138. löggjafarþing — 64. fundur
 29. desember 2009.
ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 76. mál (Icesave-reikningar). — Þskj. 76, frhnál. 599, 600, 601 og 602, brtt. 609 og 610.

[13:31]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit hafa farið fram á Alþingi langar og stangar umræður um þetta eitt stærsta mál Íslandssögunnar, Icesave-málið. Sífellt eru að koma fram nýjar upplýsingar og sífellt að koma í ljós að enn eru gögn sem við þingmenn höfum ekki fengið að sjá. Enn bíðum við eftir gögnum og ég vona svo sannarlega, frú forseti, að því verði þannig til haga haldið að þau gögn komi fram í dagsljósið áður en við greiðum atkvæði í þessu stóra máli.

Í 3. umr. hefur komið enn betur í ljós, og í ljósi þeirra gagna sem aflað var í kjölfar þess samkomulags sem stjórnarandstaðan náði að knýja fram á þinginu, að málið virðist allt saman byggja á misskilningi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Hæstv. fjármálaráðherra rökstuddi svo þá niðurstöðu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komist að í þessu máli, að hið „illræmda minnisblað“, svo vitnað sé til orða hans, með leyfi forseta, sem undirritað var með Hollendingum, hafi gert það að verkum að núverandi ríkisstjórn hafi verið bundin í báða fætur varðandi þetta mál. Þetta sagði hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni 8. júní 2009.

Frú forseti. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er stjórnmálamaður sem hafði ákveðið mikil völd á síðasta ári og var utanríkisráðherra á þeim miklu umbrotatímum þegar bankarnir féllu, hefur lagt fram minnisblað til utanríkismálanefndar um það hvernig þessum málum var háttað í tíð hennar. Mér virðist sem hæstv. fjármálaráðherra hafi á engan hátt sett sig inn í það ferli sem þetta mál var búið að fara í gegnum og hafi ekki sett sig inn í það hver staða málsins var þegar sú ríkisstjórn sem nú hefur forræði á þessu máli tók við. Í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kemur nefnilega fram að þegar gengið var í það verk að búa til hin svokölluðu Brussel-viðmið hafi samkomulagið við Hollendinga frá 11. október verið úr sögunni. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þetta er diplómatískt samkomulag [þ.e. Brussel-viðmiðin] sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms sem bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar, með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“

Og þar með er fallin sú grundvallarforsenda sem núverandi ríkisstjórn byggir allan sinn málflutning á. Svona einfalt er þetta. Mér er algerlega hulin ráðgáta hvers vegna ráðamenn þjóðarinnar geta ekki horfst í augu við það að þeir hafa gert hér mikil mistök í þessu máli og vilja ekki taka málið aftur til skoðunar á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Hvers vegna var fallið frá þeirri leið að fá forustuþjóðir ESB til að vera millilið í málinu, til að leysa þetta mál? Hvers vegna var fallið frá því? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað þrátt fyrir hinar löngu og ströngu umræður um málið.

En það er ekki aðeins um þetta sem hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna virðast vera haldnir einhverjum misskilningi. Nú er það svo að Mishcon de Reya, sem er virt lögmannsstofa í Bretlandi, hefur skilað fjárlaganefnd áliti á þessum samningum og því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Í álitinu er að finna fjölmargar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara. Vissulega er sagt í álitinu að ef Alþingi mundi fella málið og á það yrði látið reyna fyrir dómstólum sé ekki hægt að fullyrða um á hvorn veginn málið mundi fara. Nú þekki ég engan lögmann sem mundi nokkurn tíma lýsa því yfir við skjólstæðing sinn að hann væri með algerlega unnið mál í höndum. Þetta er einfaldlega svar sem lögmannsstofur gefa og ríkisstjórnarflokkarnir hafa reynt að gera mikið úr að það sé nú ekki alveg víst í ljósi álits lögmannsstofunnar að við mundum vinna slíkt mál. Að sjálfsögðu er það ekki víst.

En það var ekki þessi punktur sem ég ætlaði að koma inn á, frú forseti, heldur sá að í álitinu er að finna umfjöllun um að tilgangur tilskipunarinnar um innstæður frá 1994, sem við leiddum inn í okkar rétt úr EES-rétti, sé ekki að tryggja innstæður við kerfishrun, og í því sambandi er vísað til skýrslu nefndar franska seðlabankans frá árinu 2000 sem var þá undir forustu núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Í þessari skýrslu eru sérstaklega færð rök fyrir því að regluverk Evrópusambandsins um innstæðutryggingar taki ekki til kerfishruns. Var það ekki einmitt það sem gerðist á Íslandi? Hér varð kerfishrun.

Misskilningurinn hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna kristallaðist í orðaskiptum mínum við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson fyrr í dag, þar sem hann lýsti því yfir að Icesave-málið væri ekki afleiðing kerfishruns heldur einstakt mál sem tengdist Landsbankanum og hefði ekkert með kerfishrunið eða bankahrunið á Íslandi að gera. Þetta er furðuleg söguskýring og virðist stafa af einbeittum vilja til að skilja ekki málið, einbeittum vilja til að finna sér pólitíska sannfæringu fyrir því að styðja þetta mál eins og forsætisráðherra leggur hart að sínum liðsmönnum að gera. Þetta er einbeittur brotavilji til að reyna að finna sér pólitíska sannfæringu, en ég ber þó virðingu fyrir því, virðulegi forseti, að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segist hafa pólitíska sannfæringu í þessu máli og ætlar að styðja það. Ég held að ég geti fullyrt að hann sé eini hv. þingmaður stjórnarliðsins sem hefur gengið svo langt að lýsa því yfir að hann hafi pólitíska sannfæringu í þessu máli og það er svo sem ágætt út af fyrir sig ef sú sannfæring væri á rökum reist.

Frú forseti. Mig langar að fara aðeins í gegnum fleiri atriði sem breska lögmannsstofan hefur gert athugasemdir við. Farið er í gegnum lánasamningana alla og gerðar athugasemdir við ýmis ákvæði, mjög mörg, að þau séu óeðlileg og þar sé langt gengið en það eru tvö atriði sem ég ætla að staldra við. Í fyrsta lagi eru það gjaldfellingarheimildirnar í samningunum. Í umfjöllun Mishcon de Reya segir að gjaldfellingarheimildirnar séu óvenjulega víðtækar og meðal þeirra gjaldfellingarheimilda sem sérstaklega eru teknar til umfjöllunar í álitinu vegna þess að þær séu svo íþyngjandi eru grein 12.7 og 12.1.10. Það kemur fram á bls. 43 í álitinu að fjárlaganefnd er ráðlagt að setja svokallað „disclosures“ á breska samninginn til að tryggja réttindi Íslands. Ég hef spurt að því hvort fjárlaganefnd hafi skoðað þessar ráðleggingar. Ég hef fengið fá svör en þó skilst mér að þessar ráðleggingar hafi að engu verið hafðar. Það er áhyggjuefni.

Þá er fjallað um í álitinu möguleikana til að endurskoða samningana ef skuldir þjóðarbúsins fara yfir 240% af vergri framleiðslu og að í þessu ákvæði samningsins felist ekkert annað en að halda fund um þá stöðu, að í þessu felist ekki nein ákveðin skuldbinding af hálfu Breta eða Hollendinga. Það er athyglisvert vegna þess að þessu ákvæði hefur einmitt verið flaggað af hálfu stjórnarliða í umræðunum þegar við í stjórnarandstöðunni höfum verið að gera athugasemdir við það að efnahagslegi fyrirvarinn sem Alþingi samþykkti í sumar hafi að engu verið hafður, sé nú að engu orðinn. Þetta er atriði sem ég hef áhyggjur af og ég tel að ekki sé hægt að láta fram hjá sér fara svo viðamiklar og alvarlegar athugasemdir eins og lögmannsstofan breska hefur viðhaft um þetta mál.

Í þriðja lagi langar mig að fjalla aðeins um þá staðreynd, frú forseti, að í álitinu fullyrðir Mishcon de Reya að með því að nefna beinum hætti í viðaukasamningunum að samningarnir séu í samræmi við Brussel-viðmiðin felist það að ekki verði unnt að nota þau rök síðar. Nú er það þannig að í viðaukasamningunum er ekki hægt að finna þess neinn stað að verið sé að semja á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Hins vegar er sett inn fín setning um að þetta sé samt í anda þeirra. Þar með er okkar málsvörn fallin samkvæmt áliti Mishcon de Reya og það er alvarlegt mál.

Af öllu því sem ég hef haft áhyggjur af varðandi þetta mál, bæði að það byggir allt á misskilningi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hvað varðar þær grundvallarforsendur sem þeir byggja álit sitt á og eins gagnvart skilningi á því hvaða gildi innstæðutryggingartilskipunin frá 1994 hefur, þá hef ég gríðarlegar áhyggjur af því að menn ætli sér að taka hér á þingi ákvörðun í þessu stærsta máli Íslandssögunnar á grundvelli þröngra flokkshagsmuna. Ég er gríðarlega döpur þegar ég hugsa til þess að þetta sé það sem mönnum er efst í huga þegar við tökum ákvörðun sem varðar fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar, efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar til margra áratuga. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu, frú forseti, að við sem hér sitjum verðum að hefja okkur yfir slíka flokkadrætti í þessu máli, við verðum að gera það. Enginn þingmaður hér inni eða hagsmunir hans eru stærri en þetta mál. Þetta mál varðar svo mikla efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar að við höfum einfaldlega ekki leyfi til að horfa til þröngra flokkshagsmuna eins og mér virðist sumir hv. þingmenn ætla að gera í atkvæðagreiðslunni á morgun.

Nú er það svo að ríkisstjórnir koma og fara og ég skil vel að mönnum þyki völdin sæt, þeim sem sitja nú í ríkisstjórn og þeim sem styðja þá ríkisstjórn, en menn verða engu að síður að horfa á það að við erum með gríðarlega sérstakt mál í höndum. Mál sem skuldbindur íslensku þjóðina að því marki að börnin okkar gætu þurft að greiða af þessum lánasamningum út í hið óendanlega. Ég vona svo sannarlega að það verði ekki raunin en hættan er til staðar þar sem fyrirvörum Alþingis sem samþykktir voru í sumar hefur verið kastað fyrir róða. Af þessu hef ég miklar áhyggjur, frú forseti, og ég vonast til að þeir hv. þingmenn sem sýndu óbilandi hugrekki í sumar og stóðu gegn því að ríkisstjórnarflokkarnir gætu keyrt í gegn hina upphaflegu Icesave-samninga, gætu keyrt þá í gegnum þingið án þess að við fengjum að sjá þá, án þess að þeir yrðu birtir, án þess að hér færi fram umfangsmikil efnisleg umfjöllun um málið, ég skora á þá þingmenn að skoða hug sinn enn og aftur og kanna hvort enn sé ekki til vottur af því hugrekki sem bærðist í brjóstum þingmanna í sumar til að leita annarra lausna í þessu máli en ríkisstjórnarflokkarnir reyna nú að koma í gegnum þingið. Íslenska þjóðin kallar eftir því að þingmenn reyni að sýna einhverja samstöðu. Það er ljóst. Sú samstaða er ekki til staðar og það byggist að miklu leyti á því að í öllu þessu máli hefur verið haldið þannig á því af ríkisstjórnarflokkunum að maður hefur á tilfinningunni að það megi ekki upplýsa alla þætti þess. Ég kom aðeins inn á það áðan að enn er verið að bíða eftir gögnum sem urðu til þess að samninganefndin, sem núverandi ríkisstjórn skipaði, breytti um afstöðu gagnvart tilteknum atriðum í þessu máli. Við erum enn að bíða eftir gögnum og það á að greiða atkvæði á morgun.

Frú forseti. Þetta eru ekki vinnubrögð sem mér hugnast. Þetta eru ekki vinnubrögð sem ég hélt að ríkisstjórnarflokkarnir vildu viðhafa. Ég hélt í sakleysi mínu þegar ég settist á þing og hæstv. forsætisráðherra talaði að nú ætti að viðhafa gegnsæja stjórnsýslu, opin og lýðræðisleg vinnubrögð o.s.frv. Það hefur margoft verið sagt úr þessum ræðustól en á borði er einfaldlega ekki hægt að finna þeim orðum stað, það er ekki farið eftir þeim orðum. Enn og aftur rekum við okkur á það og nú hér þrátt fyrir alla þessa ítarlegu umræðu, sem sumir hv. stjórnarþingmenn hafa leyft sér að kvarta yfir hversu löng sé orðin, og það skýrist m.a. af því að ríkisstjórnarflokkarnir draga enn lappirnar við að upplýsa málið, upplýsa okkur þingmenn þjóðarinnar og þjóðina alla um það á hvaða rökum þessi ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna byggir. Rökin hafa verið hrakin fyrir þeirri grundvallarforsendu sem fjármálaráðherra taldi upp í máli sínu í júní um að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi verið bundnir af því samkomulagi sem undirritað var við Hollendinga. Þau rök hafa verið hrakin. Það er einfaldlega rangt, með Brussel-viðmiðunum var því öllu saman breytt og þess vegna þurfti ekki að ganga jafnlangt til móts við sjónarmið Breta og Hollendinga. Það hefur einfaldlega verið fullyrt af þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og ég sé ekki að færð hafi verið fullnægjandi rök fyrir því af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að orð hennar séu markleysa, þótt þeir hafi sagt það hafa þeir ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna orð þeirrar ágætu (Forseti hringir.) fyrrverandi forustukonu Samfylkingarinnar séu allt í einu nú markleysa.



[13:47]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir hennar ræðu. Hún var yfirgripsmikil enda hefur hv. þingmaður mjög mikla þekkingu á þessu máli og er alltaf gaman að hlusta á þingmenn sem hafa sett sig vel inn í málin. Við höfum gagnrýnt það í stjórnarandstöðunni að stjórnarliðar hafa ekki talað mikið í þessu máli og ber oft og tíðum á þekkingarskorti á því þegar þeir koma í ræðustól. Stjórnarliðar fengu skyndilega málið aftur í gær en svo hafa þeir misst það á ný. Það er kannski út af því að stjórnarandstaðan hefur verið að spyrja um atriði varðandi fyrrverandi formann þeirra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eða jafnvel krafið samfylkingarfólk um svör varðandi hvað þeim finnst um það að fyrrverandi ráðherra þeirra leiðir bankastofnun, fyrrverandi virkur aðili í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum þegar hrunið varð, en það er önnur saga.

Hv. þingmaður talaði um tilskipun 94/19/EB sem við þurftum að lögleiða með lögum nr. 98/1999 sem er upphafið og endirinn að öllu þessu Icesave-máli því að það er fyrst og fremst vegna hennar sem Bretar og Hollendingar krefja okkur um þessar greiðslur, þ.e. að sú tilskipun mundi ná yfir bankahrun, sem við í stjórnarandstöðunni erum í það minnsta ósammála.

Lögfræðingur nokkur, héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti, starfar hjá Seðlabanka Íslands og skrifar grein í eigin nafni í Morgunblaðið í dag en tekur það fram að þessi grein lýsi ekki endilega áliti Seðlabankans á málinu. Ég veit að þingmaðurinn hefur lesið þessa grein og hún styður raunverulega allan okkar málflutning. Meðal annars vitnar lögfræðingur þessi í skýrslu franska seðlabankans frá árinu 2000 þar sem ekki er talið að evrópska tryggingarkerfið eigi að taka á kerfishruni. Er þingmaðurinn ekki nokkuð sammála því sem þarna kemur fram? (Forseti hringir.) Og er þetta ekki góð heimild að fá þessa grein þar sem maðurinn er héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti?



[13:49]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hafa vissulega mjög margir lögmenn, lögfræðingar og íbúar þessa lands, blandað sér í þessa Icesave-umræðu með greinaskrifum í blöð og umfjöllun um þetta mál. Það verður seint fullþakkað framlag alls þessa fólks til að reyna að koma vitinu fyrir fólk hér í þinginu. Vissulega er farið yfir þessi atriði varðandi tilskipunina í þessari grein og ég er sammála þeirri túlkun. En það er ekki eingöngu það sem kemur fram í grein Magnúsar Inga Erlingssonar í Morgunblaðinu í dag sem styður þennan málflutning heldur er þetta líka gert að umfjöllunarefni í áliti bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya. Þar eru miklir sérfræðingar í breskum rétti á ferð og styður umfjöllun þeirra þennan málflutning. Þess vegna er það hálfgrátlegt að menn hafi ekki enn þá skilið þennan punkt hér í ríkisstjórnarliðinu, eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, augunum er einfaldlega lokað fyrir þessari staðreynd. Ríkisstjórnarliðar hafa sagt að Bretar og Hollendingar hafi ekki samþykkt að þetta sé svona. Að sjálfsögðu samþykkja þeir það ekki vegna þess að þeir eru að reyna að halda sínum hagsmunum á lofti. Það er okkar að halda hagsmunum Íslendinga á lofti. Þetta er grundvallaratriði sem hefði getað kollvarpað því hvernig þetta mál endar ef farið hefði verið eftir Brussel-viðmiðunum sem samþykkt voru þar sem það var staðfest að Evrópusambandið var tilbúið til að vera milliliður í að reyna að leiða þessa milliríkjadeilu til lykta á farsælan hátt. En ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki fara þá leið. Þeir vildu leggjast flatir fyrir því að vissulega ætti innstæðutryggingartilskipunin við. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir gleymdu þessum rökum algerlega.



[13:51]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir eigum það sameiginlegt að hafa kynnt okkur þessi Icesave-mál afar vel og ítarlega og teljum okkur að sjálfsögðu vita hvað við erum að segja. Það er nefnilega staðfest í þessari grein ásamt lögfræðiálitinu frá Mishcon de Reya að Icesave-ábyrgðin, ríkisábyrgðin sem verið er að setja á þinginu, stenst í fyrsta lagi ekki evrópsk lög og í öðru lagi ekki íslensk lög heldur. Það kemur fram í þessari grein Magnúsar Inga Erlendssonar að þannig standa málin. „Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum“ er fyrirsögnin, hvorki meira né minna. Það er alveg sama hvaða rök við höfum dregið fram í dagsljósið til að reyna að koma vitinu fyrir þessa ríkisstjórn í sex mánuði. Þetta eru tveir þriðju úr meðgöngu konu. Hugsið ykkur, þetta Icesave-tímabil í þinginu er að verða hálft ár. Nei, það skal staðið í lappirnar með Bretum og Hollendingum, tekið undir málstað þeirra og boðskapur þeirra fluttur inn í hið íslenska þing. Það er óþolandi hvernig þessi ríkisstjórn vinnur og fjöldi fræðimanna, frábærir íslenskir fræðimenn, hefur bent á þetta allan þennan tíma sem þetta Icesave-mál hefur verið til umræðu en það er ekki hlustað á þá. Þetta eru einhverjir kjánar og þetta er þeirra misskilningur og þetta er hinsegin og þetta er öðruvísi, bara ef það hentar þeim, en svo er gleypt við öllu sem styður Icesave-frumvarpið. Þetta er, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði á sinni tíð, þjóðhættuleg ríkisstjórn sem hér starfar.

Ég hef svo sem ekki meira um þetta að segja en ég vil benda á það aftur að þessi grein tekur algerlega undir þau rök sem við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir flytjum í þessu máli og hér er það staðfest svart á hvítu.



[13:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir andsvar hennar sem var gott og lagði ýmislegt til málanna. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fjallaði aðeins um það í þinginu í gær að menn skyldu muna orð sín og þyrftu að geta staðið undir því hvað þeir hafa sagt í gegnum tíðina. Það hafa vissulega fallið mjög hörð orð í þessu máli í þinginu, ekki eingöngu af hálfu okkar sem í stjórnarandstöðunni störfum heldur jafnframt af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins og þá ekki síst hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Hann sagði í ræðustóli í gær að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að skammast sín fyrir málflutning sinn í þessu máli. Ég tel, frú forseti, að þessi málflutningur hæstv. fjármálaráðherra sé fyrir neðan allar hellur. Hér stöndum við og færum rök fyrir því hvers vegna fella eigi þetta mál ríkisstjórnarinnar og hvers vegna við þurfum að fara vel yfir það í þinginu af hverju ríkisstjórnin leyfir sér að fella niður fyrirvarana sem við á Alþingi sátum sveitt við í allt sumar að semja. Ég skil ekki að ég þurfi að skammast mín fyrir að halda fram þeim rökum og reyna að fá fram svör við því hvers vegna þessi umskipti hafa orðið á afstöðu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna til fyrirvaranna sem Alþingi samþykkti í sumar. Ég sé ekki að ég þurfi neitt að skammast mín fyrir það. Ég er mjög sátt við þann málflutning sem ég hef viðhaft í þessu máli. Mér þykja fullyrðingar eins og þær sem hæstv. fjármálaráðherra viðhafði í gær vera dæmi um að ríkisstjórnarflokkarnir eru algerlega rökþrota við að skýra hvers vegna svona var haldið á málum og hvers vegna ekki var farið eftir Brussel-viðmiðunum. Þeir hafa ekki getað útskýrt það hér hvers vegna fallið var frá fyrirvörum Alþingis.



[13:56]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hann út í mál sem er nátengt þessu Icesave-máli. Það er vegna þess að einn af leikendunum í því máli er aftur kominn á sveim.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson lagði fram kemur í ljós að Jón nokkur Sigurðsson, fyrrverandi varaformaður stjórnar Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins sem þá var skipaður af viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, hefur fengið rúmar 8 millj. kr. greiddar á þessu ári fyrir ráðgjöf. Þegar þessi ágæti maður, Jón Sigurðsson, var formaður Fjármálaeftirlitsins skipaði hann Árna Tómasson nokkurn í skilanefnd Glitnis, sá er formaður skilanefndar Glitnis. Nú hefur skilanefnd Glitnis skipað Árna og Jón Sigurðsson, að mér skilst, í bankastjórn Íslandsbanka. Telur þingmaðurinn eðlilegt að maður sem ber svo mikla ábyrgð í þessu Icesave-máli og kemur hugsanlega fyrir í þeirri rannsókn sem nú er í gangi — ég veit ekkert um það, hann hefur skýr tengsl við annan stjórnarflokkinn í ríkisstjórninni — sé skipaður nú þegar á meðan allt leikur á reiðiskjálfi, á meðan verið er að semja um þetta Icesave-mál? Það varð að stórum hluta til þegar hann var formaður Fjármálaeftirlitsins. Telur þingmaðurinn að það sé eðlilegt að ríkisstjórnin, af því að við þurfum ekkert að efast um að fingraför hennar eru á þessu máli — að þessi skipun eigi sér stað með þessum hætti?



[13:58]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki taka þátt í því, frú forseti, að vera á einhverjum nornaveiðum gagnvart þeim sem eru að reyna að vinna úti í þjóðfélaginu. Það hefur örlað aðeins á þeim viðhorfum frá því að hrunið varð að þeir sem einhvern tíma hafa komið nálægt bönkunum hafi ekki rétt til að starfa eða vinna í íslensku samfélagi.

Varðandi þetta tiltekna mál sérstaklega tel ég augljóst að ríkisstjórnin hafi getað haft áhrif á það hvaða menn voru skipaðir þarna, það er augljóst. Þeir menn sem sitja í ríkisstjórn verða síðan að eiga það við sig hvort þessi ráðstöfun passar við þau siðferðisgildi sem sömu aðilar hafa verið að predika, bæði úr þessum ræðustól og eins þegar þeir voru í minni hluta og í stjórnarandstöðu. Eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði í þessum stól í gær verða menn að kannast við sín eigin orð. Þeir geta verið dæmdir af þeim aftur í tímann. Orð og skoðanir eru ekki eitthvað sem lifir í nokkrar sekúndur heldur hlýtur maður setja fram einhverja sýn þegar maður er í pólitík. Maður hefur einhver viðhorf og einhverjar skoðanir sem maður ætlar sér síðan að standa við, líka þegar maður er kominn í ríkisstjórn.

En það virðist því miður vera svo að núverandi ríkisstjórn og þeir sem þar sitja hafi gleymt ýmsu af því sem þeir hafa sagt í fortíðinni. Ég get tekið dæmi um afstöðu Vinstri grænna í síðustu kosningum gagnvart aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú afstaða virðist hafa farið veg allrar veraldar enda erum við á hraðleið í einhverju aðildarumsóknarferli í Evrópusambandinu. Síðan held ég, frú forseti, að það væri hægt að finna ýmis ummæli frá ýmsum þingmönnum stjórnarliða sem gætu stangast á við það að sú ráðstöfun sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vísar til fái staðist, þótt ekki væri nema út frá siðferðilegum viðmiðum.



[14:00]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einmitt út frá siðferðislegum forsendum sem ég varpaði þessari spurningu fram til hv. þingmanns. Ég er hér með 2. tbl. 2008 af Moment , sem er auglýsingapési Landsbankans sáluga, þar sem verið er að auglýsa Icesave-reikningana í Hollandi. Í því blaði er einmitt umræddur ágætur formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins eitt helsta sölumomentið. Látum það liggja á milli hluta í bili. Hv. þingmaður svaraði þessu ágætlega. Þetta er siðferðisleg spurning og því miður virðist sú siðferðisumbót, sem boðuð var af hálfu stjórnarflokkanna, þegar þeir voru kosnir af þjóðinni til að hafa meiri hluta á Alþingi, hafa farið fyrir borð á vegferð þeirra innan þingsala og í ríkisstjórn. Hún hefur týnst.

Mig langar að spyrja hv. þingmann annarrar spurningar og það er út frá grein, sem vitnað hefur verið í, í Morgunblaðinu í dag eftir Magnús Inga Erlingsson en hann er tiltölulega nýtt nafn í allri gagnrýni á Icesave-samninginn. Magnús Ingi Erlingsson er héraðsdómslögmaður með meistarapróf í Evrópurétti. Hann er að gagnrýna málatilbúnað í kringum Icesave-málið og segir að sú ríkisábyrgð sem væntanlega verður veitt sé byggð á mjög hæpnum forsendum. Hann segir m.a.: „Það er því niðurstaða hafin yfir vafa að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum sjálfseignarstofnunar hafi ekki við rök að styðjast.“ Telur þingmaðurinn að enn séu líkur á að fram eigi eftir að koma gögn og ábendingar sem þessar í þessu máli þó svo því verði hugsanlega lokið í fyrramálið.



[14:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að staðan sé því miður sú að öll gögn séu ekki komin fram í þessu máli og við vitum það einfaldlega að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur óskað eftir ákveðnum gögnum í fjárlaganefnd sem enn er verið að reyna að fá aðgengi að. Ég vonast svo sannarlega til að þau verði komin áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Á hitt ber að líta að þessi ræða sem ég held nú er væntanlega sú síðasta sem ég mun flytja í þessu máli. Ég get þá væntanlega ekki fjallað um þau gögn sem hugsanlega koma til með að birtast okkur seinna í dag eða í fyrramálið og það er alvarlegt mál. En vonandi koma þau gögn til með að upplýsa málið enn frekar.

Eins og ég sagði áðan ber okkur sem hér stöndum, og eins öllum sem hér búa á landinu — við stöndum í þakkarskuld við allt það fólk sem hefur lagt á sig ómælda vinnu úti í samfélaginu við að kynna sér málið og skrifa greinar um það í blöðin til að reyna að upplýsa málið og reyna að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri um hvernig það liggur því að ekki er vanþörf á. Það hafa ekki allir þingmenn, það hefur komið fram, kynnt sér gögn málsins. Þess vegna er ágætt að þeir hafi alla vega aðgang að því að lesa stuttar blaðagreinar í Morgunblaðinu og fleiri virtum blöðum hér á landi til að reyna að kynna sér þetta mál.

Kjarni málsins í grein Magnúsar Inga Erlingssonar er sú spurning hvers vegna einkafyrirtæki sem er á erlendum markaði ætti að geta skuldbundið íslenska skattgreiðendur sérstaklega. Það er stóra spurningin og kjarni málsins. Vissulega deilir enginn um það að innstæðutryggingarsjóðurinn ber ábyrgð en það er engin ríkisábyrgð. Það kemur fram í áliti bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya að hvergi í tilskipuninni frá 1994 um innstæðutryggingar er minnst á að það sé ríkisábyrgð, hvergi nokkurs staðar.



[14:05]
Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Tvívegis hefur það gerst frá því að Icesave-málið kom fram á Alþingi að farið hefur verið á svig við skýran vilja Alþingis þegar Alþingi hefur reynt, með mjög ákveðnum hætti, að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Tvívegis hefur það gerst að framkvæmdarvaldið og ríkisstjórn Íslands hefur virt að vettugi skýran vilja löggjafarsamkundunnar, æðstu stofnunar íslenska lýðveldisins. Þetta er eiginlega það dapurlegasta við Icesave-málið. Þetta er eiginlega það versta við málsmeðferðina sjálfa, að Alþingi skuli ekki hafa náð tilætluðum árangri þegar það hefur reynt og gert skýra kröfu til þess að ríkisstjórnin bregðist við fyrirmælum Alþingis með ákveðnum hætti.

Hið fyrra sinn var 5. desember 2008 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um það hvernig halda skyldi á samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Um það þarf ekki að fjölyrða að eftir þeim fyrirmælum var ekki farið í þeirri samningsgerð sem í hönd fór. Það var ekki farið eftir mjög afdráttarlausum fyrirmælum Alþingis. Í hið seinna sinn var það í sumar eftir að Alþingi hafði fengið í hendur ómögulegan samning fyrir íslenska þjóð, gersamlega óviðunandi samning. Þá greip Alþingi til þeirra ráða sem það hafði, að takmarka þá ríkisábyrgð sem ríkisstjórnin hafði ekki nokkurt leyfi til að setja fyrir skuldum sem þarna lágu undir.

Ég hef fylgst mjög náið með þessu máli allt frá því að það kom hingað inn á þingið, tekið þátt í því að móta þá fyrirvara sem samþykktir voru í sumar eftir þrotlausa vinnu þingmanna. Þessir fyrirvarar eru allir roknir út í veður og vind og það er rangt af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að svo sé ekki, það er rangt. Þeir eru allir roknir út í veður og vind, í þeim er ekkert hald. Eftir stendur ríkisábyrgð fyrir óskilgreindri upphæð sem að lágmarki er 800 milljarðar íslenskra króna. Það kom fram á minnisblaði Seðlabanka Íslands sem lagt var fyrir fjárlaganefnd sama dag og á sama fundi og málið var rifið út úr nefndinni. Þá lá á borðum þingmanna í fjárlaganefnd minnisblað frá Seðlabanka Íslands þar sem stóð að skuldir íslensks þjóðarbús séu nú 320% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2010 og Icesave-skuldin standi í 800 milljörðum kr. Ekki var viðlit til þess af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að lengja þann fund til að fara yfir þetta álitaefni og það er miður.

Brátt líður að lokum þessa máls og senn verða greidd um það atkvæði. Þá mun koma í ljós hver niðurstaða málsins verður. Ég hygg að ríkisstjórnin hafi nú gert það sem hægt er til að knýja málið í gegn og það verður að sjálfsögðu á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar að gera það og það verður að sjálfsögðu hún ein og það verður engin önnur ríkisstjórn eða aðrir sem bera ábyrgð á þessum samningum. Það verður ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gerir það.

Ég hef verið mjög hugsi yfir þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar. Ég veit að mörgum þykja menn svartsýnir. Ég vil segja að menn vilji þá kannski ekki hlusta á raunsæisraddir. Ég vil segja það enn og aftur, ég held að ég hafi sagt það í hverri einustu ræðu sem ég hef haldið um Icesave-málið, að ég trúi á framtíð íslensku þjóðarinnar. Ég hef alltaf trúað á framtíð íslensku þjóðarinnar og ég mun alltaf gera það.

Í Tímariti Sögufélagsins , sem kom út nú á dögunum, er talað nokkuð um stöðu Íslands á fyrri tímum og hvernig við höfum ávallt komist upp úr miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar eru að mörgu leyti ískyggilegri en þær efnahagsþrengingar sem nú standa fyrir dyrum. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að verulega sé vegið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar þá áttum við í ógurlegu harðræði á fyrri öldum. En hvernig skyldum við hafa komist í gegnum það, Íslendingar? Með þeirri óbilandi trú sem hefur einkennt þessa þjóð — sú trú má aldrei bila — og líka með mjög skýrri leiðsögn hjá þeim sem hafa leitt þjóðina.

Ég er eiginlega hálfmiður mín þegar ég stend á þessum lokametrum Icesave-málsins og hugsa til þess að okkur hefur mistekist það sem við reyndum í sumar þegar við reyndum að líta á þetta mál öðrum augum en við lítum önnur mál. Ég er sammála þeim sem hafa haft þá skoðun uppi að Icesave-málið sé ólíkt öllum öðrum málum að því leyti til að það varðar allt annars konar hagsmuni. Hér erum við ekki að takast á um hægri-mennsku og vinstri-mennsku. Hér erum við að takast á um það hvernig Íslendingar ætli sér að borga þær skuldir sem á þá hafa verið lagðar. Hvernig ætlum við að gera það? Þegar allt kemur til alls má borga ýmsar skuldir en við þurfum að velta því fyrir okkur hverju við þurfum að fórna til að borga þessar skuldir?

Hvað er það sem við ætlum ekki að gera til að greiða skuldina? Hvað er það sem við ætlum ekki að gera til að greiða skuld við Breta og Hollendinga sem þeir hafa með yfirgengilegri frekju sinni skellt á íslenska þjóð? Þegar menn eru að tala um að veifað hafi verið einhverjum minnisblöðum frá því síðasta haust þá segi ég: Auðvitað veifa þeir öllum hugsanlegum minnisblöðum og gera hvað þeir geta til að fá okkur til að skrifa undir þessa óþurftarsamninga. En við eigum ekkert að gefa eftir gagnvart því og áttum aldrei að gera það en það gerðum við og það er slæmt. (Gripið fram í: Ekki við.) Það gerði sú ríkisstjórn sem hér situr, undir forsæti hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur verið svo afskaplega upptekin að hún hefur vart mátt vera að því að fylgjast með þessu, sem vekur náttúrlega verulega furðu þegar um er að ræða forustumann í ríkisstjórn sem er að taka á sig ríkisábyrgð upp á 800 milljarða íslenskra króna, sem eru tæplega tvöföld fjárlög ríkisins.

Varðandi það hvað við ætlum ekki að gera til að borga þessa skuld þá skulum við gera okkur grein fyrir því að þessi skuld er í erlendri mynt. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við þurfum að afla tekna til að borga þessa skuld. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að hún verður ekki borguð nema menn fari strax í það að auka framleiðslu í þessu landi. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að gera það. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að auka gjaldeyristekjurnar svo það sé þá einhver vonarglæta til að afla frekari tekna til að borga skuldina. Nei, þeir ætla ekki að gera það. Og hvað ætla þeir þá að gera? Væntanlega þurfa menn þá bara hreinlega að draga úr innflutningi. Menn þurfa að draga úr innflutningi og treysta á það að íslenska krónan verði áfram lág. Þeir þurfa að draga úr innflutningi á vörum sem við þurfum á að halda til að reka íslenskt samfélag. Það er það sem við gætum þurft að horfast í augu við og það er það sem ég vil að þingmenn ræði. Ég vil að menn ræði það hvernig við ætlum að borga þessa skuld ef menn eru ákveðnir í því að það sé nauðsynlegt að leggja hana á þjóðina, skuldbindingu sem fullkominn vafi er um hver er. Engu að síður ætla menn að leggja hana á íslenska þjóð.

