138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi, frh. fyrri umræðu.
þáltill. UBK o.fl., 13. mál. — Þskj. 13.

[20:00]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög þarft mál, raunverulega áskorun Alþingis til ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir því að hvatt sé til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Þingsályktunartillagan skiptist í þrennt, í fyrsta lagi setningu rammalöggjafar um fjárfestingu erlendra aðila, í öðru lagi að gerð verði áætlun um orkuafhendingu til a.m.k. fimm ára og alltaf liggi fyrir plan um hvernig hægt sé að afhenda orku til þetta langs tíma og í þriðja lagi endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram að gefnu tilefni. Hvað varðar fyrsta þáttinn, setningu rammalöggjafar um fjárfestingar, er málum nú svo háttað hér að ef um er að ræða stórar erlendar fjárfestingar sem þarfnast einhvern veginn atbeina hins opinbera þarf að setja lög um þá fjárfestingu á Alþingi með öllum þeim undanþágum og þeirri smurningu sem þarf að setja á þá fjárfestingu. Það er tímafrekt ferli. Þetta er ferli sem oft verður bitbein stjórnmálamannanna.

Ástæðan fyrir því að við viljum setja upp rammalöggjöf sem síðan yrði fylgt eftir með reglugerðum um hvert og eitt verkefni í ráðuneytum er sú að hér vantar núna mjög sárlega erlendar fjárfestingar til að afla okkur gjaldeyristekna, m.a. gjaldeyristekna til að standa undir öðru máli sem er á dagskrá hins virðulega Alþingis núna, Icesave-málinu. Með því að hér verði sett rammalöggjöf er það trú okkar flutningsmanna að það verði til þess að liðka fyrir fjárfestingu. Þá er betur hægt að sýna áhugasömum fram á það umhverfi sem Íslendingar búa við.

Í öðru lagi er þetta með orkuafhendinguna. Eins og staðan er núna og hefur verið mörg undanfarin ár er alls ekkert á hreinu hvenær er hægt að afhenda orku, hversu mikla orku er hægt að afhenda o.s.frv. Á þessu teljum við flutningsmenn að þurfi að ráða bót og leggjum til að hér sé alltaf til áætlun til a.m.k. fimm ára um hvaða kostir liggi fyrir og hvað sé hægt að bjóða fram af orku.

Það er algjörlega ljóst að orka er ein okkar mesta auðlind og hún er vannýtt núna, bæði orkan úr fallvötnunum og orkan úr iðrum jarðar, þ.e. jarðhitinn. Við leggjum mikla áherslu á að þessi orka verði nýtt, öllum Íslendingum til hagsbóta og til að tryggja okkur góð og mannsæmandi lífskjör í landinu.

Í þriðja lagi er endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Eins og ferlið er sett upp núna tekur langan tíma að fara í gegnum umhverfismat með framkvæmdir. Það eru margir þröskuldar sem þarf að stíga yfir. Það eru kærufrestir á hinum og þessum stöðum í ferlinu og síðast en ekki síst, eftir að þessu ferli er við það að ljúka, kemur til kasta pólitíkusa þar sem þeir geta haft pólitíska íhlutun í málið. Ferlið var sett upp þannig að faglega yrði tekið á hverju og einu verkefni.

Því miður hafa dæmin á þessu ári og því síðasta sýnt að freistingin fyrir stjórnmálamennina til að grípa inn í þetta ferli virðist vera of mikil til að þeir standist það. Þá er ég með í huga tilviljanakennda ákvörðun um að mögulegt álver á Bakka og orkuver á Þeistareykjum skyldu fara í sameiginlegt umhverfismat, en það setti mikla óvissu í það mál og allt útlit er fyrir að sú ákvörðun hafi leitt til þess að framkvæmdinni var frestað. Slík framkvæmd á þeim tíma hefði núna skipt gríðarlega miklu máli fyrir okkur Íslendinga, en það varð ekki af henni vegna þessara tilviljanakenndu ákvarðana. Það er augljóst að þetta má ekki gerast.

Annað dæmi sem ég get nefnt er nýtt, þegar umhverfisráðherra virtist taka ákvörðun um að Suðvesturlína og Helguvík færu í sameiginlegt umhverfismat og það var ekki út frá málefnalegum sjónarmiðum. Sú ákvörðun setti þá framkvæmd alla í uppnám. Þegar erlendir aðilar eru hvattir til að fara út í fjárfestingar á Íslandi er mikilvægt að allir þessir hlutir liggi skýrt fyrir til að óvissa þessara fjárfesta sé sem minnst, að þetta sé gagnsætt ferli, ekki tilviljanakennt og ekki háð pólitískum duttlungum.

