138. löggjafarþing — 26. fundur
 16. nóvember 2009.
yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda, fyrri umræða.
þáltill. IllG o.fl., 8. mál. — Þskj. 8.

[20:56]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S):

Frú forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram er flutt af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ásamt nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins, þeim hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni. Tildrög þessarar þingsályktunartillögu eru þau að sjávarútvegsráðherra skipaði með bréfi þann 3. júní sl. starfshóp sem ætti að hafa það hlutverk að, eins og fram kemur í bréfi ráðherrans, með leyfi forseta, „vinna nauðsynlegar greiningar og setj[a] að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða“. Þetta snýr að endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni.

Á sama tíma liggur fyrir stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um endurskoðun laga um fiskveiðar, með leyfi forseta:

,,6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Hér er mjög skýrt kveðið að orði. Hér er um að ræða fullkomna og algjöra stefnubreytingu frá því fyrirkomulagi sem við höfum haft um fiskveiðar á Íslandsmiðum undanfarna áratugi. Þess vegna skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og þessi yfirlýsing liggur fyrir með þessum hætti, sem ljóst má vera að ekki nokkur sátt mun nokkurn tímann nást um, skuli vera stofnaður starfshópur sem á að ná fram slíkri sátt og á að leggja grunn að endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að það sé nauðsynlegt að fara í gegnum slíka endurskoðun. Ýmis þau mál sem uppi eru í okkar fiskveiðistjórnarkerfi þurfa nánari skoðunar við. Vek ég þar sérstaklega athygli ráðherrans á samspili þess aflamarkskerfis sem við búum við og fiskveiðiráðgjafar, þ.e. ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar sem ég tel að þurfi að skoða mjög ítarlega. Reynslan af því hefur að mínu mati ekki verið góð. Jafnframt eru ýmis önnur atriði sem snúa að fiskveiðistjórnarkerfinu, aflamarkskerfinu, sem ég tel að þurfi að skoða, m.a. hvað varðar fiskverndarsjónarmið, hvar og hvenær er veitt o.s.frv. Allt eru þetta atriði sem við þurfum að ræða og því miður hafa þau fallið nokkuð í skuggann af þeim deilum sem hafa verið um grundvöll sjálfs kerfisins, þ.e. hvar nýtingarrétturinn liggur.

Þess vegna er það tillaga okkar hv. flutningsmanna að ríkisstjórnin kalli umsvifalaust til baka þessa stóru yfirlýsingu sína um fyrningu aflaheimilda og láti þá nefnd sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað það eftir að móta þessar tillögur þannig að einhver sátt náist um nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Síðan er hitt alveg sérstakt mál og mjög alvarlegt að með því að þessi yfirlýsing er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er búið að skapa alveg gríðarlega óvissu í sjávarútveginum. Þeir sem þar starfa búa nú við það að þeir geta átt von á því að aflaheimildirnar verði fyrndar á næstu 20 árum, með öðrum orðum að hið opinbera eða ríkisvaldið geri upptækar þessar heimildir sem langstærstur hluturinn af útgerðarmönnum á Íslandi í dag hefur fjárfest í fyrir fé sem útgerðirnar hafa annaðhvort fengið að láni eða tekið úr eigin rekstri.

Þetta er mjög alvarlegt við þær aðstæður sem eru uppi í íslensku atvinnulífi þessa dagana og fyrirsjáanlegt er að verði hér næstu missirin. Það er alvarlegt að það sé uppi jafnmikil grundvallaróvissa í íslenskum sjávarútvegi og þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kallar fram. Þeir sem þekkja til í greininni og hafa rætt við forustumenn fyrirtækja og þá sem þarna starfa hafa auðvitað heyrt hvaða afleiðingar þessi óvissa hefur. Ein erfiðasta og versta afleiðingin fyrir íslenskt þjóðarbú er að það dregur úr fjárfestingum sem gerir það að verkum að menn halda að sér höndum og nýta ekki þá uppsveiflu sem nú er í greininni, bæði vegna þess að verð á mörkuðum hefur farið hækkandi og vegna þess að gengið er mjög hagstætt fyrir þessa starfsemi. Það er alvarlegt mál, frú forseti. Þess vegna eru í sjálfu sér alveg sérstök rök fyrir ríkisstjórnina til að draga þetta til baka og beina málinu inn í þann farveg sem upp hefur verið settur af hæstv. sjávarútvegsráðherra sem ég tel skynsamlegan farveg, að það fari inn í þá nefnd sem hann setti af stað með bréfi þann 3. júní sl.

Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um fiskveiðistjórnarkerfið og sjávarútveginn almennt hefur gjarnan verið bent á, og menn hafa þá jafnan haft um það stór orð, að skuldir sjávarútvegsins séu miklar. Það er alveg hárrétt. Skuldir sjávarútvegsins eru miklar. Það er þó ofmælt eins og líka hefur verið haldið fram í opinberri umræðu hér á Íslandi að orsök þess efnahagshruns sem við stöndum nú frammi fyrir hafi verið vegna skuldsetningar sjávarútvegsins. Það er mjög ofmælt. Það er rétt að líta til þess að árið 2001 voru skuldir sjávarútvegsins 9,18% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs. Árið 2007 var þetta hlutfall 2,07%. Það að halda því fram að skuldir sjávarútvegsins hafi komið íslenskri þjóð á kaldan klaka er auðvitað rangt. Þannig var það ekki.

En það sem gerist er að ef þessi leið ríkisstjórnarinnar á að ganga fram, ef það á að innkalla þetta stóran hluta af aflaheimildum sem að stórum hluta eru þannig komnar í eigu manna að þeir hafi greitt fyrir þær fullt verð, annaðhvort af sjálfsaflafé eða fengið til þess lán sem þeir eiga síðan að borga til baka, standa menn auðvitað frammi fyrir því að þau lán sem eru í greininni núna standa eftir veðlaus og það er enginn möguleiki fyrir útgerðina að greiða slík lán ef eignir útgerðarinnar eru rýrðar um ein 7% eða svo á ári. Það hlýtur að gefa augaleið. Menn geta velt fyrir sér hvort annar atvinnurekstur á Íslandi stæði það af sér ef tekjugrunnur greinarinnar yrði lækkaður á hverju ári um 7% eða svo. Innköllun aflaheimilda án þess að bætur komi til þýðir einfaldlega þetta. Fyrirtæki sem hefur kannski 100 tonn þarf þá að gefa frá sér sem nemur þeirri prósentulækkun sem ráðist verður í á grundvelli þess að aflaheimildir verða innkallaðar á 20 ára tímabili. Augljóslega getur engin atvinnugrein á Íslandi staðið undir slíku. Það þýðir þá að þær skuldir sem eru í greininni munu falla eitthvað. Einhvern veginn verða þær greiddar og þær falla þá á bankana vegna þess að fyrirtæki sem eiga að standa undir þessu verða gjaldþrota. Það er engin leið fram hjá því. (Gripið fram í.)

Þetta skiptir miklu máli þegar við veltum fyrir okkur því fyrirkomulagi sem við höfum hér varðandi afskriftahugmyndina sem nú hefur verið lögð til í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Ég vek athygli yðar á því að klukkan fyrir ræðutímann er hætt að virka. Ég reikna með að fá þá bara tilkynningu þegar að því kemur að tíminn klárast.

Síðan kemur að þeim spurningum sem menn hafa rætt í þingsölum. Er það kerfi sem við búum við núna réttlátt eða ranglátt? Það má finna á því margar hliðar. Ákveðið réttlæti er fólgið í því að þeir sem hafa keypt til sín aflaheimildir, sem eru auðvitað langflestar útgerðirnar á Íslandi, hafi þar með eignast og fengið yfirráðarétt yfir þeim sóknarrétti sem þær aflaheimildir veita þeim. Það er ákveðið réttlætismál. Ég er þeirrar skoðunar líka að í ljósi þeirra ákvæða sem liggja til grundvallar lögum um fiskveiðistjórn sé einmitt kveðið á um þjóðareign. Hvað mig varðar lít ég svo á að það sé augljóst mál að íslenska þjóðin á þessa fiskstofna rétt eins og íslenska þjóðin á íslenskt land. Það breytir ekki því að það getur verið skynsamlegt að hafa séreignarfyrirkomulag og við höfum metið það svo að það eigi að vera á veiðiréttinum, rétt eins og við höfum séreignarfyrirkomulag á landnýtingu bænda. Það hreyfir ekki við þeirri staðreynd að við Íslendingar eigum landið okkar og það hreyfir ekki heldur við þeirri staðreynd að við Íslendingar eigum og höfum forræði yfir fiskstofnunum við landið, enda áskilur ríkisvaldið sér þann rétt að ákveða hver heildarafli á að vera og ýmislegt annað sem snýr að veiðunum, sem ríkisvaldið ákveður einmitt í krafti þessa.

Það að taka þá ákvörðun að víkja frá því fyrirkomulagi að það sé séreignarréttur á veiðiréttinum, á veiðiheimildunum, hefur mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér að mínu mati. Það grundvallast í fyrsta lagi á þeirri hugsun að ríkið eigi raunverulega þennan rétt og sé að kalla hann til sín, og hann hafi aldrei verið nema í eigu ríkisins. Ég er mjög ósammála þeirri skoðun og ég er nokkuð sannfærður um að niðurstaðan sem af því verður verður ekki til heilla fyrir íslenska þjóð. Eða eru menn búnir að gleyma því hvernig var ástatt í íslenskum sjávarútvegi á árum áður en við tókum kvótakerfið upp? Menn geta skoðað t.d. rekstrarniðurstöðu þessarar greinar. Þá blasir við sú mynd að frá og með árunum 1990 og 1991 — það var þegar ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks tók ákvörðun um að heimila framsal sem var skynsamleg ákvörðun — hefur rekstrarniðurstaða þessarar greinar nærri því öll árin, að undanskildum tveimur, verið jákvæð. Árin þar á undan var allt öðruvísi um að lítast í greininni. Kannski eru menn búnir að gleyma því þegar biðstofur ráðherranna voru fullar af útgerðarmönnum sem biðu eftir fyrirgreiðslu frá ríkisvaldinu til að geta bjargað fyrirtækinu sínu frá gjaldþroti, þegar milljarðar fóru úr vösum skattgreiðenda, t.d. í bjargráðasjóðunum sem voru hér fyrir ekki svo mörgum árum þegar skattpeningar voru settir inn í sjávarútveginn. Þarna eru menn búnir að gleyma þeim ósköpum öllum. Eða meðferðinni á afla sem var hér t.d. á tímum skrapdagakerfisins og við höfum rætt í þessum ræðustól, og við ræddum hér í dag þegar við vorum að ræða um makrílinn. Hið sama gilti m.a. í þorskveiðunum af því að þær voru með sama fyrirkomulagi um margt, eins og makrílveiðarnar voru hér, vegna þess að það voru kappveiðar og í landvinnslunni var oft ekki möguleiki til að anna þeim afla sem barst að landi — vegna þess að menn voru að keppa sín á milli um að klára að veiða sem mest.

Allt þetta eiga menn að hafa í huga þegar verið er að finna nýjar leiðir eða menn ætla að gera stökkbreytingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Enn og aftur er ekki þar með sagt að þetta kerfi sé gallalaust eða að við eigum ekki að ræða endurbætur á því. Ég er mjög þeirrar skoðunar að ýmsa þætti eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar, sérstaklega sem snúa að samspili hafrannsókna og fiskveiðiráðgjafarinnar annars vegar og hins vegar kvótakerfisins, þurfi að skoða miklu betur. En það að setja það fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert að það eigi að innkalla þessar aflaheimildir á næstu 20 árum, þá væntanlega bótalaust, setur alla greinina í uppnám á þeim tíma sem hún má alls ekki við því.

Ég ætla hvorki að þreyta mig né hæstv. ráðherra með að fara yfir skoðanir mínar á ýmsu því sem hæstv. ráðherra hefur þó gert hingað til sem snýr að strandveiðum, (Gripið fram í: Það er nú allt …) skötusel og ýmsu öðru sem getur gert mann ósköp dapran í huga þegar menn horfa á afleiðingar þess, en hitt er að það eina sem gleður mig þó er að ég veit að hæstv. ráðherrann er glaður. Það gleður mig auðvitað, en fyrir hönd greinarinnar og fyrir hönd almennings á Íslandi er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu vegna þess að þegar þetta allt er saman tekið — þegar menn taka saman þá stefnuyfirlýsingu sem hér liggur fyrir, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrningar á aflaheimildum, aðrar aðgerðir sem hæstv. sjávarútvegsráðherra grípur til, aðgerðir sem allar miða að því að grafa undan þeim grundvelli sem þó hefur verið í sjávarútveginum, sem við höfum byggt sjávarútveginn á, sem hefur þó gert það að verkum að skattpeningar fara ekki inn í þessa grein eins og var hér áður fyrr þegar þurfti að dæla milljörðum inn í greinina til að bjarga henni frá gjaldþroti, aftur og aftur — er ekki ástæða til að gleðjast. Það að við komumst út úr óefni var heilmikið afrek, og allir flokkar á þingi, bæði sem núna eru og þeir sem voru á árum áður, komu saman að þeirri vinnu af því að menn sáu alvarleika málsins og hann brann á mönnum. Og nú virðast margir hafa gleymt því við hvaða vandamál var að etja á þessum árum og ætla sér að fara hraðferð aftur inn í kerfi sem byggir á ríkisafskiptum, á stjórn stjórnmálamanna á greininni, m.a. með því að innkalla allar þessar aflaheimildir og hafa stjórn á því hvernig það verður síðan unnið, bótalaust, frú forseti, sem er náttúrlega mikið atriði, sem gerir það að verkum að það er mjög skiljanlegt að allir þeir sem að útgerð koma á Íslandi hafi miklar áhyggjur af þessu og það hamli fjárfestingum og framþróun í greininni akkúrat á þeim tíma sem við þurfum mest á framþróun að halda.

