138. löggjafarþing — 55. fundur
 19. desember 2009.
þjóðgarðurinn á Þingvöllum, 2. umræða.
frv. ÁI o.fl., 93. mál (undanþága frá lögum um frístundabyggð). — Þskj. 95, nál. 517.

[18:26]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið gesti.

Frumvarpið er endurflutt frá 136. löggjafarþingi og lagði allsherjarnefnd þá til að það yrði samþykkt. Þar kom fram að markmið frumvarpsins væri að tryggja að Þingvallanefnd gæti samið um lengd leigutíma á lóðum undir sumarhús óháð ákvæðum laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, en þau áskilja að leigusamningar frístundahúsa séu gerðir til 20 ára. Þeir samningar sem í gildi eru í þjóðgarðinum eru til styttri tíma, eða 10 ára, og þykir það nauðsynlegt svo að unnt sé að grípa til ráðstafana með tiltölulega skömmum fyrirvara til að tryggja að markmið laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum náist, enda er Þingvallanefnd falið að fara með málefni þjóðgarðsins.

Nefndin bendir á að jafnframt kunna ýmis önnur ákvæði laga um frístundabyggð að vera í nokkru ósamræmi við lög um þjóðgarðinn, en nefndin minnir einnig á þá meginreglu að sérlög ganga framar almennum lögum og vísar í því sambandi til sérstöðu þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Nefndin fjallaði um kosningu og kjörtíma Þingvallanefndar. Samkvæmt gildandi lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum skal Alþingi kjósa sjö alþingismenn í Þingvallanefnd í upphafi hvers þings. Fyrir gildistöku þeirra laga var þriggja manna Þingvallanefnd kosin í lok hvers þings eftir nýafstaðnar kosningar, sbr. 5. gr. laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla. Rökin fyrir breytingunni 2004 var að vel færi á því að sama gilti um Þingvallanefnd og fastanefndir þingsins, sem þá voru kosnar í upphafi hvers þings. Með breytingum á þingsköpum 2007 var kjörtími þingnefnda lengdur þannig að kosningin gildir allt kjörtímabil alþingismanna. Nefndin leggur til að kjörtími Þingvallanefndar verði færður til samræmis við þessa breytingu á kjörtíma þingnefnda þannig að ekki þurfi að kjósa nýja nefnd á hverju löggjafarþingi. Þá leggur nefndin einnig til að tryggt verði með bráðabirgðaákvæði að sú Þingvallanefnd sem kosin var í upphafi yfirstandandi þings sitji áfram þar til ný nefnd hefur verið kjörin eftir næstu alþingiskosningar.

Því leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við frumvarpið bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi: Í stað orðsins „þings“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: kjörtímabils.

2. Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Þingvallanefnd sem nú situr skal halda umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið kjörin eftir næstu alþingiskosningar.

Birgir Ármannsson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Auk þeirrar sem hér stendur skrifa undir álitið hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ólöf Nordal og Róbert Marshall.



[18:29]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um svolítið sérstakt mál. Ég get tekið undir með hv. forsvarsmanni allsherjarnefndar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að það sé eðlilegt að um þjóðgarðinn á Þingvöllum gildi sérstök lög, bæði um þá starfsemi sem þar er og þar með talið frístundabyggðir eða sumarhús.

