138. löggjafarþing — 80. fundur
 24. feb. 2010.
kostnaður vegna starfa erlendra sérfræðinga í Seðlabankanum.
fsp. EyH, 264. mál. — Þskj. 302.

[15:47]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir að ég fékk hugmyndina að þessari fyrirspurn, því hv. þingmaður taldi sérstaka ástæðu til að leggja óundirbúna fyrirspurn fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og spyrja sérstaklega út í bankaráðsmann sem Framsóknarflokkurinn tilnefndi í Seðlabankann og kostnaðinn varðandi að hafa erlendan mann í bankaráði bankans, ferðakostnað, kostnað við þýðingar og jafnvel túlkun á fundum bankaráðsins, nema töluð séu erlend mál þessa dagana, það sagði hv. þingmaður í fyrirspurn sinni. Mér fannst vanta í þessa fyrirspurn að spyrja frekar um þá erlendu starfsmenn eða fulltrúa sem höfðu verið tilnefndir á undan Daniel Gros inn í Seðlabankann og því ákvað ég að leggja fram fyrirspurn til ráðherra sem ég vonast eftir að fá svör við núna.

1. Hver var heildarkostnaðurinn, sundurliðað eftir mánuðum, við störf Sveins Haralds Öygards, sem var settur Seðlabankastjóri fyrr á árinu, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver bar kostnaðinn?

2. Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við setu Anne Sibert í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver ber kostnaðinn?

3. Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við setu Daniels Gros í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu, og hver ber kostnaðinn?

Mér þótti sérstök ástæða til þess að spyrja um hver beri kostnaðinn, því mér fannst það svolítið einkennilegt sem kom fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn þingmannsins að Seðlabankinn virtist sjálfur ekki vera alveg viss um hver ætti að bera þennan kostnað og hafði síðan skrifað ráðuneytinu og fleiri aðilum og leitað svara við því hvar þessi kostnaður ætti að lenda. Það væri áhugavert að fá að vita hvort sams konar bréf hefði komið frá Seðlabankanum við ráðningar áðurnefndra erlendra starfsmanna við bankann.

Síðan verð ég að segja líka að mér fannst athyglisvert að þegar hv. þingmaður þakkaði fyrir svarið vildi hún taka sérstaklega fram að hún hefði ekkert á móti erlendum mönnum. Það er gott að vita að Samfylkingin hefur ekki sérstaklega mikið á móti erlendum mönnum þar sem hún var þarna búin að tilnefna tvo fulltrúa sem eru víst ekki með íslenskt ríkisfang eða tala íslensku, annars vegar seðlabankastjórann, setja hann, og síðan fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankans. Nákvæmlega þetta sama kom síðan fram í svari hæstv. forsætisráðherra. Hún virtist telja að við þyrftum ekki að hafa sérstakar áhyggjur af brottflutningi fólks frá landinu því það væru líka allt útlendingar. Það er gott að vita að Samfylkingin hefur ekki mikið á móti útlendingum. (Forseti hringir.)

Ég hlakka mikið til þess að heyra svör frá ráðherranum um þennan heildarkostnað.



[15:50]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Mér sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur borist svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 302, 264. mál frá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Í fyrsta lagi: Hver er heildarkostnaður, sundurliðað eftir mánuðum, við störf Sveins Haralds Öygards, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Ráðuneytið leitað til Seðlabanka um svör og eftirfarandi svar barst:

Samkvæmt ákvörðun bankaráðs eru mánaðarlaun bankastjóra Seðlabanka Íslands kr. 1.575.000. Til viðbótar leggur bankinn bankastjóra til bifreið til fullra umráða. Sérkjör fyrir Svein Harald voru að bankinn greiddi leigu fyrir tveggja herbergja íbúð og fargjald á ódýrasta farrými á tveggja vikna fresti til Noregs. Á sex vikna fresti greiddi bankinn fargjöld fyrir fjölskyldu Sveins, allt að þrjá miða á ódýrasta farrými milli Noregs og Íslands. Við starfslok fékk Svein greidd biðlaun í tvo mánuði. Kostnaður vegna túlka nam 783.433 kr. á starfstímabili Sveins. Ekki er unnt að sundurgreina þýðingarkostnað sem er sérstaklega til kominn vegna starfs Sveins sem seðlabankastjóra. Greiddur kostnaður vegna leigu og fargjalda var samtals 1.684.445 kr.

Önnur spurningin var: Hver er heildarkostnaður, sundurliðaður eftir mánuðum, við setu Anne Sibert í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Nú les ég aftur upp svar sem barst frá Seðlabankanum:

Samkvæmt ákvörðun bankaráðs Seðlabanka Íslands eru laun Anne Sibert 2.000 bresk pund á mánuði. Bankinn greiðir fargjöld til og frá London ásamt hótelkostnaði. Þátttaka hennar í peningastefnunefndarfundum hefur einnig verið í gegnum síma. Enginn túlkunar- eða þýðingarkostnaður fellur til vegna setu hennar í nefndinni. Greiddur kostnaður vegna fargjalda og uppihalds er samtals kr. 1.652.390.

