138. löggjafarþing — 28. fundur
 18. nóvember 2009.
starfsemi skattstofa á landsbyggðinni.
fsp. EKG, 126. mál. — Þskj. 139.

[12:02]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þann 28. september sl. gaf forsætisráðuneytið út fréttatilkynningu um áform um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Þar er í einum 19 liðum gerð grein fyrir þeim áformum sem hæstv. ríkisstjórn hefur um breytingar á ýmsum þáttum sem lúta að skipulagningu stofnana ríkisins um allt land og jafnframt er gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem þar liggja að baki. Í sjálfu sér ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það, en vek þó athygli á að í fréttatilkynningunni er m.a. lögð áhersla á að við endurskipulagningu opinberrar þjónustu á stjórnsýslu sé horft til framtíðar og hugað að uppbyggingu um land allt. Þessi síðasti hluti setningarinnar er mjög þýðingarmikill vegna þess að við þekkjum það að oftar en ekki þegar menn hafa farið í slíka endurskipulagningu hefur hún leitt til þess að störfum hefur fækkað á landsbyggðinni og verkefnin hafa flust inn á höfuðborgarsvæðið.

Enn fremur segir í þessari fréttatilkynningu, með leyfi virðulegs forseta:

„Svæðaskiptingin hefur þó aðeins óbein áhrif á stjórnsýslu og þjónustu sem ekki er í eðli sínu staðbundin.“

Í sjálfu sér er starfsemi skattstofa, sem hér er verið að spyrja um, ekki endilega staðbundin. Það mætti auðvitað hugsa sér að skipulag skattstofanna sé með einhverjum öðrum hætti en nú er. Í dag má segja sem svo að skattstofurnar séu staðbundnar en þær þurfa hins vegar ekki endilega að vera það í eðli sínu. Það væri hægt að hugsa sér annað skipulag sem fæli í sér starfsemi á skattstofunum þar sem hlutverk einstakra skattstofa yrði skilgreint með öðrum hætti en nú er gert ráð fyrir.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í 4. tölul. þeirrar upptalningar sem fram kemur í fréttatilkynningunni sem ég hef gert að umræðuefni er talað um að landið verði gert að einu skattumdæmi, að embætti ríkisskattstjóra og skattstofa landsins verði sameinuð í eitt embætti en síðan verði verkefnum skattkerfisins áfram sinnt víðs vegar um landið. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hefur verið ákveðið eða eru uppi áform um að leggja niður skattstofur á landsbyggðinni? Ef svo er, hverjar?

2. Eru áform um að auka verkefni skattstofa á landsbyggðinni, til dæmis með því að færa til þeirra umsýslu og framkvæmd einstakra málaflokka á sviði skattamála?



[12:05]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hyggst á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagi skattkerfisins. Frumvarp þar um er fullbúið og hefur verið afgreitt af þingflokkum stjórnarflokkanna beggja, það ég best veit. Markmið frumvarpsins eru að ná fram hagræðingu og endurskipulagningu á þessu sviði, tryggja áframhaldandi góðan árangur og skilvirkni kerfisins. Landið verður sameinað í eitt skattumdæmi og eitt stjórnsýslustig. Þannig falla niður staðbundin valdmörk og starfsemi hins sameinaða ríkisskattstjóraembættis sem tekur þá til landsins alls. Því verður skipað niður eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra hverju sinni að fengnum tillögum ríkisskattstjóra.

