138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
staða minni hluthafa, fyrri umræða.
þáltill. EKG o.fl., 24. mál. — Þskj. 24.

[20:44]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stöðu minni hluthafa. Meðflutningsmenn mínir eru allnokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd sérfróðra manna sem móti tillögur er hafi það að markmiði að styrkja stöðu minni hluthafa (minnihlutavernd). Nefndin skili áliti sínu fyrir árslok.“

Þingsályktunartillagan hefur verið flutt tvisvar sinnum áður, fyrst á 136. löggjafarþingi, en þá komst hún ekki á dagskrá til umræðu og síðar á 137. löggjafarþingi, en þá var hún ekki afgreidd og er þess vegna endurflutt að nýju. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þrátt fyrir að tillagan hafi ekki verið afgreidd á 137. löggjafarþingi höfðu verið lögð fram álit og hafði verið leitað eftir umsögnum frá fjöldamörgum aðilum. Þær umsagnir höfðu borist og voru allar ákaflega jákvæðar.

Þessi tillaga er flutt að mjög gefnu tilefni. Í greinargerðinni sem henni fylgir er vísað til þess mikla taps sem mjög margir einstaklingar urðu fyrir á haustdögum 2008. Þar er rakið að áætlað sé að 47.000 einstaklingar hafi tapað nærri því 130 milljörðum kr. á einni viku vegna hlutafjáreignar í bönkum sem nú er verðlaus. Til viðbótar þessu töpuðu um 1.400 lögaðilar nærri því 920 milljörðum kr. af sömu ástæðum og bak við þau félög eru mjög margir einstaklingar, bæði smáir sem og stærri hluthafar. Því er ljóst að margir einstaklingar hafa tapað mjög miklum upphæðum. Talið er að tap hlutabréfaeigenda vegna hruns bankanna þriggja miðað við gengið eins og það var 26. september hafi numið rúmlega 1.000 milljörðum kr., hér um bil einni landsframleiðslu. Það er athyglisvert að í hópi þeirra sem töpuðu umtalsverðu fé voru 11.000 einstaklingar 65 ára og eldri sem töpuðu að meðaltali 3 millj. kr. eða alls 30 milljörðum kr.

Til viðbótar við þetta má nefna að gríðarlega mikil lækkun hefur orðið á markaðsvirði ýmissa annarra fyrirtækja sem að hluta til a.m.k. má rekja til bankahrunsins og þeirra verðlækkana sem hafa orðið á hlutabréfum. Enn fremur má vekja athygli á því að margar þessar eignir höfðu líka lækkað umtalsvert árið fyrir hrun. Þó að þær tölur séu ekki handbærar hér er ljóst að mjög margir hafa orðið fyrir miklu tapi þó vitaskuld verði að bera þetta saman af einhverri sanngirni í eðlilegu samhengi. Margir höfðu vissulega fengið mikinn hagnað vegna mikillar hækkunar sem síðan gekk til baka en alla vega er ljóst að það hefur orðið gríðarlegt tap hjá mjög mörgum einstaklingum út af þessu máli.

Margir hafa tilhneigingu til að afgreiða málin þannig að um sé að ræða tap þeirra sem helst mega við því, útrásarvíkinga eða annarra slíkra sem menn hafa takmarkaða samúð með, en þá verður að vekja athygli á því að við erum að tala um tugi þúsunda einstaklinga, 47.000 einstaklingar eru nefndir til sögunnar í greinargerðinni. Ljóst er að á undanförnum árum hafði það færst í vöxt að fólk með lágar tekjur, meðaltekjur og enn fremur það sem hafði hærri tekjur var farið að nota hlutabréfaeign sem hluta af fjölþættu sparnaðarformi og það var mjög eðlilegt. Þetta var í samræmi við það sem gerðist erlendis og þetta var æskileg og góð þróun. Hins vegar voru margir, og þeirra á meðal sá sem hér stendur, sem vöktu athygli á því að staða hinni minni hluthafa, einstaklinganna, væri alls ekki sem skyldi, staða þeirra væri á margan hátt veik. Það væri ýmislegt sem gerði það að verkum að réttur þeirra væri fyrir borð borinn, möguleikar þeirra til að fylgjast með, möguleikar þeirra til að átta sig á þeirri þróun sem væri að verða í hlutafélögunum væri ekki til staðar og ef stórir hluthafar kysu gætu þeir beitt litlu hluthafana ofríki sem aftur á móti ylli því að þeir ættu erfiðara um vik með að verja sig. Þess vegna hafði ég um það forgöngu á sínum tíma á árinu 2004, að ég hygg, á 130. löggjafarþingi, að flytja tvö frumvörp sem lögð hafði verið mikil vinna við að undirbúa, sem höfðu það að markmiði að reyna að treysta stöðu minni hluthafa. Þetta var á sínum tíma mál sem vakti talsverða athygli.

