138. löggjafarþing — 78. fundur
 22. feb. 2010.
framkvæmd fjárlaga.

[15:04]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég hef áhuga á því að heyra hæstv. fjármálaráðherra ræða stöðu og framkvæmd fjárlaga. Það sem ég hef áhyggjur af er sérstaklega tekjuhliðin. Þó að maður heyri af því að einstakar stofnanir eru þegar farnar að gera ráðstafanir til að eyða og ráðstafa óhöfnum fjárveitingum sem stafa frá árinu 2008 hef ég meiri áhyggjur af tekjuhlið fjárlaganna. Hæstv. ráðherra upplýsti m.a. í síðustu viku á Alþingi um áhyggjur sínar af minni veltu í samfélaginu og þar af leiðandi samdrætti þeirra tekna sem ætlað var í fjárlagagerðinni að innheimta með sköttum og þjónustugjöldum. Mig langar að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hvar þessi samdráttur kemur fram, í hvaða tekjustofnum þetta er og hvar helstu frávikin liggja.

Það væri mjög gott að heyra þetta því að þrátt fyrir yfirlýsingar um að í fjárlaganefnd verði farið mánaðarlega yfir framkvæmd og stöðu fjárlaga hefur hún ekki fengið eitt einasta plagg og skilirí um þetta enn þá, hvað svo sem veldur því. Þetta er ekki bara í minni veltu, heldur hefur maður líka heyrt af því að álagning á kolefnisgjald og forsendur fyrir henni séu að einhverju leyti brostnar. Þar var ráðgert að innheimta 2,6 milljarða kr. Nú liggur fyrir, eftir því sem ég heyri, að samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur gert um flugmál sé óheimilt að leggja umrætt gjald á millilandaflug. Mig langar að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvort hann geti staðfest þessar upplýsingar. Ef þetta reynist rétt leggst kolefnið eingöngu á innanlandsflugið og einhver hundruð milljóna króna gjaldtaka (Forseti hringir.) af þotueldsneyti vegna millilandaflugs fellur þá niður.



[15:06]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við erum að bíða eftir að fá í hús alveg á þessum dögum fyrstu upplýsingarnar af þessu ári og ég verð vonandi betur í stakk búinn til að svara hv. þingmanni og öðrum mjög fljótlega í þeim efnum.

Já, það er rétt, ég sagði fyrir nokkrum dögum að ég hefði áhyggjur af því að það væri að einhverju leyti hægari snúningur á hlutunum núna eftir áramótin en við höfðum átt von á. Þegar bornir voru saman mánuðirnir desember 2008 og 2009 var staðan komin í gott jafnvægi en þetta virtist vera lakara í janúarmánuðum 2009 og 2010. Svo koma aðrar upplýsingar sem benda ekki til þessa sama, svo sem um kortaveltu. Hún er í góðu jafnvægi og er heldur upp á við og þótt kannski sé ekki hávísindalegt að nefna það leyfi ég mér það samt, blómasalan í gær var meiri en á konudaginn (Gripið fram í.) fyrir ári þannig að það er greinilega — (Gripið fram í.) Að gamni slepptu er komið miklu meira jafnvægi á einkaneysluna en áður var. Hún er hætt að dragast saman og hún er að komast í nokkuð gott jafnvægi þannig að að því leyti til er ekki ástæða til mikillar svartsýni. Auðvitað er maður samt órólegur og vill frekar sjá hlutina leggja af stað í hina áttina.

Varðandi álitamál sem tengjast innheimtu kolefnisgjalda gildir það sama um þau. Ég hef ekki fregnað af því alveg síðustu daga en ég veit að það var í skoðun hvernig þessu véki við með flugið. Það voru deildar meiningar um hvort hægt væri t.d. að leggja á erlend flugfélög sem hingað kæmu og tækju eldsneyti. Þá er náttúrlega ekki gott í samkeppninni að leggja það eingöngu á okkar flugfélög, ég tala ekki um ef millilandaflugið í heild sinni yrði undanskilið. Þetta er þá bara mál sem menn verða að takast á við ef það verða einhverjir meinbugir á því sem við fáum ekki leyst, að taka þessi gjöld, og þá munar að sjálfsögðu (Forseti hringir.) um það og verður að mæta því.



[15:08]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra blómlegt svar þó að illt verði að pikka mikið út úr því. Engu að síður er þessi staða grafalvarleg ef við horfum fram á minni veltu í hagkerfinu í bland við það að einhver áform um skattlagningu ganga ekki eftir. Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar við höfum í huga hvert viðfangið er fyrir fjárlagagerð ársins 2011. Við horfum upp á að þurfa kannski að skera niður í ríkisrekstrinum upp á 10–15%, 50–60 milljarða kr. eins og sagt hefur verið.

Í lokin langar mig ekki síst að heyra frá hæstv. ráðherra hvar vinna við gerð nýrrar þjóðhagsspár liggur, hvenær við megum vænta þess að fá fram nýja þjóðhagsspá. Þær upplýsingar sem við fengum í tengslum við fjárlagagerðina voru mjög ófullkomnar þar sem lögð voru fram einhvers konar drög að þjóðhagsspánni fyrir árið 2011. Okkur bráðvantar (Forseti hringir.) þessi nýju gögn.



[15:09]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það væri mjög æskilegt að við gætum skotið á fundi sem fyrst, ég kæmi í heimsókn til fjárlaganefndar og færi yfir það hvar vinnan er á vegi stödd. Það er búið að samþykkja verk- og tímaáætlun um fjárlagagerðina og ráðherranefnd um ríkisfjármál hefur afgreitt það fyrir sitt leyti. Hún er tímasett með markmiðum því að ætlunin er að reyna að vera að sjálfsögðu miklu fyrr á ferðinni og nær eðlilegu vinnulagi á þessu ári en var á síðasta ári sem var allt með mjög miklum ólíkindum.

Ég tel að sjálfsögðu eðlilegt að hafa áhyggjur af stöðunni mánuð frá mánuði en aðalatriðið er þó að við fáum þann viðsnúning í hagkerfinu sem við þurfum að fá á þessu ári, að hann gangi okkur ekki úr greipum og að á síðari hluta ársins fari að birta til. Þá fyrst fer að taka harkalega í ef það bregst okkur.

Varðandi þjóðhagsspána vonumst við til að Hagstofan skili henni í mars. Það hefur ekki flýtt fyrir og ekki auðveldað leikinn að þessi flutningur varð á verkefnum innan Stjórnarráðsins, þjóðhagsspáin fór frá fjármálaráðuneyti og hluti þeirra starfa fluttist í (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptaráðuneytið og hluti til Hagstofunnar, en ætlunin er að það komi þjóðhagsspá í marsmánuði eða í síðasta lagi í byrjun apríl. Þá erum við betur á vegi stödd með þann þátt málsins.