Samantekið, frú forseti, er það þannig að ef við ætlum að láta skynsemina ráða í þessu máli förum við þá leið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur þó lagt upp með, setjum málið í þann farveg að nefndin fáist við endurskoðun á íslenskum sjávarútvegi, það er sjálfsagt mál, og tökum í burtu þetta ákvæði. Ef það er ákvörðun og tillaga nefndarinnar að skoða slíka leið, gott og vel, en tökum þetta út núna, látum þetta ekki hanga yfir bæði nefndinni og greininni vegna þess að nefndin á að nálgast þetta þannig að það sé ekki fyrir fram búið að ákveða niðurstöðu nefndarinnar, að sjálfsögðu ekki, og greinin á ekki að þurfa að búa við þá óvissu sem þetta ákvæði býr til. Það er skoðun mín og það er skoðun þeirra hv. þingmanna sem flytja þessa tillögu, frú forseti.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



[21:11]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég hef áður sagt hér um það hvernig kveðið er á um þessi mál í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem flokkaðar eru annars vegar brýnar aðgerðir og hins vegar ákvæði sem hefur yfirskriftina Endurskoðun laga um fiskveiðar. Þar stendur og ég bið menn að átta sig á því að lesa öll þau atriði sem þarna er talað um. Þau eru þá hluti af heild hvert og eitt:

„Lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:

1. stuðla að vernd fiskstofna

2. stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar

3. treysta atvinnu

4. efla byggð í landinu

5. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Það verður að lesa öll þessi atriði saman. Þau eru á vegum þessa starfshóps sem á að fara yfir þau miðað við að móta framtíðarstefnu og leggja mat á öll þessi atriði, ekki bara eitt, og vega þau saman. Innan starfshópsins er þá að sjálfsögðu kallað eftir upplýsingum og hópurinn vinnur eins og ráð hefur verið fyrir gert og ég treysti honum vel til þess.

Ég bendi á þessi atriði, menn festa sig gjarnan í einu atriði en þarna eru þau mörg saman.

Ég ítreka líka það sem ég hef áður nefnt að á samfélagslega ábyrgð útgerðar eins og annars atvinnulífs í landinu hvað varðar byggð og fleira þurfum við að horfa saman.

Frú forseti. Þetta var það sem ég vildi segja varðandi ræðu hv. þingmanns og þær tillögur sem hv. þingmaður mælti þarna fyrir, ég vildi benda á þessi atriði.



[21:13]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var vel við hæfi að hæstv. ráðherra teldi upp þau atriði sem snúa að endurskoðun laga um fiskveiðar í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þetta eru sex atriði. Fyrstu fimm atriðin sem ráðherrann las upp, þ.e. stuðla að vernd fiskstofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð, skapa sátt o.s.frv., eru almenn atriði sem er mjög eðlilegt að fari til nefndarinnar og að nefndin starfi innan þess ramma. Svo kemur sjötta atriðið og þar kemur algjörlega kristalklár ákvörðun sem er allt annars eðlis en fyrstu fimm atriðin sem ég taldi hér upp. Það er svona:

„6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Hér er ekki lengur verið að ræða um neina sátt, ekki nein almenn markmið, hér er bara ákveðið af ríkisstjórninni að það eigi að komast að þeirri niðurstöðu að það eigi að innkalla allar aflaheimildir á 20 árum.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra er það reyndur stjórnmálamaður að hann gerir sér fyllilega grein fyrir mun á þessum atriðum. Hér er um að ræða fullkomin frávik og breytingu á þeim grunni sem lagður hefur verið af öllum flokkum sem áttu fulltrúa á Alþingi á sínum tíma, þ.e. Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki sem síðan urðu að Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki sem hefur stutt þetta og Framsóknarflokki líka. Nú verð ég að játa að ég veit reyndar ekki um afstöðu Hreyfingarinnar, ég þekki hana ekki.

Það er grundvallarmunur á þeim atriðum sem hæstv. ráðherra taldi upp. Hvað varðar síðan samfélagslega ábyrgð við útgerðina í landinu er hún heilmikil og ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um það. Ég veit líka að margir útgerðarmenn hafa staðið mjög myndarlega að þeirri ábyrgð sinni, en ég veit líka því miður dæmi annars og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir líka dæmi þess þar sem menn hafa ekki gert það, það er eins og gengur í öðrum atvinnuvegi á Íslandi. Sumir standa sig vel og standa sína plikt, og aðrir ekki. Það hefur ekkert að gera með það mál sem við ræðum hér, frú forseti.



[21:15]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta það að öll þau atriði sem þarna eru talin upp eru hluti af heild og ber að skoða þau þannig og þarna koma þá rök og gögn inn í starfshópinn. Ef eitt reynist alveg fullkomlega ómögulegt og stangast á við öll hin atriðin sem talin eru upp, eru ekki líkur til þess að út í það verði farið. Menn verða bara að hafa þá heildarsýn að horfa á þetta sem hluta af heild en vera ekki niðurnjörvaðir við eitt atriði í þessum efnum.

Ég vil minna á það, frú forseti, hversu mikilvægt er einmitt að fara yfir þau atriði sem hafa skapað þessa ósátt. Ég hef minnt ítrekað á könnun sem Háskólinn á Akureyri gerði meðal ungs fólks í framhaldsskóla, milli 16 ára og tvítugs, þar sem það var spurt hvaða atvinnuveg það teldi að yrði mikilvægastur fyrir íslenska þjóð í framtíðinni. Þau nefndu sjávarútveg í fyrsta sæti og síðan kom ferðaþjónusta, landbúnaður og fleira, en sjávarútvegur var yfirgnæfandi í fyrsta sæti. En svo voru þau spurð að hvaða atvinnuvegi þau vildu helst beina menntun sinni eða starfa við og þá voru það innan við 2% sem nefndu sjávarútveg. Ég held að við þurfum öll að horfa í eigin barm varðandi þá ímynd sem þarna er á ferðinni. Þetta er einn stærsti, öflugasti og mikilvægast atvinnuvegur okkar, sá sem skapar okkur atvinnu og gjaldeyri, er grunnur að efnahagslífi og samfélagi vítt og breitt um landið og við þurfum að hafa aðra ímynd en speglast í þessari viðhorfskönnun. Ég er ekki að setja út á það að þetta unga fólk hafi metið þetta svo, ég er að setja út á okkur og þá sem hafa búið þessum mikla atvinnuvegi þá umgjörð að unga fólkið metur hann svo.

Ég held að við eigum að taka þetta mjög alvarlega, við eigum að fara ofan í það og skoða hvar þessir veiku hlekkir um (Forseti hringir.) höfuðatvinnuveg okkar eru sem þarf að bæta og styrkja, því að hann er jú það sem (Forseti hringir.) við munum byggja á núna til næstu og lengri framtíðar.



[21:18]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá þætti sem hæstv. ráðherra taldi upp enn á ný og vakti athygli á í stefnuyfirlýsingunni, þá er bara grundvallarmunur á þessum þáttum, svo ég ítreki það. Ef eitthvað reynist þarna ómögulegt, eins og hæstv. ráðherra sagði, þá fara menn ekkert í það. Gott og vel. Ég vona að það verði niðurstaðan. En á meðan hangir þetta ákvæði yfir greininni, þessi ógn og þessi hótun hangir yfir íslenskum sjávarútvegi að allar aflaheimildir verði kallaðar inn bótalaust á 20 árum. Það segir sig sjálft hvaða áhrif það hefur á íslenskan sjávarútveg, það þarf ekkert að ræða það.

Hvað varðar þá könnun sem hæstv. ráðherra nefndi, gleður það mig mjög — ég hafði reyndar heyrt hæstv. ráðherra nefna þetta áður þegar hann var hv. þingmaður — það sem þessi könnun segir auðvitað er að það ágæta fólk sem tók þátt í könnuninni hefur rétt fyrir sér, sjávarútvegurinn er ein meginstoð íslensks efnahagslífs. Einmitt þess vegna, frú forseti, verðum við þingmenn að gæta okkar á því að vera ekki að leika okkur í einhvers konar tilraunastarfsemi, að prófa og skoða og gera hitt og þetta bara af því okkur líður þannig þennan daginn. Með öðrum orðum, menn verða að fara varlega og skynsamlega í gegnum allar breytingar vegna þess að við vitum hvernig þetta var hér á árum áður þegar allt var í kalda koli, þegar við þurftum skattpeninga inn í greinina. Menn geta velt því fyrir sér hvernig það hefði komið út í slíkri skoðanakönnun ef ungt fólk hefði verið spurt þá hvort það teldi að sjávarútvegurinn ætti framtíð fyrir sér þegar allt var á hausnum í greininni, eða hversu margir hefðu áhuga á að starfa í greininni við slíkar aðstæður. Það er nefnilega mikill munur á því að vilja starfa í grein þar sem er eðlilegur hagnaður af starfseminni, þar sem eru vaxtarmöguleikar, þar sem er öryggi og fyrirsjáanleiki. Það er það sem dregur að.

Svo er reyndar hitt líka, frú forseti, sem er rétt að hafa í huga að það eru ekki mörg prósent þjóðarinnar sem vinna í sjávarútvegi yfir höfuð. Það kemur ekkert á óvart þó að 2% af þeim sem tóku þátt í þessari könnun vilji vinna í greininni, það eru kannski á bilinu 5–10% þjóðarinnar sem vinna í sjávarútvegi og sennilega nær 5 en 10, þannig að sú tala þarf ekki að koma hæstv. ráðherra neitt á óvart.



[21:20]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær langvarandi deilur sem hafa verið í sjávarútvegi árum og nú áratugum saman og stöðugt virðist vera hægt að finna nýjan flöt að ræða um.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé tiltölulega mikil sátt um sjávarútveg, um flest atriði sjávarútvegsins, þ.e. flest meginatriði, sem í fáum orðum má lýsa svo að við viljum ganga þannig um auðlindir hafsins að við komum ekki að þeim í verra ástandi á morgun en við skildum við þær í dag, við viljum nýta fiskstofnana þannig að við sköðum þá ekki það mikið að við getum haft not af þeim á morgun. Sama á um allt lífríki hafsins. Vissulega hefur okkur miðað talsvert áfram hvað þetta varðar að mörgu leyti. Deilan um sjávarútveginn snýst fyrst og fremst um eignarhaldið, hvort þetta er séreign eða sameign, um ráðstöfunarrétt ákveðinna aðila, í þessu tilfelli útgerðar sem fær veiðiheimildir afhentar, hvort það þýði í leiðinni, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi áðan, að þarna sé nánast um séreign að ræða.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann að því til að það sé alveg ljóst og fari ekki á milli mála: Telur hv. þingmaður veiðiheimildir vera séreign þeirra sem hafa fengið þær úthlutaðar eða þeirra sem hafa keypt þær til sín af öðrum? Hvort lítur hann frekar á veiðiheimildir sem séreign þeirra eða sameign þjóðarinnar? Þetta er grundvallaratriði í umræðunni. Um þetta stendur hin mikla deila í sjávarútvegi.



[21:22]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er alveg augljóst af minni hálfu. Ég er þeirrar skoðunar að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, rétt eins og kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða, en nýtingarrétturinn sé séreign. Þessu hef ég haldið fram árum og jafnvel áratugum saman. Það er hálfskrýtið að segja þetta, manni finnst maður verða svo óskaplega gamall þegar maður segir slíkt, en það er þó þannig að þetta hefur verið afstaða mín alla tíð að um sé að ræða séreign á nýtingunni en það á sama tíma sé sameign þjóðarinnar, þ.e. ef slíkt hugtak er til. Ég held að menn hafi haft miklar efasemdir um það og fært fyrir því gild rök að um slíkt sé ekki að ræða, þ.e. sameign þjóðar, heldur miklu frekar eign ríkis og um leið forræði ríkis á fiskstofnunum. Það birtist síðan, eins og ég sagði í ræðu minni, í því að ríkisvaldið hefur til þess möguleika og vald að ákveða heildaraflamark, þ.e. hve mikið má veiða, með hvaða hætti og setja allar þær takmarkanir sem það telur nauðsynlegt til að vernda stofna o.s.frv.

Fyrirkomulag þar sem um er að ræða framseljanlegar aflaheimildir hefur gert það að verkum að íslenskur sjávarútvegur hefur skilað hagnaði frá því að þessu kerfi var komið á. Fram að þeim tíma gekk upp og niður svo ekki sé meira sagt í þeirri grein. Ég tel að um leið og við höfum náð þeirri festu sem því fylgir að vera með aflamarkskerfi í sjávarútvegi, höfum við líka um leið fengið mikla festu inn í sjálft hagkerfið vegna þess að þegar hinar miklu sveiflur voru í sjávarútveginum á árum áður, þýddi það líka um leið að það urðu miklar sveiflur í íslenska hagkerfinu. Það er því til mjög mikils að vinna, ekki bara fyrir íslenskan sjávarútveg heldur fyrir alla aðra atvinnustarfsemi á Íslandi, sérstaklega alla nýsköpun, að það sé miklu meiri stöðugleiki í íslensku efnahagslífi og sá stöðugleiki verður aldrei nema stöðugleiki sé í sjávarútvegi. Það verður ekki stöðugleiki í sjávarútvegi ef við t.d. hverfum aftur til fyrri tíðar þar sem var einhvers konar skrapdagakerfi, það verður heldur ekki stöðugleiki ef stjórnmálamennirnir ætla að fara að hafa puttana í því, m.a. eins og lagt er til í frumvarpinu sem rætt var áðan, í hvaða vinnslu á að vinna ákveðnar afurðir o.s.frv. Ef stjórnmálamenn ætla að auka afskipti sín af greininni mun það auðvitað valda (Forseti hringir.) enn meira tjóni.



[21:24]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni fyrr við upphaf þessar umræðu sagði hv. þm. Illugi Gunnarsson að verði eignir útgerðar innkallaðar muni þær ekki standast það, þ.e. um 7% á ári, ef ég man rétt eftir honum, af eignum útgerðar innkallaðar muni þær ekki þola það. Þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að gengið sé eftir því hvert álit hv. þingmanns er á veiðiheimildunum, hvort þær eru eignir, hvort fiskstofnarnir eru eignir, hvort veiðiheimildirnar sem slíkar eru eignir sem má ráðstafa að eigin vild, því að þetta er kjarni málsins, um þetta snýst deilan.

Hér hefur líka verið talað um að útgerðin hafi skilað hagnaði á hverju ári síðan þetta kerfi var tekið upp, þ.e. heimild til að framselja þessar heimildir, kaupa þær og selja eða leigja. Í dag er staðan hins vegar þannig að skuldir sjávarútvegsins eru taldar vera um 550 milljarðar kr. Réttur helmingur þeirra skulda á rætur sínar að rekja til rekstrar, þ.e. innan greinarinnar sjálfrar, kannski 52–54%, annað á rætur sínar að rekja út fyrir greinina, mestan part eftir því sem mér skilst í kaupum á hlutabréfum að stærstum hluta til í fjármálafyrirtækjum, sem er umhugsunarefni líka hvers vegna þessi fína atvinnugrein sér ekki ástæðu til að fjárfesta í greininni frekar en að fara út úr henni, og þá kannski nánast eingöngu í sama atvinnurekstri. Hvernig í ósköpunum stendur á því? Það er vandi sem við stöndum frammi fyrir í dag og því er full ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar eins og við höfum gert. Ég hvet hv. þm. Illuga Gunnarsson og flytjendur þingsályktunartillögunnar til að bogna ekki undan rökræðunni, (Forseti hringir.) krefjast þess ekki að mál séu tekin af dagskrá heldur taka rökræðuna og kryfja málið til mergjar og ljúka því. (Forseti hringir.)



