138. löggjafarþing — 50. fundur
 18. desember 2009.
sjúkratryggingar, frh. 3. umræðu.
frv. heilbrn., 324. mál (gjaldtaka fyrir dvöl á sjúkrahóteli). — Þskj. 420.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:58]

[11:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp frá ríkisstjórninni sem heimilar ríkisvaldinu að taka gjald fyrir fólk sem liggur á sjúkrahótelum sem er ákveðin tegund sjúkrahúsa. Það að þetta mál komi í kjölfar þess máls sem við vorum með áðan segir sína sögu. Þetta er enn ein birtingarmynd þess að þörf er á að taka þessi mál fyrir í heild sinni, þ.e. greiðslu sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni. Enn og aftur greiðum við fyrir málum ríkisstjórnarinnar með því formerki að farið verði í þá vinnu sem ég nefndi í atkvæðaskýringu áðan og sú vinna verði kláruð. Undir þá ósk okkar sjálfstæðismanna taka öll sjúklingasamtök í landinu og þau samtök sem hafa hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.



[11:56]
Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Til að halda öllu til haga er það hv. heilbrigðisnefnd sem flytur þessa tillögu og við fulltrúar í heilbrigðisnefnd styðjum hana.



Frv.  samþ. með 31:1 atkv. og sögðu

  já:  APS,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BjarnB,  EKG,  GuðbH,  GÞÞ,  GStein,  IllG,  JBjarn,  JónG,  KJak,  LMós,  MSch,  OH,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SER,  SII,  SIJ,  SJS,  VigH,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  BirgJ.
1 þm. (MT) greiddi ekki atkv.
30 þm. (ArndS,  ÁJ,  BÁ,  BJJ,  BjörgvS,  BVG,  EyH,  GLG,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JRG,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  ÓÞ,  ÓN,  SDG,  SF,  SVÓ,  SSv,  TÞH,  UBK,  VBj,  ÞKG,  ÞSa,  ÞSveinb,  ÞrB) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:57]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Til að taka af allan vafa um það er ekki verið að leggja hér á nýjar álögur heldur er að fengnu áliti umboðsmanns Alþingis verið að veita skýra lagaheimild til að taka gjald af þeim sem koma inn á sjúkrahótel. Þetta gjald hefur verið innheimt frá árinu 2006 og hefur verið óbreytt frá þeim tíma. Innheimtu þess var hætt í haust í framhaldi af úrskurði umboðsmanns Alþingis, 11. september held ég að það hafi verið. Gjaldið hefur ekki verið innheimt síðan en verður nú innheimt áfram óbreytt. Ég segi já.