138. löggjafarþing — 64. fundur
 29. desember 2009.
rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008, 3. umræða.
frv. forsætisn., 286. mál (skilafrestur skýrslu, meðferð á Alþingi o.fl.). — Þskj. 565, frhnál. 605, brtt. 523.

[09:30]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að fjalla hér lítillega um mál sem var hér til umræðu fyrir jól og var kallað aftur til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. Það snýst um hvernig þingið mun standa að og fara með þá rannsóknarskýrslu sem er væntanleg núna í lok janúar ef allt fer eins og menn vonast til, þ.e. rannsóknarskýrslu utanaðkomandi aðila sem forsætisnefnd skipaði hér á síðasta kjörtímabili til þess að rannsaka aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Nokkuð var fjallað um þetta mál í allsherjarnefnd. Þetta er auðvitað stórt og viðamikið mál og skiptir afar miklu máli að vel takist til af hálfu þingsins að fjalla um það. Ég hef sagt það áður hér úr þessum ræðustól að ég tel að það verði prófsteinn á styrk þingsins í framhaldinu hvernig við munum halda á þessu máli og líka prófsteinn á trúverðugleika þingsins út á við. Nánast allir þeir þingmenn sem ég hef talað við um þetta mál eru mér sammála um það þannig að ég tel það ekki rétt sem stundum hefur heyrst í umræðunni, að hér ætli þingmenn sér að taka þessi mál einhverjum vettlingatökum eða sópa einhverjum málum undir teppið. Ég hygg að allir, hvar í flokki sem þeir standa, séu sammála um að það verði að vanda til þessa máls og taka það mjög föstum tökum.

Auðvitað höfum við litlar hefðir fyrir rannsóknarnefndum þingmanna á Íslandi eða þingrannsóknarnefndum þó að það sé mjög algengt að svona nefndir séu fastanefndir í þjóðþingum í kringum okkur. Ég tel reyndar að við eigum að huga að því í framhaldinu að setja á laggirnar fastarannsóknarnefnd þingmanna sem getur tekið eftir atvikum mál ef þau koma upp og rannsakað. Í gegnum tíðina hafa verið fluttar tillögur hér nokkrum sinnum, m.a. hefur hæstv. núverandi forsætisráðherra flutt tillögur nokkrum sinnum hér á þingi um rannsóknarnefndir Alþingis. Þær tillögur hafa því miður ekki náð fram að ganga en ég held að aðstæður hafi breyst það mikið í samfélagi okkar að komin sé meiri samstaða hér á þingi um að setja slíka fastarannsóknarnefndir á laggirnar.

Nýlega kom út skýrsla þar sem nefnd skoðaði eftirlitshlutverk Alþingis að frumkvæði forseta Alþingis. Formaður þeirrar nefndar sem vann skýrsluna var Bryndís Hlöðversdóttir lektor á Bifröst. Þar er einmitt komið inn á mikilvægi eftirlitshlutverksins og þess að það skipti miklu máli að þingið geti sett á laggirnar rannsóknarnefndir ef þess þarf. Auðvitað má segja að það sé óheppilegt að við þurfum á þessum tímapunkti að grípa til þess ráðs að setja á laggirnar einhvers konar þingmannanefnd eða eftirlitsnefnd þegar við erum að vinna í og skoða einn tiltekinn atburð. En því miður erum við stödd þar og komumst ekkert fram hjá því, við verðum bara að taka á því.

Að sögðum þessum formála, frú forseti, ætla ég að lesa framhaldsnefndarálitið. Eins og ég sagði í upphafi var málinu vísað til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. m.a. til þess að skoða stöðu þeirrar þingmannanefndar sem við erum núna að setja á laggirnar því að það var vafi uppi um hvort sú þingmannanefnd sem ætti að taka við þessari skýrslu hefði sömu stöðu og rannsóknarnefnd Alþingis sem hægt er að setja á laggirnar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar. Niðurstaðan varð sú sem ég mun gera grein fyrir í þessu nefndaráliti:

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og fjallað um fyrningu hugsanlegra embættisbrota ráðherra. Á fund nefndarinnar komu Ásmundur Helgason frá Alþingi og Björg Thorarensen frá Háskóla Íslands.

Það er kannski rétt að geta þess í þessu samhengi, af því að menn hafa velt því fyrir sér af hverju þetta mál var ekki sent í umsagnir, að það var tillaga mín eftir nokkra yfirlegu að freista þess frekar að fá sérfræðinga á fund nefndarinnar í stjórnskipunarrétti til þess að fara yfir málið, enda var erfitt að ákveða hvaða tilteknu aðilar í samfélaginu ættu að fá þetta mál til umsagnar umfram einhverja aðra.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, getur málshöfðun út af embættisbroti ráðherra ekki átt sér stað ef þrjú ár eru liðin frá því að brot var framið. Í 2. mgr. 14. gr. er þó kveðið á um að skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að athuga störf ráðherra rjúfi fyrninguna og að þá geti Alþingi jafnan samþykkt málshöfðun innan árs frá kosningu rannsóknarnefndarinnar. Þessi heimild getur því lengt fyrningarfrestinn sem þessu nemur.

Ljóst er að skipun rannsóknarnefndar utanþingsmanna, sbr. lög nr. 142/2008, rýfur ekki fyrningu mögulegra embættisbrota ráðherra. Komi fram ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um mistök sem ráðherra ber ábyrgð á kemur það í hlut þingnefndarinnar sem er ætlað að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar að meta hvort leggja eigi til að höfðað verði mál gegn viðkomandi ráðherra. Í frumvarpinu er þingnefndinni, eins og ég gerði grein fyrir hér í upphafi, hins vegar ekki skýrlega veitt staða rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar og henni falið að athuga störf ráðherra. Kosning hennar leiðir því sennilega ekki til rofs á fyrningu embættisbrota ráðherra nema lögjafnað verði frá 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Nefndin telur óvarlegt að ganga út frá því að fallist verði á slíka lögjöfnun. Niðurstaðan er því sú að gefi skýrsla rannsóknarnefndarinnar tilefni til að athuga störf ráðherra í ljósi laga um ráðherraábyrgð, og út frá því er gengið að kosning þingnefndarinnar rjúfi ekki fyrningu slíkra brota, kunna einhver mál að fyrnast meðan á athugun nefndarinnar stendur.

Nefndin bendir á að ekki verður gert kunnugt um efni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fyrr en í lok janúar 2010. Því er enn óljóst hvort ráðherrum hafi orðið á mistök í aðdraganda hrunsins, hvort þau mistök varði við lög um ráðherraábyrgð, hvenær þau hafi átt sér stað og hvort þau teljist þá fyrnd. Ekki er þó hægt að útiloka að á þetta kunni að reyna. Eins og frumvarpið liggur fyrir yrði í slíku tilviki undir þingnefndinni komið og hversu hratt hún ynni hvort mál kæmi til með að fyrnast. Bagalegt væri ef nefndin teldi sig knúna til að hraða svo mjög athugun sinni, til að koma í veg fyrir fyrningu sakar, að ekki gæfist tóm til að íhuga slíkt mál frá öllum hliðum. Allsherjarnefnd telur ekki fært að þingnefndinni verði gert að starfa undir slíkum þrýstingi og að það skapi hættu á óvandaðri málsmeðferð. Því telur nefndin ástæðu til að bregðast við þessu atriði að því marki sem stjórnarskráin leyfir.

Innan nefndarinnar var rætt um hvort rétt væri að ljá þingnefndinni stöðu rannsóknarnefndar þingmanna skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Komi fram ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um mistök ráðherra í starfi yrði það meðal verkefna hennar að taka þau atriði í störfum hans til athugunar. Til að þessi leið hafi tilætluð áhrif þarf að ganga út frá því að með breytingunni sé fullnægt kröfum 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð og að fyrning ætlaðra embættisbrota muni rofna þegar skýrslan kemur fram.

Önnur leið kom einnig til umræðu. Hún felst í því að bæta við lögin fyrirmælum um að kosning þingnefndarinnar hefði sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að athuga störf ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Þessi leið fæli í sér að fyrning hugsanlegra embættisbrota ráðherra rofnaði við kosningu þingnefndarinnar með sama hætti og kosning rannsóknarnefndar þingmanna rýfur fyrningu ef henni er falið er að athuga störf ráðherra.

Fyrri leiðin er að mati nefndarinnar í góðu samræmi við gildandi rétt, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Í 39. gr. stjórnarskrárinnar eru ekki gerðar ákveðnar kröfur til þess hvernig rannsóknarnefnd samkvæmt ákvæðinu skuli komið á fót og fordæmi er fyrir því að skipan slíkrar nefndar sé reist á lögum en ekki þingsályktun. Á hinn bóginn þykir nefndinni ekki að öllu leyti ljóst hvort þessi leið muni hafa tilætluð áhrif. Ekki er hægt að útiloka að sá skilningur yrði lagður í 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð að til að rjúfa fyrningu þyrfti Alþingi að kjósa sérstaka rannsóknarnefnd út af tilteknum atriðum í störfum ákveðins ráðherra. Það er því alls ekki víst að það leiði til rofa á fyrningu ef þingmannanefnd fær skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar það verkefni að fjalla um ákveðin störf ráðherra án þess að Alþingi hafi beinlínis tekið afstöðu til þess að þau störf kalli á rannsókn.

Síðari leiðin er að mati nefndarinnar því skýrari og í betra samræmi við þau skref sem þegar hafa verið stigin við rannsókn efnahagsáfallanna. Hún er reist á þeirri forsendu að kosning þingnefndar sem hefur það hlutverk að gera tillögur um viðbrögð Alþingis í tilefni af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé í öllum meginatriðum hliðstæð því að Alþingi kjósi rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Nefndin bendir á að rannsóknarnefnd Alþingis sé samkvæmt lögum nr. 142/2008 ætlað að fjalla um ábyrgð manna á mistökum, þar með talið ráðherra, og gefa þeim sem ætla má að hafi orðið á mistök færi á að tjá sig áður en skýrslunni verður skilað. Þegar málið kemur til kasta þingnefndarinnar hefur rannsókn á þætti einstakra manna í hruninu því farið fram á vettvangi rannsóknarnefndarinnar og þeir fengið aðilastöðu. Rannsóknin ætti því að vera komin mun lengra á veg gagnvart einstökum mönnum en almennt þegar rannsóknarnefnd þingmanna er skipuð til að athuga störf ráðherra. Ef gripið er til samlíkingar við almenn sakamál má segja að málið sé með skýrslugjöf rannsóknarnefndar Alþingis komið á ákærustig að lokinni rannsókn.

Nefndin hefur skoðað sérstaklega hvort með síðari leiðinni sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum hugsanlegra sakborninga. Það getur þó aðeins átt við þá sem kunna að hafa gerst sekir um brot gegn lögum um ráðherraábyrgð sem hefðu að óbreyttum lögum átt að fyrnast á tímabilinu frá kosningu þingnefndarinnar og fram að samþykkt ályktunar um saksókn. Gagnvart þeim vaknar sú spurning hvort verið sé að breyta lögunum afturvirkt þannig að það fari í bága við 69. gr. stjórnarskrárinnar.