[21:27]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal síðastur manna biðjast undan rökræðu um sjávarútvegsmál eða kvótakerfið. Ég hef reyndar lagt mig sérstaklega eftir slíkri umræðu árum saman, gaf út í félagi við annan mann sérstakan bækling um það mál, akkúrat þá spurningu sem hv. þm. Björn Valur Gíslason veltir hér upp, sem er þessi: Hvar liggur eignarrétturinn? Þannig að ég hef tjáð mig mjög ítarlega um það mál, ég gerði það áðan þar sem ég benti á að ég væri þeirrar skoðunar að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum væru í eign ríkisins. Ég tel hugtakið „þjóðarréttur“ mjög loðið hugtak og að það sé miklu skynsamlegra að tala bara beint um hvað þetta er, að þetta sé eign ríkisins, ríkið hafi ráðstöfunarrétt hvað það varðar að ákveða heildarafla og annað slíkt, en síðan sé nýtingarrétturinn í séreign, hann gangi kaupum og sölum og það sé skynsamlegasta fyrirkomulagið sem við getum haft hvað varðar fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Hvað varðar skuldir sjávarútvegsins, þá voru heildarskuldirnar 325 milljarðar við árslok 2007. Síðan hrynur gengi íslensku krónunnar og það er eðlilegt að skuldir sjávarútvegsins séu í erlendri mynt vegna þess að tekjur sjávarútvegsins eru í erlendri mynt. Þannig að þegar skuldirnar hafa vaxið svo mjög, hafa líka tekjurnar vaxið mjög. Menn verða auðvitað að hafa það í huga. Enn og aftur, heildarskuldir íslensks sjávarútvegs voru ekki nema rétt rúmlega 2% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs, þannig að menn geta ekki haldið því fram að íslenskir útgerðarmenn hafi gjörsamlega misst vitið í skuldsetningu. Hitt er alveg rétt að það eru dæmi um að menn hafi verið að taka stöður í ýmsum öðrum rekstri, fjármálastofnunum og öðru, og það er bara eitt sem gildir um þetta. Ef menn hafa farið þannig með sín fyrirtæki að þeir hafa gengið of langt, tekið of mikla áhættu eða farið í rangar fjárfestingar, eiga menn auðvitað bara að standa frammi fyrir því. Það þýðir að annaðhvort verða bankarnir að leysa til sín aflaheimildir og selja þær aftur á markaði og þar með tapa þessir einstaklingar sínum fyrirtækjum og það þýðir bara það í framhaldinu að einhverjir aðrir kaupa og fara af stað. Það er hið eðlilega. Þannig gerist það, öðruvísi getur það ekki verið. Það er ekkert óeðlilegt við það, þannig gengur hinn eðlilegi og virki markaður fyrir sig. Það er mjög mikilvægt að einmitt bankarnir horfi til þessa að það sé ekki verið að koma í veg fyrir að það myndist rétt verð á aflaheimildunum (Forseti hringir.) með því að þeir sem fóru óvarlega hljóta auðvitað að tapa sínum heimildum.



[21:29]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er rætt um þá þingsályktunartillögu hv. þm. Illuga Gunnarssonar o.fl. um að ríkisstjórninni verði falið að lýsa því yfir að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Raunar er mótsögn í þeirri yfirlýsingu sem felst í þingsályktunartillögunni því að þar er þess krafist að fallið verði frá fyrningarleið af því að það sé svo mikilvægt að gefa sér enga niðurstöðu fyrir fram. Samt vilja flutningsmenn gefa sér það fyrir fram að ekki verði farin sú leið sem kosið var um í síðustu alþingiskosningum, sú stefna sem borin var fram af báðum stjórnarflokkum, stefnan sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kallar hótun en ég vil segja að sé loforð og var auðvitað kosningaloforð. Ég held að hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensk stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á núverandi kvótakerfi, þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina um þetta mál, ekki bara við útgerðina heldur líka við þjóðina.

Áróðursstríðið sem nú er háð gegn eðlilegum og tímabærum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu er í raun og veru í sáralitlu samræmi við tilefnið, eins og ég hef áður rætt á þessum vettvangi, og það á mun meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála. Menn hrópa hér hrun yfir sjávarútveginn í landinu, verði fyrningarleiðin farin, tala eins og verið sé að hrammsa frá þeim þeirra lögmætu eign og þjóðnýta hana, eins og það er oft orðað, og gott ef byggðir munu ekki leggjast í eyði og fiskveiðar leggjast af við strendur landsins. En það er því miður fátt sem fær staðist í þessum málflutningi útvegsmanna og talsmanna þeirra á Alþingi. Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af eða byggðir fara í eyði þó að útgerðarmenn verði með formlegum hætti að horfa upp á að því, sem þeir kalla eignarrétt sinn, verði breytt í nýtingarrétt í samræmi við markmið núgildandi laga og þó að stofnaður yrði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum yrði ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu gegn hóflegu gjaldi. Því er einmitt þveröfugt farið því að það er núverandi kvótakerfi eins og það er í dag sem hefur kallað alvarlega röskun yfir byggðir landsins. Það ætti hv. þm. Illugi Gunnarsson að þekkja mörgum öðrum betur, svo nátengdur sem hann er Flateyri við Önundarfjörð þaðan sem útgerðarmaðurinn seldi og fór með 3 milljarða í vasanum fyrir tveimur eða þremur árum og skildi byggðarlagið eftir í sárum, byggðarlagið sem kallar hv. þm. Illuga Gunnarsson tengdason Flateyrar.

Ég vil líka minna á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga í framhaldi af því sem við erum að tala um og það sem hv. þingmaður kallar séreignarrétt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. […] Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildunum.“

Það er með öðrum orðum þjóðin sem á fiskinn í sjónum, við getum kallað það ríkið, í lögunum stendur „þjóðin“ og ég hef hingað til gert greinarmun á þjóð og ríki. Það var frá fyrstu tíð vilji löggjafans að útgerðin hefði nýtingarrétt á þessari auðlind, ekki eignarhald. Það er algerlega skýrt í þessari markmiðslýsingu. Það er fráleit fullyrðing að innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta sé einhvers konar umbylting á fiksveiðistjórnarkerfinu. Þaðan af síður fær það staðist að hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi muni leiða hrun yfir greinina.

Það má rifja það upp, sem hefur reyndar oft komið til umræðu á þessum vettvangi, að við erum að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Þetta kerfi sem felur í sér sams konar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem ollu efnahagshruninu í haust. Ég segi sams konar meinsemd. Ég er ekki að tala um að núverandi skuldir sjávarútvegsins séu orsök efnahagshrunsins sem við lentum í í haust. Ég er að tala um að inn í kerfið er innbyggð þessi sams konar meinsemd. Við erum að tala um kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, þótt þær hafi skipt um hendur síðan, með þeim afleiðingum að LÍÚ hefur slegið eign sinni á fiskinn í sjónum. Fiskveiðiauðlind þjóðarinnar sem er eign þjóðarinnar en ekki LÍÚ. Aflaheimildirnar úr þessari þjóðarauðlind hafa útgerðir landsins meðhöndlað sem söluvöru, sem skiptagóss og leiguvarning og þær hafa veðsett aflaheimildirnar.

Menn tala eins hið frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda, kvótakerfið, sé einhvers konar fyrirmyndarkerfi sem ekki megi raska. En hvernig stendur þá á því að svo illa er komið fyrir sjávarútveginum að gamli grátkórinn hrópar hrun yfir greinina ef hróflað verður við þessu kerfi? Ætli það sé ekki frekar hin geigvænlega yfirveðsetning og skuldastaða greinarinnar sem skapar henni meiri hættu en þær breytingar sem boðaðar hafa verið? Sjávarútvegurinn skuldar 550 milljarða kr., atvinnuvegur sem á síðasta ári hafði 170 milljarða kr. tekjur og hefur — af því að það kom til tals í máli hv. þingmanns rétt áðan — frá árinu 2005 skuldað meira en helming umfram ársveltu á hverju ári, en vitanlega jukust skuldirnar hratt síðasta árið eftir hrun. Þessar skuldir hafa aukist um 250% á síðustu sjö árum, þ.e. þrisvar sinnum meira en tekjur greinarinnar. Það er athyglisvert að af þeim 500 millj. sem greinin skuldar er um það bil helmingur vegna kaupa á skipum og kvóta, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefndi. Hinn helmingurinn er vegna afleiðusamninga, hlutabréfakaupa og áhættuviðskipta, má segja, utan greinarinnar. Það er raunveruleg hætta á því í ljósi þessarar stöðu að íslenskar aflaheimildir renni úr höndum okkar Íslendinga og lendi í höndum erlendra fjármálastofnana og kröfuhafa. Samkvæmt upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega kemur fram að innan við helmingur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja stendur traustum fótum. 27% eiga sér ekki viðreisnar von og annar eins fjöldi þarfnast tímabundinna aðgerða, þ.e. getur ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og sakir standa. Síðan eru nálægt 40% sem segja má að séu starfrækt á eðlilegum rekstrargrundvelli.

Ég held að eina leiðin til að forða því að veiðiheimildirnar lendi í höndum erlendra fjármálastofnana sé þess vegna að styrkja í verki markmið og fyrirmæli íslenskra laga um að aflaheimildir á Íslandsmiðum séu í reynd eign íslensku þjóðarinnar en ekki einstakra útgerðarfyrirtækja. Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi kvótakerfi hefur í gegnum tíðina verið vettvangur fyrir brask. Og þó að það verði ekki sagt um hvern einasta útgerðaraðila — því að vitanlega fyrirfinnast vel rekin útgerðarfyrirtæki og einstakir útgerðarmenn sem reka fyrirtæki sín af ábyrgð — er engu að síður staðreynd að í greininni hafa viðgengist óvönduð meðul. Í því sambandi gæti verið fróðlegt fyrir þingheim að kynna sér vel skýrslu tveggja laganema á Bifröst, þeirra Þórðar Más Jónssonar og Finnboga Vikars Guðmundssonar, um þá meðferð aflaheimilda sem viðgengst í þessari atvinnugrein. Það er athyglisverð lesning og vönduð greining á ástandinu.

Frú forseti. Ég treysti því að sú ríkisstjórn sem nú situr láti einskis ófreistað að knýja í gegn þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem kjósendum var heitið fyrir síðustu kosningar og skýrt er kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ef LÍÚ ætlar að halda áfram sínu stríði við stjórnvöld vegna fyrirhugaðra breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu skulu samtökin átta sig á því að þau eru í stríði við íslenska þjóð. (Forseti hringir.) Þetta er eitt mesta réttlætismál sem komið hefur upp í íslensku samfélagi á síðustu árum og þessi þingsályktunartillaga er að mínu viti hreint út sagt fráleit.



[21:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns að sumu leyti alveg með ólíkindum en í sjálfu sér er ekkert nýtt við þann tón sem kvað við í ræðu hennar. Ég ætla að leyfa hv. þm. Illuga Gunnarssyni að svara fyrir sig en einhvern veginn fannst mér þetta með óskiljanlegri og ósmekklegri orðum sem fallið hafa í þessum ræðustól og þó hefur ýmislegt komið héðan og ekki síst frá flokki hv. þingmanns. Það verður að segjast eins og er. (Gripið fram í.)

Þingmaðurinn á það gjarnan til eins og samherjar hennar að tala í nafni þjóðarinnar. Það er mjög slæmur ávani að standa í ræðustól Alþingis og þykjast vera að tala í nafni heillar þjóðar þegar maður hefur ekki það umboð, hv. þingmaður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að þjóðin þurfi núna á öllum þeim tekjum að halda sem hægt er að hafa út úr sjávarútvegi. Og í framhaldi af því: Telur hún enga óvissu hafa skapast í íslenskum sjávarútvegi vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um að fyrna aflaheimildir? Telur hún enga óvissu hafa skapast þannig að sjávarútvegurinn starfi sem aldrei fyrr og taki allar þær ákvarðanir um fjárfestingar og annað, að þar ríki engin óvissa?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, af því að henni er tíðrætt um samráð, hvort haft verði samráð varðandi fyrninguna. Hvernig háttar því samráði? Hvernig sér hún fyrir sér að það samráð verði? Við hverja ætlar hún að hafa samráð? Af því að hv. þingmanni er tíðrætt um LÍÚ, og ekki ætla ég að fara að afsaka þau samtök á neinn hátt, hefur hún kynnt sér afstöðu Landssambands smábátaeigenda t.d.? Hefur hún kynnt sér afstöðu þeirra varðandi fyrningarleiðina? Hefur hún kynnt sér afstöðu Sjómannasambandsins, talsmanna sjómanna og talsmanna skipstjórnenda? Ég held að hún ætti að kynna sér hana áður en hún fer að tala (Forseti hringir.) hér með þessum hætti.



[21:42]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tala ekki í nafni smábátasjómanna eða annarra. Ég tala í mínu nafni og er í þessum ræðustóli að tjá mínar skoðanir og þarf ekki að leita til útvegsmanna eða annarra hagsmunaaðila til að óska leyfis fyrir því hvað ég megi segja í þessum ræðustól. Ég tala frjálst. Ég tala heldur ekki í nafni íslenskrar þjóðar. Ég tala kannski í nafni þess meiri hluta sem kaus núverandi ríkisstjórnarflokka sem buðu fram í síðustu kosningum loforð um breytingu á núverandi kvótakerfi.

Vissulega þurfum við tekjur í þjóðarbúið, eins og hv. þingmaður bendir á. Hann spyr hvort engin óvissa hafi hlotist af áformum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Vitanlega hljóta spurningar að vakna þegar boðuð er breyting á fiskveiðistjórnarkerfinu, en ég spyr hv. þingmann á móti: Telur hann að skuldastaða greinarinnar hafi ekkert að gera með þá óvissu sem fram undan er? Telur hann að ótti manna við hrun í sjávarútvegi hafi nákvæmlega ekkert að gera með þá geigvænlegu skuldastöðu sem greinin stendur frammi fyrir og þá veðsetningu sem orðin er í þessari atvinnugrein?



[21:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eflaust er einhvers staðar ótti varðandi skuldastöðu sjávarútvegsins en það er ekki meginorsökin fyrir því að aðilar í sjávarútvegi eru óttaslegnir, telja að sér vegið eða þora ekki að fjárfesta eða annað. Það er ekki ástæðan fyrir því að sú staða er uppi. Ástæðan fyrir því að óvissa er í sjávarútvegi er að við erum með ríkisstjórn sem boðað hefur að fyrna aflaheimildir sjávarútvegsins og það eru ekki bara þeir sem heyra undir LÍÚ sem þar eru undir, eins og hv. þingmaður virðist halda, það eru líka aðilar sem eru í hagsmunasamtökum smábáta. Ég held að hún ætti að fara aðeins betur yfir heimavinnuna þegar hún fer að ræða þessa hluti og kynna sér afstöðu þessara aðila líka því að ég fullyrði að þorri þeirra sem starfa í sjávarútvegi í dag er á móti þeirri aðferð sem hv. þingmaður talar fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann fyrst ég er kominn aftur upp: Hvað gefur hún hæstv. sjávarútvegsráðherra, og þá væntanlega sjávarútvegsnefnd, langan tíma til að komast að þeirri niðurstöðu að hrinda fyrningu í framkvæmd? Hvað gefur hún sjálfri sér langan tíma? Ef fyrning verður ekki innan þess tíma, lítur hún þá svo á að slíta beri ríkisstjórnarsamstarfinu?