Við 1. umr. um þetta mál benti ég á að mér þætti skjóta svolítið skökku við að fyrir nokkrum árum fóru í gegnum Alþingi lög um réttindi og skyldur í sumarhúsabyggðum, svokölluð frístundalög, sem voru með þeim hætti þegar þau voru fyrst lögð fram að þau voru nánast hrein móðgun við sveitarfélögin og landeigendur í landinu. Sumir gengu svo langt að kalla þau lög um réttindi sumarhúsa en skyldur sveitarfélaga og landeigenda við þau. Sem betur fer náðist að laga ýmislegt í þeim lagabálki þannig að niðurstaðan varð nokkuð ásættanleg. Engu að síður voru sum ákvæðin nokkuð íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu og landeigendur. Mér þótti því skjóta nokkuð skökku við og nefndi það hér í ræðu minni í 1. umr. að þar sem Alþingi fer vissulega með stjórn þjóðgarðsins á Þingvöllum telji menn að réttindi þeirra sem eiga frístundasumarhús og eru í þessari frístundabyggð innan þjóðgarðsins skuli vera með öðrum hætti en í öðrum frístundabyggðum. Ég tók hins vegar undir að það væri mjög eðlilegt að um þjóðgarðinn sem slíkan giltu sérstök lög og reglur og það væri ekkert óeðlilegt að um frístundabyggð sem hefði lent innan löghelginnar á sínum tíma — hvort sem það væri gott eða slæmt — giltu sérstakar reglur. Mér fannst hins vegar ganga of langt að taka einhliða úr gildi lög sem þarna væru og fannst eðlilegra að farið hefði verið yfir lögin og teknir út þeir þættir sem stönguðust á við sérlögin um þjóðgarðinn. Í því sambandi er rétt að benda á að til að mynda hefði mátt fella út II. kafla laganna um frístundabyggðina og eins 19. gr. sem er í III. kaflanum en sá hluti laganna fjallar einmitt um leigutíma og hvernig menn eigi að koma þar fram.

Aðrir hlutar í þessum lögum fjalla hins vegar meira og minna um samskipti frístundahúseigendanna hvers við annan, skyldu af félagsstarfsemi og slíka hluti, marga góða þætti sem æskilegt væri að þetta félag sem væri innan þjóðgarðsins hefði eins og allar aðrar frístundabyggðir. Þegar ég fór hins vegar að skoða þetta gat ég ekki betur séð en að þessi lög sem voru sett um frístundabyggðina ættu fyrst og fremst að gilda um frístundabyggðir þar sem leigutími væri 20 ár eða lengri. Það er því spurning hvort við séum ekki að hlaupa of hratt, eins og við gerum í flestum málum, og það sé í raun og veru óþarfi að fella þjóðgarðinn undan því að hann sé þar alls ekki vegna þess að þar er leigutíminn miklu styttri, tíu ár eða jafnvel styttri. Við framlengjum leigutímann núna um sex mánuði í hvert sinn til þess að skapa svigrúm til þess að koma að eðlilegu deiliskipulagi en það er ekki skrýtið að á þeim tíma hafi því ekki verið komið á. Mér finnst því í raun og veru eðlilegt að á milli 2. og 3. umr. taki nefndin þetta mál til skoðunar aftur, hvort það sé í raun og veru ekki óþarfi að ganga svona langt því hugsanlega gildi þessi lög ekki um frístundabyggðina innan þjóðgarðsins og hins vegar hvort ekki sé skynsamlegra að ákveðnir hlutir í lögunum um frístundabyggð eigi jafnt við um frístundabyggðina innan þjóðgarðsins og aðrar frístundabyggðir.

Nefndin er einhuga í þessu og eins var Þingvallanefnd einhuga að baki þessu. Nú sit ég í þeirri nefnd en sat þar hvorki á þeim tíma sem þetta var lagt til né á hinu fyrra þingi þannig að mér birtust þessi sjónarmið við 1. umr. Ég tel eðlilegt að til þeirra sjónarmiða hefði verið tekið meira tillit, sérstaklega í ljósi þess að þrjár umsagnir bárust en enginn var, held ég, boðaður á fund nefndarinnar samkvæmt nefndarálitinu. Ein af þessum þremur umsögnum var frá Landssambandi sumarhúsaeigenda. Ef ég má vitna í þá umsögn þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Allt frá stofnun Landssambandsins hefur það verið baráttumál þess að fá lagaumhverfi um frístundabyggð og um samskipti landeigenda og leigutaka frístundalóða. Á síðasta ári var það mál loksins í höfn með samþykkt Alþingis á lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sem eru nr. 75/2008. Landssambandið leggst eindregið á móti breytingartillögunni.“

Seinna í sömu umsögn stendur, með leyfi forseta:

„Tekið er á innbyrðis samskiptum lóðarhafa innan sama skipulagða svæðisins, stofnun félagsskapar til að taka fjárhagslegar ákvarðanir vegna sameiginlegs kostnaðar og samskiptum félagsins við viðkomandi sveitarfélag.“

Ég tel eðlilegt að þarna hefði verið aðeins tekið tillit til þessa hlutar.

