138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
um fundarstjórn.

skipulag þingstarfa.

[14:03]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit að það eru mjög margir þingmenn hérna inni sem hefðu viljað tjá sig við þessa umræðu. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort hún muni ekki beita sér fyrir því að þessi liður verði lengdur, sérstaklega þegar um jafnstór og mikilvæg mál er að ræða og Icesave-frumvarpið.

Ég nefndi það að á fjárlaganefndarfundi í gær hefði á engan hátt verið fjallað efnislega um frumvarpið. Það er rétt að hv. varaformaður Björn Valur Gíslason opnaði munninn til þess eins að segja okkur að málið hefði verið rætt. En efnislega var málið ekki rætt þótt ég kallaði eftir því. Ef eina leiðin (Forseti hringir.) til að fá efnislega umræðu í Alþingi er undir þessum lið, verðum við að lengja hann, frú forseti.



[14:04]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hér er farið að þingsköpum þannig að ef menn vilja breyta þessu þarf að breyta þingskapalögum og er hægt að huga að því þegar þessi þingskapalög verða endurskoðuð.



[14:04]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvaða áform hún hafi varðandi fyrirtöku Icesave-frumvarpsins í þinginu. Ég las áðan á einhverjum vefmiðli að hæstv. fjármálaráðherra væri þeirrar skoðunar að málið ætti að koma fyrir þingið á fimmtudag. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. forseta er kunnugt um þessa ósk hæstv. fjármálaráðherra og hvort ætlunin sé að verða við henni.



[14:05]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í síðustu viku spurði hv. þm. Guðmundur Steingrímsson að því hvort ekki væri hægt að leggja fram dagskrá þingsins með einhverjum ákveðnum fyrirvara. Hv. þm. Þór Saari tók undir það núna undir liðnum um störf þingsins. Ég mundi gjarnan vilja fá svör frá hæstv. forseta um hvort þetta sé í bígerð því að dagskrá þingsins fyrir þessa viku var sett inn á vefinn en hún er mjög óljós og tilgreinir raunar ekki hvaða mál liggja fyrir. Ég vil benda á að önnur þjóðþing, þar á meðal sænska og norska þingið, leggja fram dagskrár inn á vef sinn jafnvel margar vikur fram í tímann, að vísu með ákveðnum fyrirvara um breytingar. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og það er hluti af fundarstjórn forseta, að við þingmenn getum fengið tækifæri og ráðrúm til að undirbúa okkur í (Forseti hringir.) stórum og litlum málum þannig að við getum að lágmarki lesið í gegnum þau skjöl sem fylgja.



[14:06]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls að það sé nauðsynlegt að hafa þingsköp Alþingis í stöðugri endurskoðun og að hægt sé að setja niður dagskrá með þeim hætti að fólk geti skipulagt vinnutíma sinn jafnvel nokkra daga fram í tímann, það þykir ekki mikið. En það þýðir auðvitað að allir þingmenn verða að gera sér grein fyrir því að þá þarf að takmarka ræðutímann, þá þarf að ákveða hversu lengi umfjöllun um hvert mál á að standa og hverjir eru talsmenn o.s.frv. Það er gert í öðrum þjóðþingum. Ég tel það til fyrirmyndar og ég tel að við eigum að vinna þannig en það þýðir auðvitað ekki að taka þessa umræðu og lenda svo enn og aftur í ósamkomulagi á milli þingflokka um hvort takmarka megi ræðutíma fólks eða ekki, það hefur verið reynt nokkrum sinnum. Það er ekki hægt að skipuleggja tíma ef menn hafa ótakmarkaðan ræðutíma, það segir sig sjálft, og því er hægt að tala dögum saman. Ef við viljum betra skipulag verðum við líka að skilja hvað það þýðir.