Því miður var það svo með þetta mál eins og sum önnur að það náði ekki fram að ganga. Menn höfðu svona jákvæð orð um það en engu að síður var það þannig að þau tvö frumvörp sem höfðu það markmið að stuðla að sterkari stöðu minni hluthafa náðu hvorugt fram að ganga. Þó var það ekki þannig að neinir sérstakir aukvisar væru meðflutningsmenn mínir í því máli. Ég ætla að telja þá aðeins upp og vekja athygli á því. Það voru: Halldór Blöndal, þáverandi forseti Alþingis, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, hv. þm. Hjálmar Árnason, þáverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, og loks hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, þáverandi og núverandi formaður Frjálslynda flokksins. Af þessu má ráða að það var gríðarlegur pólitískur vilji, þverpólitískur vilji, til þess að styðja við stöðu minni hluthafa og fyrir því voru þær ástæður sem ég nefndi. Bæði var það svo að mjög margir hluthafar, margir einstaklingar, sáu hag sínum vel borgið að reyna að taka þátt í fjölþættara sparnaðarformi. Þeir vildu líka taka þátt með óbeinum hætti í atvinnulífinu, kannski einstaklingar sem ekki kusu að vera beinir þátttakendur með því að vera stjórnendur eða hluthafar, meirihlutahluthafar í fyrirtækjum, heldur sáu þar möguleika á því að taka þátt með jákvæðum hætti í uppbyggingu atvinnulífsins, hafa kannski pínulítil áhrif á það hvernig atvinnulífið væri að þróast og kusu líka með þeim hætti að líta svo á að þeir væru með því að koma að með sitt eigið fjármagn inn í atvinnufyrirtækin og stuðla einnig að því að þetta yrði efnahagslega sterkara fyrirtæki.

Það er einmitt sérstaklega brýnt við núverandi aðstæður þegar við vitum að hlutabréfamarkaðurinn hefur beðið mikinn hnekki. Mjög margir einstaklingar hafa brennt sig á því að eiga hlutafé og margir einstaklingar eru núna mjög varkárir í meðferð síns fjár sem eðlilegt er svo sem, auðvitað eiga menn að vera varkárir á öllum stundum í þeim efnum. En við vitum líka að til þess að atvinnulífið geti vaxið þurfa menn að hafa ákveðinn vilja til áhættu og taka áhættu. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að búa lagaumhverfið þannig úr garði að það séu lög sem fólkið þekkir, treysti þeim leikreglum sem eru og treysti því að jafnvel þó það hafi ekki djúpa þekkingu á innviðum viðskiptalífsins og hafi kannski ekki mikla og yfirgripsmikla þekkingu á því hvað einstakar kennitölur í fyrirtækjarekstri þýði, þá telji fólk sig vera a.m.k. að því leytinu öruggt að leikreglurnar séu því í hag, leikreglurnar séu til þess fallnar að styðja við einmitt slíka einstaklinga sem ætlast ekki til þess að vera áhrifamenn í atvinnulífinu að öðru leyti en því að eiga þar dálítið hlutafé. Síðan hitt að vissulega geta líka verið tilvik í minni fyrirtækjum þar sem menn eru minni hluthafar, jafnvel þó þeir séu þátttakendur í atvinnulífinu með beinum hætti sem stjórnarmenn eða einhverjum öðrum hætti starfandi í atvinnulífinu eigandi þar dálítið hlutafé, hafa einhver áhrif en vera hins vegar í minnihlutastöðu. Allmörg dæmi eru um að slíkir einstaklingar hafi verið ofurliði bornir vegna þess að reglurnar sem eiga að verja þá eru ekki eins skýrar og nauðsynlegt er.

Á vissan hátt hefði verið freistandi að endurvinna þau frumvörp sem um er að ræða. Við vitum hins vegar að þessi mál eru býsna flókin og mjög margt hefur breyst á allra síðustu árum sem gefur okkur tilefni til að endurhugsa þessi mál og skoða þau mál í nýju ljósi. Þess vegna töldum við flutningsmenn að skynsamlegast væri og farsælast að hafa þennan háttinn á, flytja þingsályktunartillögu, vísa til tveggja frumvarpa sem almenn pólitísk samstaða væri um sem tóku með nokkrum sértækum hætti á tilteknum afmörkuðum þáttum, vísa til vísbendingar um að þar væri kannski einhver fyrirmynd sem mætti leita til en að öðru leyti fela þetta nefnd sérfróðra manna sem mótuðu um þetta mál tillögur.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel ekki ástæðu til að fara efnislega meira í gegnum tillöguna. Ég tel að málið sé af þeim toga að um það hljóti að geta myndast breið pólitísk samstaða. Ég get ekki ímyndað mér annað en menn sjái þýðingu þess í ljósi þeirra atburða sem hafa gerst á síðasta eina ári og rúmlega það, sjái þýðingu þess einmitt að koma til móts við þennan hóp og búa til, hvað á að segja, leikreglur sem geri það að verkum að fólk geti með sæmilegu öryggi, vitandi um það a.m.k. að leikreglurnar séu réttlátar, tekið þátt í atvinnulífinu. Allir vita auðvitað að því fylgir áhætta, það er ekki áhættulaust að fjárfesta í atvinnulífi, aldrei nokkurn tímann, það kennir reynslan okkur, en a.m.k. að fólk hafi þá fullvissu í huga sínum að leikreglurnar séu þannig að ekki sé verið að níðast á fólki í krafti þess að það hafi ekki aðgang að þekkingu eða vitneskju innan fyrirtækjanna og geti þess vegna ekki varið sig ef aðstæður breytast.

