138. löggjafarþing — 31. fundur
 25. nóvember 2009.
vegir sem uppfylla staðla Evrópusambandsins.
fsp. GÞÞ, 157. mál. — Þskj. 173.

[15:34]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta fyrirspurnin í umferðaröryggisspurningunum sem ég er með. Svörin við þessum spurningum og sú umræða sem hér fer fram hefur verið mjög góð. Ég lít svo á að hæstv. samgönguráðherra sé bandamaður okkar allra sem viljum bæta umferðaröryggismál og ég tel að við séum sammála hvað þessa hluti varðar. Hæstv. ráðherra vísaði til þess áðan að við hefðum náð árangri, slysum hefði fækkað, en mikilvægt er að við höldum vöku okkar og reynum alltaf að gera betur. Enn verða slys og einhver gæti sagt að það væri draumórakennt að tala um að reyna að koma algjörlega í veg fyrir slys, það verður örugglega aldrei hægt, en það er enginn vafi að við getum náð árangri í því að minnka mannskaða og við getum náð árangri í því að fækka slysum, en það gerist ekki af sjálfu sér og við þurfum að vinna skipulega að því. Ég lít svo á að ég eigi bandamann í hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og ég lít svo á að ég sé hér að brýna hann og halda hæstv. ráðherra við efnið og það mun ég gera áfram. Ég hef gert það frá því að ég varð þingmaður og ætla að halda því áfram.

Ég spyr núna um vegi. Í fyrsta lagi, hvaða vegir hér á landi uppfylla staðla Evrópusambandsins samkvæmt TERN (Trans European Road Network)? Í öðru lagi, stendur til að fjölga slíkum vegum?

Þeir vegir sem eiga að uppfylla þessa staðla eru hringvegurinn, Reykjanesbrautin, Þorlákshafnarvegur, vegur nr. 61 frá Ísafirði og vegur nr. 93 frá Seyðisfirði upp á Egilsstaði. Ástæðan fyrir því að þeir eiga að uppfylla þessa staðla er sú að þeir eru partur af sameiginlegu vegakerfi Evrópu sem menn hafa unnið á vettvangi Evrópusambandsins og ástæðan fyrir því að þeir eru partur af sameiginlegu vegakerfi Evrópska efnahagssvæðisins er eðlilega sú að við erum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég hef áhuga á því að vita hvernig staðan er hvað þetta varðar, hvort þeir uppfylli þessa staðla, og hvort það standi til að fjölga slíkum vegum, þ.e. með þessum stöðlum, því að sjálfsögðu getum við haft eins marga vegi og við viljum sem uppfylla þessa staðla ef það er vilji íslenskra stjórnvalda.



[15:37]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrri spurningu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um vegi sem uppfylla staðla Evrópusambandsins vil ég segja þetta:

Með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1692/96/EB um viðmiðunarreglur um þróun evrópska samgöngukerfisins eru ekki gefnir út staðlar um Evrópuvegi heldur viðmiðunarreglur um þróun þeirra. Eins og fram kemur í 2. kafla leiðbeininganna þar sem fjallað er um vegakerfi eru einkenni TERN-vega hraðbrautir og hágæðavegir sem þegar eru til, nýir eða á skipulagsstigi, sem

1. hafa þýðingu fyrir fjarumferð,

2. eru hjávegir við stór þéttbýli í kerfinu,

3. tengja mismunandi samgöngugreinar

4. tengja landlukt og jaðarsvæði við miðsvæði Evrópusambandsins.

Þessu til viðbótar er stefnt að því að TERN-vegir tryggi notendum hágæðaþjónustu, þægindi, öryggi og upplýsingaþjónustu.

Þar sem um viðmiðunarreglur er að ræða er það íslenskra samgönguyfirvalda að skilgreina nánar framangreind atriði. Íslenskir TERN-vegir eru í aðalatriðum mestur hluti hringvegar 1 og vegir út frá honum að helstu útflutningshöfnum og meginflugvöllum.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: „Stendur til að fjölga slíkum vegum?“

Sem svar við þessu vil ég segja að vegakerfið er sífellt að breytast. Í haust breyttist skilgreining Djúpvegar sem byrjar nú í Króksfirði en byrjaði áður í Hrútafjarðarbotni. Þar með breyttist TERN-vegakerfið en Djúpvegur er hluti þess. Með þessari breytingu varð Vestfjarðavegur frá Dalsmynni í Borgarfirði að Djúpvegi í Króksfirði TERN-vegur. Á næsta ári mun Landeyjahafnarvegur væntanlega taka við af Þrengslavegi, Þorlákshafnarvegi, og Hafnarvegi í Þorlákshöfn sem TERN-vegur.

Virðulegi forseti. Þetta er svar mitt við þeim tveim spurningum sem eru í þessari fyrirspurn. Eins og hv. þingmaður gat um áðan er þetta fjórða fyrirspurnin sem allar eru um umferðaröryggismál á einn eða annan hátt og ég vil þá nota tækifærið, af því að ég hef smátíma til þess, að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp á þinginu vegna þess að umferðaröryggismál eru eins og ég hef áður sagt mjög mikilvægur þáttur í samgöngukerfi landsmanna og við verðum sífellt að gefa þeim gaum og gera allt sem við getum til að auka umferðaröryggi og fækka slysum.



[15:40]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í minn garð. Eins og ég nefndi áðan erum við samherjar í því að reyna að efla umferðaröryggi í landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum þetta mikilvæga mál til umræðu reglulega á þinginu og förum yfir stöðu mála, hvernig hefur gengið hjá okkur og eftir hvaða leiðum við vinnum.

Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir staðla eða viðmiðunarreglur TERN en maður hefði kannski mátt segja sér það að þetta er þannig mál að betra er að skoða það yfir korti en fara yfir það úr ræðupúlti. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég held að það væri mjög æskilegt ef samgöngunefnd færi yfir þessi mál og þá öll málin sem ég spurði hér um, og þetta væri eitt af þeim leiðarljósum sem við hefðum til grundvallar þegar við tökum ákvarðanir í samgöngumálum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur og við eigum óhikað að taka upp hluti, sama hvaðan þeir koma, að því gefnu að þeir séu góðir. Eftir því sem ég best veit eru í Evrópu, ég þekki ekki Vesturálfu en það eru a.m.k. lönd innan Evrópusambandsins sem hafa náð lengst í heimi hvað varðar umferðaröryggismál. Þá er bara eitt fyrir okkur að gera að í staðinn fyrir að finna upp hjólið eigum við bara að læra af þeim og ég lít svo á að við séum að gera það. Ég þakka svo hæstv. ráðherra fyrir öll þau svör sem hér hafa komið fram.