138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
umræður utan dagskrár.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:18]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar búum svo vel að við erum með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og þrátt fyrir að við höfum, a.m.k. endrum og sinnum, tilhneigingu til þess að gera lítið úr þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í er þetta nokkuð sem liggur fyrir og hefur verið mælt hvað eftir annað af þeim stofnunum sem bera saman þjónustu á milli landa. Hafa í rauninni allir fundið fyrir því sem hafa þurft á þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins að halda og hafa samanburð við önnur lönd að þar er mikill mannauður og aðstaða sem nýtist okkur mjög vel.

Í þessu felast mikil sóknarfæri. Það er hins vegar ekki nýtt að við höfum notað þau, í gegnum tíðina höfum við oft og tíðum nýtt þessa þjónustu fyrir borgara annarra landa, en aldrei held ég að við höfum haft eins góða aðstöðu til að nýta þetta í sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga og einmitt nú. Við höfum alltaf þurft og átt að nýta þau sóknarfæri sem eru til staðar en núna erum við í þeirri stöðu út af efnahagsástandinu að við gætum misst margt af okkar besta fólki. Íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru mjög eftirsóttir og geta fengið störf hvar sem er í heiminum en þó sérstaklega í þeim löndum sem við berum okkur saman við, Norðurlöndunum.

Ímynd þjóðarinnar er þrátt fyrir allt mjög góð, sérstaklega á þessu sviði. Við erum með mannauðinn, aðstöðuna og ímyndina og þess vegna eigum við mikla möguleika á þessu sviði.

Hingað til lands koma 60 sjúklingar á mánuði í augnaðgerðir og um 10 sjúklingar á mánuði í lýtaaðgerðir. Þetta fer ekki hátt. Flestir þeirra eru frá Færeyjum, Grænlandi og Noregi. Það hefur verið mjög lítil markaðssetning hvað þessa hluti varðar, þetta hefur fyrst og fremst komið til af afspurn. Þær útflutningstekjur sem við höfum nú þegar af þessari þjónustu eru nokkur hundruð milljónir á ári og gætu mjög auðveldlega oltið á milljörðum ef rétt yrði á málum haldið. Þessar tekjur dreifast jafnt á heilbrigðisstarfsmenn sem heilbrigðisstofnanir og síðan aðila sem tengjast heilbrigðisþjónustu ekki neitt af því að í tengslum við þetta koma oft aðstandendur sem þurfa bæði að hafa ofan af fyrir sér og borða meðan á dvöl stendur.

Virðulegi forseti. Ég velti þessu hér upp og vek athygli á því vegna þess að það er mjög mikilvægt að við nýtum þessi tækifæri núna. Þegar ég var heilbrigðisráðherra — og þá vorum við þó ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna — gerði ég hvað ég gat til að ýta undir þetta til þess að við gætum nýtt þessi tækifæri. Meðal annars átti Ísland að vera í forustu fyrir Norðurlöndin á sviði heilbrigðismála á árinu 2009 og eitt af því sem ég lagði sérstaka áherslu á þar var sameiginlegt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndunum. Norðurlöndin hafa farið þá leið að gera eitt svæði í hverju landi fyrir sig og það var nokkuð róttækt því að þau lönd, sérstaklega þau stærstu, skiptast upp í mörg heilbrigðisumdæmi. Þau hafa hins vegar farið þá leið að vera með eitt sameiginlegt svæði. Það er mjög margt sem mælir með því að Norðurlöndin vinni þétt saman á þessum sviðum, bæði hvað varðar það að fólk geti farið á milli landa og milli svæða og líka til þess að ná niður kostnaði á t.d. lyfjum og öðru slíku.

