138. löggjafarþing — 77. fundur
 18. feb. 2010.
umræður utan dagskrár.

gengistryggð lán.

[13:33]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Um nokkurra missira skeið hefur verið uppi ágreiningur um lögmæti svokallaðra gengistryggðra lána sem íslenskar fjármálastofnanir hafa veitt viðskiptavinum sínum á liðnum árum. Hagsmunasamtök heimilanna, talsmaður neytenda og fjölmargir aðrir hafa ítrekað bent á vafasama lagalega stöðu þessara fjármálagjörninga og hvatt stjórnvöld til að grípa inn í til að eyða þeirri gríðarlegu fjárhagslegu óvissu sem tugþúsundir einstaklinga og fyrirtækja búa við vegna þessara lána.

Þann 12. febrúar sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákvæði lánasamningsins um gengistryggingu voru dæmd ólögmæt þar sem lánið hafði verið veitt í íslenskum krónum. Því er ljóst að málstaður þeirra sem efast hafa um lögmæti gengistryggðra lána hefur styrkst mjög á síðustu dögum. Réttaróvissunni verður þó ekki eytt fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm, og þangað til mun stór hluti þjóðarinnar búa við algjöra óvissu um fjárhagslega stöðu sína.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra virðist undarlega sinnulaus um þetta mál. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og tilmæli um aðgerðir hefur hann vísað frá sér allri ábyrgð á málinu og bent á bankana. Enginn áhugi var á því innan ríkisstjórnarinnar að taka á þessum málum, jafnvel ekki á meðan ríkið fór með forræði stærstu viðskiptabankanna þriggja.

Eftir dóminn sem féll á föstudaginn voru einu viðbrögð hæstv. ráðherra þau að benda fólki á að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Hann taldi m.a.s. að færi svo að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms yrðu áhrifin engin því að greiðslujöfnun bankanna leysti allan vanda þeirra sem sitja uppi með stökkbreytt gengistryggð lán.

Það sorglega er hins vegar að almenningur hefur ekki efni á að bíða og þaðan af síður að standa í kostnaðarsömum málaferlum við fjármálastofnanir. Á meðan sætir hann upptöku eigna til fullnustu lánasamninga sem hugsanlega eru ólöglegir.

Það er ekki eins og að ráðherra hafi ekki ítrekað verið bent á þennan vanda. Þannig sendi talsmaður neytenda fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í október í fyrra um hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. Engin svör hafa enn þá borist frá ráðuneytinu. Því hlýt ég að spyrja hvort ráðuneytið hafi aflað slíks lögfræðiálits. Ef svo er ekki vakna spurningar um hvort ráðherra hafi ekki sýnt vanrækslu í starfi. Ljóst er að við uppgjör ríkisins á kröfuhafa hinna föllnu banka við einkavæðinguna hina síðari, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stóð fyrir í fyrra, voru gríðarlegir hagsmunir í húfi við mat á þeim eignum sem færðar voru á milli gömlu og nýju bankanna. Hafi ráðuneytið hins vegar aflað slíks lögfræðiálits en látið hjá líða að gera það opinbert hlýtur það einnig að teljast vanræksla í starfi.

Því hlýtur ráðherra að upplýsa nú hvort slíks álits hafi verið aflað. Ef ekki hlýtur ráðherra jafnframt að skýra hvers vegna það var ekki gert. Ef slíkt álit liggur fyrir hlýtur ráðherra jafnframt að skýra hvers vegna það hefur ekki verið lagt fram.

Í viðtölum við fjölmiðla lýsti ráðherra því einnig yfir að allir væru sammála um að erlend lán væru lögleg hér á landi. Í því ljósi er athyglisvert að skoða lögskýringar við 1. gr. laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. […]

Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.“

Þess vegna óska ég eftir að ráðherra upplýsi hérna, fyrir framan Alþingi, hver hans skilgreining er. Hver er skilningur hans á því hvað er erlent lán og hvað er innlent lán?



[13:37]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ef ég vík fyrst að síðustu spurningu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um það hvað er innlent lán og hvað er erlent lán er það ekki höfuðmálið hér. Það skiptir í raun og veru engu máli, það sem skiptir máli er hvort farið er eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Svo er auðvitað. Ég ætla ekki að reyna að snúa út úr fyrir þingmanninum. Ef einhver lánar í íslenskum krónum í Danmörku er það erlent lán þar þannig að spurningin um þjóðerni er ekki málið, heldur spurningin um það hvort menn hafi brotið þessi lög um vexti og verðtryggingu með því að lána í krónum með ólöglegri verðtryggingu. Það er spurningin, í raun og veru ekki spurningin um hvort lán er innlent eða erlent.

