138. löggjafarþing — 79. fundur
 23. feb. 2010.
störf þingsins.

[13:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp undir þessum lið er fregn sem birtist í Morgunblaðinu í morgun, nánar tiltekið á bls. 2 þar sem fram kemur að eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu hafi viðræður um aðild Færeyja að EFTA verið lagðar til hliðar. Til að upplýsa þingheim hafa Færeyjar hafa sótt það mjög fast, með öflugum stuðningi Íslendinga, að fá aðild að fríverslunarsamtökunum. Ég þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem hér eru eða Íslendingum yfirleitt, að hér er um okkar bestu vini að ræða, Færeyinga, sem reyndust okkur afskaplega vel á örlagastundu, eins og alltaf. Þeir vilja frelsi til að versla með sínar vörur og til slíks var stofnað þegar EFTA var sett á laggirnar á sínum tíma.

Í mínum huga er málið mjög einfalt. Það er algerlega óásættanlegt að við skulum ekki núna á þessum tíma, og þótt það væri á öðrum tíma, beita okkur af fullu afli til að þessi vinaþjóð okkar geti fengið aðild að fríverslunarsamtökunum. Þess vegna finnst mér þetta vera mjög slæm frétt. Þetta er ekki tilgáta heldur er þetta staðfest af forustumönnum færeysku landstjórnarinnar. Ég vil hvetja þingmeirihlutann til að beita sér í málinu til að vinir okkar geti komist inn í EFTA. Ég vildi þess vegna gjarnan heyra í hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur varðandi þetta því að þeir þurfa á okkur að halda í þessu máli. (Forseti hringir.) Við Íslendingar höfum stutt þá fram til þessa og ef eitthvað er ættum við að styðja þá af enn þá meiri krafti núna.



[13:35]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Íslendingar og íslensk stjórnvöld eru og verða helstu bandamenn Færeyinga og stjórnvalda í Færeyjum. Þess vegna hafa Íslendingar lagt sig í framkróka við og beitt fortölum í samtölum bæði við Norðmenn og Dani og þá sem eiga aðild að EFTA að fá opnað á að Færeyjar komist til aðildarviðræðna. Hafa verður í huga að þeir hafa ekki lagt fram formlega ósk um slíkt. Enginn hefur stutt Færeyjar jafndyggilega í þessari vegferð sinni og íslenskar ríkisstjórnir og það er engan bilbug á ríkisstjórn Íslands að finna í þeim efnum.

Svo virðist sem Færeyingar hafi sjálfir ákveðið að leggja þessi áform sín á ís um hríð, eins og segir í frétt Morgunblaðsins í dag. Ástæða þess gæti verið að í færeyska Lögþinginu er skýrslu beðið þar sem gerð er úttekt á sambandi og samstarfi Færeyja við Evrópu, bæði EFTA og Evrópusambandið, og mun hún líta dagsins ljós á vormánuðum það ég best veit þannig að það kann að vera ástæðan. En ég vil að þingheimur allur viti að í þessum efnum er engan bilbug að finna á stuðningi íslenskra stjórnvalda við þá ósk færeyskra stjórnvalda, verði hún gerð formleg, að sækja um aðild að EFTA.



[13:37]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Verklagsreglur bankanna hafa verið til umræðu á vettvangi viðskiptanefndar og vil ég því vekja máls á nokkrum umhugsunarefnum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson.

Nýlega var kynnt hugtakið „orðsporsáhætta“ á vettvangi viðskiptanefndar en það er hugtak sem gengur út á að við skuldameðferð fyrirtækja eigi stjórnendur bankanna að líta til áhættumats sem grundvallast af því orðspori sem fyrirtækin taka með sér inn í endurskipulagninguna. Bankinn á sem sagt að taka tillit til orðspors þeirra sem taka við fyrirtækjunum þegar hann metur fjárhagslegan ávinning af því að viðkomandi taki við fyrirtæki að nýju. Á nefndarfundinum var einnig kynnt minnisblað frá Almenna lífeyrissjóðnum en þar segir m.a. að leiki á því rökstuddur grunur að stjórnendur fyrirtækis hafi brotið lög eða ekki gætt jafnræðis meðal kröfuhafa muni sjóðurinn skoða hvort betra sé að fara í lögfræðilega innheimtu eða að krefjast gjaldþrotaskipta.

