138. löggjafarþing — 78. fundur
 22. feb. 2010.
umræður utan dagskrár.

fjárhagsleg staða Álftaness og annarra sveitarfélaga.

[15:37]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Birtingarmynd efnahagshrunins verður okkur Íslendingum sífellt skýrari. Fyrst hrundu fjármálafyrirtækin og við það brustu allar rekstrarforsendur heimilanna, ríkisvaldsins og fyrirtækjanna, og nú við upphaf ársins 2010 eru vandamál sveitarfélaganna að koma betur og betur í ljós. Heildarskuldbindingar sveitarfélaganna í landinu jukust úr 300 milljörðum kr. í 487 milljarða kr. frá árinu 2007 til 2008. Hlutfall heildarskulda var á árinu 2008 komið í 228% af tekjum en var um 150% árið áður.

Sveitarfélagið Álftanes er öðrum þræði á dagskrá hér enda er þar á ferð ágætt sýnidæmi um stöðu mála heilt yfir. Sveitarfélagið er nú komið undir fjárhaldsstjórn en það má kannski segja að sveitarfélagið sé í svipaðri stöðu og margir íbúar þess. Þarna er barnafjöld, ráðist var í umfangsmiklar fjárfestingar á miklum þenslutímum og við hrun gjaldmiðils brustu allar tekju- og skuldaforsendur. Því er sveitarfélagið, rétt eins og íbúarnir að mörgu leyti, í verulegum fjárhagsvandræðum.

Á undanförnum árum hefur afkoma Álftaness versnað verulega og nú nema skuldir og skuldbindingar 7,4 milljörðum kr. Veltufé frá rekstri hefur verið neikvætt í nokkur ár sem þýðir að sveitarfélagið hefur ekki getað greitt af langtímaskuldum sínum með afkomu frá rekstri. Til að bregðast við slæmri stöðu hefur sveitarstjórnin nýlega kynnt hugmyndir um hækkun gjalda og skerðingu á þjónustu sem bætir afkomuna um 230 millj. kr. árið 2010 og 290 millj. kr. árið 2011. Það er engu að síður niðurstaða úttektar endurskoðenda að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, skuldbreytingar lána og niðurfellingu á hluta skuldbindinga getur sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar.

En hvað þýða svona tölur fyrir íbúa Álftaness? Ef hugmyndir um sparnað og hækkanir ganga eftir verður, svo eitthvað sé nefnt, staða félagsmálastjóra lögð niður, stöður fræðslustjóra og leikskólafulltrúa lagðar niður, staða íþrótta- og tómstundafulltrúa lögð niður, útsvar hækkað um 10%, en það er nú þegar í hæstu stöðu, fasteignaskattar verða hækkaðir, heimgreiðslum til foreldra verður hætt, leikskólagjöld verða hækkuð um 15%, gjaldskrá frístundastarfs verður hækkuð um 10%, framlag til tónlistarskóla verður skorið niður um 40% og vinnuskóli unglinga lagður niður.

Sá sem hér stendur er talsmaður þess að ýtrasta hagræðis verði gætt við rekstur hins opinbera, og Álftnesingar þurfa að geta búist við því að þurfa að greiða fyrir sína þjónustu. En við getum líka gengið of langt. Hverjar yrðu afleiðingar þess ef of hart yrði gengið fram gagnvart Álftnesingum? Við mundum væntanlega horfa fram á flótta þeirra íbúa sem geta selt húsin sín eða búa í leiguhúsnæði. Færri íbúar, minni skatttekjur og eftir stendur, að ég óttast, annars flokks sveitarfélag sem getur ekki staðið undir lágmarksþjónustu.

Hagsmunasamtök íbúanna hafa nú risið upp en óskir þeirra eru að njóta sambærilegrar þjónustu og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Kannski erum við hér komin með skilgreint afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar og það úti á Álftanesi, enda ríkir nú mikið vantraust milli íbúa og kjörinna fulltrúa. Samtökin hafa óskað eftir aðkomu að fjárhagslegri endurskipulagningu og hafa í því sambandi komið fram með hugmyndir um sparnað í rekstri.

Fjölmörg önnur sveitarfélög búa við erfiða skuldastöðu. Er því ekki ljóst að við köllum eftir miklu skýrari fjárhalds- og aðhaldsreglum fyrir sveitarfélög í landinu? Það er í raun ótækt að sveitarfélög geti komið sér í jafnvonda stöðu með jafnskelfilegum afleiðingum fyrir íbúa þeirra. Það má heldur ekki gleymast að önnur sveitarfélög hafa mikla hagsmuni af því hvað verður um Álftanes því að verði gengið til nauðasamninga mundi það hafa áhrif á lánshæfismat allra annarra sveitarfélaga í landinu.