Einnig sendu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga inn umsögn og mig langar, með leyfi forseta, til að lesa eftirfarandi umsögn sem var samþykkt:

„Stjórn SASS gerir athugasemdir við að þjóðgarðurinn verði að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð. Eðlilegra væri að tiltaka þær greinar laganna um frístundabyggð sem ekki eigi við um þjóðgarðinn. Stjórn SASS leggur jafnframt til að við 2. grein laganna verði bætt ákvæði um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefnd til viðbótar þeim sjö þingmönnum sem í henni sitja, eða, til vara, fái áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Rökin eru augljós, verkefni nefndarinnar skarast að sumu leyti á við verkefni sveitarfélagsins samkvæmt lögum og því nauðsynlegt að fullt samráð sé á milli þessara aðila auk þess sem nauðsynlegt upplýsingaflæði væri tryggt.“

Ég vil taka undir þetta. Úr því að nefndin kaus að fjalla líka um og bæta við breytingartillögum um kosningar til Þingvallanefndar, bæði kjörtíma og með hvaða hætti, hefði þetta tækifæri átt að vera notað til þess að bæta þessum umsagnaraðila eða áheyrnarfulltrúa Bláskógabyggðar inn. Eins og allir vita eru Þingvellir í sveitarfélaginu Bláskógabyggð og stjórnsýsla Þingvallanefndar á mikil samskipti við sveitarstjórn og fulltrúa skipulags- og byggingarmála, heilbrigðiseftirlits og annarra þátta. Það væri ekkert óeðlilegt að fulltrúi sveitarfélagsins væri áheyrnarfulltrúi í þeirri nefnd. Sjálfur hefði ég reyndar viljað ganga lengra og mun kannski koma með mál inn á þingið þegar frá líður um annars konar stjórnun á þjóðgörðum, þar á meðal þjóðgarðinum á Þingvöllum, en við þekkjum í dag.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð sendi líka inn umsögn og mig langar að lesa þá bókun, með leyfi forseta:

„Frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Byggðaráð vill benda á að sveitarfélög gerðu athugasemdir við setningu laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, 75/2008, og vill vísa til áður fram kominna athugasemda sveitarfélaga þar að lútandi. Byggðaráð telur að það hefði átt að vanda betur til verka við setningu þeirra laga og taka meira tillit til sjónarmiða sem fram komu í innsendum athugasemdum sveitarfélaga.“

Ég vil enda mál mitt á því að leggja til að nefndin fjalli aðeins um þessar umsagnir og taki meira tillit til þeirra en hér kemur fram. Ég legg til að nefndin skoði einfaldlega hvort þetta frumvarp sé óþarft, að lögin um frístundabyggðina í þjóðgarðinum á Þingvöllum nái ekki yfir þá byggð vegna þess að leigutíminn sé styttri en 20 ár. Einnig til að tryggja það, eins og hugmyndin með þessu frumvarpi var, að um þessa frístundabyggð innan þjóðgarðsins sé enginn vafi og að það sé alveg klárt að lög og reglur Þingvallanefndar, eða lög um þjóðgarðinn, gildi um þessa frístundabyggð. Það mætti auðvitað líka velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt.

Varðandi þessar breytingartillögur fer ég jafnframt fram á eða finnst skynsamlegt að allsherjarnefnd skoði hvort ekki sé skynsamlegt að bæta við heimild til þess að Bláskógabyggð hafi áheyrnarfulltrúa í Þingvallanefnd þar sem það muni bæði auka samskipti milli þessara tveggja stjórnsýsluþátta sem þarna þurfa að koma saman við að stjórna Þingvöllum svo vel sé og eins til þess að bæta allt upplýsingaflæði þar á milli.



