138. löggjafarþing — 45. fundur
 15. desember 2009.
breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 318. mál (fyrirframgreiðslur tekjuskatts). — Þskj. 370.

[18:48]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 vegna annarra þátta.

Þetta frumvarp er lagt fram í kjölfar undirritunar sameiginlegrar yfirlýsingar iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda raforku hins vegar en það var undirritað þann 7. desember sl. Þessir aðilar eru sammála því að skattur á raforku, sem er 0,12 kr., eigi við um þá, en auk þess höfum við samkvæmt þessari yfirlýsingu orðið sammála um ráðstafanir sem hafa það að markmiði að stuðla að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á árunum 2010, 2011 og 2012 ásamt því að örva fjárfestingar hér á landi í því skyni að stuðla að atvinnusköpun og bættum hag þjóðarbúsins. Í umræddri yfirlýsingu kemur fram að vegna mikils samdráttar í efnahagslífinu og erfiðrar stöðu ríkissjóðs í kjölfar hans hafi það orðið að samkomulagi við nokkra stærstu notendur raforku í landinu að þeir greiði fyrir fram tæplega 1,2 milljarða kr. árlega á áðurnefndum árum upp í væntanlega álagningu á tekjuskatt og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. En til að unnt sé að koma þessari fyrirframgreiðslu skatta í framkvæmd þarf Alþingi að veita heimild í lögum til að gera nauðsynlegar breytingar á þessum fjárfestingarsamningum og líka aðalsamningum sem í gildi eru milli stjórnvalda og viðkomandi notenda raforku.

Með þessu frumvarpi er því lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild að gera viðauka fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands við fjárfestingarsamninga vegna Norðuráls á Grundartanga og álvers Alcoa í Reyðarfirði sem og viðauka við aðalsamning vegna álvers Alcan í Straumsvík og járnblendiverksmiðju Elkem í Hvalfirði. Er frumvarp þetta samið í samráði við fjármálaráðuneytið og embætti ríkisskattstjóra þar sem efnisatriði þess snúa að fyrirframgreiðslu skatta og opinberra gjalda.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði með breytingum á viðkomandi heimildarlögum að við viðkomandi fjárfestingarsamninga og aðalsamninga bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði fjármálaráðherra heimilt að kveða sérstaklega á um í reglugerð að viðkomandi félög skuli greiða fyrir fram í þremur jöfnum greiðslum á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. Fjárhæð fyrirframgreiðslunnar skal taka mið af hlutfallslegri raforkunotkun viðkomandi félags eftir því sem kveðið er nánar á um í viðkomandi fjárfestingarsamningi. Þann 7. desember árið 2009 var samhliða undirritun áðurnefndrar yfirlýsingar gengið frá undirritun viðaukasamnings þessa efnis vegna álversins í Straumsvík auk þess sem áritaðir voru viðaukasamningar vegna álvers á Grundartanga, álvers í Reyðarfirði og járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Í þeim viðaukasamningum kemur nánar fram hvernig hin árlega fyrirframgreiðsla mun skiptast á milli þessara fjögurra fyrirtækja og er nánari umfjöllun um það, virðulegi forseti, að finna í greinargerð með frumvarpinu. Eins og fram hefur komið í kostnaðarumsögn verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs þótt það muni hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Ég hef nú gert grein fyrir því samkomulagi sem orðið hefur á milli ríkisvaldsins annars vegar og stórnotenda og stórkaupenda raforku hins vegar. Við höfum fallist á þessa niðurstöðu til að mæta þeirri bágu stöðu sem ríkissjóður er í og þessir stóru greiðendur skatta hér á landi munu koma með þessum hætti inn í það uppbyggingarstarf sem fram undan er, bæði eins og hér hefur verið kveðið á um en jafnframt mun raforkuskattur sá sem lagður hefur verið á auðvitað hafa töluverð áhrif á fyrirtækin. Eiga miklir skattar eftir að koma frá þeim með þessari leið, virðulegi forseti, sem mun verða verulega til góðs fyrir ríkissjóð á erfiðum tímum.