Nefndin hefur kynnt sér dóm Hæstaréttar frá 29. apríl 2004 í máli nr. 32/2004 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvæði sem færði upphafstíma fyrningar á kynferðisbrotum gegn börnum fram til 14 ára aldurs brotaþola gæti ekki átt við um brot sem voru framin fyrir gildistöku ákvæðisins. Nefndin telur að breyting á reglum sem fjalla um það með hvaða hætti Alþingi getur rofið fyrningu refsiverðra brota ráðherra, sem fyrnast almennt á þremur árum, sé ekki sambærileg því að breyta upphafstíma fyrningar hegningarlagabrota sem fyrnast á 15 árum eins og í því tilviki sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar. Þá verði að skoða málið í samhengi við að Alþingi hefði getað og er raunar hvenær sem er heimilt að bregðast við ætluðum brotum ráðherra með skipun rannsóknarnefndar þingmanna. Samkvæmt gildandi lögum rýfur sú aðgerð fyrningu slíkra brota, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Ráðherrar sem kunna að hafa gerst sekir um brot af þessu tagi geta því ekki út frá gildandi lögum bundið tilteknar væntingar við að fyrning brotanna rofni ekki fyrr en á einhverjum tilteknum tímapunkti. Aftur á móti eiga þeir að geta vænst þess að gildandi reglum um upphafstíma fyrningar eða lengd hennar verði ekki breytt afturvirkt sakborningi í óhag. Að mati nefndarinnar verður enn fremur að gæta þess að breyta ekki reglum um rof fyrningar afturvirkt þannig að heimilt verði að refsa út af brotum sem voru fyrnd þegar reglurnar tóku gildi.

Eftir að hafa farið yfir þau sjónarmið sem komið hafa fram í nefndinni er það mat hennar að það stangist ekki á við stjórnarskrá að samþykkja breytingu á frumvarpinu sem leggur kosningu þingnefndar, sem er m.a. ætlað að gera tillögur um viðbrögð þingsins við ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um mistök einstakra ráðherra, að jöfnu við kosningu rannsóknarnefndar þingmanna til að athuga störf ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð. Þessi ályktun byggist á eftirfarandi sjónarmiðum:

1. Ekki er verið að breyta reglum um rof fyrningar afturvirkt þannig að verið sé að heimila málshöfðun út af brotum sem verða fyrnd við gildistöku laganna.

2. Ekki er hróflað við upphafstíma fyrningar eða lengd fyrningartímans. Um þessi atriði gilda óbreyttar reglur.

3. Þeir sem kunna að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð geta út frá þeim lögum sem í gildi voru þegar ætlað brot var framið ekki vænst þess að fyrning þess rofni ekki fyrr en á tilteknum tímapunkti. Alþingi getur hvenær sem er rofið fyrninguna með því að kjósa rannsóknarnefnd alþingismanna skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að athuga störf ráðherra.

4. Rannsókn á ábyrgð einstakra manna á mistökum í aðdraganda að falli bankanna stendur yfir og lýkur með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Alþingi verður m.a. í ljósi 14. gr. stjórnarskrárinnar að bregðast við henni. Formleg athugun á störfum ráðherra í tengslum við efnahagsáföllin er því í raun lengra á veg komin nú en hún hefði verið ef sú leið hefði verið farin að kjósa rannsóknarnefnd alþingismanna til að athuga málið. Fyrning mögulegrar sakar hefur þó ekki átt sér stað eins og gerst hefði ef rannsóknarnefnd alþingismanna hefði verið skipuð.

5. Ekki er eðlilegt að hugsanlegir sakborningar njóti betri stöðu með tilliti til fyrningar út af því hvernig Alþingi kaus að málið yrði rannsakað.

Frú forseti. Ég hef þá lokið við að fara hér yfir framhaldsnefndarálit allsherjarnefndar. Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við b-lið 1. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Kosning þingmannanefndarinnar hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.



[09:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Almenningur veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort skýrsla rannsóknarnefndar verði ekki örugglega birt þrátt fyrir að Alþingi sé að skipa nefnd til að fjalla um hana. Ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki alveg á hreinu að skýrsla rannsóknarnefndarinnar verði birt á netinu eða annars staðar opinberlega í lok janúar og síðan taki nefndin til við að fjalla um þá skýrslu og hvaða ráðstafanir Alþingi þarf að gera. Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að það sé alveg á tæru að skýrslan verði birt óstytt og ósnert á netinu eða annars staðar.



[09:49]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa spurningu vegna þess að ég tel að mjög mikilvægt að það komi hér fram, og það hefur m.a. komið fram á fundum sem fulltrúar rannsóknarnefndarinnar hafa átt með fulltrúum í forsætisnefnd þingsins, að það stendur að sjálfsögðu til að birta skýrsluna í heild sinni. Það verður ekkert sem þingið fær að sjá umfram almenning, skýrslan mun birtast öllum á sama tíma, bæði þingmönnum og almenningi, væntanlega bæði á netinu og á prenti þannig að allir hafi sama aðgang að skýrslunni. Það stendur ekki til að skjóta neinu undan.

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessa spurningu vegna þess að mér hefur fundist gæta í almennri umræðu í samfélaginu nokkurs misskilnings um þetta atriði. Menn virðast telja að hér eigi að vera með tvær útgáfur af skýrslunni, útgáfu sem ætluð er almenningi og síðan einhverja aðra útgáfu sem ætluð er einhverjum öðrum aðilum, til að mynda þingmönnum. Það stendur ekki til, skýrslan verður birt öllum á sama tíma.



[09:51]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er við 3. umr. frumvarp um meðferð Alþingis á skýrslu rannsóknarnefndarinnar, m.a. vegna hruns bankanna. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa komið að og heyrt af þessu frumvarpi frá upphafsstigum þess og lagt til ítarlegar breytingar við það vegna þess að við í Hreyfingunni teljum að frumvarpið eins og það liggur fyrir í dag sé einfaldlega vont frumvarp. Þetta er eitthvert mikilvægasta málið sem Alþingi er að takast á við, þ.e. hvernig Alþingi sjálft ætlar að taka á þeim álitamálum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það er mikilvægt vegna þess að í þessu frumvarpi ætlar Alþingi að rannsaka sjálft sig.

Gott og vel, sumir telja að Alþingi geti rannsakað sjálft sig. Við sem komum ný inn á þing í fyrravor teljum hins vegar, einmitt á þeim forsendum að Alþingi funkeraði ekki sem eðlileg stofnun, að Alþingi sé í raun ómögulegt að rannsaka sjálft sig. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að utanaðkomandi aðilar geti komið með ábendingar varðandi meðferð skýrslu rannsóknarnefndarinnar en við teljum það bráðnauðsynlegt.

Þetta frumvarp er ekki nógu afgerandi í því hvað þessi þingmannanefnd á að gera og þar af leiðandi er frumvarpið ótrúverðugt. Störf þingmannanefndarinnar eru ekki skýr í þessu frumvarpi og þingmannanefndin þarf í rauninni samkvæmt frumvarpinu ekki að gera neitt sem máli skiptir með skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þingmannanefndin ætlar að gefa sér átta mánuði, þ.e. til 30. september, til að lesa þessa skýrslu. Ég leyfi mér að benda á að rannsóknarnefnd Alþingis hafði upphaflega 10 mánuði til að gera allar sínar rannsóknir. Sá tími var framlengdur um þrjá mánuði og það er gott og vel, svona mál dragast oft og tíðum, en þetta er einfaldlega allt of langur tími og þennan hluta af frumvarpinu hefði auðveldlega mátt laga með því að hafa inni upprunalega dagsetningu þar sem nefndin átti að skila af sér 10. maí.

Þingmannanefnd sem tekur á svona skýrslu á að sjálfsögðu að taka sér hlé frá þingstörfum á meðan, kalla inn varamenn og gera ekkert annað á meðan en að fjalla um þessa skýrslu og afgreiða innihald hennar. Þetta er það mikilvægt mál. Sú leið er ekki farin í þessu frumvarpi.

Ég hef borið frumvarpið undir lögfróða menn, m.a. einn af virtustu lögfræðingum landsins. Samantekið álit margra þeirra sem ég hef talað við var að með þessu frumvarpi geti þessi þingmannanefnd skilað af sér einhvers konar froðu um verslunarmannahelgina þegar enginn tekur eftir því. (Gripið fram í.) Þetta er ekki einhver tilbúningur Hreyfingarinnar eða minn, þetta er álit fjölmargra sem eru utan þingsins og það er alvarlegt mál. Þess vegna erum við í Hreyfingunni mjög ósátt við það að Alþingi ætli að afgreiða málið með þessum hætti. Það hefði verið hægt að gera það miklu betur og það þarf að gera það miklu betur.

Hreyfingin lagði til breytingartillögu við þetta frumvarp alveg á upphafsstigum þess þegar fyrstu drögin komu fram. Við lögðum m.a. til í bæði forsætisnefnd og allsherjarnefnd að þingmannanefndin yrði skipuð fimm mönnum í stað níu, það yrði einn úr hverjum flokki, þetta yrði ekki hefðbundin pólitísk þingmannanefnd. Við óskuðum líka eftir því að nefndarmenn hefðu ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 eða hefðu óumdeilanlega engin tengsl við þá atburði eða gerendur sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins.

Önnur tillaga sem við vorum með var í þá veru að skipuð yrði nefnd fimm valinkunnra manna utan þingsins sem hefði það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Það yrði einnig hlutverk þeirrar nefndar að fjalla um öll atriði sem hugsanlega kæmu fram í skýrslunni og snerta Alþingi sjálft sem stofnun. Við höfum séð það í gegnum árin og áratugina, frú forseti, að Alþingi er ekki vel hæft til að fjalla um atriði er snúa að Alþingi sjálfu, t.d. hafa breytingar á stjórnarskránni aldrei getað átt sér stað vegna pólitísks ágreinings nema að mjög litlu leyti.

Þriðja atriðið var að við lögðum til að gögn málsins, þ.e. þau gögn sem eru að baki rannsóknarskýrslunni, yrðu færð á Þjóðskjalasafnið og þau gerð opinber eins og hægt er. Hreyfingin leggur í þessu efni áherslu á að höfð sé í huga öll sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat Hreyfingarinnar að hætt sé við að alvarlegir hagsmunaárekstrar muni þvælast fyrir störfum þingmannanefndarinnar. Það er því grundvallaratriði upp á trúverðugleika starfa nefndarinnar að gera að halda t.d. þeim þingmönnum sem sátu á þingi fyrir hrun fyrir utan vinnu nefndarinnar nema óyggjandi sé að þeir hafi engin tengsl við þá atburði sem hafa gerst.

Með skipun nefndar valinkunnra manna utan þings sem hefði það hlutverk sem fram kemur í breytingartillögu Hreyfingarinnar yrði tryggt að Alþingi yrði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald, heldur fengi stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald og ábendingar. Það mundi gera starf þingmannanefndarinnar mun auðveldara.

