138. löggjafarþing — 38. fundur
 4. desember 2009.
rannsókn samgönguslysa, 1. umræða.
stjfrv., 279. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 323.

[21:48]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa. Með frumvarpi þessu eru lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000, lög um rannsókn flugslysa, nr. 35/2004, og lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24/2005, sameinuð í heildstæða löggjöf um slysarannsóknir í samgöngum. Gert er ráð fyrir að nefndirnar þrjár sem kveðið er á um í lögunum verði sameinaðar í eina fimm manna rannsóknarnefnd samgönguslysa og heyri undir ráðherra samgöngumála.

Í júní 2007 var komið á fót starfshópi með þátttöku forstöðumanna rannsóknarnefndanna og var hæstaréttarlögmaðurinn Andri Árnason ráðinn til að vinna með starfshópnum og semja drög að frumvarpi. Í upphafi árs 2009 voru frumvarpsdrögin endurskoðuð í samgönguráðuneytinu og send til umsagnar hagsmunaaðila. Komu fram fjölmargar góðar athugasemdir sem tekið var tillit til og frumvarpið í framhaldi af því aftur birt á heimasíðu ráðuneytisins og gafst hagsmunaaðilum tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri að nýju vegna þeirra breytinga sem orðið höfðu á frumvarpinu.

Helsta markmið frumvarpsins er að auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi. Með sameiningu núverandi rannsóknarnefnda flugslysa, umferðarslysa og sjóslysa í eina nefnd verður unnt að koma þekkingu og starfskröftum sem þegar eru í hverri nefnd fyrir sig í eina sterka og öfluga sameinaða nefnd. Á þennan hátt verður unnt að efla og samnýta enn frekar þá fagþekkingu sem mikilvægt er að viðhalda í slíkum nefndum og gera nefndarmönnum kleift að nýta sér færni úr mismunandi rannsóknarflokkum til að styrkja frekari rannsóknir á sviðinu í heild.

Í sameiningunni felst einnig rekstrarleg hagræðing og mun heildarfjöldi nefndarmanna minnka en nú eru í rannsóknarnefnd flugslysa fimm nefndarmenn, fimm í rannsóknarnefnd sjóslysa og þrír í rannsóknarnefnd umferðarslysa auk sama fjölda varamanna.

Verði frumvarpið að lögum mun kostnaður ríkissjóðs af gildistöku laganna getað lækkað um allt að 12% til skemmri tíma en allt að 15% til lengri tíma. Frumvarpinu er ekki ætlað að gera grundvallarbreytingar á rannsóknarstarfi vegna sjó-, flug- og umferðarslysa og eru þau nýmæli er snúa að rannsóknarstarfinu flest tilkomin vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru því skipulags eðlis.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að athugasemdum við helstu nýmæli frumvarpsins. Í 4. gr. er lagt til að komið verði á fót sérstakri nefnd um rannsókn samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika. Eins og háttað er með rannsóknarnefndir samkvæmt gildandi lögum er í ákvæðinu tekið fram að rannsóknarnefnd samgönguslysa skuli starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum, öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Einnig er líkt og í gildandi lögum sérstaklega tekið fram að skýrslum rannsóknarnefndarinnar um rannsókn einstakra slysa og atvika skal ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum og skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.

Þau nýmæli er snúa beint að rannsóknarstarfinu tengjast þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Er þar um að ræða ákvæði um lögsögu er varðar rannsókn sjóslysa, í 15. gr. Ákvæði er lúta að tilkynningum til erlendra stjórnvalda í kjölfar slyss eru í 13. gr. og 17. gr. Ákvæði um varðveislu rannsóknargagna eru í 24. gr., ákvæði um þátttöku erlendra ríkja í rannsókn máls í 14. og 18. gr., ákvæði um tilkynningu til yfirvalda komi upp grunur um að beitt hafi verið ólögmætum aðgerðum gegn öryggi samgangna eru í 29. gr. og ákvæði um öflun ferðarita úr erlendu loftfari sem lendir hér á landi eru í 30. gr.

Í 39. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um skráningu slysa í samgöngum þar sem ráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd samgönguslysa að annast skráningu og greiningu samgönguslysa og alvarlegra samgönguatvika.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði sem teljast til nýmæla fyrir suma slysaflokka en ekki aðra. Er þar m.a. um að ræða 38. gr. þar sem gert er ráð fyrir heimild rannsóknarnefndar samgönguslysa til að rannsaka atriði er varða almennt öryggi í samgöngum án þess að þau tengist tilgreindu slysi. Sambærilega heimild er að finna í 5. mgr. 8. gr. gildandi laga um rannsókn flugslysa. Hvorki er slíka heimild að finna í gildandi lögum um rannsókn sjóslysa né umferðarslysa.

Refsiheimildarákvæði 1. og 2. mgr. 41. gr. eru bæði nýmæli en í 1. mgr. er kveðið á um að hver sá sem hindrar starfsmenn eða nefndarmenn rannsóknarnefndar samgönguslysa við rannsóknarstörf sín skulu sæta sektum. Er þetta ákvæði sett í ljósi þess mikilvæga starfs sem nefndin og starfsmenn hennar vinna í þágu almannaöryggis með rannsóknum sínum.

