138. löggjafarþing — 24. fundur
 12. nóvember 2009.
störf þingsins.

[10:32]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur komið í ljós að frá áramótum er búið að ráða í ráðuneytin alls 42 starfsmenn án auglýsingar. Í ljósi þess langar mig að beina fyrirspurn til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Í gær var grein í Fréttablaðinu eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing sem mig langar að vitna í, með leyfi forseta:

„Önnur birtingarmynd kunningjaþjóðfélagsins er það kunningjasamfélag sem verður til innan opinberrar stjórnsýslu við það að ættar-, vina og pólitísk hagsmuna- og kunningjatengsl ráða meiru við ráðningar í embætti og störf hjá hinu opinbera en hæfni, þekking og reynsla. Þetta kallast í daglegu tali pólitískur klíkuskapur, eða pólitískar vinaráðningar […]. Pólitískar vinaráðningar þekkjast víða, en eru hvað útbreiddastar í vanþróuðum ríkjum.“

Pólitískar vinaráðningar veikja stjórnsýsluna og því langar mig að beina fyrirspurn til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar vegna þess, frú forseti, að ég deili áhyggjum með Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðingi af því hvaða áhrif þetta hefur á stjórnsýsluna. Mig langar líka til að velta því upp við hv. þingmann hvort honum finnist ekki vera mismunun við það atvinnuástand sem núna er, það er fullt af mjög hæfu fólki sem er atvinnulaust, hvort ekki sé gengið á rétt þess að hafa ekki sömu tækifæri til að sækja um störf og aðrir.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sett heimsmet í að svara spurningum hjá Evrópusambandinu og hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) er mikill keppnismaður sem annaðhvort stefnir að því að setja heimsmet í skattahækkunum eða pólitískum ráðningum.



[10:34]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er afskaplega ánægjulegt að sjálfstæðismenn séu farnir að spyrja svona mikilvægra spurninga og tími til kominn að þeir spyrji alvöruspurninga í ráðningamálum hins opinbera. Það þarf svo sem ekki að fara langt aftur í söguna til að efast um breytni þeirra í þessum efnum og nægir þar að nefna dómsmálin.

Mín afstaða er afskaplega skýr í þessum efnum. Hér þarf að ríkja algert gagnsæi þegar kemur að ráðningum í opinber störf, ekki síst á þeim tímum sem nú eru og allir þekkja til. Það mega vera klárar undantekningar en þær þurfa að vera augljósar. Ég hef nefnt það í hópi þingmanna að ef til vill mega ráðuneytisstjórar vera pólitískt ráðnir og klárlega aðstoðarmenn ráðherra, en þá er það nokkurn veginn upp talið að mínu viti. Ef þessar reglur eru skýrar og einfaldar, t.d. með þeim tveimur undantekningum sem ég nefndi, þarf ekki í sjálfu sér að efast um kerfið. Þá er mjög auðvelt að gagnrýna kerfið ef út af er farið, en ég get ekki tekið upp hanskann fyrir það sem verið hefur, hvort heldur er nýverið eða á undanförnum árum þar sem ráðningar hafa farið fram í reykfylltum bakherbergjum — og árangurinn hefur blasað við okkur á forsíðum dagblaðanna með ansi eftirtektarverðum fyrirsögnum. Ég gagnrýni það sem er að gerast í dag og það sem hefur verið gagnrýnisvert á árum áður. Það ber að hafa þetta allt uppi á borðum og það ber að ráða til hins opinbera hæft fólk fyrst og fremst. Þannig hefur það gagnast best i einkageiranum og þannig hlýtur það að gagnast best hjá hinu opinbera.



