138. löggjafarþing — 80. fundur
 24. feb. 2010.
stjórnsýslubreytingar vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu.
fsp. SSS, 377. mál. — Þskj. 680.

[14:08]
Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Frú forseti. Sú fyrirspurn sem hér liggur fyrir lýtur að þeim stjórnsýslubreytingum sem nauðsynlegt er að gera vegna aðildar að Evrópusambandinu. Fyrir liggur að Evrópusambandið gerir margvíslegar stjórnsýslulegar kröfur til Íslands í tengslum við aðildarferlið. Það eru kröfur um að ákveðnar stofnanir séu fyrir hendi til að sinna einstökum hlutverkum samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins, það eru kröfur um að ákveðnum upplýsingum sé safnað með ákveðnum og sérstökum hætti, svo sem hagtölum og annarri tölfræði, og það eru kröfur um að komið sé upp sérstöku eftirliti og matskerfi fyrir ýmis verkefni sem falla undir sameiginlega stjórnsýslu sambandsins.

Frú forseti. Allar þessar kröfur verður að vera búið að uppfylla áður en ljóst er hvort þjóðin samþykkir að ganga í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur komið upp að framkvæmdaráðið treystir t.d. ekki Bændasamtökum Íslands til að taka saman þær hagtölur sem það hefur gert til margra ára. Í því tilfelli þarf að grípa til nýrra aðgerða. Hvernig yrði það gert? Hið sama gildir um beingreiðslur og fleiri þætti, svo sem nýliðunarstyrki og nýsköpunarstyrki í landbúnaðinum.

Það er þekkt að í ríkjum Evrópusambandsins hefur verið sett upp það sem við getum kannski kallað greiðslustöðvar landbúnaðarstyrkja. Eins og komið hefur fram er ljóst að slíkar stofnanir hafa þurft að vera tilbúnar með öllu starfsfólki og öllum búnaði áður en gengið er til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því eðlilegt að spyrja hver áætlaður kostnaður sé við þetta verkefni. Ef aðildarsamningurinn verður felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu má telja þetta hreina sóun á fjármagni og rétt er að minna á að ríkissjóður er fjársveltur. En vita stjórnvöld eitthvað hvað þetta kostar? Það er hluti af því að spyrja jafnframt: Hvað má telja líklegt að vinna við þetta kalli á mörg ársverk í stjórnsýslunni? Hefur það verið metið og er það kannski stærsta aðgerð stjórnvalda sem þau hafa gengist fyrir í atvinnumálum um stundir? Fyrirspurnin hljóðar svona:

Hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á íslensku stjórnkerfi áður en Ísland getur orðið aðili að Evrópusambandinu? Óskað er eftir upplýsingum um eftirfarandi liði:

a. hvaða stofnunum eða skipulagsheildum er nauðsynlegt að koma á fót,

b. hver er áætlaður kostnaður við þá framkvæmd,

c. hvað er áætlað að framangreindar breytingar kalli á mörg viðbótarársverk í stjórnkerfinu?



[14:11]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Hann hefur áður sýnt að hann er verðugur arftaki þeirra fulltrúa Framsóknarflokksins sem hafa beitt sér fyrir málefnalegri umræðu um Evrópusambandið og hugsanlega aðild okkar að því. Ég þakka það og hlýt auðvitað að þakka það að Framsóknarflokkurinn hefur verið í forgöngu umræðna hér á landi á síðasta áratug.