[21:45]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi tímasetninguna þá er hún alveg skýr í stjórnarsáttmálanum. Þar segir:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010.“

Það stendur þarna svart á hvítu og við þetta ætlast ég til að verði staðið eins og aðrir fylgismenn og þingmenn stjórnarflokkanna hljóta að ætlast til. (GBS: En ef ekki?) Ef það næst ekki er það bara sú staða sem er uppi sem þarf að líta á þegar þar að kemur. Við skulum ekki vera með neina spádóma fram í tímann varðandi það.

Að halda því síðan fram eins og hv. þingmaður gerir að skuldirnar séu ekki áhyggjuefni í íslenskum sjávarútvegi eins og staðan er, það sé ekki skuldastaðan sem valdi ótta heldur áform um breytingar á þessu óréttláta kvótakerfi sem nú þegar hefur leitt hrun yfir margar sjávarbyggðir. (GBS: Hvað er óréttlátt?) Og þegar þingmaðurinn brýnir mig um að vinna heimavinnuna mína og kynna mér afstöðu aðila í greininni, þarf ég enga slíka brýningu. Ég hef þegar rætt við fjölmarga aðila í greininni sem bæði tengjast henni beint og óbeint og ég hef kynnt mér ítarlega sjónarmið manna í þessu sambandi. Þar fyrir utan hef ég auðvitað líka kynnt mér og kynnst sjónarmiðum almennra kjósenda á opnum fundum, í samtölum og í tölvupóstum sem mér hafa borist því að það er mikill áhugi fyrir þessu máli í samfélaginu. Þetta er eitt af brýnustu málunum í samfélaginu í dag og ég harma það ef hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur ekki skynjað þann undirþunga.



[21:47]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðustu orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur valda mér nokkrum vonbrigðum, að hún hafi kynnt sér málið ítarlega. Ég verð að játa að ég stóð í þeirri von að það mætti skýra ýmislegt í málflutningi þingmannsins þannig að viðkomandi hv. þingmaður hefði ekki kynnt sér málið og þar með væri komin skýring á ýmsu því sem sagt var í þeirri ræðu sem flutt var hér áðan. En nú er komið í ljós að það var ekki byggt á vanþekkingu heldur einhverju öðru sem þar var sagt. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem fram kom þar (ÓÞ: Er þetta málefnalegt?) vegna þess að sumt af því var hreinlega ekki svaravert. Þó vil ég benda hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á að þegar maður skoðar samspil kvótastöðu og byggðaþróunar er það ekki jafneinhlítt og hv. þingmaður hefur látið liggja að. Í útgerðarplássinu Vestmannaeyjum þar sem kvótastaðan hefur verið að styrkjast jafnt og þétt fækkaði fólki á sama tíma og kvótinn jókst um ein 20%, þannig að það er margt fleira sem hefur áhrif á hvað stýrir byggðaþróun og íbúafjölda en bara kvótastaðan.

Hitt er alveg rétt að það komu upp mál eins og þingmaðurinn nefndi með svo smekklegum hætti, sem snúa að byggðarlaginu Flateyri. Til þess höfum við líka sett upp byggðakvóta, til að bregðast við slíkum uppákomum og þar hafa reyndar komið einstaklingar að rekstri sem hafa tryggt að undirstöður atvinnulífsins þar standa enn. Það sem ég vil spyrja hv. þingmann að er þetta: Þegar liggur fyrir að kalla á inn eignir sjávarútvegsins bótalaust, sem eru að stærstum hluta kvótinn og aflaheimildirnar, og það eru miklar skuldir í greininni, er hv. þingmaður þá þeirrar skoðunar að það muni styrkja greinina og auka möguleika hennar til að greiða skuldir sínar eða minnka að stærsti hluti eignanna verði kallaður bótalaust inn til ríkisins? Skuldirnar standa áfram. Telur hv. þingmaður að greinin muni eiga auðveldara (Forseti hringir.) eða erfiðara með að greiða skuldir sínar?



[21:49]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sérkennileg málfundartækni að gefa sér forsendurnar og fara svo að rökræða þær. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tíma verið talað um að kalla inn eignir bótalaust. Ég vil nota allt önnur hugtök yfir það sem fram undan er. Ég mundi frekar vilja tala um að breyta því sem útvegsmenn kalla eignarrétt sinn í afnotarétt, nýtingarrétt. Ég sé heldur ekki ástæðu til að við séum í þessum ræðustóli að reyna að leiða til lykta það starf sem starfshópi sjávarútvegsráðherra hefur verið falið. Þó svo að útvegsmenn hafi stokkið á braut úr starfi þeirrar nefndar um hríð treysti ég því að þeir muni koma til starfa aftur og taka þátt í því starfi og því verkefni sem þeim hefur verið falið, þ.e. að leiða þetta mál til lykta. Ég hef enga trú á öðru en að ef menn virkilega leggja sig fram og reyna að horfa af einhverri sanngirni á þetta mál, takist þeim að ná einhverri niðurstöðu. En sá átakafarvegur sem þetta hefur verið í frá upphafi og þær stríðsstellingar sem menn eru í gera mönnum óneitanlega mjög erfitt fyrir. Ég neita því ekki og það er áhyggjuefni.



[21:51]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikið ánægjuefni ef allt þetta snýr bara að því að breyta hugtakinu og að ekkert annað standi til af hálfu ríkisstjórnarinnar þannig að það sem áður var kallað sérstakt kosningaloforð um að aflétta mesta óréttlæti Íslandssögunnar, er orðin breyting á skilgreiningu á hugtaki. Auðvitað er það ekki svo, frú forseti. Auðvitað er verið að tala um það sem stendur í stefnuyfirlýsingunni að innkalla og endurráðstafa aflaheimildum á 20 ára tímabili, nema hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sé tilbúin að koma upp og lýsa því yfir að það eigi síðan að láta sanngjarna greiðslu koma á móti, sem er auðvitað ekki hugmyndin.

Enn á ný hlýt ég að spyrja: Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Ástæðan fyrir að ég spyr er vegna þess að þetta er mikilvægt. Þetta fjallar um grundvöll sjávarútvegs á Íslandi við mjög erfiðar aðstæður. Ég spyr þingmanninn þess vegna aftur, og hér er ekki talað úr neinum skotgröfum, þetta er bara eðlileg spurning þingmanns á Alþingi Íslendinga til annars hv. þingmanns sem leggur til þessa grundvallarbreytingu á sjávarútveginum: Telur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, miðað við núverandi skuldastöðu að ef aflaheimildirnar eru innkallaðar bótalaust án þess að viðkomandi útgerðir fái neitt til baka en standi áfram með skuldirnar, það líklegra að þessar útgerðir geti greitt skuldir sínar til baka eða telur hún að það sé ólíklegra? Það skiptir miklu máli. Hér er ekki talað úr neinni skotgröf. Hér er mjög einföld spurning sem er beint til hv. þingmanns.

Ég vil líka að lokum taka undir það sem kom fram hjá einum hv. þingmanni, Gunnari Braga, sem sagði þetta: Það fer ekki vel á því þegar menn fullyrða eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði í ræðu sinni. Hún sagði: Þjóðin hefur þessa skoðun og Landssamband ísl. útvegsmanna skal passa sig á að fara ekki gegn skoðun þjóðarinnar. Þetta fer ekki vel í pólitískri umræðu og það er rangt hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún sagði að hún teldi sig ekki vera einhvern handhafa þjóðarvilja. Það mátti svo augljóslega lesa úr ræðu hv. þingmanns og heyra af máli hennar áðan, því miður.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að nefna þingmenn með fullu nafni.)



[21:53]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki mitt hlutverk að útfæra fyrningarleiðina. Það er hlutverk þess starfshóps sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sett á laggirnar. Sá starfshópur er með tiltekna verklýsingu og það er í verkahring þeirra sem sitja við það borð að leggja til útfærslu og sáttina í þessu máli. Ég er óbreyttur stjórnarþingmaður. Ég styð þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég stjórna ekki því ferli. Ég styð það hins vegar og ber í brjósti ákveðna von um hverjar lyktir þess máls megi verða.

Ég ætla ekki að fara í orðahnippingar og orðhengilshátt við hv. þingmann um hvernig eigi að útfæra þessar breytingar. Ég er hins vegar þeirrar sannfæringar að breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi séu brýnt hagsmunamál fyrir byggðir landsins og tvímælalaust þjóðþrifamál sem ætti að geta verið til þess fallið að bæta rekstrarstöðu og treysta frekar starfsskilyrði íslenskra útgerðarfyrirtækja og gera þau öflugri en verið hefur.



[21:54]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða líklega eitthvert mesta hagsmunamál þjóðarinnar á síðari tímum og líklega eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar í dag, því ef við höfum einhvern tímann þurft á því að halda að hafa frið og sátt og enga óvissu um undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar þá er það nú. Ég hef velt því fyrir mér eftir að svokölluð fyrningarleið var boðuð, hvort það sé þá líka markmið ríkisstjórnarinnar, bara ekki búið að segja frá því enn þá, að fyrna heimildir eða rétt manna til að stunda landbúnað, jarðrækt, mjólkurframleiðslu eða framleiðslu á lambakjöti, svo dæmi sé tekið. Á ekki í rauninni það sama við? Er það næsta skref hjá hæstv. ríkisstjórn, frú forseti, að ganga þann veg að fara í innköllun á slíku? Það besta fyrir íslenska þjóð í dag væri að sjálfsögðu að eyða þeirri óvissu sem ríkisstjórnin hefur nú skapað varðandi sjávarútveginn, með því að afturkalla yfirlýsingu þá sem er í stjórnarsáttmálanum um fyrningu aflaheimilda.

Sú tillaga sem við leggjum hér fram er til þess fallin að reyna að hvetja ríkisvaldið og ríkisstjórnina til að taka skref til þess að við getum horft fram á við og starfað áfram í þeirri atvinnugrein sem skiptir okkur mestu og til þess að fjárfestingar verði í atvinnugreininni, því þrátt fyrir þau orð sem hér hafa fallið varðandi skuldastöðu sjávarútvegsins, þá hafa menn tækifæri og vilja til að fjárfesta í honum og það er beinlínis nauðsynlegt að áfram verði fjárfest í sjávarútvegi, t.d. varðandi fiskiskipaflotann, tækniþróun og annað.

Fyrning aflaheimilda er til þess fallin að skapa óvissu og draga úr vilja til að ráðast í nauðsynlegar umbætur í sjávarútvegi, þ.e. rekstur fyrirtækja og tækniþróun og annað. Það er mjög mikill og stór ábyrgðarhluti að setja svona fram, ekki síst vegna þess að það virðist algjörlega óljóst hvernig á að hrinda þessu í framkvæmd. Það virðist algjörlega óljóst og vanhugsað eða ekkert búið að hugsa um hverjar afleiðingarnar mögulega verða. Hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur kom fram hér rétt áðan, að það væri í rauninni ekki hennar að útfæra fyrningarleiðina. Ég hélt það væri einmitt ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna sem kasta slíku fram, að útfæra og koma með útfærsluna. Hver annar á að útfæra? Eru það þeir sem eru í greininni í dag? Á að láta þá útfæra fyrningarleiðina? Er búið að stilla þeim upp við byssuhlaupið og segja: Nú skuluð þið bara útfæra, annars hljótið þið verra af? Hvert er markmiðið með þessu?

Hv. þm. Illugi Gunnarsson velti því hér upp áðan hvort kerfið væri réttlátt. Það má alltaf spyrja sig þeirrar spurningar: Er eitthvert kerfi réttlátt? Er kerfið í landbúnaðinum réttlátt? Er kerfið sem við höfum varðandi nýtingu náttúruauðlinda í jörðu réttlátt? Er atvinnuleysisbótakerfið réttlátt? Hvaða kerfi er yfir það hafið eða hvaða samþykktir stjórnmálamanna eða ríkisstjórnar eru einhvern tímann yfir allan vafa hafnar um að þær séu réttlátar? Við eigum að sjálfsögðu að vera reiðubúin, sem við erum, að skoða ábendingar sem koma varðandi sjávarútvegskerfið eins og allt annað. Ég hygg að allir eða velflestir þingmenn, frú forseti, séu reiðubúnir til þess að leggja í slíka vinnu.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra nefndi í ræðu sinni samfélagslega ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja. Ég held að það yrði einmitt mjög forvitnilegt ef það yrði skoðað og hreinlega gerðar rannsóknir á því hvað sjávarútvegsfyrirtæki leggja til samfélagslegra verkefna á Íslandi. Samfélagsleg ábyrgð þeirra er nefnilega mikil. En það fer vitanlega eftir því hvernig menn teygja og toga þetta hugtak hver niðurstaðan verður.

Ímynd greinarinnar kom líka fyrir í orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, þá var hann að velta því upp að það þyrfti að bæta ímynd greinarinnar. Ég held ég geti verið sammála hæstv. ráðherra með það, frú forseti, að ímynd þessarar greinar okkar er kolröng; ósanngjörn og röng. Röng ímynd er dregin upp af spunameisturum þeim sem nú vilja innkalla veiðiheimildir, fyrna veiðiheimildir, og láta líta svo út að bara bófar og bandítar séu í þessari grein. Það er vitanlega ekki þannig. Þetta er uppsláttur. Þetta er popúlismi.

Ég verð, frú forseti, að koma aðeins inn á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hér er skipuð fjölmenn nefnd til að vinna að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, eða þeirra laga sem við vinnum eftir. Hún vinnur í fyrsta lagi í því umhverfi að yfir hangir þessi svokallaða fyrningarleið. Það verður að segjast eins og er að það hefur vissulega mótað og haft veruleg áhrif á umræðu í þessari nefnd að þetta hangir yfir okkur. Það verður líka að segjast eins og er að því miður höfum við kannski frekar lítið komist áfram í vinnu nefndarinnar, vegna þess að þetta hangir yfir.

