138. löggjafarþing — 45. fundur
 15. desember 2009.
lax- og silungsveiði, 2. umræða.
stjfrv., 165. mál (atkvæðisréttur eigenda eyðijarða í veiðifélögum). — Þskj. 184, nál. 357.

[17:39]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga.

Umsagnir bárust frá Landssambandi veiðifélaga, Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Landssambandi landeigenda á Íslandi.

Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar er lagt til með 2. gr. að sú háttsemi að hefja framkvæmd í veiðivatni án þess að leyfis sé aflað, skv. 1. mgr. 33. gr. laganna, verði gerð refsiverð. Þörf er á því að gera þessa háttsemi refsiverða að mati nefndarinnar.

Hins vegar er lagt til að kveðið verði að nýju sérstaklega á um að atkvæðisréttur í veiðifélögum fylgi eyðibýlum. Brottfall þessarar heimildar má rekja til setningar gildandi laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, og ákvæða þeirra um atkvæðisrétt í veiðifélagi.

Í 1. mgr. 40. gr. hinna nýju lax- og silungsveiðilaga segir að á félagssvæði veiðifélags fylgi eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laganna. Hið sama gildir um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Síðan segir að með jörð sé hér átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976. Ekki er vikið sérstaklega að atkvæðisrétti eyðijarða eins og í eldri lögum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að eðlilegt þyki að miða við þetta tímamark „í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd“, eins og segir. Hvergi segir að tilgangur frumvarpsins sé að þrengja eða fella niður atkvæðisrétt eyðijarða.

Hugtakið lögbýli var ekki skilgreint í jarðalögum, nr. 65/1976. Um skilning á því verður að leita til 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. Efnislega er þar kveðið á um að í lögunum nefnist jörð eða lögbýli hvert það býli sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignamati, með tilgreind og ákveðin merki, nauðsynlegan húsakost og landrými eða aðstöðu til að framfleyta minnst 10 kúgildum. Þá sagði í sömu lagagrein að jörð sem ekki hefur verið setin í tvö ár eða lengur teljist eyðijörð og þó að hús séu fallin eða rifin teljist hún lögbýli, nema jörðinni sé ráðstafað til annarra nota með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, t.d. lögð til afréttar eða sameinuð annarri jörð.

Með jarðaskýrslu fyrir fardagaárið 1958–1959 hóf Landnám ríkisins árlega útgáfu á jarðaskýrslu fyrir allt landið á grundvelli skýrslna frá hreppstjórum. Þegar ábúðarlög, nr. 64/1976, og jarðalög, nr 65/1976, gengu í gildi, 31. maí 1976, var í gildi jarðaskrá fyrir fardagaárið 1975–1976 en fardagar voru 3. júní 1976.

Vegna þess hversu örðugt er um vik að afla heimilda um hvort eyðijörð hafi verið ráðstafað „til annarra nota“ við gildistöku jarðalaga, nr. 65/1976, hafa veiðifélög við ákvörðun atkvæðisréttar samkvæmt hinum nýju lögum stuðst í framkvæmd við jarðaskrá Landnáms ríkisins fyrir fardagaárið 1975–1976. Þá hefur og þýðingu að við færslur í jarðaskrána á næstliðnum árum hafði Landnám ríkisins m.a. byggt á 1. gr. ábúðarlaga, nr. 36/1961, þar sem kveðið var á um að eyðijarðir féllu úr tölu lögbýla eða jarða hefðu þær ekki verið byggðar í 25 ár eða lengur. Með þessu hafa eigendur fjölda eyðijarða, sem fallið höfðu úr jarðaskránni, misst atkvæðisrétt í veiðifélagi.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í 2. gr. frumvarpsins. Það er einnig mat nefndarinnar að ekki hafi verið ætlunin að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum að því er varðar eyðijarðir með setningu laga nr. 61/2006 og því sé rétt að gera þær breytingar á lögunum sem hér eru lagðar til.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Björn Valur Gíslason og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Nefndin afgreiddi málið frá sér 3. desember sl. og undir nefndarálitið rita Atli Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir, Ögmundur Jónasson, Einar K. Guðfinnsson, Róbert Marshall, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.



[17:45]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir fékk kannski ekki mjög mikla umfjöllun í 1. umr. málsins, en þó nokkra og varpar kannski ljósi á það að hér er út af fyrir sig ekki um neina grundvallarbreytingu á löggjöf að ræða, enda segir í athugasemdum við lagafrumvarpið, sem ég rakti raunar við 1. umr. líka, að núgildandi lög um lax- og silungsveiði þyki hið ágætasta lagaverk, þau eru frá árinu 2006. Það sem hér er fyrst og fremst verið að taka á eru ákveðnir skavankar sem hafa komið í ljós við framkvæmd málsins, sem eru þess eðlis að sjálfsagt er að gera á þeim breytingar eins og efni standa til.

