138. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2009.
friðlýsing Skjálfandafljóts, fyrri umræða.
þáltill. ÞBack o.fl., 44. mál. — Þskj. 44.

[21:31]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár. Meðflutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Davíð Stefánsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Björn Valur Gíslason.

Mjög svipuð þingsályktunartillaga var flutt hér fyrir ári síðan og þá voru það hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stóðu að flutningi tillögunnar en nú hefur hún breyst lítillega.

Hæstv. forseti. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Friðlýsingin taki til Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár í Bárðardal, að þverám meðtöldum, og verði hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins þar óheimil, svo og mannvirkjagerð. Skal friðun svæðisins stuðla að varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu, landbúnaðar og hefðbundinna nytja. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Skjálfandafljóts geti tengst fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.“

Hæstv. forseti. Mér er það mikil ánægja að það skuli falla þannig til í dagskrá þingsins að fyrr í dag hafi verið mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013. Ég tel að þessi tvö mál geti unnist vel saman í hv. umhverfisnefnd og að þá verði litið til þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar.

Í greinargerðinni segir:

Þingsályktunartillaga um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts var lögð fram á 136. löggjafarþingi en var ekki afgreidd. Tillagan er nú endurflutt og löguð að nokkrum athugasemdum sem fram komu í umsögnum og þá helst að heimila smávirkjanir og heimarafstöðvar í lækjum og þverám Skjálfandafljóts neðan Mjóadalsár. Með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka um of afkomumöguleika fólks á svæðinu, eins og hefði mátt túlka fyrri þingsályktunartillögu.

Frá Vatnajökli norðvestanverðum rennur Skjálfandafljót. Fljótið á uppruna sinn í Vonarskarði, rennur norður Sprengisand og fellur til sjávar í Skjálfanda. Skjálfandafljót er 175 km langt og rennur um stórbrotið og fjölbreytt landslag á leið sinni til sjávar. Náttúrufegurð fljótsins, umhverfis og vatnasvæðis er einstök.

Þó að fljótið sé jökulfljót er vatnið í því ekki eingöngu jökulvatn þar sem lindarvatn rennur í það í Ódáðahrauni, m.a. úr Suðurá og Svartá, og gengur því nokkuð af fiski upp í fljótið.

Suðurá og Svartá eru ár sem væri mjög mikilvægt að friða því að þær hvor um sig eru mjög einstakar. Bæði upptök þeirra og eðli eru með þeim hætti að það væri mikilsverður áfangi að vernda bara þetta svæði.

Goðafoss, einn af þekktustu og jafnframt tilkomumestu og fegurstu fossum landsins, er í fljótinu. Í fornum ritum segir að Þorgeir Ljósvetningagoði að hafa kastað heiðnum skurðgoðum sínum í fossinn við kristnitöku Íslendinga árið 1000.

Skjálfandafljót hefur þó einnig fleiri náin tengsl við sögu þjóðarinnar því að nokkrum kílómetrum fyrir neðan Goðafoss kvíslast fljótið og umvefur Þingey sem er gegnt Fellsskógi. Talið er að Þingey sé forn þingstaður héraðsins frá árinu 963 og er þar að finna fornar minjar. Af eynni draga Þingeyjarsýslur og Þingeyjarsveit nafn sitt.

Allt frá upptökum til sjávar eru fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri í fljótinu og vatnasviði þess á náttúruminjaskrá sem hafa mikið náttúruverndargildi, m.a. Tungnafellsjökull og Nýidalur, Laufrönd og Neðribotnar, Ingvararfoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargarfoss, Goðafoss, Þingey og nyrst er votlendi á Sandi og Sílalæk með stórkostlega fjölbreyttu fuglalífi.

Ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum er í örum vexti og er Goðafoss meðal vinsælla áfangastaða ferðamanna enda einungis steinsnar frá þjóðveginum. Einnig hafa verið farnar ferðir út í Þingey og uppi hafa verið hugmyndir um að gera eyna aðgengilegri fyrir ferðafólk. Þá eru vinsælar gönguleiðir meðfram fljótinu þar sem ferðamenn geta notið hinnar einstöku náttúrufegurðar.

Skjálfandafljót rann til sjávar við Ógöngufjall vestast í Skjálfandaflóa en ósinn var færður til austurs til að auðvelda sauðfjárrekstur út í Náttfaravíkur. Á fáum árum hafði ósinn færst hratt austur eftir landinu og var óttast að hann gæti endað í eða við ósa Laxár. Nú hefur þessi flutningur fljótsins verið stöðvaður og var því lokið nú í sumar að búið að búið er að setja varnargarð þannig að búið er að hemja ósinn nærri sínum forna stað.

Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að fljótið og allt vatnasvið þess ofan Mjóadalsár verði friðlýst með lögum. Með hliðsjón af flokkunarkerfi hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka IUCN er lagt til að svæðið geti fallið að V. friðlýsingarflokki. Nánari skilgreining þessa verndarstigs er á þessa leið:

„Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki. Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.“

Eins og fram kom í dag hefur vinnan við annan áfanga að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma staðið yfir um nokkurn tíma og er áætlað að nefndin skili skýrslu nú í vetur. Í nokkrum umsögnum um þingsályktunartillögu þessa kom fram að rétt væri að bíða eftir tillögum nefndarinnar. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að virkjanaáform hafa verið um svæðið og eru uppi ráðagerðir um virkjun á ýmsum stöðum í fljótinu. Því þykir flutningsmönnum mikilvægt að styrkja heildarmynd í verndun hálendisins norðan Vatnajökuls, nær eina óraskaða svæðis landsins.

Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar í tengslum við frekari verndun Skjálfandafljóts sem og svæðisins sem fljótið rennur um. Vinna stendur yfir við gerð náttúruverndaráætlunar og hafa fjölmargir lýst yfir vilja til að friða fljótið. Það kom ekki sérstaklega fram í dag en það er hluti af þeirri heildarvinnu sem verið er að vinna

Fyrir skemmstu var stofnaður áhugahópur um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Markmið hópsins er að vinna að friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts, stuðla að friðun og varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna nytja, eins og segir á kynningarvef samtakanna. Áhugahópur um verndun Skjálfandafljóts leggur áherslu á verndun sjálfs fljótsins í Bárðardal, verndun byggðar og menningar á svæðinu. Heimarafstöðvar í bæjarlækjum og þverám hafa fram til þessa hvorki skaðað ásjónu lands né vatnabúskap fljótsins en tryggt búsetu og landbúnað bæði í Bárðardal og Köldukinn og hafa þær fallið fyrir utan þetta verndarákvæði. Áhugi almennings á því að nýta náttúruauðlindir landsins til annars en virkjana hefur vaxið ár frá ári og bera ályktanir ferðaþjónustuaðila þess glöggt merki.

Það má vísa til þó nokkurra umsagna sem bárust þegar þessi þingsályktunartillaga var send út til umsagna fyrir ári síðan en þá skiptust umsagnirnar nokkuð í tvo hópa, þá sem lögðu áherslu á þessa heildarsýn, að varðveita vatnasvið fljótsins alls eða fljótsins og alls vatnasviðs í syðri hluta fljótsins, og þá sem vildu bíða eftir vinnu nefndar um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með tilliti til hugsanlegra virkjanaframkvæmda eða áætlana í syðri hluta fljótsins. Margir horfa til stóriðju á Norðausturlandi, eins og verið hefur í undirbúningi á Bakka við Húsavík, eða annarrar stóriðju, orkufreks iðnaðar. Hann væri það orkufrekur að háhitasvæðið við Kröflu og nágrenni dygði ekki til stóriðjunnar þannig að líta þyrfti til vatnasviðsins. Þá er Skjálfandafljót það sem horft er til hvað varðar vatnsnýtingu til orkuvinnslu.

Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi sjálft taki af skarið í þessu máli. Eðlilegt er að láta nú reyna á yfirlýsingar sem fallið hafa á undanförnum mánuðum og missirum um vilja til að Skjálfandafljóti verði ekki raskað á nokkurn hátt.

Það má segja að friðun Skjálfandafljóts verði stórt skref í átt að fullnægjandi árangri á sviði náttúruverndar en þó er það einungis eitt af fjölmörgum nauðsynlegum skrefum. Því þarf að tryggja frekari framfarir í þessum málaflokki. Ber að geta þess að áður hafa verið fluttar á Alþingi tillögur svipaðs efnis um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, um verndun Þjórsár og friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

Það er að mínu mati og margra annarra svo mikilvægt að hafa yfirsýn þegar við tölum um verndun og landnýtingu að við horfum ekki á landið í bútum eins og við höfum gert hingað til. Við höfum tekið út augljósustu svæðin og verndað þau en það vantar oft heildarsýnina eins og þegar við tölum um verndun votlendis. Þá eigum við ekki að taka lítil svæði, heldur horfa á votlendi í stærra samhengi og sérstaklega með tilliti til endurheimtar votlendis. Við þurfum að hafa landslagsmyndina skýrari en við höfum gert til þessa.

Fyrir stuttu síðan var mælt fyrir þingsályktunartillögu um eflingu ferðaþjónustu, um mikilvægi þess að efla ferðaþjónustu á miðhálendinu og að skipuleggja miðhálendið með tilliti til þess að taka við ferðamönnum. Lögð var sérstök áhersla á að vernda þá heildarmynd sem er enn norðan Vatnajökuls (Forseti hringir.) og þetta væri hluti af þeirri heildarmynd.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari þingsályktunartillögu vísað til hv. umhverfisnefndar.



[21:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Þuríði Backman, fyrir ræðuna. Ég ætla ekki að hafa neinar yfirlýsingar um þessa þingsályktunartillögu að svo komnu máli, ég á einfaldlega eftir að kynna mér nánar áhrif hennar og annað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnar spurningar: Er það álit flutningsmanna að þessi tillaga eigi að ná fram að ganga áður en vinnu við rammaáætlun lýkur, þ.e. að það eigi ekki að bíða eftir rammaáætluninni, það eigi að fara í þessa friðun áður en rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er kláruð?



[21:48]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má kannski flokka þá sýn til vinnslu þessa máls inn í þann raunveruleika sem maður er búinn að upplifa á hinu háa Alþingi. Vinnsla slíkra mála tekur yfirleitt einhvern tíma. Inn í þau miklu verkefni sem fram undan eru fram að jólum tel ég þetta ekki vera forgangsverkefni, en þætti mjög eðlilegt að tillagan yrði afgreidd með náttúruverndaráætlun a.m.k. núna fyrir vorið. Það er áætlað að rammaáætlunin liggi frammi núna í janúar svo að í mínum huga gæti þessi afgreiðsla farið saman við hana. Í sjálfu sér hafði ég ekkert hugsað um hvort kæmi á undan, rammaáætlunin eða afgreiðsla þessa máls. Ég vona bara að þegar rammaáætlunin liggur fyrir verði verndargildi þessa svæðis það hátt að það lendi mjög neðarlega í nýtingaráætlun rammaáætlunar og þannig gæti vel farið saman að taka þá ákvörðun að vernda vatnasvæði Skjálfandafljóts bara út af fyrir sig og horfa þar með til framtíðar á mikilvægi þess að geta stækkað Vatnajökulsþjóðgarðinn í norður og hafa vatnasviðið þar undir, hafa þetta landsvæði alveg út í Skjálfanda. Það er mikilvægt.

Ég tel að eftir öllum skilgreiningum ætti (Forseti hringir.) verndarákvæði rammaáætlunarinnar að vera mjög hátt á þessu svæði.