Hitt er svo líka, sem ég verð að nefna hér, að mér finnast þau vinnubrögð ekki í lagi sem nú eru viðhöfð, að koma hér með frumvarp um breytingar á því kerfi sem við eigum að fjalla um og endurskoða, að koma með það hér inn í þingið, á meðan á þessari vinnu stendur. Ég held að það sé eitthvað það mikilvægasta sem við getum gert — ef við erum að meina það í alvöru að endurskoða þessa hluti og hafa um þá sátt — að ástunda ekki þessi vinnubrögð. Að ástunda ekki þau vinnubrögð að koma með umtalsverðar breytingar á þeim lögum eða umhverfi sem okkur er falið að endurskoða ofan í þá vinnu sem verið er að vinna. Það er þá betra að bíða með það og sjá hvort nefndin skili af sér ásættanlegri niðurstöðu fyrir ríkisstjórnina. Ég hugsa að ef sú leið væri farin að hætta við eða lýsa því yfir að fyrningin yrði ekki farin með þeim hætti sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, og að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn mundi gefa það loforð hér til Alþingis eða til þingmanna eða þeirra sem í nefndinni sitja, að fleiri frumvörp muni ekki koma fram ofan í starf nefndarinnar, þá hygg ég að hægt verði að vinna þessa vinnu í þokkalegri sátt.

En ég segi það hreint út fyrir mig, sitjandi í þessari nefnd, að ég hef hugsað það vandlega hvort einhver leikur sé í gangi, hvort verið sé að plata okkur með þessari nefnd. Ég hlýt að afla mér upplýsinga um það hjá hæstv. ráðherra núna á næstunni hvort svo sé, ég hlýt að endurmeta veru mína í nefndinni út frá því, því vitanlega er ekki hægt að búa við slíkt.

Það hafa komið hér upp ýmsar spurningar varðandi þessa fyrningu. Alveg ljóst er og það þekkja hv. þingmenn að fjölmörg fyrirtæki í sjávarútveginum, hvort sem það eru nú útgerðarfyrirtækin, fiskvinnslurnar eða fyrirtæki sem bjóða þjónustu, vöru og þjónustu til þessara fyrirtækja, halda að sér höndum, vegna þess að þetta vofir yfir.

Það er alveg rétt að tekjur sjávarútvegsins eru ágætar núna. Það er hátt verð á afurðunum, sem betur fer, því þjóðarbúinu veitir heldur ekkert af því að hafa hér góðar tekjur. Það þarf að vera þannig áfram og það þarf að vera þannig um margra ára skeið. Því held ég að mjög skynsamlegt væri að ríkisstjórnin drægi til baka, lýsti því yfir að hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna um fyrningu yrðu dregnar til baka. Það þýðir ekki að segja að það yrði tímabundið, heldur bara draga það til baka til þess að skapa það svigrúm sem þarf til að byggja upp íslenskt atvinnu- og þjóðlíf á ný. Sjávarútvegurinn er í dag mikilvægasta atvinnugrein okkar. Það eru líka iðnaðurinn og ferðaþjónustan. Við verðum að skapa þessum greinum þau skilyrði að þær geti áfram staðið undir þeim væntingum og kröfum sem við gerum hér á Íslandi. Það gerum við ekki með háttalagi hæstv. ríkisstjórnar, því miður.

Það kann vel að vera að þeir tímar komi síðar að þeir flokkar sem hafa þessar hugmyndir geti með einhverju móti hrint þeim í framkvæmd, en tími til sigra á þessu sviði er ekki núna. Nú þarf að skapa tekjur og það þarf að gera í umhverfi sem er þokkaleg sátt um. (Forseti hringir.)



[22:05]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði ímynd sjávarútvegsins að umfjöllunarefni og taldi hana vera bæði ósanngjarna, óréttláta og ranga og ég er honum nokkuð sammála um það. Ég hef starfað í sjávarútvegi í yfir 30 ár og gert það nánast að lífsstarfi mínu stærsta hluta ævinnar. Ég er nokkuð sammála hv. þingmanni um að ímynd greinarinnar sé ekki góð út á við, hún er það alls ekki. En það er ekki að gerast núna. Ég ætla að frábiðja mér það og ég bið hv. þingmann um að undanskilja mig í það minnsta ef hann heldur að flutningsmenn eða stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telji að innan sjávarútvegsins starfi bara bófar og bandítar. Mér kemur ekki til hugar að segja slíkt, ég ætla eiginlega að óska eftir því að hann dragi þau orð sín hér til baka, alla vega hvað mig varðar. Þetta er grein sem ég er alinn upp í og mér þykir vænt um og innan þessarar greinar þekki ég og hef verið samferða fjöldanum öllum af fólki og ég kannast ekki við það að þar séu bófar og bandítar á ferð. Þannig að ég bið um að vera undanskilinn í þeirri upptalningu og veit að orðið verður við því.

En ímynd sjávarútvegsins skiptir mjög miklu máli sem og það að þessi mikilvæga og sterka atvinnugrein í gegnum tíðina hafi góða ímynd og njóti virðingar í samfélaginu og að við fjöllum um hana þannig. Þess vegna eigum við ekki að biðjast undan því að takast á um deiluatriði í greininni, ekki biðja um að málum sé ýtt út af borðinu, vegna þess að við verðum að ljúka þessari umræðu. Á einhverjum tímapunkti verðum við að ljúka þessari umræðu til að viðhalda ekki óvissunni.



[22:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að ljúka umræðunni, en ég held að við séum á rangri leið ef við ætlum að ljúka umræðunni með því að setja fram eða kasta fram hugmyndum eins og þessari fyrningarleið, þá erum við ekki að ljúka neinni umræðu heldur endurvekja umræðu og búa til meiri deilur. Við hefðum alveg eins getað sett fram tillögu um það að úr lögunum færi orðið „sameign“ og það yrði bara eign útgerðarmanna. Það hefði haft álíka gáfuleg áhrif held ég og þessi yfirlýsing varðandi fyrninguna. Við verðum að hafa umræðuna á skynsamlegu plani. Ég tel því miður að þessi fyrningarumræða fari með umræðuna á óskynsamlegt plan.

En varðandi ímyndina, þá er mér ljúft og skylt að skilja undan hv. þingmann ef hann er að fara fram á það, en ég var almennt að ræða um ímynd greinarinnar og þá staðreynd að það eru stjórnarþingmenn, það eru spunameistarar ríkisstjórnarflokkanna, eða alla vega annars flokksins, sem leika þann leik að draga upp þá ímynd að það séu bófar og bandítar innan greinarinnar. Við vitum það báðir, ég og hv. þingmaður, að það er rangt. Í öllum greinum, alveg sama hvort við tölum um útgerðarmenn, dýralækna, presta, lækna eða bændur, eru inni á milli aðilar sem kunna ekki að starfa í því umhverfi sem þeim er skapað. En það þýðir ekki að þær greinar eða starfsstéttir í heild séu settar undir þann hatt að þær séu óalandi og óferjandi. Það er ekki þannig. Ég held að mikið verkefni sé fyrir höndum að koma réttri ímynd sjávarútvegsins á framfæri. Ég held að hagsmunaaðilar (Forseti hringir.) í sjávarútveginum eigi nú svolítið að líta í eigin barm varðandi það.



[22:09]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Enn og aftur tek ég undir þetta álit hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um ímynd greinarinnar og við eigum kannski að líta okkur nær hvað það varðar, þ.e. við sem höfum starfað í sjávarútvegi. Ekki síst hvers vegna ímyndin er svona slæm og hvað við sem vinnum eða höfum unnið í þessari grein getum gert í því. Þetta er ekki nýtilkomið og ímyndin hefur verið slæm, m.a. vegna deilna um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnarkerfið. Ungt fólk kannast helst við sjávarútveginn vegna þess að alltaf er verið að rífast um hann. Þetta hef ég oftsinnis heyrt, ég hef farið í heimsóknir í skóla, framhaldsskóla og grunnskóla, og þar nenna börn og unglingar oft ekki að tala um sjávarútveginn af því að þau segja að það sé svo leiðinlegt vegna þess að það er alltaf verið að rífast, alltaf verið að skammast. Þess vegna legg ég svona mikla áherslu á það að við klárum þessa umræðu. Núna höfum við tækifæri til þess að takast á um hana, taka rökræðuna, komast að niðurstöðu við sjávarútveginn og innan þessara veggja líka, til að geta sléttað þetta út. Það kemur engum betur en þeim sem starfa í sjávarútvegi að leysa málið með þeim hætti.

Það hefur verið talað um fyrningarleiðina. Um hvað erum við að tala með því? Við erum að tala um eignarréttinn. Við erum að tala um framsalsréttinn, leiguréttinn, því það er það sem stingur í augu. Þetta þekki ég bara af áralangri umræðu um sjávarútveg víðs vegar um landið. Þetta er það sem stingur í augun. Fyrningu, ef við notum það orð, má gera með ýmsum öðrum hætti en innkalla veiðiheimildir ef mönnum líst ekki á það. Það getur hreinlega falist í því að takmarka það hvernig þeir sem fá að hafa yfir veiðiheimildum að ráða, hvernig þeir mega ráðstafa þeim, hvernig þeir mega haga málum sínum, takmarka það hvernig við umgöngumst auðlindina. (Forseti hringir.) Að lokum ítreka ég það að ég vil að við klárum þessa umræðu, tökumst á um hana á jafnréttisgrundvelli og ýtum þessu út af borðinu.



[22:12]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Í tillögu hv. þm. Illuga Gunnarssonar og fleiri hv. þingmanna er lagt upp með að þeir vilja að Alþingi ákveði að fela hæstv. ríkisstjórn að breyta verkefnaskrá hæstv. ríkisstjórnar í einu tilteknu atriði eða eins og segir í tillögunni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að lýsa yfir því að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.“

Nú mætti kannski skilja það sem svo að hv. þingmenn séu að öðru leyti ánægðir með þessa málefnaskrá, eða hvað? (Gripið fram í: Nei.) Maður hlýtur að velta því fyrir sér að þetta sé kannski það atriði sem þeir hafa fundið, en ég ætla nú ekki að svo sé.

Í greinargerð tillögunnar er að mínu viti mjög meinleg rökvilla, eins og raunar hefur verið komið inn á hér áður, þar sem því er haldið fram að áform um fyrningu aflaheimilda bindi hendur starfshópsins. Á hinn bóginn mætti alveg eins segja að einhliða yfirlýsing, eins og um getur í tillögu hv. þingmanna, bindi hendur nefndarinnar eða hópsins í hina áttina, þ.e. í kjölfar slíkrar yfirlýsingar gæti nefndin væntanlega ekki lagt til að fyrningarleiðin yrði farin ef rök þingmanna, eins og þau koma fram í greinargerðinni, eiga að halda.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi að við ættum að skoða allar hugmyndir. En er ekki tillagan sem hv. þingmaður flytur einmitt í andstöðu við þá skoðun? Þ.e. að ýta einni hugmynd út af borðinu vegna þess að hún bindi hendurnar frekar en einhver önnur hugmynd? Við erum með samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég held, frú forseti, að hún bindi á engan hátt hendur starfshópsins og tel að tillagan sé því óþörf.



[22:15]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þá meinlegu rökvillu sem hv. þingmaður taldi sig hafa komið auga á og fylgdi þar í fótspor annars þingmanns, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, er það nú svo að sú nálgun ríkisstjórnarinnar sem birtist í þeim sex liðum sem sérstaklega lúta að endurskoðuninni, eru fimm af þeim liðum almenns eðlis. Sjötti liðurinn eru alveg sérstök fyrirmæli um að ráðist verði í þessa fyrningu á næstu 20 árum og hún kláruð. Þetta er allt annars eðlis og þarna eru bein fyrirmæli um niðurstöðu máls og síðan er nefndinni væntanlega ætlað að útfæra niðurstöðuna. Það er það sem stingur í stúf, það er það sem er rangt. Það að ríkisstjórnin dragi þetta til baka gerir það ekki að verkum. Ég verð að segja eins og er að það er nokkuð meinleg rökvilla hjá hv. þingmanni. Það þýðir ekki að nefndin geti síðan komist að þeirri niðurstöðu sjálf á sínum eigin forsendum að ráðast eigi í einhvers konar afskriftaferli. Það er síðan annað og sjálfstætt mál og er þá á vettvangi nefndarinnar í þeirri samvinnu sem þar á sér stað, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði lagt upp með. Á því er reginmunur. Ég get því glatt hv. þingmann með því að hér er ekki um að ræða neina slíka rökvillu. Ástæðan fyrir því að flutningsmenn þessarar tillögu vilja taka út einmitt þennan þátt í stjórnarsáttmálanum er vegna þess að umfram marga aðra þætti veldur þessi yfirlýsing í stjórnarsáttmálanum miklum skaða í grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum. Yfir það hefur verið farið í löngu máli hér í umræðum í dag bæði hversu mikilvæg greinin er og hversu mikill skaði hlýst af einmitt þessari yfirlýsingu. Það er skaði sem við höfum ekki efni á, frú forseti. Ég held að það sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að hér sé ekki um að ræða neinn galla á því þingmáli sem (Forseti hringir.) hér hefur verið lagt fram sem neinu nemur, í það minnsta.



[22:17]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð þá að spyrja hv. þingmann, og hann virðir mér það þá til vorkunnar að ég sjái rökvillurnar öðrum augum en hann: Má þá skilja það svo á hv. þingmanni að séu önnur atriði almennt séð í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar sem ekki eru almenns eðlis, trufli þau alla umræðu eða alla vegferð löggjafarsamkundunnar, eða þeirrar nefndar sem hún kann að skipa, að þau eigi að taka út? Á sömu forsendum hlyti það að gilda um önnur sambærileg efni. Við höfum verið að fjalla um ansi mikilvæg og stór mál hér á þinginu sem snúa að velferð þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur stefnu í þeim öllum, þykist ég vita, og auðvitað getur það ekki verið svo að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar bindi með einhverjum ófrávíkjanlegum hætti þá umræðu sem verður innan nefndarinnar. Ég treysti þessari nefnd fullkomlega til þess að ráða ríkisstjórninni heilt, ráða Alþingi heilt, og koma fram með tillögur sem geta orðið þjóðinni allri til heilla.



[22:19]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er af mjög mörgu að taka í stjórnarsáttmálanum sem má nefna að væri sérstök ástæða til að taka út. Ég verð að segja eins og er að ég gæti séð fyrir mér samstarf með hv. þingmanni þar sem við tveir getum sest saman niður og farið yfir það versta og reynt að ná því út með þingmálum eins og þeim sem við höfum lagt saman, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ásamt öðrum, eða eins og við höfum gert hér. Við höfum margsinnis mótmælt ýmsu af því sem ríkisstjórnin stendur fyrir og hefur gert sem valdið hefur skaða. Við skulum taka sem dæmi, þótt ekki hafi sérstaklega verið kveðið á um það í stjórnarsáttmála, hvernig tekið hefur verið á orkusköttum og þeir hafa fælt frá erlenda fjárfesta úr landinu o.s.frv., hvernig skattamál ríkisstjórnarinnar hafa verið að þróast á undanförnum mánuðum. Listinn er nokkuð langur.