Hér er um að ræða atvinnugrein þar sem eru mjög miklir hagsmunir. Við vitum að lax- og silungsveiði er vaxandi sport í landinu. Það hefur átt sína góðu tíma og sína slöku tíma eins og gengur, en almennt getum við sagt að þetta sé vaxandi búgrein á Íslandi. Í ýmsum héruðum skiptir þetta gríðarlega miklu máli og er kannski á ýmsum svæðum orðin stærri tekjustofn í landbúnaði en nokkuð annað, þess vegna skiptir mjög miklu máli að um þetta gildi sem skýrust og best löggjöf.

Einnig er ástæða til að hafa í huga, þegar bakgrunnur þessa máls er skoðaður, þá breytingu sem orðið hefur í sveitum landsins. Jarðir hafa farið í eyði, aðrar jarðir hafa byggst upp. Jarðir eru kannski ekki endilega setnar og eru því í eðli sínu eyðibýli, en þær hafa hins vegar gildi sem efnahagsleg eining. Þær geta verið í eigu þéttbýlisbúa. Þær geta verið í eigu annarra bænda. Eignarhaldið getur verið með ýmsum hætti, en það breytir því ekki að þetta geta eftir sem áður verið, og eru eftir sem áður, laxveiðijarðir, hlunnindajarðir, silungsveiðijarðir, og er eðlilegt að þær hafi sinn rétt eins og aðrar jarðir sem liggja við laxveiði- eða silungsveiðisvæði.

Óhætt er að segja að hvernig sem á þessi mál er litið er með frumvarpinu verið að boða eðlilegt fyrirkomulag, að tryggja að atkvæðisréttur geti fylgt jörðum, þar á meðal eyðijörðum sem fullnægja tilteknum skilyrðum, þ.e. skilyrðum til þess að teljast lögbýli. Þá kemur hins vegar aftur að ákveðnum skilgreiningarvanda sem er sá hvað menn eigi við með hugtakinu lögbýli. Nú vitum við að það hugtak hefur verið nokkuð á reiki. Lögbýlum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum, vaxandi áhugi hefur verið á því að fá jarðir skilgreindar sem lögbýli. Til að svo megi verða þurfa þær að uppfylla ákveðin skilyrði. Ef þær uppfylla þessi efnislegu skilyrði eru þær skilgreindar sem lögbýli.

Búsetuhættir eru að breytast. Fólk úr þéttbýli kýs gjarnan að eiga heimili sitt utan þéttbýlis vegna þess að það getur með auðveldari hætti stundað vinnu fjær atvinnustarfsemi sinni en áður var. Með bættum fjarskiptum og bættum samgöngum má segja að lögbýlishugmyndin sé að fá nýja vídd, nýtt aðdráttarafl, sem gerir það að verkum að margir óska nú eftir því að fá lögbýlisskilgreiningu viðurkennda á jörðum sínum.

Hér er hins vegar verið að tala um lögbýlið í ákaflega þröngri skilgreiningu. Hér er verið að vísa til lögbýla á eyðijörðum sem höfðu þessa lögbýlisskilgreiningu í 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, sem öðluðust gildi sama dag og eldri jarðalögin öðluðust gildi. Við erum því að tala um tiltekinn hluta lögbýla sem liggja að silungs- og laxveiðihlunnindum, hafa laxveiði- og silungshlunnindi, en hafa hins vegar ekki haft, frá því að gildandi lög um lax- og silungsveiði voru samþykkt, atkvæðisrétt í veiðiréttarfélögum. Það sjá allir að þetta er óeðlilegt og órökrétt. Það er því eðlileg breyting sem verið er að leggja til í frumvarpinu, að atkvæðisrétturinn sé látinn fylgja jörðinni, burt séð frá því hvort um er að ræða eyðijörð eða ekki, svo fremi sem hún uppfylli lögbýlisskilyrðin frá árinu 1976.

Hér er um að ræða eðlilega og rökrétta breytingu á ágætum lögum. Það er alveg ljóst, sem kemur greinilega fram í hinum ágætu athugasemdum við lagafrumvarpið, að ekkert bendir til þess að það hafi vakað fyrir löggjafanum árið 2006, þegar núgildandi lög voru sett, að útiloka þessi tilteknu lögbýli sem væru eyðijarðir og voru lögbýli miðað við gildandi ábúðarlög frá árinu 1976. Það er ekkert sem bendir til þess að það hafi verið ætlunin, þvert á móti, flest bendir til þess að vilji löggjafans hafi staðið til þess að þetta yrði með svipuðum hætti og hér er verið að leggja til, en frekar að sú niðurstaða sem um er að ræða hafi orðið fyrir gáleysi eða yfirsjón.