[14:08]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Út af orðum hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur var tekin ákvörðun fyrir tveimur árum um að takmarka ræðutíma í þinginu verulega. Það liggja fyrir verulegar takmarkanir á ræðutíma þannig að sú staða er ekki uppi sem var áður að hægt væri að teygja ræðuhöld út í hið óendanlega. Það eru miklu skýrari reglur um þetta og hver þingmaður má ekki tala nema í takmarkaðan tíma samkvæmt þingsköpum.

Ég held þó að ekkert ætti að standa því í vegi að forseti gefi út áætlun um vikuna og auðvitað geta menn gert breytingar á áætlun. En núna upp úr hádegi á þriðjudegi held ég að það væri ekki til of mikils mælst að forseti gæfi upp áætlun sína um hvernig dagskráin á að vera ekki á morgun heldur hinn.



[14:09]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar sem er raunar andsvar við ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um þetta. Fyrir tveimur árum var ræðutími takmarkaður umtalsvert. Ég get ekki séð að þó að við reynum að gæta meira vinnubragða í þinginu að það sé samasemmerki milli þess og að takmarka enn þá meira málfrelsi þingmanna og þá sérstaklega stjórnarandstæðinga.

Það ætti að liggja fyrir nokkuð inn í upphaf þings hvaða þingmál það eru sem ráðherrar setja í forgang og að skjölum um það sé þá dreift. Það ætti alla vega að vera hægt að skipuleggja vikustarfið út frá því hvaða mál það eru sem ráðuneyti vilja setja í forgang. Við, almennir þingmenn, gerum okkur grein fyrir því að við fáum yfirleitt þann tíma sem eftir er til að reyna að tala fyrir okkar málum og ég held að það hljóti að vera hægt að skipuleggja vinnubrögðin betur en hér er gert núna.



[14:10]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er brýnt að ræða þessi mál vegna þess að þau brenna greinilega á mörgum þingmönnum, skiljanlega. Ég vil vekja athygli á því að undanfarnar vikur höfum við ekki rætt neitt sérstaklega óvenjulega hluti. Það hafa ekki komið neinar sérstakar sprengjur inn í þingið sem hafa sett allt upp í loft þannig að það hefði átt að vera hægt undir þessum kringumstæðum að sýna eðlilega starfsemi þingsins í verki og hafa þá dagskrána skipulagða fyrir vikuna vegna þess mér sýnist þetta allt vera meira og minna mál sem hafa boðið upp á það. En afleiðingarnar af því að vita ekki hvað er á dagskrá t.d. daginn eftir eru þær að maður er ekki undirbúinn sem þingmaður. Ég tók t.d. ekki þátt í umræðum í síðustu viku um a.m.k. þrjú mál sem ég hefði undir venjulegum kringumstæðum viljað taka þátt í, einfaldlega vegna þess að ég vissi ekki daginn áður að þau væru á dagskrá og ég vil síður fara upp í pontu til að babla einhverja vitleysu.



[14:11]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég sé að forseta þingsins er nokkur vandi á höndum. Annars vegar er beðið um að framlengja ræðutíma um störf þingsins og hins vegar var sú umræða sem ég hlustaði á í salnum um störf þingsins ekki nema að litlum hluta um störf þingsins. Að mestum hluta gekk þessi umræða út á smáskítlegt pólitískt karp á lægsta plani (Gripið fram í: Heyr, heyr.) um hina einstöku stjórnmálaflokka og frammistöðu þeirra, hvort þingmenn frá þeim væru straujaðir undir eina skoðun eða teldu sér það til ágætis að hafa hver sína skoðunina í flokknum. Það var rætt um að setja þyrfti rannsóknarnefnd í þingið til að rannsaka hvaða flokkar hefðu verið í ríkisstjórn þegar hrunið varð. Mér vitanlega er rannsóknarnefnd að störfum (Forseti hringir.) að rannsaka aðdraganda hrunsins og vonandi kemst sú nefnd að niðurstöðu. En ég fyrir mitt leyti bið hv. kollega mína á þinginu að halda sig frá þessu smáskítlega þrasi og taka þar til í sínum hópi.



