138. löggjafarþing — 82. fundur
 25. feb. 2010.
Stjórnarráð Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 375. mál (siðareglur). — Þskj. 676.

[14:44]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum. Megintilgangur frumvarpsins er að skapa lagalega umgjörð og fótfestu fyrir siðareglur fyrir stjórnsýslu ríkisins. Í því skyni eru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, og um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963. Gert er ráð fyrir einum almennum siðareglum fyrir alla ríkisstarfsmenn og síðan sértækari reglum fyrir ráðherra, starfsmenn Stjórnarráðs Íslands og starfsmenn einstakra stofnana.

Undanfarin ár hefur mikil umræða átt sér stað á alþjóðavettvangi um gildi siðareglna í opinberri stjórnsýslu. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu OECD hefur verið leiðandi á því sviði en einnig hafa Evrópuráðið og Sameinuðu þjóðirnar beitt sér fyrir því að opinberum starfsmönnum séu settar siðareglur. Tilgangurinn með slíkum reglum er að afstýra spillingu og undirstrika að heilindi og virðing við grundvallarsiðferðisgildi séu hornsteinn góðra stjórnarhátta í lýðræðisríki.

Reynslan erlendis frá sýnir einnig að ekki er nóg að setja reglur af þessu tagi. Þær þarf að undirbúa í samráði við starfsfólk, huga þarf vel að fræðslu og eftirfylgni og loks þarf að vera ljóst hvaða afleiðingar brot á siðareglum geti haft í för með sér. Eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu á umræða um siðareglur hér á landi nokkra forsögu og á 122. löggjafarþingi var ég 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu um bætt siðferði í opinberum rekstri. Í tillögunni, eins og hún var samþykkt á Alþingi, segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu. Í því skyni skyldi nefnd semja skýrslu um eftirtalin atriði: Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, stjórnkerfið og eftirlit með starfsemi stjórnvalda, afleiðingar réttarbrota í stjórnsýslunni og loks úrbætur en nefndinni var falið að setja fram sjónarmið um leiðir sem færar eru til úrbóta í þeim tilvikum sem gefa tilefni til þess.

Páll Hreinsson prófessor var skipaður formaður umræddrar nefndar sem vann skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi. Ber skýrslan heitið Starfsskilyrði stjórnvalda. Þar er að finna fjölmargar ábendingar um atriði sem betur mega fara í starfsumgjörð stjórnvalda. Þar má nefna setningu siðareglna, stofnun lagaskrifstofu fyrir Stjórnarráðið, betra skipulag á menntun starfsmanna, t.d. í formi stjórnsýsluskóla, mótun framtíðarstefnu fyrir þróun stjórnsýslukerfisins, m.a. að því er varðar þörf á sjálfstæðum stjórnsýslunefndum og skýrari reglur um upplýsingarétt þingmanna, og þagnarskyldu opinberra starfsmanna.

Þegar tillögurnar eru lesnar nú 11 árum síðar kemur í ljós að fæstar þeirra hafa náð fram að ganga. Árið 2006 gaf fjármálaráðuneytið reyndar út viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna. Ekki eru þar hins vegar nein ákvæði um eftirlit með viðmiðunum eða afleiðingar þess ef gegn þeim er brotið. Þeim hefur heldur ekki verið fylgt nægilega eftir með fræðslu til starfsmanna. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar sett margháttaða vinnu af stað sem svarar mörgu af því sem kemur fram í skýrslu Páls Hreinssonar. Má þar nefna stofnun lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu í nóvember sl. sem mun hafa það hlutverk að móta gæðakröfur til lagafrumvarpa ríkisstjórnarinnar og fylgja þeim eftir. Þá er að störfum nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem falið hefur verið að gera tillögur m.a. um innra skipulag ráðuneyta og samskipti ráðuneyta og ríkisstofnana. Þá er að störfum nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem falið hefur verið að gera tillögur er auki sveigjanleika innan ráðuneyta og stofnana og tryggi jafnframt að þekking og mannauður sé nýttur til fulls eftir því sem verkefni og áherslur breytast.

Nefndin skal fyrir 1. apríl næstkomandi skila tillögum um eftirfarandi atriði: Innra skipulag ráðuneyta og starfsheiti starfsmanna, sveigjanleika í starfsmannahaldi innan ráðuneyta og milli ráðuneyta og stofnana og heimildir til flutnings embættismanna og annarra starfsmanna innan Stjórnarráðsins, ráðningar í störf hjá hinu opinbera og þar með talið auglýsingaskylda starfa og frávik frá þeirri skyldu, m.a. vegna tímabundinna aðstæðna, málsmeðferð við veitingu áminninga og starfslok embættismanna og annarra starfsmanna ráðuneyta og stofnana og stöðu pólitískra aðstoðarmanna ráðherra. Í seinni áfanga á nefndin síðan að gera tillögur um samskipti og samráð milli ráðuneyta og forustuhlutverk forsætisráðuneytisins, samskipta milli ráðuneyta og ríkisstofnana og starfshætti ríkisstjórnar. Önnur nefnd undir formennsku Trausta Fannars Valssonar lektors er að endurskoða upplýsingalögin og mun m.a. taka á ákvæðum um þagnarskyldu.

Ef við víkjum þá aftur að þessu frumvarpi sem er til umræðu þá má segja að eftir bankahrunið hafi aldrei verið meiri þörf á því að setja stjórnsýslunni og störfum ráðherra skýrar siðareglur m.a. til að freista þess að endurreisa traust almennings til opinberra stofnana. Sú ríkisstjórn sem tók við 1. febrúar 2009 beitti sér strax fyrir ýmsum úrbótum í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans um bætt siðferði í stjórnsýslunni. Starfshópur var m.a. settur á laggirnar sem skyldi leggja drög að siðareglum. Hann skilaði tillögum sínum 9. október sl. og er skýrslu hans að finna sem fylgiskjal 2 við frumvarpið sem hér er til umræðu. Þar er að finna tillögur að grunngildum stjórnsýslunnar, góðum siðvenjum í stjórnsýslu og loks siðareglum ráðherra og siðareglum starfsfólks Stjórnarráðsins. En jafnframt kom það fram í vinnu starfshópsins að æskilegt væri að skapa lagalega umgjörð um siðareglurnar þannig að ljóst væri t.d. hvert væri samspil þeirra og þeirra skyldna sem hvíla á ríkisstarfsmönnum samkvæmt lögunum. Tillögur starfshópsins um siðareglur voru kynntar bæði innan ráðuneytanna og birtar á heimasíðu forsætisráðuneytisins og kallað eftir athugasemdum. Sjálf frumvarpssmíðin hófst sl. haust og var haft samráð við umboðsmann Alþingis, einkum varðandi þau ákvæði sem snerta störf hans, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og félög ríkisstarfsmanna en þau lýstu sig fylgjandi því að frumvarpið yrði lagt fram. Þá var haft samráð við forráðamenn Þjóðfundarins sem haldinn var í Reykjavík í nóvember 2009 en gera má ráð fyrir nánari samráði við þá þegar kemur að því að útfæra sjálfar siðareglurnar. Mun ég nú gera nánari grein fyrir meginefni frumvarpsins.

Lagt er til að siðareglur fái lagastoð þannig að fjármálaráðherra verði falið að staðfesta almennar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins enda fer fjármálaráðherra með starfsmannamál ríkisins en forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir ráðherra og eftir atvikum aðstoðarmenn þeirra og enn fremur siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins. Siðareglurnar fyrir ráðherra og starfsmenn Stjórnarráðsins munu verða sértækari en hinar almennu reglur sem fjármálaráðherra staðfestir. Eins er gert ráð fyrir að hver og ein ríkisstofnun geti sett sér siðareglur á grundvelli hinna almennu siðareglna. Gert er ráð fyrir að siðareglur séu staðfestar í kjölfar víðtæks samráðs við þá sem í hlut eiga. Eins og áður segir fylgja drög að siðareglum frumvarpi þessu sem hluti af skýrslu starfshópsins sem undirbjó frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu á að setja á fót sérstaka samhæfingarnefnd forsætisráðherra sem fylgist með því að siðareglur nái tilætluðum árangri og gera tillögur til stjórnvalda um leiðir til að draga úr hættu á spillingu og hagsmunaárekstrum. Samhæfingarnefndin á að hafa samráð við umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðanda. Þannig verði tryggt að ábendingar eftirlits embætta Alþingis um vandaða stjórnsýslu skili sér sem best til stjórnsýslunnar og þær móti verkferla, vinnu og siðareglur. Enn fremur mun samhæfingarnefndin veita umsögn um drög að siðareglum Þá mun ársskýrsla hennar vera lögð fyrir Alþingi. Þótt meginábyrgð á framfylgd siðareglna verði á herðum stjórnenda hjá ríkinu er gert ráð fyrir því til viðbótar í frumvarpinu að umboðsmaður Alþingis taki við kærum um brot á siðareglum og gefi álit samanber 2. og 3. gr. frumvarpsins. Að þessu leyti er valin önnur leið en starfshópurinn lagði til og var það gert að höfðu samráði við embætti umboðsmanns Alþingis.

Jafnframt er í 4. gr. frumvarpsins kveðið skýrlega á um vernd ríkisstarfsmanna sem greina viðeigandi aðilum frá brotum á siðareglum og lögbrotum almennt sem þeir verða áskynja.

Þá er í 7. og 8. gr. frumvarpsins kveðið á um að liggi fyrir að siðareglur hafi verið brotnar geti það leitt til agaviðurlaga. Til samræmis er lagt til að lögum um ráðherraábyrgð verði breytt þannig að ljóst sé að brot á siðareglum geti leitt til viðurlaga samkvæmt þeim lögum.