[18:53]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að fara svona vel yfir málið efnislega en ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að nú er verið að taka lán af skatttekjum framtíðarinnar á árunum 2013–2018. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist það ásættanlegt að taka 3,6 milljarða að láni af væntanlegum skatttekjum á árunum 2013–2014, þ.e. eftir fjögur ár. Þá verður hugsanlega komin ný ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það verður a.m.k. komin ný ríkisstjórn, hv. þingmaður, hvort sem það verður þessi sama eða ekki, ég stórefast um að fólkið í landinu geri tvisvar sinnum sömu mistökin.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort öll þessi fyrirtæki geri ekki upp í erlendri mynt. Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því, vegna þess að það er gert upp þegar skattarnir eru lagðar á: Er gert upp miðað við gengi þess dags sem uppgjörið fer fram? Ef svo er, felst þá ekki töluverð gengisáhættu í þessu? Ef krónan styrkist munum við að sjálfsögðu fá minni tekjur. Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist ekki eins og mér að við séum í raun og veru að fresta því að taka á þessu vandamáli, hallarekstri ríkissjóðs, en seilast þarna í tekjur fram í tímann. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að á árunum 2013–2018 sé þegar búið að taka það mikið fyrir fram af tekjunum að það muni hafa skaðleg áhrif gagnvart því að rétta ríkissjóð af?

Það eru sannarlega mörg erfið ár fram undan. Það eru ekki bara næstu eitt eða tvö árin, það eru mörg ár sem við þurfum að hugsa um í þessu sambandi. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af gengisáhættunni og því að við séum að taka skatttekjur framtíðarinnar að láni til að redda okkur núna án þess að taka efnislega á vandamálunum?



[18:55]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk þrjár spurningar. Ég ætla að fara inn í miðju. Spurt er hvort öll þessi fyrirtæki geri ekki upp í erlendri mynt. Svarið er jú, þau gera það öllsömul sem að þessu samkomulagi koma. Yfir gengisáhættuna var auðvitað vel farið og farið hefur verið vel yfir þetta með fjármálaráðuneyti og ríkisskattstjóra hvað útfærsluna varðar. Yfir það ágætlega farið í greinargerð.

Hvað varðar hina meginspurningu hv. þingmanns til mín varðandi það að við tökum þarna út hluta af skatttekjum framtíðarinnar, ákváðum við í samstarfi við þessi fyrirtæki að gera þetta svona. Þetta er auðvitað ekki allur tekjuskatturinn sem við munum greiða á þessu tímabili heldur bara hluti af honum. Við ákváðum að við mundum gera þetta svona til að mæta þeim gríðarlega óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður sé í stjórnmálaflokki sem leggur til sams konar leið nema í miklu stærra máli varðandi skatttekjur framtíðarinnar með því að skattleggja inngreiðslur fyrir lífeyrissjóðinn.

Virðulegi forseti. Við grípum hér til óvenjulegra aðgerða en þessir aðilar koma ekki aðeins að þeirri uppbyggingu fram undan er með þessum hætti heldur fá þeir líka á sig 12 aura raforkuskatt á hverja selda kílóvattstund. Það var hluti af öllu því samkomulagi þannig að ég fagna því mjög að þessir stóru aðilar komi með jafnmyndarlegum hætti og raun ber vitni í þessa uppbyggingu.



[18:57]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin. Það kemur klárlega fram í svari hennar að verið er að taka lán af skatttekjum framtíðarinnar til að rétta okkur af núna, það liggur alveg klárt fyrir. En af því að hæstv. ráðherra kom inn á þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum boðað, að taka inngreiðslur fyrir séreignarlífeyrissparnaðinn og skattleggja þær núna, hugsum við það þannig að þá þyrftum við ekki að fara í frekari skattahækkun á þessu ári. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að kynna sér þær tillögur sem við lögðum fram því að þær fela það í sér að halli á ríkissjóði minnkar um 26 milljarða, sem eru miklir peningar. Það er mikilvægt að menn kynni sér það vel.

