138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
störf þingsins.

[13:32]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til að á fundi fjárlaganefndar í gærkvöldi tók meiri hluti fjárlaganefndar út álit sitt um svokallað Icesave-mál í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Á þessum fundi óskaði ég eftir því að nefndin settist aðeins á rökstóla um þau efni sem við höfðum óskað eftir að kæmu til nefndarinnar til umræðu og unnin voru að beiðni hennar. Þar vísa ég til þeirra álita sem við óskuðum eftir frá efnahags- og skattanefnd. Þannig háttar þar til að fjögur mismunandi álit koma úr þeirri nefnd, ekkert samhljóða þannig að það er engin meirihlutaniðurstaða í efnahags- og skattanefnd varðandi þetta mál. Og þó ekki væri nema fyrir það eitt, hefði það gefið fullt tilefni fyrir fjárlaganefnd sem óskaði — ég ítreka — óskaði eftir þessu áliti að setjast aðeins á rökstóla um innihaldið í þeim álitum sem óskað var eftir. Það var því miður ekki gert.

Enn fremur óskaði ég eftir því í ljósi síðustu ummæla í fjölmiðlum, sem höfð voru eftir fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hún yrði kölluð fyrir nefndina til þess m.a. að ræða þau ummæli sem höfð hafa verið eftir henni opinberlega í fjölmiðlum, að Íslendingar hefðu gengið til samninganna eins og sakamenn. Það er ekki af neinni illmennsku sem þessi beiðni er sett fram, langt því frá, heldur þvert á móti af þeirri einföldu ástæðu að grundvallaratriðið varðandi samningsgerðina eru hin svonefndu Brussel-viðmið, hin umsömdu viðmið sem svo háttar til að fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, mælti fyrir þingsályktun um. Hún var samþykkt á Alþingi 5. desember sl. og er grundvallaratriði í þessu máli þar sem ætlast er til að tekin séu mið af hinum fordæmalausu (Forseti hringir.) aðstæðum sem Íslendingar eru lentir í. Þess vegna óska ég eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, gefi þinginu skýringar sínar á því að þessar óskir voru ekki virtar.



[13:34]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er spurt hvers vegna Icesave-málið hafi verið tekið úr fjárlaganefnd í gær og að ekki hafi verið orðið við óskum um frekari umræðu. Ég gerði grein fyrir ástæðunni í fjárlaganefnd í gær. Ég taldi að málið væri fullreifað og þær beiðnir sem komu fram mundu ekki bæta neinu við það. Við ræddum mjög ítarlega þessi Brussel-viðmið í sumar, hvernig þeim væri fyrir komið. Við gerum grein fyrir því í nefndaráliti sem væntanlega kemur fyrir þingið í dag frá meiri hluta nefndarinnar að þeim sé með ákveðnum hætti komið fyrir í nýja frumvarpinu og þeim samningum sem þar voru gerðir. Var vitað að afstaða langflestra nefndarmanna í fjárlaganefnd, allra flokkanna, a.m.k. fulltrúa þeirra, lá fyrir. Þeir höfðu tjáð sig um afstöðu sína gagnvart frumvarpinu. Áður en við ræddum málið eða komumst að niðurstöðu taldi ég að það þjónaði ekki tilgangi fyrir málið né vinnuna í fjárlaganefnd að lengja þann tíma sem málið væri í umræðu þar.

Við vorum búin að fá fjóra mjög langa og mikla fundi þar sem við kölluðum til þá aðila sem við töldum að þyrftu að koma að málinu og skoða hvernig búið væri um þær breytingar sem orðið hafa frá því að lögin voru samþykkt við lok sumars og var farið yfir það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu og rætt við þá sem staðið höfðu í samningagerðinni. Það var rætt við slitastjórnir og skilanefndir og við lögfræðinga sem gert höfðu athugasemdir við málið og að fengnum öllum þessum upplýsingum taldi ég að málið væri þannig búið að hægt væri að taka afstöðu til þess. Meginniðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar var að um málið væri jafnvel eða betur búið en var við afgreiðsluna í lok sumars. Þess vegna var lagt til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.