Þessi þingsályktunartillaga miðar að því að skýra það umhverfi sem erlend fjárfesting býr við á Íslandi til að auðvelda hana þannig að allir Íslendingar fái notið, eins og ég sagði áðan.

Fleiri þættir koma til. Í þeirri glímu sem ríkisstjórnin á nú við í sambandi við ríkisfjármálin hafa komið upp alls konar hugmyndir um hvernig mætti loka fjárlagagatinu. Það hafa komið upp hugmyndir um orkuskatta sem mundu leggjast á alla þar sem álfyrirtækin stæðu undir u.þ.b. 75% af þeim skatti. Það hafa komið upp hugmyndir um auðlindagjöld sem snúa þá að því að reyna að skattleggja kolefni. Öllum þessum hlutum er hent tilviljanakennt inn í umræðuna sem setur mikla óvissu í allar áætlanir erlendu fjárfestingaaðilanna. Það letur þá eða hamlar fjárfestingu sem er bagalegt. Þessu þarf auðvitað snarlega að breyta og koma hér fram af miklu heildstæðari, gagnsærri og, ef maður á að sletta, meira „professional“ hætti gagnvart erlendum fjárfestum.

Við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu teljum gríðarlega mikilvægt að taka á þessum þrem liðum, þ.e. setningu rammalöggjafarinnar um fjárfestinguna, áætlun um orkuafhendinguna og endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Við skorum á ríkisstjórnina að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem koma hér fram.



[20:10]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt það er að koma hinum margfrægu hjólum atvinnulífsins aftur af stað, svo mikið er undir fyrir íslenskt þjóðarbú. Má með sanni segja að lausn þess efnahagsvanda sem við búum nú við sé öll einmitt á þeim punktinum, hún hverfist öll um þann sama punkt, að koma aftur efnahagslífinu af stað, koma skattstofnunum í það ásigkomulag að þeir geti staðið undir þeirri þjónustu sem við viljum veita á vettvangi hins opinbera og að á Íslandi megi áfram bjóða upp á lífskjör sem eru samkeppnishæf við það besta sem gerist í löndunum í kringum okkur. Það er engin ástæða til að ætla annað en að hægt sé að sigrast á því verkefni sem fram undan er. Við erum með tækin og tólin í höndunum og þau tækifæri sem við okkur blasa gefa okkur ástæðu til að ætla að þrátt fyrir allt sé bjart fram undan á Íslandi.

Vil ég þar m.a., frú forseti, vitna í ummæli ágætra hagfræðinga sem hingað til lands hafa komið til þess að skoða hér aðstæður og gefa ráð, m.a. þess hagfræðings sem var hér fyrir skemmstu og hefur notið töluverðrar frægðar á alþjóðavettvangi, Josephs Stiglitz. Hann sagði í viðtali við írska fjölmiðla eigi fyrir svo löngu að menn skyldu horfa til Íslands, Íslendingar ættu alla möguleika á því að vinna sig hratt út úr kreppunni, m.a. vegna þess að við búum við þá stöðu að þó að ákveðið vandamál felist í því að gengi gjaldmiðilsins hrundi kemur á móti að útflutningsatvinnuvegirnir, framleiðslan í landinu, ferðamennskan og ýmislegt annað er nú í mikilli sókn og á mikil tækifæri í vændum. Þetta eigum við að horfa á. Til þess að allt þetta megi gerast, til þess að þessi tækifæri verði nýtt, til þess að hjól atvinnulífsins fari nú aftur að snúast, til þess að skattstofnarnir braggist þarf auðvitað ríkisstjórnin að haga sínum málum af skynsemi. Það þarf að leggja réttan grunn og það þarf að grípa til réttra aðgerða til að við náum þessum árangri. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn, þó að við séum í stjórnarandstöðu, t.d. lagt fram mjög umfangsmiklar efnahagstillögur þar sem við förum nákvæmlega yfir það með útreikningum og tillögugerð hvernig brúa megi gat ríkissjóðs og hvernig megi leysa þann gjaldeyrisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum einnig flutt ýmsar hugmyndir um skattheimtuna sérstaklega og annað það sem til betri vegar má horfa í atvinnulífi okkar Íslendinga. Meðal annars ræddum við í þingsölum í gær áskorun margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og margra hv. þingmanna Framsóknarflokksins um að ríkisstjórnin drægi til baka hugmyndir sínar og fyrirætlanir um afskrift og fyrningu aflaheimilda sem hefur nú þegar sett einn meginatvinnuveg þjóðarinnar í heilmikinn vanda.

