138. löggjafarþing — 43. fundur
 14. desember 2009.
fjárlög 2010, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 383, 394 og 395, brtt. 384, 385, 386, 387, 388, 389, 390, 391, 409, 410, 411, 412, 414, 415 og 418.

[20:00]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga ársins 2010 sem er eitt af mikilvægari málum á haustþingi sem Alþingi tekur fyrir hverju sinni. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða, frú forseti, að það frumvarp sem við ræðum hér er það frumvarp til fjárlaga sem hefur hvað verst verið unnið á seinni árum í sögu Alþingis. Af því að formaður fjárlaganefndar þingsins er kominn í salinn vil ég rifja upp þau ummæli hans sem hann viðhafði við fjölmiðla og ég held að ég hafi lesið í einhverju morgunblaðinu í morgun þar sem hv. þingmaður sagði að trúlega hefði fjárlagafrumvarp aldrei verið unnið eins vel og það frumvarp sem við ræðum hér. Ég spyr hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, hvort hann ætli í alvörunni að standa við þessi ummæli sín. Ef svo er er hv. þingmaður því miður að gengisfella sig herfilega í almennri umræðu á Íslandi í dag. Ég tek stórt upp í mig með það og mig langar að nefna hér af hverju ég segi það. Þetta frumvarp er eitt það verst unna sem ég hef a.m.k. upplifað og er þetta sjöunda fjárlagafrumvarp sem ég hef unnið að. Ég bendi hv. þingmanni á að meiri hluti fjárlaganefndar tók málið út án þess að hafa fengið umsögn um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem hv. efnahags- og skattanefnd átti að veita. Eftir að meiri hlutanum var bent á að þetta verklag gæti ekki gengið, því að þetta er sá hluti sem snertir innkomuna í ríkissjóð, hætti meiri hlutinn við að taka málið út, tók málið aftur inn og kallaði til sýndarfundar með fulltrúum í efnahags- og skattanefnd sem þá voru reyndar rétt hálfnaðir að hitta þá aðila sem áttu að veita umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Það var til málamynda, stuttum fundi skotið á, og að sjálfsögðu gat nefndin ekki veitt fullnægjandi álit um tekjuhlið frumvarpsins í ljósi þess að við vorum vart búin að hitta helminginn af þeim aðilum sem áttu að veita umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Það voru mikilvægir aðilar, m.a. aðilar vinnumarkaðarins, þar sem allt virðist því miður vera komið í háaloft í samskiptum ríkisins og aðila vinnumarkaðarins eins og ég mun benda á seinna í ræðunni.

Málamyndafundur var haldinn þrátt fyrir að efnahags- og skattanefnd væri ekki búin að klára sína vinnu við það að meta tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Það hefur ekki gerst í mörg ár, frú forseti. Ég man ekki eftir vinnulagi sem þessu og þegar hv. formaður fjárlaganefndar segir í heyranda hljóði við fjölmiðla að trúlega hafi frumvarpið aldrei eða sjaldan verið eins vel unnið og nú vil ég meina að hv. þingmaður fari sannarlega með rangt mál sem hann verður að leiðrétta úr ræðustól Alþingis. Staðreyndin er sú að sé allrar sanngirni gætt getur efnahags- og skattanefnd í raun og veru ekki, meira að segja ekki í dag, lagt mat á það hver áhrifin eru er snerta tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins vegna þess að við erum enn að vinna að því að skoða grundvallarbreytingar á tekjufyrirkomulagi ríkisins sem eru breytingar á skattkerfinu.

Nú skulum við tala um vinnulag, frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sem ég sé glitta í í hliðarsölum lagði til gríðarlegar breytingar, grundvallarbreytingar er snerta íslenskt launafólk, atvinnulíf, íslenskt samfélag, og efnahags- og skattanefndar beið að klára þær á 13 virkum dögum fyrir áramót. Þvílíkt vinnulag. Enda hafa umsagnaraðilar, þá sérstaklega aðilar vinnumarkaðarins, gagnrýnt þetta vinnulag harðlega, að við tölum ekki um endurskoðendur sem vita hversu flókin skattalöggjöfin er. Þeir hafa lýst algjörri andstöðu við þetta vinnulag stjórnarmeirihlutans.

Það er ekkert nýtt að ríkisstjórnin hafi þurft að leita leiða til að auka skatttekjur. Það eru 13 eða 14 mánuðir síðan bankahrunið íslenska varð og það er einfaldlega ekki ásættanlegt að hálfum mánuði, í virkum dögum, fyrir áramót komi það fyrir efnahags- og skattanefnd að breyta lögum um tekjuskatt einstaklinga, tekjuskatt fyrirtækja, virðisaukaskatt, sérstaka tekjuöflun í öðrum flokkum og almennar hækkanir á þeim liðum er snerta innkomu og tekjur ríkissjóðs. Að ætla efnahags- og skattanefnd þennan stutta tíma til að klára það er gjörsamlega óviðunandi. Eftir að hafa hlýtt á hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, skattstjóra o.fl. sem hafa unnið í tengslum við íslenska skattkerfið á undangengnum árum vil ég meina að þær grundvallarbreytingar sem hér eru lagðar til í andstöðu við fjölmarga hagsmunaaðila í samfélaginu, sem á að kýla í gegn á nokkrum dögum — ég ætla að segja að vinnubrögð sem þessi eru aðför að innviðum íslensks samfélags. Þetta eru stór orð, en ég segi þau hér vegna þess að Alþýðusamband Íslands hefur fordæmt samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við vinnslu þessa frumvarps. Samtök iðnaðarins hafa gert það líka og Samtök atvinnulífsins, og við okkur í stjórnarandstöðunni sem erum fyrir löngu orðin vön því að hæstv. ríkisstjórn hlusti ekkert á okkur hefur heldur ekkert samráð verið haft.

Ég hef því miður afskaplega takmarkaðan tíma til að fara yfir þessar umfangsmiklu breytingar sem ríkisstjórnin leggur til en ég ætla að gera það eins vel og ég get á einungis 30 mínútum. Við erum að tala um mál sem snertir grundvallargerð íslensks samfélags, um það hvernig við ætlum að rísa úr öskustónni og hefja nýja sókn hér á landi, sókn fyrir atvinnulífið, fjölgun starfa þannig að það verði búsældarlegt á Íslandi framtíðarinnar. Það sem ríkisstjórnin leggur hér til og snertir tekjuöflun ríkissjóðs og mig langar að gera að umtalsefni, enda er ég í efnahags- og skattanefnd þingsins, er að verið sé að fara úr því staðgreiðslukerfi sem Íslendingar hafa búið við frá því á 9. áratug síðustu aldar, einu einfaldasta og gegnsæjasta skattkerfi í heimi þar sem 90% af launamönnum hafa einungis þurft að ýta á „enter“-takkann þegar skattframtalið hefur komið með rafrænum pósti. Við höfum á síðustu 2–3 árum næstum náð fullkomnum árangri í þessu kerfi er varðar auðvelt aðgengi og skilning almennings á kerfinu. Þessu kerfi á að varpa fyrir róða og til þess að umbylta því á að verja 150–200 millj. af íslensku skattfé. Það væri ágætt ef formaður fjárlaganefndar gæti upplýst okkur um það, og hæstv. heilbrigðisráðherra sem er hér, hvort ekki hefði mátt nota þessar 200 millj. til að efla starfsemina á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hvað er verið að fara út í, algjörlega án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðuna? Það á bara að gera þetta á nokkrum dögum, nokkrum dögum fyrir áramót. Þessum vinnubrögðum hafna ég algjörlega og við höfum rökstutt það í efnahags- og skattanefnd að það væri hægt að ná svipuðum árangri í núverandi tekjuskattskerfi einstaklinga með því að hækka persónuafsláttinn og hækka tekjuskattsprósentuna. Við getum svo, án þess að ég vilji útiloka einhverjar breytingar á íslensku skattkerfi, tekið næstu mánuði í samráði við aðila vinnumarkaðarins, okkar helstu skattkerfissérfræðinga, til að fara mjög vandlega ofan í það hvernig við viljum breyta þessu kerfi. Nei, ríkisstjórnin hlustar ekki á það. Þetta skal í gegn á örstuttum tíma. Þurfum við að rifja það upp hér, hv. þingmenn, hvernig síðustu 13–14 mánuðir hafa verið í störfum Alþingis? Frumvörpin hafa komið inn í sali þingsins á leifturhraða undir mikilli tímapressu,. þingmönnum verið stillt upp við vegg og menn skulu gjöra svo vel og afgreiða viðkomandi mál á eins stuttum tíma og hægt er.

Hver hefur afleiðing þess verið? Fjölmörg mistök höfum við gert í lagasetningu á Íslandi á umliðnum mánuðum, og hverjir munu bera skaðann af því, af þeim mistökum sem við erum að gera vegna þess að tíminn sem við ætlum okkur í að vinna mikilvæg mál er svo stuttur? Það er íslenskur almenningur. Það eru framtíðarkynslóðir okkar Íslendinga og er þá rétt að minnast þess hvernig stjórnvöld hafa haldið á umdeildu Icesave-máli frá upphafi vega, frú forseti.

Í ljósi þess að íslenskir skattborgarar munu fara að greiða skattinn eftir á er það sannað, og kerfið frá 1986 hefur sannað það, að heimturnar í eftirágreiðslukerfinu í stað staðgreiðslukerfis eru miklu minni. Með því að fjölga skattþrepum líkt og í virðisaukanum og í tekjuskattinum eigum við á hættu mun meiri skattundanskot en við höfum upplifað í núverandi kerfi. Hvað þýðir þetta fyrir ríkissjóð? Hvað þýðir það að heimtur í eftirágreiddum sköttum verða mun minni fyrir ríkissjóð, að undanskot verði miklu meiri vegna þess að kerfið er flóknara? Þetta mun einfaldlega þýða að milljarðar munu tapast sem annars hefðu farið í ríkiskassann til að reka velferðarsamfélag okkar. Er það norræn velferðarstjórn sem hér hefur tekið við sem hagar málum með þessum hætti? Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og við erum ekki ein í því í stjórnarandstöðunni. Ég ætla að fara aðeins yfir það að Samtök atvinnulífsins hafa mótmælt þessu mjög harðlega og Vilhjálmur Egilsson segir m.a. í pistli á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

„Því miður hefur ríkisstjórnin oft verið að vinna gegn sinni eigin stefnu og þannig komið fram sem sinn versti óvinur.“ Síðan segir, með leyfi forseta: „Mikil vinna fór í að ná niðurstöðu um það hvernig tekjuöflun ríkisins frá atvinnulífinu skyldi háttað og náðist mikill árangur í því þrátt fyrir að út af standi t.d. nýtt virðisaukaskattsþrep sem er óásættanlegt. […]

Nú hefur komið nýtt útspil frá ríkisstjórninni í skattamálum þar sem hún hyggst á nokkrum dögum nánast samráðslaust keyra í gegn veigamiklar breytingar á skattareglum atvinnulífsins. Nokkrar þessar breytingar eru afar skaðlegar og draga þannig úr tekjuöflunarhæfni skattkerfisins til lengri tíma.“

Að lokum segir Vilhjálmur Egilsson, með leyfi frú forseta:

„Samtök atvinnulífsins geta vart annað en litið svo á að ríkisstjórnin sé að vísa þeim frá stöðugleikasáttmálanum verði þessi mál knúin fram í fullkominni ósátt. En hvort ríkisstjórnin vill eiga samstarf við Samtök atvinnulífsins eða ekki er í sjálfu sér aukaatriði miðað við það stóra hagsmunamál að starfsskilyrði atvinnulífsins verði með þeim hætti að Íslendingar komist út úr kreppunni á næsta ári en þurfi ekki að búa við hana til margra ára.“

Frú forseti. Alþýðusamband Íslands gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir þetta vinnulag og það samráðsleysi sem blasir við okkur. Mig langar að taka niður í orð Gylfa Arnbjörnssonar sem komu fram á mbl.is, með leyfi frú forseta:

„Nú hefur komið í ljós, að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafa. […] Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga — slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratugalanga hefði fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðugleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám …,“ segir Gylfi.

Frú forseti. Okkur hlýtur öllum að vera það ljóst í ljósi orða þessara aðila sem skipta svo miklu máli þegar kemur að þjóðarsátt og uppbyggingu íslensks atvinnulífs til lengri tíma litið að ríkisstjórnin teflir með þessu framferði sínu hér þeirri uppbyggingu sem við mörg viljum sjá í íslensku samfélagi í hættu, og það einfaldlega með samráðsleysi, samráðsleysi og aftur samráðsleysi. (Fjmrh.: Já?) Ég heyri að hæstv. fjármálaráðherra segir já við því, enda er það rétt, samráðsleysi við okkur í stjórnarandstöðu hefur verið algert og samráðsleysi við helstu hagsmunaaðila á vinnumarkaði er með þeim hætti að Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson hafa á síðustu dögum gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega. Er þetta einhver tilviljun? Nei, þetta er engin tilviljun, frú forseti.

Að lokum langar mig að nefna pistil frá 14.12. eftir Helga Magnússon, formann Samtaka iðnaðarins. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Stórtæk áform ríkisstjórnarinnar um mestu skattahækkanir síðustu áratuga brenna nú á okkur Íslendingum.

Ef við stóraukum skatta í kreppu þá lengjum við kreppuna og dýpkum hana. Það er mjög hættulegt að þyngja um of skattbyrði fólks og fyrirtækja á tímum síminnkandi ráðstöfunartekna. Keðjuverkunaráhrifin í ranga átt eru mikil og mér er til efs að stjórnvöld hafi metið þau til fulls í útreikningum sínum.“

Síðar segir, með leyfi frú forseta:

„Ég vil fremur sjá vaxtarstefnu og aukna verðmætasköpun sem skilar auknum tekjum í sameiginlega sjóði en ekki kyrkjandi ráðstafanir sem draga okkur niður sem þjóð í stað þess að stýra okkur upp úr kreppunni. Ég vil fremur sjá ný störf sem skila skatttekjum og draga úr kostnaði við atvinnuleysisbætur heldur en að fyrirtæki neyðist til að segja upp fólki vegna ósanngjarnrar og íþyngjandi skattlagningar.“

Að lokum segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, með leyfi frú forseta:

„Þá er brýnt að menn geri sér ljóst að boðaðar fyrirvaralausar skattkerfisbreytingar munu valda glundroða við skattaframkvæmd á næsta ári.

Fórnum ekki einföldu skattkerfi fyrir vanhugsaða hugmyndafræði.“

Það er þungt í manni eftir að hafa setið á fundum í efnahags- og skattanefnd í tugi klukkustunda undir því að heyra málflutning af þessu tagi þegar ríkisstjórnin segist í hinu orðinu hafa víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Hér er hlutunum gjörsamlega snúið á haus og ég held að ríkisstjórnin verði að taka sér tak, setjast niður með okkur í minni hlutanum sem höfum ekkert fengið að koma að þeirri hugmyndafræði sem hér er rætt um, og jafnframt að setjast niður með þeim aðilum sem gerðu stöðugleikasáttmálann, þ.e. Samtökum atvinnurekenda, sveitarfélögunum og launafólki sem gerðu samstarfssamning um stöðugleika við ríkisstjórnina sem ríkisstjórnin hefur þverbrotið. Þá vil ég segja sérstaklega í þeim efnum að þær skattálögur sem fjárlagafrumvarp næsta árs felur í sér eru u.þ.b. 50 milljarðar kr. á fyrirtæki og heimilin í landinu.

Mér er til efs, frú forseti, að heimilin og stórskuldug íslensk fyrirtæki séu undir það búin að greiða þennan dýra reikning. Í því samhengi, frú forseti, langar mig að vitna til mjög vandaðrar umsagnar Hagsmunasamtaka heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa m.a. talað fyrir leiðréttingu á lánum skuldugra íslenskra heimila. Það höfum við framsóknarmenn líka gert. Ríkisstjórnin hefur á undangengnum mánuðum beitt sér gegn því að sú hugmyndafræði næði í gegn. Við höfum talað fyrir því að það væri svigrúm til að koma til móts við skuldug íslensk heimili, og hvað kemur nú á daginn? Arion banki býður íslenskum almenningi skuldaleiðréttingu af húsnæðislánum sínum vegna þess, eins og við framsóknarmenn sögðum allan tímann, að það var og er svigrúm til að koma til móts við skuldug íslensk heimili. Maður veltir því í alvörunni fyrir sér hver framtíðarsýn stjórnvalda sé gagnvart heimilunum í landinu.

Mig langar að grípa niður í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem talað er um að þau verðlagsáhrif sem skattahækkanir ríkisstjórnarinnar muni hafa á skuldir íslenskra heimila á næsta ári muni hækka skuldir heimilanna um 11.900 millj. kr. Er það nú ekki á bætandi, frú forseti, þar sem íslensk heimili eru ein þau skuldugustu í heiminum.

Mig langar að vitna í þessa umsögn, með leyfi frú forseta:

„Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna að nærri helmingur heimila beri ekki auknar álögur vegna verulegrar kaupmáttarskerðingar og gríðarlegra hækkana á höfuðstól skulda. Hagsmunasamtök heimilanna hafa fullan skilning á aukinni tekjuöflunarþörf ríkisins í þessari stöðu en það er algjört forgangsverkefni að rjúfa bein tengsl skatta og verðlagsbreytinga við þróun höfuðstólshækkana lána heimilanna vegna áhrifa á verðbætur.

Allir þeir þættir sem fjallað er um munu með beinum eða óbeinum hætti leiða til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna og koma þannig af tvöföldum þunga við heimili landsins, bæði til skerðingar á kaupmætti og leiða til hækkana á lánum heimilanna, sem er ólíðandi fyrir heimilin og til verulegs tjóns fyrir hagkerfið í heild.“

Áfram segir, frú forseti:

„Það er skoðun Hagsmunasamtaka heimilanna að það sem hagkerfið þarf sé aukin innanlandseftirspurn. Allar tillögur ríkisstjórnarinnar virðast miða að því að draga úr þessari eftirspurn. Sjá samtökin fyrir sér að samdrætti fylgi aukinn samdráttur þar sem minni innanlandseftirspurn dregur úr veltu fyrirtækja og leiðir af sér fækkun starfa. Hvort tveggja veldur minni skatttekjum fyrir ríki og sveitarfélög, þessi hringur endurtekur sig svo lengi sem innanlandseftirspurnin dregst saman.“

Þetta eru eðlilegar áhyggjur sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa af þeim áformum sem ríkisstjórnin leggur hér upp í með tugmilljörðum í aukna skatta og álögur á heimili og fyrirtæki.

Við höfum bent á leiðir sem við vildum skoða að fara sem aðrir stjórnmálaflokkar hafa einnig bent á, eins og að skoða hvort ekki beri að skattleggja inngreiðslu séreignarsparnaðar og lækka þannig álögurnar með einhverjum hætti á heimilin og fyrirtækin, lækka þann mikla reikning upp á 50 milljarða kr. sem blasir við þessum aðilum á næsta ári. Ég vek athygli á því í þessu samhengi að vextir af Icesave-samningunum eru ríflega 40 milljarðar kr. þegar við tökum heildarsamhengi hlutanna til skoðunar. Ekki er því óeðlilegt að við á hv. Alþingi viljum skoða alla möguleika þess hvernig unnt sé að íslensk þjóð komi sem hagstæðast út úr þeim samningaviðræðum þar sem samninganefndir ríkisstjórnarinnar hafa því miður ekki náð tilhlýðilegum árangri. Okkur í stjórnarandstöðunni hefur algjörlega verið haldið utan við þær viðræður sem þar hafa farið fram.

Ég vil líka með skattkerfisbreytingum horfa til þess að við myndum gegnsætt, einfalt og réttlátt skattkerfi. Hvaða réttlæti er í því ef áform ríkisstjórnarinnar ganga fram að hjón sem búa í sömu götu, búa í húsum hlið við hlið og hafa nákvæmlega sömu tekjur, að önnur hjónin þurfi að greiða hærri skatt en hin hjónin, fólk sem býr hlið við hlið? Það er allt vegna þess að á öðru heimilinu er karlmaðurinn heimavinnandi og konan með ágætar tekjur en á heimilinu við hliðina eru báðir aðilarnir útivinnandi og millitekjufólk. Nei, þá fara þau hjón verr út úr skattkerfinu þó að þau séu með nákvæmlega sömu tekjur þar sem einungis annar aðilinn er úti á vinnumarkaðnum.

Hvers lags réttlæti er í þessu? Er þetta hin norræna félagshyggjustjórn sem gumar sig alltaf af velferðinni og réttlætinu? Það er ekkert réttlæti að hjón með sams konar tekjur séu meðhöndluð ólíkt af skattinum, það er ekkert réttlæti í því. Það eina sem við förum fram á í þessari umræðu er að vera höfð með í ráðum. Við útilokum ekkert að koma til móts við ríkisstjórnina í þeim efnum, að auka skatttekjur með einhverjum hætti, en að umbylta skattkerfinu á einungis nokkrum dögum með ófyrirséðum afleiðingum er Alþingi Íslendinga ekki samboðið og ekki íslensku þjóðinni. Við þurfum að innleiða vinnubrögð á hv. Alþingi þannig að þinginu sé sýndur einhver sómi. Það eru 13 eða 14 mánuðir síðan efnahagshrunið átti sér stað og það að fá skattbreytingatillögur ríkisstjórnarinnar örfáum dögum fyrir áramótin er náttúrlega ekki viðunandi. Það er ekki boðlegt gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni og það er ekki boðlegt gagnvart þeim aðilum sem hafa reynt að semja við ríkisstjórnina á undangengnum mánuðum eins og aðilar vinnumarkaðarins sem hafa því miður verið sviknir um það samráð sem þeim var lofað.

Frú forseti. Eins og ég segi fyndist mér það vel koma til greina — reyndar hefur bara gefist of lítill tími til að fara heildstætt yfir þessi mál — að við sammæltumst hér um þriggja ára áætlun um tekjur ríkissjóðs sem væri þá sambland af því að nýta á hverju ári eða dreifa á þrjú ár þeim tekjum sem gætu komið af skattlagningu á inngreiðslu séreignarsparnaðar og einhverra annarra skattahækkana. Ríkisstjórnin hefur enga tilraun gert til að nálgast okkur í stjórnarandstöðunni til að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þessi vinnubrögð eru óásættanleg. Í Reykjavíkurborg, þar sem meiri hluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er, get ég ekki betur séð en að það sé ágætt samstarf á milli meiri hluta og minni hluta, til að mynda þegar kemur að fjárhagsáætlunargerð. (GuðbH: Betri minni hluti.) Í mörgum öðrum sveitarfélögum vinna meiri hlutar og minni hlutar sameiginlega að fjárhagsáætlunargerð og þar ná menn einhverri niðurstöðu.

Nei, hér skal meirihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ráða þessu ein, skítt með það sem stjórnarandstaðan segir hér, hvað þá Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands eða Samtök iðnaðarins. Er það nokkuð undarlegt þótt það sé farið að fjara undan þessari ríkisstjórn? Ríkisstjórn sem viðhefur vinnubrögð af þessu tagi verður aldrei langlíf og af skrifum aðila vinnumarkaðarins sýnist mér að framtíðarsátt á innlendum vinnumarkaði sé ógnað með þessu framferði ríkisstjórnarinnar. Því segi ég enn og aftur: Þetta háttalag og þessar starfsaðferðir eru aðför að innviðum íslensks samfélags á þeim tímum þar sem við höfum aldrei, hæstv. heilbrigðisráðherra, þurft eins mikið á samvinnu að halda í íslensku samfélagi, hvort sem það er í þessum sal eða á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin getur haldið áfram að vera í sínum draumaheimi, í sínu einræði og fara sínu fram alveg sama hvað tautar og raular. En staðreyndirnar tala sínu máli. Aðilar vinnumarkaðarins hafa megnustu óbeit á því hvernig ríkisstjórnin hefur hagað störfum sínum að undanförnu og ríkisstjórnin verður að gera svo vel að fara að taka sér tak og fara að hlusta á fólkið í landinu.

Að lokum bendi ég á þann regingalla sem mér finnst vera, sem er reyndar ákveðin málamiðlun hjá aðilum vinnumarkaðarins, þessa miklu hækkun á tryggingagjaldinu sem m.a. hefur það í för með sér að íslensk sveitarfélög þurfa að greiða 2 milljarða aukalega til ríkissjóðs vegna þeirrar hækkunar, sveitarfélög sem mörg hver eru að reyna að koma í gegn fjárhagsáætlun. Oftar en ekki voru meiri hlutinn og minni hlutinn að vinna að því saman en nú er ljóst að með því að hækka tryggingagjaldið þurfa sveitarfélögin að greiða 2 milljarða aukalega. Mér heyrðist á hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fjárlaganefndarmanni í dag að hann teldi sig hafa vissu fyrir því að fjármálaráðherra hefði lofað að koma til móts við þennan kostnað sem sveitarfélögin yrðu fyrir.

Nú sé ég að hv. þingmaður er í salnum og hann má gefa mér smávink ef þetta er rétt eftir haft. Og svo er rétt. Þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Á að bæta sveitarfélögunum sem mörg hver berjast í bökkum, geta varla haldið úti skólaþjónustu, grunnþjónustu í sveitarfélögum sínum, þetta tekjutap líkt og hæstv. fjármálaráðherra hefur áður gefið í skyn? 8,6% tryggingagjald er gríðarlega há skattlagning á íslenskt atvinnulíf. Ef við horfum á stöðu margra millistórra fyrirtækja í dag, já, og þar sem vinnur fjöldi fólks, er verið að leggja aukalega gríðarlegar álögur á atvinnulífið í landinu á mjög erfiðum tímum. Þess vegna hefur mér dottið í hug, án þess að sú umræða hafi verið leidd til lykta, hvort mögulega mætti lækka þetta tryggingagjald með því að nota hluta af skattlagningu inngreiðslu séreignarlífeyrissparnaðarins til að íslenskt atvinnulíf geti veitt fleiri Íslendingum störf á næsta ári. Það er spáð að atvinnuleysi nái hámarki á næsta ári, 10,6%, sem er náttúrlega allt of mikið atvinnuleysi. Við verðum, frú forseti, að gera allt til að stuðla að sókn á íslenskum vinnumarkaði til að fjölga störfunum í þessu landi. Ef það verður ekki gert er hætta á að fólk leiti annað, til annarra landa rétt eins og þetta ár hefur sýnt okkur þar sem fjöldinn allur af Íslendingum hefur flutt burtu, sérstaklega til Norðurlandanna til að starfa þar. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta.

Frú forseti. Mig langar líka að ræða um bensíngjaldið sem verið er að hækka enn eina ferðina og hvenær verði komið nóg í þeim efnum. Á landsbyggðinni þar sem ég þekki sérstaklega til er bíllinn einfaldlega fætur fólks. Fólk þarf að fara langar vegalengdir og er upp á samgöngur komið. Þar eru ekki almenningssamgöngur og þar þarf fólk til sjávar og sveita að reiða sig á einkabílinn. Það er enn og aftur seilst í vasa þessa fólks með því að hækka olíuna og bensínið. Einhvers staðar liggja þessi mörk og í raun og veru er þessi hækkun ekkert annað en skattur, m.a. flutningsskattur á landsbyggðina, og það er gaman að horfa framan í hv. þm. Guðbjart Hannesson sem hefur í undangengnum kosningum talað fyrir því að lækka þennan kostnað. Hér er hins vegar beinlínis verið að hækka eldsneytisverð á heimilin, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður á landsbyggðinni. Það er því eðlilegt að spurt sé, og það væri ágætt ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson gæti svarað því, hvar mörkin liggi. Hvar á bensínlítrinn að enda? Í 200 kr., 250 kr., 300 kr.? Hvar endar þetta? (GuðbH: Hann er kominn langt …) Við verðum, frú forseti, að fara að setjast niður og horfa á heildarsamhengi hlutanna, hvernig þessar skattahækkanir koma út fyrir heimilin í landinu.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um daginn og fékk ekki svar við því hvort þeir hefðu gert úttekt á því hvort íslensk heimili gætu staðið undir öllum þessum hækkunum á sköttum og gjöldum sem nú eru í sigtinu. Mér er til efs að almennt séð verði það hægt. Þetta eru slíkar ofurhækkanir ofan á mjög erfitt landslag sem blasir við okkur hér.

Að allra síðustu, frú forseti, vek ég athygli á því aftur að hér er að öllu óbreyttu verið að kasta fyrir róða mjög einföldu kerfi þar sem hægt hefði verið að hækka persónuafsláttinn allverulega og skattprósentuna og ná þannig svipuðum árangri og það kerfi sem hér er lagt til að taki gildi í miklum flýti. Mig langar að grípa niður í umsögn ríkisskattstjóra um skattalegu hliðina á fjárlagafrumvarpinu sem er tekjuhliðin, með leyfi frú forseta:

„Ríkisskattstjóri vekur athygli á að upptaka á nýju virðisaukaskattsþrepi, 14%, eykur flækjustigið við framkvæmd laganna og eykur hættu á mistökum við tekjuskráningu, fyrst og fremst við innslátt í sjóðsvél. Þá aukast jafnframt möguleikar á undanskotum vegna freistingar til að færa veltu í lægsta þrep virðisaukaskatts. Allt eftirlit verður því erfiðara en ella.“

Eins og ég minntist á áðan verður kostnaðarauki ríkissjóðs af þessari breytingu sem á að gera í miklum flýti 150–200 millj. kr.

Mig langar líka að vitna í umsögn skattstjóra Suðurlandsumdæmis þar sem segir m.a., með leyfi frú forseta:

„Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar séu á virðisaukaskattskerfinu þurfi aðlögun á tölvukerfum og kerfishlutum skattsins, og að útbúa þurfi ný framtalseyðublöð. Einnig að leggja þurfi í auglýsinga- og kynningarkostnað við kerfisbreytinguna.

Bent er á að skattkerfið verður nokkuð flóknara eftir breytinguna en nú og að vinna við skattframkvæmd og eftirlit verði eitthvað umfangsmeiri en nú er.“

Að lokum segir Steinþór Haraldsson, skattstjóri Suðurlandsumdæmis:

„Þeim fylgir veruleg hætta á skattundandrætti og ýmis óvissa fyrir gjaldendur, sem og erfiðleikar fyrir þá sem gæta þurfa reglna á vettvangi skattamálanna.“

Frú forseti. Hér hafa okkar færustu sérfræðingar, skattstjórar um landið, ríkisskattstjóri, bent á að það frumvarp sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, þ.e. tekjuöflun þess, um að gera miklar breytingar á skattkerfinu muni kosta íslenska skattborgara 150–200 millj. kr. Samfélagslegur kostnaður fyrirtækja og heimilanna mun skipta milljörðum króna, fullyrði ég, þær kerfisbreytingar sem hér um ræðir og þau áhrif sem minni innkoma í ríkissjóð mun hafa vegna kerfisbreytingarinnar. Nú getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra sé ósammála þessu, en fram hefur komið hjá þeim aðilum sem hafa komið á fund efnahags- og skattanefndar að þetta sé einfaldlega staðreynd málsins. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Geta menn ekki sæst á að falla frá þessari breytingu, að hún verði unnin betur fram eftir vormánuðum í tengslum við helstu sérfræðinga í þessum efnum og að við náum þeim áformum sem ríkisstjórnin ætlast til í núverandi skattkerfi? Er engin leið að hæstv. fjármálaráðherra geti fallist á það í ljósi þess hrikalega litla tíma sem við höfum til að innleiða þessar breytingar?

Mig langar að lokum að vitna aftur til þess ágæta manns, Steinþórs Haraldssonar, sem er skattstjóri Suðurlandsumdæmis, þar sem hann segir um þrepaskiptan tekjuskatt og hækkun persónuafsláttar, með leyfi frú forseta:

„Hin fjögur skattþrep sem hér eru boðuð munu hafa í för með sér alls kyns flækjur og skattframkvæmdin verður dýr í rekstri.“

Síðan segir:

„Eftirákröfur og umsýsla þeim fylgjandi eru þreytandi og á margan hátt jafnvel mannskemmandi og alls ekki í anda þess velferðarkerfis sem hér tjáðist ríkja.“

Frú forseti. Þetta hefur verið nokkuð hörð ræða, ég skal játa það. Það er búið að vera gríðarlegt álag í efnahags- og skattanefnd og það hefur verið rauður þráður hjá þeim aðilum sem hafa veitt umsögn um þetta mál að hér sé verið að gera kerfið ógagnsærra og flóknara, sem muni að öllum líkindum skila ríkissjóði minni tekjum en ella og muni kosta skattgreiðendur gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði við að innleiða. (Forseti hringir.) Þá er ósköp eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra sé spurður nokkurra spurninga hér (Forseti hringir.) í þessari umræðu þegar maður fjallar um tekjuhlið fjárlagafrumvarps ársins 2010.



[20:40]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður talaði sem mest um nauðsyn samstarfs í ræðu sinni áðan og lagði gott inn á þann reikning varð mér hugsað til þess sem einu sinni var á orði haft, að þeir segðu mest af Ólafi konungi sem aldrei hefðu heyrt hann eða séð. (BJJ: Nohh!)

Í öðru lagi talaði hv. þingmaður um að það væri bagalegt að þessi frumvörp kæmu seint fyrir þingið og til nefnda. Það er að sönnu rétt en þau hefðu getað verið 7–10 dögum fyrr á ferðinni ef stjórnarandstaðan hefði ekki þurft að tala svona mikið í einu ónefndu máli. (Gripið fram í.) Þau lágu hér og biðu þess að komast til 1. umr. og nefnda, sum í 10 daga, sum í viku.

Það er ekki þannig að aðilar vinnumarkaðarins séu ósáttir við allt í þessum breytingum þó að þeir gagnrýni sumt eins og gengur. Alþýðusamband Íslands fagnar sérstaklega upptöku þrepaskipts tekjuskatts. Samtök atvinnulífsins hafa verið höfð með í ráðum og eru enn í samráði um breytingar á ýmsum atriðum sem varða fyrirtækin sérstaklega og aðilar stöðugleikasáttmálans hafa haft aðgang að miklum upplýsingum um þau áform sem í vændum eru í skattkerfinu allt frá því í vor. En að lokum verða ríkisstjórn, meiri hluti á Alþingi og Alþingi allt að bera ábyrgð á hinum pólitísku útfærslum og áherslum í skattkerfinu og um þær verða náttúrlega aldrei allir á eitt sáttir. Þannig er það auðvitað.

Hv. þingmaður talaði mikið um nauðsyn einfaldleika og nefndi líka réttlæti í hinu orðinu. Einfaldast er auðvitað að leggja einn skatt í einni prósentu á allt landið og miðin, en er það réttlæti? (Gripið fram í.) Er það réttlæti í hugum framsóknarmanna að lágtekjumaðurinn og hátekjumaðurinn greiði sömu skattprósentuna? (Gripið fram í.) Við erum að reyna að samþætta mörg markmið. Eitt af þeim er að skattkerfið sé ekki flóknara en það þarf að vera til þess hins vegar að ná fram þeim tekjudreifingar- og skattdreifingarmarkmiðum og því réttlæti sem við stefnum líka að. Þetta reynum við að láta mætast í vel hugsuðum og vel útfærðum tillögum og ég tel að það takist bærilega hér.

Af því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af endurreisninni spyr ég hann (Forseti hringir.) á móti hvort hann gleðjist þá ekki yfir því sem vel gengur.