[13:36]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Rétt í þessu var dreift nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar varðandi Icesave-málið. Í nefndaráliti meiri hlutans fylgja með sem fylgiskjöl fjögur nefndarálit úr efnahags- og skattanefnd þar sem farið er mjög ítarlega yfir þessa þætti og eru mjög mikilvæg gögn í þessu máli. Því miður var ákveðið í fjárlaganefnd að fara ekki neitt efnislega yfir álit efnahags- og skattanefndar þrátt fyrir að þar sé að finna mjög gagnlegar ábendingar og upplýsingar sem nauðsynlegt hefði verið að fjalla um. Með öðrum orðum, það er alveg ljóst mál að með þessum hætti var eingöngu verið að setja á svið einhvers konar leikrit þar sem hlutverk efnahags- og skattanefndar var ekki neitt annað en að skrifa stíla en ætlunin frá upphafi var greinilega sú að hafa ekki nokkurn með.

Því vil ég spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, sem situr í efnahags- og skattanefnd og skrifar ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur undir álit 2. minni hluta, hvaða skoðun hann hafi á þessum einkennilega málatilbúnaði af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar. Það er greinilegt að hér hefur verið sett upp einhvers konar skrautsýning eins og við sjáum stundum í skólaleikritum þar sem nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd höfðu eitt hlutverk og það var að vera statistar til að fylla upp í eyður á leiksviðinu. Það er augljóst mál að hlutverk efnahags- og skattanefndar var ekki annað og þetta er illa dulbúið leikrit til þess eins að reyna að dylja að þessu máli var einfaldlega ekki lokið í vinnslu fjárlaganefndar. Nefndin hirti ekkert um þær ábendingar sem komu fram, hvorki hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) né hjá öðrum í efnahags- og skattanefnd.



[13:39]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem greinir Icesave-málið frá öðrum málum sem komið hafa fyrir þingið. Í fyrsta lagi er það mjög stórt í sniðum og mikilvægt af þeim sökum að það fái vandaða og ítarlega meðferð. Í öðru lagi er það frábrugðið ýmsum öðrum málum að það hefur fengið ítarlega meðferð, ekki bara innan veggja Alþingis heldur í þjóðfélaginu almennt þannig að þingheimi eru málavextir vel kunnir. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerir nokkuð úr því að komið hafi fleiri en eitt álit frá meiri hluta í efnahags- og skattanefnd. Mér finnst það ekkert ámælisvert nema síður sé en ég skil afstöðu hv. þingmanns. Hann er í flokki sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Þar á bæ hafa menn haft þann hátt á að leggja allan þingflokkinn undir pólitískt straujárn, heitt, og strauja þangað til út kemur ein skoðun. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið vinnulagið hjá Sjálfstæðisflokknum á undangengnum tveimur áratugum (Gripið fram í.) og þekki ég mjög vel til þessara vinnubragða eftir að hafa verið hálfan annan áratug á þingi. Mér kemur því ekkert á óvart (Gripið fram í: Jæja?) að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni skuli líka það illa (Gripið fram í.) og finnast það undarleg vinnubrögð þegar leyfðar eru mismunandi skoðanir og mismunandi áherslur í stjórnarmeirihlutanum. (Gripið fram í.) Það er ekki bara leyft heldur leyfum við okkur að hafa uppi mismunandi áherslur ef okkur þykir ástæða til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:41]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verja Sjálfstæðisflokkinn og vinnubrögð hans í gegnum tíðina. En ef Vinstri grænir ætla sér að taka upp sömu vinnubrögð og hér var lýst af síðasta ræðumanni er Alþingi Íslendinga í vanda statt vegna þess að það dylst engum að sá minni hluti sem var gegn Icesave-frumvarpinu hjá Vinstri grænum hefur nú verið svínbeygður til að samþykkja málið, því miður.