Sú þingsályktunartillaga sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja hér fram ber þess merki að reynt er að koma einhvers konar skipan á þessi mikilvægu mál sem lúta að erlendri fjárfestingu inn í okkar hagkerfi. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að akkúrat svona hugmyndir nái fram að ganga vegna þess að það er það sem við þurfum núna svo mjög á að halda, að erlendir aðilar komi hingað til landsins með sitt fé og fjárfesti hér fyrst og síðast í framleiðslu. Við tókum jú inn alveg gríðarlegt magn af lánsfé, m.a. vegna stefnu Seðlabanka Íslands sem byggði peningamálastjórn sína á miklum vaxtamun milli Íslands og umheimsins sem kallaði inn í landið alveg gríðarlegt erlent lánsfé sem við stöndum nú frammi fyrir að vill leita aftur úr landinu og við þurfum að borga til baka. Setur það heilmikla pressu á gengi krónunnar og til þess að létta á henni, til þess að við eigum m.a. betri möguleika á að borga þær miklu skuldbindingar sem við svo sannarlega virðumst ætla að gangast undir vegna Icesave-samninganna, þurfum við framleiðslu. Þá þurfum við útflutning. Og hluti af því er einmitt að fá til landsins erlent fjármagn til að byggja upp framleiðslu með okkur, til að nýta þær auðlindir, orkuauðlindir og aðrar, sem við eigum og er það ekki síst hin mikla menntun sem íslenska þjóðin býr yfir, að nýta þá miklu menntun til auðsköpunar þannig að við getum, eins og ég sagði í upphafi máls míns, frú forseti, boðið á Íslandi upp á lífskjör sem eru jafnfætis og standast samanburð við það besta sem gerist í löndunum í kringum okkur.

Að mínu mati hefur verið farið hér nokkuð vel í gegnum einstök efnisatriði þessarar þingsályktunartillögu. Hún snýr auðvitað að almennri rammalöggjöf utan um erlendar fjárfestingar. Kannski í því samhengi, af því að við erum að ræða um erlenda fjárfestingu í auðlindum, vil ég nota tækifærið og velta því hér upp að við skoðum það þá á vettvangi þeirrar nefndar sem fer með þetta mál, það þarf líka reyndar að ræða það í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hvort ekki sé rétt að við íhugum að breyta reglum sem gilda um fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Það sem ég horfi sérstaklega til er fiskvinnslan. Getur verið ástæða til að hleypa fjármagni meira inn í fiskvinnsluna? Ég held að nokkuð góð samstaða sé um það á þingi og hjá þjóðinni allri að við viljum ekki erlenda eignaraðild að fiskveiðikvótanum. Hvað varðar fiskvinnsluna sjálfa, m.a. fullvinnslu sjávarfangs þannig að hægt sé að flytja það beint inn á neytendamarkað í Evrópu eða í Bandaríkjunum eða hvar sem verkast vill, er alveg ástæða til að velta fyrir okkur hvort við eigum ekki að opna inn á slíkar fjárfestingar. Það kann að vera heilladrjúgt að kalla inn erlent fjármagn sem við þurfum svo sannarlega á að halda og ég sé ekki neina sérstaka hættu fólgna í því að við hleypum slíku fjármagni inn í sjávarútveginn. Það mundi efla greinina mjög að mínu mati og gera henni enn betur fært að standa undir þeim skuldum sem hún nú þegar býr við. Væri slík ákvörðun í fullkominni andstöðu reyndar við allar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem virðist stefna að því einna helst að breyta þeim tækifærum sem við höfum nú í sjávarútveginum yfir í það að gera sjávarútveginn að sérstöku efnahagsvandamáli, eins og kannski var að hluta til á árum áður.

Þegar saman er tekið er það sem skiptir þá máli, bæði í þessari umræðu og almennt um efnahagslífið, það að hér sé einmitt settur rammi utan um svona hugmyndir eins og ég reifa varðandi fjárfestingar útlendinga inn í sjávarútveginn með takmörkuðum hætti eða inn í orkuiðnaðinn eða hvað það er sem við erum að horfa á. Aðalatriðið er að það sé skýr og skilmerkilegur rammi utan um þetta sem menn geta gengið að og treyst.

