138. löggjafarþing — 32. fundur
 26. nóvember 2009.
umræður utan dagskrár.

skattlagning á ferðaþjónustuna.

[11:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og eiga þessa umræðu við mig, en skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru efni í sérstaka umræðu og mun hún vitanlega fara fram hér við framlagningu og umfjöllun þeirra mála. Það er hins vegar full ástæða að mínu mati til að ræða sérstaklega þá skatta sem stendur til að leggja á ferðaþjónustuna. Af hverju vil ég gera það? Jú, vegna þess að það er trúlega það sem síst ætti að skattleggja í dag. Ég vil á þessari stundu þakka þeim sem börðust gegn því að lagður yrði skattur á gistingu og tekið upp nýtt komugjald, sem ég tel að hefði haft miklar og hræðilegar afleiðingar fyrir þessa grein. Ég held að hæstv. ráðherra eigi þar hlut að máli. Skattar sem boðaðir eru, svo sem hækkun á virðisauka af sölu veitinga á veitingahúsum o.fl. ásamt nýjum kolefnisskatti, eru tilefni til þessarar umræðu. Færa má rök fyrir því að eðlilegt kunni að vera að þeir sem veita sér þann lúxus að fara út að borða greiði hærri skatt í því umhverfi sem við lifum við í dag en það er hins vegar ekki sjálfgefið og er ég ekki alveg sammála því. Það er sérkennilegt að greina á milli þeirra sem setjast inn á kaffihús og panta sér hamborgara og þeirra sem panta sér mat í sjoppu. Þá er ljóst að hækkun skattsins skekkir ekki bara samkeppnisstöðuna innan lands milli einstakra aðila heldur líka gagnvart öðrum löndum. En benda má á að Finnar ætla að lækka eða hafa lækkað virðisauka af þessari starfsemi, m.a. til þess að draga að ferðamenn.

Kolefnisskattur mun leggjast á flug, rútur, bílaleigubíla o.s.frv. og geta ferðaþjónustuaðilar lítið gert annað en að hækka verð og auka þannig kostnað viðskiptavina sinna. Ég tel það rangt að leggja þessa skatta á í dag því að þeir geta valdið varanlegu tjóni á markaðssetningu Íslands sem hagstæðs áfangastaðar og mögulega búið til tap fyrir ríkissjóð í stað aukinna tekna. Við þekkjum flest hvernig þessi atvinnugrein hefur vaxið og sífellt skilað hærri tekjum til samfélagsins. Ferðaþjónustan er einn af vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs en um leið viðkvæmari fyrir breytingum en margar aðrar atvinnugreinar vegna samsetningar viðskiptavinanna og síbreytilegs samkeppnisumhverfis. Ferðaþjónustan keppir á markaði þar sem afurðin er ekki endilega mælt í verði á kílói eða lítra heldur á hvern ferðamann. Frú forseti, við erum á rangri leið. Nú á að nýta tækifærið og blása til sóknar í ferðaþjónustunni. Ríkisvaldið á nú við gerð fjárlaga að auka fjárveitingar til markaðsstarfs og leita til hagsmunaaðila og biðja um að þeir leggi einnig í það verkefni.

Af hverju segi ég þetta? Jú, við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd um ferðamennina. Skoðum nokkrar staðreyndir: Þjóðverjar hafa lækkað virðisaukaskatt á gistingu. Finnar lækka virðisauka á gistingu og veitingar. Svíar bæta við einum milljarði í landkynningu. Kanaríeyjar stórauka fjármuni í markaðsstarf, eins og við höfum séð. Flugvellir á Bretlandi bjóða félögum mikinn afslátt ef þau vilja lenda þar áfram. Sama má segja um Holland. Þar eru mjög góð tilboð til flugfyrirtækjanna.

