138. löggjafarþing — 63. fundur
 28. desember 2009.
ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 76. mál (Icesave-reikningar). — Þskj. 76 (með áorðn. breyt. á þskj. 610), frhnál. 599, 600, 601 og 602, brtt. 609 og 610.

[20:18]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við Icesave-samningana og er nú mál að linni. Safnað hefur verið gögnum um allar hliðar málsins og umræður í þingsal og í fastanefndum verið ítarlegar. Álit þeirrar sem hér stendur hefur ekki breyst frá 2. umr. um frumvarpið þess efnis að samningarnir séu ásættanlegir, einkum eru sjö greiðslulaus ár mikilvæg fyrir þjóð í efnahagsvanda og samanborið við önnur lán sem ríkið hefur tekið vegna efnahagshrunsins eru lánakjörin hagstæð.

Einnig fylgja samningar um uppgjör þar sem eignir Landsbankans koma til lækkunar höfuðstóls og möguleiki á uppgreiðslu hvenær sem er ef betri lánakjör bjóðast annars staðar. Fyrirvararnir sem samdir voru í sumar eru auk þess til þess fallnir að verja ríkissjóð þannig að ef svo ólíklega vildi til að erfiðlega tækist að endurreisa efnahagslífið er í samningunum tilgreind hámarksgreiðsla miðað við hagvöxt. Varnarhlutverk fyrirvaranna er mikilvægt jafnvel þótt þær breytingar hafi verið gerðar að vextir verði alltaf greiddir og lengt verði í láninu ef eitthvað stendur eftir árið 2024.

Engum Íslendingi finnst þetta mál geðfellt en það hverfur ekki frá okkur fyrir það. Það er nauðsynlegt að ganga frá málinu, semja um lausn svo sjáist fyrir um stöðu efnahagsmála hér á landi eins og kostur er. Þau skref þarf að stíga sem skapa íslensku efnahagslífi trúverðugleika að nýju.

Virðulegi forseti. Í umræðum stjórnarandstöðunnar um Icesave hefur þeirri sem hér stendur á stundum orðið hugsað til þess þegar Lísa í Undralandi spurði köttinn í hvaða átt hún ætti að halda. Kötturinn svaraði eitthvað á þá leið að það færi eftir því hvert hún væri að fara. Ég er nú bara að fara eitthvað, sagði Lísa. Þangað kemstu örugglega, sagði kötturinn, einkum ef þú ferð nógu langt.

Það hefur oft verið erfitt undanfarna mánuði að átta sig á á hvaða leið stjórnarandstaðan er í þessu máli. Við þurfum að vita hvert við erum að fara og ryðja hindrunum að takmarkinu staðfastlega úr vegi. Tryggja þarf velferð þjóðarinnar í nútíð og framtíð og samkomulag það sem nú bíður staðfestingar er þrátt fyrir allt hluti þeirrar áætlunar. Með því að ganga frá samningunum um skuldbindingar okkar gagnvart Bretum og Hollendingum sendum við ótvíræð skilaboð um að við vitum hvert við stefnum og afleiðingarnar verða meðal annars þær að lánshæfi okkar batnar. Íslenska ríkið og íslenskt atvinnulíf þurfa á því að halda.

Nú er það svo að Icesave-reikningarnir eru ekki stærsta vandamál okkar því að skuldastaðan er slæm eftir fall bankanna og stóra skuld Seðlabankans. Þá eru margar efnahagsstærðir, t.d. raungengi og verðbólga, háðar því hvernig staðið er að stjórn efnahagsmála. Sýna þarf staðfestu og aga í ríkisfjármálum, samningar um skuldbindingar vegna Icesave einir og sér nægja augljóslega ekki við endurreisn efnahagslífsins en þeir eru nauðsynlegir til að hrinda úr vegi hindrunum svo að endurreisnarferlið geti gengið farsællega. Það ætti að vera hv. þingmönnum ljóst af þeim gögnum og álitum sem safnað hefur verið til að undirbyggja ákvörðun í málinu. Einhvern veginn lausn fæst samt örugglega einhvern tímann ef valin er einhver önnur lausn en hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Hverjir eru valkostir við þá samninga sem undirritaðir hafa verið og bíða staðfestingar Alþingis? Einn kosturinn sem nefndur hefur verið er að neita ríkisábyrgðinni og vísa Bretum og Hollendingum á íslenska dómstóla. Annar er að hafna þessum samningum og freista þess að ná nýjum og betri. Allar líkur eru á að hvor leiðin sem er muni hafa það í för með sér að viðsemjendur okkar leggi fram ýtrustu kröfur og niðurstaða fengist eftir langan tíma sem væri óhagstæðari en sú sem nú býðst. Í millitíðinni yrði Ísland algjörlega einangrað hvað varðar alþjóðleg fjármálasamskipti. Vart þarf að benda á afleiðingar þess fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum. Einnig er ljóst að ríki í Evrópu hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslendinga eru í Icesave-málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði Evrópusambandsins er þátttaka í EES í uppnámi. Að halda niðri í sér andanum og vonast til að vandamálið hverfi, einkum ef andanum er haldið nógu lengi, er ekki heldur valkostur í málinu, virðulegur forseti, vandann þarf nefnilega að leysa.

Með vísan til þeirra röksemda sem koma fram í almennum athugasemdum við frumvarpið um breytingar á lögum nr. 96/2009 og í nefndaráliti meiri hlutans og fylgigögnum þess er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Með því að staðfesta ríkisábyrgð á láni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sýnum við ábyrgð og varfærni við meðhöndlun ríkisfjármála og greiðum um leið fyrir aðgengi Íslands að erlendum lánamörkuðum. Ef lyktir málsins dragast hins vegar enn á langinn þýðir það ófullnægjandi lánafyrirgreiðslur, viðvarandi efnahagsleg vandkvæði og tafir í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun. Allt hefur það slæm áhrif á efnahag heimila, velferð þjóðarinnar og lífskjör og gæti haft enn meiri og alvarlegri afleiðingar en þegar hafa orðið vegna efnahagshrunsins. Með því að hafna samningunum og neita ríkisábyrgð tæki Alþingi Íslendinga mikla efnahagslega og pólitíska áhættu. Áhættusækni hluta þjóðarinnar hefur komið okkur í þann vanda sem við glímum nú við, Icesave-málið allt er afsprengi slíkrar hegðunar. Eitt er víst að þegar kemur að hag þjóðarinnar er slík hegðun engan veginn boðleg.

Við úrvinnslu þess vanda sem við stöndum frammi fyrir og sem skref í átt að betri ímynd Íslands meðal annarra þjóða og um leið skref í átt að bættum lífskjörum hér á landi er nauðsynlegt að ganga frá málinu. Það samkomulag sem náðst hefur við viðsemjendur er ásættanlegt og til þess fallið að greiða fyrir endurreisnarferlinu. Það er nefnilega þannig, virðulegur forseti, að samningarnir um Icesave eru ekki ástæða efnahagsvandans eins og málflutningur sumra hv. þingmanna virðist benda til. Samningarnir eru þvert á móti partur af lausn vandans.



[20:26]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skýra og ágæta ræðu þótt ég sé að sjálfsögðu ekki sammála nokkrum sköpuðum hlut sem þar kom fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði. Hv. þingmaður fullyrðir að ef Alþingi samþykki ekki það frumvarp sem hér liggur fyrir sé þátttaka okkar í EES í hættu. Hvernig er sú fullyrðing rökstudd af hálfu hv. þingmanns? Því hefur margoft verið haldið fram í þessu máli án þess að ég hafi séð nokkurn rökstuðning fyrir því. Ég man reyndar til þess að formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, sló þessu fram í viðtali í Morgunblaðinu, jafnframt án rökstuðnings. Ef það eru einhver rök fyrir þessu væri ágætt að fá að heyra þau.

Það er ekki hægt að sjá það á minnisblaði fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar sem fjallaði um það hvernig ferill málsins var á hennar valdatíma. Þvert á móti kom þar fram að með Brussel-viðmiðunum (Forseti hringir.) skuldbatt ESB sig til þess að vera aðili að því að leysa þetta deilu. Þar með hlýtur það að verða til þess að skjóta styrkari stoðum undir það samstarf sem við eigum í við ESB í gegnum EES.



[20:27]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé augljóst að ef Íslendingar ætla að brjóta þær reglur sem gilda á innri mörkuðum ESB erum við að setja EES-samninginn í uppnám. Það er minn skilningur á þessu máli. Alveg sama hvað Brussel-viðmiðum og umræðum um þau áhrærir finnst mér augljóst að EES-samningurinn er í uppnámi ef við ætlum að fara gegn innri reglum sambandsins.



[20:28]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en mig langar þá að spyrja: Hvað reglur eru það, að mati hv. þingmanns, sem við erum þá að brjóta? Er það vegna þess að við settum neyðarlögin? Ef svo er af hverju er þá ekki löngu búið að henda okkur út úr EES vegna þess að við samþykktum þessi neyðarlög á Alþingi fyrir rúmu ári?

Mig langar líka að vísa til þess sem fram hefur komið hér í þinginu varðandi það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt, að okkur hafi verið hótað grímulaust af Evrópusambandinu. Þeirri spurningu var beint til hæstv. forsætisráðherra um hvaða hótanir væri að ræða og þá kannaðist hún ekkert við þær hótanir. Er þetta ekki bara einhver hræðsluáróður sem hv. þingmaður hefur orðið fyrir af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar og er ekki rétt að kíkja aðeins á það hvernig þetta allt saman er rökstutt? Það hefur nefnilega verið upplýst hér í þingsalnum í dag að allt þetta mál virðist byggjast á einhverjum misskilningi. Öll röksemdafærsla ríkisstjórnarflokkanna virðist byggjast á einhverjum misskilningi þar sem hæstv. fjármálaráðherra vísaði í það að við hefðum verið skuldbundin af fyrri ríkisstjórn með minnisblaðinu við Holland þegar fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segir að það minnisblað hafi einmitt verið núllstillt, (Forseti hringir.) það hafi verið úr sögunni, við það að Brussel-viðmiðin voru undirrituð.



[20:29]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég upplifi þetta ekki sem hótanir frá Evrópusambandinu af neinu tagi, ég upplifi það ekki þannig. Við höfum hins vegar gengist undir EES-samninginn, ekki satt? Honum fylgja ákveðin réttindi en einnig ákveðnar skuldbindingar. Jafnræðisreglan er náttúrlega ein höfuðregla Evrópusambandsins. Ég hef ekki upplifað þetta sem einhverjar hótanir frá Evrópusambandinu en við erum í þessum samskiptum og þar gilda ákveðnar reglur og ef við ætlum að fara gegn þeim hljótum við að vera að setja samninginn í uppnám.



[20:30]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðu hennar þó að ég hafi ekki verið sammála henni og fullyrðingar um að EES-samningurinn sé í hreinu uppnámi eru alveg hreint dæmalaus málflutningur enda hefur það oft komið fram að svo er ekki.

Það kom fram í máli þingmannsins að hún telji að stjórnarandstaðan líti svo á að vandinn hverfi frá okkur höfnum við Icesave-samningnum með þessu frumvarpi. Það er rangt því að við höfum aldrei talað með þeim hætti. Ég hef hins vegar heyrt á máli þingmanna Samfylkingarinnar hér í þessum sal eða fyrir utan salinn að þeir telja að Icesave-skuldbindingin hverfi þegar við verðum neydd inn í Evrópusambandið, þegar þeir eru komnir með okkur þangað inn. Þannig að við skulum hafa það á hreinu hvað hverfur og hvenær.

Mig langar að spyrja þingmanninn út af því að það kom fram í máli hennar að Bretar og Hollendingar muni gera á okkur ýtrustu kröfur: Hverjar eru þessar ýtrustu kröfur að mati þingmannsins?



[20:32]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýtrustu kröfurnar eru öll upphæðin sem tilgreind er í samningunum, í grein 2.1.1 í breska samningnum og ég man ekki hvaða númer er á henni í hollenska samningnum. En þarna eru hámarksupphæðirnar tilgreindar.

Varðandi þetta mál yfirleitt vil ég gjarnan horfa til framtíðar og horfa á þau vandræði sem við stöndum frammi fyrir og þau verkefni sem þarf að leysa. Einn liður í því að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í er að leysa Icesave-deiluna. Um það hljóta hv. þingmenn að vera sammála. Við þurfum að leysa þetta mál þannig að við getum haldið endurreisnarferlinu áfram. Málið flækist fyrir okkur.

Samningunum, sem ég segi að séu ásættanlegir, (Forseti hringir.) fylgir líka möguleiki á skuldastýringu.



[20:33]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að leysa Icesave-deiluna á þann hátt sem stjórnarandstaðan leggur til hér, þ.e. að vísa málinu frá og hefja viðræður á ný við Breta og Hollendinga. Séu þeir ekki tilbúnir til viðræðna við okkur þurfa þeir að sækja mál sitt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan Hæstarétti. Það vilja Bretar og Hollendingar að sjálfsögðu ekki því að hér á landi gilda íslensk lög en ekki bresk og þá þyrfti dómstólakerfið á Íslandi að taka tillit til dóms Evrópudómstólsins gegn Þýskalandi þar sem fram kom að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum, þannig að það sé alveg á hreinu.

Mér skildist á svari hv. þingmanns, og vildi ég gjarnan fá það betur útskýrt hjá henni í seinna andsvari, að hámarkskröfur sem þeir geta einhvern tíma rukkað okkur um séu 20.887 evrur á hvern reikning, á hvern banka, á hverja innstæðu og þá er það á hverja kennitölu hjá Bretum og Hollendingum. Ef þingmaðurinn er að halda því fram að Bretar og Hollendingar geti komið hingað og sótt á okkur (Forseti hringir.) þær fjárskuldbindingar að það sé líka það sem þeir tóku sjálfir ákvörðun um að greiða aukalega innstæðueigendum sínum þá er það rangt.



[20:34]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessu er fljótsvarað: Nei, ég var ekki að tala um það. En í grein 2.1.1 í breska lánasamningnum kemur hámarksupphæðin t.d. fram, hún er skráð þar og ekki er hægt að rukka okkur um meira en það sem þar stendur, þannig að svar mitt við spurningu hv. þingmanns er nei.



[20:35]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Reyndar kom ein fullyrðing fram í máli hennar sem ég er ekki alveg sammála, hv. þingmaður sagði nefnilega að þegar við værum búin að samþykkja Icesave mundi lánshæfismat okkar batna. Í mínum huga er lánshæfismat byggt á getu hvers ríkis til að standa undir þeim skuldbindingum sem það tekur að sér. Mig langar að biðja hv. þingmann um að rökstyðja þetta aðeins frekar, hún nefndi þetta í einni setningu og ég fæ þetta ekki til þess að koma heim og saman.

Mig langar síðan að beina annarri spurningu til hv. þingmanns og hún er sú hvort hv. þingmaður telji að Íslendingar hafi staðið jafnfætis Bretum og Hollendingum við þessa samningagerð. Við vorum undir endalausum hótunum, bæði beinum og óbeinum, allan tímann. Ég spyr hv. þingmann: Stóðum við við þessa samningagerð jafnfætis Bretum og Hollendingum?



[20:36]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi lánshæfismatið hafa matsfyrirtækin hreinlega gefið það út að það muni hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins ef gengið verður frá þessum skuldbindingum. Þetta kemur fram í minnisblaði Seðlabankans, bæði frá því í sumar og eins nú á haustdögum.

Ég held líka að það sé augljóst að ef þjóð situr undir þeim ámælum að hún standi ekki við skuldbindingar sínar eru ekki miklar líkur á því að hún skori hátt þegar lánshæfi er metið. Hver vill lána þjóð sem er líkleg til þess að standa ekki við lánasamninga? (Gripið fram í.)

Varðandi það hvort ég telji að ríkin hafi staðið jafnfætis þá var ég náttúrlega ekki við samningaborðið en ég álít (Forseti hringir.) að þrátt fyrir þrönga og erfiða stöðu höfum við staðið jafnfætis, já.



[20:38]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þingmann á það, út af lánshæfismatinu, að sum matsfyrirtækin gáfu bönkunum mjög háa einkunn sem var langt uppi í skýjum alveg fram á síðasta dag. Ég vara hv. þingmann því við að taka of mikið mark á því. Það er líka hægt að spyrja: Hver vill lána þjóð sem getur ekki staðið við þær skuldbindingar sem hún er búin að taka á sig? Það er hinn vinkillinn á því máli.

Um leið og búið var að kynna fyrstu samningana — áður en fyrirvarar voru settir, í byrjun júnímánaðar, án þess að nokkur þingmaður hefði haft tækifæri til að kynna sér þá vegna þess að ekki var aðgangur að þeim skjölum sem við áttu — komu forustumenn Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, fram og sögðu að þingflokkur Samfylkingarinnar gerði enga athugasemd við þetta og teldi mjög skynsamlegt að samþykkja samningana eins og þeir væru. Getur hv. þingmaður staðfest að forustumenn Samfylkingarinnar hafi þar talað fyrir munn allra þeirra hv. þingmanna sem sitja í þingflokki Samfylkingarinnar?



[20:39]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ræða áfram um lánshæfismatið vegna þess að lánshæfismat skiptir þjóðina mjög miklu máli. Það skiptir mjög miklu máli að við skorum hærra á lánshæfismatinu og það er slæmt fyrir þjóðina ef við förum neðar og að horfur okkar séu neikvæðar. Þær þurfa að vera stöðugar og við þurfum að fara upp á við til þess að bæði ríkið og stóru fyrirtækin okkar fái ódýr lán. Nú eru erlendir lánamarkaðir lokaðir fyrir Íslendingum en við þurfum nauðsynlega á þeim að halda vegna þess að við þurfum t.d. að endurfjármagna okkur.

Ég á, virðulegur forseti, erfitt með að tala fyrir aðra en sjálfa mig úr þessum ræðustól.



[20:40]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af síðasta andsvari og svari vildi ég bara velta því upp hvort það geti ekki verið að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi samþykkt það í júní að samþykkja ríkisábyrgð á samningana sem þá lágu fyrir og verið býsna ánægðir með þá samninga, hvort þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki verið býsna ánægður með stöðuna eins og hún var í lok ágúst og talið það mjög góða lausn, hvort þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki bara verið á því nú í haust að það væri líka góð lausn.

Er það ekki rétt hjá mér líka að í öllum tilvikum hafi þeim málflutningi verið haldið á lofti að hér mundi allt hrynja ef samningarnir, eins og þeir lágu þá fyrir, yrðu ekki samþykktir? Er ekki rétt hjá mér að því hafi verið haldið fram af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar, og þar á meðal talsmanna Samfylkingarinnar, allt frá upphafi þessa máls að lengra verði ekki komist? Þó hefur málið tekið verulegum breytingum, að ég tel, frá því að það var fyrst lagt fram í sumar.