Verði frumvarpið að lögum munu forsætisráðherra og fjármálaráðherra undirbúa setningu siðareglna á grundvelli tillagna starfshóps forsætisráðherra eins og sjá má í fylgiskjali 3 með frumvarpinu. Efnislega er ekki tekin afstaða til þess í frumvarpinu hvað eigi að standa í siðareglum. Sú vinna er eftir í kjölfar setningar lagarammans en drög liggja fyrir. Til viðbótar við það samráð sem þegar hefur farið fram er sjálfsagt í því efni að taka tillit til niðurstaðna Þjóðfundarins sem haldinn var í nóvember 2009. Álitamál er hversu ítarlegar reglurnar eiga að vera. Gera má ráð fyrir að þær reglur sem varða alla ríkisstarfsmenn verði tiltölulega almennar. Hins vegar er ástæða til að hafa reglurnar sértækari varðandi tiltekna hópa ríkisstarfsmanna og ráðherra.

Vakin skal athygli á ákvæðum í drögum að siðareglum fyrir ráðherra sem lúta að samstarfi við Alþingi en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal sýna virkan samstarfsvilja séu störf hans rannsökuð af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana Alþingis og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.“

Þar er einnig að finna ákvæði um hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra, meðferð fjármuna, hegðun og framgöngu, vinnubrögð og að byggja beri ákvarðanir á bestu fáanlegum upplýsingum, upplýsingagjöf og samskiptum við samstarfsfólk og almenning. Má í þessu sambandi nefna ábendingu sem fram kemur í áliti framkvæmdastjórnar ESB um aðildarumsókn Íslands sem birt var í gær en þar er sérstaklega kallað eftir því að tekið verði á hagsmunaárekstrum vegna náinna tengsla stjórnmálamanna og viðskiptalífs. Má ætla að lögfesting frumvarpsins og setning siðareglna í kjölfarið muni mæta þessari ábendingu að verulegu leyti.

Á fylgiskjali 1 er síðan að finna aðgerðaáætlun um bætt siðferði í stjórnsýslu ríkisins er lýsir því hver verði gangur mála verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Ég tel að með því að flytja frumvarp þetta sýni ríkisstjórnin í verki að hún taki kröfuna um siðbót í opinberri stjórnsýslu alvarlega. Ekki verði látið við það sitja að setja siðareglur heldur hefur verið gaumgæfilega hugað að því hvernig siðareglurnar geti fallið að lagareglum sem gilda um störf ríkisstarfsmanna og hvernig eftirlit fræðslu og samhæfing ólíkra embætta verði sem best fyrir komið. Væntanleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mun einnig færa okkur upplýsingar um annmarka í stjórnsýslunni sem verður þarft innlegg í yfirferð Alþingis á þessu frumvarpi.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og allsherjarnefndar.



[14:56]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæta ræðu og það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er mjög til bóta að setja skarpari reglur um góða siði og gott siðferði. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um atriði sem ég hef svo sem spurt um áður og það eru t.d. vildarpunktar flugfélaga þar sem atvinnurekandi greiðir hærra fargjald en launþeginn nýtur vildarpunktanna og fer í ferðalag með fjölskyldu sinni fyrir lítinn pening eða minni pening. Mér skilst að þetta sé ekki einu sinni skattlagt. Er hugsað til þess að taka á þessum alþjóðlega vanda í þessum siðareglum?

Þá er það spurning um dagpeninga sem oft og tíðum eru mjög rausnarlegir og ég hef líka nefnt áður að dagpeningar alþingismanna eru 80% en hótelið er greitt. Ég kem yfirleitt með mikinn afgang úr ferðum til útlanda og ég hygg að það gildi um aðra þingmenn líka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort inni í þessu frumvarpi sé að taka á þessum vanda.

Þá er það spurningin um skattfrelsi utanríkisþjónustunnar. Utanríkisþjónusta um allan heim nýtur skattfrelsis. Úti í heimi eru sérstakar verslanir þar sem utanríkisþjónustufólk getur keypt ódýran mat, ódýrar vörur, ódýrt bensín o.s.frv. Þetta er óskapleg uppspretta spillingar. Er meiningin að taka á þessum vanda og hvernig ætla menn að fara að því? Ég hef reynt það í mörg ár en er alltaf bent á að það sé ekki hægt vegna Vínarsamkomulagsins frá 1812. En auðvitað eru þetta ekkert annað en miklir hagsmunir fyrir utanríkisþjónustuna og ég vil spyrja um þessa þrjá þætti.



[14:58]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framlag hans til þessarar umræðu og þær fyrirspurnir sem hann leggur fram. Mér finnst full ástæða til að öll þau þrjú atriði sem hér eru nefnd verði skoðuð og það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er ekki nýtt í umræðunni, m.a. hefur hv. þingmaður áður komið með þetta inn í umræðuna.

Varðandi vildarpunktana þá man ég ekki betur en að skoðað hafi verið af fjármálaráðuneytinu hvort hægt væri að taka á þessu þannig að vildarpunktarnir rynnu þá í ríkissjóð en ekki til viðkomandi starfsmanna og ég man satt að segja ekki hver var fyrirstaðan fyrir því. Það var eitthvað sem flugfélögin settu fram sjálf um að þá mundu þau bara fella niður þessa vildarpunkta eða eitthvað í þá veru en það er sjálfsagt að kynna sér það sérstaklega og spurning hvort þetta eigi heima í siðareglum. Ég skal ekki segja. Mér finnst sjálfsagt að nefndin sem fær þetta til umsagnar, allsherjarnefnd, skoði þennan þátt en að því er varðar dagpeningana sem hv. þingmaður nefndi, að bæði séu dagpeningar og síðan hótel greitt sérstaklega, þá hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar verulega verið hreyft við dagpeningum, t.d. dagpeningum maka sem var náttúrlega alveg fáránlegt að væru greiddir. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það frekar í þeim þrengingum sem við erum í hvort eigi að þrengja enn frekar að, m.a. það sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega varðandi greiðslu á hóteli fyrir utan dagpeninga. Ég er ekki viss um að það passi inn í þessar almennu siðareglur en það er alveg sjálfsagt að skoða þetta sérstaklega.

Varðandi skattfrelsi utanríkisþjónustunnar hefur hv. þingmaður nefnt þetta áður. Eins og hv. þingmaður nefnir hefur Vínarsamkomulagið verið talið vera fyrirstaða þarna. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ég hef stundum einmitt velt þessu (Forseti hringir.) fyrir mér, hvort það eigi virkilega rétt á sér að ákveðið skattfrelsi sé í utanríkisþjónustunni sem er þá hluti af kjörum viðkomandi og það yrði þá að skoða (Forseti hringir.) í samræmi við heildarkjörin í utanríkisþjónustunni.



[15:01]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst skattfrelsi utanríkisþjónustunnar ekki hluti af kjörum starfsmannanna. Þeir eru oft að vinna hlið við hlið og jafnvel á Íslandi og eru skattfrjálsir og sá sem vinnur við hliðina á þeim er ekki skattfrjáls. Og það er ekki tekið tillit til þess í launum, ég fullyrði það. Þau eru ekki lækkuð vegna þessa.

Varðandi það að við séum í þrengingum finnst mér siðareglur ekkert koma þrengingum við. Menn eiga ekki að nota stöðuna af því að það eru þrengingar til að fara að minnka þessar reglur um vildarpunkta og dagpeninga, heldur er þetta nokkuð sem býr til siðleysi í þjóðfélaginu. Það átti að skoða vildarpunktana en svo sofnaði það. Að sjálfsögðu sofnar það. Þeir sem eru að skoða málið njóta vildarpunktanna sjálfir. Það er þannig. Hvaða áhuga hafa þeir á því að geta ekki farið í ókeypis sumarleyfi, á kostnað ríkisins?

Það er eins með dagpeningana. Þetta sofnar vegna þess að þeir sem fjalla um málið hafa af þessu stóran hag sjálfir. Þá gerist ekki neitt. Þarna þarf styrkari stjórn þeirra sem ráða málum.

Skattfrelsi utanríkisþjónustunnar, þetta er ekkert annað en — ég veit ekki hvað á að kalla þetta, samtök allrar utanríkisþjónustu alls heimsins. Í öllum stóru stofnununum, t.d. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, eru menn skattfrjálsir, þykjast gæta hagsmuna lítilla, fátækra barna, njóta svo sjálfir gífurlegra skattfríðinda, velferðarkerfisins og alls sem skattfríðindin eiga að standa undir. Þau keyra á sömu vegum og við og nota nákvæmlega alla þjónustu, heilbrigðisþjónustu og annað slíkt — eins og við. Þau taka hins vegar ekki þátt í kostnaðinum og það finnst mér ósiðlegt.



[15:03]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hrædd um að hv. þingmaður hafi eitthvað misskilið mál mitt áðan. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að siðareglur komi hreint ekkert þrengingum við. Þær hefði átt að vera búið að setja hér fyrir langalöngu, enda kom ég með frumvarp um það aftur og aftur — og það var á tímum góðæris. Ég tengi þetta alls ekki saman.

Það sem ég nefndi var hvort ákvæði um dagpeningana ætti heima í siðareglum. Ég efaðist um það. Hitt sagði ég, að það ætti kannski að taka enn frekar á og þrengja að í dagpeningagreiðslum en gert hefur verið af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna getur hv. þingmaður ekki haldið því fram, eins og hv. þingmaður gerir, að ríkisstjórnin hafi ekkert gert hvað þessa þætti varðar. Hún hefur gert marga hluti til að þrengja að í dagpeningagreiðslum. Ég nefndi dagpeningagreiðslur maka, það hefur verið þrengt að í dagpeningakerfinu almennt og ég sagði að kannski væri full ástæða til að skoða það að þrengja enn frekar að í þessum málum.

