138. löggjafarþing — 28. fundur
 18. nóvember 2009.
hagnýting orku sjávarfalla.
fsp. VigH, 121. mál. — Þskj. 134.

[13:19]
Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nýting sjávarfalla á sér langa sögu í Evrópu, allt frá miðöldum, en þrátt fyrir það er nýting sjávarfalla til raforkuframleiðslu ekki almenn og eru einungis nokkur dæmi um slíkt í heiminum í dag. Það gæti þó vonandi breyst á komandi árum þar sem tilraunaverkefni um þessi mál eru í gangi víðs vegar um heiminn og mikil þróun á sér stað á þeim búnaði sem til þarf til að nýta sjávarfallaorku.

Ein af náttúruauðlindum okkar Íslendinga sem lítill gaumur hefur verið gefinn hingað til er sú orka sem býr í straumum og sjávarföllum við stendur landsins og í hafinu í kringum okkur. Hér á landi er hæðarmunur sjávarfalla mikill og hann er mestur við vesturströndina, við Breiðafjörð, og hefur sérstaklega verið horft til mynnis Hvammsfjarðar að þessu leyti. Þar er hæðarmunur mikill.

Sjávarfallaorka hefur þann kost fram yfir bæði vind- og sólarorku að vera mun fyrirsjáanlegri orkuuppspretta. Sveiflur í straumhraða sjávar eftir flóði og fjöru eru vel þekktar og stjórnast þær af sjávarföllum sem eru sjávarbylgja sem eins og allir vita stafar af aðdráttarafli tunglsins og að litlu leyti sólarinnar á jörðina. Sjávarfallaorka er því algjörlega sjálfbær, algjörlega umhverfisvæn að auki og er sú orka sem við ættum kannski að líta til nú um stundir. Mjög snjallt væri að nota þetta til að umbreyta sjávarstraumi í rafmagn sem okkur vantar alltaf.

Það er hægt að virkja sjávarföll með tvennum hætti, annars vegar með því að stífla sund og firði og virkja hæðarmun sjávarfallanna og hins vegar að virkja hreyfiorku straums eða streymisins sjálfs án þess að hindra streymið. Er því, eins og ég sagði áðan, um að ræða óbeislaða auðlind hér við land. Því langar mig til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hefur ráðherra gert ráðstafanir til þess að láta rannsaka á hvern hátt megi hagnýta orku sjávarfalla til styrktar þjóðarbúinu í framtíðinni?

2. Ef svo er, hefur Hvammsfjörður verið skoðaður sérstaklega í þessu sambandi þar sem aðstæður eru svo góðar þar?



[13:22]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á afar áhugavert efni sem iðnaðarráðuneytið hefur um nokkurt skeið sýnt mikinn áhuga. Orkustofnun hefur það hlutverk með lögum að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar og orkulindum landsins. Orkustofnun fylgist með þróun mála í virkjun t.d. vinds og síðan sjávarfalla, eins og hér er spurt um, fyrst og fremst í gegnum samstarfsaðila stofnunarinnar á Norðurlöndum og sömuleiðis í Skotlandi. Mat stofnunarinnar er að núverandi kostnaður við sjávarfallaorku fyrir gefið uppsett afl sé í besta falli af svipaðri stærðargráðu og fjárfestingar í vatnsorku- og jarðgufuvirkjunum. Nýtingartíminn af náttúrufarslegum ástæðum er mun skemmri þannig að almennt er nokkuð langt í land með að sjávarfallavirkjanir verði samkeppnishæfar við núverandi virkjanakosti í vatns- og jarðvarma. Engu að síður geta verið til, og eru til, sérstakar aðstæður þar sem sjávarfallavirkjanir koma til greina, t.d. þar sem staðbundin orkuvinnsla getur styrkt orkukerfið og sparað fjárfestingar í flutningi og dreifingu og líka þar sem virkjanir tengjast beint atvinnurekstri sem fellur vel að þess háttar orkuvinnsluferli.