Virðulegi forseti. Ég vil eingöngu segja þetta í lokin. Málið hefur þá sérstöðu að nú hefur það verið rækilega unnið. Það hefur komið til nefndar. Nefndin hefur kallað eftir álitum. Álitin eru jákvæð. Við vitum líka að í þessum þingsal hefur á undanförnum vikum og í sumar verið mjög talað um að nú séu komin ný vinnubrögð, nýjar áherslur og það eigi einmitt að reyna að kappkosta að auka sjálfstæði þingsins og tryggja að mál af þessu tagi sem er þingmannamál, mál sem flutt er af almennum þingmönnum, stjórnarandstöðuþingmanni í þessu tilviki en byggir á frumvörpum sem höfðu breiðan pólitískan stuðning, að þingið sýni vilja sinn í verki með því að afgreiða það, sýni að það vilji á vissan hátt brjóta í blað og takast á við það að þingið hafi ákveðna forustu um breytingar á málum sem varða miklu við viðreisn efnahagslífsins, þó ég ætli ekki að segja að þetta sé eitt burðarmesta tillagan í þeim efnum, þá skiptir hún hins vegar miklu máli. Hún hefur þennan afmarkaða tilgang að byggja upp traust í þjóðfélaginu. Það er einmitt það sem við þurfum á að halda og það er einmitt það sem við höfum í málflutningi okkar, flestir þingmenn, verið að leggja áherslu á.



[20:56]
Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að við séum að leitast við að auka vægi þingmannamálanna í þinginu og því til staðfestingar get ég nefnt að ég hef beðið hérna hálfan daginn eftir að þessi þingsályktunartillaga yrði flutt í þinginu þar sem ég er formaður viðskiptanefndar. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að spyrja hv. þingmann hver sé að hans mati ástæðan fyrir því að fyrri frumvörp sem höfðu það að markmiði að bæta stöðu smærri hluthafa náðu ekki fram að ganga eða fengu ekki afgreiðslu í þinginu? Er ástæðan sú að um var að ræða þingmannafrumvörp?



[20:57]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega góðar viðtökur. Ég tel ástæðu til að binda vonir við að málið kunni að fá góða niðurstöðu í ljósi þess að hv. þingmaður er formaður viðskiptanefndar og ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga einmitt á málum af þessu tagi sem snúast um, eins og ég sagði áðan, að byggja upp traust í þjóðfélaginu sem ég held að skipti svo gríðarlega miklu máli.

En af hverju var þetta mál ekki afgreitt? Ég ætla að reyna að vera eins hreinskilinn í þeim efnum og ég get. Ég held að þarna hafi bara ríkt gamla — ég vil ekki segja góða gamla — vonda tregðulögmálið. Þetta var þingmannamál. Það voru hins vegar mjög miklar breytingar að eiga sér stað, það skal viðurkennt, um regluumhverfi viðskiptalífsins. Það var svo sem verið að taka á ýmsum afmörkuðum þáttum sem sneru að vernd minni hluthafa. Þessi frumvörp gengu lengra. Þrátt fyrir að þau almennt talað fengju góðar viðtökur, og fengu til að mynda ótrúlega mikil viðbrögð í þjóðfélaginu miðað við mál af þessu tagi, þá nægði það því miður ekki til þess að málið fengi nægilegan stuðning í þinginu. Ég man t.d. ekki eftir því þegar málin voru rædd að nokkur, og þar á meðal ekki þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, hefði neitt við efnisatriði frumvarpsins að athuga, vísaði að vísu til þess, ég tek fram að ég var í stjórnarliðinu á þeim tíma, að verið væri að vinna að þeim málum með einhverjum hætti í ráðuneytinu, en taldi hins vegar að þess vegna væri ekki tilefni til þess út af fyrir sig að afgreiða málið. Ég veit ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi beinlínis lagst gegn því en ég held að þarna hafi því miður verið hið gamla tregðulögmál á ferðinni sem oft og tíðum hefur komið í veg fyrir slík mál.



[20:59]
Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að þingsályktunartillagan mun passa mjög vel inn í þá vinnu sem viðskiptanefnd er núna í þar sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram nokkur frumvörp sem eiga að bæta stöðu hluthafa, ekki síst minni hluthafa. Má m.a. nefna að nefndin hefur núna til umsagnar frumvarp þar sem verið er að lengja boðunarfrest hluthafafunda sem ætti einmitt að gagnast smærri hluthöfum. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði hvað varðar upplýsingaskyldu þeirra sem boða hluthafafundinn.

