138. löggjafarþing — 75. fundur
 16. feb. 2010.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
stjfrv., 370. mál (strandveiðar). — Þskj. 667.

[15:52]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli þá fyrst fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116 frá 2006, um stjórn fiskveiða, sem tekur til strandveiða. Um er að ræða 370. mál þingsins.

Eins og kom fram hjá hæstv. forseta hafði hún gert ráð fyrir að tvö frumvörp yrðu rædd saman, annað um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem lýtur að strandveiðum, og hitt um breytingu á lögum um veiðieftirlitsgjald, sem lýtur einmitt að sömu lögum en þar sem ekki hefur verið fallist á það, mun ég fyrst mæla fyrir frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.

Eins og kunnugt er hófust strandveiðar í lok júní 2009 eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 66/2009, um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Það sem um var að ræða nýjan flokk veiða voru reglur og skilyrði þeirra sett til eins árs. Boðað var að á grunni reynslu og lærdóms sem draga mætti af strandveiðunum yrði sú reynsla metin. Í þessum tilgangi var Háskólasetur Vestfjarða fengið til að hafa yfirumsjón með og gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna. Úttektin var framkvæmd á tímabilinu september til desember og komu fimm þekkingar- og fræðslumiðstöðvar á landsbyggðinni ásamt háskólasetrinu að úttektinni. Samanlagður fjöldi sem tók þátt í úttektinni telur yfir 300 manns. Í heild er það niðurstaðan að strandveiðarnar hafi gengið vel, þó svo að aflabrögð hafi verið misgóð og afrakstur ólíkur á svæðunum fjórum.

Frú forseti. Ég vil benda á þessa ágætu skýrslu sem heitir Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009 og unnin er af Háskólasetri Vestfjarða eins og ég gat um áðan. Skýrslan er á vef ráðuneytisins og lítur út eins og ég hef lýst. Ég bendi hv. þingmönnum á þessa ágætu skýrslu, sem er bæði mjög vel unnin og þar kemur margt fram sem lýtur að þessum veiðum og hvernig þar tókst til.

Eins og þar segir var landinu skipt í svæði og veiðarnar komu best út á svæði A, frá Eyja- og Miklaholtshreppi eða frá sunnanverðu Snæfellsnesi að Skagabyggð. Svæði C var Þingeyjarsveit að Djúpavogshreppi, en lakari útkoma var fyrir svæði B, sveitarfélagið Skagafjörð að Grýtubakkahreppi og fyrir D, Hornafjörð að Borgarbyggð. Mikil ánægja er meðal strandveiðimanna með veiðarnar og fyrirkomulag þeirra og kemur það mjög vel fram í þessari skýrslu. Styðja þeir langflestir að haldið verði áfram með þær, þó að tilfinningar séu að vísu blendnari meðal annarra hagsmunaaðila sem þarna áttu beinan hlut að máli í veiðum. Er þó mikill meiri hluti á því að strandveiðarnar geti verið leið til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins.

Mat skýrsluhöfunda er að markmiðin með veiðunum hafi að miklu leyti náðst. Það er þó sett fram með þeim fyrirvara að markmiðin voru ekki talin nægilega skýrt tilgreind eða sett fram með ákveðin viðmið. Upp úr standa markmiðin um að gefa fleiri en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum í atvinnuskyni, nýliðum, og að auðvelda fólki að afla sér reynslu og þekkingar. Nýliðar voru 20% í hópi þeirra útgerðarmanna sem svöruðu könnun vegna skýrslunnar, að auki má búast við að margir nýliðar hafi verið í hópi þeirra 150 einstaklinga sem auk útgerðaraðila skipuðu áhafnir strandveiðibátanna.

Leyfin til veiðanna söfnuðust ekki á fárra hendur og flestir sem komu að veiðunum voru minni útgerðaraðilar sem töldu sig hafa fengið frá nokkur hundruð þúsund krónum úr veiðunum og upp í milljón. Aflaverðmæti meðalbáts var um 1.550 þús. kr. Aflaverðmæti á bát var mest á svæði C, eða 2,2 millj. kr., en næst kom svæði A með 1,8 milljónir.

Veiðarnar náðu því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir og styrkja þær. Áhrif á samfélög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð, en ekki er eins augljóst hversu miklu máli veiðarnar hafa skipt fyrir atvinnulífið í heild sinni en þó var það marktækt á ákveðnum stöðum.

Niðurstaða úttektarinnar er sú að margt er hægt að læra af þessari frumraun strandveiðanna. Um fyrirkomulag veiðanna virðist að mestu vera sátt en svæðaskipting og löng tímabil eru atriði sem vert er að skoða betur. Markmiðinu með veiðunum þarf að huga betur að og skilgreina þarf ákveðin viðmið, sérstaklega á þetta við um markmiðin um nýliðun og samfélagsleg og hagræn áhrif veiðanna á dreifðar sjávarbyggðir landsins. Með því eru einnig töluvert meiri líkur á að sátt skapist um strandveiðarnar.

Ég held samt að ástæða sé til að árétta að sérstaklega er kveðið á um það í úttektinni að samfélagsáhrif af veiðunum hafi verið mjög jákvæð, eins og segir orðrétt í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Veiðarnar náðu því markmiði að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins. Áhrif á samfélög þessara minni staða virðast hafa verið mjög jákvæð en áhrif veiðanna á atvinnulíf eru ekki eins augljós. Hafa verður í huga að veiðarnar voru takmarkaðar við 4.000 tonn af þorski og dreifðust á 54 útgerðarstaði. Byggðasjónarmiðin með veiðunum hafa náðst að því leyti að veiðarnar voru að mestu stundaðar fjarri suðvesturhorni landsins og hafa skipt máli fyrir afkomu útgerðaraðila þar.“

Ég dreg þetta fram, frú forseti, vegna þess að meginmarkmiðin voru ekki hvað síst þessi samfélagslegu áhrif af aðgerðunum sem einmitt eru mikilvæg fyrir þessa grein.

Ég vil áfram og aftur ítreka sérstaka ánægju með vinnu háskólasetursins á Ísafirði að þessu máli. Reynt hefur verið í þessu frumvarpi að taka tillit til athugana svo sem kostur er. Jafnframt vildi ég að þetta vinnulag, að fá fram úttekt á fyrirkomulagi í fiskveiðistjórninni svona sértækt áður en það er endanlega lögfest, hljóti að teljast til vandaðra vinnubragða og óskandi að við getum viðhaft slíkt vinnulag um fleiri þætti í þessum efnum í framtíðinni.

Frumvarpið um strandveiðarnar, mál 370, gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski. Í fyrra var þessi heimild 2.900 tonn af óslægðum þorski. Gera má ráð fyrir að tekið sé mið af samsetningu veiðanna í fyrra sem hófust 25. júní, að þetta þýði að þorskafli á þessu ári verði um 5.000 tonn, en aðrar tegundir um 1.000 tonn. Með öðrum orðum, hér er lögð til um 1.000 tonna aukning á þorski frá því á fyrra ári, enda er vonast til að tímabilið allt verði nú nýtt eins og hér er gert ráð fyrir.

Þær breytingar sem gerðar eru frá síðastliðnu sumri og koma fram í frumvarpinu eru helstar:

Í fyrsta lagi að á hverju fiskveiðiári verði aflaheimildir sem nema allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski til ráðstöfunar til að veiða á handfæri, eins og áður segir, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar. Heimilt verði að stunda veiðarnar á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst. Á síðasta ári hófust veiðarnar í lok júní og stóðu fram í ágúst. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðitímabilið verði fjórir mánuðir og með því að leggja til að veiðar geti hafist í maí er gert ráð fyrir að veiðar við sunnanvert landið verði auðveldari með tilliti til staðbundinnar fiskgengdar. En eins og við þekkjum getur fiskgengd á miðin á grunnslóð verið breytileg eftir landshlutum, hún getur gengið fyrr við suðvesturhornið og þess vegna er ástæða til að reyna að taka tillit til þess.

Í öðru lagi er í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til skiptingu afla á svæði og tímabil. Í bráðabirgðaákvæðinu frá því í fyrra var þessi skipting lögfest. Með því að nú er gert ráð fyrir lögfestingu á strandveiðum til framtíðar, verður að gera ráð fyrir að skiptingu sé hægt að hnika til án sérstaks lagafrumvarps miðað við ófyrirsjáanlegar breytingar, sé talin þörf á þeim framkvæmdaþáttum.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að hverri útgerð verði einungis heimilt að fá leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Takmörkun þessi er sett með tilvísun til þess markmiðs að sem flestum verði gert kleift að stunda strandveiðar. Af þessu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að einn aðili geri út mörg veiðiskip á strandveiðum.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að frá fiskveiðiárinu 2010/2011 verði óheimilt að veita fiskiskipum leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipi óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips. Ekki þykir ástæða til þess að veita útgerð strandveiðileyfi í framtíðinni sem velur að flytja frá sér aflamark umfram það aflamark sem flutt er til skipsins.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum. Síðastliðið sumar varð vart mikils áhuga á að heimila ekki veiðar t.d. á frídegi verslunarmanna, m.a. þar sem möguleikar til að landa afla á markað voru mismunandi. Er með þessu ákvæði frumvarpsins ráðherra veitt skýlaus heimild til að taka tillit til slíkra aðstæðna.

Í sjötta lagi að hverju fiskiskipi verði heimilt að draga 650 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð. Þannig er afli hverrar veiðiferðar takmarkaður við 650 kg af kvótabundnum tegundum í þorskígildum. Er þetta breyting frá fyrra ári þegar heimilt var að veiða 800 kg af kvótabundnum tegundum án viðmiðunar við þorskígildi. Um sambærilegt magn er þar að ræða þar sem þorskígildin eru nú látin ráða. Með þessu móti er jafnframt dregið úr hvata til brottkasts á öðrum tegundum en þorski.

Það er von mín að frumvarpi þessu verði vel tekið því að fyrir liggur að strandveiðar hafa sannað gildi sitt. Kostir þeirra eru margvíslegir líkt og ég hef vísað til í úttekt Háskólaseturs Vestfjarða og einnig kom fram í ágætri meistaraprófsritgerð Gísla H. Halldórssonar á Ísafirði sem einmitt var greint frá í fréttum fyrir nokkru síðan.

Frú forseti. Tiltekið er að afli í strandveiðum reiknast ekki til aflamarks eða krókaflamarks fiskiskipa og á það er lögð áhersla hér að engin leiga er tekin fyrir þær aflaheimildir.

Með frumvarpi þessu, frú forseti, er umsögn frá fjármálaráðuneytinu, þar sem segir svo:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir því að kostnaður Fiskistofu vegna aukins eftirlits með strandveiðum verði greiddur af leyfisgjaldi til strandveiða sem er kr. 17.500 skv. lögum nr. 33/2000. Miðað við reynslu af strandveiðum sumarið 2009 má gera ráð fyrir að allt að 500 aðilar taki þátt og greiði tæpar 9 millj. kr. í leyfisgjald. Auk þess má gera ráð fyrir einhverju auknu álagi við starfrækslu stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar eins og á síðasta ári, sem ætti þó ekki að vera umfram það sem rúmast innan fjárheimilda stofnunarinnar. Er því ekki gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Ég vil í þessu sambandi líka víkja að atriði sem hefur verið minnst á í tengslum við strandveiðarnar og það er meðferð og nýting aflans sem berst að landi. Nefnt hefur verið að í einstaka tilfellum hafi aflinn kannski ekki uppfyllt öll þau gæði sem hefur verið krafist í þeim efnum, fyrsta flokks gæðum. Í áðurnefndri skýrslu er þó tiltekið að það hafi að langmestu leyti verið í góðu lagi. Hins vegar höfum við rætt það við Landssamband smábátaeigenda að haldið verði sérstakt námskeið fyrir þá sem vilja í meðferð á afla, þannig að hægt verði að fylgja þessum gæðaþáttum eftir sem allra best vítt og breitt um landið.

Einnig hefur sýnt sig að mikilvægt er að það sé gott samstarf á milli Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu, sem er, en við höfum einmitt gert ráð fyrir því að þessir aðilar ræði þetta sérstaklega fyrir næsta sumar, hvernig hægt er að standa sem best þar að málum.

Ég vil ítreka það og minna á að strandveiðarnar sem hófust á síðastliðnu sumri hafa að mínu viti svo sannarlega sannað gildi sitt. Ég leyfi mér að minna á hér í lokin bréf sem sjávarútvegsráðherra barst hinn 18. nóvember síðastliðinn, undirritað af 183 íbúum af rúmlega 500 í Langanesbyggð. Í bréfinu er komið fram þökkum fyrir strandveiðikerfið og það mikla líf sem það hleypti í hafnir landsins síðastliðið sumar, eins og stendur í því bréfi. Að auki var tilgreint að í Langanesbyggð hefðu um 25 einstaklingar haft beina vinnu af róðrum í strandveiðikerfinu, auk afleiddra starfa. Þarna var því um kæra búbót að ræða.

Frú forseti. Þó að frumvarp þetta láti ekki mikið yfir sér er alveg augljóst að það hefur gríðarlega þýðingu fyrir þær byggðir sem þarna eiga í hlut og einnig opnar það möguleika fyrir aðra en þá sem eiga kvóta til að komast inn í fiskveiðar þó að með takmörkuðum hætti sé.

Frú forseti. Ég óska eftir því að málið gangi að lokinni umræðu til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



[16:09]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér enn og aftur að strandveiðar sem munu líklega verða skilgreindar sem veiðar af strönd lands en hér er í rauninni verið að ræða um einhvers konar handfæraveiðar. Mér þykir mjög merkilegt, frú forseti, að hlusta á ráðherra blessa þetta kerfi eins mikið og hann gerir í ljósi þess að hann kýs að líta fram hjá ákveðnum staðreyndum varðandi sjávarútvegskerfið. Ráðherra heldur því fram að þetta styrki byggðir en hann horfir fram hjá því um leið að sú tímabundna atvinna sem af strandveiðum hlýst er væntanlega tímabundin styrking, ef einhver er, í þessum byggðum. Ráðherra er í rauninni að færa atvinnu frá þeim sem eru að vinna allt árið við fiskveiðar og fiskvinnslu til þeirra sem gera annað slagið út. Það er mjög sérstakt, frú forseti, þegar við horfum á tölur m.a. úr ágætri skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnaði í að þá eru ekki nema eitthvað um 18%, ef ég man rétt, af þeim afla sem landað er í hverri höfn sem fara þar til vinnslu.

Það er athyglisvert líka að 24% af þeim sem tóku þátt í þessum ólympísku veiðum, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson kallaði þær, höfðu einhvern tíma selt aflaheimildir sínar. Er þetta það sem hæstv. ráðherra ætlaði sér í upphafi? Nú er verið að taka aflaheimildirnar, frú forseti, frá þeim sem vinna allt árið í þessari atvinnugrein. Ef hæstv. ráðherra er annt um að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og auka nýliðun eins og mörgum er tamt um að tala, á einfaldlega að gefa þann frið sem þarf til að fara yfir þetta kerfi. Það er óásættanlegt þegar stjórnmálamenn og aðilar í sjávarútvegi eru að reyna að ná saman og sátt um breytingar á kerfinu að þá sé hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að dæla inn frumvörpum, hverri vitleysunni á fætur annarri yfir þingið og þjóðina.



[16:11]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að ef þessi fiskur væri ekki veiddur af þeim aðilum sem eru í strandveiðunum mundi tilsvarandi magn samt verða veitt annars staðar, það er alveg hárrétt. En það er nú svo að fiskurinn í sjónum er þjóðareign og nýtingarrétturinn er tímabundin ráðstöfun. Það er mat mitt og þeirra sem stóðu að strandveiðum á síðastliðnu sumri, og hér er flutt frumvarp um, að þessi tilhögun að taka þó ekki sé nema svona lítið magn — þetta er ekki mikið magn af heildaraflamarkinu sem þarna er um að ræða — og ráðstafa því hafi sýnt sig að mikill fjöldi fólks út um allar minni byggðir landsins nýtti sér það þó að þarna væri um mjög skamman tíma að ræða á síðasta sumri. Og það sem skýrslan dregur sérstaklega fram eru hin miklu jákvæðu samfélagslegu áhrif af þessum veiðum. Við vitum að það hefur verið ósætti um það og skoðanamunur á því hversu kerfið væri lokað, þannig að menn kæmust ekki einu sinni til veiða þótt afmarkað væri án þess að hafa til þess aflaheimild í eign. Með þessu er verið að opna á mjög afmarkaðan hátt, það er ekki opnað fyrir atvinnuveg en það er opnað fyrir veiðar fólks sem uppfyllir þau skilyrði sem krafist er til að fara á sjó og draga fisk að landi og fénýta sér það innan mjög þröngra marka. Ég er sannfærður um að þær afmörkuðu heimildir sem veittar eru svona og hægt er að nýta vítt og breitt um landið eru samfélagslega mjög til góðs.



[16:13]
Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru um 8.000 störf í fiskveiðum og sjávarútvegi eða fiskvinnslu í landinu í dag, og um 16.000 afleidd störf. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé reiðubúinn, fyrst honum er mjög annt um að teikna upp þessa jákvæðu mynd, eins og hæstv. ráðherra orðar það, að það sé hans mat að þetta sé svo snjallt og gott, hvort hann sé tilbúinn í að láta gera rannsókn eða samanburð á því hversu miklu strandveiðarnar versus hinar hefðbundnu veiðar og þær fiskveiðar sem við þekkjum í aflamarkskerfinu, skila til sveitarfélaga í skatttekjur og hverju þær skila til ríkisins í skatttekjum og tekjum. Að bera saman þessar aðferðir og þessar greinar og sjá úr hvoru kerfinu innheimtist í rauninni meira fyrir þessa aðila. Það væri mjög forvitnilegt að sjá það, frú forseti, því að ég hef grun um að mat hæstv. ráðherra muni þá hugsanlega breytast.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að fiskurinn í sjónum er þjóðareign og ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra þegar verið er að tala um nýtingarrétt á þessari eign eða þessari auðlind þjóðarinnar. En það að úthluta þessum afla, þessum verðmætum nánast eftir geðþótta eins og mér sýnist hæstv. ráðherra ætla að gera, er alveg eins og ef menn tækju góða laxveiðiá í landinu og auglýstu að nú gætu allir veitt lax í hálfan mánuð, allir gætu veitt, og þetta væri í september eða eitthvað svoleiðis. (AtlG: Það væri gleðiefni.) Það væri gleðiefni, segir hv. þm. Atli Gíslason. Ég deili því svo sem með honum en hugsið ykkur hvað mundi gerast þá. Ég vara eindregið við því, frú forseti og hæstv. ráðherra, að það verði haldið áfram á þessari braut því að það er alveg augljóst að með þessum frumvörpum sínum er hæstv. ráðherra að reyna að brjóta niður gott kerfi (Forseti hringir.) sem hefur þróast í gegnum árin, gott kerfi sem þarf vissulega að laga en það þarf ekki að rústa því líkt og hæstv. ráðherra ætlar sér að gera.



[16:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef menn halda að sjávarútvegskerfið rústist vegna þess að opnað er á afmarkaðar strandveiðar þá eru stoðir þess veikar. Hitt er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni (Gripið fram í.) að mjög mikilvægt er að hugsa þetta sem hluta af heild og það er einmitt það sem verið er að gera hér. Ég vitna líka til þessarar ágætu skýrslu, en þar var gerð úttekt sem sýnir að þetta hafi haft mjög jákvæð áhrif. Aflinn berst að landi, aflinn er unninn. Það var minnst á það að aðeins um 18% aflans hefðu verið unnin í heimabyggð en nærri 100% voru samt unnin hér á landi, þannig að þótt aflinn færi á markaði þá var hann unninn annars staðar á landinu. Sá afli sem kom að landi á þessum tíma var unninn hér á landi. Ég hef komið í fiskvinnslur sem fögnuðu því að geta náð í þann fisk sem kom að landi í gegnum strandveiðarnar einmitt yfir sumartímann þegar erfitt var að fá fisk frá hinni hefðbundnu útgerð. Með þeim hætti kom afli strandveiðanna inn í minni fiskvinnslurnar sem eru líka með gríðarlega mikilvæga markaði erlendis. Strandveiðarnar komu mjög jákvætt út og voru mikilvægar og ég held að þær muni áfram reynast það í sumar.

Ég vil bara áfram og aftur ítreka að það er ekki út af engu, ekki út af því að menn hafi verið ánægðir með kerfið sem fyrir var, að 183 íbúar Langanesbyggðar í norðausturhluta landsins sendu sérstakt bréf og fögnuðu því framtaki að koma á strandveiðum og ég held að það segi meira en margar ræður og (Gripið fram í.) mörg orð í þeim efnum, frú forseti.



[16:18]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bera eina spurningu upp fyrir hæstv. ráðherra og hún er þessi: Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram með svæðaskiptinguna? Á síðasta ári voru rökin fyrir henni þau að helmingurinn af þorskinum sem tekinn var inn í þetta var byggðakvóti. Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram með svæðaskiptinguna, vegna þess að hún misfórst gersamlega á síðasta fiskveiðiári?