Ég hélt að við gætum sameinast um að verjast því ofríki sem á okkur hefur dunið en það hefur mistekist. Okkur hefur mistekist það sem við ætluðum að gera og ég er miður mín yfir því, algerlega miður mín yfir því að þetta sé niðurstaðan. Ég vil hreinlega ekki trúa því að á morgun ætli alþingismenn að greiða atkvæði um það að setja ríkisábyrgð á skuld einkabanka sem stendur í 800 milljörðum kr. upp á von og óvon um það hvenær upp færist þær eignir sem Landsbankinn á, við vitum ekki einu sinni hvenær hægt er að byrja að greiða. Því var haldið fram í sumar að hægt væri að setja þá innstæðu sem væri á Bank of England tafarlaust inn á skuldina, innstæðu sem er vaxtalaus í Bank of England, vaxtalaus. Það er ekki verið að bjóða okkur nein kjör þarna í Englandi. Þeir heimta 5,55% vexti af okkur og græða stórkostlega á vaxtamun og síðan sitja þeir með okkar upphæð vaxtalausa í Englandsbanka og það var talað um að sú upphæð skyldi náttúrlega fara rakleiðis inn á skuldina en auðvitað var það ekki hægt. Því var mótmælt þegar þessu var haldið fram. Það er ekki hægt að taka peninga úr þrotabúi fyrr en búið er að gera það upp og á meðan mun þessi upphæð, veruleg upphæð, liggja vaxtalaus í Englandsbanka. Ég hef ekki orðið vör við það að menn hafi verið að mótmæla því sérstaklega eða reynt að gera einhverjar ráðstafanir til að fá því breytt. Ég hef ekki orðið vör við það.

Í fyrrnefndri skýrslu Seðlabanka Íslands kemur fram að það gæti dregist nokkuð að peningar fáist úr þessu þrotabúi. Og við vitum það náttúrlega, við sem höfum verið að véla um þetta mál, að ágreiningur um kröfurnar er verulegur. Menn munu láta reyna á það og það mun taka ákveðinn tíma og meðan svo er verður ekki greitt inn á þessar kröfur. Og meðan það er þá höldum við áfram að safna vöxtum sem skipta verulegum upphæðum, vöxtum sem ekki verður hægt að gera grein fyrir í fjárlagavinnunni, vöxtum sem okkur munar hressilega um að borga til viðbótar við annað það sem við þurfum að greiða í tengslum við þetta ólukkumál. Ég held að menn ættu að velta þessu fyrir sér þegar þeir hafa tekið ákvörðun um að styðja þetta mál og halda því fram blygðunarlaust að það að bæta þessari stórfenglegu skuld við aðrar skuldir þjóðarinnar muni flýta fyrir endurreisninni. (Gripið fram í: Nei, nei.) Það er bara ekkert annað. Það mun hreinlega flýta fyrir endurreisninni að demba þessari stórfenglegu skuld á þjóðina. Þá mun ljómandi margt gerast sem verður svo ljómandi gott, lánshæfismat, allt mögulegt mun gerast.

Ég bendi á að það átti líka að gerast snemma á þessu ári þegar mikið gekk á til að losa sig við Davíð Oddsson úr Seðlabanka Íslands. Þá átti líka allt að fara að gerast. Það átti líka að gerast þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu. Ég man ekki betur en svo að það hafi verið sérstaklega tekið fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra að með aðildarumsókn mundi allt fara að gerast. Ég hef ekki orðið vör við það. Það átti líka að gerast í þessu Icesave-samkomulagi í sumar. Það hefur ekki gerst. Hvenær gerist þetta? (Gripið fram í: Aldrei.) Þegar við erum búin að leggja þessar klyfjar á þjóðina mun allt fara að gerast. Þetta passar ekki. Menn geta ekki haldið þessu fram. Menn geta ekki talað svona og eiga ekki að gera það.

Það sem stendur upp úr er það að Alþingi hefur tvívegis tekið þá afstöðu að þessir samningar — í fyrsta lagi eins og þeir þá voru í burðarliðnum og urðu ekki vegna þess að minnisblaðið er ekki samningur, að það var nauðsynlegt að setja ríkisstjórn ákveðin fyrirmæli um það hvernig halda skyldi á máli, og í öðru lagi í sumar þegar fyrirvarar voru gerðir. Þessu hefur ekki verið fylgt. Það er niðurstaðan og það er sá sári sannleikur sem þingheimur þarf að horfast í augu við. Það er sá sári sannleikur sem alþingismenn þurfa að sætta sig við þegar verið er að leggja þessar klyfjar á þjóðina, að okkur hefur ekki tekist, alþingismönnum, að byggja þær varnir sem nauðsynlegar hafa verið og eru nauðsynlegar fyrir Íslendinga inn í framtíðina.

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skrifar mjög skilmerkilegt minnisblað til utanríkismálanefndar rétt fyrir jólin. Það má segja að það er athyglisvert að þeir samfylkingarmenn sem eru utan þings, eru farnir úr pólitík og eru hættir að skipta sér af, eru með málið og þeir tala og þeir tala skýrt. Það gerir líka Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún hefur verið að lýsa þeirri atburðarás sem var síðasta haust og leiðrétta þann misskilning að menn hafi verið búnir að semja. Menn voru ekki búnir að semja um nokkurn skapaðan hlut. Alþingi hafði aldrei fengið að sjá nokkurn skapaðan hlut, ekki neitt. Það var ekki búið að semja og menn eiga ekki að halda þessu fram vegna þess að það er rangt. En hún hefur fengið málið og hún gagnrýnir ríkisstjórnina og hún gagnrýnir sinn flokk og hún bendir mönnum á að hægt sé að fara aðrar leiðir.

Ég vil líka segja það að ég hef alltaf trúað því og ég mun alltaf trúa því að hægt sé að ná samningum ef menn ætla sér að gera það (Gripið fram í.) — ég held það. En þann samning sem hér liggur fyrir má aldrei samþykkja. Ég kvíði morgundeginum þegar við göngum til atkvæða um þetta ólukkumál og ákveðum, því miður er ég hrædd um, að leggja þessar skelfilegu byrðar á ófædda Íslendinga, nokkuð sem við alþingismenn höfum ekkert leyfi til að gera.



[14:20]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir afar góða og skilmerkilega ræðu. Maður leggur alltaf sjálfkrafa við hlustir þegar hún talar af því að hún talar svo sannarlega alltaf af þekkingu, enda situr þingmaðurinn m.a. í fjárlaganefnd og veit alveg nákvæmlega um hvað þessi mál fjalla.

Það var m.a. undir forustu sjálfstæðismanna að hér tókst að gera fyrirvara við hinn skemmda Icesave-samning sem þótti glæsilegur óséður þegar hann kom fyrst fyrir þingið og þeir fyrirvarar voru skilyrtir í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 96/2009 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þarna kemur þetta skýrt fram og ég veit það gegnum vinnu fjárlaganefndar og vinnu þingsins að þetta var það skilyrði fyrir fyrirvörunum því að hér var uppi mikil lagaleg óvissa hvort fyrirvararnir mundu vera inni í samningnum eða ekki.

Svo ber við að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, svaraði mér í andsvari í gær og missti það hálfpartinn út úr sér, því að viðkomandi þingmaður hálfreiddist við andsvar mitt, en þá kom þetta fram, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust […] var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Við vissum það nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því.“

Hvað finnst hv. þingmanni um þessi ummæli formanns fjárlaganefndar þar sem hann vissi í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 28. ágúst sl. að Bretar og Hollendingar mundu ekki samþykkja fyrirvarana?



[14:22]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst og hefur fundist þetta vera alveg makalaust mál allt saman og makalaust málflutningur hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar. Ég ætla að rifja það upp þingheimi til upplýsingar að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir þegar þessir fyrirvarar höfðu verið samþykktir að þeir rúmuðust innan samningsins. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það þyrfti reyndar að beita skapandi hugsun en taldi samt að þetta væri fullgerlegt.

Lengi vel í sumar var talað um að ekki væri hægt að gera neinar breytingar, það væri ekki hægt að gera neina fyrirvara og það tók lengstan tíma að draga hv. þingmenn Samfylkingarinnar að því verki og það var bara þolinmæðisverk að gera það. En forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töldu að þessir fyrirvarar rúmuðust innan samningsins. En varðandi þetta ákveðna ákvæði sem hv. þingmaður vísar til þá snýst það náttúrlega um að Alþingi er með þessu að leggja skýra áherslu á að það sé óumsemjanlegt lágmark um það sem næst mest fram. Það var aldrei nokkurn tíma rætt í fjárlaganefnd að þetta ætti að vera eitthvert sérstakt samningsefni. Þetta var lágmarkskrafa Alþingis sem sett var fram handa þessum viðsemjendum en af gögnum málsins má skýrt ráða að strax í upphafinu ákváðu Íslendingar undir forustu þessarar ríkisstjórnar að hopa gagnvart Bretum og Hollendingum og láta þá enn og aftur hafa frumkvæði og yfirhöndina í þessum samningaviðræðum og ég fullyrði, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að á okkar löngu ævi, Íslendinga á þessari eyju, hefur sjaldan verið gefið jafnhressilega undan viðsemjendum og þarna var gert.



[14:25]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held á ástæðunni í hendinni eftir ræðu hv. formanns fjárlaganefndar í gær þar sem hann viðurkennir að ríkisstjórnin, a.m.k. hann þó ekki séu fleiri í fjárlaganefnd, þingmaðurinn getur þá upplýst um það, vissi af því nóttina fyrir afgreiðsluna, aðfaranótt 28. ágúst sl. þar sem þingmenn voru leiddir til þess að greiða atkvæði um lögin að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á fyrirvarana. Hann svaraði mér því í andsvari í gær. Og þá getum við líka skoðað framhaldið í því að brotin ríkisstjórn fór af stað með ónýtan samning, enga samningsstöðu, með lögin sem átti alls ekki að hvika frá eins og hv. þm. Ólöf Nordal fór yfir í andsvari, og út af því varð að sjálfsögðu enginn árangur því að ríkisstjórnin vissi það samdægurs og lögin voru samþykkt á þingi að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á þetta.

Hér var sett af stað enn eitt sjónarspilið til að halda ríkisstjórninni saman, sjónarspilið til að halda þjóðinni saman í þeirri von að enginn mundi átta sig á þessu. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fór undan í flæmingi í morgun þegar ég spurði hann út í þetta, fór að tala um að þetta væri einkapóstur, þetta væri ekki póstur frá íslensku stjórnsýslunni, þetta hefði verið vinur hans í útlöndum, ég hlusta ekki á svona rugl. Þvílíkur leyndarhjúpur sem búinn er að vera yfir þessu máli.

Formaður fjárlaganefndar vissi þetta að kvöldi eða aðfaranótt 28. ágúst að Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á þetta, enda þegar maður skoðar ræðu hæstv. forsætisráðherra þann dag þegar hún talaði fyrir Icesave-samningunum, þá les maður ræðu konu í mikilli vörn sem vantar allt sjálfstraust fyrir því sem verið var að gera. En þau náðu þessu í gegn án þess að þing eða þjóð hefði hugmynd um að Bretar og Hollendingar væru búnir að hafna þessu.



[14:27]
Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ekki að fjárlaganefnd hafi setið nótt og dag í sumar við að smíða þessa fyrirvara til þess eins að láta segja sér áður en málið var tekið úr nefndinni að þeir yrðu ekki samþykktir. Þessi skoðun hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að þau gögn sem hann hefur undir höndum er þá hans skoðun og gögn hans sem ekki hafa verið rædd sérstaklega í fjárlaganefnd og voru alls ekki rædd þá nótt sem þessir fyrirvarar voru samþykktir í nefndinni og við afgreiddum málið þá út í sameiningu, stjórn og stjórnarandstaða, eitthvað annað en gerðist hér rétt fyrir jólin þegar menn rifu málið með þjósti út úr nefndinni eins og gert var.

Ég vil segja varðandi þessa fyrirvara og afstöðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar að þetta hafi þá bara verið einhvers konar leikrit sem sett var af stað í sumar, sennilega til að róa stjórnarandstöðuna og ákveðinn arm Vinstri grænna. Ef hann lítur svona á málið, þá finnst mér heldur illa komið fyrir okkur þingmönnum ef þetta er viðhorfið til þeirrar vinnu sem þarna fer fram. En ég vil hins vegar ekki gera mér neitt upp um skoðanir Guðbjarts Hannessonar. Hann svarar því bara sjálfur fyrir sig. Ég get hins vegar upplýst að þetta var ekki rætt í nefndinni.

En hvað varðar fyrirvarana sjálfa og viðbrögð Breta og Hollendinga, þá held ég að það hefði verið betra þegar fyrir lá að Bretar og Hollendingar ætluðu sér ekki að samþykkja þessa fyrirvara að þingið hefði þá verið upplýst um það sérstaklega og menn hefðu tekið afstöðu til þess hvað ætti að gera í því sambandi. Eins og ég sagði áðan var aldrei nokkurn tíma vilji meiri hluta fjárlaganefndar sem stóð nánast heil að þessu máli, það var aldrei vilji hennar að þessir fyrirvarar væru eitthvert sérstakt samningsefni. Það er grundvallaratriði í málinu og enn og aftur segi ég það, í tvígang hefur verið freklega gengið fram hjá skýrum vilja Alþingis í þessu afdrifaríka máli fyrir Íslendinga og það finnst mér það dapurlegasta við allt þetta mál.



[14:29]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir margt af því sem fram kom í ágætri ræðu hv. þm. Ólafar Nordal. Vegna þeirra skoðanaskipta sem þingmaðurinn og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir áttu um þau ummæli formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, um fyrirvarana, og það að hann hafi ekki haft trú á þessum fyrirvörum, þá finnst mér það einmitt lýsa þessu hörmulega máli afar vel að hér kemur formaður fjárlaganefndar — hann gerði það reyndar líka fyrr í umræðunum, hann gerði það, að mig minnir, í andsvari við þá sem hér stendur — og segir að hann hafi enga trú á þessum fyrirvara, það að láta Breta og Hollendinga kvitta upp á fyrirvarana, samþykkja þá áður en ríkisábyrgðin taki gildi, hann hafi enga trú á því. Þá segi ég: Það er það sem hefur verið athugavert við þetta mál frá því að við samþykktum fyrirvarana 28. ágúst að menn hafa ekki haft trú á verkefninu. Sannfæringu hefur skort hjá þessari blessaðri ríkisstjórn og þeim aðilum sem farið hafa með samninga fyrir hana, enginn hefur haft trú á verkefninu. Það er þess vegna sem ég hef ítrekað kallað eftir gögnum um það hvernig þetta fólk kynnti samningana, hvernig þetta fólk fór og kynnti fyrirvarana.

Þá hefur mér verið sagt: Það eru ekki til neinar fundargerðir. Við höfum átt fund eftir fund og það var samhljóða orðalag hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að málið hefði „borið á góma“ á ýmsum fundum. Þetta stóra mál hefur „borið á góma“. Af hverju var það ekki gert sem við lögðum til í sumar? Af hverju var ekki farið fylktu liði og fyrirvararnir kynntir Bretum og Hollendingum og sagt: Þetta er það sem íslenska þjóðin er tilbúin að gera til að leysa þetta erfiða mál? Þetta erum við tilbúin að gera. Það er sanngjarnt að byrðum sé dreift á milli allra hlutaðeigandi. Það er engin sanngirni fólgin í því að íslenska þjóðin ein eigi að bera byrðarnar af þessu bankahruni. Nei, það var ekki gert. Menn fóru af stað illa undirbúnir og sögðu: Afsakið að við skulum vera að ónáða. Hér erum við með ný lög frá Íslandi. Þingið tók fram fyrir hendurnar á okkur en ef við setjumst yfir þetta hljótum við að komast fram hjá því. Þannig er frumvarpið sem við ræðum í dag og það er sorglegt. Ég tek undir með hv. þm. Ólöfu Nordal að það er ömurlegt og sorglegt til þess að hugsa að greidd verði atkvæði um þetta stóra mál á morgun. Ég óttast að það verði samþykkt þó að ég skilji ekki hvernig menn geti fengið það af sér að samþykkja þetta mál.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þingmenn sem voru í vafa í sumar — þingmenn sem lögðu með okkur í stjórnarandstöðunni í þann leiðangur að smíða fyrirvarana, að koma málum þannig fyrir að byrðunum væri dreift — geti nú hugsað sér að greiða atkvæði með því máli sem nú liggur fyrir. Fyrirvararnir eru orðnir að engu. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem heldur því fram. Við höfum fengið álit eftir álit og nú síðast fengum við álit frá bresku lögfræðistofunni Mishcon de Reya sem er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og því samningaferli sem hún ber ábyrgð á. Þeir segja að þessir samningar séu hvorki skýrir né sanngjarnir og það er það sem við höfum líka verið að leggja áherslu á. Mér er því fyrirmunað að skilja hvernig þingmenn eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem börðust með okkur í sumar, og hv. þm. Atla Gíslason geta verið í vafa — ég nefni ekki hv. þm. Ögmund Jónasson og Lilju Mósesdóttur vegna þess að ég treysti því að þau haldi áfram á þeirri braut sem þau hafa þegar markað sér við 2. umr. Ég skil ekki að það geti verið einhver efi í hugum þeirra sem stóðu að smíði fyrirvaranna í sumar vegna þess að málið er komið nánast á þann stað sem það var á í sumar áður en okkur tókst að breyta því.

Hvað er það þá sem fær þetta fólk til að efast — nú eigum við eftir að sofa á þessu eina nótt og ég treysti því að þau sjái að sér, en ég óttast að það verði ekki þetta mál sem þau hugsa um þegar þau greiða atkvæði á morgun. Það er spurning hvort það eru ekki hótanir hæstv. forsætisráðherra um líftíma ríkisstjórnarinnar, um líf ríkisstjórnarinnar, sem vegi þyngst, að fyrsta hreina vinstri stjórnin verði þessu fólki á endanum mikilvægari en hagsmunir þjóðarinnar. Það er það sem ég óttast. Við þetta fólk vil ég segja: Ég hef enga löngun til að fella ríkisstjórnina út af þessu máli. Ég heiti á þetta fólk. Ef það kemur með okkur í þessa vegferð og greiðir atkvæði eins og það gerði í sumar — eins og það lagði á sig mikla vinnu — þá mun ég ekki hvetja ríkisstjórnina til að fara frá. Það er ekki stjórnarandstaðan sem hefur verið að hóta þessari ríkisstjórn, það er ríkisstjórnin sjálf. Ég hvet hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem hér stendur, til að ræða þetta mál innan sinna raða og taka ákvörðun um Icesave bara út frá Icesave, bara út frá hagsmunum þjóðarinnar. Ég veit að hún mun hugsa það vel. Hún er skynsöm kona og hún á lítið barn og hún ber hag þess fyrir brjósti og vill ekki leggja á það klyfjar sem það getur ekki staðið undir. Ég veit að þingmaðurinn hugsar þannig svo að ég hvet hana til að hugsa sinn gang.

Málið er þetta. Þrátt fyrir að við höfum rætt þetta í sex mánuði, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra segi að við í stjórnarandstöðunni höfum verið að þvælast fyrir þá er það einfaldlega þannig að þetta mál er ekki útrætt. Alltaf eru að koma fram nýjar og nýjar upplýsingar og málsmeðferðin sem hefur verið umrædd í ræðum þingmanna á undan mér, sú málsmeðferð að rífa málið út áður en náðst hefur að fara yfir öll þessi nýju mikilvægu gögn, hvort sem það er áhættugreiningin eða álit bresku lögfræðistofunnar sem ég nefndi áðan — það er ekki búið að fara yfir þetta þannig að enginn vafi leiki á að málið sé komið á þann stað að við komumst ekki lengra með það. Ég er ekki sannfærð um það og menn segja: Hvorki í áhættugreiningu IFS né í áliti Mishcon de Reya er áhættan af því að fella samninginn metin, það er alveg rétt. Það er enginn sem metur áhættuna af því að samningurinn verði felldur. En einmitt þess vegna eigum við ekki að samþykkja þetta mál núna heldur eigum við að láta færustu sérfræðinga meta hver áhættan og hverjar afleiðingarnar yrðu af því ef við segðum nei takk við frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Af hverju var ekki beðið um það? Jú, vegna þess að það lá svo mikið á að klára málið út af þrjósku í ríkisstjórninni, út af þrjósku í hæstv. fjármálaráðherra. Og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson getur hrist höfuðið allt hvað hann vill en hvað mundi gerast ef við tækjum tíma í að klára þetta og fá þessa áhættugreiningu? Það gerist ekki neitt og við vitum það, allan þann endalausa hræðsluáróður sem borinn hefur verið á borð fyrir okkur er búið að afhjúpa og það er búið að sýna það og sanna að ekkert er til í því að allt fari á hliðina nema við klárum Icesave í þessari mynd. Það er ekki heil brú í því, það hefur verið marghrakið og það er aumkunarvert að þurfa að hlusta á ísaldarspár stjórnarliða endalaust. Það er ekkert sem segir það, það hefur verið rakið hér og ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson flutti athyglisverða ræðu áðan og sagði: Samningurinn er skýr. Hann er sá eini sem segir það fyrir utan hæstv. fjármálaráðherra, fyrir utan það þegar hann boðaði glæsilegu niðurstöðuna, það mátti jafnvel skilja á þingmanninum að þetta væri bara nokkuð góður samningur. Hann sagði að han væri skýr. Við vitum um upphæð skuldbindingarinnar. Við vitum hversu mikið hvenær og hversu lengi við eigum að borga, sagði þingmaðurinn. Þetta þótti mörgum afar athyglisvert og þingmenn sem fóru í andsvar við hann, þeirra á meðal hv. þm Pétur H. Blöndal, spurðu þá: Hvað er skuldbindingin há? Hversu mikið eigum við að borga? Hvenær lýkur þessu? Þá sagði hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson þau fleygu orð að þetta væri mjög skýrt: Við greiðum þar til lánið er uppgreitt. Það er allur skýrleikinn í þessum samningi. En ég bendi á að Mishcon de Reya segir skýrt í áliti sínu að samningurinn sé hvorki skýr né sanngjarn. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að þingmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson sé ágætur þá leyfi ég mér að trúa frekar því sem þessi breska lögfræðistofa segir um þetta. Það hefur enginn trú á þessu verkefni og þetta er sorglegasta mál.

Ég hef kallað eftir gögnum en það hefur farið ákaflega í taugarnar á hæstv. fjármálaráðherra sem dæsir sýknt og heilagt í ræðustóli yfir því að alltaf sé verið að efast um allt sem hann gerir og hann skilji bara ekki af hverju. Hann skilur ekki af hverju menn efast um að hlutirnir hafi verið gerðir á einhvern ákveðinn hátt. Ég segi við hæstv. fjármálaráðherra: Við efumst um það vegna þess að við höfum alltaf þurft að kalla eftir öllum gögnum. Við höfum þurft að draga þau út með töngum. Nú síðast bíðum við enn. Um það hefur verið samið að greiða eigi atkvæði um þetta mál á morgun og klukkan er að verða 3, og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur ekki enn fengið þau gögn sem hann bað um, á fundi fjárlaganefndar fyrir jól, að fá afhent milli jóla og nýárs. Þessi gögn eru ekki enn þá komin. Af hverju skyldum við tortryggja hæstv. fjármálaráðherra? Ég spyr. Ég hef spurt um hvernig kynningu ríkisstjórnarinnar á fyrirvörunum hefur verið háttað. Þá hefur mér verið sagt: Það eru ekki til neinar fundargerðir. Það er bara til eitt minnisblað og það er minnisblaðið sem er í gögnum þingmanna. Það vill svo til að það minnisblað var skrifað í flugvél og minnisblaðsritarinn var nappaður við þau skrif og þess vegna höfum við fengið afrit af því blaði. Ætlar ríkisstjórnin að halda því fram fullum fetum, eins og hún hefur gert í skriflegum svörum við fyrirspurnum undirritaðrar, að eftir alla þessa samningafundi nefndarinnar sem á ekki kalla samninganefnd, sérfræðinganefndarinnar, sem fór og kynnti fyrirvarana að einungis hafi verið tekið saman eitt minnisblað, að ekki hafi verið skráðar frásagnir af þessum fundum. Hvaða vitleysa er þetta? Það vita allir sem hafa starfað í stjórnsýslunni að svona er þessu ekki háttað.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að farið sé að venjum í milliríkjasamskiptum við meðhöndlun málsins. En venjan er óvart sú að lögð eru fram minnisblöð sem á ensku eru ýmist kölluð Pro Memoria, skammstafað PM, Talking Points, þannig að það liggi fyrir, til áréttingar mikilvægum erindum sem flutt eru munnlega við ráðamenn og fulltrúa annars ríkis. Hefur það verið gert í Icesave-málinu? Er það mál ekki það mikilvægt að átt hefði að viðhafa slík vinnubrögð? Maður hefði haldið það. Ef ráðherrann telur að þetta sé í samræmi við venjur þá held ég að hann hafi ekki ráðgast við starfsfólk utanríkisþjónustunnar. Ég get ekki annað en látið mér detta í hug að allir þeir fundir sem hæstv. utanríkisráðherra sagðist hafa átt um þetta mál, sem greinilega voru fullkomlega gagnslausir af því að engin niðurstaða varð af þeim — hann hefur verið á þönum út um allar koppagrundir til að tala fyrir Evrópusambandsumsókninni og minnst á Icesave-málið í hjáverkum. Þess vegna vill hann ekki láta birta fundargerðir vegna þess að það er ekkert á þeim fundargerðum að græða. Ég held að það sé sannleikurinn í málinu. Þetta er sorglegt.

Ég veit að við sem sitjum á Alþingi tökum hlutverk okkar mjög alvarlega. Þingið er skjöldur þjóðarinnar og við erum fótgönguliðarnir sem eigum að bera þann skjöld. Skjöldurinn getur verið þungur þegar höggin dynja á honum og þá er mikilvægt að við stöndum öll saman sem einn maður. Í þessu stóra máli hefur okkur því miður ekki tekist að ná samstöðu og það er sorglegt því að þetta hefði átt að þjappa okkur saman sem þjóð gegn viðsemjendum okkar en ekki sundra okkur í frumeindir í þinginu. En við þá sem eru við það að gefst upp segi ég þetta: Ykkur finnst kannski skjöldurinn þungur núna vegna þess að það mæðir mikið á ykkur. En ekki gefast upp því að skjöldurinn má ekki brotna. Við verðum öll að standa saman með skjöldinn á lofti vegna þess að þannig náum við árangri.



[14:45]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hennar. Það er alltaf fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á hana, enda málefnaleg og sköruleg. Hún kom inn á þá alvarlegu atburði í ræðu sinni sem gerst hafa við 3. umr. og þá er ég að vísa til ummæla hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar.

Þannig vildi til í gær að ég spurði hann út í orð hans við atkvæðagreiðsluna þann 28. ágúst sl. þar sem verið var að samþykkja Icesave-lögin, sem urðu að lögum nr. 96/2009 eins og hv. þingmaður man, þar sem m.a. flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði lagt sig í líma við að gera þá fyrirvara sem settir voru í lögin sem best úr garði, og eins og þingmaðurinn og alþjóð man var það akkúrat skilyrði þess að þessir fyrirvarar mundu halda og það ætti að kynna Bretum og Hollendingum þá til samþykktar eða synjunar.

Með leyfi forseta, sagði hv. þm. Guðbjartur Hannesson í ræðu sinni í atkvæðaskýringu þegar verið var að greiða atkvæði um Icesave-samningana: Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“ Þetta sagði hv. formaður fjárlaganefndar í atkvæðagreiðslunni.

Svo gerist það í gær að hv. formaður fjárlaganefndar fer í andsvar við mig eftir ræðu sína og þá kemur í ljós — ég er með útprentaða ræðu hans frá því í gær — að hann hafði fengið tölvupóst frá málsmetandi mönnum sem sögðu að nú hefði ríkisstjórnin farið yfir mörkin. Svo segir hann: „Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því.“

Hvað finnst þingmanninum um þessar upplýsingar nú þegar hv. formaður fjárlaganefndar viðurkennir að hann vissi í atkvæðagreiðslunni að Bretar og Hollendingar (Forseti hringir.) hefðu þá þegar hafnað fyrirvörunum?



[14:47]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef fylgst með fyrirspurnum hennar til hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, og ég deili hneykslun minni með henni á ummælum formannsins vegna þess að mér finnst, eins og ég fór yfir í ræðu minni, þau lýsa algerri vantrú á verkefninu. Það er það sem er svo sorglegt í öllu þessu ferli vegna þess að við tókum allt sumarið í að sannfæra stjórnarmeirihlutann á þingi um að þetta væri óboðlegur samningur. Samningurinn frá 5. júní væri óboðlegur, hann væri Íslandi um megn. Við lögðum okkur öll fram um það og það var ekki auðvelt verkefni, það var allsendis mjög erfitt verkefni að reyna að koma málum þannig fyrir að fólk sannfærðist, fólk sem var búið að kaupa þennan samning algerlega hráan frá fyrstu tíð og koma með alls konar yfirlýsingar um að samningurinn hlyti að vera góður, einn hv. þingmaður sagði meira að segja að ef hæstv. fjármálaráðherra væri búinn að skipta um skoðun frá því að finnast þetta mál vera ómögulegt og væri farinn að tala fyrir samningnum, þá hlyti hann að vera góður. Þetta voru rökin fyrir því að samþykkja samninginn óbreyttan. Það er sorglegt að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem átti stóran þátt í því að samkomulag náðist, hafi þá ekki verið að gera þetta samkomulag af meiri einlægni og meiri trú á verkefnið en það að hann sagði í sumar og endurtók það svo við hv. þingmann, að hann hefði enga trú á því að þetta gengi eftir en þessu hefði verið komið inn á einhverjum seinasta næturfundinum til að ná lendingu í málið. Það var aldrei trú á það að þetta yrði að veruleika. Það er þess vegna sem við stöndum hér með málið allt í hnút aftur.



[14:49]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir andsvar hennar. Það eru ekki bara svik við alla þingmenn að þetta kemst upp og alla þjóðina að við höfum verið beitt blekkingum, þetta eru náttúrlega fyrst og fremst svik við þingmenn Vinstri grænna, samstarfsflokk Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni. Þetta er alger trúnaðarbrestur að þingmenn hafi verið látnir fara í gegnum þessa atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Svo mikill var spuninn að ríkisfjölmiðillinn fullyrti það fram í andlát atkvæðagreiðslunnar að framsóknarmenn væru einangraðir, einir á móti í Icesave-málinu. Svo kemur það í ljós að flokkur hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur situr hjá við atkvæðagreiðsluna og þá varð upplausnarástand í þinginu, þingmenn Vinstri grænna brugðust mjög reiðir við, sumir hverjir. Svona var spuninn alla tíð. Og svo viðurkennir hv. þm. Guðbjartur Hannesson í gær að það hafi verið vitað að ekki yrði gengið að þessum fyrirvörum, enda segir hann í andsvari við mig í gær, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust […] var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust.“

Þetta smellpassar við orð hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur, þar sem hann lítur svo á að fjárlaganefnd og þingið hafi klikkað illilega á því að setja þetta skýra skilyrði inn að Bretar og Hollendingar þyrftu annaðhvort að samþykkja eða synja þessum fyrirvörum.

En Bretar og Hollendingar setja ekki lög hér á landi, það voru sett lög á Íslandi og lög eru ekki til samningsgerðar erlendis. Lögin héðan eiga að standa enda eru þau lög í gildi. Þess vegna er þessi aðkoma með Icesave-málið í annan hring inn í þingið til skammar fyrir íslensku ríkisstjórnina. Þetta er ekki Alþingi Íslendinga bjóðandi.



[14:52]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega málið, við erum eiginlega spurð að því: Hvað viljið þið gera? Hvað viljið þið gera við þetta Icesave-mál? Svarið við því er mjög einfalt: Við viljum að lögin frá því í sumar standi. Það er nákvæmlega það sem við viljum og það var einmitt ekki til þess ætlast að farið yrði í samningaviðræður um fyrirvarana, enda var það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson kallar að klikka illilega á grundvallarforsenda þess að við sjálfstæðismenn t.d. studdum þessa fyrirvara. (Gripið fram í.) Þetta var mikilvægt skilyrði af okkar hálfu. Og aðeins út af því að þingmaðurinn kom inn á hjásetu okkar sjálfstæðismanna, vil ég rifja það upp og ítreka og minna fólk á að við greiddum atkvæði með öllum fyrirvörunum við atkvæðagreiðsluna 28. ágúst. Þar sem við sátum hjá var afgreiðslan um málið í heild vegna þess að ekki var hægt að aðskilja frumvarpið frá hinum ömurlega samningi frá 5. júní sem ríkisstjórnin ein, eins og hefur orðið algerlega kristaltært og skýrt eftir minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrir utanríkismálanefnd, ber ábyrgð á. Ríkisstjórnin ein ber ábyrgð á því ferli sem hún setti af stað með skipan nýrrar samninganefndar. Það er enginn annar en ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem getur hampað þeim fína Icesave-samningi sem sínum eigin. Það er Icesave-stjórnin, algerlega skuldlaus, sem á þennan samning algerlega ein. Og að horfa upp á það að farið var að semja um þá fyrirvara, semja um þau lög sem við settum á Alþingi er eins og allt annað í þessu máli hróplega sorglegt.



[14:54]Útbýting:

[14:54]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ef að líkum lætur verða á morgun greidd atkvæði á Alþingi um ríkisábyrgð á Icesave-lánunum illræmdu. Þingið skiptist í tvær fylkingar í málinu, í meginatriðum í stjórn og stjórnarandstöðu. Undantekning frá þessu eru nokkrir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hugsanlega hv. þm. Þráinn Bertelsson. Í fljótu bragði gæti mönnum virst að hér sé um hefðbundinn mótþróa stjórnarandstöðu í umdeildu máli að ræða, að stjórnarandstaðan leyfi sér þann munað að vera á móti í erfiðu máli sem enginn vill í raun og sanni styðja. Svo er þó alls ekki.

Um hvað snýst þá málið í raun? Það er mat mitt að enginn kjósi með ríkisábyrgðinni af sannfæringu. Menn líta einfaldlega þannig á málið að þessu verði að taka eins og hverju öðru hundsbiti, það séu ábyrg stjórnvöld sem leiði málið til lykta, þegar Icesave-málið sé frá sé hægt að snúa sér að endurreisninni af fullum þunga. Þá eru einhverjir þingmenn sem trúa því að ef Ísland gangi í Evrópusambandið með undirritaðan samning muni sambandið létta bagganum af Íslendingum ef hann reynist of þungur og því felist óveruleg efnahagsleg áhætta í að samþykkja hann. Þetta er grundvallarmisskilningur og ef einhverjir þingmenn láta slíka draumóra ráða atkvæði sínu er illa komið.

En af hverju skyldi ég kveða svo fast að orði? Eitt erfiðasta verkefni ríkjanna sem mynda Evrópusambandið er að halda aftur af freistni aðildarríkja til að yfirskuldsetja sig. Við upptöku evrunnar fyrir um áratug voru settar sameiginlegar reglur um fjárlagahalla og skuldasöfnun aðildarríkjanna. Bann var lagt við því að sambandið kæmi ríkjum sem safnað hefðu of miklum skuldum til bjargar. Þessar reglur virkuðu ekki sem skyldi þrátt fyrir að háar sektir væru lagðar á þau ríki sem brutu reglurnar. Þá trúðu leikendur á fjármálamarkaði því að sambandið mundi koma ríkjum til bjargar ef illa færi þrátt fyrir bann. Þeir gerðu því lítinn greinarmun á áhættu ríkisskulda, til að mynda Þýskalands og Grikklands, og endurspeglaðist það greinilega í skuldatryggingarálagi landanna. Rétt eins og Angela Merkel benti á væru það hagsmunir allra að forða einu ríki sambandsins frá gjaldþroti, gjaldþrot eins ríkis mundi grafa undan sameiginlegum gjaldmiðli. Þetta var viðtekin skoðun innan Evrópusambandsins og hjá markaðsaðilum allt þar til fjármálakreppan sem nú geisar hóf að kræla á sér. Vandamálið við reglurnar felst í því að hegðun ríkis innan sambands breytist frá því sem var þegar ríki stóðu utan þess þar sem nú treysta menn á að hin aðildarríkin komi til hjálpar ef illa fer, rétt eins og við heyrum suma þingmenn tala um í sambandi við það að Evrópusambandið létti skuldunum af Íslendingum.