Í þessari stöðu hljótum við líka að vilja skoða sameiningarmál á höfuðborgarsvæðinu af einhverri alvöru. Sex sjálfstæðar stefnur í skipulagsmálum kosta okkur mikla fjármuni og nú er krafist hagræðingar. Fram hefur t.d. komið að áætlaður ávinningur Álftnesinga af sameiningu sé um 100 millj. kr. en það er sú upphæð sem spara á í rekstrinum á þessu ári. Ég vildi beina eftirtöldum spurningum til ráðherra:

1. Munu íbúar Álftaness þurfa til langframa að búa við hærri álögur og minni þjónustu en aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu?

2. Óttast ráðherra ekki vítahring fólksflótta og minnkandi tekna?

3. Hver er skoðun ráðherrans á fjármálum sveitarfélaga heilt yfir?

4. Hver er stefna hans í sameiningarmálum?

5. Hver verða næstu skref ráðuneytisins gagnvart íbúum á Álftanesi?

Staða Álftaness í dag vekur upp margar áleitnar spurningar um rekstur sveitarfélaga í landinu, hvernig eigi að taka á skuldamálum þeirra og ekki síst hvort ekki sé kominn tími til róttækra skrefa í samvinnu- og sameiningarmálum. Um leið og við áttum okkur á mikilvægi þess að gæta hagræðis í rekstri, og ég held að Álftnesingar sjálfir viti það manna best, megum við ekki gleyma því að í öllum þessum húsum við allar þessar götur býr fólk sem tekið hefur á sig skattahækkanir, verðfall á húsnæðismarkaði, hækkun lána og minnkandi tekjur, allt vegna þess að efnahagsstefna stjórnvalda í þessu landi var kolröng í 18 ár. Það býr fólk við þessar götur og verði gengið of hart fram gagnvart þessu fólki munum við lenda í vítahring fólksflótta og minnkandi tekna og þá verður til annars flokks samfélag án allra innviða.



[15:42]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þingmanni og málshefjanda, Magnúsi Orra Schram, fyrir frumkvæði að þessu brýna umfjöllunarefni sem er fjárhagsleg staða allra sveitarfélaganna í landinu, ekki bara Álftaness. Því miður hefur efnahagskreppan haft gríðarlega neikvæð áhrif á rekstur og fjárhagslega stöðu margra sveitarfélaga í landinu.

Árið 2007 var eitt besta ár í hagsögu sveitarfélaganna, en svo kom skellurinn 2008. Tekjur hafa dregist saman hjá flestum sveitarfélögum að raungildi, félagsleg útgjöld hafa vaxið, fjármagnskostnaður er mun meiri en áður og skuldir hafa margfaldast. Kreppan bitnar ekki hvað síst á hinum svokölluðu vaxtarsveitarfélögum, þ.e. þeim sveitarfélögum sem voru í miklum vexti fyrir hrunið og höfðu ráðist í miklar fjárfestingar í innviðum til að mæta áætluðum íbúavexti eins og var á Álftanesi.

Þessar miklu fjárfestingar voru að umtalsverðu leyti fjármagnaðar með lánum teknum í erlendri mynt. Eins og bent var á í áfangaskýrslu tekjustofnanefndar sem kom út í lok síðasta árs hafði efnahagshrunið ekki síst neikvæð áhrif á þau sveitarfélög sem skulduðu hlutfallslega meira en önnur, sérstaklega ef skuldirnar voru að hluta tengdar í erlendum gjaldeyri. Komst nefndin því að þeirri niðurstöðu að meginvandi sveitarfélaganna um þessar mundir væri skuldavandi. Þetta mat tekjustofnanefndar fær stoð í þeirri greiningu sem fram hefur farið hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur nefndin á síðustu mánuðum átt samskipti við 10 sveitarfélög vegna þróunar í fjármálum þeirra. Fjárhagsleg staða þeirra er vissulega misjöfn sem og forsendur þeirra til að takast á við vandann. Flest eiga þau sammerkt að vera flest hin svokölluðu vaxtarsveitarfélög eins og áður sagði.

Það er breyting frá fyrri árum þegar athuganir nefndarinnar voru aðallega bundnar við sveitarfélög á landsbyggðinni sem tókust á við fjárhagslega aðlögun í kjölfar mikillar fólksfækkunar. Af þessum 10 sveitarfélögum hafa tvö sveitarfélög farið í frekara eftirlitsferli á grundvelli 75. gr. sveitarstjórnarlaga. Það þýðir að viðkomandi sveitarfélög voru komin í fjárþröng og gátu ekki staðið í skilum. Því bar þeim að tilkynna það til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Þetta eru sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes. Í báðum tilvikum var aukaálag lagt á útsvar í kjölfar samnings viðkomandi sveitarstjórna við eftirlitsnefndina og gjaldskrár voru hækkaðar, auk þess sem unnið var að hagræðingaraðgerðum svo ná mætti sjálfbærni í rekstri sveitarfélaganna á næstu 3–4 árum. Munurinn á þessum tveimur sveitarfélögum er hins vegar sá að áætlanir sýndu fram á að hægt væri að ná sjálfbærni í rekstri Bolungarvíkur með almennum stuðningsaðgerðum en fjárhagsvandi Álftaness reyndist mun umfangsmeiri og alvarlegri. Ég vonast til þess að vandi Bolungarvíkur verði leystur þegar samningi við eftirlitsnefnd lýkur á næsta ári en hægt var að minnka útsvarsálögur um helming á þessu ári, þ.e. úr 10% í 5%.