Við stöndum núna frammi fyrir einu af því sem greiða þarf úr vegna falls bankanna og hruns krónunnar sem er sú staða að fjölmörg íslensk heimili og fyrirtæki eru verulega skuldsett, að hluta til í erlendri mynt eða íslenskum krónum með gengistryggingu ef menn taka það sjónarhorn. Auðvitað eru bankarnir allir fallnir og kröfuhafar þeirra hafa tapað stórfé út af m.a. þessum lánum.

Í raun og veru má segja að frágangur þessara lána hafi verið alveg í takt við þann bægslagang sem fylgdi bankakerfinu að öðru leyti. Það var samkeppnisforskot bankanna að flýta sér svo mjög um alla hluti og vera svo djarfir og hanga ekki yfir smáatriðum að menn hafa greinilega ekki vandað sig mjög mikið við skjalagerðina og þess vegna hafa menn með flumbrugangi sínum búið til réttaróvissu algjörlega að óþörfu. Ef það hefði legið fyrir frá upphafi að lánin væru í erlendri mynt væri þetta álitamál ekki uppi sem nú er uppi.

Engu að síður er álitamálið uppi og úr því þarf að greiða. Þetta er réttarágreiningur og það stendur upp á dómstóla að greiða úr honum. Það stendur hins vegar upp á framkvæmdarvaldið og eftir atvikum löggjafarvaldið að bregðast við þessu máli með öðrum hætti. Það hefur að verulegu leyti verið gert nú þegar þótt auðvitað sé aldrei búið að taka endanleg skref í því máli frekar en öðrum. Ýmislegt hefur verið gert, kannski er rétt að nefna fyrst það sem var gert strax haustið 2008 þegar þessi lán voru sett í alls konar frystingar og annað slíkt, síðan þegar menn náðu aðeins að anda á árinu 2009 voru fengin önnur úrræði, sérstaklega fyrir skuldsett heimili, sem miðuðu að því að lækka verulega greiðslubyrði og reyndar í sumum tilfellum lækka einnig verulega höfuðstól. Það er grundvallaratriði um það helsta sem framkvæmdarvaldið hefur beitt sér fyrir vegna þessa máls til þessa.

Nú er staðan orðin sú, og það kann að koma mörgum á óvart, að úrlausn þessa ágreinings um það hvort um sé að ræða lán með ólöglegri gengistryggingu eða lögleg lán í erlendri mynt skiptir líklega ekki höfuðmáli fyrir alla lántakendur. Reyndar kann svo að vera að hún skipti engu máli fyrir mjög marga lántakendur. Þetta þarf vitaskuld að útskýra. Útskýringin á þessu er að ef niðurstaða dómstóla verður sú að þarna hafi verið um að ræða ólöglega verðtryggingu verður að greiða úr þeim málum með einhverjum þeim hætti sem er eðlilegur og byggir á sanngjörnum sjónarmiðum úr lögunum. Það er tiltekið í 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og um vexti er rætt í 4. og 10. gr. þeirra laga, að miða ber við tiltekna vexti sem eru birtir af Seðlabankanum og eru hagstæðustu útlánavextir bankanna á hverjum tíma.

Ef ekkert hefði verið gert síðan haustið 2008 mundi hagur lántaka batna mjög við það að Hæstiréttur úrskurðaði þessi lán öllsömul ólögmæt, en vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til, sem í mörgum tilfellum bæta mjög hag lántakenda, annaðhvort með því að færa niður höfuðstól eða með því að færa niður verulega greiðslur í hverjum mánuði og raun og veru tryggja lántakendur fyrir því að gengisfall krónunnar falli af fullum þunga á lántaka, en hugsanlega gefa lántaka kost á því að njóta þess ef krónan styrkist, kemur út að a.m.k. með langtímalán, eins og fasteignalán eru sem oft eru til 25–40 ára, skiptir ekki höfuðmáli hver niðurstaða dómstóla verður. Reyndar gæti það orðið verra fyrir lántakendur að dómur félli þeim í hag, ef við orðum það þannig, þ.e. að kröfur þeirra yrðu staðfestar.