[20:41]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get talað fyrir mig og ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að leysa Icesave-málið fljótt og vel. Ég hef einnig verið þeirrar skoðunar að þessi samningur sé ásættanlegur. Sjö ára greinin skiptir okkur mjög miklu máli og vextirnir eru með þeim betri sem okkur hafa boðist undanfarið.

Hins vegar voru fyrirvararnir sem voru samdir nú í sumar öryggisnet fyrir okkur þannig að ég get ekki sagt annað en að því leyti hafi samningarnir batnað í meðförum þingsins. En ég er á því nú, eins og við 2. umr., að samningarnir séu ásættanlegir.



[20:42]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvelt að halda hv. þingmanni ánægðum, hún hefur verið ánægð með þetta mál alveg frá upphafi, alveg sama hvaða vinkla, sveigjur og beygjur málið hefur tekið, hún hefur alltaf verið ánægð með þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með.

Allt í lagi, það er afstaða út af fyrir sig. Mér finnst það þó nokkuð skrýtið vegna þess að við erum auðvitað í töluvert ólíkri stöðu þeirri sem við vorum í í júní þegar samningar voru undirritaðir og það hefur töluvert mikið breyst. En rétt er að rifja það upp að ef hv. þingmaður og flokksfélagar hennar í Samfylkingunni hefðu einir ráðið hefði ótakmörkuð ríkisábyrgð verið samþykkt í júlí án nokkurra fyrirvara og skilyrða, það liggur alveg ljóst fyrir.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um skuldbindingu Íslands og skuldbindingar, að við stæðum við skuldbindingar. Ég er að velta fyrir mér hvort hún er þá ósammála því sem segir í 2. gr. frumvarpsins: Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu (Forseti hringir.) lágmarkstrygginga til innstæðueigenda o.s.frv.? Er þetta marklaus yfirlýsing í frumvarpinu?



[20:44]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði aldrei að ég væri að drepast úr gleði yfir þeirri stöðu sem við erum í. Við erum í afar slæmri stöðu. Það er búið að fara virkilega illa með okkur Íslendinga og við stöndum frammi fyrir ótrúlegum erfiðleikum.

Það sem máli skiptir er að horfa fram veginn, leysa málið og koma okkur upp úr vandanum. Við þurfum að leysa Icesave-deiluna til þess að koma okkur af stað. Við erum að gera það núna með ásættanlegum hætti. Það eru allir valkostir slæmir en þetta er samt það besta sem við getum gert í stöðunni.

Það er líka þannig, virðulegi forseti, að við Íslendingar erum ein um að halda því fram að okkur beri ekki skylda til að standa við þessar skuldbindingar, við erum ein um þá skoðun. (Gripið fram í.)



[20:45]Útbýting:

[20:45]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns vil ég segja að við Íslendingar erum ekki ein um þessa skoðun. Fjármálaráðherra Hollands lýsti því yfir 3. mars sl. að innlánstryggingakerfið virkaði ekki þegar til allsherjarhruns kæmi. Hann sagði auk þess að skattgreiðendur ættu ekki að greiða fyrir tap sparifjáreigenda. Það er því ekki rétt að Íslendingar séu einir með þá skoðun. Viðsemjandi okkar, fjármálaráðherra Hollands, er á þeirri skoðun að Íslendingar hafi ekki átt að greiða, það er svo merkilegt. (GuðbH: … staðfestingu á þessu …) Þetta er til hjá fjármálaráðuneyti Hollands, (Gripið fram í.) ég skal bara senda þingheimi það.

Þá langar mig til að velta því upp, frú forseti, hvað muni gerast í málsmeðferðinni, af því að menn hafa verið að kvarta undan því hvað muni gerast ef þetta verður fellt eða eitthvað slíkt. Í fyrsta lagi getur það gerst að málið verði fellt, í öðru lagi að málinu verði frestað eða vísað til ríkisstjórnarinnar og í þriðja lagi að málið verði samþykkt. Þá getur það gerst, því komin er breytingartillaga um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu og það verði samþykkt, eða þá að forsetinn skrifi ekki undir og sendi það í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi til greina. Einnig að forsetinn skrifi undir og engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði og málið samþykkt og búið, menn henda vandanum aftur fyrir sig og gleyma honum í bili.

Hvað gerist í kringum okkur ef þessi tilfelli koma upp? Í fyrsta lagi, ef málið verður fellt, hvað gerist þá? Þá segja sumir að lánshæfismatið muni falla á Íslandi. Það kann vel að vera. Reyndar held ég að lánshæfisfyrirtækin reikni með því að Icesave-skuldbindingin sé til staðar og hún verði leyst einhvern veginn og það samkomulag sem við erum að skrifa undir núna er eiginlega eins slæmt og það getur verið, þannig að lánshæfismatið getur varla versnað mikið meira.

Hins vegar ef það fellur þá getur verið að við verðum að sætta okkur við ruslvexti í kannski eitt eða tvö ár meðan íslenskt atvinnulíf er að ná sér upp og það eru vextir sem eru svipaðir og af Icesave, það er bara þannig. Ruslvextir eru svipaðir til skamms tíma og af Icesave. Skammtímavextir eru núna á góðar myntir eins og dollara nánast núll, það er um 0,5% eða 0,25%, eitthvað slíkt. Það eru ársvextir af ríkisskuldabréfum. Ríki sem lenda í greiðslufalli og einhverjum vandræðum eins og við erum að lenda þá í, ef við semjum ekki um Icesave eins og menn eru að spá, það yrði þá 4–5% álag og þá erum við komin upp í svipað og Icesave, það er bara þannig, það er nú ekki verra.

Menn segja að AGS verði í uppnámi. Það væri nú undarlegt, frú forseti. Þeir eru búnir að sverja af sér, þeir segjast ekki vera svarti péturinn í dæminu. Þeir segjast ekkert vera að kúga Íslendinga. Þá segja sumir að við fáum ekki lánið hjá Skandinövum. Þeir segjast einnig ekkert vera að kúga Íslendinga. Það vill enginn kúga Íslendinga en samt eru menn að því, vissulega, og hafa verið að því allan tímann.

Þó að AGS færi í uppnám erum við búin að fá fyrirgreiðsluna núna, þ.e. um þriggja mánaða tímabil, og á meðan getum við samið við Breta og Hollendinga ef þeir kæra sig um. Ef þeir kæra sig ekki um það verður að sækja þetta hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hvað gerist þá? Þá kemur upp spurningin hvort við eigum að greiða eða ekki. Ég hugsa að Hæstiréttur komist að því að það sé bara engin ríkisábyrgð á þessu, það gæti gerst. Það gæti líka gerst að ríkisábyrgð sé á þessum 20 þús. evrum en mér finnst mjög ólíklegt að Bretar og Hollendingar geti komið með sínar kröfur sem þeir tóku ákvörðun um sjálfir, umfram skyldu Evrópusambandsins, og gert kröfu til íslenska ríkisins um þær upphæðir. Það er aldeilis öldungis fráleitt. Jafnvel þótt það væri þá stendur nefnilega í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, í 9. gr., með leyfi forseta:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Það skal ávallt heimilt að greiða í íslenskum krónum og það er sko allt önnur og miklu betri staða. Þá bara borgum við Bretum og Hollendingum í íslenskum krónum og segjum þeim: Því miður, það eru gjaldeyrishöft hérna, þið fáið þetta ekki greitt út. Leggið þið þetta bara fyrir. Svo getum við sett á þetta fjármagnstekjuskatt og við getum sett á þetta eignarskatt o.s.frv. Við getum látið verðbólguna éta upp þessar skuldir ef þær verða ofviða. Það er allt annað að skulda í krónum, sem maður getur prentað peninga fyrir, en að skulda í erlendri mynt sem þarf að flytja út vörur fyrir. Það er allt annar handleggur.

Ég er nærri viss um að þessi staða yrði betri af því að við megum borga þetta út í krónum. Það er alveg sama hvað hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, hristir hausinn, það má borga út í krónum og þá gerum við það. (GuðbH: …milljarða … eftir að koma …) Já, það er bara nákvæmlega eins og með jöklabréfin, það yrði nákvæmlega sami vandinn. Gjaldeyrishöftin mundu náttúrlega vara eitthvað lengur og svo mundu Bretar og Hollendingar neyðast til að semja um eitthvað annað af því að þeir eru með svo mikið af krónum hérna.

Við getum sem sagt þurft að greiða allt eða ekkert og þá kemur spurningin um neyðarlögin, og jafnrétti. Menn tala mikið um jafnrétti milli innlánseigenda. Það er heimilt, frú forseti, að mismuna fólki í Evrópusambandinu eftir búsetu, það er heimilt. Skattalög eru mismunandi, það eru önnur skattalög á Íslandi en í Hollandi. Það er annar bótaréttur á Íslandi en í Þýskalandi, allt annar. Við hefðum getað borgað allar innstæður á Íslandi í gegnum bótakerfið. Við hefðum getað sagt að þeir sem tapa innstæðum í íslenskum bönkum fái það greitt í gegnum Tryggingastofnun, 20 milljónir eða hvað það nú er. Við megum mismuna þannig. Það er nefnilega heimilt að mismuna eftir búsetu í Evrópusambandinu, það er þannig.

Það sem við mundum gera ef þetta yrði fellt er að semja upp á nýtt með fulltrúum allra flokka. Ég hugsa að Bretar og Hollendingar mundu sjá sitt óvænna og senda tilkynningu viku seinna um að þeir samþykki fyrirvarana í gildandi lögum frá því í sumar, því að það voru nefnilega afskaplega réttlátir og skynsamlegir fyrirvarar sem tryggðu Íslendinga ef illa færi. Ef vel gengur borga Íslendingar upp í topp. Það eru ákveðnar líkur á því að það gangi vel, ég kem inn á það á eftir. — Tíminn er allt of stuttur.

Síðan er möguleiki á að þessu verði frestað eða vísað til ríkisstjórnarinnar og þá er samið upp á nýtt og aftur með fulltrúum allra flokka og það sem menn þurfa að leggja megináherslu á eru lægri vextir. Það eru hryllilega háir vextir á þessu, 5,55% ofan á pund og evru er gífurlega mikið eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar, sem aldrei var lesið þar. Þar er farið í gegnum það hvernig verðbólga hefur verið á Bretlandi, ég kem rétt inn á það á eftir ef ég hef tíma.

Svo er þriðji möguleikinn að málið verði samþykkt og þá með þjóðaratkvæðagreiðslu ef neitun forseta verður og ef þjóðin samþykkir að taka á sig þessa skuldbindingu — sem ég stórefast reyndar um — þá eru til staðar gildandi lög, og ég kem inn á það á eftir. Ef þjóðin hafnar yrðu væntanlega málaferli, sem er góður kostur, allt borgað í krónum, fram færu samningaviðræður eða þá að skeyti komi frá Bretum og Hollendingum um að þeir fallist á fyrirvarana.

Þá er það síðasta sem er eftir: Hvað gerist ef þetta verður samþykkt og forsetinn skrifar undir og engin þjóðaratkvæðagreiðsla og ekki neitt, hvað gerist þá? Menn hafa ekkert velt því fyrir sér. Þá hafa skuldir Íslands allt í einu stóraukist raunverulega, nú er þetta bara eitthvað sem er svífandi, en þá er þetta orðin raunveruleg aukning á skuldum, raunveruleg aukning á greiðslubyrði og raunverulegur möguleiki á því að við getum ekki borgað. Það er líka hættulegt. Ég hugsa að matsfyrirtækin muni segja: Jú, við áttum von á því að Íslendingar þyrftu að borga Icesave en þeir sömdu eins illa af sér og mögulegt var. Þannig að lánshæfismatið minnkar, lækkar. Það gæti gerst. Svo náttúrlega fellur það á ríkissjóð, sennilega 100–150 milljarðar á þessu ári, yfirstandandi ári, vegna vaxta og hækkunar á erlendu gengi. Þetta er nefnilega allt saman gengistryggt. Þetta er eins og með gengistryggð bílalán sem margir kvarta undan og þekkja.

Þá erum við allt í einu komin með alveg gífurlegan halla á ríkissjóði fyrir árið 2009 og það þykir ekki góð lexía hjá lánshæfisfyrirtækjunum. Ég er því ekki viss um að samþykkt frumvarpsins bæti stöðu Íslands nokkurn skapaðan hlut og ekki eigum við auðveldara með að fá lán frá erlendum lánardrottnum eða lánveitendum ef fyrirséð er að Ísland fari jafnvel í greiðsluþrot, geti ekki borgað það sem ríkisábyrgð er á, sem er alveg svakalegt. Ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér grein fyrir því hvað það þýðir.

Þá er ég búinn að fara í gegnum þetta og þá þyrfti sem sagt að stórhækka skatta og stórauka niðurskurð í ríkiskerfinu. Það þýðir að það verður aukinn brottflutningur fólks og eiginlega mikil óáran og allt miklu verra en er núna. Ég reikna með að við getum í slíkri stöðu — það eru um 50% líkur á því að við munum geta borgað, aldrei auðveldlega, alltaf erfiðlega, en það eru 50% líkur á því að við getum borgað. Það eru svona 35% líkur á því að við getum illa borgað, mjög illa, með miklum herkjum, með mikilli nauðung, fátækt og öðru slíku. Í áhættugreiningu IFS kom fram að það væru 10% líkur á því með varfærnu mati að íslenska ríkið gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, þ.e. að ríkisábyrgðin gæti ekki haldið. Erlend matsfyrirtækin meta þetta á 20%, einhvers staðar þar á milli liggja líkurnar á því að við getum ekki borgað. Það er mjög slæm staða, ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér grein fyrir því hvað gerist þegar ríki getur ekki borgað það sem ríkisábyrgð er á. Hvað gerist þá? Þá erum við komin í mjög slæma stöðu og þá munu Bretar og Hollendingar segja við okkur: Viljið þið ekki selja Landsvirkjun til hollensks fyrirtækis? Og við neyðumst til að gera það því að við gerum bara það sem þeir segja okkur í slíkri stöðu. Þá munu þeir segja: Þarf ekki að virkja meira á Íslandi? Getið þið ekki virkjað pínulítið meira þannig að Landsvirkjun blómstri? Svo munu Bretar segja að Skotar hafi nú veitt lengi vel á Íslandi, gætu þeir ekki fengið kvóta?

Menn verða að gera sér grein fyrir því hvað gerist þegar þeir eru orðnir gjaldþrota, geta ekki staðið við ríkisábyrgð og háðir þeim sem hafa lánað þeim, því að þarna eru allt í einu komin lán. Það sem er núna óljós skuldbinding er allt í einu orðið lán ef þetta verður samþykkt. Við verðum bara að vona að Bretar og Hollendingar verði mildir húsbændur, við verðum að vona það og við lendum ekki í því að þurfa að fara að virkja það sem við kannski viljum ekki virkja o.s.frv. (Gripið fram í: … vinstri græna.)

Menn hafa töluvert talað um að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð og spurningin er sú: Hvernig bera menn eiginlega ábyrgð í pólitík? Jú, þeir segja af sér, eða hvað? Það vill svo til að af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru þrír hættir í pólitík, alveg. Er það ekki að bera ábyrgð? Þrír eru óbreyttir þingmenn. En af hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar sitja þrír áfram þrátt fyrir hrunið. Þar er enga ábyrgð að bera. Þeir eru: Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í gegnum allt hrunið og bar ábyrgð á því með þáverandi sitjandi ríkisstjórn. Hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hann sat í ríkisstjórn og var starfandi utanríkisráðherra meira að segja góðan hluta eftir hrun og ber því gífurlega mikla ábyrgð á því sem gerðist (Gripið fram í: Og þú.) og hann hefur ekki sagt af sér. Hann var hæstv. ráðherra, ég var ekki ráðherra. (Gripið fram í: Varstu ekki formaður …?) Svo Kristján Möller, hæstv. samgönguráðherra, sem búinn er að sitja í gegnum þunnt og þykkt í gegnum allar þessar hremmingar. Því er spurningin sú: Hvernig bera menn ábyrgð?

Sumir segja að búið hafi verið að semja, eitthvert plagg hafi alltaf svifið yfir vötnunum. Bíddu, af hverju voru menn þá að semja aftur? Ef búið var að semja af hverju var þá skipuð samninganefnd? Hvað átti hún eiginlega að gera fyrst búið var að semja?

Auðvitað var ekkert búið að semja eins og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur undirstrikað. Það var búið að semja um það að við skyldum semja og notast skyldi við Brussel-viðmiðin og notast átti við embættismannakerfi Evrópusambandsins við þá samninga. Ekkert af því var gert, ekkert.

Ábyrgð þeirra sem skrifuðu undir þennan samning hæstv. fjármálaráðherra er gífurlega mikil. Ég segi kannski ekki það sama og hann sagði við okkur áðan, að hann ætti að skammast sín, en það liggur við. Það er mikil ábyrgð að skrifa undir þvílík ókjör fyrir ókomnar kynslóðir Íslands sem þurfa að bera algjörlega ábyrgð á þessu, því að nefnd hans samdi þessa ógæfusamninga sem hann skrifaði undir og stjórnarliðar gáfu honum heimild til þess án þess að hafa séð samninginn og það er líka gífurlega mikil ábyrgð.



[21:00]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Að gefnu tilefni vill forseti minna ræðumenn á að ávarpa hv. þingmenn og hæstv. ráðherra með ákveðnum hætti. Þeim á að vera kunnugt um hvernig á að standa að því.



[21:01]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir ræðu hans. Hann kemur alltaf með nýjar áherslur inn í ræður sínar þrátt fyrir fullyrðingar stjórnarflokkanna um annað.

Hér féllu orð áðan frá hv. þingmanni stjórnarflokkanna, að ekki hefðu fengist betri vextir á þessa hörmungarsamninga. Ég gekk hér fram hjá ræðustólnum og minnti þingmanninn á að það eru svo hagstæðir vextir að það eru hvorki meira né minna en 100 milljónir á dag. Ekki nóg með að það byrji að tikka um næstu áramót, nei, það byrjaði að tikka inn á skuldina okkar 1. janúar 2009, fyrir einu ári þegar þetta ár er á enda eftir þrjá daga. Þessir samningar eru ömurlegir. Það skal alltaf hanga yfir ríkisstjórninni að þetta eru þeir verstu samningar sem komið hafa til landsins enda er dæmalaust hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málunum.

Við í stjórnarandstöðunni sitjum undir þeim hótunum að samþykkjum við ekki frumvarpið og verði það ekki að lögum, um ríkisábyrgð sem enginn veit hvað stendur á bak við, því að einungis skilanefnd Landsbankans hefur aðgang að eignasafni Landsbankans. Fjárlaganefnd var í tvígang bannað að sjá þessa útreikninga enda alveg ljóst hvað liggur fyrir, staða Landsbankans er mjög slæm.

