138. löggjafarþing — 31. fundur
 25. nóvember 2009.
verkefni héraðsdómstóla.
fsp. GBS, 187. mál. — Þskj. 209.

[18:52]
Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum verið í umræðunni einhverra hluta vegna að sé frekar rólegt hjá dómurum á landsbyggðinni sérstaklega. Ég held hins vegar að það sé ekki endilega rétt. Ég hef í fyrirspurn þar sem ég óskaði eftir skriflegu svari frá hæstv. ráðherra komið með ábendingar um það eða í raun óskað eftir upplýsingum eða staðfestingu á upplýsingum sem ég setti fram í fyrirspurninni, að ef við gefum okkur það að hægt sé að auka verkefni dómara og dómstóla á landsbyggðinni, hvort hægt sé að færa einhver verkefni til þeirra. Og eins ef þeir eru störfum hlaðnir að færa þá verkefni til þeirra dómara sem hafa minna umleikis á þeim tíma, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þar má nefna verkefni tengd fjarvinnslu sem hugsanlega mætti vinna á ólíkum stöðum. Það má velta fyrir sér endurritun eftir hljóðupptökum og slíku, hvort sé hægt að færa það á milli dómstóla eftir því í hvernig álagið er eða hreinlega fela ákveðnum dómstólum slíka vinnu í ljósi þess að ... (Utanrrh.: Á Sauðárkrók?) Til dæmis, já, hæstv. utanríkisráðherra — í ljósi þess að þeir eigi að hafa rýmri tíma en aðrir. Síðan má velta fyrir sér skjalavistun og umsýslu með skjöl og þess háttar. Í fjórða lagi hef ég aðeins velt því fyrir mér hvort það gangi, þ.e. ef það er ekki bundið sérstaklega í lögum eða einhverjum samningum eða slíku sem verið er að fjalla um, að héraðsdómarar geti fjallað um ákveðin dómsmál, þ.e. að dómsmál séu hreinlega flutt á milli dómstóla eftir því hvernig ástandið er hverju sinni. Þetta gæti þá gengið í rauninni í allar áttir, sérstaklega með mál þar sem einstaklingar þurfa að fara um langan veg og ef þetta eru mál sem jafnvel kalla ekki á að aðrir en lögmenn séu viðstaddir eða slíkt. Þá má hugsa sér að þetta geti farið fram víða um land og þannig megi létta á þrýstingi sem hugsanlega er á starfseminni.

Ég geri mér grein fyrir því að fram undan eru væntanlega og því miður mikil og aukin verkefni hjá dómurum. Því tel ég mjög mikilvægt að fara yfir það hvort flutningur verkefna geti verið með þessu móti. Ef niðurstaðan verður sú að minna sé að gera hjá ákveðnum dómurum og aðrir séu að drukkna í verkefnum, ber vitanlega að skoða hvort hægt sé að flytja störf á milli í stað þess að leggja þau niður.



[18:55]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnir. Ég ætla að bregðast við síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda strax og ítreka það að í framkomnum tillögum um breytingu á fyrirkomulagi héraðsdómstólanna er ekki gert ráð fyrir niðurlagningu á dómarastöðum.

Ég tel almennt að vinna megi betur að því að færa verkefni frá höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðina. Þannig hafa verkefni verið færð frá dómsmálaráðuneytinu til einstakra sýslumanna víða um land á undanförnum árum með mjög góðum árangri.

Hvað varðar rekstur dómstóla tel ég að framkvæmdarvaldið eigi að hafa þar sem minnst afskipti og endurspeglast það reyndar í gildandi lögum um dómstóla. Kom ég inn á sjónarmið þess efnis í svari við fyrirspurn rétt áðan. Ég leyfi mér þó að skýra frá þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að huga vel að því hvort unnt sé að færa einhverja þætti stoðþjónustu við dómstólana út á landsbyggðina. Í sambandi við frumvarp það sem nú er til meðferðar hjá allsherjarnefnd og varðar breytingu á dómstólalögum, hefur dómstólaráð bent á að með því að breyta héraðsdómstólum úr átta stofnunum í eina, megi vinna bókhald á einum stað, svo og símsvörun, svo dæmi séu nefnd. Hefur dómstólaráð bent á að þessa þætti mætti eftir atvikum flytja út á landsbyggðina ef heppilegt þykir.

