138. löggjafarþing — 47. fundur
 16. desember 2009.
uppbygging dreifnáms og fjarnáms.
fsp. EyH, 139. mál. — Þskj. 152.

[14:58]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við hæstv. menntamálaráðherra áttum góðar samræður um mikilvægi dreif- og fjarnáms fyrir nokkrum vikum. Nú heyrist mér hæstv. ráðherra deila áhyggjum mínum af stöðu námsins sem ég tel mikilvægan þátt í menntakerfi okkar Íslendinga. Þessi valkostur til náms er gríðarlega mikilvægur fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins og smærri byggðarlögum og dreifbýli má þjóna á annan hátt með nýtingu dreif- og fjarnáms eins og hefur verið þróunin undanfarið. Af þessum sökum hef ég miklar áhyggjur af fyrirhuguðum niðurskurði í fjar- og dreifnámi sem kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og er fjallað um að hluta til í Morgunblaðinu í morgun. Afleiðingarnar eru þær að ekki verður hægt að taka inn nýja nemendur um áramót og núverandi nemendur verða að hægja verulega á námi sínu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef getur jafnvel verið að kostnaður við hvern nemanda í dreifnámi sé lægri en kostnaður við nemendur í staðnámi. Því verða afleiðingar þessa niðurskurðar annaðhvort þær að nemendur hrökklast hreinlega úr námi, jafnvel nemendur sem tilheyra þeim hópum sem við teljum mikilvægt að ná til, eða fólk sem mundi annars fara á atvinnuleysisskrá, eða þeir reyna að komast í staðnám með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir sjálfa sig, samfélagið og ríkissjóð.

Því er ljóst að dreif- og fjarnám getur til lengri tíma skilað sér í lægri kostnaði og aukinni hagkvæmni í skólastarfi án þess að koma niður á gæðum kennslunnar. Bent hefur verið á að minni skólar sem bjóða upp á dreif- og fjarnám gætu hugsanlega sérhæft sig á einhverju ákveðnu sviði og boðið upp á mun fjölbreyttara nám með notkun tækninnar í dreif- og fjarnámi. Kostir þess að efla möguleika fólks til að stunda nám í sinni heimabyggð eru einnig ótvíræðir og skipta miklu máli varðandi þau okkar sem teljum mikilvægt að styðja við möguleika fólks á að búa heima sem lengst. Hefur þróun í notkun upplýsingatækni í skólum einmitt verið hvað öflugust í tengslum við þróun fjar- og dreifnáms. Sú þekking sem byggst hefur upp á sviði upplýsingatækni í tengslum við þess háttar nám er gríðarlega verðmæt og mikilvægt að hún glatist ekki í þeim niðurskurði sem nú er fyrir dyrum í menntamálum.

Því legg ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hver er stefna ráðherra varðandi uppbyggingu dreifnáms og fjarnáms? — Það var erfitt að fá fram nákvæmlega í þessari utandagskrárumræðu hvort ráðherrann hefði áhuga á að setja á stofn starfshóp sem mundi marka skýra stefnu.

2. Hvaða áhrif mun væntanlegur niðurskurður í fjárlögum fyrir árið 2010 hafa á þróun og uppbyggingu dreif- og fjarnáms?

Ég vil jafnframt benda á að þann 3. nóvember sl. lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars frá hæstv. menntamálaráðherra þar sem ég fór fram á frekari upplýsingar um fjölda fjar- og dreifnema, aldursskiptingu og búsetu sem og kostnað við slíka kennslu í samanburði við hefðbundna kennslu.

Nú eru liðnar sex vikur frá því að fyrirspurnin var lögð fram og hvet ég hæstv. menntamálaráðherra til að kanna hver afdrif hennar hafa orðið innan stjórnkerfisins, en ráðherrar eiga (Forseti hringir.) að hafa tíu virka daga til að svara skriflegum fyrirspurnum.



[15:01]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Eygló Harðardóttur. Ég vil fyrst biðjast forláts á því að skriflegt svar hafi ekki borist enn þá við fyrirspurn hv. þingmanns og mun ég kanna afdrif þeirrar fyrirspurnar hið snarasta.

