138. löggjafarþing — 29. fundur
 19. nóvember 2009.
umræður utan dagskrár.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Undanfarin ár, undanfarin missiri og sumir mundu segja áratugi, hefur farið fram mikil umræða um það að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Nú stendur til að þetta verði að veruleika og þess vegna er þarft að við tökum málið hér aðeins upp til umræðu um það hvernig við sjáum fyrir okkur þessa yfirfærslu.

Þjónusta við fólk með fötlun er eitt erfiðasta, flóknasta og viðkvæmasta verkefnið í velferðarkerfinu og því mikilvægt að vel verði haldið á spilunum, flutningurinn verði vel skipulagður og unninn af raunsæi og þekkingu.

Virðulegi forseti. Þann 13. mars sl. var undirrituð viljayfirlýsing ríkisstjórnar og sveitarfélaganna um þennan flutning og að hann skuli fara fram árið 2011. Helstu markmið þess að flytja þjónustuna eru samkvæmt viljayfirlýsingunni þau, að mínum skilningi, að bæta þjónustu og gera hana einstaklingsmiðaðri, að verkaskiptingin verði skýrari, stuðla að samþættingu við nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Allt eru þetta sjónarmið sem ég get tekið undir.

Ég er þeirrar skoðunar að þjónusta við fatlaða eigi vel heima hjá sveitarfélögunum þar sem hún er þess eðlis að hún er hluti af nærsamfélaginu. Með því að fela sveitarfélögunum þetta verkefni verða gæði þjónustunnar mikil og hagkvæmni þjónustunnar í raun hámörkuð. Sveitarfélögin hafa sýnt það með störfum sínum að þau eru vel í stakk búin til að taka að sér krefjandi verkefni og sinna nærþjónustu af ábyrgð og fagmennsku.

Það er vissulega nauðsynlegt að nægilegir fjármunir fylgi svo hægt sé að sinna verkefninu vel samkvæmt þjónustuþörf hvers samfélags. Nokkur sveitarfélög hafa tekið að sér þetta verkefni sem tilraunaverkefni og gert um það sérstaka þjónustusamninga við ríkið. Ég veit ekki betur en að þau verkefni hafi gengið mjög vel og að það sanni að verkefnið fái meiri athygli þegar því er sinnt af nærsamfélaginu.

Mig langar að vita, hæstv. forseti, og beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hvort könnun hafi farið fram á því hvort þjónustustigið í tilraunasveitarfélögunum sé það sama og þar sem ríkið sinnir verkefninu. Jafnframt langar mig að vita hvort könnun á þessu sama atriði hafi farið fram meðal þjónustuþega og þá fýsir mig að vita hvort það liggi fyrir hvort sambærilegt fjármagn fari í þennan málaflokk í þeim sveitarfélögum sem gerður hefur verið þjónustusamningur við og þar sem ríkið sinnir þessum verkefnum.

Þá er jafnframt mjög mikilvægt að ræða ákveðin tilvik þar sem um sérstakar stofnanir er að ræða, eins og t.d. í tilfelli Sólheima í Grímsnesi, hvernig eigi að fara með þá yfirfærslu í slíkum tilfellum og athuga hjá hæstv. ráðherra hvort einhver umræða hafi farið fram um það.

Þá er nauðsynlegt að ræða starfsmannamálin í kringum þetta verkefni, hvort búið sé að skoða hvort t.d. launakjör og starfskjör séu sambærileg við það sem starfsmenn ríkisins og sveitarfélaga hafa eða hvort fyrirséð sé gríðarleg breyting á þeim háttum.

Þá hefur farið fram nokkur umræða um það hvernig verkefnið verði flutt og hvort ákveðin stærð þjónustusvæða sem undir liggja verði gerð að skilyrði af hálfu ríkisins. Heyrst hafa tölur um að það verði u.þ.b. 7.000 íbúar á bak við hvert þjónustusvæði og mig langar að vita hvort hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram einhverja stefnumörkun í þessu efni.