Og það vildi ég gera að lokaorðum mínum að það er vont til þess að vita að nú sé farið að ræða það, m.a. á meðal erlendra fjárfesta sem hafa tjáð sig um þetta mál hér á Íslandi, að það sé orðið erfitt að treysta því hvað íslensk stjórnvöld ætli sér að gera frá degi til dags í þessum málum, það sé ekki full vissa um að íslenska stjórnkerfið virki þannig að menn geti treyst því. Það gerir það að verkum að menn hika við að fjárfesta á Íslandi og þegar menn fjárfesta hér krefjast þeir um leið hærri vaxta fyrir fjárfestingu sína vegna þess að það myndast hægt og rólega það sem kallað er „pólitískt álag“ á okkar land, það sé hætta fólgin í pólitísku stöðunni sem gerir það að verkum að menn krefjist hærri vaxta fyrir fjárfestingu sína. Það er alvarlegt mál sem mun draga hér úr hagvexti og minnka möguleika á því, frú forseti, að vinna okkur hratt og örugglega út úr þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir, af því við eigum svo sannarlega alla möguleika á því. Það eru allir möguleikar fyrir okkur í þessum málum, við höfum auðlindirnar, við höfum fólkið og við höfum viljann. Það er bara að virkja þennan vilja og leyfa þjóðinni að grípa þau tækifæri sem eru til staðar. Til þess þarf stjórnvöld sem vinna af skynsemi og af festu til að tryggja það að við komumst út úr þeirri kreppu sem nú er við að eiga.



[20:20]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég hugsa að margir hefðu getað hugsað sér að vera á þingmáli sem þessu vegna mikilvægis þess fyrir atvinnulíf okkar, uppbyggingarstarfsemi og starf sem fram undan er. Hv. þm. Illugi Gunnarsson minntist í lokaorðum sínum á tækifæri Íslands og hvaða möguleikar væru fyrir íslenskt samfélag og íslenska þjóð til að vinna sig út úr því ástandi sem nú er. Tek ég undir það heils hugar. Einn af stærri vöndum, nei, eitt af helstu vandamálum íslensks þjóðfélags í dag — það má svo sem kalla það vendi, refsivönd íslensks samfélags, það er ríkisstjórnin — er ákvarðanafælni og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Mats Josefsson lýsti vel hér á ráðstefnu um erlenda fjárfestingu ástæðum þess að hann teldi að ekki væri búið að endurreisa bankakerfið. Hann sagði að það væri m.a. ákvörðunarfælni, það væri ekkert skipulag á því hver ætti að taka ákvörðun um hvaða hluti og slíkt. Það virðist vera einkenni þessarar ríkisstjórnar að geta ekki tekið ákvarðanir. Því miður eru svo þær fáu ákvarðanir sem eru teknar yfirleitt til skaða eða alveg kolrangar.

Traust á stjórnvöldum er eitt af mikilvægu atriðunum. Á sömu ráðstefnu og ég nefndi áðan var erlendur fjárfestir sem margir kannast við og er í forsvari fyrir fyrirtæki sem heitir Magma Energy spurður hver væri helsti galli eða hvað væri hægt að gagnrýna varðandi það að koma til Íslands. Hann lýsti Íslandi í mörgum fögrum orðum og taldi að við hefðum allt upp á að bjóða til að laða að fjárfesta og við ættum klárlega framtíð fyrir okkur og þyrftum í rauninni að vera óhrædd við að fara í ný verkefni, en það sem væri kannski helst vandamál væri að stjórnvöld væru ekki nógu gestrisin í raun þegar erlendir fjárfestar kæmu til landsins. Hvort það er dæmi um litla gestrisni að svara ekki tölvupóstinum fræga sem barst frá Japan eða einhvers staðar að sem var um fjárfestingu upp á 120 milljarða eða þaðan af meira og síðan viðtökurnar þegar fjárfestir kom frá Kanada, látum vera í hverju hann ætlaði sér að fjárfesta. Það var ekki tekið viðeigandi á móti honum.

Vandinn við þetta er ekki sá að það sé tekið illa á móti einhverjum einum manni. Þetta eru atvinnufjárfestar, þetta eru erlendir aðilar og þeir fara út um allt og leita sér að fjárfestingu. Ef orðspor Íslands er með þessum hætti erlendis fælir það vitanlega frá aðra fjárfesta. Ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr þurfi aðeins að taka til hjá sér varðandi þessi mál.