Við erum rétt að hefja þessa vegferð og eins og kom fram fyrr í dag er þetta kannski sögulegur dagur að því leyti til að framkvæmdastjórnin hefur í dag beint því til leiðtogaráðsins að samþykkja upphaf samningaviðræðna við Ísland.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, gera þarf töluvert miklar breytingar á því sem hann kallar stjórnkerfi og skipulagsheildir til að við getum talist tæk inn í Evrópusambandið. Ýmsar þær þjóðir sem hafa farið í gegnum þetta ferli hafa þurft að gera alveg gríðarlega viðamiklar breytingar. Okkar breytingar verða miklu minni vegna þess að við erum aðilar að Schengen, við erum aðilar að EES og fyrir vikið eru það bara afmarkaðir málaflokkar sem við munum þurfa að gera þessar breytingar á. Það er, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, fyrst og fremst á sviði byggðamála og landbúnaðar sem það þarf.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þau mál eru ekki komin það langt í þessu ferli að hægt sé að svara nákvæmlega þeim spurningum sem hann varpar fram um kostnaðartölur og fjölda ársverka. Þetta er til umræðu og til stefnumótunar í samningahópum viðkomandi málaflokka og þegar hv. þingmaður kemur hingað, vonandi sem fyrst, verður því máli undið lengra fram og þá get ég kannski gefið honum ítarlegri upplýsingar um tölurnar. Ég get hins vegar reifað þau meginatriði sem koma til skoðunar og sem liggja undir í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Þau eru rétt að byrja.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, er alveg ljóst að endurskoða þarf þann strúktúr sem við höfum á sviði landbúnaðarmála. Það þarf að vera til staðar stofnun sem fer með þá fjármuni sem ESB mun ráðstafa til Íslands. Það þarf líka að vera fyrir hendi stjórnar- og eftirlitsnefnd sem er ætlað að tryggja rétta framkvæmd byggðastefnunnar og sömuleiðis dreifbýlisþróunarstefnu, þetta tvennt sem, með leyfi forseta, heitir á ensku „Regional Policy and Rural Development Policy“. Af okkar hálfu er alveg klárt að það mun koma til skoðunar hvort þessi störf geti verið unnin innan einnar og sömu stofnunar, jafnvel stofnunar sem er þegar fyrir hendi. Og við munum að sjálfsögðu líta sérstaklega til þess hvernig slík stofnun geti sem best þjónað hagsmunum bænda og hvernig þessi starfsemi geti tengst núverandi stofnunum. Það er eitt þeirra verkefna sem hljóta að vera undir í þessu máli.

Að því er byggðamálin sjálf varðar þarf annaðhvort að koma á fót stofnun í þessu sama skyni eða tilnefna einhverja stofnun sem er fyrir til að sinna þessum hlutverkum. Við munum vitaskuld við útfærslu á þessu leita ráða hjá ýmsum góðum félögum og samtökum sem þekkja þetta í okkar góðu nágrannalöndum.

Hv. þingmaður spyr um áætlaðan kostnað við þessa framkvæmd. Eins og ég sagði get ég ekki farið út á þá braut að svo stöddu vegna þess að ekki liggur nákvæmlega fyrir með hvaða hætti við munum haga skipan þessara mála. Hins vegar vil ég ekki draga nokkra dul á það að slík uppstokkun verður umtalsvert kostnaðarsamari en núverandi kerfi. Við vitum auðvitað öll sem höfum með einhverjum hætti komið að þessum málum að við Íslendingar greiðum að sönnu hlutfallslega hærri landbúnaðarstyrki en ESB en styrkjakerfi okkar er einhæfara og þar af leiðandi einfaldara í framkvæmd. Landbúnaðar- og dreifbýlisstyrkir ESB ná til fleiri búgreina og verkefnaflokka sem augljóslega gerir kröfu um enn meira eftirlit með því að framkvæmdin sé rétt og öll meðferð fjármuna reglum samkvæmt. Að sama skapi hljóta auðvitað skilaboð frá okkur til þeirra sem að þessu vinna að vera að það sé nauðsynlegt að sýna sem allra mesta ráðdeild á þessu sviði við skipulag og stefnumótun innan málaflokksins. Ég tel sjálfur að það sé einsýnt að horfa í þessu samhengi til skipulags núverandi stofnana til að tryggja sem mest hagræði og skilvirkni til hagsbóta bæði fyrir viðtakendur fjármunanna og líka fyrir ríkissjóð.