Aðalatriðið er að hér ræðum við málefni sjávarútvegsins. Þetta veldur alveg augljóslega skaða og hefur dregið úr fjárfestingu í greininni, þetta hefur valdið og skapað óvissu í grundvallaratvinnugrein okkar Íslendinga. Þess vegna leggja alþingismennirnir það til að þetta verði tekið út. Það sé síðan nefndin sem nálgist verkefni sitt á sama grundvelli og fyrstu fimm atriðin í stjórnarsáttmálanum, þar sem kveðið er á um endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins, með almennum opnum hætti en ekki með ákvörðun sem búið er að taka með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur gert með stefnuyfirlýsingu sinni, þar sem er sérstaklega kveðið á um þetta. Það eina sem eftir er er þá bara útfærsluatriði. Það sem skiptir þá máli hér, úr því að þessi stefnumótandi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar á að standa, er að nefndin sem skipuð er og hefur meiri hluta stjórnarflokkanna á bak við sig, hlýtur að að vinna í samræmi við það. Niðurstaðan liggur fyrir í upphafi og þá á einungis eftir að útfæra hana. Það er það sem við gerum athugasemdir við. Það verður ekki hægt að ná sátt um þá niðurstöðu sem þarna myndast ef leggja á upp með þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur illu heilli skrifað inn í stefnuyfirlýsingu sína.



[22:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á sömu forsendum og hv. þm. Illugi Gunnarsson telur hér upp, þ.e. að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar skaði umræðuna (Gripið fram í.) eða greinina, mundi öll umræða, ritað mál eða talað, eyðileggja alla umræðu hvar sem það væri. Á sömu forsendum má með ágætisrökum halda því fram að stefnuskrá stjórnmálaflokka á Alþingi, sem er væntanlega yfirlýst stefna þeirra sömu flokka, skaði svo alla umræðuna að hún eigi ekki að birtast neins staðar. Auðvitað er það ekki svo. Auðvitað er þingmönnum, stjórnmálaflokkum o.s.frv., þeim sem taka þátt í opinberri umræðu, skylt að geta um það hver þeirra stefna er svo þeim, sem taka til varna eða til andsvara, sé ljóst á hverjum tíma um hvað stefnan fjallar, um hvað á að ræða, þannig að þeir geti og hafi tækifæri til að móta sér skoðun og móta afstöðu sína í samræmi við það sem verið hefur í gangi í umræðunni.



[22:22]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og ætla að gera grein fyrir því hvernig ég horfi á þessi mál. Að mínu mati hefur það ákvæði sem er í stjórnarsáttmálanum og hangir yfir þessari grein og vinnu endurskoðunarnefndarinnar ekki aðeins valdið óvissu í atvinnugreininni, heldur er það farið að trufla störf nefndarinnar sjálfrar. Þegar við skoðum verkefni starfshópsins, sem á að vera að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar, segir svo, með leyfi virðulegs forseta, í starfslýsingu hópsins:

„Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni, sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta …“ o.s.frv.

Í raun er kjarni málsins þarna. Það er búið að gefa starfshópnum mjög opið umboð og þess vegna er mjög vel til fundið að trufla starf nefndarinnar þegar hér koma yfirlýsingar eins og til að mynda frá hv. varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem talar um að þetta sé eins konar gefin stærð og gefin niðurstaða um að fara skuli fyrningarleiðina einfaldlega vegna þess að það liggi fyrir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í stefnuyfirlýsingu stjórnmálaflokkanna. Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnarflokkunum hefur gengið að efna loforðin sín, held ég að ekki mundi nú mikið muna um það þótt þessu loforði yrði kippt til baka, það munar nú ekki mikið um kepp í sláturtíðinni, eins og stundum er sagt. Bara af þeirri ástæðu væri útlátalítið fyrir ríkisstjórnarflokkana að hverfa frá þessu eða leggja þennan hlut til hliðar í því skyni að reyna að ná því sem er markmið nefndarinnar, að ná samkomulagi í þessu veigamikla máli.

Það er ekki hægt að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram. Ef niðurstaðan er gefin fyrir fram er verkefni starfshópsins óþarft. Starfslýsingin sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf okkur sem sitjum í nefndinni er þá ekkert í samræmi við það sem ætlast er til af nefndinni eins og hún var skipuð og eins og henni var skipað til verka.

Það sem við ræðum nú er mál sem oft hefur verið til umræðu hér í þinginu. Við skulum ekki gleyma því að á sínum tíma var samþykkt þingsályktunartillaga að frumkvæði þáverandi hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Það leiddi til þess að sett var á laggirnar ákaflega góð nefnd sem fór mjög rækilega yfir þær spurningar sem lutu annars vegar að auðlindagjaldinu og hins vegar að fyrningarleiðinni. Nefndin varð ekki samdóma í niðurstöðu sinni. Meiri hluti nefndarinnar komst að tiltekinni niðurstöðu og hafnaði í raun og veru því að fara þessa fyrningarleið. Þessi meiri hluti gerði það að mjög vel rökstuddu máli og sýndi fram á það í málflutningi sínum að fyrningarleiðin væri mjög illa til þess fallin að ná þeim markmiðum sem við vildum hafa í heiðri varðandi fiskveiðistjórnina. Þáttum eins og hagkvæmni, hagsmunum byggðanna, góðri nýtingu fiskstofnanna og því að skapa vissu um starfsumhverfi sjávarútvegsins væri öllu stefnt í tvísýnu ef farin væri leið fyrningarinnar.

Ég veit að um það eru ekki allir sammála og um það var tekist á þótt niðurstaðan hefði orðið sú sem hún varð á sínum tíma. Þess vegna leit ég þannig á þegar ég tók sæti í þessari nefnd, þá skipaður af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að fara yfir þessa hluti, að umboð okkar væri mjög opið. Ég get þess vegna ekki með neinum hætti tekið undir þá lýsingu eða túlkun hv. varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem talaði hér áðan. Hann lét í veðri vaka að úr því að núverandi stjórnarflokkar hefðu umboð þjóðarinnar bæri að vinna að þessari niðurstöðu og engri annarri. Þá er búið að setja starf þessarar nefndar í uppnám. Þá hefur hún ekki lengur erindi í samræmi við það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði upp með. Þá er starf nefndarinnar til ónýtis. Það má kannski segja að það sé aukaatriði í málinu hvort þessi nefnd lifir eða deyr en þó væri illt til þess að hugsa ef tilraun manna til þess að reyna að ná saman í þessu vandasama máli væri að engu gerð ef niðurstaðan væri fundin fyrir fram.

Það er hægt að sýna fram á það með margvíslegum hætti að það hlytist mikill skaði af því að fara fyrningarleiðina. Það hefur oft verið bent á það í umræðunum, ekki bara í dag heldur oft áður, að um leið og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin um að fara fyrningarleiðina var skaðinn skeður. Við þekkjum fjölmörg dæmi um það, við heyrum það m.a. úr sjávarútveginum. Þar halda menn að sér höndum, þar hika menn við að fara í fjárfestingar, þar hika menn við að skipuleggja sig fram í tímann vegna þess að þeir vita ekki hvert rekstrarumhverfi þeirra verður. Nákvæmlega sama segja þeir sem eiga viðskipti við sjávarútveginn, fyrirtæki hér á Íslandi sem framleiða tæki fyrir sjávarútveginn, eins og 3X Technology, Marel og slík fyrirtæki, segja öll þessa sögu. Það er þýðingarlaust að tala við íslenska sjávarútveginn um þessar mundir einfaldlega vegna þess að menn vita ekki hver framtíðin verður. Það er alveg rétt, sjávarútvegurinn býr við margs konar aðrar ógnir og auðvitað er ein ógnin falin í þeim miklu skuldum sem við er að glíma.

En alveg eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti hér á áðan í máli sínu er ekki líklegt að leið sem felur það í sér að rýra fiskveiðirétt sjávarútvegsfyrirtækjanna sé líkleg til þess að stuðla að því að þessi sömu fyrirtæki geti staðið betur undir skuldbindingum sínum. Leið sem felur í sér óvissu af þessu taginu grefur undan framtíðarmöguleikum fyrirtækjanna, þau geta ekki skipulagt sig. Og gleymum því aldrei að sjávarútvegur umfram mjög margar atvinnugreinar er grein sem reiðir sig á að vita eitthvað hvað framtíðin ber í skauti sér. Það eru margir óvissuþættir í sjávarútveginum eðli málsins samkvæmt og þess vegna er það mjög alvarlegt ef bætt er pólitískri óvissu ofan á allt saman.

Hér er mikið búið að tala um Landssamband íslenskra útvegsmanna. Við skulum aðeins hvíla okkur á því og ræða aðeins um afstöðu annarra útgerðarmanna sem eru smábátaútgerðarmennirnir í landinu. Það er engin tilviljun að það eru einmitt þeir sem hafa mestar áhyggjur af því ef boðuð fyrningarleið verður farin vegna þess að í þeirra hópi eru flestir nýliðar. Í þeirra hópi eru þeir flestir sem nýlega eru komnir inn í greinina og eru þess vegna með miklar skuldbindingar á herðum sér. Þeir kvíða því auðvitað mjög ef tekjugrundvöllur þeirra verður rýrður. Ég ætla að taka dæmi og vitna aðeins til ræðu formanns Landssambands smábátaeigenda sem hann flutti á aðalfundi sambandsins fyrr á þessu hausti. Hann segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„En gera þeir“ — nú vísar hann til þeirra sem gagnrýna sjávarútveginn — „sem eru fullir […] gremju sér grein fyrir því að innan sjávarútvegsins eru fjölmörg lítil sjávarútvegsfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, sem hafa aldrei gert annað en að nýta þær aflaheimildir sem þeim hefur verið úthlutað samkvæmt lögum og sum hver lagt allt að veði til að auka við sig á því sviði? Ég tek dæmi: Fyrirtæki í smábátaútgerð er með 100 tonna kvóta og skuldar 100 milljónir eftir gengishrun krónunnar. Hinn 1. september 2010, að óbreyttum aflaheimildum, mun fyrirtækið hafa 95 tonna kvóta en skulda um 105–110 milljónir. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er augljóslega vilji til að styrkja smábáta- og strandveiðar. Ekki hvarflar að mér að gera þar lítið úr og [ég er] handviss um að málinu fylgir góður hugur. En ég spyr: Hvernig mun framangreint smábátafyrirtæki eflast við það sem að framan er talið? Er líklegt að viðkomandi fyrirtæki hafi færst upp á „styrkleikalista“ viðskiptabankans? Og hitt, sem er ekki síður mikilvægt: Er líklegt að viðkomandi einstaklingi eða fjölskyldu hafi aukist þróttur og þol í útgerðinni eftir að hafa verið tilkynnt um 5 tonna fyrninguna? spyr sá sem vill fá svör og það skjótt og vel.“

Síðan segir hann:

„Með þessari lýsingu er ég ekki að lýsa stuðningi við núverandi fiskveiðkerfi eins og svo margir virðast halda. Ég er einfaldlega að benda á þá stöðu sem fjölmörg smábátafyrirtæki, lítil fjölskyldufyrirtæki, hringinn í kringum landið eru í. […] Það er fullkominn ruddaskapur að tala um innköllun veiðiheimilda/atvinnuréttar eins og ég hef ætíð litið á kvótann, án þess að taka skuldir fyrirtækjanna og einstaklinganna þar inn í. Finnst talsmönnum fyrningarleiðarinnar það sjálfsagt að sjávarútvegsfyrirtækin, stór sem smá, séu skilin eftir með skuldirnar, skuldir sem breyttust í hrein og klár skrímsli við gengishrun krónunnar?“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Sá sem hér talar er formaður félags smábátaeigenda og gerir sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur fyrir nýliðana, einmitt fyrir þá sem komu síðastir inn í greinina, einmitt fyrir þá sem hafa tekist á hendur skuldbindingar í góðri trú. Þeir hafa trúað á einhvern fyrirsjáanleika en hafa lent í því að það hefur orðið gengishrun sem hefur aukið skuldir þeirra. Þá segja menn: Er nú gráu bætandi ofan á svart? Er nú ástæða til þess að rýra tekjumöguleika þessarar greinar? Það er þetta sem málið snýst um. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir hagsmuni greinarinnar og möguleika hennar að við getum náð sáttum í þessu erfiða máli, að menn leggi þetta til hliðar, gefi sér ekki niðurstöðuna fyrir fram og gefi þeirri nefnd starfsfrið, sem nú starfar af góðum hug undir ágætri forustu Guðbjarts Hannessonar alþingismanns, til að reyna að ná (Forseti hringir.) niðurstöðu í þessu máli. En það fæst ekki meðan þetta damóklesar-sverð ríkisstjórnarinnar hangir yfir okkur. (Forseti hringir.)



[22:33]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Má ekki halda því fram með sömu rökum og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa notað í kvöld að sverð Damóklesar hangi yfir fyrir hverjar einustu kosningar? Væri þá ekki betra að sleppa því að halda alþingiskosningar á Íslandi vegna þeirrar óvissu sem það skapar fyrir fjöldann allan af atvinnugreinum? Hvers lags málflutningur er þetta sem við hlustum á hér í kvöld, þ.e. tillaga til þingsályktunar sem felur í sér að ríkisstjórnin framkvæmi ekki boðaða stefnu sem hún hefur verið sérstaklega kosin til að framkvæma? Það er með hreinum ólíkindum hvað mönnum er boðið upp á og það er sennilega til bóta að umræðan fer hér fram þegar langt er liðið fram á kvöld og fáir fylgjast með. Því miður verður þessu líklega sjónvarpað á morgun, almenningur getur þá fylgst með því hvernig þingmenn eyða tíma sínum á kvöldin í algjörlega fánýta umræðu. Af hverju kemur hv. þingmaður ekki með tillögu sem felur í sér að tillögur ungra sjálfstæðismanna í skattamálum komi aldrei til framkvæmda á Íslandi? Það væri nær.



[22:34]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði m.a. til þess þegar ég settist í nefnd á vegum hæstv. sjávarútvegsráðherra til að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að ég fékk þá í hendurnar erindisbréf. Í því erindisbréfi var tilgreint hvað við skyldum fást við í nefndinni. Þar var ekki talað um að við ættum að fara fyrningarleið. Þar var ekki sagt að það væri hin gefna niðurstaða af starfi nefndarinnar. Þar var ekki sagt að það væri vegna þess að stjórnarflokkarnir hefðu fengið til þess umboð þjóðarinnar að knýja fram fyrningarleið, að við ættum að komast að þeirri niðurstöðu fyrir fram.

