138. löggjafarþing — 52. fundur
 18. desember 2009.
vitamál, 2. umræða.
stjfrv., 74. mál (hækkun gjalds). — Þskj. 74, nál. 494.

[20:50]
Frsm. samgn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa samgönguráðuneytis og fulltrúa úr ferðaþjónustu og auk þess aðila frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og frá Skeljungi.

Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er gerð tillaga um að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar og þróun gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum nr. 142/2002. Með frumvarpinu er lagt til að vitagjald verði 156,50 kr. á hvert brúttótonn sem er 100% hækkun í samræmi við þróun gengisbreytinga og hækkun neysluvísitölu. Vísitalan hefur hækkað um 39% frá 2002 til 2009 og evran um 100%. Hins vegar er lögð til í frumvarpinu sú breyting að vitagjaldið megi ekki einungis nota í verkefni skv. 2. gr. laga um vitamál heldur til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdir á hennar vegum.

Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að umrædd hækkun gæti haft alvarlegar afleiðingar, t.d. fækkun ferðamanna sem ferðast með skemmtiferðaskipum til landsins. Umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að hækkun gjaldsins væri tengd við þróun gengis evru og töldu að 100% hækkun gjaldsins eins og lagt hér er lagt til væri óviðunandi. Auk þess var gagnrýnt að heimiluð yrði nýting vitagjaldsins til almenns rekstrar Siglingastofnunar þar sem það væri ekki tilgangur gjaldsins, heldur væri það í eðli sínu þjónustugjald en ekki skattur.

Nefndin fjallaði um málið og fór yfir þau sjónarmið sem fram komu á fundum nefndarinnar. Var það mat nefndarinnar að þarna væri um að ræða eðlilega og nauðsynlega breytingu en að sama skapi var það mat nefndarinnar að rétt væri að takmarka hækkunina við 60% sem lætur nærri að sé hækkun neysluverðsvísitölu frá því að gjaldskránni var síðast breytt 30. september 2002 til dagsins í dag. Nefndin gerir því sérstaka breytingartillögu þess efnis. Auk þess áréttar nefndin mikilvægi þess að gjaldskrár séu uppfærðar reglulega í samræmi við verðlagsþróun.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindri breytingu.



[20:53]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um vitamál sem felast í því að verið er að hækka vitagjöldin, annars vegar úr 78 kr. í 156 kr. miðað við brúttótonn og það er 100% hækkun. Fram kom í ræðu síðasta ræðumanns að það gerðar voru mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og m.a. þær að þetta mundi hugsanlega geta dregið úr komu erlendra skemmtiferðaskipa hingað til lands, en erlend skip greiða um 85% af vitagjaldinu, af heildargjaldinu. Einnig er lagt til í frumvarpinu að nýta megi þessa hækkun eða þennan gjaldstofn til annarra verka innan stofnunarinnar.

Það kom fram á fundum nefndarinnar að menn töldu að ef farið væri svona bratt í að hækka gjaldið gæti það hugsanlega haft þær afleiðingar að komum skemmtiferðaskipa mundi fækka og þeir bentu líka á að sum skipin koma einungis einu sinni ári sem þýðir að það er þá öðruvísi hjá þeim sem sigla kannski allan ársins hring.

Í b-lið er gert ráð fyrir því að sú fjárhæð sem þar stendur, sem er 3.500, fari upp í 4.900 kr. og sú hækkun mun koma nánast eingöngu niður á smábátaflotanum. Landssamband smábátaeigenda gerði engar athugasemdir við þessa hækkun og taldi að verið væri að færa þetta til þess horfs sem er víða annars staðar. Reyndar er upphafið að vandamálinu það að þessi gjaldskrá hefur ekki hækkað síðan 2002 og verið er að leiðrétta það með breytingunum hér og það er líka tekið fram í nefndarálitinu að færa þurfi upp gjaldskrárnar reglulega þannig að menn lendi ekki í svona stórum stökkum, og þó svo að það séu ákveðin rök fyrir því að gera það vegna áhrifa gengisins er ekki skynsamlegt að gera það með þessum hætti.

Að lokum vildi ég segja það, virðulegi forseti, af því að lagt er til af hálfu nefndarinnar að hækkunin verði 60% og að í stað fjárhæðarinnar 156,50 komi 125,12 sem þýðir ákveðinn tekjumissi fyrir ríkissjóð, að þá þarf að sjálfsögðu að leiðrétta það í fjárlagafrumvarpinu.