[21:50]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs fljótsins sunnan Mjóadalsár. Þar er gert ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að verja þetta svæði fyrir hvers konar röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins, varðveita landslag og því um líkt. Ég þakka 1. flutningsmanni þessarar tillögu hennar einlæga áhuga á því að varðveita þá einstæðu náttúrufegurð sem á þessu svæði er. Hér er rætt um náttúrufegurð þessa hluta Þingeyjarsýslna í ágætri greinargerð með þessari tillögu enda er sýslan vissulega afbragð annarra sýslna í landinu hvað varðar þessi atriði, ekkert skal undan dregið í því, og er jafnframt sögufrægt svæði eins og raunar er ítrekað í greinargerðinni sem hér liggur fyrir. Þar er m.a. minnt á þann fornfræga einstakling, Þorgeir Ljósvetningagoða, sem lifði og starfaði á þessu ágæta svæði og á heiður skilinn fyrir þaulsætni sína í búsetu þar.

Fyrir neðan Goðafossinn sem umræddur Þorgeir hafði mikinn áhuga á að umgangast og vann þar allnokkurt afrek sem menn munu minnast svo lengi sem Ísland byggist er mjög sérstakt náttúrufyrirbæri sem heitir Þingey. Því eru ágætlega gerð skil í þeirri greinargerð sem hér um ræðir og sögu þessa staðar sem Hið íslenska fornfélag í Þingeyjarsýslum, ef ég man nafnið rétt, hefur rannsakað. Ég vil gjarnan fara rétt með heitið á þessum ágæta félagsskap og finn nú í gögnunum að það heitir Hið þingeyska fornleifafélag. Það hefur unnið mjög merkt og gott starf, m.a. á þessu svæði. Ég hef notið þess að fara mikið um það, sérstaklega neðri hluta þess, og hefði kannski fremur búist við því að tillaga um friðlýsingu Skjálfandafljóts og vatnasviðs þess næði alveg niður að söndum ef menn horfðu til þeirra náttúruminja sem þar um ræðir. Sérstaklega á ég við Þingeyna og það umhverfi sem hún liggur í sem er afskaplega stórfenglegt og stórbrotið, svo ekki sé meira sagt.

Í þessari tillögu er nokkuð sem ég vil tengja andsvari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan sem dró ágætlega fram þá umræðu sem oft er um friðlýsingu náttúruminja eða -svæða. Í tillögunni kemur fram ákveðin afstaða, ég vil tæpast kalla það tvískinnung en gæti þó haft það orð um hana, um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til að framleiða orku. Slík nýting stuðlar að atvinnusköpun en þau áform hafa oftar en ekki vakið upp miklar deilur þar sem hver vísar á annan og hvor málsaðili sem er með og á móti slíkum framkvæmdum dregur fram sín rök. Til að sætta þau sjónarmið var hafist handa um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Unnið hefur verið mjög mikið starf allra hagsmunaaðila hvorum megin hryggjar sem þeir liggja, afspyrnumikilla virkjanasinna eða afspyrnumikilla náttúruverndarmanna. Þarna er vettvangur þar sem allir hagsmunaaðilar sem tengjast virkjanaáformum ná saman í því augnamiði að setja fram tillögur um nýtingu þeirra auðlinda sem búa í vatni og jarðvarma þessa lands. Þetta er gott og ég tel að við þurfum og eigum að vinna að verkum varðandi nýtingu þessara auðlinda í því ljósi að unnið er að framsetningu og staðfestingu áætlunar á þessu sviði.