[16:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á ýmis atriði um skiptingu landsins í svæði og tímasetningar í þeim efnum, þetta er alveg hárrétt og sjálfsagt að skoða. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að það sé ekki bundið í lög heldur sé ráðherra heimilt að fara eftir reynslu á hverjum tíma um hvernig best sé að haga þessu og slíkt getur meira að segja breyst á milli ára. En ég vil leggja áherslu á að menn eigi að gera út frá einu svæði. Þeir eiga bara að skrá sig á eitt svæði og eiga þar heimilisfesti eða gera þaðan út, þeir mega ekki færa sig á milli svæða á tímabilinu og það er mjög mikilvægt.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þau atriði sem hann nefndi gæti þurft að endurskoða og reynslan í sumar bendir einmitt til þess, eins og hv. þingmaður minntist á, að fyllilega réttmætt sé að endurskoða þá skiptingu.



[16:20]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem gerðist á síðasta ári þegar verið var að prófa strandveiðarnar var að menn máttu skipta um heimilisfang frá því að lögin voru samþykkt og þar til þau tóku gildi og þá færðu margir heimilisfang útgerðarinnar og öll pósthólf voru upptekin hvort heldur sem var í Ólafsvík, Hellissandi eða Patreksfirði. Menn voru að fara inn í kerfið vegna þess að það var misjafnt hvernig gefið var inn á svæðin. Reynslan var sú, ég held ég muni það rétt, að í ágústmánuði voru fjórir róðrar á einu svæðinu á meðan á öðrum svæðum var hægt að róa allan tímann. Mín skoðun er sú að fyrst að menn eru ekki lengur með byggðakvótann inni í þessum strandveiðipotti þá eigi landið að vera eitt svæði og það á ekkert að hringla með það. Síðan getur hæstv. ráðherra skipt aflamagninu niður á mánuði og vegna þess að veiðin færist á milli svæðanna þegar líður fram á sumarið þá dreifir hann þar af leiðandi veiðinni inn á svæðin þannig að það gefur alveg augaleið að mun skynsamlegra er að gera þetta með þeim hætti vegna þess að reynslan segir okkur það að hitt hafi algerlega misheppnast og misfarist og við eigum að læra af biturri reynslu gagnvart því. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að menn hafi þetta eina svæði ef menn vilja og skipti síðan aflamagninu niður á mánuði til að að ekki sé allt veitt í byrjun tímabilsins vegna þess að þá veiðist kannski mest fyrir sunnan landið og síðan kannski fyrir norðan þegar líður á þannig að menn geta stýrt því. Ég tel og hvet hæstv. ráðherra til að hafa bara eitt svæði á landinu, því annars munu menn fara að gera sömu hluti og þeir gerðu á síðasta ári.



[16:22]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta gæti svo sem verið sjónarmið hjá hv. þingmanni að hafa þetta bara eitt svæði en þá vil ég minna á nokkur önnur markmið með þessari tilhögun. Í fyrsta lagi er sett ákveðið heildarmark afla sem má veiða í þessu kerfi þannig að í sjálfu sér er þetta ekki frjálst hvað það varðar. Í öðru lagi er markmiðið líka að byggðirnar vítt og breitt um landið hafi allar nokkuð jafnan aðgang að því að sækja miðin undir þessu kerfi. Ef við settum þetta í einn pott væri hættan sú að ákveðin byggðarlög yrðu algerlega út undan í því að eiga möguleika á að nýta sér þetta. Við minnumst þess. Þetta er ekki hugsað sem einhverjar stóratvinnuveiðar. Þetta er ekki hvað síst hugsað sem samfélagsleg aðgerð. Þess vegna vara ég við því að fara út í þessar veiðar og halda að þetta sé einhver stór atvinnuvegur, þetta er ekki hugsað sem slíkt. Vissulega skaffar þetta þeim tekjur sem fara út í þetta á þeim afmarkaða tíma sem er en þetta er líka samfélagslegt mál og því tel ég óráð að hafa landið eitt svæði. Ég vil að fyrir hvert svæði séu fráteknir ákveðnir möguleikar í þessum efnum svo þetta safnist ekki saman á einn stað.

En eins og hv. þingmaður minntist á þá vinnum við okkur áfram í þessu en prinsippið hefur greinilega tekist vel. Ég minnist þess að bæjarstjórnin í Snæfellsbæ rakti sérstaklega hve miklar tekjur hefðu komið inn í samfélagið og til hafnanna vegna strandveiðanna og ég held að þó svo að sumir lýsi óánægju sinni með þetta þá hafi langflestir lýst mikilli ánægju með þetta kerfi eins og það fór í gang.



[16:24]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við vorum að ljúka lagasetningunni sem lá til grundvallar þeirra svokölluðu strandveiða sem fram fóru á síðastliðnu sumri var frá því greint að reynt yrði að gera úttekt á reynslunni af strandveiðunum á því sumri og að Háskólasetur Vestfjarða yrði fengið til þess verks.

Hæstv. ráðherra hefur nú vísað nokkuð í þá skýrslu sem háskólasetrið sendi frá sér eftir þessa úttekt og hefur hvatt okkur sem hlýðum á þessa umræðu og tökum þátt í henni til að kynna okkur efni hennar. Ég hef gert það og ég held satt best að segja að í samantektinni í þessari skýrslu sé með mjög mergjuðum hætti og afdráttarlausum og í hnitmiðuðu máli lýst því fyrirkomulagi sem við erum að ræða og lýsingin er svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Frumraun strandveiðanna hófst með töluverðum látum í lok júnímánaðar þegar strandveiðisjómönnum var loks gefið grænt ljós á það að hefja veiðarnar. Hundruð báta þustu af stað á fyrstu tveimur vikunum en fjöldinn náði hámarki um miðbik ágúst. Í heild voru 554 bátar gerðir út af 529 útgerðum.“

Þetta er lýsingin. Þetta er mjög kunnugleg lýsing. Þetta er fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið notað sums staðar annars staðar þar sem menn hafa ekki treyst sér til að stjórna veiðum með öðrum hætti. Frægasta dæmið eru líklega lúðuveiðarnar í Bandaríkjunum. Lúðustofninn var verðmætur og menn skipulögðu veiðarnar með þeim hætti að hleypt var af startbyssu og svo fóru menn af stað. Auðvitað var það þannig að fyrr en varði fjölgaði svo bátunum að veiðitíminn sem menn höfðu var ekki talinn í vikum, dögum eða klukkustundum heldur mínútum. Mér finnst einhvern veginn að lýsing Háskólaseturs Vestfjarða á þessum veiðum svipi dálítið mikið til þess. Það er verið að segja okkur að þarna hafi farið af stað eins konar kapphlaup í veiðunum.

Það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir er út af fyrir sig alveg rétt, þetta er kannski ekki mjög stórt mál, þetta eru ekkert gríðarlega mörg tonn. Þetta sveiflar kannski ekki til sjávarútveginum eða sjávarútvegsumræðunni og þess vegna finnst mér að það sé alveg rétt að það er ýmislegt annað sem ég hef meiri áhyggjur af í sjávarútvegsumræðunni en þetta. En eitt er þó alla vega ljóst, sem ég held að við ættum strax að viðurkenna og fallast á til að umræðan verði efnisleg og málefnaleg, hvaða skoðun sem menn hafa á þessu fyrirkomulagi að öðru leyti, og það er að þetta er auðvitað ekki eitt af framfaramálunum í sjávarútvegi, þetta er ekki eitt af þeim málum sem veldur því að til verða ný verðmæti sem ella hefðu ekki orðið til því það er óumdeilanlegt að svo er ekki. Hér er eingöngu um það að ræða að ákveðið er að auka kvótann um 6.000 tonn og veiða hann með þeim hætti sem hér er gert. Þess vegna er alveg ljóst að þetta eykur ekki arðsemi í sjálfu sér, hvað þá hagræðingu, eða ýtir undir betri lífskjör, hvorki í sjávarútveginum né í samfélaginu, enda er það þannig að forsenda þessara veiða og réttlætingin er í raun og veru sú að haga veiðunum með þessum tiltekna hætti og framkvæma þær ekki með lágmarkstilkostnaði. Hugsun frumvarpsins gengur í raun og veru út á það að búa til einhver umsvif í kringum þetta sem ekki yrðu búin til ef þessi 6.000 tonn yrðu veidd af bátum sem núna eru gerðir út á aflamarki eða krókaaflamarki. Það er það sem þetta gengur út á vegna þess að grunntónninn í frumvarpinu er sá að opna fleirum leið inn í sjávarútveginn, ekki að nýta þá fjárfestingu sem er til staðar heldur hið gagnstæða, búa til nýja fjárfestingu, opna leið fyrir nýliðana þannig að við ættum í sjálfu sér ekkert að þurfa að þrátta um þennan þátt málsins. Hann er forsendan sem frumvarpið byggir á, að fá nýja báta inn í útgerðina, fleiri báta, fjölga fólkinu sem er að fiska en nýta ekki þau afmörkuðu tonn sem þarna er gert ráð fyrir með öðrum hætti.

Út af fyrir sig, virðulegi forseti, getur þetta verið sjónarmið sem hægt er að ræða og taka tillit til. Í sjálfu sér er hægt að færa fyrir því ýmis rök, eins og hæstv. ráðherra gerir, t.d. þau að eðlilegt sé að opna fleiri aðgangsleiðir inn í greinina og þá eigum við einfaldlega segja að það sé tilgangurinn, ekki sá að draga úr tilkostnaði, ekki sá að hámarka verðmætasköpunina heldur hin pólitísku rök að opna fleirum leið inn í útgerðina. Þeir sem hafa talað fyrir þeirri leið sem hér var farin hafa einmitt bent á að einn kosturinn sé sá að það hafi orðið til líf í höfnunum, fjárfestingar í bæjunum, í þorpunum þar sem útgerðin hefur verið rekin vegna þess að menn hafi orðið að setja á flot báta sem þeir ætluðu annars ekki að nota. Menn hafi orðið að rikka upp báta, gera þá klára, breyta þeim, kalla til verkstæðismenn o.s.frv. og ég þekki það vel, það er alveg rétt, þannig var þetta. Auðvitað urðu einhver umsvif í kringum það, þ.e. aukinn kostnaður í greininni. En vel getur verið að einhverjum finnist að það sé bara allt í lagi, það sé bara þannig að við tökum 6.000 tonn og deilum þeim út og veiðum með öðrum hætti og með annað markmið í huga heldur en við höfum almennt lagt til grundvallar í fiskveiðistjórnarkerfi okkar.

Menn tala mikið um lífið sem hafi skapast í höfnunum og sannarlega er það þannig að þegar bátarnir voru að koma að landi síðdegis þá skapaðist auðvitað líf í höfnunum á meðan þeir voru að landa o.s.frv. og auðvitað er mjög gaman að því. En við skulum hins vegar ekki gera of mikið úr þessu. Þar sem ég þekki best til lönduðu menn tíu sinnum í mánuði þrjá mánuði á ári. Öðruvísi var það ekki.

Þetta frumvarp var mikið rætt hér á síðastliðnu sumri og þá gagnrýndum við sjálfstæðismenn það á ýmsum forsendum. Við gagnrýndum það vegna þess að verið var að taka hálfan byggðakvótann í þetta. Upphaflega var það ætlun hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra að taka allan byggðakvótann. Svo var horfið frá því að hálfu og svo er búið að taka þá ákvörðun að deila bara út 6.000 tonnum og láta byggðakvótann óskertan.

Í öðru lagi bentum við á það að hólfaskiptingin sem þarna var lögð til grundvallar stæðist ekki, hún væri röng og það hefur auðvitað komið á daginn. Hólfaskiptingin hefur mistekist eins og hæstv. ráðherra var að segja áðan. Nú ætlar hæstv. ráðherra hins vegar ekki að skipta þessu með lögum, nú á Alþingi ekki að hafa neitt um það að segja hvernig þessi hólfaskipting á að vera. Hæstv. ráðherra ætlar að taka þetta vald til sín. Hann ætlar að ákveða hvernig hólfaskiptingin á að vera. Ég held að þetta sé óskynsamlegt og ég held að miklu skynsamlegra væri í þessum efnum, einfaldlega vegna þess hvernig reynslan var, að hverfa frá hólfaskiptingunni. Menn sáu auðvitað við þessu. Menn vissu það að þorskurinn mundi veiðast best á A-svæðinu, það hefði reynslan þegar sýnt og þess vegna þyrptust bátarnir þangað. Menn skráðu sig og báta sína inn á A-svæðin til að geta nýtt sér veiðina þar og þess vegna hefur þessi hólfaskipting ekki þá byggðalegu skírskotun sem menn töldu og ég var kannski í sjálfu sér ekkert endilega svo viss um í fyrra en það blasir einfaldlega við að þessi hólfaskipting er vitleysa.

Nú þarf hæstv. ráðherra líka að svara því hvernig hann hyggst haga hólfaskiptingunni á þessu fiskveiðiári, hvernig hún eigi að vera. Ætlar hann að hafa í meginatriðum óbreytt hólf, A, B, C og D? Hvernig ætlar hann að taka ákvörðun um hversu mikið eigi að fara inn á hvert hólf? Hvað á að leggja til grundvallar, veiðina í fyrra eða eitthvað annað? Hæstv. ráðherra verður í þessari umræðu að greina okkur frá því hvaða meginhugmyndir hann hefur í þeim efnum. Það er algerlega útilokað annað en að hann hafi hugsað þau mál úr því að hann er að hverfa frá því að Alþingi hafi eitthvað með það að segja hvernig hólfaskiptingin eigi að vera, þá hlýtur hann að hafa einhverjar skoðanir á því sjálfur hvernig þetta eigi að vera. Það er t.d. alls ekki ljóst hvað á að leggja hér til grundvallar og hæstv. ráðherra verður því að upplýsa það.

Í þessu frumvarpi er verið er að auka hlut strandveiðiflotans um 50%, úr 4.000 tonnum í 6.000 tonn. Gáum að því, virðulegi forseti, að þetta er að mestu leyti þorskur og hæstv. ráðherra gerir þetta á sama tíma og hann lækkar þorskkvótann úr 160 þúsund tonnum í 150 þúsund tonn. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á þá sem eru í öðrum veiðum hvort sem það eru krókaaflamarksbátar eða aflamarksbátar. Í sjálfu sér er þetta alveg skýr stefnumörkun og það verður að segja hæstv. ráðherra til hróss, þetta er stefnumörkun um það að auka handfæraveiðar að sumri. Það er auðvitað ekki líklegt til að skapa byggðafestu eða festu í sjávarútveginum sem byggir á því að kaupandinn getur reitt sig á það að varan sé afhent allt árið um kring, enda kom því miður í ljós að aflinn til vinnslu nýttist sjaldnast mjög vel, 17% fóru til vinnslu í þeim höfnum sem landað var. Í örfáum höfnum tókst mönnum að nýta sér þetta vel en víðast hvar, í helmingi hafnanna t.d., var engu landað til vinnslu. Þetta er hálfgert áhyggjuefni og vonbrigði vegna þess að auðvitað blasti við að þessi afli yrði fyrst og fremst veiddur í litlu byggðunum utan höfuðborgarsvæðisins og vissulega vonuðum við að þetta mundi líka nýtast til fiskvinnslunnar en það varð ekki.

Nú sjáum við í hvað stefnir. Þegar búið er að opna kerfið er reynslan sú, eins og alls staðar annars staðar í heiminum, að menn sjá möguleika og auðvitað eru menn ánægðir og auðvitað segir það ekki neitt í þessari könnun háskólasetursins þegar þeir sem voru að veiða segja: Við erum sælir og glaðir með þetta. Að sjálfsögðu eru menn það sem fá tækifæri til að veiða þarna. Auðvitað er það þannig. Þeir fá auknar tekjur og það var sagt áðan að menn hafi fengið milljón eða tvær að meðaltali eftir að svæðum og auðvitað eru menn kátir yfir því. Nú er það þannig að hæstv. ráðherra viðurkennir á vissan hátt að það verði með einhverjum hætti að takmarka aðganginn og hann leggur til í þessu frumvarpi að það verði gert með því að lækka hámarksaflann sem hver bátur má koma með að landi á degi hverjum. En auðvitað mun hæstv. ráðherra fyrr en síðar, endist honum líf og aldur í þessu starfi, standa frammi fyrir því að ásóknin í pottinn mun aukast og hann verður með einhverju móti að bregðast við nema hann taki upp það fyrirkomulag sem þeir gerðu í Ameríku að fara út á bryggju 1. maí — þegar hann er að leggja af stað í kröfugönguna 1. maí — og skjóta af startbyssunni og segja: Nú megið þið hefja veiðarnar. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra vilji að það verði þannig og þá verður hæstv. ráðherra að velta því upp í umræðunni með hvaða hætti hann sjái að hægt sé að haga þessum veiðum í framtíðinni. Hann hefur þegar aukið aflann um 50% á milli ára. Ég geri ekki ráð fyrir að hann telji sig geta gert það endalaust, sérstaklega þegar hann er að skera niður aflann. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa einhverja skoðun á því.

Af því að tíminn líður hratt þá er eitt atriði sem kom mér dálítið á óvart. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að gera ákveðna breytingu. Í lögunum sem nú gilda er gert ráð fyrir því að mönnum sé að sjálfsögðu skylt að landa öllum afla í lok veiðiferðar og þarf nú varla að hafa um það mörg orð en jafnframt að hann skuli vigtaður og skráður endanlega hér á landi. Með öðrum orðum, samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi má ekki flytja aflann óunninn út nema hann sé vigtaður hér á landi fyrst. Í því fólst auðvitað ákveðin takmörkun á möguleikum manna að flytja aflann út óunninn. Nú er það allt í einu orðin sérstök stefnumótun hæstv. ráðherra, gagnstætt því sem hann hefur talað um á opinberum vettvangi, að hverfa frá þessu. Nú er sagt hér í 6. tölulið 1. gr. að skylt sé að landa öllum afla í lok veiðiferðar, punktur. Og ákvæðið um að vigta heima fyrir er tekið burtu. Öðruvísi mér áður brá og ég átti ekki von á að hæstv. ráðherra mundi gera það að sérstöku baráttumáli sínu að auðvelda þennan útflutning með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er bersýnilega að gera.

Þá vaknar líka önnur spurning og hún er þessi: Nú hefur hæstv. ráðherra breytt reglugerðinni. Hann hefur sett sérstakt 5% útflutningsálag og ef útflutningur verður einhver á óunnum fiski, er það þá þannig, virðulegi forseti, að það mun valda því að heildarpotturinn skerðist sem því nemur? Gert er ráð fyrir 5% skerðingu og auðvitað er ljóst að ef þetta gengur fram eins og þarna er þá getur það verið þannig að ef einhverjir 100 eða við skulum segja 50 bátar sjái sér hag í því að landa beint til útflutnings með þessum hætti þá skerði það aflamöguleika annarra sem eru þó að reyna að landa t.d. heima fyrir eða á íslenska fiskmarkaði.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Nú er ljóst að þessar strandveiðar hafa veruleg áhrif á heildaraflamagn sem landað er í einstökum byggðum. Nú er ákveðin reikniregla varðandi byggðakvóta sem gerir ráð fyrir því að ef aflinn eykst minnkar byggðakvótinn. Hefur hæstv. ráðherra áttað sig á því hvaða afleiðingar þetta muni hafa á byggðakvóta í einstökum byggðarlögum þar sem þessum afla hefur verið landað í mestum mæli? Hefur það komið fram? Hefur hæstv. ráðherra skoðað með hvaða hætti þetta kerfi getur haft áhrif á byggðakvótafyrirkomulagið eins og það hefur tíðkast?



[16:40]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa hlýtt á hv. þm. Einar K. Guðfinnsson finna þessu frumvarpi allt til foráttu og þá sérstaklega það sem hann valdi úr þeirri ágætu skýrslu sem nú hefur verið lögð fram, Úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna sumarið 2009 . Þar fann hann eina tilvitnun sem hann valdi sem sérstakan útgangspunkt og það var það hversu sóknin á strandveiðarnar hefði verið áköf í sumar. Hann setur út á það og lagði fyrst og fremst út af því. Þetta er spurning um að sjá glasið hálffullt eða hálftómt. Ég get valið nokkrar tilvitnanir úr skýrslunni sem eru hin eiginlega meginniðurstaða hennar og segja miklu meira um niðurstöðuna, t.d. þá meginniðurstöðu á bls. 45 að þeir sem tóku þátt í veiðunum eða höfðu afskipti af þeim eru jákvæðir í þeirra garð. Ánægja útgerðaraðila er mikil með fyrirkomulag veiðanna og vilja þeir sjá strandveiðarnar sem framtíðarfyrirkomulag við stjórn fiskveiða, svo ég vitni orðrétt í skýrsluna.

Hér kemur líka fram að almennt töldu hagsmunaaðilar að samfélagslegt mikilvægi veiðanna væri meira en hið efnahagslega. Það er einmitt sú áhersla sem menn hafa lagt á þetta mál, það eru hin samfélagslegu verðmæti. Þar kemur fram að áhrifin hafa að mestu snert aukna bátaumferð, mannlíf og sjómennsku í útgerðarbæjum. Í strandveiðibæjum með færri en 1.000 íbúa töldu 70% þeirra sem svöruðu að veiðarnar hefðu haft mjög eða frekar mikið samfélagslegt vægi. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli varðandi þetta mál. Hér er augljóslega um framfaramál að ræða og það er fagnaðarefni og tilhlökkunarefni að fá þetta mál til frekari umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



[16:42]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagðist ekki hafa getað orða bundist yfir ræðu minni. Hún vitnaði síðan til einnar tilvitnunar sem ég hafði upp úr skýrslu Háskólaseturs Vestfjarða sem var hluti af samantektinni, aðalatriðunum, meginatriðunum sem áhersla var lögð á. Ég gat auðvitað ekki lesið 50 síðna skýrslu á 15 mínútum.

