138. löggjafarþing — 28. fundur
 18. nóvember 2009.
Hornafjarðarflugvöllur.
fsp. UBK, 144. mál. — Þskj. 160.

[18:15]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi Hornafjarðarflugvöll. Spurt er hvort unnið sé að því að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem millilandaflugvöllur með áherslu á ferjuflug og einkaflug og ef svo er, hver sé staða þeirrar vinnu.

Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að unnin var greinargerð af hálfu Flugstoða sem skilað var í janúar 2008 um ráðstafanir og kostnað við að færa flugvöllinn á Ísafirði, Vestmannaeyjum og Höfn úr flokki lendingarstaða í flokk I þannig að þessir flugvellir geti þjónað millilandaflugi. Ástæða þessarar vinnu var sú að sveitarstjórnir og aðrir hagsmunaaðilar á þessum stöðum höfðu áhuga á því að þessir möguleikar væru kannaðir og í greinargerðinni eru sett fram og kostnaðarmetin áhrif þessara ráðstafana. Ef við skoðun þá umfjöllun sem Hornafjarðarflugvöllur fær er ljóst að kostnaðurinn er í rauninni tvískiptur. Annars vegar er miðað við fullar flugverndarráðstafanir og þá stofnkostnaður talinn 128 millj. rúmar en hins vegar ef miðað er við takmarkaðar flugverndarráðstafanir er talað um 32 millj. ef maður fer í lægstu mögulegu túlkun á því. Millitalan væri þá 95,4. Þá er árlegur rekstrarkostnaður áætlaður 11,9 millj. kr.

Ég hef áhuga á að vita — ég geri mér grein fyrir að hér er efnahagslægð og vissulega erfitt að ráðast í stórfelldar framkvæmdir en hins vegar er rétt að varpa þeirri spurningu fram og það komi fram í þinginu hvað eigi að gera við þessa greinargerð, hvort það sé ætlun samgönguráðherra og stefna hans að færa flugvöllinn á Hornafirði úr flokknum um lendingarstaði í flokk I. Þá fýsir mig að vita, ef svo er, hver staðan á vinnunni er vegna þess að þrátt fyrir að við stöndum í ákveðnum fjárhagslegum vandræðum með ríkissjóð er samt mikilvægt að við horfum til framtíðar og skoðum hvernig við getum skapað aukin tækifæri til frekari atvinnusköpunar og til eflingar byggð í landinu. Allir vita að Hornafjörður liggur við Vatnajökulsþjóðgarð og í þjóðgarðinum eru falin töluvert mikil tækifæri til eflingar ferðaþjónustu og jafnframt yrði efling flugvallarins til þess að auka flugöryggi. Það eru í rauninni ótæmandi möguleikar sem Vatnajökulsþjóðgarður felur í sér og ekki síst ef hægt væri að auka aðgengi að þjóðgarðinum með því að efla flugvöllinn á Hornafirði.



[18:18]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem sett fram í einni spurningu um Hornafjarðarflugvöll. Því er til að svara að í dag eru ekki markaðslegar forsendur fyrir því að Hornafjarðarflugvöllur fái stöðu millilandaflugvallar. Það er einfaldlega eins og hér er sagt, að markaðslegar forsendur eru ekki fyrir því, það eru ekki rekstrarskilyrði fyrir því og síðast en ekki síst, virðulegi forseti, eins og hv. þingmaður gat ágætlega um að hún gerði sér grein fyrir að það væri efnahagslægð í landinu, það eru einfaldlega engir peningar til til að fara í svona verkefni.

En til skýringar er rétt í upphafi að gera grein fyrir því að flugvöllum á Íslandi er skipt í þrjá flokka. Í I. flokki eru stærstu áætlunarflugvellir, þar á meðal alþjóðaflugvellir. Í II. flokki eru vellir sem lúta að mestu sömu reglum og vellir í I. flokki að undanskildu því að ekki eru gerðar kröfur um öryggisstjórnunarkerfi. Í III. flokki eru skráðir lendingarstaðir en til þeirra eru gerðar minni kröfur.

Hornafjarðarflugvöllur er í dag í III. flokki. Hann er skráður sem lendingarstaður. Í samræmi við flugvallarreglugerð þarf að færa flugvöll upp í flokk I eigi hann að vera millilandaflugvöllur, alþjóðaflugvöllur. Við það þarf að uppfylla ríkari kröfur um öryggissvæði, rekstur verður umfangsmeiri meðal annars vegna aukins fjölda starfsmanna og þjálfunar þeirra og vegna gæða- og öryggismála auk þess sem skírteinisgjald verður töluvert hærra. Kröfur til flugverndar eru mun meiri á flugvöllum sem teljast alþjóðlegir flugvellir. Flugvallaryfirvöld þurfa að tryggja skimun farþega og farangurs þeirra, bæði handfarangurs og farangurs í lest. Þá þarf að tryggja aðskilnað skimaðra og óskimaðra farþega, þ.e. farþega í millilandaflugi annars vegar og farþega í innanlandsflugi hins vegar. Einnig þarf að tryggja að starfsmenn með tiltekna vottun komist um öryggissvæði en aðrir ekki. Að lokum þarf að tryggja landamæravörslu og tolleftirlit. Vegna þessara atriða þarf að leggja í fjárfestingar í mannvirkjum auk þess sem auka þarf við starfslið bæði á umræddum flugvelli og miðlægt hjá flugvalla- og leiðsögusviði Flugstoða ohf.

