138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
lyfjalög, 1. umræða.
stjfrv., 198. mál (afnám ákvæðis um afslætti á smásölustigi lyfja). — Þskj. 222.

[16:07]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frumvarpið er að finna á þskj. 222. Frumvarpið er einfalt í sniðum. Í 1. gr. segir: „Orðin „eða smásöluaðilar“ í 3. málsl. 42. gr. laganna falla brott.“ Síðan er gildistökuákvæði 1. janúar 2010.

Með frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott ákvæði sem varðar bann við afsláttum á lyfjum í smásölu. Þetta hefur í för með sér, verði frumvarpið að lögum, að bann við veitingu afslátta til sjúklinga í apótekum, sem átti að taka gildi 1. janúar nk., komi ekki til framkvæmda.

Ég ætla stuttlega, frú forseti, að rekja aðdraganda þessa, en með lögum nr. 97/2008 var 42. gr. lyfjalaga breytt á þann veg að lyfjaheildsölum og smásölum sem vildu selja vildu lyf á lægra verði en hámarksverð sagði til um var gert að tilkynna lækkað verð til lyfjagreiðslunefndar og jafnframt var þeim gert skylt að selja lyfið á sama verði á öllum sínum sölustöðum.

Hvað varðar lyfjaheildsölu kom þetta ákvæði til framkvæmda 1. október 2008, en ákvæðinu varðandi smásöluna hefur hins vegar verið frestað í þrígang, fyrst til 1. janúar 2009, þá til 1. apríl 2009 og loks til 1. janúar 2010 með lögum nr. 28/2009.

Helstu rök, frú forseti, fyrir því að stemma stigu við afslætti í heildsölu voru þau að talið var hægt að lækka lyfjaverð sem honum næmi, en þáverandi kerfi ýtti undir að sótt væri um hátt verð í lyfjaverðskrá. Talið var svigrúm til að lækka lyfjaverð í landinu og eðlilegt að þeir fjármunir sem nýttir höfðu verið til þess að gefa afslætti í heildsölunni, væru í þess stað notaðir til að lækka lyfjaverð. Með þessum hætti var talið að ábatinn rynni óskertur til sjúklinga og ríkisins en ekki til milliliða.

Fyrir þessar breytingar og í kjölfar þeirra urðu verðlækkanir á lyfjum í maí og október 2008 sem áætlað var að næmi um 500 millj. kr. á smásöluverði á ársgrundvelli. Að mati formanns lyfjagreiðslunefndar hafa áform lagabreytinganna gengið eftir enda þótt gildistöku á þeim hluta ákvæðisins er varðar bann við afsláttum í smásölu hafi þrívegis verið frestað.

Frestunin hefur í þessi þrjú skipti verið rökstudd þannig að í undirbúningi væri nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og talið mikilvægt að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis.

Nú munu hv. þingmenn kannast við það sem hér er vitnað til, sem er nefnd sem sett var á laggirnar af þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og kennd er við formann sinn, sem er hv. þm. Pétur Blöndal.

Nú er óljóst hvort og þá hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi verður að veruleika, en nefndin var lögð af síðasta vetur. En á undanförnum mánuðum hefur greiðslufyrirkomulagi lyfja hins vegar verið breytt til lækkunar lyfjakostnaðar Sjúkratrygginga Íslands vegna samræmdra aðgerða til lækkunar opinberra útgjalda. Í því ljósi þykir mikilvægt að sjúklingar geti áfram, eins og verið hefur, notið afsláttar við kaup á lyfjum sínum í apótekum. En félagasamtök, eins og til að mynda Hjartavernd, hafa náð samningum við smásalana, eða apótekarana, um slíkan afslátt og mundi hann falla niður 1. janúar nk. ef ekki kæmi til samþykktar þess frumvarps sem ég hér mæli fyrir.

Frú forseti. Samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi kostnaðaraukningu í för með sér fyrir ríkissjóð. Markmiðið með breytingunni sem ég mæli hér fyrir um er að standa áfram sem bestan vörð um hagsmuni og velferð sjúklinga á erfiðum tímum.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.



[16:12]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar framsögu. Það er margt rétt sem kom fram í máli hennar. Að vísu er ekki rétt að lyfjakostnaður hafi lækkað út af samræmdum aðgerðum hjá hinu opinbera. Þvert á móti var þetta starf unnið í mjög langan tíma sem miðaði að því að lækka lyfjakostnaðinn og það tókst. Ég hugsa að stærsta einstaka aðgerðin sem lækkaði lyfjakostnað hafi verið afnám afslátta á heildsölustigi. Það var mjög umdeild aðgerð og voru hagsmunaaðilar afskaplega ósáttir við hana en það sem þá var lagt til grundvallar var reynsla annarra þjóða af sams konar aðgerðum. Þrátt fyrir að það hljómi kannski sérkennilega að menn lækki afslætti til að það muni lækka verð, ég fer nú betur yfir það í ræðu minni, þá er það nú þannig.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðherra að það að ganga alla leið, sem hafði það markmið að lækka verð á lyfjum, tengdist því að breyta kostnaðarþátttöku í kerfinu. Ástæðan fyrir því að menn vildu láta þetta hanga saman var til þess að menn vildu ekki að einstaka sjúklingahópar lentu í hækkun á einstaka lyfjum. Þess vegna vildu menn fara heildstætt í kostnaðarþátttökukerfið og það hefur verið krafa, held ég, allra sjúklingasamtaka um mjög langa tíð að gera það. Kerfið eins og það er í dag er mjög gloppótt og undir hælinn lagt hvar kostnaður lendir í heilbrigðiskerfinu, því miður.