Frú forseti. Ég hef nokkrar áhyggjur. Þrátt fyrir að ég sé mjög bjartsýn á það að sveitarfélögin geti sinnt þessu vel hef ég talsverðar áhyggjur af því hvernig kostnaðarmat mun fara fram og hvernig því verður háttað við yfirfærsluna. Grunnþjónustan og grunnstofnanir þurfa að vera til staðar þegar verkefni eru flutt yfir og svo er einfaldlega ekki í öllum byggðarlögum. Það verður vissulega ekki hægt að bjóða upp á alla þjónustu á hverjum einasta bæ á landinu, því miður, en á sumum starfssvæðum eru einfaldlega mjög fá úrræði í boði og litla þjónustu að hafa þannig að íbúar t.d. í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum sækja þjónustu sína að miklu leyti á Selfoss.

Það er mismunandi hversu hátt hlutfall svæðin fá í dag. Þannig hafa t.d. Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktað um að það sé óeðlilegt að framlög til Reykjaness á hvern íbúa séu 24% lægri en samkvæmt landsmeðaltali. Er þar ekki verið að brjóta á lögbundnum réttindum fatlaðra? Þess vegna langar mig að vita hvort ítarleg umræða hafi farið fram um það hvernig þetta kostnaðarmat mun fara fram og hvort þess verði gætt að grunnþjónustan, t.d. búsetuúrræði, sé til staðar þar sem á þarf að halda. Í Rangárvallasýslu er það t.d. svo að sumir einstaklingar sem vilja ekki flytja að heiman (Forseti hringir.) velja að búa á öldrunarstofnunum ef þeir verða fatlaðir.



[13:39]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda er sú vinna sem hafin er við undirbúning á flutningi þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga byggð á stefnumörkun fulltrúa ríkisvaldsins og sveitarfélaganna frá 2007 og gengið var frá helstu grunnforsendum í samkomulagi í marsmánuði sl. Þar er byggt á þeim grundvallarviðmiðum að um verði að ræða heildstæða yfirfærslu á málaflokknum, fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á þjónustunni verði samþætt hjá sveitarfélögum, fjármagn fylgi verkefnum sem byggi á eigin tekjustofni sveitarfélaga, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði þá gerð skýrari og dregið úr skörun verkefna samhliða því sem þjónusta við notendur verði bætt.

Að því er varðar þær spurningar sem hér eru fram bornar er rétt að rekja að nú fer fram vinna á vegum verkefnisstjórnar sem vinnur eftir því skilgreinda verklagi sem lagt var upp með í marsmánuði sl. Í vinnunni fram undan verður í sjálfu sér ráðið úr mörgum þeirra spurninga sem hér koma fram en flækjustigið á þessum tilflutningi er vissulega umtalsvert. Á sama tíma bætist við að mikil framþróun er í umræðu um þjónustu við fatlaða og gríðarlegur áhugi er á því meðal notenda þjónustunnar að auka rými fyrir notendastýrða þjónustu þar sem notendurnir hafi meiri ráð á eigin lífi og meira ákvörðunarvald um hvar, hvenær og hvernig þjónustan er veitt, eins og gleggst kom fram t.d. hér í hádeginu þegar fulltrúar hóps sem hefur unnið að hugmyndum um þetta efni komu hingað og afhentu okkur ráðherrum félags- og heilbrigðismála tillögur hópsins. Aðrir hópar meðal notenda eru að vinna í þessu líka og það er mikill áhugi á því að þróa hugmyndafræðina áfram í tengslum við og á sama tíma og við vinnum að þessari yfirfærslu.