Frú forseti. Í ályktuninni sjálfri kemur m.a. fram að ætlunin sé að auðvelda fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Síðan eru í þremur liðum ræddir helstu áherslupunktar varðandi það. Af þessum þremur eru a.m.k. tveir, held ég, sem munu ekki síður gagnast íslenskum fjárfestum í íslenskum fyrirtækjum eða aðilum sem vilja byggja hér upp eða ráðast í fjárfestingar. Það eru þá liðir b og c varðandi það að gera áætlun um orkuafhendingu og varðandi endurskoðun lagaákvæða um ferli mats á umhverfisáhrifum. Ég hef hugsað töluvert um það þegar sagt er í ræðustól Alþingis og annars staðar að við þurfum að koma okkur upp einhvers konar banka með orku, eiga 300–400 megavött á lager til að bjóða fyrirtækjum upp á, og held að það sé hárrétt. Við þyrftum að geta gert þetta en ég velti fyrir mér hvernig við eigum að gera þetta, hvernig við eigum að hafa efni á að koma upp þessum banka í rauninni. Það kostar væntanlega tugi eða hundruð milljarða að koma upp slíku fyrirbæri og halda því við. Og hver á að bera þann kostnað sem því fylgir? Það getur vel verið að hægt sé að tryggja lágmarksaðgang að orku í kerfinu með hverri virkjun þá, það sé alltaf eitthvað eftir eða eitthvað slíkt, það kann að vera, en einhver mun þurfa að borga fyrir þetta og þá verða það væntanlega neytendur og notendur sem munu borga fyrir þetta á endanum. Ég sé ekki fyrir mér að ríkissjóður eða orkufyrirtækin geti gert það. En hugsunin er góð og ég get tekið undir að það væri æskilegt ef það væri hægt.

Í greinargerð er farið yfir ýmsa vankanta á málum er snerta þá liði sem hér eru ræddir. Ég held að eitt af því sem mestu skiptir sé nákvæmlega þetta, það þurfa að vera skýrar reglur, skýr löggjöf, skýrir valkostir fyrir þá erlendu aðila sem hingað koma og vilja fjárfesta. Það á ekki að þurfa að þvæla þeim fram og til baka út um allar trissur, milli ráðuneyta, milli embættismanna, til þess að komast að einhverri niðurstöðu. Það getur verið að hér þurfi að grípa til einhverra stórkarlalegra breytinga á stjórnkerfinu og þá er það bara nokkuð sem þarf að skoða.

Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð sem þarf til að hvetja erlenda fjárfesta til atvinnusköpunar en ekki að setja upp óþarfa hindranir sem letja erlenda fjárfestingu.“

Þetta er vitanlega laukrétt, en ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að helsti tappinn varðandi fjárfestingar í dag sé stjórnvöld sjálf.

Síðan eru nefnd áhugaverð atriði á bls. 2. Þar segir, frú forseti:

„Undanþágur á virðisaukaskatti vegna innflutnings tölvubúnaðar fyrir gagnaver og staðfesting á að fyrirtækjaskattar verði ekki hækkaðir umfram tiltekin mörk eru nýleg en mikilvæg dæmi um atriði sem gætu skipt sköpum um árangur á þessu sviði.“

Ég held að ef við ætlum að hasla okkur völl, t.d. varðandi gagnaver af því að þetta snertir beinlínis þau miklu tækifæri sem þar eru, eigum við að skoða einmitt þessa hugmynd og skoða mjög vandlega hvort ekki eigi hreinlega að gera ákveðnar undanþágur varðandi innflutning á búnaði fyrir þessa starfsemi. Það eru gríðarleg vaxtartækifæri á Íslandi akkúrat fyrir þennan geira, mikil fjárfesting, mikil menntun, mikil tækifæri.

Ég verð hins vegar aðeins að segja að það er athyglisvert í hinum hluta textans sem ég las upp, sem er í sjálfu sér held ég bara ágætt, að það er ekki útilokað að hækka skatta á fyrirtæki, ef ég skil þetta rétt, en hins vegar er hvatt til að það sé gert mjög varlega. Ég held í sjálfu sér að atvinnulífið og fyrirtækin séu reiðubúin að taka á sig hærri greiðslur til samfélagsins meðan svona illa árar. En það er rangt að gera það með því að koma aftan að atvinnulífinu, skella á sköttum og gjöldum þvert ofan í fyrri yfirlýsingar og annað. Við eigum að sjálfsögðu að setjast niður og ræða við þessa aðila því að hef heyrt m.a. fulltrúa frá atvinnulífinu fara ágætlega yfir tillögur sínar á fundi í iðnaðarnefnd og þær voru margar hverjar mjög áhugaverðar um það hvernig þeir gætu tekið þátt í uppbyggingunni.