Varðandi vildarpunktana er alveg sjálfsagt að skoða það mál áfram. Það hefur verið gert og það er sjálfsagt að rifja upp fyrirstöðuna þegar það var skoðað. Af hverju var ekki tekið á þessum vildarpunktum? Mig minnir að það hafi verið í tíð hæstv. síðasta fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, því var beint til hans að taka á þessum málum en ekkert var gert í tíð hans sem fjármálaráðherra. En við skulum skoða hvort núverandi fjármálaráðherra hafi einhver tök á að taka á þessu máli. Eins og ég sagði man ég ekki betur en að sett hafi verið fram einhver skýring á þessu af hálfu flugfélaganna sjálfra, um að ef fara ætti þá leið að þetta mundi ekki renna til starfsmanna heldur í ríkissjóð væru þau með einhverjar skoðanir á því og mundu skoða að þetta yrði hreinlega fellt niður. Það er sjálfsagt að skoða það og ég geri ráð fyrir að þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir verði ræddir ásamt fleiru þegar þetta frumvarp kemur til meðferðar í allsherjarnefnd.



[15:05]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa lagt fram þetta frumvarp sem felur í sér siðareglur fyrir Stjórnarráð Íslands og er vissulega í takti við þá umræðu sem nú fer fram í samfélagi okkar um það hvernig við ætlum að laga nýtt Ísland og koma kannski á fót nýjum vinnubrögðum sem ekki þekktust fyrir hrun. Þetta er einn hluti af því. Mig langar að fara yfir þessa áætlun í nokkrum orðum og spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur efnisatriði.

Áður en ég kem að frumvarpinu sjálfu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna þess að hér er verið að innleiða helming setningar í henni. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Verkaskipting ráðuneyta verði endurskipulögð og ráðherrum, alþingismönnum og stjórnsýslu ríkisins settar siðareglur.“

Nú er sem sagt verið að vinna í seinni hluta þessarar setningar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, núna þegar við erum að tala um að draga saman útgjöld hins opinbera, og þá kannski ekki hvað síst á hinum æðstu stöðum, því að það er verið að taka til á heilbrigðisstofnunum í landinu og víðar: Hvar stendur vinnan við að endurskipuleggja verkaskiptingu ráðuneytanna? Hvenær á að hrinda þeim mikilvægu áformum af stað? Er pólitískt svo erfitt fyrir þessa tvo flokka að fækka ráðherrum úr tólf í níu eða tíu, eða hvað veldur? Hvenær má vænta þess að verkstjórinn sjálfur, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, muni beita sér fyrir því að menn endurskipuleggi Stjórnarráðið núna þegar gríðarleg pressa er á ríkisstjórnina og Alþingi að draga saman og við höfum aldeilis dregið saman á vettvangi þingsins? Þetta er fyrsta spurningin vegna þess að það er sérstaklega kveðið á um þetta í stjórnarsáttmálanum um leið og siðareglurnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í öðru lagi áður en ég fer út í siðareglurnar sem slíkar hvort það hefði staðist þær siðareglur sem hæstv. ráðherra ætlar að setja ráðherrum sínum í ríkisstjórn sinni að hafa ráðið á síðasta ári yfir 40 manns án auglýsingar. Stóðst það þær siðareglur sem hæstv. ráðherra ætlar að tala hér fyrir að hæstv. ráðherrar hafi beitt sér fyrir því að ráða einstaklinga í ráðuneyti sín án þess að störfin yrðu auglýst á meðan 16.000 Íslendingar ganga um án atvinnu, örugglega margt fólk sem hefði gjarnan viljað sækja um þau störf sem ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákváðu að auglýsa ekki?

Þá aðeins að reglunum sem eru dálítið undir hæstv. ráðherra komið. Ég endurtek að ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í því að innleiða þessar reglur. Ég velti fyrir mér umfjöllun um vinnubrögð í til að mynda 4. kafla skýrslu siðareglnanna af því að mér finnst dálítið huglægt hvernig menn meta þetta. Í 3. lið segir, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra gerir skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi, svo sem í tengslum við kosningar, og verkefnum ráðuneytis síns hverju sinni. Hann felur starfsmönnum ráðuneyta, öðrum en aðstoðarmanni, ekki verkefni sem tengjast stjórnmálastarfi hans.“

Hæstv. ráðherrar hafa ýmiss konar fríðindi eins og við þekkjum. Tökum sem dæmi bílstjóra, ef það væri flokksstjórnarfundur hjá Samfylkingunni sem er vissulega á hinum pólitíska vettvangi, mætti þá ráðherrabílstjórinn ekki aka hæstv. forsætisráðherra úr forsætisráðuneytinu á þann fund? Þetta er spurning sem menn verða að svara og við hljótum að velta fyrir okkur hvað á að gera ef menn gerast mjög brotlegir við þessar reglur. Hver verða viðurlögin? Þurfa hæstv. ráðherrar að segja af sér? Hversu langt á að ganga? Hversu hörð ætlar hæstv. forsætisráðherra sér að vera við innleiðingu þessara reglna?

Ég velti fyrir mér í 2. lið hvort hæstv. ráðherra ætli að innleiða það sem segir í einum punktinum:

„Útgjöld vegna ferðalaga, veisluhalda, gestamóttöku o.þ.h. ber að takmarka við það sem nauðsynlegt er vegna skyldna embættisins.“

Hver á að meta þetta? Er það hæstv. forsætisráðherra eða eigum við að fá Ríkisendurskoðun til að meta þetta? Þetta er nokkuð sem við þurfum að fá útskýringar á eins og með allt eftirlit með þessari almennu stjórnsýslu.

Ég velti öðru fyrir mér sem auðvitað er álitamál. Í öðrum kafla þessarar skýrslu starfshópsins segir, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra gerist ekki sérstakur fulltrúi eða talsmaður einstakra fyrirtækja innan lands eða á erlendum vettvangi.“

Er þetta þá skýlaust bann við því að ráðherrar fari út og tali jafnvel við þjóðhöfðingja annarra landa um einhver verkefni íslenskra fyrirtækja, jafnvel sem eru ekki í neinni samkeppni innan lands? Bannar hæstv. forsætisráðherra ráðherrum að fara með viðkomandi fyrirtækjum út? Ég veit að reynslan hefur verið misjöfn en menn mega ekki vera fullkaþólskir þegar kemur að þessum málum. Það geta komið upp einstök atriði þar sem viðkomandi erindrekstur ráðherra ætti fullan rétt á sér.

Eins velti ég fyrir mér upplýsingagjöf. Við þekkjum það í þinginu að oft svara hæstv. ráðherrar fyrirspurnum sem við þingmenn beinum til þeirra á vettvangi þingsins of seint, jafnvel allt of seint. Hér stendur í reglunum, með leyfi frú forseta:

„Ráðherra veitir þær upplýsingar sem lög kveða á um“ — væntanlega þingskapalög — „að veita skuli fljótt og vel og sér til þess að starfsmenn ráðuneytis hans vinni í sama anda.“

Hvað mun gerast gagnvart siðareglum ef ráðherrar í ríkisstjórn verða brotlegir við þetta ákvæði siðareglnanna? Það sem ég er í raun og veru að hugsa um, um leið og ég fagna góðum anda í þessu, er að mönnum sé alvara með það sem sett er á blað, að því verði fylgt eftir. Af hverju segi ég þetta? Ég segi það ekki að ástæðulausu. Um leið og ég lýsi mig fylgjandi meginanda þessa frumvarps er ég bara ekki viss um að ríkisstjórnin (Gripið fram í: Góður.) ætli sér að framfylgja þessu með þeim hætti, og ég er búinn að spyrja nokkurra spurninga um þessar siðareglur, að taka hart á því ef viðkomandi ráðherra brýtur reglurnar. Af hverju segi ég þetta? Það er búið að setja margar mjög flottar áætlanir af stað. Samfylkingin barðist fyrir því á sínum tíma að vítt og breitt um landið yrðu til störf án staðsetningar. Hver er sú áætlun Samfylkingarinnar í dag? Ég spurði að því á vettvangi þingsins eftir að Samfylkingin hafði verið í ríkisstjórn í rúm tvö ár og þá kom í ljós að eitt starf hafði verið auglýst án staðsetningar. Er verið að gera grín að kjósendum með slíkum yfirlýsingum?

Menn tala um sóknaráætlun í dag. Þetta eru voðalega flott orð og maður getur verið sammála svo mörgu sem í þessu stendur, en eigum við ekki aðeins að horfa til þess hvað þessi sama ríkisstjórn hefur lagt á borð fyrir okkur þingmenn, og ekki síst almenning í landinu, og vakið gríðarlegar væntingar? Þess vegna er mikilvægt að fá það bara skýrt frá hæstv. forsætisráðherra hvort menn meini í raun og veru eitthvað með þessu. Ég ætla að vitna til reynslunnar, ég ætla að fara eitt ár aftur í tímann þegar hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra kynntu stórkostlegar tillögur, með leyfi frú forseta:

„Ríkisstjórnin hyggst skapa 4.000 ný ársverk.“

Gríðarlegar væntingar urðu þessu samfara í samfélaginu. Ríkisstjórnin sagði okkur í stjórnarandstöðunni: Hættið þessari svartsýni, hér er allt á fleygiferð. Það er ár síðan. Er ekki ágætt að við gerum þessa áætlun upp áður en við klárum umfjöllun um það mál sem hér liggur fyrir?

Það var gert ráð fyrir að virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður mundu skapa 2.000 ný störf. Hvar eru þessi 2.000 störf sem ríkisstjórnin lofaði? Jú, það er búið að endurnýja áætlunina með fréttatilkynningu frá iðnaðarráðherra ári síðar þar sem segir að gert sé ráð fyrir undirbúningsframkvæmdum við Búðarhálsvirkjun sem munu skapa 30–40 störf. Það voru 2.000 fyrir einu ári. Það er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra hlæi að þessu vegna þess að þetta er hlægilegt. Það er ekki mikið að marka slíka áætlanagerð ef við horfum á efndirnar.