Það sem ég hef áhyggjur af, virðulegi forseti, er þetta: Það sem er mikið verið að gera núna í ríkisrekstrinum — og það er mjög lítið aðhald í rekstrarþættinum — til að rétta af ríkissjóð eru svokallaðar einskiptisaðgerðir. Það er verið að fresta því að setja 8 millj. í vegagerð, það er búið að taka 6,6 milljarða út úr lífeyriskerfinu og það er verið að laga til með því að hætta við að selja sendiherrabústaði upp á 2 milljarða þannig að í raun og veru erum við með einhver 50% af sparnaðartillögum í ríkisrekstrinum á árinu 2010 með því að fara í svokallaðar einskiptisaðgerðir. Ég hef verulegar áhyggjur af því. Ég hef líka verulegar áhyggjur af því ef við förum að skattleggja svo mikið hina veiku skattstofna, ég tel að það sé ekki skynsamlegt. Það er mun skynsamlegra að mínu viti að fara hina svokölluðu lífeyrissjóðsleið, að taka inngreiðslur þar. Það er líka hægt að færa rök fyrir því vegna þess að ríkissjóður hefur í uppsveiflunni frestað þeim skatttekjum. Hann er þá kannski að safna í kornhlöðu, eins og stundum er sagt, þannig að það er mun skynsamlegra.

Ég ítreka það hér að ég hef miklar áhyggjur af gengisáhættunni í þessu vegna þess að ef gengi krónunnar styrkist mun þetta verða minna. Mér finnst það ekki sanngjarnt af núverandi hæstv. ríkisstjórn að taka svona á vandamálunum og þetta kemur til framkvæmda eftir að starfstíma hennar lýkur. Mér finnst þetta ekki gert með ábyrgum hætti og við þurfum að taka mun ábyrgar á rekstrarvandamálum ríkissjóðs.



[18:59]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem blasir við þessari ríkisstjórn er það risastóra og um leið það gríðarlega viðkvæma verkefni að rétta þjóðarskútuna af og reyna að loka fjárlagagatinu. Ég segi „viðkvæma verkefni“ vegna þess að við þurfum auðvitað að gæta að því að setja samfélagið ekki á hliðina. Við þurfum að gæta að því að höggva ekki í ákveðnar atvinnugreinar. Við þurfum að gæta að því að þeir tekjulægstu verði ekki heldur fyrir höggi og við þurfum að gæta að því líka að halda hjólum atvinnulífsins gangandi um leið og við gætum að þeim sem hafa minnst á milli handanna. Þetta er mjög vandasamt verk. Þess vegna ákváðum við að í staðinn fyrir að nota einhverja hókus-pókus aðferðafræði eins og menn hafa gjarnan viljað fara, þ.e. að fara einhverja eina leið í skattlagningunni, að dreifa þunnu lagi yfir samfélagið í þeim efnum. Ég held að okkur hafi tekist vel upp í þeim efnum. Eins og hv. þingmaður veit voru mikil mótmæli við hinum háa raforkuskatti af hálfu þessara stóru fyrirtækja við sem hefði komið mjög illa við þá. Þetta varð niðurstaðan og ég held að það samkomulag sem náðst hefur á milli okkar og þessara gríðarlega mikilvægu greiðenda skatttekna úr atvinnulífinu hér á landi skipti verulega miklu máli vegna þess að friður þarf líka að ríkja um það sem fram undan er. Það má ekki gleyma því hversu dýrmætur friður er í samfélagi okkar á þessum erfiðu tímum.



[19:01]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að a.m.k. einn ráðherra í ríkisstjórninni áttar sig á mikilvægi þess að friður ríki milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem við hana þurfa að eiga. Það hefur ekki verið það hljóð í talsmönnum atvinnulífsins, hvorki launþega né vinnuveitenda, síðustu daga að þeir líti svo á að ríkisstjórnin hafi virt friðarskyldu sína við þá. Samráð og annað hefur verið með einhverjum ólíkindum að manni sýnist og vísa ég í orð forseta Alþýðusambands Íslands frá því í gær í því sambandi og reyndar fleiri.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra tveggja eða þriggja spurninga í tilefni af frumvarpinu. Áður en ég kem að því verð ég reyndar að geta þess að mér finnst þetta, burt séð frá öllu og öllu, einhver furðulegasta lagasetning sem ég hef séð, eitthvert furðulegasta fyrirkomulag sem ég hef séð, að gert sé samkomulag við skattgreiðendur um að þeir borgi nú einhvern skatt sem hugsanlega verður lagður á þá einhvern tíma í framtíðinni. Áferðin á þessu er öll hin furðulegasta. En látum það vera. Það á sér sínar skýringar. Skýringin er kannski ekki sú að þarna hafi tveir jafnsettir aðilar komið saman og gert með sér samning. Samið var undir þeim kringumstæðum að ríkisstjórnin hótaði þeim miklu verri aðgerðum en þarna er að finna. En látum það vera. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra telur að til greina komi að taka fleiri svona lán frá stórum skattgreiðendum í landinu, hvort semja eigi við fleiri fyrirtæki um að þau borgi núna skattana sem verða lagðir á þau eftir 5–10 ár. Eins velti ég fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra telur að þetta verði til að örva frekari fjárfestingar í greininni.