Hvað Sveitarfélagið Álftanes varðar komst eftirlitsnefnd að þeirri niðurstöðu þann 14. desember sl. eftir að hafa látið fara fram ítarlega rannsókn á fjármálum þess að sveitarfélagið væri komið í greiðsluþrot, skuldir og skuldbindingar utan efnahags væru um 7,2–7,4 milljarðar kr. og sveitarstjórn væri ómögulegt án verulegrar utanaðkomandi aðstoðar að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl. Nefndin lagði því til með vísan til 2. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga að frestur yrði veittur til 20. janúar sem síðan var framlengdur til 27. janúar til að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl.

Áskorun þar að lútandi var kynnt með bréfi ráðuneytisins þann 17. desember 2009, auk þess sem eftirlitsnefnd og sveitarfélögin gerðu með sér samkomulag um fjárhagslegar aðgerðir á tímabilinu sem kvað á um aukningu tekna, gerð rekstraráætlunar og fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sveitarfélagið hafði á þessum tímapunkti ekki laust fé til að borga laun og annan nauðsynlegan rekstrarkostnað og því þurfti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að hlaupa undir bagga.

Virðulegi forseti. Það var mat eftirlitsnefndar að þrátt fyrir tillögu um hagræðingu í rekstri, auknar álögur, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í einhverjum mæli gæti sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Til að gera sveitarfélagið rekstrarhæft taldi nefndin að sveitarfélagið þyldi vart meiri skuldir og skuldbindingar en 2–2,5 milljarða kr. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu lagði nefndin til að sveitarfélaginu yrði skipuð fjárhagsstjórn sem hafði forustu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins og leitaði allra tiltækra leiða til lausnar á vandanum. Við í ráðuneytinu fórum vel yfir þessar tillögur, ég fundaði bæði með minni og meiri hluta sveitarstjórnar, kynnti jafnframt tillögur fyrir samtökum sveitarfélaga og lánardrottnum og í framhaldi af því tók ég ákvörðun um skipun fjárhagsstjórnar eins og þingheimi er kunnugt um.

Það eru vissulega vonbrigði, virðulegi forseti, að grípa hafi þurft til þess neyðarúrræðis að skipa sveitarstjórn Álftaness fjárhagsstjórn en það hefur ekki verið gert síðan árið 1988. Því miður verða íbúar sveitarfélagsins fyrir barðinu á þessu ástandi, verkefnið er að leita allra leiða til að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að þeim tekjugrundvelli sem er til staðar. Það getur ekki verið öðruvísi (Forseti hringir.) en að hægt sé að ætlast til þess að aðrir greiði fyrir þá þjónustu.

Virðulegi forseti. Í seinni ræðu minni fer ég yfir það sem hv. þingmaður spurði um, þ.e. hvað þessar álögur muni standa lengi, (Forseti hringir.) en það er auðvitað það versta í öllu því sem hér hefur komið fram.



[15:47]
Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram vegna skuldavanda sveitarfélaganna í landinu. Ég vil fyrst segja um það sem hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á, að þetta væri vegna efnahagsstefnu stjórnvalda síðustu 18 ár, að það er náttúrlega alrangt. Þetta er vegna efnahagsstefnu Sveitarfélagsins Álftaness. Það skilar okkur ekki áfram í umræðunni ef við ætlum að vera með svona upphrópanir sem standast engan veginn.

Vandi sveitarfélagsins á Álftanesi, virðulegi forseti, er mjög mikill. Skuldir sveitarfélagsins nema 7,4 milljörðum kr. en það er áætlað að sveitarfélagið sjálft geti staðið undir 2–2,5 milljörðum kr. Það er það sem við stöndum frammi fyrir. Þá er spurningin: Hvernig er hægt að koma til móts við það að Sveitarfélagið Álftanes finni út úr þessum vanda? Það gæti hugsanlega verið með sértækum úrræðum í gegnum jöfnunarsjóð en ég vara hins vegar mjög við því vegna þess að það kemur til með að bitna á þeim sveitarfélögum sem standa verst og eins sveitarfélögum úti á landsbyggðinni. Menn verða að fara mjög varlega þar.

Síðan er það sem hefur oft verið gert, sameining sveitarfélaga með svokölluðu skuldajöfnunarframlagi. Það hefur margoft verið gert í gegnum tíðina en það verður að gera innan eðlilegra marka.