[10:36]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tek til máls til að ræða sama mál og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, þessar ráðningar án auglýsinga. Nú skal ég bara viðurkenna að ég held að þeir flokkar sem hafa verið í ríkisstjórn áður hafi ekki verið beint til fyrirmyndar, bara viðurkenni það hér með, en þeir sem hins vegar tóku við voru þeir sem kannski gagnrýndu það harðast og virðast svo sannarlega ekki ætla að fara eftir því sem þeir sjálfir hafa sagt. Bent hefur verið á að í forsætisráðuneytinu eru tveir tímabundnir starfsmenn sem hafa verið ráðnir án þess að störf þeirra væru auglýst. Þetta eru fyrrum aðstoðarmenn, annar er Einar Karl Haraldsson sem er upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar og var meira að segja búinn að fá ráðningu í stjórnkerfinu, hjá Landspítalanum, án auglýsingar þar líka (Utanrrh.: Það vill enginn vera hjá mér.) en var síðan kippt yfir í forsætisráðuneytið. Kristrún Heimisdóttir er líka fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í utanríkisráðuneytinu, er núna einn fimm starfsmanna félagsmálaráðuneytisins sem voru líka ráðnir á árinu án auglýsingar. Síðan má benda á að í fjármálaráðuneytinu starfar nú Elías Jón Guðjónsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sem er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Vinstri grænna. Svo geta menn talið upp áfram í samgönguráðuneytinu og áfram.

Það sem vakti hins vegar athygli mína í svörum sem ég fékk frá forsætisráðherra var að einum ráðherra, sem er að vísu ekki lengur ráðherra, tókst algerlega að komast hjá því að ráða nokkurn starfsmann tímabundið án auglýsingar þegar hann var í ráðuneytinu. Ég held að það væri mjög áhugavert að heyra frá þessum fyrrverandi ráðherra hvernig í ósköpunum þetta var eiginlega hægt. Þegar ég ræddi um þetta við annan ráðherra sem situr núna í ríkisstjórn kom bara fram í svari hjá viðkomandi að hún væri bara enginn Ögmundur, hún sæi ekki fram á að (Forseti hringir.) henni væri stætt á að komast hjá því að ráða tímabundið án auglýsingar. Það væri ágætt að fá svona kennslustund frá Ögmundi og ég vona sannarlega að ráðherrar sem eru við umræðuna og kannski tilvonandi ráðherrar í þessum þingsal hlusti nú vel á það sem Ögmundur segir. (Gripið fram í.)



[10:39]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti á eftir að gefa hv. þingmanni orðið. (Gripið fram í: Hún ræður.) (Gripið fram í: Það er ekki búið að kynna þig.) (ÖJ: Nú, það er svona mikill formalismi hérna.) Nú tekur til máls hv. 10. þm. Suðvest. Ögmundur Jónasson.



[10:39]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Frú forseti. Já, formalisminn og reglurnar geta sem sagt skipt máli og eiga að skipta máli. Það gildir um mannaráðningar í öllum stofnunum sem eru fjármagnaðar af skattfé. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þar gilda skýrar reglur og þær reglur á að virða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ástæðan fyrir því að ekki var ráðið án auglýsingar í heilbrigðisráðuneytinu í minni tíð er þríþætt. Í fyrsta lagi urðu ekki miklar mannabreytingar á þessum tíma en jafnan var auglýst þegar ráðið var. Í öðru lagi þakka ég það góðri embættisfærslu þeirra sem halda utan um stjórnsýsluna í heilbrigðisráðuneytinu og í þriðja lagi er ég mjög meðvitaður um þessar reglur, ekki síst vegna starfa minna hjá BSRB. Við höfum lagt mikla áherslu á það hjá samtökum launafólks að þessar reglur séu virtar í hvívetna. Þær fóru nokkuð á flot vorið 2007. Skömmu eftir stjórnarskiptin var gerð breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands. Heimildir sem áður giltu um mannabreytingar eða tilfærslur í starfi innan einstakra stofnana voru nú látnir gilda um Stjórnarráðið allt, en þessar reglur áttu einvörðungu við um tímabundnar ráðningar. Sú regla eða sú heimild hefur iðulega verið misnotuð. Fólk er ráðið tímabundið og síðan að loknu einu ári eða tveimur sem heimilt er að ráða einstaklinginn til er starfið auglýst og beðið um reynslu í starfi. Þetta er vítahringurinn sem er í sumum tilvikum meðvitað beitt og á ekki að beita.