Það er alltaf verið að hóta því að þetta gjaldfalli allt á okkur ef við göngumst ekki við þessu frumvarpi. Og þá er alltaf verið að tala um stóra pakkann, allt sem Bretar og Hollendingar tóku upp hjá sjálfum sér að borga umfram 20.887 evrur. Í millitíðinni gerist það að Evrópusambandið setur nýja reglugerð sem skilgreinir það að innstæðutryggingarsjóður í Evrópusambandslöndunum skuli bera 50.000 evrur á hvern innstæðueiganda. (Forseti hringir.) Hvernig túlkar hv. þm. Pétur H. Blöndal þetta mál og telur hann einhverjar líkur á því að (Forseti hringir.) allur pakkinn falli á okkur, eins og ég kýs að kalla það?



[21:03]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í einni af þeim fáu ræðum sem ég hef haldið um þetta mál fór ég sérstaklega í gegnum tilskipun Evrópusambandsins og hvernig hún væri uppbyggð. Hún gengur út á það að tryggja hverjum innstæðueiganda allt að 20.000 ECU eða 20.887 evrur (Gripið fram í.) — það er kannski meginmálið í þessu, en ekkert um fram það.

Íslendingar voru sem betur fer búnir að setja slíkt kerfi upp, eins og ég las upp áðan, og voru búnir að láta greiða inn í það án þess að mótmæli kæmu frá Evrópusambandinu þannig að þetta kerfi átti að standa undir sér. Ef menn lesa tilskipunina nákvæmlega er nánast bannað að veita ríkisábyrgð á þennan sjóð til að mismuna ekki og til að skekkja ekki samkeppni í Evrópusambandinu. Það er einmitt það sem fjármálaráðherra Hollands getur um í þessari ágætu ræðu sem hann hélt hjá félagi fjárfesta í Evrópu — sem ég mun þá senda þingheimi á eftir af því að menn eru að efast um það, það var 3. mars. Hann segir að þetta kerfi virki ekki við hrun, það gangi ekki, þegar hrun verður í einhverju landi þá geti þetta kerfi ekki staðið undir sér, þá geti það ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ég held að ef til dómsmáls kæmi hér á Íslandi og þegar dómarar á Íslandi færu að skoða þessa reglugerð, sem þeir eflaust hafa gert, muni þeir komast að þeirri niðurstöðu að við eigum ekki að borga neitt, að íslenska ríkið eigi ekki að borga neitt. Þetta er það sem Bretar eru hræddir við og Hollendingar og ekki bara þeir heldur allt Evrópusambandið. Af hverju er Evrópusambandið hrætt við þetta? Vegna þess að það mundi gefa signal út í Evrópu, til allra litlu sparifjáreigendanna um alla Evrópu, að þetta innlánstryggingarkerfi heldur ekki. Það getur orðið áhlaup á bankana, kannski síður núna, en síðasta haust var þetta raunverulega hætta sem vofði yfir evrópsku bankakerfi og það skýrir óskaplega hörku Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og meira að segja Norðurlandaþjóðanna.



[21:06]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum komin að merg málsins. Við eigum ekki að greiða þetta og höfum aldrei átt að greiða þetta. Það er rúmlega ár frá því að hrunið varð, búið er að setja nýja reglugerð í Evrópusambandinu sem hækkar innstæður eiganda í þessum sjóðum. Hættan er liðin hjá. Lög virka ekki aftur á bak þannig að við komumst ekki inn í þetta sjálf, við Íslendingar, en búið er að afstýra hættunni. Það verður ekki áhlaup á bankana úti í Evrópu þar sem búið er að tryggja þetta og setja ríkisábyrgð upp á 50.000 evrur á hvern innstæðutryggingarsjóð.

Málið er einfalt og þess vegna á að fella þetta mál niður, semja við Breta og Hollendinga þar sem margbúið er að gefa í skyn að við stöndum ekki undir þessum skuldbindingum. Hættan er liðin hjá, Bretar og Hollendingar hafa fullkomið frelsi til að borga allt það sem þeir borguðu innstæðueigendum sínum en þeir eiga að hlífa okkur sem smáþjóð, sérstaklega í ljósi þess að þeir eru að reyna að fá okkur inn í Evrópusambandið. Þeir eru farnir að skemma svo fyrir sér að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu stendur í fullkomnu uppnámi, þetta er hræðsluáróður. Og hver er (Forseti hringir.) áhættan fyrir Breta og Hollendinga að leyfa okkur að reka dómsmál hér á landi (Forseti hringir.) í stað þess að reka þetta fyrir breskum dómstólum?



[21:07]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ekki blanda því inn í málið að Ísland sé einhver smáþjóð. Það kemur málinu ekkert við. Spurningin er bara þessi: Hvað eiga menn að borga með réttu? Ég vildi gjarnan fá úr því skorið fyrir dómstólum. Ef það fellur þannig borgum við bara í krónum og þá er staðan allt önnur. Þá þurfum við ekki að flytja út fisk og ál eða inn túrista til að standa undir þeim greiðslum. Þá prentum við bara peninga þannig að þetta verði þá innstæður hér á landi og hér eru gjaldeyrishöft svo að þeir geta aldrei flutt þetta út. Vinstri menn geta svo leikið sér að því að leggja fjármagnstekjuskatt á þetta allt saman og étið þar með upp eignir Breta og Hollendinga á Íslandi, og verðbólgan sem kemur í kjölfarið.

Ég sé engan vanda við það að Bretar og Hollendingar fari í mál, bara engan, út af þessu ákvæði í íslenskum lögum sem íslenskir dómstólar þurfa að fara eftir, um að heimilt sé að greiða innstæðurnar út í íslenskum krónum, og það munum við gera. Ég sé því ekki þennan vanda sem menn eru að blása upp, að allt hrynji hérna.



[21:08]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hv. þm. Péturs H. Blöndals, vegna ræðu hans, hvort hann hafi reiknað út vextina af 270 milljarða kr. skuld Seðlabankans sem fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur sagt mun alvarlegri vanda en Icesave-málið.

Þá langar mig líka til þess að drepa niður fæti í framhaldsnefndaráliti frá 3. minni hluta fjárlaganefndar þar sem segir, í inngangi, að vaxtakjör samkvæmt samningnum sem frumvarpið lýtur að séu með öllu óásættanleg og mun verri en nú þekkist á lánsfjármörkuðum með sambærilegum samningum. Getur hv. þingmaður komið með dæmi því til stuðnings?

Í nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar, sem ég hygg að sé undirritað af þremur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, segir jafnframt að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. séu að engu orðnir. Klárlega er um einhvers konar innsláttarvillu að ræða vegna þess að þeir eru ekki að engu orðnir eða hvað? Er það mat hv. þm. Péturs H. Blöndals?



[21:10]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hlýtur náttúrlega að standa við það að rétt sé fyrir okkur að borga það sem hann er að kúga okkur til að borga. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvaði vinnslu á áætlun fyrir Ísland í hálft ár til að kúga okkur. (Gripið fram í.) Seðlabankinn er líka stórt mál og það er mikill vandi sem við þurfum að glíma við og það dugar okkur alveg, við þurfum ekki að taka Icesave á okkur aukalega.

Fyrirvararnir sem voru samþykktir í sumar eru farnir vegna þess að við munum borga hverja einustu evru og hvert einasta pund með 5,55% vöxtum til allrar framtíðar. Samkvæmt áliti IFS getur það orðið til 2046 sem við erum að borga af þessu láni með ofurvöxtum sem eru allt of háir og geta orðið geysilega háir ef verðbólga verður lítil í Bretlandi. Hv. þingmaður er náttúrlega búinn að lesa öll nefndarálitin og í nefndaráliti sem ég skrifa undir frá hv. efnahags- og skattanefnd til fjárlaganefndar — sem reyndar hefur aldrei verið rætt þar og þetta var allt saman í uppnámi í nefndinni líka — segir að það hafi verið tímabil í Bretlandi, frá 1921–1934, þar sem verðhjöðnun var að meðaltali 3% á ári. Ef slíkt gerðist aftur erum við að tala um 9% raunvexti af þessu láni og það er gjörsamlega óbærilegt fyrir Íslendinga að búa við slíkt. Slíkt tímabil gæti komið aftur. Af hverju skyldi það ástand ekki geta skapast aftur fyrst það gerðist 1921–1934? Vextirnir eru hættulega háir og ég held að við þurfum að semja upp á nýtt um þá.

Það kemur fram að Bretar og Hollendingar veita sínum innlánstryggingarsjóðum miklu hagstæðari kjör en íslenska innlánstryggingarsjóðnum. Þá spyr maður: Hvar er allt jafnræðið? Hvað er að marka allt talið um jafnræði innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.



[21:12]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vandi Seðlabankans er vissulega mikill og ef ég man rétt raðaði fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þeim vandamálum sem steðja að íslensku þjóðinni í ákveðna röð. Ég held að Icesave-samningurinn hafi þar lent í fjórða sæti yfir þá erfiðleika sem við blöstu, en vissulega er þetta erfitt mál.

Ég hef mjög mikinn áhuga á því að heyra skoðun hv. þingmanns á því sem segir í þessu nefndaráliti samflokksmanna hans, um það að þetta séu mun verri kjör en nú þekkjast á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum. Hvar eru þá betri kjör og hvaða sambærilegu samninga er verið að vísa í þarna? Þetta skiptir mjög miklu máli, ekki eru menn að fara með fleipur í nefndaráliti, þeir hljóta að geta nefnt einhver dæmi máli sínu til stuðnings.

Þá væri líka mjög forvitnilegt að heyra hvernig 3. minni hluti fjárlaganefndar getur lagt það þannig upp að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. séu að engu orðnir þegar það liggur fyrir að hluti þeirra a.m.k. hefur verið felldur inn í viðauka við samninginn. (Forseti hringir.) Þá eru þeir ekki að engu orðnir.



[21:13]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara fyrst þessu síðara: Í fyrirvörunum í sumar átti það að gerast að ef við Íslendingar gætum ekki borgað — vegna þess að hér yrði enginn hagvöxtur, vegna þess að einhver áföll hefðu orðið, eða vegna þess að neyðarlögin héldu ekki eða eitthvað slíkt — ættum við ekkert að borga eftir 2024 þó að heilmikið af skuldinni væri eftir. Þá átti að semja upp á nýtt og þá vorum við í þeirri sterku stöðu að geta sagt við Breta og Hollendinga: Hér urðu áföll.

Varðandi sambærileg lánskjör stendur í nefndaráliti frá efnahags- og skattanefnd, 1. minni hluta, að Daniel Gros bendi á að innstæðutryggingarkerfi Breta og Hollendinga séu að miklu leyti fjármögnuð með lánum úr ríkissjóði landanna. Þeir útlánsvextir sem yfirvöld í Bretlandi bjóði innstæðutryggingarsjóði sínum séu 1,5%, eða 4% lægri en vextirnir sem krafist er af íslenska innstæðutryggingarsjóðnum. (Gripið fram í.) Þetta eru þeir vextir sem menn eru að bera saman. (Gripið fram í: Er þetta sambærilegt?) Já, auðvitað, þeir eru að lána innstæðutryggingarsjóði innan Evrópska efnahagssvæðisins.



[21:14]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er lenska hérna í þinginu að gefa ræðum einkunnir, þær eru málefnalegar, ágætar, góðar. Þessi fannst mér dæmalaus.

Mig langar að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort það sé rétt skilið hjá mér að hann telji að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem studdu ríkisstjórnarstefnu í 18 ár, sem leiddi til þess að efnahagslífið hér fór á hausinn og allt hrundi, beri enga ábyrgð? Telur hann að Sjálfstæðisflokkurinn hafi axlað ábyrgð sína á því hvernig efnahagsstjórn hér stefndi öllu í kaf og að þingmenn beri enga ábyrgð á því vegna þess að einhverjir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu ekki lengur ráðherrar eða jafnvel ekki lengur á þingi?



[21:15]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. 19. október 2008 tók ég á mig ábyrgð sem þingmaður — það má lesa í þingræðum, það var stuttu eftir hrun — ég tók á mig ábyrgð ef ég bæri einhverja í þessu, og vissulega bera allir ábyrgð.

Varðandi það að ræða mín sé dæmalaus, ég veit ekki hvort ég á að taka það sem hrós eða sem skömm, en ég ákveð að taka það sem hrós. Það eru engin dæmi um svona góða ræðu, þannig að hún er dæmalaus.

Ábyrgð manna hlýtur að felast í því hvar þeir stóðu og það vill svo til að innlánstryggingakerfið í Hollandi heyrði undir Fjármálaeftirlitið sem heyrði undir viðskiptaráðherra og þar var hæstv. viðskiptaráðherra þá Björgvin G. Sigurðsson. (Gripið fram í.) Mig minnir að hann sé í Samfylkingunni og hann ber ábyrgð á því alfarið (Gripið fram í.) vegna þess að hann var ráðherra yfir því embætti og þar var ákveðið að blása út þessa innlánsreikninga í Hollandi og þeir uxu þvílíkt á tveim á þrem mánuðum. (Gripið fram í: Hver var í viðskiptaráðuneytinu þegar …?) Og meira að segja Jón Sigurðsson, sem var varaformaður stjórnar Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (Gripið fram í: Hver var fyrsti ráðherrann sem sagði af sér?) lét birta viðtal við sig í auglýsingablaði Landsbankans í Hollandi þar sem hann sagði að íslensku bankarnir stæðu vel en hann vissi betur. (Gripið fram í: Hver afnam bindiskylduna?)



[21:17]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að gefa ... (Gripið fram í: Hver var ráðherra þeirra mála?) Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum hljóð.



[21:17]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki spyrja um hvort Samfylkingin hefði verið í ríkisstjórn, ég spurði: Hver telur hv. þingmaður að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé á því ástandi sem við erum í núna? Hver telur hv. þingmaður að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé á því að við þurfum að gera þessa samninga um Icesave? (PHB: … EES-samnings.)



[21:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur margoft tekið á sig ábyrgð. Hann setti sérstakt starf í gang innan flokksins einmitt um hrunið og ábyrgð flokksins á því hruni. (Gripið fram í.) Það var gert og það var skipt um alla forustu í Sjálfstæðisflokknum meira og minna, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að taka ábyrgð. (Gripið fram í.) Það sama gerðist ekki í Samfylkingunni. (Gripið fram í.) Þetta er dálítið merkilegt, (Gripið fram í.) Samfylkingin var nefnilega … (VBj: Þurfa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki að taka neina ábyrgð?)

Ég kemst bara ekkert að hérna fyrir frammíköllum. Fæ ég lengri tíma eða …?

(Forseti (SF): Þingforseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð. Það er einungis ein mínúta til ráðstöfunar og það lágmarkskurteisi að fólk geti talað úr ræðustóli Alþingis. Gjörðu svo vel, hv. þingmaður.)

Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að axla sína ábyrgð, þrír ráðherrar eru hættir í pólitík. (Gripið fram í.) Það hefur ekki gerst í Samfylkingunni, hún hefur ekki axlað neina ábyrgð og hún er stöðugt að víkja sér undan því að hún hafi verið í ríkisstjórn. Það hefur meira að segja þurft að fá hæstv. utanríkisráðherra til að viðurkenna það að hann hafi verið í ríkisstjórn á þessum tíma. (Gripið fram í.)



[21:19]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lesa upp allan þennan bunka hérna, menn geta verið rólegir yfir því.

Þetta er svolítið sérkennileg umræða sem fer hér enn á ný fram um Icesave-málið. Hér skiptast þingmenn í andstöðu og með þessu máli, stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, í máli sem allir ættu í raun að vera sammála um og allir að berjast gegn sameiginlegum óvini, sem eru hin erlendu ríki sem eru að kúga okkur til þess að borga skuld sem íslenska þjóðin stofnaði ekki til heldur einhverjir framagosar sem störfuðu jú eftir reglum Evrópusambandsins (Gripið fram í.) og voru samkvæmt EES-samningnum sem hæstv. samgönguráðherra ber m.a. ábyrgð á og fleiri. Við ættum að sameinast gegn þessum óvini okkar í staðinn fyrir að rífast innbyrðis um þetta mál.

Þannig er, frú forseti, að Icesave-flokkarnir sem ég kýs að kalla svo, Samfylking og Vinstri græn, því að þau gera þennan samning, þessir flokkar bera ábyrgð á þessum samningi, þessir flokkar ætla að keyra þennan samning í gengum þingið. Það kann vel að vera, og ég ætla ekkert að gera lítið úr því, að allir flokkar á Alþingi fyrir utan hugsanlega Hreyfinguna og hv. þm. Þráin Bertelsson, beri einhverja ábyrgð á því ástandi sem hér skapaðist. Ég ætla ekki að skorast undan því að Framsóknarflokkurinn ber einhverja ábyrgð á því. En við sem erum í stjórnarandstöðunni núna berum enga ábyrgð á þeim samningi sem hér á að gera, þeim afarkostum og þeim vonda samningi sem liggur fyrir þinginu, þ.e. að veita ríkisábyrgð á vonlausan samning, (Gripið fram í.) vonlausan samning, hv. þm. Róbert Marshall, sem þú virðist ætla að samþykkja. (Gripið fram í.) Algjörlega, við ætlum ekki að bera ábyrgð á þessum samningi. (Gripið fram í.) Við höfum hins vegar sagt, hv. þingmaður, að líklega er komið þannig fyrir þjóðinni að þetta ber að borga. Persónulega segi ég að okkur beri ekki skylda til að borga þetta, alls ekki, okkur ber engin skylda til þess. En stjórnvöld, þar á meðal Icesave-flokkarnir sem hv. þingmaður tilheyrir, hafa komið því þannig fyrir að nú verðum við að borga (VBj: Rétt.) og þá er ekki sama hvernig það er gert, hv. þingmaður. Þá verðum við að gera það þannig að þjóðin geti staðið undir því og að börnin okkar geti lifað þokkalega í framtíðinni. Þessi samningur tryggir það ekki, hann tryggir þeim ekkert nema óvissu, hv. þingmaður, og það er það sem er óþolandi að þingmenn virðast ætla að samþykkja hér opinn tékka og óvissu inn í framtíðina.

Eitt af því alvarlegasta við þennan samning er það að þeir sem ætla að segja já við þessu vita í raun ekki og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja, þeir vita ekki hver niðurstöðutalan verður, ekki neitt, vita ekkert hve lengi við þurfum að borga þetta. Við vitum ekki hvernig efnahagsþróunin verður í Bretlandi eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á. Þetta ætla menn að samþykkja og vegna hvers? Jú, vegna þess að það er verið að kúga okkur til að gera þetta, það er verið að kúga okkur til að samþykkja þetta og hver er þar að baki? Evrópusambandið, enginn annar. Það má ekki trufla þá hugljómun sem Samfylkingin hefur varðandi það kratasamband.