Að lokum langar mig til að upplýsa hv. þingmann um að ég sé merki þess að þingsályktunartillagan sem kom fram í sumar hefur haft áhrif á störf ráðuneytisins og jafnvel meiri áhrif en hv. þingmann grunar og mun ég koma inn á það á eftir í ræðu minni.



[21:01]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmanni fyrir góðar viðtökur. Það er aðeins ein pínulítil viðvörunarbjalla sem hringir núna vegna þess að þetta sem kom fram um að unnið sé að þessum málum með ýmsum frumvörpum minnir mig dálítið á gamla tíma. Þegar ég lagði fram þetta frumvarp var vísað til þess að kannski væri ekki endilega þörf á því að afgreiða þessi frumvörp vegna þess að ráðuneytið væri að vinna svo gott verk. Ég efast ekki um að það hafi verið gert þá og efast ekki um að verið sé að því núna.

Síðan vil ég segja að hv. þingmaður hefur gefið mér ástæðu til að verða dálítið forvitinn og spenntur að vita hvert framhaldið verður á frásögninni af því hvernig ég hef haft mikil áhrif á stjórnarstefnuna án þess að vita af því. Það kemur mér náttúrlega þægilega á óvart. Þetta er eins og að lesa fyrir mann spennandi kafla úr sögu og hætta svo í miðjum klíðum, en eina ráðið sem ég hef er að stytta mál mitt núna og bíða þá aðeins skemur eftir framhaldinu á frásögn hv. þingmanns.



[21:02]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða mjög merkt og þarft mál. Það hefur komið fram hvílík þrautaganga það hefur verið að koma fram máli sem þessu eða skyldu máli. Í fljótu bragði virðast hafa setið a.m.k. fjórar, ef ekki fimm, ríkisstjórnir síðan byrjað var að ræða það.

Ég vil byrja á að lýsa því yfir að mér líst vel á málið og ég held að það sé mikilvægt að það fái býsna góða og hraða umfjöllun í viðskiptanefnd. Eins og ég sé það fyrir mér er aðalmálið að skipa þá nefnd sérfræðinga sem hér er talað um. Það ætti ekki að vefjast lengi fyrir þingheimi og nefndum að útbúa lýsingu á því hvað sú nefnd eigi að gera og fela henni að hefja störf. Ég hugsa að það væri í sjálfu sér gott ef það gæti orðið mjög hratt.

Það er gott að sjá í þessari þingsályktunartillögu að tiltölulega stuttur tími er gefinn í málið. Ég held að löggjafinn geri of lítið af því að setja framkvæmdarvaldinu strangan og skýran tímaramma varðandi verkefni sem við felum því og ég held að við ættum að skoða vandlega að taka upp þau vinnubrögð að setja framkvæmdarvaldinu ákveðinn ramma þannig að ekki sé hægt að þvæla málunum út í það óendanlega.

Ég ætla ekki að nýta allan ræðutíma minn, heldur eingöngu segja að ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái góða umfjöllun, sem ég treysti, í viðskiptanefnd eins og þau mál sem þangað er vísað núna. Það er gott til þess að vita að það er mikill áhugi í nefndinni. Ég vona að menn taki málið fyrir því að það er vissulega brýnt. Það er brýnt að tryggja hag þessara minni hluthafa. Ég skil þær hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar þannig að þá sé ekki hugsun um leið að leggja til að það sé endilega minnkaður réttur meiri hluta hluthafanna heldur sé skýrður sá réttur sem minni hluthafar hafa. Ég held að það sé mikilvægt að meiri hluti hluthafa hafi áfram eitthvert ákveðið vægi, fyrir það er hann meiri hluti. Hins vegar er mjög mikilvægt að ekki sé legið á upplýsingum og að það sé augljóst ferli í fyrirtækjunum um að það sé verið að upplýsa alla um ákvarðanir og slíkt. Ég held að þessi nefnd hljóti að skoða ýmsa aðra hluti ef af þessu verður sem ég vona svo sannarlega að verði mjög fljótlega.



[21:05]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég álít þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna vera mjög þarfa áminningu og ábendingu um veika stöðu minni hluthafa. Markmið með þessari tillögu er að tryggja að fram fari sérfræðivinna við það að skoða hver lagaleg staða smærri hluthafa er hér á landi samanborið við stöðu þeirra á Norðurlöndunum. Þetta er þá liður í því að skapa traust á íslensku atvinnulífi.

Eitt af því sem einkenndi Suðaustur-Asíuríkin sem fóru í gegnum fjármálakreppu í lok 10. áratugar síðustu aldar var einmitt veik staða minni hluthafa. Þetta einkenni á efnahagslífinu var talin mjög mikilvæg ástæða þess að fjármagn og völd söfnuðust á hendur fárra aðila, aðila sem nýttu stöðu sína til að vinna að eigin hagsmunum frekar en heildarhagsmunum hluthafa og samfélagsins.