Ferðaþjónustan á í mikilli samkeppni en rannsóknir og reynsla þeirra sem starfa í ferðaþjónustu sýna að ef verð hækkar um 2%, fækkar ferðamönnum að sama skapi um 2%. Ef við miðum við 500 þúsund ferðamenn, sem er u.þ.b. sá fjöldi sem heimsækir Ísland, yrði fækkun ferðamanna um 10 þúsund ef þetta yrði niðurstaðan. Kannanir sýna að gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni eru um 300.000 en vitanlega er einhver kostnaður á móti þannig að ég ætla að miða hér við 150.000 kr. í gjaldeyristekjur af hverjum ferðamanni, sem er þó örugglega of lágt. Ef ferðamönnum fækkar um 10 þúsund vegna tveggja prósenta eða skattahækkana, svo dæmi sé tekið, eða ef við tölum bara um 1% og miða við 150.000 kr., munu gjaldeyristekjur lækka um einn og hálfan milljarð. Ef þeim fækkar um 1%, sem eru þá 5.000 ferðamenn mundi það þýða að gjaldeyristekjur lækkuðu um 750 milljónir, sem er væntanlega u.þ.b. það sama og ferðaþjónustunni er ætlað að bera af þeim skattahækkunum sem boðaðar eru.

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, rannsóknir og reynsla þeirra sem starfa í ferðaþjónustu sýna að ef verð ferðar hækkar um 2%, fækkar ferðamönnum um 2%. Þessar tölur byggja allar á upplýsingum sem liggja fyrir. En hvað ef við snúum þessu við? Hvað þarf marga ferðamenn til að standa undir auknu markaðsstarfi? Ef við miðum við að hver ferðamaður skili 150.000 kr. nettó í auknar gjaldeyristekjur, sem er örugglega of lítið, má segja að það þurfi um 600 ferðamenn eða þrjár fullar flugvélar til þess að skila 100 milljónum í auknu markaðsstarfi. Hvert prósent í fjölgun skilar þannig um 750 milljónum í auknar gjaldeyristekjur, ef við miðum við þær upplýsingar og forsendur sem ég hef og er víða hægt að ná í.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin er á rangri leið. Samkeppnin hefur líklega sjaldan verið meiri og harðari. Hvað sem síðar verður eigum við ekki að auka skattheimtu á ferðaþjónustu heldur blása til sóknar. Þeir litlu fjármunir sem ríkisvaldið ætlar að setja í markaðsstarf munu allir tapast og meira til, muni ferðamönnum fækka. Stóraukið markaðsstarf mun hins vegar fjölga ferðamönnum og stórauka tekjur ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Hér þarf að horfa til framtíðar og styrkja sig í samkeppninni.



[12:04]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og þingheimur og þjóðin vita stöndum við frammi fyrir því gríðarlega erfiða og þungbæra verkefni að þurfa að loka hér gríðarstóru fjárlagagati. Þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að fara þær leiðir að fara út í almennar skattlagningar, ekki sértækar. Því er ekki um það að ræða að hér sé verið að skattleggja einhverjar einstakar atvinnugreinar sérstaklega, eins og mér fannst liggja í orðum hv. þingmanns, svo er ekki um að ræða hér. Farin var sú leið að meta áhrif skattabreytinga á atvinnugreinarnar þannig að engin þeirra yrði fyrir verulegu höggi, en það er auðvitað ekkert leyndarmál að allt atvinnulíf í landinu mun finna fyrir skattahækkunum eins og almenningur.

Það liggur fyrir að þessi mál verða rædd hér í þinginu, þ.e. skattbreytingarnar almennt, í heild sinni og án efa munu viðeigandi þingnefndir kafa ofan í málið og fara í greiningu á því hvaða áhrif þetta hefur á atvinnugreinar. Því finnst mér svolítið erfitt að taka sérstaklega út eina atvinnugrein með þeim hætti sem hér er gert.

Ég vil líka minna á að talsmenn ferðaþjónustunnar, sem og Samtök atvinnulífsins, lögðu líka til verulega hækkun á tryggingagjaldi í þeirri vinnu sem verið hefur við þessar skattbreytingar. Ríkisvaldið var ekki til í að fara þá leið af jafnmiklum þunga og Samtök atvinnulífsins lögðu til einfaldlega vegna þess að mannaflsfrekar greinar eins og sprotageirinn, eins og ferðaþjónustan, yrðu þar fyrir miklu höggi.