Í 2. mgr. er kveðið á um að hver sá skuli sæta sektum sem upplýsir um innihald þeirra gagna sem fjallað er um í 27. gr. frumvarpsins, þ.e. ákvæði sem takmarkar aðgengi að tilteknum upplýsingum. Er þetta ákvæði sett vegna eðlis þeirra gagna og viðkvæmra persónuupplýsinga sem um ræðir. Refsiheimildarákvæði 3. mgr. er að hluta til nýmæli þar sem brot á tilkynningarskyldu vegna sjó- og flugslysa varðar refsingum, en refsiheimildarákvæði er aftur á móti ekki að finna í lögum um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Er þessi heimild sett í frumvarpið vegna mikilvægis þess að nefndinni sé tilkynnt um slys sem verða innan lögsögu hennar sem og til að samræmis gæti milli slysaflokka.

Í frumvarpinu er svo að finna ákvæði til bráðabirgða er snýr að forstöðumönnum og starfsmönnum núverandi rannsóknarnefndar sjó-, flug- og umferðarslysa. Er í ákvæðinu kveðið á um að forstöðumönnum verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá hinni nýju nefnd þar til núverandi skipunartíma þeirra lýkur. Einnig er kveðið á um að öðrum starfsmönnum nefndanna skuli boðið starf hjá hinni nýju nefnd. Er þetta gert til að tryggja að sem minnst rót verði á þeirri rannsóknarstarfsemi sem færist undir hina nýju rannsóknarnefnd sem á að tryggja að sú þekking sem er til staðar í núverandi rannsóknarnefndum glatist ekki.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[21:55]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér virðist í eðli sínu hafa tvenns konar tilgang. Í fyrsta lagi, eins og fram kemur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, sem byggir á kostnaðarmati sem samgönguráðuneytið lét vinna, er gert ráð fyrir að með sameiningu þessara rannsóknarnefnda náist fram hagræðing sem geri það að verkum að framlög vegna þessara verkefna lækki um 8% milli fjárlaga 2009 og 2010. Síðan er það það atriði, sem ég tel að hljóti að vera meginmálið á bak við þessa hugsun, sem er það sem fram kemur í athugasemd við lagafrumvarpið, að ætlunin sé að reyna að ná fram meiri og betri faglegri vinnu. Maður nemur fyrst og fremst staðar við þetta síðara nú í upphafi. Þetta er mál af því tagi að nauðsynlegt er að það fái mjög vandaða meðferð í samgöngunefnd Alþingis. Þetta eru eðli málsins samkvæmt mjög viðkvæm mál og gífurlega mikilvægt að þeim sé sinnt eins vel og mögulegt er. Ég vil því beina sjónum mínum í upphafi að þessari spurningu um hina faglegu vinnu.

Nú vitum við að vel hefur verið staðið að þessum málum hér á landi, bæði á sviði flugöryggis og umferðarslysa og síðast en ekki síst sjóslysa þar sem ég þekki kannski hvað best til. Eftir því sem mér hefur skilist hefur þessari vinnu fleygt fram og hún hefur verið að batna. Maður sér það t.d. á þeirri umfjöllun sem orðið hefur um umferðarslysin að þar eru upplýsingar miklu betri en þær virtust vera áður, án þess að ég sé að gera lítið úr því sem áður hefur verið gert, aðstæður gera það að verkum að menn hafa haft möguleika til að bæta þennan þátt. Það sama hygg ég að eigi við um flugslysin. Eitt er alla vega ljóst að þeim þætti sem snýr að sjóslysunum sjálfum hefur fleygt mjög fram. Maður hefur orðið var við það í viðbrögðum sjómanna varðandi starf sjóslysanefndarinnar að menn hafa verið býsna ánægðir með það starf. Til að mynda hefur verið unninn upp langur hali af skýrslum sem ekki hafa legið fyrir og áfram mætti telja.

Þegar maður horfir á þetta þessum augum virðist ekki blasa við að neinir sérstakir faglegir vankantar hafi verið á þeirri starfsemi sem verið hefur í þessum þremur nefndum og starfsstöðvum þeirra á undanförnum árum. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra strax í upphafi hvað knýi á um það, af þessum faglegu ástæðum, að fara í þessa dramatísku uppstokkun á umræddri starfsemi sem ég veit ekki annað en hafi gefist vel eins og hún hefur farið fram. Með því er ég ekki að segja að útiloka eigi það fyrir fram að skoða möguleika á sameiningu þessarar starfsemi. Það kunna að vera fyrir því rök og það eru þeir þættir sem ég hygg að samgöngunefnd Alþingis muni fara ofan í með sérfræðingum og eftir að hafa fengið umsagnir þar til bærra aðila.