Minna er fjallað um hitt atriði frumvarpsins sem hér er til umræðu í sjálfum athugasemdatextanum og kannski kallaði það á minni umræðu í sjálfu sér, en það er líka mjög þýðingarmikið. Það er það að þarna er verið að gera það að refsiverðri háttsemi að hefja framkvæmdir í veiðivatni án þess að aflað hafi verið til þess sérstakra leyfa. Þetta skiptir líka mjög miklu máli. Við skulum ekki gera lítið úr þýðingu þessa. Við þekkjum dæmi um það að menn hafa t.d. hafið malartekju í viðkvæmum veiðiám og jafnvel viðkvæmum veiðivötnum án þess að hafa aflað til þess eðlilegra leyfa. Ekki þarf að hafa mörg orð um það að slíkt getur haft mjög alvarleg og varanleg áhrif á vistkerfi ánna og vatnanna og þess vegna er eðlilegt að gerðar séu strangar kröfur um það með hvaða hætti menn standa að því að hefja malartekju eða aðrar framkvæmdir, gætu verið laxastigar, gætu verið ýmsar framkvæmdir sem menn ráðast í án þess að afla til þess tilskilinna leyfa. Þessi þáttur málsins er því líka mjög þýðingarmikill þó við höfum kannski farið færri orðum um hann, sjálfsagt vegna þess að það er talið óumdeildara að standa þannig að málinu, en auðvitað er mjög áríðandi að sú breyting sem orðin er sé með einhverjum hætti kynnt, þannig að það verði sá fælingarmáttur í þessari löggjöf sem ætlunin er, sem er það að koma í veg fyrir að menn fari í óeðlilegar framkvæmdir í ám og veiðivötnum sem geti skaðað lífríki ánna og vatnanna.

Virðulegi forseti. Þetta langar mig að árétta í 2. umr. um þetta frumvarp. Um þetta mál tókst ágætissamstaða í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, málið fékk ágæta meðhöndlun þar. Það er að mínu mati líka til bóta hvernig staðið var að undirbúningi þessa máls að því leytinu til að leitað var eftir víðtækri samstöðu um þessi mál. Þannig var það líka þegar verið var að undirbúa löggjöfina frá 2006, um lax- og silungsveiði. Þá var þess líka freistað að ná sem mestri og bestri samstöðu. Það tókst og ég hygg að það sé ein ástæðan fyrir því að svo vel er talið hafa tekist til um þessa löggjöf frá þeim tíma.

Ég vil að lokum árétta það sem ég nefndi hér við 1. umr. málsins. Ég tel líka að það sé til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að undirbúningi að lagafrumvarpinu að því leytinu að þær athugasemdir sem fylgja frumvarpinu, jafnt hinar almennu athugasemdir sem og athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins, sérstaklega auðvitað athugasemdir við fyrstu greinar, sem eru mjög ítarlegar og mjög til fyrirmyndar. Þetta eru mál þess eðlis að það kallar á að menn þekki þær aðstæður sem eru til staðar í veiðifélögunum og í þessari atvinnugrein. Það skiptir því mjög miklu máli að vel sé að því staðið hvernig þessi mál eru undirbúin, líka að því leytinu til að haldið sé til haga þessari sögu, hvernig til er stofnað. Ég þekki það sjálfur að hugtök eins og lögbýli og ábúðarréttur og þess háttar hlutir eru mönnum kannski ekki alveg töm — þó að þau séu kannski töm á tungu er skilningurinn kannski ekki alveg ljós. Þess vegna þarf að vanda sig mjög mikið við allar lögskýringar í þessum efnum. Ég sé ekki betur en það sé gert mjög vandlega í athugasemdum við frumvarpið, það er ástæða til að undirstrika það.

Við erum hér að tala um að jörð, eyðijörð, teljist hafa verið lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga frá 65/1976, og þá ber líka að hafa hliðsjón af skýringu á hugtakinu „lögbýli“ eins og það er gert í 1. gr. ábúðarlaganna frá 1976 sem öðluðust gildi þennan sama dag, þannig erum við komin með nokkuð klára skilgreiningu á því hvaða lögbýli, hvaða eyðijarðir, það eru sem hafa þennan atkvæðisrétt. Ég sé ekki betur en að í frumvarpinu sé róið fyrir flestar víkur í þeim efnum, svo að ég noti orðalag hæstv. utanríkisráðherra sem allir vita er mikill áhugamaður um lax- og silungsveiði og hefur „doktorerað“ í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Þetta voru nú mínar almennu hugleiðingar um þetta mál. Ég taldi ástæðu til að hafa nokkur orð um frumvarpið. Þó að það virðist kannski ekki stórt í sniðum snertir það mikla hagsmuni. Þetta er sjálfsagt leiðréttingarmál og um það tókst ágætissamstaða í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