Í þessari stuttu umræðu get ég ekki farið yfir þetta allt saman en spyr hins vegar hæstv. ráðherra hvort ráðherra, og fyrirrennari hennar, hafi fylgt eftir tillögum Íslands um eitt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndunum. Ef svo er, hvernig hefur það gengið? Hefur verið rætt við Færeyinga um frekara samstarf á sviði heilbrigðismála eins og innflutning sjúklinga frá Færeyjum með samstarfi á sviði lyfjamála? Það mál var komið mjög langt þegar ég fór úr heilbrigðisráðuneytinu. Þá voru m.a. forustumenn í færeyskum heilbrigðismálum í heimsókn, í janúar, og ég var reyndar á leiðinni til Færeyja þegar ríkisstjórnin fór frá völdum.

Að síðustu: Mun ráðherra reyna að bregða fæti fyrir innflutning sjúklinga til Íslands frá öðrum löndum eða reyna að koma í veg fyrir samstarf á vísindasviði á milli landa? Þrátt fyrir að ekki sé hægt að stoppa það, ráðherra þarf að breyta lögum til þess að svo megi verða, skiptir máli hvaða skoðanir ráðherra hefur á þessum málum af mörgum augljósum ástæðum (Forseti hringir.) og þess vegna væri fróðlegt að fá að vita afstöðu ráðherra til þessa máls.



[14:23]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka tækifærið til að fá að ræða sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu sem eru mýmörg. Mig langar til að byrja á því að nefna þjóðfundinn sem hér var haldinn á laugardaginn var þar sem dregin var upp framtíðarsýn fyrir íslenska þjóð, m.a. á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Í upphafi máls míns langar mig að nefna tvö af nokkuð mörgum dæmum um þær væntingar eða þá framtíðarsýn sem þjóðfundargestir drógu upp í þessum málaflokkum.

Þá er fyrst til að taka þessa góðu setningu hér: „Góð heilbrigðisþjónusta og samfélagsleg velferð sem byggir á aðgengi fyrir alla aldurshópa og býr framtíðarkynslóðum góð lífsskilyrði.“ Þetta eru skilaboð þjóðfundar til okkar á Alþingi.

Annað sem ég vil koma inn í umræðuna og snertir sóknarfærin er þessi setning: „Jafnrétti til góðrar heilbrigðisþjónustu með áherslu á almenna lýðheilsu, jafnframt því sem heilbrigðiskerfið nýtist til atvinnuuppbyggingar og öflunar útflutningstekna.“

Það var merkilegt að fá að vera með á þessum þjóðfundi á laugardaginn og væri margt hægt um það að segja. Íslenska heilbrigðiskerfið uppfyllir þegar margar af þeim væntingum sem þjóðfundargestir gera til þess. Við þekkjum mælikvarðana. Eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði stenst íslensk heilbrigðisþjónusta fyllilega samanburð við önnur lönd, lífslíkur og ungbarnadauði, vel menntað starfsfólk, aðgengi tiltölulega jafnt að þjónustunni o.s.frv. Þetta þekkjum við allt saman. Nýlega hefur verið staðfest að Ísland lendir í 3. sæti, næst á eftir Hollandi og Danmörku, með tilliti til árangurs og gæðaviðmiða við mat á heilbrigðisþjónustu 33 Evrópuríkja. Heilbrigðisþjónustan okkar er því sem betur fer enn þá í fararbroddi meðal þjóða.

Ótal tækifæri og möguleikar birtast á heilbrigðistæknisviði. Hér eru að mörgu leyti kjöraðstæður til rannsókna og þróunar og saman eru þessir möguleikar og góð þekking og undirstöðumenntun auðlind sem við eigum að nýta okkur til hins ýtrasta. Það er mikilvægt að vinna skipulega að áætlun um eflingu og uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu á Íslandi því að þar býður íslensk heilbrigðisþjónusta upp á mörg tækifæri og þar er virkilega mikið að gerast.