Núna í lok september skipaði fjármálaráðherra nefnd sem ætlað er að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld sem tengd yrðu ferðaþjónustu og rynnu til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna. Það var gert til þess að eiga samráð við ferðaþjónustuna sem hefur kallað eftir því að það komi aukið fjármagn til markaðssóknar, í áætlanagerð, í uppbyggingu ferðamannastaða til þess að taka á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Þessi mál hafa verið rædd lengi og var nokkur sátt um það þegar málið var rætt hér á þingi í sumar að fara þess konar leið, þ.e. að fara út í gjaldtöku innan ferðaþjónustunnar. Þessari nefnd er ætlað að finna leiðir til þess að finna fjármagn sem síðar rynni í áðurnefnda uppbyggingu innan ferðaþjónustunnar. Þessi nefnd er enn að störfum og í henni sitja m.a. Ólafur Örn Haraldsson, sem er formaður, og síðan fulltrúar iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra, Samtaka ferðaþjónustunnar og samtaka á sviði náttúruverndar.

Það hefur orðið alveg gríðarleg og ánægjuleg aukning í ferðamannastraumi hingað til lands. Það er alveg ljóst að ferðamönnum fjölgar hér umfram það sem gerist í nágrannalöndunum og það sem gerist að meðaltali annars staðar. Það hefur verið jöfn aukning þannig að það er ekki bara gengið sem veldur þessu, aukningin hefur verið jöfn og þétt frá árinu 2000 þegar ferðamenn voru hér 278 þúsund en á síðasta ári voru þeir 502 þúsund. Það er fyrir utan skemmtiferðaskipin sem hingað komu með tæplega 70 þúsund manns. Ferðamönnum hefur því fjölgað hér í allt öðrum takti en í nágrannalöndum okkar. Þess vegna eru tölur í ferðaþjónustunni fyrir Ísland öðruvísi en í öllum nágrannalöndum okkar þar sem hefur verið samdráttur í komu ferðamanna.

Ríkisvaldið hefur gripið til þess að auka markaðsfé. Það er einn liður á fjáraukalögum núna, auk þess sem heimild er fyrir frá þinginu að ráðast í sérstakt markaðsátak nú í haust. Verið er að verja stoðkerfi ferðaþjónustunnar þannig að við getum farið í öfluga markaðssókn.

Fjölgun ferðamanna fylgir líka gríðarleg ábyrgð vegna þess að náttúran er jú aðdráttaraflið sem kallar á þessa ferðamenn hingað til lands. Við erum að blása til sóknar innan ferðaþjónustunnar með því í fyrsta lagi að fara í áætlanagerð um dreifingu ferðamanna um landið, um uppbyggingu ferðamannastaða svo stýra megi umgengni um staðina til þess að verja náttúruna, náttúruperlurnar og eins erum við að ráðast í öfluga vöruþróun á sviði ferðaþjónustunnar í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar, t.d. á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu. Markmiðið er að dreifa ferðamönnum yfir árið þannig að ferðaiðnaður verði heilsársatvinnugrein hjá fleiri Íslendingum en er í dag.

Það hefur því svo sannarlega hefur verið blásið til sóknar í ferðaþjónustu af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Við erum að hugsa um eitt og einungis eitt fyrir ferðaþjónustuna, það er (Forseti hringir.) uppbygging og aftur uppbygging.



[12:09]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Líkt og Ísland er Holland mikið ferðamannaland. Í júní árið 2008 ákváðu hollensk yfirvöld að taka upp komugjöld á farþega til Hollands vegna vandamála sem þau áttu við að stríða í ríkisfjármálum. Hollendingar áætluðu að af þessu athæfi kæmu u.þ.b. 300 milljóna evra tekjur. Í júlí sl. höfðu tekjur af ferðamönnum dregist saman um 1,3 milljóna evra. Um 20% af því var rakið til komugjaldanna og Hollendingar afnámu þau. Forsvarsmenn flugfélaganna hafa tjáð hv. efnahags- og skattanefnd að 1% hækkun á farmiðum muni leiða til 1% fækkunar á ferðamönnum. Mér er fullljóst að við mikið vandamál er að etja hvað varðar ríkisfjármálin og það er mikilvægt að úthugsa hvernig eigi að loka því gati. Sennilega munu nokkrir af þeim sköttum sem á að taka upp ógna gullgæsinni.

