138. löggjafarþing — 30. fundur
 24. nóvember 2009.
launakröfur á hendur Landsbanka.

[13:41]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikið rætt um siðbót og nýja Ísland á Alþingi og af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Því var reyndar ekki mikið fyrir að fara í ræðu sem var haldin áðan af einum af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. En mig langar að ræða aðeins við hæstv. félagsmálaráðherra. Ljóstrað hefur verið upp um það í þingsal að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að raða inn fólki úr sínum röðum inn í ráðuneyti og stofnanir og á fimmta tug hafa verið ráðnir á þessu ári án auglýsingar, það er búið að upplýsa um það. Hvað með þá alla sem ráðnir voru með auglýsingu, verktaka og aðra? Það á eftir að upplýsa um það, sem verður vonandi gert.

Þá er athyglisvert að í græðgisbönkunum, sem þessir stjórnarflokkar hafa gjarnan talað um, starfa nú vinir og vandamenn ráðherra og þiggja vafalaust þokkaleg laun fyrir. Þá hefur komið fram að einn af yfirmönnum Landsbankans á græðgistíma hans er aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Umræddur aðstoðarmaður félagsmálaráðherra hefur nú gert 230 millj. kr. kröfu í þrotabú Landsbankans. Eðlilega fer maður að velta fyrir sér hve djúpt sú siðbót ristir sem stjórnarflokkarnir tala um þegar hæstv. ráðherra ákveður að ráða sér aðstoðarmann sem gerir slíka kröfu í því umhverfi sem er í dag. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann styður kröfu aðstoðarmannsins um þessar 230 millj. Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort hann telji kröfu aðstoðarmanns síns siðferðislega rétta. Ég held að það sé rétt að ráðherrann svari því því að þetta er einu sinni sá aðstoðarmaður sem hann valdi til starfans. Mig langar jafnframt að spyrja ráðherra hvort hann telji ástæðu til að endurskoða ráðningu hans helsta ráðgjafa sem gerði slíka 230 millj. kr. kröfu í ljósi þess sem fram hefur komið. Telur ráðherrann að hér þurfi siðbót?



[13:43]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu þá sem hér er sett fram gætir nokkurs misskilnings. Ég hef ekki ráðið þann mann til starfa sem hér um ræðir og vísað er til. Hann tók að sér að sinna afmörkuðum verkefnum. Mér var í sjálfu sér ekki kunnugt um hvaða kröfur hann gerir í þrotabú Landsbankans en las um það í fjölmiðlum. Ég kanna ekki fjárhagslegan bakgrunn allra þeirra sem koma að verkum, ég held að hv. þingmaður hljóti að skilja það.

Þessi ágæti maður taldist, annar tveggja, ótvírætt hæfur til að gegna starfi seðlabankastjóra. Hann var hæfni sinnar vegna, sem er óumdeild, fenginn til tiltekinna verka og hefur verið að vinna þau en þeim verkefnum er að ljúka. Hann hefur ekki verið ráðinn í neitt fast starf heldur hefur hann einvörðungu sinnt afmörkuðum verkefnum í tímavinnu. Þau verkefni ganga sinn gang eins og eðlilegt er. Það er ekki vilji til þess af minni hálfu að raða fólki inn án auglýsingar í ráðuneyti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að hafa embættiskerfið skipað á faglegum forsendum. Ég hef margsinnis talað fyrir því að við tökum ráðningarvald alfarið af ráðherrum og setjum á einn stað í stjórnkerfinu ráðningu allra embættsmanna sem síðan flæði frjálst í gegnum stjórnkerfið. Þannig styrkjum við embættiskerfið og tryggjum fagmennsku þess þannig að ekki sé í hverju og einu ráðuneyti verið að taka ákvarðanir um ráðningar fólks.



[13:45]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Þetta var vitanlega ekkert svar. Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa ráðið manninn til starfa. Hins vegar er hann að sinna ákveðnum verkefnum. Hver réð hann þá í það verkefni? Er hann ekki að starfa að verkefnum fyrir hæstv. ráðherra? Hann svarar því kannski.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur þeirra spurninga sem ég spurði áðan: Styður hæstv. félagsmálaráðherra kröfu þessa ráðgjafa, sem ekki virðist vera starfsmaður hans? Telur ráðherrann kröfu aðstoðarmannsins siðferðislega rétta eða þessa ráðgjafa sem vinnur fyrir hann en samt ekki fyrir hann? Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða ráðningarsamning eða starfssamning sem gerður er við þennan ágæta ráðgjafa í ljósi þessa máls? Ef ég dreg þetta saman: Styður ráðherrann kröfuna? Telur ráðherrann hana siðferðislega rétta og mun hann halda manninum áfram í vinnu?



[13:46]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað það er í svari mínu sem hv. þingmaður skilur ekki. Ég útskýrði það að ég stóð fyrir því að fá þennan mann sem hefur skýra hæfni til að bera til að vinna afmörkuð verkefni. Þeim er að ljúka. Af þeirri ástæðu er ekki ástæða til að endurskoða á nokkurn hátt þau verkkaup sem þar var um að ræða. Að öðru leyti er það ekki þannig að ég hafi á einhvern hátt vitað af þeirri kröfugerð sem þarna var gerð, eins og ég tók skýrt fram. Ég las það í blöðunum eins og aðrir hvaða krafa var sett fram. (Gripið fram í.) Það er í sjálfu sér ekki mitt að fella dóm um það. Ég hefði ekki gert þessa kröfu en það er ekki mitt að fella dóm um hana.