Það virðist sem Icesave-flokkarnir séu búnir að tryggja sér meiri hluta á þinginu, en það er svolítið merkilegt að ríkisstjórnin skuli vera í vanda með að tryggja að málið fari í gegnum þingið. Það er í rauninni stórmerkilegt að ríkisstjórnin skuli ekki geta gengið að því vísu að þetta mál fari í gegnum þingið og þurfi jafnvel að reiða sig á þingmenn annarra flokka til að svo geti orðið. Mér finnst það mjög merkilegt og það segir mér að sálartetrið hjá mörgum þingmönnum sé ekki alveg sátt við það sem hér er að fara fram, að menn hafi ekki fulla trú á því sem verið er að þræla þeim í að gera, ég við leyfa mér að orða það svo, frú forseti. En Icesave-flokkarnir, Samfylking og Vinstri græn, hugsanlega með aðstoð einhverra annarra, munu bera það inn í framtíðina að hafa samþykkt þann óskapnað sem hér á að samþykkja. Þeirra verður minnst fyrir það að hafa gert þennan samning gegn vilja nærri helmings þingmanna og þorra þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin setti málið í mikla óvissu og ósætti að mínu viti og hún gerði það með því að gera málið pólitískt. Það voru mikil mistök að fara ekki með þetta mál þverpólitískt, ná um það sátt að hverju menn stefndu. Nei, það var farið í það að gera málið pólitískt, skilja að stjórn og stjórnarandstöðu og þannig hefur málið verið unnið alla tíð síðan. Þetta voru mikil mistök en ég held að hægt sé að bæta fyrir það, ég held að hægt sé að laga þetta. (Gripið fram í.) Ég held, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, að hægt sé að laga þetta með því að menn viðurkenni að það hafi orðið mistök, að það átti ekki að gera þetta pólitískt heldur leita leiða til að þingið stæði saman í þessu og kæmi sterkara fram gagnvart þeim fjandsamlegu öflum sem vilja láta okkur borga þetta. (Gripið fram í.)

Ég hef ekki séð, a.m.k. ekki fengið upp á borðið efnisleg rök fyrir því að samþykkja samninginn eins og hann lítur út. (Gripið fram í.) Það hafa engin efnisleg rök verið lögð fram. Í gegnum umræðuna hefur sýknt og heilagt verið talað um að hitt og þetta gerðist ekki ef við samþykktum ekki samninginn. Ólukkans umsóknin að Evrópusambandinu er í einhverjum farvegi, ekki er það það, það getur ekki verið. Endurreisn bankanna virðist vera að ljúka, ekki er það það. Erlendu lánin eru farin að berast, ekki er það það. Hvað er það þá sem við þurfum að óttast? Jú, það kom fram í máli mínu áðan. Menn hafa talað um, og m.a. varaformaður fjárlaganefndar, að málið væri skýrt. Málið er alls ekkert skýrt. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort og hvernig við eigum að greiða þetta. Það liggur ekki fyrir hvernig eignir Landsbankans, sem eiga að ganga upp í þessari skuldir, muni innheimtast. Það liggur ekki fyrir, og það liggur ekki fyrir hversu lengi við þurfum að greiða þetta. Það er ekkert ljóst í þessu máli annað en það að ríkisstjórnin, Icesave-flokkarnir, ætla að láta þjóðina borga þetta. Það hefur komið fram og það er mjög einfalt að segja að við getum borgað þetta, því að auðvitað getum við borgað þetta með því að skattleggja þjóðina, með því að skera niður í útgjöldum ríkisins. Við getum borgað allt ef við bara skattpínum landann nógu mikið og skerum niður þjónustu, þá getum við borgað þetta, það er engin spurning. En er það það sem þessir flokkar boða? Ég held að þeir ættu þá að ganga hreint til verks og segja það hreint út.

Þetta mál gerir það að verkum að það er orðið mikið ósætti meðal landsmanna. Þingið ber mikla ábyrgð á því og ég ætla ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur finnst það gott, en ég vildi þá gjarnan að hún lýsti líka yfir ábyrgð Samfylkingarinnar í þessu máli frá fyrsta degi, frá a til ö, mér hefur þótt skorta á það, hv. þingmaður.

Hér hefur líka verið kvartað yfir vantrausti og að sífellt væri verið að saka þá tvo flokka sem ætla að bera ábyrgð á þessu máli, Icesave-flokkana, Samfylkingu og Vinstri græna, um leynimakk. Það eru ástæður fyrir því að hér er vantraust í gangi. Getur það verið það að hæstv. ráðherra lýsti því yfir 3. júní sl. að það væri ekki verið að gera neina samninga og síðan kom í ljós 5. júní að það lágu fyrir fullkomin drög að samkomulagi? Getur verið að stjórnarandstaðan efist um heilindi út af því? Getur verið að stjórnarandstaðan efist um heilindi stjórnarliða og ríkisstjórnar í þessu máli þegar kreista þarf gögn út úr ríkisstjórninni og sum eru sett í leynimöppu svo þau fari örugglega ekki fyrir augu almennings? (Gripið fram í.) Getur verið að það sé vegna tölvupósts aðstoðarmanns fjármálaráðherra sem fór hér á flug um að menn hefðu vantraust á þessu verki öllu saman, þegar kom í ljós að það mátti ekki ræða þetta mál fyrir kosningar, þegar fyrir lá um hvað ætti að semja fyrir kosningar en það mátti ekki ræða það því að það gæti kannski skapaði einhverja óvissu? Getur verið að vantraustið sé út af því og getur verið að vantraust framsóknarmanna sé vegna þess að það hefur komið upp að farið var á bak við framsóknarmenn meðan þeir vörðu ríkisstjórn Icesave-flokkanna á sínum tíma?

Engan þarf að undra að hér ríki vantraust þegar haldið er á málum með þessum hætti. Þetta er heimatilbúið vantraust sem átti að taka á fyrir löngu, það átti að segja fyrir löngu: Stopp, við verðum að nálgast þetta öðruvísi, við verðum að sameina þingið og þjóðina gegn þeim óvini sem er þarna úti sem ætlar að láta okkur borga eitthvað sem okkur ber ekki.

Hér hefur mörgum sinnum verið farið yfir þá tilskipun sem sagt er að við eigum að borga eftir. Það er margbúið að fara yfir þessa Evróputilskipun og bent hefur verið á að fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar úti í Evrópu hafi bent á að hún eigi ekki við í þessu tilviki. Samt æða menn áfram. Það eru að koma fram ný gögn, ný álit og nýjar upplýsingar og það er ekkert gert með þetta, málið er bara keyrt áfram. Mér finnst í raun mjög sérkennilegt að samfylkingarþingmenn og -ráðherrar minnast ekki einu orði á þá yfirlýsingu sem fyrrum formaður þeirra, fyrrum hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur sent Alþingi þar sem ferill málsins er rakinn, þar sem hún segir og fer berum orðum yfir það hvernig þessi saga var. Ég vildi óska að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, hefði gert jafnskilmerkilega grein fyrir þeim hlutum en því miður gerði hann það ekki.

Í þessu minnisblaði frá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, kemur alveg skýrt fram að mat hennar er það að núverandi ríkisstjórn og minnihlutaríkisstjórnin sem sat í vetur hafði algjörlega hreint borð til að semja, algjörlega hreint borð til að gera hvaða samning sem var. Hún var ekki á nokkurn hátt bundin af fyrri drögum, uppköstum eða minnisblöðum sem höfðu verið gerð. Brussel-viðmiðin lágu til grundvallar og bar að styðjast við þau. Svokallað minnisblað frá 11. október eða MOU sem kallað er hér, 14. nóvember var það úr sögunni að mati fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar. Mig langar að spyrja, af því að ég veit að tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar ætla að koma í andsvar við mig: Eru þeir sammála því eða telja þeir að þeirra fyrrum formaður sé að fara með fleipur?

Síðan kemur fram í þessu minnisblaði fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, hún er að rekja ECOFIN-fundinn í Brussel, hún er að fjalla um umsamin viðmið, hún er að tala um stofnanir Evrópusambandsins og AGS og fleira og hér segir, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir þessu var fyrst og fremst sú að við litum ekki einvörðungu á þetta sem tvíhliða deilu við Hollendinga og Breta heldur væri sú deila afleiðing af því gallaða regluverki sem gilti um evrópska fjármálamarkaðinn. Mikilvægt væri að ESB skynjaði ábyrgð sína gagnvart Íslandi sem þátttakanda í hinum innri markaði með frjálsu flæði fjármagns þó það væri ekki aðildarríki að bandalaginu.“

Þetta segir fyrrum utanríkisráðherra landsins og formaður Samfylkingarinnar. Af hverju í ósköpunum höldum við þá svona á málum eins og við virðumst vera að gera? Af hverju liggjum við, liggur mér við að segja, í duftinu fyrir Evrópusambandinu í staðinn fyrir að benda á þá staðreynd að að sjálfsögðu á Evrópusambandið að beita sér fyrir því að þetta mál sé leyst í bróðerni og á réttlátan hátt í stað þess að þvinga einhliða samninga yfir Ísland? Ég fæ engan botn í þetta nema þann sem ég nefndi áðan sem er að það sem hangir á spýtunni er hótun um að tefja fyrir aðildarviðræðum. Það er náttúrlega afar sérstakt að slíkt skuli koma upp því að ég hefði haldið að það væri hagur Breta og Hollendinga og hagur Evrópusambandsins að Ísland gengi í Evrópusambandið miklu frekar en að Ísland hafi nokkurn tíma einhvern hag af því. (Gripið fram í.) Aldrei, Ísland hefur engan hag af því, við munum fórna allt of miklu. Þeirra hagur væri að Ísland gæti staðið í skilum, gæti greitt þessa skuld með sómasamlegum hætti, byggt hér áfram upp glæsilegt samfélag og þess vegna, ef þjóðin vildi, gerst aðili að þessu sambandi. Því miður hefur ekki verið haldið þannig á málum.

Frú forseti. Ég segi enn og aftur það sem ég sagði áðan: Að mínu viti er enn þá tækifæri til að sameina þingið og hugsanlega þjóðina að baki þinginu með því að vísa þessu máli frá, skipa þverpólitíska samninganefnd sem hefði leyfi til að leita til og fjármagn til að kalla til bestu sérfræðinga á sviði alþjóðasamninga og fara og hitta þessa erlendu aðila (Forseti hringir.) á jafnréttisgrunni.



[21:34]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem í ræðustól til að mótmæla því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns um afstöðu Samfylkingarinnar til þessa máls. Ýmislegt hefur maður látið yfir sig ganga í sölum þingsins í sumar og haust. Það versta af því hefur komið úr munni framsóknarmanna, hv. þingmanna þeirra, þar sem þeir saka þingmenn stjórnarmeirihlutans um landráð oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. (Gripið fram í.) Að vera kallaður föðurlandssvikari í þessum sal er eitthvað sem ég átti ekki von á þegar ég bauð mig fram til þessa starfs en látum það eitt liggja hér. Hitt er svo annað mál að í sífellu er verið að gera því skóna að afstaða Samfylkingarinnar til Icesave-samningsins markist af einhverri Evrópuást eða dekri eða þjónkun við Evrópusambandið. Ég mótmæli slíkum málflutningi, hv. þingmaður, hástöfum. Það er kaldhamrað hagsmunamat þeirra sem eru í Samfylkingunni að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan þessa ríkjasambands, það svífur engin rómantík yfir vötnum í því stöðumati, fyrst og fremst hagsmunamat Íslendinga að það sé betra fyrir hagsmuni okkar sem þjóð að vera þar innan dyra. Enda hvað sýnir sig í þeim veruleika sem við okkur blasir í dag þegar slík ríkjablokk beitir sér af alefli gegn okkur í þessu máli? Það sýnir sig hvar borgar sig að standa í þeim efnum eða er ekki svo? Er ekki hagsmunum okkar betur borgið innan slíks bandalags en fyrir utan? Enginn er annars vinur í milliríkjaviðskiptum eða í pólitík milli landa, það er ekki svo, fyrst og fremst hagsmunamat þeirra þjóða sem standa að Evrópusambandinu að það sé betra fyrir (Forseti hringir.) hagsmuni þeirra að vera þar innan dyra. Það eru engin annarleg sjónarmið sem liggja að baki skoðunum Samfylkingarinnar frekar en skoðunum Framsóknarflokksins.



[21:37]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann að prenta út þær ræður sem ég hef flutt og benda mér á hvar ég hef talað um föðurlandssvikara eða landráðamenn.



[21:37]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt því ekki fram að hv. þingmaður hefði látið þau orð sér um munn falla. (Gripið fram í.) Ég get alveg sýnt honum dæmi um það hvar framsóknarmenn hafa talað með þeim hætti í þingsal. Tvö dæmi veit ég um og get sótt og sýnt honum ef hann óskar eftir því sérstaklega hér úr ræðustól.

Hitt er svo annað mál að ég tengdi það við þann málflutning sem var einkennandi í ræðu hv. þingmanns að það væru einhver annarleg sjónarmið sem réðu afstöðu Samfylkingarinnar varðandi Icesave. Svo er ekki. Það er full ástæða til að það sé tekið fram hérna að það er óþolandi að sitja undir ásökunum um föðurlandssvik í þessum sal. Það er ólíðandi og óskiljanlegt með öllu að slíkt skuli látið viðgangast án þess að viðkomandi þingmenn séu víttir.



[21:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég óska eftir því að fá þetta útprentað hjá hv. þingmanni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður kallar það annarleg sjónarmið að hafa þessa ást á Evrópusambandinu. Það kunna að vera ekki neitt annarleg sjónarmið. Ég er hins vegar sannfærður um það, eftir að hafa hlustað hér á þær fáu ræður sem samfylkingarþingmenn hafa flutt og lesið þau gögn, bæði leynigögn og önnur sem fylgja þessu máli, að það er ekkert annað á bak við þessa ótrúlegu hörku Samfylkingarinnar við að svínbeygja Vinstri græna og þingið til að samþykkja þetta annað en ást á Evrópusambandinu.



[21:39]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur tekið upp þá hætti hér að kalla Samfylkingu og Vinstri græn Icesave-flokkana og er þetta aldeilis glæsilegt mælskubragð af hálfu þingmannsins. Síðan hefur hann líka sagt að það hafi verið óþarfi og hefði verið óeðlilegt að gera málið pólitískt. Ég kem hér upp, frú forseti, til að benda hv. þingmanni á að málið er hápólitískt. Við stjórnarflokkarnir stöndum hér skítinn eftir Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk upp í ökkla, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) og við skulum fara í upphaf Icesave-málsins, við skulum horfa til einkavæðingar bankanna. Og í sannleiksást sinni og -leit spyr ég hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort hann sé reiðubúinn til að standa með mér að tillögu þess efnis að þingið skipi sjálfstæða rannsóknarnefnd á einmitt einkavæðingu bankanna. (Gripið fram í: Já, og atburðum þessa árs.) Er hv. þingmaður tilbúinn til að standa að slíkri tillögu? (Gripið fram í: Og atburðum þessa árs.)

(Forseti (SF): Forseti vill biðja þingmenn um að vera ekki að grípa mikið fram í heldur gefa ræðumönnum hljóð til að tala úr pontu Alþingis.)



[21:40]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að loksins kom maður aðeins við kaunin á Samfylkingunni. Nú sýna þeir sitt rétta andlit, flýja raunveruleikann, vísa á einhverja aðra, gleyma því að það voru þau, Samfylkingin, gamli krataflokkurinn sem keyrði hér í gegn samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem allt þetta vandamál byggir á. (Gripið fram í.) Það byggir ekkert á einkavæðingu bankanna. (Gripið fram í.) Ef svo er væri ríkisstjórnin varla að einkavæða bankana aftur í dag. (Gripið fram í: Þetta er öðrum að kenna.)

Vitið þið það, ef við gefum okkur það að síðasta einkavæðing hafi verið eitthvað skrýtin, við skulum bara gefa okkur það, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, er þá ekki eitthvað dularfullt við það að einkavæða bankana í dag og hafa ekki hugmynd um hverjir eru að kaupa þá, að geta ekki einu sinni upplýst um það? Eru það hugsanlega sömu menn og felldu bankana? Getur það verið? Það kæmi mér ekki á óvart miðað við það hvernig Samfylkingin alla vega hefur kosið að ráða til sín þá aðila sem unnu og stjórnuðu þessum bönkum þegar allt fór á hvolf. Það kæmi mér ekki á óvart þó að menn vissu eitthvað meira um þetta en ég veit, ég þori ekki að segja. (Gripið fram í.)

Ég skal skrifa upp á þá tillögu sem hv. þingmaður nefndi áðan ef hún gerir eitt fyrir mig, frú forseti, ef hún er til í að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir þátt Alþingis, ríkisstjórnar og fjölmiðla frá 1. október 2008 eftir hrunið. (Gripið fram í: Það er verið að rannsaka það.) Sú rannsókn sem nú fer fram nær eingöngu fram að hruni. Það er full ástæða til að skoða hvað gerðist hér eftir hrun og það held ég að væri mjög verðugt verkefni fyrir okkur öll, fyrir Alþingi að takast á við.



[21:42]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal standa að öllum tillögum sem varða rannsókn á því sem gerst hefur í íslensku samfélagi, því að ólíkt hv. þingmanni og stjórnarandstöðunni lít ég ekki á þetta sem pólitískt spil heldur grundvöll fyrir sæmilegu samfélagi á Íslandi, samfélagi þar sem fólk þrífst og þar sem það treystir sínum stjórnvöldum. Við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo geti orðið.

Það er nú skemmtilegt, frú forseti, þegar farið er að gera EES-samninginn að okkar stærsta vanda, ég bíð bara eftir að innleiðing sjónvarps eða síma verði tekin upp. Það hefur líka eflaust haft áhrif á þá stöðu sem við erum í í dag. Best væri væntanlega í huga hv. þingmanns að við værum ekki í neinum samskiptum við umheiminn. Ást mín á Evrópusambandinu hefur ekkert með Icesave-samningana að gera. Icesave-samningarnir eru grundvöllur þess að við komumst í sátt við alþjóðasamfélagið og (Forseti hringir.) getum byggt hér upp heilbrigt fjármála- og hagkerfi.



[21:43]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kemur nú aftur upp þetta óskilgreinda alþjóðasamfélag. Þetta alþjóðasamfélag hefur verið eins og einhver draugur eða ófreskja yfir þinginu og þjóðinni frá því að þessir Icesave-samningar fóru á skrið eða þetta samkomulag. (Gripið fram í.) Hér hafa þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna, Icesave-flokkanna, Icesave-ríkisstjórnarinnar á Icesave-stjórnarheimilinu, hver á fætur öðrum komið upp og sagt að alþjóðasamfélagið muni ekki taka Ísland í sátt ef við borgum þetta ekki. Alþjóðasamfélagið muni aldrei nokkurn tíma vilja neitt með Ísland hafa að gera ef þetta verður ekki borgað.