Síðast spyr hv. þingmaður hvað þetta kalli á mörg viðbótarársverk í stjórnkerfinu. Ég hef þegar sagt að hvað varðar ársverkin og fjölda þeirra er of skammt komið vinnunni til að hægt sé að kveða upp úr um það. Miðað við reynslu annarra þjóða verður það umfang nokkru meira en það sem nú er.



[14:16]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni Ég fór áðan yfir það fyrir hvaða lagabreytingum Alþingi þyrfti að standa í megindráttum í þessu umsóknarferli en nú spyr þingmaðurinn hvað þetta kosti í stjórnsýslunni.

Eins og við var að búast voru svör hæstv. utanríkisráðherra rýr og nánast engin því að svo virðist sem ekki sé búið að slá neinni tölu á hvað þetta kostar. Það er skrýtið því að ég veit fyrir víst innan úr Stjórnarráðinu að mikil vinna er farin af stað og má segja að ráðuneytin séu meira og minna á hvolfi vegna þessarar vinnu þessa dagana. Þau hafa því ekki tíma til að sinna þeim málum sem snúa að þjóðinni, eins og heimilunum. Það er allt á hvolfi í því og svo er Icesave notað sem skálkaskjól í því að ekkert komist áfram. Við skulum átta okkur á því að vinnan er farin á burt og mér finnst ekki við hæfi að hæstv. utanríkisráðherra geti ekki svarað þeim spurningum (Forseti hringir.) sem fyrir hann eru lagðar í þessari fyrirspurn.



[14:17]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir að varpa fram þessari brýnu spurningu sem því miður virðast ekki hafa fengist svör við hér. Hæstv. utanríkisráðherra á þó eftir eina umferð og getur þá vonandi bætt einhverju við. Þá ætla ég að leyfa mér, frú forseti, að einfalda spurninguna aðeins varðandi b-liðinn og spyrja: Hver er áætlaður kostnaður við þessa framkvæmd á þessu ári? Það hlýtur að liggja fyrir. Fólk er að vinna að þessum breytingum. Fjárlög hafa verið samþykkt. Hver er kostnaðurinn nú þegar á þessu ári sem er gert ráð fyrir að fari í þessar breytingar — sem eru á fullu? Það er verið að vinna á fullu á bak við tjöldin í því að straumlínulaga íslenska stjórnsýslu að ESB, og bæði tíma og fjármunum væri að mínu mati betur varið í eitthvert annað verkefni en það að vinna að aðild okkar Íslendinga að ESB vegna þess að þangað inn skulum við ekki fara. Það þjónar ekki hagsmunum íslenskrar þjóðar að ganga í Evrópusambandið og það skal aldrei verða.



[14:19]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eftir því sem tíminn líður sést hve arfavitlaust það var að sækja um aðild að ESB á þessum tíma. (VigH: Heyr, heyr.) Þegar efnahagsmálin eru eins og þau eru og vandinn heima fyrir er gífurlegur sést það enn betur.

Ég verð að viðurkenna í þessum sal að ég sé eftir hverri krónu sem fer í þessa aðildarumsókn. Eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra getur hann ekki svarað því nákvæmlega hver kostnaðurinn er. Þetta er sem sagt óútfylltur tékki og við vitum hvernig þeir eru og hvernig þeir geta endað. Meðan við þurfum að skera niður í almannaþjónustu, heilbrigðiskerfi og víða í þjóðfélaginu, í velferðarkerfinu, og spara — t.d. er hagræðingarkrafa upp á 30 millj. kr. hjá Ríkisútvarpinu og talað um að leggja niður allar svæðisstöðvarnar — er verið að eyða peningum í þetta. (Gripið fram í.) Við vitum að þetta verður kolfellt og ég vildi gjarnan sjá að þessi umsókn (Forseti hringir.) færi í þjóðaratkvæði 6. mars og yrði dregin til baka. (VigH: Heyr, heyr.)