Grundvallarviðmiðið í aðferðafræðinni er að tryggja beri þjónustu á stórum þjónustusvæðum sem séu nógu stór til að geta boðið upp á heilsteypta þjónustu. Sú vinna sem farið hefur fram á vegum sóknaráætlunar fyrir Ísland í samvinnu við sveitarfélögin upp á síðkastið greiðir auðvitað fyrir því að við fáum heildarmynd á það hvernig þessi svæði munu líta út. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafa þegar hafist handa við það verkefni í samvinnu við ríkisvaldið að skilgreina hvernig svæðin geta litið út.

Í prinsippinu er gert ráð fyrir því að allar stofnanir á hverju svæði færist yfir til sveitarfélaga, þar með taldar stofnanir sem eru nú með beinan samning við ríkisvaldið eins og t.d. Sólheimar í Grímsnesi sem hér voru nefndir. Gert er ráð fyrir því í hugmyndafræðinni að á móti komi jöfnunarkerfi þannig að greiðslur fyrir veitta þjónustu fylgi umönnunarþyngd á hverju svæði þannig að fyrir hendi sé skilvirkt jöfnunarkerfi sem jafni út mun milli þjónustuþyngdar í einstökum umdæmum eða á einstökum þjónustusvæðum. Það er mjög mikilvægt því að það er nú þannig í lífinu að erfitt er að spá fyrir um hvernig kostnaður af þessu tagi fellur til. Lífið er mjög óútreiknanlegt í því efni og síðan velur fólk sér auðvitað búsetu á ólíkum stöðum. Kannski er erfitt að spá fyllilega fyrir um slíka þróun og þess vegna er mikilvægt að fjármagnið fylgi hverjum einstaklingi sem kostur er.

Við höfum jafnframt farið yfir starfsmannamálin og hafið samstarf við Starfsmannafélag ríkisstofnana í því máli en það eru einkanlega starfsmenn þess félags sem hér um ræðir. Jafnt þetta mál sem og framþróun í notendastýrðri þjónustu kallar á endurhugsun þjónustunnar og er auðvitað mikið verkefni fyrir okkur öll að takast á við, líka starfsmennina, að framþróunin geti orðið með þeim hætti sem við helst viljum. Ég hef fundið fyrir mjög góðum vilja stéttarfélaganna til að vinna með okkur í því máli.

Að því er varðar síðan að öðru leyti þá þjónustu sem vantar, eins og (Forseti hringir.) búsetuúrræði, er eindreginn ásetningur okkar að vinna að bragarbót í því verkefni núna og við erum að fara að setja af stað starfshóp til að leysa úr (Forseti hringir.) þeim vanda.



[13:43]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga er stórt og viðamikið verkefni sem vanda þarf vel til. Fyrir liggur viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga frá því í mars á þessu ári um flutning málaflokksins til sveitarfélaga 2011. Helstu markmiðin með þessum tilflutningi eru m.a. að bæta þjónustu við fatlaða og að hún sé sniðin að mismunandi þörfum og ólíkum aðstæðum notenda þjónustunnar hverju sinni. Einnig er lagt upp með að samþætta alla nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga og koma í veg fyrir að fatlaðir lendi á milli kerfa og fái ekki þá þjónustu sem þeim ber með því að eitt stjórnsýslustig, þ.e. sveitarfélög, ber að stærstum hluta ábyrgð á almennri félagsþjónustu og samþættingu hennar í sveitarfélaginu.

Allmörg sveitarfélög sinna nú þegar þessari umfangsmiklu þjónustu við fatlaða með samningum við ríkið með ágætum árangri og má þar t.d. nefna Akureyri. Ég tel að málefni fatlaðra sé nærþjónusta sem vel eigi heima á forræði sveitarfélaga en útgangspunkturinn hlýtur að vera sá að nægt fjármagn fylgi verkefninu og að þjónustan skerðist ekki, heldur haldi áfram að þróast og eflast miðað við þarfir hvers og eins einstaklings. Þess vegna er mikilvægt að öllum sveitarfélögum sé gert kleift að sinna þessari þjónustu með sambærilegum hætti og þá vakna vissulega spurningar um getu fámennari sveitarfélaga til að sinna vel þessu verkefni og mismunandi fjárhagsstöðu þeirra. Því verður ríkið að tryggja með lögum að öllum fötluðum sé tryggð sambærileg grunnþjónusta ef málaflokkurinn færist yfir á forræði sveitarfélaga.