Það er rétt að fyrrverandi ráðherra stöðvaði þá vinnu sem var unnin af hv. þm. Pétri Blöndal og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, sem var varaformaður, en nefndin var komin ansi langt með þá vinnu. Ætlar hæstv. ráðherra að hætta við að breyta kostnaðarþátttöku í kerfinu? Er það algjörlega út af borðinu?



[16:14]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil vekja athygli á því að nefndinni sem hér um ræðir, og var undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals, var falið í nóvember 2007 að kanna hvort og þá með hvaða hætti hægt væri að fella læknis-, lyfja-, rannsókna-, sjúkraþjálfunar- og allan annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag eins og við þekkjum. Mikill tími nefndarinnar fór í söfnun upplýsinga og umræður um fyrirkomulag nýs greiðsluþátttökukerfis.

Gerður var samningur við Skýrr um söfnun upplýsinga og gert ráð fyrir að fjármagn fengist á fjárlögum 2009 fyrir kostnaði við þá vinnu. Það reyndist hins vegar ekki raunin og því var nefndin lögð niður. En áður hafði þó Skýrr tekið saman 44 síðna skýrslu með upplýsingum um greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu hjá allflestum nema tannlæknum og var heildarkostnaður við verkefnið þá kominn í 18 millj. kr.

Hv. þingmaður spyr hvort það sé vilji þeirrar sem hér stendur að hætta við þetta verkefni. Ég verð að segja að mér finnst fráleitt að kasta á glæ slíkri vinnu sem hafa verið lagðar til 18 millj. kr. eins og hér kemur fram, og tel eðlilegt að reyna að finna leiðir til að nýta þær upplýsingar sem þarna hefur verið safnað saman og þá vinnu sem fjölmargir hafa lagt í þetta verkefni, til áframhaldandi lækkunar á lyfjakostnaði og til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að njóta heilbrigðisþjónustu.

Við vitum að nú borga sjúklingar 17–18% beint úr buddunni af læknis- og heilbrigðisþjónustu. Það má ekki meira vera. Ef hægt er að jafna þessum kostnaði betur og nýta til þess þær upplýsingar (Forseti hringir.) sem svokölluð Péturs-nefnd safnaði þá tel ég til einhvers unnið.



[16:16]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða þetta mál mjög vel. Eins og fram hefur komið þá er ekki bara búið að setja 18 millj. kr. í þetta verkefni — sem er að vísu mjög lág upphæð miðað við stærð þess og þá vísa ég til þess að flestar þær þjóðir sem hafa tekið þetta heildstætt hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé sparnaður í því að fara heildstætt í svona verkefni og koma fram með heildstætt kerfi. Af því að þetta er ekki bara óréttlæti sem kemur fram á ýmsum sviðum, því þessi 17%, 18% eða 16% síðast þegar ég sá, kostnaðarhlutdeild sjúklinga, falla á allan hátt, þetta er allt frá því að menn greiði ekkert til þess að menn greiði nokkur hundruð þúsund krónur fyrir læknisþjónustu. Hugmyndin með því að fara í breytt kostnaðarþátttökukerfi er sú að langveikir og þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda greiði sem minnst, en hins vegar liggur það fyrir að þetta mun gera það að verkum að við hin sem erum heppin og þurfum sjaldan á þjónustu að halda þurfum kannski að greiða eitthvað meira.

Þetta fyrirkomulag, þ.e. að afnema afslættina hjá smásölunum, það var bara einn liður í þessu. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, þá er hann ekki að ýta þessu út af borðinu, en það væri þá ágætt að vita hvernig hann hyggst vinna þetta áfram með kostnaðarþátttökukerfið vegna þess að þetta er flókið, þetta er mikið mál og það var reynt að vinna þetta með aðilum úr öllum flokkum og þetta var komið á ákveðinn rekspöl. Aðalatriðið er ekki hvernig þetta er gert, heldur að þetta verði gert. Ég vil þá kannski heyra um fyrirætlanir hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.



[16:19]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað skýrar en svo að ég tel nauðsynlegt að kannað verði til hlítar hvernig nýta megi öll þau gögn og þá miklu vinnu sem nefndin og starfsmenn hennar hafa lagt fram. Ég var sjálf þeirrar skoðunar að eðlilegt væri að skipta þessu upp í lyfjakostnað annars vegar og lækniskostnað hins vegar, þetta var orðið ansi yfirgripsmikið og umfangsmikið verkefni, en ég get ekki svarað öðru til en því sem ég sagði að ég tel eðlilegt að kanna mjög vel hvernig nýta má þessa vinnu til hagsbóta fyrir þá sem greiða hlutdeild í heilbrigðiskostnaði. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að ekki er alltaf mikið réttlæti í því hvernig það dreifist.

Hvað varðar það frumvarp sem við ræðum hér, þá verð ég nú að leyfa mér að segja að við getum svona í hálfkæringi kallað þetta góðkunningja þingmanna. Við höfum farið þrisvar sinnum yfir þetta mál og allir hafa verið sammála um að fresta gildistökunni. Hér er nokkur eðlismunur á því að hér er einfaldlega lagt til að úr lögunum verði fellt ákvæði um að banna afslætti yfir borðið. Það er í rauninni eðlisbreyting frá því sem áður hefur verið og ég vænti þess að við getum líka verið sammála um að kominn sé tími til að stíga það skref. Allir hafa verið sammála um að fresta þessari gildistöku, við ættum ekki að banna þetta, það hefur sýnt sig að árangur hefur náðst án þess að þessir afslættir væru bannaðir yfir borðið og þess vegna, frú forseti, leyfi ég mér að vænta góðra undirtekta í hv. heilbrigðisnefnd og hjá þingheimi öllum með þetta litla mál.