Það hefur verið gagnrýnt innan stjórnsýslunnar, ekki síst hjá lögreglunni. Þar hefur mönnum verið skákað á milli umdæma án auglýsinga og verið gagnrýnt en ég legg áherslu á að þetta er mjög (Forseti hringir.) verðugt umræðuefni. Um þetta gilda skýrar reglur og þær á að virða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:42]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Síðustu mánuðina hefur átt sér stað mjög frjó umræða um lýðræðismálin og núna um helgina fer fram þjóðfundur í Laugardalshöllinni þar sem þau mál verða sjálfsagt ofarlega á blaði í ýmsum starfshópum. Eitt mál er mjög brýnt að komi fram á þessu kjörtímabili, frumvarp til laga um að landið verði allt gert að einu kjördæmi. Þannig verði öll atkvæði jafnþung og það mannréttindamál nái loksins fram að ganga að allir landsmenn hafi jafngild atkvæði. Um leið eyðir þetta að sjálfsögðu óeðlilegu kjördæmapoti og þeim fyrirgreiðslum sem því fylgja en þetta kallar á breytingar á stjórnarskrá. Þess vegna þarf málið að ganga fram á þessu þingi. Þetta var fyrst flutt árið 1927 af Héðni Valdimarssyni, síðan rúmum 70 árum síðar af Guðmundi Árna Stefánssyni og liggur núna meira og minna tilbúið til flutnings ef vilji er til á þessu þingi. Það skiptir miklu að hreyfa þessu máli sem er eitt stærsta og brýnasta lýðræðismálið af þeim öllum, að landið verði allt eitt kjördæmi og öll atkvæði vegi jafnþungt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Þess vegna spyr ég hv. þingflokksformann Framsóknarflokksins um viðhorf þeirra í þessu máli af því að ég veit að innan raða hinna flokkanna er mikill vilji til að þetta mál nái fram. Einnig vildi ég beina til hans spurningu um persónukjör sem er hitt stóra lýðræðismálið sem stuðlar að auknu beinu lýðræði og gjörbreytingu á vali á framboðslistum til hins betra. Sjálfur tel ég að ganga eigi enn þá lengra en framkomið frumvarp fjallar um þannig að fólk geti raðað þvert á lista. Þetta mál er hins vegar komið til þings og er í meðförum allsherjarnefndar en það er mikilvægt að hreyfa því að landið verði gert allt að einu kjördæmi. Þetta mál þarf að koma fram fljótlega, einhvern tímann í vetur þannig að það fái eðlilega vinnumeðferð á þessu þingi og næsta, verði hugsanlega gert að lögum á þessu kjörtímabili. Síðan þarf að gera það að lögum aftur eftir kosningar og þá er hægt að breyta stjórnarskrá. Því vildi ég heyra viðhorf framsóknarmanna til þessara brýnu umbótamála á vettvangi lýðræðisins.



[10:44]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu mánuðum í raun haft forustu í þeirri lýðræðisumræðu sem átt hefur sér stað. Við lögðum upp með það í vor þegar hér urðu umskipti í íslenskum stjórnmálum að boðað yrði til stjórnlagaþings, lögðum mikla áherslu á það. Stjórnlagaþing hefði tekið á flestum þeim málum sem hv. þingmaður spyr um. Því miður fór það mál í einhvern undarlegan farveg og virðist ætla að verða minna úr því en efni standa til. Ég kenni um, hvað á ég að segja, vandræðagangi með það að koma að stefnu hjá ríkisstjórninni um hvaða leið hún vilji fara í þessu. Það er búið að útþynna verulega mikið þá hugmynd sem við lögðum fram.

Hvað varðar það að gera landið að einu kjördæmi hefur Framsóknarflokkurinn ályktað að það eigi að stefna að því að jafna vægi atkvæða sem mest. Það er í flokksþingsályktunum okkar. Það eru hins vegar eðlilega skiptar skoðanir innan þess flokks eins og margra annarra um það hvernig sé best að gera það og hvaða leiðir eigi að fara. Við höfum stutt við þá hugmynd að fara út í persónukjör, við höfum hins vegar ákveðnar efasemdir um það núna. Við teljum að miðað við þá tímasetningu sem sett er fram, að þetta mál skuli koma fram með þessum fyrirvara sem er enginn að okkar viti varðandi sveitarstjórnarkosningar, fari í rauninni betur á því að persónukjör verði reynt við alþingiskosningar en ekki næsta vor í sveitarstjórnarkosningunum.