Stjórn Kennarasambands Íslands hefur einnig ályktað um þetta mál en fulltrúi þess er í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Stjórn KÍ hvetur stjórnir lífeyrissjóða til að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir stjórn aðila sem áður hafa valdið sjóðunum alvarlegu fjárhagslegu tjóni. Í Morgunblaðinu í morgun er svo vitnað í formann sambandsins sem segir:

„Það er lítilsvirðing við lífeyrisþega í landinu ef menn ætla að fara beint inn á sömu brautina aftur og treysta sömu mönnum fyrir fjöregginu.“

Mitt mat er það að þessi tvö sjónarmið, annars vegar orðsporsáhættan og hins vegar þetta viðmót lífeyrissjóðanna, sýni vel að það sjónarmið bankanna um að endurheimtur verði betri með því að vinna áfram með umdeildum fyrri eigendum standist ekki þegar betur er að gáð. Fólki mun ekki líða vel með að eiga viðskipti við fyrirtæki í eigu þessara manna og lífeyrissjóðirnir eru ekki spenntir fyrir því að afhenda þeim mönnum sem töpuðu miklum fjármunum lífeyrissjóðanna fyrirtækin á nýjan leik. Fyrr munu þeir keyra fyrirtækin í þrot. Það er því mikið álitaefni hvort röksemdir bankanna um að endurheimtur verði betri með því að vinna með umdeildum útrásarvíkingum haldi vatni þegar allar hliðar málsins eru kannaðar og þar með er helsta röksemd bankanna horfin.



[13:39]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fæ núna tækifæri til að svara tveim þingmönnum og er það mér auðvitað bæði gleði og ánægja en ég hefði að sjálfsögðu viljað hafa örlítið lengri tíma.

Fyrst aðeins út af EFTA-málinu. Ég fagna orðum hv. þingmanns en vek þó athygli á því að það kemur fram í fréttinni að ástæðan fyrir því að Færeyingar hafa sett þetta á ís er að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það er því augljóst að menn þurfa að skoða þetta á stjórnarheimilinu og ég treysti því að menn geri það og styðji Færeyinga í þessu máli sem og öðrum. Ég held að þetta sé þess eðlis að skynsamlegt væri að skoða þetta í nefndum þingsins.

Síðan varðandi orð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, er ég mjög gamaldags maður í einföldustu mynd þess orðs. Í mínum huga eru það góð gildi sem segja að fólk eigi að vera ábyrgt og heiðarlegt í rekstri eins og annars staðar. Ég hef áhyggjur af því að við séum að gefa þau skilaboð að þau gildi séu ekki í hávegum höfð og mér sýnist að verið sé að refsa mönnum, smærri aðilum, harkalega sem lenda í erfiðleikum, oft að ófyrirsynju, oft út af forsendubresti. En svo virðist vera að það gildi aðrar reglur um þá sem tapað hafa, ekki bara fyrir sjálfum sér heldur hafa þeir svo sannarlega tapað stjarnfræðilegum upphæðum. Það er í mínum huga algerlega fráleitt. Það eiga sömu reglur að gilda fyrir alla. Við getum ekki gefið þau skilaboð að menn eigi að vera í kennitöluleik, að menn eigi bara að hafa nógu mikið undir því að ef þeir tapa nógu miklu gildi einhverjar allt aðrar reglur fyrir þá en venjulegan Íslending sem lendir svo sannarlega í vandræðum hjá bönkum og fjármálastofnunum ef honum verður á, jafnvel þótt hann eigi það ekki skilið.



[13:42]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefði verið mér að sársaukalausu þótt hv. þm. Gunnar Bragi hefði komið hér fyrst. Ég veit að hann hefur margt mikilvægt og gott til málanna að leggja.

Ég vildi taka upp ákveðið mál sem snýr að skuldavanda heimilanna. Tíminn líður og vandinn eykst dag frá degi, ekki bara vandi heimilanna heldur vandi hagkerfisins því að ef heimilin eru komin í slík vandræði, sem allt stefnir í, þýðir það um leið að eftirspurn í hagkerfinu eftir vöru og þjónustu keyrist niður, það mun auka atvinnuleysið og við förum inn í vítahring sem mjög erfitt verður að stöðva. Þess vegna er alveg gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórnin grípi strax til aðgerða til að hjálpa til varðandi skuldavanda heimilanna. Það er ekki hægt að bíða eftir því.