[16:21]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra hefur þetta mál oft komið til þingsins og rétt að það hefur verið á þann veg að þingheimur hefur verið sammála tillögu ráðherra en ég lagði það nú til að þessum hlutum yrði frestað þangað til nýtt kostnaðarþátttökukerfi tæki gildi. En einhver gæti þá spurt: Bíddu, af hverju var þetta inni? Það er afskaplega mikilvægt að menn hafi forsöguna í huga, vegna þess að þær ákvarðanir sem við tökum hér geta haft gríðarleg áhrif á þróun lyfjakostnaðar í landinu. Það er ekki langt síðan lyfjakostnaður var nokkurn veginn hæstur á byggðu bóli á Íslandi. Það kemur margt til. Við erum föst í Evróputilskipunum hvað þetta varðar, sem gerir það að verkum að hér er mikil haftaverslun, þvert á það sem gerist almennt á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar vara er komin inn á markað einhvers lands á Evrópska efnahagssvæðinu, þá er hún komin inn á alla markaði, en því er ekki þannig fyrir komið hjá lyfjunum. Ef einhver ætlar að flytja inn lyf til Evrópska efnahagssvæðisins, segjum til Bretlands, og gerir það og ákveður í kjölfarið að flytja lyfið inn til Íslands, þá þarf hann að fara í gegnum nákvæmlega sama fyrirkomulag á Íslandi eins og á Bretlandi. Þetta eru auðvitað mjög slæmar fréttir fyrir alla en sérstaklega fyrir litla markaði eins og íslenska markaðinn og gerir það að verkum að það er dýrt að koma hér inn á markaðinn og það leiðir af sér mjög hátt vöruverð. Þess vegna fór ég þá leið að reyna að ná samstarfi við Norðurlöndin, sem m.a. skilaði sér í því að núna fá mörg þau lyf sem fá markaðsleyfi í Svíþjóð sjálfkrafa markaðsleyfi á Íslandi, nema ef innflytjendurnir vilji það bara alls ekki. Það er svolítið athyglisvert að sumir innflytjendur vilja það ekki og það hlýtur í rauninni að kalla á spurningar sem vert væri að fá svör við í þessu samhengi. Ef við ætlum að halda lyfjakostnaði hér niðri, þá þurfa menn að hafa öll tæki tiltæk og vinna þetta jafnt og þétt. Það var svo sannarlega gert, sem skilaði sér í því að lyfjakostnaður lækkaði gríðarlega í góðærinu. Við fórum í margt, en ég ætla ekki að fara í gegnum allt hér, aðeins afslættina. Af hverju í ósköpunum voru menn að eiga við afslættina?

Stóra einstaka málið var það að afslættir á heildsölustiginu héldu verðinu mjög uppi. Af hverju var það? Það gerðist þannig að á smásölumarkaðnum erum við með tvö fyrirtæki, sem eru með 80% af markaðnum. Samkeppniseftirlitið hefur oft lýst því yfir að saman séu þau með algjörlega markaðsráðandi stöðu. Það gerðist bara þannig í praxís, að því er virðist, að þegar menn vildu koma lyfjum á markað og ætluðu að fara í gegnum stóru aðilana, þá þurftu þeir alltaf að veita þeim meiri afslátt en smærri aðilunum. Með öðrum orðum, sá sem ætlaði að koma lyfi á markað, þurfti að veita stóru keðjunum meiri afslátt en öðrum og sá afsláttur skilaði sér ekki til neytenda. Með því að hafa verðin í rauninni uppi á borðinu þurftu þeir sem seldu verslunarkeðjunum lyfin að keppa í verðlagi en ekki afslætti, sem hvergi sést og er illa skilgreindur, og það gerði það að verkum að verðsamkeppni komst á og lækkaði lyfjaverðið. Það sem er líka flókið við lyfjaverðið er smásalan, þ.e. sala yfir borðið, því þar eru menn með alls kyns afslætti sem gera markaðinn ógagnsæjan og það heldur verði frekar uppi en að halda því niðri. Það er því svolítið stór ákvörðun ef við ætlum algjörlega að hverfa frá þessu.

Það er ástæða fyrir áhyggjum mínum, ég hef skoðað ansi vel hvernig þetta hefur verið í gegnum tíðina, ef menn slaka eitthvað á hvað þessa hluti varðar og eru ekki mjög einbeittir í því að fylgja málum eftir þá er hætt við að þeir sofni og dagi uppi. Nú höfum við sett 18 millj. kr. og mikla vinnu ýmissa aðila í nýtt kostnaðarþátttökukerfi, sem menn voru sammála um að væri skynsamlegt að lægi til grundvallar þegar menn breyttu þessu og afnámu afslættina hjá smásölunum, þannig að smásalarnir þyrftu bara að keppa í verði en ekki í afslætti.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að nýta ætti þessa vinnu, en það kom ekki fram skýr stefna hjá hæstv. ráðherra um að setja vinnuna af stað þannig að menn ætli sér einhvern tíma til að ná niðurstöðu. Kostnaðarþátttökukerfið er mikilvægt af mörgum ástæðum. Ein ástæðan er sú að núna getur langveikt fólk lent í því að þó svo að það eigi ekki að greiða fyrir lyf, þá á það bara við um þau lyf sem það fær, en fólk sem er langveikt þarf á alls kyns lyfjum að halda og sumt er bara ekki inni í kostnaðarþátttökukerfinu hjá þeim, þ.e. það sem þau fá ókeypis, bara svo dæmi sé tekið. Það kemur í ljós þegar menn skoða þetta að ýmsir langveikir eru með ansi háan heilbrigðisþjónustukostnað. Það er eðlilegt og skynsamlegt að dreifa því þannig að þessir aðilar greiði minna og þessi kostnaður færist annað. Það er líka mjög skynsamlegt að hafa kerfið gegnsætt og að það liggi alveg fyrir hvaða reglur eru í gildi, þannig að menn viti þá og geti stýrt þessum niðurgreiðslum sem best.