Hún vakti síðan athygli á öðru atriði sem hún taldi að ég hefði sleppt en ég gerði einmitt að umtalsefni. Ég gat þess að það hefði ekki vakið furðu mína að þeir sem stunduðu veiðarnar væru ánægðir með að fá viðbótaraflaheimildir sem þeir gætu nýtt sér. Skárra væri það nú. Ég hefði orðið mjög undrandi ef þeir sem fengu þarna heimildir til að veiða 4.000 tonn hefðu grátið það hlutskipti sitt. Ég hefði orðið afar undrandi yfir þeim fréttum.

Í þriðja lagi sagði hv. þingmaður að þetta snerist ekki síður um hin samfélagslegu verðmæti en hin efnahagslegu. Það var einmitt það sem ég var að vekja athygli á. Ég sagði að ekki væri hægt að færa nein rök fyrir því að þetta væri efnahagslegur ávinningur fyrir þjóðfélagið en nefna mætti ýmiss konar önnur rök. Ég rakti það t.d. að þetta hefði valdið því að menn hefðu orðið að leggja í aukinn kostnað á bátum sínum, kallað til verkstæðismenn, kallað til rafvirkja og ýmsa iðnaðarmenn o.s.frv. og ýmsu öðru. Ég gerði þetta einmitt að umtalsefni.

Hv. þingmaður sagði að hún hefði ekki getað orða bundist, hún hefði orðið að koma upp til að vekja enn og aftur athygli á þeim málatilbúnaði mínum, því sem ég gerði sjálfur að nokkru umræðuefni í þessari kortersræðu, um þetta fyrirkomulag veiðanna, sem háskólasetrið lýsir mjög vel, sem er auðvitað gríðarlega þýðingarmikið, hin samfélagslegu áhrif sem ekki eru hin efnahagslegu áhrif, og síðan auðvitað að útgerðarmennirnir sem fengu leyfi til að veiða þarna 4.000 tonn væru auðvitað kátir með það.



[16:45]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það ákaflega leitt ef ég hef mistúlkað orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar en sú tilvitnun sem hann lagði aðallega út af með sóknina í strandveiðarnar var tilefni til þess að ég kom hér upp því að í þessum niðurstöðukafla eru mun veigameiri þættir sem hafa komið til umræðu sem má líta á sem ályktun skýrsluhöfunda. Niðurstaðan er sú að reynslan af strandveiðunum var ákaflega góð og það er ekki rétt að halda því fram að áhrifin hafi einungis verið samfélagsleg og ekki efnahagsleg því að það er ekki það sem kemur fram í skýrslunni. Áhrifin voru efnahagsleg en þau voru ekki síður og enn frekar samfélagsleg eins og kemur fram á bls. 45.

Það er líka gleðiefni að sjá, þvert ofan í spár og umræður, að gæði aflans voru almennt talin mjög góð í strandveiðunum. Það er því vissulega ánægjuefni að sjá þessar jákvæðu niðurstöður og ánægjuefni sem við ættum að eiga sameiginlegt, ég og hv. þingmaður, að eiga þess kost að taka þetta frumvarp til frekari efnislegrar umfjöllunar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og geta lagt því þar gott til.



[16:46]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum svo sem þráttað um það, ég og hv. þingmaður, hvað sé veigamikið í samantekt háskólasetursins. Mér finnst þessi lýsing háskólasetursins á fyrirkomulagi veiðanna skipta gríðarlega miklu máli þegar við veltum þessu fyrirkomulagi fyrir okkur. Þetta eru ólympískar veiðar, þetta byggir á því, eins og þarna segir, að menn fara af stað með miklum látum þegar gefið er grænt ljós, hleypt af startbyssunni, og hundruð báta þeysast af stað. Þetta er út af fyrir sig dálítið skemmtileg lýsing á kappi en þetta er hins vegar ekki góð lýsing á einhverju fyrirkomulagi sem við teljum að geti leitt til mestu arðsemi eða hagsbóta fyrir greinina og þar með þjóðarbúið.

Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr mögulegum samfélagslegum ávinningi af einhverju svona fyrirkomulagi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað eru efnahagsleg áhrif af því, skárra væri það. Við erum að veiða 4.000 tonn af þorski og auðvitað eru efnahagsleg áhrif af því, gífurlega mikil efnahagsleg áhrif af því að veiða 4.000 tonn af þorski, skárra væri það nú. Engum hefur t.d. dottið í hug að það munaði ekki um 4.000 tonn. Og það er auðvitað líka þannig, eins og ég rakti áðan, að það er verið að stofna til kostnaðar sem ella hefði ekki verið stofnað til og það hefur auðvitað efnahagsleg áhrif. Það er fínt fyrir vélsmiðjurnar, það er fínt fyrir aðra sem eru að vinna þessa hluti, mjög gott. En erum við ekki sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er í sjálfu sér ekki til efnahagslegra hagsbóta fyrir þjóðarbúið í heild að við aukum tilkostnaðinn í sjávarútveginum til að veiða jafnmikinn afla og við ætluðum ella að veiða því að ekki er verið að tala um það væntanlega að hér hafi verið deilt út 4.000 tonnum umfram það sem annars hefði verið gert. Það er eingöngu verið að taka ákvörðun um það að veiða 4.000 tonn á handfæri yfir sumarmánuði í stað þess að veiða það með einhverjum öðrum hætti. Menn geta síðan deilt um samfélagslegu áhrifin, þau eru auðvitað til staðar, en sem efnahagslegt vægi (Forseti hringir.) inn í þjóðarbúið er það óneitanlega svo að þetta hefur valdið kostnaði án þess að heildarafraksturinn aukist.



[16:48]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ágætri ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar gætti ákveðins misskilnings. Hér er ekki verið að fara í gang með einhverjar stórfelldar atvinnuveiðar, einmitt ekki. Hér er verið að opna möguleika fyrir hinn almenna borgara sem uppfyllir viss skilyrði, á bát og hefur réttindi til að fara á sjó og sækja sjó undir mjög afmörkuðum forsendum. Hv. þingmaður talar um ólympískar veiðar. Ég held að þeir sem færu á Ólympíuleikana og ættu að fara að keppa að ná einhverju lágmarki í hlaupum eða slíku vildu ekki hafa svona takmarkanir. Hverjar eru þær? Þær eru samkvæmt frumvarpinu:

„Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga og laugardaga. Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á almennum frídögum.“ — Og hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir miðað við þann tíma sem fiskiskip lætur úr höfn og kemur aftur. Auk þess er líka takmarkað magn: „Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð. Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.“

Þetta er mjög skýr afmörkun og þess vegna er líka lögð áhersla á að þessar veiðar, þessi möguleiki fólks um land allt, dreifist á hin ólíku svæði í landinu. Það er hluti af tilganginum með frumvarpinu og með þessu fyrirkomulagi á strandveiðum, að gefa almenningi möguleika að nálgast auðlind sína á þennan hátt hvar sem hann býr á landinu en innan tiltekinna og mjög afmarkaðra marka. Menn geta svo velt því fyrir sér hvort þetta sé góð hugsjón en fyrir mér er þetta góð hugsjón.



[16:51]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nálgaðist þessa umræðu þannig í upphafi að ég taldi mjög áhugavert að ræða þetta fyrirkomulag vegna þess að hér gæti verið býsna mikið í húfi. Hér er verið að taka ákvörðun um að deila út 6.000 tonnum af þorski að mestu leyti sem er 4% af úthlutuðum kvóta eða þar um bil, sem er svo sem ekki neitt smáræði, 6.000 tonn, og nú segir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þetta sé bara eitthvert pólitískt markmið. Þetta sé til þess gert að almenningur geti, eins og hann orðaði það, nálgast auðlindina og hér eigi ekki að fara að hefja neinar stórfelldar atvinnuveiðar.

Nú er þetta ekki lengur áhugavert umræðuefni, nú finnst mér vera orðið tilefni til að hafa nokkrar áhyggjur. Ef hæstv. ráðherra lítur ekki svo á að hér sé um að ræða alvöruatvinnurekstur hjá þessu fólki, 500–600 manns sem væntanlega fara til veiðanna á næsta fiskveiðiári og kannski fleiri, að hugsunin sé ekki sú að reyna að hámarka verðgildið, draga úr kostnaði og reyna að gera sem mest úr þessari auðlind, finnst mér þetta vera orðið dálítið mikið áhyggjuefni. Ég hef einhvern veginn ímyndað mér að það hlyti líka að vera eitthvað sem menn tækju með í reikninginn þegar þessi mál væru rædd að við reyndum að gera sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði úr auðlindinni, því að auðvitað byggist þetta allt á því. Ef það er bara þannig að það séu einhver óljós samfélagsleg markmið að gefa almenningi kost á að nálgast auðlindina, eiga menn auðvitað að segja það skýrt og punktur: Þannig er það og við erum ekki að hugsa um neitt annað í sambandi við þennan þátt í okkar sjávarútvegi. En þá ætla ég að segja: Við skulum hins vegar fara gætilega ef það á að vera eina markmiðið í þessu sambandi.

Ég spurði hins vegar hæstv. ráðherra ákveðinna spurninga, m.a. varðandi svæðaskiptinguna. Ef hæstv. ráðherra kemur aftur upp í andsvar vil ég ítreka þessa spurningu, því að hún skiptir miklu máli. Nú er hæstv. ráðherra að hverfa frá því að Alþingi ákveði svæðaskiptinguna, hún mistókst reyndar hrapallega eins og við bentum á í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og kom fram í umræðunum á síðastliðnu sumri. Nú ætlar hæstv. ráðherra að fá almenna heimild, hann hefur hvergi ljóstrað því upp hvernig (Forseti hringir.) hann ætlar að nýta þá heimild, hvað eigi að liggja til grundvallar, hvernig skiptingin eigi að vera og hvernig hann ætli að ákveða aflamagnið inn á hvert svæði. Ég verð að krefja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) svara um þessi mál.



[16:53]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er fullkomlega alrangt að segja að þessi svæðaskipting hafi mistekist hrapallega. Það sem helst gerðist var það að ekki tókst að fá frumvarpið afgreitt fyrr á þinginu í vor þannig að hægt væri að ná heilu sumri inn í málið og þeir sem biðu eftir að fá að taka þátt í veiðunum voru orðnir mjög langeygir. Sem betur fer eru sjómenn kappsamir og allir þeir sem fara á sjó kappsamt fólk. Það var það sem var ábyrgðarhluti, úr því að ljóst var eða a.m.k. sterkar líkur voru á að málið mundi ná fram, að þingið skyldi ekki afgreiða það fyrr þannig að heilt sumar næðist inn.

Þess vegna er mjög mikilvægt núna að frumvarpið komist sem hraðast í gegnum þingið þannig að fólk geti þá undirbúið sig hvað þennan þátt varðar. Það er fullkomlega rangt að halda því fram að svæðaskiptingin hafi verið röng. Það er alveg ljóst að fiskurinn kemur almennt fyrr að suðvesturhorninu og þá fyrr að sumrinu en … (EKG: Verður þá svæðaskiptingin óbreytt?) Við skoðum svæðaskiptinguna, en við teljum að það eigi að skoða breytingar á henni og meðal annars eins og með tilfærslu á Húnaflóasvæðinu. Það er hárrétt. En þetta munum við fara í gegnum. En það er samt mjög mikilvægt að hafa slíka svæðaskiptingu til þess að tryggja möguleika fólks, hvar sem það býr, til að nýta sér þennan möguleika.

Við verðum líka að horfa til hinna ýmsu jafnræðissjónarmiða í þessu efni, en auðvitað verður það svo um þetta sem annað að sitt sýnist hverjum og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson getur haft sína skoðun á því. Ég held meira að segja að þetta sé mjög gott fyrir Vestfirði, ef ég segi bara alveg eins og er.



[16:56]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég var mjög andvígur því frumvarpi sem hér varð að lögum síðasta sumar þegar ákveðið var að hefja hinar svokölluðu strandveiðar og færði fyrir því ýmis rök sem sneru að því að strandveiðarnar voru ekkert annað en afturhvarf til þeirrar veiðistjórnar sem við bjuggum við á árum áður, einhvers konar útfærsla á gamla skrapdagakerfinu. Allir þeir sem þekkja til sögu fiskveiðistjórnar á Íslandi vita hvernig reynslan varð af skrapdagakerfinu, hvers lags gríðarleg sóun varð vegna þess fyrirkomulags sem var á veiðunum og hversu miklu skipti fyrir okkur Íslendinga að komast út úr því og yfir í annað fiskveiðistjórnarkerfi sem hafði það að markmiði annars vegar að hámarka tekjurnar af þeim afla sem barst að landi og hins vegar að lágmarka þann tilkostnað sem félli til við veiðarnar og vinnsluna. Það var lykilatriðið.

Verði þetta frumvarp að lögum festir það í sessi það fyrirkomulag sem við reyndum í vor. Ég tek eftir því að nokkuð er vitnað til þess að ánægja hafi verið að meðal strandveiðimanna með strandveiðarnar, nema hvað. Að sjálfsögðu er ánægja hjá þeim sem fá allt í einu tækifæri til að veiða án nokkurs annars tilkostnaðar en útgerðarkostnaðarins sjálfs, þ.e. þurfa ekki að leigja eða kaupa kvóta, að sjálfsögðu er ánægja með það. Enda mátti sjá þá ánægju í þeim fjölda báta sem bættust við fiskveiðiflota Íslendinga til að ná í þau 4.000 tonn sem þá voru til umráða.

Það er alveg sama hvernig maður snýr þessu máli, það er alveg sama hvað maður gerir margar úttektir og hvernig maður reynir að tala um samfélagsleg áhrif o.s.frv. að það er ekkert sem breytir þeirri staðreynd að kostnaðurinn við að sækja þann afla, þau 4.000 tonn sem við vorum að fást við í sumar, var meiri fyrir þjóðarbúið vegna þess að við fórum þessa leið. Undan því verður ekki vikist og ég hef ekki heyrt nokkurn mann reyna að rökstyðja neitt annað. Síðan getur auðvitað verið að menn telji það mjög mikilvægt við þær aðstæður sem eru uppi núna í íslensku efnahagslífi, að fá meira líf og stemningu í nokkrar hafnir hér og hvar í kringum landið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og tek undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, það er að sjálfsögðu allt hið besta mál. En það er bara þannig að við Íslendingar höfum ekki efni á því að búa til fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur þetta einna helst að markmiði, því að alveg örugglega er ekki um að ræða það markmið að hámarka þann arð sem er til skiptanna fyrir þjóðina af fiskveiðiauðlindinni en það er sú skylda okkar alþingismanna, þ.e. að búa sjávarútvegi Íslendinga þann ramma og þann grundvöll að hægt sé að hámarka hagnaðinn af þessum veiðum. Það er nefnilega hægt að koma þessu þannig fyrir, frú forseti, að allir geti fengið að fara á sjó sem vilja, að allir geti keypt sér lítinn bát og farið að veiða. Það er alveg hægt að koma fiskveiðistjórnarkerfinu þannig fyrir á Íslandi. Og það væri hægt að afnema allar hömlur þannig að allir gætu farið og veitt frjálst og óhindrað. Við vitum nákvæmlega hvert það leiðir. Þó að það sé alveg hárrétt sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þetta frumvarp sé ekki stórt og mikið að vöxtum, það er ekki margar blaðsíður og ekki er verið að ræða um stórkostlegan tonnafjölda (Sjútvrh.: Þá er þetta mjög gott mál.) en þegar horft er til þess einmitt hversu smávaxið frumvarpið er, þá er alveg ótrúlegt hversu slæmt málið er. Það er slæmt vegna þess að hér er búið til fordæmi og lagður grunnur að áframhaldandi þróun í stjórn fiskveiða sem augljóslega hvílir ekki á þeim grunni sem við Íslendingar verðum að láta fiskveiðistjórnarkerfi okkar hvíla á.

Frú forseti. Að nokkrum einstökum greinum frumvarpsins. Í sjálfu sér er þetta samstofna og óþarfi að fara yfir í löngu máli það sem var farið yfir í ræðum í vor og sumar, en ég hnýt auðvitað um að í 1. gr. lagafrumvarpsins 5. tölulið, er tekið fram, með leyfi frú forseta, að „á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.“

Þetta er auðvitað í sjálfu sér frumleg og snjöll aðferð, þ.e. með því að minnka ár frá ári það magn sem má koma með í hverri veiðiferð minnkar náttúrlega sá vandi að takmarka þurfi hversu mörg skip koma til að veiða, vegna þess að það er jú takmarkað magn sem má veiða í hverjum mánuði, og með því að takmarka magn í veiðiferð minnkar vandinn í sjálfu sér hinum megin en myndar nákvæmlega sömu stöðu og var í skrapdagakerfinu. Á hverju ári var dögunum fækkað sem menn máttu nota skipin. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við þau 4.000 tonn sem við vorum með í sumar 2.000 tonnum, þannig að heildaraflinn verði 6.000 tonn.

Þetta fyrirkomulag veiðanna er nákvæmlega það sama, það á sem sagt að veiða 6.000 tonn með nákvæmlega sama hætti og við erum að veiða makrílinn, sem er einkar vond aðferð við að veiða fisk í keppnisveiðum, ólympískum veiðum, samkeppnisveiðum þar sem keppni felst í því hver veiðir hraðast og mest á sem stystum tíma. Við sjáum afleiðingarnar í makrílnum þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur talið nauðsynlegt að grípa þar inn í hvernig menn ráðstafa þeim afla af því að hætt er við því að aflinn sé ekki rétt nýttur vegna þess að menn eru á kappveiðum og fyrirkomulag veiðanna er með þeim hætti. Sami hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hefur áhyggjur af makrílveiðunum og ráðstöfun aflans er nú að leggja til að festa í sessi og auka það magn sem má veiða með nákvæmlega sömu veiðiaðferðum, sama rammanum með kappveiðum. Ég hélt einhvern veginn að ef einhver þjóð og eitthvert þjóðþing væri búið að átta sig á þeim vandamálum sem fylgir ólympískum kappveiðum þá væru það Íslendingar. En þetta er staðan.

Það sem er nýtt að koma hér inn, sem er auðvitað alvarlegt mál og tengist þeim umræðum sem við áttum um skötuselsfrumvarpið, er að í þeim lögum sem nú gilda er gert ráð fyrir að það séu teknar aflaheimildir sem annars hefði verið ráðstafað í byggðakvóta. En samkvæmt frumvarpinu á að nálgast þetta þannig, eins og ég hef skilið það, að þegar búið er að ákveða heildaraflann á að taka til hliðar þessi 6.000 tonn og útdeila síðan hinu. Með öðrum orðum, frú forseti, það sem verið er að gera er það sama og við gerðum í skötuselsfrumvarpinu. Það er verið að kippa úr sambandi reglunni um hlutdeildarkvóta, hlutdeildarkvóta sem er þó það allra mikilvægasta. Og ég held að mesta sáttin sé um það og hefur verið hingað til að það væri lykilatriði og eitthvert það albesta sem væri í íslenska sjávarútvegskerfinu að hafa einmitt hlutdeildarkvótann. Menn gætu treyst því að þegar skorið væri niður hjá þeim eða þegar kæmi að því að möguleiki væri að auka afla, þá mundu menn njóta þeirrar aukningar. Hér er rétt, eins og er gert í skötuselsfrumvarpinu, verið að gera nákvæmlega það sama, skera þarna á. Það er alvarlegt mál. Það er alvarlegt mál að senda þau skilaboð til greinarinnar að menn geti ekki treyst þessum hlutdeildarákvæðum.

Frú forseti. Í athugasemdum við lagafrumvarp þetta er sagt, með leyfi forseta: Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða var nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum væri gert mögulegt að stunda veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Frú forseti. Það er ekki ábyrgt að víkja einmitt frá þeirri grundvallarreglu sem felst í hlutdeildarkerfinu. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það er svo mikilvægt að þeir sem stunda sjómennsku og veiða á Íslandsmiðum séu einmitt samstiga vísindamönnunum í því að nýta þessa auðlind með ábyrgum hætti. Þegar nauðsynlegt er að draga úr veiðunum sé stuðningur við það innan greinarinnar. Sá stuðningur næst ekki fram nema menn viti og geti gengið að því vísu og það sé tryggt að þegar kemur að því að hægt er auka fái menn til baka í hlutdeild við það sem þeir gáfu frá sér. Enn og aftur, frú forseti, þetta er óábyrg nálgun. Hún er óábyrg vegna þess að hún eykur kostnað við það að veiða sem þarna er lagt til og hún rýfur þetta grundvallarsamhengi hlutanna sem er svo mikilvægt að sé.