[18:40]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á áðan hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gert ákveðnar athugasemdir við þetta mál og mig langar að fara aðeins yfir málið út frá þeim athugasemdum.

Stjórn SASS hefur gert athugasemdir við að þjóðgarðurinn verði að öllu leyti undanþeginn lögunum um frístundabyggð. Ég verð að segja, frú forseti, að ég tel rétt að allsherjarnefnd skoði þetta atriði aðeins betur vegna þess að miðað við röksemdafærsluna í nefndarálitinu er einfaldlega um afmarkað atriði að ræða sem þyrfti að taka tillit til. Ég tel því rétt að taka undir þær hugmyndir sem hv. þingmaður kom með hér að framan að allsherjarnefnd fari aðeins betur yfir þetta og kanni hvort ekki væri réttara að undanþiggja þjóðgarðinn ákveðnum köflum og ákvæðum laganna. Ég tel rétt að fólkið sem býr í þessu landi sitji allt við sama borð sama hvar það býr og sama hvar það er með sín frístundahús. Það verða alla vega að vera skilaboðin sem við sendum út héðan frá Alþingi. Ef gera á einhverjar undanþágur frá því, eins og við erum að gera hér, verður það náttúrlega að vera skýrt og rökstutt. Það getur vel verið að ástæða sé til þess að hafa þetta svona vítt en það er þá alla vega ekki rökstutt með fullnægjandi hætti í þessu nefndaráliti.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson fór ítarlega yfir þessa röksemdafærslu og ég tel því ekki rétt að lengja umræðuna um þetta atriði mjög mikið. Ég vil þó segja að lokum að ég tel jafnframt rétt að allsherjarnefndin skoði aðeins þessa beiðni eða þessar hugmyndir frá stjórn SASS um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefndinni til viðbótar þeim sjö þingmönnum sem í henni sitja og þá sem áheyrnarfulltrúi. Ég tel að það yrði einfaldlega til þess að gera alla stjórnsýslu skilvirkari og samskiptin á milli Þingvallanefndar og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar liðugri.



[18:43]
heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til þess að fagna þeirri samstöðu sem var í hv. allsherjarnefnd um afgreiðslu þessa máls sem nú er lagt fyrir Alþingi öðru sinni. Ég vil vekja athygli á því að þetta mál hlaut afgreiðslu í allsherjarnefnd fyrir síðustu kosningar, það er sem sagt á tveimur kjörtímabilum og tvær ólíkar Þingvallanefndir hafa borið það fram. Fulltrúar allra flokka í tveimur Þingvallanefndum og fulltrúar allra flokka í tveimur allsherjarnefndum Alþingis hafa mælt með því að það yrði samþykkt.

Vel kann að vera að menn hafi ekki áttað sig á því að þjóðgarðurinn á Þingvöllum er einstakur og ekki eins og hver önnur venjuleg sumarhúsabyggð. Frú forseti. Í 1. gr. laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum segir:

„Þingvellir við Öxará og grenndin þar skal vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður.“

Það er meginmarkmiðið með lögum um Þingvelli, allra Íslendinga sem þjóðgarður.

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

„Þjóðgarðurinn á Þingvöllum skal vera undir stjórn Þingvallanefndar,“ segir síðan í 2. gr. Og í 5. gr:

„Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar.“

Í þessum lögum er tekið sérstaklega á stjórnsýslunni í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þetta eru lög frá 2004. Reglugerð sem fylgir þessum lögum og stefnumörkun þjóðgarðsins til ársins 2024 byggir á þessari lagasetningu til 20 ára og miðar við að sumarhúsabyggðin sem er í þjóðgarðinum hverfi þaðan smám saman þannig að ákvæði 1. gr. laganna um að Þingvellir við Öxará og grenndin þar skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður. Það er markmiðið í stefnumörkun þjóðgarðsins. Þetta er því ekki fyrst og fremst sumarhúsasvæði.

