138. löggjafarþing — 80. fundur
 24. feb. 2010.
rannsókn sérstaks saksóknara.
fsp. SER, 265. mál. — Þskj. 303.

[15:24]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Óhætt er að segja að augu alls almennings á Íslandi beinist nú um stundir að rannsókn á orsökum bankahrunsins sem varð hér á landi fyrir nálega hálfu öðru ári. Ekki er laust við að efasemda gæti hjá mörgum um að sérskipaðir rannsakendur nái utan um viðfangsefni sitt sem er allt í senn, flókið, yfirgripsmikið og vandmeðfarið, svo ekki sé meira sagt. Einkum hangir sú spurning í loftinu hvort meintir sakamenn sem hugsanlega frömdu refsivert athæfi í íslensku viðskiptalífi í aðdraganda hrunsins muni komast undan réttvísinni sem vel að merkja og að gefnu tilefni eru í einhverjum tilvikum þeir sömu aðilar og nú eru aftur að hasla sér völl í viðskiptalífinu hér á landi. Verður möguleg sekt þessara manna auðveldlega sönnuð? Var starfað á gráu svæði, eða svörtu? Nær íslenskur lagarammi utan um marga hæpnustu, vafasömustu og umdeildustu gjörninga þessara manna? Eða falla þeir e.t.v. utan hans?

Ég kem því hér upp, frú forseti, til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra nokkurra spurninga sem varða þetta efni og sem ég tel að almenningur hafi mjög mikinn áhuga á. Og hann hefur rétt á að vita um framvindu mála.

Hvað líður rannsókn sérstaks saksóknara á bankahruninu?

Hversu margir hafa verið yfirheyrðir nú þegar?

Hafa einhverjir þeirra neitað að koma til yfirheyrslu eða færst undan henni?

Hversu margir hafa nú þegar fengið stöðu grunaðra við rannsóknina?

Til hvaða landa hefur rannsóknin náð?

Að síðustu: Hvenær er áætlað að rannsókninni ljúki?

Margs er hægt að spyrja í þessu efni og er þessi listi vissulega ekki tæmandi. Það er að mínu viti afskaplega mikilvægt nú um stundir að almenningur geti fylgst með framvindu mála í þessari mjög svo mikilvægu rannsókn sem lýtur að einhverjum stærstu tíðindum í íslensku efnahagslífi á síðustu áratugum, ef ekki allri okkar lýðveldissögu. Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að hér verði einhverju haldið leyndu, að svo miklu leyti sem eðlilegt er að það verði upplýst hér og nú fyrir almenning. Þess vegna fer ég þess á leit við hæstv. dómsmálaráðherra að hún greini okkur, almenningi í landinu, frá því hvernig þessari rannsókn er háttað og hvernig henni miðar í tölum og öðru.



[15:27]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég tel að það sé mjög af hinu góða að það sé upplýst um gang rannsóknarinnar á hverjum tíma. Ég vil þó árétta að ákæruvaldið er sjálfstætt og lýtur ekki boðvaldi ráðherra þannig að við það að útbúa svar mitt hef ég leitað til sérstaks saksóknara um svör og upplýsingar. Svör mín byggjast á því.

Að því sögðu vil ég lýsa þeirri skoðun minni að það er skylda ríkisvaldsins að búa vel að rannsókninni, að henni sé sinnt af árvekni, heiðarleika og dugnaði. Þannig getur rannsóknin farið fram ef hún fær nægilegt fjármagn og nægileg tæki til að geta sinnt störfum sínum með þeim hætti.

Ég ætla að rekja hvernig þetta lítur út núna.

Saksóknari hóf störf 1. febrúar 2009, fyrir rúmu ári, og þá voru fastráðnir starfsmenn fjórir. Embættið flutti í stærra húsnæði um miðjan ágúst sl. og þrír sjálfstæðir saksóknarar voru skipaðir við embættið frá 15. október sl. Loks voru fjórir rannsakarar ráðnir til embættisins þann 1. nóvember. Nú eru starfsmenn embættisins 25. Þeim mun á næstu mánuðum fjölga um þrjá til viðbótar við það, auk þess sem sjö erlendir sérfræðingar starfa að afmörkuðum verkefnum á vegum embættisins. Umfangið er orðið töluvert, enda umfang rannsóknarinnar ærið.

Alls hefur embættið fengið til meðferðar 60 mál sem flokkuð eru sem lögreglurannsóknir. Þar af hefur rannsókn verið hætt eða kæru vísað frá í 17 málum og eitt mál hefur verið sent til meðferðar hjá öðru embætti. Rannsókn þessara mála er nú misjafnlega langt á veg komin. Þess ber að geta að þær rannsóknir sem embættið hefur á hendi eru misjafnlega flóknar en útheimta allar mikla vinnu og tíma og varða í flestum tilvikum verulega fjárhagslega hagsmuni.

Alls hafa farið fram rúmlega 50 húsleitir að gengnum úrskurðum héraðsdómstóla. Skýrslur hafa verið teknar af um 170 manns og hefur sá fjöldi stóraukist á allra síðustu mánuðum. Skýrslutökur þarf að undirbúa af kostgæfni og draga þarf fram þau gögn sem bera á undir skýrslugjafa. Af þessu leiðir að málin eru seinunnin. Þá teygja mörg málin anga sína út fyrir landsteinana en fyrri reynsla sýnir að langan tíma getur tekið fyrir yfirvöld í viðkomandi landi að vinna úr réttarbeiðnum sem senda þarf á milli landa í tengslum við slíkar rannsóknir.