Af því að ég vík aðeins að þessum faglega þætti þá er því ekki að neita að viðbrögð við þessum hugmyndum sem hæstv. ráðherra hefur kynnt fyrir alllöngu hafa verið blendin. Eins og hæstv. ráðherra greindi frá gerði hann það þannig að hann lagði frumvarpið fram, kynnti það á netinu. Það eru út af fyrir sig jákvæð vinnubrögð, sérstaklega í máli eins og þessu sem varðar marga og hefur á sér ýmsar hliðar sem blasa kannski ekki við mönnum við fyrstu sýn. Ég vil út af fyrir sig fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa haft slík vinnubrögð að skoða þessi mál þannig að sem flestir gætu haft aðgang að þeim og haft möguleika á áhrifum við undirbúning málsins sjálfs. En þar hafa einmitt komið fram, m.a. frá flugmönnum, ýmsar athugasemdir við málið. Í Morgunblaðinu laugardaginn 3. október sl. er viðtal við formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem kvartar undan því að í frumvarpinu sé undirliggjandi refsitónn, eins og hann segir, og það sé í sjálfu sér stór breyting. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða skoðun hann hafi á þessum sjónarmiðum, hvort með frumvarpinu sé vikið af leið frá því sem verið hefur og verið að slá nýjan tón, refsitón.

Formaður atvinnuflugmanna, Jóhannes Bjarni Guðmundsson, segir jafnframt að í gildandi lögum sé grunntónninn fyrst og fremst sá að upplýsa orsök slysanna til að læra af reynslunni og forðast frekari slys en ekki beina sök í ákveðna átt, að Félag íslenskra atvinnuflugmanna telji að með þessu frumvarpi sé verið að fjarlægjast regluverk nágrannalandanna með breytingunni. Hann áréttar það líka að mikilvægt sé að rétt niðurstaða fáist um orsök slysanna en til að svo geti orðið þurfi flugmenn að geta treyst rannsóknarnefndinni án ótta við að það sem þeir segi verði notað gegn þeim og þeir sakfelli sjálfa sig með samstarfsviljanum. Við þekkjum að þetta er þáttur sem oft kemur upp í málum eins og þessum. Síðast en ekki síst kvarta flugmennirnir undan því að lítið samráð hafi verið haft við þá um þetta mál. Þeir segjast hafa sent umsögn í apríl en ekkert heyrt af málinu fyrr en það kom upp í fjölmiðlum á lokastigi í ráðuneytinu og tilkynnt að leggja ætti það fyrir Alþingi von bráðar. Það er auðvitað mjög slæmt ef svo er. Út af fyrir sig er lofsvert að kynna málið á vef ráðuneytisins en það breytir því ekki að hið formlega samráð hlýtur að eiga sér stað við þá sem eru beinir hagsmunaaðilar í þessum efnum. Í þessu sambandi vísa ég til flugmanna og flugrekstraraðila. Varðandi það sem snýr að sjóslysum hljóta menn að horfa til sjónarmiða sjómanna, útvegsmanna, björgunarmanna o.s.frv., sem þekkja þessi mál allra manna best og hafa af því mikla hagsmuni.

Þessi mál voru nokkuð til umræðu fyrir fáeinum dögum eða vikum þegar ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um staðsetningu þess hluta starfseminnar sem hér er verið að áætla að setja á laggirnar, sú starfsemi hefur farið fram í Stykkishólmi á undanförnum árum og hefur satt að segja tekist mjög vel. Eins og oft er þegar slík starfsemi hefur verið flutt út á land þá nýtur hún mikils stuðnings nærsamfélagsins, samfélagsins sjálfs. Það hefur m.a. orðið þess valdandi að tekist hefur að búa þar til mjög góðan ramma. Þar eru ákaflega færir menn að störfum og í sjóslysanefndinni eru bæði snjallir menn og færir og áhugasamir um verk sitt. Ég neita því ekki að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þessum þætti málsins mun reiða af við áform hæstv. ráðherra um að sameina þessa starfsemi.

Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta mál út frá þessum byggðarlega sjónarhóli sem okkur hæstv. ráðherra er báðum mjög tamt að horfa af þegar við lítum á mál sem lögð eru fyrir Alþingi. Ég get ekki neitað því að svör hæstv. ráðherra ollu mér vonbrigðum. Ég spurði mjög ákveðið og beint hvort ætlunin væri að starfrækja áfram þá starfsemi sem nú fer fram innan vébanda rannsóknarnefndar sjóslysa í Stykkishólmi, hvort ætlunin væri að starfrækja þetta áfram þar fyrir vestan eða hvort hugmyndin væri sú að færa þetta til. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki beint en sagði að eðli málsins samkvæmt teldi hann að þessi starfsemi, þ.e. höfuðstarfsemi hinnar nýju stofnunar, færi fram á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki endilega viss um að þetta sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra en látum það liggja á milli hluta. Mitt áhyggjuefni var ekki síst það hvort hæstv. ráðherra væri með frumvarpinu að veikja þá starfsemi sem þegar er til staðar vestur í Stykkishólmi. Í sjálfu sér var ég ekki að knýja á um það hvort hæstv. ráðherra ætlaði sér að efla hana. Þó spurði ég hvort til greina kæmi að hans mati að höfuðstöðvar starfseminnar yrðu utan höfuðborgarsvæðisins. Því svaraði hann afdráttarlaust neitandi en svar hæstv. ráðherra varðandi það hvort þetta mundi verða til þess að veikja eða draga úr starfseminni sem nú fer fram í Stykkishólmi olli mér vonbrigðum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra mjög beint aftur: Hefur ráðherra, t.d. eftir að við áttum þessi orðaskipti, skoðað þessi mál betur? Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér hvort hægt verði að starfrækja þessa starfsemi með þeim hætti að a.m.k. sá þáttur sem nú er unnið að í Stykkishólmi verði unninn þar áfram í stað þess að flytja þessi verkefni til? Það er mikið í húfi. Mönnum finnst þetta kannski ekki vera mörg störf sem horfa á þessi mál frá sjónarhóli stærri byggðarlaga en við hæstv. ráðherra, sem komum úr minni byggðarlögum, gerum okkur báðir ákaflega vel grein fyrir byggðarlegri þýðingu þessa máls. Ég trúi því ekki að það geti orðið til að veikja hinn faglega þátt málsins að búa þannig um hnútana að hluti af þessari starfsemi, sá hluti starfseminnar a.m.k., eða ígildi hans, sem nú fer fram vestur í Stykkishólmi, geti farið þar fram áfram.