Hins vegar er rétt að halda því til haga að með skammtímalán eins og bílalán er þetta nokkuð óljósara. Það er eitt af því sem verður ekki hægt að reikna út fyrir heildina, það verður að reikna það út fyrir hvert lán fyrir sig. (Forseti hringir.)



[13:42]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál til umræðu því að staða þessara mála hér á landi er grafalvarleg. Meðan skilanefndir gömlu bankanna vinna hörðum höndum á ofurlaunum að því að hámarka arð umbjóðenda sinna, með þeim hætti að verja eignir og krefja skuldara skila, fer ekkert fyrir skilanefnd heimilanna sem á að standa vörð um hagsmuni þeirra. Skilanefnd heimilanna er í þessu tilfelli ríkisstjórn Íslands, og ætti að vera. Skilaboðin frá henni til umbjóðenda sinna, þ.e. heimilanna í landinu, eru þau að bankarnir eigi að bera byrðarnar, úrræði hafi verið tryggð sem geri fólki kleift að komast þokkalega skammlaust í gegnum þetta þrátt fyrir að um 90% þeirra sem hafa fengið úrlausn mála telji hana óviðunandi.

Í ljósi þeirrar umræðu sem m.a. fór fram hér í morgun og einnig í ljósi hæstv. ráðherra og þeirra orða sem féllu frá honum hér virðist hins vegar enginn hafa það lengur á hreinu hver á að gera hvað eða hvenær meðan heimilin bíða eftir úrlausn í einhverri mynd sem gefur tilefni til meiri bjartsýni en ríkir nú um stundir.

Þá fellur þessi dómur sem hér hefur verið gerður að umtalsefni sem skapar einhverja bylgju af bjartsýnisvotti í þeim anda að heimili og einstaklingar sem eru með hátt í 500 milljarða kr. undir í þessum lánum eygi einhverja lausn. Þess vegna fagna ég því frumvarpi sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur boðað. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við það og hvet stjórnarliða til að veita því máli stuðning og vinna að því máli hratt og vel í gegnum þingið.



[13:44]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrirspyrjanda fyrir að óska eftir þessari umræðu, enda brýnt að þingheimur og almenningur ræði þetta mikla hagsmunamál. Enn og aftur erum við minnt á þessar fordæmislausu aðstæður sem við erum í við að taka á eftirköstum þessa hruns sem átti sér stað fyrir einu og hálfu ári.

Það er að sjálfsögðu erfitt að ræða fordæmisgildi þessa máls, enda hefur dómur Hæstaréttar ekki fallið. Við þurfum að gæta að því að lánasamningar almennings og fyrirtækja í erlendri mynt voru mjög fjölbreyttir og tóku m.a.s. breytingum innan sama banka á því tímabili sem erlend lán voru veitt. Því getur farið svo að viðskiptavinir sama banka séu með hvor sinn lánasamninginn þó að viðkomandi hafi kannski ekki upplifað það þannig. Þess vegna verður erfitt að meta hvaða áhrif þessi tiltekni dómur hefur verði hann staðfestur af Hæstarétti.

Til dæmis mun hann væntanlega hafa lítil sem engin áhrif á þá sem fengu greitt út í erlendri mynt. Þannig voru lán flestra fyrirtækja, a.m.k. margra. Það verður einnig erfitt að sjá fyrir sér hversu mikil áhrif þetta hefur á skuldbreytingar einstakra lántakenda. Viðkomandi lántakandi fékk fjármuni afhenta og þarf því með einhverjum hætti að standa skil á þeim, en þá vakna spurningar hvort lánið muni bera verðtryggingu miðað við vísitölu í stað gengistryggingar. Svo er óvissa um vextina sem vera ber.

Þá er ljóst eins og kom fram í máli ráðherra að bankarnir hafa boðið höfuðstólsleiðréttingu sem í einhverjum tilvikum getur reynst hagfelldari fyrir lántakendur en að taka upp þetta erlenda lán.

Það er því alls óvíst hversu mikið staða einstakra lántakenda mun breytast verði þessi dómur staðfestur. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að stíga varlega til jarðar í yfirlýsingum og ekki síður fyrir almenning að varast að draga miklar ályktanir að svo komnu máli.

