138. löggjafarþing — 37. fundur
 3. desember 2009.
hækkun tryggingagjalds og afkoma sveitarfélaga.

[10:51]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 1. júlí sl. var tryggingagjaldið hækkað um 1,66% sem þýddi að lagðar voru miklar og auknar álögur á atvinnulífið og fyrirtækin og sveitarfélögin í landinu. Hækkunin á sveitarfélögunum út af hækkun tryggingagjaldsins árið 2009 eru 650 millj. og kostnaðurinn af því fyrir árið 2010 er um 1,3 milljarður þannig að samtals er verið að hækka álögur á sveitarfélögin í landinu um 2 milljarða. Þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti þetta í fjárlaganefnd spurði ég sérstaklega að því hvort það yrði ekki leiðrétt gagnvart sveitarfélögunum. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því að það yrði gert, sem næmi þeirri hækkun sem ríkið tæki til sín frá sveitarfélögunum.

Eftir að við sátum fund í hv. samgöngunefnd í gær kom það í ljós hjá forustumönnum sveitarfélaganna að jafnvel stæði til af hálfu ríkisins að standa ekki við þessi fyrirheit. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvar þetta mál stendur, hvort átt hafi sér stað nokkrar viðræður um hvernig þetta er gert eða hvort það sé réttur skilningur hjá forustumönnum sveitarfélaganna að jafnvel standi til að leiðrétta þetta ekki. Ég vil bara árétta það, virðulegi forseti, að eftir að mörg sveitarfélög fóru sl. haust í mjög miklar aðhaldsaðgerðir í rekstri sínum fyrir þetta ár voru allar þær sparnaðaraðgerðir sem sveitarfélögin fóru í teknar út með einu pennastriki af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. hækkun tryggingagjaldsins tók út allar sparnaðartillögur sveitarfélaganna. Það er því mjög mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra standi við að þetta verði leiðrétt gagnvart sveitarfélögunum. Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki sé kominn tími til að fara að kostnaðarreikna frumvörp sem lögð eru fram með það að markmiði að vita hvaða áhrif það hefur t.d. á tekjustofna og tilfærslur á tekjum milli sveitarfélaga og ríkisins.



[10:53]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að að sjálfsögðu verður sveitarfélagið sem launagreiðandi fyrir kostnaði þegar tryggingargjald hækkar. Það hefur tekist um það mjög lofsverð samstaða að atvinnutryggingagjaldið fjármagni atvinnuleysið og þannig er það einmitt hugsað. Ábyrgir aðilar meðal samtaka atvinnulífsins hafa horfst í augu við veruleikann, að útgjöld vegna atvinnulífsins hafa stóraukist og það er eðlilegast að tekjustofninn beri það eftir því sem kostur er. Að því er stefnt í forsendum fjárlagafrumvarpsins og það er í góðu samstarfi við aðila stöðugleikasáttmálans.

Ríkið hefur gripið til ráðstafana sem komið hafa sveitarfélögunum verulega til góða. Þannig má nefna að útsvarstekjur sveitarfélaganna munu væntanlega vaxa á þessu ári um 3 milljarða og jafnvel meira sem er langt umfram kostnaðarauka þeirra vegna tryggingagjalds vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar. Sú búbót kemur sveitarfélögunum mjög vel á þessu ári (Gripið fram í.) og mun væntanlega auka útsvarstekjur þeirra um, 12–14%. Á næsta ári er gert ráð fyrir að framhald verði á þessari aðgerð og þá má reikna með að útsvarstekjur sveitarfélaga vaxi af þeim sökum jafnvel um 2,5 milljarða kr. þannig að sveitarfélögin eru vel sett samkvæmt þessum þætti málsins. En að öðru leyti er samstarfið við sveitarfélögin nú í góðu horfi og mun betra en það hefur verið undanfarin ár. Nú er allt nefndakerfi ríkis og sveitarfélaga virkt og fullmannað, öðruvísi mér áður brá, Jónsmessunefnd að störfum, unnið að gerð hagstjórnarsamnings milli ríkis og sveitarfélaga og þétt samstarf um það hvernig tekjulegum samskiptum þessara aðila verði háttað ásamt með öðru. Ég fullyrði að það er gerbreytt andrúmsloft í samskiptum þessara aðila og ég hygg að hv. þingmaður geti fengið það staðfest jafnvel hjá flokksbræðrum sínum sem tala nú ekki á hverjum degi hlýlega um þann sem hér stendur.



[10:55]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru athyglisverð þessi síðustu orð hæstv. fjármálaráðherra sem getur ekki setið á sér að hreyta í allt og alla. Þetta er alveg með ólíkindum. Ég var með mjög einfalda spurningu um hvort til stæði að þetta yrði leiðrétt en hann gat náttúrlega ekki setið á sér og hermdi upp á hæstv. ráðherra hans eigin orð. Síðan kemur hann og segir: Jú, það á að gera það með þessum hætti. Ég fagna því að menn skuli hafa leyft að séreignarsparnaðinn verði greiddur út en þetta er einskiptisaðgerð og þetta eru líka framtíðartekjur sveitarfélaganna. Þetta er nánast eins og að segja, ef maður fær lán hjá einhverjum og ætlar síðan að greiða það til baka, að maður fari í bankann og millifæri af bankabók þess sem lánaði til að greiða skuldina. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Þetta er alveg með ólíkindum. Það sem ég er að reyna að draga upp hér, virðulegi forseti, er vandi sveitarfélaganna. Það eru mjög mörg sveitarfélög í miklum erfiðleikum. Hjá sveitarfélögunum er viðsnúningurinn á síðustu tveimur árum gífurlegur, frá því að vera 50 millj. í plús í 19 milljarða í mínus í rekstri. Ég spyr hæstv. ráðherra. Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af stöðu sveitarfélaga í landinu?



[10:56]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Jú, ég hef áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna en ég hef enn þá meiri áhyggjur af stöðu ríkisins. Viðsnúningurinn þar er miklu rosalegri þegar á hann er litið, bæði hvað varðar afkomu og skuldaþróun. Það er algerlega ljóst að það er ríkissjóður sem tekur á sig allan meginþungann af hinu gríðarlega efnahagsáfalli. Það sýna allar kennitölur okkur. En auðvitað er vandi sveitarfélaganna líka mikill þótt mismunandi sé og við munum leita leiða til að gera stöðu þeirra eins þolanlega og kostur er, þar á meðal að leita leiða til að bæta stöðu þeirra sérstaklega vegna seinni hækkunar tryggingagjaldsins. Það höfum við gefið fyrirheit um og við það verður staðið. Við höfum gripið til ráðstafana eins og þeirra að gera upp að fullu húsaleiguskuldir og í það fara á 7. hundrað milljóna kr. á fjáraukalögum þessa árs. Þar stendur ríkið aftur við sinn hlut í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ekki var gert áður og síðustu fjárlögum var lokað án þess að tekið væri á þeim vanda, svo dæmi sé tekið.