Ég verð að segja það hér að það að breyta landinu í eitt kjördæmi er nokkuð sem vissulega þarf að skoða, en það er líka ýmislegt sem má velta upp þegar við tölum um vægi og jafnvægi meðal þjóðarinnar. Öll stjórnsýslan er á höfuðborgarsvæðinu. Er alveg sjálfgefið að svo sé og er sjálfgefið að í Reykjavík séu þingmenn? (Forseti hringir.)



[10:46]
Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég hef beðið um að fá að taka til máls hér undir liðnum Störf þingsins vegna tilkynningar frá samgönguráðuneytinu í gær þar sem fram kom að ríkisstjórn hefur samþykkt tillögu samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra um að haldið verði áfram undirbúningi vegna útboða á samgönguframkvæmdum og að meðal framkvæmda verði fyrsti áfangi í breikkun Suðurlandsvegar, samgöngumiðstöð í Reykjavík og Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd.

Mig langar til þess að eiga hér orðastað við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, vegna þess að hér eru mjög merkileg tíðindi á ferðinni sem hefur kannski ekki verið gert nægilega hátt undir höfði í fréttum. Þarna er sagt frá því varðandi Suðurlandsveg að fyrsti áfanginn þar sé breikkun á 6,5 km kafla milli Lögbergsbrekku og svokallaðrar Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna í 2+2 veg, sem er gríðarlega mikilvæg framkvæmd í ljósi umferðaröryggis. Með þessu mundi vestari kafli þessa vegarkafla tengjast núverandi þriggja akreina vegi um Lögbergsbrekku og að austan tengist hann núverandi 2+1 vegi um Svínahraun. Gerð útboðsgagna er langt komin en auglýsa þarf verkið á Evrópska efnahagssvæðinu og miðað er við að verkið verði hefðbundin ríkisframkvæmd. En mögulegt er að síðari áfangar verði boðnir út í einkaframkvæmd og jafnvel að framangreindur kafli falli inn í þá fjármögnun á síðari stigum. Breikkun Suðurlandsvegar er eitt þeirra verkefna sem rætt hefur verið um að lífeyrissjóðir komi að.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hvort ekki sé ástæða fyrir hann til að stíga út úr grátkór stjórnarandstöðunnar og taka þátt í því með okkur í stjórnarmeirihlutanum að fagna þessum merkilega áfanga.



[10:48]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Róberti Marshall um að ég sé í einhverjum grátkór stjórnarandstöðunnar en að sjálfsögðu fagna ég öllum góðum framkvæmdum, hvort heldur sem þær eru á Suðurlandi, Vesturlandi, Austurlandi eða Norðurlandi.

Mig langar hins vegar að velta því hér upp, af því að hann nefnir pínulítinn bút í kringum Litlu kaffistofuna, ef ég veit rétt, (RM: Sjö kílómetra.) — Sjö kílómetra, já, ég geri ekkert lítið úr því, þetta er bara mikilvæg framkvæmd og allt gott um það. (RM: … byrjunin) — Já, byrjunin, gott og vel.

Mig langar kannski að taka upp það sem hann sagði hér í lokaorðunum um að þetta væri hugsanlega verkefni sem lífeyrissjóðirnir kæmu að, mig langar aðeins að ræða það hér á Alþingi vegna þess að ég er eiginlega hættur að skilja þetta. Samtök atvinnulífsins og lífeyrissjóðirnir eru í raun og veru farin að ráðstafa hér öllum tekjum sem eiga að fara í vegagerð, uppbyggingu á spítölum og annað, í tónlistarhús og þar fram eftir götunum. Hvert hlutverk er Alþingis í þessum málum í raun og veru, vegna þess að þetta eru skuldbindandi ákvarðanir sem teknar eru úti í bæ nokkra áratugi fram í tímann? Og tónlistarhúsið kemur inn sem einhver ein lína í fjárlögunum og nú er það komið upp í 27 milljarða. Hvernig verður þetta? Ég ætla ekki að bera upp þessar spurningar, en hvað varðar þessar einkaframkvæmdir lífeyrissjóðanna, þessi göfugu verkefni, geri ég ekkert lítið úr þeim en við vitum það hér í sölum Alþingis að þær framkvæmdir mundu standa undir sér. Það fólk sem nýtir þá vegi mun þurfa að greiða full veggjöld til þess að standa undir þeim framkvæmdum.