Við verðum öll að freista þess að eyða réttaróvissunni. Hún er óþolandi fyrir okkur öll.



[13:47]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Seinni dómur héraðsdóms er eitt dæmi um gjaldþrot verðtryggingar, hvort sem um er að ræða tengingu við gengi eða verðlag. Gjaldþrot verðtryggingarinnar má rekja til þess að hún ýtir undir áhættuhegðun lánastofnana. Bankarnir hvöttu fólk til að taka gengistryggð lán og tóku síðan stöðu gegn krónunni til að styrkja eigin efnahagsreikning. Verðtrygging lána með neysluvísitölu virkaði útlánahvetjandi fyrir lánastofnanir og skapaði hér aðstæður fyrir verðbólur. Nægir að nefna hlutabréfabóluna um aldamótin og nýsprungna fasteignabólu. Áhættusækni lánastofnana hefur þýtt að reglulega á sér stað mikil eignatilfærsla frá lántakendum til fjármagnseigenda. Verðtryggð lán kosta í flestum tilvikum meira en óverðtryggð lán þar sem verðtryggingin margfaldar lánsupphæðina á lánstímanum.

Frú forseti. Það er komið að endalokum verðtryggingar. Gera þarf fólki kleift að breyta gengistryggðum og verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán með fasta vexti í ákveðinn tíma. Slík aðgerð mun styrkja samstöðu lántakenda þar sem allir eru þá með sams konar lánskjör. Skortur á samstöðu meðal lántakenda er ein mikilvæg ástæða þess að ekki hefur farið fram höfuðstólslækkun á lánum heimilanna.

Frú forseti. Ég vil geta þess að Seðlabanki Íslands er nú að vinna skýrslu um leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar. Viðskiptanefnd fyrirhugar að halda opinn fund í byrjun mars þar sem ræða á niðurstöðu skýrslunnar og frumvarp framsóknarmanna um afnám verðtryggingar og þak (Forseti hringir.) á verðtryggingu.



[13:49]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu í þinginu í dag. Nú hefur ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra efnahags- og viðskiptamála eiginlega síðasta tækifærið til að vera það sem á vondri íslensku kallast „pró-aktífur“ en ekki „re-aktífur“. Dómur hefur þegar fallið í héraði og það er viss réttaróvissa. En það sem við vitum og er engin óvissa um er að það hefur orðið algjör forsendubrestur. 40.000 einstaklingar eru með gengistryggð bílalán, og 11% af húsnæðislánum eru gengistryggð. Hvað á þetta fólk að gera? Á það að leita réttar síns? Og hvað með öll fyrirtækin sem eru einnig með gengistryggða lánasamninga?

Ég held að í meginatriðum hafi stjórnvöld þrjá kosti, í fyrsta lagi að stórauka við öll fjárframlög til dómskerfisins svo það geti tekið á öllum þessum málum. Þá duga engar smásummur. Eins væri hægt að setja einhverja löggjöf um hópmálsókn eða í þriðja lagi, og það er sá kostur sem ég aðhyllist, að hafa forgöngu um almennar leiðréttingar með einhverjum hætti. Með þeirri leið gætum við komið á einhvers konar réttlæti. Það er einmitt tilfinningin fyrir því að við búum í réttlátu þjóðfélagi sem okkur skortir og hún er okkur svo nauðsynleg til að fólk vilji búa hérna áfram, greiða skattana sína og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.



[13:51]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Erlend lán og sá dómur sem hefur verið hér til umræðu er að sjálfsögðu mjög stórt og mikið mál sem þarf að fara yfir. Því er mikilvægt að það frumvarp sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður að fái fljóta og örugga meðferð í gegnum þingið þannig að tryggja megi að þeir sem vilja leita réttar síns þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir því að dómstólar hafi tækifæri til að fjalla um þeirra mál.

Það sem er æpandi í allri þessari umræðu um lán til heimila og fyrirtækja, bílalán og annað er sinnuleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda fyrir hóp skuldara, fyrir þá sem skulda, fyrir heimilin og fyrir þá aðila sem eru með bílalán. Það sýnir sig best að þegar stjórnarþingmenn eru spurðir út í það í útvarpinu hvað hafi verið gert verður fátt um svör. Þeir geta lítið bent á árangur eða aðgerðir sem einhverju skipta.