Ég tel því rétt að nú verði farið vandlega yfir það hvort tímabært sé að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga við þær erfiðu aðstæður og ótryggu fjárhagsaðstæður sem blasa við ríki og sveitarfélögum (Forseti hringir.) næstu 2–3 árin. Ég tel mjög mikilvægt að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir hendi þegar (Forseti hringir.) svo viðkvæmur málaflokkur er fluttur frá ríki til sveitarfélaga.



[13:45]
Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég held að það sé geysimikilvægt að fara af röggsemi í það eins og ákveðið hefur verið, að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um það vegna þess að ég held að um það sé víðtæk sátt í þjóðfélaginu. Hins vegar þarf að huga að mörgu, þessu þurfa náttúrlega að fylgja tekjustofnar og það þarf að gæta þess að jafnræði sé meðal sveitarfélaganna í því að bjóða upp á þessa þjónustu.

Ég vildi líka sjá, og hæstv. ráðherra hafði um það nokkur orð, að við notuðum þetta tilefni til þess að hugsa þjónustuna við fatlaða upp á nýtt. Ég vildi að við beindum sjónum okkar að notendastýrðri persónulegri þjónustu við fatlaða og gerðum jafnframt á sama tíma að viðfangsefni okkar að efla slíka þjónustu við aldraða. Ég held að við séum á þeim tímamótum núna í uppbyggingu þessa kerfis að við getum tekið ýmsar ákvarðanir sem auka einfaldlega virðingu fyrir mannréttindum fatlaðra. Fatlaðir eiga rétt á því að stjórna sínu lífi, þeir eru sjálfstæðir einstaklingar og með of mikilli stofnanavæðingu í þjónustu við fatlaða göngum við á þennan rétt. Með því að efla notendastýrða persónulega þjónustu með aðstoðarmannakerfi þar sem fatlaðir geta valið sér sjálfir aðstoðarmenn í gegnum miðstöðvar sem sveitarfélögin þá reka eftir að málaflokkurinn er kominn yfir til þeirra tryggjum við að á Íslandi geti fatlaðir farið um og notið þjóðfélagsins eins og sjálfstæðir einstaklingar. Við eigum að nota þennan tímapunkt til að efla þennan rétt fatlaðra (Forseti hringir.) eins og hefur verið gert, held ég að ég fari rétt með, annars staðar á Norðurlöndunum.



[13:47]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að þetta mál hefur verið rætt í áratugi. Ég held að það sé búið að ræða þetta mál frá því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum og það er ansi langt síðan. Allir eru sammála um að það væri æskilegt að gera þetta, rökin eru að nærþjónustan eigi frekar við hjá sveitarfélögunum.

Hví skyldi þetta þá taka þennan tíma? Ég held að stærsta einstaka ástæðan fyrir því sé að við skilgreinum sveitarfélög allt frá 50 manna samfélögum á borð við Árneshrepp og Skorradalshrepp til Reykjavíkur sem hefur 116.000 íbúa. Ég held að ef við viljum þetta þýði ekki fyrir okkur, virðulegi forseti — ef við meinum að við viljum færa verkefnin nær fólkinu þá eigum við líka að vera óhrædd við að beita öðrum leiðum.