Hrun bankakerfisins hér á landi hefur opnað augu margra fyrir nauðsyn þess að staða minni hluthafa verði styrkt. Þess má geta að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra boðaði við upphaf haustþings að hann mundi leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög í samræmi við skýrslu Lagastofnunar um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum. Með öðrum orðum hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lesið þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna frá því í sumar og látið fara fram könnun á því hvernig þessi minnihlutavernd er á Norðurlöndunum og á hvern hátt hún er frábrugðin þeirri sem hefur ríkt hér á landi. Það má segja að þegar sé lokið þeirri sérfræðivinnu sem lagt er til í þingsályktunartillögunni að fari fram. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur boðað nokkur frumvörp þar sem verið er að bæta minnihlutavernd í samræmi við niðurstöður þessarar skýrslu Lagastofnunar.

Ég velti fyrir mér hvort flytjendur ályktunarinnar séu kannski óánægðir með niðurstöðurnar í skýrslunni eða hvort ástæða þess að þingsályktunartillagan kemur nú fram sé sú að flytjendur hennar hafi ekki vitað af skýrslunni sem kom út í september. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er sú að ég er formaður viðskiptanefndar og þyrfti þá að vita hvort nefndin ætti að fara í einhverja frekari vinnu en þá sem von er á frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í formi frumvarpa.

Ég vil enn og aftur að lokum, virðulegi forseti, þakka sjálfstæðismönnum fyrir að koma fram með þessa þingsályktunartillögu þó að hún sé á þessari stundu kannski ekki jafnþörf og hún var í sumar þar sem að hluta til er búið að fara í þá vinnu sem lagt er til í ályktuninni að verði framkvæmd.



[21:10]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér liggur fyrir er ein af þeim tillögum sem sjálfstæðismenn hafa teflt fram á Alþingi til að styrkja grunn efnahagsstarfseminnar og til að leggja sitt af mörkum til að flýta allri endurreisn íslensks efnahagslífs. Mikilvægur þáttur í því er einmitt að byggja aftur upp traust á íslensku efnahagslífi og byggja upp traust á hlutafélagafyrirkomulaginu á hlutabréfamarkaði þó að það muni alveg örugglega taka tíma. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir hverja þjóð að öflugur hlutabréfamarkaður sé starfræktur til að tryggja að fyrirtæki hafi aðgengi að fjármunum og almenningur hafi tækifæri til að festa fé sitt í fyrirtækjarekstri. Það er mikil gæfa fyrir hverja þjóð ef það gengur vel af því að slíkt mun skapa betri lífsskilyrði fyrir allan almenning ef vel tekst til. En grundvöllur þess að vel takist til er að traust ríki um slíka starfsemi. Það skiptir miklu máli fyrir vernd minni hluthafa, hvort sem um er að ræða stór almenn fyrirtæki sem eru skráð á markaði eða minni fyrirtæki, fyrirtæki þar sem jafnvel eru fáir hluthafar, 3, 4, 5, 6 hluthafar. Sérstaklega við þær aðstæður skiptir staða minnihlutaeigenda máli. Og þegar kemur að nýsköpun í samfélagi okkar, stofnun fyrirtækja sem ráðast í nýsköpun, skiptir einmitt máli að þessir hlutir séu í lagi, menn geti treyst því að þeir geti farið inn í slík félög án þess að vera með ráðandi hlut og geti gengið að því sem vísu að geta náð hlutum sínum til baka og notið þeirra réttinda sem fylgja þeirri fjárfestingu sem viðkomandi aðilar hafa lagt í.

Varðandi þessi mál öll er auðvitað rétt að hafa í huga að á árinu 2004 skipaði viðskiptaráðherra nefnd sem ætlað var það hlutverk að fara yfir íslenskt viðskiptaumhverfi og koma fram með tillögur til að draga úr hringamyndun og til að bæta stjórnhætti íslenskra fyrirtækja, koma með tillögur að úrbótum. Formaður þeirrar nefndar var hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon. Sú nefnd skilaði áliti í september 2004 og meðal þess sem nefndin fjallaði sérstaklega um var vernd minni hluthafa í fyrirtækjum, hvað hægt væri að gera til að tryggja betur stöðu þessara hluthafa. Þar var m.a. lagt til, svo dæmi séu tekin, að settur yrði lágmarksfrestur hjá stjórn hlutafélags til að boða til hluthafafundar og leggja fram gögn, að sá frestur yrði lengdur, að upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar yrðu aðgengilegar hluthöfum fyrir hluthafafund, að skráðum félögum yrði skylt að gefa hluthöfum sínum kost á að greiða atkvæði bréflega með rafrænum hætti og að hlutafélögum og einkahlutafélögum yrði heimilt að halda rafræna hluthafafundi og stjórnarfundi, sem og að eiga rafræn samskipti við hluthafa sína o.s.frv. Síðan var þar heilmikið rætt um stöðu starfandi stjórnarformanna og ýmislegt annað. Þar komu einnig fram hugmyndir, og enn vitna ég í þetta álit, með leyfi forseta, um að stjórnum yrði gert „skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Mælt er með því að starfskjarastefnan verði leiðbeinandi fyrir stjórnir, en þeim verði skylt að greina frá því ef vikið er frá stefnunni og rökstyðja ástæður þess. Stefna varðandi kaupréttarsamninga skal þó vera bindandi fyrir stjórnir félaga“.