Þá vil ég líka benda þeim hv. þingmönnum sem hafa talað eins og hv. þm. Magnús Orri Schram á að ekki stóð á hv. þingmanni í sumar og núna í desembermánuði þegar ég andæfði því mjög að ríkið sjálft færði tekjur frá sveitarfélögunum. Það sem gerðist árið 2009 var að ríkið færði 2,5 milljarða yfir á sveitarfélögin frá ríkinu, annars vegar með hækkun tryggingagjalds og hins vegar í frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra vegna atvinnuleysistrygginga. Ég held að hv. þingmenn verði að vera samkvæmir sjálfum sér. Þegar þeir greiða atkvæði með því að færa tekjustofna frá sveitarfélögunum til ríkisins verða þeir líka að viðurkenna að hin almenna stjórnsýsla gildir um allt, hvort heldur eru fjárlög sveitarfélaga eða ríkisins.

Mikilvægast í þessu er þó að við þurfum að læra af þeim mistökum sem þarna voru gerð. Við þurfum að ræða þetta á þeim nótum hvernig við getum brugðist við. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga er alltaf að vinna úr gömlum gögnum (Forseti hringir.) og þegar menn fara í miklar fjárfestingar ættu þeir annaðhvort að þurfa að bera þær undir eftirlitsnefnd sveitarfélaga eða hugsanlega láta íbúana kjósa um það ef menn eru að fara í mjög stórar framkvæmdir. (Forseti hringir.)



[15:50]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Staða margra sveitarfélaga er afar erfið og fer versnandi. Bág fjárhagsstaða Álftaness er ekki einsdæmi þótt slíkt mætti stundum ætla af einsleitri umræðu um málið. Það er mikilvægt að hjálpa íbúum Álftaness að verja samfélag sitt og láta ekki vanhugsaðan niðurskurð eyðileggja það til frambúðar. Hvers kyns tilskipanir án samráðs eru stórvarasamar. Þannig á ekki að knýja íbúana til sameiningar með refsivönd niðurskurðar og sérskatta yfir höfðum sér. Íbúar Álftaness hafa áður hafnað sameiningu og vilja reka sjálfstætt sveitarfélag. Það er eðlilegt að Álftnesingar, sem aðrir, komi að nauðsynlegri umræðu um kosti sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og/eða stóraukinni samvinnu þeirra í milli en þeir eiga að gera það sem jafningjar annarra á svæðinu öllu og þar sem horft er til framtíðar.

Fyrir slíkri lýðræðislegri aðkomu hafa fulltrúar Á-listans á Álftanesi talað og það ber að virða. Þeir hafa líka lagt áherslu á sérstöðu Álftaness hvað varðar íbúasamsetningu og bent á að ef Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefði tekið sanngjarnt tillit til aldurssamsetningar á Álftanesi og stórfelldra útgjalda þar að lútandi væri staða sveitarfélagsins mun sterkari. Hlutfall barna og unglinga er á Álftanesi u.þ.b. 40% hærra að meðaltali en annars staðar. Sigurður Magnússon, fyrrum bæjarstjóri, hefur sýnt fram á að með réttlátari úthlutunarreglum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með tilliti til barnasamfélagsins mætti stórbæta stöðu sveitarfélagsins. Hann hefur lagt til að slík leiðrétting yrði látin ná aftur í tímann.

Ég tel eðlilegt að þetta verði kannað og að þingmönnum kjördæmisins verði sérstaklega veitt aðkoma að umræðu um málið.

Með langtímahagsmuni samfélagsins að leiðarljósi þarf að sýna fyrirhyggju, falla ekki frá framkvæmdum sem þegar er búið að fjármagna og beita ekki niðurskurðarhnífi eða aukaálögum (Forseti hringir.) þannig að það valdi varanlegu tjóni. Álftanes kann að vera fyrsta sveitarfélagið sem fær svona sýnilegan skell en mörg önnur bíða stóradóms. Við þurfum að standa með Álftanesi og Álftnesingum en ekki (Forseti hringir.) fordæma stöðu þeirra í almennum umræðum, stöðu sem í reynd er hlutskipti svo margra eftir hrun og endurspeglar stöðu Íslands. (Forseti hringir.)



[15:52]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að mörg sveitarfélög eru í miklum vanda. Níu þeirra fengu bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Álftanes er auðvitað í mjög miklum vanda en það eru líka sveitarfélög eins og Hafnarfjörður, Reykjanesbær og fleiri. Þegar við ræddum þetta hérna síðast sagði hæstv. ráðherra Kristján L. Möller að ekki væri komið að því að hugsanlega sameina Álftanes við önnur sveitarfélög. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er komið að því núna?

Það er alveg ljóst eins og hér hefur komið fram að skuldirnar eru mjög miklar. Sveitarfélagið stæði ekki undir þeim þótt þær væru meira en helmingi minni. Þó að farið væri í allt það sem hér hefur verið sagt af mikilli sanngirni, m.a. hækkuð meðgjöf vegna barna, dygði það samt engan veginn til. Þetta er hinn grimmi raunveruleiki. Skuldirnar eru mjög miklar.

Þá er spurningin: Hvað á að gera? Á að láta íbúa Álftaness bera allar þessar byrðar? Eða er möguleiki á að sameina?