Endurritun dómgerða í sakamálum hefur einnig verið nefnd sem verkefni sem vinna má hvar sem er á landinu. Endurritunin fer þannig fram að ritari endurritar framburð ákærða og vitna af hljóðupptökum. Ljóst má vera að slík vinnsla getur farið fram miðlægt hvar sem er, en hún er nú á hendi starfsmanna viðkomandi héraðsdómstóls. Reyndar hefur dómstólaráð lagt til við Hæstarétt að þessu fyrirkomulagi verði breytt og verkefnið falið ríkissaksóknara á sama hátt og er í einkamálum þar sem sá sem stendur að áfrýjun ber ábyrgð á því verki gagnvart Hæstarétti.

Hvort sem endurritunin, að hluta eða heild, fer fram á vegum dómstóla eða ríkissaksóknara, breytir það því ekki að hér er um að ræða verkefni sem vinna mætti hvar sem er á landinu. Það er aftur á móti vandséð að unnt sé að færa dómstörf á milli héraðsdómstóla öðruvísi en að breyta varnarþingsreglum. Í 5. mgr. 16. gr. laga um dómstóla er ákvæði um hvernig dómari verði fenginn til að sinna afmörkuðu verki við annan dómstól en þann þar sem hann eigi fast sæti án þess að hann skipti að öðru leyti um starfsvettvang.

Í athugasemdum með ákvæðinu er tekið fram að þörfin á þessu gæti einkum komið upp annaðhvort í sambandi við mál þar sem héraðsdómur ætti að vera fjölskipaður en kostur væri ekki á dómara til þeirra á viðkomandi dómstóli eða ef allir dómarar væru vanhæfir til að fara með mál. Samkvæmt þessu ákvæði yrði þá dómstólaráð að ákveða hvaða dómara yrði falið slíkt verk. Slíkt mundi einnig þýða greiðslur á ferðakostnaði dómara af staðaruppbót.

Hvað varðar þau einkamál þar sem ekki fer fram munnlegur málflutningur, svokölluð áritunarmál, og þessu hugaði ég sérstaklega að í tilefni af fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda um verkefni sem unnt væri að færa til landsbyggðarinnar eða miðlægt á landsvísu, þ.e. í málum þar sem takmörkuðum vörnum verður komið við, er gert ráð fyrir að þau verkefni verði fengin aðstoðarmönnum héraðsdómstóla og sparast á móti sá tími dómara sem í málin hefðu farið ella. Þá er ég að ræða um frumvarpið sem er nú til meðferðar.

Hvort einn dómstóll á landsvísu geti tekið slík mál að sér skal ósagt látið en ég tel að dómstólaráð geti hugað að þessu atriði sérstaklega, auk þess sem allsherjarnefnd getur fjallað um það í sambandi við fyrrgreint frumvarp sem er til meðferðar og varðar breytingu á dómstólalögum.

Þá tel ég einnig að allsherjarnefnd geti fjallað um þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi hefur nefnt hér hvað varðar verkefni til landsbyggðarinnar og jafnvel komið að því í nefndaráliti ef nefndinni þóknast svo.



[18:59]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi að gefnu tilefni koma því á framfæri að allsherjarnefnd hefur frumvarp dómsmálaráðherra að sjálfsögðu til meðferðar eins og fram hefur komið, en það er hins vegar rétt að geta þess að efnisleg umfjöllun um málið er ekki hafin í nefndinni og málið er enn þá til umsagnar, þannig að það sem kemur fram í þessari umræðu og öðrum svörum sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur komið fram með hér í dag nýtist auðvitað í starfi nefndarinnar.

Varðandi verkefni dómstólanna ætla ég ekki að fara ofan í þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi Gunnar Bragi Sveinsson nefndi, en ég vildi bara árétta það sem hefur komið fram við önnur tækifæri í þinginu að það er þegar orðin veruleg aukning á verkefnum fyrir dómstólana á öllum sviðum eftir því sem mér skilst, á öllum sviðum, öllum málaflokkum. Það er fyrirsjáanlegt að verkefnaaukningin mun halda áfram næstu missiri og við því verður auðvitað að bregðast.