Þessi lög greinir á við lög um frístundabyggð um nokkuð mörg atriði, ekki bara leigutímann til 20 ára hið skemmsta. Í 1. gr. laga um frístundabyggð segir að þau lög skuli vera ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram eða leiði af eðli máls. Þar segir líka að það megi veðsetja leigusamningana sem hér um ræðir. Þeir eru aðfararhæfir en það brýtur klárlega í bága við það sem segir í lokamálsgrein 1. gr. um þjóðgarðinn á Þingvöllum, að hið friðlýsta land skuli vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar og það megi aldrei selja eða veðsetja. Þetta fer ekki heim og saman.

Bent hefur verið á að það geti verið gott að setja upp félag eins og áskilið er í lögunum um frístundabyggð, að það skuli stofna félag sumarhúsaeigenda á hverju svæði. Þar segir líka að þetta félag eigi að taka ákvarðanir um lagningu og viðhald akvega og göngustíga að og innan svæðis o.s.frv. í 19. gr. Þetta samrýmist ekki þeim ákvæðum laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum að samþykki Þingvallanefndar sé áskilið fyrir öllu jarðraski og mannvirkjum og að þjóðgarðurinn skuli vera undir stjórn Þingvallanefndar.

Loks vil ég benda á 25. gr. laganna þar sem fjallað er um úrskurðarnefnd frístundamála og að ráðherra frístundamála, sem ég hygg að sé hæstv. samgönguráðherra sem er ráðherra sveitarstjórnarmála, fari með reglugerðarvald og úrskurðarvald í málefnum frístundabyggða. Álit og úrskurðir úrskurðarnefndar frístundahúsamála eru endanlegir á stjórnsýslustigi, segir hér. Þetta brýtur beint í bága við það sem segir í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem heyrir undir forsætisráðuneytið. Þetta skarast því á býsna mörgum sviðum. Yfir þetta var vandlega farið í nefndinni, bæði núverandi og fyrrverandi Þingvallanefnd, og það er eflaust ástæðan fyrir því að menn voru á eitt sáttir um þetta.

Ég vil vekja athygli á því að félag sumarhúsaeigenda á Þingvöllum er starfandi, þ.e. í Kárastaðalandinu og á Valhallarstíg en ég veit ekki hvort það er á Gjábakka þar sem eru örfá hús. Í þjóðgarðinum eru 80–90 hús og það er starfandi félag sumarhúsaeigenda fyrir alla vega 80 þeirra eða fleiri.

Ég vil fagna því hversu góð samstaða hefur orðið um þetta mál enn á ný. Hér eru ákvarðanir ekki teknar á hlaupum, þetta er vel unnið mál á tveimur þingum. Þó hefur komið fram beiðni um að hv. allsherjarnefnd taki málið aftur til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og þá er alltaf orðið við því ef hægt er að upplýsa hv. þingmenn betur um stöðu mála.



[18:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að það sé samstaða hér í þinginu um eitthvert mál og það er þá þetta mál. Það er gott að það sé hægt að fagna því að það sé samstaða innan Þingvallanefndar og þá bæði þessarar sem nú situr og hinnar fyrri. Engu að síður hafa allir hv. þingmenn þann stjórnarskrárbundna rétt að þeir eru einfaldlega bundnir við sína eigin sannfæringu og því tel ég mér alveg fullkomlega í sjálfsvald sett að vera með athugasemdir við það hvernig þetta mál er sett fram, þá sérstaklega ef við horfum til þess að þarna er verið að gera undanþágu frá gildandi lögum. Ég veit vel að þjóðgarðurinn á Þingvöllum er sérstakur og við eigum hann öll saman og okkur þykir öllum mjög vænt um hann en engu að síður er þarna frístundabyggð og þar er einfaldlega fólk eins og annars staðar sem er að kljást við ýmis málefni, t.d. varðandi vatn o.s.frv., sem einhverjar reglur þurfa að gilda um.