Í samfélaginu varð forsendubrestur sem ekki hefur enn þá verið tekið tillit til varðandi þá er skulda. Allt hefur verið gert sem hægt er að mínu viti til að reyna að verja hag fjármagnseigenda og þeirra sem eiga aura. Það á eftir að gera eitthvert gagn fyrir skuldarana sem eru flest heimilin og fjölskyldurnar. Það þarf að grípa til almennra aðgerða, frú forseti, það þarf að fara í þennan forsendubrest sem varð og hætta að horfa hjá eins og þetta lagist bara með tímanum. Það þýðir ekki að segja að þeir sem tóku erlend lán hafi gert það eingöngu til að „gambla“. Þetta er fólk sem var að flýja umhverfi sem var óásættanlegt, vaxtaumhverfi sem ekki var fólki bjóðandi.

Frú forseti. Tíminn líður hratt. Í kvöld er fundur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í Iðnó. Ég hvet þingmenn sem það mögulega geta og aðra til að fjölmenna á þann fund og sýna baráttu þeirra stuðning í verki því að þar eru á ferðinni samtök sem svo sannarlega bera hag heimilanna fyrir brjósti.



[13:53]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það má alveg segja að fyrir sex til átta árum þegar lánafyrirtæki hófu að lána bundið við dagsgengi erlendra miðla hafi það kannski verið ein skýrasta birtingarmyndin á óraunsæi veltiáranna. Nú stöndum við frammi fyrir því að þeir sem gerðu bílalánasamninga standa út af með lán upp á 120 milljarða kr. Það eru bílalánin sem eru mörgum þyngri fjötur um fót en húsnæðislánin af því að, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram og fleiri röktu hérna ágætlega áðan, bankarnir eru með þokkaleg og viðunandi úrræði að mörgu leyti varðandi húsnæðislánin. Hitt er hins vegar óleyst af því að helmingur bílalána er með þessum hætti og ljóst að greiðslujöfnun á þeim og framlenging gerir það að verkum að fólk er að greiða af bílnum löngu eftir afskrift og eðlilegan nýtingartíma hans.

Mestu skiptir núna að eyða þeirri miklu óvissu sem ríkir um bindingu þessara lána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Það varð algjör forsendubrestur gagnvart þessum lánum við gengisfallið sem byrjaði í mars 2008 og lauk í nóvember. Síðan hefur óvissan legið yfir þessum málum. Stjórnvöld hefðu hugsanlega getað fært öll þessi lán yfir í íslenskar krónur á tökugengi framreiknað út frá eðlilegum forsendum og leyst þannig málið allt í heild sinni en það var ekki gert og þess vegna hefur þetta kraumað undir niðri. Núna er mikil óvissa uppi um þessi mál eftir seinni dóm héraðsdóms. Það er gríðarlega mikilvægt að málið fái flýtimeðferð, því sé áfrýjað til Hæstaréttar þannig að hann geti skorið úr um málið og það þannig leyst í eitt skipti fyrir öll.



[13:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Málshefjandi minntist á að eitt vandamálið væri að hæstv. ráðherra væri mjög áhugalaus. Ef einhver velktist í vafa um þessa fullyrðingu hv. þingmanns, málshefjanda, staðfesti hæstv. ráðherra það að hann er afskaplega áhugalaus þegar kemur að þessu. Hann svaraði engum spurningum frekar en fyrri daginn, enda er það kannski svo að þegar hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands lítur á Alþingi Íslendinga sem Morfís-keppni og finnst, svo ég vitni beint í orð hæstv. ráðherra, asnalegt að taka þátt í því þegar hann er orðinn fimmtugur af því að hann gerði það þegar hann var tvítugur erum við kannski ekkert í sérstaklega góðum málum.

Hér er málið mjög einfalt. Það er ótrúlegt að þessi réttaróvissa sé uppi. Það er ótrúlegt að fjármálastofnanir hafi gengið þannig frá hlutum. Og það er líka ótrúlegt að það hafi farið í gegnum þau eftirlitskerfi sem við vorum með. Þetta er hins vegar staðan. Stóra einstaka staðan er að það fólk sem keypti 2007 og 2008 er í miklum erfiðleikum. Staðreyndin er sú að menn hafa ýtt þeim vanda á undan sér. Hér vantar pólitíska forustu í landinu til að taka á þeim málum. Svo einfalt er það. Þetta fólk hefur séð mikla von í þessum dómi. Sama hvað hæstv. ráðherra segir mun þetta nýtast ýmsum vel ef niðurstaðan verður á þennan veg þó að það muni skapa vanda annars staðar.