Ég minni bara á að þegar farið var í framkvæmdir í Hvalfjarðargöngunum tók mörg ár að undirbúa það. Ég teldi mjög eðlilegt og vil beina því þá til stjórnarþingmanna að þeir sjái til þess að samningar um þessi verk verði þá kynntir fyrir Alþingi áður en skrifað verður undir þá og teknar ákvarðanir um þær skuldbindingar (Forseti hringir.) sem skuldbinda íslenska ríkið langt fram í tímann án þess að það liggi alveg klárt fyrir hvernig að þeim verður staðið.



[10:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í mestu vinsemd beina orðum mínum til stjórnarliða. Þið verðið að fyrirgefa þó að mér finnist svolítið kómískt að hlusta á hv. þm. Róbert Marshall tala um grátkór því að eftir að hafa heyrt ræður stjórnarliða hérna í gær er grátkór það orð sem kemur kannski fyrst upp í hugann. (Gripið fram í.) Virðulegur hæstv. utanríkisráðherra fer núna örlítið á taugum við að heyra þetta en það er allt í lagi, hann hefur verið svolítið í því undanfarna daga.

Ég vek athygli stjórnarliða á því að hér hafa þeir farið mikinn og hreinlega krafist þess að stjórnarandstaðan tali ekki um skattahækkanir. Nú getur það vel verið að þeim finnist það ekkert stórmál (Gripið fram í.) að hækka skatta um hundruð þúsunda á ári á launafólk í landinu, og að þeim finnist ekkert stórmál að hækka hér jaðarskatta, koma þeim aftur á, sem við lögðum mikið á okkur til að losa okkur við. Það getur vel verið að þeim finnist ekki stórmál að mismuna hjónum og það getur vel verið að þeim finnist það ekki einu sinni stórmál að hækka skatta um milljarða umfram það sem gert er ráð fyrir í áætlun AGS, jafnvel milljarðatugi. Og þeim finnist heldur ekki stórmál að hækka um milljarða eða milljarðatugi umfram það sem ákveðið var í stöðugleikasáttmálanum. Það getur verið að þetta sé hinn tæri draumur vinstri manna að komast núna loksins í að hækka almennilega skatta en stóra einstaka málið er þó, sem ég bið stjórnarliða að hugsa um, að hér í þinginu er málfrelsi.

Ég hvet stjórnarliða til að hugsa nokkur ár aftur í tímann þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, hvernig þeir létu þegar hin ýmsu mál komu upp, áður en þeir fara hér fram og krefjast þess að (Forseti hringir.) ekki verði tekin lýðræðisleg umræða um þessi mikilvægu mál eða önnur sambærileg.



[10:53]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er greinilegt að umræða síðustu daga ætlar að halda áfram hér í þingsal (Gripið fram í.) og þá undir Störfum þingsins. (Gripið fram í.) Það er auðvitað kaldhæðnislegt að stjórnarandstöðuþingmenn komi hér upp dag eftir dag í ræðustól Alþingis og kvarti beinlínis undan því að stjórnarþingmenn taki á móti og svari fyrir sig, sem eðlilegt er. Eins og ég sagði í ræðu minni í gær er það sérstaklega að ósk þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins sem skattamálin verða á dagskrá á föstudaginn undir sérstökum dagskrárlið — að þeirra ósk. Málið er þá á dagskrá og verður rætt þá.

Það er ágætt að segja frá því hér, frú forseti, af því að ég var að fá ræðuna mína sem ég flutti í gær á borðið mitt, að það er kannski til marks um framgöngu stjórnarandstöðuþingmanna hér í þingsal en ekki stjórnarliða að ég talaði í eina og hálfa mínútu en komst ekki lengra fyrir frammíköllum og hlátri. (Gripið fram í.) Tíu frammíköll komu úr þingsal frá stjórnarandstæðingum meðan ég var að reyna að svara þeirri spurningu sem til mín var beint um skattamálin.

Ég endurtek því það sem ég sagði áðan, það er kaldhæðnislegt að hv. 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Guðlaugur Þór Þórðarson komi hér og kvarti beinlínis í þessum ræðustól (Gripið fram í.) undan því að stjórnarþingmenn svari fyrir sig og reyni að svara þeim spurningum sem til þeirra er beint. (Gripið fram í.)