Þar var einfaldlega sagt að við ættum að kortleggja þessi mál og reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Ég er að halda því fram að meðan þessi óvissa ríkir, sem er fyrst og fremst að skaða atvinnugreinina og hefur áhrif, og einnig vegna þeirrar umræðu sem hefur farið hérna fram, að það er alls ekki ljóst hvort menn líta þannig á, fulltrúar stjórnarflokkanna, sem eru þeir sem veita nefndinni umboð í gegnum sjávarútvegsráðherra, að þessi niðurstaða sé gefin. Það er ekki verið að tala um að koma í veg fyrir umræðu um þessi mál, öðru nær. Við lítum þannig á að þetta sé eitt af þeim álitaefnum sem við erum að brjóta til mergjar og takast á við en við getum ekki fallist á að það sé hin eina gefna niðurstaða.



[22:35]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Má þá draga þá ályktun af málflutningi hv. þingmanns að boði ríkisstjórnin að hún muni fresta áformum um fyrningarleið eða hún feli ekki þessum starfshópi þau fyrirmæli að skoða hana sérstaklega, að með því sé forðað gjaldþroti fjölda sjávarútvegsfyrirtækja? Þá muni með þeirri yfirlýsingu fjöldi lánastofnana og lánveitendur fara að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi og þá muni umfangsmiklum gjaldþrotum í sjávarútvegi með því einu vera forðað? Munu þá engin sjávarútvegsfyrirtæki fara á hausinn ef ríkisstjórnin tilkynnir að hún muni fresta þeim áætlunum sínum?



[22:36]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ríkisstjórnin gæfi út slíka yfirlýsingu yrði örugglega ekki öllum fyrirtækjum forðað frá gjaldþroti. Við þekkjum það í gegnum tíðina að sjávarútvegsfyrirtæki eins og önnur fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota. En það er engin spurning að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar af þessum toga mundi mjög greiða götu sjávarútvegsins. Það er engin spurning um að þetta er þegar farið að valda óvissu, það þekkja þeir sem starfa í þeirri grein. Sú óvissa lýtur ekki bara að fjármögnun fyrirtækjanna, hún lýtur líka að því að fyrirtækin sjálf eða forsvarsmenn þeirra eru hikandi við að takast á hendur fjárskuldbindingar vegna þess að þeir vita ekki hvort þeir geti staðið við slíkar fjárskuldbindingar af því þeim er ekki ljóst hvert rekstrarumhverfið verður. Það skiptir auðvitað miklu máli að vita hvort einhver fyrirsjáanleiki sé í þessari grein, það skiptir mjög miklu máli að vita hvort að standa eigi við yfirlýsinguna um fyrninguna. Ég lít þannig á að starf nefndarinnar sé m.a. að leiða þessi mál til lykta en það verður ekki gert ef búið er að setja mönnum fyrir með þeim hætti að niðurstaðan sé fundin fyrir fram.



[22:37]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu, sem ég er meðflutningsmaður að, sem felst í því að skora á ríkisstjórnina að lýsa því yfir að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda í sjávarútvegi. Mig langar að koma aðeins inn á það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði í ræðu sinni undir öðrum lið í dag að það er rosalega mikil óvissa í greininni. Ég tel alveg með ólíkindum að menn skuli þá fara að bæta við þá óvissu sem fyrir er, það er ekki skynsamlegt. Síðan langar mig að fara yfir stöðuna eins og hún nákvæmlega er í greininni í dag.

Frú forseti. Mjög margir einstaklingar sem eru í litlum útgerðum eru að gefast upp. Þeir eru að missa móðinn, þeir eru að guggna og bogna, m.a. vegna þess að svokölluð boðuð fyrningarleið, sem ég tel reyndar algjörlega ófæra, gerir það að verkum að menn sjá ekki framhaldið og sjá ekki til lands í því sem þeir eru að gera. Til að fara aðeins yfir það þá hafa menn rætt skuldir sjávarútvegsins mikið í kvöld og það er alveg rétt að skuldir sjávarútvegsins eru 550 milljarðar, en hvað hefur breytt því, frú forseti? Fyrir rúmu ári, áður en gengisfallið varð og bankahrunið kom, skuldaði þessi atvinnugrein upp undir helmingi minna en hún gerir í dag, bara eins og öll önnur fyrirtæki, heimilin í landinu sem voru með erlend lán o.s.frv. Til þess að bæta gráu ofan á svart hafa menn eða útgerðarfélög lent í því að búið er að skera aflaheimildir mjög mikið niður. Það gerir það að verkum að menn eru í bölvuðu basli við að reyna að ná endum saman og sjá fram úr því sem verið er að gera. Þar sem ég þekki til af eigin raun frá heimasvæði mínu og reyndar víðar eru menn að örmagnast undan því að hafa þessa fyrningarleið hangandi yfir sér. Það eru staðreyndir málsins. Ég vil líka benda á, frú forseti, að mörg lítil útgerðarfélög í heimaplássi mínu hafa verið í viðskiptum hjá bankastofnunum sem eru nú þegar búnar að hækka álagið á erlendu lánin frá því að vera undir 2% upp í tæp 8% ofan á jen og franka. Allir heilvita menn sjá að það er mikið meira en nóg að standa undir því og nánast ófært. Það er því algjörlega vonlaust að menn geti haldið áfram með þessum hætti.

Þá velti ég því líka upp hvort ekki væri skynsamlegra, eins og einn útgerðarmaður benti á þegar menn fóru að ræða þetta hvers vegna menn væru að fara að eyðileggja fyrirtækin, að menn mundu þá fyrna hlutabréfin í fyrirtækjunum. Það væri miklu skynsamlegra að fyrna hlutabréfin heldur en aflaheimildirnar og setja allt upp í loft. Það er hin kalda staðreynd málsins.

Ég vil benda á að í vandaðri skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gerði kemur berlega í ljós að ef menn færu þá leið að fyrna um 5% á ári eins og upp var lagt með, þá tekur það 5–6 ár fyrir stærstu og stöndugustu útgerðarfyrirtækin að fara í þrot, það tekur þann tíma að fara í þrot.

Ég vil einnig koma aðeins inn á það, af því menn festast alltaf við sjávarútvegsumræðuna út frá kvótanum og veiðiréttindunum, að mjög mikilvægt er að menn skipuleggi sig fram í tímann því að þetta er einn hluti af þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í sambandi við sjávarútveginn. Það eru í fyrsta lagi veiðarnar, síðan vinnslan og loks markaðssetningin. Það er fullt af fyrirtækjum um allt land sem eru búin að ná samningum við erlenda kaupendur um að þeir tryggi það að þeir geti skaffað ákveðna vöru með ákveðnu fyrirkomulagi á grundvelli þeirra aflaheimilda sem þeir hafa yfir að ráða. Ef það yrði gert með þeim hætti að þeir mundu ekki vita hvort þeir hefðu svo og svo mikinn kvóta eða hvort þeir hefðu þúsund tonn eða fimm hundruð tonn eða hvað það væri, þá væri þetta allt komið upp í loft.

Frú forseti. Við erum alltaf ræða bara einn þátt sjávarútvegsins, þ.e. veiðiheimildirnar. Hins vegar mega menn ekki gleyma því og mjög mikilvægt er að menn átti sig líka á því að margir hverjir eru búnir að sérhæfa sig í vinnslu og markaðsstarfi og hafa lagt mikla vinnu og kostnað í það. Við megum ekki fórna því.

Síðan verðum við að átta okkur á því að mjög mörg hagsmunasamtök, hvort heldur sem eru sjómanna, útgerðarmanna eða sveitarfélaga, þvert á alla pólitík, það skiptir engu máli hvort sveitarstjórnarmennirnir eru í þessum flokknum eða hinum, hafa verulegar áhyggjur af boðaðri fyrningarleið og hafa komið þeim skilaboðum til hv. alþingismanna. Ég vona svo sannarlega að menn taki mark á því, af því að þetta er svipað og við upplifðum í sambandi við hrunið að ekki var hlustað á þá sem bentu á það sem gæti gerst. Þess vegna er mjög mikilvægt að við lærum af þeirri reynslu og virðum skoðanir hvers annars með því að taka fullt mark á því fólki. Þeir sem eru kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar eru eingöngu að hugsa um hag íbúanna og byggðarlagsins, þeir eru ekkert að hugsa um hag einhverra einstaklinga, þeir eru að hugsa um heildina. Það er því mjög mikilvægt að gera það með þessum hætti.

Það að boða þessa fyrningarleið dregur að sjálfsögðu allan þrótt úr greininni. Það hefur maður margoft séð vegna þess að menn eru hikandi, þeir fara ekki út í nýfjárfestingar. Ég er búinn að fara í tvígang að heimsækja fyrirtæki sem heitir 3X-Stál á Ísafirði. Það var alveg skýrt af þeirra hálfu að þegar menn horfðu fram á þessa boðuðu fyrningarleið og niðurstaðan varð sú í stjórnarsáttmálanum, þá hættu allir við sem voru með áform uppi um að fjárfesta í búnaði hjá því ágæta fyrirtæki, það kipptu allir að sér höndum og allir hættu við það sem var í pípunum hjá því fyrirtæki vegna þessarar óvissu. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn eyði henni.

Margir segja að þetta hafi verið einhver gjafakvóti, útgerðarmaðurinn hafi fengið þetta endurgjaldslaust í upphafi. Ég minni þá á, frú forseti, og ég kalla það ekki gjöf þegar aflamarkið var sett á á sínum tíma eftir að hafa verið í sóknarmarkskerfinu eftir hina svokölluðu svörtu skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem við höfum verið á þremur árum, þ.e. viðmiðunarárunum frá 1981–1983, verið að veiða 370 tonn af þorski á ári. Þá kom þessi skýrsla og sagði: Ef menn gera ekki einhverjar róttækar breytingar og fari að stýra þessu af einhverju viti mun þorskstofninn við Íslandsstrendur hrynja. Þess vegna fóru menn að gera þetta. Það sem gerðist í framhaldinu, frú forseti, var að þeir sem höfðu unnið og veitt og skapað sér rétt til þess að veiða fengu 60% út úr þeim viðmiðunum sem þeir höfðu. Það kalla menn í dag gjöf. Þannig var þetta í upphafi og virðast margir hverjir hafa gleymt því hvernig þetta var gert. Ef menn fengju 40% skerðingu á tekjumöguleikum í atvinnu sinni mundu þeir ekki líta á það sem gjöf. Menn mundu líta svo á að það væri skerðing.

Frú forseti. Eftir að aflamarkskerfið var sett á 1984 er búið með pólitískum aðgerðum að færa 40% af veiðiheimildunum handvirkt frá útgerðunum, þ.e. stjórnvöld hafa gripið inn í og fært 40% af aflaheimildunum með pólitískum aðgerðum ofan á þær skerðingar sem menn fengu. Það er nú ekkert smáræði sem búið er að fikta í kerfinu.

Mig langar að koma aðeins inn á eignar- og nýtingarrétt. Ég hef alltaf litið á það þannig, og það er mín persónulega skoðun, að þjóðin eigi fiskstofnana í sjónum. Það er sameign þjóðarinnar en nýtingarrétturinn er hjá útgerðarmönnunum og sjómönnunum. Það er alveg kristaltært í mínum huga. Um það þarf ekki að deila. Ég get fært mörg rök fyrir því. Þegar menn úthluta aflaheimildunum þá er það gert með þeim hætti að pólitíkin ákveður aflahámark í hverri tegund fyrir sig. Í framhaldi af því gera menn það þannig að þeir taka fullt af aflaheimildum áður en þeim er úthlutað í sértæka potta og þar fram eftir götunum, þannig að það er alveg klárt og klippt að eingöngu nýtingarrétturinn er hjá útvegsmönnum og sjómönnum, alls ekki eignarrétturinn. Um það mun ég ekki deila.

Ég get hins vegar, frú forseti, tekið undir með hv. þm. Birni Val Gíslasyni sem sagði áðan í andsvari að menn yrðu að ræða þessi mál. Við verðum að gera það á hófsaman hátt og við þurfum að komast að niðurstöðu. Það er kannski rétt sem hv. þingmaður sagði að það er mjög vont að hafa alltaf þessa óvissu á fjögurra ára fresti, þ.e. uppboð á aflaheimildum eða hvernig menn vilja hafa það. Það er mikilvægt að þeirri óvissu verði eytt. Það er eins og hv. þingmaður benti einnig á að ef menn mundu ræða t.d. hvernig ætti að standa að nýtingunni og hvernig menn sem hefðu þessar heimildir mundu ganga um þær með því t.d. að auka veiðiskyldu og þar fram eftir götunum, þá er ég meira en fús til að leggja sáttarhönd á (Forseti hringir.) hvernig það yrði gert því að ekkert er því til fyrirstöðu að menn auki veiðiskylduna.



[22:48]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Eitt af markmiðum þess starfshóps sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað er að svara áliti sem liggur fyrir frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Það er einn af þeim þáttum í starfi þessa hóps sem lítið hefur verið fjallað um í kvöld en ég tel afar mikilvægt að það sé gert vegna þess að að mínu mati og margra annarra hefur það ekki verið gert með fullnægjandi hætti.

Menn hafa verið að ræða hér tilurð kvótakerfisins og farið svolítið aftur í söguna og því langar mig að minnast á ágætissjónvarpsviðtal sem var tekið við Hannes Hólmstein Gissurarson í Íslandi í dag, mjög lýsandi sjónvarpsviðtal sem margir hafa skoðað upptöku af á netinu síðustu mánuði og missiri. Hann lýsti því að mönnum hefði hugkvæmst að breyta fiskinum í sjónum í peninga sem fóru að vinna fyrir okkur og hann segir, með leyfi forseta:

„Svo einkavæddum við bankana sem voru steindauðir og hugsið hvað það verður nú gaman þegar bankarnir eru orðnir 7- til 10-faldir á við stærð íslenska hagkerfisins, ef við gætum bara gefið í,“ sagði talsmaður einkaeignarréttarins í sjávarútvegi. Þetta var einmitt í tengslum við kynningu hans á fyrirlestri sem ég held að hafi verið kallaður Íslenska efnahagsundrið. Þorvaldur Gylfason lýsti því svo í Skírni, með leyfi forseta:

„Fyrir aldarfjórðungi ákváðu stjórnmálamenn að afhenda útvegsmönnum ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þessi rangláta ákvörðun, sem allir flokkar á þingi báru sameiginlega og sinnulausa ábyrgð á, skerti svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar, að þess gat ekki orðið langt að bíða að aðrar jafnvel enn afdrifaríkari ákvarðanir af sama tagi sæju dagsins ljós. Því skyldu menn, sem víluðu ekki fyrir sér að búa til nýja stétt auðmanna með ókeypis afhendingu aflakvóta í hendur fárra útvalinna, hika við að hafa svipaðan hátt á einkavæðingu banka og annarra ríkisfyrirtækja? Því hlaut að fara sem fór. Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið.“

Hv. þm. Illugi Gunnarsson er örugglega ekki sammála þessari fullyrðingu Þorvaldar Gylfasonar. Ef til vill skrifar hann upp á þá söguskýringu að það hafi í raun verið Sighvatur Björgvinsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hæstv. forseti Alþingis, sem klúðruðu einkavæðingu bankanna. Og ef til vill skrifar hann líka upp á þá vandræðalega risavöxnu söguskýringu að í raun hafi framsalsheimildin á ábyrgð Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks leitt til óánægjunnar með kvótakerfið, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson leyfði sér að halda hér fram fyrr í dag, líkt og kerfið hafi verið meitlað í stein þau 18 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrði sjávarútvegsmálum á Íslandi.