Þá ber svo við að í umræðum um virkjanir, og nú er ég ekki endilega í þessu sambandi að ræða um virkjanir tengdar Skjálfandafljóti heldur bara í stóra samhenginu, draga andstæðingarnir það upp að rammaáætlunin sé í vinnslu og það þurfi að koma henni á áður en menn geti tekið afstöðu til þessa. Engu að síður fáum við á þeim sama tíma fram tillögur um að friðlýsa ákveðin tiltekin svæði til að verja það að ekki verði virkjað, hvorki vatn né jarðvarmi. Í þessari afstöðu finnst mér ákveðinn tvískinnungur og með sama hætti mætti vel halda fram að þeir sem hafa uppi áform um virkjanir sem ekki sér stað í rammaáætluninni reyni með sama hætti að komast á svig við rammaáætlun. Við eigum einfaldlega að hafa í okkur þá þolinmæði að bíða eftir því að við náum þokkalegri sátt um þá áætlun sem í smíðum er og ég hef miklar væntingar til þess.

Ekki skal ég gera lítið úr þeim röksemdum sem hér koma fram um að hægt sé að nýta þá auðlegð sem liggur í hinni stórbrotnu náttúru á þessu svæði til að búa þar til tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki til að byggja upp m.a. í ferðaþjónustu eins og hér er rætt um. Það er hins vegar umhugsunarefni í tengslum við þær röksemdir að flestir geta verið sammála um að ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum, sérstaklega í Mývatnssveitinni, hefur verið í mjög örri og markvissri uppbyggingu mörg undanfarin ár. Vöxtur í þeirri atvinnugrein á því svæði hefur raunar verið með ólíkindum. Engu að síður ber að hafa í huga að þrátt fyrir þennan vöxt í þessari grein, sem margir binda miklar vonir við, fækkar fólki í Skútustaðahreppi, ungu fólki sérstaklega. Þannig háttar til að fyrir örfáum árum voru þar t.d. á milli 70 og 80 börn á grunnskólaaldri, nú eru þar um 30 börn. Vöxturinn í þessari atvinnugrein skilar sér einhvern veginn ekki út í samfélagið þannig að það horfi til vaxtar í því sjálfu. Þegar íbúaþróunin er skoðuð og síðan tekjusamsetningin per íbúa eftir þessu kemur í ljós að þessi vöxtur skilar hvorki fólksfjölgun né því að samfélagið endurnýi sig. Og síðan hrapa tekjur per íbúa þannig að ljóst er að ekki dugar að horfa til þess eins að ferðaþjónustan stuðli að viðhaldi þeirra samfélaga sem höllum fæti standa en hyggi á nýjungar í atvinnuuppbyggingu.

Þetta vildi ég nefna í tengslum við þá greinargerð og þann rökstuðning sem fylgir þessari þingsályktunartillögu en legg áherslu á að mitt sjónarmið helgast af því að ég geri ríkar kröfur til þess að þegar við ræðum friðlýsingar og virkjanir hafi menn í huga þá vinnu sem í gangi er um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu.

Hér eru uppi enn fremur, og ég vil nefna það undir lok ræðu minnar, hugmyndir um að tengja þessa friðlýsingu stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs og stofnun frekari þjóðgarða sem tengjast svæðinu. Þá er ástæða til að staldra aðeins við það dæmi, sérstaklega í ljósi þess hvernig hefur gengið að koma Vatnajökulsþjóðgarði á. Það er alveg ljóst að áform um uppbyggingu hans og það hverju slík stofnun þjóðgarðs skilar inn á svæðið hafa dregist úr hömlu og það á tímum þegar við höfðum meira úr að spila en við gerum um þessar mundir. Ég hefði því álitið vænlegra að horfa frekar til þess að geta lagt mat á það hverju slík stofnun skilar inn í viðkomandi samfélag og hver ábati samfélagsins í heild af slíkri stofnun verður þannig að við fáum reynslu á það áður en við förum að stækka slíka garða enn frekar en orðið er því að tiltölulega ungt er það fyrirbæri sem Vatnajökulsþjóðgarður heitir.