[10:55]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi þær ráðningar sem voru ræddar hér áðan eða ráðningar í ráðuneyti og annað. Ég vil upplýsa þingheim um að 8. september óskaði ég eftir því að upplýsingaþjónusta þingsins útvegaði mér upplýsingar um nokkra þætti er sneru að ráðningum, m.a. ráðningum eða skipan í full störf frá 1. febrúar, skipan í hlutastörf, tímabundin verkefni, sérverkefni, ráðningarauglýsingar og annað. Eftir dúk og disk hafa flest svarað en ekki öll.

Í dag er 12. nóvember, ekki rétt? Enn hafa ekki öll ráðuneyti og undirstofnanir ráðuneyta svarað þeim spurningum sem sendar voru í gegnum upplýsingaþjónustu Alþingis. Hverjir er það sem nýta sér upplýsingaþjónustu Alþingis yfirleitt, eru það ekki þingmenn? Hvernig sendur á því að framkvæmdarvaldið virðir ekki þá beiðni sem sett er fram? Það virðir hana raunar að vettugi. Hvað hefur framkvæmdarvaldið að fela? Hvað hefur ríkisstjórnin að fela í þessum málum?

Ég vil bara upplýsa það hér að gengið verður á eftir því að fá þessi svör og þau verða vitanlega skoðuð nánar og beiðnin ítrekuð ef ekki koma við þessu þau svör sem eru ásættanleg, þ.e. að öllu sé svarað hreint og beint út. Það er klárlega einhver maðkur í mysunni sem stjórnvöld og stjórnarliðar eru skíthrædd við, afsakið orðbragðið.



[10:57]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það skýtur hér skökku við að stjórnarandstaðan megi ekki koma upp í þennan ræðustól og tala um skattamál sem brenna nú á þjóðinni, þjóðin er hrædd, þjóðin veit ekki hvert ríkisstjórnin er að fara með hana. Það dylst engum að þær skattatillögur sem verið er að skjóta út í fjölmiðla með vilja eður ei, hafa vakið mikið uppnám hjá þjóðinni.

Þess í stað velja hv. þingmenn Samfylkingarinnar að koma hér dag eftir dag og ræða persónukjör, eins og það sé eitthvað sem brennur nú á þjóðinni. Málið er í ákveðnum farvegi, hér hafa stjórnarþingmenn komið og upp og meira að segja krafið samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn um afstöðu hans til þjóðaratkvæðagreiðslu (Gripið fram í: … í Framsóknarflokknum.) því að eins og við vitum öll er persónukjörsfrumvarpið enn eitt frumvarpið sem lagt er fram af þessari minnihlutaríkisstjórn sem hér starfar. Ríkisstjórninni er það fullkunnugt að frumvarpið um persónukjör kemst ekki í gegnum þingið nema fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar.

Þess vegna er það alveg hreint með ólíkindum að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson skuli koma hér upp og ræða þetta enn einu sinni. Afstaða Framsóknarflokksins til persónukjörs er skýr. (BjörgvS: … landið eitt kjördæmi, jafnvægi atkvæða. Farðu rétt með.) Hér kemur hv. þingmaður og grípur fram í og hann heimtar það að landið verði eitt kjördæmi. (Gripið fram í.) Þá svara ég því til að viðkomandi (BjörgvS: Við skulum ræða það … Farðu rétt með.) þingmaður hefur aðild að þessari ríkisstjórn og er það líklega í sjálfsvald sett að leggja fram lagafrumvarp þess efnis að gera landið að einu kjördæmi. Ekki skal ég standa í vegir fyrir þingmanninum hvað það varðar. (Gripið fram í: Það er gott.)

Fyrirspurnin til hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar var um hver afstaða Framsóknarflokksins væri. Auðvitað tökum við framsóknarmenn öllum lýðræðisbótum fagnandi. (Forseti hringir.) Það er annað en hægt er að segja um aðra flokka hér á þingi. (BjörgvS: Heyr, heyr. Nema hvað …)



[10:59]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt af máli hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur að hún kærir sig ekki um að skattamál séu rædd í þessu samhengi hér á þingi. Það er búið að afmarka hálftíma til þess að ræða skattamálin í þessari viku og menn eiga bara að gjöra svo vel að þegja um þau þar fyrir utan þó að allt þjóðfélagið logi af umræðum um skattamál.