[14:20]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Eins og aðrir þakka ég þessa ágætu fyrirspurn. Hún var mjög tímabær og það kom nákvæmlega fram sem ég óttaðist. Menn vissu ekkert út í hvað þeir voru að fara. Sú 1.000 millj. kr. kostnaðaráætlun sem við höfum dálítið rætt hér í tengslum við þessa aðildarumsókn er greinilega fullkomlega úr lausu lofti gripin og ég ítreka beiðni mína um utandagskrárumræðu við hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að ég tel fullt tilefni til að ræða þessi mál betur og lengur en maður getur gert í einnar mínútu athugasemd.

Það vakti athygli mína að hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan að hann gæti ekki farið út á þá braut að áætla kostnaðinn. Það væri nefnilega þannig að slík uppstokkun verður umtalsvert kostnaðarsamari en núverandi kerfi. En umtalsvert hvað? Við vitum að það var gert ráð fyrir 1.000 millj. kr. en það var bara utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti sem sú upphæð átti að ná yfir. Hvað með Hagstofuna sem er að breyta um kerfi? Hvað með þingið sem er að (Forseti hringir.) senda fólk í ferðalög út um allt til að tala fyrir þessari umsókn? Ég segi: (Forseti hringir.) Við þurfum að ræða þessa kostnaðarhluti (Forseti hringir.) mun betur.



[14:22]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag er á fréttavefnum visir.is a.m.k. fjallað um þessa ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og þar segir að Íslendingar verði að gera átak, með leyfi forseta, „í að samræma löggjöf landsins og sambandsins og/eða innleiða tilskipanir varðandi sjávarútveg, landbúnað, þróun landsbyggðarinnar“ o.s.frv. Það er ekkert um að semja, hæstv. utanríkisráðherra, við eigum að innleiða það sem er búið að ákveða í Evrópusambandinu.

Það er ekki aðalmálið sem ég ætlaði að ræða hér heldur það að vitanlega er með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli koma hingað með engin svör við þeim spurningum sem hafa verið bornar fram, (VigH: Heyr, heyr.) ekki nokkurt einasta svar. Að hæstv. utanríkisráðherra skuli halda áfram í þessari vegferð með opinn tékka eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á áðan er algerlega óábyrgt. Við hljótum að krefjast þess af ráðherranum að hann komi hingað í síðasta lagi í næstu viku með upplýsingar um áætlaðan kostnað af þessu sem hv. þingmaður spurði um áðan. Annað er (Forseti hringir.) ólíðandi.



[14:23]
Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við skulum hafa eitt í huga, þingmenn sem tala, hér er verið að fara að þingvilja. Það virðist æðioft gleymast að hér er verið að fara að þingvilja. Meirihlutaviljinn getur verið hundfúll á tíðum, það getur vel verið svo. En það er verið að fara að þingvilja sem var kosið um fyrir allnokkrum vikum, (VigH: Með þumalskrúfum.) með engum þumalskrúfum, menn tóku bara einfalda ákvörðun um það hvert þeir vildu fara. Það er trúa mín að hér þurfi að hafa það eitt í huga að það fer betur á því á næstu vikum og mánuðum að tengjast með opnum huga því alþjóðaumhverfi sem er í kringum okkur. Við þurfum á samvinnu við aðrar þjóðir að halda sem aldrei fyrr, nú þegar við erum að reisa okkur upp úr öskustó íslensks efnahagslífs. Eða viljum við fremur loka okkur af og halda áfram feluleiknum þar sem gæðunum er skipt úr krepptum hnefa þeirrar útvöldu? (VigH: Hver er að tala um það?) Þið.



[14:24]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt að dagurinn í dag markar nokkur þáttaskil í stjórnmálasögu okkar. Nú hefjast aðildarviðræðurnar formlega og þá loksins verður leitt til lykta það innihaldslitla þras sem staðið hefur árum saman um hugsanlega kosti og mögulega galla við aðild. Langstærsta einstaka hagsmunamál íslensku þjóðarinnar er það hvort og með hvaða hætti við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Um það mun þjóðin kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningsferli lýkur. Það verður lýðræðisleg ákvörðun meiri hluta þjóðarinnar.