Að lokum legg ég áherslu á tvennt, annars vegar tek ég undir þennan lið þar sem rætt er um orkuafhendingu, að mikilvægt sé að geta boðið upp á beintengingu við orkuver án tenginga við Landsnet og eins að endurskoðun á gjaldskrá Landsnets og raforkulögunum verði flýtt. Það er ekki hægt, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt við okkur hér, að endurskoðun á raforkulögunum verði lokið einhvern tímann um mitt næsta ár eða hvenær það var. Það þarf að flýta þessu og klára þetta miklu fyrr til að hægt sé að nýta þessi lög sem best og þær reglur sem þurfa að vera.

Síðan tek ég hér allra síðast undir með greinargerðinni, með leyfi frú forseta:

„Því er mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á umhverfismatsferlinu í þeim tilgangi að gera það skilvirkara og gagnsærra.“

Hér eru orð að sönnu. Ég ætla ekki að halda því fram og veit að flutningsmenn halda því ekki fram að það eigi eitthvað að slugsa, ef ég má nota það orð, varðandi umhverfismatið. Hins vegar er örugglega hægt að stytta ferlið og ná samt fram þeirri vönduðu umfjöllun sem þarf vissulega að vera. Ferlið á ekki að vera sett upp með þeim hætti að það beinlínis komi í veg fyrir að menn sýni því áhuga að fara í fjárfestingar og atvinnusköpun, það er öfugt.



[20:30]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka þingmanninum fyrir hlý orð í garð þessa máls vegna þess að ég veit að hv. þingmaður er þessu algjörlega sammála. Þetta með orkubankann var ansi athyglisverð hugmynd en ég er sammála hv. þingmanni um það að erfitt er að sjá fyrir sér hver ætti að bera kostnað af því og þess vegna held ég að það sé betri leið sem verið er að leggja til í þessari þingsályktunartillögu, að það liggi fyrir áætlanir sem hægt er að grípa til um leið og orkukaupendur finnast, þ.e. að þá sé búið að fara með verkefnið í gegnum umhverfismat og fyrir liggi þær rannsóknir sem þarf að gera. Auðvitað kostar það fjárfestingu af hálfu orkufyrirtækjanna en það ætti að vera sá rannsóknar- og þróunarkostnaður sem orkufyrirtæki þurfa alltaf að leggja í, burt séð frá því nákvæmlega hvenær á að byrja að afhenda orku. Það ætti raunverulega að vera sá banki sem við hefðum, þ.e. svona áætlanabanki gætum við sagt.

Varðandi gagnaverin og virðisaukaskattinn þá ræddum við flutningsmenn það mál svolítið að það gæti jafnvel verið hugmynd að taka upp svipað fyrirkomulag og notað er í sumum þróunarlöndum, þ.e. eins og í Kína og Indlandi, að taka upp það sem kallað er „Special economic zones“ sem eru svæði sem eru undanþegin sköttum eins og virðisaukaskatti og öðru slíku, til að koma í veg fyrir vandamál eins og skapast í gagnaverunum með tölvubúnað og annað slíkt. Það gæti verið hugmynd.



[20:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera áhugavert að skoða þessa hugmynd eða þessa Afríkuleið með sérstök svæði en hins vegar sé ég fyrir mér, af fenginni reynslu úr sveitarstjórnarmálum og öðru, harðan slag þegar kemur að því að skipuleggja hvar svæðið eigi að vera og slíkt. En ég vil alls ekki slá neitt út af borðinu í þessu, við þurfum að hafa allar hugmyndir sem við getum uppi á borðinu til að koma hér af stað fjárfestingu.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að b-liður þingsályktunartillögunnar, um að gera orkuáætlun til fimm ára, gæti hugsanlega leyst þennan vanda að eiga ekki orku á lager, það lægi fyrir hvað yrði til á hverjum tíma, á hverju fimm ára tímabili og þá gætu aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta eða nýta orkuna notað tækifærið og gert sínar áætlanir út frá því og orkufyrirtækin einnig unnið út frá því.

Ég held að við eigum líka að vera óhrædd við að taka umræðu um það að skilgreina, eins og við held ég öll skiljum, þ.e. annars vegar að tala um auðlind og hins vegar nýtingu á henni. Ég sé fyrir mér að menn eigi að reyna að spýta í lófana með það að fá fjárfesta til að fjárfesta í orkunýtingarmannvirkjunum, þ.e. mannvirkjunum sem þarf til að nýta orkuna, og er þá að tala um virkjanir og annað sem þarf til. Ég held að það sé öllum ljóst og dragi það enginn í efa að ekki er verið að bjóða eða selja fjárfestum auðlindina sjálfa, það er að mínu viti nokkuð ljóst hver á hana, en það er sjálfsagt að leyfa fjárfestingar í mannvirkjunum sem nota orkuna.