Mig langar til að minna á að 6. nóvember sl. komust færri að en vildu á hátækni- og sprotaþingi. Það ríkti engin kreppa í hugarfari stjórnenda þessara fyrirtækja, heldur trú á bjarta framtíð á Íslandi, einnig á sviði heilbrigðisþjónustu. Nýlega var opnaður Heilsutæknigarðurinn KÍM þar sem eru 12 fyrirtæki með um 40 starfsmönnum þar sem bæði er um að ræða framleiðslu úr íslenskum jurtum og smíði og þróun flókinna rannsóknartækja.

Ég hef staldrað aðeins við, frú forseti, sóknarfærin sem eru í íslenskri heilbrigðisþjónustu hér innan lands á sviði rannsókna og nýsköpunar, en ég hlýt einnig að nefna lækningatengda ferðaþjónustu. Við þekkjum öll hugtakið „heilsutengd ferðaþjónusta“ sem m.a. iðnaðarráðuneytið hefur unnið ötullega að stefnumótun í og ég verð að segja að það er fullur hugur í heilbrigðisráðuneytinu til að vinna ötullega að þeirri hlið sem snýr að lækningatengdri ferðaþjónustu. Ég hef ákveðið að setja á laggirnar nefnd sem hefur það hlutverk að vinna tillögur um stuðning eða hlutverk hins opinbera í lækningatengdri ferðaþjónustu sem er þá sambærileg við þá nefnd sem ég nefndi áðan, þá sem vinnur á vegum iðnaðarráðuneytisins. Þar munum við byggja m.a. á skýrslunni Heilsa og hagsæld með nýsköpun sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Ég vænti mikils árangurs af því.

Frú forseti. Eins og vant er reynist þessi tími ansi stuttur. Ég veit að ég á aðra ræðu eftir og þá mun ég svara þeim spurningum (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður beindi til mín. Já, það er von að hann spyrji hvernig hann eigi þá að svara því. (Forseti hringir.) Ég treysti því að hann hafi margt til málanna að leggja og virði mér það til vorkunnar að ég komst ekki lengra í fyrri ræðu minni. Við lærum af því og óskum eftir tvöföldum umræðutíma um heilbrigðismálin næst.



[14:29]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það eru mjög mörg tækifæri núna til sóknar í heilbrigðisþjónustunni þó að við göngum í gegnum mikla hagræðingu. Það eru t.d. tækifæri til skipulagsbreytinga. Sú er hér stendur stóð fyrir utandagskrárumræðu um daginn um heilbrigðismál þar sem var mjög ánægjulegt að heyra hvað þingmenn voru tilbúnir til að gera breytingar á þjónustunni varðandi það að koma hugsanlega á hér svokölluðu valfrjálsu stýrikerfi að danskri fyrirmynd. Það er mjög spennandi að nýta núna tímann til þess að ræða skipulagsbreytingar.

Hér hefur aðallega verið rætt um hvaða erlendu sjúklinga við getum fengið til að meðhöndla og nýta þá það fjármagn sem þannig kemur inn til að efla hér áfram heilbrigðisþjónustuna. Það var minnst á bæði augnlækningar og lýtalækningar og að talsvert magn sjúklinga væri að koma hingað til okkar í þessu sambandi. Ég minni líka á að krabbameinssjúklingar frá Færeyjum hafa verið hér í meðferð og Björn Zoëga, sem er núna starfandi forstjóri á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, hefur einmitt sagt að greiðslan sem kemur frá Færeyjum vegna þessa kemur í veg fyrir að fækka þurfi fólki eins mikið og ella í þeirri kreppu sem við göngum núna í gegnum. Hann telur að ef við náum fleiri sjúklingum svona inn frá Færeyjum megi gera enn betur.

Það sama á við um Grænlendinga. Grænlensk yfirvöld eru núna að skoða það að senda fleiri sjúklinga hingað og ég veit að FSA á Akureyri hefur líka skoðað samstarf við Grænland. Landspítalinn er tilbúinn í það líka samkvæmt upplýsingum Björns þannig að það er mjög spennandi að sjá hvað við getum gert meira fyrir vini okkar í nágrenninu.