Það er mjög slæmt og alveg á skjön við allt sem hefur verið lagt upp með t.d. af sjúklingasamtökum, sem hafa öll, að því er ég veit til, lagt mikla áherslu á það að farið verði í þetta kostnaðarþátttökukerfi. Menn hafa bent á frændur vora á Norðurlöndunum, sem hafa haft slíkt kerfi um ansi langa tíð og þangað voru fyrirmyndirnar sóttar. Þetta kallar hins vegar á það að menn þurfa að taka ákvarðanir. Auðvitað getur það verið erfitt, en það er til þess vinnandi.

Við getum eiginlega ekki litið á þetta mál öðruvísi en í þessu stóra samhengi. Ef menn ætla að gefa eftir í þeirri vinnu sem hefur gengið út á það að lækka lyfjakostnað í landinu, þá mun það koma fram bæði í auknum ríkisútgjöldum og kostnaði hjá sjúklingum. Nú deilir enginn um það og gríðarlegur árangur hefur náðst í að lækka lyfjaverð. Þetta byrjaði ekki í gær, meira að segja í miðju mesta góðærinu var lyfjakostnaður að lækka og við vorum að koma hér fram með ódýr samheitalyf sem tóku við af dýrari lyfjum. Þetta er allt saman skjalfest og liggur allt saman fyrir. Ég er afskaplega ánægður með að hafa náð þessum árangri í minni tíð. Það var svo sannarlega ekki auðvelt og svo sannarlega ekki óumdeilt, það var alls ekki þannig að ýmsir hagsmunaaðilar berðust ekki gegn þessu. Mér þætti miður ef heilbrigðisyfirvöld ætluðu að slaka eitthvað á hvað þetta varðar, því við getum gert enn betur. Liður í því var að afnema afslættina, en menn vildu ekki taka neina áhættu með það og vildu gera þetta samhliða kostnaðarþátttökukerfinu.

Virðulegi forseti. Ég tel afskaplega mikilvægt að heilbrigðisnefnd fari vel yfir þetta mál, mjög vel og í þessu stóra samhengi. Ég vænti góðs af samstarfi í nefndinni hvað þetta varðar, en það er útilokað annað en að líta á þetta mál í stærra samhengi.



[16:30]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum stjórnarfrumvarp, lyfjalög, 198. mál á þskj. 224. Þetta er ekki stórt mál að vöxtum en eins og með mörg mál sem snúa að heilbrigðisþjónustunni og sem í þessu tilfelli geta haft áhrif á lyfjaverð til neytenda skiptir auðvitað miklu máli að farið sé vel yfir það og það vel unnið. Ég fagna því að þetta mál sé nú fram komið þannig að það náist að vinna það í heilbrigðisnefnd og vonandi afgreiða það fyrir jólahrotuna þannig að það lendi ekki inni í afgreiðslu fjárlaga og fái ekki þá umræðu sem þarf.

Hvað varðar verðlagningu á lyfjum er þetta mjög flókið kerfi fyrir almenning og jafnvel fyrir þá sem vinna við þessi störf innan heilbrigðisþjónustunnar er þetta flókinn heimur sem snýr að lyfjaframleiðslu, verðlagningu og eftirliti. Þetta er engin venjuleg vara, framleiðslan, eftirlitið og krafan um ný lyf og nýja framleiðslu, betri virkni, meiri fjölbreytni og samkeppni meðal framleiðenda er mikil. Það er mikils vert að þeir sem eru í frumlyfjunum séu varðir þannig að vöruþróun sé ekki ógnað. Á sama tíma er gerð krafa um að ná niður verði og nota svokölluð samheitalyf sem eru þess eðlis og framleiðslan komin á það stig að einkaleyfið er farið af. Það er hægt að framleiða ódýrari lyf með sambærilegri verkun.

Þeir sem stýra notkun lyfjanna eru læknar og í raun og veru er þetta í þeirra höndum. Það krefst mikillar árvekni og í raun og veru hliðarbúgreinar hjá læknum að fylgjast með verðlagningu á þeim lyfjum sem eru á markaðnum og að nota ódýrustu lyfin en jafnframt góð lyf og án þess að það skapi hættu fyrir sjúklingana. Til að einfalda læknum þetta eru víðast hvar á stofnunum komnar upp leiðbeiningar um hvaða lyf beri að nota. Á stærri stofnunum er farið að fækka þeim lyfjum sem standa til boða eða eru notuð innan stofnunarinnar og allt reynt til að halda verðlagi í lágmarki en öryggi í lagi.

