138. löggjafarþing — 75. fundur
 16. feb. 2010.
búferlaflutningar af landinu.

[13:46]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hagstofan flytur okkur fréttir af því að samkvæmt skráningum hennar hafi 4.835 fleiri flutt frá landinu árið 2009 en til landsins og samkvæmt fréttum hafa aldrei áður jafnmargir flutt frá landinu á einu ári. Næstflestir brottfluttir munu hafa verið árið 1887. Af þessu hef ég miklar áhyggjur sem og væntanlega flestallir sem búa hér á landi enda er ungt fólk áberandi í þessum hópi, en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru flestir brottfluttra á aldrinum 25–29 ára. Það kemur fram á vefmiðlinum Pressunni í viðtali við Ólaf Ísleifsson, sem er lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, að hann lýsi þungum áhyggjum af þessu og hann segir þar, með leyfi forseta: „Flóttinn sýnir að fólk sættir sig ekki við þau lífskjör og efnahagsskilyrði sem hér eru í boði. Þetta kallast að greiða atkvæði með fótunum.“

Ég hef þungar áhyggjur af þessu og mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra: Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að sporna gegn þessum landflótta og er það álit hæstv. forsætisráðherra að hér sé brostinn á landflótti? Nú er það svo að áður hefur verið rætt um þetta mál í þingsal og lofað ýmsum aðgerðum, talað hefur verið um skjaldborg fyrir heimilin. Samkvæmt könnun ASÍ telja 90% heimila á Íslandi sig ekki kannast við þá skjaldborg og ég spyr: Er þessi skjaldborg væntanleg? Jafnframt spyr ég: Eru einhverjar líkur til þess að ríkisstjórnin fari að vinna að því að skapa þær aðstæður að hér verði til fleiri störf þannig að við náum að stöðva þennan landflótta?



[13:48]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hef sannarlega tekið eftir þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi varðandi búferlaflutninga en það skiptir líka máli að greina þá rétt. Það er vissulega rétt að talan er rúmlega 4.800 þar sem fleiri hafa farið frá landinu en til landsins en við verðum líka að athuga að um helmingur þeirra eru útlendingar og atvinnulífið hefur byggst mikið á útlendingum (Gripið fram í.) á undanförnum árum. Ef við tölum um að þessi 4.800 séu um 1,5% af mannfjöldanum eru þarna um 0,7% útlendingar sem hverfa til síns heima. Engu að síður er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun og ríkisstjórnin vinnur allt hvað hún getur til að koma í veg fyrir það að Íslendingar sjái ástæðu til að flytja héðan búferlum.

Ég minni á, af því að hv. þingmaður spyr hvað sé verið að gera, að á síðasta ríkisstjórnarfundi var kynnt ítarleg áætlun um ýmiss konar framkvæmdir til að skapa störf. Ég er alveg sannfærð um að hún mun geta snúið þessari þróun við og sem betur fer sjáum við minna atvinnuleysi núna en spáð var og það er auðvitað jákvætt. En það skiptir máli að við vinnum áfram í þessari uppbyggingu til að skapa hagvöxt og það er mjög mikilvægt að við náum til lands í ýmsum þeim málum sem við höfum verið að vinna með eins og efnahagsáætlunina og lendingu í Icesave-málinu. Ef það gerist ekki erum við að tala um 2–2,5% meiri samdrátt í hagkerfinu, það þýðir tekjutap fyrir þjóðarbúið upp á 35–40 milljarða og það munar um minna. Við verðum að muna að hvert prósent í hagvexti skilar okkur 15 milljörðum og því er mjög mikilvægt að geta drifið hagkerfið áfram og keyrt áfram þá atvinnuuppbyggingu sem við höfum lagt grunn að.



[13:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þá hefur það verið skýrt að hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af þessu og ríkisstjórnin er að ræða málin. Það er ár síðan flokkur hæstv. forsætisráðherra tók við stjórnartaumunum og átti að hafa svo mikið verkstjórnarvit, meira en nokkurn tíma hefði þekkst áður í landinu miðað við það sem fjallað var um í fjölmiðlum. Þess vegna finnst mér skjóta svolítið skökku við að ekki hafi komið fram skýrari svör við því til hvaða aðgerða á að grípa.

Nú er það svo að sjávarútveginum eru búin þau skilyrði að um framtíð hans ríkir óvissa vegna hugmynda ríkisstjórnarflokkanna um fyrningarleiðina. Af hálfu hæstv. umhverfisráðherra er verið að sporna við því að aflað verði meiri orku með dæmalausum ákvörðunum varðandi virkjanir og aðalskipulag vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Við verðum og sérstaklega þeir sem bera þá ábyrgð að sitja í ríkisstjórn að veita fólki von (Forseti hringir.) um það að við völd sé fólk sem hefur kjark til að skapa þannig aðstæður að fólk vilji og geti verið hér áfram og þar er það atvinnan sem skiptir mestu máli.



[13:51]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála síðustu orðum hv. þingmanns að það er atvinnan sem skiptir máli, enda hefur ríkisstjórnin, ef horft er af sanngirni á málið, verið að vinna í því. Hér var nefndur sjávarútvegurinn og fyrningarleiðin og það sem menn eru að skoða í því sambandi er að reyna að ná sátt í því máli. Ég geri auðvitað kröfu til þess að hv. þingmaður, sem spyr um atvinnu og atvinnuuppbyggingu, hafi kynnt sér hvað var á borðum ríkisstjórnarinnar fyrir helgi þar sem kynnt voru mjög fjölbreytt störf sem við erum að vinna að að komi til framkvæmda. Þar kom m.a. fram að í marsmánuði var sett fram áætlun um 4.000 störf og þegar eru 2.350 af þeim komin til framkvæmda. Kynnt voru ýmis störf við uppbyggingu í ferðamannaiðnaði sem á að skila á verulegum fjölda starfa og 500–700 millj. inn í hagkerfið. Þar voru kynntar undirbúningsframkvæmdir sem við erum að vinna að við Búðarhálsvirkjun, stofnun fjárfestingarsjóða til að auðvelda fjármögnun (Forseti hringir.) nýsköpunar- og sprotafyrirtækja o.s.frv. o.s.frv. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þetta, þannig að hún geti rætt þetta mál (Forseti hringir.) út frá þeim staðreyndum sem ríkisstjórnin er að vinna að.