Hvers konar firra er þetta? Það er fáránlegt að halda þessu fram. Trúa menn því virkilega í Evrópusambandsblindni sinni að eitthvert alþjóðasamfélag, sem er algjörlega óskilgreint, muni einangra vestræna þjóð? (Gripið fram í.) Það er bara alveg út í hött nema menn hafi svona mikla trú á því að þeim sé að takast að skapa hér Kúbu norðursins (Forseti hringir.) eins og þeim var nú tíðrætt um einmitt.



[21:45]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú hlustað á ræðu ég veit ekki númer hvað hjá hv. þingmanni um Icesave. Hann er Icesave-kóngur þingsins að mér skilst í ræðutíma.

Það sem mig langaði að gera, virðulegi forseti, er að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst okkur hér í þingsal og þá sem hlusta um hver var viðskiptaráðherra hér á Íslandi og í hvaða ríkisstjórn þegar Icesave var búið til og því hleypt af stað úti í Bretlandi. Af því að það er stuttur ræðutími í andsvörum (Gripið fram í: Bættu Hollandi við.) langar mig að minna hv. þingmann á að sá sem var þá viðskiptaráðherra varð síðan formaður Framsóknarflokksins um stuttan tíma (Gripið fram í.) og sat í ríkisstjórn sem var stýrt af þáverandi forsætisráðherra sem hét Halldór Ásgrímsson. Spurning mín til viðkomandi hv. þingmanns er sem sagt þessi: Hver var viðskiptaráðherrann sem hleypti Icesave-málinu af stað í Bretlandi?



[21:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög undarlegt andsvar hjá hæstv. ráðherra því að hann spurði og svaraði sjálfum sér. Ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki það mikið eldri en ég að við þurfum að fara yfir þetta núna á þessari mínútu en úr því að hæstv. ráðherra er búinn að gleyma því sem hann sagði sjálfur þá var það ráðherra Framsóknarflokksins, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir, sem var viðskiptaráðherra á þessum tíma í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé með þetta á hreinu núna.

Hæstv. ráðherra hlýtur þá að kannast við að Icesave-samningarnir í Hollandi urðu væntanlega til eitthvað síðar og það er ágætt að hann rifji það upp. Hæstv. ráðherra ætti að geta rifjað það upp líka hvað þessir svokölluðu Icesave-samningar í Hollandi og Bretlandi stækkuðu mikið í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hvenær blésu þeir út? Hver var þá viðskiptaráðherra? Hver var þá varaformaður stjórnar Seðlabankans? Hver var þá stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins? Hvaða flokki tilheyra þessir ágætu aðilar? Ég held að það sé alveg ljóst að Samfylkingin getur ekki hlaupist undan merkjum eins og henni er tamt að gera í þessum ræðustól. Það er með ólíkindum hvernig sá flokkur hagar sér hér á þingi, lætur eins og hann hafi aldrei nokkurn tímann komið að stjórn landsins, verandi arfleifð gamla krataflokksins sem dó drottni sínum og er nú Samfylkingin í dag. Menn koma hingað upp, bæði þingmenn og ráðherrar, og láta eins og þeir hafi aldrei komið í þingsal áður eða inn í ráðuneyti.

Frú forseti. Öll berum við einhverja ábyrgð og Framsóknarflokkurinn skorast ekki undan því eins og hefur sést á sögu hans síðustu mánuði og ár. (Gripið fram í.) Ég vona að hæstv. ráðherra komi upp í ræðu og fari yfir þetta seinna í dag eða á morgun því að ég hefði gjarnan viljað eiga við hann orðastað nánar um þetta mál. Ég vona að hann komi hingað í annað andsvar.



[21:48]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að vita til þess að hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því að það var í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þessu var hleypt af stað (Gripið fram í.) og það var ráðherra úr Framsóknarflokknum sem var viðskiptaráðherra og hleypti þessu af stað og setti engar kvaðir um útibú. Við skulum svo kannski rifja það upp líka hvað þáverandi formaður Fjármálaeftirlitsins sagði skömmu eftir að hann tók við. Hann sagði að eitt fyrsta verkið sem menn ætluðu að gera væri að breyta þessu útibúi í annars konar banka en þá var staðan orðin svo erfið að það var ekki hægt.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst athyglisvert við ræður framsóknarmanna er að okkur Íslendingum beri ekki skylda til að standa við þessar skuldbindingar sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ýttu af stað. Það er mjög í takt við ýmislegt annað hjá framsóknarmönnum eins og Samvinnutryggingar sem seinna voru kallaðar Gift sem var látið fara á hausinn. Það var braskað með peninga almennings. Það virðist vera þannig að hjá forustu Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) hafi það ekki verið lenska að menn stæðu við skuldbindingar (Forseti hringir.) og greiddu skuldir sínar.



[21:49]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú var hæstv. samgönguráðherra rétt lýst. Einu sinni var notað hér á þingi orð sem mig minnir að núverandi forseti þjóðarinnar hafi notað um ákveðinn ráðherra. Ég ætla ekki að nota það orð en mér dettur það í hug.

Hæstv. ráðherra fór hér mikinn en hann gleymir því enn og aftur að hann sat í ríkisstjórn, ef ég man rétt. Kannski líður hæstv. ráðherra svona vel að sitja í sínu ráðuneyti að hann gleymir hreinlega stað og stund. Hann var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem var við stjórnvölinn þegar bankarnir hrundu. Hann var í ríkisstjórn þegar varnaðarorðin komu og hlustaði ekki á þau. Hann var þar, þessi maður, þessi ráðherra sem hér stendur og belgir sig út eins og hann sé alsaklaus. Það var samfylkingarráðherra sem var á vaktinni þegar Icesave varð til í Hollandi og blés út. (Gripið fram í.) Fleiri samfylkingarmenn hefðu mátt segja af sér (Gripið fram í.) og það mun væntanlega koma í ljós, hæstv. samgönguráðherra, (Gripið fram í.) að fleiri hefðu mátt fara úr þeirri ríkisstjórn sem þá var.



[21:50]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti beinir þeim tilmælum til þingmanna að gefa ræðumönnum hljóð, sérstaklega í stuttum andsvörum.



[21:51]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Afgreiðsla Icesave-frumvarpsins markar ákveðin tímamót í því viðreisnarstarfi sem hófst í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar hér fyrir rétt tæpu ári. Óhætt er að fullyrða að fáar ríkisstjórnir ef einhverjar hafi glímt við jafnrisavaxið verkefni og það sem núverandi ríkisstjórn glímir við. Mikill niðurskurður í ríkiskerfinu hefur verið óhjákvæmilegur og sömuleiðis umtalsverðar skattahækkanir samhliða breytingum á skattkerfinu sem enn eru á byrjunarstigi. Samhliða margvíslegri tiltektarvinnu sem heyrir til hruns á fjármálakerfi heillar þjóðar hefur þurft að fara fram heildarendurskoðun og uppstokkun á samfélagsgerðinni. Það er að sönnu risavaxið verkefni.

Icesave-frumvarpið er lokapunktur ákveðinnar tiltektar eftir það sem allir eru nú orðnir sammála um að voru ár gegndarlausrar óráðsíu og ábyrgðarleysis, einhvers konar brunaveisla með rómverskum blæ. Hrunadans, mundu einhverjir segja. Íslendingar, eða þeir sem birtust öðrum þjóðum sem Íslendingar á erlendum vettvangi — andlit Íslands í erlendum fjölmiðlum — lifðu í vellystingum, keyptu upp gömul og rótgróin fyrirtæki, skemmtu sér með stórstjörnum, kepptu í kappakstri glaumlífsins og stjórnmálin dönsuðu með, stór hluti þeirra að minnsta kosti. Það er hægt að undanskilja afar fáa, hægri menn og vinstri menn sáu ekki stöðuna fyrir glysinu. Þetta er hægt að fullyrða án þess að bent sé fingri. Vinstri grænir voru sannarlega ekki í stjórn á þessu tímabili en Sjálfstæðisflokkurinn var það í mörg ár, Framsóknarflokkurinn í mörg ár og Samfylkingin síðasta eitt og hálfa árið.

Með lúkningu Icesave-málsins lýkur stórum hluta starfa þingsins vegna hrunsins þó að vissulega sé niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis vegna hruns bankanna á könnu þingsins. Icesave markar tímamót. Hér er ögurstundin upp runnin, ögurstund sem á sér vart samjöfnuð í íslenskri sögu, risavaxin ábyrgð sem bundin er von og bjartsýni að hluta því að endanleg niðurstaða ræðst af verðmæti eigna Landsbankans og hvernig til tekst með sölu þeirra þó að vísbendingar um heimtur séu vissulega jákvæðar. Um leið er um að ræða siðferðileg reikningsskil þess tímabils sem gert verður upp með rannsóknarskýrslu þingsins að forminu til. Afgreiðsla Íslendinga á alþjóðlegum skuldbindingum vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eru skýrustu skilaboð þeirra stjórnmálamanna sem á þingi sitja um það hvernig þjóðfélag og samfélag verði byggt upp hér á Íslandi eftir hrunið, skilaboð utan lands jafnt sem innan lands um heiðarlegt samfélag. Orðstír manns lifir og deyr með því hvernig hann stendur við skuldbindingar sínar. Við getum með sanni sagt að okkur hafi ekki verið kunnugt um þessa ábyrgð okkar. Ég vissi ekki um hana, virðulegur forseti, fjöldi þeirra sem eru þingmenn í dag vissi ekki um hana, almenningur var grunlaus og ég hef efasemdir um að bankamenn hafi í raun og veru gert sér grein fyrir afleiðingunum enda get ég varla ætlað mönnum slíkt ábyrgðarleysi. Þessi er staðan.

Ef við neitum að gangast við ábyrgð okkar verður það dómur alþjóðasamfélagsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að Íslendingar standi ekki við skuldbindingar sínar. „Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur.“ „Íslenska leiðin“ verður það þá kallað að borga ekki skuldir sínar. Það verður túlkunin. Það skiptir litlu máli hversu oft framsóknarmenn fara til Noregs, það breytir þessu ekki. Virðulegur forseti. Þetta er það sem ég óttast mest, því hvað erum við Íslendingar á alþjóðavettvangi án ærunnar, án mannorðsins, ef það orð fer af okkur að við greiðum ekki skuldir okkar? Þó að margumtalaðir spunameistarar Samfylkingarinnar séu að mati stjórnarandstöðunnar með alla fjölmiðla heimsins á sínum snærum er engu að síður við ofurefli að etja.

Skyldi það hafa legið til grundvallar ótrúlegri framkomu Breta gagnvart okkur þegar sett voru á okkur hryðjuverkalög að framganga okkar í breskum viðskiptaheimi hafði ekki beinlínis einkennst af hógværð og kurteisi heldur einhverju allt öðru og miklu verra? Það skyldi þó ekki vera, án þess að það skipti í sjálfu sér nokkru máli. Ekki dæmum við Breta út frá þeirra allra verstu sonum eða dætrum. Framganga Breta í okkar garð í þessu máli er enn með öllu óútskýrð og órökstudd, eins og segir í ágætu minnisblaði fyrrverandi utanríkisráðherra. Sumar nýlenduþjóðir hafa engu gleymt og ekkert lært. Mér hefur stundum þótt við sýna Bretum ótrúlega linkind í því að halda við þá stjórnmálasambandi, jafnömurlega og smásálarlega og ríkisstjórn Gordons Browns veittist að 300 þúsund manna þjóð á úrslitastundu. Þeir kusu að sparka í liggjandi. Sagan hefur reyndar sýnt að þeir eiga ekkert í okkur öðruvísi. Framganga þeirra var þeim til minnkunar. Á ögurstundu eru helmingslíkur á réttri eða rangri ákvörðun og þeir tóku ranga ákvörðun. Afleiðingarnar af því að samþykkja ekki Icesave-ábyrgðina, jafnömurlegt og það er að standa frammi fyrir því, eru svo alvarlegar að ekki er hægt að horfa fram hjá því.

Ég hef farið yfir afleiðingarnar af skoðun alþjóðasamfélagsins á Íslandi, sem er erfitt að meta til upphæðar í peningum en getur þó reynst það skeinuhættasta. Tökum með í reikninginn frestun á annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með tilheyrandi seinkun á afgreiðslu lána frá sjóðnum og vinaþjóðum. Afleiðing þeirrar frestunar mundi jafnframt leiða til þess að ekki yrði hægt að styrkja gjaldeyrisvaraforðann sem er nauðsynleg forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Einnig mundi slík töf draga úr tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda með tilheyrandi lækkun á lánshæfismati ríkissjóðs og þar með neikvæðum áhrifum á möguleikum innlendra aðila til endurfjármögnunar. Minnkandi trúverðugleiki og tafir á afnámi gjaldeyrishafta munu auka þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar sem aftur leiðir til vaxandi verðbólgu sem þýðir að Seðlabankinn gæti jafnvel þurft að hækka vexti eða hefði í það minnsta ekki svigrúm til að lækka þá. Þá hefur þess verið getið hér í umræðunni að frestun eða synjun frumvarpsins hefur neikvæð áhrif á endurfjármögnun lána ríkis, sveitarfélaga og orkufyrirtækja.

Afleiðingarnar af því að hafna frumvarpinu eru svo alvarlegar að það er útilokað að stjórnarandstöðunni sé alvara í málflutningi sínum enda talaði hluti hennar allt öðruvísi í þessu máli þegar hann var við stjórn landsins. Sjálfstæðismenn undirbjuggu málið ásamt Samfylkingu á síðustu mánuðum síðasta árs og skuldbundu landið pólitískt til þess að leysa það með þeim hætti sem nú er verið að gera. Hér birtist því vilji stjórnarandstöðunnar þeim sem hér talar þannig að í raun og veru sé enginn áhugi á því að ríkisstjórninni takist að leiða þetta mál til lykta. Það sem vakir fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar er fyrst og fremst að flækjast fyrir, (Gripið fram í: Rangt.) tefja málið og gera ástandið erfiðara í þjóðfélaginu í þeirri von að ríkisstjórnin hrökklist frá og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geti tekið aftur við völdum. Icesave-málið yrði síðan leyst á einni nóttu í spjalli á milli forustumanna flokkanna rétt eins og þegar ákvörðunin var tekin um stuðning Íslands við árásarstríð úti í heimi. Hvað skýrir annars viðleitni sjálfstæðismanna til að vinna að öllum þeim fyrirvörum sem gerðir voru í sumar og standa enn að stærstum hluta en sitja síðan hjá við afgreiðslu eigin vinnu? Hvað skýrir framgöngu framsóknarmanna í þessu máli annað en að vilja með öllum mögulegum og tiltækum ráðum koma ríkisstjórninni frá? Framganga forustu Framsóknarflokksins í þessu máli gengur langt út yfir allt velsæmi enda er sá fornfrægi flokkur undir stjórn manna sem fundu flokkinn á götu í reiðileysi og hirtu án aðdraganda og þyrstir í frekari völd.

Sögulegt tækifæri fór forgörðum í þessu máli. Þingið hefði getað tekið þetta mál í sameiningu alla leið en um leið og Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá við afgreiðslu málsins í sumar var ljóst að samstarfsviljinn var yfirskin, sáttatónninn var falskur, nýja Ísland var í átökum við gamla Ísland, sérhagsmunir gegn almannahagsmunum. Hvað skóp kaupæðið í kringum bankana? Í stuttu máli ókeypis kvóti fárra útvalinna sem seldur var dýrum dómum og nýttur til bankakaupa í hefðbundnum helmingaskiptum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, lánað úr fyrri bankanum til kaupa á hinum síðari, pappírsleikfimi og skuldavafningar. Nú skal vinstri stjórninni komið frá, skuldum við útlendinga sópað undir teppi og góssinu skipt upp á nýtt.

Á Íslandi er ríkisstjórn sem er velviljuð, sanngjörn við atvinnulífið, keppir að stöðugleika og öruggri framtíð. Henni er umhugað um félagslegt réttlæti og jöfnuð og í henni sitja reyndustu stjórnmálamenn þingsins. Hún tók við í kjölfar búsáhaldabyltingar í kosningum þar sem báðir flokkar bættu umtalsvert fylgi sitt og fjölguðu sínum þingmönnum. Samfylkingin skorast ekki undan ábyrgð sinni en úrslit kosninganna sýndu best hverjir almenningur taldi að bæru mesta ábyrgð á hruninu. Þeir sem töpuðu mestu fylgi, það segir sig sjálft. Þeir vilja samt völdin. Í ríkisstjórninni ráða gamalreyndir herforingjar þar sem hver stund, hver mínúta og hvert korter í 30 ár í stjórnarandstöðu, kosningum, átökum þvert á flokka og innan þeirra gagnast þeim í stærsta verkefni íslenskrar sögu, endurreisn samfélags og siðferðilegum reikningsskilum þjóðarinnar. Auk þeirra er þingmeirihluti upp á 34 með allan þunga sögunnar á herðunum. Hvert nafn sem meitlað í stein um ókomna tíð, þeir sem samþykktu Icesave. Tveir gamalreyndir herforingjar sem nýta hverja stund, hverja mínútu, hvert korter í samanlögðum 60 ára reynslubanka til að takast á við aðsteðjandi vanda á ögurstundu og valkosturinn sem telur sig geta gert betur eru stjórnarandstöðuforingjar með uppréttar hendur sem hafa verið landsfeður í korter.

Þetta eru þung skref og stór, ögurstund í dag og á morgun og um ókomna tíð. Skylda okkar er fyrst og fremst gagnvart þjóðinni, það er á þeim grunni sem afstaða mín er mótuð. Afgreiðsla Icesave-samningsins er nauðsynleg og mál að linni og ganga til atkvæðagreiðslu. Ég tel að úr því sem komið er verði ekki unnt að ná betri samningi og að höfnun hans feli í sér svo alvarlega áhættu að við hana verði ekki unað. Ég er reiðubúinn að lúta dómi sögunnar vegna þessa. Sagan mun dæma okkur í vil sem gerðum skyldu okkar gagnvart þjóðinni.



[22:02]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var nokkuð kaflaskipt. Um tíma var hún nokkuð málefnaleg en af því að hv. þingmanni var tíðrætt um nýja Ísland og að taka ætti sig úr hjólförum flokkapólitíkur o.s.frv. var kannski ekki alveg samræmi á milli þessara sérkennilegu samsæriskenninga sem væntanlega voru frekar fluttar hér til gamans en að það ætti að taka alvarlega. Enda veit hv. þingmaður að ef menn fara út í að fella ríkisstjórn þarf þingmeirihluta til og hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar, eins og hv. þingmaður fór yfir, eru með góðan meiri hluta í þingi. Það mun ekkert breytast nema við kosningar, sem við erum ekki að fara í.