[20:43]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég gleðst svo sannarlega yfir því ef hlutirnir ganga vel og ég hef á vettvangi Alþingis oft bent á hluti sem vel er staðið að. Ég get nefnt sem dæmi að ég held að hv. varaformaður Vinstri grænna kvarti ekki mikið yfir þeim ræðum sem ég hef viðhaft á þingi um menntamálin og margt það góða sem þar hefur verið gert, en ég kalla í fullri hreinskilni eftir — ég held að allir hljóti að sjá það sem á horfa og hlusta að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að hafa neitt samráð við stjórnarandstöðuna í þingi þegar kemur að breytingum á skattkerfinu. Hún hefur ekki gert minnstu tilraun til þess. Þess vegna hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að gjöra þá svo vel að hætta að tala um samráð og samráðspólitík. Það að 34 þingmenn gegn 29 í minni hlutanum ætli að ráða öllu og valta yfir allt er ekki mjög lýðræðislegt og ég hef bent á að við skulum koma okkur upp úr þeim sandkassa sem vinnubrögðin á Alþingi eru einfaldlega í þegar við horfum til þess að á sviði sveitarstjórna víðs vegar um landið vinna oftar en ekki meiri hluti og minni hluti þessa dagana sameiginlega að erfiðum úrlausnarverkefnum er snerta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að koma því inn í verklagið á Alþingi Íslendinga?

Hæstv. ráðherra getur örugglega vottað það að á sumarmánuðum buðum við fram aðstoð okkar við að móta nýtt fjárlagafrumvarp og koma að breytingum á skattkerfinu. Hæstv. ráðherra kom upp í andsvar við mig og sagði einfaldlega að það stæði ekki til að viðhafa slíkt. (Forseti hringir.) Og við stöndum enn í sömu sporunum.



[20:45]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við þessa lýsingu hv. þingmanns á veruleikanum. Ég kannast ekki við að við höfum tekið illa í eða hafnað samstarfi við stjórnarandstöðuna ef það hefur verið í boði. Það þarf tvo til. Der skal to til, segir danskurinn og það gildir hér líka. Stjórnarandstaðan verður líka að velja sér baráttuaðferðir og taktík.

Ég spyr: Hafa menn upplifað málflutning stjórnarandstöðunnar hér undanfarnar vikur og það hvernig hún hefur staðið að málum sem sérstök samstarfstilboð? Hefur það verið fólgið í framgöngu stjórnarandstöðunnar? Það er ekki nóg að segja það í framhjáhlaupi á milli þess sem lagst er gegn öllu og hamast gegn öllu. Það hefur því miður verið aðalframlag stjórnarandstöðunnar að undanförnu og ég leyfi mér að gagnrýna það á móti. Hv. þingmaður má að sjálfsögðu kvarta yfir því að hann sé ekki svo gott sem tekinn inn í ríkisstjórnina en það gerist ekki nema menn (Forseti hringir.) a.m.k. verðskuldi það og hafi sýnt sig vera samstarfshæfa og í færum til þess að axla ábyrgð.



[20:46]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki í hvað hæstv. ráðherra er að vísa, hvort hann er að vísa í þann stuðning sem Framsóknarflokkurinn veitti minnihlutastjórn hans frá febrúarmánuði til kosninga. Ég hef ekki orðið var við þau heilindi sem stjórnarflokkarnir þá sýndu Framsóknarflokknum, m.a. í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kannski væri efni í umræðu hér að fara yfir hvað menn ræddu þegar sú minnihlutastjórn var mynduð.

Það hefur ekkert staðið á því. Ég stóð hér í ræðupúlti í sumar og spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort við ættum ekki að taka fjárlagafrumvarpið fyrir og vinna í því á sumarmánuðum í ljósi einkennilegs ástands í íslensku samfélagi en hæstv. fjármálaráðherra neitaði því. (Forseti hringir.) Við höfum oftsinnis boðið fram samráð og stuðning en (Forseti hringir.) ekkert hefur verið á okkur hlustað. Hæstv. fjármálaráðherra þarf greinilega að fara að hlusta betur.



[20:47]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi til mín fyrirspurn í upphafi máls síns. Honum kom á óvart að ég hefði komið með yfirlýsingu um að aldrei hefði verið betur unnið að fjárlagafrumvarpi en núna eða a.m.k. hefði það verið með betra móti. Hann sá ástæðu til að vefengja þetta og kannski hefur hann upplýsingar um það frá sínum fulltrúa í fjárlaganefnd.

Það sem ég átti við, og skýrði m.a. í ræðu minni hér í byrjun, er að það var óvenjulegt á þessu ári að unnin var mikil undirbúningsvinna og gerð skýrsla um ríkisfjármálin og jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Þessi skýrsla var lögð fram á Alþingi, hún var rædd og skapaði raunar forsendur fyrir fjárlagafrumvarpið. Það er í fyrsta skipti sem það er gert, a.m.k. í mjög langan tíma. Þessu til viðbótar var haft mjög víðtækt samstarf í sambandi við stöðugleikasáttmálann og mikil vinna lögð í það. Mér er líka til efs að slík vinna hafi átt sér stað með svipuðum hætti, a.m.k. á síðastliðnum árum. Það var þetta sem ég vísaði til þegar ég talaði um að hér hafi verið betur unnið.

Það er rétt sem þingmaðurinn segir að sum af þeim frumvörpum sem hér komu fram varðandi skatttekjurnar komu seint fram og það hefur m.a. verið skýrt af hverju, þar sem hér varð löng umræða um annað mál. Varðandi afgreiðslu fjárlaganefndar er það rétt hjá hv. þingmanni að við tókum málið til afgreiðslu tvisvar sinnum. Það er alvanalegt og það hefur verið staðfest af þeim sem hafa lengri reynslu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Birkir Jón Jónsson geti staðfest að menn hafa stundum og nokkuð oft komið með tekjuhluta fjárlagafrumvarps beint inn í 3. umr. Það höfðum við ætlað okkur að gera að þessu sinni til þess að flýta fyrir en þurftum síðan ekki á því að halda þar sem umsagnir frá efnahags- og skattanefnd lágu fyrir. Málið var því afgreitt með eðlilegum hætti til 2. umr með (Forseti hringir.) þeim tekjuáætlunum sem lágu fyrir miðað við þau frumvörp sem liggja fyrir.



[20:49]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði einmitt í ræðu minni hér áðan að umsögn fjárlaganefndar er varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010 hefði ekki verið tilbúin á þessum degi. Það var ekki búið að taka á móti öllum þeim fulltrúum sem við óskuðum eftir að kæmu fyrir nefndina. Þeirri umfjöllun var ekki lokið þannig að hv. formaður fjárlaganefndar getur ekki fullyrt í fjölmiðlum að afgreiðsla málsins — það sem efnahags- og skattanefnd leggur fram sem sitt álit er að sjálfsögðu hluti af afgreiðslu málsins — hafi verið til fyrirmyndar. Hún var algjörlega ófullnægjandi.

Í raun og veru bíður okkar vinna milli 2. og 3. umr. þegar við höfum séð hverjar endanlegar tillögur verða er snerta breytingar á skattkerfinu, sem er tekjuöflun ríkisins. Það liggur ekki fyrir. Þessi vinnubrögð eru dæmalaus að þessu leyti. Við erum reyndar vön því í efnahags- og skattanefnd að mál séu rifin þaðan út, eins og Icesave-málið, þrátt fyrir að beiðni liggi fyrir um fleiri gesti á fundi nefndarinnar. Þetta eru hin nýju vinnubrögð hér á Alþingi Íslendinga.

Hv. þingmaður talar um þriggja ára áætlun í ríkisfjármálum en árin 2005, 2006 og 2007 lá alltaf fyrir fjögurra ára áætlun, langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Það er því ekkert nýtt í þeim efnum. Vinnulag fjárlaganefndar núna hefur því miður ekki verið nægilega gott og ég bið hv. formann fjárlaganefndar að sýna okkur nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd — sem sannarlega komum því á framfæri að það álit sem við hefðum sent frá okkur væri ekki fullnægjandi í ljósi þess að okkur vantaði frekari upplýsingar, þyrftum að heyra í fólki og hafa samráð í samfélaginu — samráð sem ríkisstjórnin talar svo mikið um. Þau vinnubrögð voru einfaldlega ekki fullnægjandi.



[20:52]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum karpað um hvað sé viðunandi að mati hv. þingmanns. Þessu fylgdi að það var ákveðið að taka málið til frekari umræðu á milli 2. og 3. umr. Slíkt er ekkert einsdæmi og það hefur heldur ekki verið talið til galla í fjárlagavinnu að menn þyrftu að vinna áfram á milli 2. og 3. umr.

Það sem stendur upp á okkur og skiptir miklu máli að við náum árangri í er að við höfum búið við það á undanförnum tíu árum — hv. þingmaður upplýsti að hann hefði verið sjö ár á þingi og sjálfsagt í fjárlaganefnd töluvert mikið af tímanum og á tímabili formaður fjárlaganefndar — að framúrakstur á þessu tímabili er um u.þ.b. 100 milljarðar kr. Varla hefur það verið vegna mikillar og góðrar fjárlagavinnu eða eftirlits varðandi fjárlög. Við skulum meta að einhverjum tíma liðnum hverjir hafi náð bestum árangri varðandi þessi fjárlagamál og hvort fullyrðing mín standist til lengri tíma eður ei.



[20:53]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að skoða þetta mál frá mörgum hliðum. Ég vil minna hv. þingmann á að frá aldamótum til ársins 2007 námu greiðslur úr ríkissjóði í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, B-deild, hátt í 100 millj. kr. Fjármunirnir voru því svo sannarlega nýttir til þess að minnka skuldir hins opinbera. Mig minnir að árið 2007 hafi ríkissjóður verið orðinn hér um bil skuldlaus. Síðan tók Samfylkingin við og jók umsvifin milli fjárlaga 2007 og 2008 um 20%, sem hafði ekki sést í mörg ár. (Gripið fram í.) Á meðan það gerðist tifuðu Icesave-reikningarnir, þeir tifuðu líka árið 2008 og eru enn að tifa. Samfylkingin er búin að vera við völd allan þennan tíma og hver er staðreyndin? Vaxtagjöldin á ári bara af Icesave-reikningunum verða 40 og eitthvað milljarðar króna. (Gripið fram í.) Þannig hefur Samfylkingin skilið við og hún er enn við völd. (Gripið fram í.)



[20:54]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágætis ræðu og tilfinningaþrungna. Þó að hv. þingmaður sé mun yngri að árum en ég hefur hann mun meiri þingreynslu sem nemur bráðum heilum tugnum, eða sjö árum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú ræðum við fjárlagafrumvarpið og við höfum setið saman í efnahags- og skattanefnd, ég og hv. þingmaður, og tekið á móti fjölda gesta, setið fram á kvöld og rauða nótt yfir helgar og annað slíkt til þess að hlusta á vitnisburð hagsmunaaðila í þjóðfélaginu — raunverulega úr öllum hópum, allt frá öryrkjum til atvinnurekenda og frá ríkisstofnunum til ég veit ekki hvers — og ég held að það sé komin ágætis mynd á þetta. Það er verið að umbylta skattkerfinu, hvort heldur sem er virðisaukaskattskerfinu eða tekjuskattskerfi fyrirtækja og einstaklinga, og ljóst er að gríðarlega mikill kostnaður mun fylgja því. Það sem mér finnst svolítið merkilegt er að alls þess kostnaðar sem er fyrirséður vegna þessara kerfisbreytinga sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Er hefðbundið að menn breyti lögum á sama tíma og fjárlagafrumvarp er í smíðum og menn sleppi risastórum kostnaðarliðum? Er þetta hefðbundið og telur þingmaðurinn þetta eðlilegt?



[20:56]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, þetta er ekki hefðbundið og kannski merki um þann brag sem er á þessu máli öllu, þann ofboðslega hraða sem einkennir það. Það þarf að drífa þetta í gegn. Þetta var allt gert í mikilli tímaþröng hjá framkvæmdarvaldinu og þess sér stað í því að mörg útgjöld sem hv. þingmaður nefndi, sem snerta skipulagsbreytingar á þessu kerfi, koma ekki fyrir í útgjaldaliðum fjárlagafrumvarpsins. Það þarf greinilega að fara vel yfir það á milli 2. og 3. umr.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að í raun og veru er gert ráð fyrir í forsendum skattinnheimtunnar að við búum þar við sams konar kerfi, þ.e. sams konar skil og að undanskotin í ljósi þess að flækjustigið verður meira og mun ekkert minnka — það er þvert á það sem aðilar eins og ríkisskattstjóri og skattstjórar um landið hafa bent á að muni gerast eða alla vega að veruleg hætta sé á. Bæði er því að mínu mati verið að vanmeta útgjaldahlið frumvarpsins og ofmeta tekjuhliðina að mörgu leyti. Því tel ég að við þurfum að fara miklu betur yfir þetta mál á milli 2. og 3. umr.

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan eru 14 mánuðir liðnir síðan efnahagshrunið varð og þá var ljóst að ríkisstjórnin þyrfti að fara í breytingar, m.a. á skattaöflun ríkissjóðs. Að fá frumvarp fram um mánaðamótin nóvember/desember og að efnahags- og skattanefnd eigi að afgreiða þetta mál á nokkrum virkum dögum. — Eins og hv. þingmaður hefur bent á höfum við verið um helgar og alla daga frá morgni til kvölds að taka á móti tugum aðila. Þeir hafa varað okkur við því að verklag sem þetta geti haft í för með sér mistök og ég hélt að við værum búin að gera nóg af mistökum hér á Alþingi á síðustu mánuðum undir mikilli tímapressu.



[20:58]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn nema ég ætla að fara frá hinu opinbera og kostnaðinum sem fellur á það og líta til fyrirtækjanna. Við fengum á fund til okkar félagsskap sem heitir Félag viðurkenndra bókara, eða eitthvað á þá leið, og þar voru tvær mætar konur sem bentu á að launakerfi fyrirtækja þyrfti að uppfæra í kjölfar þessarar innleiðingar á þrepaskatti. Þær mátu það svo að uppfærslan á slíku kerfi mundi kosta u.þ.b. 100 þús. kr. á hvert fyrirtæki sem er með tölvukeyrt launabókhald. Það er einfalt að sjá fyrir sér að ef u.þ.b. 2.000 fyrirtæki eru með svoleiðis launabókhald er kostnaðurinn bara við uppfærslu á tölvukerfinu í kringum 200 milljónir. (Forseti hringir.) Það er á engan hátt gerð grein fyrir því í neinum greinargerðum með frumvarpinu (Forseti hringir.) hvaða kostnaður leggst á atvinnulífið. Telur hv. þingmaður að það sé eðlilegur (Forseti hringir.) framgangsmáti að leggja málið svona fram?



[21:00]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er ekki eðlilegur framgangsmáti og ef við horfum til þess tíðaranda eða þeirra skilyrða sem íslenskt atvinnulíf býr við í dag er þetta eitthvað sem íslenskt atvinnulíf má síst við. Þetta getur m.a. leitt til þess, áhrifin á flóknara kerfi, að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna verður að mörgu leyti mun erfiðara en ella og eins og ég benti á verður samfélagslegur kostnaður okkar af þessum breytingum gríðarlegur. Mér finnst allt of skarpt farið gagnvart þessum skattkerfisbreytingum. Ég hugsa að ríkisstjórninni eigi eftir að bregða á nýju ári þegar áhrifin af öllum þessum breytingum koma fram, þ.e. ef þær verða að veruleika. Ég er ansi hræddur um að þetta muni vega verulega að innviðum íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili, því að hér er verið að fara í gríðarlega miklar (Forseti hringir.) breytingar á of stuttum tíma. Það þarf mun meira samráð um þessar stóru breytingar.



[21:01]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Forsendur fyrir því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir árið 2010 er skýrsla fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, stöðugleikasáttmálinn sem gerður var í sumar við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög og það að verja kjör þeirra sem verst eru settir. Markmiðið er að ná efnahagslegum stöðugleika og honum verður ekki náð nema ríkisfjármálum verði komið á styrkan grundvöll. Alþingismenn, ráðuneyti og stofnanir hafa því haft skýrsluna til viðmiðunar í umfjöllun og vinnu við fjárlagafrumvarpið í hálft ár. Meginmarkmið frumvarpsins og útgangspunktar voru lagðir fram í sumar fyrir árin 2009–2013.

Við 2. umr. um fjárlagafrumvarp 2010 eru gerðar breytingar bæði á tekjum og útgjöldum. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar nema samtals tæpum 5 milljörðum kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. á Fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Tekjuáætlun er lækkuð um 10 milljarða en skatttekjur lækka nokkuð meira eða um tæplega 11 milljarða á rekstrargrunni en 15 milljarða á greiðslugrunni. Fjárlaganefnd vísaði til annarra fastanefnda þingsins þeim þáttum frumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Hv. mennta- og menningarmálanefnd gerði grein fyrir áliti sínu við fjárlaganefnd og kom fram í áliti meiri hluta nefndarinnar meðal annars, með leyfi forseta:

„Þegar draga þarf úr útgjöldum er augljóst að forgangsraða þarf verkefnum. Ekki verður um of áréttað mikilvægi þess að standa vörð um menntakerfið á öllum skólastigum í núverandi efnahagsástandi og þá er ljóst að eftirspurn í háskóla og framhaldsskóla eykst með auknu atvinnuleysi. Til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði stærra félagslegt vandamál er nauðsynlegt að auðvelda fólki að fara aftur í nám. Þegar hefur verið gripið til aðgerða í þá veru með því að breyta reglum um tekjuviðmiðun þeirra sem fara í nám aftur eftir hlé og með því hækka grunnframfærslu námslána með tilheyrandi millifærslu frá atvinnuleysistryggingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í frumvarpi til fjárlaga er ljóst að menntun er raðað framar menningu í forgangsröðun mennta- og menningarmálaráðuneytis og telur meiri hlutinn slíkt eðlilegt við þær aðstæður sem nú eru. Ekki má þó draga úr samfélagslegu og félagslegu mikilvægi menningar og áréttar meiri hlutinn að þær aðhaldsaðgerðir sem farið er í verði tímabundnar þannig að aukning verði til fjárlagaliða er varða menningu og listir um leið og svigrúm er til í ríkisfjármálum.“

Nefndin lagði á það áherslu að tryggt yrði að fjármagn fylgdi nemendum háskóla og framhaldsskóla og skólum yrði gert kleift að taka við fleiri nemendum. Gerðar eru tillögur nú við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins um breytingar sem auka svigrúm menntamálaráðuneytis til að mæta aukningu á nemendafjölda í framhaldsskóla. Í skýringum við breytingartillögurnar kemur m.a. fram að gerð er tillaga um framlag vegna aukinnar námsvirkni og fjölda nemenda í framhaldsskólum umfram forsendur fjárlaga 2009. Þær nemendatölur sem nú liggja fyrir gefa til kynna að þróun nemendafjölda á árinu 2010 verði með nokkuð öðrum hætti en áður. Þannig eru á milli 450 og 500 fleiri ársnemendur sem stunda nám í framhaldsskólum en reiknað var með. Þetta skýrist þó aðeins að hluta með fjölgun nýskráninga. Að stærstum hluta skýrist þessi þróun af breyttum aðstæðum í samfélaginu, nemendur stundi frekar nám í heimabyggð og samdráttur á vinnumarkaði leiðir til þess að mun minna er um að nemendur hverfi frá námi á 2., 3. eða 4. ári. Minni möguleiki er á vinnu við skóla og því eru nemendur síður í hlutanámi. Hér er því gerð tillaga um framlag vegna fjölgunar ársnemenda og að til þess verði varið 271,2 millj. kr.

Þá eru umtalsverðar fjárhæðir lagðar til viðbótar í símenntun og fjarkennslu, þar á meðal 70 millj. kr. til fullorðinsfræðslu. Við undirritun stöðugleikasáttmálans var staðfest samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um að fjárframlög til fullorðinsfræðslu yrðu aukin og að samið yrði um aðkomu opinbera vinnumarkaðarins að kerfinu. Þá er gerð tillaga um 20 millj. kr. framlag vegna meistaranáms í haf- og strandveiðistjórnun sem háskólasetur Vestfjarða býður upp á í samvinnu við Háskólann á Akureyri en framlagið var upphaflega hluti af mótvægisaðgerðum og átti að falla niður árið 2010. Um fleiri slík verkefni eru gerðar breytingartillögur en öll framlög falla niður vegna mótvægisaðgerða til að draga úr neikvæðum afleiðingum af tímabundnum samdrætti í aflamarki þorsks.

Keilir, miðstöð vísinda og fræða á Ásbrú, fyrrum varnarsvæði á Suðurnesjum, var einnig styrkt með mótvægisframlagi um rúmar 120 millj. árið 2008 og aftur árið 2009. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 32 millj. kr. til orku- og tæknifræðináms sem unnið er í samstarfi Keilis og Háskóla Íslands en sú breytingartillaga er lögð fram að Keilir fái auk þess 108 millj. eða 90% af framlagi ársins 2009 til frumgreinanáms og annarra vinnumarkaðsúrræða sem lúta að menntun. Jafnframt muni Keilir vinna í samvinnu með viðurkenndum háskólum eða með öðrum stofnunum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið að verkefnunum. Keilir gegnir lykilhlutverki í heildarþróunarverkefni Kadeco á Ásbrú. Keilir er fyrsta þróunarverkefni Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, og myndar grundvöll undir alla þróun á Ásbrú. Í stóru þróunarverkefni sem þessu gegnir sá grundvöllur sem vísinda- og rannsóknasamfélag skapar mikilvægu hlutverki. Samhliða því er hlutverk Keilis margþætt, svo sem að skapa grundvöll til nýtingar á íbúðarhúsnæði á Keflavíkurflugvelli. Segja má að íbúðareign ríkisins á svæðinu sé einn viðkvæmasti hlutinn í öllu þróunarverkefninu. Ástæðan er afleiðing þess að selja íbúðirnar á almennum markaði. Slíkt hefði haft í för með sér alvarlegar afleiðingar á fasteignaverði á Suðurnesjum og reyndar á höfuðborgarsvæðinu öllu. Því var nauðsynlegt að skapa nýja eftirspurn eftir íbúðareignum á svæðinu og það var gert m.a. með því að bjóða námsmönnum og fjölskyldum þeirra sem stunda nám, bæði við Keili og háskóla á höfuðborgarsvæðinu, hagstætt húsnæði til leigu. Með stofnun og starfsemi Keilis varð því til eftirspurn eftir húsnæði sem gerði það að verkum að ríkið gat selt fjölda eigna. Einnig skapar starfsemi Keilis grundvöll fyrir menntun og rannsóknir á þeim meginsviðum sem Kadeco leggur áherslu á við þróun og uppbyggingu svæðisins. Það er nauðsynleg forsenda að þekkingar- og rannsóknarmöguleikar séu til staðar m.a. til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi, annars vegar að skapa aðstæður til að vinna með þekkingu sem síðan þróast út í sprota- og nýsköpunarverkefni og hins vegar að skapa grundvöll fyrir þau fyrirtæki sem ákveða að byggja upp starfsemi sína á Ásbrú með því að mennta og þjálfa starfsfólk. Af þessum ástæðum er Keilir beintengdur markmiðum Kadeco um þróun Ásbrúar, byggðarinnar sem áður hýsti bandaríska hermenn og fjölskyldur þeirra og taldi um 5.000 íbúa um tíma þegar mest lét.

Virðulegi forseti. Breytingartillögur þær sem eru gerðar við frumvarpið á liðum sem heyra undir mennta- og menningarmál gera ráð fyrir hækkun framlaga að upphæð um 1.019 milljónir. Ég mun ekki fara yfir allar tillögurnar í ræðu minni en grein hefur verið gerð fyrir þeim í umræðunni í dag.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er þó lækkað um 200 millj. kr. frá forsendum frumvarpsins þar sem eiginfjárstaða lánasjóðsins er talin vera betri í árslok 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir. Afborganir námslána hafa skilað sér betur en búist var við og því þarf sjóðurinn ekki jafnhátt framlag úr A-hluta ríkissjóðs til að viðhalda eiginfjárstöðu sinni og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Liðurinn Kvikmyndamiðstöð Íslands er hækkaður um 60 millj. og þannig er dregið úr áformum frumvarpsins um niðurskurð frá fyrra ári. Á þskj. 391 er lögð fram breytingartillaga á heiðurslaunum listamanna. Þar er gert ráð fyrir að 29 listamenn fái 1.600 þús. kr. hver í heiðurslaun árið 2010. Launin voru 1.800 þús. kr. á árinu 2009.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til safnliða og ljóst að ekki er hægt að verða við nema litlum hluta beiðna um styrk. Vegna þessarar stöðu lagði meiri hluti hv. mennta- og menningarmálanefndar áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að menntun og menningariðkun barna og unglinga eða að framlögin skapi atvinnutækifæri og stuðli að nýsköpun eða verðmætasköpun. Í áliti meiri hluta hv. mennta- og menningarmálanefndar og í umræðum meðal allra nefndarmanna hefur komið fram samdóma álit um að nauðsynlegt sé að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga á safnliðum verði teknar til gagngerðrar endurskoðunar. Í þeirri endurskoðun mætti líta til hlutverks menningarsamninga við sveitarfélög og útvíkkun á hlutverki þeirra þannig að tryggja megi að tekið verði tillit til svæðisbundinna þarfa og auk þess verði eftirlit með nýtingu fjármuna auðveldað. Einnig mætti líta til verkefnisins Sóknaráætlun fyrir Ísland en liður í þeirri áætlun er m.a. að samþætta opinberar áætlanir og smíða m.a. áætlun til nýrrar sóknar í mennta- og menningarmálum, vísindum og nýsköpun, bæði fyrir landið í heild og einstaka svæði sérstaklega. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna, öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana þvert á ráðuneyti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því fyrr á þessu ári er fjallað um íslensk muna- og minjasöfn og meðferð á nýtingu á ríkisfé til safnanna. Í skýrslunni kemur fram það álit að móta þurfi skýra stefnu um muna- og minjavörslu, bæði fyrir landið í heild og einstaka landshluta. Taka þurfi afstöðu til hvaða safna- og sýningarstarfsemi ríkið á sjálft að annast og hvaða starfsemi einkaaðilar og sveitarfélög eigi að sjá um. Mikilvægt sé að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála. Þar þurfi að koma fram hvernig fénu verður varið til uppbyggingar, rekstrar og verkefna og að það nýtist á hagkvæman og skilvirkan hátt. Stefnumótunin verði til að auka fagleg gæði safna og til að styrkja stöðu þeirra og hlutverk í samfélaginu. Einnig er áhersla lögð á að einfalda styrkjakerfið og setja fastmótaðar reglur um það þannig að allir sitji við sama borð. Ríkisendurskoðun leggur til að gerðir verði skriflegir samningar við styrk þeirra og þeir skyldaðir til að skila greinargerð um nýtingu styrkja. Þar sé nauðsynlegt að auka eftirlit með styrkjum og samræma þá. Án slíks eftirlits verði tæpast ályktað með nokkurri vissu hvort opinberu fé til málaflokksins sé varið á hagkvæman, skilvirkan og markvissan hátt.

Um safnliðina alla var einnig töluverð umræða í hv. fjárlaganefnd, þ.e. framlög til einstakra verkefna í listum, til safna, til húsfriðunar og alls kyns verkefna. Eins og fram kom í ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, hefur verið rætt um að stofna starfshóp á vegum hv. fjárlaganefndar til að skoða þennan þátt sem og alla afgreiðslu á framlögum til safna, lista- og menningarmála hvers konar, húsfriðunar o.fl. og ræða þá um leið með hvaða hætti megi styrkja lögbundna sjóði sem eru starfandi og fjalla um styrkveitingar til einstakra málaflokka. Þarna þarf einnig að efla eftirlit með nýtingu fjárveitinga.

Meiri hluti hv. fjárlaganefndar telur að bæta þurfi enn frekar allan undirbúning við gerð fjárlaga, fjárlagaferlið í heild sem og að styrkja eftirlitshlutverk nefndarinnar og Alþingis. Skoða þarf fjárlög miðað við markmið og ákvörðun stjórnvalda hverju sinni og áætlana sem Alþingi hefur samþykkt. Stefnan þarf að vera skýr og mat þarf að vera á því hvar pólitískum markmiðum hafi verið náð.

Hæstv. forseti. Áreiðanlega eru margir vonsviknir vegna þess að eitthvað sem tekið hefur langan tíma að fá framgengt er nú tímabundið tekið til baka með niðurskurði sem boðaður er á árinu 2010. Við erum reyndar öll vonsvikin vegna þeirrar atburðarásar sem leiddi okkur í svo slæma stöðu. Í sársaukafullu niðurskurðarferli hefur þeirri stefnu verið fylgt að fresta eða draga úr því sem hægt er að fresta eða draga úr á meðan efnahagslægðin gengur yfir. Það er mikilvægt að ásamt breyttum vinnubrögðum við fjárlagagerðina verði staða þeirra verkefna sem verða nú fyrir niðurskurði bætt og aðstæður skapaðar fyrir ný um leið og betur árar.

Að lokum þetta: Ekki er vafi í huga þeirrar sem hér stendur um það að ef allir leggja sitt af mörkum muni áætlunarverkið takast sem er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á árinu 2013.



[21:15]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu og ég tek undir það sem hún sagði hér í lokin að við þurfum að taka höndum saman til að ná tökum á þeim vanda sem við erum í í dag.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessa ríkisstjórn út af mörgu, en núna er hún að færa tekjur frá sveitarfélögum til ríkisins með því að hækka tryggingagjaldið. Vegna 1,66% hækkunar þann 1. júlí voru 700 milljónir færðar á árinu 2009 og svo 1,3 milljarðar á árinu 2010, samtals tveir milljarðar. Þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra inni í fjárlaganefnd hvort sveitarfélögin fengju leiðréttingu á þessum tekjumissi svaraði hann því játandi. Ekkert í þessu frumvarpi eða fjáraukalögunum bendir til þess að standa eigi við þessi orð hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af fjármálum sveitarfélaganna og spyr því hv. þingmann, sem hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, hvort henni finnist ekki nauðsynlegt að leiðrétta þetta gagnvart sveitarfélögunum og hvort hún hafi ekki áhyggjur af stöðu sveitarfélaga í landinu?

Nú þegar búið er að gera samning við stóriðjuna um að greiða árlega næstu þrjú árin 1,2 milljarða inn á væntanlegar tekjur áranna 2013–2018, langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort ríkisstjórnin sé þá ekki að taka framtíðartekjur ríkissjóðs og ráðstafa þeim núna í stað þess að takast á við vandamálin eins og þau eru.



[21:17]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í allri áætlanagerð fyrir opinber útgjöld skiptir miklu að skoða útgjöld ríkis og sveitarfélaga í samhengi. Það er algjört grundvallaratriði og gengið út frá því að niðurskurður á öðrum staðnum valdi ekki sama kostnaði á hinum.

Hins vegar bind ég miklar vonir við samstarf sveitarfélaga og ríkisins þar sem mér er kunnugt um að öll þessi mál eru tekin upp á borðið og rædd og leitað að lausnum. Sem betur fer hefur samstarfið gengið ágætlega.

Varðandi tekjuskattinn vegna fyrirframgreiðslna stóriðjufyrirtækja, þá er gert ráð fyrir 1,2 milljörðum í fyrirframgreiðslu og þetta er samkomulag Samtaka atvinnulífsins, stóriðjufyrirtækjanna og ríkisstjórnarinnar.



[21:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin þó að ég sé ekki alveg nógu sáttur við þau. Mér finnst að leiðrétta þurfi tekjumissi sveitarfélaganna út af tryggingagjaldinu vegna þess að sagt var að það yrði gert, en það á að svíkja. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, ekki er nóg að hittast og ræða málin, það verður að leysa þau. Ekkert í fjáraukalögunum og fjárlögunum bendir til þess að staðið verði við það af hálfu ríkisstjórnarinnar og því er ég mjög svekktur.

Það sem ég átti við um fyrirframgreidda tekjuskatta frá stóriðjunni næstu þrjú árin er að þá fáum við tekjuskatt áranna 2013–2018, sem er að mínu viti lántaka fram í tímann sem ekki á að tekjufæra hjá ríkissjóði.

Nú er gert ráð fyrir því á milli umræðna að bæta um 4,2 milljörðum við tekjuskatt lögaðila. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að staða fyrirtækja í landinu er mjög erfið. Nú kemur í ljós að tekjuskattur lögaðila 2009 var 2,5 milljörðum lægri en áætlað var. Þess vegna finnst mér dálítið bratt hjá ríkisstjórninni að reikna með því að hækka þennan lið við þessi skilyrði og vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji raunhæft að bæta 4,2 milljörðum við á milli umræðna.

Við erum með mjög veika skattstofna, við endurskoðunaráætlunina 2009 kom í ljós að tekjuskattur á einstaklinga er 6,6 milljörðum lægri en reiknað var með. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að við leggjum skatta á veika skattstofna sem munu ekki skila sér og sitjum þá uppi með vandamálin þegar líður á árið og náum ekki þeim markmiðum sem stefnt var að?



[21:20]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra aðgerða sem gripið var til í sumar var mögulegt að lækka tekjuskatta á einstaklinga um 20 milljarða frá því sem áformað var og einnig voru skattar á umhverfis- og auðlindagjald lægri en áformað var. Það er einmitt vegna þess sem við gerðum í sumar að við þurfum ekki að fara eins bratt í tekjuskattinn og áform voru um til að byrja með þannig að þetta er ágætis árangur. Ég deili ekki áhyggjum hv. þingmanns.

Varðandi þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á skattkerfinu eru þær ekki lítt þekktar heldur er margra ára reynsla á svipuðu kerfi í nágrannaríkjunum sem við munum auðvitað nýta okkur og ég hef ekki áhyggjur af því að þetta fari illa heldur muni dæmið þvert á móti ganga upp.



[21:22]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni menntamálanefndar, fyrir ræðu sína hér áðan. Mig langar til að spyrja hana nokkurra spurninga um það sem fram kemur í breytingartillögum við framlagt fjárlagafrumvarp og breytingar á milli 1. og 2. umr., t.d. um það sem varðar framhaldsskólana almennt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að óskipt 140 millj. kr. tímabundið framlag til frumgreinadeilda á Suðurnesjum og Vestfjörðum detti út, en ég sé að það er komið inn aftur upp á 108 milljónir og framlag til framhaldsskólanna er óskipt upp á 165 milljónir. Mig langar til að spyrja hv. formann menntamálanefndar hvar þessi ákvörðun var tekin og af hverjum, þar sem þetta er með öðrum hætti en greint var frá í frumvarpinu og ekki rætt í menntamálanefnd að setja þetta fram með þessum hætti.

Einnig langar mig til að spyrja hv. þingmann og formann menntamálanefndar um lið 4.51 sem er símenntun og fjarkennsla. Er það viðbót við það sem áætlað var? Var hætt við að skera niður? Hvar var sú ákvörðun tekin að hætta við að skera niður og setja þessa fjármuni inn aftur? Því ekki var hún tekin í fagnefndinni.

Að lokum langar mig til að spyrja hv. þingmann, formann menntamálanefndar: Hver er aukning í milljónum talið á milli 1. og 2. umr. þegar kemur að menntamálanefnd og menntamálum?



[21:23]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi breytingartillögurnar sem hv. þingmaður spurði um var tillagan um framhaldsskóla almennt samþykkt af ríkisstjórninni og lögð fram af henni með rökum frá menntamálaráðuneyti og upplýsingum um raunverulega nemendafjölgun sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir. Tillaga um fjárveitingu til Keilis var lögð fram af fjárlaganefndinni sjálfri og tillaga um símenntun af ríkisstjórninni. Í heildina eru þetta 1.019 milljónir. Ég vona að ég hafi svarað spurningunni.



[21:25]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar ágætu upplýsingar. Það er verulega fróðlegt að vita að fjárlaganefndin sjálf ákveði að fara inn í menntamálin, sem fagnefndin menntamálanefnd sér um, og auka fjármagn til einstakra þátta sem áður höfðu verið teknir út af ríkisstjórninni og menntamálanefnd ekki gert athugasemdir við. Það eru í sjálfu sér áhugaverðar upplýsingar og nálgun á hv. fjárlaganefnd.