Margrét Jónsdóttir bæjarfulltrúi hefur fengið samþykkta tillögu um að gerð verði skoðanakönnun þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram 6. mars, um viðhorf til sameiningar hjá íbúunum og þá til hvaða sveitarfélaga ætti helst að leita. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ef slík skoðanakönnun sýnir afgerandi skoðanir bæjarbúa, t.d. með sameiningu og við eitthvert ákveðið sveitarfélag, mun það hafa áhrif á hæstv. ráðherrann þannig að hann grípi til 79. gr. sem heimilar sameiningu við önnur sveitarfélög þegar vandinn er mjög mikill? Eða telur ráðherrann æskilegt að bíða og sjá hvort hægt sé að koma sveitarfélögunum á réttan kjöl þó að tölurnar bendi ekki til þess, því miður, í augnablikinu? Það er mjög mikilvægt að við fáum skýr svör. Það stefnir í sveitarstjórnarkosningar og menn verða að vita á allra næstu dögum (Forseti hringir.) hvort það eigi að sameina eða ekki.



[15:55]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Sem íbúi á Álftanesi fagna ég þessari umræðu og þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram og hæstv. samgönguráðherra fyrir að vera með þetta hér í gangi. Sem íbúi á Álftanesi fagna ég því að vissu leyti að Álftanes er fyrsta sveitarfélagið sem þetta kemur í ljós með. Álftanes hefur ekki sérstöðu miðað við önnur skuldug sveitarfélög nema að því leytinu til að skuldirnar eru töluvert hærri. Engu að síður er vandinn af sama meiði eins og eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur sagt. Þetta gerir það að verkum að Álftnesingar sjálfir fá tækifæri í komandi sveitarstjórnarkosningum til að segja álit sitt á þeim sveitarstjórnarmönnum sem nú eru við völd. Er það vel. Ég legg mikla áherslu á það við hæstv. samgönguráðherra, og mun leggja fram fyrirspurn þar að lútandi, að fjárhagsstaða þeirra sveitarfélaga sem í vandræðum eru verði gerð kunnug íbúum þeirra tímanlega fyrir kosningar þannig að íbúar allra þeirra sveitarfélaga fái upplýsingar um hvað sveitarstjórnendur þeirra hafa verið að gera og í hvaða stöðu sveitarfélög þeirra eru.

Auknar álögur og niðurskurður eins og boðað er á Álftanesi er ekki þolanlegt fyrir íbúana nema í mjög skamman tíma. Þetta er einfaldlega of bratt farið og íbúar munu einfaldlega reyna eftir bestu getu að flytja í burtu ef svo fer fram sem horfir og ef þessar álögur verða látnar vara í meira en eitt ár. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur lýst því yfir að vandi Álftnesinga, sem annarra sveitarfélaga, verði eingöngu leystur með yfirtöku skulda. Það er ágætt að samgönguráðuneytið fari þá strax í þá vinnu að vinna einhvers konar áætlun um framkvæmdina. Það er hvorki ásættanlegt fyrir íbúa á Álftanesi né annars staðar að þeir verði neyddir til sameiningar (Forseti hringir.) við annað sveitarfélag undir þeim ofurálögum sem yfir þeim grúfa og beinlínis neyddir til sameiningar, jafnvel þvert gegn vilja, vegna hótana um eitthvað annað verra.



[15:57]
félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að eiga frumkvæðið að þessari umræðu hér í dag. Úr því sem komið er í þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem Sveitarfélagið Álftanes er í er það fagnaðarefni að fjárhaldsstjórn sé komin í sveitarfélagið. Það er mjög brýnt verkefni að koma fjármálum þess í sjálfbært horf þannig að tekjugrunnur sveitarfélagsins standi til lengri tíma litið undir skuldunum. Til þess þarf aðkomu fjárhaldsstjórnarinnar til að endurskipuleggja skuldir sveitarfélagsins. Þar þurfum við að velta við hverjum steini og ríkisvaldið þarf að koma að til að koma skuldsetningunni í eðlilegt horf.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ætla íbúum að bera, annars vegar í þjónustuskerðingu og hins vegar í hækkuðum gjöldum. Fólk er auðvitað frjálst að því að flytja. Þarna er um hárfína línu að ræða. Ég hef hrifist af því að sjá vakninguna meðal íbúa Álftaness og vilja íbúa til að taka á sínum málum. Það var athyglisvert að sjá fundahöldin um helgina og mjög jákvætt að sjá þann víðtæka vilja sem þar kom fram til að íbúar kæmu að málinu og hefðu eitthvað um það að segja með hvaða hætti þeir öxluðu byrðar. Auðvitað er eðlilegt að íbúar hafi ákveðið svigrúm til að velja með hvaða hætti þeir axla byrðarnar. Margar athyglisverðar hugmyndir komu þar fram.

Það er mikilvægt að við leggjum sem fyrst traustan grunn undir þetta sveitarfélag. Það er ekki rétt sem hér var sagt, að einhverjar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar á síðasta ári hefðu skapað þennan vanda. Vandinn er afleiðing af (Forseti hringir.) stjórnlitlu skipulagskerfi og því að við höfum ekki haldið nægilega vel utan um fjármál sveitarfélaganna á undanförnum árum.