[17:56]Útbýting:

[17:57]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um mikilvægt mál, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, sem lætur kannski afar lítið yfir sér, er aðeins þrjár greinar. En það getur líka verið erfitt að setja saman stutt frumvörp og vanda þarf vinnu við þau eins og öll önnur, ekki síður. Það er kannski gaman frá því að segja að í þessu máli, eins og komið hefur fram í ágætri framsögu hv. varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólínu Þorvarðardóttur, og í framsögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, var hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd samstiga í því að afgreiða frumvarpið án allra fyrirvara. Einnig er rétt að geta þess að þær umsagnir sem bárust, frá Landssambandi veiðifélaga, Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Landssambandi landeigenda á Íslandi, voru meira og minna samhljóða, þ.e. allir voru sammála því að frumvarpið yrði að lögum.

Innihaldi frumvarpsins hafa verið gerð ágæt skil og lítið sem ég get við það bætt. En þó er það þannig að þarna er verið að laga og leiðrétta einhvern „lapsus“ sem varð á afar góðum lögum. Í frumvarpinu sem lagt var fram fyrr í haust var sagt að þessi lög hefðu verið lengi í smíðum og þættu hið ágætasta lagaverk. Engu að síður var þessi „lapsus“ á að eyðijarðir duttu fyrir borð, duttu út úr lagatextanum með vísan í eldri lög og þurfti að skilgreina það upp á nýtt að eyðijarðir hefðu hér atkvæðisrétt.

Búið er að fara ágætlega yfir það og það er gert í frumvarpinu, þar sem eru athugasemdir um 1. gr., um atkvæðisrétt í veiðifélagi og um ákvæði gildandi lax- og silungsveiða varðandi atkvæðisrétt, þ.e. um ábúðarrétt, eyðijarðir, lögbýli og slíka hluti. Það er ákaflega mikilvægt þar sem talsverðir fjárhagslegir hagsmunir geta komið upp. Það er mikilvægt að enginn vafi sé á því hvernig fara skuli með þennan rétt og þennan atkvæðisrétt.

Í nefndarálitinu er einnig farið nokkuð ítarlega yfir þessa hluti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hugtakið lögbýli var ekki skilgreint í jarðalögum, nr. 65/1976. Um skilning á því verður að leita til 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. Efnislega er þar kveðið á um að lögunum nefnist jörð eða lögbýli hvert það býli sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignamati með tilgreind og ákveðin merki, nauðsynlegan húsakost og landrými eða aðstöðu til að framfleyta minnst 10 kúgildum.“

Það er ágætt að þetta komi fram þar sem lögbýlum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum, eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Við sem unnum að skipulagsmálum í sveitarfélögum, á svæðum þar sem eftirsótt var að kaupa sér landskika, höfðum það á tilfinningunni á tímabili að nauðsynlegt væri að hver Íslendingur ætti eitt lögbýli samhliða því að eiga einn jeppa. Ég veit ekki hvort þetta var svona „2007-eitthvað“ en niðurstaðan er alla vega sú að lögbýlum fjölgaði gríðarlega á landinu og hugsanlega gæti afleiðingin orðið sú að upp komi nýr ágreiningur um atkvæðisrétt er varðar lax- og silungsveiði, bæði við ár og vötn. Það er því mjög mikilvægt að skilgreina með skýrum hætti hvað við er átt. Það er ágætlega gert í lögunum og í textanum með frumvarpinu og eins í nefndarálitinu.

Ég held kannski að ég geti litlu við það bætt sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, en ítreka það að hér er sem sagt um leiðréttingu að ræða, verið að lagfæra góð lög, og sýnir það kannski að við þurfum hér á þinginu að vanda okkur sem mest við getum, en forðast að flýta okkur. Smávægileg mistök kosta það að taka þarf lög upp og fara með þau í gegnum þann þunga feril sem það er sannarlega, og á að vera, að breyta lögum, það tekur bæði tíma og kostar fjármuni.

Hinn hlutinn í þessu frumvarpi snerti sem sagt 2. gr. laganna sem fjallaði um að það yrði refsivert að fara í ár eða vötn án tilskilinna leyfa. Það er rétt að ítreka að mjög mikilvægt er að slíkt refsiákvæði sé fyrir hendi, þar sem það getur annars vegar valdið verulegu tjóni að standa fyrir slíku og eins er það oft og tíðum nauðsynlegt fyrir eftirlitsaðila að hafa eitthvað í höndunum annað en að segja bara að það sé bannað, að það sé nauðsynlegt, að það sé refsivert og um það gildi einhver ákvæði.

Nefndin lauk málinu með því að leggja til að frumvarpið verði samþykkt og vil ég ítreka stuðning okkar framsóknarmanna við það að þannig verði staðið að málum.