Líka þakka ég fyrir upplýsingar frá hv. þingmanni, formanni menntamálanefndar, um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að breyta þessu. Ég vil jafnframt benda á að búið er að gera ráð fyrir þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir í þeim menntaskólum eða framhaldsskólum sem höfðu verið með of fáa nemendur, það er þegar búið að leiðrétta þetta í Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskóla Borgarfjarðar, Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Framhaldsskólanum við utanverðan Eyjafjörð upp á tugi milljóna. En jafnframt er farið til baka með það sem á að fara í framhaldsskólana almennt.

Það er bara gott ef við höfum efni á því að auka útgjöldin um rúman milljarð í þessu og að sú ákvörðun sé tekin af meiri hluta fjárlaganefndar. Þá hljótum við að segja bara: Góðan daginn og takk fyrir. (Gripið fram í: Eða gott kvöld.)



[21:26]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan var ákvörðun um nemendafjölgun tekin af ríkisstjórninni eftir raunupplýsingar frá skólum landsins.

Varðandi það að hv. menntamálanefnd hafi ekki fjallað um Keili og fleiri menntastofnanir er það rangt vegna þess að í áliti hennar er fjallað um, ef ég man rétt, menntaverkefni sem studd hafa verið með mótvægisframlagi. Mótvægisframlög vegna þorskveiðikvótans voru öll tekin út og meiri hluti menntamálanefndar lagði áherslu á að þau yrðu skoðuð, sérstaklega þar sem margir nemendur og samfélög væru undir. Þar á meðal er Háskólasetrið á Vestfjörðum og Keilir á Ásbrú. Það er ekki rétt að tillagan um þetta hafi ekki komið frá hv. menntamálanefnd því í frumvarpinu stendur að við viljum láta athuga þetta, við rökstuddum hvers vegna og fjárlaganefnd tók ákvörðun um það.



[21:28]Útbýting:

[21:28]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á mánudaginn í síðustu viku gerðu stjórn og stjórnarandstaða með sér samkomulag um meðferð á Icesave-málinu svokallaða, þ.e. liðum sem standa þar út af. Á föstudaginn var beiðni send til umsagnaraðila og þeir beðnir um að mæta fyrir nefndina og fjalla um álitamál. Þeir höfðu tæpan sólarhring til þess að koma með umsögn og síðan var tveggja tíma umræða á laugardaginn.

Nú liggur fyrir að atriði úr samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu frá því á mánudaginn í síðustu viku verða ekki efnd vegna þess að rífa á málið úr nefnd. Það sem mig langar til að spyrja hæstv. forseta um er: Mun forseti beita sér fyrir því að samkomulagið sem stjórn og stjórnarandstaða gerðu hér í seinustu viku um Icesave-málið verði efnt?



[21:29]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sá sem hér stendur stóð m.a. að samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en eftir fund í efnahags- og skattanefnd í morgun hef ég áhyggjur af því að stjórnarliðar hér á Alþingi ætli ekki að standa við 16 liða samkomulagið sem þeir gerðu við stjórnarandstöðuna í síðustu viku um þessi mál. Það er mikilvægt upp á framhald málsins að störf þingsins á næstu dögum verði í sem bestri samvinnu, að við stöndum við þau samkomulög sem við gerum okkar á milli og að það liggi fyrir hvort stjórnarandstaðan fái að fylgja eftir þeim álitaefnum sem reifuð voru í samkomulaginu, fái skrifleg álit og allan þann tíma sem hún þarf til að fara yfir þetta mál, sem er eitt það stærsta á Alþingi í sögu lýðveldisins. Mikilvægt er að það liggi fyrir og skýrt sé að stjórnarliðar ætli sér að standa við samkomulagið.



[21:30]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill taka það fram að hann er þeirrar skoðunar að þegar gert er samkomulag, hvort sem það er um þessa hluti eða aðra, beri öllum sem að því koma að standa við það.



[21:31]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í morgun bar ég upp tillögu um það að hv. efnahags- og skattanefnd gengi að tilboði IFS um að gera áhættugreiningu á Icesave-samkomulaginu, þannig að þingmenn viti hversu miklar líkur eru á því að allt gangi vel, hversu miklar líkur eru á því að allt gangi þokkalega og hversu miklar líkur eru á því að allt gangi illa, svo maður tali ekki um hversu miklar líkur eru á því að þetta fari allt í vaskinn og íslensk þjóð verði verulega fátæk. Þetta finnst mér að þingmenn þurfi allir að vita, herra forseti, áður en þeir taka ákvörðun um að gangast inn á þennan samning. Það var einmitt þetta sem ... (Forseti hringir.) Ja, ég er að tala um stjórn fundarins af því að ...

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmanninn um að ræða málið ekki efnislega heldur ræða um fundarstjórn forseta og vekur athygli á því að hér er á dagskrá umræða um fjárlög.)

Tíminn er búinn.



[21:32]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hvað varðar fundarstjórn forseta fannst mér þetta inngrip með bjölluslætti nú rétt áðan mjög sérkennilegt. En í ljósi þeirra umræðna sem eru að verða undir þessum lið, herra forseti, um áhyggjur fulltrúa í efnahags- og skattanefnd, þá er eftir því sem ég best veit — best að hafa það alveg á hreinu — ágætt samkomulag um það hvernig málin eru unnin í fjárlaganefnd, því hefur verið komið í þokkalegan farveg. Mjög mikilvægt er, herra forseti, að efnahags- og skattanefnd verði ekki til þess að hleypa upp því samkomulagi sem gert var um það að setja Icesave-umræðuna í ákveðinn farveg.

Ég vil beina því til herra forseta að hann beiti sér fyrir því að þessu verði kippt í liðinn því að ég trúi því, herra forseti, að um sé að ræða einhvers konar misskilning sem hægt er að eyða með einföldum hætti. Ef ekki er mikilvægt að hv. formaður efnahags- og skattanefndar útskýri málið.



[21:33]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það samkomulag sem var gert hér síðasta mánudag, virðulegum forseta til upprifjunar, gekk út á það að samið var um hvenær farið yrði í atkvæðagreiðslu daginn eftir, á þriðjudeginum. Þá var jafnframt samkomulag um að þeir þingmenn, sem lægi eitthvað á hjarta, fengju að ljúka máli sínu aðfaranótt þriðjudagsins, sem var gert. Þeir þingmenn sem þurftu að tala og vildu tala gerðu það.

Ég vil árétta þetta vegna þess að af ummælum virðulegs forseta mátti skilja að einhverjir þingmenn í stjórnarandstöðu hefðu ekki staðið við þetta samkomulag og ég hafna því algjörlega vegna þess að við höfðum staðið fullkomlega við okkar hlut. Það eru stjórnarliðar sem eru að brjóta samkomulagið núna með því að taka ekki fyrir þau 16 atriði sem beðið var um að tekin yrðu fyrir.



[21:34]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vekur athygli á því að sá forseti sem nú stýrir fundi tók þátt í fundi formanna þingflokka með forseta um það samkomulag sem hér er verið að gera að umtalsefni og er fullkunnugt um efni þess og þá umræðu og þau sjónarmið sem lágu þar á bak við og hv. þingmaður þarf ekki að kenna forseta neitt um það efni.



[21:35]
Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fjárlaganefnd að það samkomulag sem gert var á milli stjórnar og stjórnarandstöðu verði uppfyllt í hvívetna og mjög mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd fái tækifæri til að fara yfir þau álitaefni sem fjárlaganefnd fól henni að taka til athugunar nú milli umræðna.

Ég verð að viðurkenna að það tók töluverðan tíma fyrir fjárlaganefnd að koma erindi sínu til efnahags- og skattanefndar eftir að samkomulag var gert á mánudagskvöldið. Ég hygg að bréfið hafi borist efnahags- og skattanefnd á fimmtudag eða föstudag. Þar fór því miður tími til spillis en það er alveg klárt að þegar samkomulagið var gert var það í ljósi þess að efnahags- og skattanefnd hefði tök á því að fara rækilega yfir þau álitaefni sem að henni snúa.

Ég sit í fjárlaganefnd og við berum miklar vonir í brjósti um að efnahags- og skattanefnd fái tækifæri til að koma með (Forseti hringir.) vitræna og vel ígrundaða niðurstöðu.



[21:36]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vekur athygli á því að hér eru á dagskrá fjárlög 2010 og ætlast til þess að ef gerðar eru athugasemdir við fundarstjórn forseta lúti þær að því máli fyrst og fremst.



[21:36]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vegna umræðna um vinnslu á Icesave og aðkomu efnahags- og skattanefndar þá hygg ég að okkur hafi borist erindi fjárlaganefndar um að taka málið til vinnslu á fimmtudagskvöldið. Við tókum það erindi auðvitað strax til meðferðar og sendum út óskir um gesti eftir samráð við nefndarmenn. Ég held að full sátt hafi verið um það hvaða gestir voru kallaðir til og fundur var haldinn, einn af mörgum fundum efnahags- og skattanefndar, á laugardaginn með þeim gestum og farið yfir málin. Það var auðvitað með skömmum fyrirvara þannig að ég gerði gestum grein fyrir því að við hefðum tíma fram í miðja þessa viku til að taka við frekari viðbótarupplýsingum frá þeim. Þeim var síðan send árétting um það skriflega á sunnudag eftir að nefndarmaður hafði gert athugasemdir við þann skamma tíma sem aðilar hefðu haft til undirbúnings.

Síðan er (Forseti hringir.) til skoðunar ósk hv. þm. Péturs Blöndals um vinnslu á áhættugreiningu, en ekki virðist vera hægt að ljúka þeirri vinnu (Forseti hringir.) fyrr en á milli jóla og nýárs og ég hefði fyrir fram (Forseti hringir.) talið að þá yrði umfjöllun efnahags- og skattanefndar lokið.



[21:37]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti. biður hv. þingmenn um að virða þau tímamörk sem eru í þessum dagskrárlið.



[21:37]
Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti sé ekki að gera mannamun. Áðan stöðvaði hann mig þegar ég ræddi nákvæmlega það sama og formaður efnahags- og skattanefndar ræddi núna, nákvæmlega það sama. Ég ræddi um tilboð sem kom um að gera áhættugreiningu og það að nefndin ákvað að greiða atkvæði um það að fresta atkvæðagreiðslu um það mál. Það tekur fyrirtækið tvær vikur að áhættugreina Icesave-samkomulagið og ef við hefðum gert það strax hefðum við að sjálfsögðu verið búin með það á milli jóla og nýárs og hefðum getað tekið það fyrir og afgreitt það. Þá hefðu þingmenn vitað hvað þeir væru að gera, líka stjórnarliðar.



[21:38]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Vegna orða hv. þingmanns vill forseti taka fram að hann hefur margítrekað fyrir ræður bæði stjórnarandstæðinga og stjórnarliða undir þessum lið að hér eru á dagskrá fjárlög fyrir 2010 og umræður um fundarstjórn eiga að sjálfsögðu að lúta að þeim lið sérstaklega en ekki alls óskyldum liðum.



[21:39]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að blanda mér örlítið í umræðuna um fundarstjórn forseta þar sem gríðarlega mikilvægt er að enginn efi ríki í hugum þingmanna um það hvernig staðið verður við samkomulagið sem gert var og menn vísa hér til og ég heyri að töluverður órói er í þingmönnum um það og þá sérstaklega í ljósi þess hvernig fundur í efnahags- og skattanefnd fór fram hér í morgun.

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að forseti fullvissi hv. þingmenn alla sem einn um það — ég sé að hv. þm. Helgi Hjörvar býr sig nú undir að, nei, ég hélt að hann byggi sig undir að koma aftur í ræðustól til að fullvissa hv. þingmenn um að vissulega verði farið að þessu samkomulagi í hvívetna. Það þarf bara að leggja fram áætlun um það hvernig og hvenær á að uppfylla þetta samkomulag og hvernig þetta á allt að nást á tilskildum tíma.



[21:40]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill enn og aftur brýna fyrir þingmönnum að ræða fundarstjórn forseta en ekki fara í efnislega umræðu, eins og allmargir þingmenn hafa gert. Forseti hefur ítrekað haft á orði að menn eigi að ræða fundarstjórn þessa fundar.



[21:40]
Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gera þá athugasemd við fundarstjórn hæstv. forseta að mér sýnist að jafnræðis sé ekki gætt í meðhöndlun stjórnarandstæðinga og stjórnarliða þegar hæstv. forseti stýrir fundi. Ég varð vitni að því áðan að þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal var rétt hálfnaður með ræðutíma sinn fékk hann ekki hljóð fyrir bjöllu hæstv. forseta fyrr en ræðutími hv. þingmanns var búinn. Á sama tíma komu stjórnarliðar og töluðu efnislega með sama hætti um málið og hv. þm. Pétur Blöndal en fengu algjöran frið til þess að ljúka málflutningi sínum. Það er því vinsamleg ábending mín til herra forseta að hann gæti jafnræðis því að herra forseti er forseti allra þingmanna sem sitja hér í salnum en ekki bara stjórnarliða.



[21:41]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti tekur vinsamlega ábendingu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar til sín eins og ævinlega þegar hv. þingmaður á í hlut.



[21:41]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2010, fjárlög næsta árs, en segja má að það hafi ekki verið nein venjuleg fjárlagagerðarsmíð sem sú fjárlaganefnd sem nú situr hefur þurft að taka að sér. Eins og hefur mátt skilja á ræðum sumra þingmanna, sem hér hafa talað á undan mér, hafa margir þeirra áhyggjur af því að núverandi ríkisstjórn geri með þeim tillögum sem hér koma fram fjárhagsstöðu fjölskyldna, atvinnufyrirtækja og þjóðarbúsins erfiðari en þyrfti að vera.

Hæstv. forseti. Við erum í pólitík vegna þess að við höfum mismunandi lífssýn, mismunandi skoðanir, mismunandi áherslur og mismunandi stefnu og setjum þar af leiðandi mismunandi áherslur inn í fjárlögin. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur lagt á það áherslu, eins og hægt er með fjárlagagerð, að koma á meiri jöfnuði, koma á meira réttlæti, reyna eftir fremsta megni að reisa efnahagslífið við, verja hag fjölskyldna og verja velferðarþjónustuna. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það sem ríkisstjórnin gerði aftur á móti ekki, og þá allra síst sú hreyfing sem ég starfa fyrir og er þingmaður fyrir, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, var að eiga aðild að því hruni sem við erum að reyna að koma þjóðinni upp úr. Það er verkefni okkar að koma þjóðinni í gegnum þá erfiðleika sem við blasa og að því verkefni ættum við öll að standa, sama hvar í flokki við erum. Þó svo að við höfum mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að gera það, hvaða leiðir eigi að fara, tel ég það vera siðferðislega skyldu okkar, sama hvar í flokki við erum, að standa saman í því að lýsa skoðunum okkar og greiða síðan fyrir því að sitjandi ríkisstjórn geti komið áhersluatriðum sínum í gegn og unnið að þeim. Það er ábyrg pólitík að mínu mati.

Hrunið kom skyndilega, það skall í andlitið á okkur. Aftur á móti þýðir ekkert að tala um það að við eigum að lifa í fortíðinni. Við verðum að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hefur bent okkur á afleiðingar þeirrar efnahagsstjórnunar sem ríkti hér um árabil. Ef við rifjum það ekki upp reglulega og förum yfir það er hætt við því að við endurtökum sömu mistökin. Það voru gerð mistök, hér ríkti mikil frjálshyggja, það ríkti mikil markaðshyggja, það var pólitísk stefna að hafa afskipti og eftirlit hins opinbera í lágmarki. Það greip um sig ákveðin mikilmennska í þjóðfélaginu, oftrú á snilld okkar Íslendinga. Við blinduðumst í græðgi og við eigum að muna eftir því og læra af því. Við eigum að koma okkur niður á jörðina, viðurkenna hvar við stöndum, viðurkenna þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, viðurkenna að við þurfum að ná jafnræði í ríkisbúskapnum á mjög skömmum tíma — of skömmum tíma að mínu mati, en það er það sem við verðum að gera. Við höfum svo aftur mismunandi sýn á það hvernig við eigum að ná því.

Núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafa valið að fara blandaða leið, þ.e. að hækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur gert grein fyrir fyrirhuguðum skattabreytingum og tekjustofnum og undirstöðum fjárlaga þannig að ég ætla ekki að fara yfir það.

Hæstv. forseti. Ljóst er að framlög til heilbrigðismála eru drjúgur hluti af fjárlögum ríkisins. Heildarútgjöld til heilbrigðismála eru tæpir 99 milljarðar kr. samkvæmt A-hluta fjárlaga. Sértekjur heilbrigðisráðuneytisins eru um 5,38% af heildarútgjöldum þess ráðuneytis. Útgjöld til heilbrigðismála vega því þungt í útgjöldum ríkissjóðs og skiptir miklu máli að vel sé haldið utan um þann málaflokk, faglega, fjárhagslega og ekki síst út frá öryggis- og byggðasjónarmiðum. Ég mun aðallega ræða hér um þá liði sem snúa að heilbrigðisnefnd og tala fyrir áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar þar sem ég gegni formennsku.

Fyrir nefndina komu fjölmargir gestir og fóru yfir fjárlagafrumvarpið eða þær tillögur sem þá lágu fyrir. Við kölluðum til okkar þær stofnanir sem mest mæðir á, eins og Landspítalann og aðrar stofnanir sem hafa átt í rekstrarerfiðleikum. Við reyndum að fá góða heildarmynd af þessum stærstu þáttum sem koma fram á sviði heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisnefndar.

Hvað varðar kröfu um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni hefur verið settur upp ákveðinn rammi við forsendur fjárlaga en í rammanum kom fram að ráðuneytinu og stofnunum sé ætlað að draga saman rekstur um 10% frá fjárlögum 2009 til þess að unnt sé að ná þeirri áætlun sem sett hefur verið fram í efnahagsmálunum. Hvað varðar síðan málaflokka heilbrigðisráðuneytisins fer 10% lækkun til stjórnsýslu og eftirlitsstofnana en velferðarstofnunum og velferðarþjónustunni er hlíft og eru niðurskurðarkröfur vægari þar eða um 5% og falla sjúkrahúsin þar undir. Krafan til heilsugæslunnar er enn minni þar sem krafan um niðurskurð er um 2,8%. Mikilvægt er að hafa í huga að þarna er um ákveðna forgangsröðun að ræða og vísað til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir töluverðri yfirfærslu verkefna frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Nemur lækkun útgjalda heilbrigðisráðuneytis vegna reksturs öldrunarheimila tæplega 19 milljörðum kr. og 431,5 milljörðum kr. vegna sjúkratrygginga, þ.e. greiðslna daggjalda fyrir hjúkrunarrými. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að vandað verði til þessara skipulagsbreytinga svo að yfirfærsla allrar öldrunarþjónustu til sveitarfélaga megi takast vel, eins og stendur í nefndarálitinu.

Ég ætla ekkert að leyna því, hæstv. forseti, að heilbrigðisnefnd hefur rætt þennan hluta frumvarpsins töluvert og hefur af því nokkrar áhyggjur að undirbúningur þessarar yfirfærslu virðist ekki vera langt kominn. Við hefðum talið að við lokaafgreiðslu fjárlaga hefðu átt að liggja fyrir frekari upplýsingar um það hvernig útfæra ætti þessa breytingu. Því miður liggur það ekki fyrir í dag en nefndin hefur fundað nokkrum sinnum með verkefnastjórn sem sett hefur verið, verkefnastjórn fulltrúa frá heilbrigðisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti, til að útfæra þennan verkefnaflutning. Ég geri ráð fyrir að innan skamms komi yfirlýsing frá viðkomandi ráðherrum um það hvernig ganga eigi frá þessari útfærslu.

Það er líka ljóst, og einhugur virðist vera um það hjá öllum nefndarmönnum, að stefna ber að því að nærþjónustan, þar með öldrunarþjónustan, þjónusta við íbúa hvers sveitarfélags, sama hvort það eru aldraðir, fatlaðir eða langveikir, sé sem mest í nærþjónustunni og þá mest í heimahúsum. Undir það tökum við og nefndin leggur áherslu á að til þeirrar yfirfærslu verði vandað og fylgst með því á komandi ári, ef af verður, hvernig til tekst, bæði faglega og eins hvað varðar framlögin. Nefndin leggur einnig mikla áherslu á að þess verði gætt að það fjármagn sem losnar út úr kerfinu við það að hjúkrunarrýmum fækkar færist yfir til heimahjúkrunar sem tekur þá í raun við af þessari stofnanaþjónustu.

Vísað er til Finnlands sem fór þá leið fyrir um tveimur árum að fækka markvisst hjúkrunarrýmum og færa stofnanaþjónustuna yfir í manneskjulegri og nútímalegri búning, getum við sagt, yfir í annan hugsunargang. Með fækkun hjúkrunarrýma var sett aukið fjármagn í heimahjúkrun og heimaþjónustu og það verðum við líka að gera þannig að það fylgist að. Sú ákvörðun að færa öldrunarmál yfir til félagsmálaráðuneytis var tekin í stjórnarsáttmálanum árið 2007 og skilaði sér að hluta til inn í fjárlögin fyrir þetta ár, 2009. Í fjárlagafrumvarpinu var síðan stigið það skref að færa hjúkrunarrýmin yfir og hefur hv. heilbrigðisnefnd nokkrar áhyggjur af því og hefði viljað sjá það betur útfært en komið er í dag.

Á þessu ári var gerð aukin hagræðingarkrafa, núna á miðju árinu. Eins og fram kom í ræðum í dag, þegar fram kom gagnrýni á undirbúning fjárlaga næsta árs, voru fjárlög þessa árs, 2009, unnin undir mikilli pressu og við mjög erfiðar aðstæður. Varla var búið að dreifa fjárlögum fyrir 2009 þegar hrunið reið yfir þannig að endursemja varð öll fjárlögin. Þegar leið á árið kom svo í ljós að bæta varð í niðurskurðinn til að ná fram aðhaldskröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að í ljós kom að aðhaldsaðgerðir stofnananna höfðu ekki staðist áætlun.

Við höfum gengið í gegnum mikið fjárhagshrun og fjárlögin endurspegla það og fjárlagagerðin og rekstrarstaða stofnana ber þess auðvitað merki. Ekki bætir úr skák að mjög margar heilbrigðisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir voru með hallarekstur eftir árið 2008 og reyndist þeim mjög erfitt að fara inn í þetta ár, 2009, með skuldir. Enda hafa vaxtagreiðslur margra stofnana verið þeim þungar og eins hefur neikvæð gengisþróun íslensku krónunnar verið sérhæfðustu stofnununum, og þá sérstaklega Landspítalanum, mjög þung. Margar vörur eru keyptar að utan, lyf og fleira, þannig að þetta bætist við erfiðleika þessara stofnana sem er þá fyrir utan þær aðhaldskröfur sem gerðar eru í dag. Þrátt fyrir allt góðærið sem við erum búin að tala mikið um, sem var holt að innan, komu margar heilbrigðisstofnanir út í miklum rekstrarerfiðleikum eftir árið 2008.

Það er líka ljóst að þegar svo miklar breytingar verða og kröfur um niðurskurð og aðhald, sem bæði voru á miðju þessa árs, fyrir næsta ár og greinilegt er að árið 2011 verður erfitt líka, getum við ekki haldið uppi óbreyttri þjónustu. Við þurfum að finna aðrar leiðir, þurfum að endurskipuleggja, ná samstarfi og sameiningu heilbrigðisstofnana til þess að ná niður kostnaði en standa um leið vörð um öryggi. Ekki er hægt að gera þá kröfu til hverrar og einnar stofnunar að hún sé rekin með lægri rekstrarkostnaði en haldi starfsemi óbreyttri.

Við þessar aðstæður þarf líka að fylgjast mjög vel með því að sparnaður á einu sviði leiði ekki til útgjalda á öðru sviði. Er ég þá að hugsa til þess að breytingar á heilbrigðisþjónustu, sem er viðkvæm þjónusta, geta leitt til þess að álag verði meira á félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég tel því mjög mikilvægt að um mitt árið fylgist velferðarvaktin, sem sett hefur verið á stofn, vel með því hvort hugsanlega hafi orðið tilfærsla á verkefnum, að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu leiði til aukins álags á félagsþjónustuna ef hægt er að greina það. Því þarf að mínu mati að yfirfara reksturinn og þjónustuna, fara yfir fjárlagagerðina og meta næsta vor.

Í samningum eins og við stöndum frammi fyrir skapast vissulega tækifæri og möguleikar til nýrrar hugsunar. Segja má að tækifæri til sameiningar eða samstarfs, sem ekki hefur verið mögulegt áður, sé nú inni í myndinni þegar menn sjá það sem einu hugsanlegu leiðina til að ná niður kostnaði og það er gott. Eitt af þeim verkefnum sem menn hafa verið að skoða er svokallað kragaverkefni, þ.e. sjúkrahúsin hér á höfuðborgarsvæðinu með Landspítalann sem flaggskip, frá Akranesi og suður í Keflavík — þar var skoðað hvort hægt væri að hagræða, flytja til verkefni eða flytja verkefni út af Landspítalanum.

Í framhaldi af þeirri vinnu var í september settur niður vinnuhópur sem tók við skýrslu Huldu Gunnlaugsdóttur, sem gekk undir heitinu „Frá orði til athafna – Radíusverkefnið“, til að fara í frekari greiningu, kostnaðargreiningu og greiningu á verkefnum, sem í síðustu viku skilaði af sér mjög ítarlegri og góðri skýrslu. Hópurinn hefur að mínu mati unnið frábæra vinnu og ber að þakka þeim sem þar stóðu að verki. Þessi greining nefndarinnar getur skilað sér til annarra stofnana, inn á önnur svæði, þar sem hægt er að gera samsvarandi greiningu og samstilla kostnað við ákveðna verkþætti og gera samanburð á því í hverju kostnaðurinn liggur og reyna þá að vinna að því að taka niður óþarfa- eða umframkostnað ef það stendur út af. Þetta er verkefni sem verður unnið frekar með en hefur skilað sér inn í fjárlögin núna með tæplega 60 millj. kr. tilfærslu.

Þegar verið er að tala um frekari sparnað í heilbrigðisþjónustunni tel ég mjög mikilvægt að lögð verði áhersla á að vinna áfram að rafrænni sjúkraskrá. Hún er forsenda þess að hægt sé að halda áfram að samræma og samhæfa stofnanir. Með rafrænni sjúkraskrá sem stofnanir hafa aðgang að þarf ekki endilega að tala um sameiningu, hægt er að ná mikilli hagræðingu og sparnaði með samstarfi og flutningi gagna.

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess að í þessum niðurskurði hef ég helst áhyggjur af litlum stofnunum vítt og breitt um landið sem eru það litlar að rekstrargrunnurinn er viðkvæmur. Ef verið er að fækka hjúkrunarrýmum án þess að til komi þessi nærþjónusta samhliða, heimahjúkrun á viðkomandi stað, sem tekur þá við og léttir á stofnuninni — ég tel að fylgjast þurfi mjög vel með rekstri lítilla heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið, að fjárframlög til þeirra verði ekki skert það mikið að gengið verði á nærþjónustu viðkomandi svæðis.

Hæstv. forseti. Fjárlögin endurspegla það að meiri hlutinn telur að gera eigi átak í eflingu heilsugæslunnar, halda því áfram, og jafnframt að huga að tilvísunarkerfi til sérfræðinga að norrænni fyrirmynd. Við höfum leyft okkur mörg undanfarin ár að byggja hér upp mikla sérfræðiþjónustu, langt umfram það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Það á sér margar skýringar en m.a. þá að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fylgt íbúaþróun eftir. Til þess að líkjast þeirri þjónustu sem er á Norðurlöndunum er mikilvægt að efla heilsugæsluna, efla nærþjónustuna og koma á tilvísunarkerfi til sérfræðiþjónustunnar.

Við nefnum í áliti heilbrigðisnefndar hallann sem er á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og eins halla Landspítalans og leggjum til að sérstaklega verði tekið tillit til þessara stofnana og annarra sem eru með uppsafnaðan vanda. Orðið verður við því og sérstaklega verður tekið á skuldahala Landspítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þrátt fyrir þann gífurlega efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir verður að gæta þess að verja velferðarþjónustuna, þ.e. félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu og öryggis- og bráðaþjónustu. Enn fremur verður að hafa í huga að aukið ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, er líklegur fylgifiskur djúprar efnahagslægðar. Til þess þarf að taka sérstakt tillit í heilbrigðisþjónustu á komandi árum.

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um að breyta skuli vinnulagi þingsins við undirbúning og gerð fjárlaga. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun þess verði afgreiðslu safnliða breytt. Telur meiri hlutinn að í stað safnliða sé æskilegt að styrkja til þess bært sjóðakerfi að taka við núverandi safnliðum. Við afgreiðslu fjárlaga verði tryggt að sjóðirnir geti staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna, ef ekki, leitar afgreiðsla styrkbeiðna aftur í sama farið. Úthlutun úr viðkomandi sjóðum ætti að fara eftir faglegu mati og forsendum sem ekki eru til staðar hjá fagnefndum í dag. Þrátt fyrir framangreinda galla fer meiri hlutinn að núverandi verklagi og leggur til skiptingu safnliðs 08-399-1.90 samkvæmt beiðni fjárlaganefndar. Við afgreiðslu safnliða í fjárlaganefnd telur meiri hlutinn að skoða verði sérstaklega stöðu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, Ljósið, og Mænuskaðastofnunar Íslands. Meiri hlutinn telur rétt að vísa erindi Miðstöðvar foreldra og barna til heilbrigðisráðuneytisins til úrlausnar enda er um að ræða fyrirtæki sem ætlað er að sinna brýnum meðferðar- og forvarnaverkefnum, þjónustu sem meiri hlutinn telur mikilvægt að verði aðgengileg fyrir starfsmenn heilsugæslu og skóla.

Álitinu fylgir tillaga nefndarinnar um skiptingu safnliða en undir það skrifa: Þuríður Backman og Sigmundur Ernir Rúnarsson, með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd, Valgerður Bjarnadóttir, með fyrirvara. Aðrir hv. nefndarmenn eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Anna Pála Sverrisdóttir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja safnliðina, þeir liggja fyrir í nefndaráliti. Ég hef hlaupið aðeins yfir helstu atriði nefndarálits meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar.



[22:11]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ítarlega yfirferð yfir þann mikilvæga málaflokk sem heilbrigðismálin eru. Hv. þingmaður hefur, ásamt þeim sem hér stendur, haft mikinn áhuga á þeim málaflokki og að fjárframlög til hans séu með þeim hætti að íslensku samfélagi sé sómi að.

Nú kemur það hins vegar fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 að lækka eigi fjárveitingar til Landspítala um tæpa 2 milljarða kr., lækka eigi framlög til heilbrigðisstofnana, og þá kannski ekki síst á landsbyggðinni, um 920 milljónir og um 273 milljónir til heilsugæslunnar. Þetta gerir um 2,65 milljarða kr. Ef við setjum það í samhengi við þá greiðslubyrði sem er á ári vegna vaxta af Icesave, sem eru ríflega 40 milljarðar kr., væri hægt (Forseti hringir.) að verja þeim fjármunum 15 sinnum á ári í þetta verkefni. Hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður samþykkt þá samninga (Forseti hringir.) á þeim vaxtakjörum sem blasa við?



[22:12]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson las hér upp koma fram í frumvarpinu. Ég vil benda hv. þingmanni á þá staðreynd sem blasir við, þ.e. að í fjárlagafrumvarpinu er gat sem þarf að brúa, í fjárlögum 2010, það fer ekki frá okkur. Icesave fer ekki frá okkur. Þetta er fórnarkostnaðurinn sem við verðum að greiða og þetta eru staðreyndir. Mér finnst sárt að draga þurfi úr fjárveitingum og veita þetta aðhald í heilbrigðisþjónustunni. Mér finnst enn sárara að sitja uppi með þennan reikning sem við hefðum aldrei átt að borga af því að aldrei hefði átt að heimila ógæfuför Icesave-reikninganna.



[22:13]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þessi svör. Það er alveg ljóst að það verður að skera niður vítt og breitt um landið í mikilvægri heilbrigðisþjónustu sem er undirstaða velferðar í mörgum samfélögum. Nú er hv. þingmaður í fjárlaganefnd og í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér er ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum vegna Icesave, ekki vegna vaxta Icesave sem eru rúmlega 40 milljarðar kr. Í raun og veru er gatið því miklu stærra en reifað er í fjárlagafrumvarpinu. Í ljósi þess er þá forsvaranlegt að samþykkja Icesave-frumvarpið eins og það liggur fyrir, í ljósi þess að gatið er miklu, miklu meira en kemur fram í annars mjög slæmum tölum í fjárlagafrumvarpinu?

Ef við bætum þeirri skuldbindingu við þarf að skera enn þá meira niður. Telur hv. þingmaður að íslensk heilbrigðisþjónusta beri þann niðurskurð? Eigum við ekki að láta reyna á það til hlítar að ná betri samningum vegna (Forseti hringir.) Icesave-reikninganna? Komið hafa fram ábendingar um það að mun betri vaxtakjör væri hægt að fá á þessa samninga.



[22:14]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að Icesave-samningarnir eru ekki í fjárlagafrumvarpinu er sú að ekki er búið að ganga frá því máli. Þar af leiðandi er sá hluti útgjaldaliðar ekki í fjárlagafrumvarpinu. Ég tel því miður að við komumst ekki lengra með þessa Icesave-samninga. (Gripið fram í: Uppgjöf!) Það er ekki uppgjöf að mínu mati. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann. Icesave-skuldbindingarnar hverfa ekki út um gluggann, þær gera það ekki. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, ég hef svarað því og get endurtekið það: Í fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) eru ekki tillögur um mál sem ekki er búið að ganga frá.



[22:15]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Nú hefur komið í ljós í umræðu um fjárlagafrumvarpið hér á þinginu í dag að tveir hv. þingmenn stjórnarliða, sem báðir eiga sæti í fjárlaganefnd, hv. þm. Þuríður Backman og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, hafa báðir lýst yfir efasemdum um flutning öldrunarþjónustu frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Nefndin hefur þar að auki fjallað um málið og telur að ekki hafi nægilega vel verið staðið að áður en slík ákvörðun var tekin. Nefndinni hefur og borist bréf frá formanni hjúkrunarfélagsins þar sem þessu er mótmælt. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann muni ekki bæði sem formaður heilbrigðisnefndar — sem og hv. þm. Sigmundur Ernir, varaformaður heilbrigðisnefndar, en bæði sitja þau í fjárlaganefnd — leggjast á eitt til að koma í veg fyrir þennan flutning?

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir þingmenn á að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)



[22:17]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lýsti því yfir áðan í ræðu minni að ég hefði áhyggjur af flutningi hjúkrunarheimila yfir til félagsmálaráðuneytisins. Ekki að það geti ekki gengið vel, ég hef áhyggjur af því að mér finnst undirbúningurinn ekki vera nægilega langt á veg kominn. Menn eru þó fljótir að bretta upp ermarnar og ég býst við að yfirlýsingar frá viðkomandi ráðherrum varðandi þennan flutning komi áður en við göngum frá þessu fjárlagafrumvarpi. Ég tel að ég hafi talað nægilega skýrt um þetta. Við viljum fá nærþjónustuna til aldraðra sem næst þeirra heimilum og inn á heimilin. Þetta hefur verið einlæg ósk félags eldri borgara. Hæstv. forseti. Ég fæ að ljúka máli mínu í seinna andsvari.