Í apríl 2009 skilaði Ketill Sigurjónsson iðnaðarráðherra skýrslu um virkjun vindorku og sjávarorku hér á landi. Í skýrslunni er m.a. fjallað um virkjun hafstrauma, svo sem sjávarfalla og hringiða svo og öldu- og seltuvirkjana. Í skýrslunni var lagt til að íslensk stjórnvöld fylgdust vel með framþróun sjávarvirkjana og skoðuðu nánar virkjanamöguleika af þessu tagi, sérstaklega uppsetningu sjávarfallavirkjunar við Breiðafjörð og möguleika á sjávarvirkjun á Vestfjörðum og/eða í Hrútafirði. Þá var lagt til að stjórnvöld íhuguðu af mikilli alvöru þann möguleika að Ísland yrði í fararbroddi og setti sér metnaðarfull markmið, en raunhæf, til að svo mætti verða.

Annað sem ég vil líka nefna er að Straumhjólið var meðal verkefna sem hlutu styrk úr Orkusjóði í júlí sl. en verkefnið er á vegum Valorku ehf. sem Valdimar Össurarson fer fyrir. Það verkefni fékk 2 millj. kr. styrk. Straumhjólið er spennandi verkefni í þróun en það er nýr íslenskur hverfill sem gæti hentað til að virkja sjávarföll og líka hægstreym vatnsföll. Fyrsti áfangi felst í smíði prófunarlíkana, prófunum í keri og mati á afköstum og markaðshorfum hverfilsins. Stjórnandi prófananna verður Halldór Pálsson, vélaverkfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, og er samstarf haft við Orkuskóla Keilis, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og líka Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Með þessu fylgist iðnaðarráðuneytið af áhuga.

Í ágúst sl. skipaði ég stýrihóp til að vinna að mótun heildstæðrar orkustefnu í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þar munu þessi mál jafnframt koma inn á borð. Í hópinn voru skipaðir Vilhjálmur Þorsteinsson, forritari og frumkvöðull, sem er formaður, Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur, Bergur Sigurðsson umhverfisefnafræðingur, Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Guðrún Jóna Jónsdóttir tölvunarfræðingur og Gunnar Tryggvason, rafmagns- og orkuverkfræðingur. Hlutverk þessa hóps er að ná heildarsýn yfir mögulegar orkulindir í landinu og til að mynda þá sem hér um ræðir, aðferðir og tækni við nýtingu þeirra, hugsanleg umhverfisáhrif, sjálfbærni nýtingarinnar ásamt rekstrarlegri og þjóðhagslegri hagkvæmni.

Í öðru lagi er spurt hvort Hvammsfjörður hafi verið skoðaður sérstaklega í þessu sambandi. Möguleikar til nýtingar orku sjávarfalla í Hvammsfirði eru þekktir og ýmsir aðilar hafa á undanförnum árum kannað möguleikana og hafa áhuga á áframhaldandi rannsóknum þar. Sjávarorka ehf. hefur sótt um rannsóknarleyfi í Hvammsfirði og á Breiðafirði vegna sjávarfallavirkjunar til Orkustofnunar á grundvelli laga nr. 57/1998 sem var dagsett 10. september sl.

Með erindi, fjórum dögum síðar, þann 14. september, óskaði Orkustofnun eftir frekari upplýsingum um umsóknina og vakti um leið athygli fyrirtækisins á því að samkvæmt lögunum taka þau til auðlinda innan netlaga. Ágreiningur er um þetta atriði milli aðila. Í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga verða Sjávarorku ehf. sendar umsagnir sem koma frá fleiri aðilum. Kallað hefur verið eftir og fyrirtækinu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum um þær. Þetta er enn í umsagnarferli en frestur rann út 9. nóvember sl.

Það er heilmikil gerjun á þessu sviði og berum við miklar væntingar til þess að við getum auðvitað nýtt allar þær náttúruauðlindir sem við (Forseti hringir.) eigum til að framleiða rafmagn. Ég vona að það sem ég hef talið hér upp muni skila slíkum árangri.