Svo farið sé hratt yfir sögu var það svo að samkvæmt dómi Hæstaréttar 1998 gekk kvótakerfið gegn jafnræðis- og atvinnufrelsisákvæðum í stjórnarskránni í svokölluðu Valdimarsmáli, en rétturinn skipti um skoðun árið 2000. Síðari dómurinn og annar eins voru kærðir til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, en þar sitja 18 af fremstu mannréttindasérfræðingum heims. Nefndin úrskurðaði að fiskveiðistjórnarkerfið bryti gegn alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða. Þá steytir kerfið einnig á jafnræðisákvæðum í stjórnarskránni. Úrskurði mannréttindanefndarinnar verður ekki áfrýjað.

Ókeypis afhending aflakvóta allar götur frá 1984 færði útvegsmönnum að undirlagi þeirra sjálfra mikið fé sem frjálst framsal kvótanna eftir 1990 gerði þeim kleift að nota til að steypa sér í skuldir og blása upp efnahagsreikninga bankanna með því að veðsetja kvótann sem á þó að heita sameign þjóðarinnar að lögum. Veðsetningarheimildin var leidd í lög 1997, skömmu áður en einkavæðingu bankanna var hrundið af stað.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna byggði úrskurð sinn á að ókeypis úthlutun aflakvóta til þeirra sem stunduðu veiðar 1980–1983 bryti gegn 26. gr. mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er samhljóða 65. gr. stjórnarskrár okkar. Úthlutunarregla laganna fullnægir ekki þeirri kröfu að allir sitji við sama borð, séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda án tillits til efnahags.

Úrskurður mannréttindanefndar er í höfuðatriðum samhljóða dómi Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar gegn ríkinu 1998. Báðir úrskurðir eru reistir á þeirri skoðun að mannréttindi séu algild og verði því ekki hneigð eða sveigð að öðrum hagsmunum. Frjálst framsal var æskilegt af hagkvæmnisástæðum, en það krafðist réttlátrar og löglegrar úthlutunar í upphafi. Þarna er rót vandans í þessu kerfi að mínu mati og margra annarra sem fjallað hafa um þetta mál.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð í kvöld um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Ég hef lýst skoðun minni á henni og tel að hún sé fullkomin tímaeyðsla af hálfu þingsins. Það væri miklu nær að taka efnislega umræðu um þetta mál, bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og í sölum þingsins. Menn hafa ekki skorast undan því að ræða þetta, en að leggja fram tillögu sem felur í sér að ákveðin leið sé ekki rædd, hún sé ekki á dagskrá, hún valdi svo mikilli óvissu, er einfaldlega ekki boðlegt í þessari umræðu, ekki boðlegt í stjórnmálalegri umræðuhefð á Íslandi, að ýta málum, málefnum og málaflokkum út af borðinu með þessum hætti. Það höfum við séð áður gert þegar fjallað hefur verið t.d. um aðild Íslands að Evrópusambandinu, menn hafa haldið því fram að málið væri bara einfaldlega ekki á dagskrá. Það hefur að mínu mati leitt okkur í gríðarlegar ógöngur, sérstaklega þegar litið er til efnahagshrunsins og þess hvernig okkar eigin örlitli gjaldmiðill fór með okkur í því.

Ég vil líka, virðulegur forseti, brýna talsmenn stjórnarandstöðunnar hér í kvöld til að tala ekki af þeirri lítilsvirðingu og því yfirlæti til þingmanna með brýningum um að þeir þekki ekki nægilega vel til þess máls sem þeir fjalla um. (Gripið fram í.) Það er ömurleg rökræðulist að ásaka andstæðingana um þekkingarleysi og vísa sífellt til þess að þeir þurfi að lesa betur heima, tala við hina og þessa og kynna sér betur sjónarmið. Er ekki betra þá að ræða þau sjónarmið sem menn færa fram máli sínu til stuðnings?

Þá er virkilega til vansa sá siður í þinginu að alhæfa í nafni andstæðinga sinna og mótmæla svo alhæfingunni, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði hér í kvöld. Hann sagði spunameistara annars flokksins búa til þá mynd að í hópi útgerðarmanna væru ekkert nema bófar og bandítar. Hver hefur sagt hér í kvöld, virðulegur forseti, að í hópi útgerðarmanna væru ekkert nema bófar og bandítar? Það væri ágætt að hv. þingmaður útskýrði fyrir þingheimi hver hefði notað þau orð. Er það nokkur nema hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem hefur haldið því fram og notað það sérstaka orðalag? Svo fór hann í rökræðu við sjálfan við sig um það hvað það væri dónalegt að nota þessi orð. Það er ömurlegur siður að alhæfa svona í nafni annarra og fara svo í rökræður við þá á grundvelli þess. Enginn nema fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hefur talað um bófa og bandíta hér í kvöld.

Ég hvet til þess að menn reyni eftir fremsta megni í þessari umræðu allri sem hefur einkennst af gríðarlegum tilfinningahita og mikilli heift sem hefur gengið fram úr öllu hófi að vanda málflutning sinn og tala af hófsemd og kurteisi og mildi, sérstaklega þegar svo langt er liðið fram á kvöld.



[22:56]
Flm. (Illugi Gunnarsson) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmönnum fyrir ágæta umræðu sem ég verð að segja að hefur að mestu leyti verið hófstillt, hefur farið fram af ágætri mildi og verið málefnaleg í langflesta staði. Ég verð að segja eins og er að ég tek ekki til mín þau ummæli sem féllu hjá hv. þm. Róberti Marshall, að hér hafi menn farið fram með einhverri gríðarlegri heift. Það var ekki svo, í það minnsta hvorki í mínum ræðum né þeirra ræðumanna sem eru skráðir hv. flutningsmenn þessarar tillögu.

Það sem mér fannst standa svolítið upp úr og vera áhugavert að heyra var það sem kom fram hjá hv. þingmönnum í stjórnarliði, m.a. hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að allar hugmyndir um fyrningarleiðina væru óútfærðar, það væri ekki búið að útfæra þessar leiðir. Nú vill þannig til, frú forseti, að við höfum verið að ræða í a.m.k. nokkra áratugi þessar fyrningarleiðir og þá spurningu hvar eignarhaldið liggur. Það er alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli lýsa því yfir með jafnskýrum hætti og hún gerir að farin verði fyrningarleið, að aflaheimildir frá útgerðinni verði kallaðar inn á 20 árum, bótalaust, komi svo hingað og segi: Við höfum bara ekki hugmynd um hvernig við ætlum að gera það. Og þegar spurt er einfaldrar spurningar eins og hvort hv. þingmaður telji líklegra að sjávarútvegurinn geti borgað skuldir sínar eða ólíklegra, verði þessi leið farin, sé því svarað þannig að menn hafi grafið sjálfa sig niður í einhvers konar hjólför og ofan í stríðsgrafir og í framhaldinu sagt: Enda er ekki búið að útfæra eitt eða neitt. Á sama tíma þarf sjávarútvegurinn, þessi mikilvæga atvinnugrein, að búa við þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þegar hv. þingmenn hafa hér í ræðustól ekki sagst skilja hvers vegna þessi tillaga sé flutt og finnst út í hött að farið sé fram á þetta við ríkisstjórnina er það gert af mjög gildri og góðri ástæðu. Það er vegna þess að akkúrat þetta ákvæði, stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, hefur þau áhrif sem ég og aðrir hv. þingmenn höfum lýst hér mjög skýrt. Þess vegna er ástæða til að flytja þingmál sem þetta til að skora á ríkisstjórnina að draga þetta til baka, til að láta reyna á hvort þingmeirihluti sé á Alþingi fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er sjálfsagt mál að láta reyna á það í jafnmikilvægu og -afdrifaríku máli og þessu.

Hvað varðar það sem kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls um að það sé óeðlilegt að menn hafi dregið þá ályktun sem hefur verið dregin, að það andi nokkuð köldu svo ekki sé meira sagt frá ýmsum stjórnarliðum til útgerðarmanna, er rétt að rifja upp að fyrir kosningarnar 2003 birti Samfylkingin blaðaauglýsingu með mynd af fremur verð ég að segja ógeðfelldum karli sem lá á vindsæng og átti sá karl að tákna íslenska útgerðarmenn sem lægju og hefðu það náðugt í sólinni meðan aðrir Íslendingar væru í vinnunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er nú ekki skrýtið þó að menn hafi haft á tilfinningunni að innan Samfylkingarinnar væru uppi ýmis sjónarmið sem vart væri hægt að lýsa sem skilningsríkum hvað varðaði stöðu íslensks sjávarútvegs svo ekki sé lengra gengið. Ég mótmæli því að það sé einhver tímaeyðsla af hálfu Alþingis og hv. þingmanna að ræða hvort það sé þingmeirihluti fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er algjörlega eðlilegt og ég minni hv. þingmann á ýmis þau ummæli sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa haft um mikilvægi Alþingis, um mikilvægi þess að mál séu hér rædd, um mikilvægi þingræðisreglunnar. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, öllum hv. þingmönnum á að vera ljóst hversu mikilvæg þingræðisreglan er og að það liggi þá fyrir í þessu máli að ríkisstjórnin hafi meiri hluta fyrir því vegna þess að þessi ákvörðun, þótt hún hafi ekki verið staðfest af þinginu, er nú þegar farin að hafa áhrif í greininni. Þrátt fyrir að hún hafi ekki verið samþykkt af Alþingi hefur hún þau áhrif að það er uppi meiri óvissa í greininni, og meiri óvissa þýðir auðvitað að það eru minni fjárfestingar, það er minna umleikis í greininni, akkúrat á þeim tíma sem við Íslendingar þurfum á því að halda að nýta öll sóknarfæri sem eru til staðar í sjávarútvegi.

Síðan er auðvitað hitt, sem var alveg sérstök umræða, hvað það er í núverandi kvótakerfi og aflamarkskerfi sem gerir það svo óvinsælt. Reyndar sýna margar rannsóknir að það sé einmitt framsalið, þ.e. að menn hafi þann möguleika að selja og kaupa aflaheimildir, sem hefur vakið hvað mesta úlfúð í samfélaginu. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að hárrétt ákvörðun hafi verið tekin á sínum tíma af forustumönnum Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks, sem við sjálfstæðismenn höfum síðan stutt, að heimila framsal. Einn ágætur þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði eitt sinn á fundi sem ég heyrði til að kvótakerfi án framsals væru jafngáfulegt og flugvél án vængja. Auðvitað verður framsalið að eiga sér stað, en það hefur aftur á móti kallað á miklar umræður og ekki verið nein sérstök sátt um það í samfélaginu. Þar ræður nokkru hvernig menn hafa valið að ræða um þetta. Ég tel þetta eðlileg viðskipti og að þau séu grundvöllur þess að hægt sé að ná fram hagkvæmni í sjávarútvegi, sem ég tel skyldu greinarinnar við þjóðina, sem er eigandi fiskstofnanna, svo lengi og svo langt sem þjóðareignarhugtakið nær svo ég hafi nú aftur þann fyrirvara. Sú skylda á að hvíla á greininni að skila sem mestum verðmætum út úr nýtingunni á sóknunum og það er best gert með því að hafa möguleika á framsali. Þar höfðu forustumenn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks alveg rétt fyrir sér, enda höfum við stutt þá niðurstöðu. Það er engin ástæða fyrir hv. þm. Róbert Marshall að hlaupa frá henni, það var bara ágætisniðurstaða.

Eins og ég sagði áðan höfum við rætt þetta mál lengi á Íslandi, og mjög ítarlega í þessum þingsal. Það sem er sérstakt núna og gerir það að verkum að við teljum okkur ekki annað fært en að flytja þetta þingmál er sú staðreynd að ákvörðunin sem liggur fyrir, þessi yfirlýsing sem liggur fyrir í stefnuyfirlýsingunni, er farin að valda miklum skaða. Þess vegna flytjum við þetta mál og vonumst til þess að í umfjöllun hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar muni menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að hleypa málinu áfram, setjast ekki á það, hleypa því aftur til umræðu og ákvörðunar þannig að við látum reyna á þingviljann í þessu máli. Þetta er svo mikilvægt mál að það er sjálfsagt að gera það.

Hitt er líka að ég tel fara miklu betur á því að við komum heils hugar að því nefndarstarfi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði upp með í bréfi sínu þann 3. júní sl. þar sem einmitt var lagt upp með að við mundum saman og í sameiningu ræða okkur að niðurstöðu um þá endurskoðun sem við viljum gera á sjávarútvegsmálum okkar Íslendinga og fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég er í hópi þeirra, eins og margir hér inni, sem telja að það þurfi að endurskoða ýmislegt og ég hef áður bent á t.d. samspil ráðgjafarinnar um heildarafla annars vegar og hins vegar aflamarkskerfisins. Þar þarf margt að skoða. Það er ýmislegt sem þarf að skoða varðandi stöðu veikari byggða þegar kemur að því að kvóti er seldur í burtu o.s.frv. Allt þetta á að ræða og þess vegna ræða slíka leið sem hér er farið upp með. En til að það geti orðið með einhverjum vitrænum hætti er eðlilegt að ríkisstjórnin dragi þetta til baka, vísi þessu máli bara eins og öðrum til þeirrar nefndar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur stofnað, menn ræði sig þar saman að niðurstöðu og ef niðurstaða nefndarinnar er að það sé eðlilegt og menn nái sátt um einhvers konar afskriftaleið, gott og vel, þá ræðum við það. En að ætla nefndinni bara það eitt hlutverk þegar kemur að afskriftaleiðinni sem hér hefur verið lögð til að hún eigi bara að útfæra einhverja aðferð til að framkvæma þetta tel ég ekki skynsamlega málsmeðferð, frú forseti.

Enn á ný þakka ég fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég tel að hún hafi um mjög margt verið málefnaleg og upplýsandi og þó að við höfum verið að ræða málið með þessum hætti, þ.e. þetta form, þessa þingsályktunartillögu, hafa komið í ljós skoðanir ýmissa hv. þingmanna á málinu. Það er ágætt og er vel, og gott veganesti inn í frekari umræðu á okkar vettvangi. En enn og aftur skora ég á hv. þingmenn sem sitja í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að veita þessu máli brautargengi þannig það megi koma aftur í þingsalinn og að við getum þá leitt fram í raun og sanni hvort það sé þingmeirihluti fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til sjútv.- og landbn.