[14:13]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fljótlega í þessari umræðu var þess óskað að hæstv. forseti mundi svara því hvort ætlunin væri að taka Icesave-málið fyrir á næsta fimmtudegi, þ.e. ekki á morgun heldur hinn. Því hefur ekki enn þá verið svarað. Mér finnst hv. þingmenn ekki fara fram á mjög mikið eða mjög langt fram í tímann í skipulagi þingsins þegar farið er fram á að vita hvort þetta mikla mál komi til umfjöllunar ekki á morgun heldur hinn.

Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vakti athygli á greindi hæstv. fjármálaráðherra frá því að hann telji að það eigi að hefja þessa umræðu á fimmtudaginn. Það er ágætt fyrir okkur hina að vita hvort það sé ætlunin eða ekki.

Það er líka rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson hefur bent á að búið er að breyta þingsköpum til að gera skipulag þingsins auðveldara. Hér áður, fyrir þær breytingar, tókst mönnum að hafa eitthvert langtímaplan um störf þingsins.

Ég er síðan ósammála hv. þm. Þráni Bertelssyni um að við höfum verið að ræða eitthvert smáskiterí þegar við vorum að ræða (Forseti hringir.) um með hvaða hætti fjárlaganefnd starfaði og hvernig hún sniðgekk algerlega (Gripið fram í.) álit efnahags- og viðskiptanefndar. Það liggur fyrir að þeir (Forseti hringir.) sem skrifuðu undir það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eru sælir og ánægðir með þau vinnubrögð. (Gripið fram í.)



[14:14]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að hún mun svara þeim spurningum sem að henni hefur verið beint að lokinni umræðu um fundarstjórn forseta. Forseta hefur verið legið á hálsi fyrir að svara of fljótt og sömuleiðis að svara of seint þannig að hún vill heyra í öllum þingmönnum sem vilja gera athugasemdir við fundarstjórn og mun síðan svara spurningum sem hefur verið beint til forseta.



[14:15]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar núna á annarri mínútu sem ég hef til að fjalla um þetta mál að koma með smátillögu að lausn á þessu til að hugsa uppbyggilega. Það er talað um að erfitt sé að skipuleggja fram í tímann vegna þess að við vitum ekki hversu margir vilja taka til máls og hversu lengi menn vilja tala en þá mætti kannski hugsa sér að því yrði beitt mun oftar að fresta umræðum. Þegar eitthvað er komið á dagskrá liggur á að giska fyrir hve langur mælendalistinn er. Í þágu þess að við vitum hvað er að gerast í vikunni væri hægt að fresta umræðum í fleiri tilvikum þar til síðar. Það þarf ekkert endilega að hafa þær alltaf langt fram á kvöld og klára þær. Það er vel hægt að bíða og klára að ræða mál t.d. á fimmtudegi sem er hafið á þriðjudegi.

Þetta er bara tillaga að einhvers konar lausn á þessu máli.



[14:16]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti þakkar allar góðar ábendingar sem hafa borist um fundarstjórn og stjórn þingsins. Forseti vill geta þess að í upphafi þessa þingfundar var ekki ljóst hvort unnt yrði að hefja umræðu um Icesave á fimmtudaginn þar sem nefndarálit var ekki komið fram en nú hefur það verið upplýst úr forsetastóli að búið er að dreifa nefndaráliti meiri hlutans. Mun forseti leggja drög að því að Icesave-málið verði rætt á fimmtudaginn og hefur lagt áherslu á það við stjórnarandstöðuna að öll álit verði komin fram fyrir upphaf þeirrar umræðu. Á þessu sést hversu auðvelt er að skipuleggja umræður fram í tímann, það er háð ýmsum atriðum hvort hægt er að tilkynna umræðu um ákveðin mál. Það þarf að vera komið fram þingmál og málin þurfa sem sagt að vera komin fram.