Varðandi norrænt samstarf er það ekkert nýtt af nálinni, það er búið að vera norrænt samstarf mjög lengi í heilbrigðismálunum og ég minni á (Forseti hringir.) að núna t.d. er samstarf í gangi um það að meðhöndla sjúklinga með mjög sjaldgæfa sjúkdóma sameiginlega á Norðurlöndunum.



[14:31]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja athygli á þessu þarfa máli þar sem ég vil tala fyrir miklum möguleikum og bjartri framtíð á þessu sviði. Blessunarlega hafa Íslendingar fjárfest dável og ríkulega í heilbrigðisþjónustu á síðustu árum og uppbygging á því sviði um allt land hefur verið til fyrirmyndar. Þá vek ég líka athygli á því að Íslendingar hafa fjárfest mjög í námi á þessu sviði og þar höfum við veðjað á réttan hest vegna þess að með því höfum við skapað ríkulega fjölbreytni í störfum víða um land. Þessa fjárfestingu, hvort heldur er í fólki eða fasteignum, þurfum við að mínu viti að nýta með margvíslegum hætti. Þar horfi ég til innflutnings á sjúklingum, ef hægt er að tala um innflutning í þeim efnum. Þar eru mörg tækifærin, hvort heldur er frá Grænlandi eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan eða frá öðrum Norðurlöndum, Ameríku og fleiri ríkjum. Þetta má þó aldrei verða til þess að við lækkum þær gæðakröfur sem við gerum til þjónustu okkar eigin fólks. Þetta má aldrei bitna á þeirri þjónustu sem skal vera fyrir hendi til handa sjúku fólki á Íslandi, fötluðum og gamalmennum. Þetta á alltaf að vera viðbót við þá þjónustu sem hér er en tækifærin eru fyrir hendi vegna þess, og þar kemur forsenda þessa alls, að við höfum fjárfest í fólki og fasteignum (Forseti hringir.) og þær fjárfestingar ber að nýta í þessu efni fólkinu og fasteignum til heilla.



[14:33]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því hversu jákvætt hæstv. heilbrigðisráðherra tók í læknatengda ferðaþjónustu eða heilsutengda ferðaþjónustu þó að nefndarskipan muni ekki breyta öllu hvað það varðar. Fullt af fólki er að vinna í þessum geira nú og væri nær að leita til þess og spyrja hvernig verkefnin ganga. En við Íslendingar munum hafa alla burði til þess landfræðilega, þjónustulega og ímyndarlega á sviði heilbrigðismála að kalla til fólk erlendis sem vill njóta þeirrar þjónustu sem íslenskt heilbrigðisstarfsfólk hefur upp á að bjóða. Við erum þannig í sveit sett að við getum sagt svo, landfræðilega, að Norðurlandabúar og Evrópubúar aðrir sem og Ameríka geta sótt hingað til að njóta þeirrar þjónustu sem við getum veitt.

Við erum framarlega á sviði heilbrigðismála, við erum framsækin, rannsóknir sýna að við stöndum vel að vígi. Við eigum að efla þau tækifæri sem við blasa nú þegar niðurskurður blasir við í okkar eigin hagkerfi, að reyna að efla þá fólkið okkar, efla mannauðinn með því að flytja til okkar fólk sem vill og þarf á þeirri þjónustu að halda sem við getum boðið upp á. Það er hægt að gera með vali þeirra sem hingað vilja sækja sem og að koma á tengslum og samningum við önnur lönd. Við munum jafnframt sjá að þessu fólki sem sækir hingað lækningaþjónustu fylgja aðstandendur. Þetta er gjaldeyrisaflandi fyrir íslenska þjóð. Þetta veitir vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki okkar tækifæri til að stunda vinnu sína og nýta nám sitt á Íslandi okkur til góða og þeim sem hingað vilja sækja þá þjónustu.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) að fylgja eftir lækningatengdri og heilsutengdri þjónustu til hins ýtrasta, (Forseti hringir.) landsmönnum og öðrum til heilla.