[20:34]
Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna í dag um þessa tillögu til þingsályktunar. Umræðan hefur verið mjög góð og málefnaleg og það er greinilega mikil samstaða í þinginu um að þetta mikilvæga mál komist í gegnum þingið. Enda er það svo að það er mikilvægasta hlutverk okkar þingmanna að stuðla að því að hér skapist tækifæri sem leiða af sér fleiri störf, tækifæri sem jafnframt leiða af sér gjaldeyristekjur. Þetta mál beinir spjótum okkar að því að liðka fyrir að svo megi verða.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara yfir. Það var athyglisvert í ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að benda á að liðir b og c í þingsályktunartillögunni gagnist jafnframt innlendum fjárfestum og er það alveg laukrétt, enda er mikilvægt að þeir sitji við sama borð og aðrir.

Það eru einnig nokkur atriði í tillögunni sem mig langar að vekja sérstaka athygli á og ekki hafa verið rædd mikið í dag. Í fyrsta lagi varðandi umhverfismatsferlið. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé allt saman skýrt og að þeir aðilar sem hingað koma geti verið fullvissir um að íslensk stjórnvöld standi við þau lög og reglur sem gilda á Íslandi og unnið sé eftir þeim, vegna þess að við höfum rekið okkur á það að svo er ekki. Í ákveðnum tilvikum virðast vera einhver önnur sjónarmið þar að baki og má nefna sem dæmi að Sunnlendingar þurftu að sjá á bak stórri kísilverksmiðju sem stóð til að staðsetja í Ölfusi. Hún fór til Kanada þar sem ekki var hægt að fá staðfestingu á því í umhverfisráðuneytinu að staðið yrði við þá tímafresti sem gilda um umhverfismat í tengslum við þær framkvæmdir. Þetta er tiltölulega einföld spurning frá erlendum fjárfestum: Verður staðið við tímafresti í lögum? Því var ekki hægt að svara, þannig að þetta er verulegt vandamál sem þarf að taka á. Það er gríðarlega mikilvægt að byggja upp þetta traust sem hv. þingmenn hafa talað mikið um í dag, vegna þess að á því byggist vilji þeirra erlendu fjárfesta sem hingað vilja koma. Að sjálfsögðu verður að vera traust á því að staðið sé við þær ákvarðanir og þá samninga sem gerðir hafa verið.

Þess vegna er eðlilegt að þingheimur allur hafi logað hér þegar fjárlagafrumvarpið kom út þar sem var slegið fram skattahækkunartillögum á orkufyrirtækin, sem síðar reyndar var sagt að væri bara skot út í bláinn og ekkert stæði á bak við það og það var allt saman dregið til baka. En það er einfaldlega alvarlegur hlutur að setja svona hluti fram. Fjárlagafrumvarpið er að sjálfsögðu lesið af hagsmunaaðilum, þetta er frumvarp sem kemur beint frá ríkisstjórninni og að sjálfsögðu er það lesið og þetta kemur mönnum þannig fyrir sjónir sem starfa í þessum geira að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við gerða samninga. Það hefur ekki góð áhrif á það traust sem er nauðsynlegt að skapa m.a. til þess að laða að erlendar fjárfestingar. Þetta er gríðarlega alvarlegt atriði sem verður að kippa í lag. Sem betur fer hafa ekki allir misst trúna, enn er mikill áhugi hjá erlendum fjárfestum á að koma hingað til lands og taka þátt í endurreisn landsins, skapa tækifæri fyrir okkur og þau tækifæri verðum við að grípa með öllum tiltækum ráðum.