Eftir að þessi orðaskipti okkar hæstv. ráðherra áttu sér stað, með þátttöku ýmissa annarra þingmanna Norðvesturkjördæmis, sendi bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar frá sér bókun þann 26. nóvember sl. þar sem athygli er vakin á þessu máli. Þeir vitna í svar hæstv. ráðherra og vitna í þau orð hans að hann telji að ekki sé hægt að rífa það fagfólk sem nú vinnur við þessi fjölþættu störf, varðandi rannsóknarnefnd sjóslysa, flugslysa og umferðarmála, upp með rótum og færa út á land. Allt eins má spyrja hvort hægt sé að rífa þá starfsemi sem nú fer fram vestur í Stykkishólmi upp með rótum og færa suður til Reykjavíkur. Ég vil vitna í bókun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar, með leyfi virðulegs forseta:

„Í Stykkishólmi er rannsóknarnefnd sjóslysa og bak við þau störf er fagfólk. Í svari ráðherrans kemur fram að rífa ekki upp með rótum það fagfólk sem er starfandi við umferðar- og flugslysanefnd í Reykjavík. Það hlýtur að gilda það sama um það fagfólk sem starfar við sjóslysanefnd í Stykkishólmi, að það verði ekki rifið upp með rótum og flutt til Reykjavíkur. Ríkisstjórnin og allra síst ráðherra sveitarstjórnarmála getur ekki gert upp á milli fólks eftir búsetu. Það orkar einnig tvímælis að á vegum ráðuneyta séu nefndir er vinni að tillögum að flutningi opinberra starfa út á land á sama tíma og ráðherra flytur störf utan af landi til höfuðborgarinnar. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur áður skorað á ríkisstjórn Íslands, og beinir þeirri áskorun nú sérstaklega til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hafa sanngirni að leiðarljósi og gæta þess að opinberum störfum verði ekki fækkað á landsbyggðinni. Í það minnsta að hlutfallsleg fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni verði ekki umfram fækkun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við íbúafjölda. Bæjarstjórnin þakkar dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, fyrir opna umræðu og samstarf við sveitarfélög varðandi hugmyndir um breytingar á skipulagi sýslumanns- og lögreglustjóraembætta. Slík vinnubrögð eiga að vera öðrum ráðuneytum til fyrirmyndar og eftirbreytni.“

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þennan þátt málsins að bæta en árétta það sjónarmið mitt að ég tel að ekki eigi að koma til greina að rýra það starf eða veikja sem nú fer fram með svo ágætum hætti í Stykkishólmi. Ég skora á hæstv. ráðherra að ganga þannig frá þessu máli að það verði ekki til að veikja þá starfsemi. Ég tel æskilegast að kveðið verði á um þetta mál sérstaklega í lögum verði það niðurstaða Alþingis að samþykkja þetta frumvarp.

Að lokum vil ég beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála — þetta eru að verða svo löng orð þessi ráðherraheiti að maður verður nánast sakaður um málþóf að taka sér þau í munn. Gert er ráð fyrir því að þessi lög taki gildi 1. júlí 2010. Enn fremur er gert ráð fyrir því, í ákvæði til bráðabirgða, að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki að gilda um störf sem ráðið er í eftir þessu ákvæði. Nú þekki ég þessi mál nokkuð af reynslu, m.a. frá þeim tíma sem ég var sjálfur formaður samgöngunefndar Alþingis, þegar verið var að formbreyta ýmsum stofnunum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þetta þýði. Hvað þýðir þetta fyrir réttarstöðu starfsmanna? Hvað þýðir þetta fyrir lífeyrisþátt starfsmanna o.s.frv.? Ég held að það væri ákaflega gott í þessari umræðu ef hægt væri að upplýsa það en ella hlýtur það að koma til álita og umræðna þegar málið kemur fyrir samgöngunefnd Alþingis.