Ég verð að segja, frú forseti, vegna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr komst til valda undir slagorðinu „Skjaldborg um heimilin“, að það skýtur nokkuð skökku við að sjá síðan frétt um að innheimtufyrirtækin hafi staðið frammi fyrir því að hækka laun starfsmanna sinna. Þeir hafi leitað til ríkisstjórnarinnar um hvort það væri þá bara ekki í lagi úr því að launin voru hækkuð að hækka kostnað við innheimtuaðgerðir á fjölskyldurnar í landinu.

Ég sé ekki eftir launahækkunum til starfsmanna innheimtufyrirtækja en þegar svo stór hluti þjóðarinnar er orðinn að skuldafólki, oft og tíðum ekki vegna eigin aðgerða heldur vegna þess að það varð efnahagshrun, er ekki í lagi að heimila að innheimtukostnaður sé hækkaður. Og að láta það síðan fylgja, frú forseti, að það sé í lagi, þetta sé ekki svo mikil hækkun, 4–10%, að það eigi ekki að valda skuldurunum erfiðleikum, sýnir að mínu mati skilningsleysi á stöðu þess fólks sem á við fjárhagslega örðugleika að etja.

Frú forseti. Það er kominn tími til að þessi ríkisstjórn standi við stóru orðin sem féllu í kosningabaráttunni um að reisa skjaldborg um heimilin (Forseti hringir.) og hætta að leyfa því að ganga fram að skuldirnar vaxi og vaxi en bregðist við kröfum frá innheimtufyrirtækjunum um að hægt sé að hækka álögurnar á fólki. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:44]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Á Vísi í dag er frétt þar sem vitnað er í hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann segist ekki sjá tilgang með þjóðaratkvæðagreiðslu þegar tilboð um betri niðurstöðu liggi fyrir. Hvaða skilaboð er verið að senda með þessu? Ég veit ekki betur en hæstv. fjármálaráðherra hafi tekið undir þetta með svipuðum orðum í fréttunum. Hvað felst í þessu tilboði? Veit þingheimur það? Veit þjóðin það? Er það mat hæstv. utanríkisráðherra og er það mat ríkisstjórnarinnar að þetta tilboð sé betra? Betra en hvað? Betra en sá samningur sem keyrður var í gegnum þingið fyrir áramót?

Maður veltir fyrir sér hvort það sé einlægur vilji ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna að koma í veg fyrir að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem boðuð er vegna Icesave nái fram að ganga. Telja menn virkilega að það styrki samningsstöðu Íslands að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna svona stuttu áður en hún á að fara fram? Og á hvaða forsendum ætti að hætta við hana? Hvað er í þessu tilboði? Það er mjög undarlegt að menn skuli koma fram með þessum hætti. Við hljótum hreinlega að spyrja okkur hvort þessi yfirsýn sé mjög gáfuleg, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, á þessum stað í þeim viðræðum sem við eigum í. Hafa ráðgjafar okkar ekki sagt að það styrki okkar samningsstöðu að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé fram undan? Hvers vegna fara þá ráðherrar fram með þessum hætti? Ég held að þingheimur þurfi að senda skýr skilaboð um að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð til að draga hana til baka, ekki síst þegar ekki liggur fyrir hvað er á borðinu. Síðan veltir maður fyrir sér í ljósi þeirra leyniupplýsinga eða leyniskjals, eða hvað það var sem lak í fjölmiðla um fundi starfsmanna utanríkisþjónustunnar með Bandaríkjamönnum og Bretum, hvort það sé eðlilegt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti þegar fram kemur að Bretar og Hollendingar vilja að við hættum við hana.



[13:47]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Verklagsreglur bankanna komu hér til umræðu áðan og ég vil geta þess að viðskiptanefnd hefur átt mjög gott samstarf við fulltrúa fjármálafyrirtækja um gerð þeirra. Markmiðið með þessu samstarfi er að tryggja að verklagsreglurnar taki mið af sjónarmiðum eins og um jafnræði lántakenda, sanngirni í meðferð skulda og samkeppni. Viðskiptanefnd tókst að fá fjármálafyrirtækin til þess að gera strangari kröfur varðandi áframhaldandi þátttöku eiganda og stjórnenda fyrirtækis og um opið söluferli.

Ákafi nefndarmanna í að koma til móts við kröfur í samfélaginu um að fjárglæframenn eignist ekki aftur fyrirtæki sín var svo mikill að fjármálafyrirtækin mættu á fund viðskiptanefndar með lögfræðing og siðfræðing til þess að sannfæra nefndina um að ekki væri hægt að ganga lengra.