Orkan í iðrum jarðar er gríðarlega mikil og hér á landi eru margir hæfir vísindamenn sem eru í heimsklassa hvað varðar þau verkefni, hvergi í heiminum er til meiri þekking en einmitt hér á landi varðandi þessi mál. Þetta er einn af okkar helstu styrkleikum og þess vegna megum við ekki vera hrædd við að nota þessa styrkleika okkar. Að sjálfsögðu ber okkur að umgangast náttúruna af virðingu og fara yfir það, enda erum við með í gangi vinnu við rammaáætlun þar sem er ætlunin að leggja fram áætlun um hvar má virkja, hvar skal vernda og hvar má rannsaka. Við erum að sinna þeim málum, en það þarf líka að standa við ákvarðanir sem þar eru teknar og stuðla að því að við höfum getu til að lifa af landinu okkar og lifa með landinu okkar. Það má ekki vera þannig að hér megi ekkert hreyfa og hér megi ekkert gera vegna þess að það er einfaldlega pólitík sem ekki virkar.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið á það að sjálfsögðu að vera meginmarkmið í stjórnsýslunni að hún þvælist ekki fyrir þegar kemur að því að hrinda verkefnum af stað. Við höfum ekki efni á fleiri afgreiðslum eins og þeirri sem kísilverksmiðjan í Ölfusi varð fyrir. Það vekur hjá manni ákveðnar spurningar að enn hefur ekki fengist staðfest í umhverfisráðuneytinu aðalskipulag Flóahrepps, þar sem m.a. er fjallað um virkjanir í neðri hluta Þjórsár en líka fleiri atriði. Þar í sveit geta menn einfaldlega ekki framkvæmt vegna þess að hluti af sveitarfélaginu hefur aldrei verið settur í aðalskipulag, þar er hvorki hægt að gefa út byggingarleyfi né gera deiliskipulag fyrir byggð né nokkuð annað, vegna þess að aðalskipulagið hefur verið fast inni í umhverfisráðuneyti í marga mánuði. Ætli það séu ekki í dag, frú forseti, u.þ.b. 10 dagar síðan ég fékk svar hjá hæstv. umhverfisráðherra við þeirri spurningu minni hvenær til stæði að afgreiða það aðalskipulag í ráðuneytinu og svarið var að það væri alveg við það að gerast, það eru 10 dagar síðan og enn er ekkert að frétta. Sama er upp á teningnum varðandi aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps, þar er reyndar um einfaldara mál að tefla, þar er einfaldlega verið að breyta aðalskipulagi, en það skipulag er jafnframt fast í umhverfisráðuneytinu.

Það vekur athygli að í báðum þessum tilvikum eru virkjanir til umfjöllunar í aðalskipulagsbreytingunum og það vekur manni þær spurningar hvort það sé að þvælast fyrir í þeirri ákvarðanatöku sem umhverfisráðherra þarf að ráðast í. Þetta allt saman segir okkur að þetta eru viðkvæm mál, reglur þurfa að vera skýrar og það er öllum í hag að þeim reglum sé fylgt en þá þær þurfa náttúrlega að vera þannig að hægt sé að vinna eftir þeim. Það er ástæðan fyrir því að við höfum lagt það fram m.a. hér að ferlið við umhverfismatið verði skoðað.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist sérstaklega á þann kafla í þingsályktunartillögunni þar sem talað er um undanþágur á virðisaukaskatti vegna innflutts tölvubúnaðar fyrir gagnaver. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og rétt að við hugsum okkur hvaða fleiri hvatar það eru sem hægt er að leggja inn í slíka rammalöggjöf, þannig að hægt sé að skapa slíkar aðstæður hér að við séum ekki bara einn af vænlegum kostum á heimsvísu þegar verið er að horfa til staðsetningar á fyrirtækjum eins og gagnaverum o.s.frv., heldur að við séum sá álitlegasti. Við erum framarlega í flokki en til þess að vera fremst þurfum við að vera með skýrt umhverfi, við þurfum að vera með traust stjórnvöld sem standa við gerða samninga. Hér þarf að ríkja stöðugleiki og það þarf að vera algjörlega ljóst hvernig skattumhverfinu er háttað til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Nú ríður mikið á að stjórnvöld grípi þau tækifæri sem til staðar eru þannig að við náum að byggja upp enn og aftur öflugt og gott atvinnulíf og skapa störf fyrir það fólk sem því miður hefur misst vinnu sína. Ég hef fulla trú á því að þrátt fyrir þessa erfiðleika eigum við margar sterkar stoðir sem við skulum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, við erum ung þjóð. Hér er hátt menntunarstig, við eigum mjög færa einstaklinga á ýmsum sviðum, m.a. í jarðhitanum og orkunýtingunni. Hér eru grunnstoðir samfélagsins sterkar. Hér er t.d. mikið af hreinu, fersku vatni, sem er auðlind sem við skulum ekki gleyma og við skulum ekki vanmeta hana. Við eigum enn sterkan sjávarútveg og um hann þarf að standa vörð í stað þess að ráðast gegn honum með hugmyndum um fyrningu o.s.frv. Stærsta skylda okkar hér er að vera ekki hrædd við tækifærin, horfa fram á veginn og gera umhverfið þannig úr garði að hingað vilji fólk koma, hingað sé sjálfsagt að leita ef menn vilja staðsetja orkufrekan iðnað og að við séum mest spennandi landið í þeirri samkeppni.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til iðnn.