þingmaður spyr um með hvaða hætti utanríkisráðherra hafi haft afskipti af þessari orðuveitingu. Alls engin. (Gripið fram í.) Það er ekki mitt að dæma um það hverjum forseti Íslands (Gripið fram í.) á að veita orður og hverjum ekki. Hv. þingmaður kemur síðan með spurningu sem hann er búinn að svara. Hann segir að allir viti að nýr sendiherra Bandaríkjanna er ekki tekinn til starfa. Hvers vegna er hann þá að eyða tíma þingsins í að spyrja um það?

Hv. þingmaður segir síðan að flestir hafi tekið eftir því að sendiherraskiptin hafi tekið langan tíma. Er það svo? Mér er a.m.k. tjáð að þegar skipti verða á ríkisstjórn í Bandaríkjunum leggi allir sendiherrar, hvort sem þeir eru pólitískt skipaðir eða embættismenn, fram lausnarbeiðni sína. Mér er sagt að það taki að meðaltali sjö mánuði að koma nýjum sendiherra í embætti.

Það vill svo til að fyrir utan þau lönd sem hv. þingmaður taldi hér upp að væru sendiherralaus, eru í dag 13 ríki sem ekki hafa fengið skipaðan sendiherra enn þá. Ég held að hv. þingmaður, sem ég þekki úr ríkisstjórn að undirbýr sig alltaf vel, a.m.k. að lesa heima. Ég skildi ekki tilefni þessarar fyrirspurnar fyrr en ég las Morgunblaðið í dag. Þá sá ég að hv. þingmaður telur að það sé eitthvert sérstakt hlutverk sitt að vera sendisveinn ritstjóra Morgunblaðsins og ber svona mál inn í þingið. (Gripið fram í.) Auðvitað hefur hv. þingmaður rétt til þess að spyrja um hvað eina. En það verður að segja alveg eins og er að ef þetta er eitthvert vantraust á þann mann sem núna er settur yfirmaður sendiráðsins hér í Reykjavík, get ég sagt hv. þingmanni að sá maður stendur sig afburðavel, alveg eins og fyrrverandi sendiherra, Carol von Voorst.

Ég held að hafi verið í apríl eða maí sem sá ágæti sendiherra, sem átti mikinn þátt í því að græða þau sár sem hér urðu tímabundið eftir árið 2006 vegna Sjálfstæðisflokksins í þessum samskiptum, var okkur kynntur nýr sendiherra, Robert S. Conan. Mánuði síðar var okkur tilkynnt að af persónulegum ástæðum hefði sá maður, sem ekki var pólitískur heldur embættismaður í kerfinu að uppruna, hefði fallið frá því. Það er ekkert flóknara en það og þá gerist það sem gerist jafnan að það er settur sérstakur sendimaður yfir sendiráðið. Þetta gera Íslendingar. Það er nú ekki flóknara en svo að t.d. núna í einu af sendiráðum okkar, þ.e. í Nýju-Delí, hefur verið slíkur yfirmaður. Það var sendiherralaust í 11 mánuði. Það hefur ekki hlaupið nein snurða á samskipti Íslands og Indlands sökum þess. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni nýlegt dæmi um það, af því að hann hefur áhuga á utanríkismálum, að það leið ár þangað til Bandaríkin skipuðu sendiherra í einu af sínum nánustu vinátturíkjum og samstarfsríkjum, þ.e. Ástralíu.

Það er rétt að rifja það líka upp fyrir hv. þingmanni að þegar ritstjóri Morgunblaðsins var forsætisráðherra, dyggilega studdur af bæði mér og hv. þingmanni, sem þá var að vísu enn í borgarstjórn Reykjavíkur, var sendiherralaust hér á Íslandi í 14 mánuði. Mér er ekki kunnugt um að það hafi haft einhver neikvæð afskipti eða áhrif á samskipti þjóðanna. Mér er heldur ekki kunnugt um að það hafi verið eitthvað sem hv. þingmaður kallar uppákomu varðandi orðuveitingu.

Ég held að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eigi ekki að smækka sig með því að gerast sendisveinn manna í þessu einelti gagnvart forseta Íslands, sem mér virðist að hann sé að láta plata sig í.



[18:22]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hætta á það að vera uppnefnd hér með því að leyfa mér að gera smá athugasemd við málflutning hæstv. ráðherra, sem virðist vera aftur eiga við það vandamál að etja að dagurinn er honum eitthvað slæmur. Hann baðst nú afsökunar á því fyrr í dag og ég held að við getum búist við annarri afsökunarbeiðni í síðari ræðu hæstv. ráðherra.