Niðurstaðan er hins vegar sú að það þarf að leysa úr þessari réttaróvissu, allir eru sammála um það, en síðan komumst við ekki hjá því — og æskilegast væri að við mundum gera það saman — að vinna að því að finna lausn á vanda þessara heimila, sem bíða enn, en þeim var lofað úrlausn fyrir rúmu ári.



[13:57]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það hefur lengi verið skoðun mín að það ætti að afnema verðtryggingu lánaskuldbindinga. Fyrir því sjónarmiði hef ég talað lengi og reyndar löngu áður en við lentum í þeim efnahagshremmingum sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég tel að verðtryggingin endurspegli ekki heilbrigða viðskiptahætti. Áhættan er öll lántakanda megin, en ekki lánveitandans. Það tel ég ekki bera vott um heilbrigða viðskiptahætti.

Gengistrygging útlána er í raun ein tegund verðtryggingar. Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt þessa tengingu óheimila og enda þótt annar dómur sé til sem kemst að annarri niðurstöðu er þetta sú staða sem margir horfa á í dag, og við öll væntanlega.

Ég tel að það sé í raun ótrúlegt að þetta hafi getað gerst, þ.e. að lánastofnanir sem eru eða eiga a.m.k. að vera með sérþekkingu á lögum um lánastarfsemi, þar með talið lögunum um vexti og verðtryggingu, hafi getað boðið upp á starfsemi sem a.m.k. orkar tvímælis að standist lögin, að ég tali nú ekki um að eftirlitsstofnanir hafi ekki gert við þær athugasemdir. Þetta er enn eitt dæmið um að eftirlitsstofnanirnar á þessu sviði, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki, hafi í raun brugðist hlutverki sínu. Þetta er ekki eina dæmið sem við höfum horft fram á hér undanfarna mánuði og missiri sem þannig er statt um.

Ég tel þess vegna að hér hafi forsendur brostið að miklu leyti fyrir þá lántakendur sem eiga í hlut. Sú réttaróvissa sem hefur skapast er ekki bara bagaleg, hún kallar að mínu viti beinlínis á aðgerðir til að tryggja að lántakendurnir beri ekki skaða af þeirri réttaróvissu, a.m.k. á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar sem vonandi verður sem allra fyrst þannig að þessari óvissu verði eytt. Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvaða aðgerða er hægt er að grípa til til þess að lántakendur beri ekki skaða á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu.



[13:59]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér eitt brýnasta mál sem lýtur að almenningi í landinu, þ.e. þann gjörning að bankar skuldsettu fólk í erlendri mynt án þess að gera því grein fyrir að það er algjörlega fráleit skuldsetning frá hvers konar hagfræðilegu og rökfræðilegu sjónarmiði nema það hafi tekjur á móti í erlendri mynt. Fjármálastofnanir blekktu fólk með því að láta það ekki vita af þessu. Auk þess að veita rangar upplýsingar tóku þessar sömu fjármálastofnanir stöðu gegn íslenska gjaldmiðlinum til að lagfæra sína eigin fjárhagsstöðu. Þetta er búið að vera alveg geggjað fjármálaumhverfi en því miður, hv. þingmenn, hefur afskaplega lítið breyst. Yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra í gær um algert aðgerðaleysi í málefnum fjármálafyrirtækja og banka er áframhald á mjög öfgakenndri frjálshyggju sem hér hefur riðið húsum. Það á ekkert að gera. Það kemur okkur ekkert við. Heimilin geta bara étið það sem úti frýs.

Það er ekkert réttlæti á Íslandi í dag — nema fyrir fjármagnseigendur. Það er ömurlegt að horfa upp á algert aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í því að hjálpa almenningi. Hér hefur komið fram hjá fleirum að eftirlitsstofnanir í þessu máli hafa brugðist, þær brugðust algjörlega, en þær eru enn þá fullmannaðar sama fólkinu og brást á sínum tíma.

Ég hef tæpt á því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að stjórnsýsluúttektir þurfi að fara fram á þessum stofnunum og samskiptum þeirra við fjármálaráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti en það er enginn vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, þingmanna þeirra eða ráðherra. Þess vegna erum við enn þá á sama ömurlega staðnum og almenningi blæðir. Orðið velferðarstjórn á við um ýmsar ríkisstjórnir, en ekki þessa.