Hv. formaður fjárlaganefndar kom upp áðan og sagði að málið hefði verið fullreifað. Ég velti fyrir mér eins og aðrir hafa gert hér: Af hverju báðum við um álit frá efnahags- og skattanefnd ef ekki stóð til að fara yfir það álit í fjárlaganefnd og kanna hvað menn hefðu þar að segja? Það var ekkert meirihlutaálit úr efnahags- og skattanefnd heldur fjögur minnihlutaálit. Maður veltir líka fyrir sér af hverju málið var ekki fullrætt í fjárlaganefnd í gær. Ég kallaði eftir afstöðu einstakra þingmanna og þá sögðu menn að málið hefði verið rætt í sumar. Það höfðu hvorki meira né minna en tveir þingmenn komið að málinu, þar á meðal núverandi varaformaður fjárlaganefndar sem sendi þau skilaboð utan af sjó snemma sumars að við ættum að hætta þessu karpi og samþykkja Icesave-samninginn eins og hann var. Þá voru hvorki meira né minna en auðlindir að veði og margt annað. Ég óska eftir því að hv. þm. Björn Valur Gíslason komi upp í ræðustól og lýsi afstöðu sinni (Forseti hringir.) vegna þess að hún kom ekki fram í gær.



[13:43]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég sagði það fyrr í sumar að þingmenn ættu að taka á sig smárögg og klára þetta mál, afgreiða það þegar á því var færi á sínum tíma. Við værum kannski betur á vegi stödd á mörgum öðrum sviðum ef við hefðum gert það og ég er enn þeirrar skoðunar. (VigH: Ertu úti á sjó?) Ég er enn þeirrar skoðunar. Þú mátt vera úti á sjó, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ef þú vilt það, það er ágætt að vera úti á sjó. (Gripið fram í.) En hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði að ég hefði ekki tjáð mig um hvers vegna málið var tekið út á fundi fjárlaganefndar í gær — þá hefur hann annaðhvort sofið á þeim fundi eða farið á sinn venjubundna miðilsfund sem hann hefur oft lýst yfir að hafi farið fram á fundum fjárlaganefndar. Ég tjáði mig víst um það, um það geta allir nefndarmenn í fjárlaganefnd vitnað að undanskildum hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni.

Ég tel að þetta mál sé fullrætt. Það er búið að ræða þetta mál núna í bráðum hálft ár í þessum sal, í nefndum Alþingis, í fjárlaganefnd, í efnahags- og skattanefnd, í utanríkismálanefnd, það er búið að ræða þetta á tugum funda ef ekki hundruðum. Það er búið að kalla inn á fundi tugi einstaklinga, fulltrúa félagasamtaka, fulltrúa stofnana og alla þá sem hafa haft áhuga á að ræða þetta mál, þeir hafa fengið aðgang í nefndir og rætt þetta og tjáð sig. Málið er fullrætt að mínu viti. Það er engu við þetta að bæta og við þingmenn eigum sömuleiðis að sýna smádug, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, og afgreiða þetta mál, klára það eins og það er í dag. Við förum ekki lengra með það, það er vel ásættanlegt eins og það er. (Gripið fram í: Já, er það?) Það uppfyllir þær kröfur sem Alþingi setti í sumar (Gripið fram í.) og við eigum að klára það núna.



[13:45]
Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að ræða stór orð stjórnarandstöðu sem hefur engu gleymt og ekkert lært, og taka undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar í ræðu sem hann flutti áðan.

Hugmyndafræðin var sú að virkja framtak einstaklingsins og draga úr afskiptum hins opinbera af atvinnulífinu, losa um hömlur, opna aðgengi að takmarkalausu lánsfé á milli landa. Ef fáeinir einstaklingar yrðu forríkir mundu allir njóta góðs af því.