[22:00]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir jákvæðar undirtektir og eðlilegan tón hvað það varðar að fara varlega og skoða fleiri möguleika, horfa á rammaáætlunina o.s.frv. Þetta er það sem ég tel að hv. umhverfisnefnd þurfi að gera í þeirri vinnu sem fram undan er. En eftir sem áður þegar við horfum á allar þær hugmyndir sem eru og hafa verið uppi á borðum varðandi undirbúning virkjanaframkvæmda með tilliti til stóriðjuuppbyggingar á komandi árum, hvort sem búið er að ákveða þær framkvæmdir eða ekki, og kannana á möguleikum á orkunýtingu, hafa þær rannsóknir, skoðanir og kortlagning verið á þeim svæðum sem við erum að tala um sem mjög mikilvæg svæði til verndunar, friðlýsinga og svæðum sem gæta þarf að fara vel með til framtíðar litið. Það má nefna Skjálfandafljót, Jökulsá á Fjöllum, Jökulsárnar í Skagafirði, Torfajökul og háhitasvæðin hvar sem þau finnast. Þar sem orka er hefur hún verið metin með tilliti til þess hvort hægt væri að nýta hana til orkuöflunar.

Í því umhverfi þar sem orkunýtingaráherslan hefur verið sterk þá er ekki óeðlilegt að fyrir utan náttúruverndaráætlun sem við vorum með fyrir nokkrum árum og friðlýsingu ákveðinna svæða og minni svæða, ekki landsheilda, komi fram í dag miklu sterkari kröfur um varðveislu ákveðinna landsvæða eða þeirra svæða sem á hugsanlega að fara inn á. Auðvitað er þessu teflt hverju á móti öðru enda getur það ekki öðruvísi verið. En einhvern veginn verðum við að finna sættir í þessu máli og þá þýðir ekki að annar aðilinn eða aðrar áherslurnar nái fram og nái eyrum fólks. Það þarf að gæta jafnræðis í því líka.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, frá mínum hjartans rótum að ég tel að með friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan við Mjóadalsár sé verið að koma til móts við þá sem búa í Bárðardal og norður með fljóti til að taka af allan vafa um að hugmyndin er ekki með þessari þingsályktunartillögu að taka upp heimarafstöðvar eða koma í veg fyrir að bæjarlækirnir séu virkjaðir, alls ekki. Þingsályktunartillagan sem var flutt fyrir ári tók til alls vatnasviðsins og þá horfði ég sérstaklega til sandsins, eins og hv. þingmaður nefndi, að það svæði út á sandi er alveg einstakt. En með tilliti til þessa og að horfa á þær umsagnir sem komu fannst mér rétt að endurflytja tillöguna með þessum hætti þannig að það væri ekki að valda neinum óróleika og koma til móts við allan þann fjölda sem sér tækifæri hvað varðar náttúruvernd út af fyrir sig, koma okkur á kortið með það, ekki bara fyrir okkur sjálf sem þjóð heldur koma okkur á kortið meðal þjóða, að við stöndum vörð um þessa einstöku náttúru sem þarna er. Eins með tilliti til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustunni, því þótt nefnt sé í dag að ferðaþjónustan á þessu svæði hafi ekki enn þá valdið straumhvörfum í fjölgun íbúa á svæðinu eða styrkt byggð né fjölgað hafi á svæðinu, þá geti það sannarlega gerst með ferðaþjónustu eða ferðatengdri þjónustu í framtíðinni eða einhverri annarri.

Það er líka hægt að horfa til annarra svæða sem tengjast t.d. sjávarútvegi þar sem hafa verið öflugir útgerðarstaðir en misst kvóta eða eitthvað komið þar upp á þar sem fiskur hefur horfið, eða rækjan horfið og byggðin veikst. Það er hægt að horfa austur á land þar sem stóriðjuframkvæmdirnar og stóriðjan átti að styrkja þar byggð og íbúaþróun. Við þurfum að bíða aðeins lengur eftir að sjá þá þróun og vonandi verður hún, en það yrði í sjálfu sér kannski ekki ein patentlausn. Við þurfum að horfa á alla þætti til að styrkja byggðina.