Þegar kemur að þeim gögnum sem urðu til við vinnu rannsóknarnefndarinnar og aðgang að þeim teljum við að þeir atburðir sem hafa átt sér stað séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að gera allt sem hægt er til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki og þar með meðferð gagnanna sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Hún gengur að miklu leyti út á það að takmarka verulega aðgang að öllum gögnum rannsóknarnefndarinnar sem liggja að baki skýrslunni.

Öllum breytingartillögum Hreyfingarinnar hefur hingað til verið hafnað í bæði forsætisnefnd og allsherjarnefnd. Við erum einfaldlega mjög ósátt við það því að við teljum að hér sé um þannig mál að ræða að það þurfi að skoða það betur.

Í stuttu máli er meðal formlegra breytingartillagna Hreyfingarinnar, sem atkvæði verða greidd um á eftir, að Alþingi kjósi sex þingmenn í nefnd í stað níu. Það kom fram á fundi allsherjarnefndar að þingmaður utan flokka hafði áhuga á aðkomu að málinu og þess vegna leggjum við til að það verði einn úr hverjum flokki auk þingmanns utan flokka, hv. þm. Þráins Bertelssonar. Þar með er tryggt að þetta verður ekki nefnd með einhvern pólitískan meiri hluta eða pólitískt vægi, heldur einfaldlega nefnd sem sinnir því að fara yfir þessa skýrslu og ekkert annað. Þessi nefnd á að ljúka störfum fyrir 1. maí 2010, við teljum brýnt að þessi þingmannanefnd taki til óspilltra málanna og geri helst ekkert annað en að skoða þessa skýrslu og finna út hvað á að gera við hana.

Í öðru lagi leggjum við til að kosin verði nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, eins og segir í breytingartillögunni. Sú nefnd hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni og þessi nefnd á að ljúka störfum fyrir 15. mars 2010. Við teljum mjög nauðsynlegt upp á trúverðugleika út á við að gera að Alþingi taki við ábendingum valinkunnra manna utan þingsins, það mundi gera alla miklu sáttari við málið.

Í þriðja lagi leggjum við til, eins og segir í breytingartillögunni, að við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skuli öll gögn sem aflað hefur verið færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber. Tryggt verði að allar upplýsingar að baki skýrslunni sem og að baki skýrslum beggja nefnda skv. 15. gr. og 15. gr. a verði opnar öllum frá fyrsta birtingardegi. Ákvæði laga um persónuvernd skulu ekki gilda um upplýsingar þessar nema í algerum undantekningartilvikum og skulu þá rækilega rökstudd með tilliti til mikilvægustu persónuverndarsjónarmiða.

Þetta er ekki síður mikilvægt mál því að af nefndaráliti með breytingartillögum og frumvarpi nefndarinnar er augljóst að öll gögn rannsóknarnefndarinnar verða niðursoðin í tunnur á Þjóðskjalasafni og ekki aðgengileg almenningi og mjög tæplega aðgengileg fræðimönnum í 40–80 ár. Ég mun útskýra síðar hvers vegna.

Formaður allsherjarnefndar hafnaði því að frumvarpið yrði sent út til umsagnar eins og kom fram áðan, taldi ekki þörf á því. Formaður allsherjarnefndar hafnaði líka beiðni um að kallaðir yrðu gestir á fund nefndarinnar nema þeir sem hv. formaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir valdi sjálf. Breytingartillögur Hreyfingarinnar hlutu ekki náð fyrir augum allsherjarnefndar og voru ekki ræddar efnislega.

Frú forseti. Eins og komið hefur fram erum við ósátt við framgang mála í þessu og teljum að það þurfi að leysa það með betri hætti. Hvað varðar aðgengi að gögnunum komu fyrir nefndina forstjóri Persónuverndar og þjóðskjalavörður og það kom skýrt fram í máli þjóðskjalavarðar að það sé óvinnandi vegur að gera þessi gögn ópersónugreinanleg samkvæmt persónuverndarsjónarmiðum til að aðrir megi skoða þau, það er nánast ekki hægt. Í nefndaráliti allsherjarnefndar kemur skýrt fram að þeir sem vilja rannsaka þessi gögn og skoða þau muni þurfi að bera allan kostnað af því sjálfir þannig að með þessu frumvarpi er beinlínis gert ráð fyrir því að þessi gögn verði ekki aðgengileg almenningi og ekki aðgengileg fræðimönnum um nánast ókomna framtíð, 40–80 ár.

Það er auðveld leið til að leysa þetta mál, eins og t.d. með þriðju breytingartillögu Hreyfingarinnar. Það er rétt að það komi fram að þjóðskjalavörður tæpti á því að hann teldi að lög um persónuvernd ættu ekki að gilda um þessi gögn. Það er ótrúlegt að hafa orðið vitni að því, finnst mér, hvernig þetta mikilvæga mál hefur farið eftir þessum krókaleiðum í gegnum þingið. Fáir þingmenn hafa skipt sér af því og tekið þátt í umræðum um það. Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi sjálft sem stofnun að komast vel frá þessu máli og það gerir það ekki með þessu frumvarpi.

Í greinargerð með breytingartillögum Hreyfingarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hreyfingin leggur áherslu á að höfð sé í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt sé við að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu. Til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar er það grundvallaratriði að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er.

Með kosningu nefndar fimm manna utan þings, sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, sem hefur það hlutverk sem breytingartillögur Hreyfingarinnar gera ráð fyrir er auk þess tryggt að Alþingi verði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fái stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald.

[…]

Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekki endurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.“

Þá er vert að hafa í huga að þingið nýtur lítils trausts meðal borgara landsins og frumvarp forsætisnefndar óbreytt verður ekki til þess að þingið auki veg sinn og virðingu meðal landsmanna. Þvert á móti verður þetta líklega til þess að breikka enn gjána milli þjóðar og þings.

„Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar að þeir aðilar sem bera ábyrgð í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þess vegna er mikil hætta á því að störf hennar geti dregist“ allt of lengi, og þó að nú hafi verið sett undir lekann um fyrningarfrestinn sem var beinlínis æpandi í þessu frumvarpi tel ég að starf þingmannanefndarinnar geti dregist allt of lengi.

„Þinghópur Hreyfingarinnar telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.“

Þó að formaður allsherjarnefndar hafi tekið mjög snöfurmannlega á þessu með fyrningarmálið og það hafi verið afgreitt vel í nefndinni eru samt enn þá mörg óljós atriði hvað það varðar og það sýnir sig að í nefndarálitinu skrifa tveir fulltrúar í nefndinni undir það með fyrirvara. Þetta er nokkuð sem er of óljóst og þyrfti að hnykkja betur á.

Við munum leggja fram þessar breytingartillögur hér á eftir þegar atkvæði verða greidd um frumvarpið. Við teljum einfaldlega mjög nauðsynlegt að allir þingmenn skoði þær vandlega því að þær munu leiða til þess að starf þessarar nefndar verði miklu farsælla og starf Alþingis og orðspor Alþingis miklu betra hvað varðar meðferð þessarar mikilvægu rannsóknarskýrslu en frumvarp forsætisnefndar gerir ráð fyrir.

Ég lýk hér máli mínu um þetta frumvarp. Þetta er mjög mikilvægt mál og ég vil enn einu sinni ítreka að þingmenn velti þessu alvarlega fyrir sér.



[10:06]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þrjú efnisleg atriði sem ég vil gera að umtalsefni í andsvari við hv. þingmann. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því að þingmannanefndin komi ein og óstudd að þessari vinnu, hún kallar til sín sérfræðinga úti í bæ þannig að það að halda því fram að engir sérfræðingar komi að vinnu nefndarinnar er af og frá.

Í öðru lagi vil ég koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um frestinn, þann tíma sem þingmannanefndin á að fá til að vinna málið. Samkvæmt starfsáætlun þingsins, sem liggur fyrir núna og er ekki búið að breyta þó að það kunni að verða síðar, er gert ráð fyrir því að þing fari í sumarfrí í lok maí og komi síðan aftur saman í september. Í breytingartillögunni sem liggur fyrir núna er eingöngu talað um að gert sé ráð fyrir því að þingmannanefndin ljúki störfum á þessu löggjafarþingi. Það getur að sjálfsögðu verið í maí og það er auðvitað mikil rangtúlkun að halda því fram að hér með sé búið að gefa þingmannanefndinni átta mánuði til að skila af sér. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að hún skili af sér eins fljótt og hægt er.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem hv. þingmaður sagði um vistun skjalanna, auðvitað er búið að koma til móts við athugasemdir bæði Persónuverndar og þjóðskjalavarðar varðandi þetta en það er rétt að taka fram að þarna er verið að keyra inn gríðarlega gagnagrunna með alls kyns upplýsingum, persónulegum upplýsingum um einkalíf og einkahagi fólks. Það er að sjálfsögðu ekki rétt að hver sem er eigi að geta gengið í þá gagnagrunna. Það er hins vegar alveg tryggt að fólk á að geta haft aðgang að ópersónugreinanlegum upplýsingum í þessum gagnagrunnum sem að gagni geta komið ef menn eru sagnfræðingar eða stjórnmálafræðingar, að skoða eitthvað eða rannsaka þannig að gagnagrunnarnir sem slíkir og niðurstöður gagnagrunnanna verður að sjálfsögðu opið öllum.



[10:08]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur andsvarið. Það er rétt að það er talað um að þingmannanefndin geti kallað til sín sérfræðinga, en það er ekkert sem segir að henni sé skylt að gera það og það er ekkert sem segir að hún skuli þiggja ábendingar utan þingsins hvað varðar störf nefndarinnar. Ég hefði einfaldlega talið heppilegra að það væri tekið fram.

Hvað varðar tímarammann um skil nefndarinnar er skýrt tekið fram að hún hafi til 30. september, þ.e. til loka þingsins, til að skila af sér þó að hún megi vissulega gera það fyrr. Eins og kom fram í máli mínu tel ég mjög nauðsynlegt að þingmannanefndin skili af sér sem fyrst. Þetta er það mikilvægt mál að þeir sem starfa í þessari nefnd, eins og ég sagði, geta ekki gert neitt annað fyrstu vikurnar eftir að rannsóknarskýrslan kemur út en að lúslesa þá skýrslu og fara yfir alla þætti hennar og fá jafnvel heimild til að kalla inn varamenn á meðan. Þetta er einfaldlega það mikilvægt mál og ég held að það hefði verið betur leyst með þeirri aðferð.

Hvað varðar gagnagrunnana er alveg dagljóst að þeir eru fullir af persónuupplýsingum og það er nánast ómögulegt, eins og fram kom í máli þjóðskjalavarðar, að gera þá ópersónugreinanlega. Hér er tekið fram að þeir sem vilja fá aðgang að þeim grunnum skuli greiða kostnað af því aðgengi sjálfir. Fræðimenn og almenningur hafa einfaldlega ekki nokkur tök á því að standa undir svoleiðis kostnaði og það er einboðið miðað við allar þær upplýsingar sem hér liggja frammi og hafa komið fram að gögnin munu verða óaðgengileg af tæknilegum ástæðum. Og það er mjög vont.