Rétt eins og ég nefndi áðan varðandi stjórnarformann hlutafélaga var lagt til að honum yrði „ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Stjórn félagsins getur þó falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina“.

Reyndar er rétt að taka fram að ekki var sátt um akkúrat þetta mál í nefndinni. Hún klofnaði í því. Sá sem hér stendur tók þátt í störfum nefndarinnar og þekkir því nokkuð til þessara mála og sér ástæðu til þess þó að nafn mitt sé ekki meðal þeirra sem flytja þessa tillögu að lýsa því hér yfir að ég styð heils hugar þá tillögu sem hér liggur frammi og hef um leið miklar væntingar til núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að hann taki vel á móti þessari hugmynd og að í þinginu náist fram góð sátt um þessi mál þannig að við getum á þessu þingi komið fram með tillögur í lagaformi sem efla og styðja við minni hluthafana í fyrirtækjunum og reyndar ýmsar aðrar þær úrbætur sem lagðar hafa verið til vegna þess að það er svo mikilvægt að við náum aftur að endurvinna traust á þessu rekstrarformi, hlutafélögunum, og ég tala nú ekki um ef við horfum til þess að eiga möguleika á því að endurreisa virkan hlutabréfamarkað. Það er mjög mikilvægt mál fyrir íslenska þjóð bæði í bráð og lengd.



[21:16]
Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að nú þegar liggja fyrir tvö frumvörp sem við koma breytingum á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög þar sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekur í raun og veru tillögu nefndarinnar sem vitnað var í hér á undan og gerir tillögur að lagabreytingum. Meðal annars er gerð tillaga í öðru frumvarpinu um það að stjórnarformaður sinni ekki öðrum störfum fyrir hlutafélagið eða félagið en megi þó taka að sér ákveðin verkefni. Auk þess er frumvarp í meðförum viðskiptanefndar þar sem verið er að lengja boðanafrest á hluthafafundi úr einni viku í þrjár. Síðan á viðskiptanefnd von á þriðja frumvarpinu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem hluthafavernd í núverandi löggjöf er aukin, sérstaklega smærri hluthafa.



[21:18]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að þessar fyrirætlanir koma fram í umræðunni og ástæða til að fagna því að við fáum tækifæri til að ræða þær. Ég tel þó að ágætt sé að við hugum að efni þingsályktunartillögunnar, sem hér hefur verið lögð fram, um að áframhaldandi skoðun á þessum málum fari fram. Hugmyndirnar sem lagðar eru fram eru ágætar og ég kannast við þær úr vinnu og skýrslu þeirrar nefndar sem ég vitnaði til áðan. Ég er nokkuð sannfærður um að ástæða er til að halda áfram með þá vinnu, bæði vegna þess að í kjölfar hrunsins er ástæða til að skoða þetta enn frekar en gert var árið 2004 og eins að þegar við hyggjum að því hvernig best sé að byggja efnahagslíf okkar upp kunna að vera fleiri sjónarmið sem við þurfum að fá sérfræðinga til að vinna. Slík vinna getur tekið einhvern smátíma en mikilvægt að hún fari af stað til að bæta við þær hugmyndir sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið að kynna og hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi áðan, því ég held enn og aftur að hægt sé að ná fram mjög góðri pólitískri sátt um það hvernig við höldum á þessum málum til að ná þeim árangri sem ég lýsti í ræðu minni áðan.



[21:19]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stöðu minni hluthafa og hefur hún allnokkra flutningsmenn. Eins og fram hefur komið í umræðum um þetta mál í kvöld er gríðarlega mikilvægt að skoðað sé hvernig styrkja megi stöðu minni hluthafa og út á það gengur þetta mál allt saman. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum þann tíma sem við höfum núna til að yfirfara allt regluverk okkar, ekki síst í ljósi þess hvað gerst hefur, til að skýra reglur og skerpa á eftirliti og læra eitthvað af öllu því sem hér hefur gerst. Það mikilvægasta sem fram undan er í þessum málaflokki varðandi hlutabréfamarkaðinn og hlutafélögin er raunar að skýra og skerpa á reglum og læra af reynslunni.