Sjálfstæðisflokkurinn komst að þeirri niðurstöðu í byrjun þessa árs að þessi hugmyndafræði hefði ekki klikkað, bara fólkið sem átti að framkvæma hana. Er það svo? Er það staðreyndin? Er ekki allur Icesave-vandinn sprottinn upp úr þessari sömu hugmyndafræði? (Gripið fram í.) Þegar illa fór hjá hömlulausum einkaaðilum, Landsbankanum með sitt Icesave-ævintýri, (Gripið fram í.) lenti skellurinn af fullum þunga á ríkinu, á almenningi í landinu sem þurfti að greiða brauðmolana dýru verði þegar upp var staðið. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson getur örugglega kveðið sér hljóðs hér undir Störfum þingsins eins og aðrir þingmenn, ég bið hann um að bíða með frammíköll meðan ég er að tala. (Gripið fram í.)

Hvar er uppgjör Sjálfstæðisflokksins við íslenska efnahagsundrið (Gripið fram í.) sem þeir stærðu sig svo af vel og lengi, hvar er uppgjör Sjálfstæðisflokksins við það? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að fara í gegnum það uppgjör? Ætlar Framsóknarflokkurinn að gera það? (Gripið fram í: Ætlar Samfylkingin …?) Hér er hópur fólks á Alþingi Íslendinga sem bölvar öllum góðum fréttum. (Gripið fram í.) Þegar samdrátturinn verður minni en ætlað var, þegar atvinnuleysið er minna en ætlað var, þegar bjartari horfur eru fram undan líður þessu fólki illa. (JónG: Í hvaða veröld ert þú …?)



[13:47]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það hefur töluvert verið rætt um þessi mál og við höfum heyrt margar ræður eins og hv. þm. Róbert Marshall flutti hér áðan. En þær snerta ekki með nokkrum hætti efnisinnihald þessa máls. Frumvarpið sem við erum að vísa til hér felur í sér breytingar á fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í sumar. Það sem er viðfangsefni okkar nú er að greina hvort fyrirvararnir eru enn til staðar eða hvort þeir eru ekki enn til staðar. Mér sýnist við snöggan yfirlestur á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að þar sé skautað yfir þessi atriði meira og minna. Það er vísað til almennra yfirlýsinga fjármálaráðherra sem ekkert lagagildi hafa. Lagalegir, skýrir fyrirvarar hafa verið felldir út eða sallaðir niður, brytjaðir niður, og í staðinn eru komnar almennar, loðnar, pólitískar yfirlýsingar.

Það er það sem við eigum að vera að ræða hérna vegna þess að málið snýst um hvernig hagsmuna Íslands í þessu máli er gætt núna. Það er það sem málið snýst um. Við verðum þess vegna að reyna að átta okkur á því, bara í þessari umræðu hér í dag, hvort fjárlaganefnd hafi tekist á við það verkefni sitt að greina hvað stendur eftir af þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti hér í sumar. Mér sýnist umfjöllunin í meirihlutaáliti fjárlaganefndar vera hálfköruð, svo maður líti þetta samt sem áður nokkuð jákvæðum augum, hún er mjög ófullburða. Það er auðvitað það sem verður rætt við 2. umr., hvernig farið hefur verið með þessa fyrirvara sem nú hafa ýmist verið felldir brott eða þynntir út þannig að ekkert hald er í þeim. Það er það sem við þurfum að tala um. Það er kjarni málsins á þessari stundu, (Forseti hringir.) hvað sem líður deilum okkar í fortíðinni.



[13:49]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að skipta um gír í þessari umræðu og taka hana úr þessu pólitíska karpi. Mig langar að ræða hér störf þingsins út frá skipulagi verkefna þingsins og því sem kom fram hér fyrr í vikunni, m.a. hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og fleirum, mál sem rætt var á fundi forsætisnefndar í gær og á fundi formanna þingflokkanna. Ég hef rætt það áður og fengið hnjóðsyrði um að ég ætti kannski ekki að vera í svona mörgum nefndum eða að ég kvarti undan of miklu vinnuálagi.