Það hvernig hagsmunum byggða og bænda verður fyrir komið í nýjum samningi skiptir mestu máli. Ávinningurinn er augljóslega sameiginlegt myntsvæði og sameiginlegur Seðlabanki Evrópu en það sem mestu skiptir að ná út úr samningunum er sterkari staða byggða og bænda og atkvæði margra munu ráða, mitt þar á meðal, hvernig fyrir byggðunum verður komið þegar til aðildar að Evrópusambandinu kemur. (Gripið fram í: … landbúnaðarhéraði.) Sjá hvað verður í boði, eða hvað?



[14:25]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarmenn hafa ályktað um að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu (Gripið fram í: Ja-á.) með ákveðnum skilyrðum. Við tókum þessa umræðu í sumar. Þá fórum við yfir þetta allt saman og greiddum hér atkvæði. Þá var bankahrunið fyrir löngu orðið staðreynd. Við vissum alveg í hvað stefndi og við vissum alveg að það yrði erfitt í fjármálum hér þannig að það er ekkert nýtt að koma fram í þessari umræðu, virðulegi forseti. Mjög stór hópur framsóknarmanna er mjög ánægður með þá stöðu sem þetta mál er í. Það er líka hópur sem er óánægður. Ég greiddi atkvæði með aðild og ég tel að þetta mál sé í eðlilegu ferli. Nú er verið að vinna að því að skoða hvernig okkar málum verður best fyrir komið innan dyra í Evrópusambandinu. Síðan fær þjóðin að greiða atkvæði. Það er þjóðin sem mun ákveða að lokum hvort við förum inn eða ekki og það verður mjög spennandi að sjá hvaða samningur kemur á borðið, hvort það sé framfaraskref að fara inn eða hvort rétt sé að bíða. Ég ætla ekkert að gefa mér í því sambandi. Ég er mjög opin fyrir því að tengjast öðrum ríkjum til framtíðar. Ég held að það hafi verið mjög gott skref að gera EES-samninginn. (Forseti hringir.) Það tók mikið á framsóknarmenn en það var mjög gott að við gerðum hann. Það má vel vera að það verði gott að fara inn í ESB, við vitum það bara ekki enn þá. Það kemur í ljós þegar samningurinn (Forseti hringir.) er kominn.



[14:26]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að framsóknarmenn ákváðu að fara til aðildarviðræðna með vissum skilyrðum. Eins og skýrt kemur fram í greinargerðinni var ekki farið í aðildarviðræður með nein skilyrði. Þess vegna átti aldrei að fara í þessar aðildarviðræður. Það er líka rétt að stór hópur framsóknarmanna er með og stór hópur er á móti. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups voru 75% kjósenda Framsóknarflokksins á móti aðildarumræðu en það er einnig stór hópur fylgjandi. Við höfum hins vegar ákveðið að ræða þetta mál málefnalega í okkar flokki.

Það sem mér finnst hins vegar skrýtið er að heyra nýjustu rökin fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Evran er ekki lengur gulrótin eða lækkað matvælaverð vegna þess auðvitað er krónan að bjarga okkur og við fáum að sjálfsögðu ekki lægra matvöruverð. Núna halda þingmenn Samfylkingarinnar því fram að landið muni lokast. Hvers lags endemis vitleysa er þetta? Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það eina sem við tökum ekki úr Evrópusambandinu er (Forseti hringir.) landbúnaðurinn okkar og fiskveiðarnar. Evrópusambandið segir núna: Gefið þið eftir (Forseti hringir.) af auðlindum ykkar og þá skulum við koma. Ég segi einfaldlega nei. (VigH: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)