[22:18]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi eru ekki eingöngu aldraðir í hjúkrunarrýmum. Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Þuríði Backman, þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í hennar flokki, varðandi það þegar talað er um þessi 360 rými sem á að byggja, 60 ný og 300 sem á að breyta úr fjölbýli í einbýli. Sveitarfélögin taka það að sér með 100% láni úr Íbúðalánasjóði, síðan á Framkvæmdasjóður aldraðra að koma að því að sjá um reksturinn í einhvern tíma, sem er náttúrlega bara tilfærsla úr hægri vasanum yfir í þann vinstri. Mig langar að spyrja hv. þm. Þuríði Backman hvort það hafi verið rætt með hvaða hætti sveitarfélögin ættu að taka þetta 100% lán til þess að byggja hjúkrunarheimilin, hver ætti að borga vaxtakostnað af slíku láni. Eru það sveitarfélögin eða ætlar ríkið að hlaupa þar undir bagga með sín 85% í byggingu hjúkrunarheimila? Hefur þetta verið rætt? (Forseti hringir.) Veit hv. þm. Þuríður Backman til þess, þar sem hún hefur hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) í sínum ranni?



[22:19]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar síðustu spurninguna vísa ég til félags- og tryggingamálanefndar þar sem þetta hefur verið rætt. Hvað varðar málið í heild á það sér nokkurn aðdraganda. Oft er erfitt að vinda ofan af hlutunum þegar þeir eru komnir af stað. Upphafið er í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks árið 2007, það speglar inn í fjárlög þessa árs og heldur svo áfram að spegla inn í fjárlög 2010 með flutningi hjúkrunarheimilanna.

Ég get líka lýst því yfir að ég hef áhyggjur af því að hafa ekki fengið betri upplýsingar um þá sýn sem þeir sem að þessu standa hafa til þeirra langlegusjúklinga sem yngri eru og til alzheimersjúklinga sem eru inni á þessum heimilum. Jú, ég hef af því nokkrar áhyggjur (Forseti hringir.) og eins hvað varðar fjölda hjúkrunarrýma sem ég tel að sé vel í lagt.



[22:20]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún sagðist vilja endurreisa atvinnulífið og verja velferðarkerfið. Nú vil ég spyrja hana: Er ráð að endurreisa atvinnulífið með sköttum sem nánast allir umsagnaraðilar mótmæltu, bæði í umsögnum og viðtölum í hv. efnahags- og skattanefnd, bæði hraðanum og sérstaklega flækjustiginu? Hún vill verja velferðarkerfið en ég spyr: Er það gert með tilviljunarkenndum skerðingum? Rekstrarkostnaður heilbrigðisráðuneytisins sjálfs, aðalskrifstofunnar, hefur t.d. aukist um 8,5% og á sama tíma á að skerða háskólasjúkrahúsið og víðar í kerfinu. Á sama tíma er ekki einu sinni færður kostnaður við tónlistarhúsið sem nú heitir Harpa, svo ég tali nú ekki um Icesave. Fyrir vextina af Icesave mætti byggja eitt sjúkrahús á ári og fyrir verðbæturnar á þessu eina ári, sem eru 100 milljarðar, mætti byggja tvö sjúkrahús.



[22:22]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég hlusta á nokkra þeirra hv. þingmanna sem vilja alls ekki að við semjum um Icesave finnst mér, eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, (Gripið fram í.) eins og við hefðum bara þessa peninga. Við þurfum að ganga frá Icesave og þetta hverfur ekki. Við þurfum að leggja á aukna skatta. Hver vill fá aukna skatta? Það vill enginn aukna skatta en hvernig ætlar hv. þingmaður að afla tekna, fá meira fjármagn inn í ríkissjóð? Það er gert með sköttum. Það sem þessi ríkisstjórn ætlar að standa vörð um er að verja þá sem eru á lægri launum, verja þá sem eru viðkvæmastir fyrir og reyna í lengstu lög að verja velferðarþjónustuna. Það gerum við með réttlátari sköttum en ekki með því að lækka skatta á þá sem hafa hæstu tekjurnar eins og ríkisstjórn hv. þingmanns gerði meðan hún var við stjórn.



[22:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að flutt hefur verið breytingartillaga hér á Alþingi um að skattleggja séreignarsparnað sem gerði alla þessa skattahækkanir óþarfar. Meira að segja á lágtekjufólkið. Verðtrygging á persónuafslætti mundi halda áfram og 2.000 kr. mundu bætast við hann um áramót, allt óbreytt og á þessu ári yrði eingöngu skattlagður séreignarsparnaður. Það gefur atvinnulífinu byr til þess að það sé tilbúið að borga kannski hærri skatta árið 2011. Að mati flestra verður árið 2010 erfiðasta árið fyrir atvinnulífið og heimilin en það má vel vera að ríkisstjórninni takist að keyra atvinnulífið og heimilin í kaf.



[22:24]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mætti halda að við keyrðum hér allt í kaf, flyttum öll úr landi og mundum ekki einu sinni líta til baka. (Gripið fram í.) Hér er allt í kaldakoli og allt að fara til fjandans, svo ég noti sterk orð og blóti í ræðustóli hæstv. Alþingis. Menn tala eins og þeir heyri ekki þær tölur sem koma fram um minna atvinnuleysi og betri stöðu ríkissjóðs en búist var við. Núverandi ríkisstjórn er að reyna að koma á réttlátara skattkerfi. Við sjáum ekki ljósið í séreignarsparnaðinum einum saman. Við sjáum ekki að allt verði óbreytt eins og árið 2007 með því að koma á skatti á séreignarsparnað einum saman. Þar greinir okkur á um leiðir. Gefið okkur tækifæri (Forseti hringir.) til að bera ábyrgð á þeirri leið sem við viljum (Forseti hringir.) fara.



[22:25]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið og leiðrétta það hjá hv. þingmanni og biðst undan því ef á að gera okkur sjálfstæðismenn að guðfeðrum og -mæðrum þess að flytja heilbrigðisþjónustuna í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Allir sem kunna að lesa geta séð að heilbrigðisþjónusta var alltaf undanskilin þegar talað var um að flytja málefni aldraðra á milli. Ég rétt leyfi mér að vona að hv. þingmenn í stjórnarliðinu fari rétt með það.

Virðulegi forseti. Hér er verið að tala um forgangsröðun og að reyna að halda uppi þjónustunni. Ég veit að hv. þingmaður ber hag heilbrigðisþjónustunnar fyrir brjósti. Ég heyri að hv. þingmaður ætlar að gefa eftir varðandi heilbrigðisþjónustuna í félags- og tryggingamálaráðuneytið en þá spyr ég varðandi kragaverkefnið. Þar er nú enn og aftur búið að reikna út og skoða málið. Þessi ríkisstjórn er búin að skoða það núna í 11 mánuði í samráði við alla aðila eftir því sem maður best veit. Það kemur í ljós að við getum haldið uppi (Forseti hringir.) sömu þjónustu og sparað gríðarlega fjármuni. Hvað finnst hv. þingmanni um þá leið, hvað ætlar hv. þingmaður (Forseti hringir.) að gera með það?



[22:26]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verkefni sem fyrrverandi forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss vann að, hið svokallaða kragaverkefni, var mjög góð vinna og greining. Í framhaldi af þeirri skýrslu og úttekt á tillögum var unnin, eins og ég lýsti áðan, kostnaðargreining og kortlagning sem mun nýtast hæstv. heilbrigðisráðherra mjög vel til að vinna áfram að skipulagsbreytingum, ekki bara á þessu svæði heldur eftir því sem tilefni er til úti um allt land. Þótt kragaskýrslan hafi sýnt ákveðna hagræðingu við ákveðinn flutning er það ekki gert bara einn, tveir og þrír eins og hv. þingmaður veit. Það þarf aðdraganda (Forseti hringir.) og aðlögun og að því verður unnið, hvort sem það verður einmitt á þennan hátt eða annan.



[22:27]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að þessu kragaverkefni er aðdragandi og búinn að vera í rúmlega ár. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann eftir allan þennan undirbúning ekki tilbúinn til þess að fara í þessa nauðsynlegu hluti og þar af leiðandi halda uppi þjónustustiginu, því allt snýst þetta um þjónustuna. Þetta snýst um sjúklingana. Nei, þess í stað skal fara í flatan niðurskurð, því ég heyri á hv. þingmanni að það á ekkert að gera í þessum fjárlögum. Það er þá sem þarf að gera það. Á móti kemur að hv. þingmaður er tilbúinn til þess að henda heilbrigðisþjónustunni yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið á einni nóttu. Ekki er búið að ræða eitt einasta orð við forustumenn eldri borgara. Ég veit að þegar við hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sátum með forustu þeirra samtaka var allt í lagi en þegar kemur að því að bjarga þjónustunni, að bjarga sjúklingunum — hægt er að færa rök fyrir að sá undirbúningur hafi staðið yfir í mörg ár og í það minnsta verið mjög mikill undanfarið ár — á ekkert að gera í því.



[22:29]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær fjárupphæðir sem vitnað er til sem á að vera hægt að ná með því að koma kragaverkefninu á nákvæmlega eins og það var lagt fram standast ekki alveg þegar þær eru skoðaðar betur. Sú kostnaðargreining sem var gerð núna miðast við árið 2008. Á þessu eina ári, 2009, og í þeim hagræðingarkröfum sem gerðar hafa verið hefur margt breyst. Samanburðurinn er því ekki sá sem kragaverkefnið miðaðist við. Nú þegar hefur verið hægt að færa til 60 millj. kr. innan núverandi skipulags. Það er byrjunin. Það verður haldið áfram að skoða þetta út frá áframhaldandi kostnaðargreiningu á fleiri verkefnum og það verður á grundvelli þess sem ákvarðanir verða teknar um hvernig megi hagræða og skipuleggja heilbrigðisþjónustuna hér á höfuðborgarsvæðinu.



[22:30]Útbýting:

[22:30]
Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka fram við hæstv. forseta að ég gleðst yfir öllum skrefum sem tekin eru til þess að bæta hag íslensku þjóðarinnar. Ég gleðst yfir öllu sem vel er gert og sem vel hefur tekist til en í þessari ræðu ætla ég að leyfa mér að gagnrýna það sem misfarist hefur og ég tel vera gagnrýni vert af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Ég vonast til þess að ég geti flutt ræðu mína án þess að fá yfir mig endalaus sjónarmið um að maður sé alltaf með svartsýnisraus. Þetta vildi ég segja strax í upphafi.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort hann geti upplýst okkur um á hvaða leiðangri íslenska þjóðin er með þessa ríkisstjórn sem situr í þessu landi? Hvert erum við eiginlega að fara á Alþingi Íslendinga núna 14. desember? Í hvaða veruleika er verið að ræða fjárlög íslenska ríkisins árið 2010 í 2. umr.? Í hvaða formi er þetta fjárlagafrumvarp nú þegar það kemur inn í þingið til 2. umr.? Þegar fjárlögin voru lögð fram 1. október fannst mér okkur vera nokkur vandi á höndum að ræða það frumvarp sem fyrir lá. Við vorum með til umfjöllunar drög að frumvarpi þar sem stóra liði vantaði inn í og aðrir voru óútfærðir, allir tekjuliðir fjárlagafrumvarpsins voru óljósir og við vissum ekkert hvað um þá yrði eða hvaða tillögur hæstv. ríkisstjórn mundi koma með í kjölfarið til að útskýra þá. Síðan hafa þær tölur sem settar voru inn í tekjuhlið þessa fjárlagafrumvarps breyst gríðarlega, menn hafa horfið frá ákveðnum sköttum og gert breytingar á málinu og það hefur gerst afar seint.

Í þessu fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram 1. október var sú stefnuyfirlýsing kynnt að það skyldi leggja fram öll frumvörp sem um þetta mál fjölluðu fyrir miðjan nóvember. Mörgum þótti það nú harla seint að sex vikum eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins skyldi lokahnykkur lagður á að leggja fram nauðsynleg frumvörp til fyllingar fjárlagafrumvarpsins. Raunin hefur því miður orðið önnur því þær mikilvægu skattatillögur sem ríkisstjórnin boðaði voru ekki lagðar fyrir þingið fyrr en í byrjun desember og fóru síðan í kjölfarið til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þar sem ég hygg að sé ærið verkefni að fá botn í þær.

Í þessum veruleika tók hv. fjárlaganefnd fjárlagafrumvarpið út til 2. umr. í tvígang í síðustu viku. Í fyrra skiptið var komið í ljós að ekki var hægt að taka frumvarpið til umræðu vegna þess að tekjuhlutinn var í ósamræmi miðað við upphaflegu tillögurnar og því neyddist meiri hluti fjárlaganefndar til þess að taka málið aftur inn í nefndina og afgreiða það aftur. Það vafðist auðvitað ekki fyrir meiri hlutanum sem einhenti sér í það á 20 mínútum eftir að hafa heyrt sjónarmið fulltrúa efnahags- og skattanefndar, það sem ég vil kalla bráðabirgðaskoðun á skattahlið frumvarpsins. Enda kemur í ljós þegar nefndarálitin frá þessum þremur minni hlutum efnahags- og skattanefndar eru lesin að menn eru enn þá í miðju kafi að taka á móti gestum. Sumir fulltrúar í efnahags- og skattanefnd neyddust til þess að skrifa álit sín á miðjum fundum, gestir voru enn að streyma inn og umsagnir höfðu ekki borist. Með slíkar upplýsingar í farteskinu var ekkert vandamál fyrir meiri hluta fjárlaganefndar að afgreiða þetta mál til 2. umr. Þess vegna segi ég að staðan sé sú að við erum enn að ræða drög að fjárlagafrumvarpi en núna 14. desember erum við komin í 2. umr.

Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvað næsti dagur beri í skauti sér og eiga von á því að þetta fjárlagafrumvarp muni taka verulegum breytingum á milli 2. og 3. umr. Ég er nánast fullviss um að svo verði vegna þess að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar eru þess eðlis að hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að þurfa að taka ákveðnar ákvarðanir til þess að reyna að rétta þær ákvarðanir af. Það er náttúrlega ófært að við stefnum inn í árið 2010 með mun meiri halla en hæstv. fjármálaráðherra lagði upp með í sínu frumvarpi 1. október sl. Allt veldur þetta manni verulegum áhyggjum.

Enginn veit hvaða tíma það mun taka fyrir stjórnkerfið að koma þessum skattahugmyndum sem efnahags- og skattanefnd hefur hjá sér í framkvæmd. Ég verð bara að skrifa það á minn reikning, herra forseti, að ég skuli ekki skilja það. Ég á mjög erfitt með að skilja að ríkisstjórn sem ég hygg að ætli sér að sitja í fjögur ár þurfi að ráðast strax í allar þær hugsanlegu hugmyndir sem hún hefur haft á örfáum mánuðum. Mér finnst það mjög undarlegt. Ég hefði t.d. haldið að hvað varðar skattabreytingar og þrepaskipt skattkerfi, sem hefur verið áhugamál margra í þeim flokkum sem hér ráða ríkjum þótt Samfylkingin hafi reyndar ekki talað mikið um það í kosningunum í vor — hún talaði þeim mun meira um það í fyrri kosningabaráttu en það skilaði ekki tilætluðum árangri. Þess vegna hvarf hún frá því að ræða þetta þrepaskipta skattkerfi en var ekki fyrr komin í ríkisstjórn en farið var að tala um það. Það liggur svo óskaplega mikið á að koma þessu á að það þarf ekki að tala við nokkurn mann um það. Það þarf ekki að tala við aðila vinnumarkaðarins, það liggur náttúrlega fyrir enda sáum við í sumar í stöðugleikasáttmálanum að það borgar sig ekki að eyða allt of mörgum orðum í þá. Sama á við um embættismenn sem eiga síðan að glíma við þetta. Hvað með þá sem vinna í þessum fyrirtækjum um allt land og þurfa að breyta öllum sínum kerfum til að koma þessu á? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin vill ekki taka aðeins meiri tíma í þetta?

Ég er ekki mikill talsmaður skattahækkana og það þarf ekki að koma hæstv. forseta á óvart en ég held að ég hafi tekið fram í hvert einasta skipti sem efnahagsmál hafa verið til umræðu hér í þinginu á þessu kjörtímabili að sjálfstæðismenn hækkuðu skatta um síðustu áramót. Þeir hækkuðu tekjuskatta og neysluskatta og gerðu ýmsar skattalagabreytingar til þess að mæta þeim vanda sem að okkur steðjar. Við teljum þó jafnframt að lengra verði ekki gengið að sinni. Ég vil samt spyrja hæstv. ríkisstjórn, sem er mjög ákveðin í því að nauðsynlegt sé að skattleggja þjóðina, hvort það væri ekki ráð að reyna að gera það í núverandi kerfi og gefa sér ögn tíma og andrúm til þess að fara í þessar stórmerku breytingar á skattkerfinu sem boðaðar eru. Það má alveg nota árið 2010 í það. Hvers vegna liggur svona mikið á? Það mætti halda að ríkisstjórnin héldi að hún lifði árið 2010 ekki af út af þessu, að það þurfi að koma öllu að fram til áramóta. (Gripið fram í.) Það þarf að fara í stjórnlagaþing. Það þarf að fara í þjóðaratkvæði. Það þarf að fara í persónukjör. Það þarf að fara í þrepaskipt skattkerfi. Það þarf að gera allan andskotann, herra forseti. Ég biðst forláts, (Forseti hringir.) stundum hleypur manni kapp í kinn.

(Forseti (ÁÞS): Forseti tekur afsökunarbeiðni þingmannsins fyllilega til greina.)

(Gripið fram í: Af hverju gerðirðu það ekki við stjórnarþingmanninn áðan?)

Hæstv. forseti. Það er algjörlega ófært fyrir þessa ríkisstjórn að ætla sér að taka öll þessi mál til afgreiðslu, sem ég held að margar þjóðir mundu taka 10 ár í að gera, og gera það á örfáum mánuðum á sjálfri aðventunni. Þegar örfáir virkir dagar eru til áramóta á að keyra í gegn þessar óskaplegu breytingar. Ég ætla ekki að fara mikið út í það að þessu sinni en það fylgir eitt aukamál í farteskinu. Eitt lítið mál til viðbótar þarf að afgreiða, þetta svokallaða Icesave-mál sem hæstv. forseti segir að komi ekki því dagskrármáli við sem hér er til umfjöllunar. Ég fullyrði að Icesave-málið hefur afdrifarík áhrif á fjárlög íslenska ríkisins og er órjúfanlegur hluti af umræðu um fjárlög.

Mér hefur líka þótt ansi kúnstugt í vinnu fjárlaganefndar við þetta fjárlagafrumvarp að alltaf er okkur sagt að það borgi sig ekki að setja vexti út af Icesave inn í fjárlagafrumvarpið núna vegna þess að það sé ekki búið að samþykkja það. Síðan þegar spurt er hvers vegna alls kyns ákvæði í frumvörpum sem ekki hafa verið samþykkt séu sett inn í þetta fjárlagafrumvarp er það náttúrlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur þingmeirihluta og mun koma öllum málum í gegn sem varða þetta fjárlagafrumvarp. Þau fara öll í gegn, skattalagahugmyndirnar og breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Fæðingarorlofssjóði. Mér heyrist að í félags- og tryggingamálanefnd séu vöflur á mönnum um hvernig fara með skuli það. Það er náttúrlega sjálfsagt að hafa þetta allt með í fjárlagagerðinni vegna þess að ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta en þegar kemur að Icesave-málinu, ríkisstjórnarmálinu — þrátt fyrir að Alþingi hafi í sumar tekið ákvörðun um að þessar byrðar skuli lagðar á þjóðina með vissri lagasetningu er samt ekki hægt að setja það inn í fjárlagafrumvarpið vegna þess að ekki er búið að samþykkja lagasetninguna. Mér þykir þetta mjög athyglisvert og reyndar stórundarlegt. Auðvitað eru þessi fjárlög afskaplega ískyggileg þegar við bætum 40 milljörðum til viðbótar og það er ekki gaman á sokkabandsárum ríkisstjórnarinnar að kynna slík fjárlög en hjá því verður ekki komist. Hjá því munu menn ekki geta vikið sér, þannig er hlutunum háttað núna.

Mér er mjög hugstætt á hvaða leiðangri við erum með þetta. Ég held að þessi skoðun hafi heyrst áður en mikið óskaplega þætti mér vænt um ef við gætum reynt að komast að samkomulagi um einhverja hluti til þess að koma okkur lengra upp úr þessu. Ég hygg að sá vandi sem á íslensku þjóðinni hefur dunið á þessum stutta tíma hafi, þótt óveðursský hafi verið á lofti, komið mörgum svo í opna skjöldu að við erum enn þá í fárinu miðju og höfum ekki enn náð þeim þroska að tala saman þannig að það gagnist okkur Íslendingum. Það finnst mér mjög dapurlegt. Við eigum að halda áfram að reyna að koma því þannig fyrir að við náum samkomulagi um eitthvað sem til framþróunar er fyrir íslenska þjóð. Þess vegna segi ég og ætla að segja það aftur, frú forseti, að auðvitað gleðst maður yfir öllu því sem vel er gert, annað er ábyrgðarleysi. Á sama tíma hef ég þó fullt leyfi og fulla ástæðu til að gagnrýna þetta vinnulag sem hér ríkir á Alþingi. (Gripið fram í: Fara yfir það sem …)

Alls staðar þar sem ég hef rekist á umsagnir um þessi skattafrumvörp hafa menn gríðarlegar áhyggjur og þær eru réttmætar. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur miklar áhyggjur, frú forseti. Hann segir svo í pistli sem hann ritar á heimasíðu Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

„Í því samráði sem fram fór við undirbúning tekjulagafrumvarps ríkisstjórnarinnar lagði ASÍ áherslu á þrennt. Í fyrsta lagi að tekið yrði upp lægra þrep á lægri tekjur, í öðru lagi að hægt yrði að verja tímabundna frestun á verðtryggingarákvæði persónuafsláttar um ein áramót vegna upptöku lægra skatthlutfalls á lægri tekjur og í þriðja lagi að samkomulag ASÍ við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008 um sérstaka 7.000 króna hækkun persónuafsláttar í þremur áföngum héldi gildi sínu. Þótt ASÍ hefði viljað hafa lægsta þrepið einu prósentustigi lægra lýstum við því yfir, á grundvelli fréttatilkynningar ríkisstjórnarinnar, að komið hefði verið til móts við kröfur okkar varðandi útfærslu tekjuskattsins, enda hafði ekkert af þessum áformum verið kynnt sérstaklega. Nú hefur komið í ljós að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafi. Langtímaáhrifin af þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar eru ekki síður alvarleg. Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga — slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratugalanga hefð fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðugleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt er að það muni einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan við glímum við afleiðingar fjármálakreppunnar.“

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ég vona að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna leggi við hlustir. Ég hygg að þeir hafi gjarnan tekið orð þessa manns alvarlega og ég vona að þeir geri það líka núna. Ég vona svo sannarlega að í þeirri vinnu sem eftir er í efnahags- og skattanefnd reyni menn að gera þær lagfæringar á þessu sem hægt er og ég býst við að enn þá sé tími til að gera það. Það er tími fram til áramóta og menn eiga að nýta hann vel til þess að reyna að koma eins miklu lagi á þetta og hægt er.

Ég ætla að snúa mér að nokkrum atriðum sem varða þetta fjárlagafrumvarp og hvernig vinnu þess hefur verið háttað. Mig langar í fyrsta lagi að nefna að við þessar aðstæður sem nú eru hefði verið ástæða fyrir ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra til að meta sérstaklega hvaða verkefni það eru sem ríkið þarf að sinna og hvaða verkefnum það þarf ekki að sinna, fara í svokallaða núllstillingu á fjárlagagerðinni. Þetta hefur verið rætt hér áður í tíð fyrri ríkisstjórna. Það hefur ekki tekist að fara í slíka vinnu en ég hygg að þegar svo mikill samdráttur er í þjóðartekjum sem nú er — það er oft á tímum umbreytinga að slíkir hlutir eru skoðaðir — sé ástæða til þess að skoða hvað sé nauðsynlegt fyrir ríkið að gera og hverju sé hægt að fresta. Á þessum stutta tíma sem fjárlagagerðin hefur í þinginu frá 1. október gefst ekki mikið tækifæri til að fara í slíka vinnu. Það þarf að hefja þessa vinnu, frú forseti, strax í upphafi árs. Það er mjög brýnt að menn átti sig á því hvaða hlutum er hreinlega hægt að sleppa tímabundið, hvað er hægt að sameina, hvaða verkefni er hægt að færa frá ríkinu og hvað er hægt að gera til að draga saman.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessum halla sem hefur vaxið hjá okkur. Við höfðum gert ráð fyrir því að árið 2010 yrði þyngsta hallaárið í rekstri ríkissjóðs en því miður eru skýrar vísbendingar um að árið 2011 muni verða okkur fjarska þungbært. Í því sambandi held ég að það sé nauðsynlegt að menn fari nú í þann nauðsynlega sparnað í ríkisrekstrinum sem óumflýjanlegur er. Menn reyndu að skera niður töluvert fyrir árið 2009 en hugðu á meiri niðurskurð á árinu 2010. Þetta fjárlagafrumvarp ber það með sér, og þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert, að það er ekki verið að skera nægilega niður í rekstri ríkissjóðs. Það er verið að taka hluti af sem eru svokallaðar einskiptisaðgerðir, það leiðindaorð, en ekki er tekið á í rekstri ríkissjóðs. Það eina sem gerist ef menn draga þetta er að það verður sársaukafyllra og sársaukafyllra. Það er miklu betra að fara í þetta fyrr en síðar.

Ég get sagt fyrir hönd okkar fulltrúa sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd að við erum reiðubúin til slíkra verka. Við höfum lagt fram breytingartillögu milli umræðna þar sem lagt er til að farið verði í frekari niðurskurð á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins um átta milljarða króna og viljum þar með leggja inn milli umræðna hvort hægt sé að ná slíkum sparnaði fram. Ég er þess fullviss að það er hægt. Ég veit að þetta eru ekki vinsælar aðgerðir en það er engin vinsældakeppni í gangi og ég held að enginn í þessum sal telji að svo sé. Mjög mikilvægt er að menn einhendi sér nú í að fara í þessar nauðsynlegu sparnaðaraðgerðir. Það eina sem gerist ef menn ganga ekki nógu langt núna er að gríðarlega erfitt verður að semja fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011. Þá verða menn jafnvel búnir að hækka skattana gríðarlega á grundvelli þessara skattahugmynda en hafa ekki tekið nógu vel á í niðurskurðinum og þá ætla menn kannski að snúa sér að þeim tillögum sem sjálfstæðismenn hafa haft um skattlagningu á séreignarsparnað. Það held ég sé öfug röð. Það þarf að gera þetta núna og snúa þessari röð við. Við þurfum að fá súrefni inn í íslenskt atvinnulíf og það þarf að nýta þá fjármuni sem eru til staðar til þess að ná þeim árangri. Við höfum líka lagt fram okkar tillögur um séreignarsparnaðinn og að það verði sú aðgerð sem verði farið í á tekjuhliðinni. Auk þess leggjum við til ýmiss konar minni aðhaldsaðgerðir til þess að reyna að mæta þeim vanda sem að okkur steðjar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þær í þessari ræðu, til þess er tíminn of skammur, en ég held að ástæða sé til að nefndin gefi sér tíma á milli 2. og 3. umr. til þess að fara yfir alla hugsanlega möguleika sem fyrir hendi eru til þess að auka sparnað hjá ríkissjóði þannig að við getum betur tekist á við þennan vanda.

Það eru nefnilega blikur á lofti, frú forseti. Það eru blikur á lofti í heiminum og á Íslandi. Við höfum ekki séð alveg fyrir endann á þessum vanda. Mér hugnast mjög illa þær fréttir sem berast frá sveitarfélögum í landinu og það veldur okkur verulegum áhyggjum á næsta ári ef svo fer fram sem horfir að sveitarfélögin á Íslandi muni lenda í vaxandi greiðsluvanda. Það voru slæmar fréttir að heyra að Álftanes skuli vera komið í þennan mikla greiðsluvanda. Þetta mun skila sér beint inn í Lánasjóð sveitarfélaga og þarna er vandi sem þarf að taka á. Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt að verið sé að leggja álögur á sveitarfélögin, gríðarlega þungar álögur í tryggingagjaldi og fleiri hlutum. Það var ekki rætt við sveitarfélögin um hvernig menn ætli að mæta þessu. Hins vegar hafa borist spurnir af því, og það kom reyndar fram í virðulegri fjárlaganefnd, að hæstv. fjármálaráðherra hygðist mæta þessu með einhverjum hætti en þær tillögur hafa bara ekki komið fram. Komið hefur fram í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga að þar eru menn furðu lostnir yfir þessu öllu saman. Menn eru furðu lostnir yfir að lesa fréttatilkynningar frá ríkisstjórnarheimilinu vegna þess að enginn veit hvað kemur næst. Menn eru alltaf að láta sér detta eitthvað nýtt í hug. Skattar á heitt vatn, skattar á þetta og skattar á hitt, allt án þess að talað sé við nokkurn mann. Það er afskaplega dapurlegt. Ég hélt á tímabili að þetta snerist bara um að tala ekki við stjórnarandstöðuna en það hefur komið í ljós að það er ekki bara stjórnarandstaðan sem ekki er ástæða til að tala við heldur einnig hálft atvinnulífið og sveitarfélögin í landinu.

Það er ekki hægt að halda svona áfram, frú forseti. Þessu þarf að breyta og hæstv. ríkisstjórn verður að taka höfuðið upp úr sandinum, líta í kringum sig og fara að tala við fólk. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson orðaði það skemmtilega í dag þegar hann sagði að ríkisstjórnin ætti kannski að hafa samráð við skattgreiðendur þegar spurt er að því hvernig samráði við lífeyrissjóði hafi verið háttað. Ég segi þetta til gamans en líka með ákveðna alvöru í huga vegna þess að þegar menn ætla að fara í byltingarkenndar breytingar á þjóðfélaginu á örskammri stundu verður það ekki gert — í alvöru talað á ekki að gera það en ef menn ætla að reyna það er lágmark að þeir sem málið varðar fái upplýsingar um málið áður en þeir lesa um það í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Ég held líka að ýmislegt þurfi að laga í þessari fjárlagagerð. Mér þótti mjög athyglisvert að hv. þm. Guðbjartur Hannesson skyldi lýsa því yfir í Morgunblaðinu í dag að hér hefði farið fram glimrandi góð fjárlagavinna og sjaldan hefði vinnan verið jafnvönduð og nú. Hann virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að við erum bara með hálft frumvarp. Ég held að það sé ástæða til þess að benda á ákveðna þætti sem þarf að laga í þessari fjárlagagerð og ég hygg að menn hefðu átt að vera búnir að því fyrir löngu. Ég tel að við sjálfstæðismenn hefðum átt að gera það þegar við vorum í ríkisstjórn. Það var ekki gert en það breytir ekki því að þetta þarf að breytast, þ.e. hvernig haldið er á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Þingsköpin gera ráð fyrir því að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sé send til hv. efnahags- og skattanefndar til umræðu og meðferðar. Hv. efnahags- og skattanefnd fær síðan til sín sérfræðinga til þess að meta tekjuhlið fjárlaga heildstætt en á gjaldahliðinni er engin slík heildstæð athugun gerð. Á gjaldahliðinni hefur sú hefð skapast að fjárlaganefnd tekur á móti gestum sem jafnan fara fram á ákveðnar breytingar á fjárveitingum en það er ekki gerð heildstæð athugun á gjaldahlið frumvarpsins. Ég held að þarna sé ástæða fyrir menn að breyta um verklag. Ég held að menn ættu með nokkuð sambærilegum hætti og gert er á tekjuhliðinni að rýna gjaldahliðina í heild sinni og fá sérfræðinga, hvort sem er úr háskólasamfélaginu eða greiningarfyrirtækjum eða hvernig sem það verkast til, til þess að fara yfir og meta gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins og ríkisins í heild sinni. Undir slíka vinnu gæti fallið þetta sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, að menn velti fyrir sér hvert hlutverk ríkisins sé á einstökum sviðum. Hvort fjármunum ríkisins sé varið með sambærilegum hætti og hvort hægt sé að gera einhverjar lagfæringar til hagsbóta fyrir ríkisreksturinn. Ég held að við þurfum að gera breytingar á þessu fjárlagaferli og fá fram betri vinnubrögð og meiri rýningu en verið hefur.

Ég hygg líka að það sé bráðnauðsynlegt að framkvæmd fjárlaga verði með öðrum hætti en verið hefur. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við framkvæmd fjárlaga og athugasemdir Ríkisendurskoðunar fyrir fyrstu 10 mánuði þessa árs liggja fyrir. Síðan kemur Ríkisendurskoðun og endurskoðar ríkisreikning. Hún lýkur ekki þeirri endurskoðun fyrr en á miðju ári en í lok ársins koma alls konar athugasemdir um ríkisreikninginn eftir að Ríkisendurskoðun hefur áritað reikninginn. Ég held að þarna þurfi líka að gera lagfæringar. Mér finnst þetta mjög einkennilegt vinnulag. Hvernig stendur á því að komið er með athugasemdir um ríkisreikninginn í lok árs þegar löngu er búið að árita hann? Reyndar finnst mér of seint að koma með þær í júní en þetta keyrir nú um þverbak. Ég er ekki að skammast út í Ríkisendurskoðun með þetta, ég veit að þar leggja menn sig fram. Ég er einvörðungu að benda á þetta vegna þess að þarna hefur viðgengist verklag sem þarf að taka til athugunar. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að snúa sér að þessu. Í stað þess að snúa þjóðfélaginu við á nokkrum vikum ætti hún að einbeita sér að verkefnum sem eru þess eðlis að hægt væri að ráða við þau á þessum tímum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir eftirlitshlutverk þingsins að menn fari betur yfir framkvæmd fjárlaga. Ég vil líka sjá að fjárlaganefnd fari yfir hvernig gangi mánaðarlega, að við fáum að vita fyrir hvern mánuð hvernig rekstur ríkisins gengur. Ég vonast til þess að ríkisstjórn samráðsins muni nú snúa sér að þessu verkefni og ég held að stjórnarandstaðan verði reiðubúin til að leggja henni lið vegna þess að þarna er um að ræða hluti sem munu gagnast okkur. Það er nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að hafa góða tilfinningu fyrir því sem er að gerast í ríkisrekstrinum. Alþingi hefur veigamiklu hlutverki að gegna varðandi þetta og þessi knappi tími sem hefð er fyrir að fjárlagagerðin taki í lok ársins er ekki til þess að vekja manni von í brjósti um að þetta gangi allt ljómandi vel. Það er líka nokkuð sem ég hef verulegar áhyggjur af, frú forseti, í þessu verklagi sem hér er undir.

Gallar í lagasetningu eru alltaf fyrir hendi. Það er alltaf hætta á að það komi fyrir villur í lagasetningu og menn hafa alltaf töluverðar áhyggjur af því að það geti orðið en sú óvissa sem nú er uppi veldur manni verulegum áhyggjum um að það verði villur í þeirri lagasetningu sem nú er fram undan. Það er ekki búið að rýna þessa hluti enn þá. Vitum við að við fáum þá skatta út úr þessu sem að er stefnt? Erum við viss um að það sé búið að rýna þessar greinar þannig að þar séu engar villur og ekkert rekist á? Það þarf að gefa sér nánari tíma í þetta. Þetta kerfi sem á að vera með hér, þrepakerfi og eftirágreiðsla skatta — reynslan kennir okkur að heimturnar eru ekki eins góðar með svona kerfi. Væri ekki ágætt fyrir hæstv. ríkisstjórn að skoða þetta nánar og koma síðan á næsta ári með þessar tillögur fullbúnar og tilbúnar en fara frekar í að nýta núverandi skattkerfi og hækka þá bara skattana, vegna þess að ég veit að hún hefur áhuga á því? Hún getur gert það algjörlega sjálf og óstudd og þarf ekki aðstoð við það. Það væri mun betra ef menn færu í slíka hluti.