Málið er ekki það. Málið er að mér finnst það dæmi um ekki nógu góð vinnubrögð að það skuli ekki vera hægt að skipuleggja störf þingsins nema með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Dagskrá morgundagsins er kannski til um kvöldmatarleytið daginn áður og það getur af sér gríðarlegt óhagræði. Og þegar ég nefndi þetta við fólk var eitt svarið, sem ég fékk í gær, að þetta hafi nú alltaf verið svona á þessum vinnustað. Mörg svörin hafa verið í anda hallærislegrar karlrembu þegar ég hef nefnt þetta, talað er um húsmæðranefndina, nefndina sem forseti þingsins kallaði saman til þess að kanna hvernig væri hægt að gera þingstörfin skaplegri fyrir heimilislíf fólks.

Ég vil beina því til hæstv. forseta og formanna þingflokkanna að taka drögin að dagskrá vikunnar og setja dagskrá hvers dags inn í hana í upphafi vikunnar. Það getur ekki verið svo erfitt en ef það er það væri kannski ágætt að óska einfaldlega eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð við þetta (Gripið fram í.) — já, frá útlöndum þess vegna. Það skiptir mjög miklu máli fyrir barnafólk, sérstaklega fyrir einstæða foreldra, að vita það með nokkurra daga fyrirvara að hvað fram undan er til þess að hægt sé að skipuleggja vinnuna fram í tímann. Það er í rauninni algjörlega sjálfsagt mál og það er alveg fáránlegt (Forseti hringir.) að menn skuli vera með stæla út af því hér í þingsal.



[13:52]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða þetta Icesave-mál og hvernig á því hefur verið haldið hér í þinginu.

Í fyrsta lagi vil ég koma því að hér að ég sakna þess að ekki sé efnisleg umræða um þetta frumvarp, m.a. frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, um það sem er verið að setja þjóðina út í með þessu frumvarpi og með vilja ríkisstjórnarinnar, sem er komin í einhverja blindgötu sem hún kemst ekki aftur út úr. Það er mjög sérkennilegt að horfa upp á þetta. Það á að keyra þetta í gegn hvað sem það kostar, þannig blasir það við okkur þingmönnum og við þjóðinni.

Svo virðist það gleymast algjörlega, eins og þegar hv. þm. Róbert Marshall heldur innblásnar ræður hér, að stærsti hluti þessa máls og Icesave-samningarnir urðu nú til á vakt Samfylkingarinnar í viðskiptaráðuneytinu og Fjármálaeftirlitsins. Hér stendur svo samfylkingarfólk alltaf eins og það sé hvítþvegið af þessu öllu saman. En það var á þeirra vakt sem Icesave-samningarnir urðu til (Gripið fram í.) og þeir geta ekki staðið hér og reynt að koma sér undan ábyrgð, það er einfaldlega þannig.

Það er mjög athyglisvert að lesa hér álit sem fylgir áliti meiri hlutans, þ.e. álit 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi frú forseta, að vitna hérna aðeins í textann:

„Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Þetta segja hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir og þarna liggur hundurinn grafinn. Evrópusambandið er, með hjálp þessara þjóða, að reyna að þvinga ríkisstjórnina til að samþykkja og ná í gegnum þingið skuldbindingum sem okkur ber ekki að taka á okkur. Okkur ber ekki að greiða þetta. Það er mun betra, segi ég, að taka sénsinn og láta þá fara með okkur fyrir dómstóla því að samkvæmt þeim samningum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætla að samþykkja hér munum við borga (Forseti hringir.) þetta að fullu, hverja einustu krónu. Er þá ekki betra að láta dæma okkur til þess?