Við í þessum sal þurfum að einbeita okkur að því og leggja vinnu í það að skýra og skerpa framtíðarsýn okkar. Að mínu mati er því miður ekki talað nógu mikið um það hvert þessi þjóð skuli stefna og hvernig stjórnmálamenn á þingi sjá framtíð Íslands fyrir sér. Vel mætti taka slíka umræðu fyrir, frú forseti, og fara svolítið yfir það hvernig við sjáum umgjörðina hér á landi fyrir okkur á næstu árum, t.d. varðandi hlutabréfamarkaðinn. Þetta er verkefni sem við verðum að ráðast í og megum ekki tapa okkur eingöngu í því að fjalla um það sem miður fer. Að sjálfsögðu þurfum við að fjalla um mikilvæg mál sem snúa að hruninu sjálfu og þeirri stöðu sem við erum í en okkur ber jafnframt skylda til að leggja fram framtíðarsýn um hvert skuli stefna. Þannig náum við árangri og lærum af því efnahagshruni sem hér hefur orðið. Ég tel að hér á landi verði öflugur hlutabréfamarkaður og vona að við séum öll sammála um það en áður en svo verður þarf að sjálfsögðu að byggja upp traust, ákveðinn stöðugleiki þarf að nást upp og ekki síst þurfum við að endurskoða og fara yfir allt regluverkið og læra af reynslunni. Það eru mikilvægustu verkefnin á þessu sviði.

Að öðru leyti vil ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga hefur fengið góðar viðtökur í kvöld og ég vonast svo sannarlega til þess að hún fari fljótt og vel í gegnum þingið.



[21:22]
Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir þessar góðu viðtökur sem sannarlega hafa verið uppörvandi fyrir umræðuna og þá vinnu sem við hv. þingmenn, flutningsmenn málsins, höfum lagt í það.

Hv. 6. þm. Reykv. s., Lilja Mósesdóttir, spurði mig hvort ég teldi ástæðu til að halda þessu máli áfram á vettvangi hv. viðskiptanefndar í ljósi þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði lagt fram skýrslu eða öllu heldur látið vinna skýrslu. Hvort þetta hefði verið flutt vegna þess að við værum á einhvern hátt óánægðir með þá vinnu sem hæstv. ráðherra hefði látið vinna eða verið ókunnugt um það starf sem unnið var í ráðuneytinu.

Það skal viðurkennt að a.m.k. ég sem 1. flutningsmaður málsins hafði ekki vitneskju um þetta starf og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það hafi verið unnið af góðum og heilum hug. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið áhugamaður um svipuð mál, hann leiddi nefnd þá sem hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði að umtalsefni áðan og kom fram með ýmsar mjög áhugaverðar tillögur sem ég tel að hafi verið til bóta og rötuðu sumar þeirra á sínum tíma inn í lagafrumvarp og urðu að lögum en aðrar ekki. Ég hygg að það sé kannski það tregðulögmál sem ég var að vísa til að menn hafa haft skilning á málinu í meginatriðum en hins vegar hafa ýmis atriði úr þeim hugmyndum sem hér hafa verið lagðar fram ekki ratað inn í löggjöfina. Síðan mega menn ekki gleyma því að viðskiptalífið og aðstæður breytast. Reynslan kennir okkur kannski hluti sem við vissum ekki áður og þess vegna fannst mér sérstakt tilefni nú að flytja þessa tillögu vegna þess að við hljótum að þurfa að endurskoða þessi mál í ljósi fenginnar biturrar reynslu og ýmislegt hefur komið á daginn varðandi stöðu minni hluthafa sem satt að segja engan óraði fyrir áður en hrunið varð.