[22:09]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem ber að hafa í huga við það mál sem við ræðum er að það rannsóknarstarf sem farið hefur fram á samgönguslysum hér á landi hefur verið í ákaflega góðum farvegi faglega séð, það rannsóknarstarf er gríðarlega mikilvægt og vel hefur tekist til. Markmiðið með slíku rannsóknarstarfi er að menn læri af þeim slysum sem verða til að koma í veg fyrir frekari slys. Ekki þarf að kafa djúpt til að sjá þann mikla árangur sem orðið hefur í slysavörnum, og þar með töldum rannsóknaþætti slysa, hér á landi á undanförnum árum. Hér hefur sjóslysum fækkað mjög mikið, flugslysum hefur fækkað mjög mikið og við höfum séð jákvæða þróun verða hvað varðar alvarleg slys í umferðinni, sérstaklega banaslys.

Maður getur skilið það markmið sem virðist m.a. felast í þessu frumvarpi, að hagræða eitthvað í yfirstjórn þessara verkefna, og út af fyrir sig hefði ég skilning á því að þessar stofnanir væru færðar saman. Með því mætti spara eitthvað í yfirstjórn og skrifstofurekstri. En þegar kemur að þeim þætti þar sem rætt er um rannsóknarnefndirnar og þann fjölda sem á að skipa í rannsóknarnefnd samkvæmt nýja frumvarpinu horfum við til þess að gert er ráð fyrir því að skipuð verði fimm manna rannsóknarnefnd og að nefndarmenn eigi að hafa sérþekkingu á sviði rannsókna og samgönguslysa. Að minnsta kosti þrír þessara nefndarmanna eiga síðan að taka þátt í rannsókn á hverju atviki samgönguslysa ásamt einum rannsóknarstjóra sem skipaður verður sem sérfræðingur á sviði viðkomandi slyss eftir því í hvaða samgöngugeira það er. Þessi rannsóknarnefnd kemur í stað þeirra sérfræðirannsóknarnefnda sem í dag fara með rannsóknir á flugslysum, sjóslysum og umferðarslysum. Ég hef miklar efasemdir um, og tek þar undir gagnrýnisraddir sem heyrst hafa um þetta atriði málsins, að þarna sé verið að fylgja nægilega vel eftir þeirri faglegu þekkingu sem nauðsynleg er til að stunda þessar rannsóknir.

Í rannsóknarnefnd flugslysa eru þrír aðilar í dag og þar hefur verið kappkostað að hafa menn með mikla reynslu, fagmenn á þessu sviði, flugmenn, flugvirkja og jafnvel flugvélaverkfræðinga. Í rannsóknarnefnd sjóslysa starfa fimm aðilar og með sama hætti hefur þar verið lögð mikil áhersla á að fagmenn komi að málum. Þar eru skipstjórnarmenn, á kaupskipum, á fiskiskipum, vélstjóri, skipaverkfræðingur, innan borðs. Það sama á við þegar kemur að umferðarslysunum, lögregla og heilbrigðisstarfsmenn eða læknir eiga m.a. aðild að þeirri nefnd.

Þrátt fyrir að hugmyndin sé, samkvæmt frumvarpinu, að þeir starfsmenn sem í dag starfa hjá þessum rannsóknarnefndum fylgi inn í þessa sameiginlegu stofnun tel ég að mikil hætta sé á því að við séum að fórna þarna faglegri þekkingu sem er fólgin í reynslu og þekkingu þessara nefndarmanna á hverju sviði. Ég hef áhyggjur af því að við fáum ekki eins ítarleg rannsóknargögn og ítarlegar niðurstöður sem hægt er að nota í fyrirbyggjandi starfi í framtíðinni. Þetta tel ég að hv. samgöngunefnd þurfi að skoða alveg sérstaklega og skoða þá gagnrýni sem m.a. hefur komið úr þessum ranni. Þarna verðum við að vanda okkur vel vegna þess að það verður oft ekki mælt í krónum eða aurum þegar kemur að því að standa faglega að þessum þáttum.

Okkur hefur tekist mjög vel upp á undanförnum árum. Við höfum náð góðu heildaryfirbragði á þennan rannsóknarþátt og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Það vantar inn í þetta frumvarp mögulegan rannsóknarþátt björgunaraðgerða, sem eftir Svanborgarslysið svokallaða vestur á Snæfellsnesi var settur inn í rannsóknarnefnd sjóslysa, og er oft órofa þáttur í hluta af slysi og slysarannsókn. Í rannsókn á þeim þætti geta oft komið fram mjög mikilvægar upplýsingar um aðdraganda slyss og þær aðstæður sem voru á slysstað sem geta skilað sér í mikilvægu forvarnastarfi í framtíðinni sem lærdómur sem draga ber af viðkomandi slysi. Ég veit ekki hvort einhver sérstök ástæða er fyrir því að þetta er ekki látið fylgja í frumvarpinu, að reiknað sé með því að í einstökum slysum geti rannsóknarþátturinn verið til skoðunar. Þetta á kannski ekki síst við í sjóslysum og flugslysum en ég tel fulla ástæðu til að nefndin skoði þetta alveg sérstaklega og kanni hvort ekki sé rétt að setja þennan þátt inn í frumvarpið.