Það átti að skapa 110 störf vegna ofanflóða- og snjóflóðavarna. Það átti að verja til þess 1 milljarði kr., þar af 500 millj. kr. til Neskaupstaðar. Hver var svo ákvörðun ríkisstjórnarinnar um snjóflóðavarnir í Neskaupstað sem var helmingurinn af þessum áætlunum? Slegnar af eftir einungis nokkra mánuði frá þessari sóknaráætlun sem ríkisstjórnin kynnti fyrir ári. (Gripið fram í: Var ég með áætlanir …?)

Í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar var líka fjölgun starfa í sjávarútvegi vegna minni útflutnings óunnins fisks. 300 störf, takk fyrir. Hvað hefur orðið um efndir þeirra loforða ríkisstjórnarinnar sem eru rétt eins árs gömul í dag? Mér finnst mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um það í ljósi þess hversu glæsilegur blaðamannafundurinn var sem hæstv. forsætisráðherra boðaði til. Hvar eru efndirnar eftir áætlanagerð sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir?

Svo kemur það fyndnasta, það átti að efla íslenska kvikmyndagerð. Það átti að skapa 120 ársverk í íslenskri kvikmyndagerð. Hverjar eru efndir þess? Efndirnar eru þær að íslenskir leikarar mótmæla nú í stríðum straumum opinberlega niðurskurði til íslenskrar kvikmyndagerðar ári eftir að ríkisstjórnin boðaði til fjölmiðlaveislu og tilkynnti um 4.000 ný ársverk og sagði okkur í stjórnarandstöðunni í hinu orðinu: Verið ekki svona svartsýn.

Það er eðlilegt að við spyrjum þegar við sjáum metnaðarfullt plagg um siðareglur innan Stjórnarráðsins, í ljósi starfa án staðsetningar, sóknaráætlunar og 4.000 nýrra starfa, hvort hér fylgi raunverulegur hugur máli. Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál en við í stjórnarandstöðunni ráðum náttúrlega ekki för í landinu, það er sjálft framkvæmdarvaldið sem ætlar að setja sjálfu sér siðareglurnar og hafa eftirfylgd með því. Ég spurði nokkurra spurninga um hvað mundi gerast og hvernig hæstv. forsætisráðherra mundi bregðast við ef ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn mundu ekki virða viðkomandi siðareglur. Væri það hreinlega brottrekstrarsök, eða hvað? Ég á von á því að hæstv. forsætisráðherra svari þeirri fyrirspurn minni hvort 42 ráðningar inn í ráðuneytin án þess að hafa auglýst viðkomandi störf mundu standast þessar siðareglur. Það er mikilvægt að vita hvert ríkisstjórnin stefnir og hversu hörð þessi viðurlög eiga að vera eða öllu heldur hversu fast ríkisstjórnin ætlar að fylgja þessari áætlun eftir eins og öllum hinum sem ég hef nefnt hérna. Það stendur ekki steinn yfir steini. Hlutverk þingsins er fyrst og fremst að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald og þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra geri í þessari umræðu hreint fyrir sínum dyrum þegar kemur að því að ræða ýmiss konar sóknaráætlanir ríkisstjórnarinnar. Það verður að vera eitthvað að marka það sem menn boða. Það er ekki nóg að viðhafa falleg orð, halda glæsilega blaðamannafundi, tilkynna frumvarp til laga um siðareglur á Stjórnarráði Íslands, sem ég styð, ef efndirnar eru ekki meiri en raun ber vitni. Þess vegna er mikilvægt áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. forsætisráðherra geri grein fyrir því hvernig hún ætli sér að standa að því að koma þessum siðareglum á fót. Ég endurtek enn og aftur að við framsóknarmenn erum hlynntir því að slíkar reglur verði settar á jafnt í þinginu og í Stjórnarráðinu, það er nauðsynlegt. Því miður eru efndir ríkisstjórnarinnar ansi litlar þegar kemur að framkvæmd þessara áætlana.

Ég vonast svo til þess að sú nefnd sem mun fara yfir þetta mál, allsherjarnefnd mundi ég halda, fari mjög vandlega yfir málið. Vonandi hefur einhver nefndarmannanna hlustað á það sem ég hef haft fram að færa í þessari umræðu vegna þess að fjölmörg álitamál koma upp við að lesa þetta ágæta plagg. Ég endurtek enn og aftur að þetta mega ekki verða orðin tóm, eitthvað á blaði án þess að raunverulegar aðgerðir fylgi. Við þurfum aðgerðir á Íslandi í dag en ekki einhvern fagurgala.



[15:20]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur gert mjög vel grein fyrir áætlunarbúskap ríkisstjórnarinnar sem er orð sem var okkur mjög tamt á fyrri áratugum en hefur nú skotið upp kollinum á ný í mínum huga þegar litið er til þeirra stöðugu áætlana sem koma frá hæstv. ríkisstjórn og maður spyr sig að því hverjar efndirnar verði.

Hér er komið fram frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð hvað varðar siðareglur. Við munum að sjálfsögðu fara rækilega yfir þetta mál í allsherjarnefnd en ég verð að segja strax í upphafi að auðvitað er það góðra gjalda vert að setja siðareglur og ég hygg að það hafi líka verið ráðgert í tíð fyrri ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. Menn verða samt að gæta sín á því að gera ekki meira úr siðareglum en efni þeirra gefur til kynna. Víða um lönd hafa siðareglur verið settar og það þarf ekki að fjölyrða um að á vettvangi hins fallna fjármálakerfis voru til gríðarlega margar siðareglur, siðareglur fjármálafyrirtækja voru til, siðareglur hjá Kauphöll Íslands voru til, alls konar siðareglur hafa verið settar en þær geta því miður orðið aðeins orð á blaði vegna þess að við siðareglum eru engin tæk viðurlög sem neinu nemur. Þetta þarf að hafa í huga þegar litið er til siðareglna, jafn mikilvægar og þær eru, ég geri ekki lítið úr því en það þarf samt að setja þetta í ákveðið samhengi.

Það er líka ástæða til þess og mig langar að fá svör við því frá hæstv. forsætisráðherra, nú þegar hún fer væntanlega með lokaræðu sína í þessari umræðu: Hvernig er samspilið á milli þessarar nefndar sem hér er talað um, samhæfingarnefndar um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna, og annarra stofnana sem þegar eru á Íslandi og hafa eftirlit með stjórnsýslunni? Þar er ég sérstaklega að hugsa um umboðsmann Alþingis því að þessi nefnd hefur mjög háleit markmið í sínum störfum. Hún þarf að stuðla að því að siðferðisleg viðmið séu í hávegum höfð, hún þarf að veita umsagnir og hjálpa til með siðareglur, sinna upplýsingaöflun og stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og þar er um umboðsmann að ræða. Einnig þarf hún að taka þátt í ýmiss konar samstarfi og hún þarf að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt, það kemur fram í 1. mgr. Slíka skýrslu þarf að ræða á Alþingi og þar eiga að vera aðgerðir til efla traust á stjórnsýslunni, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka. Hér er um að ræða ákveðna skörun við starf umboðsmanns Alþingis og raunar kemur fram í lokasetningunni í þessari grein að það þurfi að hafa reglulegt samráð við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Þegar menn setja svona reglur og í rauninni lagaramma utan um reglurnar — það ætti að vera til merkis um það hversu mikilvægt þetta er í augum ríkisstjórnarinnar þegar sett er um þetta sérstök umgjörð með lögum — þá þarf að velta fyrir sér hvernig þetta rímar við þau embætti sem þegar eru til staðar og að þetta verði ekki til þess að draga úr því mikilvæga hlutverki sem umboðsmaður Alþingis hefur í stjórnsýslunni. Mig langar til að spyrja hvernig samráði var háttað við umboðsmann Alþingis við að semja þessar reglur og nánar um það hvernig menn hugsa sér að halda áfram með þetta.

Einnig langar mig að spyrja hvort það hafi verið rætt á vegum forsætisráðuneytisins hvernig ætti að fara með ef ekki væri farið að þessum reglum. Hvernig ætla menn að bregðast við því og hvernig hugsa menn sér að það muni ríma við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins? Á að fara í áminningakerfið? Hvernig er það allt saman hugsað? Það þarf að hafa heildarmyndina fyrir framan sig. Ég geri ráð fyrir að þessu verði vísað til allsherjarnefndar og það er mikilvægt að hún skoði þetta mál mjög rækilega.

Hitt er svo annað mál að það er dálítið kúnstugt, frú forseti, að ræða þetta frumvarp í dag. Í morgun vorum við önnum kafin við að fresta nauðungarsölum til 31. október á þessu ári. Í þriðja skipti frestuðum við nauðungarsölum á Alþingi. (BJJ: Enn eina ferðina.) Í fyrsta skipti var það held ég í febrúar á síðasta ári og þá var það í mjög takmarkaðan tíma til að gefa ríkisstjórninni svigrúm til að koma með aðgerðir til að hjálpa heimilunum í landinu. Síðan höfum við í tvígang þurft að fresta þessum nauðungarsölum og nú þurfti allsherjarnefnd í málsmeðferð sinni að lengja þann frest sem hæstv. dómsmálaráðherra hafði gert ráð fyrir og nauðungarsölu verður frestað fram til 31. október. Af hverju er ég að nefna þetta? Vegna þess að það er átakanlegt við þær aðstæður sem hér eru að við séum stöðugt að bregðast við aðstæðum sem ganga ekki eftir. Alls kyns áætlanir til langs tíma eru lagðar fram sem hafa ekkert að gera með þann mikla vanda sem við erum í núna. Þessi sóknaráætlun sem var til umræðu í síðustu viku er líka góðra gjalda verð og ég get tekið undir það sem þar segir um mikilvægi þess að samræma þær áætlanir sem eru gerðar á vegum ríkisins en það vantar aðgerðir til að bregðast við því ástandi sem nú er. Hvað varðar þessa nauðungarsölu vil ég benda á, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra situr hér — það er ágætt að hafa hana undir þessari umræðu og geta þá í leiðinni bent á aðrar þær áætlanir sem ekki hafa gengið eftir — að ég held að það sé mikilvægt varðandi vanda heimilanna að hann er ekki hægt að leysa á sviði fullnusturéttarfarsins og hann er heldur ekki félagslegt vandamál. Þetta er efnahagsleg ógn sem steðjar að Íslandi og það þarf að taka á þessu með þeim hætti. Þetta er efnahagsleg ógn, þetta ógnar þjóðhagslegu öryggi þjóðarinnar og það þarf að bregðast harkalega við þessu áður en við förum í haust að framlengja nauðungarsölu enn á ný. Nota bene, nauðungarsölurnar sem frestast eru allar á fullum dráttarvöxtum svo þetta er sýnd veiði en ekki gefin fyrir heimilin í landinu. Ég held að þetta sé allt saman mikilvægt þegar litið er til þeirra mála sem ríkisstjórnin setur í forgrunn.