Það er hægt að halda langar ræður um þetta en ég vildi aðeins sýna fram á að þetta er flókið. Með þessu frumvarpi er verið, umfram það sem gert hefur verið til að ná niður lyfjaverði, að ávísa á samheitalyf, ávísa lægsta verði af lyfjum með sambærileg gæði, að ná þessum norræna lyfjamarkaði og stuðla að innlendri framleiðslu á lyfjum eins og innrennslislyfjum núna þegar gengisþróunin hefur verið okkur óhagstæð. Síðast er það sem snýr að sjúklingunum sjálfum að lagt er til að heimilt sé miðað við þær aðstæður sem núna eru að leyfa áfram afslætti yfir búðarborðið eins og kallað var, sem sagt afslætti frá smásölum til sjúklinga.

Ég tel að heilbrigðisnefnd muni fara vel yfir þetta og skoða. Við búum vel að fulltrúum í heilbrigðisnefnd sem hafa kynnt sér þessi mál vel þannig að ég efast ekki um að afgreiðslan í nefndinni verði fagleg og eigi ekki að þurfa að taka mjög langan tíma. Alla vega er það mín ósk að við getum lokið þessu máli áður en mestu annir þingsins hefjast fyrir jól.



[16:36]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni heilbrigðisnefndar Þuríði Backman fyrir málefnalega ræðu. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að þetta er flókið og mjög stórt mál. Þetta er einn angi af miklu stærra máli. Ef hv. þingmenn ætla að fara vel yfir málið, ég ætla mönnum ekki annað, mun það þó taka dágóðan tíma. Við sjálfstæðismenn erum hins vegar fúsir í þá vinnu, það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt í þessu máli eins og öllum öðrum.

Ég er þó farinn að hafa mjög miklar áhyggjur af tímanum. Eitt eru fjárlögin. Það er augljóst að við þurfum að fara yfir þann þátt mála, m.a. skipulagsbreytingar og annað slíkt, og við erum ekki enn þá búin að fá t.d. þá útreikninga sem liggja fyrir og hafa legið fyrir varðandi t.d. kragasamstarfið. Við erum búin að heyra hverjar niðurstöður þess máls eru en við erum ekki búnir að sjá það.

Sömuleiðis hefur hið gríðarstóra mál varðandi hjúkrunarheimilin ekkert verið rætt og við höfum ekki kallað einn einasta aðila inn til að ræða að færa hluta heilbrigðiskerfisins yfir til félagsmálaráðuneytisins. Ég ætla mönnum ekki annað en vilja fara vel yfir það en ég held, virðulegi forseti, að nú sé 17. nóvember og það eru mjög fáir þingdagar eftir. Ég hefði því viljað heyra frá hv. þingmanni, formanni heilbrigðisnefndar, hvernig menn ætla að vinna þessa þætti. Þetta eitt og sér, þótt það láti lítið yfir sér eins og hv. þingmaður benti á, er stórmál.



[16:38]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, þetta átti að vera hluti af stærra máli og er það í raun. Ósk hagsmunasamtaka sjúklinga og aðstandenda hefur verið um langan tíma að reyna að einfalda þetta kerfi, sem sé endurgreiðslur Tryggingastofnunar og Sjúkratryggingastofnunar á greiðsluþátttöku sjúklinga. Að einfalda og gera skýrara allt sem lýtur að því að fá afslætti eða hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga er byggð upp. Ég tek undir þá hugsun.

Búið var að leggja mikla vinnu í undirbúning sem í byrjun átti að vera að einfalda endurgreiðslu eða greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði en breikkaði og fór yfir í að taka miklu meiri þjónustu undir sem varð til þess að vinnan varð það umfangsmikil að hún að hluta til strandaði. Það var erfitt að sjá vinnuna ganga upp á þessu stigi þegar hún var lögð til hliðar en þær upplýsingar sem nefndin hafði aflað liggja fyrir og eru mikilvægar. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að halda áfram að nýta þær upplýsingar til að vinna áfram að þessari einföldun. Hugsanlega þurfum við að byrja í smærri stíl, byrja á því sem við ætluðum okkur í upphafi, þ.e. að taka eingöngu lyfin og þann málaflokk. Ef það gengur vel ættum við að halda því fyrirkomulagi því við ætlum að búa til kerfi til að yfirfæra á aðra þjónustu. Ég tek undir það og eins tek ég undir (Forseti hringir.) óróleika hv. þingmanns varðandi flutning öldrunarþjónustu yfir til sveitarfélaga því tíminn líður.



[16:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í sjálfu sér sammála hv. þingmanni um flest sem hún fór yfir áðan. Það getur vel verið að skynsamlegt sé og það hefur mikið verið rætt, sú niðurstaða að menn vildu taka bæði lækniskostnaðinn og lyfjakostnaðinn. Upphaflega fóru menn bara af stað með lyfjakostnaðinn. Ég geri engan ágreining um að það gæti verið skynsamlegt að klára það en þá væri heldur ekki skynsamlegt af okkur að taka það út úr lögunum. Við verðum að líta á þetta í stærra samhengi.

Varðandi vinnuna liggur fyrir að við erum ekki enn þá búin að fá kynningu á útreikningunum sem búið er að reikna t.d. varðandi fjárlögin og skipulagsbreytingarnar. Við í heilbrigðisnefnd verðum að fara eðli málsins samkvæmt yfir það og ég efast ekki um að hv. þingmaður og formaður nefndarinnar muni gera það.