Frú forseti. Við erum mörg þeirrar skoðunar að ekki sé nóg að leggja mat á orðspor eigenda heldur þurfi að ganga lengra. Ég hef því hvatt fjármálafyrirtækin til að skoða hvort ekki sé hægt að taka upp ákvæði sem er að finna í lögum um hlutafélög. Þetta ákvæði segir að stofnandi fyrirtækis megi hvorki hafa farið fram á eða vera í greiðslustöðvun né bú hans vera undir gjaldþrotaskiptum. Það er von mín að fjármálafyrirtækin verði við þessari kröfu og að hún muni þá útiloka eigendur sem nú standa í greiðslustöðvun eða gjaldþrotaskiptum frá áframhaldandi rekstri.

Ég vil að lokum geta þess að slíkar verklagsreglur munu ekki leysa vanda allra, það vantar enn þá úrræði fyrir láglaunahópa og einyrkja.



[13:49]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þriðjudagurinn 23. febrúar verður í minnum hafður. Allar predikanir úr þessum stóli hingað til í dag hafa verið mjög merkilegar og hefur verið gott að heyra í þingmönnum um mál þeirra.

Mig langar að fylgja í fótspor þeirra og tala um sveitarstjórnarkosningar sem fram undan eru. Nú stendur almenningur í mörgum sveitarfélögum frammi fyrir því að sveitarstjórnir þeirra hafa algjörlega klúðrað fjármálum þeirra sveitarfélaga sem þær hafa stýrt. Þar ber Álftanes náttúrlega hæst. Það er svo að koma í ljós í síauknum mæli að sömu sveitarstjórnarmenn ætla að raða sjálfum sér aftur upp í framboð í næstu kosningum. Eina úrræði íbúanna er að hella sér á fullu afli þá út í pólitík sjálfir og stofna ný stjórnmálasamtök til þess að reyna að kljást við þá sem hafa klúðrað málum. Þetta er gríðarleg vinna og er ekki hægt að ætlast til þess að neitt venjulegt fólk standi í slíku. Lög um persónukjör sem nú eru strönduð inni í allsherjarnefnd hefðu gefið fólki tækifæri til þess að endurraða á lista í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Því langar mig að beina þeim orðum til þingmanna, og þá kannski sérstaklega samflokksþingmanna hv. formanns allsherjarnefndar, um að hér verði gerð bragarbót á þessu máli. Það verði alla vega gerð undantekning í þessari löggjöf um að taka megi út þau sveitarfélög sem eru hvað skuldugust og þeim verði gefinn kostur á því að hafa persónukjör í komandi sveitarstjórnarkosningum til þess að íbúar þessara sveitarfélaga geti með afgerandi hætti losað sig við þá sveitarstjórnarmenn sem valdið hafa íbúunum ómældu fjárhagslegu tjóni. Það er mjög þung krafa að krefjast þess að þeir sjálfir stofni til nýrra framboða í sveitarstjórnarkosningum og í rauninni alveg sjálfsagt að þeir fái þennan valkost að geta valið sjálfir í sveitarstjórn og þá jafnvel þvert á lista. Það eru miklar lýðræðisumbætur (Forseti hringir.) fólgnar í þessu og væri sómi að fyrir þingið ef það virti þessa ósk.



[13:51]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vildi vegna orðaskipta okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að það kæmi skýrt fram hér að það er mat Færeyinga að leggja þetta mál til hliðar um sinn. Væntanlega höfum við lesið sömu frétt í Morgunblaðinu í dag. Þar segir aðalræðismaður Færeyja á Íslandi að hún útiloki ekki að aðild Íslands að Evrópusambandinu geti greitt fyrir aðild Færeyja að EFTA. Það eru því ýmsar hliðar á þessum málum og væntanlega eru Færeyingar að kanna þær til hlítar þessa dagana.

Vegna orða hv. þm. Þórs Saaris vil ég segja að eitt er að innleiða persónukjör í landslög og lög til sveitarstjórnarkosninga. Annað er að stjórnmálaflokkar eru þessa dagana að stilla fólki upp á framboðslista eftir ýmsum aðferðum. Ég geri ráð fyrir því að fólkið í stjórnmálaflokkunum og þeir sem taka þátt í prófkjöri eða forvali, sérstaklega ef þau eru opin, sjái til þess að framboðslistarnir séu hverri stjórnmálahreyfingu til sóma. Þannig er nú einfaldlega lýðræðið í landinu.