[14:36]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir vil ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka upp þetta mál, líta á heilbrigðisþjónustuna frá öðrum sjónarhóli en bara út frá þjónustu við sjúka og í forvarnaskyni. Það er vert að líta líka á heilbrigðisþjónustuna sem mikilvæga atvinnugrein og atvinnuskapandi fyrir fjölda manns. Það er nokkuð sem ég tel að við eigum núna, í þeim efnahagsþrengingum sem við búum við, að hafa sem sjónarhorn líka.

Fyrst og fremst viljum við í þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir verja velferðarþjónustuna, þjónustu við sjúklinga. Það er einmitt það sem við ætlum að gera, standa vörð um velferð fólks, en við ætlum líka að verja störfin. Þess vegna er svo mikilvægt að við horfum á þessi sóknartækifæri núna til að skapa ný störf. Við getum gert það á svo mörgum sviðum, við getum notað þetta sem tækifæri til gjaldeyrisöflunar og það innan heilbrigðisþjónustunnar. Það er ímynd Íslands, sérstaklega hreinleiki, náttúrufegurð, tækniþekking og gott menntunarstig sem vinnur með okkur í markaðssetningu á þjónustu og framleiðslu á heilbrigðissviði.

Það eru sóknarfæri á heilbrigðissviði eins og öðrum sviðum. Það er mikilvægt að leyfa fjölbreytileikanum að njóta sín, setja ekki öll eggin í sömu körfuna eins og okkur hefur hætt til á öðrum sviðum. Ég tel mjög mikilvægt að stjórnvöld marki sér stefnu á þessu sviði og varði sóknartækifærin til lengri tíma litið. Heilsutengd ferðaþjónusta getur orðið arðvænleg atvinnugrein ef vel og faglega er að verki staðið. Víða um land geta heilbrigðisstofnanir verið sterkur liður í slíkri uppbyggingu, fengið nýtt og viðameira hlutverk en þær hafa í dag og styrkt með því rekstrargrunn og svæðisbundna þjónustu. Sem dæmi um slíka stofnun get ég nefnt Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (Forseti hringir.) sem að mínu mati hefur mikla möguleika innan heilsutengdrar ferðaþjónustu og er það bara dæmi, (Forseti hringir.) en lækningatengd ferðaþjónusta er líka hugtak sem við eigum að horfa til hvað varðar ný sóknarfæri.



[14:38]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Eins og aðrir ræðumenn þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu, hún er virkilega þörf. Ég held að við séum öll sammála um mikil sóknarfæri í heilbrigðisþjónustunni. Við erum ekki að tala um atvinnugrein sem getur orðið framúrskarandi, heldur erum við að tala um atvinnugrein sem er framúrskarandi. Við sjáum það á því að við erum með mesta langlífi á Íslandi, við erum að tala um að við erum með hæsta hlutfall meðal OECD-ríkjanna varðandi fimm ára lifun hjá þeim sem greinast með brjóstakrabbamein, dánartíðni nýbura er mjög lág, við erum með mjög hátt hlutfall lækna per íbúa. Allar tölur sýna okkur að við erum framúrskarandi í þessu. Erlend ráðgjafanefnd um hvar við ættum að leggja áhersluna í háskólanámi kom einmitt fram með það að við ættum að leggja áherslu á heilbrigðisvísindi sem ættu síðan að endurspeglast í nýsköpun og í atvinnulífinu.

Skoðun mín er sú að við eigum ekki að standa hérna og tala um að verja velferðarkerfið eða heilbrigðiskerfið. Við eigum að tala um að standa vörð um fólkið okkar. Það er fólkið sem byggir upp heilbrigðisþjónustuna, það er fólkið okkar sem notar heilbrigðisþjónustuna þannig að við þurfum að spyrja og svara því hvernig við getum veitt fólkinu okkar besta þjónustu og hvort hægt sé að samþætta það og styrkja núverandi þjónustu með því að bjóða erlendum heilsuferðamönnum heilbrigðisþjónustu eins og áður hefur verið nefnt. Þetta held ég að sé virkilega sóknarfæri.