[13:54]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru menn eðlilega að ræða af hverju þessi vinnubrögð eru viðhöfð í tengslum við þetta Icesave-mál. Allir sem hafa skoðað þetta mál komast að þeirri niðurstöðu að búið er að henda út fyrirvörunum sem samdir voru hér í sumar, meira og minna. Hér kemur stjórnarmeirihlutinn og talar eins og það sé bara eitthvert nagg í mönnum að vilja fara yfir þetta stóra hagsmunamál.

Það er að vísu líka búið að upplýsa það hér að hv. þm. Ögmundur Jónasson er búinn að lofa að vera þægur og stilltur og það verður fróðlegt að vita hvað hann fær í staðinn.

Út af orðum hv. þm. Róberts Marshalls held ég að það sé skylda okkar þingmanna að fara fram á opinbera rannsókn og það sem allra fyrst. Rannsóknarefnið er eðlilega: Hverjir voru með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn 2007–2009. Það verður að kanna þetta. (Gripið fram í.) Það er alveg útilokað að hafa þetta svona áfram (Gripið fram í.) og það verður hreinlega að krefjast svara. Ég var í þessari ríkisstjórn og ég stóð í þeirri meiningu að Samfylkingin hefði verið þarna. Virðulegi forseti. Ég sá fullt af fólki sem er núna í ráðherrastólum, það var á fundum með okkur reglulega. Þetta fólk kannast hins vegar bara ekkert við þessa dvöl og það verður að rannsaka þetta (Gripið fram í.) og komast að einhverri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Þetta fólk sem var þarna varaði aldrei við neinni kreppu eða hruni, aldrei nokkurn tíma. Reyndar var það þannig að þetta fólk, ásamt fullt af fólki sem er hér í salnum, oft með samfylkingarmerki, gekk um fyrir kosningar og sagði: Góðærið er EES-samningnum að þakka. En núna erum við reyndar að vinna í Icesave-málinu út af þeim ágæta samningi. (Gripið fram í: Rétt.)



[13:56]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni fátt sem kemur á óvart við þessa umræðu hér, hún fer í hefðbundin hjólför öfugt við það sem við þingmenn lögðum okkur fram um að gera í allt sumar, að reyna að lágmarka þann skaða sem íslensk þjóð yrði fyrir, sem í stefndi af því frumvarpi sem lagt var fram hér á hinu háa Alþingi 5. júní sl. Ég tel að sú orðræða sem hér hefur farið fram muni ekki gagnast okkur neitt sérstaklega vel við að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð af því frumvarpi sem nú liggur fyrir til afgreiðslu. Þess vegna urðu mér það gríðarleg vonbrigði þegar málið var tekið út með því offorsi sem um getur og var rætt hér í gær. Ég taldi og treysti, einfaldlega vegna þess að við höfðum gefið okkur tíma til að fá umsagnir til að fara í gegnum þetta, að við mundum rýna þær breytingar sem gerðar höfðu verið á þeim lögum sem Alþingi setti í ágúst sl. Það færi betur á því að við héldum umræðunni á þeim nótum.

Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna það hér, af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði þá kenningu uppi að ásjóna sjálfstæðismanna væri öðrum fremur mjög slétt og felld af því einfalda verklagi sem hann sagði að væri tíðkað í þeim flokki, að menn væru straujaðir þar með heitu straujárni, held ég að ég hafi tekið rétt eftir. Sumir eru að vísu skorpnari en aðrir, það kann vel að vera, en menn upplifa það með ýmsum hætti. Ég skal alveg viðurkenna að í tveimur stærstu málum sem íslensk þjóð hefur þurft að horfast í augu við núna undanfarið, í ESB-málinu og síðan í Icesave-málinu, minnir framganga þingflokks Vinstri grænna miklu fremur á textann um fatlafólið þar sem það ók loks í veg fyrir valtara og varð að klessu, ojbara.

Ég sé ekki betur en að í þessum tveimur meginmálum hafi VG algjörlega látið valta yfir sig af þingflokki Samfylkingarinnar.