Í raun er þetta nákvæmlega sama vandamál og þjóðir heims standa frammi fyrir vegna flugrána. Ef samið er við einn flugræningja fjölgar flugránum. Til að fækka flugránum fylgja þjóðir því þeirri meginreglu að semja ekki við flugræningja. Til að eyða þessu freistnivandamáli þarf reglufestu. Ef ríkjum er bjargað af sambandinu fjölgar þeim ríkum sem haga sér á ábyrgðarlausan hátt í fjármálum. Þú semur ekki við flugræningja og þú borgar ekki skuldir gjaldþrota ríkja. Þetta er í grunninn vandamálið sem Grikkland stendur frammi fyrir núna. Ef sambandið kemur til hjálpar geta ríki eins og Spánn, Írland og Ítalía breytt hegðun sinni með afdrifaríkum afleiðingum fyrir myntsamstarfið í Evrópu. Þróun á skuldatryggingarálagi mismunandi ríkja innan Evrópusambandsins bendir eindregið til þess að þessu séu markaðsaðilar nú óðum að átta sig á. Munur á skuldatryggingarálagi Grikklands og Þýskalands endurspeglar í dag að fyrrnefnda landið er mun ótryggari skuldari en það síðarnefnda. Það borgar enginn skuldir Grikkja nema Grikkir sjálfir.

En hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Icesave-samninginn? Jú, það er óskhyggja að halda að Evrópusambandið muni koma Íslendingum til hjálpar ef við ráðum ekki við að greiða Icesave í framtíðinni. Staða okkar verður því sennilega verri að þessu leyti innan sambands en utan. Sambandið verður að sýna reglufestu og því er það röng forsenda sem þingmenn gefa sér þegar þeir halda að Evrópusambandið muni reynast okkar hálmstrá ef illa fer. Þvert á móti, sambandið getur ekki komið til hjálpar þar sem það þarf að sýna reglufestu af fyrrnefndum ástæðum. Að fórna Íslandi er óverulegur kostnaður miðað við þann kostnað sem hlytist af því að aðildarríkin breyttu hegðun sinni. Að fórna einni flugvél fyrir margar er ásættanlegt. Þetta kom berlega í ljós þegar Íslandi var fórnað síðasta haust í þágu innlánstryggingakerfis Evrópu.

En hvað með að samþykkt ríkisábyrgðarinnar flýti endurreisninni og því sé rétt að afgreiða málið hið snarasta? Í þessari forsendu felst einnig grundvallarmisskilningur. Vissulega væri einu vandamálinu færra í dag ef Icesave væri frá og aðilar á fjármálamarkaði gætu með meiri vissu metið hvort lána beri Íslandi til endurreisnarinnar eður ei en þar með er ekki öll sagan sögð. Nægilega margar vísbendingar hafa komið fram sem benda í þá átt að lífskjörum muni hraka mjög á næstu árum ef landið þarf að standa undir skuldabyrðinni sem Icesave fylgir. Fáir efast um að Ísland geti staðið við skuldbindinguna en það verður þá á kostnað einhvers annars. Hér gilda hin augljósu sannindi að sömu krónunni verður ekki eytt oftar en einu sinni. Hrakandi lífskjörum fólks fylgir fólksflótti og landið getur þannig hæglega fest í vítahring versnandi lífskjara og landflótta. Um þetta orsakasamband eru nægjanlega mörg dæmi úr efnahagssögu heimsins til að hægt sé að líta fram hjá því.

En hvað með að hafna samningnum? Augljóst er að það mun gera endurreisnina erfiðari í bráð. Óvissan sem fylgir höfnun fælir frá erlenda fjárfestingu og viðheldur vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis. Ísland yrði að byggjast upp á því sem aflað er innan lands. Til lengri tíma litið munu lífskjör þó verða betri, mun betri þar sem ekki þyrfti að standa undir skuldabyrðinni vegna Icesave. Krónan sem hefði verið eytt í Icesave verður veitt í fjárfestingu innan lands og þar með hagvöxt og bætt lífskjör.

Af framansögðu má sjá að samþykkt felur í sér skammtímaábata en verri lífskjör til lengri tíma litið. Höfnun felur aftur á móti í sér að kreppan lengist eitthvað en framtíðarhorfurnar batna til muna. Valið snýst því á milli skammtíma- og langtímasjónarmiða. Í því felst sennilega ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir vilja almennt samþykkja ríkisábyrgðina. Meginhugsun þeirra virðist þannig vera byggð á skammtímasjónarmiðum, þ.e. að halda völdum.

Hér hef ég reifað ólík sjónarmið á nokkuð einfaldaðan hátt. Forsendan sem hér hefur verið gefin er að ef samningnum verði hafnað muni Icesave ekki lenda á Íslendingum en það er auðvitað mjög mikil einföldun. Fáir ef nokkrir þeirra þingmanna sem vilja hafna samningnum eru þeirrar skoðunar að við eigum alfarið að hafna kröfunni um að borga. Andstaðan beinist fyrst og fremst að sjálfum samningnum og þeim mistökum sem gerð voru í samningaferlinu. Bretar og Hollendingar nýttu sér veika stöðu Íslendinga síðasta haust á óbilgjarnan hátt og stjórnvöld fylgdu því eftir með því að lyppast niður fyrir viðsemjendum. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta?) Því á að hafna samningnum og semja upp á nýtt með aðild allra stjórnmálaflokka þrátt fyrir að það hafi kostnað í för með sér til skamms tíma eins og ég hef rakið. Ef ekki semst á að fara með málið fyrir dómstóla eins og siðuðum mönnum sæmir. Stjórnmálaöflin verða öll að bera ábyrgð á nýjum samningum því að annars myndast óbrúanleg gjá til framtíðar í íslenskum stjórnmálum. Þetta mál er stærra en hagsmunir einstakra stjórnmálaafla. Þetta mál varðar efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Það er því skylda allra þingmanna að hafna þessu frumvarpi þrátt fyrir að völdin séu sæt.



[15:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og kom fram í máli hans var forsendan fyrir samanburðinum sú að ef samningnum væri hafnað þyrfti ekki að greiða vegna þessara skuldbindinga. Það er sem sagt eins og vandinn hverfi við að segja „nei“ eins og sumir stjórnarandstöðuþingmenn hafa haldið fram í þessari umræðu. Vegna þess að hv. þingmaður er skynugur maður í efnahagsmálum tekur hann síðan fram að það sé auðvitað mikil einföldun og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gangi auðvitað ekki út frá því og ætlist ekki til þess að farið sé frá málinu án þess að borga. Þá hlýtur maður að spyrja: Hvað hefur þá hv. þingmaður í huga að rétt sé að borga? Væri hann tilbúinn til að samþykkja að greiða lágmarksinnstæðutrygginguna ef vextirnir væru lægri en þeir eru í þessum samningi? Eða ef greiðsluskilmálarnir væru með einhverjum öðrum hætti? Eða teldi hann rétt að greiða hluta af lágmarkstryggingunni? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hann mundi ljúka þessu máli gagnvart viðskiptalöndum okkar þannig að farsælt væri?



[15:06]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru skynugar spurningar hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég sé fyrir mér að nýir samningar fælu í sér að farið yrði að íslenskum lögum við úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands. Ég sé fyrir mér að vextir yrðu mun lægri. Það er auðvitað samningsatriði hvort það yrðu breytilegir vextir en grundvallarforsendan sem ég mundi vilja ganga út frá í nýjum samningum er að þetta væri ekki hefðbundinn viðskiptasamningur heldur milliríkjasamningur til að leysa vandamál sem komu upp í kjölfar eðlis innlánstryggingakerfis allra landanna sem varð raunverulega þessari fjármálakreppu að bráð.

Ég gæti vel séð fyrir mér að íslenski tryggingarsjóðurinn mundi njóta sömu kjara með þetta lán og tryggingarsjóðurinn nýtur í Bretlandi eða 1,5%. Ég tala ekki um í Hollandi þar sem ekki eru borgaðir neinir vextir af lánum til tryggingarinnstæðusjóðsins. Ég er ekki ósáttur við að greiðsluskyldu sé aflétt af Íslandi í sjö ár og síðan verði önnur sjö ár notuð til að borga upp. Ég sæi fyrir mér að vextir af lánum mundu byrja að telja 23. október sem var seinasti dagur til að gera upp. Ég sé fyrir mér að kostnaður Breta t.d. verði takmarkaður, ekki við 2 milljarða eins og er gert núna sem mun tikka á 5,55% vöxtum heldur við eitthvað mun raunhæfara. Ég sé fyrir mér að þetta mál verði leyst á pólitískum grunni á þann hátt að menn geti farið frá því með sæmd, bæði Íslendingar og Bretar, en öll áhættan og niðurlægingin í málinu liggi ekki (Forseti hringir.) Íslendinga megin.



[15:08]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er þá komið fram. Hv. þingmaður telur rétt að við göngum til samninga um að greiða höfuðstól og greiða vexti. Ágreiningurinn felst þá fyrst og fremst í því hversu háa vexti. Það getur auðvitað skipt umtalsverðum fjárhæðum en vegna þess að hv. þingmaður er vel að sér um efnahagsmál hlýtur maður að spyrja hvort hann meti í engu þá miklu óvissu og efnahagslegu áhættu sem það hefði í för með sér að hafna samningnum á móti þessum atriðum sem hann vildi sjá eilítið betri í samningnum. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður gengst við skuldbindingunni, hann gengst við hinum gríðarlegu fjárhæðum sem við stöndum andspænis, hann gengst við því að þær þurfi að greiða og að það þurfi að greiða af þeim vexti. Hann virðist fyrst og fremst vera ósáttur við hversu mikla vexti. Finnst honum ekki skipta raunverulega máli og vera raunveruleg verðmæti í því fólgin að ljúka sem allra fyrst deilunni að setja niður óvissuna, koma efnahagsáætlun landsins af stað, hjólum atvinnulífsins og fjárfestingu í landinu?



[15:10]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil einföldun að það eina sem ég sé ósáttur við í þessu séu vextirnir. Ég er mjög ósáttur við að þetta sé einkaréttarsamningur, ég er ósáttur við að það skuli ekki vera samið um þetta mál á pólitískum grunni og að þetta skuli vera einfaldir samningar embættismanna eins og um hefðbundið viðskiptasamband sé að ræða.

Smáatriði, segir hv. þingmaður þegar hann talar um að deilan snúist um vexti. (HHj: Verulegar upphæðir.) Já, verulegar upphæðir, afsakið að ég skyldi leggja hv. þingmanni þessi orð í munn. Ég tel það enga smámuni t.d. að vera með breytilega vexti í staðinn fyrir fasta vexti. Ég sýndi fram á og kom með útreikninga í ræðu á dögunum þar sem ég sýndi fram á að það munar 100 milljörðum við tiltölulega einfaldar forsendur. Það munar einum þriðja. Ég tala ekki um ef við færum niður í 1,5%. Þessi saga um að hér fari allt í kalda kol ef samningnum verður hafnað og gengið aftur til samninga er hrein og klár lygasaga. Það er ekki verið að fara að afnema gjaldeyrishöft. Það er talað um að það taki tvö til þrjú ár. Þeir gjalddagar sem gjaldeyrisvarasjóðurinn á að mæta eru árið 2011. Íslensk fyrirtæki fá ekki lán erlendis og munu ekki fá lán erlendis fyrir að við tökum á okkur enn þá meiri skuldir. Þetta hefur ekkert með einkaaðila að gera. Að samþykkja þessa samninga mun sáralitlu máli skipta. Það mun skipta einhverju máli en sáralitlu og það mun skipta mestu máli fyrir hæstv. utanríkisráðherra því þá getur hann staðið hnarreistur með (Gripið fram í.) kollegum sínum erlendis.



[15:12]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir efnismikla ræðu. Ég heyrði ekki betur en hann segði í sinni ræðu að höfnun Icesave fældi frá erlenda fjárfestingu og viðhéldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis og að samþykktin feli í sér skammtímaábata en verri lífskjör til langs tíma. Við hv. þingmaður höfum tekist á um ýmislegt í vetur en við erum þá greinilega sammála um að erlend fjárfesting og erlend fjármögnun sé ein lykilforsenda þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Þar með gegnir lúkning Icesave-málsins lykilhlutverki, ef ég skil orð hv. þingmanns rétt.

Leiðir slíkt af sér verri lífskjör til lengri tíma? Væri ekki hyggilegra að freista þess af öllum mætti að koma atvinnulífinu í gang við fyrsta tækifæri og styrkja þannig lífskjörin til langs tíma, stækka þannig kökuna sem er til skiptanna og greiða af Icesave í hagvexti frekar en að fara leið sjálfstæðismanna og dýpka kreppuna, til skamms tíma vissulega en dýpka kreppuna engu að síður, í von um betri samning sem er alls óvíst um eins og kom fram í andsvörum við hv. þm. Helga Hjörvar? Ég tel að þessi leið herði enn þá í snörunni um íslenskt atvinnulíf sem er orðin óbærileg um þessar mundir og ég held að þessi leið sé ekki spennandi. Þetta er óspennandi hættuför.



[15:14]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi í ræðu minni að víkja aðeins að þessu atriði. Við erum sammála um að hlutirnir verða erfiðari til skemmri tíma með höfnun. Ég rakti þetta með vextina áðan. Segjum sem svo að við náum að greiða helmingi minna með raunhæfum vöxtum með því að það verði farið með úthlutun úr þrotabúi Landsbankans að íslenskum lögum og annað slíkt sem hv. þingmaður þekkir alveg. Það þýðir að skuldin verður um 150–200 milljörðum minni en við núverandi samning og þessir 150–200 milljarðar eru allt peningar í erlendum gjaldeyri sem hægt væri að nota til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi ef ekki kæmi til þessi greiðslubyrði.

Eins og hv. þingmaður þekkir vel, og ég skrifaði um í doktorsritgerð minni um hagvöxt, er beint samband á milli fjárfestingar, hagvaxtar og lífskjara og það er það sem ég á við með að langtímahorfurnar verði betri. Peningar sem ekki lenda í ríkiskassanum í Bretlandi og Hollandi verða notaðir í fjárfestingu og uppbyggingu á Íslandi sem mun koma öllum Íslendingum til góða og auka lífskjör á Íslandi.



[15:16]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá fleiri en einum sjálfstæðismanni í dag að þeir eru ekki spenntir fyrir því að fara dómstólaleiðina, eins og formaður þeirra mælti nú fyrir í þingsal fyrr á þessu ári. Dómstólaleiðin er sem sagt ekki sú besta í dag. Nú vilja menn freista þess að ná betri samningi sem er alls óvíst að takist. Í umræðum undanfarinna vikna um skattana var hv. þingmanni tíðrætt um mikilvægi þess að breikka skattstofnana. Frekar en ganga harðar að einstaklingum og fyrirtækjum væri mikilvægt að breikka skattstofnana. Ég held að það væri betra ef sjálfstæðismenn heilt yfir gættu samræmis í málflutningi sínum því innspýting erlendrar fjárfestingar, erlend fjármögnun hingað inn í atvinnulíf okkar á nýju ári 2010, er besta leiðin okkar til að breikka skattstofnana. Frekar vil ég fara þá leið en óvissu- og kreppuferð Sjálfstæðisflokksins.



[15:17]
Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram að síðasta andsvari var umræðan nokkuð málefnaleg en þá tóku frasarnir við, eftir að hv. þingmaður var orðinn rökþrota. Ljóst er að ef ekki nást betri samningar en þessir verður dómstólaleiðin farin, það er algerlega ljóst en það er seinasta úrræðið af öllum. Þegar menn tala um að eyða óvissu — það er vissulega rétt að þessir samningar eyða óvissu fyrir Breta og Hollendinga en þeir setja íslenskt efnahagslíf til langs tíma í algera óvissu vegna þess að við vitum ekki hver hagþróunin verður á Íslandi. Hv. þingmaður veit, eða á alla vega að vita það, að ef skuldabyrðin verður jafnmikil og lítur út fyrir að verði þýðir það háar afborganir, mikla greiðslubyrði fyrir Ísland og að hér verður fjárfest miklu minna en ella.

Svo er annað mál að við sjálfstæðismenn erum sammála um að breikka skattstofnana. Hv. þingmaður breytti þó ekki eftir því þegar hann veitti glórulausum skattahugmyndum ríkisstjórnarinnar brautargengi í kosningu á dögunum, langt í frá. Áhugi hans á breiðum skattstofnum er því meiri í orði en á borði.



[15:19]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér fer fram 3. og síðasta umræða um svokallað Icesave-mál, ríkisábyrgð á lánum vegna Icesave-skuldbindinganna. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta sé erfiðasta mál sem Alþingi hefur tekist á við um langt skeið, a.m.k. lengur en við sem sitjum á þingi í dag munum eftir og jafnvel þeir sem hafa lengsta þingreynslu. Margt hefur verið sagt í þessari umræðu. Hún er orðin alllöng, enda málið stórt og mikið að vöxtum og eðlilegt að það fái ítarlega umfjöllun bæði í þingsal og á vettvangi nefnda þingsins eins og það hefur sannarlega fengið.

Nú fer ég strax að hugsa um hvað ég sagði nákvæmlega sem olli því að hv. þingmaður vill komast í andsvar við mig strax. Ég hélt ég hefði vandað mig svo sérstaklega í upphafi ræðu minnar að það væri ekki sérstakt tilefni til þess en það á kannski eftir að koma og kannski er hægt að skapa þingmanninum tækifæri til að bregðast við.

Margt hefur verið sagt í þessari umræðu en það hefur ekki allt verið yfirvegað og margs konar álit hafa komið fram. Þingnefndir hafa aflað þeirra og eins og gefur að skilja taka þau á ólíkum álitamálum og í mörgum tilvikum komast sérfræðingar að ólíkri niðurstöðu um einstök álitamál. Allt er þetta eðlilegt í sjálfu sér í máli af þessum toga. Að mínu viti er ekki hægt að höndla stóra sannleika í þessu máli, að einhver einn geti það og fullyrt að hann hafi rétt fyrir sér en aðrir rangt, eins og því miður hefur líka mikið borið á í þessari umræðu.

Í sölum Alþingis hafa gengið brigsl um leynd og áform um leynd, jafnvel um annarlega hagsmuni stjórnvalda og einstakra þingmanna. Mér finnst það ekki vera þeim til sóma sem þannig kjósa að haga orðum sínum. (Gripið fram í: Ertu búinn að fá Mishcon de Reya-gögnin? Leyndargögnin?) Ég vil bara segja að þau orð sem hér falla um að það sé ásetningur um að halda gögnum leyndum eða það sé ásetningur manna að hafa aðra hagsmuni en íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi eru ekki þeim til sóma sem þannig tala. Aðrir geta haft aðrar skoðanir á því og þeim er það frjálst. Ég trúi því að allir alþingismenn vilji leggja sig fram um að vinna að hag þjóðarinnar. Við getum að sjálfsögðu verið ósammála og okkur getur greint á um leiðir. Það er eðli stjórnmálanna að menn greini á um leiðir, jafnvel markmið, en í þessu efni er ég sannfærður um að allir vilja vinna sem best að hag þjóðarinnar.

Í málefnalegri umræðu kjósum við að sjálfsögðu oft að draga fram ólíka þætti máli okkar til stuðnings. Það er líka eðlilegt. Í öllum þeim álitsgerðum og gögnum sem hafa komið fram í þessu máli er það oftar en ekki svo að í sömu gögnum geta báðir málsaðilar, bæði stjórn og stjórnarandstaða, þeir sem eru fylgjandi því að þetta mál sé samþykkt og þeir sem eru því andvígir, fundið rökstuðning fyrir sínum málflutningi í sömu gögnunum. Það á t.d. við um þau lögfræðiálit sem nú síðast var aflað fyrir fjárlaganefnd. Menn geta ábyggilega fundið í þeim rök fyrir sínum málflutningi.

Hér hefur t.d. mikið verið vitnað í minnisblað sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi utanríkismálanefnd og um var beðið. Þá er dregið fram sérstaklega það sem hún skrifar um Brussel-viðmiðin og að þegar niðurstaða fékkst um þau hafi málið í raun verið núllstillt. Það er sama orðalag og hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir Haarde notar í sínu minnisblaði til utanríkismálanefndar. Það hefur hins vegar lítið farið fyrir því að menn dragi fram það sem segir m.a. í umræddu minnisblaði þáverandi utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands lýsti eindregið þeirri afstöðu að Ísland vildi standa við alþjóðlegar skuldbindingar en yfirlýsingar voru engu að síður nokkuð misvísandi. Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra höfðu báðir sagt við bresk stjórnvöld að Ísland myndi reyna að ábyrgjast lágmarksgreiðslur á innstæðureikningum. Seðlabankastjóri sagði aftur á móti í Kastljósi hinn 7. október að Ísland myndi hunsa með öllu erlendar skuldir bankanna. Í kjölfarið gaf forsætisráðherra út yfirlýsingu þann 8. október þar sem hann ítrekaði að ríkisstjórnin mundi styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda við öflun nægilegs fjár.“

Þetta kemur líka fram í umræddu minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, gagnrýni á framgöngu þáverandi seðlabankastjóra, en ég heyri að þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósa að draga þetta ekki sérstaklega fram.

Ég vil koma örstutt inn á vinnu fjárlaganefndar í sumar og nota þetta tækifæri til að segja, þar sem ég var starfandi varaformaður fjárlaganefndar þegar þetta mál var þar til umfjöllunar, að ég er stoltur af þeirri vinnu sem fjárlaganefnd öll lagði í þetta mál í sumar. Ég tel að tekist hafi góð samstaða um vinnubrögð og niðurstöður að því er varðar þá fyrirvara sem settir voru í lögin sem samþykkt voru í ágúst. Það voru mér mikil vonbrigði að sjálfstæðismenn, sem lögðu sannarlega mikið á sig við að ná samkomulagi um fyrirvarana, skyldu síðan ekki styðja málið í heild sinni þegar á hólminn var komið í þinginu. (Gripið fram í: Ásbjörn gerði það.) (Gripið fram í: Það gerðist … 28. ágúst.) Það var hins vegar þeirra ákvörðun að standa þannig að málum og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Þeim er að sjálfsögðu frjálst að gera það og hafa sjálfsagt fyrir því sín rök.

Ég vil nefna aðeins þau atriði sem sérstaklega hafa komið upp og m.a. verið vitnað til í ræðu formanns fjárlaganefndar eða orðum hans. Þegar sett var inn í lögin ákvæði um að það skyldi afla samþykkis viðsemjenda okkar við þeim fyrirvörum sem þá voru samþykktir var það að sjálfsögðu gert af fullum heilindum, líka af okkar hálfu sem erum í stjórnarflokkunum. Ég tek ekki undir það og vísa því reyndar algerlega á bug að eitthvað annað hafi vakað fyrir hv. formanni fjárlaganefndar. Hins vegar sagði ég skýrt að afla ætti samþykkis viðsemjenda okkar við þeim fyrirvörum og að sjálfsögðu var það þá verkefni framkvæmdarvaldsins sem fékk þessi lög þannig samþykkt að fara í þann leiðangur. Það var gert. Fyrirvararnir og lögin voru kynnt okkar viðsemjendum í þessu máli. Þau tóku sér alllangan umþóttunartíma, nokkrar vikur, til að fara yfir málið áður en þau brugðust við því. Þau sögðu að þau gætu fallist á þessa fyrirvara að frátöldum tilteknum atriðum sem þau tóku til. Hvað átti þá ríkisstjórnin að gera? Þá átti hún að mínu mati tvo kosti: Annaðhvort að segja einfaldlega: Þá falla bara þessi lög vegna þess að þau eru bundin. (Gripið fram í: Lögin falla ekki úr gildi …) Ríkisábyrgðin samkvæmt lögunum tekur ekki gildi nema viðsemjendur hafi fallist á þau. Það stendur í lögunum sjálfum og það er skýrt. Það stendur í lögunum sjálfum. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Er það rangt? Ég hvet hv. þingmann til að lesa lögin. Þar stendur að ríkisábyrgðin sé bundin því að þessir skilmálar séu kynntir viðsemjendunum og þeir hafi fallist á þá. (Gripið fram í: Ekki bara suma.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Annaðhvort gat ríkisstjórnin gert þetta eða þá hitt að koma til Alþingis og segja: Nú er það svo að viðsemjendur okkar geta fallist á þessa fyrirvara en ekki einhverja tiltekna aðra, og meta þá hvort við viljum gera nauðsynlega breytingu til að koma til móts við þessi sjónarmið eða ekki. Það gerði ríkisstjórnin og ég tel að það hafi verið eðlilegt og heiðarlegt af henni að koma þannig fram með málið til þings og láta þingið fjalla um hvernig það mæti málið miðað við þessa stöðu. Nú hristir hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir hausinn. Ég vil ekki segja að ég heyri það en hún má gera það eins og hún vill, svo ég noti hennar orð um undirritaðan.

Þetta var sú staða sem þá var komin upp og ég tel að ríkisstjórnin hafi gert rétt í því að koma með málið til þings og leggja það á borðið og fjalla þá um hvort menn vildu gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru. Hér er hreint hagsmunamat á ferðinni. Þetta er bara mat á heildarhagsmunum þjóðarinnar, hvað er best fyrir hana í þeirri stöðu sem hún er í. Við erum öll sammála um að þetta er ólánsmál (Gripið fram í.) og enginn hefur sérstaka ánægju af því að þurfa að takast á við það eða þurfa að bera ábyrgð á því að standa undir þessum skuldbindingum. Ég bið hv. þingmenn að láta sér ekki detta það í hug eitt augnablik. Enginn hefur sérstakan áhuga því eða ánægju en við verðum líka að horfast í augu við okkar eigin gerðir. Við verðum líka að líta í eigin barm, rýna í okkar eigið sjálf og spyrja okkur að því hvað við gerðum rangt sjálf. Það er auðvelt að gera aðra að blóraböggli, telja okkur sjálf vera fórnarlamb, að heimurinn hafi snúist gegn okkur og krefjist þess að við stöndum skil á skuldum óreiðumanna í útlöndum. En erum við algerlega saklaust fórnarlamb í þessu öllu saman? Tókum við ekki þátt í útrásarveislunni á meðan á henni stóð? Létum við okkur ekki vel líka að bankarnir okkar væru orðnir hálfgildings stórveldi á erlendri grund, ekki bara í norrænu samhengi heldur einnig í hjarta fjármálastarfseminnar, London, Frankfurt, Lúxemborg? Ekki er svo að skilja að hér hafi verið um meðvirkni sérhvers Íslendings að ræða. (Gripið fram í.) Nei, en þetta var samfélagsleg meðvirkni. Þjóðfélagið var orðið gegnsýrt af aðdáun á þessari bólu sem engin eða lítil innstæða reyndist því miður fyrir. Spilaborgin hrundi. Það var það sem gerðist. Íslensk þjóð sat einn góðan veðurdag uppi með geigvænlegar skuldir og hrunið efnahags- og atvinnulíf. Þau stjórnvöld sem þá höfðu ráðið ferðinni létu hlutina þróast í þessa átt án þess að hafast að og almenningur sem hafði enga forsendu til að átta sig á hvert stefni hvað þetta varðar sat fyrr en varði með skuldasúpuna í fanginu en hafði sem betur fer döngun í sér til að hrekja þáverandi ríkisstjórn frá völdum.

Nú geta menn auðvitað spurt sig að því hvort við séum með betra mál í fanginu í dag. (REÁ: Ó, nei.) Hv. þingmaður segir ó, nei. Ég get tekið undir það, málið er ekkert betra. Icesave-skuldbindingarnar eru ekkert betri en þær hverfa ekki við það eitt að loka augunum. (SDG: Þetta eru ekki skuldbindingar.) (Gripið fram í.) Þetta eru ekki skuldbindingar, segir hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins. Þetta eru að sjálfsögðu skuldbindingar. Íslenskar skuldbindingar sem við þurfum að gera upp við okkur hvort við ætlum að standa undir, hvort við ætlum að veita ríkisábyrgð á þeim eða ekki. Þetta mál hverfur ekki, hv. þingmaður, jafnvel þó að þingmaðurinn loki augunum fyrir því. (Gripið fram í.)

Í þessari umræðu hefur verið sagt að allir fyrirvararnir sem settir voru í sumar séu að engu orðnir. Ég mótmæli því. Ég tók þátt í því að vinna þessa fyrirvara. Það kann vel að vera að hv. þingmenn sem unnu að þessu með mér og úrræðum sjálfstæðismanna séu ósammála mér í því. Þá skulu þeir bara vera það en ég er þeirrar skoðunar að þessir fyrirvarar séu í öllum meginatriðum komnir inn í samninginn sjálfan, eins og lagt var upp með, og þeir haldi. Við getum verið ósammála um mat á stöðunni, við getum verið ósammála um hvaða leiðir á að fara miðað við þá stöðu sem við erum komin í nú og við getum öll verið sammála um að þetta er ólánsmál. Við skulum samt sem áður ekki bera hvert öðru á brýn að við göngum hagsmuna annarra en íslensku þjóðarinnar því það erum við sannarlega að gera. Mitt mat er að það sé betri kostur fyrir okkur — þó að allir kostir séu í raun slæmir í stöðunni — að takast á við þetta vandamál, ganga frá þessum samningum við þessa aðila og hefja endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs. Ég tel að mikið sé í húfi. Ég tel að nú ríði á að við leitum sem mestrar samstöðu meðal þjóðarinnar og samhug. Ég tel að þá geti ýtrustu sjónarmið þurft að víkja fyrir sameiginlegu markmiði um félagslegan jöfnuð, um réttlæti og sjálfbærni sem við erum að reyna að byggja upp. Við þurfum að sjálfsögðu að láta heildarhagsmunina sitja í fyrirrúmi. Það er mín afstaða og ég er einn þeirra sem vilja styðja þetta mál þrátt fyrir hvernig í það er búið og til þess var stofnað, (Forseti hringir.) að það séu heildarhagsmunir íslenskrar þjóðar að hefja heildarendurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs og að ljúka þessu máli með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.



[15:35]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hófstillta og málefnalega ræðu. Ég er ósammála honum um það hvernig hann túlkaði þau skilyrði sem við settum varðandi frumvarpið í haust. Þetta voru skilyrði, þetta voru ekki samningsatriði, þetta var ekki eitthvað sem við ætluðum að fara með út til Breta og Hollendinga til að semja um við þá. Þetta voru þau lágmarksskilyrði sem við gátum sætt okkur við til að gera málið bærilegt.

Í annan stað vitnaði hann aðeins í skýrslu sem ég hef gert nokkuð að umræðuefni hérna og það er skýrslan frá Mishcon de Reya sem að mínu mati er mjög mikill áfellisdómur um verk ríkisstjórnarinnar, þar sem segir að þessi samningur sé mögulega pólitískt viðunandi að vísu en hann sé hvorki skýr né sanngjarn né séum við í færum til að borga. Lögfræðistofan hvetur til þess að farið verði með uppbyggjandi hætti til Breta og Hollendinga til að freista þess að taka upp þennan samning að nýju. Ég vil spyrja hv. þingmann hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki fellt (Forseti hringir.) sig við þá hófstilltu leið sem lögfræðistofan er þarna að hvetja til í því skyni að reyna að leysa málin með þeim hætti að íslenska þjóðin geti við unað.



[15:36]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti Varðandi skilyrðin sem hv. þingmaður ræðir um og segist vera ósammála mér um má kannski segja að það er frekar óvenjulegt í löggjöf að setja beinlínis inn í lögin áskilnað um að stjórnvöld skuli afla samþykkis annarra aðila í þessu tilfelli viðsemjenda okkar. Það var gert í þessu tilfelli, það er frekar óvenjulegt, og ég leit svo á og lít svo á enn þá að í þessu hafi falist að stjórnvöld ættu að gera Bretum og Hollendingum grein fyrir hvað fólst í lagasetningu Alþingis, þeim fyrirvörum sem þar voru settir, og afla stuðnings eða samþykkis þeirra við þá. Við gátum auðvitað ekki sagt í íslenskum lögum að Bretar og Hollendingar skyldu fallast á þá og nú kom í ljós að þeir felldu sig ekki við alla skilmálana og þá urðu íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu að takast á við þá stöðu sem þar með var komin upp. Það var gert með því að fara með málið á nýjan leik inn í þingið og gera þinginu grein (Forseti hringir.) fyrir því hvað út af stóð og þá er það pólitískt mat hvað menn vilja og hvernig menn vilja taka á þeirri stöðu sem þá var komin upp.



[15:37]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega var þetta mjög óvanaleg aðferð. Samningarnir voru líka mjög óvanalegir og þannig úr garði gerðir að það var ekki pólitískur meiri hluti fyrir þeim á Alþingi. Þess vegna var farið í þessa vinnu, þess vegna sköpuðust forsendur til þess að stjórnarandstaða lögðu saman krafta sína til að reyna að búa til skilyrði, einhverjar forsendur sem hægt væri að una við en það þýddi auðvitað að þetta var lægsti mögulegi nefnarinn, þetta var lægsti mögulegi samningurinn sem menn gátu komist að og þess vegna voru auðvitað ekki nein efni til þess að fara síðan að semja við Breta og Hollendinga um útfærslu á þessu máli eða neinn afslátt a.m.k.

En ég vil ítreka það sem ég spurði um áðan varðandi tillögu bresku lögfræðistofunnar um að menn tækju upp samninga að nýju við Breta og Hollendinga í ljósi þess að þessi samningur var ekki skýr, hann var ekki sanngjarn og það megi færa fyrir því rök að við séum ekki í færum til að standa undir honum vegna þess að áhrifin af samningnum væru þau að við ættum erfiðara með að standa undir öðrum skuldbindingum og það muni hafa áhrif (Forseti hringir.) á möguleika okkar til að standa undir þeim þörfum sem íslenska þjóðin kallar eftir.



[15:39]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að menn gætu dregið fram úr hinum og þessum álitum sem borist hefðu hina og þessa hluti máli sínu til stuðnings. (Gripið fram í.) Það hefur hv. þingmaður m.a. gert að því er varðar skýrslu þessa lögfræðifyrirtækis. Ég er þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld hafi í raun gert allt til að ná sem hagfelldastri niðurstöðu í þetta mál hvað okkur snertir. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það að hafna málinu núna og óska eftir því við Breta og Hollendinga að fara af stað í nýjar viðræður verði árangursríkt, að það verði ferð til fjár ef svo má segja. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að Bretar og Hollendingar mundu fallast á það að koma til nýrra samningaviðræðna og ég held að þar með mundi endurreisnin sem er hafin á okkar efnahags- og atvinnulífi tefjast enn frekar, endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, önnur endurskoðunin sem á að ljúka vonandi snemma á næsta ári, og lánafyrirgreiðslurnar frá Norðurlöndunum o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta mundi allt tefjast og ég tel að hagsmunir þjóðarinnar séu ekki fólgnir í því.



[15:40]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir framsögu hans. Ég þarf aðeins að rifja upp með þingmanninum hvers vegna þetta skilyrði var sett inn í lögin, í 2. mgr. 1. gr., að kynna yrði breskum og hollenskum stjórnvöldum niðurstöðu þessara fyrirvara og þau skyldu fallast á þá. Það var út af því að umræðan í sumar var þannig að þingmenn treystu því ekki að fyrirvararnir færu inn í Icesave-samninginn og kæmi til ágreinings milli Íslendinga, Breta og Hollendinga mundu gilda um það bresk lög og það var talið að þessir fyrirvarar hefðu ekkert lagagildi í Bretlandi. Við skulum ekki rugla því saman.

Svo kemur hv. þm. Guðbjartur Hannesson hér í gær og segir að eitt af því sem við klikkuðum illilega á hafi verið þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja þetta. Nú er hæstv. ríkisstjórn heldur betur komin með málið (Forseti hringir.) algerlega út af brautinni miðað við það sem rætt var hér í sumar.