Milli umræðna voru gerðar breytingar á sjóðstreymi ríkissjóðs og þær voru gerðar rétt áður en málið var tekið og afgreitt út úr fjárlaganefnd. Þarna er um að ræða tölur í sjóðstreymi sem eru lykilkennitölur í ríkisreikningnum. Það er afskaplega vont að þetta skuli hafa verið gert með svona litlum fyrirvara. Ég hef samúð með því að það sé hreyfing á tölum ríkissjóðs um þessar mundir. Ég hef skilning á því að það sé ið á hlutunum en ég held að þrátt fyrir það geti ekki legið svo mikið á í afgreiðslu fjárlaganefndar að það megi ekki gefa sér sólarhring til þess að ígrunda þær tölur sem fram koma þannig að menn geti betur gert sér grein fyrir afleiðingunum. Þetta gerði náttúrlega að verkum að það var nokkuð snúið fyrir minni hluta fjárlaganefndar að koma saman nefndaráliti sem væri þess eðlis að við gætum verið stolt af því að leggja það fram og það hefði einhverjar tillögur í för með sér. Það var nokkuð erfitt þegar tölur frá ríkisstjórninni bárust svo seint sem raun bar vitni. Samt sem áður var það veruleikinn hjá okkur í þetta skiptið en ég vonast til þess að þetta muni ekki ganga svona mikið lengur. Ég ætla samt að ítreka þær áhyggjur sem ég hef af árinu 2011 þegar svona skammt er gengið í þessu núna. Við megum ekki horfa upp á að hallinn verði meiri en orðið er. Það þarf að grípa í taumana.

Mig langar í lokin, virðulegi forseti, að nefna heimildarákvæði fjárlagafrumvarpsins. Ég var ekki komin á þessa virðulegu samkomu þegar ákvarðanir voru teknar um tónlistarhúsið en ég veit að það hefur verið verulega gagnrýnt að heimildarákvæðin séu notuð þannig að stórar fjárskuldbindingar ríkisins séu settar inn í 6. gr. ákvæðið. Ég hygg að þetta sé réttmæt gagnrýni og ég tel líka að það sé ástæða fyrir þá sem hafa gagnrýnt það mjög að láta af slíku verklagi og gera sér grein fyrir hvaða fjárskuldbindingar ríkið tekur á sig þegar um er að ræða 6. gr. ákvæði. Ég nefni þetta vegna þess að ég get ekki betur séð en að um sé að ræða verulegar væntanlegar fjárskuldbindingar út af Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Það þarf að fá betri skýringar á því á milli umræðna hvaða skuldbinding þarna er að baki og jafnframt hvort ekki þurfi að gera grein fyrir því í frumvarpinu sjálfu en láta það ekki standa í heimildargrein. Ég held að við verðum að komst út úr þessu vinnulagi aftur og þótt menn hafi einhvern tímann tekið ákvarðanir sem orka mjög tvímælis skulum við reyna að koma í veg fyrir að slíkar ákvarðanir séu teknar slag í slag. Ég held að við öll hér inni hljótum að vera sammála um það.

Að lokum vonast ég til þess að sú vinna sem hv. fjárlaganefnd fer í núna á milli 2. og 3. umræðu verði árangursrík og að menn geti reynt að ná saman um að bæta úr þessu frumvarpi. Ég vona einnig að þegar hv. efnahags- og skattanefnd lýkur sinni umfjöllun um tekjuliði frumvarpsins höfum við í hv. fjárlaganefnd tækifæri til þess að fjalla um það mál og gera síðan grein fyrir því hvað það merkir en það sé ekki drifið í hasti inn í 3. umr., þessi mikilvæga lagasetning sem fjárlagafrumvarp og fjárlög ríkisins eru. Hér er um að ræða stefnumarkandi plagg af hálfu hverrar ríkisstjórnar. Það er auðvitað ekkert launungarmál að stjórnarandstaðan er ekki sammála þeirri stefnumótun sem þarna kemur fram, enda snýst málið ekki um það. Þetta er stefnumótandi plagg. Það þarf að gefa því mikinn tíma og það þarf að þroskast. Þær tillögur sem þar liggja fyrir þurfa að fá umræðu í hv. fjárlaganefnd þannig að menn geti komist að vitrænni niðurstöðu um hvernig málinu skuli fram halda.



[23:04]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágætar ábendingar um ýmislegt sem betur mætti fara í vinnubrögðum. Ég vek þó um leið athygli á því að sú mikilvæga nýbreytni var tekin upp í sumar að lögð var fram í þinginu áætlun til nokkurra ára, um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, grundvallargagn við hagstjórn í landinu. Kallað hefur verið eftir því árum saman að slíkt plagg liggi fyrir, þ.e. langtímaáætlun í ríkisfjármálum, og það er mikið fagnaðarefni að það liggur fyrir.

Hvað varðar áhyggjur af vinnunni í efnahags- og skattanefnd er hægt að upplýsa hv. þingmann um að nefndin hefur lokið gestakomum vegna þeirra mála sem hér um ræðir. Það er mitt mat og meiri hlutans að málin séu í öllum aðalatriðum með þeim hætti að þau muni ná fram að ganga og allar líkur séu á því að þær áætlanir sem liggja fyrir um tekjuöflun muni einnig ganga eftir. Þó verður að hafa í huga að við búum við mjög óvisst umhverfi. Ég tel líka að í frumvarpinu felist mjög miklar og jákvæðar framfarir, m.a. í jöfnun á skattbyrðinni, og gríðarlegur áfangi næst í því að brúa það gat sem hér er.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er sú að hv. þingmaður er sá eini sem ég man eftir úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem gengst við því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi líka hækkað skatta. (Gripið fram í.) Ég stóð að því að hækka skatta með Sjálfstæðisflokknum í desembermánuði. Þá átti Sjálfstæðisflokkurinn ekki í neinum sérstökum vanda með vinnubrögðin eða hraðann sem málin þurftu að fara í gegn á, eða með það að hækka þyrfti skatta í kreppu. Það er áleitin spurning hvort afstaða Sjálfstæðisflokksins hafi helgast af því að þá var flokkurinn í meiri hluta og (Forseti hringir.) þurfti að axla ábyrgð. Málflutningur hans hér er þá ósköp hefðbundin íslensk stjórnarandstaða, að vera á móti til að vera á móti, í algeru ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum.



[23:06]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þm. Bjarni Benediktsson hafi lýst því yfir í ræðustól, gengist við því eins og hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hækkað skatta í desember. Mér er ekkert að vanbúnaði að gangast við þeim skattahækkunum. Ég get upplýst að sumum okkar var þungbært að þurfa að gera það en að mati flokksins var nauðsynlegt að fara í slíkar hækkanir við þær aðstæður sem uppi voru.

Það hefur jafnframt verið skoðun okkar að ástæða sé til að leita annarra leiða núna vegna þess að við hækkuðum skatta um síðustu áramót, vegna þess að við hækkuðum tekjuskatta, vegna þess að við hækkuðum álögur á bensín og fleiri hluti — við værum sem sagt komin að ákveðnum þolmörkum með skattahækkanir og teldum ástæðu til að leita annarra leiða til að afla tekna í ríkissjóð. Við höfum bent á ákveðna leið sem hv. þm. Helga Hjörvari er vel kunnugt um — ég vil taka það fram að hann hefur verið mjög jákvæður gagnvart þeirri hugmynd að skoða séreignarsparnaðinn og mér þykir gott að hafa fundið það hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir sem þarf að taka við þessar aðstæður. Ég vil svara því til að ég tel að þær breytingartillögur sem sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd hafa lagt fram, og ég get nefnt tillögur um að ganga þurfi lengra í að skera niður í ríkisútgjöldum, beri ekki vott um einhverja vinsældakeppni af hálfu þingmanna flokksins. Það væri kannski auðveldara að koma með tillögur sem gengju í þveröfuga átt. Það gerum við ekki. Við komum þvert á móti með tillögur um að hægt sé að fara í frekari sparnað og bendum á aðrar leiðir í tekjuöflun. Ég get því ekki verið sammála hv. þm. Helga Hjörvar um þetta atriði.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir upplýsingar um þá vinnu sem unnin hefur verið í efnahags- og skattanefnd. Það er mikilvægt að heyra að það gangi vel. Ég vona jafnframt, frú forseti, að tekið verði tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem þar hafa komið fram hjá umsagnaraðilum.



[23:09]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mér sönn ánægja að lýsa enn og aftur ánægju minni með að Sjálfstæðisflokkurinn hafi flutt tillögur bæði á tekju- og gjaldahliðinni. Ég held að það sé sannarlega lofsvert í þeirri vinnu sem við erum í að það komi einfaldlega fram málefnalegar tillögur af því tagi og hægt sé að taka þær til umfjöllunar. Ég hef tekið, eins og hv. þingmaður vekur athygli á, með jákvæðum hætti undir ýmislegt í því.

Það sem hins vegar truflar mig í þessu er að þolmörkin í skattahækkunum virðast ákaflega mikið vera bundin við það hvort flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þegar ég starfa með honum í meiri hluta er honum ekkert að vanbúnaði að hækka tekjuskatta eða vörugjöld á bensín, vörugjöld á tóbak eða vörugjöld á áfengi. En þegar hann skiptir um og er kominn í minni hluta verða allt í einu til mikil þolmörk og allsendis ófært að hækka tekjuskatta eða vörugjöld á áfengi, tóbak eða bensín. Þá eru komin fram ýmis sjónarmið sem þeir hreyfðu býsna lítið þegar þeir þurftu að axla þá ábyrgð að vera í meiri hluta. Þó að ég hafi tekið með jákvæðum hætti í tillögur um skattlagningu á séreignarsparnaði sem hluta af þeim úrræðum sem við gætum þurft að ráðast í í því gríðarstóra verkefni sem við eigum fyrir höndum í ríkisfjármálum finnst mér það óásættanlegt af stærsta flokknum í stjórnarandstöðu að leggjast gegn öllum öðrum hugmyndum um tekjuöflun ríkissjóðs.

Það er algerlega ljóst að tekjugrunninn sjálfan verður líka að styrkja til framtíðar og skattlagning á séreignarsparnað er bara einskiptisaðgerð. Mér finnst að flokkurinn verði að kynna það í hvaða varanlega tekjuöflun hann er tilbúinn að ráðast, á hvaða öðrum sviðum, til að tillögur hans megi teljast heildstæðar um leið og ég fagna auðvitað að því marki sem flokkurinn hefur gert tillögur.



[23:11]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að áherslumunur og ágreiningur sé á milli sjálfstæðismanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar kemur að þessum þáttum í ríkisrekstrinum, hvernig leggja eigi álögur á menn og hvernig eigi að auka verðmætasköpun hverju nafni sem hún nefnist í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að sú kreppa sem er á Íslandi, sem hefur reynst okkur ansi erfið og verið býsna djúp, valdi því að okkur eru miklar skorður settar í því hvernig við leggjum álögur á Íslendinga. Margir hafa gagnrýnt það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað skatta þegar slátturinn var sem mestur, það hafi ekki verið góð hagfræði að gera það. Þvert á móti eigi menn að hækka skatta þegar slátturinn er mikill í samfélaginu, þetta var gagnrýnt á sínum tíma.

Ég segi á móti: Við skulum þá ekki gera sömu mistökin tvisvar. Þegar að kreppir segir hagfræðin okkur að við eigum einmitt að lækka skatta en ekki hækka þá. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ekki er borð fyrir báru með það við þær efnahagsaðstæður sem eru á Íslandi þegar ríkissjóður er í þessum mikla vanda. En menn geta a.m.k. reynt að koma í veg fyrir stórfelldar skattahækkanir við þessar aðstæður sem gera ekkert annað en það að taka frekara súrefni úr efnahagslífinu, bæði inni á heimilunum og eins hjá fyrirtækjunum.

Ég hygg líka að þessar skattahækkanir verði þungbærar þeim fyrirtækjum sem síst skyldi en það eru minni og meðalstór íslensk fyrirtæki. Það eru einu sinni þau sem eru burðarásinn í íslensku efnahagslífi. Þar er fjöldi fyrirtækjanna, þar eru tekjurnar og við verðum að athuga hvernig því er háttað.



[23:13]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um fjárlagagerð fyrir næsta ár. Fjárlaganefnd hefur fundað stíft undanfarið og allt frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram. Eins og formaður nefndarinnar kom inn á fyrr í dag voru haldnir 38 fundir í nefndinni, 900 erindi tekin til afgreiðslu og 338 gestir komu á fund nefndarinnar. Ég er nýr þingmaður og þetta voru fyrstu fjárlögin sem ég tek þátt í og var á margan hátt mjög fróðlegt að taka þátt í þeirri vinnu. Eðlilega var margt sem manni fannst að betur mætti fara en auk þess var margt sem maður taldi í fyrstu að ætti að vera öðruvísi en komst síðan að raun um að var ágætlega fyrir komið eins og það var. Starfið hefur verið mjög gott í nefndinni og í alla staði gengið vel.

Áður en ég fer nákvæmlega yfir fjárlögin held ég að við verðum að byrja á því að fara í helstu forsendur sem liggja til grundvallar í frumvarpinu. Ef við skoðum árið í ár, sem er grunnurinn sem við þurfum að vinna út frá, verður fjárlagahallinn líklega 153 milljarðar, sem er þá það gat sem við þurfum að brúa. Áætlað er að útgjöld ársins verði 569 milljarðar og heildargjöldin 459 milljarðar. Gatið er þá 153 milljarðar og unnið er eftir áætlun sem kynnt var fyrr í sumar um jöfnuð í ríkisfjármálum sem er unnin af ríkisstjórninni ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sú áætlun gerir ráð fyrir því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum árið 2013. Byrjað var á þessum aðgerðum í sumar þar sem teknir voru 20 milljarðar til að leitast við að skila árinu 2009 hallalausu. Síðan er gert ráð fyrir 56 milljörðum og 43 og svo trappast það niður.

Það er annað sem einnig hefur verið rætt í fjárlaganefnd og þarf klárlega að taka á, hvort sem það verður eingöngu gert í fjárlaganefnd eða einnig af Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum, en það er að hafa þarf miklu strangara eftirlit með fjárlögum og koma í veg fyrir framúrkeyrslu eins og verið hefur undanfarin ár þar sem ævinlega hefur verið hægt að leiðrétta þetta í fjárauka þar sem nóg hefur verið aflögu. Á þessu þarf að taka og þetta þarf að koma í veg fyrir og hefur það verið rætt í fjárlaganefnd að hún muni í auknum mæli koma að þeirri vinnu.

Það vekur sérstaka furðu að hlusta á umræðuna og þá sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sem farið hafa mikinn og gagnrýnt ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana fyrir það frumvarp til fjárlaga sem nú er verið að ræða. Svo virðist sem þessir flokkar séu algerlega búnir að gleyma því að þeir voru í ríkisstjórn og þau fjárlög sem verið er að ganga frá núna eru einfaldlega afleiðing þeirrar nýfrjálshyggju sem ríkti undir þeirra stjórn og þess algera stjórnleysis sem ríkt hefur á íslenskum fjármálamörkuðum undanfarin ár og við erum að súpa seyðið af.

Ég ætla að fara örstutt yfir tekjuhlið frumvarpsins og að því loknu ætla ég að fara í gjaldahliðina. Gert er ráð fyrir að fara blandaða leið þar sem bæði verður ráðist í tekjuöflunarframkvæmdir og einnig niðurskurð. Helstu tekjuöflunarliðirnir, og það sem mest hefur verið rætt um hér, eru til að mynda breyting á skattkerfinu þar sem tekinn verður upp þrepaskattur. Þetta er gert með það að markmiði að létta skattbyrðina eða réttara sagt að þeir taki meira á sig sem hærri hafa tekjurnar og þeim verði frekar hlíft sem lægri hafa launin. Einnig er gert ráð fyrir því að fjármagnstekjuskattur muni hækka úr 15 í 18% og samhliða því er tekið upp frítekjumark við 100 þús. kr. Svo virðist vera sem margir sem hafa gagnrýnt þetta tali lítið um þetta frítekjumark því að stór hluti þeirra sem eru með fjármagnstekjur er ekki með miklu meiri fjármagnstekjur en það sem lægst er þarna.

Gert er ráð fyrir tímabundnum auðlegðarskatti þar sem lagt er til að lagður verði skattur upp á 1,25% á hreina eign, þ.e. nettóeign, sem er yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingi og 120 millj. kr. hjá samsköttuðum aðilum. Hópur í þjóðfélaginu á orðið gríðarlega miklar eignir og hefur gríðarlega háar tekjur og er það afleiðing þeirrar stefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár þar sem bilið hefur breikkað á milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa. Gert er ráð fyrir að þessi auðlegðarskattur verði nýttur til að hækka barna- og vaxtabætur þar sem ákveðið var að hætta við að skera þessa liði niður.

Með kerfisbreytingu í virðisaukaskattinum er gert ráð fyrir því að hækka hærra þrepið úr 24,5% upp í 25% og bæta við nýju 14% skattþrepi, en ákveðnar vörur færast upp í það. Áfram er haldið inni 7% þrepinu og í það fer almenn matvara, svo sem kjöt, mjólk og fleira í þeim dúr, og er gríðarlega mikilvægt að svo verði áfram. Gert er ráð fyrir því að tryggingagjaldið verði hækkað aftur til að mæta auknu atvinnuleysi og einnig er gert ráð fyrir hækkun dómsgjalda og ýmsu fleiru. Ég ætla ekki að fara frekar yfir tekjuhlutann þar sem hann er enn til umfjöllunar og eins hafa aðrir komið mjög vel inn á hann í dag og eiga til að mynda sæti í efnahags- og skattanefnd sem hefur verið að ræða þetta.

Nokkrar breytingar hafa orðið hvað varðar útgjaldahlið fjárlaganna frá því sem rætt var í 1. umr. og ég ætla að koma inn á helstu breytingar sem nefndar hafa verið og skýra þær lítillega út. Í fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var í 1. umr., var gert ráð fyrir því að taka út öll verkefni sem tengdust tímabundnu framlagi vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Búið er að setja fjárhæðir í þau verkefni sem þar um ræddi og má þar til að mynda nefna Keili en þar hafa verið settar inn 108 millj. kr. til að koma til móts við það, auk skráningarverkefnanna sem hafa verið vítt og breitt um landið, á Egilsstöðum, Ísafirði, Hvammstanga og víðar. Þetta var bæði hjá Þjóðskjalasafninu og Þjóðminjasafninu. Þarna er verið að setja inn 75 millj. kr. Þarna er unnið gríðarlega gott starf og þessu fjármagni er vel varið. Settar hafa verið 50 millj. kr. til jöfnunar á námskostnaði og dregið úr niðurskurðinum sem boðaður var en þessi liður er mjög mikilvægur, sér í lagi fyrir hinar dreifðu byggðir, og þessar 50 millj. kr. þar inn gera mikið gagn í því að jafna þá möguleika sem nemendur á landsbyggðinni hafa til að sækja nám.

Komið hefur verið til móts við fjölgun nemenda í fjölbrautaskólunum. Gert hefur verið ráð fyrir að auka það um 150 millj. kr. og hafa þrír skólar fengið aukningu, Menntaskóli Borgarfjarðar, Mosfellsbæjar og skólinn við utanverðan Eyjafjörð, 120 millj. kr., Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur verið hækkuð og dregið úr niðurskurðarkröfunni á þá um 60 millj. kr. og þannig mætti áfram telja. Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi 13,5 millj. kr., miðstöð sem rækilega sannaði gildi sitt í jarðskjálftunum sem voru fyrir ekki svo löngu. Auk þess hefur verið komið inn á að dómstólarnir hafa verið efldir og fangelsismálin styrkt. Hvað dómstólana varðar er gert ráð fyrir 86 millj. kr. hækkun tímabundið til 1. janúar 2013 og fjölgun dómara í héraði úr 38 í 43. Þetta er gert til að koma til móts við það mikla álag sem verður á dómskerfinu í kjölfar bankahrunsins, og var m.a. rætt í utandagskrárumræðu ekki fyrir svo löngu. Fangelsismálastofnun var auk þess hækkuð um tæpar 140 millj. kr. og þar af vegur þyngst 107 millj. kr. hækkun vegna leigu á nýju bráðabirgðahúsnæði en öllum er ljós sá vandi sem Fangelsismálastofnun stendur frammi fyrir og því var ekki hjá þessu komist.

Önnur verkefni hafa verið tekin inn, til að mynda verkefni er tengjast niðurgreiðslu á rafmagni. Þar er verið að auka niðurgreiðslu til garðyrkju. Garðyrkjan er nú undanþegin 12 aura raforkuskatti og sýnir það mjög jákvæða og greinilega stefnubreytingu fyrir garðyrkjubændur og hafa þeir lýst mikilli ánægju með það. Auk þess er sett inn 30 millj. kr. aukaniðurgreiðsla á lýsingu í ylrækt til að koma til móts við aukinn framleiðslukostnað. Þarna er um að ræða hreina og klára stefnubreytingu og því ber að fagna.

Síðan er málefni sem rætt hefur verið mikið og sér í lagi í hinum dreifðu byggðum en það var fyrirhugaður niðurskurður á refaveiðum. Gert var ráð fyrir að ríkið mundi hætta að styðja refaveiðar og mundi þess í stað eingöngu fjármagna minkaveiðar. Þetta kallaði á mjög sterk viðbrögð úti í hinum dreifðu byggðum þar sem þetta hefur verið vaxandi vandamál. Nú hefur verið komið til móts við þetta og settar inn 17 millj. kr. en á móti þessum 17 millj. kr. eru ávallt að koma töluvert hærri upphæðir, 17 milljónirnar hafa alla jafna verið um 25–30% — á móti kemur töluvert hærri upphæð frá sveitarfélögunum og virðisaukaskattur af allri upphæðinni er alla jafna hærri en það sem ríkið setur í refaveiðarnar. Mörg sveitarfélög, sér í lagi þau þéttbýlli, höfðu í hyggju að leggja niður þetta framlag ef ekki kæmi framlag frá ríkinu. Í frumvarpinu er umhverfisráðherra einnig hvattur til að skipa nefnd til að fara yfir þessi mál. Hún upplýsti það í utandagskrárumræðu að hún hefði í hyggju að gera slíkt og fara heildstætt yfir allt sem tengist þessu.

Síðan er eitt sem mikið hefur verið í umræðunni um störf fjárlaganefndar og ég get að mörgu leyti tekið heils hugar undir. Það er þegar kemur að hinum svokölluðu safnliðum, úthlutun þeirra og hversu faglega er að því staðið. Ég hef á þessu ákveðnar skoðanir. Eðlilegt er að skoða þessi mál og sér í lagi eins og sakir standa og skoða möguleikana á því að koma ýmsum af þessum verkefnum undir til að mynda menningarsjóðina o.fl. Það er alveg klárt að of mikill tími fer í það í fjárlaganefnd að vinna tillögur að því hvernig afgreiða eigi þessa safnliði. Því skal þó haldið til haga að mörg þeirra verkefna sem eru á stuðningi frá þessum safnliðum eru mjög góð og brýn. Þar má til að mynda nefna verkefnið Beint frá býli sem hefur verið að skila mjög miklu úti í hinum dreifðu byggðum í tengslum við ferðaþjónustuna og í tengslum við matvælaframleiðsluna. Við getum nefnt Gása í Eyjafjarðarsveit, þeir eru á safnlið. Við getum nefnt þjóðveldisbæinn á Suðurlandi og söfnin vítt og breitt um landið, byggðasöfnin. Við getum nefnt selasetrin, Selasetrið á Hvammstanga, og fleiri söfn sem eru á þessum safnliðum og njóta stuðnings þar og eru ekki minna mikilvæg en til að mynda stærri söfn og menningarverkefni sem ekki eru flokkuð undir þessa safnliði. Er eðlilegt að skoða þetta og velta því fyrir sér hvort ekki sé mögulegt að koma þessu í einhvern annan farveg. Þó ber að hafa í huga að á sama tíma ber að tryggja fjármagn inn í þau verkefni og tryggja þær reglur sem verða við úthlutun verkefna þar. Menningarsamningarnir sem nú eru í gildi fyrir ákveðna landshluta eru fyrst og fremst að styrkja ákveðna viðburði. Þeir eru ekki að styrkja stofnkostnað, þeir eru ekki að styrkja beint rekstur slíkra stofnana þannig að þá þarf að skoða og stokka þá upp, breyta hlutverki þeirra og vinnuaðferðum. Ég hef ekki lagst gegn því og tók þátt í vinnu í menntamálanefnd þar sem menntamálanefnd var algerlega sammála því að þetta þyrfti að stokka upp fyrir næsta ár. Ég bendi hins vegar enn og aftur á að mörg þessara verkefna skila mjög góðum árangri og eru langt í frá að vera spilling eða annað því um líkt.

Það er staðreynd að sá niðurskurður sem fram undan er mun koma mjög harkalega niður á mjög mörgum. Í fjárlaganefnd og eins í fagnefndunum og innan ríkisstjórnarinnar hefur verið leitast við að forgangsraða með það að markmiði að tryggja hag þeirra sem minnst mega sín. Það á við hvort heldur sem er í forgangsröðun í skattatillögum eða í niðurskurðartillögum og þá nefnum við til að mynda heilbrigðisþjónustu, menntamál og annað því um líkt. Því miður er það svo að þessi mikli niðurskurður, það sem verið er að takast á við hér, bitnar einnig á þeim sem síst skyldi og alltaf er eitthvað sem mönnum yfirsést. Þegar hafa komið fram ýmsar ábendingar um atriði sem þarf að skoða milli 2. og 3. umr. Ég hygg að nefndin muni gera það og fara yfir þau atriði.

Eins og ég gat um í upphafi var vinnan í nefndinni í alla staði mjög góð. Það sem kom mér einna skrýtnast fyrir sjónir var að á öllum stigum málsins var kallað eftir hugmyndum frá stjórnarandstöðu, hvort þeir hefðu einhverjar áherslur eða annað því um líkt hvað varðar niðurskurðartillögur. Fátt var um svör þó að samstarfið hafi að öðru leyti verið gott. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá nefndarálit þar sem komið var inn á tillögur og svo virtist vera sem engin mótmæli hefðu verið hreyfð við þessum tillögum í nefndinni. Það kemur mér einnig spánskt fyrir sjónir þegar maður sér þingmenn fyrrum stjórnarliða, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, höfuðmeistarana að hruninu sem nú er verið að glíma við afleiðingarnar af, koma upp og tjá sig. Þeir virðast hafa gleymt öllu því sem á undan er gengið, skammtímaminni þeirra virðist vera lítið. Ég vonast til að þeir munu nú milli 2. og 3. umr. koma af meiri krafti inn í þessa vinnu og með hugmyndir um hvaða breytingar er hægt að gera á þessu og hugsanlega náum við saman um eitthvað af því. En ég á síður von á því að það verði því hér er forgangsraðað í þágu þeirra sem minna mega sín og það á bæði við í niðurskurðartillögunum og í skattatillögunum.

Ég vil þakka fyrir vinnuna í nefndinni. Ég vonast til að málið fái áfram góða umfjöllun.



[23:33]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ágæta ræðu nema þegar hann fer í bakgírinn sem ég kalla, þegar hann afsalar sér ábyrgð núverandi ríkisstjórnar á öllu sem gert er með því að vísa alltaf til fortíðar. Við erum ekki að fjalla um fortíðina, það er búið að ganga frá því og við breytum henni ekki. Það er búið að gangast við því, ég gekkst við því 30. október í fyrra og margir aðrir hafa gert það og við breytum því ekki heldur. Mér finnst það dálítið undarlegt þegar menn vilja ekki taka ábyrgð á því sem þeir eru að gera núna.

Hv. þingmaður er bóndi og hann þekkir það kannski, ég veit það ekki einu sinni, að ef maður ofhleður hross, burðarhross, ber það meira og meira þangað til allt í einu að það kiknar. Þá ber það allt í einu ekki neitt og jafnvel varanlega. Mér finnst eins og menn séu núna að ofhlaða hrossið. Það er nefnilega þannig að atvinnulíf og heimili geta borið upp að vissu marki en þau eru löskuð eftir hrunið og nú er verið að skattleggja þau og ég þekki enga þjóð sem gerir slíkt eftir hrun að byrja á því að skattleggja, menn lækka skatta og menn létta álögur á atvinnulífið. Ég vil benda á það sem ASÍ segir í umsögn að lágtekjufólk mun búa við þyngri skattbyrði af tekjuskatti á næsta ári þrátt fyrir að tekið verði upp þrepaskattkerfi en að óbreyttu skattkerfi. Slíkt er með öllu óásættanlegt, segir ASÍ. Á sama tíma er búið að benda á leið sem gerir það að verkum að við þurfum ekki að fara í þessar miklu skattbreytingar fyrr en að ári þegar hrossið er búið að ná sér, orðið sprækt og búið að ganga um grösuga haga og getur þá tekið á sig meiri byrðar. En núna tel ég vera mjög óskynsamlegt að leggja á það byrðarnar og ég spyr hv. þingmann: Hefur hann skoðað þá leið sem er lögð til grundvallar á móti?



[23:35]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að landbúnaðarfræðum getum við rætt um þau hér en ég held að það sé mjög mikilvægt, og það lærði ég líka í æsku, að gera sér grein fyrir fortíðinni og þekkja hana vel því að oft eru þær ákvarðanir sem maður er að taka í nútíðinni byggðar á ákvörðunum sem teknar voru í fortíðinni. Það er það sem ég benti á sem voru skattalækkanir ríkisstjórnar á þenslutímum sem voru ákaflega hæpnar. En hvað varðar þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram og snúast um skattlagningu inn til lífeyrissjóðanna þá hef ég persónulega ekki lagst gegn þeim og tel rétt að skoða þær en ég hef jafnframt bent á, og það veit hv. þingmaður, að við erum í viðræðum við lífeyrissjóðina um að fjármagna ákveðin verkefni og við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvaða áhrif það hefði á fjármögnun þeirra verkefna. En þetta er eitthvað sem ég hygg að sé alls ekki búið að afskrifa og verði áfram til skoðunar í nefndum og mér heyrðist hv. þm. Helgi Hjörvar koma inn á þetta áðan í andsvari sínu. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áður og kannski beina spurningu minni til baka til hv. þingmanns, þó að það sé ekki vani: Taldi hann rétt að lækka skatta á þenslutímum?



[23:36]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fer dálítið tvennum sögum af skattalækkuninni vegna þess að ég veit ekki betur en margir stjórnarþingmenn hafi undanfarið talað um gífurlega hækkun á sköttum vegna þess að ríkið tók alltaf meiri og meiri álögur af atvinnulífi og almenningi. Hvort er hækkun á sköttum þegar ríkið leggur meiri álögur á atvinnulíf og fyrirtæki eða þegar prósentan er lækkuð? Það er nefnilega þannig, og það sem hv. þingmaður þarf að skilja, að skattstofnarnir blómstruðu, þeir sprungu út, og nú er einmitt verið að skattleggja og hættan er sú að skattstofnarnir hnígi niður nákvæmlega eins og hrossið sem lagt er of mikið á.

Það vantar dálítið mikið og ég vil endilega að þingmenn vinni saman að lausn þessa vanda. Við höfum lagt fram tillögu um að koma með aðra leið til að byrja með, síðan að ári geta vinstri menn komið með sína margþrepa skatta og allt sem þeir vilja með góðum tíma, þannig að búið sé að fara í gegnum alla þættina. Við höfum líka lagt fram niðurskurð á mörgum sviðum og það var ekki haft samráð vegna þess að hraðinn var svo mikil í nefndinni, í fjárlaganefnd, að það var ekki nokkur leið að gera nokkurn skapaðan hlut.

Það vantar tvennt í fjárlagafrumvarpið, það vantar Icesave og það vantar tónlistarhúsið, gífurlegar upphæðir. Ég vil minna á að Icesave hefur frá því í ársbyrjun þessa árs hækkað um 100 milljarða vegna gengisfalls krónunnar, um 100 milljarða hefur þetta skuldabréf sem búið er að skrifa undir hækkað. Það er andvirði tveggja sjúkrahúsa, háskólasjúkrahúsa í Reykjavík, sem það hefur hækkað plús vextir sem eru 45 milljarðar. Mér finnst þetta vanta inn í umræðuna og hv. þingmaður hefur aldrei tjáð sig um Icesave hið síðara. Nú langar mig til að heyra örlítið um það.



[23:38]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór áðan yfir eitt lítið brot af skattkerfinu sem snerist um auðlegðarskatt þar sem lagður er 1,25% skattur á einstaklinga sem eiga eignir yfir 90 millj. og hjón yfir 120 millj. Jafnframt er gert ráð fyrir því og tekið fram að þessari upphæð skuli varið til að styrkja vaxtabætur og barnabætur. Þetta er dæmi um hvernig við notum skattkerfið til að jafna kjör í landinu. Hv. þingmaður veit mætavel að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins jókst munurinn gríðarlega á milli þeirra sem mestar höfðu tekjurnar og þeirra sem minnstar höfðu tekjurnar. (PHB: Er það svo?) Tekjumunurinn jókst margfalt hjá þeim sem lægstar höfðu tekjurnar og þeim sem hæstar höfðu tekjurnar.

Af því að hv. þingmaður kom inn á Icesave-málið áðan, þá hef ég skoðað það og er að skoða það, rétt eins og allir aðrir þingmenn, og gerði grein fyrir því við atkvæðagreiðsluna á hvaða stigi það væri. Ég persónulega hef ekki neinu við það að bæta sem ég sagði við atkvæðaskýringuna. Ekki er eðlilegt að setja inn í fjárlagafrumvarp kostnað við eitthvað sem ekki er þegar búið að samþykkja á hv. Alþingi en ég hef engu persónulega að bæta við það sem ég sagði í atkvæðaskýringunni. Nú er málið í nefnd og það mun koma aftur til afgreiðslu og þá mun það ekki fara fram hjá hv. þingmanni þegar ég greiði atkvæði frekar en öðrum þingmönnum í salnum.



[23:40]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason dettur í þann pytt, og það er svo sem allt í lagi að velta honum aðeins upp úr því ef hann endilega vill, þingmaður í stjórnarliðinu, þingmaður í fjárlaganefnd, að reyna að afsala sér allri ábyrgð og bjóða þingheimi upp á að það að vel hafi verið unnið og faglega í þingnefndinni. Það eina sem ég heyrði hv. þingmann ræða um voru safnliðir. (ÁsmD: Það er ekki rétt, þú varst ekki kominn í salinn.) Og stóru atriðin, hvernig voru þau afgreidd? Það var að það sé búið að vera svo gríðarlega erfitt að taka við þessu öllu saman því að þetta er allt einhverjum öðrum að kenna. Ég vil spyrja hv. þingmann einnar spurningar til að byrja með: Sáu vinstri grænir bankahrunið fyrir? Ég vil bara fá að vita það, fá það bara skýrt: Sáu þeir það fyrir? Vissu þeir af þessu? Það skiptir afskaplega miklu máli að þessu sé svarað algerlega skýrt.

Í annan stað, hér er verið að tala um fjárlögin og hv. þingmaður talaði um að það væri erfitt að fá einhverjar hugmyndir um hvað væri að gerast þar og hvernig ætti að framkvæma þær. Það er nú svo að það liggja fyrir hugmyndir um að halda uppi þjónustustigi með því að minnka kostnað í heilbrigðismálum. Þetta eru tölur, nákvæmlega unnið enn og aftur í þessu tilfelli frá heilbrigðisráðuneytinu og ég vil spyrja hv. þingmann hvaða afstöðu hann hefur til þess. Sömuleiðis af því að ég efast ekki um að hv. þingmaður, af því að það var unnið svo vel í nefndinni, hefur farið almennilega yfir það að færa heilbrigðisþjónustuna og hjúkrunarheimilin frá heilbrigðisráðuneytinu í félags- og tryggingamálaráðuneytið, vil ég heyra rök hv. þingmanns fyrir því að þetta sé gert því að þau hafa ekki heyrst enn. Þetta eru þrjár spurningar.