[15:59]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Álftaness í Suðvesturkjördæmi. Mér er spurn í þessari umræðu hér sem og annars staðar um vanda sveitarfélaga: Hver er ábyrgð hins fjölskipaða valds, bæjarstjórnar, í nútíð og framtíð? Hver ber í raun ábyrgð á þeim offjárfestingum sem ráðist er í í sveitarfélögum? Er það ekki grunnspurning sem við stöndum frammi fyrir?

Sveitarfélagið Álftanes hefur offjárfest og bundið sig með skuldbindandi samningum vegna leigu á íþróttahúsi og sundlaug, vegna leigu á þjónusturými fyrir aldraða og vegna leigu á þjónustubyggingu sem er á núvirði 4,1 milljarður kr. Það gefur augaleið að sveitarfélag af stærð Álftaness mun aldrei standa undir slíkum skuldbindingum. Þess vegna þarf að velta fyrir sér ábyrgð þess fjölskipaða valds og með hvaða hætti það fer með valdið í sveitarfélaginu.

Hér sem og annars staðar þarf líka að huga að því að sveitarfélögin eiga að veita lögbundna þjónustu. Undir henni þurfa þau að standa. Hvernig fara þau að því? Hvar ná þau í fjármagn? Það eru tekjur sveitarfélagsins, tekjur íbúanna, sem standa undir slíkri lögbundinni þjónustu. Verðum við þá ekki að velta fyrir okkur, og hæstv. samgönguráðherra sem fer með byggðamálin, hvort við þurfum að skoða að sveitarfélögunum eigi einfaldlega að vera óheimilt að taka lán í annarri mynt en þeirri sem tekjuöflun þeirra er í? Ef svo væri stæði Sveitarfélagið Álftanes ekki í þeim sporum sem það stendur nú í, frekar en mörg önnur sveitarfélög á landinu.

Ég bið menn um að fara varlega í sameiningaráformum undir slíkum kringumstæðum. Ég bið menn um að fara varlega í því að koma með ríkissjóð (Forseti hringir.) að þeim vanda sem við blasir. Ég bið menn um að skoða hvað þarf að gera, horft til framtíðar en ekki fortíðar, til að koma í veg fyrir að sveitarfélög offjárfesti með þessum hætti og standi frammi fyrir slíkum vanda.



[16:02]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja hvernig skuldir urðu til á Álftanesi. Þær urðu ekki til í gær, fyrradag eða á síðasta ári. Þær hafa verið að hlaðast upp í langan tíma og margir komið þar að sem bera ábyrgð á því. Það sem hins vegar hefur gerst í hruninu, í skuldasprengingunni, hefur hent Álftanes ekki síður en önnur sveitarfélög. Vergar skuldir sveitarfélaganna í landinu árið 2007 voru 135 milljarðar en eru áætlaðar á þessu ári 210 milljarðar. Hreinar skuldir þegar tekið hefur verið tillit til skulda og eigna eru um 67,2 milljarðar. Þarna hvíla nokkrir milljarðar á sveitarfélaginu Álftanesi.

Ef við setjum þetta síðan í rétt samhengi hlutanna þá er verið að ræða núna að ýmsir útrásarfjárfestar séu að koma aftur inn í efnahagslífið, einn með 200 milljarða á bakinu og niður eftir öllum hryggnum. Það er verið að tala um að afskrifa tugi milljarða hjá þessum aðilum. Við skulum skoða skuldastöðu þessa litla samfélags í því ljósi líka til að gæta sanngirni. Það hafa engin stór afglöp verið framin á Álftanesi. Hins vegar hefur það hent Álftnesinga að vera hluti af íslensku samfélagi og efnahagskerfi sem hefur lent í hremmingum. Er hægt að bæta úr þessu? Já, það er hægt.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt til að reglur í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði endurskoðaðar og tillit tekið til samsetningar samfélagsins. Það mundi gagnast Álftnesingum verulega. Það þarf að endurskoða reglurnar. Það þarf að horfa aftur í tímann og fram á við. Þetta er eitt úrlausnarefnið en síðan er það hitt: Það á ekki að nota þessar hremmingar til að berja Álftnesinga til hlýðni. Það á ekki að ráðast í (Forseti hringir.) neinar breytingar í fljótræði. Það á að tala við Álftnesinga á jafningjagrunni. Álftnesingar hafa sjálfir lagt til að það verði ráðist í endurskoðun á skipulagi á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) almennt en það á ekki að þvinga þá undir svipuhöggum inn í samstarf við tiltekin sveitarfélög (Forseti hringir.) án þess að ræða við þá beint.