En við getum hugsanlega ekki horft nema á einn þátt til að vernda þetta svæði og önnur landsvæði hvort sem það er vegna náttúrufegurðar að við teljum eða út frá jarðfræðinni, sögunni eða hverju það er sem við teljum mikilvægt að afkomendur okkar njóti líka, þá er í raun ekkert nema friðun á einhverju stigi sem við þurfum að beita til að hafa einhverjar hömlur á því með hvaða hætti verður farið inn á slík svæði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Það væri hægt að halda langar ræður ef við hefðum byrjað snemma að degi og þingmenn verið frískir og með ótakmarkaðan ræðutíma. Ég er sannfærð um að um náttúruvernd og þetta svæði sem hér um ræðir væri hægt að halda langar og góðar ræður en ég tel að svæðið sjálft tali fyrir sig. Það vita allir sem hafa komið inn á það og ég vil hvetja alla þá sem ekki hafa haft tækifæri til að ferðast um svæðið að gera það, njóta þess og láta það ekki dragast um of.

Að svo mæltu, hæstv. forseti, þakka ég fyrir umræðuna.



[22:08]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda framlag hennar til þessarar umræðu sem lýtur að friðlýsingu náttúruminja og annars slíks. Ég vil minna á það sem ég sagði í ræðu minni áðan að ég tel með fullri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í sambandi við friðlýsingar að við verðum að koma þessu inn í þann farveg sem búið er að skapa. Það kemur fram áskorun í greinargerðinni þar sem flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi taki sjálft af skarið í þessu máli. Þetta eru tilmæli um að Alþingi taki ákvarðanir þvert á þá vinnu sem í gangi er sem er setning rammaáætlunar. Af hverju er ég svona harður á þessu? Ég leyfi mér að vitna til greinargerðarinnar þar sem segir — og þetta endurspeglar ástæðu þeirrar skoðunar minnar að ég er mjög harður á þessu varðandi rammaáætlunina — með leyfi forseta:

„Með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka afkomumöguleika fólks á svæðinu verulega.“

Þó að þessi friðlýsing taki ekki til alls vatnasviðs Skjálfandafljóts þá segir þetta allt sem segja þarf um áform um friðlýsingu. Af því að mælt var fyrir tillögu að nýrri náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013 þar sem ný verkefni koma inn, þá ber enn og aftur að þeim sama brunni að okkur gengur illa að koma þessum áformum fram. Þau eru einfaldlega tímafrekari en vilji manna stendur til og undir það verðum við að beygja okkur. Nefna má t.d. að í náttúruverndaráætlun 2004–2008 voru uppi áform um að friðlýsa 13 svæði auk Vatnajökulsþjóðgarðs og hver er niðurstaðan? Jú, Vatnajökulsþjóðgarður er kominn en það eru ekki nema tvö af hinum 13 sem eru komin inn í þetta ferli og önnur eru í vinnslu sem getur lokið eftir einhver ár.



[22:11]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er nokkuð sterkt til orða tekið í greinargerðinn, þ.e. að með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka afkomumöguleika fólks á svæðinu verulega. Þarna horfi ég til þess að ég hafði fengið svo sterkar ábendingar um virkjanir bæjarlækjanna í Bárðardalnum að ég leyfði mér að taka svona sterkt til orða og var það eingöngu með tilliti til þess. Þess vegna tekur friðlýsingin til alls vatnasviðs ofan Mjóadalsár, að þverám meðtöldum. Því tel ég rétt að byrja svona.

Hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarðinn, já, vissulega hefur þetta gengið seint og miklu seinna en björtustu vonir stóðu til. Það hangir kannski á því að ekki er nóg að vera með þá framtíðarsýn að mynda veglegan þjóðgarð eins og Vatnajökulsþjóðgarði var ætlað að vera í byrjun en standa síðan ekki að stofnun hans og uppbyggingu með þeim hætti að hann fái það fjármagn sem þarf. Það er svo langt í land að hann hafi fengið það tannfé sem hann þurfti hvað þá núna þegar við erum í þessari djúpu efnahagskreppu. Því er ekki líklegt að tekið verði á eins og þyrfti. Þetta mun greinilega liggja í lægð í einhvern tíma. Það er framtíðarsýn sem ég horfi til að ef það gengur upp að bæta þá þessu svæði við og ég tel að mjög vel fari á því.



[22:13]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá afstöðu mína sem kom fram bæði í ræðu minni og í andsvari við hv. þm. Þuríði Backman varðandi þær friðlýsingar sem við ræðum. Eins og ég nefndi gerði náttúruverndaráætlun 2004–2008 ráð fyrir 13 svæðum sem yrðu friðlýst, einungis tvö náðu þeim áfanga og önnur eru í vinnslu en Vatnajökulsþjóðgarður kom inn á þessum tíma og er kominn inn þann í pakka.

Nú liggur þessi nýja tillaga fyrir sem vissulega gerir þó ekki ráð fyrir þessu svæði sem um ræðir í þingsályktunartillögunni en engu að síður er hugsunin sú að bæta við 12 svæðum þar. Þegar ég skoðaði fyrri þingsályktun um náttúruverndaráætlunina kom í ljós, og það er raunar mitt mat, að framkvæmdin við þá friðlýsingu sem áform voru uppi um gekk svona illa fyrst og fremst vegna þess hvernig samráðið var um þá friðlýsingu sem var stefnt að.

Ég er þeirrar skoðunar að efla þurfi samráð ef menn vilja og horfa þannig til hluta að ná fram árangri í þeim áformum sem sett eru fram. Svo getum við deilt um hvort það sé rétt eða rangt að friðlýsa þennan staðinn, þessa vistgerðina eða þessa tegund dýra o.s.frv. En meginatriðið er að regluverkið, vinnulagið við þessa reglusetningu alla er í mínum huga þess eðlis að það þarf að taka það til endurskoðunar.



[22:15]
Flm. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er gott að enda umræðuna á því að segja: Þar er ég sannarlega sammála síðasta ræðumanni því það þarf að taka vinnulagið allt upp. Það er ekki nóg að móta náttúruverndaráætlun eins og gert hefur verið í gegnum árin. Það hefur tekið allt of langan tíma. Verklagið hefur ekki verið þannig að það hafi skilað okkur þeim friðlýsingarárangri sem unnið hefur verið að og samráð og aftur samráð er það sem þarf. Ef íbúar svæðanna, eigendur jarðanna eða sveitarfélögin eru ekki með í ráðum og vita ekki hvað er heimilt, hvað á að gera og hvað má gera þá er þetta vonlaust. Þó að svæðið sé friðlýst þá er ekki þar með sagt að enginn megi stíga þar inn fæti. Svæðin eru friðlýst með mismunandi hætti og það á að gera eftir landnotkun, eftir búsetu og eftir því hvað er verið að vernda. Sumt þarf að hafa mjög strangar reglur um þegar verið er að friðlýsa, segjum bara plöntur á afmörkuðu svæði sem eru í útrýmingarhættu. Vissulega þarf að vernda umgengni og að sauðfé eða önnur dýr séu ekki á beit o.s.frv. Á öðrum stöðum er búfjárganga heimiluð eins og alltaf hefur verið. Það verða allir að vita hvar þeir standa og vernda verður í samráði við sveitarfélögin, íbúana og eigendurna. Öðruvísi gengur það ekki. Verklagsferlarnir þurfa að vera allt öðruvísi og markvissari en verið hefur og þar erum við sammála, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, og ég held að það sé gott að enda umræðuna á þeim nótum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til umhvn.