En það er annað undir í þessu öllu saman sem við þurfum að velta fyrir okkur og skiptir verulegu máli. Það snýr að atvinnusköpun í landinu. Markmið þessa leiðangurs alls virðist vera að fleiri fái tækifæri til að gera út. Í staðinn fyrir að við reynum að komast af með sem fæst skip til að veiða þann kvóta sem við getum veitt, reyna með öðrum orðum að lágmarka útgerðarkostnaðinn og hámarka hagnað af veiðunum þá er hugsunin sú að fjölga. Með öðrum orðum, meiri kostnaður, á þeirri forsendu að það sé gott að auka möguleikana og fá fleiri til að taka þátt í þessu. Þá kemur að grundvallarspurningunni um stjórn efnahagsmála og hvað þetta snýst allt saman um.

Ég hafði það á orði í ræðu þegar við ræddum um skötuselsfrumvarpið að menn yrðu að muna það að allt þetta snýst ekki um að búa til vinnu. Það hefur alltaf verið gríðarlega mikil vinna á Íslandi. Við erum þjóðin sem sennilega fann upp vökustaurana af því að við unnum svo mikið árhundruðum saman. Það vantaði ekki vinnu fyrir íslenska alþýðu á öldum áður. En það sem vantaði var að vinnan væri arðbær, hún væri arðgefandi og það væri afraksturinn af vinnunni sem skipti máli en ekki vinnan sjálf. Ef mönnum hefur ekki lærst þetta eða skilist þetta er voðinn vís. Þetta snýst um það hvernig okkur tekst að nýta með arðbærum hætti auðlindirnar sem við höfum. Tilgangurinn er ekki sá að hafa sem flest skip á sjó. Ef það væri markmiðið væri þetta lítið mál. Tilgangurinn er ekki sá að sem flestir vinni við sjávarútveginn, þvert á móti. Auðvitað væri hægt að koma málum þannig fyrir að enginn maður gengi um atvinnulaus á Íslandi með því að við mundum t.d. taka sjávarútveginn þannig. Við mundum eyðileggja hann með því að opna hann alfarið og fara aftur í það vandamálakerfi sem við bjuggum við þegar arðurinn af þessari grein var enginn. Tapið var algert og við sigldum algerlega í strand. Það væri auðvitað hægt að fara þá leið, frú forseti, að banna vélar í báta og láta menn róa til fiskjar. Þá yrði nóg að gera. Þetta verða menn að hafa hugfast.

Það var reyndar þannig á öldum áður í Bretlandi að heil hreyfing fór af stað kennd við lúddíta sem fór á milli bæja og braut og bramlaði vélar vegna þess að það væru vélarnar sem rændu atvinnunni. Misskilningurinn var auðvitað alger og fullkominn. Misskilningur lúddíta var sá að vélarnar drægju úr velmegun almennings, að það væri sérstakt markmið í sjálfu sér, eins og sú hreyfing nálgaðist málin ef hægt er að tala um það þannig, þ.e. að markmiðið væri vinnan.

En markmiðið er afraksturinn. Markmiðið er fjölbreytileikinn, að til séu fjölbreytt störf fyrir alla sem skila arði. Það er það sem við eigum að vera að gera, það er svo mikilvægt þegar kemur að sjávarútvegsmálunum að við tryggjum það að við séum að nýta sem best þessa mikilvægu auðlind. Það gerum við með því að ræða það af því að við höfum ekki fundið út hið endanlega fiskveiðistjórnarkerfi. Við erum ekki komin á einhvern endapunkt í því. Það er margt sem betur má fara og margt sem við þurfum að laga. En þetta frumvarp er ekki til þess fallið. Það er til þess fallið að auka kostnaðinn og draga úr hagnaðinum. Það er það sem við eigum að gera, frú forseti, við þær aðstæður sem eru uppi á Íslandi, þ.e. að nýta náttúruauðlindirnar skynsamlega, nýta mannauðinn, hina menntuðu vinnufúsu þjóð til að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að etja og það gerum við ekki, frú forseti, ef við grípum til sömu hugmyndafræði og kom fram á fyrri hluta 19. aldar í Englandi að það væri vinnan sjálf sem væri markmiðið því það er það ekki, þá væri þetta svo auðleyst, frú forseti. Þá væru ekki nein vandamál sem við væri að fást ef þetta væri bara spurningin um það hvernig við komum sem flestu fólki í einhverja vinnu. Það væri þá alveg nóg, frú forseti, að sjávarútvegsráðherra, eins og ég sagði áðan, bannaði vélar í báta, þá væri búið að leysa það mál. Og auðvitað dettur ekki einu sinni þeim annars ágæta og merkilega sjávarútvegsráðherra það í hug, ég er sannfærður um það. En það er af þeim meiði, það er þessi villa, sú ranghugsun sem birtist í frumvarpinu og hefur birst líka í frumvarpinu um skötuselinn sem er svo alvarlegt. Þess vegna, þó að þessi frumvörp láti ekki mikið yfir sér, séu ekki mikil að vöxtum og snúi ekki neitt að svo gríðarlega mörgu tonnum, er ástæða til að hafa áhyggjur.

Að lokum vil ég segja þetta, frú forseti. Í umræðum á þinginu þegar við ræddum þetta síðast benti ég á að þetta mundi fara svona. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr eigin ræðu, þó það sé svolítið sérstakt, en þá sagði ég:

„Þetta mun bara fara svona: Annaðhvort eykur hæstv. ráðherra kvótann sem er til ráðstöfunar í þessu til að mæta því að fleiri og fleiri koma inn, og það sem mun gerast er að bátunum fjölgar til að nýta hinn aukna kvóta, eða að hæstv. ráðherra gerir ekki neitt og bátunum fjölgar þangað til að menn geta farið með þetta eins og gert var í Bandaríkjunum með lúðuveiðarnar, …“ — Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti.

Með öðrum orðum, það var fyrirsjáanlegt að þetta mundi gerast. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessu. (Forseti hringir.) Þetta er auðlindasóun og ekkert annað.



[17:11]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur allnokkur stór orð uppi enda er hann að verja með kjafti og klóm óbreytt kerfi sem verið hefur mjög umdeilt. Ég virði það þegar hv. þingmenn ganga fram með þeim hætti og vilja tryggja það sem fiskveiðiauðlindin er í og færist á hendur enn færri. Ég er ekki sammála þeirri stefnu. Það má vel vera að fjárhagsleg hagkvæmni rekstrarlega séð út frá einhverjum gefnum slíkum reiknilíkönum megi reikna það út, en það er bara ekki þannig sem við viljum hafa það. Íslensk þjóð er ekki sátt við að hafa það þannig. Þar greinir okkur á.

Það kerfi sem við erum að tala um er samt ekki sú stóra þúfa sem hv. þingmaður er að velja þessi stóru orð. Hins vegar hef ég og við sem stöndum að frumvarpinu lagt áherslu á það að réttur íbúa sjávarbyggðanna til að mega fara á sjó, þótt mjög afmarkað sé, réttur til að mega fara á sjó og sækja afla og fénýta sér hann innan mjög takmarkaðra skilyrða og það er þann rétt sem við erum vissulega að sækja þó með þessum hætti. Ég vil minna á að það er til fjöldi smárra báta í landinu og af hverju má ekki líka nýta þá fjárfestingu í sjálfu sér þjóðarbúinu til hagsbóta yfir sumarmánuðina? Það er ekki verið að leggja í einhverjar stórar nýfjárfestingar, alls ekki, heldur fyrst og fremst að nýta þær fjárfestingar sem til eru. En það er alveg hárrétt að verið er að færa þarna ákveðinn afmarkaðan rétt til að fara á sjó (Forseti hringir.) til íbúa sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Það er alveg hárrétt og það er líka mikilvæg stefnumörkun af minni hálfu.



[17:14]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að hér er um eina þúfu að ræða. En ég óttast að þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur farið höndum sínum um sjávarútvegskerfið breytist það úr túni yfir í kagþýfðan völl þar sem enginn kemst yfir og allt verður til vandræða og verður að axarskafti þegar upp er staðið.

Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki það sem verið er að horfa á, krónur og aurar, einhver hagkvæmni, rekstrarniðurstöður eða líkön, hvað svo sem það þýðir með líkönin. En það er nákvæmlega það sem þetta snýst allt saman um. Saga fiskveiðistjórnar á Íslandi er akkúrat um það, þann bardaga á milli þeirra sem hafa sagt: Okkur ber skylda til fyrir hönd íslenskrar þjóðar að nýta þessa auðlind þannig að hún skapi rentu og auðlegð fyrir þjóðina annars vegar, og hina sem hafa sagt: Við skulum bara hafa þetta allt saman opið. Við skulum leyfa hverjum sem er að fara að veiða vegna þess að við lítum á okkur sem handhafa réttlætis og við höfum skilgreint það sem réttlæti að allir geti farið út og veitt.

En hvert verður þá réttlætið? Hvert var réttlætið í skrapdagakerfinu þegar við bjuggum við opinn aðgang? Hvert var réttlætið í hinum opna aðgangi? Hvert er réttlætið í því fyrirkomulagi sem við höfum við makrílveiðarnar? Það er ekkert réttlæti í því, frú forseti, að verið er að sólunda auðlindinni með því að stórauka útgerðarkostnaðinn til að sækja sama magn af fiski sem hægt er að ná með öðrum og hagkvæmari hætti. Með öðrum orðum, ef við færum þá leið sem hæstv. ráðherra er að ýja að, að láta okkur litlu varða um hagkvæmni, litlu varða um þessi líkön eins og hæstv. ráðherra orðar það, þá er auðvitað hægt að fara með þetta þannig, eins og við vorum á góðri leið með að gera í skrapdagakerfinu, að útgerðarkostnaðurinn og kostnaðurinn við vinnsluna verði sá hinn sami og það sem við fáum fyrir auðlindina, með öðrum orðum að rentan verði engin, að við eyðum og sólundum allri auðlindinni með röngu kerfi. Það, frú forseti, er ástæðan fyrir því að flestum þjóðum hefur mistekist fullkomlega að stjórna fiskveiðum sínum og víðast hvar þegar farið er um í heiminum sjá menn að fiskimenn og veiðimenn eru fátækir. Það er vegna þess að fyrirkomulag fiskveiðanna er víðast hvar í heiminum rangt.

Kvótakerfið er ekki gallalaust og ég stend ekki hér, frú forseti, til að verja hagsmuni einhverra annarra en íslenskrar þjóðar, heldur fyrir það að verja fiskveiðistjórnarkerfið fyrir því að (Forseti hringir.) það sé eyðilagt með því fyrirkomulagi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að gera.



[17:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í kappræðu við hv. þingmann um að verja þetta kerfi eins og það hefur verið, það er ekki mín ætlan. Ég er að mæla fyrir nýju og mjög góðu máli sem eru strandveiðar og möguleiki til slíkra veiða vítt og breitt um landið. Það er það sem ég er að mæla fyrir en ekki að verja gamla kerfið sem hann heldur fram að sé algott.

Ég minni á að aðrar þjóðir, önnur lönd eru yfirleitt líka með eitthvert hliðstætt kerfi þar sem er afmarkaður réttur, eitthvert takmarkað svæði fyrir ströndum landsins til handfæraveiða þannig að þetta er ekki neitt sérstakt hér. Ef hv. þingmaður, sem ég veit að er vel að sér í þessum málum, gæti farið og kynnt sér hvernig þetta er í Noregi, í Færeyjum og í öðrum löndum þar sem menn búa við slíkar aðstæður, þá eru það í rauninni þær sem er verið að horfa hér til.

Hv. þingmaður minntist á makrílinn. Þar hljóp hann aðeins út af skeiðinu, því að við erum að semja við aðrar þjóðir einmitt um makrílinn og ég vonast til að við fáum þar góðan hlut. Við höfum sett fram kröfur fyrir hönd íslenskra stjórnvalda um ákveðna hlutdeild í þeim afla, sem er væntanlega mjög mikilvægt fyrir okkur að geta sótt, og einnig erum við að sækja um heimild núna með lögum til að geta gert kröfur á þá sem veiða makrílinn um að hann nýtist sem best til manneldis. Ég veit vel að flestar útgerðir vinna af heilum hug að því að svo sé gert, en það er líka stefnumörkun að hámarka þjóðhagslegan ábata af þessum veiðum, makrílnum eins og öðrum. Að sjálfsögðu er ekki hægt, þar sem ekki er heldur búið að semja um heildarmagn, að ganga endanlega frá veiðikerfi í þeim, en að sá grunnur verði lagður að það skuli vera hámarksnýting á þeim afla fyrir þjóðina sem heild. Við þurfum að horfa á samfélagið sem heild en ekki bara (Forseti hringir.) hagsmuni einstakra útgerðaraðila.



[17:19]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar réttindi strandbyggða. Ég veit að það hefur ekki farið fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að byggðir Íslands eru strandbyggðir að stærstum hluta. Það er einmitt þannig að útgerðin, hvort sem það eru smábátar eða stórir togarar, fer fram frá strandbæjunum. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um. Að sjálfsögðu verður hann að horfa á þetta allt saman í heild, það þýðir lítið að bera þetta saman við fyrirkomulag sem margar aðrar þjóðir hafa haft þar sem sjávarútvegurinn skiptir nákvæmlega engu máli og þar sem meira er horft á einhvers konar byggðasafnssjónarmið en eitthvað annað þegar horft er til slíkra kerfa. Ég treysti því og trúi að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki verið að horfa til slíkra fyrirmynda þegar hann smíðaði það kerfi sem við ræðum nú.

Síðan er hitt þegar kemur að umræðunni um réttlætið, þ.e. hver á að fá að veiða, ef hæstv. sjávarútvegsráðherra er þeirrar skoðunar að það kerfi sem við búum við sé fullkomlega og algerlega óréttlátt, hvers vegna staðnæmist hann bara við að leysa vandann með 6.000 tonnum í þessu fyrirkomulagi? Af hverju gengur hann ekki lengra? Af hverju segir hann ekki: Allan afla á Íslandsmiðum skal sækja með réttlátum hætti? Hvers vegna á réttlætið bara að ná til 6.000 tonna en ekki þeirra 130–150 þús. tonna sem annars er verið að veiða á Íslandsmiðum? Það er svolítið skrýtið að skammta réttlætið með þessum hætti. Annaðhvort er það þannig að menn trúa því að óréttlætið sé svona og berjast þá á móti því, en menn fara ekki fram með skammtalækningar þegar þeir fara fram á grundvelli réttlætisins. Það er heila málið. Þegar við alþingismenn ræðum fyrirkomulag veiða á Íslandsmiðum höfum við eina skyldu, hún er gagnvart þjóðinni og um það að fyrirkomulagið sem við setjum hámarki afraksturinn af þessari grein. Síðan getum við skattlagt þessa grein eins og aðrar greinar. Þetta má ekki fara aftur eins og var á árum áður þegar taka þurfti peninga úr ríkissjóði til að setja inn í útgerðirnar sem voru allar komnar meira og minna á hausinn. Biðstofur ráðherranna voru fullar af útgerðarmönnum á hverjum einasta degi sem voru að leita eftir fyrirgreiðslu til að bjarga sér og sínum. Það var fyrirkomulagið sem við bjuggum við þegar við höfðum opinn aðgang, þegar við bjuggum við t.d. skrapdagakerfið, og það er það fyrirkomulag sem ég ætla að berjast á móti, (Forseti hringir.) ekki fyrir hagsmuni einhverra einstakra eða fárra, heldur fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar, að þetta fari ekki aftur í sama farið eins og var hér á árum áður.



[17:21]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þá hleypur hæstv. ráðherra á dyr þegar ég ætlaði að fara að skamma hann. En hvað um það, ég ætla samt að gera það.

Mér fannst dálítið athyglisvert áðan, virðulegi forseti, þegar ég fór í andsvör við hæstv. ráðherra eftir að hann mælti fyrir frumvarpinu og ég var að benda á þá galla sem komu fram við svæðaskiptinguna í fyrra, að í fyrra andsvari hæstv. ráðherra tók hann heils hugar undir þetta vegna þess að hann vissi af því sem gerðist. — Nú gengur hæstv. ráðherra í salinn. — En í seinna andsvarinu og í andsvari við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór hann í þann gírinn að verja þetta vitlausa fyrirkomulag — mér finnst það mjög dapurt því að í fyrsta andsvarinu sagði hann að menn mundu að sjálfsögðu skoða þetta, það hefðu komið margir gallar í ljós, sem það gerðu — og hafði fyrir því margvísleg óefnisleg rök að mínu mati. Ef hæstv. ráðherra ætlar að fara að skipta svæðunum niður á hvert einasta byggðarlag og þar fram eftir götunum, er það algerlega óframkvæmanlegt. Rökin fyrir svæðaskiptingunni, fyrir strandveiðunum síðasta sumar, voru þau að tekinn væri helmingurinn af aflanum, af þessum 4.000 tonnum voru 1.955 tonn tekin af byggðakvóta, og þá sagði hæstv. ráðherra: Byggðakvótinn er svo óréttlátur, honum er svo misskipt og margir óánægðir með hann og þess vegna er mjög skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég sagði þá í ræðu að það væri alveg öruggt að næst þegar hæstv. ráðherra mundi boða strandveiðar, eftir ár, yrði byggðakvótinn kominn á sama stað aftur, enda var það raunin. Það er þetta sem menn verða og hæstv. ráðherra verður að skoða betur og vera ekki með svona fordóma, því að það er alveg klárt og rétt sem hæstv. ráðherra sagði að fiskurinn gengur á mismunandi tíma upp á grunnslóðina. Hann byrjar að veiðast fyrr fyrir sunnan landið á skaki og svo færir hann sig norður eftir. Hæstv. ráðherra hefur öll tromp á hendi til að skipta magninu niður á mánuðina til þess að ekki verði ójafnvægi milli svæðanna. Því mér finnst dálítið sérkennilegt í ljósi þess sem gerðist að mörg byggðarlög eins og t.d. á Ísafirði eða Súðavík, þar lönduðu allir á Bolungarvík, og á Snæfellsnesi lönduðu allir í Ólafsvík og á Rifi frekar en róa innan úr Grundarfirði eða Stykkishólmi, það var mikið um það, náttúrlega ekki allir, það er ekki rétt, vegna þess að það var styttra á miðin. Ef menn vildu tryggja að allar byggðirnar hefðu jafnan aðgang, eins og eflaust er hugsun hæstv. ráðherra, væri mjög einfalt að lengja tímann, þ.e. að þeir aðilar sem búa lengra frá miðunum hefðu rýmri tíma. Ráðherra gæti breytt 14 tíma reglunni í 18 tíma reglu eða hvað það væri. Síðan gæti hann jafnað út vegna þess að þeir sem búa næst miðunum þurfa einungis kannski 10 tíma, 12 tíma eða 8 tíma eða hvað það, hann gæti jafnað þetta svona út. En að búa til einhverjar svæðaskiptingar eins og gert var síðasta sumar, sem voru algerlega misheppnaðar, eiga menn að forðast. Menn eiga að læra af mistökunum og til að læra af mistökunum verða menn að byrja á því að viðurkenna þau. Það er alveg kristaltært í mínum huga að menn þurfa að bregðast þannig við.

Það sem gerðist síðasta sumar, og ég sagði í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan, var að menn færðu lögheimili útgerðanna, tugir manna, frá einum stað til annars, þ.e. allir sem voru á suðvesturhorninu eða margir og fyrir austan eða norðan, færðu þau inn á svæði A. Öll pósthólf, á Ólafsvík, Hellissandi, Patreksfirði eða hvar sem var, voru bara færð. Það er þannig sem menn munu fara að. En menn hafa önnur tæki til að bregðast við þessari hugsun og menn eiga að nýta sér þau. Ég vænti þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd muni fara vel yfir þetta, því að eins og ég segi, á stöðum sem menn halda að þeir hafi ekki nógan aðgang að þessum veiðum vegna annmarka, þar á bara lengja tímann, þ.e. að rýmka tímann hjá þeim sem þurfa að róa lengra og þá koma þeir jafnfætis inn. Þannig er hægt að bregðast við þessu. Við höfum mörg önnur tæki en ég hvet menn til að skoða þetta mjög vel, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist síðasta sumar þegar menn voru með svæðaskiptingu sem algerlega misfórst. Ég er reyndar búinn að dvelja lengur við þetta atriði en ég ætlaði og ætlaði reyndar ekki að koma inn á það vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra svara þessu mjög vel en svo snerist hann á augabragði og fór að verja þessa vitleysu sem klárlega kom í ljós síðasta sumar.