[19:03]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að við komum að því síðastnefnda þá tel ég að sú lending sem við höfum náð — að finna þetta þunna lag sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu, þar sem ekki er verið að höggva í eina atvinnugrein í landinu í skattlagningunni heldur reynt að finna meðalveg og skapa sátt um þær aðgerðir sem farið er í — sé til þess fallin að Ísland haldi áfram að vera fýsilegur kostur fyrir nýfjárfestingar og fyrir erlendar fjárfestingar. Enda er það að sýna sig og við munum mæla fyrir máli á eftir sem fjallar einmitt um það. Þar erum við að gera fjárfestingarsamning við fyrirtæki sem er að koma hingað inn með nýjar fjárfestingar á sviði gagnavera.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmenn eigi ekki að nota þetta mál til að reyna að gera það tortryggilegt. Þarna lagði ríkisstjórnin sig alla fram um það, eins og á öðrum sviðum, að halda frið, ná samkomulagi. Eingöngu þannig getum við komið okkur upp úr þeirri stöðu sem við erum í. Það eru mikilvæg skilaboð út á við gagnvart hugsanlegum nýjum fjárfestingum.

Eftir áramót leggjum við fram frumvarp — þannig að við séum ekki endalaust að fjalla um einstaka fyrirtæki í ræðustól, eins og við gerum núna, og einstaka fjárfestingarsamninga við einstaka fyrirtæki og sérstakar lagaheimildir utan um eitt og eitt fyrirtæki eins og raunin hefur verið í fortíðinni, það sem við erum að fjalla um í dag er afsprengi þess — sem fjallar almennt um ívilnanir sem veittar eru í nýfjárfestingum hér á landi þannig að þær verði gagnsæjar og þannig að vitað sé fyrir fram hvað er í boði fyrir þær. Bæði það hvernig við höfum meðhöndlað þetta mál, sömuleiðis það frumvarp og fleira til held ég að geri okkur fýsileg fyrir nýjar fjárfestingar og frekari fjárfestingar.



[19:06]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held einmitt að dæmið með stóriðjufyrirtækin gefi þau skilaboð að það geti verið erfitt að treysta á að rekstrarumhverfi sem fyrirtæki hafa gengið út frá standist. Hér er verið að breyta forsendum sem legið hafa til grundvallar í rekstri þeirra og koma eftir á og breyta skattumhverfi sem þau hafa gengið út frá. Það er auðvitað rétt að þessi fyrirtæki hafa frekar kosið að fara þessa leið en þá skelfilegu leið sem var fyrir hendi í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar eins og birtist í fjárlagafrumvarpinu. Við munum að þar var kveðið á um miklu þyngri skattbyrði og það er vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi fallið frá því að höggva sérstaklega í eina grein í atvinnulífinu, svo að notuð séu orð hæstv. iðnaðarráðherra, og fari þessa furðuleið í staðinn.

Ég óttast að aðgerðir af þessu tagi séu síst til þess fallnar að auka trú erlendra fjárfesta á því að skynsamlegt sé að koma með peninga hingað inn. Ég óttast það því miður. Vonandi fælir þetta ekki alla frá, vonandi ekki. En ég held að það séu einmitt atriði af þessu tagi, í sambandi við fyrirsjáanleika í starfsumhverfi, sem hafi verulega mikil áhrif á þegar verið er að taka ákvarðanir um hvar fyrirtæki eru staðsett. Þessi æfing öll hefur þau áhrif að draga úr trúverðugleika Íslands sem stöðugs valkosts í því sambandi. Ég held að það sé þáttur sem þurfi að skoða í þessu sambandi.