Þá ber sérstaklega að nefna kolefnisskatta, sem munu verða til þess að þotueldsneyti og eldsneyti fyrir langflutningabifreiðar hækkar, tryggingagjaldið hækkar launakostnað í ferðaiðnaði, breyting á virðisaukaskattskerfinu hækkar gistingu og mat fyrir ferðamenn, að ótöldum verðlagsáhrifum sem verða nokkur. Þessar skattahækkanir ógna gullgæsinni sem gaf (Forseti hringir.) metþjónustujöfnuð um 20 milljarða nú á fyrri hluta ársins.



[12:12]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ástæða til að fjármálaráðherra taki þátt í umræðum um skattamál sem hér eru á dagskrá, að vísu var athugasemdunum beint til annars ráðherra. Það er ánægjulegt að ferðaþjónustan hefur verið mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs um áratugaskeið. Það hefur hún meira að segja verið á árum þegar erfitt efnahagsástand hefur gengið yfir og á árum þegar gengi íslensku krónunnar hefur verið mjög hátt og Ísland verið á meðal með dýrustu ferðamannalandanna. Árangur íslenskrar ferðaþjónustu, hvernig sem á hann er litið, er glæsilegur í þessum efnum og það segir okkur að Ísland hefur margt að bjóða. Það hefur mikið aðdráttarafl, jafnvel á tímum þegar dýrt er að ferðast hingað og dvelja hér. Nú hefur þetta breyst verulega og samkeppnisstaða landsins er mun sterkari á þennan mælikvarða mælt vegna hagstæðs gengis í þessum skilningi. Og það hefur líka gerst að Ísland hefur fengið mikið umtal og kynningu, vissulega ekki allt jákvætt, en landið og þjóðin vekja eftir sem áður athygli og njóta velvildar þó að banka- og útrásarvíkingar og misvitur stjórnvöld undangenginna ára hafi farið illa með orðspor okkar að því leyti.

Varðandi skattlagningu á ferðaþjónustuna verður því hvergi fundinn staður að hún verði sérstaklega fyrir barðinu á áformum stjórnvalda. Hún verður að sjálfsögðu fyrir byrðum vegna almennra aðgerða, eins og hækkunar tryggingagjalds eða upptöku kolefnisgjalda á allt fljótandi jarðefnaeldsneyti, en þar er um almennar aðgerðir að ræða. Áform sem rædd hafa verið og tengdust ferðaþjónustunni sérstaklega, eins og að leggja grunn að tekjustofni fyrir greinina til uppbyggingar í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum, á fjölsóttum ferðamannastöðum og eftir atvikum að einhverju leyti til markaðssetningar, eru áfram í vinnslu og ekki hefur staðið til að fara fram með þau í ágreiningi við greinina. Sömuleiðis hafa verið lögð til hliðar áform um að hækka virðisaukaskatt á gistingu þannig að þegar upp er staðið og ef menn hafa staðreyndirnar á borðinu, sem menn mundu sennilega hafa ef þeir hefðu beðið með þessa umræðu í nokkra daga og fengju hér fram skattafrumvörpin, (Forseti hringir.) kemur í ljós að ferðaþjónustan getur mjög vel við unað. (Forseti hringir.) Það er farið mjúkum höndum um hana miðað við það sem jafnvel var áformað.