[10:10]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það hryggir mig pínulítið að heyra málflutning hv. þm. Þórs Saaris í þessu máli. Allt frá því að við fórum að ræða málið hef ég lagt mig fram um það í allsherjarnefnd að reyna að ná þverpólitískri samstöðu milli allra um það og það hefur tekist býsna vel. Hv. þm. Þór Saari hefur hins vegar ítrekað komið í ræðustól Alþingis og reynt að gera málið mjög tortryggilegt. (Gripið fram í: Bö.) Hann notar orð eins og það að þingmannanefndin ætli að skila „froðu um verslunarmannahelgina“ og síðan verði gögnin „niðursoðin í tunnur á Þjóðskjalasafni“. Ég verð að segja, frú forseti, að þegar menn eru að tala um virðingu Alþingis (BirgJ: Það er engin virðing Alþingis.) finnst mér þessi málflutningur (Gripið fram í.) ekki til þess fallinn að auka virðingu Alþingis.

Svo sitja menn úti í sal og kalla hér fram í: Það er engin virðing Alþingis. (Forseti hringir.) Segir það ekki meira en mörg orð um afstöðu þessara tilteknu þingmanna til þessa vinnustaðar? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[10:11]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Síðasta könnun sem ég sá um virðingu Alþingis var að annaðhvort 13% eða 17% landsmanna báru traust til Alþingis. Ég veit ekki hvað menn vilja fara mikið neðar með það áður en þeir einfaldlega labba héðan út og lýsa því yfir að þingið sé óstarfhæft.

Ég var ekki að gera atlögu að trúverðugleika þingsins. Ég hef rökstutt mjög vel á öllum stigum málsins þær breytingartillögur sem við höfum lagt fram og ég hef útskýrt mjög ítarlega hvers vegna við teljum þær nauðsynlegar. Það eru ekki breytingartillögurnar sem gera þetta frumvarp ótrúverðugt, það er frumvarpið sjálft sem er að mínu mati ótrúverðugt frá upphafi. Ef það hryggir hv. formann allsherjarnefndar eitthvað sérstaklega að ég skuli vera ósammála um það verður einfaldlega að hafa það. Ég tel að þetta mál sé það mikilvægt að það hefði þurft að gera það betur, það er einfaldlega þannig. Ég tel að enn sé tími til að leysa það betur og ég vona að Alþingi geri það.



[10:12]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þór Saari nefndi í upphafsorðum sínum að Hreyfingin hefði ekki fengið stuðning við þær breytingartillögur og málflutning sem hún hefði haft uppi í þessu máli. Það er alveg rétt.

Alþingi Íslendinga hefur ekki stundað það mjög í gegnum árin að vera með virkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu eða sinnt því eftirlitshlutverki sem því ber. Við viljum gera bragarbót á, við fengum harðan skell og áminningu um að eftirlit Alþingis þurfi og eigi að vera meira en verið hefur.

Við leituðum í brunna Norðurlandaþjóðanna sem hafa miklu meiri reynslu en við á þessu sviði og leituðum í löggjöf þeirra hvað varðar eftirlitsskyldu og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í framhaldi af því var samið þetta frumvarp sem forsætisnefnd flytur. Ég tel að forsætisnefnd og allsherjarnefnd hafi í öllu reynt að vanda til verka. Alþingi ætlar og við ætlum að standa undir þeirri ábyrgð sem enginn nema Alþingi sjálft getur gert til að taka á þeim málum sem okkur ber að taka á. Þeim er ekki hægt að vísa til manna úti í bæ, það er ekki hægt að vísa til sérfræðinga úti í bæ. Það er hægt að leita til sérfræðinga úti í bæ og það mun hún gera, þessi nefnd sem Alþingi mun skipa.

Hvert á að senda þetta mál til umsagnar? Það var leitað til sérfræðinga á þessu sviði og þeir kallaðir fyrir nefndina. Þannig voru umsagnirnar fengnar. Það var farið vel yfir þetta mál. Ég tel að þeim rökum sem hafa birst í breytingartillögum og málflutningi Hreyfingarinnar og hv. þingmanns hafi verið hnekkt með gagnrökum (Forseti hringir.) og málflutningi þeirra sem standa að þessum tillögum og flutningi hér á Alþingi.



[10:14]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þeim rökum hefur ekki verið hnekkt. Því var hafnað að fá gesti á fund allsherjarnefndar með formsatriði, því formsatriði að formaður allsherjarnefndar þurfi ekki að taka tillit til óska áheyrnarfulltrúa um gesti á fund nefndarinnar. Það var ekki rökstutt með neinum öðrum hætti en þeim að henni bæri ekki skylda til þess. Full heimild er til þess en þar var enginn áhugi á því að fá utanaðkomandi álit. Það er ekki utanaðkomandi álit að fá álit lögfræðings Alþingis á frumvarpinu.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Þuríðar Backman er þetta fyrsta skref af mörgum í því að auka eftirlitshlutverk Alþingis. Það er vel. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt, og mikilvægt starf hefur verið unnið í þeim málum með skýrslunni sem var lögð fyrir forsætisnefnd í sumar úti í Viðey. En þar sem þetta er einmitt fyrsta skrefið tel ég mikilvægt að það sé gert mjög vel. Ég hef aldrei lagt til að þingið taki við einhverjum skipunum frá mönnum úti í bæ eins og skýrt kemur fram hér. Þó að hv. þm. Þuríður Backman kjósi að afvegaleiða þá umræðu kemur það skýrt fram að utanaðkomandi nefnd mundi veita þingmannanefndinni ábendingar sem utanaðkomandi aðili. Það er ekki verið að vísa neinum málum til einhverra aðila úti í bæ varðandi þetta mál, það er einfaldlega alrangt og það er dapurlegt að fólk skuli reyna að rökstyðja mál sitt með þessum hætti.

Það eru margar nefndir úti um allan bæ sem veita þinginu ábendingar á hverju einasta ári. Það væri ekkert óeðlilegt að það væri gert í þessu máli líka.



[10:16]
Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að eingöngu Alþingi sjálft geti haldið uppi virðingu Alþingis og staðið undir þeim verkefnum sem því ber. Það er ekki hægt að vísa þeirri ábyrgð eitthvað annað frekar en í mörgum öðrum málum.

Hvað varðar þá nefnd sem hér er lagt til að verði skipuð, níu manna þingmannanefnd, er einmitt farið út fyrir þá reglu sem gildir um hefðbundnar þingmannanefndir, það er ekki farið eftir hinu pólitíska vægi á þinginu, það er ekki farið eftir svokallaðri d'Hondt-reglu. Það er einmitt verið að skapa þann grunn að þessi nefnd endurspegli ekki stjórnarmeirihlutann á þingi af því að henni er ætlað að fara upp fyrir þau pólitísku hlutföll sem núna eru á þinginu. Henni er ætlað að starfa fyrir Alþingi allt, fyrir Íslendinga alla og koma sér upp úr (Forseti hringir.) pólitískum hjólförum og vinna það mikla og ábyrgðarmikla verk sem henni er ætlað með þessu frumvarpi. Ég treysti henni og það getur enginn annar (Forseti hringir.) en Alþingi sjálft staðið undir þessari ábyrgð.



[10:18]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mun rétt vera, það getur enginn annar en Alþingi sjálft formlega staðið undir þeirri ábyrgð að taka á þessari skýrslu og skipa þessa nefnd. Það er ekki þar með sagt að það þurfi endilega að vera níu manna þingnefnd sem starfar eftir hefðbundnum þingsköpum Alþingis. Þetta er ekkert hefðbundið mál, þetta er fordæmalaust mál og það er ekki einu sinni nægilegt að vísa til fordæma á Norðurlöndum því að slík fordæmi eru alls ekki til. Það hefur oft verið talað um Tamílamálið í Danmörku sem fordæmi. Það er allt annars eðlis og miklu minna, það er smámál í samanburði við þetta mál, þannig að hér er um algjörlega fordæmalausar aðstæður að ræða.

Ég hefði kosið að það hefði bara verið formgert af alvöru og með formlegum hætti hvernig þessi þingmannanefnd fengi ábendingar utan þingsins í störfum sínum frekar en að hún muni eftir eigin geðþótta kalla eftir sérfræðiáliti.



[10:19]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður er að reyna að átta sig á því hvað Hreyfingunni gengur eiginlega til með þessum málflutningi. Hér segir hv. þingmaður réttilega að einungis þingið sjálft geti tekið á niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar, það er bara þingið sjálft sem getur sent einhvern fyrir Landsdóm, það er bara þingið sjálft sem getur breytt lögum. Við höfum sameinast hér um að þetta verði níu manna þingmannanefnd en Hreyfingin vill að þetta séu sex þingmenn. Hver er munurinn á því? Það er enginn grundvallarmunur á því.

Miðað við þennan málflutning sem hér hefur farið fram og þær tillögur sem Hreyfingin leggur til virðist sem Hreyfingin neiti að horfast í augu við það að hér hefur verið að störfum rannsóknarnefnd manna úti í bæ. Það er sú skýrsla sem við fáum hérna inn. Hreyfingin vill að við veljum fimm valinkunna menn úti í bæ til að gera nákvæmlega það sama og rannsóknarnefndin er að gera. Það er hægt að sjá í breytingartillögum Hreyfingarinnar þannig að Hreyfingin vill spila þetta allt til baka, fara að gera aftur það sem rannsóknarnefndin er að gera.

Nefnd valinkunnra manna úti í bæ er að vinna það sem Hreyfingin er að kalla eftir. Af hverju vill Hreyfingin ekki horfast í augu við það? Það starf hefur farið fram um langt skeið og ríkir frekar mikið traust um það, sem er mjög gott. Hreyfingin gerir ekkert úr þessu, nei, nei, það á bara að vera ný nefnd, fimm valinkunnir menn að gera það sama og rannsóknarnefndin er að gera. Svo á sex manna þingmannanefnd að taka við málinu 15. mars. Þann 15. mars á fimm manna nefndin hjá Hreyfingunni að skila. Við erum þó að fá frá rannsóknarnefndinni skýrslu í lok janúar þannig að við erum á undan Hreyfingunni, við sem höfum áttað okkur á því hvað við erum að gera hérna.

Ég mótmæli því hvernig hér er talað niður til þingsins og þingmanna. (VigH: Rétt.) Hér gefur Hreyfingin bara þingmönnum puttann (VigH: Já.) og ég neita að sitja undir því. Ég ætla að fara í ræðu á eftir til að fara betur yfir tillögur (Forseti hringir.) Hreyfingarinnar af því að það verður ekki setið lengur undir þessum áróðri sem hér kemur fram. (Gripið fram í.)