[19:08]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umfjöllun hjá hv. þingmanni er með þvílíkum ólíkindum, að hér sé verið að breyta einhverjum forsendum eftir á, við séum að rjúfa eitthvert samkomulag eða brjóta einhverja samninga sem gerðir hafa verið við þessi fyrirtæki. Það er alls ekki svo. Álagningin á raforku og skattlagningin á raforku brýtur ekki þessa samninga vegna þess að í þeim stendur alveg klárlega að ef breytingar á skattlagningu fara fram með almennum hætti þá gangi það upp gagnvart þessum samningum. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að gera og niðurstaðan er 12 aurar á hverja selda kílóvattstund á raforku. Það er vegna þess að eingöngu er hægt að setja þetta á með almennum hætti og þá fer skynsöm ríkisstjórn yfir það hvaða áhrif það hefur á hvern og einn hóp. Álverin og þessir stórkaupendur voru bara fljótastir að reikna. Mótmælin voru háværust þaðan og það er líka eðlilegt þegar menn eru jafnstórir kaupendur og raun ber vitni. Það stóð aldrei til, og hv. þingmaður veit það, að setja krónu á hverja selda kílóvattstund eins og hann var að gefa í skyn áðan. (Gripið fram í.) — Gæti hæstv. forseti sett hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur á mælendaskrá, mér heyrist að hún hafi eitthvað að segja. En ég er með orðið.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að króna á hverja selda kílóvattstund hefði aldrei gengið upp og það vissum við. Þarna var verið að telja upp einhver dæmi sem hægt var að fara í. Fyrirsjáanleiki skiptir öllu máli og þess vegna förum við í það að breyta þessu umhverfi þannig að við séum ekki með einstaka samninga við einstök fyrirtæki.



[19:10]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja þessa ræðu. Ætli það sé ekki best að byrja hana á því að lýsa því strax yfir að þetta mál er bara fíflagangur og síðan ætla ég að rökstyðja hvernig ég fæ það út.

Um miðjan 10. áratuginn varð þróun í þjóðhagsreikningagerð í heiminum mikil og settir voru upp nýir staðlar hjá Sameinuðu þjóðunum um þjóðhagsreikningagerð, svokallaðir SNA-staðlar. Í kjölfarið tóku ríki smám saman upp uppgjör á hinu opinbera á svokölluðum rekstrargrunni. Að gera upp þjóðríki eða ríkissjóð á rekstrargrunni þýðir að þá eru áfallnar skuldbindingar sem er ráðist í á einhverju tilteknu ári færðar til bókar og þá annaðhvort til hallareksturs eða til tekjuaukningar. Þetta leysti af svokallaðan greiðslugrunn en greiðslugrunnur var einfaldlega þannig að tekjurnar sem komu inn á því ári og útgjöldin sem fóru út á því ári mynduðu grunninn að halla eða afgangi á ríkissjóði.

Ísland var eitt af fyrstu ríkjunum til að ráðast í að framkvæma þjóðhagsreikningagerð og ríkissjóðsreikninga á rekstrargrunni. Það þótti mikil framför vegna þess að þá var ekki lengur hægt að fela útgjöld eða tekjur, færa til í tíma með því einfaldlega að færa yfir áramót eða annað slíkt. Það sem er verið að gera hérna er, með orðum hæstv. iðnaðarráðherra, hókus-pókus. Það er verið að hverfa aftur í þessa gömlu aðferð þar sem útgjöld voru falin, tekjur voru faldar til að pólitíkusar gætu látið rekstur ríkissjóðs líta betur út.

Þannig er mál með vexti að skattgreiðslur ríkissjóðs á árunum 2013–2014 verða ekki taldar sem skatttekjur á því ári samkvæmt greiðslugrunni en samkvæmt rekstrargrunni er það svo og samkvæmt rekstrargrunni er einfaldlega verið að færa til tekjur. Það er grundvallarmisskilningur hjá hæstv. iðnaðarráðherra að þetta sé sambærilegt við séreignarsparnaðinn. Sú skattkerfisbreyting bókast sem tekjur á því ári sem skattkerfisbreytingin er gerð þannig að eitthvað vantar upp á bókhaldskunnáttuna þar. En það sem þetta gerir er að halli ríkissjóðs breytist ekki neitt, halli ríkissjóðs eða afgangur á ríkissjóði er nákvæmlega sá sami fyrir og eftir þessa aðgerð. Ef hallinn er 100 milljarðar á næsta ári og 3,6 milljarðar eru færðir til í tekjum frá 2013–2014 er hallinn áfram 100 milljarðar. En það sem gerist er aftur á móti það að peningaflæðið er annað, það eru til 3,6 milljörðum meiri peningar í ríkissjóði til að standa undir útgjöldum.