Auk þeirra mála sem embættið tekur til rannsóknar að eigin frumkvæði berast embættinu mál til meðferðar frá Fjármálaeftirlitinu, skilanefndum og slitastjórnum bankanna, auk erinda frá almenningi. Skilanefndir og slitastjórnir hafa fengið erlenda sérfræðinga til að fara yfir gögn bankanna til að meta ráðstafanir sem gerðar voru í tíð gömlu bankanna og vakni grunur um að refsivert brot hafi átt sér stað ber að tilkynna það til embættisins. Þess má einnig vænta að mál berist embættinu til meðferðar frá skattrannsóknarstjóra ríkisins og fyrir liggur að fjölmörg mál eru til meðferðar hjá Fjármálaeftirlitinu sem líklegt má telja að verði send embættinu til áframhaldandi meðferðar. Í því sambandi má benda á að eftir að stærstu bankarnir þrír féllu hlutu fleiri fjármálafyrirtæki, eins og Straumur, SPRON og Sparisjóðabankinn, sömu örlög. Þá gætu upplýsingar borist frá rannsóknarnefnd Alþingis um háttsemi sem rannsaka þurfi frekar af hálfu embættisins. Þar fyrir utan geta mál komið frá skiptastjórum þrotabúa, en mikill fjöldi stórra fyrirtækja sætir nú gjaldþrotaskiptameðferð.

Á þessari stundu má því segja að mikil óvissa ríki um hversu mörg mál embættið komi til með að rannsaka. Í stuttu máli má segja að það er unnið af fullum krafti við þessar rannsóknir en verkefnin eru mjög misumfangsmikil.

Um það hversu margir hafa fengið stöðu grunaðra við rannsóknina er það að segja að 170 manns hafa verið teknir til skýrslutöku. Af þessum 170 sem hafa þá verið yfirheyrðir hafa á milli 40–50 réttarstöðu sakbornings. Þess ber að geta í þessu sambandi að sú réttarstaða getur hæglega breyst eftir framvindu rannsóknar og í ljósi þeirra upplýsinga sem rannsóknin leiðir í ljós þannig að þessi tala getur verið mjög breytileg.

Til hvaða landa hefur rannsóknin náð? Íslensk lögregla hefur forræði rannsókna sem fram fara á Íslandi, en þarf að leita atbeina erlendra lögregluyfirvalda til að framkvæma rannsóknaraðgerðir í öðrum löndum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur embættið leitað eftir samstarfi við lögregluyfirvöld í Bretlandi og Lúxemborg og auk þess hefur verið fengin aðstoð frá Europol og hafa leitir á grundvelli fimm réttarbeiðna verið framkvæmdar í Bretlandi og Lúxemborg. Það voru góðar undirtektir við málaleitan embættisins.

Síðan var spurningin: Hvenær er áætlað að rannsókninni ljúki? Verð ég nú að fara að tala hratt, virðulegi forseti. Samkvæmt lögunum er hægt að leggja fram tillögu eftir 1. janúar 2011 um að embættið verði sameinað öðru en ég sé ekki fyrir mér miðað við hversu umfangsmikið það er að það geti gerst akkúrat á þeim tíma, heldur síðar.



[15:32]
Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þetta innihaldsríka svar. Ég verð að segja, frú forseti, að fleiri ráðherrar mættu svara jafnítarlega og hæstv. dómsmálaráðherra gerði í svari sínu sem að mínu viti er að mestu tæmandi. Ég hlýt að taka undir þau orð hæstv. ráðherra að vinna verður að þessari rannsókn af árvekni, heiðarleika og dugnaði, eins og ráðherra minntist á áðan. Það er eðlileg krafa almennings að mjög vandlega verði farið ofan í þessi mál. Ég held að ekki muni gróa um heilt í íslensku samfélagi fyrr en almenningur fær á tilfinninguna að hér verði farið fram af vandvirkni.

Því langar mig að fylgja þessari fyrirspurn eftir með þeirri spurningu hvort nægir fjármunir séu nú þegar veittir til þessa málaflokks. Ég veit að íslenskt samfélag býr við fjárhagsleg þrengsli nú um stundir, en forgangurinn verður að vera m.a. á þessu sviði. Eins og ég gat um munu efnahagssárin vart gróa nema almenningur fái á tilfinninguna að hér hafi verið vandað eins vel til verka og hugsanlegt getur verið. Búum við jafn vel að rannsókninni og nokkur kostur er? Hafa nú þegar komið fram einhverjar efnislegar kvartanir frá rannsakendum í þá veru að meira fé þurfi, þurfi t.d. meiri aðstoð utan frá eða innan lands? Verður brugðist við þeim beiðnum eftir því sem þær koma? Hefur hæstv. ráðherra að einhverju leyti heimildir til að auka við fjármagn til þessa málaflokks?



[15:34]
dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurningin hvort fjármunir séu nægir. Fjárveitingar til embættisins voru stórauknar og var það gert á grundvelli beiðna frá embættinu sjálfu. Mér hafa ekki borist frekari beiðnir, en það má allt eins búast við því vegna þess að umfangið hefur stóraukist frá því sem menn sáu fyrir sér í upphafi, enda renndu menn blint í sjóinn með hvað væri í vændum. Ég hef hvatt hinn sérstaka saksóknara til að halda ráðuneytinu vel upplýstu um það hvort frekara fjármagn þurfi eða hvort eitthvað skorti á í aðbúnaði. Ég tel að það væri algjörlega óásættanlegt ef ráðuneyti stæði gegn slíku. Ég mundi umsvifalaust fara með slíka beiðni fyrir ríkisstjórn.