[15:41]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er tvennt sem ég vildi spyrja hv. þingmann um. Annars vegar að menn segja hér fullum fetum að efnahagslegu skilmálarnir séu inni. Af hverju segja menn það þegar búið er að taka út ártalið 2024? Sömuleiðis tala menn hér eins og það að setja vextina inn í þáttinn um hagvöxtinn sé lítið mál. Við erum að tala um vaxtakostnað sem samsvarar rekstrarkostnaði á Landspítalanum á einu ári, þannig að efnahagslegu fyrirvararnir eru augljóslega ekki inni. Af hverju halda þá stjórnarliðar öðru fram?

Hins vegar að stjórnarliðar komu fyrir viku síðan og sögðu: Alþingi hefur talað, þetta er innan samkomulagsins, við berum engan kvíðboga fyrir því að fara og útskýra fyrir Bretum og Hollendingum að svona er þetta. Vissu menn ekki hvað þeir voru að tala um?



[15:42]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Efnahagslegu fyrirvararnir eru skrifaðir inn í viðaukasamning og ég er þeirrar skoðunar og var það reyndar í sumar þegar við vorum að fjalla um þetta mál í fjárlaganefnd að þeir fyrirvarar sem Alþingi mundi setja í lög ættu að fara inn í viðaukasamning. Þetta var talsvert rætt í umræðu um málið í sumar hvort það yrði gert með þeim hætti, hvort þetta væri gagntilboð eða eitthvað þess háttar eins og það var orðað af sumum. Það var afstaða mín að þetta yrði að sjálfsögðu að skrifast inn í samningana með einhverjum hætti, þannig að fyrir lægi staðfesting frá viðsemjendum okkar um að þeir féllust á þessa efnahagslegu fyrirvara. Ég tel að þeir séu meira og minna allir komnir þarna inn.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, það eru tvö álitamál þarna, annars vegar varðandi ártalið 2024. Um það var reyndar deilt okkar í milli hvaða þýðingu það hefði og hvernig ætti að túlka það ákvæði (Forseti hringir.) eins og það var í lögunum frá 28. ágúst. Og hitt varðandi vextina get ég komið betur inn á í seinna andsvari.



[15:44]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemst ekki hjá því að það er búið að taka þessa efnahagslegu fyrirvara út þegar sagt er að menn greiði alltaf vexti, alveg sama hvernig ástandið er varðandi hagvöxt. Það er búið að taka út efnahagslega fyrirvara og ártalið 2024 er farið út. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki að hv. þingmaður svaraði því hvers vegna menn sögðu hér og hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta væri innan samkomulagsins. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði: Þingið hefur talað, nú fylgjum við þessu eftir. Ég spyr hv. þingmann: Vissu þessir aðilar ekkert um hvað þeir voru að tala? Hvað breyttist? Hittu þeir bara útlendingana og koðnuðu niður? Þeir sögðu algerlega skýrt að þetta væri innan samkomulagsins og þeir sögðu réttilega þá að Alþingi væri búið að tala.



[15:45]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að því er varðar ártalið 2024 var gert ráð fyrir því að ríkisábyrgðin gilti til ársins 2024. Það var aldrei sagt að þar með féllu niður eftirstöðvar ef þær yrðu einhverjar. Reyndar var gengið út frá því að lánið yrði uppgreitt á þeim tíma en ef svo færi að reyndi á efnahagslegu fyrirvarana og lánið væri ekki að fullu greitt árið 2024 var aldrei hugsunin, a.m.k. ekki af minni hálfu, að þar með féllu sjálfkrafa allar eftirstöðvar niður (Gripið fram í.) heldur var talað um að þá ætti að taka upp viðræður milli aðila.

Varðandi vextina þá er það rétt hjá þingmanninum að gert er ráð fyrir því núna að vextir séu alltaf greiddir. Það var ekki gert ráð fyrir því í málinu eins og það var í sumar. Það var þó rætt á vettvangi fjárlaganefndar hvort ástæða væri til að taka það sérstaklega fram og samkvæmt þeim útreikningum sem Seðlabankinn hefur gert eru engar líkur á öðru en að (Forseti hringir.) það sé rými fyrir vaxtagreiðslurnar innan þeirra efnahagslegu fyrirvara sem eru komnir inn í samninginn sjálfan.



[15:46]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og málefnalega. Það mættu margir stjórnarþingmenn taka hann sér til fyrirmyndar. Hann kom inn á það í ræðu sinni að hann hefði verið stoltur af vinnu fjárlaganefndar í sumar og það er ég einnig vegna þess að við sátum þar saman í sumar og unnum að gerð þessara fyrirvara. Ég vil hins vegar árétta það, af því að hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að margir sjálfstæðismenn héldu því fram að allir fyrirvararnir væru farnir út úr samningunum. Því hef ég aldrei haldið fram. Að sjálfsögðu eru einhverjir fyrirvarar þar inni enn þá en þá veigamestu að mínu viti er búið að taka dálítið úr sambandi.

Vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það í sínu máli að við ættum öll að standa saman hér og vinna að þjóðarhag, sem við erum svo sannarlega að gera, langar mig að spyrja, af því undir þeim kringumstæðum sem verið er að gera þessa samninga var leynt og ljóst verið að kúga okkur alla daga af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Bretar og Hollendingar að misbeita miklu valdi sem þeir hafa í alþjóðasamfélaginu: Telur hv. þingmaður að það hafi haft áhrif á gerð þessara samninga (Forseti hringir.) eða að við höfum notið sannmælis við gerð þeirra?



[15:47]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð og vil nota þetta tækifæri og þakka honum fyrir prýðilegt samstarf á vettvangi fjárlaganefndar í sumar að þessu máli. Ég tel, og við erum greinilega ekki sammála um það hvað varðar fyrirvarana, ég ítreka það að ég tel að þeim sé ágætlega fyrir komið í öllum meginatriðum og öllum atriðum sem máli skipta með því að taka það inn í viðaukasamning sem gerður hefur verið og ég tel að þeir haldi þar fyllilega gildi sínu.

Hvort verið er að kúga okkur alla daga, það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum verið undir miklum þrýstingi og við höfum verið beitt órétti m.a. innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tel að framganga ríkja eins og Breta og Hollendinga, sem eru áhrifamiklir innan stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé mjög ámælisverð þegar beinlínis var reynt að koma í veg fyrir að mál Íslands kæmust þar á dagskrá vegna þess að þetta mál væri óleyst. (Forseti hringir.) Þar voru þeir að mínu mati að fara langt út fyrir öll velsæmismörk í háttalagi í alþjóðasamskiptum.



[15:49]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einn af þeim fyrirvörum sem breytt var núna við gerð þessa nýja frumvarps er sá sem snýr að svokölluðu Ragnars H. Halls-ákvæði sem fjallar um lagskiptingu krafna út úr þrotabúinu, þ.e. að breski og hollenski innlánstryggingarsjóðurinn fái þá til helminga kröfuna á móti íslenska tryggingarsjóðnum, sem ég er afskaplega ósáttur við að hafi einhvern tíma verið inni vegna þess að það er einfaldlega svo að gerð er að krafa um að farið sé að íslenskum lögum þó svo að það standi reyndar deilur milli íslenskra lögfræðinga um það hvernig hægt verði að skipta þessu, en við ættum þó alla vega að njóta vafans.

Í þessum breytingum og fyrirvörum að sagt er að íslenskir dómstólar verði að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum og niðurstaða þeirra verði að vera í samræmi við álit frá EFTA-dómstólnum. Nú er það svo, virðulegi forseti, að það eru töluverðar líkur á því eða margir hafa haldið því fram að við fáum hugsanlega ekki ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum sem þýðir að þetta mun þá falla inn í samningana og verða úrskurðað af breskum dómstólum hvernig þessu ákvæði verði fylgt eftir. (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessu og er hann hugsanlega tilbúinn til að styðja það að þá yrði það bara niðurstaða íslenskra dómstóla sem mundi gilda ef ekki fengist ráðgefandi álit frá EFTA?



[15:50]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega eitt af þeim álitamálum sem við eyddum miklum tíma í að ræða í sumar og er kannski erfitt í einnar mínútu andsvari að fara alveg í kjölinn á. En að sjálfsögðu er það þannig, og það er rétt hjá hv. þingmanni og það kom í ljós í vinnu fjárlaganefndar í sumar, að það er líka ágreiningur á milli íslenskra lögmanna um það hvernig á að fara með þetta mál þegar kemur til skiptameðferðar hér á landi. Þess vegna var hugsunin sú að segja að íslenskir dómstólar mundu einfaldlega kveða upp úr um það hvaða aðferð ætti að viðhafa og hún mundi þá standa.

Það lá alveg ljóst fyrir og lá fyrir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar í sumar að það væru möguleikar á því að slíku máli yrði vísað til erlendra dómstóla svo sem eins og EFTA-dómstólsins og það yrði leitað eftir áliti þar. Ég er þeirrar skoðunar svona fljótt á litið (Forseti hringir.) að komi ekki álit frá EFTA-dómstólnum, eins og þingmaðurinn er að ýja að, þá sé niðurstaða íslenskra dómstóla ekki í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins enda hefur það þá ekki borist.



[15:52]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þau séu fá dæmin í þingsögunni sem hefur tekist svo óhönduglega til með eins og það mál sem við ræðum hér og ég held að sagan eigi eftir að sanna það svo ekki verði um villst. Það var samdóma álit okkar við hrunið að nauðsynlegt væri að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og þar skyldi ekkert undan skilið í þeirri rannsókn. Skipuð var rannsóknarnefnd einstaklinga sem taldir voru hafnir yfir allan vafa. Þeim var einnig gefið það víðtækasta umboð sem slíkri rannsóknarnefnd hefur verið veitt hérlendis.

Um þetta var mikil samstaða á þinginu og það má segja að afgreiðslan í dag um þingnefndina sem á að taka við gögnum og vinna úr þeim gögnum sem koma frá rannsóknarnefndinni sýni þá samstöðu sem er um þessa eðlilegu kröfu samfélagsins. Í ljósi þess djúpstæða ágreinings sem er meðal meirihlutaflokkanna og þjóðarinnar og þingsins í þessu máli um það hvernig staðið hefur verið að viðreisnarferlinu, er full ástæða til að framlengja líf þessarar rannsóknarnefndar og gefa henni sama umboð til að gera ítarlega úttekt á þeirri vinnu sem hefur farið fram af hálfu ríkisvaldsins á þessu ári.

Engum blöðum er um það að fletta að ábyrgð þeirra sem stóðu í brúnni í aðdraganda falls bankanna og við fall þeirra er mikil. Í því samhengi er mikilvægt að við minnumst þeirra aðstæðna sem þá voru uppi hér á landi og ekki síður innan Evrópusambandsins og reyndar kannski víðar um heim. Það er gott að rifja þetta upp og í því tilefni vitna ég í yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem var gefin út í desember 2009 en hún ber gott vitni um þetta. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Eftir setningu neyðarlaganna urðu fjöldamótmæli við sendiráð Íslands og banka í Hollandi, Lúxemborg, Þýskalandi og víðar þar sem þúsundir einstaklinga misstu aðganginn að sparifé sínu. Bankahrunið á Íslandi varð m.a. af þessum ástæðum að helsta fréttamáli Evrópu í byrjun október og tugir fjölmiðlamanna þyrptust til landsins sem og fulltrúar breskra og hollenskra stjórnvalda sem kröfðust þess að þegar í stað yrði samið um ábyrgðir íslenskra stjórnvalda á innstæðum í útibúum íslenskra banka. Það var við þessar aðstæður sem þáverandi fjármálaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu (MoU) við Hollendinga 11. október sem aldrei varð þó að veruleika vegna þess að efnisatriði voru algerlega óviðunandi.“

Það er enginn vafi í mínum huga að ef menn gætu spólað til baka vildu þeir hafa gert eitthvað með öðrum hætti en gert var alveg eins og ég er klár á því að hæstv. fjármálaráðherra vildi gjarnan hafa fjallað af meiri ábyrgð um þessi mál en hann gerði á sínum tíma. Hann viðurkennir í dag að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig aðstæður voru og ég hef fullan skilning á þeim þætti málsins. En ábyrgð þeirra sem tóku við þann 1. febrúar sl. og hafa alla ábyrgð á viðreisnarferlinu er ekki minni en hinna sem áður sátu. Í ljósi áðurnefnds ágreinings er nauðsynlegt að framlengja starf rannsóknarnefndarinnar. Það er eðlilegt framhald af þeirra störfum að þau vinni áfram með málið.

Það alvarlegasta við þetta mál er sú staðreynd að lítil eða engin samstaða hefur náðst um markmið eða vinnubrögð. Svo fámenn þjóð sem við erum hefur ekki efni á því að vera liðskipt þegar staðið er frammi fyrir svo alvarlegu máli. Önnur og ekki síður alvarleg hlið málsins er sú að frá byrjun hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar farið með rangt mál og haldið frá upplýsingum sem mikilvægar eru öllum þeim sem um málið þurfa að fjalla. Skýr dæmi um þetta hafa verið að koma fram, í raun allt málsferlið og nú síðast upplýsingar sem lagðar voru fram í gær eftir að ábendingar höfðu komið fram frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya og enn bíða fulltrúar okkar í fjárlaganefnd eftir frekari upplýsingum sem enn hafa ekki borist.

Mistök ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eiga vafalaust að nokkru skýringu sína að sækja til hennar eigin ágreinings og þess ágreinings sem er innan stjórnarflokkanna um þetta mál. Hann er djúpstæður eins og fram hefur komið. Það er með ólíkindum hvað forustumenn ríkisstjórnarinnar og formaður samninganefndarinnar hafa komist upp með í málflutningi sínum án þess að t.d. fjölmiðlar hafi gert því skilmerkilega skil. Í þeim efnum er margt hægt að rifja upp eins og þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hæstv. fjármálaráðherra þann 3. júní um stöðuna í samningaviðræðunum, um hvort til stæði að undirrita samkomulag við bresk stjórnvöld daginn eftir eða næstu daga. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði með slíkum ótrúverðugleika sem síðan hefur einkennt málið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun um það [þ.e. Brussel-viðmiðin] á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og m.a. utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála.“

Tveim dögum síðar var kynntur samningur til undirritunar, undirritaður án þess að vissa væri fyrir um þingmeirihluta og varð til þess reyndar að einn ráðherra sá ástæðu til að segja af sér embætti. Það eru einnig áhugaverð ummæli formanns samninganefndarinnar þegar hann sagði að ef reikningar hefðu ekki verið greiddir upp hefði allt innstæðutryggingarkerfi Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist“, sagði Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar. Á hvaða vegferð voru menn eiginlega, virðulegi forseti, farnir er að líkja sjálfum sér við Jesúm Krist. Þetta segir meira en mörg orð. Síðan hafa hótanirnar gengið, hótanir um að ef ekki yrði gengið frá þessum samningum yrði ekki hægt að hefja endurreisn bankakerfisins, það yrði ekki hægt að halda áfram þeirri vinnu sem var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og norrænu lánin kæmu ekki til greiðslu. Að öllu þessu sögðu, sem ekkert hefur gengið eftir, er það líf ríkisstjórnarinnar sem lagt var að veði og það var ekki krafa stjórnarandstöðunnar að líf ríkisstjórnarinnar hafi verið lagt að veði heldur er það forsætisráðherrann sjálfur sem hefur sett lífið að veði.

Menn höfðu ætlað að nóg væri komið af öllu þessu. Svo er þó ekki að sjá. Við sjálfstæðismenn ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum höfum varað við þessum vinnubrögðum. Við höfum viljað gera allt sem við megnum til að sjá þessu máli farborða, hvað sem öllum ágreiningi í sjálfu sér líður. En við höfum ætlast til meiri einlægni og samstarfsvilja, bæði innan ríkisstjórnarinnar og milli hennar og stjórnarandstöðunnar. Þetta mál er sannarlega svo mikilvægt að öll önnur sjónarmið ætti að setja til hliðar til að vinna því sigur fyrir íslenska þjóð. Hin málefnalegu öfl þingsins höfðu styrk til að leggja í mikla vinnu í sumar við að lagfæra þann samning sem fyrir lá. Með samstöðu nokkurra þingmanna Vinstri grænna tókst að gera umbætur á mögulegri ríkisábyrgð þannig að breið sátt náðist um það í þinginu. Þetta gaf vissulega vonir um framhaldið, vissulega vonir um að við værum að ná samstöðu sem væri svo mikilvæg í þessu máli þar sem við værum sem eitt lið að berjast fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar og gæta okkar á þeim fórnum sem verið er að færa. En aftur brást ríkisstjórnin og henni hefur nú tekist að kljúfa þingið, kljúfa þá samstöðu sem náðist og kljúfa þjóðina. Þá er aftur gripið til gamalkunnra ráða, innihaldslausra hótana, og nú getur hæstv. fjármálaráðherra ekki gefið sannfærandi skýringar. Nú hafa þær skýringar sem áður lágu í hótununum runnið og nú eru skýringarnar lítt sannfærandi.

Sannfæring meirihlutaflokkanna er lítil í þessu máli. Það finnur maður þegar rætt er við þingmenn flokkanna á göngunum að það er ákveðinn hópur sem hefur litla sannfæringu fyrir því að þessa leið verði að fara. En það er líka stór hópur þingmanna sem er að greiða þessu máli lið með bundið fyrir augun og hefur litla sannfæringu í málinu.

Þegar farið er yfir þær forsendur sem lágu til grundvallar stöndum við frammi fyrir mögulegum skelfilegum aðstæðum í samfélagi okkar. Yfir það hefur verið farið ítarlega í ræðum og ég sé ekki ástæðu til að rekja það. En eitt af því sem helst hefur verið nefnt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er að menn hafi gengið að þessum samningum með bundnar hendur af yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar. Vissulega var margt sagt og eitthvað undirritað en það hefur ítarlega komið fram að ekkert af því hefur bundið okkur í þeim samningaviðræðum sem fram fara og það er mikil sögufölsun þegar reynt er að halda því fram að menn hafi viljað fara samningaleiðina og ekki láta reyna á dómstólaleiðina. Það var auðvitað þannig og hefur alltaf verið skýr stefna okkar að ef eðlilegir og sanngjarnir samningar væru ekki í höfn í þessu máli væri dómstólaleiðin sú leið sem yrði að láta reyna á.

Aftur er hægt að taka hatt sinn ofan fyrir fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í þeirri yfirlýsingu sem hún hefur gefið, í þeirri lexíu sem hún er að reyna að kenna sínum fyrrum þingliðum, þeim flokki sem hún stýrði, þegar hún fer yfir þau viðmið sem umsamið var að farið yrði eftir í samningaviðræðum og það hvernig samningaviðræðurnar núllstilltust við þessar aðstæður. Ég vildi að það væri meiri sannfæring í þingmönnum Samfylkingarinnar að hlusta á þennan málflutning og breyta í samræmi við þau sjónarmið sem þar koma fram. Það er tekinn af allur vafi í hennar huga, eins og okkar svo margra, að við höfum ekki verið bundin af neinu sem gert var hér í október og nóvember í fyrra og ég lýsti áðan þeim aðstæðum sem þá voru uppi í samfélaginu og þeim aðstæðum sem þá voru uppi í Evrópu og því að við höfðum örugglega viljað gera eitthvað öðruvísi. En það er ekki með nokkru móti hægt að segja að hendur okkar hafi verið bundnar af því sem þá var gert. Vilji okkar hefur alltaf legið til þess að leita pólitískra lausna í þessu máli en ekki þannig að við værum ofurseld óvissunni inn í langa framtíð.

Alþingi hefur fjallað ítarlega um þetta mál og í tvígang hefur vilji þess í raun verið brotinn af hæstv. ríkisstjórn. Það eru meirihlutaflokkarnir sem á endanum munu bera ábyrgð í þessu máli. Það eru þeir sem bera ábyrgð í þessu máli pólitískt, en það er auðvitað þjóðin sem ber ábyrgðina á því að þurfa að greiða þetta og standa undir þeim skelfilegu skuldbindingum sem hér er verið að leiða yfir okkur. Það hefur ítrekað komið fram hjá svo fjölmörgum aðilum að óvissan er í raun yfirþyrmandi í þessu máli. Geta okkar til að greiða á sama tíma og sú atvinnustefna sem rekin er af hálfu núverandi ríkisstjórnar verður alls ekki hægt að segja að sé hvatning til að auka verðmætasköpun og útflutning í landinu. Með hverju ætlum við þá að greiða? Við þurfum að afla erlends gjaldeyris til að greiða götu þessa máls, til að geta greitt fyrir þessar skuldbindingar. En við þurfum líka að greiða fyrir allt endurreisnarstarfið, alla þá uppbyggingu sem þarf að fara fram. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli vera tilbúnir til að taka þessa miklu áhættu og án þess að reyna að ná breiðari samstöðu í þinginu og í þjóðfélaginu þar sem miklu meiri sátt væri hægt að ná um þetta mál og þær leiðir sem verða farnar.

Verið er að fara með þetta mál í gegnum þingið, virðulegi forseti, með algerum lágmarksmeirihluta. Áhöld eru um það hvort ríkisstjórnin muni gera þetta með eins eða tveggja atkvæða meiri hluta. Ég vona að menn sjái að sér. Það er enn tækifæri til þess og ég vona að það gerist. Það er sannarlega verið að ræða um velferð íslensku þjóðarinnar og henni munum við sjálfstæðismenn ekki bregðast. Við munum ekki bregðast þjóðinni í þessu máli, við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu. Ég er í raun, virðulegi forseti, klumsa yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á þingi.



[16:06]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í 2. umr. um þetta frumvarp sást lítið til stjórnarliða. Þeir skutu hins vegar einstaka sinnum upp kollinum á meðan umræðan fór fram í fjölmiðlum og þá yfirleitt fyrst og fremst til að halda því fram að ekkert nýtt hefði komið fram í umræðunni og henni ætti því að fara að ljúka. Þetta fullyrtu þeir án þess að hafa nokkra hugmynd um það vegna þess að ég held að það sé óhætt að fullyrða að mjög fáir stjórnarliðar hafi fylgst með 2. umr. þessa máls. Það er eiginlega staðfest núna þegar þessir stjórnarliðar treysta sér loksins til að koma upp í ræðustól og segja nokkur orð um málið að 2. umr. þess og raunar umræða um þetta mál í samfélaginu sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur og mánuði hefur algerlega farið fram hjá þeim. Enn halda þeir fram rökum, ef rök skyldi kalla, sem löngu er búið að sýna fram á að standist ekki — og ekki bara stjórnarandstaðan heldur jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjálfur sem hefur verið að mati stjórnarliða helsti gerandinn í þessu máli og ástæða þess að það eigi að fallast á þetta allt saman.

Tökum sem dæmi þá fráleitu staðhæfingu, sem kom fram fyrst þegar samningurinn var kynntur en var síðan fyrir löngu búið að slá út af borðinu, að það að fallast á Icesave-skuldbindingarnar eða gera þessar kröfur að skuldbindingum mundi styrkja gengi krónunnar. Þetta er augljóst, það þarf ekki hagfræðinga heldur bara fólk með sæmilega rökhugsun til að sjá að verulegar auknar skuldbindingar í erlendri mynt eru ekki til þess fallnar að styrkja gjaldmiðil viðkomandi þjóðar. Það er mjög einföld stærðfræði sem liggur þar að baki. Engu að síður leyfðu menn sér að halda því fram að það að ganga frá þessu mundi á einhvern hátt styrkja ímynd landsins, rétt eins og bankarnir gerðu með því að reyna að kaupa sér ímynd, og það mundi þá verða til þess að hærra verð kæmi á krónuna. Sem sagt, menn mundu kaupa sér falska ímynd fyrir krónuna með því að ganga að þessum kröfum.

Nú hafa meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn, þær tvær stofnanir sem ríkisstjórnin hefur helst vitnað til í þessu máli, lýst því yfir að ekki aðeins mundi krónan haldast veik næstu 10 árin a.m.k. — þeir treystu sér ekki til að spá lengra enda má leiða að því líkur að menn geri ráð fyrir að þetta verði jafnvel áratugi eftir það miðað við forsendurnar sem eru gefnar. Það er búið að lýsa því yfir að ekki aðeins muni krónan haldast veik heldur sé það forsenda þess að menn geti staðið undir skuldbindingunum að krónan haldist veik. Þessar miklu skuldir þjóðarinnar muni sem sagt halda krónunni veikri, sem eðlilegt er, en það sé líka forsenda þess að hægt sé að standa undir þeim vegna þess að þá sé hægt að reka Ísland sem eins konar verstöð, framleiðsluþjóðfélag þar sem allt fer í að framleiða sem mest til útflutnings en flytja sem allra minnst inn.

Hvaða áhrif hefur það á lífskjör almennings í landinu? Sú umræða hefur kannski farið svolítið fyrir ofan garð og neðan þegar menn festa sig í því að spyrja spurningarinnar: Getum við borgað þetta? Einhverjir komast að þeirri niðurstöðu með miklum ólíkindaforsendum að það ætti að vera hægt ef afgangur af viðskiptum við útlönd verður fjórfaldur metafgangur ár eftir ár eftir ár, eins og Seðlabankinn reiknaði með. Þá væri þetta hægt. En hverjar eru afleiðingarnar? Við hefðum kannski frekar átt að ræða það. Hvers konar þjóðfélag verður þá til? Þá er verður búið til láglaunasamfélag sem mun eiga mjög erfitt með að keppa við önnur lönd um fólk sem getur unnið hvar sem er. Það má nefna sem dæmi lækna, hjúkrunarfræðinga, verkfræðinga og raunar eru mjög margar starfsstéttir orðnar þannig að fólk á auðvelt með að flytja sig milli landa. Þetta leiðir til einhverrar hættulegustu keðjuverkunar sem þjóðfélag getur staðið frammi fyrir. Færeyingar kynntust þessu á sínum tíma í sinni kreppu sem þó var ekki eins djúp og okkar og þeir hafa í rauninni ekki náð sér enn. Þessar aðstæður er verið að skapa hér. Það kemur beinlínis fram í forsendum Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og þar af leiðandi ríkisstjórnarinnar sem byggir álit sitt á þessum forsendum, að Ísland verði einhvers konar láglaunaframleiðslusamfélag þar sem lífskjör haldist lök miðað við það sem er í löndunum í kringum okkur, til þess að við getum flutt þeim mun meira út og borgað skuldirnar. Þetta er í raun mjög einfalt dæmi. Þegar menn skuldsetja sig með þessum hætti, þegar ríkið skuldsetur sig umfram getu þarf að nota verðmætasköpunina til að borga niður þær skuldir. Þá nýtist verðmætasköpunin ekki þegnunum. Ég er dálítið hræddur um að fáir muni láta bjóða sér það, eigi þeir kost á vinnu á tvöföldum eða þreföldum launum annars staðar.

Önnur fullyrðing og álíka fáránleg er um lánshæfismatið. Stjórnarliðar hafa jafnvel komið upp í ræðustól og haldið því fram að þessi umræða væri hættuleg vegna þess að hún gæti orðið til þess að lánshæfismat fyrirtækja lækkaði matið á Íslandi. Þessi fyrirtæki hafa því miður reyndar orðið fyrir töluverðum álitshnekki því að þau spáðu alltaf rangt fyrir um stöðu fyrirtækja og ríkja fyrir upphaf fjármálakrísunnar en hvað um það. Það getur skipt máli að lánshæfismatið sé í lagi varðandi lánakjör. Hverjar eru forsendur þess að lánshæfi ríkja sé metið viðunandi? Hvað er nr. 1, 2 og 3 í þeim efnum? Það er að ríkið sé ekki of skuldsett og allra síst mega ríki skuldsetja sig um of í erlendri mynt. Að halda því fram að aukin skuldsetning muni styrkja lánshæfismatið er álíka fáránlegt og fullyrðingarnar um styrkingu gjaldmiðilsins sem nú hafa verið slegnar út af borðinu af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabankanum. Engu að síður leyfa menn sér að koma hingað upp og halda þessu fram, jafnvel núna eftir að lánshæfismatsfyrirtækið Fitch, sem oftast hefur verið vitnað í því þeir hafa verið furðu viljugir til að tjá sig við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, hefur staðfest óbreytt lánshæfismat. Þetta fór fyrir brjóstið á hæstv. viðskiptaráðherra sem kvartaði undan því að þetta fyrirtæki hefði ekki ætlað að staðfesta lánshæfismatið fyrr en búið væri að ganga frá Icesave. Þarna var sem sagt að mati hæstv. viðskiptaráðherra verið að skemma síðasta hálmstráið, síðustu rökin fyrir því að það yrði að afgreiða þetta Icesave-frumvarp sem voru að ella mundum við ekki fá óbreytt lánshæfismat heldur yrðum felld um flokk.

Þá hafa stjórnarliðar haldið því fram í 3. umr., og enn einu sinni koma menn með gömul rök sem fyrir löngu hefur verið svarað, að við þurfum að fallast á þessar Icesave-skuldbindingar, gera nákvæmlega þessa samninga að skuldbindingum til að geta fengið lán annars staðar frá. Við þurfum sem sé, eins og bankarnir gerðu á sínum tíma, að auka skuldirnar enn þá meira til að geta haldið áfram að velta vandanum á undan okkur og tekið enn meiri lán annars staðar. Nú liggur fyrir að það var ekki rétt sem stjórnarliðar fullyrtu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi ekki hefja aðra endurskoðun á stöðu Íslands og Norðurlöndin mundu ekki afgreiða til okkar lán, eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ef við kláruðum ekki Icesave nákvæmlega eins og Bretar og Hollendingar ætluðust til, vegna þess að það er búið að afgreiða lánin. Það strandar bara á því að Íslendingar fari fram á meiri greiðslu. Raunar eru Norðurlöndin búin að veita vilyrði fyrir greiðslu lánanna en Seðlabankinn ekki búinn að draga á lánin nema að nokkru leyti.

Þegar þessi rök eru öll farin út um gluggann fara menn út í óljósari hræðsluáróður eins og að lýsa því einfaldlega yfir að það að samþykkja ekki þessa samninga eins og Bretar og Hollendingar vilja skapi svo mikla óvissu. Þetta er furðuleg röksemdafærsla. Að menn eigi að láta allt yfir sig ganga vegna þess að jafnvel þótt þeir tapi öllu og verði við öllum kröfum gagnaðilanna sé það þó skárra en sú óvissa sem felist í því að fara fram á réttláta málsmeðferð. Vandinn er hins vegar sá að þessir samningar eins og þeir liggja fyrir skapa gífurlega óvissu í stað þess að eyða henni. Það liggur ekkert fyrir um hversu mikið verður greitt eða hvað kemur upp í þrotabú Landsbankans. Það liggur ekkert fyrir um hversu lengi þetta stendur og hvernig gjaldmiðillinn þróast. Reyndar vitum við að hann helst veikur en hversu veikur vitum við ekki. Áhættan er gríðarlega mikil og óvissan eykst við að ganga frá þessum samningum, rétt eins og það að ganga frá þessum Icesave-samningum felur ekki í sér að rutt sé úr vegi hindrun fyrir endurreisn efnahagslífsins. Þvert á móti er verið að festa í sessi hindrun sem kemur í veg fyrir að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Bara þetta eitt sem ég nefndi áðan með gjaldmiðilinn og þróun hans er nóg til að festa í sessi skuldir nánast allra íslenskra fyrirtækja því þau eru meira og minna skuldsett í erlendri mynt, sem og stórs hluta íslenskra heimila sem eru með erlend lán. Reyndar líklega einnig allra íslenskra skuldsettra heimila vegna þess að lágt gengi krónunnar ýtir undir verðbólgu og við vitum öll hvaða áhrif það hefur á verðtryggð lán landsmanna. Þarna er því verið að festa í sessi meginhindrunina fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs sem er skuldsetningin. Þetta er skuldakreppa og það er ekki aðeins verið að taka óhemju há lán sem menn vita ekki hvernig þeir ætla að borga til baka heldur líka að festa í sessi og jafnvel auka enn við þau lán sem hér eru fyrir vegna þess að gengið helst veikt. Það þarf ekki mín orð fyrir því, það er nóg að hlusta á það sem meira að segja Seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þeir sem ríkisstjórnin byggir mál sitt á, segja sjálfir.

Ef þessi óljósi hræðsluáróður dugar ekki til, hvað er þá eftir? Jú, líklega það sem þessi ríkisstjórn hefur sérhæft sig í sem eru frasarnir. Innihaldslausu frasarnir eins og frasi nr. 1 — ég held að þetta hljóti að vera aðalfrasi ríkisstjórnarinnar í þessu máli og öðrum — að við verðum að klára þetta á þann hátt sem Bretar og Hollendingar vilja til að ná sátt við alþjóðasamfélagið. Þetta er fráleit fullyrðing. Að halda því fram að menn eigi að láta hvað sem er yfir sig ganga og ekki einu sinni að leita réttar síns, ekki einu sinni að biðja um að samið sé á sanngjörnum nótum, því nú liggur fyrir í mati breskra lögfræðinga að þetta er óhemju ósanngjarn samningur. Ef menn láti svo lítið sem biðja um að samið sé um það á sanngjörnum nótum séu þeir á einhvern hátt að segja sig úr alþjóðasamfélaginu, og iðulega er talað um alþjóðasamfélagið eins og það sé með stóru a-i. Alþjóðasamfélagið er, ætla ég að vona, samfélag ríkja sem flest, alla vega ráðandi ríkin, vilja að leikreglurnar séu skýrar, það sé farið eftir lögum og reglum og diplómatískum leiðum. Enda er mjög erfitt að skýra þennan málflutning ríkisstjórnarinnar fyrir útlendingum. Það er sama hvort maður hittir erlenda stjórnmálamenn, blaðamenn og ég tala ekki um lögfræðinga. Þetta hljómar fáránlega þegar maður reynir að útskýra fyrir þeim að ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld vilji fallast á þennan afleita samning, sem allir geta verið sammála um að sé afleitur, sé einhvers konar ótti við alþjóðasamfélagið, að þá verði okkur refsað. Hvernig urðu menn svona litlir í sér?

Til gamans fletti ég upp — ekki bara til gamans heldur líka af nauðsyn í þessu máli — gömlum deilum af landhelgisdeilunni, þorskastríðinu sem stundum hefur verið sett í samhengi við þetta mál. Það voru ekki alltaf allir sammála um það mál í íslenskri pólitík. Kratarnir hótuðu að sprengja stjórnina árið 1958 þegar Framsóknarflokkurinn vildi segja upp samningi við Breta frá 1901 og hefja það sem síðar urðu þorskastríðin. Kratarnir hótuðu að sprengja þá stjórn. Hvers vegna? Vegna þess að þeir vildu umfram allt vera í náðinni hjá alþjóðasamfélaginu. Þeir sögðu: Hvað ef sett verður löndunarbann, hvað ef þetta og hitt gerist? Við getum ekki tekið þá áhættu, sögðu þeir. Ef kratar hefðu farið með völd á þeim tíma og síðar væru Bretar, Hollendingar, Spánverjar og fleiri þjóðir að veiða inni í öllum fjörðum vegna þess að menn vildu ekki standa á rétti sínum.

Staða okkar í þessu máli er hins vegar miklu sterkari. Áður vorum við hugsanlega að krefjast einhvers sem ekki var augljóslega réttur okkar en hér er ekki verið að biðja um annað en að við verjum, eða a.m.k. bendum á, lagalegan rétt okkar í málinu í stað þess að takast á herðar óhemju miklar skuldbindingar fyrir hönd framtíðarkynslóða Íslendinga. Skuldbindingar sem urðu slíkar að bara vextirnir, sem alltaf munu lenda á Íslendingum sama hvað kemur upp í þrotabú Landsbankans, eru yfir 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. Það þýðir niðurskurð upp á meira en 100 millj. á dag, ár eftir ár eftir ár, miðað við það sem ella hefði verið. Er ekki þess virði að berjast til að koma í veg fyrir slíkt?