[13:58]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef setið í hv. efnahags- og skattanefnd og ég tek það starf alvarlega. Okkur var falið af hv. fjárlaganefnd að fjalla um efnahagslegar afleiðingar þessa nýja samkomulags um Icesave. Það er ekki rétt að málið hafi verið rætt í hörgul. Það eru komnir nýir fletir á málinu, nú skal greiða vexti hvernig sem árar og lánið gæti hugsanlega orðið endalaust, 50–100 ára lán með hugsanlega mjög háum raunvöxtum sem þjóðin þarf að greiða — hugsanlega.

Svo sat maður alla síðustu helgi undir gífurlegri pressu að reyna að átta sig á þessu: Hvað þýðir það að búið er að frysta kröfurnar niður í krónutölu? Hvað þýðir það að komin er heilmikil gengisáhætta inn í dæmið? Hvernig á að bregðast við því þegar búið er að lengja lánið hugsanlega endalaust? Þetta gerði ég um síðustu helgi og vann mikið og stíft í þessu og skilaði nefndaráliti undir mikilli tímapressu sem átti að fara til fjárlaganefndar. Svo upplifði ég það, frú forseti, í gær að málið var tekið út átta tímum eftir að nefndaráliti var dreift á fundinum á meðan umræður voru á Alþingi þar sem þingmenn voru uppteknir við umræður. Þvílík vanvirðing, frú forseti, á starfi efnahags- og skattanefndar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:00]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið notuð ýmis orð um að við skyldum taka Icesave-málið úr fjárlaganefnd í gær, allt frá því að kalla það sýndarmennsku og leikrit, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði, yfir í að kalla það vanvirðingu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kallaði. Við fengum álit frá efnahags- og skattanefnd í hádeginu í gær, fjögur ólík álit. Að sjálfsögðu hef ég lesið þau og það sem fylgir álitinu sem kemur fram frá meiri hluta fjárlaganefndar er að öll þessi álit eru lögð fram með málinu inn í 2. umr. og þau eru þar með komin á borð allra þingmanna til umfjöllunar í 2. umr. þar sem þingheimur, hver og einn þingmaður, tekur afstöðu. Við lásum að sjálfsögðu þetta álit og komumst að þeirri niðurstöðu að það kallar ekki fram neinar breytingar hjá þeim meiri hluta sem tók afstöðu. Það var ekkert í þessu nefndaráliti sem breytti þeirri skoðun minni eða þeirra sem þar tóku afstöðu og það verða menn að meta. Í þessu felst ekki lítilsvirðing, ég gaf mér tíma til að lesa þetta þótt ekki hafi liðið nema átta tímar frá því að álitinu var dreift í fjárlaganefnd þar til málið var tekið úr nefnd.

Það var eiginlega búið að fjalla um öll þau atriði sem þarna voru vegna þess að við vorum með fulltrúa frá Seðlabankanum hjá fjárlaganefnd til að skýra þau út fyrir okkur. Þau sjónarmið sem þarna komu fram hafa mörg hver komið fram í ræðustóli vegna þess að einhverra hluta vegna ræða menn í störfum þingsins Icesave-mál sem verið er að leggja inn og á að fara í 2. umr. einhvern tíma seinna í vikunni eða í byrjun næstu viku. Þar á málefnaleg umræða að fara fram, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti réttilega á. Ég held að menn eigi líka að hætta því sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, að halda að maður geti notað einhvern töfrahatt hvað þetta varðar, að trúa því að með því að ýta málinu frá sér hverfi það. Það er því miður ekki þannig. Við höfum margoft tekið þá umræðu. Það er engin patentlausn á þessu Icesave-máli. Það er hægt að vísa því frá en menn tala alltaf eins og þetta sé mál sem hverfur við að ýta því í burtu og það eru býsna margir þingmenn sem hafa reynt að nota þessar barbabrellur í umræðunni. (Forseti hringir.) Við ætlum að axla þessa ábyrgð og við munum alveg í hvaða ríkisstjórn við vorum þó að sumir geri það ekki.