Hvað varðar stefnu um uppbyggingu dreif- og fjarnáms þá ræddum við þetta á dögunum í utandagskrárumræðu hér í þinginu. Þar kom fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki gefið út opinbera dreif- og fjarnámsstefnu heldur hefur hugsunin verið sú að dreifnám sé einn möguleiki sem skólar nýti sér í sínum kennsluaðferðum til að bæta þjónustu sína við nemendur og almenning. Fjarnám varð upphaflega til hér á landi til þess að efla aðgengi fólks að námi og gefa því möguleika á að læra sjálfstætt, óháð búsetu og fjárhagslegri stöðu eða persónulegum aðstæðum.

Almennt hefur áherslan verið sú að fjarnám sé byggt upp sem hluti af almennu námsframboði hvers skóla og skólar hafi svigrúm til að þróa fjarnám eftir eigin hentugleika. Lögð hefur verið áhersla á samstarf skóla um þróun námsframboðs, kennslufræði, tækni- og stoðþjónustu. Menntamálaráðuneytið hefur stutt við þróun grunngerða fyrir fjar- og dreifnám, upplýsingakerfi, þróun kennslufræði, stoðþjónustu o.s.frv.

Menntamálaráðuneytið setti á sínum tíma fram stefnu um dreif- og fjarnám í tengslum við byggðastefnu og hefur staðið fyrir stofnun þekkingarsetra á nokkrum stöðum á landinu þar sem veitt er stoðþjónusta við nemendur vegna fjar- og dreifnáms. Einnig hefur ráðuneytið beint því til allra háskóla að þeir setji sér stefnu um fjarnám og staðið fyrir verkefni í samstarfi við Símenntunarmiðstöðina, þróun netháskóla þar sem kerfisbundið verður byggt upp námsframboð í fjar- og dreifnámi og þjónusta við nemendur á þessu sviði aukin. Það kom líka hér fram um daginn í utandagskrárumræðum að háskólar sem eru á landsbyggðinni hafa staðið sig betur í því að bjóða upp á námskeið sín í fjarnámi en háskólarnir hér á höfuðborgarsvæðinu, sem sýnir kannski meiri skilning þar á þessari tegund náms.

Af því hv. þingmaður kallar eftir stefnu minni höfum við að undanförnu unnið að því í ráðuneytinu að kortleggja umfang og stöðu fjarnáms og fyrirhuguð er úttekt á gæðum fjarnáms í framhaldsskólum. Fjarnám í framhaldsskólum er með mismunandi hætti og hefur þróast á forsendum hvers skóla. Mismunandi er t.d. hversu mikið eða hvort nemendur hitta kennara eða aðra nemendur. Í einhverjum tilfellum er þetta eingöngu unnið í námsumhverfi rafrænnar kennslu þannig að forsenda fyrir því að hægt sé að vinna áfram einhverja stefnumótun er að kanna það hvernig hinar ólíku aðferðir gefast í fjarnámi og dreifnámi því að þetta er með mjög mismunandi hætti.

Í fyrsta lagi munu sem sagt verða skoðuð gæði kennslu og þjónustu sem fjarnámsnemendur fá. Í öðru lagi verði kannað hvort og hvernig fjarnám á vegum framhaldsskóla styður við þróun námshátta í hverjum skóla. Í þriðja lagi hvernig fjarnám nýtist eða getur nýst nemendum sem eru í staðbundnu námi. Jafnhliða þeirri vinnu er mikilvægt að huga að auknu framboði fyrir nemendur. Þegar þessi úttekt liggur fyrir tel ég ástæðu til að skoða frekari stefnumótun og kalla jafnvel til starfshóp eins og hv. þingmaður spurði um hér í utandagskrárumræðu þegar þessi gögn liggja fyrir því að ég held að það sé alveg ljóst að þetta er unnið á mjög mismunandi hátt milli skóla.