Ég vil hins vegar fara aðeins öðruvísi í þetta mál vegna þess að á sínum tíma, við skulum líka rifja upp söguna, þegar handfærakerfin voru eða hið svokallaða dagakerfi var, við skulum bara rifja það upp, það gerðist þannig að menn voru að róa og voru alltaf að framleiða báta inn í kerfið. Þá sögðu sömu aðilar og voru að róa í þessu banndagakerfi eða á þessu dagakerfi sem kallað var þá, handfæraveiðarnar: Stjórnvöld munu alltaf bregðast þannig við að við verðum réttir af. Og það var haldið áfram að smíða báta inn í kerfið og það er verið að gera það líka enn í dag. Það verður að hugsa þetta til enda því að menn munu ekki geta bætt við endalaust inn í þennan pott. Í fyrra voru það 4.000 tonn, núna verða það 6.000 tonn og svo koll af kolli. Ég hvet hæstv. ráðherra og hv. sjávarútvegsnefnd til að hugsa þetta aðeins lengra, því að þeir aðilar, og ég ætla að rifja það upp, sem börðust fyrir því að dagakerfið og handfæraveiðarnar væru lagðar niður voru þeir sömu og sem voru í kerfinu. Þetta var ekki krafa frá öðrum heldur eingöngu frá þeim sem voru inni í kerfinu vegna þess að dögunum fækkaði alltaf og hvað gerðist þá, virðulegi forseti? Það sem gerðist var að þeir sem voru búnir að búa sér til viðmiðun kröfðust þess að þeir fengju aflareynslu út á viðmiðunina vegna þess að þetta stefndi allt í eintóma vitleysu, að hver bátur gæti róið einungis örfáa daga á ári og þetta væri algerlega komið út fyrir öll velsæmismörk. Það voru þeir sem börðust fyrir því að handfærakerfið var lagt niður. Og það sem gerðist þá, virðulegi forseti, var að sú aflareynsla sem var inni í kerfinu var margföld miðað við það sem menn áttu að fá, þ.e. menn tóku aflaheimildir af þeim sem voru með þær fyrir, vertíðarbátunum og þeim sem halda uppi atvinnu í byggðarlögunum og færðu þær niður í þennan geira. Hver var svo reyndin? Það væri mjög áhugavert fyrir hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að skoða það. Þessir aðilar, mjög margir, seldu sig strax út úr þessu kerfi, seldu strax frá sér aflaheimildirnar sem þeir voru að berjast fyrir að fá úthlutað. Margir af þeim eru akkúrat að koma inn í strandveiðarnar í dag, auðvitað ekki allir en mjög margir, þannig að sporin hræða. Ég er alveg sannfærður um að það mun ekki líða langur tími þar til hæstv. ráðherra fer að fá heimsóknir frá þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum og segja: Strandveiðarnar geta ekki gengið, það er verið að framleiða báta, það verður að setja svo mikið inn í þetta eða takmarka svo mikið veiðarnar að það verður að úthluta aflamarkinu. Þannig gerðist þetta nákvæmlega með handfæraveiðarnar, nákvæmlega svona þegar þær voru lagðar af.

Ég hef hins vegar alla tíð sagt og hef verið hlynntur því að menn hafi val á því að koma inn í kerfið og hef talað fyrir því, og ég var mjög ósáttur við það þegar ákveðið var taka dagakerfið af og setja það inn í aflamark. Og það voru fleiri en ég, það er ekki eins og ég sé alvitur og viti allt en það voru mjög margir sem sögðu nákvæmlega það sama, að þetta mundi gerast og þetta er reyndin. Þeir aðilar sem fóru út úr kerfinu og eru búnir að selja sig mörgum sinnum út úr kerfinu eru margir hverjir komnir inn aftur. Þess vegna var það algerlega óskiljanlegt að mínu viti síðasta sumar hvers vegna það var ekki útilokað af hálfu stjórnarflokkanna að menn sem höfðu selt sig út úr greininni kæmu inn í greinina, inn í strandveiðarnar. Þeir gátu keypt sig inn í greinina með því að kaupa sér aflamark, það er allt í lagi með það, en ekki þarna, enda kemur það í ljós í skýrslunni að það er áætlað að það sé um 20% nýliðun í gegnum þetta kerfi. Menn verða að ræða hlutina nákvæmlega eins og þeir eru en ekki með einhverjum upphrópunum.

Í sjálfu sér hef ég alla tíð verið hlynntur því að menn hafi þarna aðgang og ég hef oft orðað það þannig, virðulegi forseti, að þetta sé ákveðin aðferðafræði til þess að tappa þrýstingnum af kerfinu. Það hefur verið mín skoðun. En þá verðum við líka að hugsa málið til enda. Það er ekki nóg að leyfa bátunum að fjölga og fjölga og ætla síðan að bæta við kvótann og bregðast svo við því einhvern veginn seinna þegar allt er sprungið í loft upp. Menn verða að hugsa þetta til enda og taka umræðuna miklu dýpra en við gerum oft hér.

Síðan langar mig líka að koma inn á það að þegar menn voru að tala um byggðakvótann og hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði, bæði á framboðsfundum og eins þegar hann var að kynna frumvarpið, að það væru mjög miklar deilur um byggðakvótann og það væri óréttlátt kerfi, það væri miklu skynsamlegra að færa veiðiréttinn, eins og hann orðaði það, aftur til byggðanna — það er ákveðið sjónarmið — og taka frekar byggðakvótann út og þessi byggðarlög gætu þá komið inn. Síðan er reyndin þessi, hvað gerist? Byggðakvóta er aftur að úthlutað, 4.000 tonnum, og þessu til viðbótar. Það er nákvæmlega það sem maður hélt að yrði gert. Þegar kemur einhver mótspyrna verður fólk líka að standa í lappirnar Það er það sem gerist og það er það sem verður að gera.

Mig langar aðeins að rifja upp vegna þess að við erum svo oft að ræða aukaatriðin. Ég hefði frekar viljað ræða hér samsetningu byggðakvóta, herra forseti. Hvernig er samsetning á byggðakvóta? Hún er þannig að þar eru fjórar tegundir, þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Það eru nokkuð mörg ár síðan ég hugðist fara í mál við Árna Mathiesen, sem þá var sjávarútvegsráðherra, út af þessu. Þetta segir okkur að það er vertíðarflotinn sem heldur uppi byggðarlögunum, eins og t.d. vestur á Snæfellsnesi, ásamt náttúrlega smábátunum og minni trollbátum í Grundarfirði og víðar, þessir aðilar sem eru í atvinnu allt árið halda uppi byggðarlögunum. Þá gerist það að menn sem eru eingöngu með heimildir úthlutað, eins og t.d. bátar í smábátakerfinu, vertíðarbátar, þurfa að láta af sínum heimildum miklu meira magn inn í svokallaðan byggðakvóta heldur en þeir sem eru með karfa eða annað, þeir þurfa ekki að láta neitt. Þannig að ef menn skoða þetta hjá útgerðunum, eins og minni krókaaflamarksbáta eða hefðbundna vertíðarbáta voru, þá voru menn þar að láta mjög stóran hluta af heimildum sínum í þetta, alla þessa potta, byggðakvótann, rækjubætur, línuívilnun og þar fram eftir götunum. Þeir voru kannski að fá 8% skerðingu á meðan t.d. stórútgerð í Hafnarfirði var að láta 0,8%. Ég hefði frekar viljað að við værum að ræða hér um að rétta þessa hluti af, að allir sem eiga að setja inn í þessa potta settu jafnt, jafnmikið í ígildum hver og einn, þannig að þessi mismunun væri ekki í gangi. Síðan komum við aftur að strandveiðunum og þá er bara tekinn þorskur og þeir sem eru með karfakvótann og uppsjávarskipin setja ekkert inn í þessa potta. Það er alltaf tekið af sama flotanum og það gerist með þeim hætti, virðulegi forseti, að það fjarar hægt og bítandi undan þessum útgerðum.

Við verðum líka að átta okkur á því að til að mynda bátur sem gerir núna út á línu — þetta eru 3% af heildaraflanum í þorski þessi 6.000 tonn — getur róið upp undir þrjár vikur til mánuð til viðbótar með tíu menn í vinnu og sú útgerð, og þær eru fleiri en ein, verður núna að láta níu menn fara heim á atvinnuleysisbætur og láta einn róa á strandveiðum. Það er ekki bæði haldið og sleppt. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, að við verðum að ræða þessi mál í samhengi. Það er ekki allt bara klippt og skorið í þessum hlutum.

Síðan kemur fram, virðulegi forseti, að það er ákveðið að veiða megi 650 ígildi. Ég held að það sé mjög góð breyting miðað við það sem var vegna þess að þetta var í kílóum. Nú breytist þetta í ígildi, þ.e. ufsinn er helmingi minna ígildi en þorskurinn, þannig að menn geta hugsanlega fengið svipuð verðmæti, af því að það voru brögð að því og það geta menn fengið staðfest, og ég hef fengið það staðfest frá mönnum sem vinna á markaðnum og víðar, að aflasamsetning milli bátanna sem voru á strandveiðunum og hinna var mismunandi. Þegar vel fiskaðist og menn fengu stóran og góðan fisk þurftu þeir ekki að hanga með ufsann um borð og þar fram eftir götunum. Það vantar hins vegar að það komi fram í frumvarpinu, ég gat ekki séð það, hvort þetta er óslægt eða slægt, þ.e. það sem er miðað við þessi 650 ígildi, en ég ítreka það að ég tel að þessi breyting sé til batnaðar að breyta þessu í ígildi úr kílóum.

Nú er sagt að umframaflinn sem kemur fram yfir, þ.e. ef menn fara yfir 650 ígildi, fari í jöfnu hlutfalli við þann afla sem menn landa sem gerir það að verkum, og ég bið hv. sjávarútvegsnefnd að skoða það, að menn munu enn verða dálítið fastir í þessari gildru, þ.e. hættan er sú að ef menn veiða 650 ígildi og halda að þeir séu komnir með 680 ígildi, reyna þeir að henda frá sér 30 ígildum í ufsa, þannig að það er ákveðinn hvati í því að losa sig frekar við ufsann en þorskinn. Ég held að þá væri, af því að það er að sumu leyti oft erfitt að áætla hvort maður er með 840, 860 eða 870 kíló, hugsanlega skynsamlegra að láta t.d. fiskmarkaðina greiða sektina beint inn í ríkissjóð og taka hugsanlega bara af ódýrari tegundum eða eitthvað svoleiðis, þannig að menn hefðu það aðhald sem þarna þyrfti til að bregðast við þessum þáttum.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja það að ég hef alla tíð verið hlynntur því að menn hefðu ákveðinn aðgang í gegnum handfæraveiðar, en menn verða að hugsa málið til enda og skoða fortíðina líka, því að það voru þeir menn sem stunduðu handfæraveiðarnar á sínum tíma sem einir börðust fyrir því að það kerfi yrði lagt niður. Og að lokum segi ég það, virðulegi forseti, að ég vænti þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari vandlega yfir þetta mál og geri hugsanlega breytingar á því milli umræðna.



[17:36]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Hann kemur inn á ýmis atriði sem hafa þarf í huga og verða í sjálfu sér alltaf eilífðarmál. Við getum aldrei búist við því að við séum búin að ljúka einhverju máli og sjáum fyrir endann á öllu í þeim efnum.

Hann minntist sérstaklega á að reyna ætti að afmarka það að þau skip og þeir sem kæmu inn í strandveiðarnar væru ekki samhliða í verslun með aflaheimildir nema þá í mjög afmörkuðum mæli og í frumvarpinu er reynt að girða fyrir það. Í fyrsta lagi er sagt að leyfi sé bundið við eitt skip og að sami aðili megi ekki vera með fleiri en eitt skip því að markmiðið er jú að þetta dreifist á aðila sem langar til að fara út í veiðar á þessum grunni.

Reyndar gildir þetta ekki fyrr en frá og með næsta ári því að ekki var talið fært að setja það inn á þetta ár en frá og með næsta ári verður óheimilt að veita fiskiskipum leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verði flutt af því. Og eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skipsins. Með þessu er verið að setja þessu meiri skorður og meiri ramma en auðvitað þurfum við líka að huga að því að það er ákveðin krafa um jafnræði og jafnræðisreglu þannig að það þarf að finna þetta bil. Engu að síður er þetta lagt til þarna til að koma til móts við þetta.

Herra forseti. Hv. þingmaður minntist á mörg önnur atriði og verður sjálfsagt að skoða þau í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



[17:38]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur hæstv. ráðherra misskilið mig. Ég ræddi þessi tvö atriði akkúrat ekkert í ræðu minni, annars vegar um það að menn mættu ekki vera með fleiri en einn kvóta og hins vegar það að menn mættu ekki láta frá sér aflamark frá og með árinu 2011. Mér er fullkunnugt um það atriði í frumvarpinu en ég fór ekki yfir það í ræðu minni.

Það sem ég sagði var nákvæmlega það sama og ég sagði í sumar þegar við vorum að samþykkja strandveiðarnar: Mér finnst óréttlátt að þeir aðilar sem eru búnir að selja sig út úr greininni komist inn í strandveiðar. Ég geri enga athugasemd við það að menn selji sig út úr greininni og kaupi sig aftur inn í hana með því að kaupa sér aflamark, hvort heldur sem það er í krókaflamarki eða öðru, ég geri enga athugasemd við það. En inn í þetta kerfi eiga að mínu viti ekki að koma þeir sem hafa selt sig út úr greininni og það var alveg hægt að koma því þannig fyrir a.m.k. í eitt ár. Ég viðurkenni það hins vegar, og gerði það líka í sumar, að menn geta komist fram hjá því með því að stofna önnur hlutafélög, hafa aðra eigendur og eitthvað í þeim dúr en það var alla vega hægt að gera þetta einu sinni. Það hefði verið hægt að gera það í sumar. Mér þótti mjög dapurlegt að meiri hluti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vildi ekki skoða það mál.

Það er líka mjög mikilvægt í ljósi sögunnar, eins og ég fór yfir áðan, að þegar handfærakerfið var lagt niður þá var það einmitt krafa þessara manna sem voru inni í því. Það var ekki utanaðkomandi krafa. Þeir sem störfuðu í kerfinu voru búnir að búa sér til viðmiðun og börðust fyrir því að fá kerfið lagt niður. Ég er ekki búinn að gleyma þeim reiðiræðum sem ég hélt yfir flokksfélögum mínum þegar það var gert. Ég var mjög ósáttur við það. Þess vegna sagði ég í ræðu minni áðan að það væri mjög mikilvægt að menn horfi til þess hvernig þetta þróast en komi ekki fram með einhverjar lækningar á hverju ári. Menn verða að setja sér ákveðin markmið þannig að sjái fyrir endann á þessu svo að þetta fari ekki í sömu vitleysuna og það gerði fyrir örfáum árum.



[17:40]Útbýting:

[17:41]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn eitt frumvarpið um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég held að ég hafi í ræðu í sumar, við eina af þeim frumvarpsbreytingum sem þá voru á döfinni, nefnt að frá því að lögin tóku gildi frá 1990 væri búið að breyta þeim meira en 40 sinnum. Þetta segir okkur það auðvitað að þetta eru mannanna verk og við erum að kljást við að deila út takmarkaðri auðlind. Það er erfitt að gera svo að öllum líki en það er stöðugt verið að reyna að bæta í, reyna að stoppa í götin og laga til þó það hafi kannski ekki allt verið til bóta sem gert hefur verið.

Enn á ný erum við komin hér og enn á ný ætlar ríkisstjórnin að magna upp deilur í stað þess að setja þetta verkefni í þá sátta- og samráðsnefnd sem hún hefur þó komið á fót. Engu að síður leggur hún þetta frumvarp fram. Mér liggur við að halda, og það má eiginlega segja það, að þetta frumvarp hafi verið búið til um leið og frumvarpið um strandveiðarnar, hin tilraunaútgáfan, sem var kynnt í sumar og keyrt með miklu hraði í gegnum þingið í júní. Þrátt fyrir að menn hafi ætlað sér að læra af reynslunni væntu stjórnarliðar þess að þeir kæmu síðan aftur í haust með tilbúið strandveiðifrumvarp, það var svo augljóst að það mátti eiginlega gefa sér að það gerðist alveg sama hvað upp á kæmi í sumar.

Þetta frumvarp, sem mun væntanlega ganga undir gæluheitinu strandveiðifrumvarpið, ætti þá kannski að fjalla um raunverulegar strandveiðar þar sem menn nota stöng, standa á ströndinni og veiða, eins og menn gera til að mynda í Garðinum. Menn hafa jafnvel verið að velta því fyrir sér sem lið í ferðaþjónustu að reyna að skoða landið allt hvað það varðar að hefja slíkar raunverulegar strandveiðar. Ef menn eru verklausir í sjávarútvegsráðuneytinu og koma þess vegna inn eins gert er í dag að láta ganga til atkvæða um eina breytingu og kasta tveimur, þremur öðrum breytingum fram í þingið á sama tíma og samráðsvettvangurinn starfar þá er kannski rétt að benda þeim á verkefni sem þarf að sinna og það eru skipulagsmál í fjörðum og við strendur. Það eru raunveruleg vandamál sem þar eru að skapast í tengslum við þá sem vilja nýta lífríki sjávar næst landi, bæði frá hendi þeirra sem eiga jarðirnar og ákveðinn rétt þar og svo eins lengra út frá landinu í sambandi við fiskeldi, kræklingaeldi og ýmislegt annað. Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið fari að móta sér stefnu í því að væntanlega þarf að gera þetta með einhverjum hætti skipulagsskylt þannig að þar sé hægt að stýra nýtingunni því að þetta er vitanlega takmörkuð auðlind líka.

Ef við höldum okkur við þetta frumvarp og þessa strandveiðihugmynd ríkisstjórnarinnar má svo sem spyrja sig, eins og menn hafa gert í ræðustóli á undan mér, hvað hafi gerst í sumar og hver hafi verið ávinningurinn. Mig minnir að menn hafi verið að tala um að það mundu kannski að hámarki verða 300 skip og bátar sem færu út á sjó og á þessar veiðar. Þau reyndust þegar upp var staðið vera 554. Á sama hátt var áætlað að veiða ætti yfir 4.000 tonn og ég held að það hafi veiðst yfir 4.100 tonn á þessari sumarstrandveiðivertíð en nú er áætlað að fara í 6.000 tonn.

Annan árangur má svo sem skoða í þeirri skýrslu sem ráðherrann kynnti til leiks en hann sagði í ræðu sinni að kostirnir væru ótvíræðir. Ég minnist þess ekki að hann hafi minnst á einn einasta galla. Það má vel vera að þá megi finna og jafnvel í skýrslunni líka en þó voru kostirnir fyrst og fremst taldir upp í henni. Maður gæti til að mynda spurt: Hvernig er með hagkvæmni eða óhagkvæmni veiðanna? Það var aðeins nefnt með gæðin að það hefði komið á óvart að þau hefðu verið meiri en menn bjuggust við. En hvernig voru gæði hráefnisins? Hvert var markaðsverð á vörunni sem þarna kom upp? Hvernig var með þá áhættu sem margir töluðu um, þegar um 550 skip og bátar færu á flot í alls konar aðstæðum með mismunandi reynslu og kunnáttu? Hver var reynslan af því? Hvernig var með fjölda útkalla Landhelgisgæslunnar og annað slíkt?

Það hefur líka verið nefnt að einungis 17,3% af aflanum hafi orðið til þess að atvinna skapaðist í heimahöfn. Er það ásættanlegur samfélagslegur ávinningur? svo að maður noti nú orð ráðherrans sem taldi að þetta snerist kannski um samfélagslegan ávinning.

Þá má líka spyrja: Hvað varð um byggðakvótann og tengingu við hann og hvernig verður hann þá í kjölfarið? Upphaflega átti að taka þetta að öllu leyti úr byggðakvótanum þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegsráðherra en hæstv. ráðherra Jón Bjarnason endaði í sumar með 50%. Nú er engin tenging við hann. Hvað þýðir þetta fyrir byggðakvótann á mismunandi stöðum? Það væri áhugavert að fá að heyra það og við þurfum kannski að ræða það í nefndinni.

Það má líka velta fyrir sér af hverju þessi 800 kg voru lækkuð niður í 650. Það hafa komið upp aðeins mismunandi áherslur í því hvernig það skilar sér. Af hverju á að auka kvótann í 6.000 tonn? Hvað gerist þá næsta ár? 550 bátar síðasta sumar, verða þeir 700 á næsta sumri? Hvar ætla menn að hætta? Þetta mun, eins og margir hafa komið inn á, auka eftirspurnina eftir því að fá meiri aðgang að þessari takmörkuðu auðlind.

Í frumvarpinu kemur líka fram að enn á að auka á ráðherraræði og er það kannski nóg á Íslandi. Þetta eru geðþóttaákvarðanir ráðherra um skiptingu á landsvæðum og aflaheimildum innan þeirra innan hvers mánaðar. Það má minna á að í því frumvarpi sem við greiddum atkvæði um fyrr í dag var miðstýringar- eða ráðherraræði þar sem ráðherrann ætlaði sjálfur að skipta sér af því hvernig einstaka fyrirtæki meðhöndlaði makrílveiðar í stað þess að setja hann inn í aflamarkskerfi. Með þeim hætti hafa fyrirtækin bent á að auka mætti verðmæti sjávarafurða milli 6 og 8 milljarða jafnvel. En í stað þess á þetta vald að vera hjá ráðherra og hann á að taka geðþóttaákvarðanir um það og það þó að hér í ræðustól hafi verið bent á, og hæstv. ráðherra jafnvel viðurkennt, að þessi landsvæðaskipting hafi verið „algerlega misheppnuð“ eða bara „misheppnuð“ — ég man ekki hvort orðalagið var notað, ég geri svo sem ekki greinarmun á því — en hún var það klárlega síðasta sumar.