Hjúkrunarheimilin er annar þáttur. Við erum ekki einu sinni að færa þetta til sveitarfélaganna núna, það á að færa þetta yfir til ráðuneytis sem hefur í rauninni ekkert með sveitarstjórnarmálin að gera lengur. Félagsmálaráðuneytið hefur ekkert með sveitarstjórnarmálin að gera, það er búið að færa þau yfir í samgönguráðuneytið. Þetta er gríðarlega stór tilflutningur. Hjúkrunarheimilin eru heilbrigðisþjónusta að langstærstum hluta og mikið af starfseminni er inni á spítölum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held að flestir hafi séð hagræðingarmöguleikana í því, svo ég nefni eitt dæmi af því að ég sé hv. þingmann Suðurkjördæmis, þá benti forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á að það gæti verið hagkvæmt að sú stofnun tæki yfir hjúkrunarheimilin þar á svæðinu. Það er gott dæmi um hvernig menn geta hagrætt án þess að það komi niður á þjónustunni. Þetta er allt saman eftir og allt undir og það eru sárafáir dagar þangað til við ætlum að vera búin hér á þingi.



[16:42]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það og er nokkuð óróleg yfir því hvað tíminn líður hratt en þá er líka rétt að vinna skipulega og taka eitt mál í einu. Núna fjöllum við bara um einn afmarkaðan þátt og ef það kemur í ljós við yfirferð á þessu máli að þessi breyting muni hafa áhrif til lækkunar á lyfjaafgreiðslu til sjúklinga, og það væru í raun og veru einu sjáanlegu áhrifin, mundum við auðvitað fagna því og fallast á þessa breytingu. Ef það sýndi sig að svo yrði ekki eða hefði aðrar aukaverkanir eða önnur áhrif í för með sér mundum við meta það.

Með þessu frumvarpi erum við ekki á stuttum tíma að fara að vinna að þessari heildarendurskipulagningu en mér finnst mikilvægt að hafa hana alltaf í bakgrunni, að við munum stefna að því. Þetta gæti þess vegna verið liður í því. Ef áhrifin verða þau að þetta lækki verð til sjúklinga tel ég þó að við eigum að vera mjög jákvæð og stuðla að því. Ekki veitir af núna.

Hvað varðar umræðuna um hjúkrunarheimilin og flutning á milli ráðuneyta þá er það umræða sem við verðum að taka fyrir sérstaklega og það mun ekki standa á mér að taka það mál til umræðu í heilbrigðisnefnd. Við erum þegar búin að fá stutta kynningu en við þurfum að fara miklu betur yfir málið. Það verður gert við fyrsta tækifæri og ég bý fulltrúa í heilbrigðisnefnd undir að sitja aukafundi þess vegna.



[16:44]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem hér hefur orðið, og hefur orðið kannski allmiklu umfangsmeiri en tilefnið er, um þetta litla frumvarp sem ég leyfði mér í hálfkæringi að kalla góðkunningja þingmanna áðan.

Ég vil minna á að markmiðið með þeim breytingum á lögum sem voru gerðar á árinu 2008, afsláttarbreytingunum, var tvíþætt. Annars vegar var verið að setja eins konar bann við afsláttum á heildsölustigi með því að mönnum var gert að tilkynna til lyfjagreiðslunefndar um lækkun frá hámarksverði og selja lyfin á sama verði alls staðar. Hins vegar var um að ræða bann við afsláttum yfir borðið í apótekunum og um það ákvæði erum við að fjalla hér.

Í framsöguræðu minni áðan kom fram að árangur sem til var ætlast með þessu afsláttarfrumvarpi á sínum tíma hefur verið góður. Hann hefur náðst að mati formanns lyfjagreiðslunefndar og það þrátt fyrir að þetta bann við afslætti yfir borðið hafi ekki orðið að veruleika.

Ég nefndi áðan að það sé mat manna að með banni við afsláttum á heildsölustigi hafi sparast um 500 millj. kr. í smásöluverði á hverju ári. Það er allhá fjárhæð en fleira hefur verið gert. Náðst hefur verulegur árangur á þessu ári í lækkun lyfjakostnaðar, menn þekkja kannski þessar tölur en það er talið að 1.500–1.600 millj. kr., miðað við óbreytt gengi, hafi sparast vegna ýmissa aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að lækka lyfjakostnað ríkisins eða sjúkratrygginga. Þessar aðgerðir hafa orðið til þess að útlit er fyrir að lyfjakaup verði innan fjárlaga á þessu ári þótt erlent gengi hafi hækkað um 40–60%.

Vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvetur til þess að mjög vel verði farið yfir málið, sem eðlilegt er, og líta þurfi á þetta í stærra samhengi vil ég nefna að frekari aðgerðir eru í gangi eða í farvatninu en ég hef þegar nefnt. Í gangi er átak í lyfjainnkaupum og lyfjanotkun heilbrigðisstofnana sem og samstarf við Noreg sem vonandi mun leiða til lækkunar á lyfjaverði hér með því að sjúkrahús eins og Landspítali – háskólasjúkrahús gætu verið með í útboðum á dýrum lyfjum sem eru boðin út í Noregi. Það er verið að skoða greiðsluþátttökukerfi í dýrum lyfjaflokkum og stefnt er að því að gera lyfjaverðskrána aðgengilega í sölukerfinu með ódýrustu valmöguleikum. Það er í gangi tilraunaverkefni þar sem fyrirtæki geta sótt um markaðsleyfi á Íslandi samhliða því sem þau sækja um í Svíþjóð og ein 60 lyf munu vera komin með markaðsleyfi á Íslandi í kjölfarið á því. Það eru ódýrari lyf, lyf í ódýrari flokkum, og þetta mun að mati þeirra sem til þekkja leiða til sparnaðar í lyfjakostnaði.