Ég beitti mér fyrir því sem heilbrigðisráðherra að færa heimahjúkrun yfir til Reykjavíkur. Nú er búið að sameina heimahjúkrun og heimaþjónustu í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu sem talað hafði verið um í mjög langan tíma. Ég taldi ekki ástæðu til þess að bíða eftir því að málaflokkurinn yrði færður yfir. Þetta hefur gefist afskaplega vel og ég held að við eigum að skoða þetta á fleiri sviðum. Þegar ég fór um landið og hitti t.d. forsvarsmenn á Húsavík höfðu þeir hugmyndir um að sameina ýmislegt þvert á ríki og sveitarfélög, þjónustu og nærþjónustu á því svæði. Þetta eigum við að skoða því að það er engin ástæða til að bíða.

Síðan tek ég undir það og var ánægður að heyra hv. þingmenn tala um notendastýrða þjónustu vegna þess að það er ekki bara það sem koma skal heldur í rauninni það sem ætti að koma núna. Það kallar hins vegar á að við hugsum öðruvísi. Við höfum lagt allt of mikla áherslu á að veita fyrst og fremst stofnanaþjónustu en við þurfum að færa þetta yfir í notendastýrða þjónustu. Það er spennandi verkefni og ég vona að við getum náð góðri pólitískri sátt um það.



[13:49]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu. Hér er um grundvallarmál að ræða og umræðan á ekki að snúast um hvort við höfum efni á að þjónusta fatlaða.

Landssamtökin Þroskahjálp samþykktu á fundi sínum árið 1992 að málefni fatlaðra ættu að vera hjá sveitarfélögum og er nú alllangt um liðið. Málefni fatlaðra eru dæmigerð nærþjónusta sem á heima í sveitarfélögunum en vel að merkja, þau þurfa þá í minnstu tilvikunum að sameinast um þjónustuna. Við getum varla talað um minni svæði en svo sem 7.000 manna sem þurfa í mörgum tilvikum að sameinast um þetta verkefni.

Glæsilegur vitnisburður um þennan flutning málefnaflokksins er einmitt á Akureyri þar sem bæjarfélagið tók við þessu verkefni fyrir tólf árum, árið 1997. Það er glæsilegur vitnisburður um hvernig til hefur tekist í þessum málum og menn ættu að horfa til Akureyrar hvað þetta varðar.

Ég tel að það ætti að fara hina svokölluðu sænsku leið, þ.e. að sérlög um málefni fatlaðra verði látin gilda í þessum málalið. Þetta fari ekki undir félagsþjónustulög, sem eru heimildalög en hin lögin eru réttindalög. Ég held að við ættum að fara eftir þeim lögum sem betur henta og varðveita öryggi fatlaðra fremur en sveitarfélaganna og hins opinbera.

Ég vil síðan geta eins sem er mjög mikilvægt í þessum málefnaflokki og er grundvallaratriði. Við núverandi kerfi blasir við að framkvæmdaraðilinn og eftirlitsaðilinn eru með sama hausinn. Þessu, þó ekki sé nema þessu, verður að breyta og þess vegna er þessum málaflokki mjög vel borgið í höndum sveitarfélaga sem geta þá orðið framkvæmdaraðilinn en ríkið verður áfram eftirlitsaðilinn. Þetta er eitt stærstu atriðanna sem ber að hafa í huga í þessari umræðu. (Forseti hringir.)

Að lokum er þess að geta að við höfum (Forseti hringir.) tækifæri til þess að skipta um kerfi við þetta og gera kerfið notendavænna fyrir vikið.



[13:52]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram en umræðan um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið til umræðu í samfélaginu, bæði innan þings og utan og líka hjá sveitarfélögunum. Á undanförnum árum hafa margir sveitarstjórnarmenn talað fyrir flutningi verkefna en aðrir hafa haft uppi varnaðarorð þar um og á misjöfnum forsendum. Helstu áhyggjur manna hafa verið að með flutningnum muni ekki fylgja þeir fjármunir sem til þurfi og verkefnið muni reynast sveitarfélögunum erfitt fjárhagslega þó að félagslega og tæknilega séu þau bæði í ágætum færum og með góðan vilja.