[14:28]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Staðan í því máli sem hér er spurt um er alveg skýr í dag. Við vitum hvað Alþingi Íslendinga setti háar upphæðir í aðildarumsóknina á yfirstandandi fjárhagsári. Það er í hendi Alþingis Íslendinga að útdeila þeim fjármunum til næstu ára eftir því sem þurfa þykir. Við erum í ferli þar sem væntanlega verða formlegar umræður innan einhverra vikna. Ferlið snýst um það að semja um skilyrði aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Við höfum ekki séð fyrir endann á því ferli. Við vitum ekki hvernig sá samningur lítur út og það verður ekki fyrr en hann liggur á borðinu og hefur verið kynntur rækilega allri íslensku þjóðinni sem þingmenn geta komið upp með eintómum upphrópunum, hvort sem þær eru já eða nei, og talið sig vita (Forseti hringir.) um hvað málið snýst.



[14:29]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn tekur upp umræðu um Evrópusambandið.

Það er hátíðisdagur í dag. Framkvæmdastjórnin samþykkir að leggja til við ráðherra að við verðum teknir inn sem aðildarumsóknarsinnar og þökk sé Framsóknarflokknum fyrir að við skulum vera komin í þessa vegferð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þrír framsóknarmenn studdu þessa tillögu, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson og Siv Friðleifsdóttir eins og hér hefur komið fram. Hafið kærar þakkir fyrir þetta. (Gripið fram í.) Þrír af sjö framsóknarmönnum sögðu já. (VigH: Þrír af níu.) Níu? Eru ekki bara sjö framsóknarmenn á þingi? (Gripið fram í.) Já, ég veit það, virðulegi forseti, ég verð að játa að þetta er svolítill galgopaháttur. Mér finnst bara svo gaman að heyra framsóknarmenn segja að þeir hafi einu sinni verið sjö og séu bara níu. (Gripið fram í.)

Svo studdu þetta líka sjálfstæðismenn, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ætti að átta sig á því, þar á meðal varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem sat hjá og eftirlét öðrum að taka ákvörðunina. Sú sem situr í forsetastóli núna sagði já þannig að þetta er allt hið besta mál. (Gripið fram í.) Nú fara viðræður vonandi í gang (Forseti hringir.) og út úr því kemur samningur, virðulegi forseti, sem verður borinn undir þjóðina til samþykktar (Forseti hringir.) eða synjunar. Þetta er þess vegna hinn besti dagur og ég þakka hv. framsóknarþingmanni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi.



[14:31]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða er til að binda vonir við þann áfanga sem náðist í dag, að hann megi verða okkur til gæfu og að þessi leiðangur megi takast sem best. Gott er að fá fjölmargar ábendingar um það sem betur má fara í íslenskri löggjöf vegna þess að þær ábendingar eru auðvitað settar fram með hag almennings að leiðarljósi og auðvitað má víða í löggjöf okkar og á mörgum sviðum í íslensku samfélagi taka til hendinni og bæta úr.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að hér kemur ekkert nýtt fram. Þessar upplýsingar um kostnað máttu vera mönnum ljósar strax í sumar og 1.000 millj. eru sannarlega ákaflega lág fjárhæð (Gripið fram í: Lág?) þegar horft er til þess ávinnings sem við höfum haft af samstarfinu við Evrópu, ávinningsins af Evrópska efnahagssvæðinu. Ég hygg að á aðeins nokkrum dögum nemi sá ávinningur einum milljarði og kostnaðurinn við reksturinn á íslensku krónunni er margfaldur þessi á hverju einasta ári þannig að í ljósi þeirra gríðarlegu efnahagslegu hagsmuna sem hér eru undir þá eru þessar fjárhæðir sannarlega viðunandi.



[14:32]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sýndarmennska og hégómi eru skelfilegar systur í stjórnmálum. Allt Evrópusambandið er sýndarmennska og hégómi. Það er nútímasovét, enn verra en gamla Sovét, sem sagt flækjufæturnir eru miklu fleiri. Klíkuskapurinn er enn þá meiri og valdataflið er enn þá meira á meðal stórveldanna þar. Það var þó einkum í gamla Sovét. Þetta eru hlutir sem við eigum að horfast í augu við. Við fórum í það ferli að láta skoða þetta og skulum láta það ganga yfir og gera svo úttekt. Það er til skammar að stjórnvöld séu að laga íslenska stjórnkerfið að kerfi Evrópusambandsins þegar ekkert liggur fyrir um hreina hluti. (Gripið fram í.) (SER: Við erum búin að vera þarna í fimmtán ár.) Það er til skammar og það er valdbeiting, það er valdníðsla. (Gripið fram í.)