Með svona mikilli hækkun á erlendum gjaldeyri sér hver maður hversu fráleitt það er að flytja í miklu magni vatn til að nota sem innrennslisvökva fyrir lyf inn til Íslands sem á svo mikið af hreinu og góðu vatni. Það er mikill áhugi á að framleiða slíkan vökva, eins og hv. þm. Þuríður Backman nefndi áðan. Skoðað hefur verið að gera það í samstarfi við Færeyinga en einnig hafa ein þrjú bæjarfélög lýst yfir áhuga á því við ráðuneytið að undanförnu að koma að slíkri framleiðslu. (BJJ: Grenivík.) Þrjú sveitarfélög. Fyrst hv. þm. Birkir J. Jónsson nefnir Grenivík, sem mun vera í Norðausturkjördæmi —„tilfældigvis“— vil ég nefna hin tvö sem eru Akranes og Höfn í Hornafirði. Auk þess hafa verið viðræður í gangi við Færeyinga eins og ég sagði.

Hvað tækniþróun varðar og tækifæri í þeim efnum eru rafrænir lyfseðlar auðvitað til mikils sparnaðar en ekki síður öryggis í þessum efnum. Framkvæmdanefnd er að störfum við að undirbúa lyfjastefnu til 2012. Þessar aðgerðir eru allar í farvatninu eða í gangi og lúta að því að lækka lyfjakostnað og auka öryggi í lyfjatilvísunum og -notkun.

Þó verður líka að segjast eins og er að á undanförnum árum hefur verið unnið að drögum að nýjum lyfjalögum sem kominn er tími á. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lyfjalögunum og einnig hafa orðið breytingar á EES-reglum. Nýrri lyfjastefnu sem er í mótun þarf að finna farveg inn í lyfjalögin. Ég tel að það sé orðið brýnt að ljúka vinnu við frumvarp að heildarlyfjalögum sem yrði lagt fyrir Alþingi og þá mun væntanlega gefast færi á að ræða þetta mál allt í stóru samhengi.

Ég vil segja að lokum að ég tel ekki rétt að láta þessa lagagrein niður falla. Ég tel mjög rangt og held að það væru röng skilaboð sem send væru út í samfélagið ef lyfjaverð ætti að hækka 1. janúar nk. Þetta frumvarp fjallar um að lyfjaverð í apótekunum til þeirra sem hafa notið afsláttar þar, sérstaklega til þeirra félagasamtaka sem hafa samið um slíka afslætti eins og Hjartavernd, hækki ekki 1. janúar með því að greinin um bann við slíkum afsláttum taki gildi. Ég vil því hvetja til þess að hv. heilbrigðisnefnd fari ekki einungis vel yfir málið og taki sér dágóðan tíma í það eins og hér hefur verið nefnt heldur þvert á móti fari hún vel yfir það en reyni að tryggja um leið að það geti orðið að lögum fyrir 1. janúar nk. til að koma í veg fyrir að lyfin hækki.

Ég vil að lokum segja, frú forseti, að ég tel mjög mikilvægt að koma á réttlátara greiðsluþátttökukerfi, ekki síst hvað varðar lyfin en einnig lækniskostnaðinn, með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn háum og vaxandi kostnaði. Ég mun nýta þá vinnu og þau gögn sem kennd eru við svonefnda Pétursnefnd í þeirri vinnu.



[16:53]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar ræðu. Ég kannaðist held ég við öll þau mál sem voru tilgreind. Allt eru þetta mál sem við vorum að vinna að og margt er komið mjög langt á veg. Það er gaman að heyra að 60 lyf séu komin í gegnum Svíþjóð. Þegar ég fór frá 1. febrúar voru þau eitthvað færri. Einnig er mjög gott að menn séu komnir í samstarf við Noreg um innkaup. Það er búið að vinna að því mjög lengi og síðast þegar ég, sem ráðherra, talaði við norska ráðherrann var hann tilbúinn að ganga í það að því gefnu að þetta mundi ekki ganga upp fyrir öll Norðurlöndin sem heild. Þó að það sé slæmt að þetta hafi ekki getað gengið eftir, sem er væntanlega niðurstaðan, er samt mjög gott að gera þetta með Noregi og það mun án nokkurs vafa skila okkur hagstæðari innkaupum.

Varðandi innrennslisvökvann þá hvet ég menn til að skoða sérstaklega samstarfið við Færeyjar, sem og aðra. Færeyingar eru í sérkennilegri stöðu því að þeir eru með lægra lyfjaverð en við Íslendingar þótt þeir séu mun fámennari þjóð. Ýmislegt fleira mætti nefna og þetta er þannig umræða að ég klára ekki að fara yfir hana á þessum tveimur mínútum.

Hins vegar er ákveðinn misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Menn töldu ekki að það að lækka eða afnema afslættina í smásölunni mundi hækka verðið. Þegar þeir afnámu afslættina á heildsölu hækkaði það ekki verðið, það lækkaði verðið. Menn vildu gera þetta allt saman í einu ef einhvers staðar gæti það leitt til þess en í heildina var talið að með því að afnema afslætti yrði samkeppnin skilvirkari, þetta yrði gegnsærri markaður og menn þyrftu þá smám saman að keppa í verði. Með öðrum orðum vildu menn reyna að lækka verðið, alveg sama hvort það er til hjartasjúklinga eða annarra. Það er mikilvægt að við höfum það í huga þegar um þetta er rætt. Svo sannarlega lögðu menn ekki af stað í þessa vegferð til að hækka verð hjá sjúklingum.