[16:21]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mér leikur forvitni á að vita hvað þingmaðurinn leggur til að við gerum. Er hann þeirrar skoðunar að leita beri dómstólaleiðarinnar í þessu máli? Við erum sammála um að þetta er ekki skemmtilegt mál. Það er ekki gaman fyrir okkur að takast á við þessar eftirhreytur af hruninu sem við hvorugur tókum þátt í. Við vorum ekki á þingi þegar það helltist yfir okkur. En nú spyr ég hv. þingmann: Hvaða leið leggur hann til að við förum? Er það dómstólaleiðin, að við tökum þá áhættu að þurfa að standa skil á allri innstæðunni eða um 600–700 milljörðum til viðbótar? Telur hann, eins og mér heyrðist á einhverjum fulltrúum í hans flokki, að leita beri leiða til að setjast niður á ný með ESB? Það er reyndar athyglisvert að þingmenn Framsóknarflokksins virðast hafa ofurtrú á ESB, ég veit ekki betur en þeir séu flestir á móti því sambandi.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ýjaði að því í ræðu sinni fyrr í dag að höfnun Icesave fæli frá erlenda fjárfestingu og viðhaldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis og að samþykkt Icesave feli í sér skammtímaábata. Er hv. þingmaður sammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni í þessu mati á því hvaða afleiðingar Icesave-samkomulagið hefur?



[16:23]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi verið búinn að útskýra það áðan, í andsvari við hv. þm. Magnús Orra Schram, að í þessu fælist alger útúrsnúningur á orðum hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar svo að ég ætla ekki að reyna að greina það nánar.

Þessi spurning kemur iðulega upp: Ef þið viljið ekki fallast á þennan samning eins og Bretar og Hollendingar vilja hafa hann, hvað viljið þið þá gera? Þetta er mjög undarleg spurning. Við skulum líkja ríkisstjórninni við heimilisföður eða móður sem tæki á móti einhverjum fanti eða níðingi sem ætlaði að reka fjölskylduna út af heimili sínu og krefðist þess að fá húsið, fá eignir fjölskyldunnar af einhverjum óskilgreindum ástæðum, hann teldi sig eiga eitthvað inni hjá þeim. Viðbrögðin hjá heimilisföðurnum væru þá þau: Já, ætli ég verði ekki að fallast á þetta? Hvað annað get ég gert? Ef ég á ekki að fallast á þetta ætlar þá einhver að segja mér hvað ég á að gera?

Hér er verið að koma með kröfur á hendur Íslendingum. Það er alltaf verið að snúa dæminu við. Bretar og Hollendingar eru að koma með ósanngjarnar kröfur. Ekki bara ósanngjarnar heldur kröfur á hendur Íslendingum sem ekki er lagaleg stoð fyrir. Hvernig er þá alltaf hægt að koma með spurninguna: Ef þið viljið ekki ganga að þessum kröfum hvað viljið þið þá gera? Þetta er mjög einfalt mál. Jú, við erum tilbúin til þess, eins og lýst var yfir á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar á sínum tíma, að gefa Evrópusambandinu séns á að hafa milligöngu í málinu enda byggist það á gölluðu evrópsku regluverki eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur m.a.s. lýst. En gangi það ekki, sé ekki hægt, fyrir milligöngu þess sambands sem samdi reglurnar, að ná samningum þá stefna Bretar og Hollendingar þrotabúi Landsbankans, eða réttara sagt innstæðutryggingarsjóðnum, fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur úti við Lækjartorg.



[16:25]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið vil ég leggja á það áherslu að mitt mat er að þjóðirnar þrjár, Holland, Bretland og Ísland, hafi komist að samkomulagi um þennan samning eins og hann lítur út. Þetta er ekki einhliða ákvörðun af hálfu Breta og Hollendinga. Í því ljósi vil ég t.d. tiltaka hvernig fyrirvararnir líta út í núverandi samningi. Mér finnst það hálfankannaleg leið að freista þess að setjast að samningaborðinu aftur og ef það gengur ekki bíða þá eftir því að höfðað verið mál fyrir íslenskum dómstólum. Þá um leið eigum við það á hættu að auka á skuldabyrði íslensku þjóðarinnar um 600–700 milljarða til viðbótar og þá áhættu vil ég ekki taka.

Það er mikilvægara að við reynum að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik. Það veltur allt á því að við náum að ljúka Icesave-málinu sem allra fyrst til að við náum hjólum atvinnulífsins í gang á ný og náum þar með að breikka skattstofna eins og sjálfstæðismenn hafa rætt um, að við náum að styrkja stöðu fyrirtækja okkar, opinberra sem einkarekinna, því að efnahagslegar afleiðingar yrðu miklu verri af því að fresta endurreisninni um eitthvert árabil eins og Framsóknarflokkurinn leggur til.



[16:26]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég útskýrði í ræðu minni felur samþykkt Icesave-frumvarpsins í sér stöðnun, það felur í sér hindrun fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs og það nægir að nefna eitt atriði sem er það að það viðheldur lágu gengi krónunnar sem er grunnforsenda þess — hvort sem menn ætla að taka upp evru eða ekki, einhliða eða með inngöngu í Evrópusambandið. Það breytir ekki því að það verður að styrkja gengi gjaldmiðilsins og þessi samningur tryggir það að gjaldmiðillinn helst veikur þannig að bæði aukast þá skuldirnar, beinar skuldir og eins þær skuldir sem fyrir eru. En það mætti nefna fjölmörg önnur atriði því til útskýringar hvers vegna þetta kemur í veg fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs í stað þess að flýta fyrir henni á einhvern hátt.

Eitt eru gjaldeyrishöftin. Ég hef heyrt nokkra stjórnarliða nefna það hér, sem rök fyrir því að samþykkja ætti þetta Icesave-frumvarp, að þá væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin. Þeir sömu stjórnarliðar ættu kannski að tala við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fá þá til að útskýra það sem þeir útskýrðu fyrir þingflokki framsóknarmanna, að hægt væri að borga þessar Icesave-kröfur. Hvernig? Jú, með því að flytja mjög lítið inn og mjög lítið út og viðhalda gjaldeyrishöftunum lengur en menn áætluðu. Þannig að ef menn ganga frá þessu frumvarpi og samþykkja það eru þeir ekki að losa um gjaldeyrishöftin. Nei, þeir eru að tryggja að þau þurfa að vara lengur en áætlað var. Svo leyfa menn sér að koma hingað upp með einhverja innihaldslausa frasa um alþjóðasamfélagið eða þá algerar þversagnir eins og þá að það að auka verulega skuldir ríkis sem stendur frammi fyrir skuldakreppu muni á einhvern hátt auðvelda endurreisn efnahagslífsins.



[16:28]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hér í seinni ræðu minni í 3. umr. og verða þetta því lokaorð mín, alla vega í umræðunni. En ég á sjálfsagt eftir að taka til máls á morgun með atkvæðaskýringar, svo stórt er þetta mál. Svo dæmalaus samningur liggur hér fyrir undir dæmalaust einkennilegri verkstjórn og dæmalaust einkennilegum vinnubrögðum.

Mörg orð hafa fallið. Menn hafa verið mismunandi bjartsýnir og leyfi ég mér fyrst að vitna í hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði í sjónvarpsviðtali í mars, með leyfi forseta:

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi, og hans fólk, glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.“

Þannig var þetta. Þetta var sagt í mars og þetta kom hæstv. fjármálaráðherra með heim til landsins og ætlaði að láta þingið samþykkja Icesave-samningana óséða. Nú eru þrír dagar eftir af þessu ári. Við erum enn að ræða Icesave og þetta fólk er enn við stjórnvölinn og það er enn með verkstjórnina eins óhuggulegt og það er að hugsa til þess.

Notaðar hafa verið ýmsar ástæður gegn því að við eigum að samþykkja þessa samninga. Mikið hefur verið um sjónhverfingar, mikið hefur verið um efnislegar útskýringar. Mig langar að grípa niður í viðtal sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason veitti Ríkisútvarpinu þann 18. október 2009 en ég minni á að hann er formaður Heimssýnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar segir: „Ásmundur segir að afsögn Ögmundar Jónassonar sem heilbrigðisráðherra hafi sérstaklega styrkt stöðu Íslands í samningaviðræðunum.“ — Þetta var eitt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson var rekinn úr ríkisstjórninni, hann sagði frá því sjálfur svo að það sé á hreinu. Það var ekki til að styrkja samningsstöðu Íslands í Icesave-samningunum að hann sté úr ríkisstjórn. Þetta hefur komið fram, þetta var t.d. eitt af því sem var komið af stað og var forritað í þingmenn stjórnarflokkanna á góðum morgni með þumalskrúfum.

Svo að ég vitni aftur í hv. þm. Ásmund Einar Daðason í þingræðu 8. nóvember. Þar var hann í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Síðan hóta Bretar og Hollendingar því með Evrópusambandið sér við hlið og í skugga Evrópusambandsins að stöðva afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þannig að í mínum huga eru klár og hrein og skýr tengsl Evrópusambandsins við Icesave-málið með þessum hætti.“

Svo mörg voru þau orð. Við skulum átta okkur á því að það eru hrein og klár tengsl þarna á milli, enda tek ég undir hvert einasta orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar í þessari ræðu.

Mig langar að fara aðeins inn á það að ýmislegt virðist benda til að einhvers misskilnings gæti með einhverja fyrirvara. Ég ætla að minna hv. þingmenn á það, eins og ég þurfti að minna hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á áðan, að fyrirvararnir og þessi 2. mgr. 1. gr. kom því fyrst og fremst inn í lögin að Bretar og Hollendingar þyrftu að samþykkja þessi skilyrði og þá fyrirvara sem við settum inn til að Bretar og Hollendingar mundu líta á það sem hluta af samningnum því að við stjórnarandstöðuþingmenn vorum svo hræddir um það í sumar að Bretar og Hollendingar mundu hirða ríkisábyrgðina og skilja fyrirvarana eftir fyrir utan og segja: Þetta er ekki inni í Icesave-samningunum þess vegna gilda fyrirvararnir ekki fyrir breskum rétti. Þannig er það til komið en ekki með þeim hætti að það hafi ekki orðið lagasetning eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fullyrti í ræðu áðan enda eru þau frumvörp sem nú liggja fyrir breyting á lögum nr. 96/2009.

Engin ríkisstjórn má afsala þjóð sinni dómstólaréttindum og lagasetningarvaldinu. Það hefur þessi ríkisstjórn nú gert. Ég vísa allri ábyrgð á Icesave-málinu yfir á vinstri velferðarríkisstjórnina. Skömm þeirra er mikil og á eftir að fylgja þeim út lífið. Ég hef barist með íslensku þjóðinni í þessu máli en 70% hennar eru á móti Icesave-samningnum. Það er ekki hægt að tala um sátt með þessum samningi. Ég trúi á íslenska þjóð. Þjóðin á að njóta vafans í þessu máli. Ég segi nei við Icesave. Ég segi nei, nei, nei. Það er ekki hægt að leggja þetta á komandi kynslóðir.



[16:34]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn ber höfðinu við steininn. Það er sérkennilegt á þessum tímum, á jólahátíðinni þegar menn hafa oft haft gaman af því að lifa sig inn í andrúm Grýlu og Leppalúða og þeirrar fjölskyldu, fulltrúanna úr björgum landsins, en þegar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru gengnir í þessi hlutverk er það ekki lengur skemmtilegt. Það drullumall sem á sér stað hjá hæstv. ríkisstjórn í því er lýtur að Icesave-samningunum er skelfilegt og lítið kræsilegt. Erum við hæstv. utanríkisráðherra þó ýmsu vanir í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Þessi vegferð ríkisstjórnar Íslands í dag minnir á Jón andskota. Jón andskoti var síðutogarakarl á miðri síðustu öld, frægur togarajaxl, sérlega lágvaxinn, kjarnyrtur, beinskeyttur og skemmtilegur. (Utanrrh.: Það er ekki leiðum að líkjast.) Hann lenti í — og nú kem ég að því hvað er líkt með vegferð hans og ríkisstjórnarinnar — einstaklega löngum túr á einum síðutogaranum, þriggja mánaða túr. Hann hlakkaði mikið til að koma í land og halda upp á það með vinum og félögum á góðum stundum. Hann komst að bryggju, fékk tollinn um borð, freistaðist til að opna tollinn og á leiðinni upp bryggjuna komu vinir hans til liðs við hann og þetta endaði með því að Jón andskoti fór aldrei lengra frá borði en upp á bryggjuna og yfir í næsta togara. Það var óviljandi, en sá togari var að fara í þriggja mánaða túr. Hann grét fyrstu dagana um borð en bar sig svo vel. Þannig hefur þessi ríkisstjórn verið í Icesave-málinu á þessu ári. Fyrst fóru þrír mánuðir á Alþingi í að lagfæra þá skelfilegu samninga sem ríkisstjórnin hafði skrifað undir, síðan kom stutt hlé og aftur fór ríkisstjórnin í þriggja mánaða túr. Það hefur ekkert skeð á þessari leið, ekkert, heldur farið úrskeiðis og nú hallar undan fæti. Það eru einföld, klár viðmið sem við búum við í dag í þessum efnum í þeim samningum sem hér er ætlast til að verði samþykktir. Þeir undirstrika að Íslendingar eigi að verða efnahagsleg nýlenduþjóð fyrir Breta og Hollendinga, efnahagsleg nýlenduþjóð fyrir þessar gömlu nýlenduþjóðir.

Icesave-samningurinn eins og hann er settur upp er gróðasamningur fyrir Breta og Hollendinga. Það er skelfilegt að Samfylkingin setur sig ekki inn í undirstöðuatriði Icesave-samninga, aðeins inn í sjónarmið og kröfur Breta og Hollendinga. Talsmenn Samfylkingarinnar kyngja öllu ljúflega í kurteisisskyni við Evrópusambandið sem er draumsýn þeirra í framtíðinni. Það er alveg ljóst að okkur ber engin skylda til þess, virðulegi forseti, að lúta kröfum Evrópusambandsþjóðanna, engin skylda, hvorki siðferðileg né lagaleg. Eina skyldan sem okkur ber að taka tillit til í þeim efnum er að þreyja þorrann eins og við getum með það kverkatak sem þessar þjóðir hafa á okkur og tengjast Icesave-samningunum.

Evrópusambandsþjóðirnar hafa rottað sig saman gegn Íslandi með valdníðslu og ofbeldi.

Virðulegi forseti. Frændur okkar og fyrrverandi vinir á Norðurlöndunum hafa tekið þátt í þessum leik. Það er leitt að geta ekki sagt framar: Kære brødre og venner. Það er farið fjandans til. Við verðum að treysta á okkur sjálf inn í framtíðina og eigum þó góða granna því að ekki skulum við gleyma Færeyingum, vinum okkar. Það hefur ekkert verið gert í leikreglum sem er eðlilegt að gera í þessum efnum út á við. Það hefur ekki verið þrýst á neinn hátt í alvöru á Evrópusambandið, NATO, Norðurlönd, öryggisráðið. Það er farið með slöku verklagi til að ganga frá samningum sem eru mjög alvarlegir fyrir íslenska þjóð. Vitlaust regluverk Evrópusambandsins bitnar verst á Íslendingum. Það er frávísunaratriði á þessum samningum sem hér eru lagðir til að þeir hunsa íslensk lög. Það er frávísunaratriði að þeir neita rétti íslenskra dómstóla. Krafa um ríkisábyrgð er lítilsvirðing og haustak á fámennri þjóð og það er kannski eitt það versta í þessu máli að það snýst ekki í sjálfu sér um peninga. Það snýst um þá lítilsvirðingu, þann hroka og þá skömm sem Evrópuþjóðirnar sýna Íslendingum, íslensku fólki, venjulegu fólki sem vinnur störfin sín á Íslandi um landið allt. Það er það sem særir mest og við eigum ekki að lúta þeim sem sýna okkar fólki lítilsvirðingu og dónaskap. Þeim mun hnarreistari eigum við að vera og þeim mun harðari eigum við að vera og óbilgjarnari í því verklagi sem við þurfum að beita til að ná árangri fyrir þetta fólk, fyrir okkar fólk.

Dómar um sambærileg mál eiga samkvæmt samningnum ekki að hafa nein gildi fyrir Íslendinga. Hvernig er talað um Íslendinga? Sem eitthvert pakk, einhverja afganga, ekki sem þjóð. Sígaunum í Mið-Evrópu er ekki einu sinni boðið upp á svona sem okkur er boðið upp á í Icesave-samningnum. Svo er fólk á Alþingi Íslendinga sem kvakar og fagnar þessu og heldur að það sé að gera einhverja skynsemi. Þetta er skelfilegt, virðulegi forseti.

Ég spyr: Eiga kúrekar Evrópusambandsins að ráða för án dóms og laga? Þeir eiga ekki að ráða för. Evrópusambandið er búið að toppa núna kúrekasamfélag Ameríku fyrr og síðar. Það byggðist þó á því að einn og einn skúrkur var tekinn og einstaklingar sem voru ýmist misgóðir eða misvondir, en Evrópusambandið tekur og fellir þjóð, það reynir að fella heila þjóð þótt hún sé ekki fjölmenn.

Við erum að agnúast út í ýmsar þjóðir og þjóðflokka í Afríku þar sem gengið er að fólki og það fellt. Hvað er Evrópusambandið að gera með vörn sinni og skjóli fyrir Breta og Hollendinga annað en að fella Íslendinga? Það þýðir ekkert að setja upp brusselskan sparisvip og gáfusvip eða heimspekisvip því að þetta er spurning um það að lifa af eins og maður, ekki eins og undirsáti nýlenduþjóða í Evrópu.

Sýknt og heilagt er ruglað saman tímasetningum, stöðu mála, samningsmarkmiðunum 2008 þegar stjórnvöld urðu að grípa til aðgerða undir ógnvekjandi pressu þar sem heimurinn hrundi hreinlega ofan á Ísland og reyndar einnig fleiri lönd. Þar voru vissulega gerð mistök og það er engin ástæða til að verja það, en það er ekki nema ár síðan menn töluðu til að mynda um að það sem gæti staðið út af fyrir Ísland væri 75 til á annað hundrað milljarðar. Það er mikill munur á því sem staðreyndin er í dag og því sem þessir samningar gefa í skyn, gróðasamningar Breta og Hollendinga þar sem þeir ætla að græða á Íslandi eins og danski kóngurinn græddi um aldir á Íslandi. Þá voru ákveðin svæði við Ísland kölluð gullkista Íslands af því að þau gáfu svo mikið af sér. Lyktin leynir sér ekki þegar Evrópuþjóðirnar stilla upp græðgi sinni gagnvart smærri þjóðum.

Möguleikarnir voru stórkostlegir með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar fyrr á þessu ári vegna þess að þá losnaði um ákveðin atriði sem voru deiluatriði og tilheyrðu fyrrahausti, haustinu 2008. Þetta hefur fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar dregið mjög ljóst fram, ljósar en allir aðrir stjórnmálamenn á þessu tímabili. Í bréfi til utanríkismálanefndar 18. desember sl. fjallaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um þaninn streng stjórnvalda í Evrópu frá haustinu 2008 vegna ótta við óróann á fjármálamörkuðum og áhlaup á evrópska banka þar sem hvert land fyrir sig varði sinn eigin rass fyrir mistökunum sem voru í regluverki Evrópusambandsins. Með tilvitnun í bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá 18. desember sl. sagði hún, með leyfi forseta:

„Rétt er hins vegar að taka fram að þó að hin sameiginlegu viðmið feli í sér pólitíska skuldbindingu þá skuldbinda þau Ísland ekki með neinum hætti að þjóðarétti ef ný stjórnvöld vilja hafa þau að engu.“

Hún kvað m.a.s. fastar að orði en fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde. Þetta segir alla söguna í hnotskurn. Þetta segir að sífelldur flótti hæstv. fjármálaráðherra Steingríms Sigfússonar undir pilsfald þessarar samningsgjörðar er ekki á rökum reistur. Áform um að ganga til samninga er eitt, annað er að ganga til samninga og ljúka þeim. Þar getur nótt snúist í dag og norður í suður ef því er að skipta.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði á þingi laust fyrir kvöldmat í gær að við hefðum gengið inn á þá skilmála sem samþykktir höfðu verið. Það voru engir skilmálar samþykktir, það er ekki bara rangt, það er lygi, virðulegi forseti. Ef ráðherra kvartaði yfir stöðunni fyrir hönd Breta og Hollendinga var hann málsvari þeirra en ekki íslenskrar þjóðar. Það er sorglegt að þessir gömlu baráttujaxlar Íslands, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, eru núna (Forseti hringir.) eins og ljósrit af dúkkulísum í þeirri baráttu sem við eigum að standa í, (Forseti hringir.) ljósrit af dúkkulísum, (Forseti hringir.) og er þá heldur meira lagt í en ástæða er til, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.



[16:49]Útbýting:

[16:50]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum nú áfram umræðu um Icesave-málið og Icesave-skilmálana ógurlegu sem ríkisstjórn Íslands hefur fallist á og því miður afbakað þau lög sem eru í gildi í landinu og voru samþykkt með þverpólitískri sátt, vil ég segja, í sumar. Við erum komin inn í 3. umr. og ég hef hlustað með athygli á athugasemdir, andsvör og ræður, furðulegar ræður oft og tíðum, frá ráðherrum í ríkisstjórn þar sem þeir minnast ekki einu orði á þau gögn sem hafa komið fram og nýjar upplýsingar sem rökstyðja þær fullyrðingar sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum sett fram í allri umræðu okkar.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um að einn fundur sé í gangi í þingsal í einu, gefa ræðumanni hljóð.)

Ég þakka, herra forseti. Öll þau gögn sem hafa komið fram, óþægileg gögn greinilega, pólitísk gögn, henta ekki þeim veruleika sem blasir við okkur og ímyndarheimi ríkisstjórnarinnar. Í ræðu hæstv. ráðherra er ekki minnst einu orði á gögn sem hafa komið skýrt fram í skýrslu Mishcon de Reya, á álit þeirrar lögmannsstofu, álit fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og formanns Samfylkingarinnar, hvað þá sumra þingmanna í stjórnarmeirihlutanum. Einhverra hluta vegna er ekki minnst á þetta. Það kemur ekki á óvart því að fjármálaráðherra hefur reynt að lítillækka bresku lögmannsstofuna og 75 ára sögu hennar og talað niður til hennar, því að orð hennar og álit henta ekki málflutningi ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur verið minnst á bréf fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar til fjárlaganefndar.

Við erum komin að þessum ákveðnu tímamótum og gerum okkur grein fyrir því að á morgun verður atkvæðagreiðsla um þetta mál, um Icesave. Enn sem komið er er ekki alveg ljóst hvernig sú atkvæðagreiðsla fer. Mér segir þó svo hugur um að stjórnin sé búin að tryggja sér meiri hluta. Við þá þingmenn sem enn eru að velta þessu máli fyrir sér og eru ríkisstjórnarmegin, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, hv. þm. Ásmund Einar Daðason og hv. þm. Atla Gíslason, sem reyndar mun ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni á morgun, vil ég hins vegar segja: Hugsið þetta stærra en svo að þetta snúist um flokkspólitíska hagsmuni. Þetta snýst ekki um vinstri eða hægri. Þetta snýst ekki um stjórn eða stjórnarandstöðu og það hefur verið ítrekað í stjórnarandstöðunni en aldrei fengist undirtektir við því að lyfta sér yfir þær skotgrafir sem allir flokkar hafa oft og tíðum fallið í og nálgast málið þverpólitískt. Ég vil segja við þessa þrjá hv. þingmenn sem ég nefndi áðan, Ásmund Einar Daðason, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Atla Gíslason, að stjórnarandstaðan hefur ekki það markmið að koma ríkisstjórninni frá í þessu máli. Þetta mál er allt of stórt til þess að við getum leyft okkur að nálgast það með þeim hætti. Ég fékk bágt fyrir að tala um það með ákveðnum hætti að ríkisstjórnin væri fullfær um að koma sér frá sjálf og þyrfti ekki hjálp frá okkur í stjórnarandstöðunni til þess. En þetta mál er of stórt til að við getum nálgast það með þeim hætti eins og ríkisstjórnin og meiri hlutinn hafa gert, eins og ekkert hafi breyst og engin gögn komið fram sem undirstriki málflutning okkar í þessu öllu saman.

Við í Sjálfstæðisflokknum fengum um tíma í sumar bágt fyrir að nálgast málið einmitt með þessum hætti, reyna að fara inn í það og breyta því ömurlega máli sem átti að dylja þingið í byrjun júní. Við skulum muna að ekki átti að segja þinginu frá samningnum eins og málum var þá háttað. Það átti ekki að greina okkur frá því hvernig í málinu lægi. Við sjálfstæðismenn fórum í málið og nálguðumst það með það að sjónarmiði að gera það eins þolanlegt og hægt væri fyrir íslenska þjóð og íslenska hagsmuni til lengri tíma litið og gerðum það. Við fórum í þann leiðangur og okkar fólk í fjárlaganefnd stóð sig með eindæmum vel. Maður hefði einmitt haldið að eftir þau, að því er sumir sögðu, sögulegu vinnubrögð hefði ríkisstjórnin sem hefur verkstjórnina í þessu máli — við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur verkstjórnina og á að hafa kraft til að leiða mál til lykta á alþjóðavettvangi. En ríkisstjórnin greip ekki það sögulega tækifæri að halda áfram með málið á grundvelli löggjafarvaldsins í sumar, ekki á grundvelli framkvæmdarvaldsins. Forustumenn Samfylkingar og forustumenn Vinstri grænna komu ekki til forustumanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingar og sögðu: Kæru vinir. Nú skuluð þið koma með okkur í leiðangur til Hollands og Bretlands. Þið skuluð axla ábyrgð með okkur og sýna þann kraft og þá eindrægni sem ríkir hér í sölum Alþingis við það að breyta þessu máli og standa við þau lög sem við samþykktum í lok sumars. Það var ekki gert og ég átel sérstaklega þau vinnubrögð því vinnubrögð og verklag þessarar ríkisstjórnar hafa stuðlað að því að við stöndum frammi fyrir jafnömurlegu samkomulagi og raun ber vitni. Það er ekki hlustað á neitt og einstrengingsháttur, kergja, þrjóska og óbilgirni hafa leitt til þess að við erum komin í þá stöðu að þurfa að greiða atkvæði á morgun um þetta mál. Og það er ekki kominn tími til þess. Við höfum heyrt það alveg frá fyrri hluta síðasta árs að allt mundi fara í bál og brand ef við samþykktum ekki málið á stundinni. Það hefur sýnt sig að við höfum enn tíma og ég sé enn þá ljóstýru að menn sjái að sér á þeim fáeinu klukkustundum sem eru fram að atkvæðagreiðslunni á morgun, að ríkisstjórnin sjái að sér og leiði alla stjórnmálaflokkana saman til að leiða þetta mál til lykta á þeim grundvelli sem við samþykktum í sumar. Síðan kemur hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum hér upp í pontu og reynir að segja okkur það að fyrirvararnir frá því í sumar séu einhvers staðar faldir neðanmáls, einhvers staðar aftan við í því máli sem við erum að tala um. Það er rangt og það er margsýnt fram á að svo er ekki. Menn reyna líka að segja að ekki sé hægt að breyta neinu, það sé ekki hægt að ná neinu frekar fram. Það er rangt að mínu mati.

Við skulum ímynda okkur að við séum stödd í hinu pólitíska landslagi í Hollandi eða Bretlandi. Þar er skiljanlegur þrýstingur af hálfu almennings og ríkisstjórnar að leiða þetta mál til lykta. En ég fullyrði að hvorki Bretar né Hollendingar og þá er ég ekki að tala um stjórnmálamennina heldur almenning sem veitir stjórnmálamönnum í þeim löndum aðhald, ég fullyrði að almenningur í þeim löndum er ekki að fara fram á það að Hollendingar og Bretar traðki á okkur Íslendingum eins og þeir eru í raun að gera, þeir svínbeygja okkur þegar kemur að vöxtum, greiðslum á samkomulaginu öllu til lengri tíma litið, að það verði sett hér ríkisábyrgð með þeim hætti að við verðum föst í skuldaklafa til næstu ára og áratuga. Almenningur í Hollandi og Bretlandi fer ekki fram á þetta samkomulag sem við stöndum frammi fyrir. Þeir vilja sanngjarna lausn, ekki þá uppgjöf sem íslensk stjórnvöld, Icesave-stjórnin, hefur fallist á. Þessi stjórn verður kölluð Icesave-stjórnin og hún ber fulla ábyrgð á því samkomulagi sem við erum að ræða um hér, fulla ábyrgð og það þýðir ekki að fara með málið eins og menn séu í borðtennis og reyna að kenna fyrri ríkisstjórn um. Það er alveg ljóst.

Fyrri ríkisstjórn gerði mörg mistök. Ég hef margoft sagt það hér en menn þurfa líka horfast í augu við þann veruleika sem til staðar er og það sem fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa skrifað til að draga fram þann veruleika sem þáverandi ríkisstjórn stóð frammi fyrir. Það er eins og ríkisstjórnin núna, vinstri stjórnin, Icesave-stjórnin haldi að hún sé enn í þeirri spennitreyju sem við vorum í á þeim tíma. Það er ekki þannig. Við höfum tíma til að fara betur yfir þetta mál, sýna þverpólitískan vilja og samstöðu til að ná fram þeim hagsmunum sem skipta okkur Íslendinga máli, með því að tala máli okkar á erlendri grundu. Það hefur margoft komið fram að lyftusamtöl utanríkisráðherra Íslands duga ekki til að skila þessu máli áfram fyrir okkur. Ég veit ekki hversu oft hæstv. forsætisráðherra hefur talað við kollega sína. Ég held aldrei. Ég held að hún hafi miklu frekar skrifast á við þá, sem hún hefði hugsanlega betur ekki gert, því ákveðinn undirlægjuháttur er í öllum þeim bréfaskrifum. En gott og vel. Við í stjórnarandstöðunni höfum sýnt það aftur og aftur að við erum reiðubúin til að taka þátt í þessum leiðangri, en ekki til að fella stjórnina. Af hverju segi ég þetta ítrekað? Ég segi þetta ítrekað af því að við þingmenn vitum það og skynjum það andrúmsloft sem er verið að skapa gagnvart þeim þingmönnum í stjórnarmeirihlutanum sem eru undir þrýstingi um að segja já á morgun, ýta á græna takkann þannig að Íslandi verði allt að óhamingju. Ég vil segja við þessa þingmenn og ítreka það: Þetta mál snýst ekki um það að koma þessari vinstri stjórn frá, við höfum mörg önnur mál til að taka í lurginn á henni. Þetta mál er of stórt til þess að við leyfum okkur að hugsa með þeim hætti.

Herra forseti, ég vil undirstrika að ástandið er með öðrum hætti en fyrir rúmu ári síðan. Ég vil ítreka það að við ræðum um langtímahagsmuni þjóðarinnar. Menn hafa sagt það hér, m.a. hv. þm. Magnús Orri Schram sem virðist vera helsti talsmaður stjórnarmeirihlutans þegar kemur að því að verja þetta mál, að verið sé að klára þetta mál til að endurreisn Íslands geti hafist. Það er kjaftæði. Það er algert kjaftæði. Nú á síðustu vikum hefur atburðarásin sýnt að við höfum fengið opnaðar lánalínur og haldið uppi þeim samskiptum sem við höfum þurft á að halda til að koma viðskiptum okkar af stað. Aðrir þættir draga úr því að endurreisn Íslands geti hafist af meiri krafti en raun ber vitni. Ég þarf ekki að fara frekar út í þá sálma en ég nefni meðal annars ömurlega skattapólitík, atvinnumálapólitík ríkisstjórnarinnar sem heftir landið en ýtir því ekki af stað.

Ég vil undirstrika það sem hefur komið mjög skýrt fram í ræðum bæði í dag og í gær að endurreisn Íslands hefst ekki með því að afgreiða þetta mál því að samningurinn byggir á því að gengi íslensku krónunnar verði lágt áfram og lækki jafnvel enn frekar ef miðað er við spá Seðlabanka Íslands. Er það veruleiki sem ríkisstjórn Íslands, vinstri stjórnin, Icesave-stjórnin ætlar að bjóða Íslendingum upp á? Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki talað meira um þá þætti samkomulagsins en raun ber vitni? Af því að allt það sem er óþægilegt og ömurlegt í þessu samkomulagi á að fela, ýta undir teppið eða vera með hálfsannleika um í þessari pontu. Það er þannig sem stjórnarmeirihlutinn hefur nálgast málið. Stór orð mundu ýmsir segja. Það má reyndar ekki anda á þessa ríkisstjórn með gagnrýni, því þá er allt svo óskaplega ósanngjarnt en þannig er nú bara einu sinni sá veruleiki að vera í ríkisstjórn, þá má maður ekki veigra sér við að fara ákveðin svipugöng, sérstaklega ekki þegar menn þurfa að heyra þá gagnrýni sem við höfum sett fram í málinu, en ríkisstjórnin hlustar ekki á hana.

Ég vil, herra forseti, vitna í Heimdall, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem sendi hv. þingmönnum opið bréf og ítrekaði það sem við höfum bent á varðandi langtímahagsmuni þjóðarinnar. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við hvetjum þingmenn til að gera upp hug sinn út frá langtímahagsmunum þjóðarinnar en ekki óljósum hótunum um hitt og þetta. Íslenska þjóðin stendur nú frammi fyrir því að endurreisa íslenskt fjármála- og atvinnulíf og Icesave-málið er eitt af þeim viðfangsefnum sem þarf að ljúka. Afgreiðsla málsins má þó ekki íþyngja okkur til frambúðar heldur verður hún að vera viðráðanleg fyrir íslensku þjóðina. Þetta mál snýst ekki um að vinna pólitíska sigra heima fyrir heldur að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar komi saman allir sem einn á ögurstundu. Sú stund er runnin upp.“



[17:04]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég var búin að tilkynna það áðan að ég ætlaði ekki að tala meira í þessu máli en málið er það stórt að ég get ekki orða bundist. Þar sem þingmaðurinn er lögfræðimenntuð langar mig til að spyrja hana hvort hún hafi ekki kynnt sér grein eftir Magnús Inga Erlingsson í Morgunblaðinu í dag sem ber heitið „Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum“ þar sem hann fjallar um að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum samþykki hvorki íslenska né evrópska löggjöf og vegna þess að samkeppnislög Evrópusambandsins banna ríkisábyrgð á einstaka innstæðutryggingarsjóði, eins og kom svo margoft fram í máli mínu og fleiri í sumar.

Þess ber að geta að þessi greinarhöfundur er héraðsdómslögmaður og með meistarapróf í Evrópurétti þannig að hann ætti að vita hvað hann talar um. Það er spurning um það hvort þingmaðurinn vill aðeins tjá sig um þetta því að þetta er upphafið að Icesave-málinu, að okkur ber ekki lagaleg skylda til að standa í skilum með þetta.

Þar sem þingmaðurinn er varaformaður Sjálfstæðisflokksins langar mig til að spyrja einnig út í orð hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, þegar hann átti orðastað við mig í gær. Ég vissi að sjálfstæðismenn lögðu mikið af mörkum til að koma þeim fyrirvörum á koppinn sem fóru inn í lögin um ríkisábyrgð í sumar. Þá taldi hann, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust hef ég áður sagt í umræðunni að það var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust.“

Svo heldur hann áfram með þetta svar og upplýsir mig og þingheim um það í gær í þessu andsvari að hann hafi fengið tölvupósta aðfaranótt 28. ágúst, þegar lögin voru samþykkt hér, þar sem Bretar og Hollendingar töldu að þarna væri of langt gengið, að þingið hefði farið fram af brúninni og að (Forseti hringir.) Bretar og Hollendingar mundu ekki ganga að fyrirvörunum. (Forseti hringir.) Var ekki verið að blekkja bæði þing og þjóð?