Það er alveg ljóst að það er ekki þingmeirihluti og ekki þjóðarvilji fyrir inngöngu í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Samfylkingin tók Vinstri græna haustaki niður í klof og píndi þá (Forseti hringir.) til að fallast á aðildarviðræður. Engin önnur rök, (LRM: Ekki enn þá.) nei, nei, (Forseti hringir.) engin önnur rök eru í dæminu.



[14:33]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann.



[14:34]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni fyrir þessa áhugaverðu spurningu sem er mjög mikilvæg. Nú tala ég sem gamall fjárlaganefndarmaður um reynslu mína í samskiptum við utanríkisráðuneytið sem hefur ætíð hagað sér eins og ríki í ríkinu þegar kemur að fjárlagagerð og þess vegna er mikilvægt að við höldum hæstv. utanríkisráðherra við efnið í þessu því eins og hv. þingmaður nefndi þá verðum við að vita hversu miklum fjármunum við ætlum að eyða í umsóknarferlið og þess vegna er aðhald þingsins ákaflega mikilvægt.

Hins vegar er ljóst að ef við ræðum um aðildarumsóknina sem slíka þá eru skiptar skoðanir innan allra flokka í þeim efnum og sá sem hér stendur vill skoða hvað kemur út úr fyrirhuguðum samningaviðræðum við Evrópusambandið án þess að hafa gefið sér fyrir fram einhverja niðurstöðu. Eftir að þetta ferli er farið af stað er það ábyrgð íslenskra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að reyna að ná eins góðum samningum og hægt er. Síðan leggjum við þá samninga fyrir þjóðina til synjunar eða samþykktar. Ég treysti íslenskri þjóð til að taka rétta ákvörðun í þeim efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:35]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Alþingi samþykkti í júlí að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var meiri hluti Alþingis sem slíkt gerði. Við erum í því ferli og stöndum í dag frammi fyrir því að aðildarumsóknin hefur verið samþykkt (GBS: Við getum hætt við.) og nú hefjast samningaviðræður. Alþingi getur alltaf ákveðið að taka lög til baka vilji það svo. En þá verður að bera upp slíka tillögu, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. En við erum í þessu ferli.

Ég er ein þeirra sem segja að við eigum að ganga þessa vegferð á enda, sjá hvað upp úr þeim samningum kemur sem við blasa í þessu samningaferli, halda vel og heiðarlega á samningsstöðu Íslands í þessum viðræðum og þegar kemur að því hvort, hvenær eða hvernig samning við fáum þá verður það alltaf íslensk þjóð sem ákveður hvað henni er fyrir bestu, ekki einstaka stjórnmálaflokkar eða einstaka stjórnmálamenn sem telja sig stundum allt vita betur en aðrir.



[14:36]
Fyrirspyrjandi (Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ráðherranum fyrir að gera tilraun til að reyna að svara þessu með hvað skástum hætti en ég verð að viðurkenna að óvissan um kostnað í þessu máli endurspeglaðist mjög í svari ráðherrans og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að við erum á ákveðinn hátt að samþykkja opinn víxil.