Hér var vikið að niðurskurði og hann er erfiður. Það eru engar ákvarðanir auðveldar í þeim efnum en það sem var gert var að fara sérstaklega í viðbótarþjónustu sem ekki telst til kjarnaþjónustu. Þess vegna var sérstaklega skorið niður í fjarnámi og þeirri viðbótarþjónustu fyrir utan stoðkostnað sem var einnig skorinn niður. Við teljum hins vegar að niðurskurðurinn gefi tilefni til þess að skoða uppbyggingu fjarnámsins með kerfisbundnari hætti en verið hefur. Uppgangur fjarnáms hefur verið mikill á undanförnum árum. Fleiri nemendur kjósa að stunda námið á þennan hátt. Það skiptir því miklu máli að gera þá úttekt sem ég hef þegar nefnt og við skoðum hvort einhverjum samlegðaráhrifum sé unnt að ná fram, t.d. með því að vinna betur saman og efla þannig námsframboð þannig að hægt sé að leggja þar saman krafta. Fjarnám er auðvitað lykill fyrir margt vinnandi fólk til að komast í nám með vinnu og ég vil nefna það sérstaklega að meiri hluti nemenda í fjarnámi eru konur og meðaltalsnemandinn lýkur fimm til sex einingum á önn.

Það liggur alveg fyrir að aðgengi nemenda á framhaldsskólastigi að fjarnámi verður takmarkaðra en áður með þeim niðurskurðartillögum sem nú liggja fyrir. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að nemendur í fámennum skólum, sem taka sérhæfða áfanga sem ekki eru í boði í þeirra skóla í fjarnámi, eigi þess áfram kost. Í einhverjum tilfellum mun niðurskurður hægja á námsframvindu framhaldsskólanemenda en sumir skólar hafa brugðið á það ráð að takmarka einingafjölda nemenda í fjarnámi sem hefur þessar afleiðingar.

Á háskólastigi hefur fjarnám verið með ólíkum hætti milli skóla. Við beinum niðurskurðartillögum þeirra ekkert sérstaklega að fjarnámi, það liggur í raun og veru hjá skólunum sjálfum að útfæra það, þannig að við sjáum þetta helst (Forseti hringir.) hjá framhaldsskólunum.

Ég mun koma nánar að ýmsum atriðum um þetta í mínu seinna innleggi hér.



[15:07]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er nú kunnugleg vegna þess hve stutt er síðan við vorum hér í utandagskrárumræðu. Ég vil leggja áherslu á þá skoðun mína að dreif- og fjarnám sé fjölbreytni í kennsluaðferðum en ekki sértækt eða sérstakt nám. Þetta á fyrst og síðast við sem fjölbreytni í kennsluaðferðum sem skiptir máli.

Mig langar að leggja orð í belg og spyrja hæstv. ráðherra, sem á eftir að koma hér í sitt seinna svar — nú hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, þar sem fallið er frá því sem sagt er í lögunum um fjárhæð gjalds sem hægt er að nýta. Telur ráðherrann að með því frumvarpi sem hún leggur fram hér, að veita undanþágu eða með frestinum, að hún sé að koma (Forseti hringir.) til móts við dreif- og fjarnám eins og hún sér það?



[15:08]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er óumdeilt að mjög margt hefur verið vel gert í menntamálum okkar á síðustu árum og okkur hefur tekist að stórauka framlög til þessa málaflokks sem betur fer. Eitt af því sem hefur tekist hvað best til að mínu mati er einmitt uppbygging dreif- og fjarnáms sem hefur haft gríðarlega þýðingu. Hæstv. ráðherra benti á að hlutur kvenna væri til að mynda hlutfallslega mikill í þessu námi. Ég vil sérstaklega beina athyglinni að hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum. Það fer ekkert á milli mála að aukning fjarnámsins og dreifnámsins hefur opnað alveg nýja möguleika fyrir fólk á landsbyggðinni, það hefur m.a. gert það að verkum að við höfum verið að takast á við það vandamál sem við höfum verið að glíma við, sem er meira brottfall meðal þeirra ungmenna sem hafa þurft að fara um langan veg til þess að stunda nám.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til þess að snúa við af þeirri braut sem núna er verið að feta og hvika ekki frá því að efla þetta nám. Það er hugsanlegt að við þurfum að takast á við niðurskurð og því gerum við okkur grein fyrir en það má ekki verða til þess að skapa ójafnrétti (Forseti hringir.) til náms eins og getur gerst ef við skerðum of mikið framlögin til fjarnámsins og dreifnámsins.