[10:21]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir misskilji svona rækilega breytingartillögur Hreyfingarinnar. Þær eru mjög læsilegar, einfaldar og skýrar og þær gera einfaldlega ráð fyrir að betur verði vandað til verka varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er ekkert öðruvísi, hér er ekki verið að tala neitt niður til þingsins, það er lagt til að þingið komist betur frá þessu máli en ella. Það er virðingarvert framtak af hálfu Hreyfingarinnar að leggja það til. Það voru ekki við sem sömdum upprunalega frumvarpið, við höfum lagt til að það yrði reynt að laga það á öllum stigum málsins en því hefur verið hafnað.

Við gerum þetta einmitt sérstaklega til að reyna að efla og styrkja virðingu og stöðu Alþingis á Íslandi, en ekki hitt. Það er það sem vakir fyrir okkur. Við komum sem utanaðkomandi fólk inn í heim þar sem fólk hefur setið á þingi árum og áratugum saman, sama fólk og hefur sett alla þá löggjöf sem leiddi til þess að hér hrundi allt til fjandans. Þetta sama fólk á nú að fara að rannsaka sjálft sig. Okkur finnst það einfaldlega ótrúverðugt, því miður er það bara þannig. Þess vegna höfum við reynt að bæta úr.

Við erum ekki hér að neinu marki að tala niður til þingsins eða neitt þannig heldur erum við, eins og ég segi, að reyna að bæta úr því. Ég skora á hv. þingmann að lúslesa breytingartillögur okkar og ef hún vill halda ræðu um þær á eftir er það bara fínt mál. Þá svörum við því.



[10:23]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Hv. þingmaður segir að þingið ætli að rannsaka sjálft sig. Það er ekki rétt, hv. þingmaður veit betur. Það er rannsóknarnefnd sem er núna að rannsaka þetta mál á nákvæmlega sama hátt og Hreyfingin sjálf leggur til að fimm manna nefndin eigi að gera. Þetta starf er í gangi. Það er verið að rannsaka aðdragandann og orsakir bankahrunsins, það er verið að því. Þingið fær síðan skýrsluna þannig að þingið er ekki að rannsaka sig sjálft. Það eru menn úti í bæ að gera það samkvæmt lögum.

Það er svo sannarlega verið að tala niður til þingmanna hér. Í fyrri ræðum sínum um daginn þegar við ræddum þessi mál sagði hv. þingmaður að þetta mál væri eitthvert samtryggingarkerfi þingmanna um að sópa síðan öllu undir teppið sem kæmi frá rannsóknarnefndinni. Þetta er alrangt, maður situr ekki undir svona. Núna áðan var sagt að þessi nefnd, þingmannanefndin, ætti að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina. (Forseti hringir.) Hvernig dirfist hv. þingmaður að tala svona hér?

Hér erum við að vanda til verka og ná samstöðu um mikilvægt mál (Forseti hringir.) og þá kýs Hreyfingin að grafa undan öllu trausti sem við erum að reyna að byggja upp, og ég mótmæli því.



[10:24]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti biður hv. þingmann að beina máli sínu til forseta.



[10:25]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Því miður hefur þingið ekki þurft neina hjálp hingað til til að grafa undan sínum eigin trúverðugleika. Þann 20. janúar í fyrra kom það bersýnilega í ljós. Þá var Hreyfingin ekki á þingi til grafa undan þinginu, það voru þingmenn sjálfir sem ætluðu að fara að ræða sprúttsölufrumvarp sjálfstæðismanna. Það er óheiðarlegt að bera þetta upp á Hreyfinguna.

Rannsóknarnefnd Alþingis á að skila af sér skýrslu og Alþingi á sjálft að ákveða hvað verður gert við þá skýrslu. Það sem við leggjum til í breytingartillögum okkar er að þau atriði sem snúa beinlínis að þingmönnum sjálfum eða ráðherrum eða fyrrverandi þingmönnum eða fyrrverandi ráðherrum verði skoðuð að auki af sérfræðingum úti í bæ og að þingið fái svo ábendingar frá slíkum hópi, m.a. til þess að auðvelda þeim vinnuna. Það er ekki verið að vísa málinu alfarið út í bæ, það er verið að afvegaleiða umræðuna (Forseti hringir.) hérna viljandi og það er einfaldlega dapurlegt að verða vitni að því.



[10:26]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Þór Saari sagði áðan, sem reyndar kom fram hjá framsögumanni líka, að við ræðum hérna óskaplega mikilvægt atriði. Við erum að ræða það hvernig við ætlum að takast á við skýrslu sem væntanlega verður upp á einar þúsund síður frá rannsóknarnefnd valinkunnra manna, valinkunnra Íslendinga, sem kosin var fyrir u.þ.b. ári. Þessi nefnd átti að skila í október, hún fékk frest fram til loka janúar til að skila, og það skiptir gífurlegu máli, ekki bara fyrir alþingismenn heldur fyrir þjóðina alla að vel verði unnið úr þessari skýrslu.

Ég segi það að mér finnst hryggilegt að fólk sem stærir sig af því að hafa komið hér nýtt inn á þing og lætur eins og það sé af einhverju öðru holdi og blóði en við hin sem komum ný inn á þing skuli leggja svo mikið upp úr því sem raun ber vitni að gera þingið tortryggilegt í því hvernig það ætlar að vinna úr þessari skýrslu. Það er alveg ljóst að þingið eitt getur ákveðið hvort það á að stefna alþingismönnum fyrir dóm, um það sem mun snerta alþingismenn, fjölskyldur þeirra eða vini. Það getur enginn annar gert það, það stendur í stjórnarskránni og við verðum að fara eftir henni. Þegar mikið liggur við er betra að notast við það sem maður hefur en að búa til nýtt vegna þess að það er alltaf hætta á því að ef farið er að búa til nýtt kerfi í sérstökum aðstæðum fari menn að sérsníða það að hugmyndum sínum þann dag.

Vissulega má fallast á að það hefði verið betra að eftirlitshlutverk þingsins væri þróaðra. Vissulega væri það betra en það er bara ekki svoleiðis og við verðum þess vegna að gera það besta úr því sem við höfum. Það er lagt til. Hér hefur fólk hugsað, setið og rætt um það: Hvernig gerum við það best?

Niðurstaðan er sú að leggja til að kosin verði níu manna nefnd, tveir frá hverjum flokkanna og einn frá hópnum. Það þýðir ef við leggjum saman að stjórnarandstaðan er með meiri hluta í nefndinni. Er það ekki rétt hjá mér, frú forseti? Ég held að það sé rétt. Þetta er ekki hefðbundin þingmannanefnd eins og hv. þm. Þór Saari leggur svo mikla áherslu á. Og það er einfaldlega ekki rétt að hér standi til að sópa einhverju undir teppi.

Hv. þm. Þór Saari var sjálfur á fundi í gær þar sem einmitt var rætt allítarlega í allsherjarnefnd hvernig koma mætti í veg fyrir það að einhverjar sakir fyrndust. En við verðum líka að gæta okkar á því að við megum heldur ekki fara í nornaveiðar. Það skiptir líka máli. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Ég er ánægð með þá breytingu sem gerð var í gær.

Hv. þm. Þór Saari varpar rýrð á það að tveir skili með fyrirvara. Ég þarf ekki að segja honum af hverju það var með fyrirvara. Að minnsta kosti annar þingmaðurinn sagði mjög skýrt að það væri vegna þess að menn væru ekki alveg vissir um að þetta héldi fyrir dómi ef þannig vildi til að menn efuðust um að þetta stytti fyrningarfrestinn. Það var sannarlega ekki fyrirvari til að reyna að grugga vatnið.

Mér finnst bara ekki leyfilegt að koma dag eftir dag í ræðustól á þingi og segja að við séum öll pakk og hyski. Ég mótmæli því.



[10:31]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er þrennt sem ég vil gera athugasemd við í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Hv. þingmaður talar um að við aðstæður sem þessar sé ekki endilega gott að finna upp eitthvað nýtt til þess að taka á málunum. Það er heldur ekki gott að notast við eitthvað sem maður hefur ef það er illa laskað eða jafnvel ónýtt. Það er þar sem tilraun okkar kemur inn með breytingartillögunum, að bæta þar úr og reyna að gera hlutina betur. Það er ekki verið að finna upp hjólið með því að óska eftir áliti utan þingsins á ákveðnu máli, það er bara alvanalegt að þingið geri það. Þingið kom laskað frá hruninu, það er enginn vafi á því. Þingið nýtur ekki almenns trúverðugleika og það er slæmt. Þetta er tilraun til að bæta úr því.

Ég hef aldrei sagt að það standi til að sópa einhverju undir teppi, ég hef sagt að frumvarpið sem slíkt bjóði upp á að það verði gert vegna þess að það er ekki skýrt tekið fram þar hvað þessi nefnd á að gera. Breytingartillögur Hreyfingarinnar snúa einfaldlega að því að reyna að setja betur undir þann leka, það er ekkert flóknara en það. Ég var heldur ekki að reyna að gera þetta ótrúverðugt með því að nefna að tveir þingmenn hefðu skrifað undir breytingartillöguna með fyrirvara. Það kom nefnilega skýrt fram að sumir nefndarmanna voru ekki alveg sannfærðir um að þetta væri nægjanlegt. Það er kannski hluti af þeim ógöngum sem þetta mál hefur ratað í, að verið er að afgreiða það á tiltölulega stuttum tíma án nægilega vandaðrar meðferðar. Þarna er óvissuatriði. Þó að það sé kannski ekki mikil óvissa um þetta einstaka mál er að mínu mati mjög óþægilegt að það sé óvissa yfirleitt um það.



[10:33]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti, hv. þingmaður. Þetta mál er allt mjög óþægilegt. Það er mjög óþægilegt að hér hrundi allt. En við lögum það ekki með því að gera allt sem við vinnum hér tortryggilegt. Við erum að reyna að vanda okkur hér, við erum að reyna að laga þetta laskaða þing. Það eru fleiri en Hreyfingin sem telja að þeir geti gert það.

Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að reyna að finna upp eitthvað nýtt. Það er einmitt það sem maður les alls staðar um. Það er talað um kosningalöggjöf, það á ekki að breyta kosningalöggjöf rétt fyrir kosningar. Það á helst ekki að breyta svona viðkvæmum hlutum þegar fólk er í uppnámi.

Það er alveg rétt að það er vont að notast við límdan stól en við verðum að notast við hann. Þess vegna verðum við að standa við hliðina á þessum stól og halda honum á löppunum en ekki reyna að brjóta hann niður eins og hv. þingmaður gerir.

Hv. þingmaður segir að það sé einmitt það sem hann sé að reyna að gera, að gera þingið trúverðugt. Nú verður það líklega í fimmta skipti sem ég segi þetta og ég ætla þá bara að gera það: Aðferðir hans og Hreyfingarinnar gera þingið ekki trúverðugt.



