138. löggjafarþing — 47. fundur
 16. desember 2009.
hótanir, Evrópusambandið og Icesave.
fsp. REÁ, 303. mál. — Þskj. 350.

[14:09]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Enn höldum við áfram með sama mál. Nú vil ég beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra með vísun í ummæli hæstv. fjármálaráðherra í þingræðu 2. desember sl. Þar segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Það var ekki talað hátt hér fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af ef við drifum okkur ekki í að klára Icesave. Það var ekki talað hátt um það hérna (Gripið fram í: Snýst þetta um Evrópusambandið?) af skiljanlegum ástæðum. Það snýst ekki neitt um neitt. Ég er einfaldlega að tala um hinn augljósa veruleika að ýmislegt tengt okkar stöðu nú er viðkvæmt. Er það eitthvað skrýtið?“

Þetta þóttu mér merkileg ummæli og hefur öðrum þótt það líka. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spurði hæstv. forsætisráðherra um þetta 3. desember og þá sagði hæstv. forsætisráðherra að það hlyti að vera einhver misskilningur í gangi, að fjármálaráðherra hefði verið að vísa til hótana Breta á haustdögum 2008 þegar þeir hótuðu að segja upp EES-samningnum. En eins og ég las upp segir hæstv. fjármálaráðherra að þetta hafi verið grímulausar hótanir sem bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra sem gæti upplýst um það þar sem hann átti sæti í báðum þeim ríkisstjórnum sem um ræðir hvort hann geti skýrt þetta mál út fyrir okkur. Hvaða aðilar innan Evrópusambandsins höfðu uppi grímulausar hótanir, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir hér, um að láta Íslendinga hafa verra af, svo við notum orðfæri hæstv. fjármálaráðherra, ef þeir drifu sig ekki í að klára Icesave eins og það var orðað?

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra um viðbrögð hans eða hans ráðuneytis, utanríkisráðherra, enda var hann eftir mínu besta minni starfandi utanríkisráðherra á þeim tíma, og hvernig brást utanríkisþjónusta starfandi utanríkisráðherra við ef þetta á við um þessa daga þarna á undan?

Ég spyr um þetta vegna þess að menn hafa orðið mjög margsaga í þessu. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan að hann talaði sérstaklega um að hann hefði rætt við forseta Finnlands um norrænu lánin og beðið Finna um liðsinni við að ræða við norræna kollega sína. Á sama tíma segir hæstv. forsætisráðherra okkar, Jóhanna Sigurðardóttir, 10. október samkvæmt frétt sem birtist á vefritinu amx.is:

„Ég held að það sé alveg skýrt og klárt að norrænu lánin eru ekki tengd Icesave-samningnum að neinu leyti öðru en því (Forseti hringir.) að norrænu lánin eru liður í þeirri áætlun …“

Þessar endalausu umræður um það hver hótaði (Forseti hringir.) hverjum verða að fara að komast á hreint og (Forseti hringir.) ég bið hæstv. utanríkisráðherra um að skýra málið.



[14:12]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er eins og að fara yfir læk eftir vatni að spyrja mig að þessu þegar hæstv. fjármálaráðherra situr í salnum og hefur raunar kvatt sér hljóðs. Ég tel að hv. þingmaður hefði miklu frekar átt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra en mig hvað hann meinti með þessu. Hv. þingmaður rifjar það réttilega upp að ég hef átt sæti í þremur síðustu ríkisstjórnum á meðan þessi ósköp öll hafa gengið yfir. Af því að ég sat hér undir ræðu hæstv. fjármálaráðherra og dáðist að málsnilld hans þegar hann flutti hana á sínum tíma tók ég líka eftir því að hann fékk vart málsfrið fyrir frammíköllum í salnum þegar hann hafði látið þessi orð úr sér og hann sagði, ef ég man rétt:

Þetta voru nú engin ósköp ef það verður til þess að róa þingheim.

Bersýnilega hefur honum þegar vatt fram ræðunni kannski ekki þótt tilefnið vera jafngrellt og það sem þingmönnum þótti með frammíköllum sínum í salnum.

