138. löggjafarþing — 47. fundur
 16. desember 2009.
flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.
fsp. EKG, 125. mál. — Þskj. 138.

[14:29]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þáverandi forsætisráðherra skipaði þann 15. mars 2007 nefnd sem er ætlað að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Þessi nefnd var skipuð í framhaldi af viðræðum fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum við ríkisstjórnina sem þá hefur farið fram. Nefndinni var m.a. ætlað að gera tillögur um mögulegan flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða. Hún lagði síðan fram tillögur sem voru teknar til meðhöndlunar í ríkisstjórn og þar var skýrslan í raun og veru afgreidd. Þar gat að líta mjög margar tillögur og góðu heilli hafa þær langflestar komist í framkvæmd, ekki þó alveg allar. Þær hafa haft veruleg áhrif á stöðu atvinnulífs á Vestfjörðum eins og menn sjá og taka eftir. Það fer ekkert á milli mála að þessi ákvörðun ein og sér hafði gríðarleg áhrif fyrir Vestfirði sem sést best á því að í þeim viðræðum sem við þingmenn höfum til að mynda átt við sveitarstjórnarmenn núna á þessu hausti hefur komið mjög glögglega fram áhersla þeirra á að ekki verði hvikað frá því að halda áfram og hrinda í framkvæmd þeim verkefnum sem enn er ólokið.

Meðal þeirra tillagna sem þarna litu dagsins ljós, og var raunar tillaga nr. 2 í tillögupakka nefndarinnar, var efling sýslumannsembættanna á Ísafirði, Bolungarvík og Patreksfirði. Þar er m.a. sagt að gert verði ráð fyrir því að greiðsla meðlaga og annarra gjalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur nú milligöngu um verði færð til sýslumannsins á Patreksfirði. Síðar í þessari skýrslu er gerð nánari grein fyrir þessu og er eftirfarandi sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Greiðsla meðlaga og annarra gjalda sem Tryggingastofnun ríkisins hefur milligöngu um verði færð til sýslumannsins á Patreksfirði.“

Þessar greiðslur snerta ekki bætur almannatrygginga og þá er ekki nauðsynlegt að Tryggingastofnun greiði þær út. Í dag koma þrjár mismunandi stofnanir að málsmeðferðinni en það eru sýslumenn, Tryggingastofnun og Innheimtustofnun sveitarfélaga. Með þessari breytingu verði þetta verkefni eingöngu hjá sýslumönnum og er lagt til að sýslumaðurinn á Patreksfirði haldi utan um miðlægan gagnagrunn sem settur verði upp. Markmiðið með þessu er að auka hagræðingu frá núverandi fyrirkomulagi. Ábyrgðin á framkvæmdinni á að vera hjá dómsmálaráðuneytinu og sýslumannsembættinu og gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði hrundið í framkvæmd 1. janúar 2008 og enn fremur að það muni þýða fjögur til fimm stöðugildi, sem mundi skipta gríðarlega miklu máli og var auðvitað einn af burðarþáttunum í þeim tillögum sem voru gerðar fyrir sunnanverða Vestfirði og verða auðvitað að skoðast í samhengi við þetta.

Þessi mál heyra hins vegar undir Tryggingastofnun því að verið er að gera tillögu um breytingu á fyrirkomulagi sem snýr að Tryggingastofnun og þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra: Hvers vegna voru verkefni við umsýslu með meðlagsgreiðslum á landinu í heild ekki flutt til sýslumannsins á Patreksfirði eins og fyrirheit voru gefin um í skýrslu svokallaðrar Vestfjarðanefndar?