[23:42]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á alla ræðu mína er það alls ekki svo að sá sem hér stendur sé að afsala sér einhverri ábyrgð á því að takast á við þá vinnu sem fylgir því að takast á við þann niðurskurð sem boðaður er, þvert á móti. Og það er alls kostar rangt að ræðan hafi eingöngu fjallað um safnliði.

Sáu vinstri grænir bankahrunið fyrir? Ég held að engum dyljist að sá flokkur sem gagnrýndi það sem var í gangi og ofvöxtinn á þessu kerfi var Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem ítrekað gagnrýndi þetta, en þá voru það einmitt þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stýrðu landinu og börðu hausnum við steininn þegar allt var komið í þrot. (GÞÞ: Sáu þeir það fyrir?) Vinstri hreyfingin – grænt framboð er sá flokkur sem varaði við þessu trekk í trekk og þessu getur hv. þingmaður flett upp, bæði í þingræðum, í greinum, ályktunum og fleiru sem flokkurinn hefur sent frá sér.

Hvað varðar það að minnka kostnað án þess að skerða þjónustu. Það sem verið er að gera og sú vinna sem unnin hefur verið í fagnefndunum, í ráðuneytunum, í fjárlaganefnd hefur einmitt snúist um að reyna af fremsta megni að draga úr þjónustuskerðingu á sama tíma og nauðsynlegt er að skera niður. Þetta veit hv. þingmaður og hefur fylgst með hluta af þessari vinnu. (GÞÞ: Svar.) Hvað varðar flutning frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins þá er það bara í ákveðnum farvegi og verið er að skoða það og komið hefur verið vel inn á það í ræðum fyrr í kvöld, til að mynda hjá formanni heilbrigðisnefndar. (Gripið fram í.) Ég vil sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.



[23:45]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það. Þeir sem bera langmesta ábyrgð eru hv. þingmenn Vinstri grænna sem sáu bankahrunið fyrir en sögðu ekki frá því. Reyndar var einn öflugasti forustumaður Vinstri grænna stjórnarformaður í LSR og sá lífeyrissjóður fjárfesti alveg eins og allir hinir og tapaði alveg eins og allir hinir. Þetta gerðu Vinstri grænir vitandi að það yrði bankahrun. Hvað sagði hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, þá þingmaður í stjórnarandstöðu, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stofnuð? Hann sagði að hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra væri hálfdrættingur af því að ráðuneyti hans væri svo lítið og ómerkilegt. Ég held að allir séu á því að við hefðum betur hugað meira að viðskiptaráðuneytinu en búið er að upplýsa að Vinstri grænir vissu þetta, þeir sögu bara engum frá því og það er mesta ábyrgðin.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði að fjárlaganefnd væri búin að fara vel yfir málið og hann sagði að fagnefndir hefðu farið svo vel yfir málið. Nú er ég í heilbrigðisnefnd og við höfum ekki farið neitt yfir þessi mál, og það hefur komið fram hjá stjórnarliðum. Ég efast ekki um að hv. þingmaður, af því að hann er búinn að vinna þetta svo vel, viti þetta allt og ég vil fá rökin fyrir því að í fjárlögum er gert ráð fyrir að flytja hjúkrunarheimili eldri og yngri hjúkrunarsjúklinga til félagsmálaráðuneytis. Af hverju? Rökin fyrir því. Ekki verður heldur farið í það að ná hámarksþjónustu með því að spara eins og gert er ráð fyrir í kragaskýrslunni sem er frá hæstv. heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Ekki verður farið í það og væri ágætt að fá rök hv. þingmanns fyrir því af hverju það er ekki gert því að hv. þingmaður er búinn að fara svo vel yfir þetta í nefndinni, það er búið að vinna svo faglega í nefndinni.



[23:47]
Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ólíkt hv. þingmanni tel ég mig ekki vita alla hluti. Hv. þingmaður talar eins og sá sem allt veit og ég ímynda mér að hann telji sig allt vita.

Hvað varðar umræddan flutning frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytis þá lýsti formaður heilbrigðisnefndar fyrr í kvöld miklum áhyggjum af þeirri stöðu og því sem þar væri í gangi. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta og treysti hv. heilbrigðisnefnd til að fara vel yfir það auk hæstv. heilbrigðisráðherra. (GÞÞ: Þetta er fjárlaganefndarmál.)

Hv. þingmaður kemur hingað upp með hroka og skæting þess efnis að Vinstri grænir hafi vitað allt um bankahrunið en ekki látið vita af því. Ítrekað vöruðu Vinstri grænir við þeirri þróun sem hér var í gangi (GÞÞ: Það gerðu fleiri.) en hv. stjórnarþingmenn og þáverandi hæstv. ráðherrar höfðu ekki af því miklar áhyggjur. Þar var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fremstur í flokki. Þetta var gagnrýnt trekk í trekk en hann hafði aldrei nokkrar athugasemdir og tók aldrei mark á nokkru af þessu. Það kemur því úr hörðustu átt þegar hann gagnrýnir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir að ganga fram og telja sig allt vita. Í því lenti hv. þingmaður einmitt sjálfur. Hann taldi sig allt vita meðan hann sat í ríkisstjórn og taldi sig ekki þurfa að hlusta á aðra. Í ræðu minni kom ég inn á ýmis atriði sem ég tel jákvætt og eðlilegt að skoða hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég er einmitt að reyna að hugsa á annan hátt en hv. þingmaður meðan hann sat í ríkisstjórn.



[23:49]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki á hvaða andsvar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var að hlusta en það var örugglega ekki mitt andsvar. Það hlýtur að vera ágætur eiginleiki að geta ímyndað sér síðasta andsvar og talað út frá því. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram að ég vissi allt. Reyndar var það þannig, ef það fór fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, að ég gekkst við því eins og flest okkar að ég hefði ekki áttað mig á því að bankarnir væru að hrynja. Það er bara þannig.

Maður hefur ekki náð fullkomnun í að vera til og þegar maður lítur til baka hefði maður viljað gera ýmislegt öðruvísi hefði maður vitað hvað var í nánd. Og talandi um hroka: Hér koma hv. þingmenn Vinstri grænna og jafnvel Samfylkingarinnar sem voru í ríkisstjórn frá 2007 (Gripið fram í.) — já, það er búið að rannsaka það, hv. þingmaður og virðulegi forseti, og það kom í ljós að þeir voru þar og þeir tala alveg eins og þeir hafi dottið af himnum ofan. En það hefur algerlega farið fram hjá þeim sem hafa fylgst með umræðum frá vinstri mönnum að þeir hafi eitthvað sérstaklega verið að vara við þessu.

Ef við tökum einn helsta sérfræðing ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, Ingva Örn Kristinsson, sem starfaði hjá Landsbankanum og starfar nú í félagsmálaráðuneytinu og förum yfir hans rök fyrir hruninu. Hann sá það fyrir og ég ætla ekki að efast um það, það hlýtur að vera. Allir þeir sem sáu þetta fyrir og segja frá því núna — ég ætla þeim ekki neitt annað en hafa kórrétt fyrir sér. Hvað sagði sá sérfræðingur? Hann nefndi að menn hefðu farið of geyst, menn hefðu farið út í virkjanir, tvær virkjanir, og hvaða virkjanir voru það? Það var annars vegar Hellisheiðarvirkjun og hverjir höfðu forustu um það, virðulegi forseti? Vinstri grænir. Orkuveita Reykjavíkur tók stefnubreytingu í tíð R-listans og þá var farið í virkjunarframkvæmdir, ekki fyrr og undir forustu Vinstri grænna. Það var ekki sá glæsilegi og virðulegi forseti sem er hér núna, en það hefði verið gaman að hafa þann sem var hér áðan, hann var einmitt í borgarstjórn og var í forustu fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur fór í þessa virkjun. Svo að því sé til haga haldið voru Vinstri grænir á móti Kárahnjúkavirkjun, ekki út af þensluáhrifum heldur út af óafturkræfum umhverfisáhrifum. En ég man eftir kosningaplaggi frá Samfylkingunni þar sem hvorki meira né minna en formaður flokksins var með forustumönnum vinstri manna á Austurlandi að fagna því að verið væri að fara í þessa framkvæmd. Þannig að þar fór sá þátturinn.

Sérfræðingurinn sem er í vinnu hjá hæstv. félagsmálaráðherra, hjá hæstv. vinstri stjórn, hvað segir hann? Hann bendir á það augljósa, að þingið hafi ákveðið að fara í íbúðalánamarkaðinn á allt of miklum hraða og með allt of miklum krafti. Ég hlustaði mjög vel á hvað hv. þingmenn VG og hv. þingmenn Samfylkingarinnar sögðu þegar við vorum að breyta því. Ég var þá í hv. félagsmálanefnd. Ég hafði miklar áhyggjur af því að við værum að stíga rangt skref og reyndar gerði ég hvað ég gat til að lágmarka það. Hvað gerðu hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar þá? Þeir vildu ganga lengra, þeir vildu ganga miklu lengra. Síðan er vísað til skattalækkana. Ég var að prenta hér út hvernig hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar greiddu atkvæði. Þeir greiddu ekki einu sinni atkvæði gegn skattalækkunum, ekki einu sinni gegn þeim.

Útþensla hins opinbera var eitt af því sem sérfræðingurinn sem er í vinnu hjá hæstv. félagsmálaráðherra minntist á. Kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er í salnum, geti farið yfir það hvað vinstri menn sögðu varðandi útgjöld hins opinbera. Á sama tíma og þeir gagnrýndu hið opinbera stundum fyrir að taka á hlutfalli skatta, með öðrum orðum hafa of háa skatta — það var svo sannarlega það sem kom fram hjá vinstri mönnum — vildu þeir alltaf auka útgjöld hins opinbera. Þeim var ekkert kappsmál að greiða niður skuldir ríkisins sem hefði betur verið gert, þeim var ekkert kappsmál að greiða niður skuldir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja, úr því að hv. þingmenn eru svo afskaplega glaðir með fortíðina, hvað það er nákvæmlega sem þeir eru glaðir með? Ekki er hægt að benda á það að ef farið hefði verið að þeirra ráðum hefði staðan verið betri. Þvert á móti. Reyndar var það þannig að forustumönnum Sjálfstæðisflokksins var núið því um nasir að vera andvígir, fjandsamlegir stórfyrirtækjum í landinu af forustumönnum vinstri manna, hvorki meira né minna. Og það var ekki bara Samfylkingin með Borgarnesræðum heldur var það þannig að þegar hér var rætt um fjölmiðlamálið þá höfðu Vinstri grænir nýverið flutt sambærilegt frumvarp. Þeir treystu sér ekki til að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar heldur greiddu atkvæði gegn því. Rökin voru þau að verið væri að níðast á vesalings stórfyrirtækjunum og stóru aðilunum í þjóðfélaginu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlög og bent hefur verið á það, og ekki að ástæðulausu, að menn eru að ganga í það að skattleggja — ekki vegna þess að það þurfi, ekki vegna þess að það sé lausnin á kreppunni, heldur vegna þess að vinstri menn vilja það. Þeir vilja hafa háa skatta, þeir vilja hafa skattkerfið flókið og nú skal fólk fá að finna fyrir því. Það skiptir engu þó að forustumaður ASÍ gagnrýni það, þó að allir þeir sem koma fyrir nefndina, endurskoðendur, þeir sem verða fyrir þessu, aldraðir eða öryrkjar eða hverjir sem eru, það skiptir ekki máli, það skal hækka skatta. Maður skyldi þá ætla að skatttekjurnar yrðu nýttar skynsamlega og verið væri að leggja upp í einhverja vegferð. Hæstv. ríkisstjórn hefur haft tíma frá 1. febrúar til að undirbúa fjárlagafrumvarpið og maður mundi ætla að menn væru búnir að vinna það vel. Þá er verið að spyrja hv. þingmenn, stjórnarliða, um hluti sem eru ekki litlir hlutir, þetta eru ekki safnliðir með fullri virðingu fyrir þeim, ég er ekkert að gera lítið úr því að það er mikilvægt. En ég er að tala um grunnstoðirnar. Ég er í þessu tilfelli að tala um heilbrigðiskerfi landsmanna.

Við erum í fremstu röð. Við höfum nokkurn veginn útrýmt biðlistum á undanförnum missirum. Fyrir nokkrum árum var mikil umræða um biðlista BUGL, það var tekið á því. Það var langur biðlisti eftir hjartaaðgerðum og hjartaþræðingum, það var tekið á því. Það var langur biðlisti eftir aðgerðum á mjöðm og hnjám og fleira mætti telja, augnsteinar, allt var þetta unnið skipulega af því að við vildum vera í allra fremstu röð. Nú höfum við minna á milli handanna. Öllum er ljóst að verkefnið er það að halda okkur samt sem áður í fremstu röð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verðum við að ná betri nýtingu úr þeim fjármunum sem við höfum. Og það er hægt.

Hvað gerir vinstri stjórnin? Hvað gerir norræna velferðarstjórnin? Í skjóli nætur ætlar samráðsstjórnin, sem vill ræða við alla, hafa samráð við alla, ekkert valdboð að ofan, að taka stóran hluta af heilbrigðisþjónustunni og skella því í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Rökin hafa ekki enn komið fram. Rætt var um að þetta snerist um eldra fólk, eldri borgara. (PHB: Sérheilbrigðiskerfi fyrir þá.) Ef það væri nú rétt þá værum við að búa til aldursskipt heilbrigðiskerfi, það væri sérheilbrigðisþjónusta fyrir fólk eldra en 67 ára. Ég veit ekki til að það þekkist neins staðar. Ég veit ekki til að neinum hafi dottið þetta í hug.

En þetta er ekki bara eldra fólk. Það er verið að flytja hjúkrunarheimilin og það eru sjúklingar sem þurfa að vera á hjúkrunarheimilum því á hjúkrunarheimilum eru sjúklingar. Hjúkrunarheimili eru ekki búsetuúrræði. Það er ekki þannig að einhver ákveði að búa á hjúkrunarheimili en ekki einhvers staðar annars staðar og það er fólk á öllum aldri á hjúkrunarheimilum ef undan er skilinn allra yngsti aldurshópurinn. Það skiptir engu máli þó að ályktanir komi frá Félagi hjúkrunarfræðinga sem fengu ekki að veita umsögn um þetta mál. Það fékk enginn að veita umsögn um þetta mál, enginn fagaðili fær að veita umsögn um þessa færslu sem er upp á tugi milljarða heldur er læðst í skjóli nætur.

Hjúkrunarfræðingar tóku samt upp á því, ég vona að þeir hafi ekki móðgað hæstv. ríkisstjórn, að álykta og bentu á hið augljósa að þarna er af einhverjum óskiljanlegum ástæðum farið þvert á það sem menn hafa reynt að gera, þ.e. að skilja að faglega og fjárhagslega ábyrgð. Á sama hátt hefur verið bent á að engin heildaryfirsýn verður yfir þennan málaflokk lengur á einhverjum einum stað. Í minnisblaði um öldrunarmál, sem kemur frá heilbrigðisráðuneytinu, kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Hjúkrun og umönnun á hjúkrunar- og dvalarheimilum er einn hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Til að geta samhæft og veitt heilbrigðis- og umönnunarþjónustu á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða er mikilvægt að málaflokkurinn sé hjá því ráðuneyti sem hefur með framkvæmd þjónustunnar að gera og þar með heildaryfirsýn. Rekstur sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, heimahjúkrunar, hjúkrunarrýma á heilbrigðisstofnunum og eftirlit með heilbrigðisþjónustu er á verksviði heilbrigðisráðuneytisins. Með flutningi á hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrýmum til félags- og tryggingamálaráðuneytisins er hætt við að þessi yfirsýn rofni og það verði mun erfiðara að samhæfa þjónustuna þannig að einstaklingar fái þá heilbrigðisþjónustu sem er eðlilegust miðað við þörf og ástand hins aldraða.“

Þetta eru fagleg rök en þau virðast engu máli skipta. Þessi hrokafulla hæstv. ríkisstjórn læðir þessu að í skjóli nætur. Samráðsstjórnin hefur ekki samráð við neinn, engan. Ef einhver heldur, virðulegi forseti, eina stutta stund að þetta muni ekki leiða til flækjustigs, aukins kostnaðar og þar af leiðandi verri þjónustu, þá getur sá hinn sami haldið því fram með sömu rökum að jörðin sé flöt, en það vita allir sem vilja vita að þetta mun leiða til þess. Það er algerlega útilokað fyrir hæstv. ríkisstjórn að segja að hún vilji viðhafa samráð á meðan hún tekur hlut eins og þennan og laumar honum í skjóli nætur, þ.e. hluta heilbrigðisþjónustunnar, yfir í annað ráðuneyti. Einhvern tíma voru rökin þau að þetta ætti að fara til sveitarfélaga og þess vegna væri gott að fara í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Svo gleymdi ríkisstjórnin bara að sveitarstjórnarmálin eru farin í samgönguráðuneytið. Þetta er auðvitað gersamlega fyrir neðan allar hellur.

Virðulegi forseti. Það er fleira. Við erum í þeirri stöðu að við þurfum, viljum og ætlum að halda heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Við eigum aldrei að sætta okkur við neitt minna, aldrei. En hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að vinna að því markmiði því það er algerlega ljóst að sú ríkisstjórn sem fer í flatan niðurskurð er ekki að vinna að því markmiði. Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, að leyfa mér að lesa úr viðtali við forstjóra Landspítalans sem hefur meiri þekkingu, meiri reynslu, ekki bara af íslenska heilbrigðiskerfinu heldur þeim heilbrigðiskerfum sem við berum okkur oftast saman við á Norðurlöndunum, meiri reynslu, meiri þekkingu, meiri yfirsýn en flestir ef ekki allir Íslendingar. Það má kannski segja að við finna megi forstjóra Karolinska sjúkrahússins, Birgi Jakobsson, eða einhverja slíka á svipuðum stað, en ég hef ekki heyrt einn einasta aðila mæla gegn því að hér fari manneskja með yfirsýn og þekkingu. Hún var liður í því í tíð síðustu ríkisstjórnar, eða þarsíðustu, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar við gengum í það verk að koma á faglegri stjórn á Landspítalanum sem gerði það að verkum að við náðum árangri gegn biðlistum og við náðum árangri í rekstri og við fengum örugglega enga aðstoð frá vinstri grænum hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp úr viðtali frá 5. október 2009, við Huldu Gunnlaugsdóttur en þá lá fjárlagafrumvarpið fyrir.

„Sá flati niðurskurður sem stefnt er að á Landspítalanum er hættulegur, að mati Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans. „Við höfum aðeins einn slíkan spítala á Íslandi, sem er öryggisnet fyrir allt landið. Þess vegna verður fyrst að leita allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu.“

Hún segist alltaf hafa verið á móti flötum niðurskurði. „Það er auðveldasta leiðin, en þá er ekki tekið á vandanum. Það þarf að gera stærri breytingar á þjónustu spítalanna og auðvitað er Landspítalinn þar ekki undanskilinn. En ef ráðist er í uppsagnir á 450–500 manns á Landspítalanum, þá hefur það áhrif á öryggisnetið. Samkvæmt nýlegri úttekt erum við með þriðju mestu gæðin í heilbrigðisþjónustu á OECD-svæðinu, og eflaust höldum við því ekki, en ég vil að þjónustan sé nógu góð. Við vitum að það verður ekki bara niðurskurður á næsta ári, heldur líka árin 2011 og 2012. Þess vegna verður að gera það sem rétt er og hagkvæmt.“

Hulda hefur skilað af sér aðgerðaáætlun til heilbrigðisráðuneytisins, sem hún vann ásamt fleiri sérfræðingum. „Þar er nákvæm heildarverkefnaáætlun fyrir árið 2010 með aðaláherslu á kragasjúkrahúsin, sem unnin var í samráði við stjórnendur þar. En það þarf að fara yfir alla starfsemina, spítala og heilsugæslustöðvar, og einnig stjórnsýsluna, heilbrigðisráðuneytið, landlæknisembættið, lýðheilsustöð og sérfræðiþjónustuna. Það þarf að búa til aðgerðaáætlun til þriggja ára um það hvernig mæta má þeim fjárhagslega niðurskurði sem ráðast þarf í vegna kreppunnar,“ segir Hulda.

Í áætluninni sem verkefnahópurinn hefur skilað af sér, og bar yfirskriftina „Frá orði til athafna“, var miðað við að ráðherra gæti tekið ákvarðanir strax 9. október.“ — Ég endurtek: „Í áætluninni sem verkefnahópurinn hefur skilað af sér, og bar yfirskriftina „Frá orði til athafna“, var miðað við að ráðherra gæti tekið ákvarðanir strax 9. október.“

Í neðanmálsfrétt segir: „Hulda Gunnlaugsdóttir stýrði hópi sem skilaði aðgerðaáætlun um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu til heilbrigðisráðuneytisins. Hún er forstjóri Landspítalans og fór í ársleyfi 1. október. Starfar þann tíma sem verkefnastjóri fyrir Óslóarsjúkrahúsið. Björn Zoëga er forstjóri í hennar stað.“

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ef hæstv. ráðherra er að hlusta, sem ég veit ekki hvort er, en virðulegi forseti getur kannski séð til þess að það gerist. Ég veit að hæstv. ráðherra er í húsi og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra — veit virðulegi forseti hvort hæstv. ráðherra er að hlusta á okkur?

(Forseti (ÞBack): Hæstv. ráðherra er í húsi.)

Hæstv. ráðherra heyrir. Þegar hæstv. ráðherra tók við sagði hún bæði í fjölmiðlum og í þingi að það væri mjög bagalegt að ákvarðanirnar, niðurstöðurnar úr þessum vinnuhópi hefðu ekki skilað sér inn í fjárlögin. Þetta voru orð hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra setti, til að vera alveg viss af því að búið var að reikna þetta allt út áður en það er nú allt í góðu, en til að vera alveg viss setti hæstv. ráðherra, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, ekki sá sem var á undan og ekki sem var þar á undan heldur núverandi sem er iðulega á ráðherrabekknum, hóp á sínum forsendum, ákvað uppleggið hvað þann hóp varðaði og lét reikna þetta út enn og aftur alveg niður í smáatriði. Og það er upplýst að hver einasta tala hér inni hefur verið samþykkt af hverjum einasta forstjóra sem að þessu máli kemur. Niðurstaðan er skýr. Ef tekinn er bara fyrsti fasi greiningarinnar, þ.e. fæðingar og kvensjúkdómar, skurðlækningar og post-acute care, ekki seinni hlutinn, virðulegi forseti, ekki meltingarrannsóknirnar, grindarbotnsmeðferðin, samvinnurekstrarleg verkefni, myndgreiningarrannsóknir, heldur bara fyrri hlutinn, þá er hægt að ná sparnaði upp á 1.400 millj. kr. á ári. Það er alveg ljóst að ef menn taka síðari fasann þarf nokkur hundruð milljónir í viðbót. Og haldið sama þjónustustiginu.

Hæstv. ráðherra hefur algerlega skýran valkost. Með því að spara með þessum hætti, í stað þess að fara í þennan flata niðurskurð í fjármálaráðuneytinu, þá getur hæstv. ráðherra haldið uppi þjónustustiginu. En ef hæstv. ráðherra og þessi hæstv. ríkisstjórn, hv. þingmenn VG og Samfylkingar, fara leiðina sem er í fjárlögunum, þá munu þeir skerða þjónustu, þeir munu búa til biðlista og langt verður í það að þeir nái því þjónustustigi sem við erum með núna. Svo einfalt er það, virðulegi forseti. Svo einfalt er það.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað gerðist frá því að hæstv. ráðherra sagði í þingsölum, sagði við fjölmiðla að það væri bagalegt að þessar tillögur væru ekki búnar að rata inn í fjárlögin. Hvað skeði á þessum vikum? Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma og segja: Það hefur svo mikið breyst frá 2008 og það hafi verið sparað á þessu ári, skorið niður á þessu ári. Það var skorið flatt niður á þessu ári. Það breytir ekki hlutföllunum. Þetta snýst um það að menn eru að færa verkefni til til að ná hagkvæmni og það breytir engu þó að fjárlögin í ár hafi verið lægri en fjárlögin 2008, nákvæmlega engu. Þetta snýst um það að Landspítalinn er að gera ákveðna hluti með jaðarkostnaði vegna þess að það er svo að Landspítalinn getur afkastað meiru á mörgum sviðum. Þannig jukust t.d. fæðingar á milli ára á Landspítalanum um 300, held ég. Kostnaðurinn var hverfandi. Þetta snýst um það, t.d. varðandi fæðingarþjónustu og skurðþjónustu, að fasti kostnaðurinn er mikill hvort sem nýtingin er góð eða ekki. Það kemur fram að nýtingin á skurðstofum á kragaspítölunum er mjög lág. Hvað þýðir það? Hver aðgerð er dýr. Það er hægt að færa slíkar aðgerðir yfir á Landspítalann. Þar er meira öryggi en á smærri spítölunum og minni kostnaður. Hv. þingmenn stjórnarliðsins verða að skilja þetta. Ef þeir skilja þetta ekki þá er það eitt og sér mjög alvarlegt. Hér verður enginn afsláttur gefinn af því að hv. stjórnarliðar verða spurðir út í þetta. Og ef þeir svara þessu með þeim hætti eins og hér hefur komið fram, að þetta sé allt öðruvísi vegna þess að fjárlögin í ár séu lægri en árið 2008, virðulegi forseti, þá skilja þeir einfaldlega ekki málið. Þá hafa þeir ekki sett sig inn í málið. Hv. þingmönnum ber skylda til að setja sig inn í þetta mál. Hér er um heilbrigðisþjónustuna að ræða, hvorki meira né minna.

Hæstv. ráðherra fær að svara því hvað breyttist því að hæstv. ráðherra kom líka í hv. heilbrigðisnefnd og það fór ekki fram hjá neinum að hæstv. ráðherra ætlaði að fara í þessa breytingu eins og allir sem komu að þessu. Þetta er ekki gert í fyrsta skipti, þetta hefur verið gert mörgum sinnum. Það er búið að reikna þetta mörgum sinnum út og menn komast alltaf að sömu niðurstöðu. Hulda Gunnlaugsdóttir stýrði þessum hópi og hví í ósköpunum skyldi hún hafa komið með þessa hugmynd og farið í þessa vinnu? Halda menn að Íslendingar séu þeir fyrstu sem hafa farið þessa leið? Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast alls staðar annars staðar og menn lenda alltaf í sömu málunum. Það er erfitt að færa þetta til. Það er erfitt, það þarf kjark til að sameina spítala. Það þarf kjark til að leggja skurðstofur af. En menn gera það vegna þess að þá geta þeir haldið uppi þjónustustiginu með minni tilkostnaði. Þess er alltaf þörf í heilbrigðisþjónustunni en aldrei sem nú.

Hinn hluti tillagnanna gengur síðan út á það að verið er að færa þjónustu í rauninni frá Landspítalanum yfir á svokallaða kragaspítala þannig að fólki er gert kleift, þar sem boðið er upp á slíka þjónustu hjá viðkomandi spítölum, að liggja þá nær heimabyggð sinni eftir aðgerðir. Það er auðvitað betra fyrir það fólk sem þarf á þjónustu að halda og það er líka hagkvæmara. Við eigum þessar byggingar, við höfum gott starfsfólk á þessum heilbrigðisstofnunum, auðvitað vill fólk ekki vera á spítölum en ég held að flestir vilji vera nær heimili sínu ef þess er einhver kostur.

Virðulegi forseti. Þetta hefur enn og aftur verið staðfest. Þetta er ekki bara fjárhagslega hagkvæmt, þetta er líka faglega gott. Það er hærra þjónustustig á Landspítalanum en á hinum spítölunum og það er ekki einn „standard of care“ eins og það er kallað á þessu svæði, þannig að verið er að bjóða fólki upp á betri þjónustu.

Ef við förum hina leiðina og komum með flatan niðurskurð, og eins og einhver spurði: er ekki sanngjarnt að allir fái flatt? þá skerum við alla þessa þjónustu. Við erum með einn Landspítala sem er opinn alla daga ársins, allan sólarhringinn og við skerðum þar þá þjónustu sem við viljum ekki skerða í mörgum tilfellum. Nákvæmlega sama gerist við hinn spítalann sem er í gjörgæslu á Akureyri. Ef við förum áfram í þennan flata niðurskurð mun sá spítali sem núna fær fjárheimildir upp á 4,5 milljarða fá 3,5 milljarða árið 2012. Ef einhver trúir því að sama þjónustustig verði á þeim spítala eins og er núna með því að fara þá leið, virðulegi forseti, þá er sá hinn sami að loka augunum fyrir staðreyndum. Það er algerlega ljóst, virðulegi forseti, að það mun þýða að stórauka þarf sjúkraflutninga frá Norðurlandi yfir á Landspítalann. Án nokkurs vafa mun það leiða til aukins kostnaðar annars staðar. Og alveg eins og Hulda Gunnlaugsdóttir vísaði til að leita verði allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu þá á það ekki bara við um Kragann, það á við um allt landið. Það á líka við um stjórnsýslustofnanirnar.

Í minni tíð sem ráðherra var skrifað frumvarp um stjórnsýslustofnanir sem miðaði að því að taka fjórar stofnanir, Lýðheilsustofnun, landlækni, sóttvarnalækni og Lyfjastofnun og skipta þeim upp í tvær, annars vegar eftirlitskerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna, sem er afskaplega mikilvægt, og hins vegar forvarna- eða heilsustofnun. Nú eru þessi verkefni tvist og bast hjá þessum stofnunum. Eftir því sem ég best veit var þessu stungið í skúffu en einn helsti spunameistari Samfylkingarinnar var fenginn til að leiða vinnuhóp um það hvernig ætti að vinna þessa hluti. Það hefur væntanlega dagað uppi. Ég veit ekki til að hann hafi neina reynslu á þessu sviði en þegar Samfylkingin fer af stað þarf ekki neitt slíkt.

Ég held að ég sé ekki sá eini, virðulegi forseti, sem vill fá að vita hvað breyttist hjá hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og hvort hæstv. ráðherra sé með einhver rök, sem við hin sjáum ekki, fyrir því að færa hluta heilbrigðisþjónustunnar, hjúkrunarheimilin sem eru fyrir sjúklinga, bæði eldri og yngri, í félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að enginn fær að koma með umsögn Það er alveg ástæða fyrir því. Það er vegna þess að þær umsagnir yrðu ekki góðar og það veit hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er þessu lætt inn í skjóli nætur. Og menn vonast til þess að umræðan um Icesave, um skattana, skuldirnar og alla þá hluti verði svo mikil og svo hávær að menn geti komist upp með þetta. Gengið er jafnvel svo langt að í nauðvörn sinni hafa stjórnarliðar — ég hef bara heyrt einn þingmann, núverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, reyna að mæla þessu bót úr ræðustól Alþingis og sá hæstv. ráðherra gekk svo langt — ég veit að ýmsir hv. þingmenn hafa verið að segja þetta sín á milli, ekki þorað að fara með þetta upp í ræðustól af ástæðu — að reyna að koma þeirri hugmynd inn að þetta hafi verið ákveðið í tíð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar. Það eru hrein og klár ósannindi, enda hefði ég sem heilbrigðisráðherra aldrei samþykkt að færa heilbrigðisþjónustuna í eitthvert annað ráðuneyti, gersamlega fráleitt og kom það alveg skýrt fram í öllum plöggum og því sem unnið var að og m.a. samþykkt á þinginu um verkefnatilflutninginn, að heilbrigðisþjónustan yrði í heilbrigðisráðuneytinu. Reyndar segir þar sömuleiðis svo varðandi reglugerð um Stjórnarráðið. Að reyna að búa til eitthvað annað úr hjúkrunarheimilum en heilbrigðisþjónustu er ekki fallegur leikur og ef menn í fullri alvöru ætla að reyna að búa til búsetuúrræði úr hjúkrunarheimilunum þá má það fólk sem þar býr, og verður að vera vegna þess að það er veikt, fara að vara sig.

Reyndar er það svo að ef menn eru spurðir segja þeir að faglegt eftirlit eigi að vera hjá heilbrigðisráðuneytinu og svo verður einhver að útskýra það fyrir þeim hvaða skynsemi er í því að skipta þessu upp með þessum hætti. Hún er auðvitað engin. En það þarf ekki, virðulegi forseti, þegar norræna velferðarstjórnin er annars vegar. Þar er spuninn sem skiptir máli. Efnið og innihaldið er aukaatriði. Það er mjög slæmt í mörgum málum, virðulegi forseti, en hér er um heilbrigðisþjónustu landsmanna að ræða, hvorki meira né minna.

Því miður og talandi um spunann þá var það þannig að hv. formaður fjárlaganefndar — ég vona að þetta hafi verið einhvers konar kímnigáfa hjá honum en það kom ekki neins staðar fram og hann hafi bara verið að grínast, en hann fullyrti í fjölmiðlum að aldrei hefði verið unnið eins vel í fjárlögum og núna. Því fer auðvitað víðs fjarri, virðulegi forseti. Við erum í þeirri stöðu núna á þessum tímum sem það hefði skipt máli og skiptir máli að við stöndum saman til að vinna að endurreisninni og vinna að þeim nauðsynlegu verkefnum sem við þurfum að fara í. Ég fullyrði að stjórnarandstaðan, ekki bara sjálfstæðismenn, er tilbúin til að vinna með ríkisstjórninni að þeim nauðsynlegu verkefnum en það hefur ekki verið gert í neinu máli sem ég man eftir í svipinn, auðvitað hljóta það að vera einhver en alla vega ekki þessum stóru málum. Við þekkjum Icesave, ég ætla ekki að fara yfir það hér. Það er mjög margt slæmt við vinnubrögðin í Icesave og það hefur skilað sér í niðurstöðunni.

Eitt er það að í stað þess að hinkra með og vinna það mál betur hefur öll vinna fjárlaganefndar farið í það mál. Ég verð að viðurkenna að þegar menn gerðu samkomulag um Icesave þá hugsaði maður til þess hvernig í ósköpunum menn ætluðu að vinna fjárlögin í framhaldinu því að menn vissu hvaða verkefni voru eftir. En það hafði enginn hugmyndaflug í það að menn mundu ganga í að rífa fjárlagafrumvarpið út úr nefnd og ríkisstjórnin í samráði og hvað þetta heitir nú allt saman, fagleg vinnubrögð og öll þessi fallegu orð, þetta var kaldhæðnislegt af því að hér kom hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og talaði um það að fagnefndirnar þyrftu að vinna þessa hluti en við í heilbrigðisnefnd vorum ekkert búin að fjalla um það sem sneri að heilbrigðismálum þegar búið var að rífa fjárlagafrumvarpið úr fjárlaganefnd. Það var búið. Okkur var falið að fara yfir þá þætti sem fagnefnd en það var bara búið að rífa þetta út. Þetta eru faglegu vinnubrögðin. Þetta er það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson talar um sem bestu vinnubrögð við gerð fjárlaga, sem er auðvitað öfugmæli. Ætli þetta séu ekki verstu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð og hv. þingmenn gerast svo grófir að bera þetta saman við fjárlögin í fyrra því menn hafa þurft að skrifa aftur nýtt frumvarp eftir hrunið, hvorki meira né minna. En það er alveg ljóst að það frumvarp var unnið mun betur en þetta sem er núna þó að menn hafi haft heilt ár til að vinna það.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af mjög mörgu í frumvarpinu. Ég hef því miður bara nokkrar mínútur til að fara yfir helstu málin. Ég ákvað þess vegna að fara yfir það sem ég ætla ekki neinum öðrum hv. þingmanni annað en það sama og ég vil í þessu máli, þ.e. að halda þjónustunni eins góðri og mögulegt er. En ég veit alveg hvað þetta fjárlagafrumvarp þýðir og Hulda Gunnlaugsdóttir fór vel yfir það. Þetta eru ekki mín orð. Ég hef notað orð Huldu Gunnlaugsdóttur. En það er alveg sama þó að menn taki orð annarra forustumanna í heilbrigðismálum á Íslandi. Það eru allir sammála. Ég hef ekki heyrt einn einasta aðila mæla því bót að fara í flatan niðurskurð og hæstv. ráðherra getur ekki komið hér í ræðustól eins og hún gerði og sagt að það sé ekki flatur niðurskurður vegna þess að prósentan á milli stjórnsýslustofnananna og einstakra heilbrigðisstofnana sé misjöfn. Það er flatur niðurskurður. Það er bara misjöfn prósenta eftir því hvort það er stjórnsýslustofnun eða heilbrigðisstofnun. Það er flatur niðurskurður, enda sagði forstjóri Landspítalans, Hulda Gunnlaugsdóttir, það mjög skýrt þegar hún sá fjárlagafrumvarpið.

