138. löggjafarþing — 31. fundur
 25. nóvember 2009.
sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.
fsp. ÓN, 213. mál. — Þskj. 237.

[15:43]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um sameiningu eða hugsanlega sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.

Nú hefur það nokkuð verið í umræðunni frá því síðasta haust þegar bankarnir hrundu, hvort ástæða væri til að gera breytingar á eftirliti með bankakerfinu og þá sérstaklega hvort ástæða væri til að meira samband og samstarf væri á milli Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Í gildi hafa verið samningar milli þessara aðila um þetta en einhvern veginn finnst manni að þessir atburðir hljóti að leiða hugann að því hvort ekki þurfi að gera betur í þessu. Við höfum verið með sjálfstætt starfandi fjármálaeftirlit undanfarin 10 ár, ég hygg að hafi verið í upphafi árs 1999 sem Fjármálaeftirlitið tók til starfa. Áður hafði bankaeftirlitið verið í Seðlabanka Íslands innan vébanda bankans. Uppi eru sjónarmið um að það fyrirkomulag hafi að mörgu leyti gefist ágætlega vegna þess að með því að hafa bankaeftirlitið innan bankans, hafði bankastjórn Seðlabankans jafnvel meiri tök á því að fylgjast með bönkunum gegnum bankaeftirlitið, auk þeirra úrræða sem bankinn sjálfur hafði.

Mig langar til að forvitnast um þetta hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hver skoðun hans á þessu máli er, hvernig hann telji að best sé til lengri tíma að haga skipulagi á þessum málaflokki og þá sérstaklega hvort einhver athugun sé í gangi í ráðuneytinu um það hvernig best skuli haga þessu eftirliti.

Ég geri mér grein fyrir að það er margt á könnu Fjármálaeftirlitsins nú um stundir. Ég er fyrst og fremst að spyrja að þessu til lengri tíma litið, hvort þetta sé eitthvað sem væri æskilegt að gera, eða hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra telji að hægt sé að styrkja það eða ganga betur um hnútana hjá Fjármálaeftirlitinu svoleiðis að eftirlitið sé með betri hætti en verið hefur.

Nokkuð var um þetta rætt eins og ég segi í kjölfar hrunsins, minna hefur farið fyrir þessari umræðu akkúrat núna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessari umræðu dálítið vakandi og menn velti fyrir sér hvernig best sé að haga þessu. Ég vil þess vegna forvitnast um þetta sérstaklega hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar jafnframt að spyrja hann að því hvernig þróunin eða umræðan er í nágrannalöndunum núna, þar sem menn eru einnig að ganga í gegnum erfiðleika vegna fjármálakreppunnar og hvort Evrópureglur séu að breytast eitthvað hvað þetta varðar, og hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi þá upplýsingar um hvernig sú þróun gæti orðið og hvaða áhrif það mundi hafa á þá umræðu sem er á Íslandi.



[15:46]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal þessar ágætu og tímabæru spurningar.

Því er til að svara að ráðuneytið hefur vitaskuld hugað mjög að þessum málum á undanförnum mánuðum. Við höfum hins vegar metið stöðuna þannig að það væri óvarlegt að fara út í svo róttækar skipulagsbreytingar sem sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands væri alveg á næstunni, sérstaklega í ljósi þess, eins og hv. þingmaður benti reyndar á, að álagið á þessar stofnanir og þá sérstaklega Fjármálaeftirlitið er mjög mikið um þessar mundir og það rask sem mundi fylgja róttækum skipulagsbreytingum gæti orðið til þess að torvelda stofnuninni enn að sinna því starfi sem hún er að sinna. Það breytir því ekki að við verðum að fara yfir þessi mál fyrr eða síðar og komast að niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir að verði niðurstaðan úr því mati sú að til lagabreytinga þurfi að koma, verði frumvarp þar að lútandi lagt fram næsta vetur en ég sé ekki fram á að það verði gert í vetur. Engu að síður tel ég rétt að víkja að nokkru leyti að helstu sjónarmiðum í þessu samhengi, þar á meðal þeirri umræðu sem hefur farið fram í nágrannalöndum okkar.