Ég ítreka það að við verðum að vanda okkur alveg sérstaklega í þessu máli. Við verðum að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram frá hagsmunaaðilum. Þar yrði sérstaklega vitnað til samtaka sjómanna og samtaka atvinnuflugmanna sem hafa áhyggjur af þeirri þróun sem fram kemur í frumvarpinu og þá sérstaklega þeim faglega þætti sem ég hef farið yfir. Við höfum oft upplifað þá erfiðu umræðu sem verður eftir alvarleg slys í samfélagi okkar og hversu mikilvægt það er að þá séu öll gögn til staðar og allt sé hægt að fara yfir þannig að hægt sé að mæta særindum og erfiðleikum sem oft koma í kjölfarið, og einnig þeirri gagnrýni sem kemur upp, á sem faglegustum nótum. Ég held að hv. samgöngunefnd hafi því mjög mikilvægu hlutverki að gegna hvað frumvarpið varðar. Það er mjög umdeilt. Ég vil hvetja til þess að gefinn verði mjög góður tími til að fara yfir þetta og að þeir málsaðilar og hagsmunaaðilar sem umsögn veita verði kallaðir fyrir nefndina og tekið verði tillit til skoðana þeirra.



[22:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra mælir fyrir frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa. Í sjálfu sér er margt athyglisvert í þessu frumvarpi. Það kallar hins vegar fram ákveðnar spurningar ásamt því að svara einnig svo sem allnokkrum.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar áðan að líklega ráða för tveir þættir, annars vegar hagræðing og hins vegar að reyna að gera enn betur í rannsóknum á þessum slysum. Er það að sjálfsögðu vel. Þegar ég skoða þetta frumvarp og velti fyrir mér því svari sem hæstv. ráðherra veitti við fyrirspurn þingmannsins hér ekki alls fyrir löngu velti ég fyrir mér og spyr ráðherra hvort leitað hafi verið til þeirra stofnana, eins og þær eru í dag, og kannað hvort þær gætu sparað eða hagrætt á móti þeirri kröfu sem kemur fram í þessum hugmyndum. Ef svo er spyr ég hvort tillögur hafi borist frá stofnununum.

Það má vel vera að þetta frumvarp muni bæta og einfalda einhverja hluti en það er, held ég, ekki gallalaust og ýmislegt sem þarf að skoða í nefndinni. Þetta er vitanlega 1. umr., verið að mæla fyrir málinu og eðlilegt að hafa ákveðna fyrirvara á því.

Ekki alls fyrir löngu áttum við hæstv. ráðherra orðastað um Reykjavíkurflugvöll og slökkvilið þar, það tengist óbeint þessu máli. Í texta með frumvarpinu er vitnað í hinn svokallaða Chicago-samning sem m.a. öryggis- og rannsóknarvinna byggir á, t.d. varðandi flugumsjón eða flugrannsóknir og flugslys. Í þeim samningi er, mig minnir í kafla 14 eða eitthvað slíkt, m.a. fjallað um slökkvilið og ég verð að koma því hér á framfæri að mér fannst aðeins skorta á metnað í þeirri umræðu sem við áttum hér, ég og hæstv. ráðherra, um björgunarstörf á flugvellinum.

Í 5. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar fimm menn í rannsóknarnefnd samgönguslysa til fimm ára í senn auk fjögurra varamanna. Ráðherra skipar einn nefndarmanna formann nefndarinnar og annan staðgengil hans. Formaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar, þar með talið fjárreiðum hennar, og gætir þess að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma.“

Síðan kemur:

„Formaður ræður annað starfsfólk til nefndarinnar.“

Það hefur kannski farið fram hjá mér, ég viðurkenni það, en ég sé ekki í skýringum hvort ráð sé gert fyrir að formaðurinn verði starfandi. Það má lesa út úr þessu að formaður nefndarinnar verði starfsmaður nefndarinnar, þ.e. á launum.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum formaðurinn einn eigi að ráða starfsfólk nefndarinnar. Af hverju gerir nefndin það ekki öll? Er verið að búa til frekar stórt og voldugt batterí? Það væri ágætt að fá svör við þessum spurningum. Verður formaðurinn ráðinn sérstaklega og í fastri vinnu? Og af hverju ræður nefndin ekki annað starfsfólk?

Í athugasemdum við frumvarpið segir að verið sé að sameina í eina nefnd o.s.frv. Hér kemur fram hver vann þetta fyrir ráðuneytið. Einnig finnst mér eins og hans nafn hafi komið fyrir í svokallaðri Icesave-umræðu einhvers staðar, ég man það þó ekki alveg, en allt í góðu með það.