Það vandamál sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag er ekki það að krónur vanti til að fjármagna hlutina. Það er nóg af krónum til í Seðlabankanum, ríkissjóður á meira að segja reikninga í Seðlabankanum þar sem eru mun hærri fjárhæðir en þessir 3,6 milljarðar. Vandamálið er ekki krónur. Vandamálið er það að gjaldeyri vantar inn í landið, gjaldeyri sem við höfum unnið fyrir og jafnframt gjaldeyrislán sem að vísu verður leyst að einhverju leyti með lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En hvað um það. Það að færa skatttekjur áranna 2013 og 2014 til næsta árs er nákvæmlega sama aðgerð og taka lán t.d. hjá íslenskum banka, 3,6 milljarða, nota það í rekstur ríkisins og greiða það til baka á árunum 2013–2014. Af hverju segi ég það? Það er nákvæmlega sama aðgerð vegna þess að við getum tekið lánið í íslenskum banka, notað skatttekjurnar sem við fáum 2013 og 2014 til að borga til baka þetta lán. Þetta er því ekkert annað en hókus-pókus aðgerð og þetta er eitt lélegasta töfrabragð sem ég hef séð lengi.

Það er fremur þunnur þrettándi að bera því fyrir sig að verið sé að dreifa þunnt yfir samfélagið þannig að enginn verði fyrir miklum búsifjum af skattahækkunum. Ég held aftur á móti að þetta sé raunsönn lýsing á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessu efnahagsástandi og sérstaklega ef horft er til fjárlagafrumvarpsins. Það er dreift ansi þunnt og því miður munum við súpa seyðið af því í framtíðinni. Það er ekki tekið á málunum af festu og röggsemi, það er krafsað í, örlítið, nokkrum steinum velt við, einhverjum skattahækkunum og kerfisbreytingum á sköttum skellt á og við erum engu bættari. Þetta hókus-pókus sem ríkisstjórnin er að reyna að gera með fjárlögunum og með tekjuhliðina á fjárlögum eru svo viðvaningslegar aðgerðir að hvert barn sér í gegnum það. Spunameistarar ríkisstjórnarinnar ná ekki að hylma yfir það með fagurgala eins og sýnt hefur verið fram á nú á síðustu dögum en þetta toppar allt. Það er aumur brandari að færa tekjur ársins 2013 og 2014 til næsta árs og segja að það séu auknar skatttekjur.

Hæstv. forseti. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af þessari aðgerð og finnst þetta með því aumara sem ég hef séð. Ef einhverjir hæstv. ráðherrar trúa því að þetta sé einhver lausn á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir á næsta ári í sambandi við ríkisfjármálin þá stöndum við ekki einungis frammi fyrir vandamálum með ríkisfjármálin heldur erum við líka með fólk sem ræður ekki við hlutverkið vegna þess að það skilur ekki hvað er í gangi. Ég tel að hv. þingheimur ætti að vísa þessu máli frá sem lélegu gríni eða mistökum. Þetta hefur ekkert með það að gera að leysa fjárhagsvandamál íslenska ríkisins á næsta ári, ekki neitt.

Það getur vel verið að einhver hafi sagt hæstv. ráðherrum að þetta mundi minnka hallann á næsta ári en ég skal fara með þeim hinum sömu ráðherrum í gegnum reglur um bókun á skatttekjum og útgjöldum sem gefnar eru út af Sameinuðu þjóðunum, SNA, sem sem við förum eftir á Íslandi og fletta þessu einfaldlega upp fyrir þá. Það er ekki flóknara. En það er fyrir neðan allar hellur að bjóða þjóðinni, í þeim vandræðum sem þjóðin er í núna, upp á svona hókus-pókus. Það sýnir það náttúrlega að það fólk sem stýrir landinu ræður engan veginn við hlutverk sitt.

Ég gæti svo sem lengt þetta mál mitt og haft fleiri orð um það hvað mér finnst það bjánaleg hugmynd að gera þetta. En ég held að ég sé búinn að koma skilaboðunum nægilega vel inn í Alþingistíðindi. Þeir fáu þingmenn sem hlusta á mig, sem eru aðallega sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, eru alveg búnir að ná skilaboðunum. Ég veit að ég þarf ekki að halda þessa ræðu til að sannfæra þá. Því miður eru þeir sem þarf að sannfæra fjarstaddir eins og svo oft áður þegar stjórnarandstæðingar halda ræðu. En ég læt hér staðar numið.