Þrátt fyrir að það sé ástæða til að breyta þessu og gera ákveðnar undanþágur finnst mér það ekki rökstutt fullnægjandi í frumvarpi til laga sem með fylgir einstaklega stutt greinargerð. Þá hefði verið hægt að setja eitthvað af þeim ágætu rökum sem hæstv. ráðherra kemur hér fram með inn í málið til að fylla og skýra aðeins betur hvað er verið að gera þarna. Við skulum alveg átta okkur á því að það eru fleiri en við sem hér sitjum sem förum yfir þetta mál. Þegar undanþágur eru gerðar frá gildandi lögum er mjög gott og sjálfsagt í stjórnsýslunni, sérstaklega á þingi, að það sé algjörlega skýrt hver röksemdafærslan á að vera.

Ég tel þetta gagnrýnivert en skal draga til baka að þetta mál sé unnið á handahlaupum ef ég hef sagt það. Ég tel engu að síður óhjákvæmilegt að fylla aðeins upp í þessa röksemdafærslu og útskýra, m.a. af hálfu (Forseti hringir.) allsherjarnefndar, hvers vegna ekki er fallist á þau sjónarmið sem koma fram í athugasemdum Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.



[18:52]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið um þetta mál svo og hæstv. heilbrigðisráðherra sem er jafnframt formaður Þingvallanefndar. Hún fór í sjálfu sér ágætlega yfir það í ræðu sinni hvernig lögin um frístundabyggð geta ekki samrýmst þeirri hugsun sem að baki Þingvallaþjóðgarði er. Þess vegna er lagt til að tekinn sé af allur vafi um stöðu þjóðgarðsins. Ég held að það sé það mikilvægasta í þessu vegna þess að það skiptir máli að það sé engin réttaróvissa um það hvaða lög gilda um þjóðgarðinn.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra kom inn á, það var og hefur verið alltaf mjög víðtæk samstaða í bæði fyrri og núverandi Þingvallanefnd svo og í fyrri og núverandi allsherjarnefnd um þetta mál. Ég held að það skipti afar miklu máli. Ef einhverjir hv. þingmenn vilja kalla málið aftur til allsherjarnefndar á milli umræðna gera þeir það auðvitað og væntanlega verður þá orðið við því. Það er sjálfsagt að taka einn snúning á málinu til viðbótar í allsherjarnefnd. Ef menn telja að rökstuðningurinn í greinargerð með nefndarálitinu sé ekki nægjanlegur er alveg hægt að ná í þann rökstuðning sem er til og bæta inn í textann til að gera menn sáttari við hann ef það er það sem menn eru fyrst og fremst að kalla eftir. Rökstuðningurinn er svo sannarlega fyrir hendi eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór hér yfir.

Við erum ekkert að tala um neina venjulega sumarhúsabyggð hér, þetta er þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Ég nefndi það reyndar í umræðum í nefndinni að sambærileg vandamál kunna vel að koma upp varðandi aðra þjóðgarða á landinu, t.d. nýstofnaðan Vatnajökulsþjóðgarð, að ég tali nú ekki um þjóðgarðinn á Snæfellsnesi. Til að flækja málið ekki að óþörfu ákváðum við hins vegar að setja þau mál ekki saman með þjóðgarðinum á Þingvöllum. Ég hyggst hins vegar taka þetta mál upp eftir áramót og fara yfir það vegna þess að aðrar reglur eiga að mínu mati og að mati annarra að gilda um staði sem íslenska ríkið hefur ákveðið að kalla þjóðgarða. Að mínu mati er ekki hægt að fallast á það að lögin um frístundabyggð gildi um staði sem allt öðruvísi háttar til um.

Eins og ég segi þakka ég fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið málefnaleg og ef menn vilja kalla þetta mál aftur inn gera menn það og þá skulum við taka málið aftur til efnislegrar meðferðar, bæta textann og lengja hann ef það er það sem hv. þingmenn eru að kalla eftir.