Ég get ekki fyrir víst upplýst nákvæmlega hvað hæstv. fjármálaráðherra átti við en bíð eftir ræðu hans á eftir. Það eina sem mér kemur til hugar er það atvik sem hefur reyndar bergmálað í ræðum ýmissa þingmanna hér, m.a. núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, t.d. í ræðu sem hann hélt 5. desember 2008 þar sem hann talaði um möguleikana á því að mótaðilar okkar í þessari deilu mundu reyna að beita afli sínu til að ná fram uppsögn EES-samningsins. Á bak við þetta lá bréf sem Bretar sendu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins 8. október 2008. Þar kvörtuðu þeir undan því að Íslendingar hefðu með aðgerðum sínum dagana á undan brotið 40. og 41. gr. EES-samningsins og óskuðu eftir því að framkvæmdastjórnin gripi til þeirra aðgerða sem hún getur ef hún er því sammála. Samstundis og framkvæmdastjórnin fékk þetta bréf sendi hún það áfram til ESA. Síðan hefur ekkert af því spurst og enginn viljað af því vita, hvorki Bretar, framkvæmdastjórnin né ESA. Þetta voru sem sagt lyktir málsins. Við höfum aldrei heyrt af því meira.

Ég tel að það sé þetta sem hæstv. fjármálaráðherra hugsanlega kann að hafa átt við í ræðu sinni. Ef það er ekki það er ég bara, eins og maður sagði í gamla daga, fullkomlega lens. Þetta á hins vegar ekki að koma hv. þingheimi algjörlega á óvart vegna þess að þetta bréf (Gripið fram í.) var rætt í utanríkismálanefnd að því er ég best veit skömmu síðar. Ég þori þó ekki alveg að fullyrða það, en ég veit að það var líka rætt í viðskiptanefnd í sumar. Ef ég man rétt var þetta tilefni fréttaflutnings einhvern tímann á miðju sumri. Utanríkisráðuneytið brást þannig við að það reyndi að afla upplýsinga um það þegar menn heyrðu af þessu og eftir krókaleiðum náði það þessu bréfi. Við höfum þetta bréf. Ýmsum þingmönnum í nefndum hefur verið sýnt það undir þeim trúnaði sem á viðkomandi nefndum hvílir en að því er ég best veit hefur bréfið ekki verið birt opinberlega. Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns lét ég senda það til utanríkismálanefndar í morgun þannig að aðrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd gætu þá líka kynnt sér það sem utanríkisráðherra telur a.m.k. tilefni málsins.



[14:16]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessi mál eru að færast á nýtt og hærra stig og hér kemur hæstv. utanríkisráðherra í ræðustól og segist vera lens í þessu svari. Ég bið hv. þingmann, fyrirspyrjanda Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að fara út á nefndasvið og sjá skjal sem er merkt 9 í leynimöppunni frá 18. febrúar 2009, lesa yfir skjal 10 sem er frá 11. nóvember 2008, lesa yfir skjal 11 sem er frá 13. nóvember 2008 og síðast en ekki síst skjal nr. 22 sem er frá 16. janúar 2009. Þarna fáum við þingmenn fullkomna og óhrekjanlega staðreynd um það hverjir eru með grímulausar hótanir á okkur. Við þurfum greinilega ekki að spyrja framkvæmdarvaldið að þessu því að það virðist vera búið að gleyma hvað gekk hér á um síðustu áramót. Ég ítreka að ég fer fram á að þessi mappa verði opnuð fyrir fjölmiðlum og almenningi (Forseti hringir.) auk þess sem öll samskipti ríkisstjórnarinnar frá og með því að mappan var lögð fram (Forseti hringir.) verði gerð opinber.



[14:17]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi skjóta því inn í umræðuna að þegar hæstv. fjármálaráðherra talaði — hann getur auðvitað komið nánar inn á það sjálfur hér á eftir og þarf kannski ekki túlkaþjónustu mína eða hæstv. utanríkisráðherra til að skýra mál sitt — voru þessi ummæli um grímulausar hótanir sett í samhengi við aðra þætti sem ættu að verða til þess að við í þinginu kláruðum þetta Icesave-mál. Þannig var a.m.k. hægt að skilja hann og ég hygg að ekki hafi verið hægt að skilja hann á neinn annan hátt þannig að því sé til haga haldið.

Margt hefur komið fram í þessari umræðu, m.a. velti ég fyrir mér þeim þáttum sem snúa að viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við hótununum að þessu leyti. Við þingmenn höfum haft áhyggjur af því að (Forseti hringir.) af hálfu framkvæmdarvaldsins væri ekki staðinn nægur vörður um hagsmuni okkar að þessu leyti og mér finnst (Forseti hringir.) svör hæstv. utanríkisráðherra gefa til kynna að sú tilfinning (Forseti hringir.) okkar sé rétt.



[14:19]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er mjög skemmtilegur leikur og mikil fjallabaksleið sem tvær hv. þingkonur Sjálfstæðisflokksins hafa nú farið í þessu máli, að spyrja fyrst hæstv. forsætisráðherra og síðan hæstv. utanríkisráðherra út í ummæli mín sem ég hefði með mikilli gleði útskýrt fyrir hv. þingmönnum. Þau áttu ekki að þurfa að misskiljast, það hefði örugglega ekki gert það ef ég hefði fengið frið í ræðustólnum fyrir frammíköllum þegar ég fjallaði um þennan þátt málsins.