[17:07]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Grein Magnúsar Inga Erlingssonar í dag er einmitt dæmi um það sem við höfum verið að segja. Þar koma fram endalaus sjónarmið, vel rökstudd sjónarmið, sem ýta undir þann málflutning sem við í stjórnarandstöðunni höfum haft uppi. En menn vilja ekki hlusta. Þetta er lögfræðingur hjá Seðlabankanum, hann skrifar þetta í eigin nafni, tekur það sérstaklega fram og ég spyr: Af hverju? Má hann ekki einu sinni skrifa að hann sé lögfræðingur Seðlabankans? Verður hann að taka það sérstaklega fram að hann skrifi þetta í eigin nafni? Af hverju?

Ég undirstrika það og tek undir með Magnúsi Inga Erlingssyni að þetta er það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt: Það hefur aldrei legið fyrir að við þurfum að samþykkja þessa ríkisábyrgð, aldrei, ekki samkvæmt evrópskum rétti og ekki samkvæmt íslenskum rétti, aldrei. En á þetta mátti ekki láta á reyna. Það má vel vera að það sé eins og sumir hafa verið að segja að við erum að taka á okkur samning án dóms og án laga í rauninni — án lagagrundvallar (Gripið fram í.) þangað til núna, án dóms og laga.

Við vitum, ef við förum yfir söguna, að síðasti Íslendingurinn sem var tekinn af lífi án dóms og laga, að mati Jóns Sigurðssonar, var Jón Arason, af því að hann leyfði sér að fara gegn almættinu í Danmörku. Við ætlum ekki að vera meðal einhverra síðustu Íslendinga, hæstv. utanríkisráðherra. Við ætlum að standa í lappirnar. Það er þess vegna sem ég ætla að fara yfir þau orðaskipti sem hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, átti við hv. þingmann í gær. Vinnubrögðin eftir sumarið voru til fyrirmyndar. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eftir sumarið voru ömurleg og þau eru að eyðileggja þetta mál. Þau áttu og höfðu það í hendi sér að benda á okkur í stjórnarandstöðunni, á forustumenn okkar, og segja: Komið þið með okkur. Axlið þið ábyrgð þverpólitískt. Við hefðum aldrei getað komist undan því að gera það, aldrei. Þetta mál átti að vinna áfram þverpólitískt. En nei, (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldið tók málið til sín og klúðraði því, algerlega, ömurlega.



[17:09]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að fara aðeins betur ofan í þá spurningu sem var nr. 2 hjá mér áðan þar sem þetta verður sett í samhengi. Sjálfstæðismenn komu mjög sterklega að gerð þessara fyrirvara og greiddu atkvæði sitt í góðri trú þann 28. ágúst þótt þeir hafi setið hjá gagnvart frumvarpinu í heild. Förum aðeins yfir þetta.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eins og aðrir þingmenn, unnu að þessum fyrirvörum og skilmálum í góðri trú. Það kom líka á daginn að það myndaðist þarna samstaða. Framsóknarflokkurinn ákvað að hafna þessu þá í atkvæðagreiðslunni. Það kom fram í svari hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í gær við andsvari hjá mér að þeir vissu þetta nóttina sem þetta gerðist að Bretar og Hollendingar mundu ekki samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Það var skilyrði samanber 2. mgr. 1. gr. laganna, eins og ég fór yfir áðan. Svo segir hann:

„Við vissum þetta nóttina sem þetta gerðist. Ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fór þetta yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma. Við tókum áhættuna. Ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað átti ég annað að gera?“

Þá spyr ég hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur: Eru þetta ekki svik við þá þingmenn sem unnu að þessum fyrirvörum? Er þetta ekki svik við alla þingmenn sem sátu á Alþingi, því að þarna var ríkisstjórnin vísvitandi að fara fram með mál sem hún vissi að væri fallið? Eru þetta ekki svik við þjóðina því að þarna, 28. ágúst í sumar, hefði ríkisstjórnin líka verið fallin? Hvað finnst hv. þingmanni um þessar splunkunýju upplýsingar sem hv. formaður fjárlaganefndar missti út úr sér í gær?



[17:11]
Forseti (Árni Þór Sigurðsson):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að samkvæmt 56. gr. þingskapa má í andsvari einungis beina andsvari að máli ræðumanns.



[17:11]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi einmitt verið að tengja spurningu sína mjög skilmerkilega við þær ræður sem fluttar hafa verið og við mína ræðu sem ég flutti áðan.

(Forseti (ÁÞS): Forseti var að minna hv. þingmann á ákvæði þingskapa um andsvör. Sú ábending er komin á framfæri til þingmanns og forseti þarf ekki á áréttingu frá þingmanninum sem er í ræðustól að halda hvað þetta varðar.)

Herra forseti. Ég hef málfrelsi í ræðustól og ég vil þá nýta það málfrelsi sem ég hef og lýsa því yfir að mér finnast þessi vinnubrögð af hálfu herra forseta vera dæmigerð fyrir öll vinnubrögðin í Icesave-málinu. Það má ekki segja óþægilega hluti. Það verður alltaf að fela þá, það verður að tipla á tánum í kringum alla skapaða hluti, m.a. í kringum þau nöturlegu ummæli sem fram komu hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni í gær. Já, þetta eru svik við okkur sem lögðum okkur fram. Ég talaði um það í ræðu minni að við fengum bágt fyrir hjá nokkrum af okkar flokksmönnum og víða um land fyrir að taka þátt í því að reyna að laga málið í sumar. En menn sáu síðan að það var rétt að taka það skref. Við fórum af heilindum í það mál, við fórum aðrar leiðir en hefðbundin, ömurleg stjórnarandstaða Steingríms J. Sigfússonar í gegnum 18 ár. Þannig stjórnarandstöðu vildum við ekki stunda, heldur fórum í málið með það að markmiði að reyna að standa vörð um íslenska hagsmuni. Þess vegna er sárt að finna það að á lokametrunum fylgdi ekki hugur máli hjá ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli.

Það er hins vegar eitt sem ég vil vekja athygli á. Menn hafa nálgast þá umræðu varðandi fyrirvarana í sumar að við ætluðum ekki að borga neitt, við ætluðum ekki að greiða eina einustu krónu. Það er ekki rétt. Ef allt gengur samkvæmt því sem Seðlabankinn setur upp sem sínar forsendur hefðum við samkvæmt fyrirvörum Íslands borgað þetta samkomulag upp 2024 ef hagvöxtur yrði í samræmi við spár Seðlabanka Íslands. Ríkisstjórn Íslands klúðraði því að kynna fyrirvarana og þau lög sem enn eru í gildi og verða vonandi í gildi (Forseti hringir.) fram eftir, fram yfir atkvæðagreiðsluna á morgun. Ríkisstjórn Íslands (Forseti hringir.) klúðraði þessu máli. Það er enginn annar sem getur axlað þá ábyrgð en ríkisstjórnin, Icesave-stjórn, (Forseti hringir.) vinstri stjórn Íslands.



[17:14]
Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að eftir alla þessa umræðu um Icesave-málið á maður nokkuð erfitt með að finna viðeigandi orð um það sem fram undan er, þ.e. atkvæðagreiðsluna sem verður á morgun og hvaða niðurstaða það er sem verður líklegt að muni líta dagsins ljós. Það er erfitt vegna þess að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er sérstaklega kveðið á um það að við Íslendingar samþykkjum ekki að okkur beri skylda til að greiða þá skuld sem kölluð er Icesave-skuldin. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu sem hér er um að ræða. Á sama tíma leggja þeir sem flytja frumvarpið það til að veita ríkisábyrgð fyrir þeirri skuld. Við segjum með öðrum orðum: Við eigum ekki að borga, okkur ber ekki skylda til þess en við ætlum samt að borga, við ætlum samt að veita ábyrgðina.

Hvers vegna, herra forseti? Það er vegna þess, og það hefur komið fram með skýrum hætti m.a. hjá hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, öðrum hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum stjórnarliðsins, að að okkur steðjar ógn. Þegar saman er lagður annars vegar sá kostnaður sem óumflýjanlega mun lenda á íslensku þjóðinni, sem skiptir hundruðum milljarða, og sú hætta sem við okkur blasir gangi hótanir Breta og Hollendinga eftir, þ.e. ef við greiðum ekki, þá meta menn það þannig að betra sé að fallast á að borga þrátt fyrir að við séum sannfærð um að okkur beri ekki lagaleg skylda til þess, og hafa reyndar verið færð fyrir því mjög rík og gild lögfræðileg rök að svo sé ekki og a.m.k. að mikill vafi sé þar um.

Gangi það fram sem menn reikna með að muni gerast, að ríkisstjórnin hafi meiri hluta í þessu máli, þá erum við að fallast á að við séum kúguð til að greiða þessa skuld. Það er vegna þess að við erum beitt ofríki og hótunum. Það er mergur þessa máls. Menn geta rifist endalaust um hvort okkur beri lagaskylda til þess eða ekki en það stendur í frumvarpinu sem hér er til afgreiðslu að við játumst ekki undir slíka röksemdafærslu. Það verður að lögum gangi frumvarpið fram. Það eru ömurleg örlög sem bíða þá þeirra hv. þingmanna sem ætla sér að segja já við frumvarpinu að með því eru þeir að fallast á það að við eigum að sætta okkur við þessa kúgun.

Hver er kúgunin? Það hefur komið fram aftur og aftur í máli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna stjórnarliða að þvílík vá sé fyrir dyrum ef ekki verður sagt já strax við þessu frumvarpi, við Icesave-skuldbindingunni, að allt muni fara í baklás ef ekki verður orðið við kröfum Hollendinga og Breta. Strax í sumar var sagt að það frumvarp sem þá lá fyrir þinginu væri svo gott og samningurinn svo góður að það væri glapræði að segja ekki já strax þannig að málið væri, eins og kallað var, úr heiminum. Því fylgdu líka þær skýringar að ef ekki yrði strax sagt já þá gætu menn afskrifað það að fá nokkurn tíma lán frá Norðurlöndunum sem miklu máli skipti að við fengjum, það væri klárt að ekki yrði um neina endurskoðun að ræða af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ekkert væri hægt að gera í því að endurskipuleggja og endurstofna banka á Íslandi, ekkert væri hægt að gera þegar kæmi að því að hjálpa til í fjármálum heimilanna með skuldaaðlögun og öðrum slíkum aðgerðum, það væri í raun og veru stóra stoppið sem við stæðum frammi fyrir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir talsmenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans á þinginu hvernig allar þær hótanir hafa gengið eftir sem settar hafa verið fram. Það er líka mikið umhugsunarefni fyrir íslenska þjóð að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að forusta þjóðarinnar skuli ekki við þessar alvarlegu aðstæður hafa beitt sér fastar og af meiri ákveðni en gert var. Ég ætla ekki að draga úr því að allir þeir sem að þessu máli hafa komið hafi reynt að vinna sína vinnu eftir bestu getu. Það þarf enginn að efast um það.

Herra forseti. Enn og aftur. Eftir stendur sú umræða og sú spurning hvernig á því standi, í ljósi langrar sögu, áratugalangrar sögu, samstarfs okkar við hin Norðurlöndin, að enn skuli hanga yfir okkur einhvers konar umræða um það að Norðurlöndin séu að festa lánsloforð sín við það að við lútum vilja Breta og Hollendinga. Reyndar er alveg merkilegt að sjá hvernig sú umræða hefur þróast vegna þess að þeir hafa keppst við það, forustumenn á Norðurlöndunum, að sverja slíkt af sér. Enn á ný hljótum við að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra Íslands geri gangskör að því að kalla með formlegum hætti eftir svörum frá Norðurlöndunum vegna þess að ef þetta mál verður látið standa svona, herra forseti, þá mun það verða blettur á samstarfi Íslendinga við Norðurlandaþjóðirnar. Og er þá með engum hætti dregið úr þakklæti okkar og ánægju yfir því að Norðurlöndin skuli þó vera tilbúin til að veita okkur lán.

Í ljósi langrar og farsællar sögu er það ekkert sem við getum sætt okkur við að þær kröfur séu gerðar af hálfu þessara ríkja að við lútum vilja Hollendinga og Breta og stefnum efnahagslegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í tvísýnu. Í þeirri umræðu sem hér hefur verið undanfarnar vikur, sem margir leyfðu sér að kalla stórkostlegt málþóf, að það væri verið að traðka á lýðræðinu, hefur þó loksins tekist að kalla fram mat á þeirri áhættu sem við Íslendingar göngumst undir með því að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þegar menn skoða það mat kemur í ljós að hætta er á því að íslenska ríkið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna þess að það reynist um of að greiða þessar Icesave-skuldir.

Þegar menn segja hér í þingsal, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, að þessar skuldir séu eins og aðrar skuldir og leggja að jöfnu við ýmsar aðrar skuldir sem íslenska ríkið er nú þegar í ábyrgð fyrir þá verða menn að athuga að á bak við margar þær skuldir sem ríkið glímir við eru framkvæmdir og eignir sem við höfum náð að búa til á móti. Við höfum ráðist í framkvæmdir og fengið að láni fé erlendis til að fara í vegaframkvæmdir, hafnir, brýr o.s.frv., byggja upp okkar skólakerfi, allt það sem við þurfum að gera. En í þessu máli er um að ræða peninga sem við skuldum ekki og munum væntanlega samþykkja á morgun að við skuldum ekki. Það sem meiru skiptir, þetta er í erlendri mynt. Þetta er ekki í íslenskum krónum. Við eigum að borga í erlendri mynt og í því er gríðarleg áhætta fólgin eins og kom fram í því áliti sem stjórnarandstaðan þurfti að berja í borðið til að kalla fram. Hún þurfti að berja í borðið til að kalla fram það sjálfsagða mat sem hefði átt að liggja fyrir fyrir löngu svo að við þingmenn gætum myndað okkur afstöðu út frá því. Ríkisstjórnin hefði átt að hafa forgöngu um að slíkt mat lægi fyrir.

Herra forseti. Það er erfitt að velja þessu hæfileg orð. Þegar grannt er skoðað og þegar menn skoða það lagaumhverfi sem er utan um tryggingarsjóðsstarfsemina á Evrópska efnahagssvæðinu blasir það við að það getur ekki verið þannig að ríkisábyrgð sé með þeim hætti sem verið er að reyna að pína okkur til að viðurkenna. Ef svo væri er hruninn grundvöllur þess að eitthvert jafnræði sé með fjármálastofnunum á hinum evrópska markaði vegna þess að þá er gríðarlegt samkeppnisforskot hjá þeim bankastofnunum og fjármálastofnunum sem koma frá stórum löndum sem hafa mikla ríkissjóði til að styðjast við gagnvart fjármálastofnunum sem koma frá smáríkjum eins og okkur Íslendingum sem hafa lítinn ríkissjóð. Það sér það hver maður að það getur ekki gengið upp að um einhverja eðlilega samkeppni sé að ræða, enda væri það ríkisstyrkt samkeppni. Allt það sem menn ræða um slíka sjóði núna og þær endurbætur sem þurfi að gera á því kerfi sem Evrópubúar búa nú við lýtur einmitt að þeirri hugsun.

Við hljótum að spyrja, herra forseti: Ef það var svo augljóst að við Íslendingar bærum þessa ábyrgð, að íslenski ríkissjóðurinn væri í ábyrgð, hvers vegna í ósköpunum er það þá þannig að við þurfum að vera að ræða einhverja sérstaka löggjöf um að ábyrgð sé þar að baki? Ef það var svo augljóst hví þarf þá að setja lög um slíkt? Má það ekki vera ljóst að þar með hefði átt að fara af stað einhver sá ferill sem hefði tryggt að hægt væri að ganga að ríkissjóði Íslands? Nei, það er ekki svo. Það þarf til alveg sérstaka löggjöf. Það þarf vilja Alþingis Íslendinga til að gangast í slíka ábyrgð. Á sama tíma, herra forseti, er málum þannig háttað í umræddu frumvarpi að þar er sérstaklega tekið fram að við eigum ekki að borga, það er alveg sérstaklega tekið fram, það er það sem gerir þetta mál svo hörmulegt.

Við sjálfstæðismenn sögðum í sumar, þegar samningurinn kom fyrst til þingsins, að hann væri illa gerður, hann væri hættulegur fyrir íslenska þjóð og það mætti ekki skrifa undir hann. Hæstv. fjármálaráðherra og helstu forustumenn ríkisstjórnarinnar á þingi mæltu mjög fyrir því að þetta væri góður samningur sem við ættum að samþykkja. Og það virðist alltaf vera skoðun stjórnarmeirihlutans hér á þingi að þetta séu allt góðir samningar. Svo urðu þau undur og stórmerki að til varð meiri hluti á þinginu þegar alþingismenn fóru að kafa ofan í þennan samning og utanaðkomandi sérfræðingar komu að málinu og sýndu fram á augljósa galla í honum. Þá vann þingið það verk sem því bar, að breyta þessu samkomulagi. Auðvitað er það sérstakt og óvenjulegt og óvanalegt að Alþingi eða löggjafarsamkoma breyti slíkum gjörningi og má alveg jafna því við að menn semji einhliða. En það var nauðsynlegt vegna þeirrar stöðu sem upp var komin, vegna þess samnings sem ríkisstjórnin illu heilli kom með inn í þingið og allir áttuðu sig á að var ekki nægilega góður og var hættulegur fyrir Ísland.

Þrátt fyrir að menn rífist um það hvort þeir fyrirvarar sem settir voru þann 28. ágúst sl. séu nægilega sterkir áfram í þessu frumvarpi eða ekki — hvað varðar efnahagsfyrirvarana er ég þeirrar skoðunar að svo sé ekki og tel það reyndar augljóst mál — þá eru flestir þó sammála um að málið er í það minnsta skárra í þeim búningi sem það nú er en það var þegar það kom fyrst til þingsins. Þann samning kynnti hæstv. fjármálaráðherra fyrir þinginu með orðum sem hann dró svo til baka þegar hann áttaði sig á að þau voru engan veginn við hæfi. Í ljósi alls þessa, í ljósi þess hvað Alþingi Íslendinga reyndi þó að gera þann 28. ágúst, í ljósi þess að við settum lög sem drógu línu í sandinn og sögðum: Hingað og ekki lengra, við getum ekki skuldbundið þjóð okkar með ríkari hætti en hér um ræðir. Okkur ber ekki að greiða þetta en við viljum ná pólitískri lausn í málinu af því að við teljum það mikilvægt, það er þess vegna sem við vorum tilbúin til þess í ágústmánuði að gera slíkt samkomulag, neyddumst til að gera það allt að því einhliða vegna þess að ríkisstjórnin kom með ónýtan samning til þingsins.

Nú, herra forseti, stöndum við í ekkert ósvipuðum sporum og við gerðum í ágúst. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem er ekki nægjanlega gott. Það er hættulegt íslenskum hagsmunum. Það hefur verið sýnt fram á það af fræðimönnum sem hafa skoðað þetta mál að ástæða er til að ætla að gangi hlutirnir okkur í óhag í efnahagsþróuninni geti sú staða myndast að efnahagslegu sjálfstæði Íslands sé stefnt í voða. Við þær aðstæður, herra forseti, er nauðsynlegt að þingmenn taki höndum saman, þingmenn á löggjafarsamkundunni og búi svo um hnútana að ekki verði tekin áhætta með efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Við höfum ekkert leyfi til slíks. Þeir fyrirvarar sem við settum í ágúst voru að okkar mati nægjanlegir til að tryggja það. Það er ekki hægt að víkja frá þeim fyrirvörum og þess vegna hljótum við að fella frumvarpið á morgun.



[17:29]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Eftir að hafa hlustað á umræður í dag má segja heilt yfir að sjálfstæðismenn séu á því að þeir vilji fara samningaleiðina í þessu máli en telja að freista eigi þess að ná betri samningi og hann verður að vera miklu betri til að hægt sé að fara í þá óvissuferð. Ef það gengur ekki muni menn fara dómstólaleiðina. En áttum okkur á því að dómstólaleiðin mun kannski taka 1–2 ár og þá erum við að skapa óvissuástand í langan tíma fyrir íslenskt atvinnulíf.

Á hinn bóginn segjum við stjórnarliðar að við teljum að skynsamlegast sé að semja nú. Við byggjum það mat t.d. á gestum sem hafa komið fyrir þingnefndir. Mig langar að vitna til eins þeirra, Friðriks Más Baldurssonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík, en hann segir í áliti sínu:

„Áhættu af því að ganga nú að greiðsluákvæðum Icesave verður að vega á móti áhættunni sem felst í að fresta málinu enn frekar. Fram undan eru miklar greiðslur ríkissjóðs og aðila með ríkisábyrgð, sérstaklega árin 2011 og 2012. Núverandi gjaldeyrisforði kann að duga til að standa skil á þessum greiðslum en það virðist þó vera háð verulegri óvissu. Komi ekki til annarrar fjármögnunar virðast því líkur á greiðslufalli ríkis, fyrirtækja með ríkisábyrgð eða sveitarfélaga eftir 2–3 ár. Í þessari stöðu felst mikil áhætta sem brýnt er að leysa úr með því að tryggja fjármögnun þessara greiðslna.“

Tryggvi Þór Herbertsson segir í grein í Morgunblaðinu í dag að höfnun Icesave fæli frá sér erlenda fjárfestingu og viðhaldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis. Það er því ljóst að til skemmri tíma getur það haft mjög vondar afleiðingar fyrir okkur að hafna Icesave og fresta málinu í 1–2 ár ef við veljum þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara.



[17:31]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég met það svo að hv. þingmaður hafi verið að beina til mín spurningunni: Er einhver valkostur, hver er sá valkostur?

Jú, það er auðvitað heila málið að það er val í þessum málum. Valið stendur enn á ný um það sem var í ágústmánuði, þ.e. að við setjum fram kröfur okkar í málinu af því að um er að ræða pólitíska niðurstöðu og pólitísk niðurstaða gat aldrei og getur ekki orðið sú að við Íslendingar eigum að bera allan hallann af málinu, að við eigum að borga allan reikninginn upp í topp með vöxtum. Það er ekki pólitísk niðurstaða. Það er sama niðurstaða eins og við hefðum farið til dómstóls og tapað málinu, þannig að sú lausn sem nú liggur fyrir er ekki pólitísk lausn, hún er afarkostur. Gallinn við þá lausn er að hún getur valdið því til mjög langs tíma að lífskjör á Íslandi skerðist mjög. Hún getur valdið okkur gríðarlegum búsifjum og gert alla endurreisn á Íslandi mjög erfiða.

Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að mjög líklegt er að það muni valda okkur til skamms tíma vandamálum ef við höldum áfram og stöndum á okkar rétti. En þá verða menn að bera það saman við og meta það hvað það þýðir fyrir okkur ef til lengri tíma er horft að gangast undir þessar gríðarlegu skuldbindingar sem eru í erlendri mynt, sem fela í sér alveg gríðarlega gengisáhættu, fela í sér mikla áhættu sem snýr að verðbólguþróun á Íslandi og í Bretlandi og Hollandi, sem hefur mikið að gera með það hvernig hagvöxtur muni þróast á Íslandi til næstu áratuga. Þannig verðum við að horfa á þetta og, herra forseti, ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa hugsað þetta mál eins vel og ég mögulega get að ekki sé uppi sá valkostur að láta undan þessum óbilgjörnu kröfum Breta og Hollendinga.



[17:33]
Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrstu vil ég segja hreint og klárt, af því að það kom fram í ræðu hv. þingmanns, að ég tel að það séu enn þá til staðar náin tengsl á milli AGS-endurskoðunar, láns frá Norðurlöndunum og lúkningar Icesave. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að við tryggðum fyrstu endurskoðun með því við værum með tryggan meiri hluta fyrir málinu á þingi. Endurreisnin veltur því á lúkningu Icesave.

Það er rétt hjá þingmanninum að hér er spurning um mat. Mitt mat er, eftir að hafa komist að pólitískri og efnahagslegri íhugun á málinu, að okkur beri að leysa þetta vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að ná viðspyrnu í kreppunni. Þá eigum við miklu meiri möguleika á því að standa skil á Icesave og öðrum skuldbindingum okkar. Við getum þá alltaf endurskoðað hlutina eftir sjö ár því að efnahagslegir fyrirvarar eru til staðar. (Gripið fram í: Nú.) Það er þá alltaf hægt að taka upp málið ef svo fer að kreppan verði djúp því að ljóst er að það er mikilvægt fyrir okkur að stækka kökuna sem allra fyrst, breikka skattstofnana og greiða af Icesave í hagvexti frekar en að fara leið hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem telja að betra sé að taka áhættu á því að dýpka kreppuna í von um að fá betri samning. Ég er ósammála því og það er mat mitt að betra sé að hefja viðspyrnu sem allra fyrst og ná þannig að breikka skattstofnana til að við náum að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.



[17:35]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt athyglisvert sem hér var sagt. Í fyrsta lagi sú skoðun hv. þingmanns að það sé enn um að ræða að tenging sé á milli AGS og Norðurlandanna á afgreiðslu mála okkar Íslendinga. Gott og vel, ef svo er, hvernig stendur þá á því að hæstv. forsætisráðherra Íslands hefur t.d. ekki haft burði í sér til að senda forsætisráðherrum Norðurlandanna bréf og kalla eftir skýringu á því hvort það sé virkilega svo að slík tenging eigi sér stað, því að það væri blettur á samskiptum Norðurlandaþjóðanna sem yrði seint afmáður.

Hvað varðar síðan það að breikka þurfi skattstofnana og hressa þá við verð ég að segja eins og er að mér fannst þetta hálf — eða í það minnsta áhugavert að heyra þessa skoðun hjá hv. þingmanni sem tók þátt í því að samþykkja gríðarlegar skattahækkanir á síðustu dögum sem allar miða að því að draga úr möguleikum hagkerfisins til að efla og stækka skattstofnana. Það að skuldsetja íslenska þjóð upp í rjáfur með þessum samningi sem við eigum að gangast í ábyrgð fyrir, sem við höfum þó sagt að við eigum ekki að gera en ætlum að gera vegna þess að verið er að hóta okkur, sem við ætlum að gera vegna hótana, það mun auðvitað ekki styrkja íslenskan efnahag, það er svo augljóst, við erum skuldug fyrir.

Það er alveg rétt, þetta er mat. En það er líka sá þáttur málsins sem snýr að því hvort við Íslendingar og við þingmenn höfum leyfi til þess að beygja okkur undir slíka kúgun. Það væri annað, herra forseti, ef ríkisstjórnin hefði komið fram með þetta mál og sagt: Það er mat okkar að við eigum að borga þetta á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga og alþjóðlegra laga. Þá værum við í allt annarri umræðu. En það er ekki svo. Hér er lagt fram frumvarp sem byggir á því að við eigum ekki að borga þessar greiðslur. Samt ætlum við að gangast undir þær vegna þess að við erum beitt ofbeldi. Það sem hefði átt að vera verkefni hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra og annarra var að ganga þá í það af alvörukrafti að kalla fram hvernig í ósköpunum standi á því að t.d. Norðurlöndin ætla að beita (Forseti hringir.) okkur slíkum þvingunum.



[17:37]Útbýting:

[17:37]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þá er komið að lokum þessarar umræðu, ég er að halda seinni ræðu mína í þessum fasa og síðan verður gengið til atkvæða. Icesave-málið er eiginlega þrungið af nauðung og þrýstingi og alls konar leynd bæði hér á landi og erlendis.

Það kom fljótlega í ljós þegar Íslendingar leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þar átti að neyða okkur. Það kom líka fljótlega í ljós þegar Íslendingar sneru sér til vina sinna í Evrópu að þar var líka nauðung. Af hverju var nauðung? Vegna þess að þær þjóðir óttuðust um traust sparifjáreigenda á innlánskerfi sín. Jafnvel Norðmenn stóðu með Bretum og Hollendingum í kröfu þeirra á að Íslendingar greiddu, sennilega vegna þess að þeir gerðu sér ekki grein fyrir hvað þetta gæti orðið þungbært fyrir Íslendinga.

Menn hafa haldið því fram að búið hafi verið að semja. Hvers vegna þurfti þá að semja aftur, herra forseti, ef búið var að semja? Af hverju var skipuð ný nefnd, af hverju var farið í nýja samninga? Það var vegna þess að það var ekki búið að semja um eitt eða neitt, það þurfti því að semja aftur. Og það var gert aftur undir nauðung, frá Norðurlöndunum varðandi lánafyrirgreiðslu og eins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og frá Evrópusambandinu sem stóð í því að kúga, allir þessir aðilar stóðu í því að kúga Íslendinga til þess að bjarga trausti sparifjáreigenda á innlánstryggingakerfið í Evrópu.

Framkvæmd þessa máls í efnahags- og skattanefnd er orðin þekkt, þar var málið rifið út. Það var beðið um umsögn efnahags- og skattanefndar frá hv. fjárlaganefnd og þar átti að fá áhættugreiningu á vandanum og hún kom ekki og þá var málið rifið út og aldrei rætt. Mér skilst að í hv. fjárlaganefnd hafi það heldur ekki verið rætt. En samkvæmt áhættugreiningu frá IFS Greiningu segja þeir með varfærnu mati að það séu 10% líkur á því að íslenska þjóðin verði gjaldþrota.

Nú getur vel verið, herra forseti, að ýmsir þingmenn líti á það sem ósköp ómerkilegt ef íslenska ríkið verður gjaldþrota og geti ekki borgað — en það er ekki ómerkilegt. Það er afskaplega alvarlegur hlutur. Sumir hafa sagt: Við tökum bara ríkisábyrgðina til baka. Hvers lags er þetta, er þá ekkert að marka þessa ríkisábyrgð? Fyrir mér er ríkisábyrgð eitthvað sem menn snúa ekki með til baka, alls ekki, aldrei.

Erlendir greinendur segja að það séu um 20% líkur á gjaldþroti, einhvers staðar þar um bil. Það vill svo til, herra forseti, að í rússneskri rúllettu þar sem eitt skot er í sex skota hylki eru líkurnar 16% á því að verða fyrir banaskoti. Þetta er þá svipað, líkurnar á þessu, og í rússneskri rúllettu. Þetta eru menn að kalla yfir íslenska þjóð algjörlega vitandi vits hvað þeir eru að gera. Það getur vel verið að þetta gangi vel, ég hugsa að það séu svona 50% líkur á því að þetta gangi vel, en það eru líka kannski 10–20% líkur á að þetta fari mjög illa.

Daniel Gros benti á að ekki sé jafnræði á milli innlánstryggingarsjóða. Bretar og Hollendingar láni sínum sjóðum, þ.e. Bretar láni með 1,5% vöxtum að hámarki, sem mundi svara á Íslandi til 1 milljarðs, og Hollendingar lána vaxtalaust. En þegar þeir lána innlánstryggingarsjóði á Íslandi, sem er líka á EES-svæðinu, er það með miklu hærri vöxtum. Það er ekkert jafnræði þarna, það er ekkert jafnræði innan EES-svæðisins eins og á að vera. Þeir eru einmitt að gera kröfu til þess að við borgum út af jafnræði, þannig að þetta er allt saman á sömu bókina lært.

Ég hef flutt fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, breytingartillögu um að þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég er spenntur að sjá hversu mikil lýðræðisást Vinstri grænna og Samfylkingarinnar verður af því að þeir hafa margoft lagt til að stærri mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef eitthvert mál er stærra en þetta þætti mér gaman að sjá það.



[17:43]
Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við erum við lokaumræðu um hið svokallaða Icesave-mál sem er eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur tekist á hendur í sögu lýðveldisins. Það er því ekkert óeðlilegt við það að þeir þingmenn sem starfa í umboði þjóðarinnar skuli vilja ræða ítarlega um þetta mál enda er hér um að ræða stærstu fjárskuldbindingu sem íslenskur almenningur hefur gengist undir á síðari tímum. Það er í ljósi þess sem við hér, þá sérstaklega aðilar í stjórnarandstöðunni, höfum viljað fara mjög ítarlega ofan í alla þætti þessa máls, hver réttarstaða okkar er og hvað við getum gert sem fulltrúar íslensku þjóðarinnar til að við komum sem best út úr þeim pytti sem við erum nú óneitanlega stödd í vegna skuldbindinga einkafyrirtækja úti í bæ sem íslenskir skattgreiðendur virðast nú þurfa að fara að greiða.

Við höfum barist mikið fyrir því að kalla fram ýmis sjónarmið úr samfélaginu, frá lögfræðingum, hagfræðingum og alþjóðlegum sérfræðingum, og allan þann tíma sem við höfum krafist slíkra gagna höfum við legið undir því ámæli að hér sé mikið málþóf í gangi. Helst hefðum við þurft að vera búin að afgreiða þetta mál fyrir lifandi löngu, helst á upphafsstigum þess. En það vill svo til að eins og þetta mál lítur illa út í dag og er að mörgu leyti vanreifað að okkar mati er það þó illskárra en það var þegar samninganefnd fjármálaráðherra kom heim í vor með glæsilega niðurstöðu að eigin sögn. Stjórnarliðar komu hingað upp og sögðu hver á fætur öðrum: Þetta á að samþykkja, margir jafnvel án þess að hafa lesið samninginn. Séu menn einhvern tíma, að mínu mati, að bregðast því mikla trausti sem almenningur ætti að hafa á okkur hér og þessum störfum eiga menn ekki að vinna með þeim hætti sem raun bar vitni.

Hvert var upphafið að allri þessari vegferð og hvernig hefðum við átt að standa að þessu stóra máli? Það var ekkert leitað til stjórnarandstöðunnar þegar farið var í upphaflegan leiðangur til að semja við Breta eða Hollendinga. Ríkisstjórnin ákvað einhliða hvernig samninganefnd Íslendinga yrði skipuð. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan, sem tæplega helmingur þjóðarinnar kaus, sitji á Alþingi fékk hún engu ráðið um það með hvaða hætti við mundum senda flokk frá okkur út í lönd til að ræða við þaulþjálfaða samningamenn Breta og Hollendinga, því miður.

Eins og ég sagði áðan kom síðan þessi dæmalausa niðurstaða eftir fyrri viðræður sem lyktaði í vor og upphófust miklar umræður á Alþingi sem enduðu með því, eftir að stjórnarandstæðingar höfðu talað fyrir mörgum sjónarmiðum, að þvert á flokka var farið í vinnu til að móta samningsmarkmið eða skilyrði sem Alþingi mundi setja gagnvart þessum samningum. Menn voru ekkert að leita eftir einhverjum nýjum samningum með þeirri löggjöf sem þar var samþykkt, síður en svo. Við settum afarkosti er snertu skilyrði Íslendinga vegna þessara miklu skuldbindinga, þar á meðal takmarkanir fyrir því hversu mikið við eigum að borga á næstu 16 árum upp í þessa samninga einkafyrirtækis úti í bæ.

Þegar Alþingi samþykkti þetta með drjúgum meiri hluta atkvæða á Alþingi sendi ríkisstjórnin á nýjan leik viðræðunefnd til Hollands og Bretlands. Hver varð niðurstaðan af því, hv. þm. Björn Valur Gíslason? Niðurstaðan af þeim vinnubrögðum varð sú að menn héldu áfram uppteknum hætti. Ekki var talað við stjórnarandstöðuna þá um að hún mundi tilnefna aðila í samninganefnd fyrir hönd Íslands til að ræða við Hollendinga eða Breta, nei, ríkisstjórnin ákvað að gera þetta áfram ein. Hver var niðurstaðan af því? Jú, við ræðum hér nýtt frumvarp til laga sem felur í sér að það er búið að útþynna þau skilyrði sem Alþingi samþykkti með lögum sem eru vel að merkja enn í gildi, lögum sem við samþykktum á Alþingi. Það er einfaldlega ekki viðunandi að komið sé þannig fram við íslenska þjóð og þingmenn í stjórnarandstöðu sem hafa lagt gríðarlega mikla vinnu á sig á undangengnum mánuðum til að reyna að bæta það erfiða mál sem blasir við okkur öllum.