Allt í lagi, ég ætla ekki að fara djúpt í skattamálin en ég vil hins vegar minna á að ummæli hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hér í gær í sambærilegri umræðu lutu öll að því að menn ættu bara að gjöra svo vel að steinþegja um skattamálin. Ég er hins vegar svo sem ekkert hissa á því að stjórnarliðum þyki óþægilegt að ræða skattamálin þessa dagana vegna þess að nú er kominn 12. nóvember og enn þá er greinilega allt í uppnámi innan ríkisstjórnarinnar í sambandi við skattamál. Það er ekki komin nein lína í það hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að móta tillögur sínar í skattamálum, ekki nokkur einasta lína. Hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það svo vel í gær þegar hann sagði að það ætti sér stað lifandi umræða í stjórnarflokkunum um skattamálin. Það er að mínu mati eðlilegt að sú lifandi umræða nái út fyrir raðir stjórnarflokkanna og eigi sér líka stað hér í þingsal. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Að öðru, hér kom hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson upp og vakti máls á jöfnun vægis atkvæða og hugmyndum um að gera landið allt að einu kjördæmi. Ég fagna því að þessi umræða komi hér inn í þingsal og tel að þar sé um að ræða mjög mikilvægt lýðræðismál, eins og hv. þingmaður sagði. Mér fannst skynsamlegt hvernig hann lagði málið upp, að það yrði hugsanlega lagt fram á þessu þingi og rætt hér og hugsanlega líka því næsta. Ég tel að það sé miklu betri nálgun en (Forseti hringir.) að ætla að fara að keyra fram grundvallarbreytingar á kosningalögum í einhverjum andarteppustíl hér á örfáum dögum.



[11:01]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er tilefni til að ræða mörg þeirra mála sem hér hefur verið tæpt á undir þessari knöppu umræðu undir liðnum Störf þingsins. Ég vil fyrst aðeins koma inn á það sem hér hefur verið nefnt um pólitískar ráðningar. Mér finnst eðlilegt að spurt sé út í það hvernig staðið er að ráðningum hjá hinu opinbera og hjá þeim sem eru á fjárframlögum úr opinberum sjóðum. Ég vil hins vegar halda þeirri skoðun fram að mikilvægast alls í þessu efni er að það sé gagnsæi, það sé ljóst hvaða störf eru pólitísks eðlis í stjórnsýslunni og hvaða störf eru faglegs eðlis. Mér finnst eðlilegt að í þau störf sem eru pólitísks eðlis og eiga að vera það í stjórnkerfinu og í Stjórnarráðinu sé ráðið á pólitískum forsendum og þau séu mönnuð þannig að þeir sem í þau fara komi með ráðherrum. Það getur til að mynda átt við um ráðuneytisstjóra, ég er þeirrar skoðunar. Það hefur því miður allt of oft tíðkast hér að menn séu ráðnir pólitískri ráðningu undir yfirskini faglegrar ráðningar og að menn sitji þar sem fastast lengi. (Gripið fram í.) Því þarf að breyta. (Gripið fram í.) Þar er Sjálfstæðisflokkurinn ekki saklaus. (Gripið fram í: Auglýsingaskyldan.) — Auglýsingaskylda á öllum störfum sem á að ráða í á faglegum forsendum. (Gripið fram í.) Já, en ég tel ekki sérstaka ástæðu til að auglýsa það sem ráðið er á pólitískum forsendum. (Gripið fram í.) Það þarf að vera gagnsætt og skilgreint, það er það sem ég er að segja.

Talað hefur verið um að hér sé ekki vilji til að ræða skattamálin á Alþingi. Það er rangt. Það er vilji til þess og ég kvíði ekki umræðunni um skattamálin við Sjálfstæðisflokkinn nema síður sé. Hún verður hins vegar að vera á upplýstum nótum. Það einkennir umræðu Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) að hann vill bara að umræðan verði slagorðakennd og á grundvelli upphrópana. (Gripið fram í.) Það munu koma þingmál (Gripið fram í.) um skattamálin og þá verður tilefni (GÞÞ: Hvenær? Hvenær?) til að ræða þau í þaula, líka skattastefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár sem (Gripið fram í.) er ekki til að hrópa húrra fyrir. [Frammíköll í þingsal.]