Það má auðvitað ræða um strandveiðar og við gerðum það framsóknarmenn í sumar, að strandveiðar per se væru í sjálfu sér kannski ekkert galnar en menn þyrftu að setja það niður fyrir sér um hvað þær ættu að snúast. Kannski ættu þær ekki að vera hluti af atvinnuveiðum. Kannski er það bara eðlilegt að menn geti róið til fiskjar og veitt og þá þurfa þær að vera takmarkaðar með einhverjum hætti. Kannski er hægt að taka einhvern samanburð við landbúnað, til að mynda þá sem hafa sauðfé. Það hafa allir rétt til að hafa sauðfé en þeir sem búa við það að vera með sauðfjárrækt kaupa sér gjarnan kvóta eða eru í því af fullum krafti. En allir geta átt sínar 10 kindur og fengið útrás fyrir þá athafnaþörf að sinna þeim. Það getur vel verið að strandveiðarnar eigi sér ákveðinn rétt þannig að hver og einn hafi þann möguleika að róa til fiskjar og þar með verður líf í höfnunum yfir sumartímann. En með þeim formerkjum sem þetta var gert í sumar, og heldur kannski áfram hér, er verið að ýta undir að þetta sé leið inn í raunverulega atvinnusköpun sem kannski ýtir undir það að menn sæki óþarflega mikið í kvóta á kostnaðarverði og að eftirspurnin eftir sívaxandi kvóta eða sívaxandi aflaheimildum verði sú sem við þekkjum úr öðrum tilraunum til að koma þessum breytingum á í kerfinu.

Mig langar að ræða aðeins um markmið laganna. Það er oft ágætt að fara til upprunans og í 1. gr. laganna, þar sem fram kemur markmið þeirra, er sagt að nytjastofnar á Íslandi séu sameign íslensku þjóðarinnar og markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmari nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það er líka áréttað að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Við framsóknarmenn höfum margítrekað að mjög mikilvægt sé að koma ákvæðum um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá.

Í ljósi þessa markmiðs er áhugavert að sú skýrsla sem ráðherra vísaði til yrði kannski dýpkuð. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði í andsvari við ráðherrann fyrr að kannski væri nauðsynlegt að kanna þetta ítarlega. Ég vil ganga heldur lengra og leggja það til við ráðherrann — ég sakna þess að hann er ekki hér inni — að hann hlutist til um að hlutlaus aðili geri úttekt á því. Þar ætti að kanna hagkvæmni veiðanna, og þá bæði með tilliti til einstakra útgerða sem og heildarinnar, og eins þessa samfélagslegu þætti sem munu þá snerta bæði atvinnu og tekjur byggðarlaganna og síðan markaðslega þætti. Ég held að það sé áhugavert að skoða það áður en við höldum lengra á þessari braut.

Það kom líka fram í ræðu ráðherrans að ákveðinn hluti lítils byggðarlags hefði skrifað honum bréf, 183 íbúar, og þakkað kærlega fyrir þessa aukningu í starfsemi þeirra, sem er hið besta mál. En hvað með jafnaðarregluna? Hvað með íbúa í Suðurkjördæmi sem gátu greinilega ekki nýtt sér þetta kerfi á síðasta ári eins og til hafði verið ætlast enda veiddist lítið í því svæði. Við getum líka rifjað upp skötuselsákvæði þar sem þeir sem hafa aflaheimildir í skötusel hafa ekki heimild til að sækja í þær aflaheimildir sem ætlað er að úthluta með öðrum hætti í því kerfi, hvað með þá? Er þetta leiðin sem ráðherrann ætlar að fara? Ég held að þarna séu ýmsar spurningar sem við verðum að taka upp í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Ég sagði það einhvern tíma í sumar þegar ég var að hefja vinnu mína í þinginu að ég mundi geta þess í lokaorðum í 1. umr. um öll frumvörp sem ríkisstjórnin legði fram að þó að fylgiskjal fylgi frá fjármálaráðuneytinu fylgir aldrei, ég man varla eftir nokkurri undantekningu, fylgiskjal frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga þar sem kannað er hvaða kostnað frumvarpið, viðkomandi breyting eða ný lög, hafi í för með sér fyrir sveitarfélögin í landinu. Hér þyrfti það að gerast. Ég er hins vegar alveg meðvitaður um að hér á eftir ætlum við að ræða frumvarp um veiðileyfisgjald þar sem tekjurnar eiga að renna til hafnanna. En ég held að það sé eðlilegt að öllum frumvörpum frá ríkisstjórninni fylgi ekki einasta umsögn fjármálaráðuneytisins um áhrif á kostnað ríkisins heldur einnig umsögn sveitarfélaganna um áhrifin á fjárhag þeirra. Læt ég ræðu minni lokið í fyrstu lotu um þetta strandveiðifrumvarp.



[17:56]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir yfirgripsmikla og ágæta ræðu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi þá skoðun Framsóknarflokksins að það væri stefna flokksins að fara með inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni. Nú er ég í hópi þeirra sem telja að hugtakið þjóðareign sé afskaplega hæpið lögfræðilegt hugtak en látum það liggja á milli hluta.

Ég vil frekar inna hv. þingmann eftir því hvort hann gæti verið sammála mér um að hægt sé að nálgast umræðuna um eignarhaldið á auðlindinni með eftirfarandi hætti, þ.e. að íslenska ríkið fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á og fer með fiskveiðiauðlindina. Með öðrum orðum, það er sjávarútvegsráðherra sem tekur ákvörðun að fenginni ráðgjöf frá vísindamönnum um hversu mikið má veiða á hverju ári úr hverjum stofni fyrir sig, það er íslenska ríkið sem ver hagsmuni íslensku þjóðarinnar í samskiptum við önnur ríki, ver fiskveiðilögsöguna með landhelgisgæslu og öðru slíku, en síðan sé um að ræða séreignarrétt útgerðarmanna á veiðiheimildum. Þetta sé í sjálfu sér ekkert öðruvísi fyrirkomulag heldur en að líta svo á að íslenskt land sé sameign okkar allra, landið Ísland sé eign Íslendinga, en það sé þá þannig að bændur hafi séreignarrétt á jörðum sínum, nýtingarrétt á jörðunum, og að þau hugtök rekist ekki á, þ.e. að annars vegar sé það einhvers konar eign, hvort sem ríkið eða í það minnsta ekki eins skýrt skilgreint að sé þjóðareign á landi en geti um leið verið séreign bænda á jörðum sínum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn ræði þetta því þetta er grundvöllurinn að auðlindanýtingu, þetta er grundvöllurinn að því að við getum nýtt auðlindir Íslands með skynsamlegum, arðbærum og sjálfbærum hætti. Sagan er um það hvernig þær þjóðir sem hefur mistekist þetta hafa glutrað auðlindum sínum niður. Ég hef áhuga á að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.



[17:58]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt að við framsóknarmenn höfum gengið mjög langt í því að vilja tryggja eignarrétt þjóðarinnar með sérstöku ákvæði í stjórnarskránni. Fyrirspurn hv. þingmanns lýtur að því hvort það megi hugsa sér að hægt sé að koma einhverjum öðrum orðum að þeirri hugsun sem ég býst við að við séum sammála um. Ég gef mér það þó að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi ekki notað orðið nýtingarréttur þá sé það kannski það hugtak sem við erum að tala um. Það er eðlilegt að ríkisvaldið fari með það hlutverk fyrir hönd þjóðarinnar þó að ég vilji reyndar gera greinarmun á því hvernig ríkisvaldið fer með einhvern eignarhlut þjóðarinnar því að ríkisvaldið er auðvitað kosið til þess og er ákveðið framkvæmdarvald og er auðvitað ákveðið framkvæmdarvald og er ekki endilega besti aðilinn til að fara með eign þjóðarinnar í öllum málum.

Mér finnst koma vel til greina að menn setjist niður og reyni að finna sátt um þetta. Ég veit að hjá ýmsum aðilum innan sjávarútvegsins vex þeirri skoðun mjög fiskur um hrygg að það þurfi að viðurkenna það af því að eitt af því sem hefur verið ágreiningsatriði við almenningsálitið í landinu og eitt af því sem hefur verið ásteytingarsteinn um fiskveiðistjórnarkerfið er að eðlilegt sé að ríkisvaldið geti úthlutað þessum nýtingarrétti, t.d. til langs tíma, en ekki endilega ótakmarkaðs, og það sé grundvöllur þeirrar auðlindanýtingar og þá megi hugsa sér að menn komi auðlindagjöldum að með þeim hætti.

Ég er sammála þingmanninum um að slík auðlindanýting og auðlindagjöld þurfi auðvitað að vera með jafnræði ekki einungis í sjávarútvegi og landnýtingu heldur allri nýtingu sem heyrir undir eignarhald þjóðarinnar.



[18:00]
Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að kalla eftir afstöðu til þess grundvallaratriðis hvort nýtingarrétturinn, hvort sem um er að ræða á fiskstofnum eða á landi, eigi eða geti verið í einkaeign á sama tíma og auðlindin sjálf, fiskarnir í hafinu eða landið okkar Ísland, geti verið í ríkiseign eða umsjá ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar. Hvert sem horft er hafa menn séð að þar sem ríkið hefur slegið eignarhaldi sínu á nýtingarréttinn, þjóðnýtt þann rétt, og/eða mönnum hefur ekki tekist að koma neinum slíkum rétti á, og um hefur verið að ræða opna almenninga, hefur það haft skelfilegar afleiðingar og má benda á fiskveiðistjórnina eins og hún var árum og áratugum saman. Ég er að kalla eftir svari við þeirri spurningu: Styður hv. þingmaður að bændur hafi séreignarrétt á jörðum sínum og útgerðarmenn séreignarrétt hvað nýtingarréttinn varðar? Ég legg þetta að jöfnu því að hér er um að ræða nýtingu á náttúruauðlind, endurnýjanlegri náttúruauðlind, og sömu lögmál hvað stærstu drættina varðar gilda um þessar auðlindir.

Það er eðli máls samkvæmt erfiðara og flóknara að koma á nýtingarrétti í sjávarútvegi. Við höfum þó stigið þessi skref vegna þess að sagan hefur kennt okkur að með því að koma á séreignarnýtingarrétti leitast menn við að hámarka tekjur af framleiðslu og lágmarka kostnað. Það á bæði við í sjávarútvegi og í landbúnaði. Það er þess vegna sem ég kalla eftir þessu. Ég held að best fari á því fyrir íslenska þjóð að það verði þannig, eins og kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða, að það sé einhvers konar eign ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar — ég tel reyndar að orðalagið í lögunum sé misvísandi og ónákvæmt en þar sem það sé hugsunin — á stofnunum og þar með ábyrgðin á því að ákvarða hversu mikið megi veiða. Síðan séum við með nýtingarrétt á sjálfri veiðinni til að tryggja það sem ég nefndi áðan, að arðurinn sé hámarkaður sem best með því að hámarka tekjurnar og lágmarka kostnaðinn við fiskveiðarnar. Því miður gengur það frumvarp sem við ræðum hér alveg þvert gegn allri slíkri hugsun því að þar förum við í þá áttina að auka kostnaðinn þar sem við ættum ekki að gera það.



[18:03]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð umræða og kannski mun áhugaverðari en frumvarpið sem við vorum að ræða áðan. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns um að það snýr alls ekki að því að hámarka arð út úr greininni, hvað þá að lágmarka kostnað, kannski algerlega hið gagnstæða. En það snýr kannski að einhverjum öðrum þáttum.

Varðandi það að grundvallarnýtingarréttur geti verið í einkaeign en auðlindin sjálf í eigu þjóðarinnar þá er það alla vega afar mikilvægt í mínum huga að auðlindin sjálf sé í eign þjóðarinnar og að það ákvæði verði með einum eða öðrum hætti tekið upp í stjórnarskrá og það sé nokkuð skýrt. Ég held að það sé einn af þeim þröskuldum sem gerir það að verkum að sjávarútvegurinn eigi undir högg að sækja hjá almenningi, hvort sem það er með réttu eða röngu. Það getur vel verið að það þurfi talsvert meiri umræðu um þessi hugtök hjá þjóðinni en ekki þær upphrópanir sem verið hafa.

Varðandi það hvort nýtingarrétturinn sjálfur geti verið í einkaeign eða hvort einhver tímatakmörk séu á leigu á honum þá er það eitthvað sem mér finnst mikilsvert að ræða. Ég get alla vega fullyrt að ég er sammála þingmanninum, ég er alveg sannfærður um að við séum sammála, um það að við viljum sjá að einstaklingar og hópar einstaklinga nýti þetta í samvinnu frekar en að um verði að ræða einhvers konar samyrkjubúskap eða ríkisbúskap hvort sem horfir til landnýtingar eða nýtingar á sjávarútvegi.

Ég held að þarna séum við kannski komin að málum sem við ættum að vera að ræða miklu meira um hér og einnig í þessari samráðsnefnd í sjávarútveginum til að reyna að skapa þá sátt sem þarf um þessa mikilvægu atvinnugrein í stað þess að vera að karpa um þetta strandveiðifrumvarp sem skilar ákaflega litlu.



[18:05]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gert ítarlega grein fyrir því frumvarpi sem við ræðum um strandveiðar. Ekki er miklu við það að bæta en ég vil þó koma inn í þessa umræðu. Strandveiðarnar hafa reynst kærkomin búbót, sérstaklega í minni sjávarbyggðum eins og allir hafa reynt, tilraun sem farið var af stað með og viðurkennt að læra þyrfti af þeirri reynslu sem aflað yrði. Einhverjir lærdómar hafa verið dregnir í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ef til vill má læra meira en ég hygg að þetta kerfi sé þannig að það sé eins og að grugga upp í glasi og svo setjist rykið þegar reynsla hefur komist á kerfið. En tilraunin tókst almennt vel, strandveiðar eru komnar til að vera, rétt eins og þær þekkjast, ef ég má segja, í Færeyjum, Noregi og víðar þar sem menn mega nýta aldagamlan rétt til að sækja sjó út frá heimahögum sínum.

Þetta er lítið magn miðað við heildarúthlutun t.d. í þorski, sáralítið magn. Það er enginn áhrifavaldur gagnvart stærri útgerðum og stærri útgerðarformum sem menn halda fram að séu hagkvæmari. Ég held ekki. Ég held að þetta geti verið áhrifavaldur á hinn veginn, þ.e. ekki áhrifavaldur gagnvart stærri vel „etableruðum“ útgerðum heldur þvert á móti aflvaki nýrra sóknarfæra og sprotareksturs í sjávarútvegi. Það er nokkuð þekkt dæmi til að mynda að kvótalausir fiskverkendur hafi fundið matarholur vegna þess að þeir hafa búið við dýrt leiguafgjald eða dýr fiskkaup. Það er afar brýnt í þessu máli að menn nýti þennan fisk eða þennan afla eins og kostur er til að skapa sóknarfæri í sjávarútvegi. Og ég held að við þurfum að leyfa fleiri kerfum að blómstra, ekki vera með einsleita stórútgerð heldur leyfa fleiri kerfum að blómstra í íslenskum sjávarútvegi. Það er mín eindregna skoðun.

Umræðan hefur verið góð að því leyti að hún hefur að nokkru leyti verið kjarnaumræða um það hvort menn séu að fara út úr kvótakerfinu og rústa það. Það eru þessi kjarnaatriði varðandi skötuselinn sem hér hafa komið fram og varðandi kvóta sem hér er tekinn til hliðar í strandveiðarnar. Þetta er kjarnaumræða og gagnleg að því leyti. En það er að mínu mati fráleitt að þessi tilraun eða þessi útgerðaraðferð sé til þess fallin að rústa núverandi kerfi útgerða og aflahlutdeildar. Það er víðs fjarri.

Það var ánægjulegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skyldi fela Háskólasetri Vestfjarða úttekt á þessu kerfi. Eflaust má gera fleiri úttektir í sambandi við það. Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi t.d. óhagkvæmni kerfisins. Ég hefði gjarnan viljað að það hefði verið skoðað hvernig skattar skiluðu sér af því, hverju þeir skiluðu til minni sveitarfélaga. Þetta er allt skoðunarvert og það er mjög til fyrirmyndar að fela Háskólasetri Vestfjarða þessa úttekt. Ég ætla ekki að lesa upp úr þessari skýrslu en vil þó endursegja nokkur atriði eins og á bls. 44 þar sem fram kemur að gæði aflans hafi almennt verið mikil. Fiskkaupendur og forsvarsmenn fiskmarkaða taka að mestu leyti undir það. Menn hafa gagnrýnt það, m.a. frá LÍÚ, að gæði aflans hafi verið lítil. Að hluta til hefur það stafað af því að menn hafa sótt styttra á mið og verið í fiski sem meiri ormur hefur verið í, er mér sagt. En það er kappsmál smábátaútgerðarmanna sem og stærri útgerðarmanna að hámarka verðmæti aflans.

Ég veit að Samtök smábátaeigenda vinna að því af kappi með því að afhenda smábátaeigendum fræðsluefni, með því að halda námskeið og þar fram eftir götunum. Þeir hafa alveg nákvæmlega sama hvata til að koma með sem verðmætastan afla að landi, sem mest gæði til að hámarka verðið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem kom fram í skýrslunni að skýrsluhöfundar telja samfélagslegt mikilvægi veiðanna mikið. Við getum ekki sem þjóð hugsað eingöngu í krónum og aurum og hagnaði. Við verðum líka að hugsa í einhverri líðan manna og samfélagsins sem fólkið býr í. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að veiðarnar hafi verið mjög fyrirferðarmiklar í minnstu bæjarfélögunum, í minnstu sjávarbyggðunum, og þar er þá tilganginum náð, að efla líf þar. Afstaðan gagnvart strandveiðunum er hins vegar neikvæðari í stærri sveitarfélögum eða stærri sjávarbyggðum þar sem kvótinn er mestur.

Menn segja að veiðarnar hafi gengið vel. Þeir sem tóku þátt í veiðunum og höfðu vel að merkja afskipti af þeim — það voru fjölmargir sem hafa afskipti af veiðum eins og gengur og gerist — voru jákvæðir í garð veiðanna. Ánægja útgerðar er auðvitað mikil og þeir vilja sjá þetta sem framtíðarskipulag. Það er að mínu mati ekki verið að kollvarpa núverandi fyrirkomulagi eins og ég hef sagt og það er sagt í niðurstöðum skýrslunnar að þeim markmiðum sem lýst var í frumvarpinu sem samþykkt var í fyrrasumar hafi verið náð að mörgu leyti, með þeim fyrirvara þó að markmiðin hafi ekki verið nægilega skýr og sett fram með ákveðnum viðmiðum. En þeir segja að veiðarnar hafi einnig náð yfirlýstum markmiðum fiskveiðistjórnar. Það er dálítið merkilegt innlegg í þessari skýrslu, hafi ekki gengið í berhögg við fiskveiðistjórnarkerfið, það er ein niðurstaðan, almennt ekki. Og að þær hafi náð að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins eins og ég hef áður sagt, byggðasjónarmiðin hafi náðst. Í niðurlagi skýrslunnar segir að það sé augljós niðurstaða að almenn ánægja sé meðal þátttakenda og hagsmunaaðila með veiðarnar. Hagsmunaaðilar hljóta líka að vera bæði fiskkaupendur og verkendur. Niðurstaðan er góð, hún gat orðið önnur vegna þess að hér var um tilraun að ræða. Tilraunin hefur tekist, ekki gallalaust en þá agnúa verðum við að skera af. Ég held að kerfið sem slíkt jafni sig og það er ekki komið til að taka af núverandi kerfi.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson — og ég nefndi það áðan — talaði um hagkvæmni og að kostnaður væri meiri. Það finnst mér athyglisverð umræða og hana vildi ég skoða og taka betur. Það eru mótrök gegn þeim sjónarmiðum hv. þm. Illuga Gunnarssonar að smábátarnir eyða almennt minna, það er minna umfang. Einyrkjarnir eru almennt ódýrari í rekstri. Það er minna í kringum þetta. Útgerðin er sveigjanlegri og margt fleira. Það er þannig erlendis að menn hugleiða varðandi fiskveiðistjórn og varðandi vistvænar og sjálfbærar veiðar að taka upp gulrótarkerfi í veiðunum, þ.e. að bátar sem eyði minna fái ívilnun rétt eins og línuívilnun. Bátum sem veiða á veiðarfæri sem eru ekki dregin er ívilnað á svæði sem eru í hættu og þar fram eftir götunum. Þetta er kölluð einhvers konar græn stjórnun og græn hvatakeppni. Það megum við alveg hugleiða. Ég get sett ýmis spurningarmerki við hagkvæmni stórútgerðar, skuttogara sem eru með gríðarlegt vélarafl, eru gríðarlega orkufrekir. Orkunotkun á kíló er margfalt meiri en á öðrum bátum. Það þurfum við líka að skoða, sérstaklega í ljósi þróunar á orkuverði í heiminum. Allt þetta verðum við að skoða mjög nákvæmlega.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vitnaði í skýrslu háskólasetursins — í tilvitnunina „hófst með látum“ — og auðvitað er það hárrétt, ekki verður horft fram hjá því. Af hverju skyldi að vera? Maður veltir því fyrir sér. Var þetta ekki langþráð tilraun sem hafði verið beðið með mikilli óþreyju, eftirvæntingu og ánægju um áraraðir? Sinnti hún ekki brýnni þörf? Brýnni þörf þess sem hefur búið við sjávarbyggð mann fram af manni frá örófi alda þar sem forfeður hafa veitt í aldaraðir, að sitja svo heima við sjávarströndina og mega ekki róa, mega ekki sækja fisk sem forfeður hafa sótt alla ævi, sótt þá björg sem liggur rétt fyrir utan heimabyggðina. Ég held líka að menn hafi með þessu verið að svala ákveðinni frelsisþörf og ákveðinni þörf einstaklingsins til að fá útrás fyrir vinnugleði sína og framkvæmdagleði og fá að gera það sem forfeðurnir gerðu mann fram af manni frá þessum litlu sjávarþorpum, sem eiga það flest sammerkt að hafa á grundvelli hagkvæmniskvótakerfis og framsals heimilda misst aflaheimildir. Um þetta verðum við að hugsa. Í þessum litlu sjávarbyggðum liggja líka gríðarleg verðmæti, í húsum og sérstaklega í fólki og framleiðslutækni. Og af því að ég nefndi hv. þm. Illuga Gunnarsson og kostnað þá kom hæstv. sjávarútvegsráðherra að því að þeim bátum, tækjum og tólum sem notuð voru til strandveiðanna fylgdi ekki fjárfestingarkostnaður nema að einhverju litlu leyti miðað við heildarverðmæti þeirra framleiðslutækja og veiðarfæra sem fóru í þessar veiðar. En það er auðvitað verkefni sem er skoðunarvert, að skoða þetta og skoða þetta heildstætt, hagkvæmni sjávarútvegs í dag. Getum við aukið hana? Erum við alveg viss um að þessar strandveiðar séu svo óhagkvæmar þegar á heildina er litið? Allt þetta vildi ég skoða. Varðandi þetta kapphlaup líka og ólympískar veiðar ítreka ég að miklar takmarkanir eru á þessum veiðum, bæði heildarafla í dögum og þar fram eftir götunum.