Ég vil benda honum á að hægt er að nýta sér skýrslur um inngöngu annarra landa inn í sambandið, t.d. Króatíu. Þar kemur ýmislegt fram um það hvaða stofnanir hefur þurft að setja á fót. Mig langar til að segja hæstv. utanríkisráðherra frá því að ég kynnti mér það í morgun hvernig þessum málum er háttað í Svíþjóð. Í Svíþjóð er svipuð greiðsluskrifstofa um landbúnaðarstyrki og ég talaði um í framsögu minni, Jordbruksverket. Þar starfa í dag 600 starfsmenn, frú forseti, 600 starfsmenn og launakostnaður árið 2008 var 13 milljarðar. Þetta er greiðsluskrifstofa landbúnaðarstyrkja og bara dæmi um eina stofnun. Ég vil að menn hafi það í huga að þessi víxill sem við erum að samþykkja getur verið mjög stór og hár. Mjög mikilvægt er að það komi fram.

Ef vilji þjóðarinnar er sá að hún vill ekki aðild þá verðum við að skoða þá fjármuni sem við munum eyða í aðildarviðræðurnar fram að þeim tímapunkti.

Varðandi orð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um að þetta sé þingvenja og annað slíkt þá vil ég taka fram að það er sorglegt að þurfa alltaf að hlusta á Samfylkinguna tala um þetta alþjóðaumhverfi og að við þurfum að vera þjóð á meðal þjóða í alþjóðasamskiptum.

Hvernig var þetta í sjálfstæðisbaráttunni? Þeir vildu fara varlega í henni og ekki styggja Dani. Hvernig var þetta þegar við vorum að semja um landhelgina? Þeir vildu fara varlega í því. (Gripið fram í: Hverjir?) (GBS: Kratarnir.) Kratarnir vildu fara varlega í því og nú þegar komið er að þessu, þá skulum við ekki styggja alþjóðasamfélagið. (VigH: Við breytum ekki ESB) Við eigum að standa (Forseti hringir.) eins og menn og ekki lúta í gras og kyssa alltaf á vöndinn. (Gripið fram í.)



[14:39]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns. Það sem hann er í reynd að leggja til með málflutningi sínum er að við lútum í gras fyrir fram og gefum okkur að það sem Evrópusambandið leggur á borðið verði hin endanlega niðurstaða. Við erum að fara í samningaviðræður. (Gripið fram í.) Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að slá nákvæmlega á það hver kostnaðurinn við þessar tilteknu stofnanir verður er sú að við eigum eftir að semja okkur til niðurstöðu um það. Það þýðir ekkert að benda á Svíþjóð og ekki einu sinni Króatíu varðandi það vegna þess að við höfum algera sérstöðu vegna smæðar okkar. Við þurfum í fyrsta lagi að ná samstöðu um það meðal þeirra sem munu móta þessa afstöðu fyrir okkur. Við þurfum síðan í öðru lagi að fara með þá afstöðu og semja okkur til niðurstöðu. Þá er hægt að slá á þetta.

Frú forseti. Ég þarf greinilega að undirstrika það fyrir þeim hv. þingmönnum sem hér eru að mér var falið ákveðið hlutverk af meiri hluta Alþingis. Það hlutverk var að ná sem víðtækastri sátt um öll þau atriði sem aðildina varða. Þetta er eitt af því sem tengist hvað umdeildasta málaflokknum. Ég ætla mér sannarlega að reyna það og ég ætla ekki að gefa fyrirskipanir um það með hvaða hætti við eigum að haga breytingum á stofnanastrúktúr okkar fyrir fram. Það ætla ég ekki að gera. Ég ætla að hlusta á þann hv. þingmann sem hóf þessa umræðu sem hefur verið skemmtilegur sprettur á köflum, ég ætla að hlusta á bændur, ég ætla að hlusta á ólík viðhorf og ég ætla síðan með aðstoð þeirra sem í samninganefndinni eru að reyna að semja fyrir hönd Íslands um þá niðurstöðu sem er hagfelldust fyrir Ísland. Ég vísa því algerlega á bug að þetta sé óútfylltur víxill sem við erum að samþykkja. Herra minn trúr. Það verður ekkert samþykkt, engum lögum breytt nema Alþingi samþykki það. (GBS: En kostnaðurinn?) Og það verður ekkert samþykkt nema þjóðin samþykki það að lokum. (Gripið fram í.)