Í aðdraganda kosninga í vor sagði ríkisstjórnin að hefja þyrfti mikið átak í atvinnumálum, það þyrfti að reisa skjaldborg um heimilin og byggja velferðarbrú. Það þyrfti að ráðast í það verkefni strax og það væri komið nóg af því verkleysi sem hefði einkennt forustu fyrri ríkisstjórnar, sagði nýja ríkisstjórnin. Nú ætti að taka til hendinni og fara að byggja brýr. (BJJ: Hvar eru þær?) Nú skyldu sköpuð störf. Ég lýsi eftir þessum velferðarbrúm og skjaldborgum og ég lýsi líka eftir þessum 4.000 ársverkum, nú þegar atvinnuleysið vex sífellt og við erum stöðugt hrædd um að fólk flytji burt frá landinu. Við slíkar aðstæður er von að maður spyrji hvort það sé brýnasta verkefnið — ég get ekki annað en tekið undir margt af því sem kemur fram í þessu frumvarpi en er þetta brýnasta verkefnið á borði ríkisstjórnarinnar núna? Hvar eru allar þær tillögur um hvernig halda eigi áfram að reisa atvinnulífið við? Hvernig stendur á því t.d. að sú niðurstaða sem kemur frá hæstv. iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, hvað varðar uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á suðvesturhorninu er allt í einu orðin að 30 störfum? Hvað hefur eiginlega gerst? Þetta hefur allt skroppið saman. Þetta er mjög alvarlegt mál, frú forseti.

Það verður ekki búið við þennan áætlunarbúskap mikið lengur. Ég held að það sé kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn snúi sér að því mikilvæga verkefni að reisa efnahagslífið við. Stjórnarandstaðan hefur verið reiðubúin til að taka þátt í því með ríkisstjórninni. Við höfum fulltrúa hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í því verkefni að leysa úr skuldavanda heimilanna. Okkur hefur því miður þótt heldur hægt ganga. Hvað varðar atvinnumál þá liggur fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir eru mjög áfram um að byggja upp atvinnu í landinu. Það er alveg klárt mál en hér fer tíminn því miður í að ræða áætlunarbúskap, eitthvað sem gerist eftir mörg ár. Þótt það sé mjög gott að huga að framtíðinni í leiðinni þarf að líta til þess sem er að gerast núna. Það er ekki hægt að bíða lengur með þetta. Vandinn er að verða allt of stór fyrir okkur.

Hvert er eiginlega hlutverk Alþingis Íslendinga? Er ekki kominn tími til að við tökum á og tökum þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka? Hér var utandagskrárumræða í dag. Menn hafa miklar áhyggjur af því sem er að gerast í bönkunum og það er alveg rétt að við verðum auðvitað að treysta því að markaðurinn sjái um hlutina með þeim hætti sem við höfum hingað til haldið að væri best. Stundum þarf samt að hjálpa mönnum af stað og það þarf að skapa reglur og umgjörð. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími fyrir okkur alþingismenn að snúa okkur að því að koma að eigin frumkvæði inn með mál sem hjálpa til í þessu erfiða ástandi sem hér er nú.

Þetta mál ásamt sóknaráætlun 20/20 er nú á leið inn í allsherjarnefnd þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar. Þar eru líka önnur mál sem ekki komast á dagskrá en varða mjög mikilvæga hagsmuni Íslendinga, t.d. hvað varðar gengistryggðu lánin, mál frá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem snýr að því að þeim málum verði flýtt sem þurfa að fara til Hæstaréttar út af gengistryggðu lánunum. Það verður að forgangsraða í þágu fjölskyldnanna í landinu, frú forseti, og þótt það sé prýðilegt að setja siðareglur um starfsmenn Stjórnarráðsins og það megi fara í það verkefni þarf fyrst og fremst að huga að heimilunum í landinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur fram að þessu haft — ég veit að hún ætti að bera hag þeirra fyrir brjósti, ég trúi ekki öðru en svo sé og veit það. Það verður að snúa sér að þessum verkefnum. Þetta er orðið mjög brýnt og það verður ekki beðið með þetta lengur.



[15:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum og það fjallar aðallega um siðareglur. Ég verð að taka fram strax að ég er mjög hlynntur því að menn hugleiði gott siðferði og hluti af því eru siðareglur þannig að ég er ekki á móti frumvarpinu sem slíku. Hins vegar vil ég benda á að sá sem segir oftast: Þetta er alveg satt. Það er yfirleitt lygarinn, frú forseti.

Þjóðfélagið byggir á trausti og öll samskipti fólks snúast um það að menn geti treyst hver öðrum. Öndvert við það sem margir halda, sérstaklega vinstri menn, er mjög mikið traust í atvinnulífinu, það byggir á trausti og heiðarleika því að heiðarleiki er grundvöllur trausts. Með einu óheiðarlegu bragði er hægt að eyðileggja traust á fimm mínútum sem tekur fimm ár að byggja upp aftur, því sá sem lendir í því man alla tíð hver það var sem sveik hann og það getur tekið viðkomandi mörg ár, eins og ég sagði, að byggja aftur upp það traust sem eyðilagt var. Þess vegna er heiðarleiki mjög mikilvægur eiginleiki í þjóðfélaginu, enda stendur í Hávamálum, þetta eru ekki ný sannindi en með leyfi frú forseta — ég les þetta reyndar ekki upp, ég bara kann þetta:

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Það þurfti engar siðareglur til. Menn vissu hvað orðstír var, það þurfti ekki skrifaðar reglur og það má jafnvel halda því fram að skrifaðar reglur geti verið skálkaskjól fyrir þá sem eru óheiðarlegir. Þeir geta haldið sig nákvæmlega að reglunum en farið svo í kringum þær þannig að þetta er dálítið vandmeðfarið allt saman.

Ég hef stundum velt fyrir mér verðmæti heiðarleikans fyrir einstaklinginn og verðmætið er raunverulegt. Venjulegur maður sem er almennt þekktur fyrir að vera heiðarlegur fær lán hvar sem er, honum er treyst, menn trúa honum o.s.frv. Sá sem er óheiðarlegur er sannanlega verr settur. Sá sem er heiðarlegur á ákveðna eign sem er akkúrat orðstírinn og fyrirtæki hafa líka orðstír, það er svo merkilegt. Fyrirtæki geta verið kraftmikil, ung, dugleg, sparsöm eða hvað sem er. Fyrirtæki hafa eins og einstaklingar persónulega eiginleika og þau geta líka verið óheiðarleg og fólk treystir ekki ákveðnum fyrirtækjum. Það er mjög einfalt. Ég er nærri sannfærður um það að allir hv. þingmenn vita um eitthvert fyrirtæki sem þeir treysta ekki og þeir vita líka um eitthvert annað fyrirtæki sem þeir treysta fullkomlega. Fyrirtæki er náttúrlega ekkert annað en starfsfólkið sem vinnur þar þannig að traustið er summa af viðhorfum til viðkomandi starfsmanna.

Þjóðfélög hafa líka heiðarleika. Við þekkjum þjóðfélög eins og Rússland fyrir og eftir fall. Fyrir fall var óheiðarleikinn opinber, þ.e. spilling og óheiðarleiki, og eiginlega voru vondir siðir innbyggðir í lögreglukerfið o.s.frv. og síðan voru glæpirnir, merkilegt nokk, einkavæddir. Í þessu mikla ríki sem er bæði með mikla og góða menntun, hún er virkilega góð í Rússlandi, og miklar auðlindir, var sárafátækt og er enn vegna þess að það vantar heiðarleika. Heiðarleiki er verðmæti fyrir þjóðfélag, verðmæti vegna þess að það er hægt að gera samninga fólks á milli og menn treysta þeim, þeir eru réttir. Þeir þurfa ekki að vera skriflegir, þeir geta verið munnlegir, sanngjarnir. Menn geta sagt: Ég skal kaupa af þér þennan bíl á þetta mikið. Og svo kemur í ljós viku seinna að bremsurnar voru bilaðar og hvorugur vissi það og þá segir vinurinn sem keypti: Heyrðu, ég var að kaupa bílinn, við gerðum reyndar engan samning en bremsurnar eru bilaðar. Þá segir hinn, af því að hann er sanngjarn: Ég skal slá af þessu 100 þúsund kall. Heiðarlegt og sanngjarnt þjóðfélag er verðmæti í sjálfu sér. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn standi vörð um heiðarleikann og það er ekkert undarlegt að á þjóðfundinum sem haldinn var fyrir skömmu hafi heiðarleikinn verið einmitt númer eitt. Heiðarleikinn er grundvöllur trausts og því miður, frú forseti, er það traustið sem fór í hruninu og traustið er mjög illa laskað í dag og þess vegna er mjög mikilvægt að við byggjum það upp aftur öllsömul, allir Íslendingar, ekki bara þingmenn.