Þriðja spurningin var: Hver er heildarkostnaður, sundurliðaður eftir mánuðum, við setu Daniels Gros í bankaráði Seðlabanka Íslands, þar með talið laun, ferðir, þýðingar og túlkaþjónustu? Enn barst svar frá Seðlabankanum:

Laun bankaráðsmanna eru 117.000 kr. á mánuði. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það hver ber annan kostnað af setu Daniels Gros í bankaráði. Kostnaður vegna túlks er 60.134 kr. og bankinn greiðir einnig fyrir flugfar til og frá Brussel ásamt hótelkostnaði. Þýðingarkostnaður hefur ekki verið sundurgreindur sérstaklega. Greiddur kostnaður vegna flugfargjalda og hótels er 340.520 kr.

Hér með lýkur þeim svörum sem bárust frá Seðlabanka Íslands vegna fyrirspurnarinnar. Ég vil því bæta við að þótt vitaskuld sé eðlilegt að fylgjast með kostnaði sem þessum og upplýsa um hann opinberlega vil ég benda á að störf alls þessa fólks hafa eftir því sem ég best veit verið vel af hendi unnin og ekkert út á þau að setja. Ég veit ekki betur en að í öllum tilvikum hafi verið talinn talsverður hagur af því fyrir Seðlabankann að njóta starfskrafta þessara erlendu sérfræðinga. Ég vona að umræða um kostnað vegna þess verði ekki til þess að kasta rýrð á vinnuframlag þeirra til Seðlabankans.



[15:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Almennt leiðast mér útúrsnúningar og ég ætla þess vegna ekki að eyða tíma mínum í að tala um þau orð sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hafði um að ég væri ekki á móti erlendum manni. Ég er það alls ekki.

Ég vil að það komi fram við þessa umræðu, og ég var að varpa ljósi á það í fyrirspurn minni, að ég tel svolítinn greinarmun á því hvort þingflokkar hér inni á þingi geti, án þess að fá samþykki fyrir því hjá þinginu, Seðlabanka eða einhvers staðar annars staðar, ákveðið að skipa útlendinga — fólk, þótt það væru Íslendingar sem byggju í Suður-Afríku eða hvar sem er þar sem miklu hærri ferðakostnaður fylgir en fyrir t.d. fólk sem býr á Austfjörðum. Ég vil bara leggja áherslu á þetta. Ég vil taka undir orð ráðherrans að spurning mín (Forseti hringir.) var ekki til þess og mér dettur ekki í hug að varpa rýrð á störf þessa fólks.



[15:55]
Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég held að það liggi alveg fyrir að þessir þrír einstaklingar voru valdir til starfa fyrir Seðlabankann vegna þess að við töldum að þeir hefðu eitthvað fram að færa fyrir íslenskt samfélag.

Ég verð nú að segja að mér fannst sú stutta athugasemd sem kom frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur einkar einkennileg. Ef það er ný starfsregla sem Samfylkingin vildi taka upp og hv. þingmaður vildi tala fyrir innan síns flokks þá mundi Framsóknarflokkurinn að sjálfsögðu taka tillit til þess að það þyrfti að ræða sérstakar fjárveitingar til þeirra sem við skipum í stjórnir og nefndir í gegnum Alþingi.

Hins vegar ítreka ég að mér fannst vanta í fyrirspurnina sem kom hérna fram að spyrja um heildarkostnaðinn við aðra starfsmenn sem hafa verið skipaðir. Í þeim tilvikum var það að vísu framkvæmdarvaldið sem fer — ég held það sé Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið þannig að það er spurning hvort við ætlum að fela framkvæmdarvaldinu enn þá meira vald yfir Alþingi en það hefur haft hingað til.

Ég fagna því að það séu komin fram svör við því hver þessi kostnaður hefur verið. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði að þegar við veljum fólk inn í jafnmikilvægar stofnanir og Seðlabankann getur verið gott fyrir íslenskt samfélag að leita út fyrir landsteinana og koma með þá sérþekkingu sem þessir einstaklingar hafa til þess að aðstoða okkur við efnahagskreppuna.

Að auki óska ég eftir því að ráðherra svari því sem ég spurði um í minni fyrri ræðu, hvort Seðlabankinn hafi skrifað sams konar bréf og þeir skrifuðu til ráðuneytisins varðandi Daniel Gros og fleiri aðila um (Forseti hringir.) ferðakostnað og annað vegna Sveins Haralds Öygards og Anne Sibert.



[15:57]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Vegna lokaorða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur vil ég segja að mér er ekki kunnugt um að slík bréf hafi verið rituð, a.m.k. minnist ég þess ekki að hafa séð nein slík bréf.