[16:05]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum mjög alvarlega stöðu Sveitarfélagsins Álftaness og annarra sveitarfélaga. Ég vil taka aðeins annan pól í hæðina en margir aðrir og velta fyrir mér tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga til langs tíma. Ef við lítum nokkur ár aftur í tímann, þ.e. árin fyrir hrun, þá voru allt að 70% sveitarfélaga á landinu með neikvæðan rekstur. Það voru sveitarfélögin á landsbyggðinni sem voru ekki á þenslusvæðinu, ekki sveitarfélög eins og Reykjanesbær, Fjarðabyggð, Borgarbyggð og öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst Hafnarfjörður og kannski Álftanes, sem tóku þátt í þenslunni miklu, fóru í brask með lóðir og fengu inn verulega auknar tekjur. Hæstv. sveitarstjórnarráðherra sagði að árið 2007 hefði verið besta ár í hagsögu sveitarfélaganna. Það var vegna þessara plattekna sem menn fengu á lóðasölu sem hafa ekkert með rekstur sveitarfélaga að gera. Það hafði hins vegar mikið að gera með samkeppni milli sveitarfélaganna, ekki síst hérna á höfuðborgarsvæðinu og á vaxtarsvæðunum, að bjóða niður alls kyns þjónustu og gera reksturinn mjög óhagkvæman og óarðbæran. Sveitarfélögin á landsvísu hafa hins vegar setið við það í mjög langan tíma að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er skökk og hún hefur ekkert breyst. Það þarf að skoða.

Við þurfum að velta því fyrir okkur hvað sé hægt að gera núna. Það er auðvitað augljóst mál að ríkisvaldið ber talsverða ábyrgð á því þótt ég ætli ekki að taka ábyrgðina af kjörnum fulltrúum í Sveitarfélaginu Álftanesi, sem hafa greinilega gengið lengra en allir aðrir í að bjóða of góða þjónustu fyrir of lítið af fjármunum. Það verður að spyrja hæstv. ráðherra núna hvað muni gerast á næstunni, hver stefna ráðuneytisins sé. Verður gripið til afskrifta eða þvingaðra sameininga? Íbúarnir geta ekki beðið. Þeir verða að fá svör. Einnig er nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki líka nauðsynlegt að gera heildarendurskoðun á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga til þess að leiðrétta þá skekkju sem hefur verið í mjög langan tíma á heildartekjuskiptingu milli allra sveitarfélaga (Forseti hringir.) í landinu og ríkisins.



[16:07]
Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt komið fram sem sýnir að það þarf að fara í gagngera endurskoðun á m.a. tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er það vel. Mig langar að leggja mikla áherslu á að ekki verði gripið til neinna afgerandi ákvarðana hvað varðar Sveitarfélagið Álftanes í bráð heldur verði beðið eftir að þar komi til valda ný sveitarstjórn og að samráð verði haft við þau íbúasamtök sem voru stofnuð á Álftanesi í síðustu viku og bera vitni um að íbúarnir sjálfir vilja greinilega fá að taka þátt í endurskipulagningu sveitarfélagsins.

Hafa ber í huga að þær ákvarðanir sem komu Álftanesi í þessa stöðu eru ákvarðanir fjögurra manna. Það er sá meiri hluti sem þarf í sveitarfélagi á stærð við Álftanes eins og sveitarstjórnarlög eru núna. Það þarf fjóra einstaklinga til þess að keyra málin í klessu. Í Reykjavík þarf átta. Við höfum lagt fram frumvarp um fjölgun sveitarstjórnarmanna. Það tryggir ekki endilega fjárhagslegt aðhald en það gefur vísbendingar um að það þurfi að taka tillit til fleiri sjónarmiða við rekstur sveitarfélaga en til dæmis fjögurra manna klíku. Það er skref í rétta átt.

Það er líka fráleitt að Álftnesingar, eins og margir aðrir, skuli ekki fá að notfæra sér persónukjör sem nú liggur sofandi í allsherjarnefnd. Það er óþolandi að þeir geti ekki strikað út og afskrifað þá fulltrúa sem verða í boði í sveitarstjórnarkosningum til að lýsa vanþóknun sinni á því hvernig þeir hafa hagað sér. Sumt af þessu sama fólki ætlar að stilla sjálfu sér upp í kosningum og það er miklu verra og erfiðara að stofna ný framboð en taka alvöru lýðræðislega afstöðu í gegnum persónukjör. Þarna er því komin enn ein ástæðan fyrir persónukjöri.

Sameining við Garðabæ leysir kannski eitthvað en ekki allt. Það þarf að huga að sameiningu í stærra samhengi. Ég er alveg sannfærður um að stórfelld sameining á höfuðborgarsvæðinu yrði öllum sveitarfélögum þar til góðs. Ég mun tala fyrir slíkri sameiningu, vel ígrundaðri sameiningu en ekki sameiningu eins og sumir hafa talað fyrir hér, undir svipuhöggum (Forseti hringir.) auðvaldsins eða fjármuna.



[16:09]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum og ráðherra fyrir málefnalega umræðu um stöðu Sveitarfélagsins Álftaness og almennt um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það er ljóst að ráðherra er með erfitt úrlausnarefni fyrir framan sig. Eins og fram kom í máli hans bitnar kreppan hvað verst á vaxtarsveitarfélögunum sem flest komu sér upp fölsku skjóli þar sem byggt var upp fyrir framtíðartekjur, eða lánsfé öllu heldur.