Hluti af því gæti verið þessar reglur sem við erum að setja á blað, gæti verið segi ég því það er hvernig þessu er framfylgt sem skiptir öllu máli. Ef þeir sem framfylgja reglunum eru ekki heiðarlegir verður ekkert úr þessu, en ef þeir eru heiðarlegir í sjálfu sér munu þessar reglur verða góðar en þá þarf þær heldur ekki. Það er svo merkilegt. En þær geta hugsanlega veitt einhverjum sem eru svolítið tvístígandi ákveðinn stuðning.

Ég held að við höfum sjaldan verið í jafnmikilli þörf fyrir heiðarleika og einmitt núna. (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Við erum með fjöldann allan af fyrirtækjum, eiginlega lungann af íslenskum fyrirtækjum, sem eru komin í ákveðið uppnám. Þau eru orðin eins og frjáls veiði, sem Þjóðverjar kalla „Freiwild“, þ.e. það getur hver sem er skotið á þetta og gómað þetta og spurningin er, hverjum eru þau seld, á hvaða verði, hvernig ferillinn við að selja þau er og það er þetta sem menn hafa verið að gagnrýna hvað mest núna. Ég hygg að ef við ekki gætum sérstaklega vel að okkur og alveg sérstaklega ríkisstjórnin og þeir sem ráða og þeir sem hafa um þetta að segja, skilanefndirnar og aðrir slíkir, þá munu menn horfa til baka á þetta hrun og tvö, þrjú árin á eftir sem mesta sóðaskap í spillingu á Íslandi ef menn ekki gæta vel að sér. Það getur líka tekist vel til og það skiptir verulegu máli að allir sem um höndla horfi mjög vandlega á dæmið utan frá og spyrji sjálfa sig á hverjum degi: Er ég að gera rétt? Er þetta heiðarlegt sem ég er að gera? Þannig að það er mjög mikið atriði að menn komi með góðar og skilvirkar reglur.

Ég hef dálítið saknað þess, frú forseti, að ríkisstjórnin sem hefur nú starfað í rúmt ár — eitt ár og einn mánuð og eitthvað betur, (Gripið fram í.) nei, það er ekki kominn alveg einn mánuður — hefur ekki mótað góðar siðareglur fyrir sölu á fyrirtækjum sem taka mið af þeim hagsmunum að gæta t.d. stjórnunarverðmætis fyrirtækis, þekkingar starfsmanna og stjórnenda, tengsl stjórnenda bæði við birgja og viðskiptamenn, sem er geysilega mikilvægt og geysilega verðmætt. Um þetta þarf að búa til reglur og það þarf líka að búa til reglur um hvernig kröfuhafarnir lækka kröfur sínar og eigendurnir sömuleiðis á móti og jafnvel niður í núll en eigendur hafi þá hugsanlega möguleika á því að kaupa fyrirtækið til baka á löngum tíma ef þeir eru traustsins verðir, ef þeir hafa góðan orðstír, eins og segir í Hávamálum. Fyrirtæki getur hugsanlega orðið verðlaust ef þeir sem þar sitja hafa ekki góðan orðstír. Eins og ég sagði, traust er hægt að eyðileggja á fimm mínútum, jafnvel á skemmri tíma og það getur tekið langan tíma að byggja það upp aftur. Þetta vil ég að menn hafi í huga. Ég tel að þessar siðareglur séu ágætar. Ég býst ekki við því að þær snúi þjóðfélaginu allt í einu á haus og óheiðarlegt fólk verði allt í einu heiðarlegt. Ég á ekki von á því vegna þess að heiðarleiki er eitthvað sem kemur innan frá og er eitthvað sem menn þurfa að skynja sjálfir að er verðmæti. Ef einhver maður telur að það borgi sig að svindla og pretta á náunganum og telur sig græða á því og sér ekki hvað hann tapar miklu á því, heldur hann því áfram.

Ég mun styðja þetta frumvarp. Ég vil að hv. nefnd sem fær það til umfjöllunar fari vandlega í gegnum það hvort breyta megi einhverju, fari sérstaklega í gegnum þá þætti sem ég nefndi í andsvari mínu áðan við hæstv. forsætisráðherra, um vildarpunktana, dagpeningana og skattfrelsi utanríkisþjónustunnar, hvort ekki sé hægt að ná þessu niður einhvern veginn vegna þess að þessi þrjú atriði og hugsanlega miklu fleiri búa til siðspillingu, búa til siðrof, t.d. dagpeningar, sá sem hagnast á þeim veit að það er ósiðlegt. Eins er með vildarpunktana. Þeir sem fara í ferðalag í sumar og njóta vildarpunkta vita nákvæmlega að þetta er ekki rétt og það er slæmt því um leið og menn eru komnir út á þessa braut er svo auðvelt að halda áfram á henni. Það er mikilvægt að menn hafi góða siði og góðar reglur í heiðri.

Sérstaklega vil ég minna á það að þeir sem segja oftast: Þetta er alveg satt eða þetta er staðreynd. Það eru helst þeir sem eru lygarar.



[15:42]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem orðið hafa um frumvarpið þó að vissulega megi segja að þær hafi, eins og stundum gerist, farið nokkuð út fyrir frumvarpið og nokkuð út um víðan völl, um það sem mönnum liggur á hjarta og er alveg skiljanlegt. Ég geri engar athugasemdir við það að fjallað hafi verið um áætlanir í atvinnuuppbyggingu og stöðu heimila o.s.frv. Ég vil þakka síðasta þingmanni fyrir ræðu hans. Það er ekki oft sem ég er sammála málflutningi Péturs H. Blöndals en ræðan sem hann flutti var mjög góð og ég get fyllilega tekið undir margt af því sem þar kom fram. Það er alveg satt og rétt, sem var kjarninn í ræðu hans, að það sem við þurfum mest á að halda er að byggja upp það laskaða traust sem er alltumlykjandi í samfélaginu gagnvart stjórnmálamönnum, stjórnmálalífinu mjög mikið, fjármálalífinu o.s.frv. Það er mikilvæg dyggð, ekki síst hjá stjórnmálamönnum, að byggja á heiðarleika og hafa siðferðiskenndina og siðferðisvitundina á vakt í störfum sínum. Mér fannst þetta vera boðskapur þingmannsins sem ég tek mjög undir og hef talað í samræmi við það í gegnum árin.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá einum hv. þingmanni að ekki á að gera meira úr siðareglum en efni standa til. Siðareglur geta verið dauður bókstafur á blaði ef þeim er ekki framfylgt og náið og gott eftirlit haft með því að það sé gert. Ég tel að sett sé fyrir það í frumvarpinu, að það sé hugmyndin að gera það með þessari samhæfingarnefnd og með þeim ákvæðum sem eru í frumvarpinu um umboðsmann Alþingis. Ég vil taka fram að frumvarpið var unnið í mjög nánu og góðu samráði við umboðsmann Alþingis, um þann kafla sem að honum snýr, og samráð og samstarf sem þarf að vera milli samhæfingarnefndarinnar og samráð við eftirlitsembætti Alþingis, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis. Það kemur beinlínis fram, en það hefur kannski ekki verið lesið ítarlega af þeim sem um þetta spurði, hvernig hafa ætti þetta eftirlit. Það kemur fram á bls. 13, um 2. og 3. gr. Þar stendur:

„Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis nr. 85/1997. Þar er tekið af skarið um að umboðsmaður Alþingis hafi það hlutverk að hafa eftirlit með siðareglum sem settar hafa verið í stjórnsýslu ríkisins …“

Af því að meira var spurt um það við hvern hefði verið haft samráð er heill kafli um það í frumvarpinu. Haft var samráð við mjög marga aðila um þetta, á bls. 18 er heill kafli um samráð. Haft var samráð við Félag starfsmanna Stjórnarráðsins, skrifstofustjóra lagaskrifstofu ráðuneytanna, fundað með umboðsmanni Alþingis og Vilhjálmi Árnasyni prófessor, sem á sæti í vinnuhóp um siðferði, en hann starfar með rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Drögin voru kynnt almenningi á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Almenningi var gefið færi á að gera athugasemdir við frumvarpið — það er kannski ekki oft sem það er gert og mætti taka það til fyrirmyndar — um það sem fram kemur í þessu frumvarpi. Ég tel því að haft hafi verið ítarlegt og gott samráð við þá aðila sem rétt og skylt var að hafa samráð við. Það er hugmyndin að þessar reglur sem á að fara að vinna, verði frumvarp þetta að lögum, verði unnar í nánu samráði við þá sem við þetta eiga að búa eins og starfsmannafélögin hjá hinu opinbera.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson setti t.d. fram ýmsar spurningar um drögin sem hér eru sett fram, að því er varðar þær siðareglur sem yrðu þá settar í framhaldi af því að frumvarpið yrði að lögum. Þetta eru bara drög, eins og hér er nefnt, og þingið getur haft öll þau áhrif sem það vill á þetta í nefndaráliti sínu og í umfjöllun um þetta mál á þinginu.

Ég vil líka nefna það, af því að verið er að tala um að siðareglur séu ekki allt — og ég tek undir það — og víða hafi verið settar siðareglur sem ekki hafa komið að gagni, að fyrir nokkrum árum voru settar siðareglur um viðskiptalífið, sem viðskiptalífið setti sér sjálft, og ég held að við getum öll verið sammála um það að þær voru ekki mikils virði og þess vegna er eftirfylgnin mjög mikilvæg. Ég vil líka tala um það að Alþingi hefur áður fjallað um þetta mál. Við fjölluðum t.d. um tillögur sem ég flutti árið 1998, um bætt siðferði í stjórnsýslunni, og Alþingi samþykkti þá tillögu. Það var rituð heil bók, heil skýrsla, sem fékk mikla útbreiðslu sem Páll Hreinsson stýrði. Það eru 11–12 ár síðan. Það hefur ekkert verið gert með þær tillögur sem liggja fyrir í þeirri skýrslu. Ég held að það sé góð og gild spurning að spyrja hvort þetta hrun hefði orðið með þeim hætti sem það varð ef unnið hefði verið í samræmi við þá skýrslu, um bætt starfsskilyrði í stjórnsýslunni, ef fyrir 11–12 árum hefði verið unnið við ýmsar úrbætur sem þar voru settar fram.