Ég vil líta á málið frá öðrum sjónarhóli, þ.e. sjónarhóli notendanna. Hver er þeirra vilji? Við skulum í því sambandi ekki gleyma kjörorðum Öryrkjabandalagsins: „Ekkert um okkur án okkar“. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur stjórn Öryrkjabandalagsins ekki ályktað sérstaklega um þetta mál frá árinu 2000, þá ályktaði hún á móti þessum flutningi. Forsvarsmenn öryrkja hafa meðal annars áhyggjur af því að löggjöfin um málaflokkinn sé ekki enn þá nægilega sterk, eins og raunar hefur komið fram í umræðunni hér, til þess að halda utan um verkefnaflutninginn og þjónustan verði þannig afar misjöfn eftir sveitarfélögum og stærð og efnahagur sveitarfélaganna muni ráða meiru um þjónustuna en þarfir notendanna.

Hins vegar er það stefna allra stjórnmálaflokka á Íslandi að nærþjónusta eigi að vera á hendi sveitarfélaganna og ég tel það vera skynsamlega stefnu. Þetta er augljóslega svoleiðis mál. Hins vegar þarf að mínu viti að hafa meira samráð við fulltrúa notendanna, það þarf að styrkja löggjöfina og tryggja sveitarfélögunum tekjustofna með málaflokknum áður en ráðist er í flutning.



[13:54]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál. Eins og fram hefur komið í máli annarra þingmanna held ég að bæði þingmenn og sveitarfélög séu almennt orðin sammála um að færa verkefni um málefni fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga. Það er líka mjög langur tími síðan þetta verkefni hófst og menn hafa nefnt tölur aftur til ársins 1992. Upp úr því hófust einmitt slík tilraunaverkefni hjá sveitarfélögum. Hér hafa verið nefnd góð dæmi um slíkt eins og Akureyri og einnig má nefna Norðurland vestra og Hornafjörð. Þar er hins vegar einungis um 2.200 manna samfélag að ræða sem hefur gert þetta vel þannig að hugmyndin sem hefur verið í þessu um þjónustustærð upp á 7–8 þús. er ekki einhlít þótt það sé sjálfsagt mál að hafa hana sem viðmiðun í þessu sambandi.

Hæstv. ráðherra minntist aðeins á sóknaráætlanir ríkisstjórnarinnar og mér finnst mjög áhugavert að skoða hvernig þær samræmast hugmyndum heimamanna á hverjum stað. Þær mega ekki ganga í berhögg við hugmyndir sem menn hafa verið að vinna. Ég held að eitt mikilsverðasta atriðið í því af hverju þetta er ekki löngu komið í heilu lagi yfir til sveitarfélaganna sé sá trúnaðarbrestur og skortur á trausti sem hefur ríkt á milli ríkisvaldsins og sveitarfélagsstigsins, þessara tveggja opinberu stiga. Þar þarf auðvitað að bæta úr og vonandi eru menn á þeirri leið. Ef menn trúa því og treysta að báðir aðilar komi fram af heiðarleika í samskiptum hvor við annan, ekki síst þegar er sýslað er með fjármuni, þora menn að fara í verkefni vegna þess að þeir vita að þeir verða bakkaðir upp (Forseti hringir.) með eðlilega fjármuni til að sinna þessum málaflokki eins vel og hann sannarlega þarf.



[13:56]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í þessa umræðu í dag. Eitt af mínum markmiðum í pólitík er að koma málefnum fatlaðra á dagskrá. Nú eru átta hv. þingmenn búnir að ræða hver um sig í a.m.k. tvær mínútur um málaflokkinn og ég trúi því og treysti að við höldum áfram að fjalla um þetta mikilsverða mál og tökum þetta málefni upp á okkar arma. Við sem búum ekki við fötlun berum ábyrgð á því að halda þessum sjónarmiðum á lofti og vinna að því að fá aukna fjármuni í þetta verkefni. Vissulega er kreppa í landinu en þetta er verkefni sem við skulum öll taka höndum saman um að efla.