[10:35]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar bara að lýsa eftir því hvað það er í breytingartillögum Hreyfingarinnar sem gerir þingið ótrúverðugt. (SVÓ: Málflutningur þinn.) Það er ekkert í þeim breytingartillögum sem gerir þingið ótrúverðugt og það er ekkert í málflutningi mínum sem gerir þingið ótrúverðugt. Ég er einfaldlega að benda á það sem ég tel vera galla í þessu frumvarpi. Ef fólki finnst það vera merki um að reynt sé að gera þingið ótrúverðugt leyfi ég mér að benda á að alla þá daga sem þingið starfar gagnrýna menn frumvörp út og suður. Það er ekki þar með sagt að verið sé að gera þingið ótrúverðugt, það er bara málefnalegur ágreiningur um mál og það er málefnalegur ágreiningur um þetta einstaka mál. Þingmenn mega ekki fara á límingunum þó að þeir séu hér á Alþingi sem nýtur ekki trausts almennings. Það er eitthvað sem ég gerði ekki og ber enga ábyrgð á, það er eitthvað sem þingið sjálft ber ábyrgð á og þeir þingmenn sem voru hér áður en Hreyfingin kom inn á þing.

Við berum ekki ábyrgð á því sem gerðist hér áður en Hreyfingin kom inn á þing, það eru þeir þingmenn sem voru hér fyrr sem gera það. Að þingið skuli ekki njóta trúverðugleika nema 13 eða 17% þjóðarinnar segir ýmislegt um það. (Gripið fram í.) Það er spurning (Gripið fram í.) hvernig bæta má úr því. Ég er tilbúinn að leggja mitt á vogarskálarnar til þess að reyna að bæta úr því. Ég tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt að reynt sé að laga þann hluta ef við eigum að búa hér áfram við lýðræði og þingræði. Þess vegna er ég hér.



[10:37]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hv. þingmaður eða Hreyfingin hafa borið hér fram breytingartillögu. Það er líka rétt að hér fara daglega fram umræður þar sem fólk skiptist á skoðunum og er ekki alltaf á sömu skoðun, það er eðlilegt, enda erum við til þess hér að skiptast á skoðunum.

Í málflutningi hv. Hreyfingarinnar kemur fram að ef þeirra breytingartillögur eru ekki samþykktar er það vegna þess að þau eru þau einu sem vilja koma hreint og beint fram, þau eru þau einu sem vita hvernig á að endurreisa virðingu Alþingis og við hin vitum ekkert um það. Við hin erum að sópa einhverju undir teppi, við hin erum óheiðarleg. Það er málflutningurinn sem ég geri athugasemdir við.

Ef hv. þingmaður vill kalla það að fara á límingunum skal ég fara á límingunum á hverjum degi fyrir hann.



[10:38]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil hér í upphafi segja að ég er algjörlega sannfærð um það í þessu máli að allir flokkar eru að vanda sig og þingmenn eru að reyna að gera rétta hluti. Þeir hafa legið yfir þessu máli, það er ekki verið að kasta til höndunum á nokkurn hátt hér. Það hefur enginn efni á því í þeirri stöðu sem við erum í, ekki heldur þeir flokkar sem voru hér fyrir hrun, alls ekki þeir. Hér þurfa allir að vanda sig og gera þetta mál trúverðugt og gott. Það verður að byggja upp traust í þessu samfélagi og það vitum við öll, allir flokkar vita það, ekki bara Hreyfingin. Það er algjörlega með ólíkindum að heyra þann málflutning sem Hreyfingin hefur haft í frammi, þau staglast á þessu: Við vorum ekki hér fyrir hrun, það voruð þið, vonda fólkið hérna inni, liggur við að sagt sé. Þannig á það að skiljast.

Ég neita að láta þetta mál fara fram hjá nema fara svolítið yfir tillögur Hreyfingarinnar. Ég er alveg viss um að Hreyfingin hefur reynt að setja sig inn í þetta og gert þetta vel en samt stendur ekki steinn yfir steini þegar maður fer yfir greinarnar.

Hreyfingin leggur fram breytingartillögur í þremur liðum: Í fyrsta liðnum á Alþingi að kjósa þingmannanefnd, sem er nú stóra hneykslið, ekki satt? Samt vill Hreyfingin að Alþingi kjósi sex þingmenn í nefnd sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta er algjörlega eins og þingið sjálft leggur til, það eru reyndar níu í þeirri nefnd, aðeins fleiri. Ég held að það sé bara betra að það séu fleiri en færri í þessari nefnd.

Hvað á þessi sex manna þingnefnd sem Hreyfingin leggur til að verði sett á fót, að gera? Hún á að:

„a. Móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóm eigi að draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum.“

Þetta er nákvæmlega það sama og níu manna þingmannanefndin á að gera, algjörlega það sama, bara „copy, paste“, eins og maður segir á góðri íslensku.

Liður b. Þessi sex manna nefnd á að „kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna“ o.s.frv.

Er þetta eitthvað nýtt? Nei. Þetta er líka það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að vinna í alveg heillengi. Það geta menn séð í lögum um rannsóknarnefndina.

Nefndin á að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna o.s.frv. og hún á líka að kanna hverjir kunna að bera ábyrgð á því. Algjörlega það sama, það er ekkert nýtt í þessu.

c. Sex manna þingmannanefnd Hreyfingarinnar á að „móta tillögur og leggja til breytingar á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hérlendis haustið 2008, endurtaki sig“.

Hvað er nú þetta? Þetta er nákvæmlega það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að vinna heillengi. Þetta er það sem níu manna þingmannanefndin, sem allir flokkar nema Hreyfingin hafa ákveðið að rétt sé að setja á stofn hér, á að gera. Það er ekkert nýtt í þessu.

Svo er bent á að nefndin geti látið rannsaka einstaka þætti málsins betur sem og atriði sem rannsóknarnefndin hefur ekki fjallað sérstaklega um. Er eitthvað nýtt í þessu? Nei, það er ekkert nýtt í þessu. Þetta á líka níu manna þingmannanefndin að gera. Þetta er allt nákvæmlega eins nema hér stendur að þingmannanefndin sem Hreyfingin vill setja upp eigi að ljúka störfum fyrir 1. maí 2010.

Um níu manna þingmannanefndina sem hinir flokkarnir vilja setja upp er engin sérstök tímasetning að þessu leyti. Talað er um að hún eigi að starfa á yfirstandandi þingi en að störf hennar geti dregist fram í september, við vitum það ekki. En er allur munur á þessu? Nei, virðulegi forseti, alls ekki.

Síðan er hin breytingartillagan, hvað ætli sé merkilegt og nýtt í henni? Þar stendur að Alþingi eigi að kjósa nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings. Fimm manns úti í bæ, eins og við höfum kosið að orða það hér. Hvað á þessi nefnd að gera?

„a. Koma með tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma megi draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum.“

Er þetta eitthvað nýtt? Nei, þetta er ekkert nýtt, það er nákvæmlega það sem rannsóknarnefndin er að gera í dag, nefndin úti í bæ. Þetta starf er löngu hafið. Það er algjör óþarfi að setja á fót nýja nefnd fimm valinkunnra manna úti í bæ, setja á fót nýja nefnd með nýjum lögum til að fara í verkefni sem við erum að vinna í dag. Rannsóknarnefndin er að vinna þetta.

b. Þessi fimm manna nefnd úti í bæ á að „kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs“.

Er eitthvað nýtt í þessu? Nei, þetta er það sem rannsóknarnefndin er að gera. Ég hvet þingmenn til þess að lesa lögin um rannsóknarnefndina ef þeir vita það ekki, þetta stendur þar. Þetta er nákvæmlega það sem hún er að gera, eins og ég las upp áðan, hún er að kanna hverjir bera ábyrgð á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna.

Síðan kemur c-liður. Þessi fimm manna nefnd úti í bæ á að „móta tillögur að breytingum á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi sem urðu hér á landi haustið 2008, endurtaki sig“.

Hafa menn heyrt þetta áður? Já. Þetta er einmitt það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að gera um langt skeið, það er ekkert nýtt í þessu.

Svo kemur hér: Þessi nefnd sem Hreyfingin vill setja upp, fimm manna nefnd úti í bæ, „setur sér eigin verklagsreglur og skilar tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar sem kveðið er á um í 15. gr. og kynnir þær opinberlega. Nefndin skal ljúka störfum fyrir 15. mars 2010“.

Þessi fimm manna nefnd valinkunnra manna úti í bæ sem Hreyfingin vill setja upp á að skila tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar fyrir 15. mars 2010. Þetta er ekki hægt að skilja með nokkrum öðrum hætti en þeim að þetta er tafarferli af því að rannsóknarnefndin sinnir nú því sama og sú fimm manna nefnd úti í bæ, sem Hreyfingin kallar eftir. Hún þarf að skila miklu fyrr, hún hefði reyndar átt að vera búin að því en það voru allir sammála um að hún fengi meiri frest af því að þetta er svo umfangsmikið verkefni. Rannsóknarnefndin mun skila í lok janúar eða í byrjun febrúar, löngu fyrir 15. mars 2010, sem er dagsetningin sem Hreyfingin vill miða við.

Það stendur því ekki steinn yfir steini í tillögum Hreyfingarinnar. Þar er verið að leggja til að gera hlutina á lengri tíma en miðað er við í dag, ef eitthvað er, t.d. varðandi fyrsta hlutann, þ.e. rannsóknarnefndina sjálfa. Hún á að skila fyrr í tillögum hinna flokkanna. Það má hins vegar deila um hvort þingmannanefndin skili fyrr eða ekki. Hreyfingin vill að hún geri það 10. maí en hinir flokkarnir segja „á yfirstandandi þingi“. Hugsanlega verður það í lok september, virðulegur forseti.

Þetta eru nú tillögur Hreyfingarinnar. Áðan var sagt og klifað á því hvað traustið á Alþingi væri lítið og það er áhyggjuefni. Ég skýt því að að það er gleðilegt hvað traustið á lögreglunni er mikið í því erfiða ástandi sem við erum í og lögreglan hefur þurft að taka á mjög mörgum erfiðum málum. Hún nýtur mjög mikils trausts og ég er ánægð með það. En traustið á Alþingi er ekki mikið m.a. vegna þess hvernig talað er hér inni.

Hv. þm. Þór Saari sagði að hér færi fram málefnaleg umræða með rökum og að menn skiptust á skoðunum, það væri oft tekist á um trúverðugleika mála og það er alveg rétt. En þegar hv. þm. Hreyfingarinnar, Þór Saari, kemur hér upp ítrekað og viðhefur málflutning eins og þann að þingheimur allur, að Hreyfingunni undanskilinni, ætli að sópa skýrslu rannsóknarnefndarinnar undir teppið og að þingið ætli að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina, að málið sé einhvers konar samtryggingarkerfi þingmanna um að gera ekki neitt, þá segi ég bara nei. Ég neita að sitja undir svona málflutningi sem þingmaður. Ég hef ávallt reynt í störfum mínum að vera heiðarleg og hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og vera réttlát og sanngjörn. Fyrir það stend ég og fyrir það ætla ég að standa. Þess vegna ætla ég ekki að sitja undir því þegar hér koma þingmenn upp og saka mann um eitthvað annað, að ætla að sópa einhverju undir teppið. Ég held að það sé ekki hægt. Þó að allir mundu vilja það — sem menn vilja ekki — væri það ekki hægt. Það eru þannig aðstæður í samfélaginu í dag, fólk er mjög reitt yfir því sem gerðist. Við erum með rannsóknarnefnd til að rannsaka það. Við sameinuðumst um að gera það þannig og vorum öll sammála um það þegar rannsóknarnefndin var sett upp, hver einasti þingmaður, hver einasti flokkur, og þetta var vel gert.