Í kjölfar þeirra hremminga sem riðu yfir alþjóðlega fjármálamarkaði og náðu hæstu hæðum síðla síðasta árs, settu mörg lönd og Evrópusambandið í gang vinnu til að huga að framtíðarfyrirkomulagi opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi í viðkomandi löndum eða sambandinu. Innan Evrópusambandsins fékk tiltekin nefnd þetta verkefni og hún er almennt kölluð de la Rosiere-nefndin eftir nafni formanns nefndarinnar. Hún skilaði af sér tillögum í fyrravetur. Hér gefst ekki tími til að fara yfir niðurstöður eða tillögur nefndarinnar í heild sinni, en þær eru mjög áhugaverðar og fyrirsjáanlega munu þær hafa áhrif á íslenskt regluverk að verulegu leyti þegar fram líða stundir. En meðal helstu þátta sem minnast má á er að það er niðurstaða þessarar de la Rosiere-nefndar að margir samverkandi þættir leiddu til þessara hremminga á fjármálamarkaði og það sé ekki hægt að kenna einstökum fjármálaeftirlitsstofnunum, hvort sem það eru seðlabankar eða fjármálaeftirlit, eingöngu um þær hremmingar sem riðið hafa yfir, það er flóknara samhengi sem er þar að baki, m.a. lítið aðhald peningamálayfirvalda, lágir vextir á alþjóðafjármálamörkuðum og ófullnægjandi aðhald í ríkisfjármálum nánast um heim allan spiluðu hér einnig stórt hlutverk. Þá skorti verulega á samhæfingu og samráð á milli landa og alþjóðastofnana. Mestu skiptir þó að mati skýrsluhöfunda að stjórnun og stjórnunarhættir fjármálafyrirtækja brugðust og því til viðbótar má benda á að matsfyrirtæki juku talsvert á vandann með óraunhæfu mati á svokölluðum fjármálagerningum, svo sem hinum frægu undirmálslánavafningum og einnig brást þeim bogalistin við mat á einstökum fyrirtækjum.

Það má færa sterk rök að því að sameining Seðlabanka og eftirlits með einstökum fyrirtækjum hefði litlu breytt hér um, enda virðast þessar hremmingar hafa gengið yfir hin fjölmörgu hagkerfi heims, nánast án tillits til þess hvernig eftirliti var fyrirkomið, þ.e. hvort því var skipt á milli seðlabanka og fjármálaeftirlits eða var sameinað í einni stofnun.

Það virðist því ekki vera til nein augljóslega besta útgáfa sem allir eru sammála um að sé best á þessum eftirlitskerfum, þótt vissulega færi ýmsir rök fyrir einu kerfi frekar en öðru. Á vettvangi Evrópusambandsins er núna líkt og auðvitað á Íslandi og nánast um heim allan, unnið að því að sníða helstu ágalla af eftirliti á fjármálamarkaði og unnið er innan Evrópusambandsins eftir tillögum de la Rosiere-nefndarinnar, m.a. þeim að láta tvær meginstoðir sinna eftirliti, annars vegar hinu svokallaða evrópska kerfisáhætturáði og svo hins vegar evrópska fjármálaeftirlitskerfinu og að hafa gagnvirk samskipti og upplýsingagjöf á milli þessara tveggja meginstoða.

Rauði þráðurinn í þessari vinnu er að tryggja að þeir sem fylgjast með kerfislægum þáttum og þeir sem fylgjast með einstökum fyrirtækjum gangi í takt. Það hlýtur einnig að vera markmiðið hér og reyndar um heim allan, hvort sem það verður gert með því að sameina þessar tvær tegundir eftirlitsstofnana eða hafa þær sitt í hvoru lagi.



[15:51]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Þetta hefur aðeins verið rætt innan viðskiptanefndar þar sem ég á sæti og það hafði einmitt komið fram áður í orðum hæstv. ráðherra að þetta væri ekki eitthvað sem væri á áætlun eða unnið væri að vinna núna, þ.e. sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Hins vegar má benda á að þetta var ein af tillögunum sem komu fram í Kaarlo Jännäri-skýrslunni, að skoða það að fara í sameiningu á þessum tveimur stofnunum, og segja má að tekið hafi verið ákveðið skref í þá átt með því að færa Seðlabanka Íslands undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið.