Þegar hefur verið bent á dæmi eins og það að Grænlendingar vilja í auknum mæli nýta sér heilbrigðisþjónustuna hérna. Færeyingar hafa leitað eftir því. Það er búið að stofna Heilsufélag Reykjaness sem ætlar að skapa 300 störf á Reykjanesi á næstu þremur árum Við erum að heyra um einkafyrirtæki sem vill opna spítala í Mosfellsbænum. Pör hafa þegar leitað hingað í tæknifrjóvgun. Það er ýmislegt sem hægt er að gera og það skiptir náttúrlega miklu máli að við sem þingmenn spyrjum okkur hvernig við getum aðlagað lagaumhverfið til að opna fyrir þessa möguleika. Hvernig getum við samþætt þetta (Forseti hringir.) þeirri þjónustu sem við bjóðum nú þegar okkar fólki upp á? Með þessu getum við tryggt að við höldum okkar færa starfsfólki í landi, við getum greitt þeim (Forseti hringir.) betri laun og vonandi dregið úr niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu.



[14:41]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra að hún styðji hugmyndir um lækningatengda ferðaþjónustu og hafi nú skipað nefnd þar um. Það rímar við það sem hefur verið að gerast í ferðaþjónustunni með heilsutengda ferðaþjónustu og í raun ættu þessir tveir þættir að geta unnið saman og styrkt hvor annan. Þótt auðvitað sé ekki um sama hlutinn að ræða held ég samt að í ímyndarfræðunum gæti þetta hjálpað hvort öðru.

Það skiptir líka mjög miklu máli í þessu samhengi að ræða um þá miklu nýsköpun sem nú fer fram í litlum, nýjum, íslenskum sprotafyrirtækjum sem byggir auðvitað á þeirri þekkingu og þeirri menntun sem Íslendingar hafa fengið á sviði heilbrigðisvísinda. Sú uppbygging mun örugglega færa okkur miklar útflutningstekjur, kannski ekki á næstu missirum en þegar fram í sækir, ég er viss um það. Þar nýtum við líka hið séríslenska, eins og t.d. íslenskar jurtir, og byggjum þar á gamalli hefð grasalækninga eins og allir vita. Í kjarna sínum fjallar þetta mál hins vegar um það sem hæstv. ráðherra hafði eftir sem setningu frá þjóðfundinum, um að nýta heilbrigðiskerfið til atvinnuuppbyggingar og öflunar útflutningstekna. Það er það sem hér er verið að ræða og það er það sem mér heyrist að allir sem tekið hafa til máls í þessari umræðu séu sammála um að við eigum að gera. Auðvitað þarf að gera það fagmannlega og með yfirsýn yfir það sem er að gerast og það verður að verða viðbót við það sem við erum að gera hér heima. Það má aldrei bitna á því sem fyrir er eða þeirri þjónustu sem þegar er veitt.



[14:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna ræðu hæstv. ráðherra tek ég fram að það er samt ekki til eftirbreytni að hæstv. ráðherra svari ekki spurningunum. Nú veit ég ekki hver svörin eru. Ef ég miða við þá ræðu sem ég heyrði hjá hæstv. ráðherra er ég afskaplega ánægður með viðbrögðin. Mér finnst kveða við góðan tón og ég styð ráðherra í því að vinna með þessum hætti. Ég er svo sannarlega afskaplega sáttur við þau viðbrögð sem hér komu frá hv. þingmönnum. Þau voru öll á einn veg, að menn ættu að nýta þessi tækifæri.

Enn fremur eru allir hv. þingmenn sammála um, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði, að þetta mætti aldrei verða til þess að við lækkuðum þjónustustigið hjá okkur. Til þess er leikurinn ekki gerður. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór einmitt yfir það að tekjurnar sem Landspítalinn fær nýtast til að halda fólki að störfum á Landspítalanum.