Ég var að vitna til þess sem gerðist á haustmánuðum 2008 þar sem Bretar voru beinlínis bréflega og fleiri ESB-þjóðir, að því er við höfðum upplýsingar um, uppi með hótanir, sem ég kalla svo, um að EES-samningnum eða hlutum hans yrði hleypt í uppnám ef Íslendingar gæfu ekki eftir í Icesave-deilunni. Ég vissi af þessu bæði í gegnum samstarf okkar, þáverandi formanna stjórnmálaflokkanna, sem hittumst daglega og einnig vegna veru minnar í utanríkismálanefnd, en um þetta var ekki mikið talað á þeim dögum. Það er fyrst í desembermánuði eða lok nóvember sem gögn koma fram um þetta opinberlega. Síðan hafa þau legið fyrir og þeim mun furðulegra er nú að menn telji þetta nýjar fréttir. Það hefur legið fyrir í skjölum frá því að þingsályktunartillagan um heimild til samninga um Icesave var (Forseti hringir.) hér til umfjöllunar, bæði í greinargerð með tillögunni, í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar þáverandi og í framsöguræðu, hygg ég, (Forseti hringir.) þáverandi formanns utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktssonar.



[14:20]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Mig langaði til að koma hérna upp í framhaldi af því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði. Ég held að hann sé að tala hérna um bréf sem var sent 8. október — er það ekki? — frá Bretum til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram komu mjög ógeðfelldar ásakanir á íslensk stjórnvöld. Þar vorum við ásökuð um að hafa brotið harkalega af okkur og mismunað fólki á grundvelli þjóðernis. Ég held að það hafi komið skýrt fram í úrskurði ESA að neyðarlögin sem voru samþykkt hérna mismuna ekki heldur byggja á þessum stjórnskipulega neyðarrétti.

Ég hef óskað eftir því beint við ESA að fá að birta þessi gögn og ESA hefur neitað mér um það. Ég vil bara að það liggi algjörlega fyrir að utanríkisráðuneytið hefur ekkert á móti því að birta þetta bréf en ESA hefur stoppað birtinguna. Ég tel það nokkuð sem utanríkisráðherra ætti að taka upp við ESA, (Forseti hringir.) að það sé náttúrlega algjörlega óásættanlegt að þeir feli þessi gögn. Þjóðin á rétt (Forseti hringir.) á því að vita hvað stendur í þessu bréfi.



[14:21]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf hæstv. utanríkisráðherra takast mjög vel upp þegar hann fer út í sínar bókmenntalegu túlkanir eins og þegar hann fór að reyna að túlka hvað þetta mál snerist um. Niðurstaða hans var auðvitað sú að gera sem minnst úr hlut Evrópusambandsins í þessu máli. Það eina sem hefði gerst væri það að Evrópusambandið hefði sent eitt lítið lettersbréf til einhverra sem ekki tóku mark á því nema auðvitað hæstv. fjármálaráðherra sem tók þetta þannig að um væri að ræða grímulausar hótanir af hálfu Evrópusambandsins og flutti fyrir því ágætisrök áðan. Hann sagði okkur frá því að lönd innan Evrópusambandsins, Bretland og Holland, hefðu haft uppi tilburði til þess að segja upp okkar mikilvægasta utanríkispólitíska samningi, EES-samningnum, til að reyna að einangra Íslendinga, til að reyna að gera okkur allt eins erfitt fyrir og hægt væri. Ef þetta eru ekki grímulausar hótanir, hvað er það þá?

Ég er undrandi á því að hæstv. utanríkisráðherra reyni að gera lítið úr hlut Evrópusambandsins, bara af því að hann langar svo mikið til þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og hann er í sinni feigðarför við (Forseti hringir.) að reyna að afla því fylgis að Ísland gerist aðili að því.



[14:23]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því á fundi utanríkismálanefndar í gær við starfsmenn og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins að við fengjum rök fyrir því af hverju ekki megi birta skjölin. Ég bað um að fá rök fyrir hverju einasta skjali. Ég held að það mundi hjálpa hæstv. utanríkisráðherra ef hann gæti sýnt fram á hverjir banna að við fáum að lesa þessi gögn. Ég óska eftir að við þessari beiðni verði brugðist nú þegar.

Þá hef ég sent formlega beiðni til hæstv. fjármálaráðherra um að þessi gögn verði gerð opinber. Ég hef ekki fengið nein svör frá honum, ég hef sent honum beiðnina í tvígang. Ég óska jafnframt eftir því að fá rök fyrir hverju einasta skjali, fá málefnaleg rök fyrir því af hverju við fáum ekki að sjá þetta, af hverju þjóðin fær ekki að sjá þessi mikilvægu gögn.