Eins og ég nefndi í framsögu minni er ég að láta vinna tillögur og hugmyndir um það að bæta ýmsa starfshætti innan Stjórnarráðsins og þeirri skýrslu verður væntanlega skilað 1. apríl. Þar verður tekið á ýmsu af þeim ábendingum sem koma fram í umræddri skýrslu Páls Hreinssonar og m.a. um það sem hv. þingmaður spurði um, um ráðningar í stjórnkerfinu. Það er full ástæða til að taka á þeim málum. Ekki er alltaf auglýst í samræmi við það sem væri skylt og rétt að gera og ég geri ráð fyrir að þær tillögur og hugmyndir sem þarna verða settar fram, og verður framfylgt, muni skapa miklu meiri formfestu að því er varðar ráðningar og auglýsingar í stöður hjá stjórnsýslunni.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega 40 ráðningar í störf sem ekki hefðu verið auglýst — ég man ekki yfir hvaða tímabil það var — þá var eðlileg skýring á ýmsu af þessu, fæðingarorlof, veikindi, tímabundnar ráðningar o.s.frv., sumarafleysingar, sem er kannski ekki rétt að tíunda vegna þess að umboðsmaður hefur nýlega verið að setja fram að einnig beri að auglýsa sumarafleysingastörf. Ég er því að vona að meiri formfesta komist á þetta þegar hugmyndir þessarar nefndar koma fram og það verði margt annað sem þessi nefnd mun setja fram til þess að bæta starfsumhverfi í stjórnsýslunni. Það er því verið að vinna að ýmsu að því er þetta varðar.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á ýmislegt annað í þessum drögum að siðareglum sem ég tel ekki ástæðu til að fara náið ofan í. En ég vil þó segja það að siðareglur eru þess eðlis að stundum eru þær matskenndar. Það er ekki hægt að setja nákvæmlega á blað allt sem heitið getur og upp getur komið að því er varðar ýmislegt sem maður gæti frekar látið falla undir siðferðiskennd viðkomandi sem ber ábyrgð innan stjórnsýslunnar og hvar sem er. Það er stundum það sem gildir, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, heiðarleiki og annað. Það er ekki hægt að setja nákvæmlega á blað í siðareglum allt sem getur komið upp en þær eiga að vera ákveðinn rammi til þess að fylgja eftir.

Hv. þingmaður spurði hér, ég skrifaði það hjá mér: Hvernig á að fylgjast með útgjöldum vegna ferðalaga, veisluhalda og gestamóttöku sem ber að takmarka, eins og hér er verið að tala um, við það sem nauðsynlegt er vegna skyldna embættisins? Við höfum náttúrlega eftirlitsstofnun eins og Ríkisendurskoðun sem á að fylgjast með þessu og síðan finnst mér að ráðherrar sjálfir og forstöðumenn stofnana eigi að hafa þessar skyldur og þess vegna er ágætt að setja þetta inn í siðareglurnar og takmarka þetta eins og kostur er. Ég get nefnt það við hv. þingmann að það er vel hægt að spara þar og takmarka miklu meira en gert hefur verið. Ég vil nefna það að á þessu rúma ári sem ég hef verið í forsætisráðuneytinu hefur sparnaður á milli ára í ráðuneytinu, að því er varðar risnukostnað og ferðakostnað, verið 70%. Ég nefni það sem dæmi um að vel er hægt að takmarka þetta og spara þarna og byggja miklu meira á því sem er nauðsynlegt og takmarka þennan útgjaldalið.

Hv. þingmaður nefndi einnig hvernig ráðherrabílstjórar eru notaðir. Ég held að það sama eigi við um það og svo margt annað í siðareglum að það byggist á heiðarleika og siðferðiskennd þess sem er í ábyrgðarstarfi. Nú eru engin takmörk á því hvernig nota megi ráðherrabílstjóra en það er verið að skoða sérstaklega starfsumhverfi bílstjóranna og ég geri ráð fyrir að þessir hlutir muni koma þar upp. Það eru þó takmörk og reglur um það hvað ráðherrarnir geta sjálfir, í erindum sem heyra ekki beinlínis undir þeirra starf, notað ráðherrabílana og þar er borgaður af skattur o.s.frv. og ákveðinn kílómetranotkun þar inni. En það má sjálfsagt skoða þetta eins og margt annað.

Ég held að ég hafi svarað flestu því sem beinlínis tengist frumvarpinu en síðan var farið, eins og ég sagði, aðeins út fyrir frumvarpið og það er sjálfsagt að svara því á þessum þremur mínútum sem ég hef hér til umráða. Verkaskipting ráðuneytanna, hvernig líður því, er verið að vinna að því? Já, bara síðast þegar ég var uppi í ráðuneyti nú áðan var verið að vinna í því máli, það er á fullri ferð, þ.e. sameining ráðuneytanna. Það er rétt að ríkisstjórnin hefur sett sér það að fækka ráðuneytunum úr tólf í níu og næst á dagskrá er að sameina atvinnuvegaráðuneytin. Ég hef látið í ljós í þessum ræðustól þá von mína að samstaða geti náðst um það að flytja frumvarp um það á þessu þingi, sameiningu á atvinnuvegaráðuneytunum. Einnig er um það að ræða að styrkja umhverfisráðuneytið þannig að auðlindirnar verið þar undir, það verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Sameining á félags- og tryggingamálaráðuneytinu er líka á borðinu en það tengist nokkuð verkefnatilflutningi frá ríki til sveitarfélaga, þ.e. málefnum aldraðra og málefnum fatlaðra. Ég held að sameining á félags- og heilbrigðisráðuneytinu, eins og það er núna, án þess að flytja þessa stóru málaflokka yfir til sveitarfélaganna — það yrði allt of stórt ef þetta ætti að verða eitt ráðuneyti þannig að mér finnst það hanga nokkuð saman og við höfum verið að skoða hvenær hægt væri að tímasetja það. Síðan er þetta einnig spurning um stofnun á innanríkisráðuneyti en það var á dagskrá að lögfesta það á þessu kjörtímabili þó að það tæki ekki gildi fyrr en á næsta kjörtímabili. Allt þetta er í skoðun að því er varðar þessa þætti og ég vona að það muni skýrast á næstu vikum hver næstu skrefin verða í þessu og hvenær þau verða tekin. Ég vona að það verði sem allra fyrst.

Ekki er eingöngu verið að taka á sameiningu ráðuneytanna heldur líka sameiningu ýmissa stofnana í stjórnsýslunni. Það er langur listi yfir það sem menn eru að reyna að vinna með og komast áfram með. Þetta er ekki eitthvað sem maður bara dregur upp úr vasa, það tekur tíma að vinna þetta og það tekur líka tíma, eins og hv. þingmaður veit, að ná hagræðingu, að þetta skili sér í hagræðingu í ríkisrekstrinum. Sumir segja að á meðan verið er að koma slíkri sameiningu af stað sé það oft dýrara þegar þetta er að byrja þó að hagræðingin skili sér síðar. En mjög umfangsmikill listi liggur fyrir um ýmsar sameiningar sem eru misjafnlega langt á veg komnar en er verið að vinna í. Okkur er mjög í mun að sleppa sem best við það að láta þennan sparnað bitna á velferðarkerfinu þó að óhjákvæmilega komi svona mikill niðurskurður niður alls staðar í kerfinu. Við erum að tala um það að á tveimur árum sé niðurskurðurinn um 100 milljarðar og þarf kannski að fara í 50–60 milljarða fyrir næsta ár og einhvers staðar tekur það í. Þess vegna er okkur í mun að ná þessu fram og ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta.

Hv. þingmaður nefndi áætlanir sem legið hafa fyrir og sérstaklega áætlun frá því í vor, ég geri ráð fyrir að hann sé að nefna hana, um 4.000 störf. Það liggur fyrir að af þeirri áætlun hafa þegar komist til framkvæmda 2.500 störf. Það liggur fyrir og það hefur verið farið yfir það og kynnt í ríkisstjórn og kynnt opinberlega. Ýmislegt er í undirbúningi á næstu dögum eins og hv. þingmaður veit, sem við höfum verið að fara yfir hér í þingsal og í ríkisstjórn, bæði að því er varðar ýmis verkefni í fjárfestingum, í stóriðjunni, í orkumannvirkjum. Mjög mikið er fram undan að því er þau verkefni varðar og ekki síst (Forseti hringir.) ýmis verkefni sem snerta ferðamannaþjónustu o.s.frv. En nú er tími minn búinn en ég er líka komin út fyrir það frumvarp sem hér er til umræðu þó að mér hafi fundist rétt og skylt að svara eins og tíminn leyfir þeim fyrirspurnum sem þingmaðurinn var með sem ekki koma frumvarpinu beinlínis við.



[15:58]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleg svör við mörgum spurningum sem ég bar fram, spurningum sem mér finnst vera mikilvægar þegar við erum að tala um trúverðugleika þessarar áætlunar um að setja á fót siðareglur. Eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega er eftirfylgnin mikilvæg en þegar maður nefnir eftirfylgni við aðrar áætlanir sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er árangurinn ekki glæsilegur.