Ég vildi spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Hv. þingmaður er eins og þingmenn Samfylkingarinnar mjög vel að sér þegar kemur að Evrópusambandinu og búinn að skoða þau mál mjög vel. Hugmynd þeirra sem eru innan Evrópusambandsins og fylgjandi því er sú að mörg mál séu þess eðlis að þau séu eða vinnist á vettvangi Evrópusambandsins. Nú er það held ég öllum ljóst, alveg sama hvernig að málinu er komið, að tilskipunin sem við erum í rauninni að vinna út frá er meingölluð og gerði ekki ráð fyrir ýmsum hlutum sem urðu. Af því að menn tala um ábyrgð — telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að þetta sé tekið fyrir á vettvangi Evrópusambandsins eins og menn eru í raun að vinna að núna, menn eru að taka upp þessa tilskipun? En talandi um ábyrgð, er þessi þáttur þá ekki á ábyrgð Evrópusamstarfsins?

Síðan hitt af því að hv. þingmenn hafa vísað í samkomulag sem var gert hér eða ekki samkomulag, samþykkt sem gerð var í þinginu, þá töluðu forustumenn Samfylkingarinnar um að fyrirvararnir sem þá voru gerðir væru innan (Forseti hringir.) samkomulagsins, fyrirvararnir væru innan þess samnings sem var gerður í júní. Spurning mín er sú: Hvað breyttist? Af hverju þurfti (Forseti hringir.) þá að taka málið upp? Vissu menn ekki hvað þeir voru að tala um?



[22:05]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ræða mín var kaflaskipt og stór hluti hennar fjallaði um það að ákveðið tækifæri var til þess að taka upp ný vinnubrögð í þinginu í sumar. Vonir mínar og margra annarra þingmanna stóðu til þess að unnt yrði að afgreiða þetta mál á þann veg, enda hafa þrír flokkar í þinginu komið að málinu með einum eða öðrum hætti. Ég tel það ljóst, eins og ég sagði í ræðu minni, að í sumar þegar Sjálfstæðisflokkurinn valdi þá leið að sitja hjá við afgreiðslu málsins hafi það komið í ljós að enginn vilji var hjá flokknum til þess að taka þátt í því að klára málið.

Varðandi Evrópusamstarfið og þá lagaumgjörð sem liggur þessu máli öllu til grundvallar vil ég segja að eins og hv. þingmaður veit afar vel kemur alltaf nýr dagur í pólitík. Ég lít svo á að með því að ganga frá þessum samningi sé þessu máli síður en svo lokið enda hefur það komið fram í umræðunni að bjóðist mönnum t.d. betri lánakjör er hægt að greiða upp samninginn hvenær sem er okkur að kostnaðarlausu. Þess vegna hefði maður gjarnan viljað heyra það hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eins og t.d. kemur fram í framhaldsnefndaráliti frá 3. minni hluta fjárlaganefndar þar sem þeir tala um að vaxtakjörin samkvæmt þeim samningi sem frumvarpið lýtur að, séu með öllu óásættanlegir og mun verri en nú þekkist á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum. En þegar ég hef leitað eftir því hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðunni í kvöld hafa þeir ekki getað nefnt sambærilega samninga eða komið með dæmi um hvar hægt sé að fá betri kjör.

Ég lít svo á að vinna beri þetta mál áfram á vettvangi Evrópusambandsins og ekki síst (Forseti hringir.) á vettvangi utanríkisráðuneytisins í samskiptum okkar við aðrar þjóðir.



[22:07]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að reyna að átta mig á þeirri hugmynd sem hefur komið fram, ekki bara hjá hv. þm. Róberti Marshall heldur öðrum hv. þingmönnum líka, að það að sjálfstæðismenn hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna breyti einhverju um niðurstöðuna. Eru menn í fullri alvöru þá að halda því fram að ef Sjálfstæðisflokkurinn — sem greiddi atkvæði með fyrirvörunum og sat síðan hjá — hefði greitt atkvæði með hefði það mál haldið? Breyttu menn málinu til að refsa Sjálfstæðisflokknum eða hvað er málið?

Ég spurði hv. þingmann: Hvað breyttist? Hér stóðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar upp og sögðu: Þingið hefur talað. Nú förum við og segjum viðsemjendum okkar: Svona er þetta. Vissu menn ekki hvað þeir voru að tala um? Þeir sögðu að þetta væri innan samkomulagsins.

Svo er líka hitt, þ.e. að þessu máli sé ekki lokið. Ég held akkúrat að þarna komi það sem liggur að baki. Menn vita að við getum ekki staðið undir þessu eins og það liggur fyrir núna. Þessi leið er ekki fær en menn trúa því að þetta reddist einhvern veginn. (Forseti hringir.) Það er það sem menn eru að gagnrýna varðandi barnalega trú á Evrópusambandið, að Evrópusambandið reddi okkur einhvern veginn. (Forseti hringir.) Það gerist ekki. Þegar við erum búin að skrifa undir þetta skuldum við þessa fjármuni.



[22:08]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér tíðkast oft sá siður í þinginu að menn geri þeim sem menn ræða við upp ákveðnar skoðanir og rökræði síðan við þá á grundvelli þeirra skoðana. Hvergi hef ég sagt að Evrópusambandið muni koma okkur til bjargar í þessu máli eins og hv. þingmaður hélt fram, ekki nokkurs staðar, og fór síðan í rökræðu við mig um þá staðreynd.

Hins vegar hef ég haldið því fram og sagði það hérna áðan að mér fyndist að vinna ætti áfram að málinu á vettvangi Evrópusambandsins. Ég vil líka segja vegna þeirra fyrirvara sem sjálfstæðismenn komu vissulega að í sumar og samþykktu en sátu síðan hjá við afgreiðslu málsins, að þeir segja í þessu framhaldsnefndaráliti að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. séu að engu orðnir. Það er alrangt. (Gripið fram í: Nei.) Stór hluti þessara fyrirvara eru felldir inn í viðauka samningsins. (Gripið fram í: Um hvað?) Það er því ranglega farið með staðreyndir í framhaldsnefndarálitinu.



[22:09]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðu hans. Eins og gefur að skilja er ég á engan hátt sammála orðum hans. Það virðist plaga ríkisstjórnarflokkana mest að það gæti gerst hér í framhaldi af því að málið yrði fellt á Alþingi að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn færu aftur í ríkisstjórn. Þessi málflutningur er náttúrlega hreint með ólíkindum því að við höfum margoft haldið því hér fram og stöndum við þau orð að líf ríkisstjórnarinnar hangir ekki á þessum Icesave-samningi þrátt fyrir það að hæstv. fjármálaráðherra hafi lagt hausinn oft að veði og að það snúist fyrst um hann og hagsmuni hans. Hann áttar sig ekki á því að hér er líf heillar þjóðar undir en ekki persónulegur metnaður hans fyrir sjálfum sér eða þessari vinstri stjórn.

Þetta eru hótanirnar sem Vinstri grænir eru beittir, að þessir hörmulegu flokkar skuli kannski komast í ríkisstjórn og með þessu er verið að reyna að fá Vinstri græna til að ganga í takt í þessari ríkisstjórn. Ég hef það beint frá þingmönnum Vinstri grænna að þetta eru hótanirnar, þetta eru nýjustu þumalskrúfurnar sem þeir eru beittir.

Þingmanninum var tíðrætt um að þessari ríkisstjórn stýri gamlir herforingjar. Ég veit nú ekki hvort hægt er að kalla þá aðila sem stjórna ríkisstjórninni herforingja en hitt man ég að svo sáttur var hæstv. fjármálaráðherra í sumar við stöðu sína að hann kallaði sig og hæstv. forsætisráðherra pabba og mömmu þingmanna. Fyrr má nú vera dónaskapurinn og yfirlætið í viðkomandi aðila.

Þá er ég komin að spurningunni — þetta var smáinngangur og pínusvör við ræðu þingmannsins: Úr því að hv. þm. Róbert Marshall er svona ánægður með þennan samning og telur að ekki verði komist lengra — þá er hann líklega að vísa í lánakjör og samninginn sjálfan — hvað finnst honum um það að í samningnum er (Forseti hringir.) ríkisstjórnin búin að afsala okkur skaðabótakröfu vegna beitingar hryðjuverkalaganna? Er það ásættanlegt?



[22:12]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má hverjum vera ljóst sem hlustaði á ræðu mína að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var ekki á meðal þeirra hlustenda vegna þess að ég fór mjög vandlega yfir skoðanir mínar á framgöngu Breta gagnvart okkur og lýsti því mjög ítarlega hvaða skoðun ég hefði á því og að ég liti svo á, eins og reyndar kom fram í ágætisminnisblaði frá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að það mál væri allt algjörlega órökstutt og þarfnaðist frekari skoðunar. Það er því ekki réttur skilningur sem þingmaður leggur í ræðu mína og því síður að það sé skoðun mín að ég sé hæstánægður með þann samning sem liggur fyrir. Það er langt í frá að ég hafi haldið því fram í ræðustól að ég væri hæstánægður með þann samning. Ég sagði að ég teldi að eins og staðan væri núna kæmust menn ekki lengra með þetta mál.

Það er gleðilegt að eiga orðaskipti við hv. þingmann þar sem hún er ekki að saka mann um landráð en ég vil þó líka fara fram á það að hún fari rétt með ræðu mína.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir hv. þingmenn um að nota rétt ávörp.)



[22:13]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað og reyna að svara spurningu minni. Honum er tíðrætt um orð sem 10. kafli hegningarlaganna fjallar um og ágætt að það komi frá þessum aðilum það orð sem ég ætla ekki að bera mér í munn að þessu sinni.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skyldi meðal annars afsala okkur skaðabótakröfu vegna beitingar hryðjuverkalaganna því að það eru miklir fjármunir sem liggja þar undir og hefur margoft verið bent á það. Það er búið að loka samningnum. Um leið og atkvæði verða greidd um frumvarpið er búið að loka þessum samningi og hann verður ekki tekinn upp, þingmenn verða að átta sig á því. Málinu er lokað og ríkisábyrgð er ekki breytt eftir á enda væri þá tilgangslaust að veita ríkisábyrgð.

Svo eru líka þau ákvæði sem eru svo alvarleg og ég fer yfir í ræðu minni í kvöld eða á morgun eftir því hvernig tími gefst til: Hvað finnst þá þingmanninum um það að ríkisstjórnin er líka að afsala sér friðhelgisréttindum (Forseti hringir.) þjóðarinnar og aðgangi að náttúruauðlindum okkar með þessum samningi?



[22:14]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær fullyrðingar sem fram koma í máli hv. þingmanns eru út úr öllum kortum og ekki svaraverðar. Hvað á þingmaðurinn við með því að verið sé að afsala sér náttúruauðlindum þjóðarinnar með þessum samningi? (Gripið fram í.) Það er algjörlega út úr öllum kortum að koma hingað í ræðustól og halda slíku fram. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu til hv. þingmanna að þeir rökstyðji svona fullyrðingar. (VigH: Í ræðu minni á eftir, þú verður að hlusta á hana.) Ég mun hlusta með athygli á hana.



[22:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðuna. Eins og gefur að skilja geti ég ekki tekið undir margt sem kom fram í hans ræðu og ég verð að viðurkenna að ég skildi hana ekki alveg alla, né heldur nákvæmlega um hvað hún fjallaði. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði til að mynda ekki mikið um þann viðskiptajöfnuð sem við þyrftum að skila til að geta staðið við samninginn. Hann talaði lítið um þau álit sem hafa fallið hér á síðustu dögum og vikum frá lögfræðistofum og slíkt en hann talaði meira um vinnulagið og hvernig þetta hefði átt að vera og hvernig skynsamlegra hefði verið að standa að þessu en raun ber vitni. Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort hann telji það ásættanlegt að keyra þetta mál í gegnum þingið á minnsta mögulega meiri hluta og það þegar talið er að um 70% þjóðarinnar séu á móti samningnum eða ríkisábyrgðinni. Telur hann að það sé nægilega rætt og nægilega kynnt fólkinu í landinu hvað Samfylkingin og Vinstri grænir eru að gera?

Mig langar jafnframt að spyrja hann hvort hann kannist ekki við þetta plagg sem nokkrum sinnum hefur verið veifað hér í ræðustól. Það er úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar má sjá svokallaða viðskiptadrauma, hvernig við eigum að skila nægilegum hagnaði í gjaldeyri á næstu árum til að geta staðið við skuldbindingarnar. Viðskiptahallinn þarf að vera jákvæður um 160 milljarða á ári næstu tíu árin, tekjur ríkisins þurfi að aukast um 50 milljarða á ári næstu árin. Er það sjálfgefið að landsframleiðsla aukist næstu árin miðað við hvernig við stöndum að stuðningi við atvinnufyrirtækin í landinu? Og hversu hátt getur skuldaþol Íslands af vergri landsframleiðslu orðið? Mig langar að heyra álit þingmannsins á þessum þáttum af því að þeir (Forseti hringir.) skipta gríðarlegu máli um hvort við getum staðið við þennan samning.



[22:17]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður beinir til mín fleiri spurningum en ég tel mögulegt að svara á þeim tveim mínútum sem ég hef til þess. Mig langar til að taka sérstaklega þann punkt að hann segist ekki hafa skilið ræðu mína. Nú er það svo að báðir þingmenn sem hafa farið í andsvör við mig frá því að ég flutti ræðu mína komu inn í salinn í ræðu minni miðri og hafa báðir afbakað þá ræðu sem ég flutti og virðast ekkert hafa verið að hlusta á það sem ég var að segja. Þeir koma síðan í andsvör við mig án þess að hafa verið í salnum, (Gripið fram í.) þeir komu báðir samhliða inn í þingsal og báðu um að fá að fara í andsvar (Gripið fram í.) og virðast ekki hafa heyrt nokkurn skapaðan hlut af því sem ég sagði í ræðu minni. Það er ekkert undarlegt að menn hafi ekki skilið ræðuna fyrst þeir voru ekki á staðnum. Ekki hafa þeir verið að hlusta á hana á milli þess þeir gengu hérna eftir ganginum og inn í þingsal, þeir hafa kannski misst af afar mikilvægum hluta sem er algjör grundvallarforsenda þess að ná einhverjum skilningi í hana.

Mig langar til að svara því líka varðandi minnsta mögulegan meiri hluta hér á þinginu að auðvitað er þetta mál sem nýtur ekki almenns stuðnings meðal þjóðarinnar. Hv. þingmaður nefnir hér einhverja skoðanakönnun sem segir að 70% þjóðarinnar séu á móti þessu máli. Mér kemur það verulega á óvart að það sé ekki stærri hluti þjóðarinnar sem sé andvígur þessu. Eðli málsins samkvæmt er öllum illa við þann samning sem hér er verið að gera. Það er enginn að gera þetta með glöðu geði. Það er eingöngu mismunur í hagsmunamati sem liggur á milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihlutans í þessu máli. Það er kaldhamrað mat stjórnarmeirihlutans að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið með því að þetta mál sé til lykta leitt með þeim hætti sem hér hefur verið kynnt.

Það þýðir ekki að þingmenn stjórnarmeirihlutans séu hæstánægðir með þann samning sem hér hefur náðst, síður en svo. Menn hafa ítrekað haldið því fram að þetta sé besta mögulega lendingin sem við getum náð í mjög vondri og þröngri stöðu. Það er staðreynd málsins, þar er kjarni málsins og um það verpist deilan.



[22:20]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kvartar yfir því að ég hafi komið hér inn í miðja ræðu hjá honum og ekki hlustað. Það getur vel verið að ég hafi farið á mis við eitthvað þegar ég gekk hér ganginn á milli, en get þó gert þingmanninum það til geðs að hlusta á ræðu hans á netinu eins og hann getur gert við þær spurningar sem ég spurði hann. Það væri mjög áhugavert ef þingmaðurinn mundi upplýsa þjóðina um skoðanir sínar og Samfylkingarinnar á þessu.

Hann kom hingað upp og sagði að menn hefðu ítrekað komið hingað og sagt frá skoðunum sínum. Það er ekki rétt. Ég held að almennt hafi skort á það að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi komið hingað upp og ítrekað skoðanir sínar til þess einmitt að reyna að selja þær skoðanir, til þess að reyna að efla þjóðarvitund um að þetta sé rétt leið. Það eru nefnilega í það minnsta 70% sem eru á þeirri skoðun að svo sé ekki.

Í andsvörum sínum áðan kom þingmaðurinn inn á að málinu væri hvergi lokið, það mætti taka það upp aftur. Mig langar að spyrja hann hvort hann sé á þeirri sömu skoðun og hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður fjárlaganefndar að hægt sé að taka málið upp og semja (Forseti hringir.) betur á nýjan leik, hvort hv. þingmaður telji ekki að það væri gáfulegast (Forseti hringir.) að semja nægilega vel núna svo að við þurfum ekki að taka málið upp aftur (Forseti hringir.) og semja að nýju.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)



[22:21]
Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það hér í ræðustól áðan að það kemur alltaf nýr dagur í pólitík og það kemur alltaf nýr dagur í samskiptum þjóða. Ég lít svo á að þessu máli sé ekki endanlega lokið með því sem gengið er frá hér. Enda hefur það komið fram í umræðum að nái menn betri kjörum, betri lánakjörum, eins og menn hafa ítrekað verið að segja að sé mögulegt að gera, er hægt að greiða þennan samning upp okkur algjörlega að kostnaðarlausu.

Það er líka hægt að vinna málið á alþjóðavettvangi og í samskiptum á milli þjóða. Það er stanslaust verið að gera það í hinum og þessum málum og auðvitað eiga Íslendingar að halda áfram að halda fram réttarstöðu sinni. Í ræðu minni leiddi ég fram þau rök sem mér finnast mikilvægust í þessu máli og af hverju ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að samþykkja þetta mál. Það eru önnur atriði sem aðrir nefna hér í ræðum sínum en ég hvet (Forseti hringir.) hv. þingmann til þess að lesa ræðu mína eða hlusta á hana á netinu og kynna sér hana til hlítar.



[22:22]Útbýting:

[22:23]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við Icesave-málið eða réttara sagt frumvarp um ríkisábyrgðarheimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna Icesave-skuldbindinga.

Sá sem hér stendur hefur komið allnokkrum sinnum upp og skýrt mál sitt þannig að í dag verður ræða mín einhvers konar upprifjun, einhvers konar viðbætur út frá því sem síðan hefur bæst við. En ég hef líka kallað eftir því að stjórnarþingmenn kæmu hingað upp í mun meira mæli en þeir hafa gert — en þeir hafa þó gert það í dag og það er gleðilegt — til að útskýra afstöðu sína. Ég tel að þar skorti á og það sé mjög nauðsynlegt fyrir fólkið í landinu að heyra af hverju stjórnin telur að þetta sé rétta leiðin.