Síðan stendur á bls. 16, með leyfi forseta:

„Til að tryggja að sú þekking sem til staðar er í núverandi rannsóknarnefndum glatist ekki sem og að sem minnst rót verði á þeirri rannsóknarstarfsemi sem færist undir hina nýju rannsóknarnefnd er í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins kveðið á um að forstöðumönnum núverandi rannsóknarnefnda verði boðið starf rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa og jafnframt skuli öðrum starfsmönnum nefndanna boðið starf hjá hinni nýju nefnd.“

Þetta er ákvæði til bráðabirgða og það er skýrt síðar hvað átt er við, út þennan skipunartíma og slíkt. Ég verð að segja, frú forseti, að í ljósi umræðna um þetta frumvarp og þessi mál veltir maður fyrir sér þeim orðum sem ráðherra hefur látið falla hér, m.a. í svari við fyrirspurn hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar. Getur verið að ráðherrann ætli að beita sér fyrir því að þau störf sem eru í rannsóknarnefnd sjóslysa í dag í Stykkishólmi verði lögð niður og flutt til Reykjavíkur? Það er athyglisverð stefna í ljósi umræðna flokks ráðherrans um störf án staðetningar og allt slíkt.

Ég ætla að vitna í umræðu og orð sem ráðherra lét falla á Alþingi við fyrirspurn hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þrátt fyrir áhuga minn á að flytja störf út á land verður líka að gæta þess að á bak við þau er fagfólk sem vinnur við þau. Við rífum það ekki upp með rótum og færum út á land.“

Það er líka fagfólk úti á landi og ef samgönguráðherra hefur áhuga á að styðja við landsbyggðina og fjölga störfum þar mundi hann sjálfur vitanlega íhuga það alvarlega að hrófla ekki við þessari góðu starfsemi sem mér vitanlega hefur ekki sýnt annað en góðan árangur í því starfi sem þar er unnið.

Frú forseti. Það má velta hér upp ýmsum hlutum. Ýmsar athugasemdir hafa birst í dagblöðum og annars staðar um þetta mál. Það er mjög mikilvægt að tryggja að nefndin sem fjalla mun um málið fari mjög vandlega yfir það og skoði alla kanta þess. Hv. þm. Jón Gunnarsson benti á áhugaverðan hlut hér áðan um rannsóknir björgunarslysa, ég held að það þurfi að skoða hann mjög vandlega. Ég vara hins vegar við þeim tóni sem mér hefur fundist vera í orðum ráðherra og ræðum hans um sameiningu þessara stofnana. Ég fæ ekki séð að það samræmist þeim yfirlýsingum og þeirri stefnu sem ráðherrann og flokkur hans hafa haft í gegnum tíðina um störf á landsbyggðinni, að í raun hóta því hér og segja í ræðu og svari við fyrirspurn að hann telji best að starfsemin sé á höfuðborgarsvæðinu þar sem hér séu flest umferðarlsysin eða hvernig þetta var orðað. Það hefur margsýnt sig að það er mjög hagkvæmt og gott að hafa opinber störf á landsbyggðinni. Bæði eru þau störf ekki síður unnin en á höfuðborgarsvæðinu og í öðru lagi er hægt að sýna fram á að þau störf hafi mjög mikil áhrif inn í þau samfélög þar sem þau eru unnin. Ábyrgð ráðherra er mikil í því að fara að rífa þetta fólk upp með rótum eins og annað fólk.

Að endingu, frú forseti, ítreka ég það sem kom fram áðan varðandi fyrirspurnir um formann nefndarinnar og aðrar spurningar sem ég hef lagt fram. Ég ítreka einnig að frumvarp þetta þarf að fá góða umfjöllun í nefndinni og ég ætlast til þess að nefndarmenn og nefndin kalli til þá aðila sem hafa skilað inn athugasemdum og aðra hagsmunaaðila og fái frá þeim raunsætt mat á frumvarpið í heild.



[22:28]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þremur þingmönnum sem tóku til máls um frumvarpið fyrir það sem þeir lögðu til umræðunnar. Það kom fram hjá a.m.k. tveimur þeirra að það sé tvenns konar tilgangur, auðvitað hagræðing og síðan er annað meginmarkmið meiri og betri fagleg vinna og samræming, ein lög um rannsókn samgönguslysa í staðinn fyrir þrenn lög eins og ég fór í gegnum áðan.

Þá er það auðvitað líka svar við spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um það hvort ekki hafi verið leitað til stofnananna um sparnað. Jú, það hefur verið gert fyrir næsta ár. Samgönguráðuneytinu og öllum stofnunum þess er gert að spara um 10% og það hefur verið gert með ákvörðun. Þannig er það tekið niður.

Svo ég svari hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni líka því sem hann fjallar um formanninn í 5. gr. ítreka ég það sem þar er sagt og þá hugsun sem er í greininni, að formaðurinn er eins og nokkurs konar forstjóri. Auðvitað verður þetta samt tekið til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd eins og hvað annað vegna þess að ég ætlast til þess að þar verði góð og vönduð umfjöllun eins og auðvitað er í öllum málum. Nefndin mun fara í gegnum það og kalla til aðila og kalla eftir umsögnum eins og gengur og gerist.

Eins og hér hefur komið fram, og ég tók eftir að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson var mjög ánægður með, hefur þetta verið tvíkynnt á netinu. Fjölmargar athugasemdir hafa komið inn og góðar tillögur sem til margra hverra hefur verið tekið tillit. Eins og ég sagði var málið síðan birt aftur áður en það var gert að frumvarpi sem ég geri þá að mínu og flyt inn til Alþingis og til hv. samgöngunefndar til að fara í vandaða meðferð. Það er mjög mikilvægt að það sé gert vel eins og hv. þm. Jón Gunnarsson og fleiri töluðu um, það verði farið yfir þetta faglega og við séum ekki að spilla neinu hvað varðar rannsókn samgönguslysa. Við ætlum okkur að efla málið, það er meginmarkmið þessa frumvarps.