Hæstv. ráðherra nefndi að 2.500 störf hefðu skapast vegna þessarar áætlunar ríkisstjórnarinnar en ég vil geta þess að gert var ráð fyrir að virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður mundi skapa 2.000 af þessum 4.000 störfum. Á síðasta blaðamannafundi hjá iðnaðarráðherra kom í ljós að einungis verða 30–40 störf að veruleika af þeim 2.000 sem áttu að vera. Þá eru einungis 2.000 ársverk eftir af þessari glæsilegu áætlun sem ríkisstjórnin kynnti fyrir ári.

Gert var ráð fyrri 110 ársverkum í snjóflóðavarnir og helmingurinn af þeim, hálfur milljarður, átti að fara í snjóflóðavarnargarð í Neskaupstað. Það var slegið af, það eru væntanlega 55 störf. Það átti að fjölga störfum um 300 vegna minni útflutnings á óunnum fiski. Ég veit ekki til þess að mörg störf hafi skapast í framhaldi af því. Síðan var það hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar. Við þekkjum það við fjárlagagerðina síðustu að það var heilmikið skorið niður, en það átti að fjölga um 120 ársverk. Það er því alveg ljóst að við þurfum að fara eitthvað betur ofan í þessa áætlunargerð ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst að við þurfum að gera miklu betur í gerð áætlana og eftirfylgni með þeim. Það var kannski þess vegna sem ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það hvernig hún ætlaði að (Forseti hringir.) innleiða þessa siðareglur og láta þær virka sem skyldi.



[16:00]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki alveg á takteinum þær tölur sem hv. þingmaður talaði hér um en ég vil þó ítreka að þessar aðgerðir í atvinnumálum — það voru tæplega 2.400 störf frá þeim markmiðum sem við settum okkur í mars 2009. Það voru verkefni í byggingariðnaði, nýsköpun og sjávarútvegi ásamt öðrum sem eru enn í framkvæmd, þetta voru 4.000 störf. Við erum að tala um fjárfestingu í orkumannvirkjum sem verið er að vinna með á ýmsum stigum og í iðjuverum, þær tölur nema um 400 milljörðum fram til ársins 2017. Þar erum við náttúrlega að tala um gífurlega mörg störf og ársverk.

Það er líka verið að ræða um og var rætt í ríkisstjórninni fyrir skömmu og kynnt opinberlega, sem ég bið hv. þingmann að kynna sér, þ.e. næstu skref sem verða tekin. Þar er um að ræða uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum fyrir 500–700 milljónir, undirbúningsframkvæmd við Búðarhálsvirkjun — af því að hv. þingmaður nefndi hana — stofnun fjárfestingarsjóðs til að auðvelda fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á einkamarkaði, 500 verkefni um allt land í tengslum við viðhald og verðmæti, 3,6 milljarða eiginfjáraukning Byggðastofnunar — ég held að hv. þingmaður hljóti að fagna því — og skattafslátt vegna fjárfestinga í nýsköpunarverkefnum sem getur skapað um 1.000 störf og fjölmargt annað.

Síðan verður hv. þingmaður líka að athuga að það sem tafið hefur framkvæmdir er að við eigum í erfiðleikum með að fá erlent fjármagn inn í landið í ýmsar fjárfestingar sem eru í undirbúningi, það hefur tafið framkvæmdir og líka hjá sveitarfélögunum. Við vitum hver ástæðan er fyrir því og það er mál sem við vonandi leysum saman, ég og hv. þingmaður, ásamt fleirum á næstu dögum.



[16:02]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ágætt sé að við ræðum þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar undir réttum lið þegar að því kemur.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar fyrir ári síðan sagði hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, með leyfi forseta, „að þessu til viðbótar gæti virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður skapað 2000 störf til viðbótar. Ekki er gert ráð fyrir Helguvíkurálveri í þeim tölum.“

Það er því margt sem hefur farið á skjön og mér þykir náttúrlega miður ef allur tími ríkisstjórnarinnar hefur virkilega farið í það að leysa eitt mál, sem er Icesave-málið. Ef það er það eina sem ríkisstjórnin hafði ætlað sér að gera á síðasta ári og sé enn í, þá er það nú ekki glæsilegur árangur í þeim efnum.

Mér finnst, svo ég ljúki tilsvari mínu á uppbyggilegum nótum, hæstv. ráðherra að mörgu leyti mun opnari gagnvart samvinnu og samstarfi í þinginu í tilsvörum sínum hér en á því herrans ári 2009. Ég vona að það sé það sem koma skal vegna þess að fram undan eru mjög erfið verkefni á því sviði að koma til móts við skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna. Það hefur allt of lítið gerst til að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Og ég ætla að segja það nú að ég ætla ekki að halda því fram að ekkert hafi verið gert, eins og hæstv. ráðherra ræddi við mig á dögunum um að ég hefði sagt. En það hefur komið í ljós í könnunum ASÍ að 80–90% af þeim sem hafa verið að þiggja skjaldborgina sem ríkisstjórnin bauð, telja að sú skjaldborg dugi ekki til.

Ef við getum verið sammála, ég og hæstv. forsætisráðherra, um að þetta vandamál sé til staðar, það verði að koma til móts við skuldug heimili og skuldug fyrirtæki, getum við verið sammála um það? Ég held það, já. En þá skulum við setjast yfir það mál, eins og Icesave-málið, eins og við áttum að gera í upphafi og ræða þvert á flokka um sameiginlegar lausnir á þessum erfiðu viðfangsefnum. (Forseti hringir.) Við verðum að hætta að vera í þessum skotgröfum sem hefur einkennt störf þingsins allt síðasta árið.



[16:04]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að hv. þm. Birkir Jón Jónsson dregur aðeins í land frá því sem (Gripið fram í.) við ræddum um daginn þegar hann sagði að ríkisstjórnin hefði ekkert gert að því er varðar skuldastöðu heimilanna. Mér finnst það ánægjulegt að hv. þingmaður haldi hér uppi heiðri sannleikans og heiðarleika og fari rétt með vegna þess að það er allt of mikið um það að farið sé rangt með hér í þessum ræðustól, af því að við erum nú að ræða siðareglur og heiðarleika, þannig að ég vil koma því að.

Ég vil líka nefna að hv. þingmaður verður að skoða það og viðurkenna að ríkisstjórnin hefur farið í 20–30 aðgerðir fyrir heimilin í landinu (Gripið fram í.) og 50–70% af þeim sem eru í miklum vanda hafa getað nýtt sér þessi úrræði. Hv. þingmaður, af því að hann talar oft um vaxtabætur, verður að viðurkenna að ríkisstjórnin hefur á þessu eina ári í kreppunni tvöfaldað vaxtabæturnar úr 4–5 milljörðum í 10 milljarða og hún hefur farið í útgreiðslu á séreignarsparnaðinum upp á 15 milljarða kr. Þetta hefur nú aukið veltuna í samfélaginu og hjálpað mörgum þegar við erum að tala þarna um 20–25 milljarða.

Ég skal fyrst manneskna viðurkenna að það þarf að gera betur og sérstaklega fyrir fólk með litlar tekjur og er í miklum erfiðleikum. Ég býst við að þær tölur sem hafa verið nefndar hjá Neytendasamtökunum, og við erum að skoða þær, þar sem talað er um að 20–30% séu í miklum erfiðleikum, að þær tölur séu of háar. Engu að síður þarf að taka á þessum málum og að því er verið að vinna af fullum krafti. Við höfum sett í þetta eins mikinn kraft og hægt er. Við viðurkennum alveg að það þarf að gera enn betur í þessum málum enda er stöðugt verið að vinna að því. Þetta er í stöðugri endurskoðun og við erum að vinna með aðgerðir til þess að hjálpa þeim sem verst standa. Ég viðurkenni fúslega að það þarf að gera enn betur í þessum málum og við erum að vinna að því.



[16:06]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér drög að siðareglum fyrir Stjórnarráð Íslands sem er vel. Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra, fyrst við ræðum um reglur er tengjast starfsmönnum framkvæmdarvaldsins, hvort hún telji ekki rétt að ræða um aðstoðarmenn ráðherra sem falla á milli skips og bryggju hvað ábyrgð varðar, en um þá gilda hvorki lög um opinbera starfsmenn né bera þeir pólitíska ábyrgð.

Telur hæstv. forsætisráðherra að til álita kæmi að setja reglur um svokallaða hagsmunaárekstra? Ljóst er að þessir einstaklingar hafa oft á tíðum aðgengi að mjög mikilvægum upplýsingum sem eru umfram markaðinn, svo ekki sé nú minnst á að margir af þessum aðstoðarmönnum hafa farið mjög mikinn í umræðunni undanfarið en eins og við vitum öll hér bera þeir enga pólitíska ábyrgð. Því væri gaman að heyra svar hæstv. forsætisráðherra og skoðun hennar á þessu máli.



[16:07]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt farið inn á það í frumvarpinu, að líka á að skoða að setja sérstakar siðareglur að því er varðar aðstoðarmenn ráðherra og ég á ekki von á öðru en á því verði tekið. Þeir gegna sérstöku starfi í stjórnsýslunni sem aðstoðarmenn ráðherra og ég tel að það eigi að skoða þá ekki síður en aðra þegar við ræðum siðareglur í stjórnsýslunni. Í frumvarpinu er á því tekið að setja þurfi siðareglur að því er þá varðar einnig, alveg eins og um ráðherrana og aðra í stjórnsýslunni. Það verður líka tekið almennt á störfum þeirra að því er varðar bætt umhverfi í stjórnarháttum Stjórnarráðsins, en eins og ég nefndi áðan er nefnd að vinna í því máli sem væntanlega mun skila 1. apríl.



[16:09]
Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og ég vona svo sannarlega að það verði þá tekið sérstaklega fyrir af því að siðareglur eru eitt en reglur um hagsmunaárekstra eru annað og það er mjög mikilvægt og brýnt fyrir aðstoðarmenn ráðherra að vita hvar mörkin liggja í þessum efnum eins og er fyrir stjórnmálamenn almennt og getið er um í lögum um opinbera starfsmenn.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allshn.