Annað sem ég saknaði kannski í annars ágætu svari hjá ráðherranum var að benda á að eitt af því sem virðist hafa komið upp á í hruninu var þessi skipting á því að Fjármálaeftirlitið hafði eftirlit með bankastofnunum en Seðlabankinn var sá sem fylgdist með lausafé bankanna. Það reyndist vera stóri áhættuþátturinn í rekstri bankanna að þeir áttu í miklum erfiðleikum með að fjármagna sig frá (Forseti hringir.) degi til dags og var raunar það sem gerðist síðan á endanum að Seðlabanki Íslands fór á hausinn ásamt bönkunum.



[15:52]
Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir svörin. Ég hygg að það sé mikilvægt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að auðvitað voru mjög samverkandi þættir sem ollu því að þetta hrun varð hér. Við vitum auðvitað að vandinn er alþjóðlegur en það er engu að síður ástæða til þess fyrir okkur að rýna mjög vel í þau kerfi sem við höfum á Íslandi og líka þá umræðu sem hafði raunar verið í gangi í nokkurn tíma í sjálfu sér, hvort eftirlitinu væri betur komið með öðrum hætti, hvernig sem menn síðan leysa úr því þegar þar að kemur. Við þurfum bæði að fylgjast með því hvernig þróunin er í nágrannalöndunum og enn fremur að skapa hér kerfi sem hentar okkar íslensku aðstæðum. Þessi skýrsla de la Rosiere er auðvitað mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu sem við þurfum að fara í á Íslandi.

Mér finnst mikilvægt á vettvangi þingsins núna þegar við erum að reyna að reisa efnahaginn við að við hugum jafnframt að því hvernig hlutunum sé betur komið fyrir til framtíðar. Ég tek undir það hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að auðvitað er ekki hægt að gera alla hluti í einu og það getur verið varhugavert að fara að kollvarpa hlutunum í því róti sem nú er. En umræðan er mjög þörf og ég þakka fyrir þetta svar hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Ég hef auðvitað ekki forsendur til að meta það eða þekkingu hvernig þessu er best fyrir komið en mér finnst samt mjög athyglisverð þau sjónarmið sem hafa komið fram um samspil Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að sambandið sé a.m.k. svo náið að það fljóti betur á milli þannig að menn fylgist betur með því sem fram fer, þótt aldrei sé hægt að kenna neinu einu um þá atburði sem urðu hér, enda eru þeir eins og við vitum alþjóðlegir atburðir.



[15:54]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu þótt hún sé nú formsins vegna augljóslega það stutt að hún er engan veginn tæmandi. Ég tel að hvað svo sem hugmyndum um sameiningu þessara tveggja stofnana sem hér er vísað til líður, sé alveg augljóst að það þarf að taka á ýmsu sem bent hefur verið á í kjölfar þess áfalls sem gengið hefur yfir okkur, m.a. upplýsingaskipti og upplýsingagjöf bæði á milli þessara stofnana innbyrðis og frá fjármálafyrirtækjunum beint til markaðarins, ef við notum það hugtak, svo einnig miðlun Seðlabanka og Fjármálaeftirlits á upplýsingum um fjármálafyrirtækin til þeirra sem vilja kynna sér stöðu þeirra, hvort sem það eru lánveitendur eða aðrir. Innan míns ráðuneytis er unnið að ýmsum breytingum að þessu leyti og reyndar einnig innan stofnananna sjálfra, því að margt af þessu er þannig að það krefst ekki lagabreytinga eða fyrirmæla ráðherra, þetta er eitthvað sem stofnanirnar geta unnið úr sjálfar m.a. á grundvelli samstarfssamnings. Þessi mál eru því í ákveðnum farvegi og vinnslu sem tekur mið af reynslunni af því sem gekk yfir. Auðvitað er það svo að ekki eru öll kurl komin til grafar um það hvað fór úrskeiðis hér á undanförnum missirum, sérstaklega síðastliðið haust, væntanlega á ýmislegt fleira eftir að koma upp og menn eiga þá eftir að bregðast við því, hvort sem það verður með breytingum á regluverki eða annars konar breytingum.