Það er einmitt fyrir venjulegt fólk að fara í framboð, hvort sem það er til bæjarstjórnar eða Alþingis, en það þarf enga óvenjulega hæfileika til, eins og hv. þingmaður virtist telja hér áðan. Það er hverjum manni frjálst að stofna til hreyfingar og bjóða fram hvort sem það er í sveitarfélaginu Álftanesi eða einhvers staðar annars staðar. Til þess er nægur tími og til þess er lýðræðið.



[13:53]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að við gefum núna skýr skilaboð til þjóðarinnar um að þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara fram. Það er einungis eftir tíu, ellefu daga sem laugardagur 6. mars rennur upp. Það er algjörlega ljóst að við höfum borið gæfu til þess að standa saman upp á síðkastið um þetta mál, við Íslendingar.

Eftir síðasta útspil frá viðsemjendum okkar hefur hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagt að það beri of mikið á milli þeirra draga sem viðræðunefnd Íslendinga kynnti á fundi fyrir stuttu, sem allir flokkar voru annars sammála um, það var okkar grunnpunktur. Það ber of mikið á milli tilboðs okkar og þess tilboðs sem við höfum fengið til baka.

Svo berast líka fréttir — þær fréttir eru reyndar óstaðfestar — af því að Hollendingar telji að við eigum að fallast á grunnforsendurnar í tilboði þeirra, annars verði ekkert talað meira við okkur. Ef þetta er rétt er afar langt á milli aðila og þá stefnir auðvitað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk fari strax að undirbúa sig undir það að gefa skýr skilaboð, að það verði stórt nei sem komi út úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað gerist þá? Samningsstaða okkar batnar. Við verðum í alþjóðlegu sviðsljósi. Það verður að nýta það sviðsljós betur en okkur tókst varðandi það að kynna þessi mál í fyrri tíð. Við þurfum að fara að gefa þessi skilaboð út mjög sterkt. Hér verður þjóðaratkvæðagreiðsla, annað er ekki boðlegt í stöðunni, of mikið ber á milli. Við eigum að nýta okkur það alþjóðlega sviðsljós sem verður á Íslandi þegar þetta nei kemur.



[13:56]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka hér upp málstað Færeyinga. Þó að menn séu í mismunandi flokkum held ég að það sé alveg ljóst að allir þingmenn, hvar sem þeir í flokki standa, standa sameinaðir að baki Færeyingum og við munum að sjálfsögðu taka á með þeim í hverju sem þeir vilja.

Ég kem þó hér upp aðallega til þess að ræða um þjóðaratkvæðagreiðsluna og þau ummæli sem hér hafa fallið um hana. Ég vil segja það að ég er ekki alls kostar ósammála þeirri rökfræði um samningatækni sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti hérna áðan. Hitt vil ég hins vegar segja að það er alveg ljóst að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa gleymt því hvernig sú staða sem núna hefur skapast varð til. Hún varð til með þeim hætti að forustumenn tveggja stjórnmálaflokka réttu út höndina til stjórnarinnar og lýstu því yfir að þeir væru til í það að reyna að skapa samstöðu og ná nýjum samningi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var lógískt af þeim. Af hverju? Vegna þess að þá var komin ný staða. Þegar forseti Íslands synjaði lögunum um staðfestingu skapaðist ný staða. Menn eru að reyna að vinna úr henni.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan að það er töluvert langt á milli þess sem Íslendingar fóru með og þess sem fram hefur komið. Hins vegar hirði ég ekkert um þó að einstaka samningsþjóðir segi að þetta sé síðasta tilboðið. Ég hef verið í samningum og ég veit að þeim er ekki lokið fyrr en búið er að setja punktinn fyrir aftan þá. Hins vegar segi ég það, ég hef auðvitað málfrelsi og skoðanafrelsi eins og aðrir, ég var spurður að því hvort ég teldi að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla ef það væri búið að ljúka dæminu. Ég segi alveg heiðarlega: Hver á að greiða atkvæði með gildandi lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef á borðinu liggur nýr samningur sem er betri?



[13:58]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo virðist sem það sé að verða einhvers konar hljóðlát breyting á ýmsum þáttum utanríkisstefnu okkar. Lengi hefur legið fyrir áhugi Færeyinga á mögulegri aðild að EFTA sem gæti líka skapað þeim aðild þar með að hinu Evrópska efnahagssvæði.