Það urðu mér reyndar ákveðin vonbrigði að þingmenn Hreyfingarinnar hafa ekki séð ástæðu til að blanda sér í þessa umræðu. Þeir hafa gagnrýnt mjög fjórflokkinn en það er þó alla vega sannað hér í dag að þessir ágætu hv. þingmenn fjórflokksins hafa áhuga á þessu málefni. Rétt er að það komi fram.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og er ánægð að heyra að það er verið að skoða að gera bragarbót á búsetuúrræðum fatlaðra. Ég er ánægð með að heyra það vegna þess að það er grundvallaratriði í að vinna þessum hugmyndum fylgi meðal t.d. þeirra sem búa úti á landsbyggðinni. Ég trúi því og treysti að allt kapp verði lagt á að vinna bug á því að fólk þurfi í stríðum straumum að flytjast til höfuðborgarsvæðisins til þess að finna búsetuúrræði við hæfi.

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að fram hafa komið áhyggjuraddir hjá Öryrkjabandalaginu og í ræðu framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands árið 2003 við setningu Evrópuárs fatlaðra kom fram að í Noregi hafði sambærilegur flutningur til sveitarfélaganna valdið því að fólk með fötlun hraktist á milli sveitarfélaga til að leita sér að betri þjónustu. Þetta skulum við forðast að verði að veruleika hér á Íslandi. Ég trúi því og treysti að þeir sem hafa blandað sér í umræðuna hér í dag standi vörð um þetta sjónarmið.



[13:59]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu og málefnalegu umræðu og þau jákvæðu viðhorf sem hér ríkja bæði til framþróunar í þjónustu við fatlaða og flutningsins sem slíks. Ég vildi gera betur grein fyrir hugmyndum um úrbætur í búsetuúrræðum en mér gafst færi á í fyrra skiptið. Við búum við miklar vanrækslusyndir frá fyrri tíð þar sem menn létu þessi miklu vaxtarár algjörlega fram hjá sér fara og gerðu ekkert til að bæta úr brýnum skorti í búsetuúrræðum. Nú eru auðvitað engir peningar til og engir peningar í Framkvæmdasjóði fatlaðra en við erum að reyna að þróa aðferðafræði við uppbyggingu í málaflokki fatlaðra með sama hætti og við höfum getað á undanförnum vikum þróað nýjar hugmyndir og ný úrræði um hvernig hægt sé að leysa úr brýnni uppbyggingarþörf í málaflokki aldraðra.

Hvað varðar kostnað við málaflokkinn hefur hann verið greindur upp á 10 milljarða kr. Ítarvinna við það kostnaðarmat er í gangi og hugmyndir ganga þá út frá því að það sé fjárhæðin sem flytjist yfir til sveitarfélaga. Hitt verðum við auðvitað að horfast í augu við að notendastýrð þjónusta verður líklega dýrari og við munum þá þurfa að mæta því með einhverjum hætti. Ég held að það sé líka umhugsunarefni að fara yfir sænsku leiðina í aðferðafræði við veitingu þjónustunnar eins og nefnt var í umræðunni. Þar er í reynd um að ræða að almenn þjónusta við fatlaða er flutt til sveitarfélaga en ríkið tryggir síðan viðbótarþjónustu og þar með er jafnræði fólks að fullu tryggt óháð búsetu. Það má segja að það kunni að vera flóknara að útfæra slíkt á þann hátt að verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga sé alveg skýr en á móti kemur að jafnræðið er fullkomlega tryggt.

Ég held að við eigum að vinna áfram í þessum skilgreiningum samhliða því sem við þróum þjónustuna áfram, finnum notendastýrðri þjónustu betra pláss og vinnum áfram í þessum málaflokki á næsta ári. (Forseti hringir.)