[19:00]
Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sem gerði hér stutta athugasemd fyrir það síðasta sem kom fram, þörf ábending um aukið og vaxandi álag á dómstólana.

Frú forseti. Í tilefni af því að við erum stödd í umræðu númer eitt og hálft um frumvarp það sem nú er til umfjöllunar í allsherjarnefnd og varðar breytingu á dómstólalögum, verð ég að fá að skjóta því hér inn í að mér fannst hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson færa fyrir því ágæt rök af hverju það frumvarp á að ná fram að ganga, af því að það frumvarp snýst að mér finnst einkum um það að bæta stjórnsýsluna í dómskerfinu, jafna álag á milli dómara sem vissulega er mikil þörf á að gera, og eins og hann hefur bent á er einhver möguleiki á því að dreifa verkefnum á milli starfsstöðva o.s.frv. Eftir sem áður er afskaplega rökrétt að yfirstjórnin sé á einum stað, þetta er nú bara verðandi 320 þúsund manna (Forseti hringir.) batterí sem við erum að tala um.



[19:02]
Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir þátttökuna í henni og ráðherranum fyrir svör hennar.

Ég deili ekki þeirri skoðun með hv. þingmanni sem talaði síðast að yfirstjórnin öll þurfi að vera á einum stað. Það getur vel verið eðlilegt að ákveðin yfirstjórn sé á einhverjum ákveðnum bletti, hins vegar tel ég mjög mikilvægt að dómstólarnir þar sem þeir eru og eins og þeir vinna í dag, fái tækifæri til að starfa þannig áfram, þ.e. að þeim störfum sem þarna er verið að tala um, svo ég komi bara beint að því, verði ekki „offrað“ svo ég noti það ljóta orð, frú forseti.

Ég vil benda á að störf sem þessi — þetta eru mjög sérhæfð störf sem hlaða hins vegar utan á sig mörgum öðrum störfum, störfum sem varða lögmannsstofur, innheimtufyrirtæki og hitt og þetta, og það skiptir gríðarlegu máli að þessi störf séu til staðar sem víðast á landinu og ekki síst á landsbyggðinni.

Ég tek undir það og fagna orðum ráðherra varðandi skiptingu á verkefnum og annað en ég held að það þurfi ekki að vera þannig að þetta sé allt á einum og sama staðnum. Það má hugsa sér að skjalavinnslan sé hjá einum dómara, úti á landi þess vegna, þetta hjá öðrum dómara o.s.frv. Við verðum einfaldlega að deila verkefnunum til að styrkja þessar stofnanir og ég vona að niðurstaðan verði sú að við förum í það að deila þessum verkefnum, deila byrðunum og skapa dómstólunum það umhverfi (Forseti hringir.) sem þeir þurfa til að sinna sínum verkefnum.



[19:04]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég vil í rauninni bara koma inn á það að í því frumvarpi sem til meðferðar er í allsherjarnefnd er ekki endilega gert ráð fyrir því að starfsstöðvum verði fækkað, það er beinlínis ekki gert ráð fyrir því að dómurum fækki og það hefur reyndar komið upp úr dúrnum, eins og fram er komið í sölum Alþingis, að frekar þarf að fjölga þeim.

Ég tek undir það að auðvitað þarf að huga að starfsskilyrðum á landsbyggðinni, það er mikilvæg umræða sem þarf að taka í þessu sambandi. En ég vil í þessu máli benda á að dómstjóri fyrir sameinaðan héraðsdómstól þarf ekki endilega að vera staðsettur á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. með því að búa til eina stofnun, héraðsdómstóll er ein stofnun, erum við einmitt ekki að tala um það að Héraðsdómur Reykjavíkur verði ein stofnun með starfsstöðvar víða um landið heldur er þetta héraðsdómur fyrir allt landið þar sem dómstjóri getur þá verið staðsettur hvar sem er á landinu.