Ég spyr því hæstv. ráðherra þessara tveggja spurninga: Hvað gerðist? Af hverju er hæstv. ráðherra ekki sömu skoðunar og þegar hún lýsti því yfir að henni fyndist bagalegt að þessar tillögur væru ekki í fjárlagafrumvarpinu og svo vildi ég gjarnan fá fagleg rök fyrir flutningnum.



[00:29]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hæstv. ráðherra að ávarpa forseta með viðeigandi hætti.)

Herra forseti. Ég ætla í stuttu andsvari að nefna hér þrjú atriði sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði mig um, í fyrsta lagi Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem vissulega er við mikinn vanda að etja. Það er ekki aðeins að gerð sé 2 milljarða kr. aðlögunarkrafa á sjúkrahúsið á næsta ári, heldur bætist þar við halli frá þessu ári upp á 1,2 milljarða kr. Þetta er mikið vandaverk og það er unnið hörðum höndum að því á spítalanum núna á hverjum degi að gera rekstraráætlun sem uppfyllir þessar kröfur fyrir næsta ár. Ég tel, sem betur fer, að það muni nást og ekki með uppsögnum 600–700 manna eins og tilkynnt var hér 1. október, eða 450–500 manna eins og Hulda Gunnlaugsdóttir nefndi, heldur sem betur fer með allt öðrum hætti.

Í öðru lagi ætla ég í seinna svari mínu að koma að kragaverkefninu, en mig langar til þess að byrja hér á þessum flutningi hjúkrunarheimila yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Ég ítreka það sem hv. þingmaður sagði, heilbrigðisráðuneytið ber áfram ábyrgð á gæðum heilbrigðisþjónustu alls staðar, líka á hjúkrunarheimilum, bæði samkvæmt lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð um Stjórnarráðið. Og það er sameiginlegur skilningur ráðuneytanna tveggja að það þurfi að auka möguleika til fjölbreyttari og meiri þjónustu fyrir aldraða, m.a. með heimahjúkrun og skammtímavistun, og að við ráðstöfun fjármagns megi ekki einblína á hjúkrunarheimili heldur færa fjárveitingar milli þjónustuúrræða í samræmi við þörf og óskir hinna öldruðu. Og það er nauðsynlegt að útfæra samkomulag sem gert var á milli ráðuneytanna (Forseti hringir.) í haust til þess að tryggt sé að þessi stefnumörkun (Forseti hringir.) megi ná fram að ganga.



[00:32]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra ekkert út í hvernig gengi að ná fram árangrinum, eða réttara sagt rekstraráætlun næsta árs á Landspítalanum þannig að ég veit ekki af hverju hæstv. ráðherra var að svara því. Ég spurði hæstv. ráðherra hvers vegna hún hefði skipt um skoðun frá því að hún nefndi bæði í fjölmiðlum og í þinginu að hún teldi bagalegt að niðurstöður skýrslunnar sem er kennd við Huldu Gunnlaugsdóttur væri ekki komin í fjárlögin. Ég spurði annars vegar að því og svo spurði ég um faglegu rökin fyrir því að færa heilbrigðisþjónustu frá heilbrigðisráðuneytinu. Og það komu engin fagleg rök fram í þessu svari, engin.

Ég sit í heilbrigðisnefnd, við höfum spurt eftir faglegum rökum og það hafa ekki komið nein svör. Auðvitað vita allir að það þarf að vera yfirsýn yfir þennan málaflokk og allir vita að það er æskilegt að hafa fleiri þjónustuúrræði en einungis hjúkrunarheimili. Það er það sem ég vann að sem ráðherra með mjög góðum árangri. Við fluttum sömuleiðis heimahjúkrunina yfir til Reykjavíkur og sameinuðum heimahjúkrun og heimaþjónustu sem er nokkuð sem hefur verið talað um í áratugi en við náðum sem betur fer að gera það.

Virðulegi forseti. Ég á enn eftir að fá svör við þessum spurningum og ég vonast til að fá þau í næsta andvari. Af hverju skipti hæstv. ráðherra svona skyndilega um skoðun varðandi niðurstöður úr skýrslu frá Huldu Gunnlaugsdóttur, sérstaklega með þessi rök fyrir framan sig eftir þennan hóp sem hún var með sjálf? Það er önnur spurningin. Síðan (Forseti hringir.) eru faglegu rökin fyrir flutningnum.



[00:34]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki tök á því í stuttu andsvari að endurtaka þá umræðu sem hér fór fram að frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur fyrir réttum þrem vikum um flutning hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða frá heilbrigðisráðuneyti til tryggingamálaráðuneytis. Það eru nokkur rök fyrir þeim flutningi og ég nefndi þau í framsögu minni, m.a. er það stefna og krafa samtaka aldraðra að ellin sé ekki sjúkdómavædd eins og það heitir. Það er líka ákveðin stefnumörkun að flytja þessa þjónustu til sveitarfélaga vegna m.a. samþættingar á heimaþjónustu og heilbrigðisþjónustu og svo stendur til samkvæmt stjórnarsáttmála að sameina þessi tvö ráðuneyti, heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég lýsti því í þeim umræðum sem hér fóru fram að ég væri ekki sannfærð en ég sagði líka áðan að ég reiknaði með að ráðuneytin mundu nú finna leiðir til að tryggja fjármagn til eflingar heimahjúkrun vegna þess að það er aðalatriði en ekki hvar fjármunirnir liggja.

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að hrósa aftur þessari frábæru vinnu í kragaverkefninu sem hefur verið unnin núna á mettíma. Hún mun nýtast vel strax á næsta ári þeim stjórnendum heilbrigðisstofnana sem hafa lagt mjög hart að sér við að koma þessu verki í höfn og það enda þótt 1.400 millj. kr. séu alls ekki í hendi. Ég hef margskýrt það hver munurinn á þessu er, það er verið að tala um reksturinn eins og hann var fyrir hrun, á árinu 2008, og síðan er búið að breyta mjög miklu í rekstri allra þessara sjúkrastofnana. Meðal annars er búið að skera niður um 1.700 millj. kr. á Landspítalanum á þessu ári og um 500 millj. kr. í kraganum og 200–300 til viðbótar.

Þessar tillögur verða áfram til skoðunar en þær náðu (Forseti hringir.) ekki að verða grundvöllur að fjárlagatillögum fyrir árið 2010 — og það jafnvel þótt hv. þm. (Forseti hringir.) Guðlaugur Þór Þórðarson hafi í sinni ráðherratíð verið búinn að ákveða (Forseti hringir.) þetta allt saman. Það bara gerðist ekki.



[00:36]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að sá sem hér stendur var búinn að ákveða þetta í sinni ráðherratíð. Ástæðan fyrir því að það gerðist ekki var að nýr ráðherra kom inn. Það er bara svo einfalt. (Heilbrrh.: En mótmælin …?) Margar erfiðar ákvarðanir voru teknar í heilbrigðisráðuneytinu í minni tíð og sem betur fer skiluðu þær sér allar. Biðlistarnir hurfu ekki af sjálfu sér, lyfjakostnaður lækkaði ekki af sjálfu sér og ef menn halda að því hafi ekki verið mótmælt þegar það var gert er það mikill misskilningur. Ef menn halda að það hafi verið pólitískt sársaukalaust að setja faglega stjórn á Landspítalann er það mikill misskilningur.

Hér eru engin rök og engin svör við spurningum mínum. Ég spurði hæstv. ráðherra hvað hefði breyst, af hverju hún hefði skipt um skoðun. Það hefur ekkert komið fram. Það er ekki rétt að þetta sé ekki í hendi, þetta er í hendi og meira að segja 1.400 millj. kr. þrátt fyrir lækkunina vegna þess að það er mikið inni í þeim þáttum sem á eftir að reikna. En segjum að það væri bara milljarður, það er ekki lítið.

Varðandi rökin, förum yfir þau varðandi flutninginn. Ellin ekki sjúkdómavædd? Það hefur bara ekkert með hjúkrunarheimili að gera, það er enginn á hjúkrunarheimili nema hann sé veikur og það er bæði eldra og yngra fólk.

Yfir til sveitarfélaga? Félagsmálaráðuneytið er ekkert ráðuneyti sveitarstjórnarmála, það er samgönguráðuneytið. Það er alveg hægt að færa þessa hluti beint yfir til sveitarfélaganna ef menn vilja. Ég fór með heimahjúkrunina yfir til sveitarfélagsins og samningar voru gerðir við Akureyri og Höfn í Hornafirði löngu fyrir mína tíð.

Sameina félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti? Ef það er að gerast er þá bara ekki skynsamlegast að bíða eftir þessu?

Þetta snýst um það að hæstv. ráðherra hefur gefið eftir (Forseti hringir.) í þessu máli og það er mjög alvarlegt að heyra að heilbrigðisráðherra, sama hver það er, sætti sig við að heilbrigðisþjónusta fari í eitthvert ráðuneyti. Það er mjög alvarlegt og mun hafa alvarlegar afleiðingar.



[00:39]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hagstjórnartækjum er gjarnan skipt í fjármálastjórn og peningamálastjórn. Peningamálastjórn er á höndum Seðlabanka en fjármálastjórn á hendi Alþingis og ríkisstjórnar. Almennt samkomulag er meðal hagfræðinga um að seðlabankar eigi að vera sjálfstæðir og ekki lúta pólitískri eða með öðrum orðum stjórnmálalegri forskrift. Fjármálastjórn eða stjórn ríkisfjármála er á hinn bóginn eðli máls samkvæmt á hendi stjórnmálamanna. Ef vel á að vera þarf að vera samhljómur á milli peningamálastjórnar og fjármálastjórnar. Það liggur í augum uppi að ef þensla er í hagkerfinu kann það ekki góðri lukku að stýra að peningamálastjórn noti aðferðir sem draga úr þenslu en á sama tíma sé ríkisfjármálum stýrt á þann veg að þau leiði til þenslu í hagkerfinu. Þannig var það nú samt á árunum fyrir hrun.

Ljóst er að á undanförnum árum hefur hvort tveggja mistekist fullkomlega hér á landi, fjármálastjórn og peningamálastjórn, enda hrundi hér efnahagskerfið og verkefni næstu ára er að endurreisa efnahagslífið undir og með leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég vona að mér fyrirgefist að fjalla hér nokkuð um fjárlagagerð og hvernig að henni hefur verið staðið hér á landi undanfarin ár án þess að taka sérstaklega til það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir. Ég sit í þrem nefndum sem skiluðu áliti til fjárlaganefndar, utanríkismálanefnd, allsherjarnefnd og heilbrigðisnefnd, og skrifaði undir meirihlutaálit tveggja þeirra síðarnefndu með fyrirvara, til að vekja athygli á því að ég tel að það verklag sem viðhaft er við fjárlagagerð standist ekki þær kröfur sem þingmenn eiga að gera til starfa sinna. Ég hafði skrifað undir álit utanríkismálanefndar áður en ég gerði það upp við mig að ég gat ekki setið þegjandi hjá og verð ég að biðja þingheim að virða mér það til vorkunnar að ég var sein að hugsa.

Áður en ég held lengra með mál mitt vil ég ítreka að fyrirvari minn er við það verklag sem verið hefur á Alþingi um áraraðir og beinist ekki sérstaklega að þeirri vinnu sem unnin hefur verið hér í haust. Við stöndum á tímamótum við að byggja hér upp nýtt kerfi og nýtt verklag við stjórn landsins og því finnst mér nauðsynlegt að segja skoðun mína í þessu máli.

Á vefnum fjarlog.is er að finna kafla eða dálk sem heitir „fjárlagaferli stjórnvalda“. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í fjárlagagerðinni er glímt í senn við helstu hagsmuni þjóðfélagsins, efnahagsleg áhrif ríkisfjármálanna og áherslur í verkefnum ráðuneyta og stofnana. Fjárlagaferlinu er ætlað að leiða til lykta margvísleg pólitísk og fagleg úrlausnarefni á þessum sviðum og færa niðurstöðurnar í fjárhagslegan búning fjárlaganna.“

Það má ljóst vera af þessu að hér er eitt veigamesta mál sem þingið tekur sér fyrir hendur ár hvert. Þegar þingið kemur að málinu hafa hins vegar allar veigamestu ákvarðanirnar verið teknar og þingið glímir við að rýna í meira en 1000 fjárlagaliði sem þingmenn hafa litlar eða engar forsendur til að meta hvort rétt sé úthlutað til.

Á þessari sömu vefsíðu er því lýst hvernig undirbúningur fjárlagagerðarinnar fer fram að hætti rammafjárlagagerðar, aðferð sem miðar að því að efla hlutverk ríkisstjórnarinnar við stefnumörkun og ákvarðanatöku og veita ráðuneytum og stofnunum meira svigrúm við útfærslu þeirra. Aðferðin á að efla hlutverk ríkisstjórnarinnar við stefnumörkun. Það mun vera þannig að í upphafi árs ákveður ríkisstjórnin heildarútgjaldastigið. Eftir því sem mér er best kunnugt kemur Alþingi ekkert að þeirri ákvörðun, en þetta er einmitt veigamesta ákvörðunin í allri fjárlagagerðinni því að hún ber með sér áhrif ríkisfjármálanna á efnahagslífið.

Ímyndum okkur að við búum við venjulegar aðstæður í efnahagslífi, þá veldur halli á ríkissjóði þenslu en afgangur dregur að sama skapi úr henni. Þetta eru hinar stóru línur sem dregnar eru með fjárlögum. Í mínum huga hlýtur Alþingi að eiga að koma að þeirri ákvörðun strax á fyrsta stigi því að það er þingið sem á að setja hinar breiðu línur og síðan á ríkisstjórnin að framkvæma.

Rammafjárlögin ákveða ekki einungis hver hin efnahagslegu áhrif fjárlaganna verða, heldur er með þeim einnig ákveðið hversu mikið er til ráðstöfunar fyrir ríkið. Þá er komið að næststærstu ákvörðuninni í fjárlagagerðinni sem er þegar útgjöld til einstakra ráðuneyta eru ákveðin. Enn þá er Alþingi víðs fjarri, það er ríkisstjórnin sem ákveður það.

Látum eins og við séum í venjulegu árferði. Þá er það ríkisstjórnin sem ákveður hvort auka eigi útgjöld til menntamála eða félagsmála, hvort draga eigi saman í samgöngumálum eða heilbrigðismálum. Kannski má einfalda þetta með að segja að það sé styrkleiki ráðherranna við ríkisstjórnarborðið sem ræður því hver þróun hinna ýmsu málaflokka verður. Það getur ríkisstjórnin gert án þess að ráðfæra sig við Alþingi.

Hvenær kemur Alþingi svo að málum? Jú, það er fyrst þegar búið er að skipta milli 500 og 600 milljörðum niður á meira en 1000 fjárlagaliði. Plöggin eða öllu heldur bækurnar sem bornar eru fyrir þingmenn eru eins óárennilegar og hugsast getur. Enda virðist það vera sérfræði einhvers konar að sitja í fjárlaganefnd daginn langan allt haustið og rýna í tölur.

Þeim þingmönnum sem ekki eru í fjárlaganefnd eru síðan afhentir svokallaðir safnliðir til útdeilingar. Safnliðir eru fjárhæðir sem úthlutað hefur verið óskiptum á hin ýmsu ráðuneyti. Hinum svokölluðu fagnefndum þingsins er ætlað að deila þessum peningum til ólíkra verkefna sem fólk, félagasamtök og fyrirtæki sækja um. Fyrir nefndarmenn mætir síðan heiðvirt fólk og flytur mál sitt, allt þjóðþrifamál. Og við þingmenn getum gert okkur digur með því að játa eða hafna beiðnum. Þetta árið er auðvitað minna útdeilt en oft áður, en gefur okkur kannski betra færi á að láta líta út sem við höfum einhver áhrif.

Það var við þessa athöfn sem það rann upp fyrir mér að ég gæti ekki setið þegjandi hjá.

Þegar vikið er að þessari útdeilingu safnliða og haft á orði að vinnulagið gangi ekki segja reyndir menn að þetta séu tiltölulega litlir fjármunir sem ekki skipti máli í heildarmyndinni — og vissulega er það rétt að þetta er lítill hluti fjárlaganna. Athugasemdir eins og þessar, að þetta séu litlir fjármunir, eru hins vegar gömul aðferð til að halda við gömlu og úreltu kerfi. Staðreyndin er sú að allt fjárlagakerfið þarf að endurskoða. Þingmenn eiga að ákveða stóru línurnar, rammann, og það er síðan framkvæmdarvaldsins að skipta niður á liðina 1000. Þingmenn eiga síðan að notfæra sér vinnu ríkisendurskoðanda sem vinnur mikilvægt starf og birtir fjölda skýrslna á hverju ári sem lítið eða ekkert er fjallað um. Þingið á að fjalla um þessar skýrslur og veita framkvæmdarvaldinu aðhald með því móti og ekki síður læra af því sjálft og bæta vinnubrögð sín.

Virðulegi forseti. Fjárlagagerðin hér á landi er enn einn áfellisdómurinn yfir ríkisstjórnum fyrri ára. Hér lék allt í lyndi í nokkur ár. Þessi ár hefði átt að nota til að koma á nútímalegu kerfi við fjárlagagerð. Það var ekki gert. Það er nauðsyn að í þetta verði ráðist strax í upphafi næsta árs. Auk vinnulagsins sjálfs þarf að endurskoða framsetningu fjárlagafrumvarpsins og allra þeirra upplýsinga sem þeim fylgja. Við þingmenn þurfum að fá skýrari og einfaldari upplýsingar um ríkisfjármálin en við fáum í dag. Það mun ekki einungis koma okkur að gagni, heldur einnig öllum þeim sem hafa áhuga á að fylgjast grannt með þessum málum og þá um leið veita okkur aðhald í verkum okkar þegar við tökumst á við það ábyrgðarmikla verkefni að ráðstafa sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Vissulega þarf einnig að taka á ýmsu í framkvæmd fjárlaganna. Ráðuneyti og stofnanir eiga að fara að fjárlögum og auðvitað skiptir máli hvort eða hvernig má færa fjárheimildir á milli fjárhagsára og auðvitað skiptir líka máli að varasjóður sé í fjárlögum til að eiga fyrir ófyrirséðum útgjöldum vegna frávika í þeim forsendum sem gefnar eru. Og það gengur ekki að nota fjáraukalög eins og gert hefur verið. En það skiptir ekki síður máli að fjárlagagerðin sjálf sé hafin yfir gagnrýni svo sem framast er unnt. Þar eru hæg heimatökin, það er undir okkur einum komið hér í þessum sal að standa þannig að fjárlagagerðinni að við gætum verið stolt af þótt seint muni þingheimur sammála um innihald fjárlaganna. Ég tel það eiga að vera forgangsverkefni þingsins strax á fyrstu mánuðum næsta árs að endurskoða allt vinnulag við fjárlagagerðina. Fyrsta skrefið í þá átt væri að Alþingi en ekki ríkisstjórnin ákvæði fjárlagaramma ársins 2011 strax í upphafi ársins.



[00:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka að mestu leyti undir þær athugasemdir sem fram komu hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér, Valgerði Bjarnadóttur. Það er rétt að vissulega er hálffurðulegt að vera nýr þingmaður hér og fylgjast með því hvernig fjárlagavinnan fer fram. Þar sem ég er gamall sveitarstjórnarmaður og sit enn í sveitarstjórn veit ég að þar er gríðarlega mikil áhersla lögð á gagnsæi í vinnubrögðum og ég tel rétt að viðhafa þau vinnubrögð jafnframt hér í þinginu, þannig að því sé haldið til haga. Hvaða aðgerðir eigi svo að fara í — ég tel að ástæða sé til að við þingmenn, sama úr hvaða flokki við komum, setjumst saman yfir það og reynum að finna einhverja leið.

Fyrrverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, beitti sér fyrir umfangsmiklum breytingum á íslenskri stjórnsýslu með nýskipan í ríkisrekstri, verkefni sem hann stýrði og Geir Haarde tók síðan við, og það urðu miklar breytingar í rekstri ríkisins og umgjörðinni allri á þeim tíma. Ég tel einfaldlega rétt að fara aftur yfir þá vinnu og fara með hana yfir á næsta stig. Ég fagna því að fleiri þingmenn séu á þeirri línu vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við förum reglulega yfir vinnubrögðin og lagfærum það sem þarf að lagfæra. Ég held að það hafi vakið furðu flestra nýrra þingmanna að taka þátt í þeirri vinnu sem úthlutun safnliðanna er vegna þess að þetta vinnulag virkar ansi fornt miðað við það sem maður er vanur úr sveitarstjórnargeiranum. Það hlýtur að vera hægt að finna betri leið en þá sem hér er farin.

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjárlagafrumvarp ársins 2010 og ég tel rétt að það komi fram að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir bæði í ræðum og riti að nú eigi að taka upp ný, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Þess vegna er full ástæða til að stjórnarþingmenn sem vilja að farið sé í þá vinnu fylgi þeim yfirlýsingum eftir vegna þess að það er vart hægt að sjá að þessum nýju vinnubrögðum sem boðuð voru hafi verið framfylgt hér í þinginu, í þessari umferð a.m.k. Vissulega hef ég skilning á því að það eru skrýtnir og erfiðir tímar en engu að síður er sú ríkisstjórn sem hér ríkir búin að vera við völd í marga mánuði, (Gripið fram í: Ellefu.) ellefu mánuði, (Gripið fram í: Og hvað marga daga?) og ljóst er að það hefur verið tími til þess að taka ýmsar ákvarðanir en það hefur hins vegar ekki verið gert. Í þessu máli sem og nánast öllum öðrum málum sem ég hef tjáð mig um á þessu þingi er hægt að tala um að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar séu í orði en ekki á borði, svo að það sé sagt enn einu sinni.

Herra forseti. Ég hef talsverðar áhyggjur af þeim lausatökum sem virðast vera á því hvernig tekið er á fjárlögum þess árs sem nú lýkur senn. Þeir starfsmenn stjórnsýslunnar sem stýra stofnunum ríkisins hafa enn ekki fengið skýr svör við því hvort og þá með hvaða hætti verði hægt að flytja fjárheimildir milli ára. Sú heimild sem kom einmitt í kjölfar hinna miklu stjórnsýslubreytinga sem Friðrik Sophusson og fleiri beittu sér fyrir var að stjórnendur stofnana og stofnanir gátu flutt með sér afgang á milli rekstrarára. Það gat verið hentugt í tilvikum þegar þurfti að gera ráð fyrir einhvers konar einskiptis útgjöldum sem þá var hægt að hagræða á einu ári og stofna til útgjalda á næsta ári. Þannig gátu menn unnið sér í haginn án þess að tapa þeim fjárheimildum sem úthlutað var. Með þessu var komið í veg fyrir þá stjórnsýslu sem áður tíðkaðist þegar í rauninni var alltaf verið að refsa þeim sem stóðu sig vel í ríkisrekstrinum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að það sé farið skýrt í að viðhalda þessu kerfi að því leyti að þeir sem standa sig vel í ríkisrekstri beri ekki skarðan hlut frá borði þegar kemur að því að taka af þær fjárheimildir sem úthlutað hefur verið af hálfu ríkisins.

Í allri fjárlagagerð, allri stjórnsýslu og fjármálaumsýslu, sama hvar það er, er gríðarlega mikilvægt að vinnureglur séu skýrar. Því vekur það mér mikla furðu að enn sé ekki búið að gefa út skýr skilaboð um hvernig eigi að fara með þessar fjárheimildir sem er óráðstafað á milli ára. Nú eru rúmar tvær vikur eftir af þessu ári og samkvæmt upplýsingum úr fjárhaldsbókhaldi ríkisins benda allar líkur til þess að verulegur fjöldi stofnana sem áttu ónotaðar fjárheimildir frá fyrri árum hafi notað þær á árinu. Það gengur þvert á fyrirætlanir stjórnvalda sem gefnar voru út í júní en þessu hefur greinilega ekki verið komið nógu skýrt til skila. Vísbendingar gefa tilefni til að ætla að einfaldlega hafi verið gefin misvísandi skilaboð um hvort það ætti að fylgja þessu eða ekki. Þannig liggur fyrir samkvæmt mínum heimildum í fjárlagavinnunni erindi eða bréf frá menntamálaráðuneytinu þar sem ljóst er að þessari reglu var ekki fylgt í því ráðuneyti og því er ástæða til þess að rannsaka hvort sama gildi um fleiri ráðuneyti. Þess vegna, herra forseti, má búast við því að þeir sem vilja standa sig vel í fjármálastjórn hafi ekki til þess þá nauðsynlegu hvata sem við blasa af því að það verður tekið af þeim sem ekki hefur verið eytt. Þarna erum við eiginlega komin mörg ár aftur í tímann, áður en verkefninu nýskipan í ríkisrekstri var hrundið af stað sem skilaði gríðarlegum bata í því hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað. Það er frekar sorglegt að horfa upp á þetta.

Herra forseti. Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að það er óhjákvæmilegt að skera niður í ríkisrekstrinum. Niðurskurðurinn verður okkur öllum erfiður og allir landsmenn eiga eftir að finna fyrir honum. Þó er mikilvægt að við þann niðurskurð verði beitt skýrri forgangsröðun og gætt jafnræðis þannig að þeir íbúar sem byggja þetta land hafi á tilfinningunni að svipaðar reglur eða samrýmanlegar gildi um alla þannig að það sé hægt að skilja verklagið og vinnulagið og það myndist ekki t.d., eins og sumir hafa óttast, gjá á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins í því hvernig verður skorið niður t.d. í opinberri þjónustu, í heilbrigðismálum og samgöngumálum. Nú hafa t.d. Vestmannaeyingar vakið athygli á því að til standi jafnvel að fækka ferðum Herjólfs til Eyja. Herjólfur er einfaldlega þjóðvegur til Vestmannaeyja og það er hálfankannalegt að það eigi að fækka möguleikum Eyjamanna til að ferðast eftir þjóðvegi landsins því að mér er ekki kunnugt um að gripið hafi verið til samsvarandi ráðstafana gagnvart öðrum landsmönnum. Þetta er bara eitt dæmi um það sem þarf að hafa í huga þannig að allir átti sig á því að vissulega sé verið að skera niður. Allir skilja að það þarf að gera en fólk þarf að vita að það sé forgangsröðun og jafnræðis sé gætt .

Þetta fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú uppfyllir ekki þessar kröfur, því miður. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast einfaldlega ekki ráða við það verkefni að skera niður. Það eru hálfgerð vonbrigði að sjá það vegna þess að aldrei áður hefur verið jafnknýjandi þörf fyrir festu í fjármálum ríkisins og það er dapurlegt að við séum í þessum sporum. Ég held að íslenska þjóðin búist við því að okkur sem hér störfum auðnist að taka höndum saman og koma böndum á ríkisreksturinn. Það er nauðsynlegt til þess að hér flæði ekki yfir enn frekari skattahækkanir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og til þess að koma hlutunum þannig fyrir að atvinnulífið geti styrkst og atvinnutækifærum fjölgi. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni.

Nú hefur komið fram í umræðunum, herra forseti, að ýmsir hafa uppi þá skoðun að vernda þurfi heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið. Vissulega væri ágætt ef hægt væri að vernda þetta allt saman en það er hins vegar ekki raunhæft. Það þarf að skera niður á öllum sviðum og það verður að krefjast þess af öllum ríkisstofnunum að vel sé farið með þá fjármuni sem til skiptanna eru. Ég hef trú á því að ef rétt er haldið á spilunum verði efnahagslægðin skammvinn þó að það sæki vissulega að manni ýmsar efasemdir eftir að hafa lesið þetta nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar. Mín skoðun er sú að við niðurskurð í ríkisrekstri verði fyrst og fremst að taka mið af því að öryggi landsmanna sé tryggt. Þar á áherslan að mínu viti að liggja vegna þess að öryggi er sú grundvallarstoð sem samfélagið byggir á. Í því sambandi verður sérstaklega að líta til þeirra verkefna sem lögreglan sinnir og það verður að gæta að því að vega ekki of harkalega að þeim vegna þess að verkefnin á því sviði eru að aukast og það er gríðarlega mikilvægt að landsmenn allir finni fyrir því að grunnstoðir eins og löggæsla og sjúkrabílaakstur verði enn til staðar, sama hvar á landinu maður býr. Vissulega hafa heyrst raddir, m.a. af Reykjanesinu og eins af Suðurlandi, um að til standi að skera verulega niður þjónustu sjúkrabíla. Það er áhyggjuefni að forgangsröðunin sé sú og maður skilur þær athugasemdir sem fram hafa komið, m.a. í fjölmiðlum, um einstaka liði í fjárlagafrumvarpinu sem virðast í einhverjum tilfellum vera til nokkurs konar gæluverkefna á meðan menn horfa upp á að það eigi að skera niður á mikilvægum og lífsnauðsynlegum sviðum eins og í sjúkrabílaakstri.

Herra forseti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar — og ég tel reyndar að fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd sé með á þessu áliti með fyrirvara, já, það er rétt — þar sem tekið er á helstu göllunum á fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur frá ríkisstjórninni. Helstu athugasemdirnar sem gerðar eru í þessu nefndaráliti eru að tekjuhlið frumvarpsins sé ekki klár og að þegar hafi verið slakað á aðhaldskröfum milli 1. og 2. umr. Þar sé í rauninni verið að hverfa frá því að taka á þessum vanda af festu og í þriðja lagi varðandi þessar óráðstöfuðu fjárheimildir. Þá hafa sjálfstæðismenn bent á aðrar leiðir til tekjuöflunar, m.a. með skattlagningu séreignarsparnaðar og aukningu aflaheimilda auk þess að leggja til frekari sparnaðaraðgerðir sem útlistaðar eru í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Ég vonast svo sannarlega til þess, herra forseti, að það verði lagst yfir þessar tillögur á sanngjarnan hátt í fjárlaganefndinni og þær ábendingar verði teknar til yfirvegunar og skoðunar en ekki einfaldlega kastað fyrir róða af því að þær eru lagðar fram af Sjálfstæðisflokknum. Nú hefur manni heyrst í umræðunni, sérstaklega varðandi skattlagningu séreignarsparnaðar, að þessa hugmynd megi ekki ræða, þetta sé fyrir fram dæmt af fulltrúum stjórnarflokkanna sem tillaga sem sé ekki vert að ræða. Ég hef vissulega áhyggjur af því og ég tel að allir landsmenn hafi áhyggjur af því að þetta séu vinnubrögðin hér. Við stöndum frammi fyrir afskaplega stóru vandamáli og stóru verkefni í ríkisfjármálunum og okkur ber að leita allra leiða til þess að hindra að farið verði í það miklar skattahækkanir að við endum á því að dýpka kreppuna. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því að þessar ráðstafanir sem stjórnarflokkarnir leggja á borðið verði þess valdandi að kreppan dýpki. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér, herra forseti, en reynsla annarra landa kennir okkur að í kreppu eins og þeirri sem hér herjar er ekki rétti tíminn til að fara í það viðamiklar skattahækkanir að þær setji kerfið okkar á hliðina. Ég óttast að það sé að gerast.

Herra forseti. Mig langar til að fara í örstuttu máli yfir þær aðgerðir sem talað er um í nefndaráliti 1. minni hluta um sparnaðarkröfurnar. Þar er gert ráð fyrir að gerð verði 10% sparnaðarkrafa til stjórnsýslustofnana. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við sendum þau skilaboð út í samfélagið að þarna eigi að byrja vegna þess að ég tel að við sem hér stöndum á Alþingi og erum í þessari fjárlagavinnu getum lært mikið af sveitarfélögunum. Vissulega eru þau minni einingar en ríkisbáknið sjálft en engu að síður gripu sveitarfélögin, flestöll sem höfðu tök á því, strax í fyrra til mikilla aðgerða við að herða vinnubrögð og eftirlit varðandi fjárhagsáætlunargerð til þess að búa sig undir það sem koma skyldi. Í þeim sveitarfélögum þar sem ég þekki best til var í rauninni byrjað á að skera niður í stjórnsýslunni, á toppnum, og síðan unnu menn sig niður allt kerfið. Ég tel einfaldlega að ríkið eigi að senda þessi skilaboð og að okkur sem hér störfum beri skylda til þess að horfa til þessarar reynslu. Þótt sveitarfélögin séu oft gagnrýnd fyrir að vera of lítil og sagt að þau geti ekki tekið á hinum og þessum málum af því að þau séu of smá og þess vegna sé nauðsynlegt að sameina þau með lögþvinguðum aðgerðum ná þau samt betur en ríkið að grípa til aðgerða gegn vágesti eins og efnahagslægðinni sem hér ríkir. Það er einfaldlega staðreynd og við eigum ekki að loka augunum fyrir því heldur sækja einmitt í þá reynslu og taka þaðan það sem hægt er að nota.

Herra forseti. Ég kom aðeins inn á það áðan að vinstri stjórn hefur nú ríkt í landinu í ellefu mánuði og einhverja daga. Þess vegna er ekki hægt að benda á að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna, að þetta fjárlagafrumvarp og þessi vinnubrögð sem hér birtast okkur varðandi ríkisreksturinn séu öðrum að kenna og á ábyrgð annarra en þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn. Það er einfaldlega ekki hægt að gera það og ekki trúverðugt. Nú er einfaldlega svo komið, herra forseti, að það er ekki lengur hægt að nota það sem afsökun að aðrir flokkar hafi ráðið fyrr á tímum. Nú eru menn búnir að hafa tæpt ár til þess að breyta hlutunum. Það átti ekki að breyta neitt litlu, það átti að breyta öllum grunnstoðum kerfisins. Það er ekki endalaust hægt að skýla sér á bak við aðra en sjálfan sig, menn þurfa að bera ábyrgð á eigin gerðum hvort sem þeir heita Vinstri grænir eða Samfylkingin. Menn þurfa að kannast við vald sitt.

Ef við tökum dæmi eins og mál sem hefur verið mikið rætt hér á þinginu, Icesave-málið, þá eru þeir flokkar sem hér stjórna með valdið í sinni hendi um það hvort og með hvaða hætti samið er um Icesave. Það var gert á ákveðinn hátt. Við sjálfstæðismenn hefðum ekki leitt það mál til lykta á þann hátt sem núverandi flokkar í ríkisstjórn gerðu. Engu að síður koma menn hingað upp og segja að þessi niðurstaða sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þetta þykja mér einkennileg vinnubrögð og mér finnst mjög skrýtið ef menn eru í framboði og pólitík eingöngu til þess að benda á aðra en sjálfa sig. Ég vonast til þess, herra forseti, að þessu fari nú að linna, að menn fari einfaldlega að vera í pólitík á eigin forsendum og tala fyrir eigin málstað en ekki til þess að lasta aðra eða vera á móti öðrum. Mér leiðist þessi lenska. Það eru helst eldri þingmenn sem gera þetta, herra forseti, og ég vonast til þess að menn vindi sér í að tala bara fyrir sjálfa sig. Þeir hljóta að vera í pólitík af einhverjum ástæðum, vegna einhverra hugsjóna sem þeir ætla þá að koma til framkvæmda þar sem þeir eru einu sinni með völdin í sínum höndum. Ég vonast til þess að sjá þessa breytingu með hækkandi sól á nýju ári en engu að síður verðum við að klára þessi fjárlög, okkur ber skylda til þess. Ég hef, eins og forseti og þingheimur hefur heyrt, miklar áhyggjur af öllum þessum skattahækkunum sem eiga eftir að koma til umræðu seinna í vikunni og ég mun tjá mig um þær þegar þar að kemur. Að mínu viti er gáfulegra að reyna að stækka kökuna og skapa þannig aðstæður að hér skapist fleiri störf þannig að fleiri einstaklingar komist út á vinnumarkaðinn til þess að afla sér tekna og afla jafnframt skatttekna fyrir ríkissjóð.