[14:02]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlustað á svör hæstv. ráðherra að ég hef miklar áhyggjur af ranghugmyndum ráðherrans. Þær birtast m.a. í því að ráðherrann heldur því fram að þó að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms verði áhrifin engin því að greiðslujöfnun bankanna leysi allan vanda þeirra sem sitja uppi með stökkbreytt gengistryggð lán þannig að með núverandi úrræðum geti fólk bara lækkað greiðslubyrðina nú þegar, það skipti engu máli hver höfuðstóll lánanna er. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta.

Þetta hefur svo sem birst í fleiri málum þar sem útreikningur greiðslubyrði er lausn allra mála og höfuðstóll og heildarskuldabyrði þeirra skipta engu máli. Þannig má jafnvel færa rök fyrir því að nákvæmlega þessar ranghugmyndir hafi verið einn af grundvöllum útrásarinnar og það sem setti íslenskt hagkerfi á hliðina. Það sorglega er að þessar ranghugmyndir ráðherrans koma á engan hátt í veg fyrir fjölda gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja sem sætt hafa upptöku eigna til fullnustu lánasamningum sem hugsanlega eru ólöglegir.

Ég ítreka líka fyrri spurningar mínar um lögfræðiálitið sem talsmaður neytenda kallaði eftir. Hann spurði hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði óskað eftir því að gert yrði álit á því hvort þessir lánasamningar væru löglegir eða ekki. Ég lýsi líka yfir áhyggjum mínum af því að svo virðist sem hugsanlega sé þetta lögfræðiálit ekki til í ráðuneytinu — sem gæti kannski verið skýring á því af hverju ráðherrann virðist ekki skilja spurningar mínar um muninn á innlendum og erlendum lánum. Hann gerir sér kannski grein fyrir því þegar dómur verður fallinn í því máli því að mér skilst að það sé líka komið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.



[14:04]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, ég veit ekki betur en að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi veitt talsmanni neytenda allt það liðsinni og afhent honum öll þau skjöl sem hann hefur óskað eftir þannig að ég skil nú ekki alveg forsendur spurningarinnar. Við getum rætt það betur síðar. Við getum líka rætt ýmislegt annað betur síðar, m.a. framtíðarfyrirkomulag peningamála á Íslandi, framtíð verðtryggingarinnar, hugsanlega upptöku evru og margt því um líkt, en það tekst ekki á þeim stutta tíma sem hér er undir.

Ég mótmæli því jafnframt harðlega sem kom fram í máli nokkurra þingmanna að ríkisstjórnin, eða sá sem hér stendur, hafi sýnt eitthvert sinnuleysi í þessum málum. Þetta var unnið nákvæmlega á þann hátt sem var skynsamlegt að gera, fyrst vitaskuld af þeirri ríkisstjórn sem var við völd 2008 með bráðaaðgerðum, frystingum og öðru slíku, síðan 2009 með því að búa til meiri langtímaúrræði sem eru ekki bara greiðslujöfnunin heldur líka ýmislegt annað. Staðreynd málsins er sú að ef reiknuð er út staða lántakenda sem nýta sér þessi úrræði, hvort sem það er greiðslujöfnun eða þau úrræði sem bankarnir hafa boðið upp á að eigin frumkvæði, eins og að lækka höfuðstól verulega þegar lánum er breytt í krónur, eru þeir mjög líklega í svipaðri stöðu og jafnvel betri en þeir verða í ef dómstóll dæmir þessi erlendu eða gengistryggðu lán öll ógild og þau eru þá uppreiknuð miðað við þá vexti sem tilgreindir eru í 4. og 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu sem eru þá hagstæðustu innlendu vextirnir sem eru í boði, annaðhvort verðtryggðir eða óverðtryggðir.

Þess vegna finnst mér mjög varhugavert þegar þingmenn vekja einhverjar falsvonir um að það sé einhver von til þess að Hæstiréttur Íslands komist að niðurstöðu sem lækkar lán mjög mikið umfram það sem þegar hefur náðst fram með þeim fjölmörgu úrræðum sem eru í boði. (ÓN: Leyfa Hæstarétti að dæma það.)