[15:09]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hennar svör. Ég held að það sé nú nokkuð skýrt að ráðherrann er að grípa til aðgerða innan ráðuneytisins sem kannski hefði átt að vera búið að fyrir löngu, að kortleggja fjar- og dreifnám í skólum landsins og gæðin í námsframboðinu. Ég held að það endurspegli kannski þekkingarleysi, eða á ég að segja áhugaleysi, á þessari tegund af námi að það skuli hafa dregist svona að fá svör við þessum spurningum. Ég þykist nefnilega nokkuð viss um það að ef þessar upplýsingar hefðu legið á borðinu hjá starfsmönnum ráðuneytisins hefðu þeir verið löngu búnir að svara mér. Ég held að töfin á svörunum tengist því hreinlega að ekki eru til upplýsingar um kostnaðinn. Þó að hægt sé að segja til um fjölda fjar- og dreifnema, aldursskiptingu og búsetu vantar upplýsingar um kostnað og síðan samanburð við staðnám.

Í grein í Morgunblaðinu segist Gísli Ragnarsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, en sá skóli hefur staðið mjög framarlega í því að bjóða upp á þessa tegund af námi, sjá fram á það að þurfa að leggja niður sumar- og fjarnám vegna niðurskurðarins. Síðastliðið sumar hafi um 1.200 nemendur verið í sumar- og fjarnámi sem jafngildir 95 ársnemum. Skólameistarinn bendir á að í heildina hafi um 2.000 nemendur verið í fjarnámi og þar hafi mörgum og mismunandi hópum verið þjónað, m.a. atvinnulausum, og hæstv. ráðherra benti sjálf á hlutfall kvenna, og því sé slæmt að þurfa að skera niður. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þetta er ódýrt námsúrræði sem kostar mun minna en dagskólinn.“

Þetta stemmir við þær upplýsingar sem ég hef frá öðrum skóla sem hefur verið mjög framarlega í uppbyggingu á dreif- og fjarnámi, sem er Borgarholtsskóli. Þar sjá þeir fram á að þurfa hugsanlega að leggja niður félagslega braut hjá sér en konur hafa einmitt verið í meiri hluta nemenda þar og þeir sjá fram á að geta ekki tekið nemendur fyrr en um áramótin. (Forseti hringir.) Það var bent á að ef þær þurfa að fara í staðnám verður það dýrara úrræði fyrir ríkið en það að bjóða áfram upp á þetta fjarnám.



[15:12]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar að það hljóti að vera svo að kostnaður sé mismikill milli skóla líka, þ.e. staðnemar eru misdýrir milli skóla og fjarnámsnemendur eru líka misdýrir milli skóla og fer auðvitað eftir umfangi námskeiða og þeim búnaði sem notaður er hversu mikið nám er í boði. En þetta kemur vonandi fram sem fyrst í svari við fyrirspurn.

Ég vil bara segja að lokum, út af fyrirspurn hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, um frumvarpið sem nú liggur fyrir. Það snýr að gjaldtökuheimildum í kvöldskóla og miðar að því að nýju lögin sem voru samþykkt 2008 og tóku gildi núna í haust — lagt er til að hverfa tímabundið aftur til eldri laga og auka gjaldtökuheimildir til fyrra horfs. Það er til að koma til móts við þann niðurskurð sem nú er, þ.e. að nemendur geti borgað allt að þriðjungi eins og var í eldri lögum fyrir nám í kvöldskóla, og þetta kemur ekki síst fram vegna athugasemda frá þeim sem hafa staðið fyrir kvöldskólum hér. Þannig að frumvarpið liggur fyrir þinginu og ef það gengur eftir þýðir það meiri byrðar á nemendur að sjálfsögðu en þar af leiðandi verður væntanlega hægt að halda uppi framboði á námi í kvöldskóla.

Ég vil bara ítreka það að við förum núna í úttektina sem ég nefndi hér áðan og stefnumótun í framhaldinu. Ég hef mikinn áhuga á því að skoða hvaða leiðir er hægt að fara til að koma til móts við menntunarþarfir fólks, ekki síst með tilliti til jöfnunar. Það eru uppi hugmyndir um að koma upp samstarfsneti skóla og annarra fræðsluaðila þar sem skólarnir vinna saman að því að kortleggja þarfir fyrir menntun og geta í framhaldi af því komið sér saman um að auka frekar námsframboð í fjarnámi, ná fram samlegðaráhrifum og auka um leið námsframboð og auka um leið hagkvæmni þannig að hægt sé að auka framboð í fjarnáminu.

En þetta liggur vonandi fyrir á næstunni og ég á von á því að skriflegt svar berist mjög bráðlega.