Rannsókn flugslysa er í mjög alþjóðlegu umhverfi og unnin af mjög mikilli fagmennsku. Það er athyglisvert og það er munur á því gagnvart rannsókn sjóslysa og svo umferðarslysa að auðvitað er bara gott ef þetta samspil getur orðið meira og starfsmennirnir og aðrir fá faglegan stuðning hver frá öðrum.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði um athugasemdir frá FÍA vil ég geta þess að auk þess að hafa tvíkynnt þetta á netinu hafa fulltrúar FÍA komið til fundar í ráðuneytið og átt fundi með ráðuneytisstjóra og starfsmönnum ráðuneytisins til að fara yfir þau atriði, m.a. nú á lokastigum. Þar var tekið tillit til þess. Það er ekki verið að gera neitt í þessu frumvarpi sem gerir það að verkum að t.d. flugmenn eða aðrir sem gefa upplýsingar sakfelli sjálfa sig í leiðinni. Það er ekki verið að gera neitt svoleiðis og ekki ætlast til þess.

Þá kem ég að því sem tveir þingmenn hafa eðlilega gert dálítið mikið úr, starfi sjóslysanefndar í Stykkishólmi. Ég ítreka það sem ég sagði í lok flutningsræðu minnar, forstöðumönnum verður boðið starf og öðrum starfsmönnum og ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram segi ég aftur að ekki stendur til, að mínu mati, að taka þessa stofnun og flytja hana út á land. Þó að ég sé unnandi þess að opinber störf séu byggð upp úti á landi tel ég betra að gera það þegar nýjar stofnanir verða til eða ný atriði og nefndi sem dæmi verkefni til sýslumannsins í Bolungarvík sem ég stóð fyrir að senda þangað. Það er sem sagt eftirlit með óskoðuðum ökutækjum.

Flest samgönguslysin verða á þessu svæði hér og ég veit ekki einu sinni hvar starfsmenn flugslysanefndar eða umferðarslysanefndar búa. Mér er eiginlega alveg sama um það. Það er sama auðvitað með þá sem búa í Stykkishólmi og sinna sínu góða starfi þar, þeir geta að sjálfsögðu áfram búið og starfað í Stykkishólmi, það er alveg klárt.

Það má segja að þetta séu störf án staðsetningar, alveg eins og það er ekkert verið að spekúlera í því hvort einhverjir menn í flugslysanefnd búi í Reykjanesbæ eða Reykjavík. Þannig er það bara og ég er alveg sannfærður um að með því að setja þetta saman, sem er auðvitað aðaltilgangurinn, eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson gat um, náist meiri og betri fagleg vinna. Eins og hann talaði um á ekki að útiloka sameiningu þessara nefnda. Tilgangurinn er hér og þess vegna lýk ég máli mínu með því, virðulegi forseti, að segja að ég held að þetta sé ágætismál. Það fer núna sinn gang til samgöngunefndar og ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég veit að samgöngunefnd mun fara vel í gegnum þetta mál og kalla eftir umsögnum og fá menn til sín á fundi nefndarinnar. Okkur liggur ekkert á þannig lagað, það er ekkert verið að pressa þetta neitt fyrir jól eða svoleiðis, síðan verður þetta bara unnið faglega eftir jól.

Í lokin ítreka ég enn og aftur þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls í þessu vegna þess að þeir láta sig umferðaröryggismál miklu varða hvað varðar samgönguslys og annað.



[22:34]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir síðari ræðu hans og þær upplýsingar sem þar komu fram. Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að þeir starfsmenn rannsóknarnefndar sjóslysa sem hafa unnið í Stykkishólmi geti gert það áfram. Hæstv. ráðherra sagði að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að þeir gætu áfram búið og starfað í Stykkishólmi. Ég hlýt að líta þannig á að með þessari yfirlýsingu sé hæstv. ráðherra að segja að hann ætli ekki að veikja þá starfsemi sem nú fer fram hjá rannsóknarnefnd sjóslysa í Stykkishólmi. Ég vil árétta að þetta er auðvitað grundvallaratriði sem hlýtur að koma til álita þegar verið er að fjalla um þessi mál, þ.e. hinn byggðalegi þáttur málsins. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hæstv. ráðherra og árétta það að ég tel að með henni sé hæstv. ráðherra að segja að hann muni ekki hrófla við þeirri starfsemi sem þar er, annað væri þá ómark út frá orðum hæstv. ráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra, hann getur kannski svarað því síðar, hvort hann sé ekki sammála mér um að það væri til þess fallið að styrkja málið að það væri annaðhvort áréttað, hreinlega með ákvæði í þessum lögum eða a.m.k. gerð grein fyrir því í nefndaráliti samgöngunefndar að það sé ekki ætlunin að hrófla við þeirri starfsemi sem nú á sér stað í Stykkishólmi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til samgn.