[14:32]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um hvers vegna verkefni við umsýslu með meðlagsgreiðslum í landinu í heild voru ekki flutt til sýslumanns á Patreksfirði eins og fyrirheit voru gefin um í skýrslu svokallaðrar Vestfjarðanefndar. Það er mikilvægt að það komi strax fram að verkefni á sviði almannatrygginga þar með talin milliganga Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslur voru færð frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins um áramótin 2007–2008 en á sama tíma var Innheimtustofnun sveitarfélaga færð frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Þegar þessar niðurstöður voru kynntar á árinu 2007 hófst samráð milli þeirra stofnana sem þá fóru með þessi mál. Samkvæmt þeim upplýsingum sem tiltækar eru í félags- og tryggingamálaráðuneytinu komust Tryggingastofnun ríkisins og Innheimtustofnun sveitarfélaga að þeirri sameiginlegu niðurstöðu á þeim tíma að flutningur umsýslu við greiðslur og innheimtu meðlaga mundi ekki skila því hagræði sem að er stefnt með tillögu nefndarinnar og því stæðu ekki rök til að hverfa frá núgildandi fyrirkomulagi. Niðurstaða stofnunarinnar mun hafa verið rökstudd og að henni fenginni var ekkert aðhafst frekar í málinu af hálfu þeirra ráðuneyta sem með ákvörðunina fóru á þeim tíma.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslu Vestfjarðanefndar er ákveðinn misskilningur um að meðlagsgreiðslur snerti ekki bætur almannatrygginga og því sé ekki nauðsynlegt að Tryggingastofnun greiði þær út. Það eru hins vegar mikil og margslungin tengsl á milli þeirra meðlagsgreiðslna og þeirra bótaflokka almannatrygginga sem Tryggingastofnun ríkisins annast og verður að teljast varhugavert að slíta þau tengsl í sundur. Það ber að hafa í huga að meðlagsgreiðslur standa lengi yfir, breytingar í kjölfar skilnaða og forsjárbreytingar hafa áhrif á allar greiðslur almannatrygginga sem eru tengdar framfærslu barna og fjölskylduhögum og er nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir það við afgreiðslu mála. Ef umsýsla með milligöngu meðlagsgreiðslna yrði færð frá Tryggingastofnun er talið sérstaklega hætt við að draga mundi úr því hagræði sem felst í því þegar stofnunin hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur og hið meðlagsskylda foreldri öðlast barnalífeyri því að þá er stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslunnar m.a. vegna sama tímabils. Einnig má nefna tengsl meðlagsgreiðslna við barnalífeyri sem kemur í stað meðlags við andlát foreldris, greiðslu mæðra- og feðralauna, framlög og barnalífeyri vegna náms- og umönnunargreiðslna vegna fatlaðra og langveikra barna.

Ég tel því mikilvægt nú að hafa allar klær úti við að draga úr rekstrarkostnaði hins opinbera og það hefur verið höfuðmarkmið okkar við endurskoðun á hlutverki stofnana félags- og tryggingamálaráðuneytisins á liðnum mánuðum. Því er ekki að neita að augu okkar hafa auðvitað beinst að Innheimtustofnun sveitarfélaga sem ég tel langeðlilegast að verði sameinuð Tryggingastofnun ríkisins. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé í anda þeirra sparnaðarkrafna sem að okkur beinast að slíta upp greiðslukerfin og búa til mörg greiðslukerfi á sama sviði, heldur sé betra að nýta eins vel og kostur er eitt miðlægt greiðslukerfi sem sinni öllum greiðslum sem snerta almannatryggingar eða tengd verkefni. Ég held þess vegna ekki að þessi hugmynd frá árinu 2007, þótt hún hafi auðvitað haft það góða markmið að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, sé endilega rétta lausnin við núverandi aðstæður.

Hitt er aftur annað mál að það er mjög mikilvægt að finna leiðir til þess samhliða aðhaldi í rekstri hins opinbera, endurskipulagningar á stofnanauppbyggingunni og sameiningar stofnana, að tryggja verkefni sem geti verið áfram í héraði. Ég vil láta það koma fram að í öll þau verkefni sem nú eru á vegum undirstofnana félags- og tryggingamálaráðuneytisins úti um land eru vistuð þar með mikilli prýði og kostnaður af vistuninni þar er ekkert meiri en eðlilegt getur talist. Í öllum endurskoðunaráformum um endurskipulagningu á stofnunum göngum við út frá því að þessi starfsemi haldist óbreytt. Ég held að það skipti þess vegna miklu máli að finna verkefni sem skapa raunverulega aukin verðmæti. Ég bendi t.d. á að ákveðnir verkþættir í verkum Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafa verið fluttir til Ísafjarðar. (Forseti hringir.) Ég held að það þurfi að halda áfram á þessari leið og styðja við verkefnið þar sem er tryggt (Forseti hringir.) raunverulega að ávinningur felist af vistun þeirra á tilteknum stöðum.



[14:37]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn en mér finnast svör hæstv. félagsmálaráðherra vera frekar rýr. Hann segir að ekki hafi verið færð nógu mikil rök fyrir því hagræði sem hlytist af þessum tilflutningi og vitnar til þeirra stofnana sem flytja átti verkefnið frá. Því vil ég góðfúslega biðja hæstv. félagsmálaráðherra að koma þeim gögnum og röksemdum til okkar þingmanna um hvernig þau fá það út.

Þegar færa á verkefnin er stjórnsýslukerfið í Reykjavík þannig að það er ekki mikið hagræði að færa það út á land. Mig langar af því tilefni að minna á að úti á landsbyggðinni á þessum stofnunum er margfalt minni starfsmannavelta, mikið lægri húsaleigukostnaður og margt annað sem ýtir undir þá staðreynd að við eigum frekar að flytja verkefni út á landsbyggðina en frá henni. En því miður er hæstv. ríkisstjórn nú þegar búin að taka ákvörðun um að sameina þrjár nefndir, þ.e. rannsóknarnefndir umferðarslysa, flugslysa og (Forseti hringir.) sjóslysa, og það á að færa það allt til Reykjavíkur án þess að skoða það frekar.