[13:27]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að bera fram þessa spurningu og jafnframt þakka ég hæstv. iðnaðarráðherra fyrir greinargóð svör. Við Íslendingar eigum mikil tækifæri og þau felast í orkunýtingu og jafnframt því að finna og leita nýrra leiða til að afla enn meiri orku. Virkjun sjávarfallanna er mjög spennandi verkefni sem kallar á enn frekari rannsóknir og þróunarstarf og það er gríðarlega ánægjulegt að unnið sé að þeim málum á Íslandi. Það skiptir okkur svo miklu máli að leggja ekki af þróunarstarf og rannsóknir þrátt fyrir að hér sé efnahagslægð vegna þess að rannsóknir og þróun geta orðið og eiga að vera ein af þeim grunnstoðum sem íslenskt samfélag byggir á. Mikilvægi þess er meðal þess sem rætt var við mitt borð á þjóðfundinum og þess vegna fagna ég því mikla starfi sem enn er í gangi og hlakka til að fylgjast með því hvernig þessu muni reiða af.



[13:29]
Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra kærlega fyrir greinargott svar sem var yfirgripsmikið og fróðlegt. Greinilega er margt áhugavert við að fást í iðnaðarráðuneytinu. Ég fagna því að stjórnvöld fylgist svo vel með, eins og kom fram í þessu svari, og að unnið sé af heilindum til hagsbóta fyrir þjóðarbúið.

Það var svo áhugavert sem kom fram í svari ráðherrans um Hvammsfjörð, að þetta er allt þarna í ferli, að mig langar til að deila með þingmönnum villtustu draumum þeirra sem hafa mikla trú á sjávarfallaorku. Þeir sjá fyrir sér að boruð verði göng úr Hrútafirði til vesturstrandar Breiðafjarðar til að ná enn frekari hæð á sjávarföllin. Það er allt mögulegt í henni veröld.

Enn á ný þakka ég hæstv. iðnaðarráðherra fyrir góð svör. Þetta er afar áhugavert sem unnið er að í ráðuneytinu. Ég samgleðst ráðherranum innilega hvað þetta gengur vel og hvað það eru margir sem hafa áhuga á því að koma að nýsköpun og nýjum hugmyndum, ekki síst í virkjunum og rafmagnsframleiðslu. Ég endurtek að ég óska ráðherra til hamingju með þetta.



[13:30]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það er alveg klárt að við eigum eftir að ræða meira um þessi mál þegar fram líða stundir, þ.e. möguleika í nýtingu sjávarfalla til að framleiða rafmagn. Ég er alveg sammála hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um að það sé mikilvægt að leggja ekki af rannsóknar- og þróunarstarf þrátt fyrir efnahagsástandið. Það er einmitt það sem þessi ríkisstjórn er að gera og ef eitthvað er erum við að gefa í í því efni að styðja enn frekar við rannsóknir og þróun á nýsköpun hér á landi. Við sjáum alveg stórkostlega útkomu úr þeim geira hvað fjölda nýrra starfa varðar. Þess vegna höfum við lagt fram frumvörp um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði innan fyrirtækja og sömuleiðis frumvarp um ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif og eftir þessu (Gripið fram í.) hefur lengi verið beðið. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lagði þetta til í frumvarpi á árinu 2004. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hefði ekki búist við að þessi umræða skapaði slíkan óróleika en svona er nú það. (Gripið fram í.) Það sem skiptir máli er að nýsköpun á þessu sviði er sívaxandi. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Nýsköpun á sviði orku- og umhverfismála og orku- og umhverfistækni er sístækkandi hluti nýsköpunar á Íslandi og sömuleiðis sprotafyrirtæki. Það var ánægjulegt að sjá á sprotaþingi hvað þessi þáttur er vaxandi. Ástæðan er einföld. Um allan heim er út af loftslagsmálum horft til þess að nýta betur þá orku sem þegar er aflað. Í þessum efnum er líka horft til þess að bæði innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum er unnið mjög hratt að nýsköpun í þeim efnum og þar eigum við auðvitað bæði að fylgjast vel með og leggja okkar af mörkum til þess sem þar er að gerast. Þarna tel ég (Forseti hringir.) að sóknarfæri okkar liggi á allra næstu árum, í umhverfis- og orkutækni. (Gripið fram í.)