Nú kemur hins vegar fram að þeir telja sig ekki geta fylgt eftir þessum áhuga sínum vegna þeirrar óvissu sem aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu hefur skapað. Við skulum ekki gleyma því að það eru mjög náin viðskipti milli okkar og Færeyinga sem m.a. fara fram á grundvelli Hoyvíkursamningsins, sáttmála sem hefur í raun falið í sér að það er gildandi eins konar efnahagssvæði Íslands og Færeyja sem Færeyingar hafa síðan sýnt áhuga á að víkka út. En auðvitað skapar aðildarumsókn okkar, sem erum þeirra nánasti bandamaður, að Evrópusambandinu núna gríðarlega óvissu í þessum efnum eins og blasir við. Nú treysta þeir sér ekki til þess að fylgja eftir áhuga sínum af þeim ástæðum.

Hitt sem komið hefur fram er að vegna aðildarumsóknar okkar hafa viðræður um fríverslun milli okkar og Kína verið settar á ís nákvæmlega af sömu ástæðu, vegna þess að við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, afleiðingarnar af umsókn okkar að Evrópusambandinu eru að verða miklu víðtækari en menn áttuðu sig á. Mig rekur a.m.k. ekki minni til þess að við höfum rætt þennan þátt málsins þegar ákveðið var að sækja um aðild en í boði Samfylkingar og Vinstri grænna eru þessar afleiðingar núna að koma í ljós.



[14:00]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi þær umræður sem hér hafa skapast um áhuga Færeyinga á aðild að EFTA er auðvitað alveg ljóst að Færeyingar og óskir þeirra um samskipti og stöðu innan EFTA eiga fullan stuðning Íslendinga og þverpólitískan stuðning á Alþingi. Framganga Færeyinga hefur verið með þeim hætti að við stöndum í ævarandi þakkarskuld við þá, ekki bara framganga þeirra nú heldur oft fyrr á árum einnig.

Vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um verklagsreglur bankanna við endurskipulagningu fyrirtækjanna vildi ég í öðru lagi fá að nota þetta tækifæri til að hvetja hv. viðskiptanefnd í hennar ágætu vinnu í því að skerpa á þeim verklagsreglum sem þar hafa verið í vinnslu. Það er með öllu óþolandi ýmislegt sem uppi hefur verið við endurskipulagningu fyrirtækja í hinum endurreistu bönkum. Það er mjög mikilvægt að um það séu skýr og afdráttarlaus skilaboð af hálfu þingsins hvað menn telja viðunandi í þeim efnum og hvað ekki. Margt í því verður hins vegar ávallt matskennt og þess vegna er langsamlega farsælast að sem allra mest af sölu fyrirtækja og fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra sé opið og þannig að allir eigi kost á því að koma þar að og verða eigendur hinna endurreistu fyrirtækja á algjörum jafnræðisgrundvelli. Þá þarf ekki að flokka menn í dilka eða leggja umdeilanlegt mat á þá. Þá gilda einfaldlega ein lög í landinu fyrir alla og menn keppa á sanngjörnum samkeppnisgrundvelli (Forseti hringir.) en þeir lokuðu samningar sem við höfum séð eru auðvitað ófærir.



[14:02]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað varðar verklagsreglur bankanna eiga að sjálfsögðu sömu reglur að gilda fyrir alla. Það er líka þess vegna mín skoðun að ríkisstjórn og þingmenn eigi ekki að skipta sér af einstaka málum eins og hefur verið hvatt til. Þess vegna tel ég mikilvægt að Samtök fjármálafyrirtækja klári vinnu sína um almennar verklagsreglur. Við getum hins vegar veitt aðhald í gegnum umræðu hér og almennt í þjóðfélaginu en ég vildi í dag vekja athygli á að grunnnálgun bankanna virðist ekki halda þegar grannt er skoðað. Almenningur getur greitt atkvæði með fótunum hvað snertir orðsporsáhættu og lífeyrissjóðirnir virðast ekki hafa áhuga á að afhenda sömu mönnum og töpuðu miklum fjármunum fyrirtækin á nýjan leik. Að mínu mati er mikilvægt að við látum almenning í þessu landi njóta vafans.

Það er mikilvægur liður í endurreisn viðskiptalífsins að um hana ríki sátt og að sátt ríki um það hverjir fái aðgang að lykilfyrirtækjum okkar. Þess vegna er mikilvægt að söluferli þeirra verði fyrir opnum tjöldum. Slík sátt vegur þungt á metunum, ekki síst þeim fjárhagslegu þegar grannt er skoðað.