Eftir að seinni samninganefnd ríkisstjórnarinnar hafði farið út virtust ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, eftir að hafa beitt þingflokka sína miklum þrýstingi, hafa ákveðið að málið skyldi fara í gegn eins og það leit út þá. Málsmeðferðin var slík í nefndum þingsins eftir að málið kom þar inn að lítill tími var gefinn til þess að við fengjum að fara málefnalega yfir málin. Okkur var neitað um að kalla á fundi nefndanna — og þá á ég við efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd — tiltekna gesti til að fara betur ofan í hið nýja mál í ljósi þess að það var búið að breyta því í grundvallaratriðum með því að útþynna þessa skilmála. Í kjölfarið, eftir að málið hafði verið tekið út úr nefndum í óþökk minni hlutans í þinginu, hófst hér mikil umræða eins og frægt er orðið.

Margar ræður okkar snerust um að það hefði verið viturlegra og gáfulegra að klára alla efnislega umfjöllun málsins í nefndunum frekar en að taka það hálfkarað inn í almenna umræðu á vettvangi þingsins. Auðvitað er það ekki góður svipur á störfum þingsins þegar menn standa hér klukkustundum saman til að fara yfir mál sem við hefðum betur farið yfir á vettvangi nefndanna. Það varð svo samkomulag um að taka málið upp á milli 2. og 3. umr. innan nefnda þingsins, og var það vel að okkar mati í minni hlutanum að við næðum því þó í gegn eftir mjög einbeitta umræðu hér. Það olli mér aftur á móti miklum vonbrigðum að meiri hlutinn skyldi engu að síður, eftir að samningar náðust um það með hvaða hætti við ætluðum að afla okkur gagna, hafa ákveðið að taka málið út úr nefndum fyrir jól án þess þó að viðamikil gögn er snerta þetta mál, hagsmuni íslensku þjóðarinnar, lægju fyrir.

Þar vil ég m.a. nefna merkilega skýrslu sem nýlega hefur komið fram og er áhættugreining er snertir Icesave-samninga og skuldabyrði þjóðarinnar. Efnahags- og skattanefnd Alþingis bað fyrirtækið IFS Greiningu um að fara í gegnum þennan mikilvæga þátt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað fyrir svo mánuðum skiptir að nauðsynlegt væri að fara í. Þrátt fyrir að þetta álit lægi ekki fyrir var ákveðið að taka málið út úr fjárlaganefnd þingsins til 3. umr., lokaumræðu, en nú liggur þessi skýrsla fyrir og þar kemur margt athyglisvert í ljós.

Það var kannski eins gott að við höfðum ekki samþykkt þessa samninga fyrr en þetta lá þó fyrir, að við gerum okkur þó grein fyrir því hvað við erum að skrifa undir, en á seinni stigum málsins hefur komið á daginn að mikil gjaldeyrisáhætta fylgir þessum samningum. Það var ekki gert ráð fyrir gjaldeyrisáhættu í mati Seðlabankans á Icesave-samningunum sem birt var í júní 2009 en nú er ljóst að þróun gengis íslensku krónunnar er einn af aðaláhættuþáttum Icesave-samningsins. Við höfum séð á undangengnum mánuðum að gengi krónunnar hefur veikst mikið frá aprílmánuði og ég vil taka sem dæmi að frá 22. apríl hafa Icesave-samningarnir hækkað um 55,3 milljarða kr. vegna gengislækkunar krónunnar. Þetta eru slíkar upphæðir að það er ekki fyrir venjulegt fólk að átta sig á umfangi þess.

Til samanburðar má reka Landspítala – háskólasjúkrahús fyrir um 30 milljarða kr. á einu ári. Það eru engar smáræðisupphæðir sem við erum að fjalla um. Tökum það líka með að aðalrökstuðningur stjórnarliða var að nú þegar lægju gríðarlegir fjármunir inni á þessum reikningum. Það var gert ráð fyrir að í sumar mætti greiða um 26% inn á þessa reikninga en nú er ekki gert ráð fyrir að neitt endurheimtist fyrr en árið 2011 vegna mála sem eiga eftir að fara fyrir dómstóla sem þýðir að inngreiðslur á reikningana munu koma mun seinna sem þýðir að vaxtakostnaður okkar verður mun meiri en áætlað var. Þegar menn tala um að þessar eignir beri einhvern ávöxt er það ekki mikill ávöxtur í samanburði við þá vexti sem við þurfum að greiða af þessum skuldbindingum sem eru 5,55% en almennir vextir í Evrópu eru um þessar mundir 0–1%. Það verður gríðarlegur vaxtamunur sem við munum þurfa að bera vegna þessarar seinkunar sem gerir málið enn verra en það var fyrir.

Það kemur líka fram í þessari greiningu að ef nafngengi krónunnar veikist að meðaltali um 6% á ári frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2016 muni eftirstöðvar skulda vegna Icesave standa í 707 milljörðum kr. Ef gengi krónunnar styrkist hins vegar um 5% á ári mun skuldin standa í 171 milljarði kr. Þetta sýnir okkur hvers lags gríðarlega áhættu Alþingi Íslendinga er að taka fyrir hönd íslensks almennings með því að samþykkja þetta frumvarp eins og það er óbreytt.

Ég er alveg viss um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu rýna mjög vandlega í þær ræður sem þingmenn hafa flutt við 3. umr. um þetta mál. Við höfum þó náð því fram í minni hlutanum á þingi að sýna fram á þá gríðarlegu óvissu sem er um framtíðarhorfur er snerta þennan samning. Við náðum þó þeim gögnum þannig að við getum tekið upplýsta ákvörðun þegar við greiðum atkvæði um þessa Icesave-samninga.

Ég vil enda þessa ræðu mína á því að segja … (Fjmrh.: Er þetta ræða?) Er þetta ræða? spyr hæstv. fjármálaráðherra. Ég er ekki viss um að hann hafi hlustað vel á það sem ég hef sagt hingað til. Það er með miklum trega, hæstv. fjármálaráðherra, sem ég fer úr þessari pontu og mér þykir miður að við skulum vera að lenda þessu máli í þeim farvegi sem það er í núna vegna þess að allt frá upphafi hefur verið eins óhönduglega vandað til verka og hugsast getur.

Að sjálfsögðu átti ríkisstjórnin með hæstv. fjármálaráðherra að leita til stjórnarandstöðunnar um samstarf og samráð þegar kemur að þessu eina stærsta hagsmunamáli sem við höfum staðið frammi fyrir fyrir hönd þjóðarinnar. Vinnubrögðin frá upphafi hafa verið þau að algjört samráðsleysi hefur verið haft við okkur í stjórnarandstöðunni þegar komið hefur verið að samningagerð gagnvart Hollendingum og Bretum. Hafi einhvern tíma verið þörf á því, herra forseti, að Íslendingar stæðu saman í jafnviðamiklu máli og hér um ræðir er það nú. Því miður hefur ríkisstjórnin sýnt það í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að hún er ekki ríkisstjórn samráðs eða samvinnu. Slíkt er miður á þeim tímum þegar við þurfum á slíkum gildum að halda. Ekkert bendir til þess að ríkisstjórnin ætli að viðhafa ný vinnubrögð. Ég mun því þegar kemur til þess að greiða atkvæði um það frumvarp sem meiri hlutinn hefur lagt hér fram segja nei við þeim samningum. Ég tel að við hefðum getað náð miklu betri árangri ef við hefðum staðið saman sem ein heild, en vinnubrögðin allt frá upphafi til enda eru sorgleg og bera vott um að hér eru við völd stjórnmálaflokkar sem hafa verið allt of lengi í stjórnarandstöðu og hafa virkilega gaman af því núna að fara með völdin á þeim tímum sem við þurfum og hefðum þurft að standa saman sem einn maður.



[17:58]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þá seinni sem hann flytur, en hann kom ekkert inn á það hvað gerist ef þetta verður fellt, ef við sem erum á móti þessu náum því fram að frumvarpið verði fellt. Þá getur ýmislegt gerst. Bretar og Hollendingar gætu sent okkur skeyti um að þeir fallist á fyrirvarana frá því í sumar — það munu þeir væntanlega gera því að þeir munu sjá sína sæng útbreidda — eða að þeir geta farið í málaferli við Íslendinga. Þá leita þeir til Héraðsdóms Reykjavíkur og kæra íslenska ríkið. Þá kemur náttúrlega tilskipun Evrópusambandsins sem væntanlega mun leiða til þess að við verðum dæmd til að borga ekki krónu — eða pund eða evru.

Ef við hins vegar af einhverjum ástæðum yrðum dæmd til að borga eitthvað er svo merkilegt að í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem gilda á Íslandi, lögum nr. 98/1999, segir í 9. gr., með leyfi frú forseta:

„Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“

Þarna mættu íslenska ríkið og innlánstryggingarsjóður greiða alla innstæðuna í íslenskum krónum og Bretar og Hollendingar gætu aldrei náð henni út vegna gjaldeyrishaftanna. Síðan gæti vinstri stjórnin skattlagt fjármagnstekjurnar alveg í botn og þeir hefðu lítið við þessa peninga að gera.

Ég er ansi hræddur um að í báðum tilfellum, hvort sem þeir vinna málið eða tapa, verði þeir miklu verr settir en bara við að skrifa undir fyrirvarana frá því í sumar sem gilda núna og gilda áfram ef þetta verður fellt.



[18:00]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom einmitt að lykilhluta þessa máls sem snýr að því hvernig við erum skuldsett og verðum skuldsett til framtíðar. Samkvæmt því, ef þetta verður samþykkt, er verið að skuldsetja íslenska þjóð um hundruð milljarða í erlendri mynt. Hvað leiðir það af sér? Við þurfum að greiða afborganir erlendis sem mun hafa þau áhrif á gjaldmiðil okkar að hann viðhelst mögulega veikur um ókomna tíð. Hvað þýðir það á íslensku gagnvart lífskjörum hér á landi? Við munum því miður hugsanlega breytast í algert láglaunasamfélag. Þegar menn tala um og bera saman þær skuldir sem Íslendingar munu þurfa að greiða, í erlendri mynt, og annarra landa sem skulda mikla fjármuni þá skulda þau mörg hver í sinni eigin mynt. Það er grundvallarmunur á því og hefur mikil áhrif á hvert álagið er á gengi viðkomandi gjaldmiðils. Þetta er því stór hluti af þessu máli. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að benda á að ef á okkur væri sótt og ef svo illa færi að við mundum tapa því máli þyrftum við mögulega ekki að greiða það í erlendri mynt heldur í okkar eigin mynt sem hefði virkilega góð áhrif.

Mig langar að lokum í þessu fyrra andsvari, ef ég kæmi ekki upp síðar, að þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í nefndinni, af því að ég á ekki von á því að ég eigi eftir að standa mikið upp. Þetta hefur verið ansi erfitt á köflum en ég tel að við höfum staðið vaktina ágætlega. Því miður styttist stundin og tíminn sem er til stefnu hvað þessi mál varðar og margt bendir til þess að þessi óskapnaður verði að veruleika, sem er miður að mínu mati, en ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætt samstarf á sviði efnahags- og skattanefndar.



[18:02]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í gagnkvæmar þakkarræður en ég þakka hv. þingmanni engu að síður fyrir samstarfið.

Annað sem lítið hefur verið rætt er áhættan af verðbólguþróun í Bretlandi. Ef mikil og safarík verðbólga verður í Bretlandi hækkar álið okkar og fiskurinn. Íslenskir skipstjórar og aðrir sem hafa áhuga á þeim málum átta sig á þessu. Þá hækkar verðið á fiskinum og álinu og við fáum meira í pundum fyrir túristana sem koma til Íslands. Það þýðir að við eigum auðveldara með að borga af láninu. Nú þurfa Íslendingar, ef þetta verður samþykkt, að leggjast á bæn og biðja þess að myndarleg verðbólga verði í Bretlandi. Hins vegar ef það andstæða gerist, eins og gerðist frá 1921–1934 þegar verðhjöðnun var í 14 ár í Bretlandi — það var 3% verðhjöðnun, vörur urðu alltaf ódýrari og ódýrari. Álið og fiskurinn ódýrari og ódýrari — ef sú staða kæmi upp aftur þyrfti að borga sífellt meira, við fengjum færri pund fyrir fiskinn og álið en þyrftum alltaf að borga jafnmikið af pundum fyrir lánin. Þá yrðu raunvextir 9% af þessu láni og gersamlega óbærilegir. Skuldin mundi tvöfaldast í verðmæti, mælt í tonnum af áli og fiski, fram til ársins 2016 þegar við byrjum að borga. Við mundum skulda tvöfalt fleiri tonn af fiski og áli árið 2016 ef sú staða kæmi upp eins og var frá 1921–1934 í Bretlandi. Þetta hefur lítið verið rætt og ég vildi gjarnan fá álit hv. þingmanns á þessu, hvernig við getum haft áhrif á verðbólgu í Bretlandi þannig að hún verði safarík og myndarleg.



[18:04]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt ég hefði alveg klárað þetta áðan með því að þakka hv. þingmanni fyrir þetta fína samstarf.

Það er engin smáspurning sem hv. þingmaður veltir upp. Vissulega er þetta gríðarlega stór áhættuþáttur eins og hv. þingmaður hefur bent á og samkvæmt þeim spám sem við fengum meðal annars á fundi efnahags- og skattanefndar frá Daniel Gros þá sagði hann að það væru mjög litlar eða jafnvel hverfandi líkur á því að mikil verðbólga verði í Bretlandi á næstu árum. Hér erum við að tala um einn virtasta hagfræðing í Evrópu. Segjum sem svo að þær spár sem þessi virti hagfræðingur hefur komið fram með gangi eftir, þá erum við því miður í verri málum en dæmið lítur út núna og lítur það illa út fyrir.

Að sjálfsögðu er ekkert gaman að vera með svartnættisraus. Ég vona að það gleðilega gerist að safarík verðbólga verði í Bretlandi en því miður getum við ekki horft fram hjá því að helstu sérfræðingar heims á sviði efnahagsmála hafa varað okkur við því að verðbólga í Bretlandi verði mjög lítil, að þar verði jafnvel verðhjöðnun á næstu árum. Það segir sig sjálft að þá erum við í mun erfiðari stöðu og þess vegna höfum við barist fyrir því í minni hlutanum hér á þingi, og sumir einstaklingar í meiri hlutanum, að fá fram sterkari fyrirvara. Það hlýtur að þjóna hagsmunum beggja aðila að við getum staðið við þær skuldbindingar sem við skrifum undir. Það er algerlega óljóst núna hvort við getum það til framtíðar litið og mörg vafaatriði eru um hvað gerist ef við getum það ekki. Erum við þá mögulega að hengja á okkur skuldaklyfjar til áratuga? Það viljum við væntanlega ekki gera og þess vegna hefðum við átt að fara sem ein heild, ræða við Breta og Hollendinga, fara yfir þessi mál með þessi álit til grundvallar og reyna að fá betri og ítarlegri fyrirvara (Forseti hringir.) en við stöndum núna frammi fyrir.



[18:06]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ræðu hans áðan sem var um margt skemmtileg. Þingmanninum varð tíðrætt um að stjórnarandstöðunni hefði ekki verið boðið að taka þátt í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað í haust og á fyrri stigum málsins og taldi að samstarf og samráð stjórnarliða og stjórnarandstöðu í málinu hefði verið nauðsynlegt og það hefði þurft að mynda eina heild. Auðvitað hefði verið mjög gott ef það hefði verið hægt. Staðreyndin var hins vegar sú að strax á fyrsta degi í haust, upp úr miðjum október, lýstu fulltrúar stjórnarandstöðunnar því yfir á tröppum Stjórnarráðsins, um leið og þeim hafði verið kynnt niðurstaðan í viðræðunum, að þeir ætluðu ekki að vera með. (Gripið fram í.) Þeir lýstu því einfaldlega yfir að þeir ætluðu ekki að vera með í þessu máli, vísuðu ábyrgðinni allri yfir á ríkisstjórnina og sögðu: Við verðum ekki með í þessu. (Gripið fram í.) Það var þeirra yfirlýsing sem stjórnarandstaðan (Gripið fram í.) gaf á tröppum Stjórnarráðsins eftir að hafa verið kynnt sú niðurstaða sem þar varð. (Gripið fram í.) Menn verða að kannast við það. Það var svo sem ekki vilji stjórnarandstöðunnar að bjóða upp á samstarf eða að koma fram sem ein heild í þessu máli (Gripið fram í: Það var búið að semja.) þannig að það kom ekkert á óvart. Hvers vegna eru menn þá að kvarta yfir því núna að hafa ekki fengið að vera með? Þeir vildu það ekki í upphafi. (Gripið fram í.) Talsmenn stjórnarandstöðunnar tilkynntu það hátt og snjallt fyrir framan sjónvarpsmyndavélar (Gripið fram í.) á tröppum Stjórnarráðsins, eftir að ríkisstjórnin hafði kynnt þeim þá niðurstöðu sem þá var í boði upp úr miðjum október. Þeir höfðu bara engan áhuga á að vera með, [Frammíköll í þingsal.] ekki nokkurn einasta áhuga og lýstu því yfir trekk í trekk að það væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að leysa þetta mál, ekki stjórnarandstöðunnar. Þess þurfti þó ekki því ríkisstjórnarflokkarnir hafa fyrir löngu ákveðið að axla ábyrgð í þessum málum.



[18:08]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var með ólíkindum að hlusta á þessa ræðu. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður hefur verið því hann talar um að þetta mál hafi verið að byrja á haustdögum, þá hafi okkur verið boðin aðkoma að málinu. Ég var einmitt að gagnrýna það, ef hv. þingmaður hefur verið að hlusta á ræðu mína, að auðvitað hefði ríkisstjórnin átt að leita til stjórnarandstöðunnar þegar menn fóru í þessa vegferð í upphafi. Að sjálfsögðu hefði ríkisstjórnin líka átt að leita til minni hlutans á Alþingi þegar hún sendi samninganefnd nr. 2 út. Það var ekki leitað til okkar.

Þegar þessir samningar voru orðnir að veruleika og, eins og hv. þingmaður orðaði það svo réttilega, okkur voru kynntar niðurstöðurnar úr þessum samningum, hvað átti stjórnarandstaðan að gera þá? Það var búið að ræða við Breta og Hollendinga. Við fengum ekki að koma að þeirri vinnu. Þar fóru aðalsamningaviðræðurnar fram og ég stóð í þeirri trú eftir að við höfðum samþykkt þessa fyrirvara á sumarþinginu, þann 2. september að mig minnir, með lögum frá Alþingi að það væri skilyrði sem Alþingi Íslendinga hefði sett, fortakslaust skilyrði. Enda er það svo að það er framkvæmdarvaldið sem sækir umboð sitt til löggjafarvaldsins. Nei, samninganefnd nr. 2 fór út og útþynnti þau lög sem Alþingi Íslendinga hafði sett og eru nú enn í gildi. Það er alveg með ólíkindum að kalla síðan forsvarsmenn stjórnarandstöðuflokkanna á smá fund upp í Stjórnarráð til að tilkynna þeim þessa útþynntu samninga og þessi útþynntu skilyrði sem við settum þá og kalla það samráð. Ég býð ekki í hvernig stjórnarhættirnir verða í þessu landi ef hv. þm. Björn Valur Gíslason verður einhvern tímann forsætisráðherra.



[18:10]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefnir að hægt hefði verið að bjóða upp á samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar menn fóru í þessa vegferð í upphafi, eins og hann orðaði það. Sú vegferð hófst haustið 2008, hafi það gleymst einhverjum, þegar þáverandi ríkisstjórn fór að reyna að ná samkomulagi um þetta mál. Það gekk ekki mjög vel á þeim tíma og var komið í farveg sem við hefðum aldrei getað staðið við, íslensk þjóð, ef það mál hefði verið klárað á þeim nótum.

Stjórnarandstaðan baðst undan samstarfi á haustdögum, það liggur alveg ljóst fyrir. Það var yfirlýst af fulltrúum stjórnarflokkanna (Gripið fram í.) að þeir ætluðu ekki að koma meira að þessu máli. Samstarf var ekki í boði af þeirra hálfu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður gagnrýndi sömuleiðis að málið hefði verið rifið út úr nefndum þingsins í andstöðu við minni hluta nefndanna og þá sérstaklega fjárlaganefnd. Í gær fór ég í andsvar við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og bað hann um að staðfesta hvort stjórnarandstöðunni hefði verið boðið að eyða lengri tíma í fjárlaganefnd, (Gripið fram í.) bíða eftir þeirri niðurstöðu sem óskað var eftir, en því var ekki hafnað. Það var talið ásættanlegt að taka málið út úr nefnd daginn fyrir Þorláksmessu, eins og var gert, frekar en að bíða. Það var ekki það að stjórnarliðar og meiri hluti í fjárlaganefnd hefðu boðið upp á það, stjórnarandstaðan hafnaði því.



[18:12]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það lá fyrir hér fyrir jólin þar sem ég sat á fundum með hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni að það væri ætlan meiri hlutans í þinginu að taka málið út fyrir jól. Það var ákvörðun sem tekin hafði verið. (Gripið fram í.) Við sögðum þar að við stæðum ekki að slíku, við værum ósátt við þá málsmeðferð (Gripið fram í.) og menn voru sammála, stjórn og stjórnarandstaða, um að það væri ágreiningur um að taka málið út fyrir jól. Það er því undirritað samkomulag að meiri hlutinn hafi ætlað sér að gera það. Hv. þingmaður getur ekki komið og sagt að við framsóknarmenn höfum verið sáttir við að málið hafi verið tekið út fyrir jól — enda sagði hv. þingmaður það ekki en að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi staðið að slíku. Á þeim fundum sem ég sat töluðu sjálfstæðismenn líka um að það þyrfti að fá öll gögn áður en menn tækju málið út en meiri hlutinn ákvað að gera það engu að síður.

Síðan er hjákátlegt, frú forseti, að heyra hv. þm. Björn Val Gíslason reyna að sannfæra þá sem hlusta á þessa umræðu um að ríkisstjórnin hafi ætlað sér að hafa samráð um þessi mál. Meira að segja minnihlutastjórnin sem Framsóknarflokkurinn varði á sínum tíma vantrausti á Alþingi sniðgekk Framsóknarflokkinn gersamlega í þessu máli. Ég minnist þess þegar hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hæstv. fjármálaráðherra á miðvikudegi hvort eitthvað væri að frétta af þessum viðræðum, hvort verið væri að semja um Icesave-samkomulagið, þá kvað hann svo ekki vera en síðan voru samningsdrögin kynnt á föstudegi. Það er alveg ljóst að frá upphafi hefur verið leynd og pukur yfir öllu þessu starfi og það er störfum Alþingis til minnkunar að mínu mati.



[18:15]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með síðustu orðaskiptum hér vegna þess að þau eru kannski svolítið dæmigerð fyrir málið allt saman. Eini jákvæði punkturinn í þessari umræðu sem er búin að standa í tvo daga er að maður greinir ákveðið samviskubit hjá sumum stjórnarliðum. Þeir telja ástæðu til að búa til sérstaka söguskýringu um hvað gerðist. Ein söguskýringin gengur út á það að ekki hafi verið hægt að ná samstöðu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn greiddi einungis atkvæði með fyrirvörunum þegar við gengum frá málinu núna á haustmánuðum en sat hjá við atkvæðagreiðslu um samninginn eins og hann lá fyrir. Nokkrir hv. þingmenn hafa minnst á þetta í dag en þeir hafa svo sem ekki botnað þetta, en þetta á að vera einhvers konar söguskýring sem gengur út á það að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað vinna með stjórninni í málinu. Auðvitað er það algjörlega fjarri sannleikanum. Sú vinna sem unnin var í sumar bar öll þess merki og niðurstaðan var á þann veg, reyndar töluðu allir stjórnarliðar um að þarna hefði þingið virkilega sinnt sínu hlutverki og náð góðum árangri og það væri mikill hagur fyrir þjóðina. Stjórnarliðar sögðu líka að þetta væri algjörlega innan ramma samkomulagsins og þeir kviðu því ekki mikið að fara að spjalla um þetta við þá aðila sem málinu tengjast og útskýra fyrir þeim hvernig Alþingi hefði gengið frá málinu.

Við þekkjum síðan, virðulegi forseti, hvað gerðist í kjölfarið. Það sem gerðist var einfaldlega það að menn guggnuðu, menn lyppuðust niður þegar þeir hittu útlendingana og hentu öllum fyrirvörunum. Vinnubrögðin í málinu eru þannig að núna þegar klukkan er 20 mínútur yfir sex, virðulegi forseti, þann 29. desember 2009, og vitað er að greiða á atkvæði um þetta á morgun, eru menn enn að bíða eftir gögnum. Enn eru gögn á leiðinni, gögn sem búið er að bíða eftir mjög lengi, fjármálaráðuneytið hefur neyðst til að aflétta leynd yfir þeim, gögn sem bárust samninganefnd Íslands á vormánuðum frá breskri lögmannsstofu. En það skiptir stjórnarmeirihlutann engu máli, stjórnarmeirihlutinn ætlar að klára þetta. Það hefur enginn stjórnarþingmaður sannfæringu fyrir þessu máli, ég fullyrði það. Ég fullyrði að það er enginn stjórnarþingmaður slíkur bjálfi að telja að þetta samkomulag sé ásættanlegt fyrir Íslendinga. Það er bara ekki þannig. Það er augljóst og það vita allir sem hér starfa. Það hefur m.a. komið fram í umræðuþáttum þar sem fjölmiðlamenn, sem eru frekar vilhallir vinstri flokkunum, eru að ræða þessi mál að þeir reyna að láta að því liggja að það sé eitthvað annað á bak við, það sé einhver redding, auðvitað sé þetta ekki eins og þetta lítur út.

Virðulegi forseti. Það er það sem menn eru að reyna að búa til hérna og menn eru að hugsa mjög skammt. Nú er öllu þjappað saman, nú er gengið á hv. þingmenn sem hafa efasemdir og það er sagt: Þetta snýst ekki um Icesave, þetta snýst um vinstri stjórnina, ætlarðu að klúðra vinstri stjórninni? Það er þannig, virðulegi forseti, sem gengið er núna á hv. þingmenn í stjórnarflokkunum. Þeir eru lamdir saman til að greiða atkvæði í þessu máli sem allir vita og ekki síst þjóðin að er algjörlega óásættanlegt fyrir land og þjóð.

Ég vek athygli á því að það stendur í þessu frumvarpi sem skuldbindur okkur, sem gerir það að verkum að Evrópusambandið, sem verður fulltrúi þessara þjóða, mun geta gengið að okkur, mun geta séð til þess að við höldum þetta samkomulag, það stendur skýrt að okkur ber engin skylda til að greiða þetta. Virðulegur forseti. Svona er málið núna klukkan 20 mínútur yfir 6 í dag og á morgun verður þetta mál klárað og enginn hv. stjórnarþingmaður hefur trú á því að þetta sé góð niðurstaða. Menn trúa því að þetta reddist einhvern veginn og svo vilja menn ekki standa í því (Forseti hringir.) að vera skammaðir fyrir það að skemma stjórnarsamstarf sem er svo mikið sögulegt tækifæri.



[18:20]
Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans, ég hlustaði með athygli. Ég held að það sé kannski ekki hægt að segja af hálfu neins sem hefur þurft að takast á við þetta Icesave-mál frá neinni hlið að maður taki þátt í þeirri vinnu af sérstakri sannfæringu fyrir því að þetta sé gott og skemmtilegt mál. Það er bara þannig að það þarf að kljást við þann pólitíska veruleika sem Icesave-málið er fyrir okkur Íslendinga og það þarf að klára málið.

Það sem ég stoppaði við áðan hjá hv. þingmanni var þegar hann talaði um að það sé söguskýring stjórnarflokkanna að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað vinna með stjórninni. Nú hef ég svo sem ekki sjálf haldið því fram fram að þessu, en mér hefur kannski samt fundist það frekar augljóst að það hafi lítill samstarfsvilji verið í málinu svo ég vil spyrja: Þegar hv. þingmaður segir þetta og vísar í það hvernig málið hafi spunnist að undanförnu, hvað með það þegar fjármálaráðherra mætti og hafði fengið fyrstu viðbrögð frá Bretum og Hollendingum við fyrirvörum Alþingis frá því í sumar og kynnti þau viðbrögð fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og fjárlaganefnd áður en t.d. það var kynnt fyrir ríkisstjórninni eða okkur sem sitjum á þingi fyrir stjórnarflokkana, hvað með …? (HöskÞ: Nýbúinn að ljúga.) Afsakið, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, þú talar bara í þínum ræðutíma. Hver voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar, hver voru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við því þegar fjármálaráðherra fer til fjárlaganefndar og ætlar að reyna að vinna málið þar? (Forseti hringir.) Hver voru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson? (HöskÞ: Þú ert ekki í fjárlaganefnd.)



[18:22]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er einfalt að svara, forustumenn ríkisstjórnarinnar komu og kynntu gerðan hlut. Það var afskaplega óskynsamlegt. Það sem gerðist — og ég vek athygli á að það voru ekki bara stjórnarandstæðingar sem töluðu með þeim hætti, það voru ekki síst stjórnarliðar sem komu og sögðu í ágúst að þetta hefði verið mikill sigur fyrir þingið og bæri þess merki hve þingið væri sterkt. Og menn unnu saman, trúðu mér, virðulegi forseti. Ég, eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, var skammaður af mörgum fyrir það að hjálpa ríkisstjórninni, bjarga ríkisstjórninni, eins og það var orðað. Hvernig dettur ykkur í hug að bjarga þessu liði sem er algjörlega á kafi í eigin klúðri? Það var sagt við okkur.

Þetta var ekki hefðbundin stjórnarandstaða, alls ekki. Í öðrum löndum við eðlilegar aðstæður hefði hæstv. fjármálaráðherra þurft að segja af sér og hugsanlega forsætisráðherra líka í kjölfar þess að koma með mál eins og þetta sem hafði ekki meiri hluta í þinginu. Það liggur fyrir að það hafði verið hávær krafa um að ríkisstjórnin færi frá eftir að menn komu og höfðu ekki meiri hluta í þinginu. Stjórnarandstaðan íslenska spilaði þetta ekki þannig og við unnum með stjórnarliðum við að reyna að komast að góðri niðurstöðu.

Sá maður sem hér var að koma inn, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, kom og hélt hér fína ræðu um að Alþingi hefði talað, nú væru komin skýr skilaboð. Hæstv. forsætisráðherra kom og sagði: Þetta er innan samningsins og það verður ekkert mál að útskýra þetta fyrir aðilum. (Gripið fram í: … fyrir þjóðinni.) Engin svör hafa komið um það af hverju menn töluðu svona þvert gegn betri vitund eða hvort menn vissu ekki betur. En það liggur alveg fyrir að menn komu með gerðan hlut, menn settu ekki (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna í málið fyrr en búið var að klára það.



[18:25]
Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara koma á framfæri þakklæti til hv. þingmanns ef hann hefur látið þau sjónarmið verða ofan á að bjarga Íslandi frekar en að sleppa því að bjarga ríkisstjórninni, ef málið hefði einhvern tíma snúist um það. Að sjálfsögðu hljótum við öll að vinna að þessu máli með hagsmuni Íslendinga fyrir brjósti en ekki hugsa um hvaða ríkisstjórn kemur eða fer. Þetta er miklu mikilvægara en það.

Svo vil ég benda á að hv. þingmaður var náttúrlega að vísa í umræður í fyrstu umferð um málið, þ.e. þá umræðu sem tekin var í sumar sem ég veit ekki hvort ég á að segja ég því miður tók ekki þátt í. En bragurinn hefur verið allt annar núna í þessari umferð, þ.e. þegar breytingalögin koma til meðferðar þingsins. Þar hefur mér ekki fundist vera sýndur mikill samstarfsvilji hér í ræðustól eða annars staðar.

Annað sem ég vil koma inn á er sá misskilningur eða ég veit ekki hvað ég á að kalla það, jú, köllum það bara misskilning, sem veður hér uppi að við séum, Íslendingar, ein við samningaborðið í Icesave-deilunni eins og við hefðum bara getað sest niður og sagt: Við ætlum að gera þetta svona. Sem hefði verið afskaplega þægilegt (Gripið fram í.) og við hefðum þá bara getað gert það bara strax í upphafi en það er bara ekki svoleiðis. Við á Alþingi, þ.e. þeir sem sátu hér, komu sér saman um að setja fyrirvara. Gott og vel. Því var ekki vel tekið þrátt fyrir að flestir þessir fyrirvarar hafi náðst í gegn.

Svo vil ég líka tala um alþjóðasamskiptin í þessu máli og dómstólaleiðina — ég sé reyndar að ég er að renna út á tíma. En dómstólaleiðin er nokkuð sem hefur líka fengið að ríða hér húsum í dag í mörgum ræðum, sú firra að Íslendingar geti farið dómstólaleiðina í þessu máli. Það er ekki hægt, frú forseti, að fara dómstólaleiðina. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvaða barnaskapur það er að ímynda sér að Bretar og Hollendingar muni einfaldlega fara í röðina hjá Héraðsdómi (Forseti hringir.) Reykjavíkur og bíða prúðir eftir því (Forseti hringir.) að leyst verði úr ágreiningnum þar. Þetta snýst um alþjóðasamskipti og þau eru ekki alltaf sanngjörn og þau eru erfið, (Forseti hringir.) en það er bara svoleiðis.



[18:27]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af því hvernig stjórnarandstöðu við höfum spilað. Við höfum ekki verið að spila stjórnarandstöðu hv. þingmanna Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. Í haust þegar allt hrundi kom þáverandi stjórnarandstaða undir forustu Vinstri grænna og bar fram vantraust á ríkisstjórnina þegar hér var allt í ljósum logum. Við spilum ekki þannig. Við höfum bara verið að hugsa um hagsmuni Íslands og það munum við gera áfram.

Það er alveg rétt að það hefur verið annar tónn núna. Að vísu var alveg sami tónn í sumar, það þurfti mikið til að koma stjórnarliðum til að vinna með okkur í þessu. Stjórnarliðar blésu síðan á þetta allt saman, hentu út öllum fyrirvörunum, lyppuðust niður gagnvart útlendingunum. (Gripið fram í: Ekki öllum fyrirvörunum.) Virðulegi forseti. Allir aðalfyrirvararnir eru farnir, 2024 út, efnahagslegi fyrirvarinn varðandi hagvöxtinn. Og þá segir hæstv. fjármálaráðherra alltaf: Ja, hann er inni nema vextirnir. Vextirnir eru stóra málið. Vextir á ári eru jafnmiklir og rekstrarkostnaður Landspítalans, 30 milljarðar. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, 45 er kallað hér fram í. Ég gerði of lítið úr þessu, ég var að hjálpa ríkisstjórninni enn og aftur.

Auðvitað erum við ekki ein við samningaborðið. Þess vegna hefði verið svo mikilvægt að við hefðum staðið saman, að við værum ekki að rífast hér inni, að við stæðum saman eins og við gerðum í þorskastríðunum, eins og við höfum gert í sjálfstæðisbaráttunni. Við stóðum saman gagnvart ógninni að utan. En ríkisstjórnin hefur farið þá leið að etja mönnum saman, fara í einhverja spunaleiki og aldrei farið rétt með, það hefur þurft að toga allar upplýsingar upp, og núna erum við enn að bíða eftir upplýsingum. En menn ætla að klára þetta á morgun, alveg sama hvað líður staðreyndum (Forseti hringir.) og stöðu mála. Það er það sem er alvarlegt. Við áttum að standa saman en (Forseti hringir.) ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að svo var ekki gert, virðulegi forseti.



[18:30]Útbýting:

[18:30]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Við sem höfum hvað harðast barist gegn Icesave-frumvarpinu, barist gegn því að það verði samþykkt, barist gegn því að komandi kynslóðir þurfi að taka á sig skuldir sem geta engan veginn verið þeirra, höfum oft verið sakaðir um að vera of myrkir í máli. Það hefur verið sagt um okkur að við séum með dómsdagsspár og að það þýði ekkert að vera með þessa neikvæðni. Það er nú samt þannig, virðulegi forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Einn fund í salnum.)