Í skýrslu þess starfshóps sem vann og mótaði tillögur, og skipaður var 6. júlí sl., var lagt til að starfrækt yrði ein skattstofa fyrir vestanvert landið, önnur á Norðurlandi, þriðja á Austurlandi og fjórða á Suðurlandi, auk þess sem í stað tveggja stórra skattstofa á höfuðborgarsvæðinu yrði starfrækt ein. Það felur í sér að sameinaðar verða skattstofurnar í Reykjavík og á Reykjanesi, sem starfræktar hafa verið, á næsta ári og verður það væntanlega stærsta einstaka breytingin sem þessum skipulagsbreytingum tengist. Það felur með öðrum orðum ekki sjálfkrafa í sér að starfsemi leggist af á einstökum stöðum heldur verður henni nú sinnt í einni sameinaðri stofnun. Ég hef lagt á það áherslu í allri þessari vinnu, og ég setti fram í bréfi til ríkisskattstjóra í gær þau tilmæli eða stjórnvaldsfyrirmæli, vitanlega háð því að frumvarpið verði að lögum, að gætt verði jafnvægis í skipulagi og dreifingu starfa milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar og að breytingar þær er frumvarpið feli í sér leiði hvergi til lakari þjónustu og leiði ekki til þess að störfum fækki hlutfallslega fremur á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er lögð á það áhersla að breytingarnar leiði ekki til einhliða uppsagna þeirra starfsmanna sem nú starfa á skattstofum landsins og að þannig verði þau störf áfram tryggð svo sem kostur er á meðan skipulagsbreytingarnar ganga yfir. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag og starfsemi þróist áfram í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns, hvort þetta geti falið í sér að auka verkefni skattstofa á landsbyggðinni, t.d. með því að færa til þeirra umsýslu og framkvæmd einstakra málaflokka á sviði skattamála, er svarið já. Það er nákvæmlega þannig sem þessi sérhæfing og endurskipulagning er hugsuð, að tiltekin viðfangsefni verði sérhæfð á tilteknum skrifstofum. Svæðisbundin skattumsýsla sem slík heyrir þá sögunni til en verkefnin breytast í takt við það. Í tillögunum er gert ráð fyrir m.a. að verkefni þessi verði öll endurskilgreind, að sérhæfing verði aukin. Þannig verði t.d. einstaklingsframtöl afgreidd á tveimur eða jafnvel bara einni skattstofu í stað níu skattstofa nú. Álagning og kæruafgreiðsla lögaðila verði á einni stórri skattstofu. Landbúnaðarframtöl verði á þeirri þriðju. Gert er ráð fyrir því að þjónustuver ríkisskattstjóra verði starfrækt á landsbyggðinni, þetta nýja embætti dreifi verkefnum á skattstofur eftir eðli þeirra og hagkvæmnissjónarmiðum og að ríkisskattstjóri geri um slíkt tillögur til fjármálaráðherra sem staðfestir þær. Þetta felur í sér mikla kosti, mikla möguleika á að sérhæfa og efla starfsemina á einstökum stöðum, þar á meðal og ekki síst á landsbyggðinni, og nýta til þess kosti fjarvinnslu. Við þekkjum það af góðri raun í þeim verkefnum sem vel hafa tekist á undanförnum árum að þar er víða í boði stöðugleiki, ódýrt húsnæði, vinnumarkaður sem er stöðugur og starfsmannavelta er minni en annars staðar. Það eru því ýmsir kostir sem blasa við í þessum efnum og beinast ekki síst að landsbyggðinni um leið og menn ná því fram að skapa þar fjölbreytni og störf fyrir menntað fólk. Ég kvíði því ekki, nema síður sé, að þessar breytingar verði neikvæðar í byggðalegu tilliti en það fer auðvitað allt eftir því með hvaða hugarfari þær eru framkvæmdar. Nú hefur ríkisskattstjóri, eins og áður sagði, fengið um það skýr stjórnvaldsfyrirmæli frá fjármálaráðherra að standa þannig að þessum breytingum. Ég vona að það rói þá hv. þingmenn sem hafa haft af því áhyggjur að þetta (Forseti hringir.) verði neikvætt í byggðalegu tilliti.



[12:10]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt fagna ég ummælum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann sagði að tryggt yrði byggðalegt sjónarmið í þessu sambandi þegar farið verður í endurskoðun á skattstofum. Ég tek líka heils hugar undir með hæstv. fjármálaráðherra um að það er mjög mikilvægt að menn fari þá leið að sérhæfa skattstofurnar og fela þeim ákveðin viðfangsefni sem þær sérhæfa sig í, sem gefur þá augaleið að eftirlit verður skilvirkara hjá skattstofunum. Ég held að það sé til mikilla hagsbóta.

Ég vil hins vegar líka árétta að það sem hefur oft gerst í svona aðgerðum þar sem sameina á að starfsemin er oft soguð suður á Stór-Reykjavíkursvæðið. Þess vegna ítreka ég að ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. fjármálaráðherra um að vel verði staðið að verki og vandað til þess, einkum þegar menn gera það með byggðaleg sjónarmið í huga.



[12:11]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að beina þessari fyrirspurn til fjármálaráðherra og var ánægjulegt að heyra það í máli hæstv. fjármálaráðherra að hann hefur hagsmuni landsbyggðarinnar mjög í fyrirrúmi við þessar breytingar. Hins vegar verður að gagnrýna það hvernig þetta mál kom allt saman til eyrna þjóðarinnar. Það er ekki eingöngu hv. þingmenn sem hafa haft áhyggjur af þessu máli og fleirum varðandi opinberar stofnanir á landsbyggðinni heldur eru það að sjálfsögðu íbúarnir á þessum svæðum sem hafa haft miklar áhyggjur. Það er ábyrgðarhluti að setja það í fjölmiðla og koma þeim skilaboðum út að draga eigi saman þarna og breyta starfseminni án þess að vera búinn að móta sér einhverjar skoðanir á því hvernig það skuli gert og jafnvel ekki búið að reikna út hvaða hagræðing er í því falin, eins og kom fram í þinginu varðandi breytingar í lögreglunni og á sýslumannsembættum.