[12:14]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að taka málefni ferðaþjónustunnar fyrir hér á Alþingi, en ferðaþjónustan hefur verið í stórsókn á undangengnum missirum. Það er mikilvægt að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í til þess að auka tekjur ríkissjóðs verði ekki með þeim hætti að við drögum úr þeirri sókn sem ferðaþjónustan hefur verið í. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það áðan að við væntum þess, m.a. í efnahags- og skattanefnd, að sjá skattatillögur ríkisstjórnarinnar, sem liggja því miður ekki fyrir og eru ómótaðar. Það er verulegt áhyggjuefni þegar næstum er komið fram í desembermánuð, hversu ofboðslega seint á ferðinni þessar skattatillögur ríkisstjórnarinnar eru og reyndar fjárlagafrumvarpið sjálft. Auðvitað setur sú nagandi óvissa, sem blasir við okkur öllum, ugg að mönnum en ég tel að ríkisstjórnin eigi að fara hóflega fram gagnvart þessari atvinnugrein. Ég vara líka við því að við förum mikið í þær skattahækkanir sem leiða til þess að verðlag í landinu hækki. Hækkandi verðlag hækkar skuldir heimilanna og hefur mjög erfið og neikvæð áhrif á stöðu samfélagsins. Ég hef nú óskað þess, og ég flyt reyndar þá ræðu ansi oft hér í hverri viku, að stjórnarandstaðan hefði nú fengið einhverja aðkomu að því hvaða hugmyndafræði ætti að innleiða við skattahækkanirnar. En því miður er það með okkur eins og íslenskan almenning að við fréttum þetta á blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar, við erum lítið með í ákvarðanatökunni. En ég tek heils hugar undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að við þurfum að standa vörð um ferðaþjónustuna og efla hana. Við þurfum að blása til sóknar í íslensku samfélagi og ferðaþjónustan getur gegnt þar lykilhlutverki, en ákvarðanataka m.a. hæstv. ríkisstjórnar og Alþingis skiptir miklu (Forseti hringir.) máli í því samhengi.



[12:16]
Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég tel að náðst hafi mikill ávinningur á undanförnum vikum í því að tryggja að hugsanlegt komugjald, sem ákveðið verður í samstarfi við ferðaþjónustuna, muni ekki renna í stóru hítina, í stóra ríkissjóðinn, heldur verði til uppbyggingar innviða í ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrst við þurfum að fara inn í fæðingarorlof, loka stofnunum, hækka skatta, var það mikil ávinningur að við náðum að vernda þetta gjald því að ég held að íslensk ferðaþjónusta þurfi miklu fremur að horfa til gæða í íslenskri ferðaþjónustu en verðs, gjalda eða kostnaðar. Samkeppnisforskot íslenskrar ferðaþjónustu liggur í gæðum hennar, í innviðunum, í þjálfun starfsfólks, í stýringu á álagi sem viðkvæmir ferðamannastaðir verða fyrir. Bókanir fyrir næsta ár eru góðar og það er alveg ljóst að álagið á lykilstaði okkar verður gríðarlega mikið næsta sumar. Þess vegna þurfum við miklu fremur að hafa áhyggjur af því hvar gæðin liggja en hvar gjöldin liggja. Í sjálfu sér á fjöldi ferðamanna ekki að vera markmiðið í íslenskri ferðaþjónustu heldur hitt, hver arðsemin er af þeim ferðamönnum sem koma til landsins, hvaða fjármunir verða eftir í landinu og hvað þeir skilja eftir. Það leiðir sér hugann að því hver staða ferðaþjónustunnar, gullgæsarinnar, er samanborið við aðrar atvinnugreinar í þessu landi.

Við heyrum af því sögur að Mývetningar í ferðaþjónustu höfðu einn og hálfan til tvo milljarða króna í tekjur á síðasta ári meðan landbúnaðurinn í sömu sveit velti á milli 200 og 300 milljónum. Það sýnir að við þurfum að horfa miklu betur á hvaða möguleika við höfum í ferðaþjónustu vegna þess að við sjáum það í þeim tillögum sem koma frá Samtökum atvinnulífsins að menn horfa á mannaflsfrekar, þjónustumiðaðar atvinnugreinar sem eiga að leggja til fé í formi tryggingagjalds. Menn vilja frekar vernda sjávarútveg, orkufrekan iðnað, þegar við horfum á sanngjarnt gjald fyrir auðlindir í þessu landi.



[12:19]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir að vekja máls á þessu efni hér í dag, sem er mikilvægt. Menn skulu ekki furða sig á því að þetta mál sé rætt núna þar sem upplýsingar frá ríkisstjórninni varðandi hvernig haldið skuli á málum eru ekki komnar fram hér í þinginu heldur les maður einfaldlega um þær í blöðunum og fjallar kannski um það á nefndarfundum. Það er ekki skrýtið að menn í ferðaþjónustunni hafi svitnað eilítið þegar fréttir bárust af þessum komugjöldum, og eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minnist á fækkar ferðamönnum um 2% ef verð til þeirra hækkar um 2%. Það er því ekkert skrýtið og hæstv. ráðherrar skuli ekki furða sig á því að hv. þingmenn í þessum sal hafi áhyggjur af slíkum áformum. Það er vel ef þau hafa verið sett til hliðar og sýnir greinilega að umræðan sem fer fram í nefndum Alþingis og af hálfu hagsmunaaðila skilar einhverjum árangri.

