138. löggjafarþing — 76. fundur
 17. feb. 2010.
niðurhal hugverka.
fsp. GÞÞ, 254. mál. — Þskj. 290.

[14:54]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta spurningin í þessari spurningaröð um ólöglegt niðurhal hugverka. Er það kannski við hæfi því að nú er ekki nokkur mynd framleidd nema tvær fylgi og er þess vegna alveg við hæfi að það sé trílógía líka þegar kemur að fyrirspurnum um niðurhal. Mér hafa fundist svörin fram til þessa bæði mjög málefnaleg og upplýsandi og þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir þau.

Nú ætla ég að spyrja um hver sé stefna ráðherra um niðurhal hugverka. Ég vona að það verði unnið skipulega að þessu, þetta er þverpólitískt mál og ég held að það væri afskaplega gott ef unnið væri þannig að þessu máli. Hæstv. ráðherra fór vel yfir það hvað gert hefur verið í öðrum löndum og síðast fór ráðherra yfir stöðuna í Danmörku og upplýsti okkur um að hver einasti Dani hefði með löglegum hætti hlaðið niður 22 lögum, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, sem mér þykir mjög merkilegt. Síðan talaði hæstv. ráðherra um einnota tónlist, þ.e. tónlist sem menn hættu að hlusta á þegar þeir væru orðnir leiðir á henni, og er þetta fyrir okkur sem erum íhaldsmenn á þessu sviði auðvitað mikil frétt. Ég hugsa til þess að ég er enn þá með geisladiska Queen og Þursaflokksins í bílnum og er í mestu vandræðum þegar ég er heima hjá mér vegna þess að allir slíkir hlutir sem heita geisladiskar eru farnir og þar er einmitt farið á þessa vefsíðu til að ná sér í tónlist, en það er eitthvað í það að sá sem hér stendur læri á það. (Gripið fram í: … vínylplötur.) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er enn þá með vínylplötur og við í þingflokki sjálfstæðismanna vonumst til þess að hann fari yfir í geisladiskana hvað úr hverju, það tengist þessu máli ekki beint en hins vegar rétt að það komi hér fram.

Ég held að það væri afskaplega æskilegt ef það yrði tekið saman, eins og hæstv. ráðherra augljóslega hefur verið að vinna að og kom fram í svörum ráðherra, hvað gert hefur verið í öðrum löndum. Það er augljóst að sum lönd eru komin lengra en önnur hvað þetta varðar og markmiðið er það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, og ég er a.m.k. sammála því, þegar hún vitnaði í greinarhöfund í blaðinu The Economist að neytendur taki frekar löglega kostinn þegar kemur að niðurhali hugverka. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér, það er algjörlega ljóst, og í þessu tilfelli eins og í flestum öðrum málum þurfum við að vinna skipulega að því.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hver er stefna ráðherra varðandi niðurhal hugverka? Við munum svo spjalla um það í framhaldinu.



[14:57]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna aftur umræðu um þetta því að við erum e.t.v. skammt á veg komin hér á landi með hinar pólitísku spurningar í þessu. Það liggur fyrir að víða í nágrannalöndum okkar eru sterkar pólitískar hreyfingar sem hafa snúist um það í raun og veru að tónlist og menning eigi að vera öllum aðgengileg án endurgjalds og þessi hreyfing tengist auðvitað líka hreyfingu um opinn og frjálsan hugbúnað. Á móti hafa komið annars vegar útgefendur og hins vegar líka listamenn sem tala um sitt lifibrauð og ég held að það liggi fyrir að markmið okkar í þessum efnum hlýtur að vera að ná einhverjum sáttum milli þessara sjónarmiða.

Stefna mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma birtist í þessum efnum í höfundalögunum, þar sem höfundum, flytjendum og útgefendum er tryggður ákveðinn einkaréttur til að gera efni sitt aðgengilegt á netinu. Sá einkaréttur hefur síðan verið staðfestur í þeim dómsmálum sem hafa gengið um hlutdeildarábyrgð rekstraraðila skráarskipta fyrir íslenskum dómstólum. Ég get nefnt svonefnd DC++ mál og Istorrent-mál sem var dómur sem féll 4. febrúar 2009 í Héraðsdómi Reykjaness, auk nýfallins dóms Hæstaréttar um svipuð efni frá 11. febrúar sl.

Hins vegar hefur nú verið birt svonefnt leiðarljós vegna endurskoðunar höfundalaga, því að það liggur fyrir að við ætlum að fara að endurskoða þau. Það leiðarljós er aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins. Þar segir m.a.:

„Efla þarf virðingu fyrir höfundarrétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnargildi. Stuðla ber að því að notendur taki löglegra kosti fram yfir ólöglega eintakagerð. Höfundalög ættu að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.“ — Og „að leiðbeiningar og fræðsla um höfundarrétt sé mikilvæg fyrir rétthafa sem og notendur.“

Það held ég að sé verkefnið fram undan, sem kannski verður erfitt að ná lendingu í, að ná leið sem sættir þessa aðila.

Ég hef kynnt í ríkisstjórn drög að frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum sem er í forkynningu núna hjá hagsmunaaðilum og á netinu. Þar eru lagðar til nokkrar breytingar, m.a. að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins um fullnustu hugverkaréttinda sem varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna er tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundarréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu.

Lagt er til að mælt verði fyrir um málsaðild samtaka skv. 23. gr. og 23. a höfundalaga vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa. Skortur á slíku ákvæði í höfundalögum hefur torveldað rétthafasamtökum að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna höfundarréttarbrota því að þau eru ekki aðilar máls.