Virðulegi forseti. Við erum með lagaumhverfi sem býður upp á þetta, það var samþykkt með atkvæðum allra þingmanna, ekki í minni tíð heldur í tíð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem ráðherra. Þess vegna hefði ég áhuga á því að fá að vita hvað menn voru að gera með þetta norræna samstarf. Þar var lagt upp með, og ég var búinn að tala við alla ráðherra á Norðurlöndunum, um að vera með eitt þjónustusvæði og þeir tóku allir vel í það, sáu allir haginn í því sem hefur hjálpað okkur mikið. Því er heldur ekki að leyna að síðasti hæstv. ráðherra tók mjög illa í þessar hugmyndir. Núna liggur fyrir að suður á Reykjanesi er að fara í gang mjög mikil starfsemi sem mun, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, skaffa 300 sérfræðingum störf. Það er einu ári á eftir vegna þess að ekki var opnað á að nýta skurðstofur þar sem eru mjög lítið notaðar. Ef það hefði hins vegar verið gert hefði verið hægt að taka á móti sjúklingum í ágúst á þessu ári en ekki ágúst 2010. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Svo því sé til haga haldið finnst mér mjög óþægilegt að geta ekki komið með viðbrögð við svörum við spurningum mínum. Ég vona að ég þurfi ekki að fara í (Forseti hringir.) neinar æfingar til að koma því að í framhaldinu.



[14:45]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér var eitthvað svo mikið niðri fyrir um þau tækifæri sem liggja innan lands og í rannsóknum að ég komst ekki að svörunum en það er langt í frá að ég vilji víkja mér undan umræðunni.

Hv. þingmaður spyr hvað líði tillögum sem hann flutti um eitt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndum. Því er til að svara að settur var á fót sameiginlegur vinnuhópur sem honum mun vera kunnugt um en svo var einnig haldin ráðstefna í Reykjavík 17. mars sl. um tækifæri og hindranir í norrænni samvinnu á sviði heilbrigðisþjónustu. Það var forveri minn, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þá stjórnaði heilbrigðisráðuneytinu. (Gripið fram í.)

Umræðan hefur, frú forseti, snúist ansi mikið um væntanlega tilskipun Evrópusambandsins um rétt fólks til að leita sér lækninga yfir landamæri sem jafnframt mundi þá opna fyrir möguleika á að meðhöndla erlenda sjúklinga hér á landi. Það er reiknað með að slík tilskipun líti jafnvel dagsins ljós innan tveggja ára. Því er það að þær umræður sem hófust að frumkvæði hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sameiginlegt þjónustusvæði á Norðurlöndum hafa þróast í átt til tvíhliða viðræðna milli Íslands og Færeyja, Íslands og Grænlands, Íslands og Svíþjóðar og Íslands og Noregs. Hér hefur verið nefnt nokkuð af því sem í pípunum er. Menn þekkja frá síðustu helgi umræðuna um 1–2 sjúkraflug á mánuði til Grænlands og að grænlenskur ráðherra er væntanlegur hingað um næstu mánaðamót til að reyna að semja um þjónustu við 40–50 sjúklinga til viðbótar. Ég vil nefna að samstarfssamningur við Færeyinga bíður nú undirritunar og var tilkynnt í morgun að hann væri tilbúinn þannig að þarna eru líka ansi mörg tækifæri í boði. Það er umframgeta í íslenskum heilbrigðisstofnunum, þar er góður aðbúnaður, vel menntað og hæft starfsfólk og það er mikilvægt á þessum tímum niðurskurðar að vera einmitt vakandi fyrir sóknarfærum í heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) til að efla og nýta betur fjármuni, mannafla og fasteignir sem til eru og verja störfin sem þar eru. (Forseti hringir.)

Ég þakka þessa góðu umræðu og mun læra af henni, frú forseti, að skipuleggja ræðu mína með öðrum hætti.