Hins vegar hef ég talsverðar áhyggjur af því að verið er að demba þessum skattahækkunum allt of seint í loftið og því miður ber ríkisstjórnin ekki gæfu til þess að hafa framtíðarsýnina skýra. Þetta mikla gullegg, ferðaþjónustan, er því búin að gefa út alla verðlagningu fyrir næsta sumar. Það er byrjað að selja ferðir fyrir lifandis löngu, sumarið er sem betur fer að verða fullbókað hjá mörgum í ferðaþjónustunni. En hverjir taka á sig skellinn þar sem búið er að hækka skattana? Er það ekki einmitt ferðaþjónustan? Við ætluðum að horfa á afkomu hennar, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram benti hér á. Hækkunin á virðisaukaskattinum t.d. á útseldum mat hjá ferðaþjónustuaðilum skiptir verulega miklu máli. Það skal því ekki horft fram hjá því og menn geta ekkert barið sér á brjóst fyrir að hafa bjargað ferðaþjónustunni með því að slá af einhverjar hugmyndir um komugjöld þegar verið er að hækka skattana heilmikið á þá grein sem og aðrar. Menn þurfa að tala um hlutina eins og þeir eru, af hreinskilni. (Forseti hringir.) Ég er algjörlega sammála því sem hér hefur komið fram, okkur ber að efla ferðaþjónustuna með það í huga að auka hér gjaldeyristekjur.



[12:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Uppbygging ferðaþjónustu á Íslandi hefur vaxið mjög hratt undanfarin ár og fjöldi ferðamanna til landsins hefur margfaldast. Lágt gengi krónunnar hefur enn frekar ýtt undir komu ferðamanna til landsins og aukið neyslu þeirra og verslun mikið, sem skipt hefur miklu máli í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarinnar. Það ánægjulega er og verður ekki frá okkur tekið að eftir sem áður mun náttúrufegurð Íslands, fjöll, firðir og fossar, kyrrð, víðerni og ósnortið umhverfi halda áfram að draga til sín ferðamenn sem kunna að meta sérstöðu landsins og þá fjölbreyttu ferðamöguleika og þjónustu sem vaxið hefur í gegnum árin. Við eigum fjöldann allan af fagfólki og áhugafólki í samtökum ferðaþjónustunnar og í ferðamálafélögum sem vinna að því að þróa fjölbreytta ferðaþjónustu. Þar má nefna samspil ferðaþjónustu við umhverfið, mat, menningu og sögu, heilsueflingu og atvinnulíf landsins. Markaðsstofur landshlutanna verða efldar til að sinna örum vexti ferðaþjónustunnar og markaðssetning landsins verður aukin. Búast má við auknu álagi á náttúru og umhverfi vinsælla ferðamannastaða og nauðsynlegt er að ríkið eyrnamerki tekjustofna ferðaþjónustu til uppbyggingar og bættrar aðstöðu á áfangastöðum ferðafólks um land allt.

Ferðaþjónustan, sem og allir landsmenn, mun þurfa að taka á sig auknar álögur meðan við erum að koma okkur upp úr skuldasúpunni. En auknar tekjur greinarinnar koma enn til góða við þessar aðstæður. Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi mun byggjast á gæðum og sérstöðu landsins, fagmennsku og sérþekkingu, og ferðaþjónustu í góðri sátt við náttúruna og umgengni við allt landið. Samkeppnishæfni Íslands ræðst af þessum þáttum og við munum keppa í gæðum en ekki í fjölda ferðamanna í framtíðinni.



[12:23]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Það var tvennt sem sló mig aðeins út af laginu, það var í fyrsta lagi að hæstv. ráðherra talaði um nefnd sem fjallar um umhverfisgjöld og kannast ég vel við það. Hv. þm. Magnús Orri Schram talaði um hugsanlegt komugjald. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki örugglega sami hluturinn sem verið er að tala um. Það virðist alla vega eiga að bæta enn þá meiri gjöldum eða sköttum á þessa grein. Hvort sem það gerist nú á næstu vikum eða mánuðum, virðist það vera planið.