Í gær fóru þingmenn að vísu svolítið fram úr sér. Hér voru menn með miklar sakbendingar á milli flokka og milli einstaklinga, sem er algjörlega ótímabært. Við eigum að bíða eftir niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar, þá eigum við að taka á málinu. Við settum þá nefnd á fót til þess að leita sannleikans eins vel og hægt er að gera það og á meðan staðan er eins og hún er núna er það bara gífurlegt ábyrgðarleysi þegar flokkar reyna að klifra upp bakið á hver öðrum í þessari stöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég vil segja að Hreyfingin geri það. Hreyfingin klifrar upp bakið á öðrum flokkum í þessu máli, reynir að skapa ótrúverðugleika í kringum rannsóknarnefndina og í kringum þingmannanefndina sem á að taka við þessu.

Hreyfingin mun eiga fulltrúa og fær fulla aðkomu að þeirri nefnd níu manna þingmannanefnd sem ég á von á að við greiðum atkvæði um á morgun. Ég vil, virðulegur forseti, beina því til þingmanna Hreyfingarinnar að íhuga hvort það sé ekki betra að reyna að skapa eitthvert traust og aðstoða aðra flokka og þá þingmenn hér inni sem vilja skapa trúverðugleika, við að byggja upp traust um þetta starf. Starfið sem mun fara fram í þessari níu manna þingmannanefnd verður gríðarlega erfitt og ég öfunda ekki þá þingmenn sem fara í þá nefnd. Það má að mínu mati ekki grafa undan nefndinni á sama tíma. Hún þarf fullt „back up“. Hún þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Þær liggja hugsanlega ekki í augum uppi. Þetta verður erfitt starf. Hreyfingin þarf að sitja þar inni eins og aðrir flokkar og taka þessar erfiðu ákvarðanir.

Það verður að ríkja algjört traust um þessa nefnd. Ég kalla því til þingmanna hv. Hreyfingarinnar og bið þau að standa nú með okkur í þessu máli og skapa traust um þessa þingmannanefnd. (Gripið fram í.)



[10:51]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti vill að gefnu tilefni beina þeim tilmælum almennt til þingmanna að nýta íslenska tungu hér í sal. Hún er þjóðtungan.



[10:51]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði kosið eins og áður að ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefði verið á málefnalegum nótum. Hún fór hér yfir víðan völl í þessu máli og benti á að allt í breytingartillögum Hreyfingarinnar væri í frumvarpinu. Það sér það hver læs maður að svo er ekki. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hv. þingmaður hefur uppi þennan málflutning.

Það er mjög óskýrt hvað þessi þingmannanefnd á að gera og þetta var tilraun til að bæta úr því. Nánast ekkert af því sem hv. þingmaður sagði hér uppi í ræðupúlti er rétt, það er mestallt alrangt. Ég hef t.d. aldrei staðið hér og sakað þingmenn um óheiðarleika, ég hef aldrei gert það. Þegar ég hef talað um að fólk sem ég hef ráðfært mig við úti í bæ hafi látið þau orð falla að þessi þingmannanefnd muni skila af sér froðu um verslunarmannahelgina er það bara einfaldlega það sem ég hef heyrt og ég kem því hér á framfæri við þingheim. Það getur vel verið að þingmenn kjósi sem svo að einangra sig frá umheiminum, að þeir vilji ekkert vita um það sem fer fram utan þingsalarins, en þeir þá um það. Ég mun hins vegar halda áfram að koma hingað með þau viðbrögð sem ég heyri úti í bæ við því sem þingið er að gera, það er einfaldlega skylda mín sem þingmanns.

Það hefur margt gengið á hér í íslensku samfélagi og þingið nýtur ekki trausts. Þingmenn Hreyfingarinnar setja sig ekki á háan hest þegar þau segja að þau hafi ekki verið á þingi fyrr en í vor. Það er einfaldlega staðreynd að þingmenn Hreyfingarinnar voru ekki á þingi og bera ekki ábyrgð á þeirri löggjöf sem leiddi til hrunsins. Það er ekki orðræðan á þinginu sem níðir niður virðingu þingsins, (Gripið fram í.) það er sú löggjöf sem þingið sendir frá sér sem er það ónýt að íslenskt samfélag og efnahagslíf hrundu (Forseti hringir.) nánast til grunna. Það er þess vegna sem þingið nýtur ekki virðingar, það er ekki vegna þess að Hreyfingin gagnrýni störf þingsins.



[10:54]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór ítarlega yfir í ræðu minni hér áðan er meginhugsunin í breytingartillögum Hreyfingarinnar í takti við í raunveruleikann í dag. Það er ekki allt í frumvarpinu sem við fjöllum um nú, sumt er löngu farið í gegn í öðru frumvarpi, í frumvarpi um rannsóknarnefndina og lögum um hana.

Ég lýsti því hér áðan hvert hlutverk rannsóknarnefndarinnar væri. Hennar hlutverk er það sama og hlutverk fimm manna nefndarinnar sem Hreyfingin leggur til, það er löngu farið í gegnum þingið. Hreyfingin leggur síðan til sex manna þingmannanefnd til að taka við pakkanum, við rannsóknarskýrslunni. Aðrir flokkar leggja til níu manna þingmannanefnd, það er í frumvarpinu sem við fjöllum um hér. Hreyfingin er því ekki með neitt nýtt, þetta er allt í ferli og verið er að vanda til verka.

Þegar hv. þm. Þór Saari kemur hér upp og segir: Ja, ég var nú ekki að segja þetta og hitt, ég heyrði það bara úti í bæ, lætur þingmaðurinn samt orð sín falla úr ræðustól Alþingis og undir því er ekki hægt að sitja. Sú sem hér stendur situr ekki undir því að sagt sé að það frumvarp sem við fjöllum um sé einhvers konar samtryggingarkerfi þingmanna um að gera ekki neitt. Það er rangt. Að það eigi að sópa einhverjum skýrslum, m.a. skýrslunni stóru, undir teppið — það er rangt. Og að það eigi að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina er líka rangt. Það verður ekki setið undir þessum málflutningi, hann er að mínu mati, miðað við þann málflutning sem hér hefur verið í dag, (Forseti hringir.) einungis til þess fallinn að skapa Hreyfingunni sérstöðu til að klifra upp bakið á öðrum flokkum.



[10:56]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er einkennilegt að sitja undir þessari orðræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Sex manna þingmannanefndin á einmitt að vera sex manna með einum úr hverjum flokki og þingmanni utan flokka til þess að leggja áherslu á að hér er ekki um hefðbundna pólitíska nefnd að ræða. Rannsóknarnefndin á ekki að gera það sem lagt er til í breytingartillögum Hreyfingarinnar, það er einfaldlega ekki rétt. Hún á að gera marga aðra hluti.

Ég hef aldrei sagt að Alþingi muni sópa einhverju undir teppið eða að Alþingi muni skila af sér einhverri froðu. Ég hef sagt að frumvarpið bjóði upp á að það verði gert. Það hef ég eftir lögfróðum mönnum úti í bæ (Gripið fram í.) og þess vegna óskaði ég eftir því að frumvarpið yrði sent út til umsagnar og að utanaðkomandi gestir yrðu fengnir á fund nefndarinnar, en því var hafnað. Öllum eðlilegum vinnubrögðum í kringum þetta frumvarp hefur verið hafnað að mínu mati og þess vegna erum við að gagnrýna það.

Ég átta mig ekki á því hvers vegna það fer svona óskaplega í taugarnar á þingmönnum en ég tel einfaldlega að hér sé um lagasetningu að ræða sem ber keim af þeirri lagasetningu sem viðgengist hefur á Alþingi árum og áratugum saman. Hún hefur verið þannig að við sitjum núna uppi með það að bankakerfið hrundi. Það varð siðferðisrof í þjóðfélaginu og það skapaðist gjá milli þings og þjóðar. Það er vegna starfa Alþingis, það er ekki vegna þess að ég gagnrýni Alþingi, ég leyfi mér bara að minna á það. Það er vegna Alþingis sjálfs, það er ekki vegna mín eða annarra þingmanna Hreyfingarinnar. Það er Alþingis að taka á því og það gerir það ekki með svona málflutningi.



[10:58]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það hér í ræðu minni hvað þessi fimm manna nefnd sem Hreyfingin vill setja upp úti í bæ átti að gera samkvæmt liðum a, b og c. Ég hef ekki tíma til þess að lesa það aftur í stuttu andsvari. Það er það nákvæmlega sama og rannsóknarnefndin er að gera. (ÞSa: Það er ekki rétt.)

Síðan segir hv. þingmaður hér, og reynir reyndar aðeins að bakka, ég verð nú að meta það einhvers, að það sé ekki verið að rýra trúverðugleika þingsins og það hafi ekki verið sagt að það ætti að sópa undir teppið en það muni hugsanlega gerast.

Þá ætla ég að fá að lesa, virðulegur forseti, upp úr greinargerð Hreyfingarinnar eða hv. þm. Þórs Saaris með breytingartillögum Hreyfingarinnar. Þetta eru síðustu línurnar í greinargerðinni þannig að þær eru auðfundnar.

Svona hljómar þetta, virðulegur forseti:

„Þinghópur Hreyfingarinnar telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.“

Þarf að segja eitthvað meira, virðulegur forseti? Það er alveg greinilegt að Hreyfingin vill viðhalda vantrausti á þinginu, hún vill ekki ná neinni samstöðu um þetta mál, talar sig frá því eins og hægt er, kemur með einhverjar breytingartillögur sem eiga í þykjustunni að vera til þess að bæta málið en eru í reynd nákvæmlega það sem verið er að gera. Það eru engar fréttir í því, virðulegur forseti.

Vonandi snýst Hreyfingunni hugur (Forseti hringir.) og vinnur af alefli í níu manna þingmannanefndinni að því að skapa traust og komast að réttlátri niðurstöðu varðandi það sem gerðist hér.



[11:00]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hér í lok umræðunnar þakka fyrir ágætar umræður, oftast nokkuð málefnalegar. Ég verð þó að segja það vegna málflutnings hv. þm. Þórs Saaris að þau viðbrögð sem hann hefur fengið í umræðunni sýna að flestum þeim þingkonum sem tekið hafa til máls hér hefur ofboðið þessi málflutningur því að það kemur alltaf að þeim tímapunkti að fólki ofbýður. Fólk getur ekki setið undir því dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, að vera sakað um að starfa ekki af heilindum í vinnunni sinni, að svíkja land og þjóð. Þá kemur að því að fólk rís upp og segir: Hingað og ekki lengra.