Ég horfi sem sé afar jákvætt á málið og það gera landsmenn í yfirgnæfandi meiri hluta. Ég vonast til að þessi jákvæðni einkenni faglega og ítarlega yfirferð hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



[18:18]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu en mig langar til að fá skýringar á nokkrum hlutum sem fram komu í máli hans. Ef ég skildi hv. þingmann rétt taldi hann að núverandi kvótakerfi yrði ekki breytt í meginatriðum. Ég skildi hv. þingmann þannig. Af því að talsvert hefur verið rætt um fyrningarleiðina væri ágætt að fá betur fram hvort það sé leið sem hugnast ekki hv. þingmanni.

Nú kom fram í máli hv. þingmanns að hann teldi rétt að fleiri en eitt kerfi væri í gangi og þess vegna styddi hann þetta mál. Ég verð að lýsa því yfir að ég get ekki verið sammála umræðunni um hagkvæmni þessara veiða sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Mig langar til að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann sé ekki á þeirri skoðun að kvótakerfi, sérstaklega kvótakerfið okkar sem víðs vegar í heiminum er litið á sem fyrirmynd um kerfi þar sem sjálfbærar veiðar án ríkisstyrkja eru í forgrunni, sé sú leið sem á að vera leiðandi og að við ættum að standa áfram við bakið á því kerfi sem hefur skapað þær forsendur að íslenskur sjávarútvegur er arðbær grein sem skilar þjóðarbúinu gríðarlega miklum gjaldeyristekjum.

Ekki kom fram afstaða þingmannsins til þess frumvarps sem hér var greitt atkvæði um fyrr í dag varðandi skötuselinn og þá staðreynd að þar var verið að heimila eða leggja til að heimila 80% meiri veiðar á þeirri tegund heldur en ráðleggingar Hafró gera ráð fyrir. Þar er að mínu mati verið að vega að þeirri fyrirmynd sem Ísland er í þessum málaflokki. Því vil ég spyrja um afstöðu hv. þingmanns, sem hefur talað mikið um vistvænar og sjálfbærar veiðar, græna stjórnun og hvatakerfi.



[18:21]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriði fiskveiðistjórnar er hversu mikið er veitt og hvaða reglur menn setja og hvort menn horfa til þeirra vísindamanna sem meta stofnstærð og hafa gert með ákveðnum hætti. Þessum takmörkuðu gæðum sem ég vona að aukist með árunum er hægt að útdeila með ýmsu móti og öðru en akkúrat núverandi kvótakerfi, hlutdeildarkerfi. Við Vinstri hreyfingin – grænt framboð höfum lagt upp með í okkar stefnu, og ég er stoltur af mínum flokki að því leyti, ítarlega stefnumörkun í fiskveiðistjórnarmálum þar sem miklu meira er undir en eingöngu sjálft kvótakerfið. Við tölum þar um fjöldamarga aðra hluti, vistvænar veiðar, orkusparnað í sjávarútvegi og fleira. Ég minni á að fiskveiðistjórnarlögin mæla fyrir um ein fjögur markmið og er eitt þeirra hagkvæmni. Ég hygg að það hafi náðst að mörgu leyti en önnur atriði eins og það að efla byggð í landinu með framsalsheimildum og fleiru hafi misfarist hrapallega á ýmsum stöðum.

Ég er heldur ekki viss um að þessar veiðar séu endilega hagkvæmar og ég spái því að í framtíðinni muni stórútgerðir fjölga bátum sínum og vera með minni báta og sóknin verði allt öðruvísi. Að vernda og efla fiskstofna er aðalatriðið og það er hægt að gera það með ýmsum kerfum. Mér tekst ekki að svara þessu með skötuselinn en mun gera það, herra forseti, í næsta andsvari.



[18:23]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég orðin spennt að fá seinna svarið þar sem ég sé ekki hvernig það á að samrýmast síðustu fullyrðingu hv. þingmanns en ég bíð spennt.

Þá langar mig líka til að hv. þingmaður, sem er þingmaður fyrir Suðurkjördæmi, fái tækifæri til að svara þeirri spurningu sem var beint til þeirra þingmanna Suðurkjördæmis sem samþykktu frumvarp sjávarútvegsráðherra sem var til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. í dag um hlut Suðurkjördæmis í því máli öllu saman. Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að hafa sterka skoðun á þessu enda er sjávarútvegur gríðarlega sterkur í Suðurkjördæmi og grundvallaratvinnugrein í því kjördæmi sem og grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að núverandi fyrirkomulag sé ekki hagkvæmt. Er þá meiningin að fara yfir í félagslega kerfið sem ríkir í Evrópu þar sem bátarnir eru allt of margir, sjómenn eru margir og á lágum launum og til þurfa að koma bótagreiðslur af hálfu ríkjanna sem reyna að halda öllu þessu kerfi gangandi, í rauninni á félagslegum forsendum en ekki á þeim forsendum sem við höfum borið gæfu til að reka á Íslandi? Við höfum skapað þær aðstæður að hér er arðbær atvinnugrein sem er í rauninni fjöregg þjóðarinnar, þetta er öflugasta grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og skapar okkur gríðarlega miklar gjaldeyristekjur. Við eigum að bera virðingu fyrir þessari grein og vera stolt af því umhverfi sem við höfum skapað. Ég er alla vega stolt af því.



[18:25]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað ber ég og hef alltaf borið mikla virðingu fyrir sjávarútvegi og þeim sem stunda sjó og fiskvinnslu í landi og þar fram eftir götunum. Við höfum sett á stofn sáttanefnd til að leita viðmiða sem hægt verður að leggja fyrir þing og þjóð um þátt í þessu kerfi. Ég hefði kosið að menn kæmu úr þeim skotgröfum sem þeir hafa verið í í kerfinu til þessa, en þær hafa verið grafnar talsvert dýpra nú síðustu mánuði en ég átti nokkurn tímann von á. Sköpum sátt um kerfið, það eru á því agnúar og líka stórir gallar, það viðurkenna allir.

Síðan hafa menn snúið út úr með fyrningarleiðina, sem ég kalla ekki fyrningarleið heldur innköllun og endurúthlutun, eins og ekkert verði veitt eftir 20 ár. Það er alrangt. Það stendur til endurúthlutun. Við höfum lagt fram tillögur og ég hef sagt að ég muni ekki standa að einhverri tillögu sem leggur sjávarbyggðir á landsbyggðinni í eyði. Ég hef lýst því yfir til að mynda í Vestmannaeyjum á fundi með útgerðarmönnum þar. Það er mín bjargfasta skoðun. Ég vil ná sátt og ég vil sníða agnúa af þessu og ég vil ná öðrum markmiðum fiskveiðistjórnarkerfisins líka, ekki bara meintum hagkvæmnissjónarmiðum. Ég hélt því fram í fyrri ræðu minni að það sem hefur helst náðst í þessu er hagkvæmni og það er ekki endilega fiskveiðistjórnarkerfið eða kvótakerfið sem hefur leitt til þess heldur hafa fyrirtækin að mörgu leyti tekið markaði í sínar hendur og sinna markaðsmálum miklu betur í dag en gert var fyrir 10–12 árum síðan. Það er svolítill kjarni í þessari hagkvæmni en ekki fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt.



[18:27]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ég get tekið undir margt í henni. Hv. þingmaður kom inn á það í andsvari sínu að hann vildi skoða þá agnúa sem væru á kerfinu. Að mínu mati er einn agnúi á kerfinu og það er að við erum með svokallaða byggðapotta við úthlutun byggðakvóta, við úthlutum rækjubótum þar sem rækju brestur í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Eldey og svo fram eftir götunum, og inn í þessar bætur verða einungis teknar fjórar fisktegundir, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Við þær breytingar sem nú eru að verða á strandveiðunum, þar sem 6.000 tonn af þorski eru tekin í úthlutunum og látin í strandveiðarnar, þá skekkjast þeir hlutir enn frekar.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvort hann er tilbúinn til að skoða það að þegar menn úthluta inn í þessa potta láti allir jafnmörg ígildi inn í pottana. Þ.e. að stórútgerðin sem er t.d. með rækjuna, loðnuna, síldina og þar fram eftir götunum gæti sett ígildi í þessa potta þannig að þegar áföll verða í sumum byggðarlögum, eins og þegar verður brestur og skelin í Stykkishólmi er dæmi um slíkt, fái menn byggðakvóta. Mér hefur alltaf fundist dálítið óréttlátt að eingöngu þessar fjórar fisktegundir séu notaðar og nú hallar enn frekar á þær vegna þess að í strandveiðunum er einungis þorskur og eitthvað pínulítið af ufsa. Er hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, tilbúinn til að skoða það að breyta þessum hlutum þannig að allir setji jafnt inn í pottana til að rétta af þau samfélög sem verða fyrir þessum áföllum?



[18:29]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er stutta svarið og það langa líka að ég er tilbúinn til að skoða allt sem má verða til þess að auka hagkvæmni í sjávarútvegi en allt skal þetta þó verða á grundvelli sjálfbærra veiða og sjálfbærni. Ég hef alltaf verið tilbúinn til að skoða góðar tillögur. Mér finnst að í umræðunni um strandveiðimál sé gert allt of mikið úr þessu máli. Ég hef allt aðrar og meiri áhyggjur af sjávarbyggðum en strandveiðum og skötusel, þær varða til að mynda aðild að ESB þar sem þessi fiskur fer á markað. Í því samhengi er þetta smámál sem við erum að tala um. Ég hef líka áhyggjur af því og hv. þingmaður e.t.v. þekkir og veit allt um það að talið er að 20% sjávarútvegsfyrirtækja standi afar illa og séu nær gjaldþroti. Fyrsta fyrirtækið er farið á hausinn og hefur verið ráðstafað, en það var Festi í Grindavík. Því var ráðstafað þannig að það skapaði ekki hættu en ég hef áhyggjur af því að við gjaldþrot fari bankar í það að hámarka gróða eða lágmarka tap, hvað verður þá um aflaheimildir gjaldþrotafyrirtækja? Ég get nefnt Snæfellsnes eða einhver önnur byggðarlög sem dæmi, hvað verður þá? Hvað verður um þá aflahlutdeild? Ef við segjum að 20% aflahlutdeildar séu í gjaldþrota fyrirtækjum og lendi inni í bönkunum, til hvaða aðgerða viljum við grípa til að tryggja að kvóti sem er afmarkaður við þetta landsvæði haldist? Það er afar mikilvæg spurning.

Viljum við sjá meiri byggðaröskun? Ég vil að kvótakerfi eða fiskveiðistjórnarkerfi tryggi byggð á landinu öllu.



[18:31]
Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég er líka þeirrar skoðunar að sjávarútvegsstefnan eigi að tryggja byggð í öllu landinu, það er alveg hárrétt. Núna er þetta þannig að t.d. hefðbundinn vertíðarbátur eða krókaaflamarksbátur þarf að láta kannski upp undir 10% af þorskveiðiheimildunum sínum inn í þessa potta á meðan stórútgerðin sem veiðir uppsjávarfiskinn er líka með aðrar heimildir sem hún getur látið af hendi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn muni ekki úthluta loðnu inn í byggðakvóta, en þeir hafa svigrúm til að láta aðrar heimildir af hendi þannig að allir setji bara það sama inn í þessa potta. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að hafa einhvers konar stýritæki ef menn og byggðarlög lenda í vandamálum. Það er mín skoðun og hefur alla tíð verið þó að það sé margt athugavert við það hvernig byggðakvótunum er úthlutað í sjálfu sér. Tíminn leyfir ekki að við förum í þá umræðu.

Seinna atriðið sem ég vil nefna við hv. þingmann er það sem hann kom inn á í ræðu sinni um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði lagt fram sjálfbæra stefnu í fiskveiðum. Það er allt gott um það að segja, en ég kom líka í ræðu minni áðan inn á svæðaskiptinguna. Miðað við þá reynslu sem við höfum frá síðasta ári finnst mér hún algjörlega hafa misheppnast. Getur hv. þingmaður tekið undir það og er hann tilbúinn að skoða það? Hugsunin með svæðaskiptingunni er að menn geti þá dreift þessu inn á einhver svæði og tryggt að, eins og ég sagði, suðursvæðið klári ekki allan aflann af norðursvæðinu og þar fram eftir götunum. Við getum skipt þessu niður á mánuði sem er ætlunin að gera. Hvað finnst hv. þingmanni t.d. um að lengja bara tímann fyrir þá staði sem liggja óhentugir að miðunum? Á Snæfellsnesi hentar t.d. mjög vel á utanverðu nesinu og menn sem róa þar þurfa yfirleitt ekki nema helminginn af þessum tíma eða kannski tvo þriðju. Gæti það hugsanlega að mati hv. þingmanns dekkað þá kröfu að allir sitji við sama borð? Ef menn hafa rýmri tíma geta þeir líka siglt hægar og eytt minni olíu því að síðasta mílan kostar alltaf 50% meiri olíu. Það er líka jákvætt að því leyti til.



[18:33]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hefur alltaf verið mér hugstæð og ég vil að menn sitji við sama borð. Ég mun skoða tillögur um það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í fyrra skiptið. Síðan heldur hv. þingmaður því hér fram að svæðaskiptingin hafi misheppnast. Ég hef ekki skoðað það í þaula en gagnstæð sjónarmið hafa komið fram. Ég veit að skýringin á þessari svæðaskiptingu á sínum tíma var að hluta til sú í fyrrasumar að hluti byggðakvótans var tekinn upp í þetta og svæðaskiptingin var sett upp til að tryggja að byggðakvótinn færi þá aftur inn á svæði A eða B eða C eða D. Þannig var mönnum með vissum hætti bættur þessi missir byggðakvóta.

Ég er ekki mikill talsmaður þess að lengja róðrartímann í dag, menn þurfa að hugsa um hvíld og annað slíkt. Það er e.t.v. hægt að hugsa sér að stytta hann líka ef menn eru mjög nærri miðum. Ég er tilbúinn að skoða þetta, ef þetta er agnúi á kerfinu er ég tilbúinn að skoða hann í þaula og fara yfir kerfið. Ég vænti þess að það verði gert í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á næstu dögum og vikum.



[18:35]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög fróðleg umræða í dag um sjávarútvegsmálin. Menn hafa farið vítt og breitt um völlinn og það er ágætt vegna þess að það er full þörf á að ræða sjávarútvegsmál í víðu samhengi í ljósi þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um greinina að undanförnu vegna þeirra hugmynda ríkisstjórnarflokkanna að fara hina svokölluðu fyrningarleið.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan að hann undraðist það hversu djúpar skotgrafirnar væru orðnar um þessar hugmyndir. Ég get upplýst hv. þingmann um að þrátt fyrir að það sé sáttanefnd í gangi vegna þessa máls eru skotgrafirnar orðnar svona djúpar vegna þess að sjávarútvegsmálin hafa ekki fengið að vera í friði fyrir ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir að málið sé í sáttanefnd og það hafi verið sett þangað. Sjávarútvegsráðherra leggur fram frumvarp eftir frumvarp til breytinga á kerfinu okkar og í augum þeirra sem ekki lesa djúpt getur þetta litið út sem smávægilegar breytingar en hér er verið að tala um grundvallarbreytingar á þeirri hugsun sem hefur einkennt kerfið okkar. Í rauninni er verið að róa í þann grunn sem þessi mikilvæga atvinnugrein okkar byggir á. Þess vegna eru skotgrafirnar djúpar og það er skiljanlegt. Það er mjög miður að það sé svo, en ég skil einfaldlega fullkomlega hvers vegna málið er komið í þennan farveg. Það er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og vegna aðgerða ríkisstjórnarflokkanna þannig að það ætti ekki að koma hv. þingmönnum stjórnarliðsins á óvart.

Jafnframt kom fram í ræðu hv. þingmanns að fyrningarleiðin væri ekki endalok sjávarútvegs á Íslandi. Það má vel vera að eitthvað sé til í því en þessi umræða og þessar hugmyndir hafa hins vegar valdið tjóni nú þegar. Það er mikil óvissa um frekari uppbyggingu í greininni, menn halda að sér höndum varðandi fjárfestingar þar sem óvissan er alger.

Síðan hefur verið kallað eftir frekari útfærslu á þessari svokölluðu fyrningarleið af hálfu allra aðila. Þegar útfærslan kemur ekki fram fara menn að sjálfsögðu að draga ályktanir sínar af orðum hv. stjórnarþingmanna um hvað liggi í loftinu. Á þeim grundvelli draga menn ályktanir um það hvernig framtíðin verður. Þess vegna er varla boðlegt af hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að gera lítið úr málflutningi þeirra aðila sem eru að reyna að byggja hugmyndir sínar um það hvert framtíðin kemur til með að leiða rekstur þeirra á ræðum og orðræðu stjórnarþingmanna. Það væri ágætt, herra forseti, ef hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, sem mér virðist vera varaformaður nefndarinnar, væri við ræðu mína þar sem ég kem til með að koma talsvert inn á gagnrýni þingmannsins á málflutning þeirra sem hafa gagnrýnt þessa fyrningarleið. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti getur upplýst að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir er ekki í húsi. Það er hægt að kanna hvort hún er einhvers staðar ínáanleg.)

Já, takk fyrir.

Hv. þm. Atli Gíslason hélt því fram að innköllun og endurúthlutun mundi fara fram eftir að fyrning hefur átt sér stað. Hvernig mun endurúthlutun fara fram? Að því er mér virðist grundvallast röksemdafærsla vinstri manna á því að fyrri úthlutun hafi verið ósanngjörn, óréttlát, og nú skuli koma á sátt og réttlæti í þessu kerfi með valdboði, með því að innkalla aflaheimildir og endurúthluta. Hverjir eiga að standa að þeirri endurúthlutun? Eru það ekki stjórnmálamenn? Hver segir að sú endurúthlutun verði eitthvað réttlátari en sú fyrri í augum almennings? Þetta er einfaldlega eintóm endaleysa. Enginn rökstuðningur hefur komið fram sem útskýrir hvers vegna menn eru að fara í þessa vegferð.

Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein okkar. Íslenskur sjávarútvegur er sú sterka stoð sem samfélag okkar byggir á og hefur aldrei verið mikilvægari en akkúrat í dag og kemur til með að verða hornsteinninn í því að endurreisa efnahag landsins. Samfélag sem byggir á sterkum sjávarútvegi sem með sjálfbærum veiðum skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur og þiggur ekki ríkisstyrki er öfundsvert hvar sem er í heiminum. Íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur ásamt því harðduglega fólki sem starfar í greininni skapað slíkar aðstæður í íslensku samfélagi.

Þrátt fyrir það hefur kerfið frá upphafi verið umdeilt, ég er ekki að segja að það sé gallalaust frekar en nokkurt annað mannanna verk, en þetta er hins vegar kerfi sem hefur skapað þessar aðstæður sem ég rakti hér að framan. Stjórnmálamenn, aðallega á vinstri vængnum, hafa verið óþreytandi í að gagnrýna þetta kerfi og reyna að draga úr trúverðugleika þess án þess að hafa bent á hvaða aðrar leiðir á að fara, án þess að hafa lagt fram einhverja heildarsýn um það hvernig kerfið á að líta út, hvað annað á að koma í staðinn. Hins vegar er verið að kroppa utan af því og inn í það eins og þau frumvörp sem hafa verið rædd hér í dag bera merki.