Mér finnst dæmalaust merkilegt að þegar ráðherrar í þessari ágætu ríkisstjórn eru spurðir einfaldra spurninga, það skiptir ekki máli um hvað er verið að tala, er í fyrsta lagi alltaf farið til baka og einhvern veginn verður allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Hér var spurt um ákvörðun sem tekin var löngu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hætti að hafa afskipti af þessum málum. En síðan vil ég, vegna þess að hæstv. ráðherra blandaði hér í umræðuna varnarviðræðunum sem ég tók þátt í, að Carol von Voorst, hinn ágæti fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna (Forseti hringir.) sem hér hefur verið til umræðu, var ekki hér til að græða einhver sár sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði skilið eftir. Hún var þátttakandi í því viðfangsefni (Forseti hringir.) sem við stóðum frammi fyrir þegar Bandaríkjastjórn, ekki Sjálfstæðisflokkurinn, ákvað að draga herlið sitt til baka. (Forseti hringir.) Carol von Voorst sendiherra átti í mjög góðum samskiptum (Forseti hringir.) og samstarfi við (Forseti hringir.) fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma.



[18:23]
Forseti (Steinunn Valdís Óskarsdóttir):

Forseti áminnir þingmenn um að halda tímatakmörk.



[18:24]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er algjörlega fyrirmunað að láta æsa mig upp í einhverjar orðahnippingar í ætt við þær sem hæstv. utanríkisráðherra var með. Hann upplýsir mig kannski um það á eftir hvað stendur í Morgunblaðinu í dag því að ég hef ekki lesið það enn þá. (ÁÞS: Sagðir þú því upp?) Ég er nú áskrifandi, virðulegi forseti, svo því sé til haga haldið. En hins vegar vitnaði ég í Eið Guðnason. Síðast þegar ég vissi var hann sendiherra og fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, sem var nú einn af þeim fjölmörgu flokkum sem hæstv. utanríkisráðherra var í. Það er kannski ekki við hæfi að vitna í hann og ég er þá kannski sérstakur sendisveinn Eiðs Guðnasonar og annarra þeirra sem tjáðu sig um þetta mál.

Það vekur athygli mína hvað hæstv. ráðherra er gríðarlega viðkvæmur fyrir þessu. Honum varð svo mikið um að hann fór að tala um einhverja hluti og leggja út frá einhverju sem kom aldrei fram í máli mínu. Ég sagði aldrei að hæstv. utanríkisráðherra veitti einhverjar orður, hvað þá að hann kæmi að slíku. Ég spurði hins vegar hvort ekki væri eðlilegt að hæstv. ráðherra upplýsti um hvað menn hefðu gert til þess að lágmarka þann skaða sem varð af þessari uppákomu. Það vita það allir sem vilja vita að þetta var ekki heppileg uppákoma. Ég var ekki jafnstórorður og fyrrverandi félagi hæstv. utanríkisráðherra, Eiður Guðnason, alls ekki. En viðkvæmni hæstv. utanríkisráðherra er mjög áhugaverð. Hæstv. utanríkisráðherra hafði t.d. tækifæri til þess að svara skýrt spurningu tvö, hvort þetta hefði haft einhver áhrif. Það svar kom ekki, ég tók í það minnsta ekki eftir því í þeim orðaflaumi og uppnefnum sem hér komu fram.

Svar ráðherra, að koma hér upp í einhverri nauðvörn og reyna að tengja Sjálfstæðisflokkinn við þetta, kallar á miklu fleiri spurningar (Forseti hringir.) en svör. Við fáum kannski að heyra það einhvern tímann.



[18:26]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Auðvitað er ég viðkvæm sál. Ég er viðkvæmur fyrir þinginu. Mér finnst ekki að það eigi að misnota þingið í þeim tilgangi sem augljóslega liggur á bak við þessa spurningu og sem ég tengi beint við, eins og ég sagði, við leiðara Morgunblaðsins í dag.

Frú forseti. Hv. þingmaður hann segir að ég hafi ekki svarað spurningu tvö, þ.e. hvort ég telji sem ráðherra (Gripið fram í.) að það sem hv. þingmaður kallar uppákomu í tengslum við veitingu fálkaorðu, hafi haft áhrif á samskiptin, þ.e. þau áhrif að hér hafi ekki verið skipaður sendiherra. Ég sagði við hv. þingmann að ég teldi að a.m.k. síðan 2006 hefðu samskipti Bandaríkjanna og Íslands aldrei verið jafngóð og þau hafa verið nú síðasta árið. (Gripið fram í.) Það er ekki síst vegna þess ágæta sendiherra sem nú er horfinn héðan, Carol von Voorst. Ég upplýsti líka um það í svari mínu hérna áðan að það eru 13 ríki í Evrópu þar sem ekki hefur verið skipaður sendiherra Bandaríkjanna. Það eru meira að segja mikilvægar alþjóðastofnanir sem Bandaríkin leggja gríðarlega rækt við, eins og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu þar sem hefur verið sendiherralaust af hálfu Bandaríkjanna frá því í janúar, ef ég man rétt. Ég undirstrika þess vegna að tilefnið fyrir þessari fyrirspurn er giska skrýtið. Og hv. þingmaður virtist kunna öll svörin þegar hann kom hingað. Þá velti ég því fyrir mér: Til hvers eru menn að eyða tíma þingsins með svona spurningum?

Já, frú forseti, ég er viðkvæmur fyrir því þegar ágætir menn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson taka þátt í svona. Mér finnst það ekki þinginu sæmandi.