Enn fremur að innleidd verði sérstaklega í höfundalög 3. mgr. 8. gr. í tilskipun 2001/29/EB um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem þátt eiga í höfundarréttarbrotum á netinu en reynslan hefur sýnt að úrræði V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu gagnist ekki nægilega, ein og sér, til að sporna gegn höfundarréttarbrotum á netinu.

Þetta eru tæknileg efni sem þarna er kveðið á um. Ég hef hins vegar ákveðið að hafa frumkvæði að því að leitað verði eftir afstöðu netþjónustuaðila til samstarfs við útgefendur og rétthafa til að kanna möguleikana á því og að stuðla að framboði löglegra kosta í stað ólöglegrar skráardreifingar.

Að lokum vil ég nefna af því að hér hafa sumar þjóðir farið þá leið að útiloka netsamband heimila að ég aðhyllist ekki slík úrræði við fyrstu sýn. Ef við horfum á Ísland þar sem byggt hefur verið upp á síðustu árum eitt virkasta netsamfélag í víðri veröld, ríflega 90% heimila hafa aðgang að netinu. Meiri hluti íslenskra skattgreiðenda skilar skattframtali sínu með rafrænum hætti, netaðgangur að bankareikningum er mikill, sem og rafræn samskipti við opinberar stofnanir og stjórnsýslu. Því mætti halda fram að aðgangur að netinu á Íslandi sé orðinn hluti af borgaralegum réttindum landsmanna. Í því ljósi tel ég að allrar varúðar þurfi að gæta við að útiloka eða svipta heimili netaðgangi vegna ætlaðra brota gegn höfundarrétti. Ég vil fremur horfa á leiðir sem miða að þessu aukna framboði löglegra kosta umfram ólöglega, að stjórnvöld beiti sér fyrir því að þar taki höndum saman netþjónustuaðilar, listamennirnir, útgefendurnir og svo notendurnir að sjálfsögðu við að efla bæði vitund um höfundarrétt og virðingu og síðan að fólki verði gefinn kostur á að neyta hinna löglegu kosta.

Ég held að það sé rétt að við útrýmum þessu líklega aldrei en í þessum efnum tel ég rétt að ganga varlega fram og reyna að ná eins mikilli sátt um málið og unnt er.



[15:02]
Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Varðandi lokaorð hæstv. ráðherra get ég alveg tekið undir að það er mjög bagalegt ef lokað er á netsamband við heimili, ég tala nú ekki um ef það er út af ætluðum stuldi en ekki einu sinni sannað. Ég veit ekki hvort einhver lönd framkvæma það með þeim hætti en þetta er orðinn það stór þáttur í lífi okkar að það er sérstakt markmið í sjálfu sér að auka frekar aðgengi en minnka það. Hins vegar erum við hér að tala um raunverulegt vandamál. Mér finnst hljóma mjög vel að tónlist og hugverk verði alltaf frítt og án endurgjalds. Það er bara einn galli við það og hann er að það kostar að búa þetta til. Hér kemur t.d. hv. þm. Þráinn Bertelsson sem er þekktur kvikmyndagerðarmaður. Ég veit vel að t.d. það að búa til kvikmynd kostar nú eitthvað annað en bara vinnu kvikmyndagerðarmannanna. Það kostar mikla fjármuni og þeir fjármunir þurfa að koma einhvers staðar frá. Það eru þess vegna eðlilegar áhyggjur þeirra aðila sem framleiða menningartengt efni þegar slíku efni er dreift án endurgjalds á netinu. Það segir sig sjálft að ef þetta verður algengasta leiðin skilar það sér í mjög alvarlegum málum.

Stóra einstaka málið er það — við þurfum að mínu mati t.d. ekki að taka á þessum tímapunkti afstöðu til einstakra þátta. Í mínum huga þarf að fara að vinna að þessu og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ganga hratt til verks. Ég held að sé afskaplega mikilvægt að láta alla aðila sem vinna að málinu koma að borðinu en gera það sem allra fyrst. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessu þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til dáða hvað þetta varðar. Að lokum vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnaleg og góð svör.



[15:04]
mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má segja að þessi vinna sé þegar hafin með kortlagningu umhverfisins og umræðum í höfundarréttarráði og víðar. Ég tek áskorun hv. þingmanns vel. Þetta snýst auðvitað um margháttaða hagsmuni. Við höfum líka heyrt að listamenn hafi nýtt sér þessa ókeypis dreifingu á netinu í umtalsverðum mæli og náð í raun og veru að selja með því að dreifa ókeypis á netinu. Það eru því margar aðferðir í þessum efnum. Í Frakklandi, áður en þessi þriggja aðvarana leið var samþykkt í lögum, var mikið rætt um að setja hreinlega gjald á netþjónustuna. Það er sú leið sem Danir hafa farið, þ.e. síminn í raun og veru rukkar gjald eða maður getur valið þessa auglýsingaleið og þar með haft aðgang að tónlist. Ég held að það sé kannski leið sem við ættum að skoða vel í okkar samfélagi, þar sem við erum mjög tæknivædd, nettengd og farsímavædd og nýtum þetta mikið en mundum þar hafa löglegan kost sem við getum annars vegar greitt fyrir eða kostnaður er í formi auglýsinga. Án þess að búið sé að rannsaka það út í hörgul eða ræða það við alla aðila held ég til að mynda að það geti verið leið sem býður upp á löglegan kost á tiltölulega einfaldan hátt.

Svo ætla ég bara að segja að lokum að í mínum bíl eru líka geisladiskar með Clash.