Á landinu eru í dag fjórir millilandaflugvellir sem fram að þessu hafa þjónað þessum þörfum. Þess hefur verið gætt að þeir myndi eina heild, uppfylli alþjóðlegar kröfur um millilandaflug, geti þjónað sem varaflugvellir fyrir slíkt flug og geti þjónað flutningaflugi með þotum. Engu að síður er mikilvægt að hægt sé að fljúga einstök millilandaflug til og frá öðrum stöðum eins og á Hornafirði en einnig Ísafirði og Vestmannaeyjum. Rétt er því að athuga hvort það verði ekki best gert með því að færa þessa flugvelli upp í flokk II og að sérstakar flugverndarráðstafanir verði viðhafðar í tengslum við hvert flug og að miðað verði áfram við þær vélar sem þegar geta athafnað sig á þessum völlum.

Flugstoðir ohf. hafa lagt mat á stofnkostnað vegna flugverndar við Hornafjörð og metið hann á rúmar 128 millj. kr. miðað við fullar flugverndarráðstafanir. Miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði hann í kringum 95 millj. en ekki 32 millj. í lægsta flokki eins og mér fannst hv. þingmaður tala um. Árlegur rekstrarkostnaður yrði, miðað við fullar flugverndarráðstafanir á Hornafjarðarflugvelli, rúmar 16 millj. kr. en miðað við takmarkaðar flugverndarráðstafanir yrði hann rúmar 11,9 millj. kr.



[18:22]
Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þar sem tölulegi mismunurinn í málflutningi okkar liggur er á bls. 4 í skýrslunni þar sem fjallað er um Hornafjarðarflugvöll sérstaklega og þar kemur fram að hægt sé að stytta flugbrautina í 1.199 metra og þá þurfi ekki að breikka öryggissvæðið né byggja nýtt RESA eða „runway end safety area“, með leyfi forseta. Kostnaður við þessa tilhögun gæti numið um 25 millj. kr. og það er sú tala sem ég nota ef reynt er að fara kreppuleiðina, þ.e. taka ódýrasta kostinn. En ég skil ráðherrann þá þannig að það sé ekkert verið að gera varðandi þessar tillögur eða útlistun og óskir heimamanna sem komið hafa fram, og ekki einu sinni verið að undirbúa jarðveginn þannig að þegar betur stendur á hjá okkur í ríkisrekstrinum væri hægt að fara í þessar framkvæmdir.

Jafnframt langar mig að fá aðeins betur fram hjá hæstv. ráðherra, af því að hann talaði um að þetta væri ekki hagkvæmt út frá markaðslegum sjónarmiðum, hvort einhver sérstök athugun hafi farið fram á því eða hvort einhverjar greiningar hafi verið gerðar á því hvaða tækifæri gætu skapast við þessa aðgerð og hvort heimamenn og þeir sem vinna við eflingu þjóðgarðsins hafi verið kallaðir að slíkri vinnu. Vegna þess að ég tel að þrátt fyrir allt og þótt við séum í efnahagslægð eigum við ekki að hætta að hugsa til framtíðar, við hljótum að ætla að vera með einhverja framtíðarsýn, og því sé mikilvægt að nota tímann núna til að fara í greiningarvinnu og skoða hvort viðbót sem þessi gæti á endanum skilað okkur fleiri tækifærum til atvinnusköpunar og jafnvel skilað okkur á endanum auknum gjaldeyristekjum.



[18:24]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, hennar innlegg og það sem hún setur hér fram. Það er greinilegt að hún hefur kynnt sér málið vel og það er gott.

Hvort sem hinn tölulegi mismunur sem við erum að tala um liggur í þeim tillögum sem þarna eru um að stytta völlinn niður í 1.199 metra, væntanlega til að færa hann niður um flokk, þá verðum við að hafa það í huga líka, virðulegi forseti, að það takmarkar það hve margar vélar munu lenda og þar með koma minni tekjur inn og þar með versnar rekstrargrundvöllurinn í raun og veru. Eins og ég sagði áðan, við erum með Flugstoðir sem opinbert hlutafélag og greiðum töluvert til þess en við þurfum auðvitað að gæta þess líka að markaðslegar forsendur séu fyrir hlutunum og þó að byggðastyrkir og annað sé gott og góðra gjalda vert þurfum við að ganga svolítið hægt um núna vegna þess að við erum frekar blönk eftir hrunið eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Það er aðallega þess vegna sem ég svara þessu svo afdráttarlaust núna.

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað hugsum við til framtíðar og vonandi kemur sú tíð að við getum hugsað það langt til framtíðar að við sjáum hvað varðar Vatnajökulsþjóðgarð og annað, möguleika í því að á Hornafirði verði alþjóðlegur flugvöllur, margar lendingar og margir farþegar, miklar tekjur og mikill gjaldeyrir. Þetta er fögur sýn og ég deili þeirri sýn með hv. þingmanni og er alveg sannfærður um að með verkum hinnar góðu ríkisstjórnar sem situr nú kemur þessi tími fyrr en seinna.