Staðreyndirnar sýna okkur, miðað við þá umfjöllun erlendis þar sem litið er á kerfið okkar sem fyrirmynd, að þetta er besta kerfið sem tíðkast. Það er ekki gallalaust, eins og ég sagði áðan, og full ástæða til að fara reglulega yfir hvað betur má fara en hins vegar hefur enginn lagt fram aðra betri lausn. Sú stefna ríkisstjórnarflokkanna að hefja ríkisvæðingu aflaheimildanna 1. september nk. byggir einfaldlega á háskalegri hugmyndafræði og hún hefur ekki verið hugsuð til enda. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna, útgerðarmanna, sjómanna, landverkafólks og allra þeirra sem veita sjávarútveginum þjónustu víðs vegar um landið hafa öll verið á einn veg, menn mótmæla þessum áformum ríkisstjórnarflokkanna hástöfum.

Sú vísbending um útfærslu fyrningarleiðarinnar sem birtist okkur í hinu svokallaða skötuselsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra sem hefur verið til umfjöllunar á þinginu staðfestir þá skoðun. Leiðin virðist vera sú að auka aflaheimildir þvert á ráðleggingar vísindamanna og þar með er sjálfbærni kerfisins fórnað. Þess vegna skýtur hálfskökku við að hv. þingmenn Vinstri grænna sem tala hér fjálglega um sjálfbærar veiðar og vistvænt kerfi standi fyrir slíku. Að ráðherra úr þeim flokki skuli leggja fram þetta frumvarp er einfaldlega óskiljanlegt og ekki hefur verið svarað af hálfu fulltrúa þess flokks hvernig þetta fer allt saman saman, hvernig rökstuðningurinn á að ganga upp.

Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar verið er að úthluta verðmætum sem eru takmörkuð verður staðan alltaf sú að einhverjir telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut, það er einfaldlega augljóst. Í hvaða kerfi sem er, hvaða auðlind sem er þar sem eru ekki ótakmörkuð verðmæti til skiptanna, verða deilur um það hvernig skiptingin á að fara fram. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn þrátt fyrir að Vinstri grænir og Samfylkingin beiti sér fyrir því að innkalla allar aflaheimildir og úthluta þeim að nýju. Það skapar einfaldlega ekki réttlæti og sátt eins og viðbrögðin við þessum hugmyndum hafa sýnt okkur.

Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í íslensku atvinnulífi og ein sterkasta stoðin sem við þurfum á að halda til að styrkja íslenskan efnahag til framtíðar. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Af hverju erum við einfaldlega ekki bara stolt af þeirri staðreynd? Hvers vegna höldum við þeirri staðreynd ekki á lofti? Hvers vegna leyfum við sjávarútveginum ekki að blómstra? Hvers vegna styðjum við ekki heldur við þessa traustu stoð okkar með því að efla kerfið enn frekar í stað þess að róa að því öllum árum að menn eyði tíma sínum hér í dag í að reyna að reikna út hvert framtíðin muni leiða okkur vegna þessara hugmynda ríkisstjórnarinnar sem tefla öllu kerfinu í óvissu? Ég skil einfaldlega ekki forgangsröðunina. Það er álíka vitlaust af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að fara í það núna á þessum óvissutímum. Óvissan er næg þrátt fyrir að ekki sé kastað fram hér slíkum hugmyndum. Þetta er álíka vitlaust og að sækja um aðild að Evrópusambandinu á svona tímum, en það hefur engu að síður verið gert í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Ég skil ekki þessa forgangsröðun, herra forseti, og tel að menn ættu að endurskoða þetta allt saman.

Samtök atvinnulífsins hafa m.a. fjallað um sjávarútveginn í sinni nýútkomnu aðgerðaáætlun sem kallast Atvinna fyrir alla. Þar kemur fram, herra forseti, að treysta þurfi grundvöll núverandi fiskveiðistjórnarkerfis og standa þannig vörð um sjálfbæra og arðbæra nýtingu fiskstofna, að stjórnvöld þurfi að standa við samkomulag um að umfjöllun um lög um stjórn fiskveiða verði í sáttafarvegi þar sem sjávarútveginum verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til lengri tíma og að það þurfi að hverfa frá hugmyndum um fyrningu aflaheimilda. Hér liggur þetta einfaldlega skýrt fyrir, þetta er það sem þarf til að sjávarútvegurinn geti starfað í friði, í fyrsta lagi að staðið verði við samkomulagið um að málið sé í sáttameðferð. Það ætti að vera einfalt fyrir ríkisstjórnarflokkana að standa við sitt eigið samkomulag — það virðist engu að síður vera frekar flókið — og að dregið verði til baka þetta frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða sem gengur þvert á fyrirætlanir um starf nefndarinnar um stjórn fiskveiða og hefur haft þau áhrif að málið er allt saman í upplausn.

Við Íslendingar höfum gott kerfi sem við höfum getið okkur gott orð fyrir á alþjóðavettvangi. Við erum að mati annarra þjóða í fararbroddi. Sumir hv. þingmenn hafa talað fjálglega um að við ættum að fara í Evrópusambandið og að sjávarútvegurinn sé ekki í hættu þar vegna þess að Evrópusambandið ætli að taka upp íslenska fiskveiðistjórnarkerfið af því að það sé svo frábært, sömu þingmenn og tala nú fyrir því að það verði farið í þessa fyrningarleið. Það er ekki heil brú í þessum málflutningi.

Hæst af öllum í umfjöllun þingmanna ríkisstjórnarflokkana hefur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir blásið. Þar hefur m.a. verið fjallað um Deloitte-skýrsluna svokölluðu sem fjallar um úttekt á áhrifum fyrningarleiðarinnar. Sá hv. þingmaður hefur fullyrt, m.a. í grein á bb.is, að þetta sé litprentað áróðursrit af hálfu LÍÚ. Þetta eru alvarlegar fullyrðingar vegna þess að þarna liggur að baki vönduð vinna. Hv. þingmaður hefur fullyrt — ég veit ekki hvort hv. þm. Atli Gíslason getur svarað spurningum mínum um athugasemdir varðandi skýrslu Deloittes — en komið hefur fram, m.a. í þessari grein á bb.is, að leitað hafi verið eftir skriflegri álitsgerð frá Þórólfi Matthíassyni hagfræðiprófessor, hún hafi verið lögð fram og að í henni sé bent á að notast sé við afar einfalda og um leið takmarkaða aðferðafræði í þessari skýrslu.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þessi skýrsla hagfræðiprófessorsins hafi verið lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hvort hún sé unnin að beiðni nefndarinnar og hvort hún hafi einfaldlega verið lögð fram. Það gengur ekki að hérna sé vaðið uppi með þann málflutning að verið sé að gagnrýna vandaða vinnu frá aðila eins og Deloitte án þess að gögnin séu lögð fram. Ég er ekki í nefndinni og mig langar að vita hvort þessi álitsgerð hafi verið lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tel að það væri málinu til framdráttar ef útreikningar þessa ágæta hagfræðiprófessors kæmu fram. Það gengur ekki að hér sé ekki talað á grundvelli einhverra gagna og raka, heldur einfaldlega með einhverjum fullyrðingum og vísað í álitsgerðir sem hvergi hafa verið lagðar fram.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef farið um víðan völl um stjórn fiskveiða og fiskveiðistjórnarkerfið okkar. Ég vonast til þess að ég hafi ekki ofboðið hv. þm. Atla Gíslasyni svo, líkt og ég gerði hér í síðustu viku þegar ég ræddi um sjávarútvegsmál, að hann telji mig vera í málþófi. Ég fullyrði að ég er ekki í málþófi, ég er hér að nota rétt minn til að tjá mig um sjávarútvegsmál. Ég vona að ég hafi ekki sært blygðunarkennd eins eða neins með málflutningi mínum og vonast til að fá svör við þessum spurningum ef hv. þingmaður getur veitt mér þau.



[18:49]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til mín var beint spurningum og því er fyrst til að svara að þessi álitsgerð hefur ekki verið lögð fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég hef ekki séð hana þannig að ég þekki ekki neitt til hennar og get sem sagt ekki svarað fyrir hana. Ég svara heldur ekki fyrir ummæli annarra þingmanna um gæði litprentaðra plagga eða annað í þeim dúr.

En fyrst ég er kominn í andsvar beini ég því til hv. þingmanns hvort hún hafi lesið og farið yfir sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ber það ágæta nafn Hafið bláa.



[18:50]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki legið á heimasíðu Vinstri grænna meira en góðu hófi gegnir fyrir þingmann Sjálfstæðisflokksins. Engu að síður hef ég gluggað í sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna sem hv. þingmaður vísar jafnan til þegar hann talar um sjávarútvegsmál, m.a. á fundum með aðilum í greininni, t.d. á fundi í Vestmannaeyjum sem hv. þingmaður vísaði til áðan í ræðu sinni.

Er það réttur skilningur hjá mér að fyrningarleiðin falli ekki að þeirri sjávarútvegsstefnu sem Vinstri grænir kynna á heimasíðu sinni? Er það rétt hjá mér að skötuselsákvæðið umdeilda og margumrædda sé ekki í anda sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna? Ég kasta boltanum (Gripið fram í.) til baka þar sem hv. þingmaður náði ekki að svara seinni spurningu minni í andsvari sínu áðan.

Jafnframt ítreka ég spurningu mína um Suðurkjördæmi sem hv. þingmaður náði ekki að svara mér um áðan í hinum örstutta tíma sem okkur þingmönnum veitist til andsvara.



[18:52]
Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sjávarútvegsstefna Vinstri grænna, Hafið bláa, er glæsilegur bæklingur. Að gefnu tilefni skal ég koma bæklingi til hv. þingmanns. Ég tek fram að það kemur fljótt fram við lestur þess bæklings að þau upplegg sem LÍÚ og Deloitte eru að fást við eru ekki samkvæmt þeim forsendum, svo ég segi ekki mikið meira um það. Forsendur Deloittes byggja ekki á þeim forsendum sem þar eru lagðar upp.

Svo kemur að skötuselsfrumvarpinu, 80% yfir. Ég ítreka að það er heimild til að fara í allt 2.000 tonn, það var úthlutað 2.500 tonnum. Það er sama og veitt var á síðasta ári. Það er almennt álit allra að skötuselsstofninn standi afar vel. Það hefur verið mikil og góð nýliðun í stofninum allt frá árinu 2001. Það er mat þeirra sérfræðinga sem ég hef talað við að það hafi verið óþarfi að setja þennan stofn í kvóta, það hefði verið hægt að beita öðrum fiskveiðistjórnaraðferðum sem eru til. Það eru miklu fleiri fiskveiðistjórnaraðferðir til en bara kvótinn einn, það eru veiðarfæri, slóðir, bannsvæði, takmarkanir á dögum og þar fram eftir götunum.

Síðan stendur skýrt í áliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fullt samráð verði haft við Hafrannsóknastofnun ef þessi heimild, allt að 2.000 tonnum, verður nýtt eða hluti af henni.



[18:54]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverð skoðanaskipti um þetta mál og hlakka til að fá sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna senda á silfurfati svo maður fái eitthvað meira til að glugga í. Ég átta mig á því að þetta er síðasta svarið í þessari andsvaralotu þannig að ég get ekki ítrekað enn spurninguna um Suðurkjördæmið til hv. þingmanns. Ég vonast til að það komist þá bara á framfæri á einhverjum öðrum vettvangi.

Ég vil ljúka máli mínu hér með því að ítreka að við eigum samfélag sem státar af sterkum sjávarútvegi. Við stundum hér sjálfbærar veiðar á grundvelli þess fiskveiðistjórnarkerfis sem okkur hefur auðnast að búa til til að halda utan um þessa stærstu og öflugustu atvinnugrein okkar sem er grunnstoðin í samfélagi okkar og skapar gríðarlega miklar gjaldeyristekjur. Þessi grein, sem þiggur ekki ríkisstyrki, skapar örugga atvinnu fyrir fjölda manns og þykir það víðast hvar um heiminn öfundsvert. Ég tel enga ástæðu til að vera í þeirri vegferð núna, herra forseti, að kollvarpa þessu kerfi. Við skulum enn og aftur, ég ítreka orð mín, vera stolt af því sem við eigum og ekki rugga bátum sem ganga vel.



[18:55]
Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Fyrst vegna þeirra orða sem féllu áðan hjá hv. þm. Atla Gíslasyni um sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna, það er alveg sama hvernig því verður snúið, það er bæði ankannalegt og ekki í takti við sjálfbæra nýtingu auðlinda að Alþingi skuli veita sjávarútvegsráðherra heimild til að fara fram yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar — 80%. Þó að honum sé uppálagt að hafa síðan eitthvert samráð við stofnunina segir það sig sjálft að fyrir liggur mat Hafrannsóknastofnunar á því hversu mikið má veiða af þessari tegund þannig að með sjálfbærum hætti sé og það er fordæmalaust að Alþingi setji lög um að sjávarútvegsráðherra hafi heimild til að fara svona langt úr þeirri ráðgjöf sem liggur fyrir. Undan þessu verður ekki vikist.

Það sem ég vildi, herra forseti, gera að umræðuefni í þessari síðustu ræðu minni við 1. umr. um umfjöllun um þetta lagafrumvarp er að það sem ég hef áhyggjur af er að smám saman sé verið að breyta grunngerð íslensks sjávarútvegs, bæði með því frumvarpi sem við erum að ræða hér og eins hinu margfæra skötuselsfrumvarpi. Meðal annars er verið að grafa undan, eins og ég hef áður nefnt, þeirri grundvallarreglu að við búum við hlutdeildarkerfi. Ég hef lýst afleiðingum af því hvernig það getur farið ef við kippum úr sambandi hagsmunum þeirra sem eru að veiða við það að fara skynsamlega með þegar kemur að því að ákveða hversu mikið á að veiða, heildaraflann, að menn geti treyst því að þegar skorið er niður fái þeir að njóta þegar aflinn er aftur aukinn. Um leið og menn skera á þetta, eins og er verið að gera í þessum frumvörpum báðum, munum við fá verra fiskveiðistjórnarkerfi þegar upp verður staðið.

Ég er alveg sannfærður um að það er ekki einlæg ætlun hæstv. sjávarútvegsráðherra að setja íslenskan sjávarútveg í uppnám en ég held því miður að þegar horft er, eins og mér sýnist hæstv. sjávarútvegsráðherra og meiri hluti Alþingis gera, á þetta svona í afmörkuðum málum, menn horfa bara á tegundina skötusel eða strandveiðarnar, komumst við að þeirri niðurstöðu að í hvert sinn sé allt í lagi þó að menn víki frá grundvallarsjónarmiðum, en þegar menn hafa vikið nógu oft frá grundvallarsjónarmiðunum eru þeir búnir að eyðileggja það kerfi sem við höfum til þess að reyna að ná sem mestri hagkvæmni út úr veiðum á Íslandsmiðum. Það er hlutverk okkar alþingismanna að búa til kerfi, stjórnkerfi, sem hjálpar okkur að nýta auðlindina á ábyrgan og hagkvæman hátt eins og sérstaklega er kveðið á um í lögum um stjórn fiskveiða.

Ég gerði sögu lúddítanna í Bretlandi að umræðuefni í ræðu minni áðan. Þeir börðust gegn vélvæðingunni af því að vélarnar tóku störfin. Það er ekki þannig barátta sem á sér stað hér, það er ekki verið að berjast gegn vélvæðingunni, en það er verið að berjast gegn því kerfi sem hefur búið til hagkvæmni sem hefur leitt til þess að við höfum getað fækkað störfunum í sjávarútvegi, það eru færri sem sækja sjóinn, það eru færri sem vinna í fiskvinnslunni, það er meiri arður. Ég verð að leyfa mér að segja að þessi nútíma-lúddíski hugsunarháttur sem felur í sér að í stað þess að brjóta og skemma vélar á að brjóta og skemma kerfið. Það á að brjóta og skemma það kerfi sem hefur leitt til þess að við höfum búið til meiri hagkvæmni, okkur hefur gengið betur að reka sjávarútveg okkar en öðrum þjóðum sinn sjávarútveg. Við eigum líka þjóða mest undir því að gera það. Þess vegna er það skemmdarverk og óábyrgt að fara þannig fram í stjórnkerfi í fiskveiði eins og gert hefur verið hér á undanförnum mánuðum í þinginu, að koma aftur og aftur með frumvörp sem grafa undan meginhugsun þessa stjórnkerfis. Ég er ekki einn af þeim sem telja það fullkomið kerfi, það er margt sem þarf að breyta og það er margt sem þarf að bæta, en þau frumvörp sem við höfum verið að ræða hér gera það ekki.

Á sama tíma hangir yfir íslenskum sjávarútvegi sú ógn að það eigi að þjóðnýta allar veiðiheimildirnar, innkalla þær til ríkisins og leigja þær síðan aftur út eða með einhverjum öðrum hætti koma þeim aftur út þannig að ríkið slái eign sinni á veiðiheimildirnar. Það er ekkert annað en þjóðnýting og það hangir yfir. Þetta, herra forseti, er ekkert annað en skemmdarverk í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er nútíma-lúddismi.



[19:01]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér svo seint hljóðs var sú að ég hafði gengið út frá því sem gefnu að hæstv. sjávarútvegsráðherra kæmi til andsvara í lok þessarar umræðu og brygðist við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Er hæstv. ráðherra ekki í húsinu? Virðulegur forseti, er hæstv. ráðherra ekki í húsinu? Ég hafði gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra mundi bregðast við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Ég er í sjálfu sér ekki að gera kröfu til þess að hæstv. ráðherra taki hér upp almenna umræðu um þetta frumvarp, við þingmenn höfum þegar rætt það og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir sínum eigin sjónarmiðum í ræðu sinni, en hér voru áleitnar spurningar lagðar fram sem ég tel að skipti mjög miklu fyrir framhald málsins að verði svarað.

Nú er þetta mál á góðri leið með að fara inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við sem þar sitjum þurfum að ræða það og þá skiptir auðvitað miklu máli að við höfum ákveðnar upplýsingar fyrir framan okkur sem hæstv. ráðherra einn getur svarað, pólitískar spurningar, pólitísk svör. Ég vakti t.d. athygli á því að ein þeirra breytinga sem þetta frumvarp hefði í för með sér frá þeim lögum sem nú eru í gildi varðandi strandveiðarnar, sé sú að hæstv. ráðherra sé öllum að óvörum að opna frekari leið til útflutnings á óunnum fiski frá strandveiðibátum.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það voru ekki nema 2% af aflanum sem fóru óunnin úr landi og það er örugglega jákvæð þróun frá sjónarhóli okkar margra. Landssamband smábátaeigenda benti einmitt á þetta um daginn á heimasíðu sinni og birti þær upplýsingar á grundvelli upplýsinga sem komu fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá mér um þetta mál. Þess vegna kom það mér satt að segja dálítið á óvart, svolítið spánskt fyrir sjónir, að átta mig á því að í frumvarpinu var í raun og veru verið að falla frá tilteknum takmörkunum sem gerðu það að verkum að erfiðara var að flytja þennan fisk óunninn úr landi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna það sé? Þetta eru ekki svör sem við getum knúið á um gagnvart embættismönnum, þetta er spurning sem hæstv. ráðherra þarf að svara.

Í annan stað vakti ég athygli á því að eins og nú er komið sögu hefur hæstv. ráðherra sett á svokallað útflutningsálag, 5%. Það mun væntanlega virka þannig að ef eitthvað verður um að þessi fiskur verði fluttur úr landi, skerðist aflinn sem aðrir mega fiska úr þessum fasta potti sennilega sem nemur þessu 5% útflutningsálagi.

Einnig höfum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson knúið mjög á um hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig þessari svæðaskiptingu eigi að vera háttað. Ég hef lesið vel úttekt Háskólaseturs Vestfjarða. Þar kemur greinilega fram að í raun og veru hafi svæðaskiptingin mistekist. Það hefði auðveldlega verið hægt að veiða miklu meira á A-svæðinu. Í ágúst var það t.d. þannig að veiðar hófust 4. eða 5. ágúst og voru síðan stoppaðar 12. ágúst á A-svæði, því þar voru menn komnir upp í þakið. Ef við skoðum síðan önnur svæði eins og B-svæði og D-svæði, sem ég hygg að séu fyrir Norðurlandi og Suðurlandi, þá var þetta allt öðruvísi, þá var ekki þessi nýting.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann mun fá þetta vald í sínar hendur, ekki þingið heldur hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur hann um þetta? Ætlar hann að flytja aflaheimildir af svæði D og svæði B, þar sem nýtingin var slökust, inn á svæði A og þá eftir atvikum svæði C, þar sem nýtingin var heldur betri? Þessu finnst mér að hæstv. ráðherra verði að greina okkur frá. Þetta eru ekki bara einhverjar trúnaðarupplýsingar, þetta er ekki einhver svartur kassi, svart box sem við þurfum að þreifa okkur í. Hæstv. ráðherra hlýtur að greina okkur frá þessum áformum sínum.

Ég vildi bara segja þetta. Ég ætla ekki að hefja hér almenna umræðu og ætlaði satt best að segja ekki að taka aftur til máls. En ég bjóst bara við því að hæstv. ráðherra kveddi sér hljóðs eins og alvanalegt er við lok svona umræðu og brygðist við þeim beinu spurningum, efnislega afmörkuðu spurningum sem fyrir hann voru lagðar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til sjútv.- og landbn.