Ég kaus það sem formaður allsherjarnefndar í þessari vinnu, og það veit hv. þm. Þór Saari mætavel, að freista þess að ná samstöðu milli allra þingmanna um þetta mál og þess vegna var það ekki tekið út fyrir jól. Það var tekið út milli jóla og nýárs, m.a. vegna þess að ég vildi freista þess að sem flestir væru með á málinu. Mér finnst það skipta máli, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og fleiri þingmenn hafa komið hér inn á, að það væri samstaða á þingi um að vanda sig við þetta mál, að vinna það vel.

Ef ég hefði viljað hefði ég getað farið lið fyrir lið í tillögur Hreyfingarinnar í fyrstu ræðu minni og tætt í mig, líkt og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði, en ég kaus að gera það ekki. Ég trúi því enn þá, þrátt fyrir þann málflutning sem hv. þm. Þór Saari hefur haft uppi í dag, og treysti að sá fulltrúi Hreyfingarinnar sem sest í þingmannanefndina sem á að taka við vinnu rannsóknarnefndarinnar, muni starfa þar af heilindum og trúverðugleika. Þess vegna ákvað ég að fara ekki í slag við Hreyfinguna í þessari umræðu, sem ég hefði kannski átt að gera vegna þess að ekki stendur steinn yfir steini í þessum tillögum þeirra, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á. Það er búið að fara mjög málefnalega yfir breytingartillögur Hreyfingarinnar og bera þær saman við þær tillögur sem hér eru, ég þarf ekkert að endurtaka það. Síðan kemur hv. þm. Þór Saari upp og talar um að ekki sé rætt um málið á málefnalegan hátt. Ég verð þvert á móti að segja að mér finnst hafa verið farið yfir þetta mál á mjög málefnalegan hátt úr þessum ræðustóli. Menn hafa verið að vera að skylmast hér með rökum fram og til baka. Þó að hv. þm. Þór Saari sé kannski ekki sammála þeim sjónarmiðum sem sett eru fram er algjörlega af og frá að afgreiða það þannig að það séu ekki málefnaleg rök, það gengur ekki.

Hér er ítrekað talað niður til fólks í þessari umræðu. Hér er ítrekað talað um þriggja manna hóp nýrra þingmanna sem settust á þing en það gleymist að tala um þá 20 til viðbótar úr öðrum flokkum sem komu nýir inn á þing ásamt þessum þremur fulltrúum Hreyfingarinnar. Allir sem ekki tilheyra Hreyfingunni eru settir í þann hóp að vera pakk og hyski, eins og komið hefur fram hér í þessari umræðu og einn hv. þingmaður — ég hygg að það hafi verið hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir — orðaði það. Menn slá sér hér ítrekað upp á kostnað annarra.

Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu hér og í sjálfu sér bjóst ég ekki við því að umræðan stæði mikið lengur en í klukkutíma, enda var ekki gert ráð fyrir öðru en því að formaður allsherjarnefndar gerði grein fyrir álitinu og síðan mundi hv. þm. Þór Saari gera grein fyrir sínu máli. Hins vegar var málflutningur hv. þingmanns með þeim hætti að fólki sem sat hér úti í sal og hlustaði á þessa ræðu var bara gjörsamlega misboðið og þá sauð upp úr.

Í dag eða á morgun verður væntanlega kosin níu manna þingmannanefnd og eins og bent hefur verið á ítrekað er ekki stjórnarmeirihluti í þeirri nefnd. Það eru tveir frá hverjum flokki úr fjórum stærri flokkunum hér á þingi og einn frá Hreyfingunni. Ef út í það er farið er stjórnarandstaðan með meiri hluta en mér finnst það bara ekki skipta neinu máli. Það á ekki að líta á þessa þingmannanefnd sem einhverja meirihlutanefnd eða minnihlutanefnd. Við eigum að sameinast um að vinna þetta verk af heiðarleika. Ég skora hér með á Hreyfinguna að ganga til þessarar vinnu og þessa verks í takti með öðrum þeim þingmönnum sem þar munu setjast og að þau vinnubrögð verði ekki í samræmi við það sem endurspeglast hefur í umræðunni. Ég vona að menn beri gæfu til þess allir sem einn að vinna málið þannig að virðing Alþingis, sem mönnum er jú mjög tíðrætt um hér, aukist. Að við stöndum þá undir nafni sem hópur, 63 þingmenn, og þessi þingmannanefnd og getum á einhvern hátt endurheimt það traust sem því miður hefur dalað á Alþingi, að við getum endurvakið virðingu Alþingis.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Það er gríðarlega mikilvægt, ekki síst ef við á Alþingi Íslendinga ætlum að horfa til þess að skipa hér rannsóknarnefndir í framtíðinni, að það sé traust á þessari þingmannanefnd, að hún hafi trúnað allra og að niðurstaða þeirrar nefndar geti orðið grunnur að því að þetta traust verði endurvakið.



[11:07]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að það er óskandi að framhald þessa máls verði með þeim hætti að þingið hafi sóma af. Ég frábið mér hins vegar allan þann málflutning sem uppi hefur verið hafður af hálfu sumra sem styðja þetta frumvarp og leggja mér orð í munn um að ég hafi kallað þingmenn alls konar nöfnum og þess háttar. Ég átta mig ekki á því hvers vegna fólk talar með þeim hætti, það er einfaldlega bara ósatt og þetta er óheiðarlegur málflutningur. (Gripið fram í.)

Ég hef lýst eftir málefnalegri umræðu. Hún hefur að einhverju leyti farið fram en þó að mjög litlu leyti. Það er málefnalegur málflutningur að kalla eftir sjónarmiðum utan úr bæ inn í allsherjarnefnd og það var ekki gert, því var hafnað. Því var ekki hafnað með málefnalegum rökum, því var hafnað með því formsatriði að formanni nefndarinnar beri ekki skylda að verða við óskum áheyrnarfulltrúa nefndarinnar. Það er ekkert sem segir að hún þurfi að gera það. Það er þess konar málflutningur sem ég mótmæli. Ég held að það hefði verið hægt að vinna þetta mál betur og ég vona svo sannarlega að þessi níu manna þingmannanefnd muni vinna málið vel. Hreyfingin mun að sjálfsögðu taka þátt í því starfi af fullum krafti og líka af fullum heilindum.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þingið kemst frá þessu máli. Þetta er mjög áríðandi og það er mjög mikilvægt að það takist vel til. Ég vona svo sannarlega að málflutningur minn hér í dag og undanfarna daga í þessu máli hafi ýtt nægilega vel við þingmönnum til þess að þeir átti sig á því hversu mikilvægt þetta er því að ég er ekki viss um að þingmenn hafi gert sér grein fyrir því almennilega, því miður. Vonandi rætist úr hvað það varðar.



[11:09]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari veit mætavel að sú sem hér stendur hafnaði ekki beiðni hans fyrst og fremst vegna formsatriða. Ég gat þess hins vegar að í samþykktum um áheyrnarfulltrúa fastanefnda er ekki gert ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar geti kallað gesti fyrir fundi. Það var hins vegar ekki meginástæðan fyrir því að ég hafnaði þeim lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fram.

Eins og hv. þingmaður veit mætavel sagði ég við hann á þessum tiltekna fundi að ég sæi ekki sérstaka ástæðu til þess að kalla tiltekna blaðamenn, álitsgjafa, fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga eða ræðumenn hér úti á Austurvelli í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar fyrir nefndina, þennan 14 manna lista sem hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig, frekar en að kalla einhverja aðra tiltekna einstaklinga inn á fund. Það var ástæðan fyrir því að ég féllst ekki á að kalla þessa einstaklinga þarna inn en ekki þau formsatriði sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég vil óska eftir því við hv. þingmann að hann fari rétt með staðreyndir hér úr ræðustóli Alþingis.



[11:11]
Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Að fá gesti utan úr bæ á fundi þingnefnda er bara góður siður og það er alvanalegt að það sé gert. Í þessu tiltekna máli var óskað eftir að það kæmu gestir á fund allsherjarnefndar sem hafa einmitt á undanförnu ári haft uppi efasemdir um Alþingi og hæfi þess til að starfa. Þar á meðal eru virtir lögfræðingar, fjölmiðlamenn, formaður Blaðamannafélags Íslands og fleiri. Þetta er tilraun til þess að fá utanaðkomandi álit á lagasetningu Alþingis í einhverju mikilvægasta máli sem Alþingi hefur tekist á við.

Mér finnst alveg ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið gert. Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt að Alþingi leiti í meira mæli úr fyrir veggi þinghússins til þess að fá álit á málum. Við höfum lagt fram frumvörp m.a. um þjóðaratkvæðagreiðslur í þeim tilgangi vegna þess að við teljum bráðnauðsynlegt að almenningur og fólk úti í bæ fái að koma meira að álitamálum á þingi en verið hefur hingað til. Að kalla ekki fólk á fund allsherjarnefndar, sem hefur hugsanlega gagnrýnið viðhorf til lagasetningar finnst mér einfaldlega ekki vera rétt leið eða málefnaleg.

Tillögum Hreyfingarinnar var hafnað í allsherjarnefnd og því að það kæmu fyrir gestir á fund nefndarinnar. Ég er einfaldlega mjög ósáttur við það og ég held að það hafi verið mistök. Það er svo spurning hvað verður um þetta mál þegar þingmannanefndin verður sett á stofn og með hvaða hætti hún starfar. Ég tel að hún eigi að starfa fyrir opnum tjöldum alfarið og að jafnvel eigi að útvarpa fundum hennar til þess að allt sé á hreinu með störfin, en það verður þá bara að koma í ljós hvernig það verður.



[11:13]
Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér alveg verið sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt þegar verið er að undirbúa vandaða lagasetningu að kallaðir séu sérfræðingar fyrir fundi Alþingis enda er það oftast nær gert, það er almenna vinnureglan. Formenn fastanefnda kalla oft eftir tilnefningum frá fulltrúum í nefndum og fara yfir þá lista og reyna að verða við þeim óskum eins og framast er unnt.

Ég verð hins vegar að segja að þegar hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig sem formann nefndarinnar lista sem innihélt nöfn 14 einstaklinga var vandi að sjá af hverju hefði átt að kalla þá fyrir nefndina frekar en einhverja aðra. Á þessum lista voru m.a. einstaklingar sem hafa lýst svipuðum hugmyndum og hv. þm. Þór Saari um hlutverk rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar. Og ef út í það hefði verið farið hefðu svo sem allir nefndarmenn getað komið með álíka langan lista einstaklinga til þess að styðja við sinn málflutning. Ég taldi hins vegar, og það var alger samstaða um það innan nefndarinnar, að öll sjónarmið væru komin fram. Þetta væri fyrst og fremst spurning um lagatúlkun og m.a. þess vegna leituðum við til Bjargar Thorarensen prófessors til að fara yfir málið með okkur. Við fengum ráðgjöf símleiðis og ég var í sambandi við lögfræðinga yfir jóladagana til þess að ganga frá þessu máli.

Ég tel því þvert á móti að menn hafi vandað sig og reynt að gera þetta eins vel og þeim framast var unnt. Ég get svo sem fallist á að það er sjálfsagt og eðlilegt að kalla fyrir gesti á nefndarfundi enda er það í flestum tilfellum gert.