[12:13]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem talað hafa í þessari umræðu og alveg sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans og það viðhorf sem kom greinilega fram í svari hans við fyrirspurn minni varðandi þessar skattstofur. Það kemur mér út af fyrir sig ekki á óvart að hæstv. fjármálaráðherra hafi skilning á þörfum landsbyggðarinnar. Hann hefur auðvitað mikla reynslu af stjórnmálastarfi sem þingmaður landsbyggðarkjördæmis svo að hann gerir sér mætavel grein fyrir þessu máli.

Ég vil síðan fyrir hégómleikann nefna að það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli hafa skrifað þetta ágæta bréf til skattstjóranna daginn áður en hann svaraði fyrirspurninni, til að ítreka þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur uppi.

Það sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli er þetta: Við eigum ekki að standa gegn breytingum á skipulagi ef þær breytingar eru skynsamlegar og það eru heilmikil rök sem mæla með því að breyta skipulagi skattstofanna á þann veg frekar að dreifa verkefnunum en hafa það landshlutaskipt eins og er í dag. Það er hins vegar mjög þýðingarmikið að það sé gert af mikilli festu strax frá upphafi. Sporin hræða. Við sjáum því miður allt of oft dæmi um að þegar stofnanir eru sameinaðar verður í upphafi lítil breyting á landsbyggðinni en breytingin verður hins vegar meiri þegar fram í sækir. Þess vegna skiptir það svo miklu máli þegar þessi ákvörðun verður tekin að strax frá upphafi sé búið að ákveða hvar þessi einstöku verkefni verða sett niður til að tryggja að þeim verði haldið þar til framtíðar. Það er engin trygging fyrir því að verkefnin haldist á staðnum þótt þar séu lítil þjónustuver eða lítil útibú nema rétt á meðan þetta nýja skipulag er að festa rætur ef þjónustuverin eða útibúin eru án slíkra skilgreindra verkefna, stórra alvöruverkefna. Eftir það er á öllu von og það er ekki alltaf þannig að það sitji endilega fjármálaráðherra sem hefur sama byggðalega vinkilinn og hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli að strax í upphafi sé þannig gengið (Forseti hringir.) frá málinu að einstök verkefni séu fest við þjónustuverin, útibúin úti á landsbyggðinni.



[12:15]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér talar hefur dálitla reynslu af því að vera þingmaður landsbyggðarinnar, nánar tiltekið tæp 27 ár þannig að það ætti að hafa síast eitthvað inn í mig í þeim efnum á þeim langa tíma. Gott ef ég lagði ekki bara af stað frá byrjun í ferðalagið með það að markmiði m.a. að reyna að gera hinum dreifðu byggðum frekar gott en hitt.

Hinu verður ekki breytt að það er ætlun okkar að hagræða í þessum rekstri og endurskipuleggja hann og nýta til þess bæði tækni og aðra möguleika. Til þess eru ríkar ástæður. Að sjálfsögðu verða hendur ríkisskattstjóra eða forstöðumanna ekki almennt bundnar á alla enda og kanta fyrir fram í slíku verkefni. Það er þeirra að ná þessari endurskipulagningu og hagræðingu fram, að stýra henni, og þeir verða auðvitað að hafa til þess visst svigrúm. En það er ekkert sem mælir gegn því að tiltekin og skýr leiðsögn fylgi með af hálfu stjórnvalda, stjórnvaldsfyrirmæli getum við kallað það, og nú liggja þau fyrir. Nú hefur verið sent bréf til ríkisskattstjóra og ég geri ráð fyrir að eftir því verði unnið. Þangað til einhver kemur í ráðuneytið sem afturkallar það skulum við segja að leiðsögnin í málinu sé tiltölulega skýr. En það ber að standa þannig að þessu að ekki raskist jafnvægi á milli starfa í landsbyggð og á höfuðborgarsvæði.

Þessi vinna hefur verið höfð að leiðarljósi frá upphafi. Í þessu máli eins og kannski sumum fleirum, því miður, gaus upp einhver ótímabær umræða sem byggði ekki á staðreyndum mála og ýmsir kusu að gefa sér að fyrir fram að hér yrði um neikvæða breytingu að ræða. Menn leyfðu málinu ekki einu sinni að njóta vafans þangað til það kæmi fram og lægi fyrir í formi frumvarps á þingi og áformin væru skýr sem í kringum það eru. Nú er sú stund að renna upp og vonandi verða menn þá sáttari við þetta en kannski leit út fyrir í byrjun. Það hefur allan tímann verið ætlunin að reyna að standa þannig að þessu að bæði starfsfólkið sem vinnur þessa mikilvægu vinnu og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta gætu samt verið sáttir við.