[14:38]
Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Óttarssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Oft hef ég heyrt hæstv. ráðherra tala af meiri sannfæringarkrafti, það verð ég að segja alveg eins og er, enda var hæstv. ráðherra bara að fara með gömlu þuluna sem við þekkjum þegar menn velta fyrir sér möguleikum á því að færa verkefni út á land. Þá fara af stað allir flækjufætur kerfisins og reyna að finna leiðir til að koma í veg fyrir að þetta sé gert. Menn fara í sífellda vörn gagnvart stofnunum og gæta þess að ekkert sé tekið út úr höfuðstöðvunum og sett niður einhvers staðar annars staðar, utan þeirra. Þau rök sem ég heyrði hérna voru ekki mjög sannfærandi. Það er ekki sannfærandi á 21. öldinni, með allri þeirri samskiptatækni sem við höfum þar sem verið er að vinna verkefnin vítt og breitt í stórum húsum innan sömu stofnunar, að ekki sé hægt að færa verkefni af þessu tagi vestur til Patreksfjarðar.

Það getur vel verið að það sé rétt að mikilvægt sé að hafa eitt miðlægt greiðslukerfi. Þá hafa menn bara eitt miðlægt greiðslukerfi og vinna í því á þeim starfsstöðvum þar sem menn telja að hægt sé að koma því fyrir. Patreksfjörður er ekkert undanþeginn í þessum efnum. Við urðum vör við það alveg frá fyrsta degi þegar þessari hugmynd var hreyft að það var ákveðin mótstaða við hana eins og alltaf gerist þegar á að færa verkefnin út á land. Ég heiti á hæstv. félagsmálaráðherra sem er vaskur maður þegar hann vill svo við hafa að hann skoði þetta mál að nýju fordæmalaust til að tryggja að staðið verið við að fjögur til fimm störf, sem gefin voru fyrirheit um á sínum tíma, verði færð úr höfuðborginni til Patreksfjarðar. Þetta mál er ekki mjög flókið, þetta snýst um að staðið verði við þessi fyrirheit. Við þekkjum það m.a. úr ráðuneyti hæstv. ráðherra að það er hægt að hafa slíka starfsemi á vegum Vinnumálastofnunar, t.d. á Skagaströnd, og Fæðingarorlofssjóður (Forseti hringir.) er norður á Hvammstanga. Það hefur tekist mjög vel til og það er góð fyrirmynd varðandi þetta mál (Forseti hringir.) sem við erum að ræða, að færa störf til Patreksfjarðar.



[14:41]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Fátt er fjær mér en að láta einhverja kerfisflækjufætur standa í vegi skynsamlegrar ákvörðunar í þessum málum. Því verður þó ekki mælt á móti að nefndin vanmat á sínum tíma flækjustigið við þennan tilflutning. Hún gaf sér nokkrar forsendur sem standast ekki nánari skoðun eins og þá að hægt sé að koma öllum ákvörðunum fyrir hjá einu sýslumannsembætti. Það eru aðrir sem taka ákvarðanir um meðlagsgreiðslur. Nefndin vanmat líka þá þýðingu sem ákvarðanir um meðlagsgreiðslur og túlkun á framkvæmd í þeim málum hafa t.d. varðandi almannatryggingakerfið í heild.

Hitt er svo aftur mjög mikilvægt að við munum og ætlum að standa vörð um að flutt verði störf og það verði tryggð störf úti um land. Ég hef mikinn áhuga á því að reyna að fjölga sem kostur er störfum án staðsetningar í þessu kerfi. Ég er ekki að tala um að sameina alla hluti í Reykjavík en Tryggingastofnun ríkisins er hér fyrir hendi. Ég er eindreginn talsmaður þess að fækka í þessum stofnunum, draga úr yfirstjórnarkostnaði þar með, leggja niður Sjúkratryggingastofnun og fella hana inn í Tryggingastofnun að nýju. Innheimtustofnun sveitarfélaga og Tryggingastofnun eiga auðvitað allt of mikið sameiginlegt til að það sé réttlætanlegt á aðhaldstímum að reka þær sem tvær stofnanir. Það er byrjunin. En auðvitað eru ákveðnir verkþættir sem við getum horft til hvernig við getum flutt. Ég tek mjög vel þeirri jákvæðu hvatningu sem hér kemur að ganga lengra í því efni. Ég vil halda því til haga að það hefur verið eitt af markmiðum okkar, ekki til að gera mönnum einhvern greiða heldur bara á efnislegum, rekstrarlegum forsendum, að standa vörð um störf úti um land, menn þurfa ekki að bera neinn kinnroða fyrir því. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um vistun tiltekinna verkefna í stofnunum félagsmálaráðuneytisins víða um land, einkanlega í Norðvesturkjördæmi af augljósum ástæðum, hafa ágætlega staðist tímans tönn (Forseti hringir.) og það eru engar efnislegar forsendur fyrir að leggja þá starfsemi niður. Ég held að það sé mikið ánægjuefni fyrir okkur (Forseti hringir.) og þess vegna við að halda áfram á sömu braut.