Fjölmargir þingmenn hafa komið fram með áhugaverðar hugmyndir eða grundvöll til umræðu. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir minntist á ábyrgð stjórnvaldsins. Kallað er eftir heildarendurskoðun, samþættingu fjármála ríkis og sveitarfélaga og skýrum fjárhaldsramma fyrir sveitarfélög til framtíðar. Hér er kannski ekki vettvangur fyrir skoðanaskipti þar sem aðrir þingmenn sem tóku þátt í þessari umræðu eiga þess ekki kost að koma upp aftur, þannig að ég mun kannski ekki svara efnislega þeim spurningum sem beint var til mín. Ég vil þó segja að efnahagshrunið á Íslandi átti að mínu viti upptök sín í efnahagsstefnu stjórnvalda undanfarin ár. Það sjáum við birtast ágætlega í málefnum Álftaness, ónógum og óskýrum eftirlátsheimildum stjórnvalda og gjaldmiðilsstefnu.

Eins og kom fram í máli ráðherra er ljóst að Álftanes þolir ekki meira en 2–2,5 milljarða í skuldabyrði, sem þýðir væntanlega að það er sú upphæð sem íbúarnir eiga eftir að standa undir, og ljóst er að núverandi breytingar eru tímabundnar. Það er ánægjulegt. Ég held að það sé mikilvægt að leyst verði úr mikilvægum erfiðum úrlausnarefnum fyrir hönd Sveitarfélagsins Álftaness og annarra sveitarfélaga og ég hef fulla trú á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála til þess. Við viljum að þetta sveitarfélag sem önnur geti snemma og strax farið að snúa vörn í sókn.



[16:11]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér er. Þótt hún standi aðeins í hálftíma hefur hún verið góð. Hún hefði sannarlega þurft að vera meiri en það gefst kannski tækifæri til þess síðar. Ég kemst ekki yfir allar þær spurningar sem hér hafa komið fram en vil þó svara hv. þm. Siv Friðleifsdóttur varðandi sameiningu eða skoðanakönnun. Ég hef séð þetta líka, eða lesið, að þar var samþykkt að gera skoðanakönnun meðal íbúa. Það finnst mér ágætt. Hvað varðar sameiningu er það seinni tíma mál. Fjárhaldsstjórnin vinnur núna, hún getur skilað tillögum sínum og þar með lagt til að það þurfi að fara í sameiningu og þá er hlutverk ráðuneytisins að fara í það.

Aðeins varðandi það sem hér hefur komið fram: Hver er ástæðan og hver ber ábyrgð á þessu? Auðvitað er það sambland af hruninu sem varð — þetta sveitarfélag skuldaði mikið í erlendri mynt — og offjárfestingar sem hefur gert þetta að verkum. Talað hefur verið um fjármálareglur og annað slíkt fyrir sveitarfélögin — já, það er verið að vinna að þeim í góðri sátt við Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið og vonandi tekst það núna fyrir sumarbyrjun eða fyrir haustið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði fyrr í þessari stuttu umræðu, sem ég þakka fyrir, er alveg ljóst að það hefur verið staðfest hér og öllum er kunnugt að fjárhagsvandi Sveitarfélagsins Álftaness er gríðarlegur og á honum verður ekki tekið með því einu að hækka álögur á íbúa eða skera niður þjónustu í sveitarfélaginu. Það vil ég taka alveg skýrt fram. Hvort tveggja á sér ákveðin sársaukamörk sem ég hef skilning á og þess vegna féllst ég á þessar álögur, hvort sem við köllum þær hóflegar eða minni álögur en hægt var að gera miðað við sveitarstjórnarlög. Þetta er risavaxinn vandi. Ég vek athygli á því að slíkar álögur eru aðeins tímabundnar og það er stefna mín að þessar álögur lækki sem allra fyrst eins og við sjáum að nú er að gerast í Bolungarvík.

Virðulegi forseti. Ég fagna því líka að utan við hinn pólitíska ramma á Álftanesi séu komin upp samtök íbúa í sveitarfélaginu sem vilja taka saman höndum með sveitarstjórn og öðrum og vinna með fjárhaldsstjórninni og sveitarstjórninni við að tryggja forgangsröðun og fleira. Ég hitti þau áðan og þau afhentu mér lista sem er yfirlýsing og undirskriftasöfnun sem á eftir að bæta við. Ég fagna því og ég sagði við þetta ágæta fólk sem þar kom (Forseti hringir.) að þau væru velkomin í ráðuneytið þegar þau væru búin að ganga í öll hús í bænum og útfæra tillögur sínar sem þau sjá í rekstri sveitarfélagsins. Þá eru þau velkomin í ráðuneytið til að koma því á framfæri en ég minni á að fjárhaldsstjórn hefur tekið yfir fjárhag (Forseti hringir.) sveitarfélagsins og vinnur að fjárhagslegri endurskipulagningu, ekki ráðuneytið sem slíkt.