Hins vegar var markmið mitt með þessari umræðu að vekja athygli á þeim staðreyndum að aukin skattheimta og auknar álögur á ferðamenn draga úr fjölda þeirra. Hvort sem við viljum horfa á gæði eða fjölda þurfa þeir nú að koma til landsins, blessaðir ferðamennirnir, ef við ætlum að geta selt þeim einhverja hluti eða þjónustu.

Ég vil bara benda á það sem ég reyndi að draga fram áðan, að það er betra að setja stóraukna fjármuni í markaðsstarfið, sækja ferðamennina og fá þannig tekjur af þeim en að skattleggja þá. Reynsla annarra, sem ég hef séð við að skoða þetta mál, sýnir að þegar þessi kostnaður hækkar, þegar ferðirnar verða dýrari, fækkar ferðamönnunum. Ég held að það sé töluvert langt í land með að við getum ábyrgst og gengið út frá því að við séum eingöngu að keppa hér í gæðum. Þangað til verðum við að treysta á að hér sé ákveðinn fjöldi ferðamanna og ákveðinn vöxtur. Ég óttast að verði þessar auknu skattheimtur og álögur á ferðaþjónustuna að veruleika muni draga hér úr ferðamönnum og það muni á endanum skaða þjóðarbúið meira en það skilar því. Þess vegna segi ég enn og aftur, frú forseti, við hæstv. ráðherra: Það er miklu skynsamlegra að setja stóraukna fjármuni í markaðsstarf og fjölga ferðamönnum, láta þá eyða meiri fjármunum á Íslandi, en að reyna að ná þessu í gegnum skattinn.



[12:25]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er greinilega einhver misskilningur í gangi meðal þingmanna, sérstaklega hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem tóku þátt í þessari umræðu, vegna þess að umræðan um komugjöld er í samráðsfarvegi með aðilum ferðaþjónustunnar í sérstakri nefnd sem ég nefndi hér áðan, sem er á vegum hæstv. fjármálaráðherra. Verið er að fara yfir það hvort komugjöld séu fýsilegur kostur eða önnur sértæk gjaldtaka á ferðaþjónustuna til þess að fara með þá sértæku fjármuni beint inn í uppbyggingu í ferðaþjónustu. Um það snýst þetta mál. Umræðan um komugjald kom því ekkert eins og þruma úr heiðskíru lofti, eins og hér var gefið í skyn. Ég held að hv. þingmenn sem gera sig breiða í þessum stól ættu að hafa upplýsingarnar örlítið betur á hreinu en þeir hafa haft í þessari umræðu, og er ég ekki að beina orðum mínum til hv. málshefjanda.

Það skiptir nefnilega öllu máli í því sem hér hefur komið fram að við gerum hvort tveggja: Við erum að vinna að öflugu markaðsstarfi fyrir íslensku ferðaþjónustuna á erlendri grundu. Ég nefni þar byltingarkennt frumvarp um Íslandsstofu sem á að fara með þessi mál af Íslands hálfu. Ég nefni einnig líka fjármuni á fjáraukalögum sem lagðir verða til og eru eingöngu brot af þeim fjármunum sem fara munu í markaðssetningu. Þeir eru þó til viðbótar í þann 150 millj. kr. pott sem er eingöngu fyrir þá mánuði sem við horfum núna til í markaðssetningu á íslenskri ferðaþjónustu. Ég nefni að nú er mikil uppbygging á markaðsstofunum um land allt. Við horfum til þess að byggja upp innviði í markaðsstarfi innan lands, sem skiptir líka gríðarlega miklu máli. Ég nefni líka að við erum nú að vinna af fullum krafti í áætlanagerð til að dreifa ferðamönnum betur um landið til að verja náttúruna sem ferðamennirnir koma til að sjá.

Við erum líka á fullu við að þróa vörur (Forseti hringir.) á þessu sviði þannig að ferðaiðnaður verði heilsársatvinnugrein hér á Íslandi. Við erum einnig komin langt í vöruþróun (Forseti hringir.) á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu í góðu samstarfi við (Forseti hringir.) Samtök ferðaþjónustunnar.