Ég vil gefa mér tíma til að fara yfir og skoða þá skýrslu sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lét vinna og sjá hvaða hugmyndir hún hefur að geyma. En stóra málið og kannski meginhugsunin á bak við þingsályktunartillöguna var að ég og flutningsmenn töldum mikilvægt að skoða þessi mál í heildstæðu samhengi við það sem hefur gerst og við gerðum okkur líka grein fyrir því að þetta lagaumhverfi væri orðið býsna flókið og þess vegna þyrfti hóp sérfróðra manna til að fara yfir þetta til að átta sig á þessum hlutum öllum saman þannig að við værum ekki bara að stagbæta flíkina heldur reyna að komast að því hvort við þyrftum ekki að gera heildstæðari úttekt á þessu máli öllu og vinna það síðan með heildstæðum hætti í lagafrumvarpi sem tæki á þeim málum sem hér um ræðir.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi sérstaklega atriði sem ég held að sé mjög áhugavert og það er staða hluthafa í minni félögum. Við erum m.a. að horfa til þess að sú endurreisn, sem við þurfum að sjá í efnahagslífi okkar, verði ekki síst borin uppi af minni félögum og við sjáum að með hinu lága gengi opnast möguleikar á nýrri atvinnustarfsemi sem ekki var til staðar þegar gengið var sterkara. Þó að við vitum auðvitað að þetta lága gengi hafi sínar skuggahliðar, þá opnar það engu að síður ný tækifæri og margir eru að hyggja að þessum málum og þess vegna er þetta einmitt svo mikilvægt, vegna þess að í slíkum félögum er veltuhraði hlutafjár mjög lítill. Það er kannski ekki alltaf svo auðvelt í rauninni að meta verðmæti félaganna og verðmæti hlutafjárins. Hingað til hafa menn verið dálítið bundnir við það að sá sem sæti í stjórn væri aðilinn sem menn gætu treyst á að gætti hagsmuna félagsins og hagsmuna hluthafanna og þess vegna ætti stjórnin einfaldlega að leggja mat á verðmæti hlutafjárins og að það væri nægileg trygging fyrir hluthafana. Nú vitum við betur. Við vitum að þetta hefur ekki dugað og ég vil vekja athygli á því að í öðru frumvarpi sem við fluttum var einmitt gert ráð fyrir því að tryggja betur rétt þeirra sem þarna um ræðir þegar velta með hlutabréf er mjög lítil. Þá var lagt til að þegar veltuhraði bréfa í félagi, sem er skilgreindur í 1. gr. frumvarpsins, er takmarkaður eigi að fela það dómkvöddum matsmönnum að ákvarða hvaða verð er boðið í yfirtökutilboði að teknu tilliti m.a. til tiltekinna grunnþátta sem er mælt fyrir um í lögunum. Með þessu var reynt að nálgast það að reyna að búa til sanngjarnt verð á hlutafénu til að tryggja að ekki væri um óeðlilega verðmyndun að ræða þar sem menn gætu í krafti meiri hluta síns níðst á þeim sem minna vægi hefðu innan hlutafélaganna.

Ég ætla líka að vekja athygli á hinu frumvarpinu sem er fylgiskjal III með þessari þingsályktunartillögu og mér sýnist að það hefði örugglega haft áhrif ef slíkt ákvæði væri til staðar. Í frumvarpinu er lagt til að á eftir 104. gr. gildandi laga um hlutafélög bætist við ný grein sem orðast svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Hlutafélagi er óheimilt að kaupa eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða félögum sem þessir aðilar eiga ráðandi hlut í nema áður hafi verið aflað sérfræðiskýrslu. Sama gildir um kaup félags á eignum af móðurfélagi þess og þeim sem tengdir eru aðilum skv. 1. málsl. á þann hátt sem lýst er í 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. Um gerð og efni skýrslunnar gilda ákvæði 6. og 7. gr., eftir því sem við á.“

Við þekkjum mörg dæmi sem hafa verið gerð opinber í kjölfar hrunsins, ýmis mál sem hafa kannski legið í þagnargildi og ekki verið mönnum ljós hafa verið að koma upp á yfirborðið og þar höfum við séð það gerast að hlutafélag hafi keypt eignir af hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins á mjög óeðlilegu verði. Við höfum einmitt séð slík dæmi koma upp í hrönnum sem hefðu ekki þurft að koma upp ef lögin hefðu verið skýrari. Þannig sjáum við að fullt tilefni var til að herða á þessum málum. Sú nefnd sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi og sat í gerði ýmsar og margar góðar tillögur um breytingar, sumar þeirra urðu að lögum en aðrar eru að koma fram í þinginu þetta mörgum árum síðar að frumkvæði hæstv. ráðherra sem var formaður þeirrar nefndar þannig að við sjáum hvernig þetta vinnst stundum hægt og menn þurfa kannski að reka sig harkalega á til að bregðast við.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessar góðu og jákvæðu umræður. Ég held að þær endurspegli mikinn vilja þingsins til að taka á þessu mikla og vandasama máli. Þó að hæstv. ráðherra hafi látið vinna þessa skýrslu þá vil ég ekki gefa mér fyrir fram að ekki sé tilefni til að samþykkja þetta mál engu að síður sem áréttingu á vilja þingsins og vilja til að skoða þessi mál með mjög heildstæðum hætti. Ég hygg mjög mikilvægt að það sé gert, líka vegna þess að þessi mál hafa verið að þróast í áranna rás og það væri örugglega ekki skaði að því að þessi mál yrðu skoðuð heildstætt í samhengi við það sem verið er að gera erlendis. Gleymum því ekki að þau vandamál sem við erum að glíma við eru að þessu leytinu, eins og svo mörgu öðru, vandamál sem við þekkjum frá öðrum löndum. Ég fylgist til að mynda talsvert vel með umræðunni um skylda hluti í Bretlandi og margt af því sem þar er fjallað um er ótrúlega líkt því sem við höfum fjallað um hér og það er ýmislegt sem við erum að velta fyrir okkur sem menn eru líka að velta fyrir sér í því stóra landi.

Að svo mæltu, virðulegi forseti, tel ég að þessi umræða undirstriki fyrst og fremst mikinn vilja til að taka á þessu máli og fagna því frumkvæði sem hæstv. ráðherra hefur þegar sýnt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til viðskn.