Sú ábyrgð sem við ræðum hér kostar okkur um 100 milljónir á dag, hvern einasta dag. Hún er milli 35 og 40 milljarðar á ári alla vega og það jafnvel þótt skil eigna Landsbankans erlendis verði allt að 100% eftir því sem einstaka menn halda fram, alla vega 95%. Vextirnir einir gera það að verkum að við verðum að skila extra 100 milljónum í gjaldeyri á hverjum einasta degi alla vega í sjö ár hið minnsta eða skera niður og/eða skattleggja um þá upphæð og kaupa svo gjaldeyri með meðfylgjandi lækkunaráhrifum á íslensku krónuna.

Það sem er merkilegt í þessu máli, og það virðist vera alveg sama hvaða upplýsingar hafa komið fram, er að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar telja málið ávallt komið á lokastig og best sé að samþykkja það strax. Það gerðist í upphafi sumarþings þegar skyndilega var upplýst að samningur hefði náðst þó að tveimur dögum fyrr hefði hæstv. fjármálaráðherra sagt að málið væri hvergi nærri að klárast. Það er rétt að minna á, virðulegur forseti, að málið fór í gegnum ríkisstjórn og þingflokka stjórnarflokkanna án þess að samningurinn væri lagður fram. Þetta hefur m.a. komið fram í máli hv. þingmanns og fyrrverandi ráðherra Ögmundar Jónassonar.

Seinni tíma spuni stjórnarflokkanna hefur verið sá að alltaf hafi átt að sýna samninginn, en það er einfaldlega ekki rétt. Það hefur m.a.s. komið fram í tölvupóstum þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, sem birtust á Wikileaks-netmiðlinum, dagsettum fyrir kosningar í vor eða 13. apríl, til eins af fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að gott væri að bíða með birtingu og umræður um samninginn vegna fyrirliggjandi kosninga.

Virðulegi forseti. Ráðuneytisstjóri, ekki pólitískur ráðgjafi fjármálaráðherra hæstv., sem hann varð síðar — nei, ráðuneytisstjóri virðist hafa farið fram á leynd upplýsinga fram yfir kosningar því að það hentaði hans seinni tíma atvinnurekanda, hæstv. fjármálaráðherra. Leynd upplýsinga frá ráðuneytisstjóra fyrir kosningar, um fjárhæðir sem skipta okkur nokkur hundruð milljörðum, upplýsinga sem hefðu vel getað haft áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Annar ráðuneytisstjóri frá sambærilegum tíma er nú sakaður um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar til að forða tugum eða hundruðum milljóna fjölskyldueigna og ekki ætla ég að gera lítið úr því meinta broti. En mér finnst sérkennilegt að upplýsingar um fyrrnefnda leynd upplýsinga skuli ekki fá meiri athygli í íslenskri samtímaumræðu. Það er svo sem eftir öðru í þessu sérkennilega máli.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði strax í vor að samningurinn væri góður. Það er ekki hægt að koma heim með lítinn sætan samning um stórt og ljótt mál, minnir mig að hæstv. ráðherra hafi sagt. Hann barðist gegn vinnu þingsins í sumar, vinnunni við fyrirvarana, enda væri samningurinn góður. Við atkvæðagreiðsluskýringu féllu orðin „og þó fyrr hefði verið“ um leið og hæstv. ráðherra sagðist styðja málið. Í haust átti fyrst að afgreiða málið fyrir 23. október, annars færi allt í steik. Síðan var það lok nóvember og nú segja hæstv. fjármálaráðherra og forsvarsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar: Nú verðum við að afgreiða málið fyrir áramót.

Virðulegur forseti. Hver er trúverðugleiki slíks málflutnings? Hver trúir því að allt fari á allra versta veg þegar sýnt hefur verið fram á það trekk í trekk að málflutningur hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnar eru innantómar hótanir, hótanir til heimabrúks. Enginn vill kannast við að hafa hótað okkur, ekki Norðurlöndin, ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og jafnvel ekki Evrópusambandið ef marka má ræður hæstv. forsætisráðherra.

Það er hins vegar efni í langa ræðu að tala um efnistök og ótrúlega fjarveru hæstv. forsætisráðherra í umræðum í þessu einu stærsta hagsmunamáli íslenskrar þjóðar. Það hefur margoft komið fram að skortur á upplýsingum innan lands og gagnsæi hefur haft afar neikvæð áhrif á umræðu um málið, alið á tortryggni og sundrungu innan þings og einnig meðal þjóðarinnar. Afleiðingin er sú að himinn og jörð eru á milli 25% þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar annars vegar og 70% þjóðar og um helmings þingmanna hins vegar í þessu máli. Það er vond stjórnsýsla og afleitt lýðræði að koma málum svona fyrir. Hér svífur engin norræn lýðræðishefð yfir vötnunum.

Einhvern tíma hefði verið sagt að djúp gjá væri milli þings og þjóðar þó að réttara væri að segja að gjáin sé milli stórs meiri hluta þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar. Hvernig eigum við að standa saman sem þjóð þegar svona er í pottinn búið? Hvernig eigum við að efla baráttuandann fyrir því að snúa vörn í sókn þegar ekki virðist vera hægt að ná saman í að verja grundvallarhagsmuni Íslands? Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt hér í umræðunni að hann sé tilbúinn að axla pólitíska ábyrgð á málinu. Það er ákveðið hugrekki í því en það léttir ekki byrðar þjóðarinnar af að greiða þessar ósanngjörnu skuldbindingar einkabanka.

Enn á ný biðla ég héðan úr ræðustóli Alþingis til hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarþingmanna um að taka málið til endurskoðunar, taka allar þær upplýsingar sem fram hafa komið í álitum enskra lögfræðistofa eins og Mishcon de Reya og Ashurst, sem reyndar var meiri hlutanum til ráðuneytis við gerð samningsins og telst því varla óháður aðili frekar en íslensku lögfræðiprófessorarnir Eiríkur Tómasson og Björg Thorarensen sem einnig komu að gerð samninganna, sem sagt taka til skoðunar áðurnefnd lögfræðiálit, taka álit IFS um áhættumat og greiðsluþol, taka álit fyrrverandi utanríkisráðherra hrunríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um forsendur samninganna og hvernig menn virðast hafa komið að samningsgerðinni fyrir hönd Íslands. Einnig að taka álit Evrópufræðastofnunar í hagfræði í Brussel, Centre for European Policy Studies, um jafnræði til vaxtaprósentu, og álit kennt við Daniel Gros, annan hagfræðinginn sem það vann — öll þessi álit hafa komið fram á síðustu vikum og mánuðum og reyndar fleiri. Öll þessi álit ættu, ef allt væri eðlilegt, að laða fram samstarfsvilja allra þingmanna og ríkisstjórnar að fara yfir málið frá grunni.

Auðvitað ættum við að setjast niður og reyna að ná saman. Auðvitað er það galin aðferðafræði að ætla að keyra í gegnum þingið með lágmarksmeirihluta, gegn stórum meiri hluta þjóðarinnar, svona ósanngjarnt mál sem vegur að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Afleiðingin verður sundrung og ósamstaða. Þess í stað ættum við hér á Alþingi að setja saman þverpólitískan hóp þingmanna sem réði sér sérfræðinga, jafnt erlenda sem innlenda, til að fara yfir þær forsendur sem Ísland þyrfti á að halda með tilvísun í Brussel-viðmiðin meðal annars, en einnig með tilvísun til þess að nú eru allt aðrir tímar í efnahagsástandi umheimsins en voru síðasta haust þegar allt hrundi og menn óttuðust að bankakerfi heimsins hryndi saman. Þingmannahópurinn ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar færi síðan í markvissa upplýsingaherferð til nágrannaríkja okkar, ríkisstjórna og þinga, þingmanna og fjölmiðla. Það er sá þáttur sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið einna verst að og gagnrýniverðast er í þeirra framgöngu.

Við framsóknarmenn sögðum strax síðasta sumar að samningurinn sjálfur væri svo slæmur að fyrirvarar, þrátt fyrir að vera í rétta átt, dygðu ekki. Við óttuðumst að Bretar og Hollendingar litu á afgreiðslu Alþingis í ágúst sem gagntilboð og þeirra gagntilboð yrði því enn verra fyrir Ísland og íslenska þjóð eins og raun bar vitni. Lögfræðiálit ensku lögfræðistofunnar Mishcon de Reya staðfestir að það álit okkar síðasta sumar var rétt.

Því miður var ekki farið að tillögum okkar og því erum við enn að ræða og meta í hvaða stöðu við erum. Einn helsti sérfræðingur í erlendum skuldaskilum, milliríkjasamningum, Lee Buchheit, sem kom á fund fjárlaganefndar í sumar, lagði til að við færum aftur til Breta og Hollendinga og semdum upp á nýtt. Það væri alveg sama hvað við gerðum, niðurstaðan yrði alltaf sú sama, við yrðum að semja upp á nýtt, samningurinn væri afleitur.

Virðulegi forseti. Mig langar að benda á að í áliti Mishcon de Reya um skaðleysiskafla samninganna, sem ég gerði jafnframt að umtalsefni í sumar sem leið, sýnir það kannski einna best að ekki er hægt að gera vondan samning góðan, ekki einu sinni ásættanlegan fyrir íslenska þjóð, en þar kemur fram m.a. að aldrei verði unnt að krefjast bóta vegna vanefnda Breta og Hollendinga né bóta vegna hryðjuverkalagabeitingar Breta. Það er einlæg ósk mín að meiri hluti Alþingis átti sig á að ekki sé hægt að keyra slíkt mál sem einhvers konar flokkspólitískt mál í gegnum þingið með minnsta mögulega meiri hluta. Þegar um er að ræða mál eins og ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóði, með öllum þeim ágöllum, efasemdum, ósanngirni og óréttlæti sem raun ber vitni, ættu stjórnvöld á hverjum tíma að gera allt sem hægt er til að reyna að tryggja víðtæka sátt í samfélaginu, alla vega aukinn meiri hluta á þinginu. Annars er hætta á að efnt sé til ófriðarbáls sem erfitt geti reynst að hemja.

Virðulegi forseti. Ef það gerist, sem ég svo sannarlega vona að ekki verði, þ.e. að frumvarpið verði að lögum, er lágmark að þjóðin fái að kjósa um það. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er því miður enn fyrir að hitta óbilgjarna forsvarsmenn ríkisstjórnar sem hafa skipt um skoðun frá kosningum og frá stefnu viðkomandi flokka og telja að nú sé ekki rétti tíminn til að láta þjóðina segja sitt álit eða að þetta sé ekki málið sem leggja eigi fyrir þjóðina.

Á mbl.is 4. des. sl. er haft eftir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Sum mál eru ekki til þess fallin að leggja undir þjóðina, ekki gerlegt eða henta að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hins vegar segir Indefence-aðilinn, fulltrúinn Ólafur Elíasson, sama dag á mbl.is:

„Ekkert mál hentar betur.“

Síðar í sömu frétt er haft eftir Ólafi að þjóðin hafi fengið heilt ár til að ræða Icesave-málið og fjöldi sérfræðinga veitt álit sitt, með leyfi forseta segir:

„Ekki er hægt að finna nokkurn Íslending sem kemur þetta mál ekki við.“

Einnig, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að vera bara tónlistarkennari gengur mér ágætlega að skilja þetta mál. Við í Indefence höfum rætt þetta mál við alla þessa sérfræðinga, þingmenn og ráðherra og við höfum djúpa sannfæringu fyrir því að íslenskum almenningi sé ekki síður treystandi til að taka lokaákvörðunina í þessu máli. Þvert á móti.“

Einnig má benda á fyrri skoðun hæstv. fjármálaráðherra, 4. mars 2003, í umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu, sennilega varðandi Kárahnjúkavirkjun. En þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Við erum gæslumenn þessa lands, ekki bara fyrir hönd okkar sjálfra heldur einnig komandi kynslóða í landinu.“

Seinna í sömu ræðu, með leyfi forseta:

„Þjóðin er þeirrar skoðunar að mikilvægustu mál eigi að leggja í hennar dóm.“

Virðulegi forseti. Hvað skyldi hafa breyst? Er Icesave ekki eitt mikilvægasta mál þjóðarinnar? Málið í hnotskurn, að mati hæstv. fjármálaráðherra, virðist frá mínum bæjardyrum séð vera þetta — eins og honum fannst reyndar upphaflegi samningurinn vera án allra fyrirvara — þ.e. endanleg útgáfa að samningi um skuldbindingu við aðrar þjóðir. Ég hefði hins vegar talið að verið sé að setja þessa útgáfu af samningi undir þjóðaratkvæði ef okkur auðnast ekki að ná víðtækari sátt um nýjan og betri samning. Ef þjóðin hafnar samningnum þurfum við að gera annan betri þar sem hagsmunum þjóðarinnar verði betur borgið.

Að lokum, virðulegi forseti: Þessa dagana erum við að ná saman í öðru mikilvægu máli hér í þinginu, um rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli íslensku bankanna. Það er mikilvægt mál og mikilvægt að standa almennilega að lagasetningu í kringum það eins og rannsóknina alla. Ég vil gera það að tillögu minni hér að við förum strax að huga að því að skipa rannsóknarnefnd er rannsaki allt Icesave-málið, allt frá upphafi Icesave-reikninganna og eftirliti eða réttara sagt eftirlitsleysi með þeim, sem væntanlega verður tekið á í rannsóknarskýrslunni sem verður birt í næsta mánuði. Ekki er síður nauðsynlegt að kanna með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hafa farið með samningsgerðina og hagsmunagæslu Íslands frá því eftir hrun bankanna og allt til þess dags að ríkisábyrgðin verði staðfest, sem ég ítreka að verði vonandi aldrei. Ég tel þetta vera mikilvægt vegna þess hve margt er óljóst, margt er í leyniskjölum, leynimöppum, duldar hótanir sem erfitt virðist vera að finna andlit á.

Lokaorð mín eru þessi: Vísum málinu frá og til þings og ríkisstjórnar. Felum ríkisstjórninni að taka upp viðræður við bresk og hollensk stjórnvöld á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Jafnframt skulum við huga að því að setja á laggirnar rannsóknarnefnd sem rannsaki sérstaklega Icesave-málið frá hruni bankanna til endiloka málsins. Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.



[22:38]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér á lokasprettinum svokallað Icesave-mál sem er orðið öllum vel kunnugt og mikið búið að tala í því máli. Mig langar samt í þeim ræðutíma sem ég hef hér til að fara aðeins yfir aðdraganda málsins, þ.e. alveg frá því að bankarnir hrundu fyrir rúmu ári.

Það er nefnilega þannig að frá því að það gerðist hafa íslensk stjórnvöld alla tíð haldið vitlaust á málunum. Hæstv. fjármálaráðherra fór, í ræðu sinni áðan, mjög vandlega yfir þær yfirlýsingar sem voru gefnar af hálfu íslenskra stjórnvalda þegar bankarnir hrundu og það kemur alltaf betur og betur í ljós að okkur hefur alla tíð vantað stefnu í málinu. Við höfum verið að gefa yfirlýsingar, bæði ábyrgar og óábyrgar, lofað einu og öðru og sitjum að hluta til uppi með það en hefðum við þau erfiðu skilyrði sem sköpuðust hér síðasta haust að átta okkur á því viðfangsefni sem við var að etja. Við hefðum að sjálfsögðu átt að fá einhvern færan samningamann í alþjóðasamningum, sem þekkir inn á þessi mál, til þess að fara yfir hvernig við ættum að vinna okkur út úr erfiðleikunum.

Það kom mjög berlega í ljós þegar hingað kom einn virtasti og reyndasti samningamaður í heiminum, Lee Buchheit frá Bandaríkjunum, og benti á þær aðferðir sem menn nota við skilyrði sem þessi. Það var feillinn í upphafi alla tíð. Þó verð ég að segja, virðulegi forseti, að það sem er þó sárgrætilegast við þetta allt saman er að við virðumst ekkert læra af öllum þeim mistökum sem við gerum vegna þess að við föllum alltaf í einhverjar gryfjur og við erum alltaf að takast á innbyrðis, stjórn og stjórnarandstaða, í staðinn fyrir að standa saman um það hvernig við ættum að losa okkur frá þessum málum. Það er það dapurlegasta við þetta.

Frá því að skrifað var undir samningana 5. júní, af hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, hefur þetta mál allt verið í skötulíki. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði hér í óundirbúnum fyrirspurnum 3. júní, tveimur dögum áður, að ekkert væri að gerast í málinu, það væru óformlegar þreifingar en engra stórra tíðinda að vænta. Innan tveggja sólarhringa voru síðan lagðir fram skriflegir samningar sem segir náttúrlega allt um það að menn voru þá komnir mjög langt í þessu máli og það er alveg hreint með ólíkindum.

Ég vil líka rifja það upp að þegar þetta var gert var komið fram að einn hæstv. ráðherra sem var þá starfandi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði miklar athugasemdir við þetta og lýsti andstöðu sinni við þennan gjörning þegar hann sat í hæstv. ríkisstjórn. Ég lít á það sem mjög alvarlegt mál að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra skuli skrifa undir samningana vitandi það að hugsanlega sé ekki meiri hluta fyrir því á Alþingi Íslendinga.

Í framhaldinu gerði hæstv. ríkisstjórn allt sem hún gat til þess að reyna að koma samningunum í gegnum þingið en sem betur fer mistókst það hjá hæstv. ríkisstjórn. Það sem gerðist í framhaldi af því var að þingið tók völdin af framkvæmdarvaldinu og fór í það að setja svokallaða fyrirvara. Það náðist pólitísk breið samstaða um fyrirvara Alþingis í ágústmánuði og það var mjög dapurlegt að við skyldum ekki ná að halda henni. Það er alltaf hægt að vera vitur eftir á en við hefðum auðvitað átt að nýta þá pólitísku samstöðu og fá stjórnarandstöðuna með í lið til þess að fylgja því eftir hvernig það væri kynnt fyrir Bretum og Hollendingum hvernig íslenska þjóðin vildi standa að því til að verja sig í hinni fordæmalausu stöðu sem við erum í núna.

Því miður lánaðist okkur ekki að gera það og það skrifast að sjálfsögðu algjörlega á hæstv. ríkisstjórn, hvernig hún hélt á málunum eftir það. Það er alveg hreint með ólíkindum. Mér finnst það í hæsta lagi barnalegt af hæstv. ríkisstjórn að halda að í einni erfiðustu milliríkjadeilu landsins sé það boðlegt, og mér finnst það nánast vanvirðing við störf þingsins hér í allt sumar, að skrifa bréf til forsætisráðherra Breta og Hollendinga. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti? Að mínu viti er þetta fyrir neðan allar hellur. Það gat enginn vænst neins árangurs af því að gera þetta svona. Auðvitað átti hæstv. ríkisstjórn að krefjast þess að fá að setjast niður með bæði forsætisráðherrum og fjármálaráðherrum Breta og Hollendinga og fara yfir stöðu mála og kynna fyrir þessum einstaklingum lögin sem voru sett á Alþingi. Nei, hæstv. ríkisstjórn kýs að senda bréf sem svar barst við mörgum vikum síðar. Og hvernig heldur hæstv. ríkisstjórn að hægt sé að ná einhverri vitrænni niðurstöðu í þessa samninga með því að gera þetta með þessum hætti? Það er alveg hreint með ólíkindum að svo hafi verið.