[01:08]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2010. Margir hafa sagt að árið 2010 verði erfiðasta ár eftir kreppuna og strax árið 2011 verði farið að létta á og við farin að sjá til lands. Það er þó mjög háð því hvernig menn vinna úr þeim áhrifum sem orðið hafa og hvernig menn taka á og þar kemur fjárlagafrumvarpið mjög sterkt inn.

Ef maður lítur á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, sem ég horfi kannski mikið á, og á fjárlagafrumvarpið í heild sinni eru á því ansi sterk vinstri merki. Það er kannski ekki undarlegt, þjóðin kaus vinstri menn. Hún kaus Vinstri græna sérstaklega, þeir voru sigurvegarar kosninganna. Þeir urðu reyndar sigurvegarar á grundvelli þess að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu, vinna ekki með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og samþykkja ekki Icesave. Þó er það allt komið til en þjóðin kaus sem sagt vinstri menn og hér er vinstri stjórn og allar þær hugmyndir sem við fjöllum um eru mjög í takt við það, og ég sætti mig alveg við það, ég sætti mig alveg við niðurstöðu kosninga.

Í tekjuhlutanum horfum við á þrepaskiptan tekjuskatt. Þetta er draumur margra vinstri manna og ASÍ tekur undir það. Marga vinstri menn dreymir um að vera með margþrepa skatt og telja að þannig náist mest réttlæti. Vel má vera að þannig náist réttlæti og slíkt kerfi tíðkast mjög víða um lönd. Kerfið verður hins vegar mjög flókið og allt það sem við ræðum hér, frú forseti, er gífurleg flæking á kerfinu.

Nú hef ég sagt það mörgum sinnum áður að flókið kerfi er um leið andfélagslegt, það er ekki gott fyrir þjóðina. Menntað fólk, og þeir sem eru mest upplýstir og fylgjast best með, geta notað sér allar þær smugur sem eru í flóknu skattkerfi en þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu eru ekki í þeim hópi. Þeir eru ekki með dýra lögfræðinga til að finna allar smugur í flóknu kerfi og þess vegna vill það oft verða svo að þegar kerfin eru gerð mjög flókin til að mæta hinum félagslega veiku eru það ekki þeir sem njóta þess. Þeir vita ekki af réttindum sínum og ef kerfið verður mjög flókið eru þeir alltaf í einhverjum útistöðum við kerfið af því að þeir skilja það ekki, fylgjast ekki með, hafa ekki rétta ráðgjöf o.s.frv. Einföld kerfi eru því í reynd, frú forseti, réttlátust, sanngjörnust fyrir þá sem þurfa að borga fyrir utan það að þau kosta þjóðfélagið miklu minna. Ekki er heill her af fólki við að vinna óarðbæra vinnu sem felst í skriffinnsku og ekki eru eins miklir möguleikar á undanskotum og svindli. Svindl er niðurbrot á siðferði og flókin skattkerfi bjóða því miður alltaf heim svindli.

Þrepaskattur í tekjum, tekin eru upp fjögur þrep, það er 0% skattur og fyrsta þrep, annað þrep og þriðja þrep. Bent hefur verið á það í umræðum að þetta er mjög andfélagslegt. Fjölskylda þar sem annar aðilinn er kannski fjarri heimili, er t.d. sjómaður eða vinnur uppi á hálendinu, og hinn aðilinn, oft og tíðum konan, þarf að vera yfir börnum og sjá um allan rekstur heimilisins sem lendir þá alfarið á henni því að hinn aðilinn getur vegna fjarlægðar ekki sinnt því — konan getur verið með núll, engar tekjur, og hann með mjög háar tekjur og þá borga þau töluvert meira en hjón með sambærilegar tekjur þar sem bæði eru með jafnar tekjur og vinna bæði nálægt heimili sínu.

Búið er að setja inn nýtt þrep í virðisaukaskatti og það er líka í samræmi við vinstri stefnuna að menn vilja hlífa þeim sem kaupa mat í þeirri trú að fólk sem er með háar tekjur borði jafnmikinn mat og þeir sem eru með lágar tekjur. Það er reyndar ekki rétt, rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru með háar tekjur eyða hlutfallslega meiru í mat en þeir sem eru með lágar tekjur, enda vita þeir sem hafa lent í kröggum og lent í að vera auralausir að það fyrsta sem fólk sparar er útgjöld í mat, það fer þá yfir í að kaupa baunir eða eitthvað slíkt.

Búið er að setja inn auðlinda- og kolefnisgjald og það er í samræmi við stefnu umhverfisverndarsinna og náttúruverndarsinna. Auðlindagjald, það að láta menn borga fyrir auðlindina, á að takmarka notkun á henni, og kolefnisgjaldið er í anda þeirrar trúar eða kenningar að koldíoxíðmengun valdi hitnun jarðar. Að því leyti er þetta skynsamlegt og rökrétt og ég hef ekki athugasemdir við það. Ég hef hins vegar mjög miklar athugasemdir við hvernig þetta er gert því að hvort tveggja er framkvæmt mjög vitlaust.

Frú forseti. Í hitaveitum alveg sérstaklega er auðlindagjald prósenta af því gjaldi sem borgað er af heita vatninu. Þær hitaveitur sem eru langarðbærastar eru ódýrastar þannig að þar sem auðlindin er mest virði þar borga menn minnst. Ég nefni Hitaveitu Sauðárkróks. Þar gusast upp mjög heitt vatn með litlum tilkostnaði og hitaveitan er mjög ódýr og þar af leiðandi borga menn lítið auðlindagjald. Þetta finnst mér alls ekki rétt og ég hef bent á þetta í hv. efnahags- og skattanefnd en menn voru ekki á þeim buxunum að fara að gera neinar breytingar þannig séð. Ég kem inn á það á eftir með allan hraðann.

Ég get líka skilið þetta auðlegðargjald, frú forseti. Ég get alveg skilið að menn vilji ná í þá sem eiga milljarða. Ekki er verið að tala um þá sem eiga venjulegar eignir, reyndar fara mörkin dálítið niður, 100 milljónir þykir kannski ekkert voðalega mikið — jæja, það var skuldlaust einbýlishús nú er það kannski einbýlishús og sumarbústaður skuldlaust af því að verð hefur lækkað. En það er eiginlega útilokað að ná í það eða reikna það, það var líka bent á það í nefndinni.

Menn hækkuðu svo tryggingagjald og það skil ég alls ekki því að það er ekki endilega í takt við vinstri stefnu. En það var gert að kröfu, eða það sögðu menn, Samtaka atvinnulífsins — mjög skrýtið og ég kem inn á það á eftir.

Svo er ráðist á áhættufé. Margir vinstri menn hafa ímugust á áhættufé og tala alltaf illa um hlutafé og arð og kúlubréf og vexti, að það sé allt af hinu illa. Það sama fólk vill samt taka lán og fá vinnu hjá fyrirtækjum sem eru mynduð með áhættufé. Það er því mótsögn í þessu hjá vinstri mönnum. Þeir vilja biðla til áhættufjárins en tala illa um það alla daga og vilja ekkert hafa með það gera, hvað þá að vinstri menn fjárfesti í atvinnulífinu, það held ég að sé ekki mjög algengt. Þó getur það vel verið, ég þekki það ekki. Þetta fjallar um fjármagnstekjur, arð, húsaleigu og söluhagnað og annað.

Það er merkilegt þegar maður skoðar þessar tillögur allar saman að þær eru í rauninni atlaga að atvinnu. Það er kannski það sem þjóðin þarf mest á að halda núna, það er atvinna. Það er atvinnuleysi og það er nokkuð sem ég hef lýst yfir að ég vilji ekki sjá. Ég vil ekki sjá, frú forseti, atvinnuleysi, hvað þá langtímaatvinnuleysi sem fer vaxandi. Það er eitthvað sem við, allir hv. þingmenn, eigum að berjast gegn af alefli. Engu að síður er niðurstaða þessara hugmynda allra atlaga að atvinnu.

Af hverju segi ég það? Það er t.d. tryggingagjaldið. Fyrir það að hafa mann í vinnu borgar fyrirtækið ákveðið gjald. Í dag er það 7%. Meðallaun eru u.þ.b. 400 þús. kr. þannig að hvert einasta fyrirtæki í landinu borgar 28 þús. kr. fyrir að hafa mann í vinnu á mánuði, það er gjaldið fyrir það að ráða mann í vinnu. Nú á það að hækka upp í 34.400 kr. fyrir 400 þús. kr. laun. Það þýðir að mörg fyrirtæki sem eru mjög knöpp, standa mjög illa og berjast við það frá einum mánuði til annars að ná endum saman og geta borgað út laun, sjá allt í einu fram á 6.400 kr. á hvern einasta starfsmann sem aukagjald á mánuði. Vel má vera að það verði til þess að þau fari á hausinn og að við búum til atvinnuleysi. Þeir sem ætla að fara að fjölga starfsmönnum hljóta líka að reikna út að þeir borgi 34 þús. kr. fyrir hvern einasta starfsmann sem er með 400 þús. kr. laun og kannski hætta þeir við að ráða nýtt fólk.

Til þess að búa til atvinnu, til þess að stofna fyrirtæki, þarf áhættufé. Það eru flestir sammála því, jafnvel vinstri menn. Sumir vilja reyndar að ríkið geri allt, sé í útgerð og hverju sem er, en það eru ekki margir í dag. Það á að koma eitthvert áhættufé einhvers staðar frá. Fyrir hrun voru óskaplega margir Íslendingar þátttakendur í áhættufjárfestingum eða í atvinnulífinu með því að eiga hlutafé. Þessi hópur manna varð langsamlega verst úti í kreppunni, ég fullyrði það. Svo tala menn um að fjármagnseigendur séu með allt sitt á þurru. Ég er svo aldeilis hissa. Ég er að láta reikna það út en ég hugsa að 60–70 þúsund manns hafi tapað að meðaltali svona 4 til 5 milljónum á mann, bara almenningur. Þessi hópur manna er illa brenndur því að hann tapaði öllu sem hann átti, og það er verið að reikna það út núna. Bara bankarnir þrír — frá einni viku til annarrar töpuðu 42 þúsund manns, ég er að tala eftir minni, að meðaltali 3 milljónum hver, bara á bönkunum þremur á einni viku. Þetta er almenningur og þar á meðal voru 11 þúsund aldraðir yfir 60 ára minnir mig eða 64 ára, 11 þúsund aldraðir sem töpuðu að meðaltali 3 milljónum.

Nú eru aldraðir eitthvað um 30 þúsund og ef maður reiknar með því að töluvert sé um pör og hjón og annar aðilinn sé skráður fyrir hlutabréfunum má með grófri nálgun segja að helmingur aldraðra hafi átt í bönkunum þremur og hafi tapað að meðaltali 3 milljónum hver. Svo er alltaf verið að ráðast á áhættufjárfesta og segja að þeir hafi allt sitt á þurru og allt frumvarpið gengur út á það. Það á að hækka fjármagnstekjuskatt, það á að hækka skatt á arð, það á að hækka skatta af eigum, það á að hækka skatt af söluhagnaði, allt í takti við hugmyndir vinstri manna og ég bara horfi á það þannig. En um leið eru þeir að drepa viljann til þess að leggja peninga í atvinnulífið, til að skapa vinnu. Ég er því dálítið svartsýnn til framtíðar með það að menn vilji yfirleitt fjárfesta í atvinnulífinu, það er miklu skynsamlegra að kaupa spariskírteini eða vera bara ekkert að leggja fyrir. Það getur vel verið að það verði niðurstaðan hjá mörgum þó að reyndar sé mjög mikill vilji til sparnaðar eftir hrun. Það er aðallega vegna þess að menn hafa þörf fyrir öryggi.

Ég hugsa að þessi atlaga að atvinnu sé ekki með vilja gerð, frú forseti. Ég er nærri viss um að þetta er ekki með vilja gert. Þetta eru mistök, þetta er hugsunarskekkja og kannski spurningin um aðra lífssýn. Ég veit ekki hvað vinstri menn halda; hvort fólk sé að fjárfesta í atvinnulífinu af hugsjón eða að gamni sínu eða til að þóknast einhverjum. Þegar menn leggja fyrir er það alltaf í formi þess að menn spara eitthvað, neita sér um neyslu. Það er alltaf þannig, menn geta ekki sparað nema neita sér um neyslu. Menn neita sér um ferðalög, menn neita sér um bílakaup, kaup á flatskjá eða dýr húsakaup og þannig geta menn sparað. Það gerist ekki öðruvísi.

Ef ég kemst yfir það ætla ég að lesa einhverjar umsagnir því að nánast engin þeirra var jákvæð, frú forseti. Það helgast kannski mest af því hve hraðinn var mikill og hve illa þetta er unnið. Mikið var rætt um að þessar skattalagabreytingar sem við ræðum um, og munum ræða betur um í vikunni þegar þær koma úr efnahags- og skattanefnd, væru atlaga að atvinnulífinu. Menn tala um að nú þurfi að skattleggja og talað er um að það þurfi að skattleggja annars vegar og skera niður hins vegar, sem sagt að minnka velferðarkerfið og auka skattlagningu.

Á það var bent að slíkt gæti verið mjög hættulegt og skaðlegt. Heimilin og fyrirtækin eru mjög löskuð eftir atburði haustsins 2008 þegar hrunið varð og mega ekki við því að borga mikla nýja skatta. Vel má vera að einstaka maður geti þetta alveg og ég efast ekkert um það en bent er á það í mörgum umsögnum að fjöldi heimila muni ekki geta þetta. Hvað gera menn þá, frú forseti, ef þeir sjá fram á að þeir geti ekki borgað skattana? Þá fara menn að huga enn frekar að því að fara til útlanda, því miður, það er þannig. Það er eitt af því versta sem gæti gerst og er þegar farið að gerast þó að menn vilji ekki horfast í augu við það. Fólk streymir til útlanda, sérstaklega þeir sem eru menntaðir og eiga kost á vinnu þar, og með hverjum og einum fer burt skattgreiðandi. Það er yfirleitt ekki þannig að þeir sem eru á bótum fari til útlanda, alla vega ekki á erlend bótakerfi. Þeir halda þá áfram að taka bætur hér á landi þannig að við höldum áfram að hafa kostnaðinn í ríkissjóði en við missum tekjurnar. Þetta er mjög hættulegt og ég ætla að biðja menn að skoða það nákvæmlega.

Í sumar myndaðist hér mikil samstaða og ég var að vonast til þess að menn mundu áfram fara í þannig samstöðuham og reyna að finna lausn á þeim mikla vanda sem menn standa frammi fyrir. Reyndar gerðist ákvörðun um þessar skattlagningar mjög hratt. Ríkisstjórnin hefur frá því í maí haft tíma til að vinna þessar hugmyndir, og jafnvel frá því í byrjun febrúar, hugmyndir sem eru vinstri sinnaðar og allt í lagi með það. Maður hefði talið að þetta mundi liggja fyrir þegar þing kæmi saman en það var ekki. Það er bara sleifarlag, ekki er hægt að flokka það undir annað. Þó að menn hafi verið að gera ýmislegt annað, eins og Icesave, Evrópusambandið eða Seðlabankinn, að reka seðlabankastjórana o.s.frv., geta þeir ekki afsakað sig með því. Sú vinna lenti að mestu leyti á stjórnarandstæðingum á meðan stjórnarliðar hefðu getað dundað sér við að búa til almennileg skattalög í sínum anda. Það var ekki gert og þess vegna sitjum við uppi með mjög illa unnin og hroðvirknislega unnin skattalög og óskaplegan hraða.

Nú á að fara að samþykkja eitthvað sem tekur gildi eftir tvær vikur, stórbreytingar á kerfinu, virðisaukaskattsbreytingar, tekjuskattsbreytingar. Það á að fara að borga út laun, bara strax 1. janúar. Þann 2. janúar borgar ríkið t.d. út laun og þá á að vera komið nýtt skattkerfi sem bæði greiðendur launa og þiggjendur eiga að skilja. Ég geri þá kröfu, herra forseti, öndvert við marga aðra, að borgarinn skilji það sem mætir honum í skattlagningu.

Hvers vegna tala ég um samstöðu? Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram hugmyndir um skattlagningu séreignarsparnaðar. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn ekkert sérstakur vinur skattlagningar en hins vegar óar hann við því að fara að skattleggja löskuð heimili og fyrirtæki í þessari stöðu og þess vegna fóru menn að leita að öðrum leiðum, líta eftir því hvar ríkið ætti eignir. Það eru eignir ríkisins í ósköttuðu fé lífeyrissjóðanna.

Ég var fyrst mjög andsnúinn því að skattleggja fé sameignarsjóðanna vegna þess að þar er um að ræða fé sem menn eiga í sameiningu. Ekki er um það að ræða að menn eigi séreign heldur er um tilfærslu að ræða milli kynslóða og einstaklinga. Sumir verða háaldraðir og taka miklu meira út úr kerfinu en þeir borguðu inn, aðrir lifa styttra, og sumir eru með maka og ómegð þegar þeir falla frá o.s.frv. þannig að það er alls ekki þannig að hver maður taki út það sem hann lagði inn en að meðaltali gerir hann það. Það er þessi tilflutningur á milli sem gerir það erfitt um vik að skattleggja það, fyrir utan það að þessi lífeyrir frá lífeyrissjóðunum er oft og tíðum grunntekjurnar hjá viðkomandi einstaklingi og lendir þá oft og tíðum undir skattleysismörkum þegar um er að ræða kerfi með skattleysismörkum yfirleitt.

Við lögðum sem sagt til skattlagningu séreignarsparnaðar og sú hugmynd er þannig útfærð að hún kemur eiginlega ekki við neinn. Um næstu áramót yrði eignin skattlögð um 37,2% og hluti af því, 13,1%, rynni til sveitarfélaganna og restin til ríkisins. Þetta er gert með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir, þeir sem það vildu, mættu borga með skuldabréfi, í stöðluðum einingum, hugsanlega milljón króna einingum eitthvað slíkt, sem semdist um milli þeirra og skattyfirvalda. Gjalddagi á þessum skuldabréfum, sem gætu verið kúlubréf en kúlubréf eru mjög sniðugt form þó að það megi kannski ekki segja það núorðið. Það yrði kúlubréf sem væri með svipuðum gjalddaga og séreignarsparnaðurinn sjálfur. Þá yrðu séreignarlífeyrissjóðirnir ekkert varir við þessa breytingu.

Það eina sem gerist er að þeir mundu gefa út skuldabréf og ríkið og sveitarfélögin sem fengju útsvarið yrðu í rauninni séreignarsparandi við hliðina á manninum sem er séreignarsparandi. Lífeyrissjóðirnir þyrftu því ekki að selja eitt einasta snitti af eignum sínum, ekki eitt einasta, og ekki yrði um neina brunaútsölu eða neitt slíkt að ræða. Ef til þess kemur að maðurinn fái séreign sína greidda út, sem allir vita að á eftir að skatta, það á sjóðfélaginn að vita eða sá sem á inneignina, þá gerist ekkert annað en það að hann fær alla upphæðina sem eftir er greidda. Hægt er að færa til bókar að hann sé búinn að greiða skatta af þessari upphæð og það standi alla tíð á yfirlitum hvaða upphæð hann er búinn að greiða og hann sé búinn að borga skatt. Óttinn við að þetta sé tvískattað er á mjög veikum grunni. Auðvitað geta menn skattað alla möguleika tvisvar en þarna er mjög erfitt um vik því hægt er að færa það í yfirlitið.

Maður sem lendir undir frítekjumörkum þegar hann tekur út sparnaðinn, það er sérákvæði um það til bráðabirgða að hann fái persónuafsláttinn greiddan, þeir sem lenda í þeirri stöðu, t.d. þeir sem taka lífeyri fyrr og eru kannski eitt eða tvö ár á séreignarsparnaðinum áður en þeir fara á almenna lífeyrinn. Þannig er þetta í stuttu máli, herra forseti, og í rauninni kemur þetta ekki við neinn, hvorki sjóðinn sjálfan né manninn sem sparar. Þetta breytir engu fyrir báða þessa aðila.

En þessi bréf sem lífeyrissjóðirnir gæfu út væru væntanlega með bestu pappírum sem til eru. Ég gæti vel ímyndað mér að pappír sem Lífeyrissjóður verslunarmanna er skuldari að væri afskaplega góður pappír því að hann skuldar ekki mikið og eiginlega ekki neitt, hann á eignir. Þessir pappírar gætu þá orðið markaðsvara sem sveitarfélögin og ríkið gætu selt. Þetta á að gefa ríkissjóði, miðað við þær áætlanir að næsta ár verði 309 milljarðar í þessum sjóðum, tæpa 75 milljarða og sveitarfélögunum 40 milljarða og veitir ekki af á þeim bæjum því að illa er komið fyrir þeim mörgum. Ég sé því ekki annað en þetta sé afskaplega góður kostur á móti öllu hinu, að fara að skattleggja allt það sem menn eru að gera.

Þarna mundi lágtekjufólk fá verðbætur á persónuafsláttinn og auk þess hækkun um 2.000 kr. um næstu áramót og 3.000 kr. um þarnæstu áramót, þannig að engu er breytt í kerfinu. Allir mundu borga lægri tekjuskatt en með þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur til og sérstaklega lágtekjufólk. Það er einmitt þetta sem ASÍ benti á í umsögn sinni, þeir voru mjög mikið á móti því að afnema verðtryggingu á persónuafslættinum sem nýbúið er að taka upp.

Ekki er öll nótt úti um það að menn ræði þetta. Ég veit ekki hvað hægt er að gera á þessum örfáu dögum. Það er kannski ekki nógu gæfulegt, menn hafa unnið dálítið hægt, það hefði mátt vinna þetta hraðar. Ekki er einu sinni búið að ræða þessa hugmynd sjálfstæðismanna um tryggingagjaldið. Frumvarpið liggur fyrir órætt en menn geta að sjálfsögðu kynnt sér það og það var samþykkt í hv. efnahags- og skattanefnd að taka það til umræðu þó að ekki væri búið að ræða það á þingi en það er heimilt samkvæmt þingsköpum.

Ég vonast til þess að meiri hlutinn sýni þann þroska að ræða þessa hugmynd, kosti hennar og galla, og fresta þá þessum skattlagningarhugmyndum sínum, jafnvel um eitt ár, vinna þær miklu betur og vera þá kominn með kerfi sem virkilega gengur upp og hægt er að samþykkja jafnvel á miðju ári þannig að allt atvinnulífið og þóðfélagið geti búið sig undir að taka það upp 1. janúar 2011. En þá, herra forseti, verður þjóðin, heimilin og fyrirtækin, miklu betur í stakk búin, eða það vonum við alla vega, til að taka á sig auknar álögur því að þá á að vera farið að birta til í atvinnulífinu og við komin yfir þann harða vetur sem allir reikna með að verði árið 2010. Ég vona því að menn gefi sér tóm og brjóti odd af oflæti sínu og ræði þessa hugmynd jafnvel þó að hún komi frá Sjálfstæðisflokknum.

Ég ætla að ræða rétt aðeins um fjárlögin sem spá. Áðan var rætt um gerð fjárlaga og hve illa er staðið að þeim. Fjárlög eru alltaf spá og fjáraukalög eiga einungis að taka á þeim málum sem ekki voru fyrir séð þegar fjárlög voru sett. Þetta er þverbrotið aftur og aftur og á það hef ég bent í mörgum ræðum um fjárlög undanfarinna ára. Menn vinna þetta ekki nægilega vel og það á ekkert frekar við um þessa ríkisstjórn en aðrar, alls ekki. Ég er alls ekki að segja að þetta sé eitthvað sérstaklega slæmt — jú, reyndar er þetta sérstaklega slæmt núna. Það er eitt sem er alveg sérstaklega slæmt og það er asinn, hraðinn og óðagotið á öllu því sem menn eru að gera. Það er stórhætta á því að einhver mistök verði gerð, það er stórhætta að einhverjir liðir sem hefði mátt skera niður, eins og ég benti á, aukning á rekstrarkostnaði Íbúðalánasjóðs, sem á að hækka um 100 millj. kr. jafnvel þó að verkefnum sé að fækka og launin að lækka. Þarna þyrfti að koma alveg sérstakur rökstuðningur. Þetta er lítið dæmi um það þar sem mönnum hugsanlega yfirsést eitthvað sem ætti eðlilega að skera niður og kannski eru menn að skera of mikið niður annars staðar. Þetta þyrfti að vinna miklu betur og miklu vandaðra en gert hefur verið.

Ég ætla ekki að fara í hvernig við stjórnarandstæðingar höfum verið meðhöndlaðir. Ég hugsa 5–6 ár aftur í tímann, þegar núverandi hæstv. fjármálaráðherra var hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon og núverandi hæstv. forsætisráðherra var hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þingmaður Ögmundur Jónasson var upp á sitt besta, hvað þau hefðu sagt ef þau hefðu verið meðhöndluð með sama hætti og stjórnarandstaðan núna? En ég er ósköp lítið móðgunargjarn, herra forseti, og tek þetta ekki óstinnt upp. Hins vegar verða menn að skilja að ég hef aldrei hlýtt flokksaga og ætla ekki að fara að byrja á þeim ósköpum og hv. þm. Ögmundur Jónasson er líka farinn að skilja að það er ekki gott að hlýða flokksaga. Hann hefur sagt það í ræðustól. Flokksaginn getur orðið mjög skaðlegur lýðræðinu, herra forseti, mjög skaðlegur. Allt í einu fara menn að gera eitthvað sem þeir mundu ekki gera ella og öll sannfæring og skynsemi og allt virðist vera farið.

Í fjárlagafrumvarpið vantar mjög stóra liði, eins og t.d. Hörpu, nýja tónlistarhúsið. Ég var afskaplega óánægður með nafnið, ég hefði viljað nota nafnið 2007. Það hefði verið fallegt nafn, herra forseti, 2007. Æðibunugangurinn og flottræfilshátturinn sem þá var við lýði ætti að festast í þessu nafni því að húsið er ekkert annað en minnisvarði um flottræfilshátt. Núverandi ríkisstjórn getur ekki svarið það af sér að hafa samþykkt þetta því að hæstv. núverandi menntamálaráðherra skrifaði undir það. Það var vinstri stjórnin sem ákvað að fara út í þetta tónlistarhús og svo gerist það merkilega að hvergi er getið um það í fjárlögum. Það er eins og þetta hús detti af himnum ofan og enginn borgi. Ég hef margoft gagnrýnt það í gegnum tíðina, herra forseti, að menn eru að fela fyrir skattgreiðendum framtíðarinnar skuldbindingar sem ekki er hægt að bakka út úr.

Nú eru mörg sveitarfélög og ríkið líka að lenda í vandræðum einmitt út af þessu, að menn eru búnir að taka á sig skuldbindingar til framtíðar, og það var falið. Ég nefni Egilshöll og ég nefni fjöldann allan af byggingum þar sem sveitarfélög hafa verið að selja eignir sínar og leigja þær síðan af þeim sem kaupa og geta ekki losnað út úr því. Þá er það skuldbinding og á að færast sem slíkt.

Svo vantar náttúrlega Icesave inn í þetta frumvarp og ég held að við getum ekki rætt um fjárlagafrumvarpið án þess að geta um Icesave. Icesave er þvílík óskaparupphæð í þessu dæmi. Landsstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sagði að þetta væri þriðja stærsta dæmið, Icesave, á eftir halla ríkissjóðs o.s.frv. Ég mótmæli því. Ég held því fram að þetta sé miklu meira vegna þess að menn eru að núvirða með mjög háum vöxtum og ná þannig niður kostnaðinum og svo reikna þeir líka með því að meira greiðist af eignum Landsbankans en raunverulega mun gerast. Icesave er t.d. búið að hækka. Hafi þetta verið um 660 milljarðar um síðustu áramót þegar þetta byrjaði að tikka á vöxtum, það byrjaði að tikka á vöxtum 1. janúar 2009 og er búið að tikka á vöxtum og gengishækkunum síðan þá. Mér sýnist að gengishækkanirnar séu, eftir því hvernig menn reikna gengið, um 15% hækkun sem þýðir um 107 milljarðar. Icesave-skuldbindingin hefur hækkað um 107 milljarða á þessu ári og ekki er búið að borga krónu niður, ekki krónu. Síðan hefur hún hækkað vegna vaxta um 45 milljarða, 5,55% af þeirri upphæð, þannig að þetta hefur hækkað um 150 milljarða á þessu ári, það eru þrjú sjúkrahús sem menn ætla að byggja. Um þrjú sjúkrahús hefur Icesave hækkað frá því í ársbyrjun til dagsins í dag og við getum ekki horft fram hjá þessu.

Það sem vegur þyngst þarna eru vextirnir séð til langframa og þeir munu halda áfram að tikka með miklum þunga á þjóðinni nema við verðum svo heppin, herra forseti, að það verði verðbólga í pundum. Við þurfum að vonast til að það verði verðbólga í pundum. Ekki er búið að ganga frá Icesave og ég ætla að vona að menn fallist á það að í efnahags- og skattanefnd verði gengið að tilboði sem við fengum í það að gera áhættugreiningu á Icesave sem átti að taka tvær vikur en ég held að hægt sé að pressa það niður í kannski 10 daga. Það gengur út á það að meta hversu miklar líkur eru á því að við getum borgað Icesave með tiltölulega léttum hætti þegar þar að kemur. Það eru ákveðnar líkur á því og ég er að vona að það séu jafnvel 50% líkur á því að þegar upp er staðið árið 2016, þegar við byrjum að borga þetta, muni menn segja: Já, þetta var nú auðvelt mál. Hvað voru menn að gera svo mikið veður út af þessu árið 2009. Þá mun ég segja það sama og við manninn sem búið hefur í húsinu sínu alla tíð án þess að kviknað hafi í því: Já, það kviknaði aldrei í hjá þér vinurinn, þú ert bara heppinn. Það hefði getað kviknað í. Ég vil láta reikna út hve miklar líkur eru á því að við lendum í vandræðum með að borga þessar greiðslur, í fyrsta lagi töluverðum vandræðum og svo skelfilegum vandræðum.

Þegar ég tala um skelfileg vandræði er þegar við getum ekki borgað vextina. Það er í mínum huga skelfilegt vegna þess að þá eru við komin í þá stöðu, herra forseti, að við erum vanskila þjóð, ríkissjóður Íslands getur ekki staðið við skuldbindingu sem Alþingi er búið að veita og skuldbindingin er á lán, ég vil alltaf undirstrika það, skuldbindingin er á lán ekki á einhverja stöðu. Og það er allt annað að skulda lán og það munu Hollendingar og Bretar segja: Já, en elskurnar mínar, þið skuldið lán, þið eigið bara að borga það. Ef við getum ekki borgað þá lendum við í því að þeir munu segja: Við viljum fá að veiða hérna eða við viljum fá að virkja. Við viljum fá Landsvirkjun í pant, þið getið selt okkur Landsvirkjun o.s.frv. Við verðum ósjálfstæð eins og þeir einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota á Íslandi hafa kynnst. Þeir aðilar ættu eiginlega að koma fyrir nefndina og segja hvernig upplifun það er að verða gjaldþrota, hvað maður er í rauninni algerlega háður þeim sem maður skuldar, missir húsið sitt o.s.frv.

Mér finnst, herra forseti, að þessi staða megi ekki koma upp. Það má ekki koma upp sú staða, með engu móti, að við getum ekki borgað vextina sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir að við eigum að gera. Við verðum að semja upp á nýtt þannig að við séum tryggð. Ég held að bresk og hollensk stjórnvöld, ef þau skilja málið, ef þeim er kynnt málið með réttum hætti, muni örugglega fallast á að taka yfir þessa tryggingu á Icesave sem um er að ræða. En við getum ekki rætt fjárlagafrumvarpið án þess að geta um Icesave.

Ég ætlaði að lesa nokkrar umsagnir og kannski vinnst tími til þess. Ég er búinn að fara í gegnum frumvarpið sem Sjálfstæðisflokkurinn flutti. En ég ætla að lesa umsögn frá Bændasamtökum Íslands. Ég þekki einn bónda á þingi og hann er einmitt í salnum núna, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hann mun þá væntanlega hlusta með athygli. Bændasamtök Íslands segja, með leyfi forseta:

„Breytingar á olíugjaldi og vörugjöldum koma þungt niður á íbúum landsbyggðarinnar. Minnt er á að við breytingu á álagningu þungaskatts yfir í olíugjald var ítrekað lofað úrlausn fyrir bændur til samræmis við það sem áður var og svikið með lækkun á framlögum til Lífeyrissjóðs bænda.“

Þetta var umsögn Bændasamtakanna og þau vara við þessu, sérstaklega út frá sjónarhorni landsbyggðarinnar.

Flestar umsagnirnar voru í þessum anda, herra forseti. Þær voru neikvæðar. Hér er t.d. umsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Frá og með janúar 2010 þarf venjulegt íslenskt heimili að afla yfir 100 þús. kr. í launatekjur til þess eins að eiga fyrir auknum sköttum á bensínlítrann samanborið við sömu útgjöld fyrir ári síðan.“

Þeir segja sem sagt að þetta komi niður á öllum heimilum og líka lágtekjuheimilunum og kannski mest á þeim. Ég hugsa nefnilega að þær skattabreytingar sem verið er að gera komi verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar þegar á heildina er litið. Þarna eru menn óvart að skjóta á rangt mark og ættu kannski að gá betur að sér.

Ég ætla að leita að umsögn ASÍ en þeir vöruðu eindregið við því að afnema verðtryggingu á persónuafslætti vegna þess að það var áfangi sem þeir börðust fyrir og náðu í gegn en á nú að afnema og það finnst mér líka mjög miður. Ég hefði talið að menn ættu að standa vörð um það ákvæði. Allt er þetta óþarfi ef menn fallast á að ræða hugmyndir sjálfstæðismanna um að skattleggja séreignarsparnaðinn, þá frestast þetta um eitt ár og menn geta gefið sér tíma til að gera þetta almennilega þannig að það meiði ekki þá sem lægstar hafa tekjurnar eins og þessar hugmyndir allar gera.

Hagsmunasamtök heimilanna vara við þessu og segja að þetta komi bæði til skerðingar á kaupmætti og leiði til hækkunar á lánum heimilanna sem er ólíðandi fyrir heimilin og til verulegs tjóns fyrir hagkerfið í heild. Þeir vara eindregið við þessu. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Það er skoðun hagsmunasamtaka heimilanna að það sem hagkerfið þarf er aukin innanlandseftirspurn.“

Það er einmitt það sem hugmynd sjálfstæðismanna gerir. Hún býr til innanlandseftirspurn vegna þess að þau skuldabréf sem séreignarsjóðirnir gefa út munu sveitarfélögin og ríkið reyna að selja. Þetta verða góð bréf og þau munu gefa sveitarfélögunum og ríkissjóði peninga til ráðstöfunar til að fara í alls konar framkvæmdir, sérstaklega sveitarfélögunum, halda uppi atvinnu hver á sínu svæði og það að skattleggja ekki almenning gefur honum aukið svigrúm til útgjalda.