[14:24]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem tóku þátt í umræðunni og verð að fagna sérstaklega að hæstv. fjármálaráðherra heiðraði okkur með því að taka þátt í henni.

Ástæða þess að ég spyr hæstv. utanríkisráðherra en ekki hæstv. fjármálaráðherra var sú að ólíkt mörgum á þessum tíma grunaði mig einmitt að hæstv. fjármálaráðherra — vegna þess að ég var búin að lesa þessi gögn — væri að vísa til þessara hótana haustið 2008. Þá vildi ég fá að vita hvernig hæstv. utanríkisráðherra, sem er samnefnari haustsins við tímann núna, bregst við og utanríkisþjónustan öll þegar landinu okkar er grímulaust hótað af hálfu ESB í þessu tilfelli og hér hefur verið staðfest að það var hótað með uppsögn EES-samningsins.

Það að koma í einhverjar hártoganir um annað er fyrir neðan virðingu hæstv. ráðherra. Og ég átta mig ekki á ummælum um að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt í ræðu sinni að þetta væri sagt til að róa fólk. Ég er búin að renna yfir ræðu hæstv. ráðherra og skil ekki um hvað þetta snýst. Þetta mál allt saman snýst nefnilega um það að í þessari ræðu var hæstv. fjármálaráðherra með hræðsluáróðri sínum, sem er öllum kunnur, að segja að ef við samþykktum ekki Icesave væru hótanir um þetta og hótanir um hitt, en hann gat ekki sagt hvaða hótanir væru núna, hverju væri verið að hóta okkur núna, heldur greip hann þá til þess ráðs að tala um eitthvað sem gerðist náttúrlega í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, það eru alltaf sömu rökin. Ég á eftir að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það og ég er með fyrirspurnir inniliggjandi til hans þannig að menn þurfa ekki að óttast að (Forseti hringir.) ekki verði óskað eftir því.

Ég vil fá að vita hvernig utanríkisráðherra og utanríkisþjónustan bregst við þegar hagsmunum (Forseti hringir.) Íslands er ógnað með þessum hætti.



[14:26]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að þetta bréf hafi verið sent þann hinn sama dag og Bretar gripu til þess að loka íslenskum banka og í kjölfarið hrundi íslenska bankakerfið. Mig minnir að þetta hafi verið sent sama dag eða alla hina sömu.

Á Íslandi voru allir sem vettlingi gátu valdið í stjórnkerfinu, hvort heldur það var utanríkisráðherra, aðrir ráðherrar eða þáverandi forsætisráðherra, önnum kafnir við að mótmæla með sínum harkalegasta hætti þessum gerningum þeirra allra svo það liggi alveg ljóst fyrir. Ég held að allir ráðherrar þessa daga, þar með talinn sá sem situr fyrir aftan hv. þingmann, hafi gert allt það sem þeir gátu til að koma með sem hörðustum hætti á framfæri mótmælum sínum við framferði Breta á þeim tíma.

Hv. þingmaður taldi að ég hefði farið hér með flím þegar ég gat þess að hæstv. fjármálaráðherra hefði í ræðu sinni, þegar hann loksins fékk tóm fyrir frammíköllum hv. þingmanna, talað um að það væru engin ósköp á ferðinni ef það yrði til þess að róa þingmenn. Mig langar þá til að lesa hér úr ræðu hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta, sem hann segir þegar þessum kafla er að ljúka:

„Það eru engin ósköp á ferðinni og vonandi get ég þar með róað hv. þingmenn.“

Bara svo það liggi ljóst fyrir að ég var ekki hér með nokkrum hætti að búa til.

Ég held að sú ræða sem hv. þm. Eygló Harðardóttir flutti hérna áðan hafi falið í sér kjarna þessa máls. Það liggur alveg ljóst fyrir að auðvitað var þetta ógeðfelld atlaga að íslenskum hagsmunum og þó að það komi ekki beinlínis fram í bréfi Bretanna liggur á bak við það sú hugsun að framkvæmdastjórnin grípi til þess með einhverjum hætti að taka einhverja parta EES-samningsins úr sambandi.

Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson taldi að ég væri hér eitthvað að (Forseti hringir.) verja Evrópusambandið — ég hef aldrei verið að verja það en rétt er hjá hv. þingmanni að ég tel að við eigum að vera þar inni — var það (Forseti hringir.) framkvæmdastjórnin sem felldi þetta strax áfram. Ég hef aldrei gert neitt með það.