Það hefur komið fram hér, í máli sumra hv. stjórnarþingmanna, og það kom fram í máli hv. þm. Róberts Marshalls hér áðan — hann átti hér kaflaskipta ræðu, eins og hann orðaði það sjálfur, og ég er algjörlega sammála honum í því — að hann hefði upplifað það þannig að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við lokaafgreiðslu málsins hefðu þeir verið að hlaupast undan merkjum og hefði þá enginn vilji verið til sátta og verið falskur sáttatónn.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég var í mjög miklum vandræðum með það hvernig ég ætti að greiða atkvæði í þessu máli, ég viðurkenni það fúslega. Ég vann að málinu í fjárlaganefnd með mörgum þeim hv. þingmönnum sem störfuðu þar og við lögðum okkur fram um það að reyna að koma þessu upp úr pólitískum hjólförum og það tókst í vinnu fjárlaganefndar. Það sem réð úrslitum í því að ég sat hjá við endanlega afgreiðslu málsins — en greiddi að sjálfsögðu öllum fyrirvörunum atkvæði mitt — var það að ég var mjög ósáttur við að það skyldi vera búið að gera samning sem við gátum ekkert farið í. Við erum að setja hér lög um ríkisábyrgð en samningurinn er gerður á milli tryggingarsjóðanna, tryggingarsjóðs Íslendinga og Seðlabankans og síðan tryggingarsjóða Breta annars vegar og Hollendinga hins vegar. Við höfðum engin færi á því að fara inn í samninginn sjálfan vegna þess að Alþingi Íslendinga hafði enga aðkomu að samningunum.

Það sem ég var ósáttur við, og réð úrslitum í því að ég sat hjá við lokaafgreiðslu málsins, var það að við greiddum vexti frá 1. janúar 2009, sem þýðir það að við erum að greiða aukalega einhvers staðar í kringum 30–35 milljarða sem okkur bar ekki lagaleg skylda til að gera. Þó svo að fyrirvararnir hafi verið settir, sem voru mjög skynsamlegir, var mjög margt annað í þessum samningi, til að mynda það að við greiðum líka um 3 milljarða í umsýslugjöld til Breta og Hollendinga í kostnað fyrir það að greiða út bæturnar til íbúa í Bretlandi og Hollandi sem áttu innstæður á Icesave-reikningunum, án þess að nokkurn tíma hefðu verið færð fyrir því rök í hverju sá kostnaður fælist. Það var bara samið um u.þ.b. 3 milljarða sem ætti að greiða Bretum og Hollendingum fyrir það ómak að borga innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi, það væri umsýslukostnaðurinn eins og það var orðað.

Ég var mjög ósáttur við þetta og ég var svo sem mjög ósáttur við margt annað. Í samningunum var Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta búinn að skrifa undir það að falla frá þeim skaðabótum sem okkur yrðu hugsanlega dæmdar vegna þess að Bretar beittu okkur hryðjuverkalögunum. Það er hreint með ólíkindum að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skuli skrifa undir slíkan samning, að falla frá því að við getum sótt, ef við ættum þá einhverja kröfu á því, skaðabætur út af setningu hryðjuverkalaganna. Allir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hér inni eru væntanlega sammála um að það var mjög ómaklegt af Bretum og Hollendingum að setja þau lög.

Þetta réð fyrst og fremst afstöðu minni. Ég er mjög hugsi eftir að hafa heyrt suma hv. þingmenn halda þessu fram í ræðum í dag en því miður hafa hv. stjórnarþingmenn ekki talað mikið til þessa fyrr en núna í 3. umr. Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, að þetta hefur angrað mig töluvert, ég skal bara vera heiðarlegur með það. Það segir manni kannski að menn þurfi að tala meira saman og fyrst og fremst að læra af þeim mistökum sem alla tíð hafa verið gerð í þessu máli. Allir flokkar eiga einhverja sök, það er bara einu sinni þannig. Þó að ég hafi sest hér á þing í vor og hafi ekki komið að þessu með neinum beinum hætti á minn flokkur sannarlega sök á því hvernig fór í því grandvaraleysi sem var hér. Það eiga líka bæði framsóknarmenn, samfylkingarmenn og vinstri grænir. Við eigum hins vegar ekki að vera að rífast um það hér hvernig við stöndum að þessu heldur eigum við að snúa bökum saman til að ná árangri, til að verja hagsmuni Íslendinga sem við öll viljum gera.

Virðulegi forseti. Ég hef verið mjög hugsi yfir því þegar hv. stjórnarþingmenn hafa haldið því fram að svokallað minnisblað, sem var skrifað undir 11. október, hafi bundið ríkisstjórnina að einhverju leyti. Það er alrangt og ég hef sagt það margoft hér í þessum ræðustól að það er alrangt. Þó svo að hæstv. fjármálaráðherra taki upp á því að veifa þessu og gerði það síðast í lok 2. umr. í byrjun mánaðarins er þetta rangt. Þetta er rangur málflutningur og menn eiga ekki að vera með rangan málflutning. Það minnisblað sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi til utanríkismálanefndar milli 2. og 3. umr. staðfestir það endanlega. Þar lýsir hún því mjög vel hvernig þetta var gert og hvernig samkomulagið var núllstillt þegar samið var um Brussel-viðmiðin. Það var líka búið að lýsa því yfir af Hollendingum í þessu minnisblaði sem tveir embættismenn skrifuðu undir, einn frá framkvæmdarvaldinu og einn í Seðlabankanum, að þeir séu tilbúnir að virða þau og semja á öðrum forsendum en þetta minnisblað var um. Það er mjög dapurlegt að margir hv. þingmenn skuli enn halda þessu fram. Það er mjög dapurlegt og ég geri kröfu til þess eftir alla þessa umræðu að menn kynni sér málið þannig að þeir standi þá rétt að því hvernig það gekk.

Menn hafa sagt hér að þetta minnisblað hafi elt menn eins og draugur en ég vil árétta að ég spurði formann samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, sérstaklega að því sjálfur á fundi í fjárlaganefnd, hvort þetta hafi truflað samningsferilinn hjá íslensku samninganefndinni. Svarið var mjög einfalt: Nei, það truflaði okkur ekki neitt. Við vorum send út til að ganga frá lánasamningi og þetta truflaði okkur ekki neitt. Þó svo að Bretar og Hollendingar hafi hugsanlega verið að veifa þessu eitthvað truflaði það samninganefndina ekki neitt. Það var staðfest af formanni nefndarinnar og um það á ekkert að þurfa að ræða meira. Hæstv. ráðherrar eiga að láta af þeim ósið að vera að veifa þessu uppi í ræðustól Alþingis þegar þeir eiga að vita betur, að það er ekki bundið. Þá er ég líka mjög hugsi yfir því, virðulegi forseti: Getur það verið að einhverjir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar telji sig bundna af þessu minnisblaði þegar svo er sannarlega ekki?

Ég vil líka koma inn á það sem breytist í fyrirvörunum sem settir voru núna í ágúst. Þá er það náttúrlega fyrst og fremst þessi lagalegi fyrirvari sem var settur, um það að ef svokallaður úrlausnaraðili, eða þar til bær aðili var það nú orðað nákvæmlega í fyrri samningunum, mundi dæma þannig að Íslendingum bæri ekki skylda til að greiða þetta — og við skulum hafa í huga að Íslendingar hafa aldrei viðurkennt lagalega skyldu til þess að greiða þetta vegna gallaðrar löggjafar Evrópusambandsins — þá væri hægt að takmarka ríkisábyrgðina við það. Hugsunin á bak við það hjá lögfræðingunum sem settu þetta inn í fyrirvarana var sú að það þyrfti ekki að vera dómstóll sem mundi gera það, það gæti hugsanlega verið ráðherraráðið eða einhver önnur stofnun á vegum Evrópusambandsins sem mundi líta svo á að þessu þyrfti að breyta og þá gætum við fallið undir það og þá gátum við takmarkað ríkisábyrgðina við það. Núna er haldreipið hins vegar það að ef þetta verður þurfa menn að setjast niður með Bretum og Hollendingum og það er algjörlega undir sjónarmiði þeirra komið hvort við fáum þá einhverja leiðréttingu á þessu máli. Þó svo að fyrir liggi pólitísk yfirlýsing frá fjármálaráðherrum landanna er það ekki mikið í mínum huga.

Mig langar síðan á þeim stutta tíma sem ég á eftir aðeins að koma inn í fyrirvarann sem kenndur er við Ragnar H. Hall um lagskiptingu krafnanna. Við erum alltaf að tala um að við viljum tryggja lágmarksinnstæðueign sem er 20.887 evrur. Það er mjög einfalt að skýra þetta út, virðulegi forseti. Það er þannig að það eina sem farið er fram á er að þegar íslenskt fyrirtæki verður gjaldþrota verði farið eftir íslenskum lögum og gjaldþrotarétti. Það er það eina sem verið er að fara fram á, ekkert annað. Það er nú öll óbilgirnin í því. Síðan gerir tryggingarsjóðurinn samning við bresku og hollensku tryggingarsjóðina, að þeir séu jafnstæðir í kröfunum. Það er mjög óréttlátt að þetta sé gert með þessum hætti og með því að setja þessa EFTA-krækju á fyrirvarann er nánast búið að draga allt hald úr honum.



[22:53]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir ræðu hans, mér fannst hún ærleg og málefnaleg. Kannski fannst mér mest til koma þegar hv. þingmaður lýsti því að hann hefði átt í erfiðleikum með að gera upp við sig hvort hann ætti að greiða atkvæði með eða á móti frumvarpinu þegar það varð að lögum fyrr á þessu ári, í lok ágúst. Það hefur þá væntanlega vafist fyrir honum hvorum megin háskinn var meiri, að samþykkja frumvarpið eða láta það falla ósamþykkt.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er háski á báðar hendur. Ég styð þetta frumvarp vegna þess að ég tel að í stöðunni sé þetta besta leiðin til að greiða úr þeirri mjög svo erfiðu milliríkjadeilu og flækju sem þetta mál hefur bakað okkur Íslendingum. En það er samt þannig að enginn getur flúið fortíðina.

Hv. þingmaður sagði réttilega að menn ættu ekki að láta fortíðina þvælast of mikið fyrir sér. Ég er honum algjörlega sammála um það. Ég skorast ekki undan minni ábyrgð sem ráðherra í núverandi ríkisstjórn, ríkisstjórninni þar áður og líka þar áður. Ég tel að í þeirri stöðu sem kom upp hafi menn valið þá leið sem var happadrýgst.

Hv. þingmaður gerir minnisblaðið að umtalsefni og segir að hann geri kröfur til þess að enginn telji að það hafi haft áhrif. Ég ætla ekki að verða við kröfu þessa þingmanns, alls ekki. Menn geta aldrei tekið slíkan hlut og núllstillt hann eins og hv. þingmaður segir. Það er hins vegar alveg rétt hjá honum að fyrrverandi utanríkisráðherra sagði í minnisblaði sínu að þetta hefði verið pólitísk skuldbinding en hefði ekki réttarleg áhrif. Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra lesið upp bæði yfirlýsingar hennar og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra þar sem þau skýra í hverju þessi pólitíska skuldbinding felst. Hún felst í því að greiða það sem við getum kallað lágmarkstrygginguna. Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra sagði það hreint út. Það er ekki hægt að slíta það frá þessu máli. Þess vegna voru Brussel-viðmiðin sett, (Forseti hringir.) til að reyna að komast frá þessu. Þess vegna erum við í þessari stöðu. Auðvitað hafði minnisblaðið áhrif þó að það hafi kannski ekki (Forseti hringir.) haft úrslitaáhrif.



[22:55]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið. Mín skoðun er sú að þegar við vorum búin að setja fyrirvarana við frumvarpið í ágústlok sem þessi breiða pólitíska samstaða náðist um leit ég svo á, og lít svo á enn þann dag í dag, að tillit hefði verið tekið til svokallaðra Brussel-viðmiða. Það er alveg klárt í mínum huga, sérstaklega eftir að hafa lesið minnisblaðið frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og gert mér enn þá betur grein fyrir því ástandi sem var. Það er líka rakið í þessu minnisblaði hvernig ástandið var hjá hinum Evrópusambandslöndunum. Þar gáfu menn yfirlýsingar eins og við gerðum til að reyna að verjast áhlaupi á bankakerfið. Þar voru menn fyrst og fremst að hugsa um að það yrði ekki áhlaup á bankakerfið í þeirra eigin landi.

Það var markmiðið hjá þeim að gera það. Þess vegna taldi ég að þegar lagaleg óvissa ríkir núna um það hvort okkur beri að greiða þetta vegna gallaðrar Evróputilskipunar hafi þetta verið — ef Bretar og Hollendingar hefðu samþykkt fyrirvarana eins og þeir voru hefðu allir getað sæst á það. Bretar og Hollendingar hafa það ekkert í hendi þó að menn bendi á dómstólaleið og ef það færi þá leið er ekkert víst að Bretar og Hollendingar fengju neitt út úr því. Þeir gætu alveg eins tapað málinu þar. Mér finnst, virðulegi forseti, að Bretar og Hollendingar hefðu alveg eins getað rétt út sáttarhönd og sagt: Þetta rúmast innan markmiða Brussel-viðmiðanna, til að þetta gæti gerst með þeim hætti.

Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að þegar menn eru enn að tala um þetta minnisblað verð ég bara að minna á að það er kannski vandi hæstv. fjármálaráðherra að hann lítur svo á að tveir einstaklingar geti gert skuldbindandi kröfu á Alþingi Íslendinga. Það er ekki þannig. Það verður að samþykkja þetta á Alþingi Íslendinga til að skuldbindingin taki gildi en ekki eitthvert minnisblað úti í bæ. Þetta er algjörlega (Forseti hringir.) fáránlegt.



[22:58]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér algjörlega verið sammála hv. þingmanni, sérstaklega þegar minnisblaðið sem um ræðir var ekki borið undir þá ríkisstjórn sem þá sat, sérstaklega þegar ráðherrar sem höfðu töluverðu hlutverki að gegna vissu ekki af því. Það var ekki bara ætlun þeirra sem þá fóru með hin fjármálalegu völd að gera drög að samkomulagi við Hollendinga heldur líka við Breta. Við skulum ekki gleyma því.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er lagaleg óvissa. Um það eru allir flokkar sammála. Hv. þingmaður, og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti elegant ræðu hér 5. desember 2008. þar sem hann skýrði út af hverju, miðað við þá lagalegu óvissu sem ríkti þá, það væri betra að fara samningaleiðina vegna þess að hugsanlega gæti það gerst sem hv. þingmaður sagði áðan, að Hollendingar og Bretar mundu tapa málinu. Hugsanlega gæti það samt líka gerst að Íslendingar töpuðu málinu. Í þeirri skýrslu sem hér hefur verið mest vitnað til í kvöld, skýrslunni frá Mishcon de Reya, er bent á þann möguleika að svo kynni að fara, ef málið færi fyrir dóm, að Íslendingar töpuðu því. Eins og ég les þá skýrslu og hef pælt í gegnum þessar 85 blaðsíður, að vísu á flókinni ensku, er sá möguleiki uppi að ef á versta veg færi kæmum við verr út úr málinu sem næmi 600–700 milljörðum kr., sem sagt að allar kröfur þeirra yrðu teknar til greina. Þetta var væntanlega það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sem er í dag formaður Sjálfstæðisflokksins hafði í huga þegar hann færði rök fyrir því að í þessari stöðu væri best að fara samningaleiðina. Ég er sammála því.

Síðan vil ég aðeins átelja hv. þingmann, þrátt fyrir málefnalega ræðu, fyrir að tala um að ríkisstjórnin hafi ekkert gert nema að senda eitt lettersbréf. Ja, utanríkisráðherra er til þess að tala við fólk í útlöndum og hann hitti þó á síðustu (Forseti hringir.) tveimur mánuðum 21 utanríkisráðherra, þar á meðal þá sem hv. þingmaður nefnir, og ég man ekki hvort það voru 13 eða 15 sendiherrar o.s.frv. (Forseti hringir.) til að tala máli Íslands.



[23:00]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei sakað hæstv. utanríkisráðherra um að tala ekki máli Íslands, það hef ég aldrei gert. En það sem ég sagði í ræðu minni áðan var að þegar menn standa í milliríkjadeilu sem þessari er í hæsta lagi barnalegt að ætla að þegar menn eru búnir að setja lög frá Alþingi við samningana eða skrifa undir samninga við Breta og Hollendinga — hæstv. fjármálaráðherra skrifar undir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, hann gerir það, hann fær leyfi hjá öllum ráðherrum til þess nema einum. (Utanrrh.: Það getur ekki verið.) Hann skrifar undir, það þarf enginn að segja mér, hæstv. utanríkisráðherra, að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki fengið samþykki hjá öllum hinum hæstv. ráðherrunum. Hann skrifar undir samkomulagið (Gripið fram í.) og við sjáum þetta alveg fyrir okkur, það þarf ekkert að fara í — (Utanrrh.: … samkomulagið við Breta stoppað?) Hæstv. fjármálaráðherra skrifar undir samkomulagið 5. júní, það er það sem ég er að tala um. (Gripið fram í: Já.) Þegar það er búið koma menn ekki aftur og segja: Bíddu við, hvað gerist nú? Er ekkert að marka þennan hæstv. fjármálaráðherra? Hann skrifar bara undir samkomulagið og svo er ekkert marka það. Svo er farið að vinna í málinu og Alþingi tekur völdin og þegar búið er að setja fyrirvarana er auðvitað, eins og ég sagði áðan, í hæsta lagi barnalegt að halda því fram að það hefði verið einhver von um að fá einhverja vitræna niðurstöðu í málið öðruvísi en að setjast niður á hæsta „level“. Það hefur margoft komið fram að menn leysa ekki svona milliríkjadeilur á „embættismanna-level“, menn verða að færa þetta upp, eins og ég sagði í ræðu minni, til forsætisráðherra og fjármálaráðherra þessara landa. Það gerist með þeim hætti. Það er algerlega útilokað að senda síðan til baka nánast sömu samninganefndina til að kynna það sem var verið að gera og síðan á að skila einhverri niðurstöðu. Auðvitað átti að taka forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna með sér og sýna þeim fram á það hvert … (Gripið fram í.) vegna þess, virðulegi forseti, að Bretar og Hollendingar kúguðu hæstv. ríkisstjórn frá upphafi, (Forseti hringir.) Evrópusambandið líka og allir aðrir. Auðvitað viljum við frekar standa (Forseti hringir.) með hæstv. ríkisstjórn en að berja hér á hæstv. ráðherrum.