138. löggjafarþing — 56. fundur
 21. desember 2009.
stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 82. mál (heildarlög). — Þskj. 482.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[10:20]

Frv.  samþ. með 53 shlj. atkv. og sögðu

  já:  APS,  ArndS,  ÁI,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BÁ,  BirgJ,  BjörgvS,  BVG,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JóhS,  JónG,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LMós,  MSch,  MT,  OH,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SER,  SIJ,  SF,  SJS,  SVÓ,  SSv,  TÞH,  UBK,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
2 þm. (ÞSa,  ÞrB) greiddu ekki atkv.
8 þm. (ÁPÁ,  ÁJ,  BJJ,  BjarnB,  GStein,  JBjarn,  LRM,  SII) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[10:17]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Flestum er það ljóst að atvinnulíf verður ekki örvað með því að setja á það þyngri byrðar, heldur með því að lækka álögur. Flestum er þetta ljóst nema ríkisstjórninni — nema þó í þetta eina sinn virðist sem ríkisstjórnin skilji að aðferðin við að örva nýsköpun sé sú að lækka álögur á nýsköpunarfyrirtæki. Aðrar skattbreytingar, eins og þær sem við vorum að afgreiða áðan, ganga í þveröfuga átt.

Það er fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli sjá ljósið, ég styð þetta frumvarp og segi já.



[10:17]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þær eru kvalafullar, þessar atkvæðaskýringar stjórnarandstöðunnar. Það er greinilega svo erfitt að styðja framfaramál frá ríkisstjórninni (Gripið fram í.) að maður veltir fyrir sér hvort stjórnarandstæðingar eigi að vera að leggja það á sig að koma í atkvæðaskýringar, [Háreysti í þingsal.] þetta tekur svo í.

Aðalatriði málsins er það (GÞÞ: Alltaf sameinar þú fólk, Steingrímur.) að með þeim tveimur frumvörpum sem nú hafa komið hér til atkvæða, þessu og hinu sem á undan var, er verið að móta heildstætt lagaumhverfi um stuðningsumgjörð fyrir nýsköpunarstarfsemi í landinu. (Gripið fram í.) Þeir sem til þeirra mála þekkja best, sem eru væntanlega forsvarsmenn slíkrar starfsemi, hafa sjálfir orðað það þannig að með þessum breytingum sé umhverfi nýsköpunar á Íslandi orðið með því hagstæðasta sem þekkist í heiminum. Það hlýtur að vera okkur öllum fagnaðarefni að svo sé og sama ætti að vera hvaðan gott kemur þannig að aðalatriðið er að málið (Forseti hringir.) er að fá hér framgang.



[10:19]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sú mikla samstaða sem tekist hefur um þetta framfaramál um nýsköpun í atvinnulífi er fagnaðarefni. Um það hafa lengi margir talað en þegar kemur að nýsköpun lætur ríkisstjórnin verkin tala.



[10:19]
Pétur H. Blöndal (S):

(Fjmrh.: Ætlarðu að leggja þetta á þig?) Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra spurði mig rétt áðan hvort ég mundi leggja þetta á mig. Ég efast um að nokkur Íslendingur vilji hætta fé sínu í áhættustarfsemi (Gripið fram í: Ekki eftir hrunið.) eða kaupa hlutabréf vegna þess vantrausts sem hefur orðið og ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að laga. Hér er verið að veita opinberri nýsköpun, eitthvað sem ríkið skilgreinir sem nýsköpun, sérstaka ívilnun. Ég bendi á að það er fullt af nýsköpun sem ríkisstjórnin samþykkir ekki en blómstrar af því að það er nýsköpun þrátt fyrir atlögu ríkisins að áhættufé.

Ég er ansi hræddur um að þetta verði tómt mengi, það er það sem ég á við, það muni enginn kaupa, það muni enginn hætta fé sínu í nýsköpun eða annað. Auðvitað ættu þessar reglur að gilda fyrir öll hlutafélög. Ég spyr: Hver ætti samt eiginlega að kaupa hlutabréf í núverandi stöðu? Ég segi já við þessu. [Hlátrasköll í þingsal.]