138. löggjafarþing — 69. fundur
 8. janúar 2010.
þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 352. mál. — Þskj. 632.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[19:41]

Frv.  samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsbÓ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BÁ,  BirgJ,  BjarnB,  BjörgvS,  EKG,  EyH,  GuðbH,  GLG,  GÞÞ,  GStein,  GBS,  HHj,  IllG,  JóhS,  JBjarn,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  LRM,  LMós,  MSch,  ÓÞ,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SII,  SF,  SkH,  SVÓ,  SSv,  UBK,  VBj,  VigH,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
14 þm. (ÁJ,  BJJ,  BVG,  HöskÞ,  JónG,  KLM,  MT,  OH,  SER,  SIJ,  SJS,  TÞH,  ÞSa,  ÞrB) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[19:39]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vek athygli þingheims á því að það er brotið í blað hér í dag. Í fyrsta sinn í sögunni samþykkir Alþingi Íslendinga lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þverpólitísk samstaða um það í þessum sal að sameinast um þessi lög og ég fagna því að sjálfsögðu en um leið vænti ég þess að sú samstaða sem hér birtist í afgreiðslu þessa máls muni birtast þegar við ræðum stjórnarfrumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem núna er til meðferðar í allsherjarnefnd og verður væntanlega tekið út á vormánuðum. Vonandi getum við orðið eins og aðrar þjóðir sem beita gjarnan þjóðaratkvæðagreiðslum, að í stórum og mikilvægum málum í framtíðinni útkljáum við ágreiningsefni í þjóðaratkvæðagreiðslum í mun meira og ríkara mæli en við gerum í dag.



[19:40]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vek jafnframt athygli á því að það sem gerðist hérna 5. janúar er fordæmisgefandi og ætti að vera hvatning til þess að þau frumvörp sem liggja fyrir í allsherjarnefnd um þjóðaratkvæðagreiðslur verði meðhöndluð þannig að þjóðin geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum aftur. Það er það sem gerðist hér í dag. Ég skora á alla þingmenn að leyfa þjóðinni að fá að hafa eitthvað um sín mál að segja.

Það eina sem mér fannst kannski svolítið leiðinlegt og það hefur eiginlega ekkert að gera með hv. þingmenn hérna, er hvað textinn í þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur er ömurlegur. Þessi spurning er svo óskýr og ég sá í sjónvarpinu að þetta sprengir alla skala í málfari og málskilningi. Það hefði verið ágætt ef það hefði verið hægt að hafa textann á mannamáli líka.