[16:55]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð. Það er rétt sem hann segir að það er ekkert nýtt undir nálinni hér. Þessi verk sem ég var að lýsa hafa verið og eru í forgrunni í vinnu í heilbrigðisráðuneytinu og hafa verið á verkefnalista ráðherra, ekki aðeins frá tíð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heldur einnig fyrir hans tíð, og verða væntanlega eftir að nýr ráðherra tekur við af þeirri sem hér stendur vegna þess að þetta eru mikilvæg mál og þau taka langan tíma.

Við erum í reynd komin aftur í utandagskrárumræðurnar frá í dag. Við erum farin að tala um samstarfið við nágranna okkar á Norðurlöndum og það er vel. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði að sá árangur sem stefnt var að með afsláttarfrumvarpinu á sínum tíma hefur náðst án þess að afslættir yfir borðið hafi verið bannaðir. Mér er gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig það má vera — ef félag eins og Hjartavernd hefur samið við apótekara í landinu um að fá 10–15% afslátt af lyfjum til sinna félagsmanna en það er bannað með lögum sem eiga að óbreyttu að taka gildi 1. janúar nk., hvað gerist þá? Lyfin hækka. Til að koma í veg fyrir það, frú forseti, er þetta frumvarp flutt.



[16:57]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög einfalt og ágætt að rifja upp hver var verkefnalisti hvers ráðherra fyrir sig því það er misskilningur að þetta gerist allt saman af sjálfu sér. Menn þurfa að vera mjög einarðir í þessu og ég get alveg listað upp hvaða verkefnum ég vann að og þess vegna tilgreindi ég þau sem hér komu fram.

Ég fékk þau skilaboð þegar ég kom inn í ráðuneytið að það væri ekki hægt að lækka lyfjakostnað. Því fer víðs fjarri að menn þurfi ekki pólitíska forustu til að fara í þessi mál. Nákvæmlega sömu rökin voru notuð og hæstv. ráðherra nefndi þegar við komum að því að afnema afsláttinn í heild sinni. Menn sögðu: Það eru afslættir í gangi. Um leið og þú bannar afslætti hækkar verðið. Það gerist ekki þannig. Sérstaða þessa markaðar er mjög mikil.

Hv. þm. Þuríður Backman fór ágætlega yfir þetta gríðarlega flækjustig sem er á þessu. Þetta er ekki gagnsætt og við Íslendingar ættum að þekkja hvað gagnsæi skiptir miklu máli, ekki bara á þessu sviði heldur mörgum öðrum. Smásalar munu keppa um að fá sjúklingasamtök og aðila þeirra inn á sitt borð. Út á það gengur málið. Það hvarflaði ekki að neinum manni að það að afnema afslætti, og það er ekki reynsla þeirra þjóða sem hafa afnumið afslætti, að það leiði til hækkunar fyrir sjúklinga. Þvert á móti. Hins vegar er alltaf hætta á því þegar farið er í kerfisbreytingu sem þessa í einhverjum lyfjaflokki að þær muni ekki skila sér. Þess vegna sögðu menn: Við skulum þá taka kostnaðarþátttökukerfið í einu þannig að við girðum fyrir öll slys í þessu. Með því að afnema afslættina höfðu menn ekki áhyggjur af því að það mundi hækka verðið til sjúklinga.



[16:59]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag að þingmenn hafa hingað til frá árinu 2008 verið sammála um að fresta gildistöku þessa ákvæðis sem hér um ræðir sem er bann við afsláttum yfir borðið. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur ítrekað bent á að forsendan fyrir frestun í þrígang á gildistöku ákvæðisins sé einmitt sú að það þurfi breytingu á greiðsluþátttökukerfinu. Að óbreyttu munu þessi lög taka gildi 1. janúar nk. Breyting á greiðsluþátttökukerfinu verður ekki orðin að veruleika þá. Árangur hefur náðst sem stefnt var að með breytingum á lyfjalögunum árið 2008 og því hvet ég hv. þingmenn og hv. heilbrigðisnefnd til að tryggja að lyfjaverð hækki ekki yfir borðið 1. janúar nk. með því að samþykkja þetta frumvarp.



[17:00]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Mér finnst hins vegar ómögulegt að enda umræðuna með þessum hætti þótt ekki sé loku fyrir það skotið að einhver annar endi hana en ég.

Ég lít svo á að í fyrsta lagi þurfi að horfa á þetta í stóru samhengi. Síðan er spurningin hvort við höldum áfram að fresta þessu ákvæði og höldum okkur þá við þá stefnu að ætla að breyta kostnaðarþátttökukerfinu. Mér finnst þetta í rauninni vera spurning um það, hvort við ætlum að breyta kostnaðarþátttökukerfinu og halda okkur við það og þá stefnumörkun sem var lagt upp með og séum með ákveðna svipu á okkur því að það þarf ansi mikið til að svo megi verða. Ég held að við verðum að ræða í fullri alvöru hvort við ætlum að halda okkur við það að breyta kostnaðarþátttökukerfinu sem öll sjúklingasamtök mér vitanlega hafa farið fram á eða hvort við ætlum að gefa það upp á bátinn um einhverja framtíð. Mér finnst málið snúast um það. Ég á von á að við munum fara yfir þetta í góðu tómi í nefndinni og síðan í þingsal ef svo ber undir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til heilbrn.