Það er samt þannig, virðulegi forseti, að núna undir það síðasta hafa verið að berast gögn frá ráðgjafarfyrirtækjum og breskum virtum lögmannsstofum sem í rauninni segja að við höfum ekki talað of hart í þessu máli. Við sem höfum barist gegn því hefðum kannski mátt taka sterkar til orða og vara þjóðina enn frekar við því að taka á sig Icesave-samningana.

Ég eyddi ræðu minni í að fara yfir álit frá IFS Greiningu. Það er fyrsta og eina álitið sem hefur verið gert um þá áhættu sem Íslendingar eru að kalla yfir sig en hér hefur verið gert lítið úr þessu áliti. Þingmenn komið fram og sagt: Mitt mat er nú að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Þeir bæta svo um betur og segja um álit Mishcon de Reya: Ja, ég er þeirrar skoðunar að þetta sé bara ekki rétt hjá þeim. Þeir tala um að Icesave-samningarnir séu óskýrir en mér finnst þeir vera skýrir. Reyndar neyddist hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson til þess að viðurkenna að gengisáhættan væri jú töluverð, jafnvel miklu meiri en nokkur maður mundi taka lán út á. Svo minntist hann á að menn vissu ekki hvað kæmi út úr eignum Landsbankans og kannski líka að það ætti eftir að fá úr því skorið hvort Ragnar H. Hall hefði rétt fyrir sér og Bretar eigi ekki að fá greitt úr innstæðutryggingarsjóðnum um leið og Íslendingar. Smáatriði? Það finnst sumum kannski en við skulum aðeins fara yfir þetta tölulega. Gengisáhættan hefur gert það að verkum að Icesave-skuldbindingin hefur hækkað um 53 milljarða á þessu ári, bara gengisáhættan ein og sér. Þá eigum við eftir að tala um þá vexti sem munu alveg 100% lenda á Íslendingum, hinir svokölluðu 45 milljarðar. Fjárlagahallinn var um 100 milljarðar þannig að í dag mætti í raun segja að fjárlagahallinn væri hugsanlega tvöfalt meiri en meiri hluti fjárlaganefndar kynnti hér fyrir um viku síðan og þótti sumum nóg um vegna þess að aldrei fyrr í sögunni hefur halli ríkissjóðs verið jafnsvakalegur.

Hv. þm. Birni Val Gíslasyni finnst lítið til alls þessa koma. Hann segist sjálfur hafa lagt á þetta mat. Þá vil ég minna á að færustu skipstjórar hlusta á veðurfræðingana, jafnvel fiskifræðingana. Þeir hlusta á sérfræðinga sem vara þá við aðsteðjandi hættu, t.d. ef veðurfræðingur kemur með þá spá að von sé á hvassviðri, óveðri, og það sé varasamt að vera á sjónum. En skipstjórar þeirrar skútu sem við köllum í daglegu tali þjóðarskútuna segja við þessa veðurfræðinga: Þið eruð bara rugludallar. Ég met það þannig með því að bleyta fingurinn og reka hann upp í loftið að væntanlega sé ekkert óveður á leiðinni. Ég hef reyndar engin sérstök rök fyrir því en byggi það á tilfinningunni. Það er alveg sama hvaða rök koma fram, hvaða hættur steðja að íslensku þjóðinni, alltaf skal ríkisstjórnin koma með mótrök, einhvern aðkeyptan sérfræðing — best væri að hann væri samfylkingarmaður eða vinstri grænn — sem segir að það leiki vafi á hvort þetta sé rétt. Ef það fæst enginn til þess að koma með gagnstætt álit, af því að menn eru yfirleitt tregir til að leggja æru sína að veði, segja menn bara: Ég held að þetta sé ekki rétt hjá honum, jafnvel þó að aðilinn sé sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Eitt er afar athyglisvert í þessu máli, vegna þess að nú eru það helstu rök stjórnarinnar að Mishcon de Reya, hin virta lögmannsstofa, hafi sagt að það væri ekki víst að Íslendingar mundu vinna hugsanleg málaferli við Breta og Hollendinga. Af því að þeir segja þetta verðum við að samþykkja, vegna þess að við gætum jú tapað og það væri hræðilegt. Þeir gleyma reyndar að geta þess að ekki nokkur lögmannsstofa, hvar sem er í heiminum, mundi segja við kúnnann sinn: Það er 100% víst og öruggt að þú munt vinna þetta mál, jafnvel þó að hún mundi segja: Líkurnar eru með ykkur í málinu. Það er reyndar þannig með álit Mishcon de Reya að þeir segja: Líkurnar eru allar Íslendinga megin, þið hafið bara samið þær flestar frá ykkur. Það er skelfilegt, ég mundi ekki láta nokkurn mann sjá hvernig staðinn hefur verið vörður um íslenska hagsmuni. Ég mundi gæta þess að þið eyðilegðuð ekki orðspor ykkar erlendis með því að sýna hvað þið eruð í rauninni vitlaus, ætla ég að leyfa mér að segja.

Sigurður Líndal lagaprófessor hefur í blaðagrein bent á að það hefði verið best að leysa þetta mál í þjóðréttarsamningum. Hann bendir á að þjóðréttarsamningar séu þannig að erfitt sé að fara með þá í þjóðaratkvæði. En hver hefur verið mesta gagnrýnin á þetta mál? Jú, þetta eru ekki þjóðréttarsamningar. Þetta eru samningar á einkaréttarlegum grunni og úr þeim verður leyst fyrir breskum dómstólum, samkvæmt breskum lögum, þ.e. ef Íslendingar hafa eitthvað við þá að athuga. Ef Bretar hafa eitthvað við þá að athuga geta þeir farið fyrir hvaða dómstól sem er, hvar sem er í heiminum. Þeir geta valið sér réttarfarsreglur og lögin sem á að túlka. Sanngjarnir samningar? Nei, kannski ekki. Það er athyglisvert að Sigurður Líndal segir einmitt í þessu viðtali — það hefur reyndar verið snúið út úr því og sagt að hann sé hálfpartinn að gefa í skyn að Icesave-deilan geti ekki farið í þjóðaratkvæði en ég er allsendis ósammála þeim fréttaskýringum vegna þess að hann segir nefnilega réttilega að Icesave sé einmitt ekki þannig mál og þess vegna heyri það undir aðrar reglur. Þess vegna á að fara með það í þjóðaratkvæði.

Ef við ímyndum okkur að þetta sé alþjóðadeila tveggja aðila erum við að tala um að annars vegar vegast á hagsmunir Íslendinga og hins vegar hagsmunir Breta og Hollendinga. Þannig ganga alþjóðadeilur fyrir sig. Annaðhvort tala menn fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar eða menn tala fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Það er bara þannig ef þetta er alþjóðadeila. Hér hafa stjórnarþingmenn talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Þeir geta svo haft þá skoðun að Íslendingum sé betur borgið með því að ganga algjörlega að hagsmunum Breta og Hollendinga, það er annað mál, en hvernig fá menn það út? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.

Í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar kom fram að nú lægi fyrir að engin hætta væri á því að stjórnarskráin hefði verið brotin. Hann fann það út vegna þess að Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen, Helgi Áss Grétarsson, og svo nefndi hann reyndar Davíð Þór Björgvinsson sem lét að því liggja í tölvupósti í einni eða tveimur línum að hann væri ekki sannfærður um að það væri verið að brjóta stjórnarskrána — en þarna nefndi hann þessa fjóra lögmenn af því að það hentaði og svo felldi hann dóminn: Þar með er útrætt um að stjórnarskráin hefur ekki verið brotin. Af hverju ekki að geta þess í umræðunni, svona til þess að gæta sanngirni, að Ragnar H. Hall, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, Sigurður Líndal lagaprófessor og Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmaður hafa allir komið fram og sagt opinberlega, með rökstuðningi meira að segja, að þeir telji töluverðar líkur á því að verið sé að brjóta stjórnarskrána? Ef við teljum þetta að gamni er staðan 5:4 fyrir þessa aðila. Við getum meira að segja núllað Helga Áss Grétarsson út vegna þess að hann er á háum launum hjá ríkisstjórninni. Það liggur fyrir. Hann hefur fengið greidda um eina milljón kr. fyrir aðstoð sína við gerð Icesave-fyrirvaranna, eða réttara sagt fyrir aðstoð sína við að eyða út þeim fyrirvörum sem Alþingi setti hér í lok ágúst.

Um það deilum við Björn Valur Gíslason ekki, vegna þess að Björn Valur Gíslason viðurkennir fúslega og segir að það sé bara hið besta mál að málið sé komið í hinn upphaflega farveg frá því að málið var lagt fram. Svo koma þingmenn eins og hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir sem segir: Bauð Steingrímur ekki á sínum tíma að stjórnarandstaðan kæmi að málinu? Tveimur dögum áður en hann lagði fram einhvers konar bón — sem ég reyndar fékk aldrei, hvað þá við í fjárlaganefnd — var hann spurður hér á hinu háa Alþingi hvernig gengi með Icesave-samningana. Svarið var eitthvað á þá leið að þetta væri óformlegt en engar formlegar viðræður ættu sér stað. Daginn eftir lágu Icesave-samningarnir fyrir fullbúnir og hann lýsti því yfir að þetta væri glæsileg niðurstaða. Einhver stærstu mistök í íslenskri stjórnmálasögu. Þar liggur kannski hundurinn grafinn vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra hefur varpað allri ábyrgð á núverandi ríkisstjórn. Steingrímur J. hefur kennt Sjálfstæðisflokknum um og þeirri ríkisstjórn sem var, hann nefnir reyndar aldrei Samfylkinguna á nafn en horfir fast í augun á hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvini G. Sigurðssyni. Mér hefur ekki einu sinni dottið í hug, jafnvel þó að ég sé ekki stuðningsmaður þessara flokka, að ganga svo langt að kenna einhverjum um sem á það ekki skilið. Þar liggur hundurinn grafinn, virðulegi forseti. Þegar farið hefur verið yfir málin frá a til ö liggur fyrir að ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni sem nú situr, á ríkisstjórn (Forseti hringir.) Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.



[18:45]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir hans skemmtilegu ræðu hér áðan. Ég neita því ekki að mér finnst oft gaman að hlusta á hann flytja ræður úr þessum stól þó að ég sé sjaldan sammála því sem hann segir eða geti tekið undir þau málefni sem hann flytur, í það minnsta í þessu máli.

Mig langaði að nefna nokkur atriði. Undir lok ræðu sinnar nefndi hv. þingmaður að stjórnarþingmenn hefðu talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli. Virðulegi forseti, það er varla hægt að ganga lengra í að brigsla mönnum um svik við land sitt og þjóð en að saka þá um að ganga erinda annarra þjóða og verja ekki hagsmuni sinnar eigin þjóðar. Mig langar til að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvort það megi lesa úr orðum hans, sem voru þessi nánast óbreytt: Stjórnarþingmenn hafa talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli — hvort hann sé með því að saka stjórnarþingmenn alla, og ef ekki alla þá hvaða stjórnarþingmenn, ráðherra eða ákveðna stjórnarþingmenn um að þeir séu að svíkja land sitt og þjóð með framgöngu sinni í þessu máli. Er hann að brigsla mönnum um landráð?



[18:47]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal endurtaka það sem ég sagði hér rétt áðan. Sigurður Líndal hefur bent á að þetta sé milliríkjadeila. Hann tekur fram að hér sé ekki um innanríkismál að ræða, eins og t.d. fjölmiðlafrumvarpið var og ágreiningur um það, heldur sé þetta milliríkjamál. Þar vegast á hagsmunir Íslendinga og hagsmunir Breta. Þeir sem hafa beitt sér fyrir því að íslenska þjóðin borgi Bretum og Hollendingum í botn og rúmlega það eru að tala fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga. Þetta sagði ég orðrétt. Ég nefndi ekki þau stóru orð sem hv. þingmaður sagði. Ég nefndi líka að það gæti vel verið, og ég vil halda því til haga, að sumir telji að það að ganga algjörlega að hagsmunum Breta og Hollendinga sé hugsanlega betra fyrir íslensku þjóðina. Ég sé þó ekki að það standist þegar farið er yfir gögn málsins.



[18:49]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni svarið við spurningu minni sem hann reyndar svaraði ekki að fullu. Hann svaraði ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hans, hvort hann væri að brigsla stjórnarliðum um landráð eins og mér fannst hann gera þegar hann sagði orðrétt að stjórnarliðar hefðu talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli. Mér finnst mjög alvarlegt ef svo er og ég hvet hann til þess að sýna þann manndóm, það þarf ekki mikið til þess, að koma hingað upp og í það minnsta draga í land með þessi orð eða biðjast afsökunar á þeim eða standa þá við þau ef það er meining hans með þessum orðum.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði líka áðan að álit IFS Greiningar væri fyrsta og eina álitið sem tæki á áhættunni sem fylgir samningunum. Ég fletti nú bara í gögnum mínum sem ég hef hér á borðinu. Þar er ég með gögn sem taka á þessu máli sömuleiðis og hv. þingmanni á að vera fullkunnugt um, t.d. frá Seðlabankanum 21. október, 14. nóvember, 18. desember, 11. desember o.s.frv. Þau hafa öll verið lögð fram í fjárlaganefnd þar sem hv. þingmaður á sæti ásamt mér. Þessi gögn hafa verið þar til umræðu allan þennan tíma, hvert einasta. Áhættugreining frá IFS, jafnágæt og hún kann að vera, er því langt frá því að vera fyrsta og eina áhættugreiningin á þessum samningum sem við erum vonandi að fara að greiða atkvæði um og samþykkja á morgun. Ég skil ekki þennan málflutning að hv. þingmaður skuli halda því hreinlega fram, því að það eru fleiri gögn en frá Seðlabankanum. Ég minni á gögn frá Hagfræðistofnun, fjármálaráðuneytinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Gripið fram í.) sem liggja frammi og hafa legið frammi á borðum hjá fjárlaganefnd vikum og mánuðum saman. Ég vona að það sé ekki vegna þess að hv. þingmaður hafi ekki lesið (Forseti hringir.) þau gögn sem þar hafa legið frammi því að oft má ætla það af málflutningi hans. Þar má þau finna samt sem áður.



[18:51]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrir það fyrsta stend ég við það sem ég sagði áðan. Menn verða svo bara að túlka það eins og þeir vilja. Ég held reyndar að þetta sé mjög skýrt og það þurfi ekki að túlka það sérstaklega ofan í þingmanninn.

Varðandi gengisáhættuna skal ég fallast á, hv. þingmaður, að ég hefði mátt orða það betur. Vandamálið er að gjaldeyrisáhættan, eins og kemur mjög skýrt fram í áliti IFS, varð mönnum ekki ljós fyrr en seint á haustmánuðum. Það er alveg rétt — ég er að segja að það hafa komið fram álit á undanförnum vikum, hv. þingmaður. (BVG: 18. desember.) 18. desember, kallar hv. þm. Björn Valur Gíslason fram í, það er varla vika síðan við fengum gögn um gengisáhættuna í málinu. Það eru ekki vikur eða mánuðir síðan. (BVG: 14. nóvember.) Við erum að tala um hagsmuni upp á tugi milljarða. Svo spyrja menn sig af hverju við höfum staðið hér upp á endann og harðlega gagnrýnt þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð í þessu máli. Gengisáhættan í málinu hefur kostað Íslendinga 53 milljarða á þessu ári. Hvað segir Seðlabankinn sem fékkst loksins í síðustu viku til þess að segja okkur sannleikann í málinu um að skuldastaðan væri yfir 320%? Jú, vandamálið er bara að það skiptir engu máli hvað við segjum, það skiptir engu máli hvaða gögn komu fram. Hv. þm. Björn Valur Gíslason ráðlagði fjárlaganefndarmönnum utan af sjó nú um mitt sumar að hætta þessu karpi.



[18:53]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sé á mælendaskránni að hún er að styttast og tíminn styttist um leið þar til við förum að greiða atkvæði í atkvæðagreiðslu sem hefur verið boðuð á morgun í kringum hádegi. Eftir situr samt sú spurning sem ekki hefur enn þá verið svarað og tengist þeim gögnum sem fjárlaganefnd og m.a. hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur beðið hæstv. fjármálaráðherra að afla, gögnum sem lögmannsstofan Mishcon de Reya á greinilega að hafa sett fram og lagt fyrir ríkisstjórnina. Ég vil gjarnan fá að vita hvar þetta mál er statt, hvort fjárlaganefnd hafi verið boðuð á fund vegna þessara gagna. Ég tel mikilvægt að áður en þessari umræðu er lokið og dagskrá hefur verið tæmd fáum við og okkar fólk í fjárlaganefnd að vita stöðu þessa máls, að við fáum að vita hvort fjármálaráðherra hafi skilað því í tíma og hvernig sú staða er. (Forseti hringir.) Mér þætti gott að fá þær upplýsingar og væri þakklát því.



[18:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það hefur verið beðið eftir þessum upplýsingum mjög lengi og þetta er búin að vera nógu mikil píslarganga, málið og málsmeðferðin öll. Ef menn ætla ekki að koma fram með þessi gögn, sem eru svo sannarlega til, fyrr en búið er að tæma mælendaskrána er það vægast sagt mjög óeðlilegt. Ég legg því til, virðulegi forseti, að forseti kanni hvar þetta mál er statt. Það er þá hægt að gera stutt hlé á fundi, okkur munar ekkert um að vera hér örlítið lengur. Það er enginn bragur á því og í rauninni mjög alvarlegt mál ef menn eru ekki enn þá komnir með þessi gögn í hendurnar. Við erum búin að bíða eftir þessu ekki bara svo dögum skiptir, í rauninni höfum við (Forseti hringir.) beðið eftir þessu frá því í vor. Ef menn hefðu vitað af þessum gögnum í vor hefðu menn örugglega kallað eftir þeim.



[18:56]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur verið spurt um hugsanleg gögn sem kunni að vera á sveimi og ættu að vera komin í hendur á stjórnarandstöðunni og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur beðið um í þessum ræðustól, ef ég man rétt. Mér vitanlega var einhverjum gögnum safnað saman sem fundust þessu máli tengd, eftir því sem mér skilst. Ég veit ekki alveg hvað er í þeim gögnum en þau komust í hendur á hv. þingmanni fyrr í dag og ég held að hann hafi verið að fara yfir þau og lesa. Hann lætur samflokksmenn sína og aðra þingmenn örugglega vita af því ef í þeim er eitthvað að finna sem hann telur málsins vert.

Að öðru leyti get ég upplýst að þessi merka lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hefur óskað eftir því að leitað verði eftir gögnum, ef þau kunna að finnast þar frekar. Ég veit ekki hvort það þarf að brjóta upp gólfið á lögfræðiskrifstofunni til að leita að þeim eða hvar þau eru en það hefur verið óskað eftir því og þau hljóta þá að berast ef þau eru til.



[18:57]
Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Auðvitað er eðlilegt þegar við ræðum málið á síðustu stigum í 3. umr. að hinkrað sé við þannig að hægt verði að sjá hvort þau gögn sem um er að ræða skipti máli í þessu sambandi og það verði leitað eftir upplýsingum um það. Nú vitum við þingmenn sem hér erum staddir í þingsalnum ekki hvort einstökum þingmönnum hafa borist skilaboð um það en það er eðlilegt að þetta sé upplýst. Ég teldi reyndar eðlilegt, ef þetta eru gögn sem menn telja að skipti máli, að fjárlaganefnd fengi það hlutverk að fjalla um þau, að sú nefnd sem hefur fjallað um þetta mál undanfarið hálft ár tæki það til meðferðar á fundi og mæti í sameiningu hvort ástæða væri til þess að breyta stefnu málsins með einhverjum hætti. (Forseti hringir.) Að minnsta kosti er ótækt að upplýsingar liggi fyrir um einhver gögn sem ekki eru komin fram áður en umræðunni lýkur.



[18:59]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur auðvitað verið farið yfir marga þætti þessa máls í þeim umræðum sem hafa átt sér stað hér við 3. umr. Ég hef saknað þess að ekki hafi gefist meiri tími í þessari umræðu til að fjalla um einstaka þætti málsins, einstaka liði, því mjög mikið hefur komið fram af upplýsingum, m.a. milli 2. og 3. umr., sem ekki hafa verið ræddar hér nægilega ítarlega vegna þess að tilgangur umræðna í þinginu hlýtur auðvitað að vera rökræður um atriði sem kunna að skipta máli fyrir niðurstöðu málsins. Ég tel að í þessu máli hafi komið fram gögn sem vissulega skipta máli í því sambandi.

Ég hef m.a. saknað þess að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki farið efnislega í umræðuna af meiri krafti en raun ber vitni. Þeir hafa vissulega tekið meiri þátt í 3. umr. en 2. umr. og er það vel. Þetta á auðvitað að vera rökræða þannig að menn eiga að geta skipst á skoðunum. Hins vegar hafa hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þrátt fyrir þátttöku sína ekki farið mjög mikið út í einstök efnisatriði sem eru þó það sem við ræðum um.

Það er rétt að rifja upp og hafa í huga, án þess að ég ætli að fara í sögulega yfirferð, að í upphafi var málið í þeirri stöðu að fjármálaráðherra kom til þingsins og óskaði eftir óskilyrtri heimild til að veita ríkisábyrgð vegna þeirra samninga sem gerðir voru 5. júní við Hollendinga og Breta, skilyrðislausri ríkisábyrgð á þeim samningum sem þá lágu fyrir. Þegar í ljós kom að ekki var meiri hluti í þinginu fyrir því að veita slíka skilyrðislausa ríkisábyrgð tóku menn úr mörgum flokkum höndum saman og unnu saman að því að búa til það sem við höfum í þessari umræðu kallað fyrirvara eða skilmála, skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Það réð niðurstöðunni og má fullyrða að frumvarpið sem hér var til meðferðar í sumar hefði aldrei verið samþykkt ef þessir fyrirvarar hefðu ekki verið inni, það hefði ekki náð fram að ganga, ég held að það megi fullyrða það.

Það sem gerist í kjölfarið er að fram kemur að Bretar og Hollendingar geta ekki sætt sig við fyrirvarana eins og Alþingi setur þá fram og málið tekur að nokkru leyti nýja stefnu og fram er lagt nýtt frumvarp sem felur í sér verulegar breytingar á framsetningu og efni þeirra fyrirvara sem Alþingi samþykkti í lok ágúst. Helsta verkefni okkar hér í 3. umr., fyrir utan það að ræða málið almennt og réttmæti þess að veita ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga og annað þess háttar, er kannski að miklu leyti fólgið í því að meta hvort fyrirvararnir sem settir voru og fengu meirihlutastuðning hér á Alþingi í lok ágúst eru með nægilegum hætti tryggðir áfram í því frumvarpi sem nú liggur fyrir. Þetta skiptir máli vegna þess að skýrt kom fram við umræðuna í sumar að mjög margir þingmenn tengdu stuðning sinn við málið einkum þessum fyrirvörum. Skýrar yfirlýsingar komu um það frá einstökum þingmönnum, ég minnist sérstaklega yfirlýsinga ákveðinna þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem gáfu það mjög skýrt til kynna og sögðu beint út bæði hér í þingsölum og í fjölmiðlum að þeir gætu ekki stutt frumvarpið nema vegna þess að fyrirvararnir væru komnir inn.

Þessir fyrirvarar eru því auðvitað mjög mikilvægir, en þegar við skoðum hvernig fyrir þeim hefur farið, þá er alveg ljóst að þeir hafa breyst verulega en það er álitamál að hve miklu leyti þeir halda gildi sínu. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum fært fyrir því mörg og ítarleg rök að fyrirvararnir séu í mörgum mikilvægum atriðum ekki lengur sú trygging sem þeim var ætlað að vera og hafa auðvitað verið, sérstaklega þegar við vorum að ræða málið hér við 1. og reyndar 2. umr. líka, eitt helsta umræðuefnið. Hins vegar hafa ríkisstjórnarflokkarnir komið fram með afskaplega fátt til að styðja það sem þeir hafa haldið fram, að fyrirvararnir séu allir meira og minna í gildi. Ég ætla að víkja nokkrum orðum að þessu í þessari ræðu svona kannski sem viðleitni til að færa með mínu litla framlagi umræðuna að þessum þáttum og ég ætla að rifja upp nokkra af þessum fyrirvörum og velta fyrir mér hvernig fyrir þeim er komið.

Við getum skipt fyrirvörunum í tvennt, efnahagslega fyrirvara og lagalega fyrirvara. Ég ætla fyrst að víkja örfáum orðum að efnahagslegu fyrirvörunum. Aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa reyndar gert þeim ítarleg skil en til þess að gera langa sögu stutta er tvennt í sambandi við efnahagslegu fyrirvarana sem er augljóslega horfið og í sjálfu sér er ekki ágreiningur um að það sé horfið. Í frumvarpinu sem varð að lögum 28. ágúst kom skýrt fram að ríkisábyrgðin takmarkaðist við tímasetninguna 2024, það var skýrt. Slík tímamörk eru ekki fyrir hendi í dag heldur framlengist samningurinn sjálfkrafa eftir ákveðnum reglum og þar með er þessi endapunktur á ríkisábyrgðinni horfinn. Þetta er ljóst og um þetta er ekki ágreiningur.

Skiptir þetta máli? Já, þetta getur skipt heilmiklu máli. Það er hægt að reikna sig í þá niðurstöðu að Icesave-skuldbindingin verði að fullu greidd 2024, en það er líka hægt að reikna sig í það að hún nái allt til 2044 eða jafnvel lengur. Ég minnist þess að hafa einmitt séð tímasetninguna 2044 í áliti IFS Greiningar sem vísað var til nú fyrr í þessari umræðu. Því er ljóst að endapunktur ríkisábyrgðarinnar 2024 er horfinn.

Í öðru lagi varðandi efnahagslega fyrirvara þá var mikið upp úr því lagt og töluverð vinna lögð í það, sérstaklega af hálfu nefndarmanna í fjárlaganefnd og reyndar nefndarmanna úr efnahags- og skattanefnd líka, að móta fyrirvara sem ættu að tryggja það að greiðslur Íslendinga yrðu alltaf viðráðanlegar miðað við stöðu efnahagsmála hér á landi. Í því fólst að sett var ákveðið greiðsluþak, 4% til Breta og 2% til Hollendinga, af vexti landsframleiðslu eftir ákveðnum reiknireglum sem ég er ekki manna bestur til að fara út í. Þessi fyrirvari hefur náð inn í viðaukasamningana í mjög svo veiktri mynd, getum við sagt. Hann er vissulega þarna fyrir hendi, það er greiðsluhámark inni í viðaukasamningunum en það sem hefur breyst er að nú er komið ákvæði um það að burt séð frá þessu greiðsluhámarki og þar með burt séð frá vexti landsframleiðslu á viðmiðunartímabilunum er alltaf gert ráð fyrir að vextir séu greiddir.

Þarna er verulegur munur á. Sé miðað við þá reglu sem samþykkt var hér í sumar var mjög auðveldlega hægt að reikna sig í þá stöðu ef hér yrði lítill sem enginn hagvöxtur, að við greiddum lítið sem ekkert ef staða efnahagsmála væri slæm á Íslandi og ef við lentum í langvarandi alvarlegri kreppu mundum við ekki greiða neitt á meðan sú staða væri uppi. Samkvæmt breytingunni er vissulega tekið tillit til þess þegar kemur að greiðslum á höfuðstólnum en þegar horft er til vaxtanna skipta vöxtur landsframleiðslunnar eða samdráttur ekki máli, hvernig sem efnahagsmálin þróast hér verður alltaf um vaxtagreiðslur að ræða.

Vextir eru engin aukastærð í þessu sambandi því ljóst er miðað við öll þau gögn sem komið hafa fram í málinu að vaxtakostnaður verður verulegur. Þegar við verðum í þeirri stöðu árið 2016 að þurfa að byrja að greiða verða miklir uppsafnaðir vextir sem halda áfram að hlaða á sig vöxtum sem þarf að greiða. Enginn veit með vissu hversu háar þessar upphæðir verða en ég held að óhætt sé að fullyrða að þarna verði jafnvel um tugi milljarða að ræða á hverju einasta ári. Ég held að ekki sé óvarlegt að ætla það miðað við þau gögn sem liggja fyrir, tugir milljarða. Menn hafa reiknað það með mismunandi hætti og komið fram með mismunandi sjónarmið en alla vega fara tugir milljarða í vaxtagreiðslur þannig að þetta verður tilfinnanlegt. Ef við borgum bara vextina gengur náttúrlega ekkert á höfuðstólinn þannig að samspil þessara tveggja þátta getur leitt til þess að mjög lengist í lánunum og þarna verði um að ræða þungbæra, efnahagslega byrði fyrir okkur til langs tíma. Við skulum hafa í huga að báðir þessir efnahagslegu fyrirvarar voru auðvitað hugsaðir sem öryggisventlar og ég sé ekki betur en að þessir tveir mikilvægu öryggisventlar hafi verið teknir úr sambandi, a.m.k. mikið veiktir.

Svipuð sjónarmið eiga að mínu mati við um lagalegu fyrirvarana. Þeir eru af margvíslegu tagi, sumir eru raunhæfir og skipta máli, aðrir skipta minna máli. Ég held að óhætt sé að fullyrða að svokallaður Ragnars H. Halls-fyrirvari sé kannski mikilvægastur þegar við horfum til þess að meta þetta í krónum og aurum vegna þess að það getur skipt mjög miklu máli hvernig reglur verða fyrir hendi við úthlutun úr þrotabúi Landsbankans, það getur skipt gríðarlegu máli svo nemur jafnvel hundruðum milljarða. Ekkert sem komið hefur fram í þessu máli frá því að það var lagt fram í október hefur hrakið það mat Ragnars H. Halls hæstaréttarlögmanns, sem fyrstur manna benti á þetta vandamál og lagði fram ákveðnar lausnir í því sambandi en vill reyndar sjálfur víkjast undan þeim heiðri að eiga fyrirvarann að öllu leyti, að fyrirvarinn sem við hann var kenndur hafi verið tættur niður. Ekkert hefur komið fram sem hrekur það. Þannig fór með þann mikilvæga fyrirvara.

Varðandi þann lagalega fyrirvara sem greina má í 2. gr. frumvarpsins má deila að verulegu leyti um hvort hann skipti máli þegar til kastanna kemur, hvort hann hafi mikla þýðingu. Það verður að hafa í huga að hann byggir á mörgum fyrirvörum sem inn í hann eru byggðir og eru orðin „ef“ og „ef eitthvað færi með þessum hætti kynni þetta að vera svona o.s.frv.“ mikið notuð, hv. þingmenn þekkja þetta. Engu að síður er fyrirvarinn þarna en ef á hann reynir hefur hann ekki raunverulegt lagalegt gildi, ekki raunveruleg réttaráhrif, önnur en þau að Alþingi áskilur sér rétt til þess að Ísland óski eftir viðræðum við Breta og Hollendinga en ekkert í samningunum gerir það að verkum að Hollendingum og Bretum sé skylt að taka þátt í þeim viðræðum. Það er nú allur fyrirvarinn sem í því felst.

Í gömlu lögunum frá því í lok ágúst var þó fyrir hendi ákvæði sem áskildi Íslendingum rétt til þess að endurskoða ríkisábyrgðina, taka hana upp og breyta henni eða fella hana niður ef upp kæmu þau atvik sem 2. gr. vísar til, en það er líka horfið. (Forseti hringir.) Fleiri atriði mætti nefna, ég hef ekki tök á því að gera það í þessari ræðu en fæ það væntanlega síðar við þessa umræðu. Það sem skiptir höfuðmáli á þessari stundu er að fyrirvararnir sem lagt var upp með og lögð þessi mikla áhersla á í sumar eru lítilvægir (Forseti hringir.) í dag, hafa litla þýðingu og munu veita okkur litla vernd.



[19:14]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kunnara en frá þarf að segja að okkur greinir nokkuð á um meðhöndlun fyrirvaranna og túlkun á þeim, m.a. hvað varðar endapunktinn meinta sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa haldið fram að hafi falist í fyrirvörunum og að ábyrgðin hafi átt að falla niður 2024. Um leið túlka þeir fyrirvarana með þeim hætti að við tilteknar aðstæður gæti farið svo að hvorki komi til greiðslu nokkurra vaxta né nokkurrar krónu af höfuðstólnum. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort honum sé alvara með þeirri túlkun að hægt sé í máli sem þessu að semja við gagnaðilana um lyktir málsins með þeim möguleika að aldrei verði greitt neitt, hvorki af höfuðstól né vöxtum. Eða þykir hv. þingmanni ekki að ætla megi að nauðsynlegt sé að standa skil á einhverju til gagnaðilanna til að ljúka þessum málum?



[19:16]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom nokkuð að kjarna málsins. Ég segi það sem svar við þessari spurningu, svo ég noti bara það orðalag sem er notað í frumvarpstextanum sjálfum, að fullkomin óvissa er um hvaða skuldbindingar hér er um að ræða eða hvort um er að ræða skuldbindingar sem bindi Ísland að lögum til þess að greiða eitthvað til Breta og Hollendinga. Það er bara alls ekki klárt. Það er klárt að Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sem er sjálfseignarstofnun, ber ábyrgð á þeim greiðslum eftir því sem hann hefur magn til en það er líka klárt að ekkert í lögum kveður á um ríkisábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og alveg ljóst að Landsbanki Íslands hf. starfaði ekki undir ríkisábyrgð.



[19:17]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nokkuð fróðleg umræða því að ég átti orðastað við samflokksmann hv. þingmanns hér fyrr í dag um hans mat á því á hverju við Íslendingar þyrftum að standa skil. Það var enginn ágreiningur um að til þess að ljúka málinu farsællega þyrftum við að standa skil á höfuðstólnum og sömuleiðis þyrftum við að standa skil á vöxtunum. Sá hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins var ósáttur við vaxtaprósentuna og hefði viljað hafa hana annars konar, sem og hafa samninginn þjóðréttarlegs eðlis en ekki einkaréttarlegs eðlis og hafði ýmsar aðrar athugasemdir við samninginn.

Ég er að reyna að átta mig á því, virðulegur forseti, og lái mér hver sem vill, hver sé skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu efni. Er það skoðun þeirra að til þess að ljúka þessu máli þurfum við að standa skil á þeim höfuðstóli sem lýtur að lágmarksinnstæðutryggingunum og auk þess væntanlega einhverju vaxtaendurgjaldi á þeim tíma sem við fáum við ráðið? Eða er það skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að við eigum ekki að borga neitt og bara að skella í lás?



[19:18]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja mig um lagalega ábyrgð er ég þeirrar skoðunar að ekki sé fyrir hendi lagaleg skuldbinding sem geri að verkum að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Það er mín persónulega skoðun og ég minni á að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum í ferli þessa máls stundum komist að ólíkum niðurstöðum. Til dæmis greiddi ég atkvæði gegn frumvarpinu í sumar 28. ágúst á meðan mjög margir flokksfélagar mínir sátu hjá vegna þess að þeir töldu að þeir fyrirvarar sem þarna voru komnir inn gerðu málið svo miklu betra en það var í upphafi að þeim fannst óviðeigandi að greiða atkvæði gegn því. Ég var ósammála því og hef hugsanlega aðra sýn á þessi mál en ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Við getum verið sammála t.d. varðandi það frumvarp sem nú liggur fyrir að við eigum að segja nei en við getum komist að þeirri niðurstöðu með mismunandi hætti á mismunandi forsendum. Enginn hefur þó sýnt mér fram á það með skýrum lögfræðilegum hætti að íslenska ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða beri ábyrgð á skuldum Landsbanka Íslands. Síðan getum við verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt, þegar jafnóvenjulegar og afbrigðilegar aðstæður koma upp eins og síðasta haust, að reynt sé að fara samningaleið, að það sé reynt að gera samninga til þess að greiða fyrir úrlausn þeirra mála sem þarna koma upp. Það felur þó ekki í sér að menn samþykki hvaða samninga sem er.